Hæstiréttur íslands
Mál nr. 316/1998
Lykilorð
- Líkamsárás
- Sýkna
|
Nr. 316/1998. |
Fimmtudaginn 18. febrúar 1999. Ákæruvaldið (Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Baldvin Sævari Viðarssyni (Hilmar Ingimundarson hrl.)
|
Líkamsárás. Sýkna.
B var ákærður fyrir að hafa veist að H á dansleik og sparkað í hann með þeim afleiðingum að H fótbrotnaði. B neitaði sök og verulegs ósamræmis gætti í framburði vitna um atburðarás. Talið að ekki hefði tekist að sanna sök B og var hann sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 31. júlí 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú „staðfestingar hins áfrýjaða dóms, þó þannig, að bæði refsiákvörðun og ákvörðun um sóknar- og málsvarnarlaun standi opin til endurskoðunar og breytinga“, eins og segir í greinargerð þess fyrir Hæstarétti. Jafnframt krefst ákæruvaldið þess að miskabætur, sem ákærða var gert með héraðsdómi að greiða Herði Eiríkssyni, verði hækkaðar í 500.000 krónur.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði látin falla niður. Þá krefst hann þess einnig að bótakröfu Harðar Eiríkssonar verði aðallega vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa veist að fyrrnefndum Herði Eiríkssyni, þar sem þeir voru staddir á dansleik í Félagsheimili Húsavíkur aðfaranótt 2. nóvember 1997, og sparkað í utanverðan hægri fótlegg Harðar, sem hafi þannig fengið brot í sköflung og sperrilegg. Af hálfu ákærða, sem neitar sök, er því haldið fram að fyrir liggi að beinbrot Harðar eigi rætur að rekja til snúnings á hægri fæti. Sá áverki geti ekki hafa komið til eins og greint sé í ákæru, heldur með því að Hörður hafi sparkað í ákærða, þeir hafi tekist á og misst þá jafnvægið ásamt nafngreindum dyraverði, sem hafi reynt að stöðva átökin.
Í héraðsdómi, þar sem rækilega er greint frá framburði ákærða og vitna fyrir dómi, svo og vottorði og framburði læknis um meiðsli Harðar, er lagt til grundvallar að ákærði hafi sparkað í fótlegg Harðar, nær samtímis tekið hann tökum og snúið niður í gólf, en þannig hafi Hörður orðið fyrir „snúningsáverka sem lýst er í ákæru“. Eins og ráðið verður af lýsingunni á skýrslum ákærða og vitna í hinum áfrýjaða dómi gætti ekki aðeins verulegs ósamræmis um rás atburða milli framburðar hans og Harðar, heldur báru engir tveir skýrslugjafar á sama veg um hana. Fyrrgreind ályktun héraðsdómara um atburðarásina styðst hvorki við framburð Harðar, sem kvaðst hafa hlotið beinbrot af sparki frá ákærða, né viðhlítandi framburð annars vitnis. Jafnframt fær hún illa staðist frásögn flestra, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, um að Hörður hafi risið upp eftir þá atlögu ákærða, sem áður greinir, sparkað til hans og haldið áfram átökum. Læknisfræðileg gögn í málinu styðja ekki ákveðna skýringu fremur en aðra á orsökum meiðsla Harðar. Þegar þessa er gætt verður ekki fallist á að ákæruvaldinu hafi tekist að axla þá sönnunarbyrði um sekt ákærða, sem mælt er fyrir um í 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.
Með skírskotun til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 verður bótakröfu Harðar Eiríkssonar vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Baldvin Sævar Viðarsson, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins.
Skaðabótakröfu Harðar Eiríkssonar er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði, Berglindar Svavarsdóttur héraðsdómslögmanns, 75.000 krónur, og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 75.000 krónur.
Héraðsdómur Norðurlands eystra 17. júlí 1998.
Ár 1998, föstudaginn 17. júlí, er af Ólafi Ólafssyni, héraðsdómara kveðinn upp dómur í málinu nr. S-30/1998: Ákæruvaldið gegn Baldvin Sævari Viðarssyni.
Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutning þann 12. júlí sl., er höfðað með ákæruskjali ríkissaksóknara útgefnu 7. apríl á hendur Baldvin Sævari Viðarssyni, sjúkranuddara, kt. 230772-4959, Heiðargerði 6, Húsavík;
„ .fyrir líkamsárás, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 2. nóvember 1997, í Félagsheimili Húsavíkur að Ketilsbraut, Húsavík, veist að Herði Eiríkssyni, kennitala 170570-3599, sparkað með hægra fæti í utanverðan hægri legg Harðar, með þeim afleiðingum að Hörður hlaut brot á hægri sköflung og hægri sperrilegg, en brot gengu í spiral frá neðri hluta sköflungs og niður undir öklahnútuna innanvert og í spiral í gegnum neðri enda sperrileggs. Eftir árásina var framkvæmd skurðaðgerð þar sem opnað var inn að brotakerfinu, bæði á sperrilegg og sköflungi og brotin studd með skrúfum á báðum beinum, auk þess sem fjaðrandi sinkill var sleginn yfir tengslin milli neðri enda sköflungs og sperrileggs.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu krefst Þorsteinn Hjaltason, héraðsdómslögmaður, skaðabóta fyrir hönd Harðar Eiríkssonar úr hendi ákærða, alls 935.591 króna.“
Þá gerir sækjandi kröfu um að ákærði verði dæmdur til að greiða hæfileg saksóknarlaun í ríkissjóð.
