Hæstiréttur íslands
Mál nr. 13/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
- Aðfinnslur
|
|
Föstudaginn 14. janúar 2005. |
|
Nr. 13/2005. |
Þrotabú Móa hf. (Bergþóra Ingólfsdóttir hdl.) gegn Bergrúnu Ósk Ólafsdóttur (Bjarni Eiríksson hdl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi. Aðfinnslur.
Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdómara um að vísa máli, sem þrotabú M hf. höfðaði á hendur B, frá dómi án kröfu. Var ekki talið að kröfur búsins væru vanreifaðar með þeim hætti að varðaði frávísun.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 10. desember 2004. Hæstarétti barst kæran ásamt kærumálsgögnum 10. janúar 2005. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2004, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða kærumálskostnað.
Mál sóknaraðila var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 7. september 2004. Dómkröfum og málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Af hálfu varnaraðila var lögð fram greinargerð 2. nóvember 2004. Krafðist hún sýknu af dómkröfum sóknaraðila.
Héraðsdómari tók til athugunar á grundvelli 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, hvort gallar væru á málinu sem varðað gætu frávísun án kröfu. Tjáðu málsaðilar sig um þetta á dómþingi 23. nóvember 2004. Að því búnu tók héraðsdómari málið til úrskurðar.
Sóknaraðili reisir kröfur sínar á því, að varnaraðili hafi, meðan hún var starfsmaður Móa hf. á árunum 2001 til 2003, tekið út vörur hjá fyrirtækinu auk þess sem hún hafi haft heimild til að kaupa vörur frá öðrum út í reikning hjá því. Lagði sóknaraðili fram við þingfestingu málsins útskrift af viðskiptareikningi varnaraðila hjá Móum hf. fyrrgreint tímabil, þar sem fram koma ætlaðar úttektir hennar og færslur til lækkunar á skuldinni. Nemur stefnufjárhæðin niðurstöðutölu viðskiptareikningsins.
Varnaraðili krefst sýknu af dómkröfum sóknaraðila. Byggist sýknukrafan meðal annars á því, að kröfuliður að fjárhæð 242.228 krónur á viðskiptareikningnum sé sér óviðkomandi, þar sem hann sé vegna kaupa á tölvu, sem hafi verið í notkun á skrifstofu Móa hf. og sé nú í vörslum sóknaraðila. Þá telur varnaraðili sig hafa að mestu endurgreitt aðra hluta hinnar meintu skuldar við sóknaraðila með þeim hætti að dregið hafi verið af launum hennar á útborgunardögum og látið ganga inn á skuldina. Kveðst varnaraðili hafa afhent fjármálastjóra Móa hf. gögn sín um þetta og láðst að taka ljósrit þeirra. Í greinargerð sinni skoraði varnaraðili á sóknaraðila að leggja fram launaseðla, afrit úttektarseðla og önnur gögn sem málið varða og hann hefði í vörslum sínum.
Ekki verður fallist á það með héraðsdómara, að kröfur sóknaraðila séu vanreifaðar með þeim hætti að frávísun varði. Forsendur kröfugerðar og fjárhæðir liggja skýrt fyrir í málinu sem og málsástæður sóknaraðila. Varnaraðili hefur teflt fram vörnum sínum og verður ekki séð að nein vandkvæði hafi verið á því af hennar hálfu. Ágreiningur málsaðilanna lýtur aðallega að því, hvort sóknaraðili hafi eða muni geta við rekstur málsins fært fram sönnunargögn um kröfu sína, og koma í því efni til athugunar ákvæði í X. kafla laga nr. 91/1991.
Samkvæmt framansögðu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.
Það athugast að óþarflega langur tími leið frá því Héraðsdómur Reykjavíkur fékk kæru sóknaraðila í hendur þar til málið var sent Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 2004.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 23. nóvember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Þrotabúi Móum hf., Hafnarstræti 20, Reykjavík gegn Bergrúnu Ósk Ólafsdóttur, Jörfagrund 48, Reykjavík. Ekki verður séð að stefnan hafi verið birt stefndu, en tekið hefur verið til varnar af hennar hálfu.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði dæmd til greiðslu skuldar að fjárhæð 482.657 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, frá 15. október 2003 til greiðsludags. Þá er krafist vaxtavaxta skv. 12. gr. s.l. er leggist við höfuðstól á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 15. október 2004. Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu að mati réttarins, auk álags er nemi virðisaukaskatti.
