Hæstiréttur íslands

Mál nr. 266/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hæfi dómara


                                                         

Miðvikudaginn 30. apríl 2014.

Nr. 266/2014.

Theodór Magnússon og

Helga Margrét Guðmundsdóttir

(Þórður Heimir Sveinsson hdl.)

gegn

Íbúðalánasjóði

(enginn)

Kærumál. Hæfi dómara.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem héraðsdómari kvað á um að hann viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila vegna lántöku þeirra hjá hinum síðarnefnda. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þótt fjárhagslegir hagsmunir dómara gætu við ákveðnar aðstæður valdið vanhæfi samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála gilti það ekki um hagsmuni almenns eðlis. Fyrir lægi að stór hluti þeirra, sem búi hér á landi, skuldi verðtryggð húsnæðislán og að úrslit málsins hefðu áhrif á fjárhagslega hagsmuni þessa hóps eða alla vega verulegan hluta hans. Yrði því að líta svo á að um væri að ræða svo almenna hagsmuni að þeir gætu einir og sér ekki valdið vanhæfi dómara. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómarann að fara áfram með málið. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 9. apríl 2014 sem barst héraðsdómi tveimur dögum síðar og réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2014 þar sem Ásmundur Helgason héraðsdómari kvað á um að hann viki sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir dómarann „að skipa áfram sæti dómara í málinu við meðferð þess“ í héraði. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt gögnum málsins fengu sóknaraðilar á árinu 2003 lán hjá varnaraðila til byggingar á raðhúsi til íbúðar fyrir sig og fjölskyldu sína samtals að fjárhæð 9.000.000 krónur. Þegar vottorð um fokheldi byggingarinnar lá fyrir gáfu sóknaraðilar 11. febrúar 2003 út fasteignaveðbréf til varnaraðila að fjárhæð 6.034.066 krónur. Hafa sóknaraðilar höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn varnaraðila og krafist viðurkenningar á því annars vegar að honum sé óheimilt að krefjast greiðslu á ákveðnum hlutum „heildarlántökukostnaðar“ af umræddu láni og hins vegar að eftirstöðvar skuldar sóknaraðila vegna veðbréfsins hafi numið tilteknum fjárhæðum 15. mars 2013 eins og nánar greinir í stefnu. Færa sóknaraðilar þær málsástæður fyrir kröfum sínum að lánið falli undir lög nr. 121/1994 um neytendalán og hafi upplýsingagjöf varnaraðila til þeirra við töku lánsins ekki uppfyllt skilyrði laganna. Af þeim sökum hafi varnaraðila verið óheimilt að krefja þau um lántökukostnað, svo sem vexti og verðbætur. Verði fallist á kröfur sóknaraðila, hvort sem er aðal- eða varakröfur þeirra, er ljóst að lánsfjárhæðin mun lækka mjög verulega frá því sem varnaraðili hefur krafist greiðslu á samkvæmt skilmálum veðbréfsins.

Máli sóknaraðila gegn varnaraðila var úthlutað af dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur til Ásmundar Helgasonar héraðsdómara. Kvað hann upp fyrrgreindan úrskurð um að hann viki sæti í málinu á grundvelli g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Í forsendum úrskurðarins segir að dómarinn hafi tekið lán hjá varnaraðila að fjárhæð 18.000.000 krónur árið 2007 og séu uppreiknaðar eftirstöðvar þess ríflega 26.000.000 krónur. Í ljósi þess telji hann að fyrir hendi séu aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

Sóknaraðilar láta þess getið í kæru til Hæstaréttar að hvorugur málsaðila hafi gert athugasemd um hæfi dómarans þótt hann væri með verðtryggt húsnæðislán hjá varnaraðila. Þá hafa sóknaraðilar lagt fram hér fyrir dómi tilkynningu frá EFTA-dómstólnum frá 7. apríl 2014 í tilefni af tveimur málum sem rekin eru fyrir honum. Þar var tekið fram að fyrir lægi samkvæmt upplýsingum sem dómstólinn hafi fengið frá íslenskum skattayfirvöldum að um það bil 90.000 íslenskar fjölskyldur væru með vísitölubundin lán.  

II

Í 5. gr. laga nr. 91/1991 eru taldar upp í sjö stafliðum þær ástæður sem valda því að dómari telst vanhæfur til að fara með mál sem rekið er eftir lögunum. Samkvæmt g. lið greinarinnar er dómari vanhæfur til meðferðar máls ef fyrir hendi eru önnur atvik eða aðstæður en greindar eru í hinum sex stafliðum hennar sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni dómara með réttu í efa. Eins og öðrum vanhæfisákvæðum er þessari almennu reglu ætlað að stuðla að trausti aðila og almennings til hlutleysis dómstóla, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar þar sem öllum er áskilinn réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur fyrir óhlutdrægum dómstóli.

Eitt af því sem valdið getur vanhæfi dómara samkvæmt g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991 er að hann hafi sjálfur umtalsverða fjárhagslega hagsmuni af úrslitum máls. Í því sambandi verður þó að greina á milli þess hvort um sé að ræða almenna eða sérstaka hagsmuni. Þegar svo margir eiga sambærilegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls að þeir eru fleiri en hinir eru líkur á að hagsmunirnir séu almenns eðlis og leiði þar með ekki til vanhæfis, enda kynni þá jafnvel að vera erfitt að finna aðra hæfa dómara til að taka við málinu. Við slíkar aðstæður má og færa fyrir því rök að þeir sem eru í minnihluta fái heldur ekki litið algjörlega hlutlaust á málið. Séu hagsmunir á hinn bóginn bundnir við tiltölulega fámennan hóp aukast líkur á að hagsmunirnir séu þess eðlis að þeir valdi vanhæfi.

Samkvæmt 1. tölulið 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla má þann einn skipa í embætti héraðsdómara sem náð hefur 30 ára aldri og veita skal honum lausn frá embætti ekki síðar en frá þeim degi sem hann nær 70 ára aldri, sbr. 5. mgr. 31. gr. sömu laga. Fyrir liggur að stór hluti þeirra, sem búa hér á landi og eru á fyrrgreindum aldri, skuldar verðtryggð lán, hvort sem er hjá varnaraðila eða öðrum þeim sem slík lán veita. Jafnframt er sennilegt að úrslit í máli því sem sóknaraðilar hafa höfðað gegn varnaraðila muni hafa umtalsverð áhrif á fjárhagslega hagsmuni þessa hóps eða alla vega verulegan hluta hans. Af þeim sökum og með vísan til þess sem að framan segir verður að líta svo á að hér sé um að ræða svo almenna hagsmuni að þeir valdi ekki vanhæfi dómara, einir og sér. Samkvæmt því verður ekki talið að sú aðstaða að dómari skuldi verðtryggt lán hjá varnaraðila sé til þess fallin að draga óhlutdrægni hans með réttu í efa við úrlausn þess máls sem hér um ræðir. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómarann að fara áfram með málið.

Rétt er að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2014.

                Úrlausn á sakarefni málsins getur haft almenna þýðingu fyrir lántaka hjá stefnda Íbúðarlánasjóði. Dómari málsins tók 18 milljóna króna lán hjá stefnda árið 2007 og eru eftirstöðvar þess uppreiknaðar miðað við vísitölu neysluverðs ríflega 26 milljónir króna. Í þessu ljósi telur dómari að fyrir hendi séu aðstæður sem séu fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu, sbr. g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Því víkur hann sæti í málinu.

                Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

                Ásmundur Helgason héraðsdómari víkur sæti í máli þessu.