Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Föstudaginn 9

 

Föstudaginn 9. janúar 2004.

Nr. 492/2003.

Pétur Stefánsson ehf.

(Aðalsteinn E. Jónasson hrl.)

gegn

Erni Stefánssyni

(enginn)

 

Kærumál. Dómarar.Vanhæfi.

P ehf. krafðist að héraðsdómari viki sæti í máli hans gegn E sökum þess að dómarinn hefði viðhaft tiltekin ummæli í þinghaldi í máli sem rekið var samhliða. Með vísan til þess að ekki yrði séð að dómarinn hefði andmælt því að hafa látið umrædd ummæli falla var fallist á kröfu P ehf. og dómaranum gert að víkja sæti í málinu, sbr. g. lið 5. gr. lag nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2003, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ólöf Pétursdóttir dómstjóri viki sæti í máli, sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að dómaranum verði gert að víkja sæti í málinu. Hann krefst einnig kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Krafa sóknaraðila er reist á því að dómari málsins hafi í þinghaldi í máli, sem rekið er samhliða þessu máli, viðhaft þau ummæli að hún teldi tiltekin fordæmi Hæstaréttar mjög skýr um sakarefni málsins og látið í ljós það álit að ekkert væri fram komið í málatilbúnaði sóknaraðila sem réttlætti að vikið yrði frá þeim fordæmum. Fengi dómarinn ekki betur séð en að mjög yrði á brattann að sækja fyrir sóknaraðila. Var í báðum málunum kveðinn upp úrskurður um hæfi dómarans í tilefni af þessum ummælum og hefur úrskurður í hinu málinu einnig verið kærður til Hæstaréttar, sbr. mál nr. 491/2003. Hafi dómarinn lýst því yfir í fyrsta þinghaldi að mál þessi væru hliðstæð. Af því megi ráða að dómarinn hafi þá þegar verið búinn að taka efnislega afstöðu til sakarefnis málsins og fordæmisgildis tiltekinna dóma Hæstaréttar fyrir úrslit þess. Þótt dómari leiti sátta með aðilum meðan á málsmeðferð standi breyti það engu um að honum beri að varðveita hæfi sitt og tjá sig ekki efnislega um afstöðu sína til þess ágreinings, sem til úrlausnar sé, fyrr en í dómi.

Af forsendum hins kærða úrskurðar verður ekki ráðið að dómarinn andmæli því að hafa látið þau ummæli falla, sem sóknaraðili reisir kröfu sína á. Að þessu virtu og með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 488/1998 í dómasafni réttarins 1998, bls. 4512 verður fallist á með sóknaraðila að rétt sé að dómarinn víki sæti í málinu með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri víkur sæti í málinu.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 3. desember 2003.

                Málið höfðaði stefnandi Örn Stefánsson, Grundarhvarfi 19, Kópavogi þann 26. ágúst 2003 og gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 5.000.000 króna auk dráttarvaxta og málskostnaðar.

                Stefndi Pétur Stefánsson ehf., Dalvegi 26, Kópavogi, krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður og álag á málskostnað.

                Dómari fékk málið úthlutað þann 27. október síðastliðinn og boðaði til þing­halds þann 10. nóvember síðastliðinn til þess að leita sátta með aðilum samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

                Í því þinghaldi kannaði dómari möguleika til sátta með aðilum en málið snýst um uppgjör launa stefnanda sem hafði verið skipstjóri hjá stefnda eftir fyrirvaralausa uppsögn.

                Lögmaður stefnda óskaði eftir stuttum fresti til frekari sáttaumleitana.

                Málið var á ný tekið fyrir þann 17. nóvember síðastliðinn. Í því þinghaldi upp­lýsti lögmaður stefnda að forsvarsmaður stefnda væri út á sjó og af þeim sökum hefði hann ekki haft tækifæri til þess að ræða við umbjóðanda sinn. Lögmaðurinn upplýsti að forsvarsmaður stefnda væri væntanlegur í land í síðustu viku nóvember. Með sam­þykki lögmanns stefnanda var málinu frestað til mánudagsins 1. desember til frekari sáttaumleitana.

                Þann 1. desember var málið tekið fyrir á ný og nú krafðist lögmaður stefnda að dómari viki sæti með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Kröfu sína rökstuddi lögmaður stefnda með þeim rökum að samhliða þessu málið sé rekið annað mál E-2325/2003: Guðmundur Bárðarson gegn Pétri Stefánssyni ehf. Í þinghaldi í því máli þann 10. nóvember síðastliðinn hafi komið fram hjá dómaranum að hún teldi að mál þessi væru mjög hliðstæð. Í ljósi þess og með vísan til þeirra ummæla dómarans sem að ofan greinir telur stefndi að einnig í því máli séu uppi aðstæður sem gefi honum réttmæta ástæðu til að efast um óthlutdrægni dómarans. Auk þess séu mál þessi mjög tengd, þau séu bæði höfðuð á hendur sama aðila og jafnframt fara sömu lögmenn með málin fyrir aðila. Málin snúast bæði um uppsagnir stefnda á skipverjum á sama skipi og hafa þinghöld í málunum alltaf farið saman.

                Lögmaður stefnanda mótmælti því að dómari víki sæti í máli þessu. Dómari hafi í þessu máli engin ummæli viðhaft og því verði ekki séð á hvaða forsendum hún geti talist vanhæf til þess að fara með málið.

                Dómari boðaði til þinghalds 10. nóvember síðastliðinn til þess að leita sátta með aðilum samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í því þinghaldi kom fram að uppgjör hafði farið fram við stefnanda í samræmi við niður­stöðu Hæstaréttar í dómi 1990:1246. Dómari innti lögmann stefnda eftir því hverju það sætti og sagði lögmaðurinn þá að það væri vegna þess að stefnandi hafði verið skipstjóri hjá stefnda.

                Dómari getur ekki fallist á það með stefnda að spurningar hennar varðandi fordæmisgildi hæstaréttardóms 1990:1246 leiði til vanhæfis á grundvelli g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Af þeirri ástæðu telur dómari ekki lagaskilyrði til þess að verða við kröfu stefnda að víkja sæti í máli þessu.

Ólöf Pétursdóttir dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð ar o r ð :

Dómari málsins, Ólöf Pétursdóttir, hafnar að víkja sæti í máli þessu.