Hæstiréttur íslands

Mál nr. 70/2013


Lykilorð

  • Hlutafélag
  • Hlutabréf
  • Lausafjárkaup
  • Fjármálafyrirtæki
  • Skaðabætur


                                     

Fimmtudaginn 10. október 2013.

Nr. 70/2013.

Guðmundur Jón Matthíasson

(Ásgeir Þór Árnason hrl.

Magnús H. Magnússon hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

Fjármálaeftirlitinu og

(Jóhannes Karl Sveinsson hrl.)

Kauphöll Íslands hf.

(Hlynur Jónsson hrl.)

og gagnsök

Hlutafélag. Hlutabréf. Lausafjárkaup. Fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlit. Skaðabætur.

Hinn 29. september 2008 ákvað F að stöðva tímabundið viðskipti með fjármálagerninga GB hf. Þann sama dag komust helstu eigendur GB hf. og ríkisstjórn íslands að samkomulagi um að ríkissjóður legði félaginu til nýtt hlutafé og yrði þannig eigandi 75% hlutafjár í því. Hinn 30. september 2008 opnaði F aftur fyrir viðskipti með fjármálagerninga GB hf. og þann sama dag keypti G hlutabréf í félaginu. Að morgni 6. október sama ár ákvað F aftur að stöðva tímabundið viðskipti með fjármálagerninga GB hf., en þá um kvöldið voru samþykkt á Alþingi lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði. Hinn 7. október 2008 tók F yfir vald hluthafafundar í GB hf., vék stjórn félagsins frá og setti yfir það skilanefnd. G krafðist þess að Í, F og K hf. yrði gert að greiða sér skaðabætur sem næmu fjárhæð þeirri sem hann greiddi fyrir hlutabréfin í GB hf. 30. september 2008. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að í tilkynningum um samkomulag GB hf. og ríkisstjórnarinnar hefði komið fram að hluthafafundur í GB hf. þyrfti að samþykkja ráðstöfunina. Ekki hefði verið einsýnt hvernig niðurstaðan yrði um þetta á hluthafafundi. Er F hefði opnað á ný fyrir viðskipti með fjármálagerninga GB hf. hefði komið fram að þeir hefðu verið settir á athugunarlista. Þá hefði Í þurft að afla sérstakrar lagaheimildar fyrir ráðstöfuninni, sbr. 41. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Var það mat Hæstaréttar að G hefði ekki mátt leggja traust á að Í væri í raun orðinn eða með vissu að verða eigandi meiri hluta hlutafjár í GB hf. og af þeim sökum væri áhætta af kaupunum takmörkuð. Þvert á móti hefði G tekið augljósa og stórfellda áhættu með kaupunum sem Í, F og K hf. gætu enga ábyrgð borið á, enda hefði ekki verið sýnt fram á að F eða K hefði á þessum tíma borið að girða fyrir viðskipti með hlutabréf í GB hf. Var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu Í, F og K hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 31. janúar 2013. Hann krefst þess að gagnáfrýjendum verði óskipt gert að greiða sér 10.032.438 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. september 2008 til 20. febrúar 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu héraðsdómi hver fyrir sitt leyti 17. apríl 2013. Þeir krefjast þess að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað, sem þeim verði dæmdur í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi mun formaður stjórnar Glitnis banka hf. hafa greint frá því á fundi með bankastjórum Seðlabanka Íslands 25. september 2008 að óttast væri að fyrrnefndi bankinn myndi ekki geta staðið skil á verulega hárri skuld, sem væri á gjalddaga um miðjan október á sama ári, og þarfnaðist hann af þeim sökum fyrirgreiðslu þess síðarnefnda. Eftir frekari viðræður um þetta mun Seðlabanki Íslands hafa komið á framfæri boði um að gagnáfrýjandinn íslenska ríkið legði Glitni banka hf. til nýtt hlutafé að fjárhæð um 84.000.000.000 krónur við hlutafjáraukningu og munu „stjórn og stærstu hluthafar Glitnis hafa fallist á viðskiptin með fyrirvara um samþykki hluthafafundar“, svo sem sagði í fréttatilkynningu, sem bankinn lét frá sér fara af þessu tilefni 29. september 2008. Fyrr þann sama dag hafði gagnáfrýjandinn Fjármálaeftirlitið ákveðið að stöðva tímabundið viðskipti með fjármálagerninga, sem Glitnir banki hf. hafi gefið út og teknir hafi verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði. Í tilkynningu um þessa ákvörðun var greint frá því að hún hafi verið tekin „til að vernda jafnræði fjárfesta“, svo og að beðið væri „eftir tilkynningu frá félaginu.“ Í yfirlýsingu, sem forsætisráðuneytið sendi frá sér sama dag, kom fram að samkomulag hafi verið gert milli ríkisstjórnarinnar og „helstu eigenda Glitnis banka hf. að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið“ um að ríkissjóður legði fyrir milligöngu seðlabankans Glitni banka hf. til nýtt hlutafé með áðurgreindri fjárhæð og yrði með því eigandi 75% hlutafjár í félaginu. Þetta hafi verið gert „með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu Glitnis og einstaklega erfiðum aðstæðum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum um þessar mundir.“ Þess var getið að boðað yrði „til hluthafafundar í Glitni svo fljótt sem samþykktir leyfa þar sem tillaga þar að lútandi verður lögð fram til samþykktar“, svo og að ekki væri stefnt að því að ríkissjóður ætti þennan hlut í félaginu til langframa, enda væri tilgangur þessarar ráðstöfunar að „tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu.“ Að morgni 30. september 2008 lét gagnáfrýjandinn Fjármálaeftirlitið frá sér fara tilkynningu, þar sem sagði að í kjölfar fréttatilkynningar Glitnis banka hf. og umfjöllunar um samkomulag hans við ríkisstjórnina um að ríkissjóður legði honum til nýtt hlutafé væri það mat gagnáfrýjandans að „ekki sé lengur til staðar sama hætta á ójafnræði fjárfesta.“ Hann hafi því ákveðið að frá og með þeim degi mætti á ný eiga viðskipti með fjármálagerninga Glitnis banka hf. Þann sama morgun birti gagnáfrýjandinn Kauphöll Íslands hf. tilkynningu með fyrirsögninni: „Opnað fyrir viðskipti og fjármálagerningar Glitnis banka færðir á athugunarlista“, en í henni sagði eftirfarandi: „Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að opna fyrir viðskipti með fjármálagerninga sem gefnir eru út af Glitni banka hf. Kauphöllin hefur ákveðið að færa fjármálagerninga útgefanda á athugunarlista að beiðni Fjármálaeftirlitsins í samræmi við lið 8.2 í Reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga, a.m.k. þar til hluthafafundur hefur samþykkt tilboð ríkisstjórnar, enda eru enn fyrir hendi aðstæður sem leiða af sér umtalsverða óvissu varðandi félagið og verðmyndun verðbréfanna.“