Stefnda krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda og sýknu af dráttarvaxtakröfu stefnanda. Til þrautavara er krafist lækkunar dómkröfum og að upphafstími dráttarvaxta verði miðaður við málshöfðunina. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu, þar með talið 24.5% virðisaukaskatt samkvæmt málskostnaðarreikningi.
I.
Málavextir.
Stefnda vann hjá Móum hf. um nokkurra ára skeið eða allt fram til þess tíma að rekstur félagsins fór í þrot. Venja mun hafa verið fyrir því, að starfsmenn fyrirtækisins gætu tekið út vörur til eigin nota, en þess hafi ávallt verið gætt að starfsmenn greiddu fyrir þær úttektir og hafi svo einnig verið með stefndu. Málið varðar slíkt uppgjör milli aðila.
Bú Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Í kjölfarið var hafist handa við að yfirfara bókhald þrotabúsins og telur stefnandi að þá hafi komið í ljós að stefnda hafi skuldað stefnanda fjárhæð er nemi dómkröfu málsins.
Stefndu var sent innheimtubréf 9. janúar 2004 og ítrekunarbréf 2. apríl 2004. Í kjölfar þess hafi stefnda hringt og mótmælt upphæð kröfunnar og sagt að hún ætti að vera lægri. Þar sem innheimtutilraunir hafi ekki borið árangur er málið höfðað.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveður kröfuna tilkomna vegna ógreiddra reikninga stefndu sem séu vegna kaupa á framleiðsluvörum af Móum hf., auk þess sem stefnda hafi keypt vörur og þjónustu hjá öðrum aðilum á kostnað hins gjaldþrota félags, án þess að endurgreiða kostnaðinn. Kröfuna byggir stefnandi á tveimur reikningsyfirlitum úr bókhaldi hins gjaldþrota félags, sem merkt er stefndu.
Varðandi lagarök er vísað til meginreglu kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga og lög nr. 50/2000, einkum VI. kafla laganna um skyldur kaupanda, og sérstaklega er vísað til 47. gr. Kröfur um vexti og vaxtavexti styðjast við reglur III. kafla laga nr. 38/2001 og málskostnaðarkrafan við 130. gr. laga um meðferð einkamála.
Við málflutning málsins um frávísun þess bendir stefnandi á, að enn hafi ekki verið lýst yfir því að gagnaöflun væri lokið í málinu sbr. 5. mgr. 102. gr. laga um meðferð einkamála og því eigi stefnandi kost á að koma að frekari gögnum varðandi kröfuna, en það hyggist stefnandi gera. Einnig var hugmyndin sú að leiða vitni sem gæti skýrt tilkomu skuldarinnar.
III.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefnda mótmælir kröfu stefnanda og telur hana vanreifaða. Engin gögn hafi verið lögð fram henni til stuðnings, en stefnandi hafi þau gögn öll í sínum vörslum.
Stefnda fullyrðir, að allar úttektir og fyrirframgreiðslur sem komi fram á reikningsyfirlitum stefnanda hafi nú þegar verið að mestu endurgreiddar. Það hafi verið gert með þeim hætti, að dregið var af launum hennar á útborgunardegi. Stefnda segir að hún hafi afhent Friðgeir Kristjánssyni, fjármálastjóra stefnanda, öll frumgögn sín sem stutt gætu hennar mál og ekki tekið ljósrit af þeim. Þeim hafi ekki verið skilað þrátt fyrir eftirgangssemi. Með þessum gögnum hafi hún einnig afhent reikningsyfirlit sem sýndi að skuld hennar sé mun lægri tala. Sérstaklega mótmælir stefnda liðnum tölvur að fjárhæð 242.228 krónur. Stefnda segir að hún hafi haft þessa tölvu í sinni vörslu um skeið, en sé búin að skila henni.