Skipaður verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af refsikröfu ríkissaksóknara og að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst verjandinn hæfilegra málsvarnarlauna.
I.
Málavextir.
1. Aðfaranótt sunnudagsins 2. nóvember 1997, var haldinn dansleikur í Félagsheimilinu á Húsavík. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var óskað eftir aðstoð að félagsheimilinu, kl. 02:40, vegna meints fótbrots Harðar Eiríkssonar. Í skýrslunni er frá því greint að nefndur Hörður hefði skýrt frá því á vettvangi að ákærði, Baldvin Sævar, hefði valdið honum áverkanum með sparki. Samkvæmt gögnum málsins var Hörður Eiríksson færður til aðhlynningar á Sjúkrahúsið á Húsavík, en í framhaldi af því fluttur á slysadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (FSA).
Hörður Eiríksson bar fram formlega kæru á hendur ákærða vegna líkamsárásar hjá lögreglunni á Húsavík þann 5. nóvember sl., en áður höfðu dyraverðir félagsheimilisins svo og ákærði verði yfirheyrðir um kæruefnið. Þá var vitnið Björn Rúnar Agnarsson, sjómaður, yfirheyrður um sakarefnið þann 19. nóvember s.á. Af framburðum nefndra aðila, rannsóknargögnum lögreglu og vettvangsskoðun dómsins er óumdeilt að ákærði og kærandi áttu í útistöðum umrædda nótt í félagsheimilinu, í forstofugangi, millum afgreiðsluborðs við fatahengi og innri forstofuhurðar.
Fyrir liggur í málinu áverkavottorð Júlíusar Gestssonar, yfirlæknis, Bæklunar-og slysadeildar FSA, dags. 13. desember sl, og er þar lýst áverkum Harðar Eiríkssonar við komu hans á sjúkrahúsið þann 2. nóvember sl., svofellt:
„Á Sjúkrahúsinu á Húsavík var með rtg-myndatöku staðfest brot á bæði sköflung og sperrilegg. Hann fékk þar stuðningsumbúðir og við komu hér ekki illa haldinn af verkjum. Á rtg-rannsóknum sást brot sem gekk í spiral frá neðri hluta sköflungs niður undir öklahnútuna innanvert og einnig brotkerfi sem gekk í spiral í gegnum neðri enda sperrileggs. Nokkur tilfærsla var í brotinu. Hann var 2 tímum eftir komu hér fluttur á skurðstofu og þar gerð skurðaðgerð þar sem opnað var inn að brotkerfinu, bæði á sperrileggnum og sköflungum og brotið stutt með skrúfum á báðum beinum. Auk þess var sleginn fjaðrandi sinkill yfir tengslin milli neðri enda sköflungs og sperrileggs. Nóttina eftir aðgerðina voru nokkrir verkir sem minnkuðu eftir að gipsumbúðir sem lagðar voru við aðgerðina höfðu verið opnaðar. Eftir gipsskipti daginn eftir aðgerð var líðan góð, hann komst ágætlega um með hjálp tveggja hækjustafa og útskrift af Bæklunardeild 04.11.97. Við eftirlit 19.11.97 höfðust aðgerðarsár vel við, klemmur voru fjarlægðar úr skurðsárum, lagt göngugips og áætlað eftirlit án umbúða 17.12.97 og þess vænst að þá verði hægt að hætta meðferð með ytri stuðningsumbúðum. Fyrir-sjáanlegt er að Hörður þarf að létta álagi af hægri ganglim einhverjar vikur til viðbótar, en tímabil óvinnufærni enn óvíst. Of stuttur tími er liðinn til að meta hvort varanleg mein verða af áverkum önnur en ör á fótleggjarsvæði og verður slíkt vart metið fyrr en 1-1½ ár hefur liði frá áverkanum. Í bréfi 06.11.97 (lögreglu á Húsavík) með beiðni um vottorð er spurt um hvernig líklegast megi telja að áverkinn hafi orðið. Útlit brotsins passar best við að Hörður hafi fallið er hann steig í hæ. fótinn og leggjarbeinin snúist í sundur í fallinu.“