Aðaláfrýjandi keypti 30. september 2008 hlutabréf í Glitni banka hf. að nafnvirði 1.700.000 krónur fyrir samtals 10.032.438 krónur að meðtöldum kostnaði. Viðskipti með slík hlutabréf munu hafa staðið yfir í kauphöll þar til gagnáfrýjandinn Fjármálaeftirlitið ákvað að morgni 6. október sama ár að stöðva tímabundið viðskipti með fjármálagerninga Glitnis banka hf. og fimm annarra félaga. Í tilkynningu um þetta sagði að það væri mat gagnáfrýjandans að „aðstæður umræddra útgefenda séu þannig að viðskiptin mundu skaða hagsmuni fjárfesta, enda ríkir umtalsverð óvissa sem kemur í veg fyrir eðlilega verðmyndun verðbréfanna.“ Yrði „jafnræði fjárfesta ... ekki tryggt með öðrum hætti, þar sem verðmótandi upplýsingar séu of dreifðar til að unnt sé að tryggja trúnað þeirra.“

Að kvöldi 6. október 2008 voru samþykkt á Alþingi lög um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, sem urðu nr. 125/2008, en þau fólu meðal annars í sér ýmsar breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Á grundvelli 100. gr. a. síðarnefndu laganna, sbr. 5. gr. þeirra fyrrnefndu, ákvað gagnáfrýjandinn Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Með annarri ákvörðun gagnáfrýjandans 14. sama mánaðar voru nánar tilgreindar eignir og skuldbindingar Glitnis banka hf. fluttar til Nýja Glitnis banka hf., sem gagnáfrýjandinn íslenska ríkið hafði þá stofnað. Glitnir banki hf., sem nú ber heitið Glitnir hf., er enn til slita eftir reglum laga nr. 161/2002 og er óumdeilt að hlutabréf í félaginu séu einskis virði. Í máli þessu leitar aðaláfrýjandi skaðabóta úr hendi gagnáfrýjenda sem svara til fjárhæðarinnar, sem hann greiddi samkvæmt áðursögðu fyrir hlutabréf í Glitni banka hf. við kaupin 30. september 2008.

II

Í áðurnefndum tilkynningum Glitnis banka hf. og ríkisstjórnarinnar 29. september 2008 um samkomulag, sem tekist hafði um að gagnáfrýjandinn íslenska ríkið legði félaginu til nýtt hlutafé, var greint frá því að þessi ráðstöfun væri gerð í ljósi þröngrar lausafjárstöðu bankans og einstaklega erfiðra aðstæðna á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Þar kom einnig skýrlega fram að hluthafafundur í félaginu þyrfti að samþykkja þessa ráðstöfun áður en hún kæmi til framkvæmdar, svo og að með þessu framlagi yrði gagnáfrýjandinn eigandi 75% hlutafjár í félaginu. Af þessu síðastnefnda var ljóst að þótt ráðagerðir þessar gengju eftir yrði félagið hvorki í eigu gagnáfrýjandans né fjárhagslega á ábyrgð hans og hafði hann þegar á fyrstu stigum látið í ljós að hann vænti þess að eiga þennan hlut í félaginu aðeins í skamman tíma. Þá gat ekki orkað tvímælis að hækkun hlutafjárins yrði að fara fram með þeim skilmála að eldri hluthafar nytu ekki áskriftarréttar að nýja hlutafénu, en af því leiddi samkvæmt 3. mgr. 34. gr., sbr. 1. mgr. 93. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög, að tillaga um þetta þyrfti samþykki minnst ⅔ hluta greiddra atkvæða á hluthafafundi, svo og samþykki hluthafa, sem réðu yfir minnst ⅔ hlutum þess hlutafjár sem þar yrði farið með atkvæði fyrir. Í tilkynningu ríkisstjórnarinnar sagði að samkomulag um þessar ráðstafanir hafi verið gert við „helstu eigendur“ félagsins og í tilkynningu Glitnis banka hf. var tekið svo til orða að „stjórn og stærstu hluthafar“ félagsins hafi átt þar í hlut, en í hvorugu tilviki var nokkuð að finna, sem gefið gat til kynna hvað þessir hluthafar myndu ráða yfir miklum hluta atkvæða á hluthafafundi. Fram hjá því verður ekki horft að samkvæmt gögnum málsins kom fram í dagblaði strax að morgni 30. september 2008 að nafngreindur maður, sem var sagður vera „stærsti eigandi Glitnis sem var þjóðnýttur í gær“, teldi ljóst að hluthafar í félaginu myndu nýta tíma fram að fyrirhuguðum hluthafafundi „til að leita annarra leiða“, enda væri þetta það allra versta sem í boði væri og „stærsta bankarán Íslandssögunnar“. Þegar gagnáfrýjandinn Kauphöll Íslands hf. tilkynnti að morgni 30. september 2008 að opnað hafi verið á ný fyrir viðskipti með fjármálagerninga Glitnis banka hf. kom fram að þeir hafi verið færðir á svonefndan athugunarlista, þar sem enn væru fyrir hendi aðstæður, sem leiddu af sér talsverða óvissu um félagið og verðmyndun verðbréfanna. Auk alls þessa fæst ekki séð að gagnáfrýjandinn íslenska ríkið hefði getað komið þessari ráðstöfun við án þess að aflað yrði til hennar sérstakrar lagaheimildar, sbr. 41. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Þegar allt þetta er virt fór því fjarri að aðaláfrýjandi hafi við ákvörðun um hlutabréfakaup sín 30. september 2008 mátt leggja traust á að gagnáfrýjandinn íslenska ríkið væri í raun orðinn eða með vissu að verða eigandi meiri hluta hlutafjár í Glitni banka hf. og af þeim sökum væri áhætta af kaupunum takmörkuð. Þvert á móti tók aðaláfrýjandi augljósa og stórfellda áhættu með gerðum sínum, sem gagnáfrýjendur geta enga ábyrgð borið á, enda hafa ekki verið færð haldbær rök fyrir því að gagnáfrýjendunum Fjármálaeftirlitinu eða Kauphöll Íslands hf. hefði á þeim tíma, sem hér um ræðir, borið að girða fyrir viðskipti með hlutabréf í Glitni banka hf. Þegar af þessum ástæðum verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu gagnáfrýjenda af kröfu aðaláfrýjanda.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður að dæma aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi fyrir hvern þeirra eins og greinir í dómsorði.

