Hæstiréttur íslands

Mál nr. 131/2000


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Aðild
  • Málskostnaður


                                                   

 

Föstudaginn 7. apríl 2000.

Nr. 131/2000.

Olíuverzlun Íslands hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Maríu Óskarsdóttur

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Kærumál. Fjárnám. Aðild. Málskostnaður.

 

Með dómi Hæstaréttar var O dæmt til að greiða E, M og Ó sameiginlega 1.100.000 krónur í málskostnað, eins og um hefði verið að ræða samaðild þeirra að málinu. Á grundvelli dómsins krafðist M fjárnáms hjá O fyrir 366.667 krónum að viðbættum vöxtum og kostnaði. Talið var að vegna ákvæða 2. gr. laga nr. 90/1989 um aðför hefði að öðru óbreyttu ekki verið unnt að fullnægja þessum réttindum E, M og Ó nema þau ættu þar öll í sameiningu hlut að máli, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ekki þótti unnt að leggja til grundvallar að kröfunni hefði verið skipt í jöfnun hlutföllum milli E, M og Ó, enda lá ekkert fyrir um afstöðu E til þeirrar skiptingar. Þar sem M var ekki heimilt að krefjast fjárnáms upp á eindæmi sitt var ákvörðun sýslumanns um að gera fjárnám fyrir kröfu M felld úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. mars 2000, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2000, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. október 1999 um að hafna mótmælum sóknaraðila gegn því að fram nái að ganga fjárnám hjá honum samkvæmt kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða sér kærumálskostnað.

I.

Mál þetta á rætur að rekja til máls, sem sóknaraðili höfðaði 21. október 1989 á hendur varnaraðila, svo og Einari Þór Kolbeinssyni og Óskari B. Guðmundssyni. Í því máli krafðist sóknaraðili þess að Einar yrði dæmdur til að greiða sér skuld að höfuðstól 6.053.116,80 krónur ásamt nánar tilteknum vöxtum og málskostnaði, en að frádreginni innborgun að fjárhæð 600.000 krónur. Þá krafðist sóknaraðili þess að staðfestur yrði veðréttur fyrir þeirri skuld í fasteignunum að Garðarsbraut 25 og Höfðavegi 8 á Húsavík. Þeirri kröfu var beint að því er varðar fyrrnefndu fasteignina að varnaraðila og Einari, en þá síðarnefndu að Óskari. Mun sú málsaðild hafa verið í samræmi við þinglýstar eignarheimildir. Því máli lauk með dómi Hæstaréttar 21. janúar 1999, sem er birtur í dómasafni þess árs á bls. 173. Var Einar dæmdur til að greiða sóknaraðila 1.800.000 krónur með nánar tilteknum vöxtum, en sýknað var af öllum kröfum þess síðastnefnda um staðfestingu veðréttar. Þá var sóknaraðili dæmdur til að greiða öllum gagnaðilum sínum sameiginlega 1.100.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Með beiðni, sem barst sýslumanninum í Reykjavík 3. september 1999, krafðist varnaraðili fjárnáms hjá sóknaraðila fyrir skuld að fjárhæð 366.667 krónur að viðbættum nánar tilteknum vöxtum og kostnaði, sem námu alls 44.705 krónum. Um heimild til aðfarar var í beiðninni vísað til fyrrnefnds dóms Hæstaréttar, svo og 1. gr. laga nr. 90/1989. Þegar sýslumaður tók beiðnina fyrir 1. október 1999 mótmælti sóknaraðili því að fjárnám næði fram að ganga. Til þeirra mótmæla tók sýslumaður afstöðu 13. sama mánaðar með þeirri ákvörðun, sem sóknaraðili leitast nú við að fá hnekkt í málinu. Féllst varnaraðili á að sóknaraðili bæri ágreining þeirra þegar undir dóm eftir ákvæðum 14. kafla laga nr. 90/1989, en framkvæmd fjárnáms var frestað um ótiltekinn tíma af þeim sökum.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var sóknaraðila heimilt að beina kröfunum, sem leyst var úr með áðurnefndum dómi 21. janúar 1999, í einu máli að varnaraðila, Einari Þór Kolbeinssyni og Óskari B. Guðmundssyni. Af dómsorði orkar á hinn bóginn ekki tvímælis að þeim var dæmdur málskostnaður í einu lagi úr hendi sóknaraðila, eins og um hefði verið að ræða samaðild þeirra að málinu, sbr. 1. mgr. 132. gr. sömu laga. Vegna ákvæða 2. gr. laga nr. 90/1989 var því að öðru óbreyttu ekki unnt að fullnægja þessum réttindum varnaraðila, Einars og Óskars á hendur sóknaraðila með fjárnámi nema þau ættu þar öll í sameiningu hlut að máli, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991.

Með áðurnefndri beiðni til sýslumanns leitaði varnaraðili ein síns liðs fjárnáms á grundvelli umrædds dómsorðs, en þó aðeins fyrir réttum þriðjungi þeirrar fjárhæðar, sem dæmd var henni, Einari og Óskari. Hvorki verður fundin stoð fyrir slíkri skiptingu fjárhæðarinnar á milli þeirra í dóminum, sem vísað var til sem heimild fyrir beiðni varnaraðila um aðför, né verður hún reist á lögum. Í málatilbúnaði varnaraðila er staðhæft að hún, Einar og Óskar hafi skipt á milli sín í jöfnum hlutföllum þeirri sameign, sem var um kröfuna um málskostnað á hendur sóknaraðila. Sú staðhæfing er í samræmi við málatilbúnað Óskars í máli, sem er rekið samhliða þessu máli á milli hans og sóknaraðila. Um afstöðu Einars til þessa liggur hins vegar ekkert fyrir í málinu. Að því gættu er ekki unnt að leggja til grundvallar að kröfunni hafi verið skipt á þann hátt, sem varnaraðili heldur fram.

Af þeim ástæðum, sem að framan greinir, var varnaraðila ekki fært að krefjast fjárnáms upp á eindæmi sitt fyrir kröfu um málskostnað samkvæmt áðurnefndum dómi Hæstaréttar, hvorki fyrir kröfunni í heild né að hluta. Verður ákvörðun sýslumanns, sem deilt er um í málinu, því felld úr gildi.

Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. október 1999 um að hafna mótmælum sóknaraðila, Olíuverzlunar Íslands hf., gegn því að fram nái að ganga fjárnám hjá honum samkvæmt kröfu varnaraðila, Maríu Óskarsdóttur.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Héraðsdómur hefur ekki borist