2. Framburður ákærða, kæranda og vitna.
Ákærði, Baldvin Sævar, hefur við meðferð málsins neitað sakargiftum, og skýrt svo frá, að upphafið af samskiptum hans og ákærða hefði verið að hann hafi sest við borð hjá kæranda og þeir í framhaldi af því ákveðið að reyna með sér „sjómann“. Bar ákærði að þeir hefðu farið fram í forstofuganginn og tekið sér stöðu við allangt borð við fatahengið, gegnt forstofuhurðinni. Kvaðst ákærði hafa staðið innan við borðið en kærandi fyrir framan. Bar ákærði að er hendur þeirra hefðu runnið til hefði kærandi kippt að sér hendinni með þeim afleiðingum að hönd hans skall á afgreiðsluborðið. Ákærði bar að kærandi hefði við nefnt tækifæri og látið þau orð falla að hann væri „vesalingur“. Ákærði kvaðst hafa kennt til í hendinni, en eigi hlotið sérstaka áverka. Og vegna þessa kvaðst ákærði hafa reiðst mjög, „brjálast“, og hlaupið hálfhring um afgreiðsluborðið til kæranda. Fyrir dómi staðhæfði ákærði að kærandi hefði komið á móti og þeir í framhaldi af því tekið hvorn annan tökum, fallið saman á gólfið og oltið þar um. Við meðferð málsins neitaði ákærði því alfarið að hann hefði við upphaf þessa atgangs sparkað í fótlegg kæranda eða snúið hann einhliða niður í gólfið. Ákærði bar og að dyraverðir félagsheimilisins hefðu mjög fljótlega komið á vettvang og skilið þá í sundur, og kvaðst ákærði þannig hafa verið í tökum Hannesar Rúnarssonar, dyravarðar, er kærandi sparkaði til hans með hægri fæti, og „það ekkert laust“. Kvaðst ákærði þá hafa rifið sig frá dyraverðinum og sparkað í vinstra læri og bakhluta kæranda, og þeir í framhaldi af því tekið hvorn annan tökum, dyravörðurinn stokkið aftan á bak hans, og þeir þá allir fallið á gólfið. Kvað ákærði þá hafa „hlunkast“ á gólfið, og kærandi orðið neðstur í þvögunni. Ætlaði ákærði að vinstra hné hans hefði í fallinu komið á líkama kæranda, en það hægra á gólfið. Vegna þessa kvaðst ákærði hafa fengið „brunablett“ á hnéið, og ekki kvaðst hann hafa hlotið aðra áverka umrædda nótt. Ákærði bar fyrir dómi að atgangur hans og kæranda hefði lokið þannig að dyravörður hefði tekið hann hálstaki og dregið af vettvangi.
Fyrir dómi lýsti ákærði þeirri skoðun sinni að kærandi hefði hlotið áverkann á hægri fæti er hann féll á gólfið og varð undir í þvögunni, en ákærði minntist þess þó ekki að að kærandi hefði gefið það til kynna með látbragði eða hljóðum, en vísaði til þess að atburðarrásin hefði öll verið mjög hröð, og nefndi 10-15 sekúndur. Ákærði kvaðst hafa fundið lítillega til áfengisáhrifa umrædda nótt. Samkvæmt orðum ákærða var hann um 100 kg., og um 182 cm á hæð.
Kærandi, Hörður Eiríksson, verkamaður, kvaðst hafa setið við borð í danssal félagsheimilisins, ásamt Birni Guðmundssyni, er ákærði kom þar að og fór fram á að þeir reyndu með sér í „sjómann“. Kærandi kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og lítillega kannast við ákærða, en ekkert átt sökótt við hann, og því neitað bóninni. Eftir ítrekaðar óskir ákærða kvaðst kærandi hafa látið til leiðast og þeir í framhaldi af því farið að langborði í forstofugangi félagsheimilisins. Kærandi kvað enginn sérstök orðaskipti hafa farið á milli þeirra fyrr en eftir að greipar þeirra höfðu runnið í sundur og ákærði skall með hendina á borðið, og kvaðst hann þá hafa haft orð á að réttast væri að þeir hættu þessu athæfi þar sem að það væri glórulaust. Að þessum orðum sögðum kvaðst kærandi hafa snúið frá ákærða og gengið hröðum skrefum frá afgreiðsluborðinu. Kvaðst kærandi því ekki hafa fylgst frekar með gjörðum ákærða fyrr en hann varð var við að hann fylgdi á eftir,og lýsti kærandi atvikum máls fyrir dómi nánar svofellt;
„ og þá kemur spark aftan á ökklann og við það brotna ég og fell niður og svona um leið og ég fell niður þá kemur hann ofan á mig, sársaukinn var alveg hrikalegur, við veltumst eitthvað þarna um á gólfinu, 30-40 sekúndur, og það endar með því að dyravörður kemur þarna að.“
Fyrir dómi kvaðst kærandi engan áhuga hafa haft á slagsmálum við ákærða eftir að hann hafði fallið á gólfið, og kvaðst hann því einungis hafa varist atlögum ákærða, og orðaði hann það þannig fyrir dómi;
„Ég er að fara þarna í burtu og ég fæ högg aftan á fótinn og við það brotna ég og fell niður, hann leggst ofaná mig og þá náttúrulega veltumst við um á gólfinu í smástund, og þá náttúrulega lítur þetta út fyrir að vera slagsmál.“
Eftir að dyraverðir komu á vettvang kvaðst kærandi hafa staðið á fætur, en um leið reynt að sparka með brotna fætinum til ákærða, og vísaði til þess að á þeirri stundu hefði hann verið „sjóðandi reiður“. Kærandi ætlaði að spark hans hefði verð máttlaust, og kvaðst hann þar á eftir hafa hökt áleiðis að afgreiðsluborðinu, en ákærði þá stokkið á hann á nýjan leik með Hannes Pétursson, dyravörð, á bakinu og þeir þrír þá fallið á gólfið. Kvaðst kærandi að einhverju leyti hafa lent undir þvögunni, og kvaðst hann hafa hlotið spark frá ákærða á vinstra lærið er hann var að koma sér frá vettvangi. Vegna áverkanna kvaðst kærandi á vettvangi hafa notið aðstoðar vitnisins Björns Rúnars Agnarssonar, og síðar lögreglu.