Það athugast að engin ástæða var til að beina dómkröfum í máli þessu að gagnáfrýjandanum Fjármálaeftirlitinu samhliða íslenska ríkinu.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Aðaláfrýjandi, Guðmundur Jón Matthíasson, greiði gagnáfrýjendum, íslenska ríkinu, Fjármálaeftirlitinu og Kauphöll Íslands hf., hverjum fyrir sig samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2012.

             Mál þetta höfðaði Guðmundur Jón Matthíasson, kt. [...], Stararima 4, Reykjavík, með stefnu birtri 25. og 26. október 2011 á hendur íslenska ríkinu, kt. [...], Fjármálaeftirlitinu, kt. [...], Höfðatúni 2, Reykjavík og Kauphöll Íslands hf., kt. [...], Laugavegi 182, Reykjavík.  Málið var dóm­tekið að lokinni aðalmeðferð 5. október sl.  Það var endurupptekið 8. nóvember og dómtekið á ný 19. nóvember. 

             Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða honum óskipt skaðabætur að fjárhæð 10.032.438 krónur, ásamt vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. september 2008 til 20. febrúar 2010, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi máls­kostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun. 

             Stefndu, íslenska ríkið og fjármálaeftirlitið, krefjast sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu. 

             Stefndi, Kauphöll Íslands, krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar.  Þá krefst þessi stefndi álags á málskostnað samkvæmt a- og c-liðum 1. mgr. og 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.

             Hlutabréf í Glitni banka, kt. [...], voru skráð í Kauphöll Íslands og fóru viðskipti með þau fram í gegnum Kauphöllina.  Mánudaginn 29. september 2008 stöðvaði Fjármálaeftirlitið tímabundið viðskipti með hlutabréf og alla aðra fjármála­gerninga sem gefnir höfðu verið út af Glitni og teknir höfðu verið til viðskipta á markaðnum.  Í tilkynningu eftirlitsins sagði:  „Ákvörðun þessi er tekin til að vernda jafnræði fjárfesta.  Beðið er eftir tilkynningu frá félaginu.“

             Sama dag gaf forsætisráðuneytið út tilkynningu undir fyrirsögninni „Samkomulag um að ríkissjóður leggi Glitni til nýtt hlutafé“.  Í tilkynningunni segir: 

             „Gert hefur verið samkomulag milli ríkisstjórnar Íslands og helstu eigenda Glitnis banka hf. að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið um að ríkissjóður leggi bankanum til nýtt hlutafé.  Þetta er gert með hliðsjón af þröngri lausafjárstöðu Glitnis og einstaklega erfiðum aðstæðum á alþjóðlegum fjármála­mörkuðum um þessar mundir.  Ríkissjóður mun með milligöngu Seðlabanka Íslands leggja Glitni til hlutafjárframlag að jafnvirði 600 milljóna evra (eða um 84 ma. kr.) og með því verða eigandi að 75% hlut í Glitni. 

             Boðað verður til hlutahafafundar í Glitni sem fljótt sem samþykktir leyfa þar sem tillaga þar að lútandi verður lögð fram til samþykktar. 

             Fjármálaeftirlitið metur eiginfjárstöðu og eignasafn Glitnis traust.  Eiginfjár­hlutfall Glitnis verður 14,5% eftir þessa aðgerð.  Rekstur bankans verður með eðlilegum hætti. 

             Ríkissjóður stefnir ekki að því að eiga eignarhlutinn í bankanum til langframa.  Tilgangurinn með þessari aðgerð er að tryggja stöðugleika í fjármálakerfinu.“

             Viðskipti með bréf Glitnis í Kauphöllinni voru heimiluð á ný 30. september.  Í tilkynningu Kauphallarinnar segir:  „Fjármálaeftirlitið hefur ákveðið að opna fyrir viðskipti með fjármálagerninga sem gefnir eru út af Glitni banka hf.  Kauphöllin hefur ákveðið að færa fjármálagerninga útgefanda á athugunarlista að beiðni Fjármála­eftirlitsins í samræmi við lið 8.2 í Reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga, a.m.k. þar til hluthafafundur hefur samþykkt tilboð ríkisstjórnar, enda eru enn fyrir hendi aðstæður sem leiða af sér umtalsverða óvissu varðandi félagið og verðmyndun verðbréfanna.“ 

             Þennan sama dag keypti stefnandi hlutabréf í Glitni að nafnverði 1.700.000 krónur á genginu 5,842829 og greiddi því 9.932.810 krónur fyrir hlutabréfin.  Þá greiddi hann 99.328 krónur í þóknun og 300 króna afgreiðslugjald, samtals 10.032.438. 

             Stefnandi sagði í skýrslu sinni fyrir dómi að ráðgjafinn í bankanum hefði sagt honum að það væri góður kostur að kaupa þessi hlutabréf á þessum tíma.  Hann hafi ekki sagt sér frá neinum fyrirvörum um aðkomu ríkisins, ekki nefnt neina óvissu.  Þá kvaðst stefnandi ekki hafa séð tilkynningu Kauphallarinnar þar sem sagt hafi verið frá óvissu um bankann og að bréfin væru á athugunarlista.  Stefnandi kvaðst aðeins hafa kynnt sér það sem kom frá ríkisstjórninni og forsætisráðherra.  Sér hefði litist vel á að fjárfesta í bankanum sem væri orðinn ríkisbanki. 

