Hæstiréttur íslands

Mál nr. 227/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi


Miðvikudaginn 13

 

Miðvikudaginn 13. maí 2009.

Nr. 227/2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Kristján B. Thorlacius hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var felldur úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.    

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 5. júní 2009 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að beitt verði vægari úrræðum en gæsluvarðhaldi.  

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að rannsókn málsins sé ekki lokið. Auglýst hafi verið eftir vitnum sem kunni að hafa séð til ferða ætlaðs brotaþola, enn sé verið að vinna að tæknirannsóknum og meðal annars hafi verið tekin sýni til DNA rannsókna. Þá segir í greinargerð sóknaraðila: „Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa notfært sér aðstöðu sína þar sem hann er dyravörður á veitingastað til þess að leiða ósjálfbjarga gest staðarins sakir ölvunar í bifreið sína þar sem hann nauðgaði henni og er grunur um að hann hafi kallað bróður sinn til sem einnig hafi nauðgað stúlkunni.“ Varnaraðili og bróðir hans hafa báðir sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Bróðir varnaraðila mun nú ekki lengur sitja í gæsluvarðhaldi.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 má setja mann í gæsluvarðhald ef fram er kominn rökstuddur grunur um að hann hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing er lögð við og að ætla megi að sakborningur muni torvelda rannsókn málsins. Krafa sóknaraðila nú um áframhaldandi gæsluvarðhald er hinn bóginn reist á 2. mgr. 95. gr. laganna, en þar eru þau skilyrði sett að fram sé kominn „sterkur grunur“ um að maður hafi framið afbrot sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Rannsókn málsins stendur ennþá yfir og verður ekki fallist á að nú sé fyrir hendi annað og meira en „rökstuddur grunur“ um að varnaraðili hafi gerst sekur um það afbrot sem til rannsóknar er, sbr. tilgreind orð sóknaraðila í greinargerð til Hæstaréttar. Telst varnaraðili ekki hafa fært fyrir því viðhlítandi rök og uppfyllt sé það skilyrði 2. mgr. 95. gr. um að fram sé kominn „sterkur grunur“ um að varnaraðili hafi framið umrætt afbrot. Þegar af þeirri ástæðu eru ekki efni til að verða við kröfu hans og ber því að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. maí 2009.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt.[...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins. 5. júní 2009 kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að Kærði hefur frá 2. maí sl. sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. og b. lið 1. mgr. 99. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

kl. 5:39 þann 2. maí 2009 hafi lögregla fengið tilkynningu um að fara að Bústaðavegi, á aðrein að Hafnarfjarðarvegi vegna slyss þar sem stúlka hafi fleygt sér út úr bifreið á ferð. Hafi stúlkan, A, verið færð slysadeild og vinur hennar C farið með henni.

    Á vettvangi hafi verið rætt við vitnið B, leigubílstjóra, sem tjáði lögreglu að hann hefði tekið A og vin hennar, C upp í bifreið sína við Hlöllabáta í miðbæ Reykjavíkur. Hafi A verið grátandi og í miklu uppnámi. Heyrði hann hana segja að henni hefði verið nauðgað af tveimur mönnum. Hún hafi svo kastað sér út úr bifreiðinni á Bústaðavegi. Lögregla hafi farið á slysdeild og rætt við brotaþola, A, og C félaga hennar.

Lögregla hafi farið á slysdeild og rætt við brotaþola, A, og C. Hafi A verið miklu tilfinningalegu áfalli og átt erfitt með að greina heildstætt frá. Kvað hún að henni hefði verið nauðgað af tveimur mönnum í bifreið nálægt Kolaportinu. Kvaðst hún hafa hitt annan sem hún kannaðist við fyrir, inni á skemmtistað og farið með honum inn í bifreið skammt frá. Hann hafi orðið ágengur við hana og hafi með valdi hindrað að hún kæmist út úr bifreiðinni. Kvað hún hann hafa sagt að hún yrði að bíða eftir bróður hans kæmi. Skömmu síðar hafi annar maður komið og kvað hún þá báða hafa haft samræði við hana gegn hennar vilja.