Vegna fótbrotsins kvaðst kærandi hafa verið rúmliggjandi í tíu sólarhringa, en bati hans gengið eðlilega, og kvaðst hann hafa farið á ný til vinnu þann 9. febrúar sl. Fyrir dómi kvaðst kærandi enn finna fyrir stirðleika í hægri fæti, sérstaklega við áreynslu.
Vitið Björn Guðjónsson, sjómaður, fæddur 1964, staðfesti fyrir dómi að hann hefði setið við borð í danssal félagsheimilisins ásamt kæranda er ákærði kom að máli við hann og leitaði eftir því að þeir reyndu með sér í sjómann. Að mati vitnisins var kærandi á þeirri stundu í góðu skapi, léttur og kátur, en mjög ölvaður. Að áliti vitnisins var ákærði einnig mjög ölvaður, en vitnið kvaðst þó ekki hafa átt orðastað við hann. Vitnið kvaðst ekkert hafa fylgst frekar með gjörðum kæranda og ákærða umrædda nótt.
Vitnið, Hannes Rúnarsson, fæddur 1971, kvaðst hafa verið við dyravörslu í Félagsheimili Húsavíkur aðfaranótt 2. nóvember sl. , og ætlaði að klukkan hefði verið um 02:30, er honum barst til eyrna, að slagsmál væru í forstofuganginum. Á vettvangi kvaðst vitnið hafa séð hvar ákærði og kærandi lágu á gólfinu, skammt frá syðri enda langborðs við fatahengið, í gagnkvæmum tökum. Kvaðst vitnið í fyrstu hafa reynt að tala til þeirra og bar að þeir hefðu þá risið á fætur, og hann þá gengið á milli. Kvaðst vitnið og hafa tekið ákærða tökum, en við þær aðstæður kvað það kæranda hafa sparkaði til ákærða með hægra fæti, í kvið eða bringspalir. Vitnið bar að ákærði og kærandi hefðu þá tekist á að nýju, en þeir þrír þá misst jafnvægið og fallið á gólfið. Kvaðst vitnið hafa hafnað aftan við ákærða, tekið hann hálstaki og þannig náð að halda honum frá frekari átökum. Vitnið kvaðst á þeirri stundu og hafa veitt því athygli að allur vindur virtist vera farinn úr kæranda. Vitnið bar að Jóhann Bjarni, dyravörður, hefði komið á vettvang undir lok atgangsins, en vitnið vísaði til þess að atburðarrásin hefði verið mjög hröð. Kvaðst vitnið og ekki hafa haft vitneskju um meiðsl kæranda fyrr en nokkrum mínútum eftir að atganginum var lokið, og fyrir dómi treysti vitnið sér ekki til að segja til um hvenær kærandi hlaut áverkann á hægra fæti. Vitnið kvaðst og aldrei hafa séð ákærða sparka í kæranda eða heyrt kæranda gefa til kynna með orðum eða látbragði að hann hefði slasast. Að mati vitnisins voru ákærði og kærandi báðir undir áhrifum áfengis umrædda nótt.