             Stefnandi kvaðst vera véltæknifræðingur að mennt og vera framkvæmdastjóri fyrirtækis sem framleiddi og seldi kæli- og frystibúnað.  Hann hefði ekki stundað hlutabréfaviðskipti áður, aðeins keypt í verðbréfasjóðum til að njóta skattafsláttar  Hann kvaðst hafa notað sparifé sitt og konu sinnar við kaupin, hann gat ekki skýrt frá því hvernig því hefði verið komið fyrir áður. 

             Í kvittun fyrir viðskiptunum kemur fram að sölumaður hafi verið Brynjólfur Flosason og uppgjörsaðili Margrét Sigmundsdóttir.  Þau voru ekki leidd sem vitni í málinu. 

             Þann 6. október 2008 tilkynnti Fjármálaeftirlitið á ný að það hefði tímabundið stöðvað viðskipti með fjármálagerninga gefna út af Glitni banka hf. og fleiri aðilum.  Þann 7. október tók Fjármálaeftirlitið síðan yfir rekstur bankans samkvæmt heimild í lögum nr. 125/2008 og skipaði honum skilanefnd.  Í kjölfarið var Nýr Glitnir banki hf., nú Íslandsbanki, stofnaður.  Tók hann við talsverðum hluta af starfsemi Glitnis.  Glitnir banki hf. er til slitameðferðar og er miðað við það í málatilbúnaði allra aðila málsins að allt hlutafé í bankanum sé glatað. 

             Í stefnu er tekið svo til orða um þessa aðgerð að með henni hafi verið búið að ríkisvæða bankann og íslenska ríkið orðið eini eigandi allra eigna Glitnis banka hf.  Glitnir banki hf. hafi verið orðinn eignalaus og setið uppi með stórfelldar skuldir án þess að eiga eignir til þess að mæta þeim.  Þeir sem keypt hefðu hlutafé dagana 30. september til 6. október væru þar með búnir að tapa því sem þeir hefðu varið til kaupanna.  Vill stefnandi fá stefndu til að bæta sér það tjón sem þeir hafi valdið honum, hver um sig og sameiginlega. 

             Þá segir í stefnu að á þessum dögum hafi verið skráð 878 viðskipti með hluta­bréf í Glitni hjá Kauphöllinni.  Viðskiptin hafi numið samtals 3,9 milljörðum króna. 

             Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er fjallað ítarlega um fall Glitnis og aðdraganda þess.  Hluti af þessari skýrslu hefur verið lagður fram í málinu og verður að miða við að aðilar séu sammála lýsingu skýrslunnar á atvikum og niðurstöðum hennar.  Þeir hafa hvorki mótmælt henni né aflað gagna sem hnekkt gætu því sem þar kemur fram.  Verður vikið að nokkrum atriðum skýrslunnar í niðurstöðukafla dómsins. 

             Jónas Friðrik Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins, kom fyrir dóm sem vitni í málinu.  Hann sagði að dagana 26. og 27. september hefði verið rætt um beiðni sem borist hefði frá Glitni um lausafjáraðstoð.  Beiðnin hefði síðan verið afgreidd með ákvörðun um hlutafjárframlag.  Hann kvaðst hafa hitt forsvarsmenn bankans á fundi og vitað að fjármögnunarleiðir hefðu verið að lokast.  Hann sagði eins og fram kemur í áðurgreindri tilkynningu að viðskipti með bréf Glitnis hefðu verið stöðvuð á meðan beðið var eftir tilkynningu um aðkomu ríkisins.  Það hefðu all margir aðilar vitað af þessu og því hafi verið ójafnræði á markaðnum. 

             Fram kom í skýrslu Jónasar að þolpróf hefði verið gert á Glitni um þetta leyti og það hefði sýnt að bankinn þyldi áhlaup á innistæður í tiltölulega stuttan tíma.  Hann kvaðst ekki muna eftir því að Rúnar Guðmundsson hefði sagt sér eftir fund í Seðla­bankanum að bankarnir væru að falla.  Hins vegar hafi verið unnið að því að hafa viðbragðsáætlanir tilbúnar.  Beiðni Glitnis um aðstoð hefði komið mönnum í opna skjöldu. 

             Rúnar Guðmundsson, forstöðumaður hjá Fjármálaeftirlitinu, sagði að hann hefði að frumkvæði forstjóra eftirlitsins verið á fundi í Seðlabankanum 30. september.  Hann staðfesti það sem haft er eftir honum í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að ráðuneytisstjórinn í viðskiptaráðuneytinu hefði sagt þar við sig að bankarnir væru að falla.  Hann hafi ekki fengið neitt að vita um fundarefnið fyrr en hann kom í bankann.  Rætt hafi verið um vandræði innan bankakerfisins og hvernig mætti skipuleggja við­brögð stjórnvalda.  Ekki hafi verið rætt um neinar ákveðnar stofnanir eða banka.  Rúnar kvaðst hafa greint forstjóra eftirlitsins frá fundinum annað hvort sama dag eða morguninn eftir.  Það hafi fleiri fundir verið haldnir dagana á eftir. 

             Stefán Svavarsson var aðalendurskoðandi Seðlabankans haustið 2008.  Hann kannaði eigna- og skuldastöðu Glitnis sunnudaginn 5. október.  Hann kom fyrir dóm og vísaði til þess sem rakið er í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (7. bindi, bls. 50).  Þar er tekið orðrétt upp úr minnisblaði sem Stefán skrifaði til bankastjórnarinnar eftir heimsókn sína í Glitni:  „Vandinn sem við blasir er að mínu mati tvíþættur.  Annars vegar að erlend fjármögnun hefur brugðist vegna kulnunar á mörkuðum og af því stafar lausafjárvandi bankans en ekki vegna rýrnunar á eignasafni hans.  Hitt er svo einnig vandamál að efnahagsreikningur bankans er of stór, þegar jafnframt er tekið tillit til stöðu annarra banka.  Þá má búast við, jafnvel þótt takist að greiða niður skuldir við óþvingaðar aðstæður, og skala þannig niður reikninga bankanna, að eitthvert fé tapist eigi að síður sem gangi til rýrnunar á eigin fé.  Áhætta gagnvart þjóðarbúinu er mikil við þær aðstæður sem nú ríkja og lausafjárvandinn sem við blasir gæti orðið að alvarlegum eiginfjárvanda.“ 

             Magnús Kristinn Ásgeirsson, starfsmaður Kauphallarinnar, sagði fyrir dómi að viðskiptin með bréf Glitnis hefðu verið stöðvuð að frumkvæði Fjármálaeftirlitsins.  Þeim hefðu ekki borist frekari upplýsingar eftir að opnað hafði verið fyrir viðskipti á ný, fyrr en 6. október, þegar þau voru stöðvuð á ný. 