Rætt hafi verið við C sem tjáði lögreglu að hann og brotaþoli hefðu orðið viðskila. Hafi hann áttað sig á því um kl. 4:45.  Klukkan 5:15 hefði hann fengið frá henni  smáskilaboð þar sem staðið hefði:“Hjálp“. Hann hafi hringt í hana örskömmu síðar og þá hafi hún svarað kl. 5:18 og sagst vera við Hlöllabáta. Er hann hafi komið þangað hafi hann séð hvar hún sat á jörðinni og hlúði fólk að henni. Hafi hún greint honum frá því strax að sér hefði verið nauðgað í bifreið af tveimur mönnum. Þau hafi  farið saman í leigubíl þar sem brotaþoli hafi komist í sífellt meira uppnám uns hún hafi kastað sér út úr bílnum og slasast.

Skýrsla hafi verið tekin af A hjá lögreglu og hafi hún þá borið í meginatriðum á sama veg um atvik máls. Hafi hún verið mjög miður sín þegar hún gaf skýrsluna og greinilegt hafi verið að það tók verulega á hana að fara yfir atburðarrásina. Hafi hún lýst því að hún hefði verið mjög ölvuð umrætt sinn og hafa talið manninn sem leiddi hana út í bifreiðina hafa ætlað að keyra hana heim. Hann hafi hins vegar sest í aftursætinu með henni. Skyndilega hafi annar maður komið inn í bifreiðina og sest hinum megin við hana. Hún hafi kveðið mennina í sameiningu hafa beitt hana þvingun og hafa haft við hana samræði um leggöng. Hafi þetta gerst mjög hratt og hafi hún streist á móti. Að lokum hafi hún komist út úr bifreiðinni, náð að draga upp um sig leggingsbuxur og hlaupið yfir götuna en þeir hafi kallað á eftir henni að hún væri mella á spænsku.

A hafi sagst kannast við mennina báða. Hafi hún sagt þá vera spænskumælandi bræður sem ynnu eða hefðu unnið á skemmtistaðnum Y á Hverfisgötu. Hafi hún lýst þeim sem latneskum þéttholda karlmönnum um fertugt. Þá væru þeir mjög líkir.

Lögregla hafi í kjölfarið farið á Y en þar hafi kærði, D og meðkærði, X, verið handteknir kl. 7:15.

Kærði hafi í skýrslutökum borið að hafa haft afskipti af ölvaðri stúlku á skemmtistaðnum Z [heimilisfang], þar sem hann vinni. Stúlkan hafi þekkt hann sem dyravörð af Y og beðið hann að aka sér heim. Kvaðst hann hafa fylgt henni að bílnum sínum sem lagt hafi verið í stæði við Tollhúsið. Hann hafi ætlað að leyfa henni að bíða þar til hann væri búinn að vinna og hafi þau sest í aftursætið. Kvað hann stúlkuna hafa grátið og liðið eitthvað illa en hann hafi hlúð að henni, klappað á bak hennar og leyft henni að leggja höfuð í kjöltu sína. Hafi stúlkan reynt að opna bílhurðina til þess að kasta upp. Hann hafi kveðið hana hafa fengið skilaboð í síma sinn frá vini sínum sem var að leita að henni og hafi hún ætlað að hringja í hann en ekki getað það. Kærði hafi sagst hafa þurft að halda aftur til vinnu og sagt við stúlkuna að hann gæti ekki skilið hana eftir í bifreiðinni þar sem mikið væri af persónulegum munum í bílnum en við það hafi hún komist í uppnám. Kærði hafi sagst hafa hitt bróður sinn á Y um kl. 06:30. Hann hafi neitaði því að hafa haft kynmök við hana og kvað engan samdrátt hafa verið þeirra á milli.