Vitnið, Jóhann Bjarni Einarsson, fæddur 1972, kvaðst hafa verið við störf sín sem dyravörður við forstofuhurð félagsheimilisins umrædda nótt, er vakin var athygli hans á slagsmálum í forstofuganginum. Kvaðst vitnið því aðeins hafa verið um 3 metra frá vettvangi og því strax séð hvar ákærði og kærandi voru í slagsmálum á gólfinu, en auk þess kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að Hannes Rúnarsson, dyravörður, lá fyrir aftan ákærða og var með hann í hálstaki. Að mati vitnisins var ákærði í æstu skapi, en kærandi virst vera rólegur, en vitnið bar að báðir aðilarnir hefðu verið ölvaðir. Að áliti vitnisins var kærandi í varnarstöðu gagnvart ákærða. Vitnið kvaðst hafa snúið sér að kæranda um leið og hann sá að Hannes dró ákærða til, og við þær tilfæringar kvaðst vitnið hafa séð að ákærði sparkaði með hægri fæti í vinstra læri og mjóhrygg kæranda. Vitnið bar að atgangurinn hefði staðið yfir í u.þ.b. 2-3 mínútur og kvaðst vitnið fyrst hafa gert sér grein fyrir áverkum kæranda er hann reyndi að standa á fætur og hafði orð á eymslum í fæti og að hann gæti ekki stígið í fótinn.
Vitnið Gunnar Óli Hákonarson, meðferðarfulltrúi, fæddur 1969, kvaðst umrædda nótt hafa verið að koma frá snyrtingunni er hann varð var við að ryskingar voru með ákærða og kæranda í forstofuganginum. Vitnið bar að nefndir aðilar hefðu báðir verið uppistandandi og kvaðst vitnið hafa veitt því athygli að kærandi sparkaði í búk ákærða, fyrir ofan hné, en síðan kvaðst vitnið hafa fylgst með því er nefndir aðilar ruku saman, og loks er dyraverðir gripu í taumanna. Vitnið kvaðst einnig hafa fylgst með því er ákærði sparkaði í afturhluta kæranda, og að ýfingar hófust að nýju með aðilunum með þeim afleiðingum að þeir féllu nokkuð harkalega á gólfið, ásamt dyravörðum. Vitnið bar að dyraverðirnir hefðu fallið ofaná ákærða og kæranda. Að áliti vitnisins voru kærandi og ákærði báðir í æstu skapi, en ekki gat vitnið sagt til um hvor þeirra hefði sig meira í frammi. Vitnið var ekki yfirheyrt við lögreglurannsókn málsins, og fyrir dómi bar það við nokkru minnisleysi um málsatvik
Vitnið, Björn Rúnar Agnarsson, fæddur 1968, kvaðst hafa ekið kæranda á margnefndan dansleik í félagsheimilinu, en bar að líkur kunningsskapur væri með honum og ákærða. Síðar um nóttina kvaðst vitnið hafa fylgst með atgangi ákærða og kæranda í forstofuganginum, svo og afskiptum dyravarða, en vitnið kvaðst hafa fylgst með málum frá forstofuhurðinni. Í staðfestri lögregluskýrslu lýsti vitnið málsatvikum svofellt;
„Mætti kveðst hafa séð Hörð Eiríksson og Baldvin Viðarsson koma gangandi innan úr sal hússins og fram í forstofugang þar sem þeir stilltu sér upp við borð sem er framanvið fatahengi sem þarna er. Mætti segir að þeir hafi reynt fyrir sér í sjómann á borðinu. Mætti segir þá hafa tekist á sem endaði með því að Baldvin skellir hægri hendi ofan á borðplötuna og þá líklega vegna þess að Baldvin hafi misst takið eða Hörður sleppt. Mætti segir einhver orðaskipti hafi orði milli þeirra, en Hörður banda hendinni frá líkt og hann vilji ekki reyna aftur. Mætti segir Baldvin þá hafa barið krepptum hnefa í borðið og gengur síðan mjög greitt fyrir borðsendann og að Herði. Mætti segir Hörð þá hafa verið búinn að snúa sér frá borðinu og bandar aftur hendinni frá sér í átt að Baldvin. Mætti segir Baldvin þá hafa stigið fram í vinstri fót að Herði öskrað eitthvað á hann, og sparkað síðan með hægri fæti neðst í hægri fót Harðar. Mætti segir Baldvin í sömu mund hafa tekið hálstak á Herði og snúið hann niður í gólfið. Mætti kveðst ekki hafa heyrt glögglega það sem á milli þeirra fór meðan á þessu stóð. Mætti segir Baldvin og Hörð hafa skollið í gólfinu en dyravörður Hannes Rúnarsson hafi komið nánast strax á vettvang og eins hafi Jóhann Einarsson dyravörður komið þarna að, en mætti kveðst ekki alveg viss á hvaða andartaki Jóhann kom. Hannes náði taki á Baldvin og náði að draga hann frá Herði og um leið ýtir