             Málsástæður og lagarök stefnanda

             Stefnandi höfðar málið til greiðslu skaðabóta vegna tjóns er hann kveðst hafa orðið fyrir með því að kaupa hlutabréf í Glitni banka hf. þann 30. september 2008, í trausti þess að íslenska ríkið væri eigandi að 75% hlutafjár í bankanum.  Stefnandi segir að stefndu beri hver um sig og sameiginlega skaðabótaábyrgð á tjóni hans. 

             Í fyrsta lagi hafi íslenska ríkið bakað sér bótaskyldu með því að standa ekki við yfirlýsingu um að leggja Glitni banka til nýtt hlutafé og verða meirihlutaeigandi í bankanum. 

             Í öðru lagi hafi Fjármálaeftirlitið bakað sér bótaskyldu með því að bregðast eftirlitsskyldu sinni og heimila viðskipti með fjármálagerninga Glitnis. 

             Í þriðja lagi hafi stefndi Kauphöll Íslands bakað sér bótaskyldu með því að opna fyrir viðskipti með þessa gerninga, án þess að hafa sinnt sjálfstæðri rannsóknar­skyldu sinni. 

             Stefnandi segir kröfu sína aðallega byggja á sakarreglunni.  Hann kveðst krefja alla stefndu óskipt þar sem athafnir og ákvarðanir þeirra allra hafi leitt til þess að hann tapaði því fé sem hann lagði í kaup á hlutafé í Glitni. 

             Stefnandi kveðst hafa keypt hlutaféð í þeirri trú að ríkið stæði við yfirlýsingar sínar og að þess vegna myndu hlutabréf í bankanum halda verðgildi sínu.  Þau hafi hins vegar orðið verðlaus þegar ríkisstjórnin hafi ákveðið að hætta við hlutafjár­aukninguna.  Hann kveðst telja að stefndu Fjármála eftirlitið og Kauphöll Íslands hefðu ekki átt að opna fyrir viðskipti með fjármálagerninga bankans, enda hafi ekki verið ljóst hvort jafnræði fjárfesta væri tryggt.  Það hafi verið meginástæða þess að lokað hafði verið fyrir viðskiptin. 

             Stefnandi segir að stefndi Fjármálaeftirlitið hafi brugðist eftirlitsskyldum sínum með því að opna fyrir viðskipti með hlutabréf í félagi sem bersýnilega hafi siglt hraðbyri í gjaldþrot.  Glitnir hafi ekki uppfyllt skilyrði til skráningar í Kauphöllinni.  Bæði íslenska ríkið og Fjármálaeftirlitið hafi vitað eða átt að vita að bankinn var gjald­þrota.  Hafi þeim borið að heimila ekki viðskipti með hlutabréf í bankanum þar sem þau sköðuðu hagsmuni fjárfesta.  Nánar skýrir stefnandi þessa fullyrðingu sína með vísan til þess fjölda sérfræðinga sem vinni hjá Fjármálaeftirlitinu og þeirra upplýsinga sem það hafi búið yfir á þessum tíma.  Kauphöllinni hafi borið að taka málið til sjálf­stæðrar skoðunar og hafna því að opna fyrir viðskiptin.  Ákvarðanir stefndu hafi ekki verið teknar með málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi. Þá hafi undirbúningur og rannsóknir verið ófullnægjandi. 

             Stefnandi telur sanngjarnt og eðlilegt að sér verði bætt tjónið og að íslenska ríkið beri ábyrgð á saknæmri hegðun og mistökum Fjármálaeftirlitsins.  Báðir aðilar hafi búið yfir sömu víðtæku upplýsingunum og hefðu átt að framkvæma aðgerðir og taka ákvarðanir sameiginlega.  Hér vísar stefnandi til þess sem segi í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um að samstarfi ríkisstofnana hafi verið ábótavant.  Mistök stefndu stafi augljóslega af skorti á samvinnu og upplýsingamiðlun milli stofnana ríkisins.  Ríkið og Fjármálaeftirlitið hafi vitað eða mátt vita að hlutabréfin væru algjörlega verðlaus. 

             Þá byggir stefnandi á því að stefndu beri sameiginlega ábyrgð seljanda á gallaðri vöru og brostnum forsendum fyrir kaupum.  Þeir komi í stað raunverulegs seljanda hinna verðlausu bréfa þar sem þeir hafi neitað að upplýsa hver hann sé. 

             Nánar um ábyrgð stefnda íslenska ríkisins 

             Krafan á hendur ríkinu er byggð á almennu skaðabótareglunni.  Þá vísar stefnandi til þess sem hann kallar óskráðar grundvallarreglur skaðabótaréttar um bóta­skyldu ríkisins vegna tjóns sem almennur borgari hefur orðið fyrir vegna sam­verknaðar handhafa ríkisvalds við framkvæmd framkvæmda- og löggjafarvalds. 

             Stefnandi telur að forsætisráðuneytið og þáverandi forsætisráðherra hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með yfirlýsingum sínum, sem síðan hafi ekki verið staðið við, um hlutafjárframlag að jafnvirði 600 milljóna evra til Glitnis og 75% eignarhlut í bankanum.  Yfirlýsingin hafi orðið til þess að stefnandi og fleiri aðilar ákváðu að kaupa hlutabréf í bankanum.  Þeir hafi treyst því að ríkið væri orðið meirihlutaeigandi í bankanum og að hann stæði því afar traustum fótum.  Forsætisráðherra hafi meira að segja sagt á fréttamannafundi 29. september að ríkið gæti selt hlut sinn síðar og jafnvel hagnast á þessum viðskiptum. 

             Stefnandi segir að ríkið hafi ekki staðið við yfirlýsinguna.  Neyðarlögin svokölluðu hafi verið sett og nýr banki yfirtekið allar eignir Glitnis banka.  Með þessari framkvæmd hafi stefnandi tapað sínu fé.  Sjá megi af fjölda viðskipta með hlutabréf í Glitni dagana 30. september til 6. október að mjög margir treystu yfir­lýsingu ríkisstjórnarinnar. 