Við læknisskoðun á A hafi komið í ljós að sprunga var við leggangaop sem geti verið til merkis um innþrengingu í leggöng með valdi. Þá hafi hún borið aðra áverka sem verði sennilega raktir til fallsins úr leigubifreiðinni. Fram komi í skýrslunni að hún hafi verið miður sín.

Rannsókn málsins sé langt á veg kominn, ef undan séu skyldar tæknirannsóknir. Rannsakaðar hafi verið upptökur úr eftirlitsmyndavél en á þeim hafi ekkert sést sem kemur að haldi. Það sama megi segja um símagögn. Þá hafi yfirheyrslur og skýrslutökur af vitnum staðið yfir. Tvö vitni, sem komi að málinu strax í kjölfar hinnar meintu nauðgunar, beri um að A hafi verið í miklu uppnámi umrædda nótt og beri annað þeirra um að hún hafi sagt að sér hafi verið nauðgað af tveimur karlmönnum í bifreið. Fyrir liggi að kærði hafi farið út af vinnustað sínum sem sé skammt frá og aðstoðað A út í bifreið sína og sest hjá henni í aftursætið. Beri honum og A ekki saman um það sem þar hafi gerst. Framburður kærða þyki um margt tortryggilegur og ótrúverðugur. Þá megi finna ósamræmi í framburði hans. Til að mynda hafi hann sagst hafa ætlað að aka A heim og hafi sagt við hana að hún gæti beðið í bílnum eða lagt sig á meðan hann lyki vinnu en á öðrum stað segði hann frá því að hann hefði sagt að hann gæti ekki skilið hana eina eftir í bílnum. Þá hafi kærði kveðið A hafa verið í uppnámi án þess að gefa sérstakar skýringar á því. Vafalaust þyki að kærði hafi verið með A í bifreiðinni umrætt sinn og sé í þessu sambandi vísað til hans eigin framburðar, þar sem fram komi að hann hafi séð nánar tilgreind skilaboð í síma hennar. Hafi kærði látið að því liggja að hugsanlega hafi þarna verið önnur stúlka á ferðinni.

Eins og rakið hafi verið þyki fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi nauðgað A í félagi við annan mann. Framburður hennar um að kærði hafi verið annar þessara manna hefi verið staðfastur. Hún hafi þekkt kærða lítið eitt og tengdi hann við skemmtistaðinn Y þar sem kærði starfi sem dyravörður. Þá hafi hún bent á kærða við myndbendingu. Þyki ástand A og það sem vitni hafi borið um, renna stoðum undir að hún hafi orðið fyrir skelfilegri reynslu sennilega einhvern tíman á tímabilinu ca. 4:40-5:20 umræddan morgunn.

Ætlað brot kærða teljist varða við 1. mgr 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Þá verði ekki hjá því litið að um grófa atlögu sé að ræða, sem framin hafi verið á sársaukafullan og meiðandi hátt. Teljist meint brot kærða þess eðlis að gæsluvarðhald yfir honum sé nauðsynlegt m.t.t. almannahagsmuna og ekki forsvaranlegt að hann gangi laus. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem geti varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu, en um er að ræða brot gegn 1. mgr. 194. gr. laga nr. 19/1940. Rannsókn málsins er vel á veg komin og einungis eftir að vinna að tæknirannsókn málsins. Kærði hefur til þessa dags sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Krafan nú er reist á almannahagsmunaákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu er kærði undir sterkum grun um að hafa framið alvarlegt kynferðisbrot, í félagi við annan mann, í miðbæ Reykjavíkur. Eins og hér stendur á og með hliðsjón af dómum Hæstaréttar Íslands í málum nr. 616/2007 og nr. 666/2007 verður fallist á að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu fyrir hendi. Verður kærða því gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæslu­varð­haldi, allt til föstudagsins. 5. júní 2009 kl. 16:00.