Hörður honum ofan af sér. Mætti segir Hörð þá hafa staðið upp á undan Baldvin og sparkar laust í lærið á Baldvin. Mætti segir Hörð hafa sparkað með hægri fæti. Mætti kvaðst lesa það úr svip Harðar að hann findi einhversstaðar til. Mætti segir Hörð síðan hafa staðið þarna hjá Baldvin eftir að hafa sparkað í lærið á honum og er Baldvin þá að sprikla og losa sig úr höndunum á dyravörðunum. Baldvin sparkar þá frá sér og hittir með hælnum á utanverðan hægri fót Harðar. Mætti segir Hörð þá hafa kiknað undan högginu. Baldvin stendur síðan á fætur með dyraverðina sitt til hvorrar handa og stekkur þá aftur á Hörð með þeim afleiðingum að allir detta í gólfið. Hörður, Baldvin og Hannes. Mætti tekur það fram að hann sé ekki viss um það hvort Baldvin hafi séð Hörð er seinna sparkið kom þar sem Baldvin lá í gólfinu og var að reyna að losa sig frá dyravörðunum. Mætti segir dyraverðina hafa losað Baldvin strax af Herði og drógu þeir Baldvin frá. Hörður hafi hins vegar staulast að borðinu sem þeir áður stóðu við, og náði taki á því. Mætti segir Hörð þá hafa sagt mætta að hann væri fótbrotinn. Mætti kveðst þá hafa stutt við Hörð þar sem Hörður gat ekki stigið í fótinn. Síðan var lögregla kvödd á staðinn og flutti hún Hörð á sjúkrahúsið á Húsavík til skoðunar. Aðspurður um það hvort mætti átta sig á því hvenær fóturinn hafi brotnað kveðst mætti telja að bæði spörkin hafi skaðað Hörð eitthvað því Hörður virtist ekki geta sparkað mjög fast í lærið á Baldvin eins og áður er lýst. En síðan hafi sparkið frá Baldvin, þegar hann lá á gólfinu og reyndi að losa sig frá dyravörðunum, verið mjög fast og þá virtist fóturinn á Herði kikna undan sparkinu.“
Fyrir dómi bar vitnið að atgangur ákærða og kæranda við afgreiðsluborðið hefði staðið yfir í u.þ.b. 1 mínútu, en ákærði þá gengið hröðum skrefum fram fyrir borðið til kæranda. Vitnið bar að ákærði hefði staðið til hliðar við kæranda er hann sparkaði í hægri fótlegg hans. Vitnið kvað ákærða þannig hafa sparkað fótunum undan kæranda, en um leið tekið hann hálstaki og fellt í gólfið. Að áliti vitnisins var nefnt spark ákærða ekki ýkja fast, en vitnið taldi þó sennilegt að kærandi hefði kennt til. Vitnið bar að kærandi hefði fallið á bakið, ákærði lagst þar yfir hann, og kvað vitnið einhverjar ryskingar þá hafa orðið með þeim, allt þar til kærandi náði að koma ákærða af sér, og dyraverðir komu til skjalanna. Vitnið bar að ákærði og kærandi hefðu þá risið á fætur, og kvaðst vitnið þá hafa veitt því athygli að kærandi kveinkaði sér, líkt og þegar hann skömmu síðar sparkaði með hægra fæti til ákærða. Vitnið bar að nefnt spark kæranda hefði ekki verið fast og „ekkert til að hafa orð á“ líkt og vitnið orðaði það fyrir dómi. Vitnið bar að ákærði og kærandi hefðu tekist á að nýju og þá með þeim afleiðingum að þeir féllu aftur í gólfið ásamt dyravörðunum. Fyrir dómi treysti vitnið sér ekki til að segja nánar til um hvernig nefndir aðilar féllu á gólfið, að öðru leyti en því að vitnið taldi að kærandi hefði að einhverju leyti lent undir þvögunni. Vitnið kvaðst hins vegar hafa veitt því eftirtekt, er kærandi var að rísa á fætur, og ákærði í tökum dyravarðar, að skóhæll ákærða skall með miklu afli á hægri ökkla kæranda. Vitnið kvað kærandi hafa kiknað undan högginu, en að áliti vitnisins var um óviljaverk að ræða af hálfu ákærða. Vitnið bar að öll framagreind atburðarrás hefði gengið mjög hratt fyrir sig og treysti vitnið sér því ekki til að segja til um hvenær kærandi hlaut áverkann á hægra fæti, en ætlað að það hefði geta gerst er hann varð undir ákærða og dyravörðunum, ellegar þegar skóhæll ákærða skall á fæti hans, frekar en að það hefði gerst við upphaf atgangs þeirra, er ákærði sparkaði í kæranda og felldi hann í gólfið með hálstaki. Að mati vitnisins var ákærði æstur og hafði sig meira í frammi í atganginum, en ekki virst vera mjög ölvaður. Að áliti vitnisins var kærandi hins vegar töluvert ölvaður og í þungu skapi.