             Með þessu hafi íslenska ríkið tekið ákvarðanir bæði sem framkvæmdavald og löggjafarvald.  Framkvæmdavaldið hafi gefið út yfirlýsingu um yfirtöku hluta af Glitni banka.  Síðan hafi ríkisstjórnin ákveðið að standa ekki við yfirlýsingu heldur breyta um og nýta ákvæði neyðarlaganna.  Stefnandi kveðst hér vísa til óskráðra grundvallar­reglna skaðabótaréttar um bótaskyldu ríkisins vegna tjóns sem almennur borgari hefur orðið fyrir vegna samverknaðar handhafa ríkisvalds við framkvæmd framkvæmda- og löggjafarvalds, en stefndi íslenska ríkið beri ábyrgð gagnvart stefnanda á því að neyðarlögin voru sett.  Setning þeirra geti ekki svipt hann bótarétti á þeim grundvelli að vegna setningar þeirra hafi ríkið ekki getað staðið við þau loforð sem gefin höfðu verið með yfirlýsingunni.  Hann hafi verið sviptur réttmætum og lögmætum væntingum til þess að mega njóta eignarréttinda sinna.  Því sé ríkið bótaskylt á grund­velli grunnreglna stjórnarskrárinnar og þeirra alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt og kveða á um friðhelgi eignarréttinda.  Hér vísar stefnandi til 72. gr. stjórnar­skrárinnar, 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 2. gr. samningsviðauka nr. 11, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. 

             Nánar um ábyrgð Fjármálaeftirlitsins

             Stefnandi segir að tap sitt megi rekja til vanrækslu Fjármálaeftirlitsins og þess sem hann kallar vítavert gáleysi sem starfsmenn þess hafi sýnt af sér með því að opna fyrir viðskipti með fjármálagerninga Glitnis þann 30. september.  Opnað hafi verið fyrir viðskiptin með þeim orðum að ekki væri lengur hætta á ójafnræði fjárfesta, þar sem ríkið og bankinn hefðu gert samkomulag um nýtt hlutafé.  Stefnandi segir að staða fjárfesta hafi ekkert breyst á tímanum frá því að lokað var fyrir viðskiptin og þar til þau voru heimiluð á ný enda hefðu engar breytingar orðið á markaði sem hafi gefið slíkt til kynna.  Í tilkynningu Fjármálaeftirlitsins 6. október segi einmitt að jafnræði fjárfesta verði ekki tryggt þar sem verðmótandi upplýsingar séu of dreifðar til að unnt sé að tryggja trúnað þeirra. 

             Stefnandi byggir á því að jafnræði fjárfesta hafi ekki verið tryggt.  Fjárfestum sem vissu hvernig staða bankans var hafi verið gefið færi á að selja hluti sína fjár­festum sem töldu bankann standa traustum fótum, einkum vegna yfirlýsingar ríkis­stjórnarinnar.  Fjármálaeftirlitið eigi að ganga úr skugga um að jafnræði fjárfesta sé tryggt.  Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 433/1999 skuli útgefandi gæta þessa jafn­ræðis.  Fjármálaeftirlitið eigi að tryggja að bæði útgefandi og kauphöll fari að þessum kröfum. 

             Stefnandi segir að Fjármálaeftirlitið hafi fullvissað hann um að samkomulag ríkisins við eigendur Glitnis væri orðið að veruleika.  Hann byggir á því að ekki hafi verið rétt að opna fyrir viðskiptin á ný og því sé Fjármálaeftirlitið bótaskylt samkvæmt sakarreglunni. 

             Stefnandi byggir á því að það hafi verið saknæmt og ólögmætt af hálfu Fjármálaeftirlitsins að opna fyrir viðskipti með hlutabréf í Glitni þann 30. september.  Fram komi í yfirlýsingu forsætisráðuneytisins að boðað yrði til hluthafafundar í Glitni og tillaga um aðkomu ríkissjóðs lögð þar fram.  Þó svo að samkomulag hafi náðst við stærstu hluthafa bankans hafði ekki verið búið að samþykkja neitt á hluthafafundi og ákvörðunin því ekki orðin að veruleika.  Fjármálaeftirlitið hafi fallið í sömu gryfju og stefnandi sjálfur þegar það treysti yfirlýsingunni.  Fjármálaeftirlitið virðist loks átta sig á stöðu mála þegar það lokar aftur fyrir viðskiptin 6. október.  Þá segir stefnandi að ríkisstjórnin hafi ekki einu sinni verið búin að ákveða hvort tilboðið væri bindandi og hvort við það yrði staðið án tillits til niðurstöðu hluthafafundar.  Þá hafi Fjármála­eftirlitinu hlotið að vera ljóst að 600 milljónir evra, sem sagt var að yrðu lagðar bankanum til, dygðu ekki til að bjarga honum. 

             Stefnandi byggir á því að Fjármálaeftirlitið hafi vitað um slæma stöðu bankanna, líka Glitnis.  Því hafi það vitað að ekki væri gætt að hagsmunum og jafn­ræði fjárfesta með því að opna fyrir viðskiptin.  Vísar stefnandi hér til upplýsinga er fram komu á fundi í Seðlabankanum 30. september, þar sem Rúnar Guðmundsson var mættur af hálfu Fjármálaeftirlitsins. 

             Stefnandi segir ljóst að Fjármálaeftirlitið hafi ekki uppfyllt eftirlitsskyldur sínar samkvæmt lögum nr. 87/1998.  Glitnir hafi ekki fullnægt skilyrðum 22. gr. laga nr. 110/2007.  Eftirlitið hafi ekki fullnýtt heimildir sínar samkvæmt 50. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/39/EB, eða framfylgt þeim þegar ákveðið var að opna á ný fyrir viðskiptin 30. september.  Bendir stefnandi á þá niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis (bls. 268 og 271 í 7. bindi) að starfsmenn Fjármála­eftirlitsins hafi ekki sýnt nægilega festu og ákveðni í eftirlitsstörfum sínum.  Enn fremur hafi viðbúnaðarhópur eftirlitsins og stjórnendur þess ekki metið ástandið rétt og verið mun bjartsýnni en tilefni hafi verið til. 