Stefnda mótmælir dráttarvaxtarkröfu stefnanda. Þær dagsetningar sem miðað sé við séu órökstuddar. Krafan sé að auki svo óljós að það hafi ekki verið hægt að greiða hana. Stefnda hafnar kröfu um álag sem nemi virðisaukaskatti.
Stefnda vísar til meginreglna kröfu- og samningaréttar og einkum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Einnig er vísað til laga nr. 38/2001 varðandi dráttavextina og laga um meðferð einkamála varðandi málskostnaðarkröfuna.
Við flutning málsins um frávísun þess án kröfu vísar stefnda til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála og telur að ekki sé hægt seinna að bæta úr annmarka á málsgrundvellinum. Stefnda bendir á, að í stefnu sé rætt um kaup á vöru og þjónustu án þess að getið sé um hvaða vörur sé að ræða eða hver hafi tekið við þeim. Krafan sé einvörðungu reist á stöðu úr eigin bókhaldi Móa hf. Stefnda bendir á, að í innheimtubréfi sem sent var 9. janúar 2004 komi fram að krafan sé sett fram á grundvelli upplýsinga í bókhaldi stefnanda og þar er gerður fyrirvari um réttmæti kröfunnar.
IV.
Forsendur og niðurstöður.
Með vísan til 100. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991 var lögmönnum gefinn kostur á að tjá sig um frávísun málsins, án kröfu og var það gert 23. nóvember sl.
Í stefnu málsins er grundvelli dómkröfunnar lýst sem ógreiddum reikningum vegna kaupa stefndu á framleiðsluvörum Móa hf. og keyptri vöru og þjónustu af öðrum aðilum á kostnað Móa hf. Síðan er vísað til reikningsyfirlits sem fylgdi sóknarskjölum. Nefnt reikningsyfirlit eru tvær blaðsíður og nær yfir tímabilið september 2001 til októberloka 2003. Á því eru 75 debettölur og 40 kredittölur. Mismunurinn er 482.657 krónur, sem er stefnufjárhæð málsins. Færslutexti á reikningsyfirlitinu er mjög knappur og gefur að mati dómsins enga mynd af þeim viðskiptum sem liggja þar að baki. Engin önnur gögn hafa verið lögð fram er styðja kröfur stefnanda. Í málflutningi um frávísun málsins var því lýst yfir af stefnanda hálfu, að hann myndi leggja fram frekari gögn við meðferð málsins fyrir dómi og leiða vitni til stuðnings kröfu sinni við aðalmeðferð þess. Slíkt var þó ekki boðað í stefnu, sem honum bar þó að gera samanber g og h lið 80. gr. laga um meðferð einkamála. Dómurinn lítur auk þess svo á, að stefnandi geti ekki bætt úr vanreifuninni með gagnaöflun við meðferð málsins fyrir dóminum, því með því háttarlagi yrði stefnda svipt rétti til að koma að vörnum sínum og athugasemdum í greinargerð sinni. Að mati dómsins er málið svo mjög vanreifað af hálfu stefnanda auk þess sem stefnan uppfyllir ekki skilyrði 80. gr. laga um meðferð einkamála, einkum e, g og h liði.
Í fyrirtöku málsins 17. nóvember sl. lagði stefnandi fram yfirlýsingu löggildra endurskoðenda um að þeir hafi yfirfarið reikningsyfirlit viðskiptareiknings stefndu. Að mati stefndu breytir sú yfirlýsing engu.
Með vísan til þess sem að framan er ritað er það álit dómsins, að ekki sé fullnægt skilyrðum 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 19/1991 og er málinu vísað frá dómi. Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 19/1991 skal stefnandi greiða stefnda 50.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti málið Bergþóra Ingólfsdóttir hdl.
Af hálfu stefnda flutti málið Bjarni Eiríksson hdl.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað sjálfkrafa frá dómi.
Stefnandi, Þrotabú Móa hf., greiði stefndu, Bergrúnu Ósk Ólafsdóttur 50.000 krónur í málskostnað.