Vitnið, Júlíus Gestsson, yfirlæknir, staðfesti fyrir dómi áðurgreint læknisvottorð, og ítrekaði að Hörður Eiríksson hefði greinst með brot á neðri hluta hægri fótleggjar, á sköflungi og sperrilegg. Vitnið staðfesti og að brotakerfið hefði gengið líkt og gormur eða spirall niður eftir leggnum, og bar að slíkir áverkar væru einkennandi fyrir snúningsálag á fótlegginn. Fyrir dómi útilokaði vitnið það þó ekki að Hörður hefði fengið beinan höggáverka á sköflunginn, en að því tilskildu að hann hefði á þeirri stundu staðið föstum fótum á gólfinu, fallið niður og snúist um leið. Að mati vitnisins voru því yfirgnæfandi líkur á að fótleggur Harðar hefði brotnað vegna snúningsálags, og vísaði vitnið m.a. til þess að Hörður væri vel á sig kominn (um 90 kg og 175 cm á hæð). Fyrir dómi lýsti vitnið og þeirri skoðun sinni að fótbrot kæranda hefði orsakast með þeim hætti að hann hefði verið á einhverri ferð og stígið með fullum þunga í hægri fótinn, en þá orðið fyrir einhverri fyrirstöðu, misst jafnvægið og fallið niður, og bein hans í hægri fótlegg þá snúist í sundur. Vitnið bar að við komu Harðar á sjúkrahús hefðu bæði sköflungurinn og sperrileggurinn í fótlegg hans verið tilfærð, og fóturinn auk þess verið bólginn og aflagaður. Að álit vitnisins var það harla ólíklegt að Hörður hefði þannig á sig kominn verið fær um að bera sig mikið um, og staðhæfði vitnið jafnframt að slíkum áverka fylgdi jafnan mikill sársauki. Vitnið bar að ekki hefði verið sýnilegur höggáverki á fótleggnum, en hins vegar mikið mar.
Vitnið greindi frá því fyrir dómi að bati og eftirmeðferð Harðar Eiríkssonar hefði gengið eðlilega fyrir sig, en ekki gat vitnið tjáð sig um hvort að hann hlyti varanleg örorku af áverkanum.
Niðurstaða.
Í ákæruskjali er ákærða, Baldvin Sævari, gefið að sök að hafa sparkað í utanverðan hægri legg Harðar Eiríkssonar, í félagsheimilinu á Húsavík, með þeim afleiðingum að Hörður hlaut brot á sköflungi og sperrilegg, líkt og nánar er lýst í ákæruskjalinu.
Ákærði hefur neitað sakargiftum, og borið að fótbrot Harðar Eiríkssonar mætti rekja til óhappatilviks, sem hefði komið upp í atgangi þeim sem með þeim varð í forstofugangi félagsheimilisins. Samkvæmt læknisvottorði og vitnisburði Júlíusar Gestssonar, bæklunarlæknis, fyrir dómi hlaut kærandi áverkann á hægri fæti vegna snúningsálags, samhliða því sem fóturi hans varð fyrir fyrirstöðu.
Kærandi, Hörður Eiríksson, hefur staðfastlega borið, að ákærði hafi valdið þeim áverka sem í ákæru greinir, er hann vatt sér skyndilega að honum með sparki í hægri fótlegg, samhliða því sem ákærði felldi hann á gólfið.
Með framburði vitnanna Björns Rúnars, Hannesar Rúnarssonar, Jóhanns Einars, og Gunnars Óla, sem öll voru án áfengisáhrifa, er upplýst að viðskipti ákærða og kæranda í forstofuganginum gengu fljótt fyrir sig, og hafa vitnin ekki geta sagt til um það með vissu hvenær eða hvernig kærandi hlaut áverka sína. Er til þess að líta að þrjú síðast nefndu vitnin fylgdust ekki með upphafi viðskiptanna. Verður því að leggja til grundvallar eigin framburði ákærða um að hann hafi rokið til kæranda í reiðikasti eftir að atgangi þeirra við afgreiðsluborðið í fatahenginu lauk, en samkvæmt vitnisburði Björns Rúnars felldi ákærði þá kæranda nær viðstöðulaust á gólfið, með því að sparka í hægri fótlegg hans, samhliða því sem hann tók kæranda hálstaki.
Þegar framangreind atriði eru virt í heild þykir með vitnisburði Björns Rúnars, sem dómurinn metur trúverðugan, vætti Júlíusar Gestssonar, bæklunarlæknis, og staðfastri frásögn kæranda ekki varhugavert að telja, þrátt fyrir neitun ákærða, sannað að ákærði hafi sparkað í hægri fótlegg kæranda og nær samtímis tekið hann tökum og fellt á gólfið og þannig valdið kæranda þeim snúningsáverka sem lýst er í ákæru. Þykir og ekkert marktækt hafa komið fram í málinu um að kærandi hafi hlotið áverkann í þeim sviptingum og atgangi sem á eftir fylgdu og áðurnefndir samkomugestir og dyraverðir fylgdust með. Miðað við þær afleiðingar sem hlutust af framangreindu athæfi ákærða, telst brot hans varða 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1991.