             Enn vitnar stefnandi til skýrslu rannsóknarnefndarinnar (7. bindi, bls. 48-49).  Þar komi fram að ríkisstjórnin og Fjármálaeftirlitið hafi vitað þegar þann 30. september hversu illa Glitnir var staddur.  Einnig sé ljóst að allt frá 2. október hafi farið fram fundir samráðshóps forsætisráðuneytisins, fjármálaráðuneytisins, viðskipta­ráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands þar sem hafi komi fram upplýsingar sem hafi gefið til kynna að aldrei hafi verið ætlunin að standa við loforð ríkisstjórnarinnar um að leggja bankanum til fé.  Því sæti furðu að ekki hafi verið búið að loka fyrir viðskiptin á ný mun fyrr. 

             Stefnandi byggir á því að Fjármálaeftirlitið eigi sjálfstæða aðild að þessu dómsmáli, en eftirlitið hafi sjálfstæða stjórn og sjálfstæðan fjárhag og um það gildi sérstök lög.  Þá hafi það áður átt aðild að dómsmálum, bæði eitt og sér og samhliða íslenska ríkinu.  Verði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að eftirlitið hafi ekki sjálfstæða aðild áskilur stefnandi að málsástæður og lagarök sem að því beinast snúi að íslenska ríkinu. 

             Um skaðabótaábyrgð stefnda Kauphallar Íslands hf.

             Stefnandi segir að Kauphöll Íslands hafi opnað fyrir viðskipti með hlutabréf í Glitni samkvæmt fyrirmælum Fjármálaeftirlitsins, án þess að taka sjálfstæða ákvörðun um það, eða leggja sjálfstætt mat á hvort það væri réttmætt.  Kauphöllin virðist eins og Fjármálaeftirlitið ekki hafa farið yfir yfirlýsingar forsætisráðherra nógu vel, og yfirsést fyrirvarinn um að bera þyrfti tilboðið undir hluthafafund.  Með þessu hafi Kauphöllin brugðist eftirlitsskyldum sínum, sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og bakað sér bóta­skyldu gagnvart stefnanda.  Yfirlýsing forsætisráðuneytisins firri Kauphöllina ekki ábyrgð þessari. 

             Stefnandi bendir á að Kauphöllin hafi sjálfstæðar heimildir til að opna og loka fyrir viðskipti með skráða gerninga,sbr. einkum 5. tl. 2.  mgr. 2. gr., 22. gr. og 24. gr. laga nr. 110/2007.  Kauphöllinni hafi ekki verið heimilt að leyfa viðskipti með hluta­bréf í Glitni þann 30. september, þrátt fyrir fyrirmæli Fjármálaeftirlitsins.  Kauphöllin hafi því brugðist skyldum sínum samkvæmt 10. gr. laga nr. 110/2007.  Ekki hafi verið lagt raunhæft mat á þann skaða sem trúverðugleiki markaðarins hafi orðið fyrir með því að opna fyrir viðskiptin á ný, eða lagt mat á það hvort heimila ætti viðskiptin þrátt fyrir athugasemd um að samkomulagið þyrfti að leggja fyrir hluthafafund. 

             Kauphöllin hafi ekki gætt að hagsmunum þátttakenda á markaði.  Stefnandi segir að hann hefði ekki fjárfest í hlutabréfum í Glitni ef Kauphöllin hefði sýnt þá að­gæslu sem krafist sé af henni við opnun og lokun fyrir viðskipti.  Vísar stefnandi hér til 1. mgr. 22. gr. laga um kauphallir um reglur sem kauphöll skuli setja sér.  Reglur þessar eigi að tryggja að fjármálagerningar sem teknir séu til viðskipta séu þess eðlis að unnt sé að eiga viðskipti með þá á sanngjarnan, skipulegan og skilvirkan hátt.  Kauphöll Íslands hafi sett sér slíkar reglur.  Þrátt fyrir það hafi 1. mgr. 22. gr. ekki verið fylgt eftir er heimiluð voru viðskipti með hlutabréf í Glitni 30. september.  Telur stefnandi ekki hægt að færa fyrir því nokkur rök að viðskiptin hafi verið stunduð á sanngjarnan hátt.  Þeim sem vissu í hvað stefndi hafi verið gefið færi á að selja bréf sín, en þeim sem treystu yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og að Fjármálaeftirlitið og Kauphöllin sinntu skyldum sínum, tækifæri til að kaupa bréf. 

             Í 3. mgr. 22. gr. komi fram að kauphöll skuli reglulega kanna hvort fjármála­gerningur uppfylli skilyrði fyrir töku til viðskipta, sbr. einnig gr. 1.1.17 í reglum stefnda.  Samkvæmt gr. 1.1.10 í þessum sömu reglum skuli félag geta sýnt fram á hagnaðargetu til að hlutabréf þess verði tekin til viðskipta.  Einnig eigi það að sýna að það hafi aðgang að nægu veltufé í a.m.k. eitt ár frá fyrstu viðskiptum.  Glitnir hafi hvorki haft hagnaðargetu né aðgang að veltufé lengur en í 15 daga. 

             Þótt Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með kauphöllum samkvæmt lögum nr. 110/2007, hafi það ekki heimild til að krefjast þess að viðskipti verði hafin að nýju.  Því hafi verið full ástæða fyrir Kauphöll Íslands að kanna hvort rétt væri að hefja við­skiptin að nýju.  Kauphöllin teljist vera lögbært yfirvald samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 245/2006.  Kauphöll Íslands hafi brugðist þeim skyldum sem á hana séu lagðar í lögum nr. 110/2007, sbr. og 3. kafla tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/39/EB.  Stefnandi vísar sérstaklega til 4., 40., 41., 43., og 44.gr. tilskipunarinnar.

             Um forsendubrest, seljandaábyrgð og idendification 

             Stefnandi kveðst ekki sækja kröfu sína á hendur seljendum hlutabréfanna, þar sem stefndu hafi neitað að upplýsa hann um það hverjir það voru.  Slitastjórn Glitnis hafi einnig neitað að veita þessar upplýsingar.  Þar sem Kauphöll Íslands hafi neitað að upplýsa hverjir seldu bréfin vill stefnandi líta svo á að Kauphöllin hafi verið raunverulegur seljandi bréfanna, a.m.k. hafi hún tekið á sig skyldur seljanda gagnvart stefnanda.  Þá byggir stefnandi á því að stefndu beri allir fyrir einn og einn fyrir alla seljandaábyrgð gagnvart honum.  Sé um að ræða identification með stefndu og raunverulegum seljendum. 