II
Við ákvörðun refsingar verður litið til þess að atlaga ákærða var harkaleg. Ákærði hefur á hinn bóginn ekki áður hlotið refsingu, en auk þess hefur framkoma hans eftir brotið, þar á meðal við rannsókn málsins, verið með ágætum. Þykir refsing ákærða eftir atvikum hæfilega ákveðin 2 mánaða fangelsi. Rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dómsins að telja haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Þorsteinn Hjaltason, héraðsdómslögmaður, hefur fyrir hönd Harðar Eiríkssonar haft uppi skaðabótakröfu á hendur ákærða. Bótakrafan er dagsett 29. janúar 1998 og sundurliðast hún þannig;
|
1. Miskakrafa |
Kr. 500.000,00 |
|
2. Þjáningabætur, 10 dagar rúmliggjandi |
Kr. 14.000,00 |
|
3. Þjáningabætur, veikur til 9. febrúar 1998 90 dagar á 750 kr |
Kr. 67.500,00 |
|
4. Vinnutap |
Kr. 252.066,00 |
|
5. Lyf og lækniskostnaður |
Kr. 17.025,00 |
|
6. Akstur 1000 km 6 ferðir fram og til baka Húsavík-Ak-Húsavík |
Kr. 40.000,00 |
|
7. Lögmannsþóknun m./vsk. |
Kr. 45.000,00 |
|
Alls bótakrafa: |
Kr. 935.591,00 |
Af hálfu bótakrefjanda er vísað til almennra reglna skaðabótaréttar, sbr. 2., 3., 4. og 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í kröfugerðinni er hafður á fyrirvari um frekari kröfur á hendur ákærða komi í ljós að varanlegur skaði hafi hlotist af árásinni.
Ákærði hefur andmælt bótakröfunni með vísan til sýknukröfu, en einnig með vísan til þess að krafan sé órökstudd.
Undir rekstri málsins var lögmanni bótakrefjanda gefinn kostur á að skýra kröfuna frekar, sbr. 5. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991, en við því var ekki orðið.
Í máli þessu hefur ákærði verði sakfelldur fyrir líkamsárás og ber hann því fébótaábyrgð gagnvart bótakrefjanda vegna meiðsla hans.
1. liður. Bótakrefjandi hefur sett fram miskabótakröfu með vísan til 26. gr. skaðabótalaga. Atlaga ákærða að bótakrefjanda var harkaleg og hlaust af fótbrot. Þykja allar aðstæður hafa verið með þeim hætti að bótakrefjandi eigi rétt á miskabótakröfu úr hendi ákærða fyrir þessa meingerð og eru þær hæfilega ákveðnar 150.000,-.
2.-3. liður. Bótakrefjandi reisir kröfur um þjáningarbætur á 3. gr. skaðabótalaga. Í málinu nýtur ekki við fullnægjandi gagna um það hversu lengi bótakrefjandi var rúmfastur eftir árásina eða hvenær hann taldist vinnufær. Krafa um þjáningarbætur er þannig svo vanreifuð, að dómur verður ekki á hana lagður. Ber því að vísa þessum kröfum frá dómi.
4. liður. Fullnægjandi gögn eða vottorð frá vinnuveitanda um vinnutekjutap liggja ekki fyrir í málinu. Ber því að vísa kröfunni frá dómi.
5. liður. Afrit reikninga eru til stuðnings þessum kröfulið, að fjárhæð krónur 16.025,-, og verður krafan tekin til greina að því marki.
6. liður. Með hliðsjón af fyrirliggjandi reikningum samkvæmt 5. lið þykir fært að taka þennan bótalið til greina með fjárhæð krónur 35.000,-
Samkvæmt framansögðu verður ákærði dæmdur til að greiða Herði Eiríkssyni 201.025,- krónur í bætur fyrir fjártjón og miska.
Samkvæmt 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, á tjónþoli rétt á því að fá greiddan kostnað, er hann hefur orðið fyrir við að halda kröfu sinni fram. Þykir því rétt líkt og krafist er, að dæma ákærða til að greiða bótakrefjanda málskostnað, er þykir hæfilega ákveðinn 20.000,- auk lögboðins virðisaukaskatts.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun til ríkissjóðs sem ákveðast krónur 75.000.-, en málið flutti af hálfu ákæruvalds Snædís Gunnlaugsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á Húsavík, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Berglindar Svavarsdóttur, héraðsdómslögmanns sem þykja hæfilega ákveðin 75.000,-.
Dómsuppkvaðning hefur tafist vegna embættisanna dómara.
Dóm þennan kvað upp Ólafur Ólafsson, héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákærði, Baldvin Sævar Viðarsson, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar hans og hún niður falla að liðnum 3 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði Herði Eiríkssyni, kt. 170570-3599, krónur 201.025,- í skaðabætur, og 20.000,- í málskostnað.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. saksóknarlaun í ríkissjóð krónur 75.000,- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Berglindar Svavarsdóttir, héraðs-dómslögmanns krónur 75.000,-