             Stefnandi byggir á því að hlutabréfin hafi verið gölluð í skilningi IV. kafla laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, en lögin gildi um sölu verðbréfa, sbr. d-lið 3. mgr. 5. gr.  Gallinn felist í því að bréfin hafi í raun verið verðlaus á kaupdegi og því ekki uppfyllt grundvallarforsendur kaupanda fyrir kaupunum. 

             Stefnandi byggir á því að eiginleikar söluhlutarins hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 17. gr., en jafnvel þótt svo hefði verið teldust bréfin gölluð þar sem upplýsingar sem stefndu beri sameiginlega ábyrgð á að hafa gefið stefnanda, reyndust kolrangar, sbr. 18. gr.  Eigi stefndu því að greiða stefnanda skaðabætur samkvæmt 30. og 40. gr. sem nemi kaupverðinu. 

             Stefnandi vísar til 36. gr. samningalaga nr. 7/1936 um ábyrgð stefndu.  Samningurinn um kaup á hlutafénu sé ógildur og því beri stefndu, í stað hinna raunverulegu seljenda, að greiða honum bætur sem nemi kaupverðinu.  Ósanngjarnt sé að bera samninginn fyrir sig og andstætt góðri viðskiptavenju.  Einkum vísar stefnandi til 36. gr. c. 

             Þá byggir stefnandi bótakröfu á ólögfestum meginreglum um forsendubrest.  Stefndu hafi vitað eða átt að vita að kaupin byggðust á væntingum um að ríkið væri búið að bjarga bankanum.  Ljóst sé að hann hefði ekki keypt hlutabréfin ef yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hefði ekki komið til og opnað hafði verið fyrir viðskiptin. 

             Stefnandi vísar til almennra reglna skaðabótaréttar og kröfuréttar. Hann vísar til laga nr. 87/1998, laga nr. 99/1999 og laga nr. 110/2007.  Þá vísar hann til jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Enn fremur til samningalaga nr. 7/1936, einkum 36. gr., og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. 

             Stefnandi vísar loks til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1. við mannréttindasáttmála Evrópu sem lögfestur var með lögum nr. 62/1994. 

             Um aðild er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en ákvarðanir allra stefndu hafi haft samverkandi áhrif sem valdið hafi stefnanda tjóni. Þá er vísað til reglugerða nr. 433/1999 og nr. 245/2006. Að lokum vísast til tilskipana Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2004/39/EB, nr. 2001/34/EB og nr. 2003/71/EB.

             Málsástæður og lagarök stefndu, íslenska ríkisins og Fjármálaeftirlitsins

             Stefndu benda á að ekki komi fram hvernig stefnandi hafi metið verðmæti hlutabréfanna sem hann keypti eða hvernig hann fjármagnaði kaupin.  Þá segir að ekkert liggi fyrir um ráðgjöf starfsmanns Glitnis og verði ekki á fullyrðingum stefnanda byggt. 

             Stefndu gera þá athugasemd við málavaxtalýsingu í stefnu að ríkissjóður hafi ekki verið orðinn hluthafi í Glitni þegar atvik málsins urðu.  Stefnt hafi verið að því að ríkið legði fram hlutafé og eignaðist með því 75% af öllu hlutafé í bankanum.  Af því hafi ekki orðið.  Þá segja stefndu að það sé rangt að ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins hafi leitt til þess að Glitnir hafi orðið eignalaus og ríkið orðið eigandi allra eigna bankans. 

             Stefndu byggja á því að tjón stefnanda sé afleiðing af ákvörðunum sem hann hafi tekið sjálfur við þær mjög svo viðsjárverðu aðstæður sem ríkt hafi  á fjármála­mörkuðum í lok september 2008.  Hann beri einn ábyrgð á þeirri áhættu sem hann hafi tekið með sína eigin fjármuni.  Þá leiði sjónarmið um áhættutöku og eigin sök til þessa að bótaréttur geti ekki stofnast gagnvart stefndu.  Sérstaklega er því mótmælt að stefndu beri sameiginlega bótaábyrgð sem meintrar vitneskju um að bankinn væri gjaldþrota, og að stefndu beri bótaábyrgð sem seljendur. 

             Nánar um málsástæður stefnda íslenska ríkisins

             Stefndi mótmælir því að stefnandi geti krafist bóta á þeim grundvelli að fallið hafi verið frá áformum um að leggja Glitni til hlutafé.  Þá verði heldur ekki byggt á setningu laga nr. 125/2008.  Engar forsendur hafi verið fyrir því að kaupa hlutafé í bankanum eftir að hann var kominn í greiðsluþrot.  Þá hefði slíkt hlutafjárframlag ekki breytt neinu um stöðu bankans, hann hefði farið í þrot og hlutafé í honum orðið verð­laust.  Það vanti um 2000 milljarða króna upp á að eignir Glitnis dugi upp í kröfur.  Áttatíu og fjögurra milljarða framlag hefði því ekki breytt stöðu hluthafa neitt.  Mótmælir stefndi einnig tilvísun til 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samnings­viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. 

             Stefndi segir að það hafi ekki átt að vera tilgangur aðgerða stjórnvalda að styðja við hluthafa eða skapa hjá þeim væntingar um vöxt og viðgang bankans.  Á því geti stefnandi ekki byggt.  Hluthafafundur hafi verið ráðgerður 11. október.  Óvíst sé hvort tillaga um aðkomu ríkisins hefði verið samþykkt.  Talsmenn stærstu hluthafa hefðu lýst sig ósátta við hugmyndina og að þeir vildu leita annarra leiða.  Fundurinn hafi ekki verið haldinn og því hafi ekki reynt á það samkomulag sem gert hafði verið.  Það sé ekki á ábyrgð stefndu að fundurinn hafi ekki verið haldinn. 

             Stefndi bendir á þá niðurstöðu í dómi Hæstaréttar í máli nr. 340/2011 að setning laga nr. 125/2008 hafi verið nauðsynleg aðgerð.  Þá hafi þessi aðgerð ekki haft nein áhrif á hluthafa og því vill stefndi mótmæla því að lagasetningin hafi unnið gegn hagsmunum stefnanda. 

             Stefndi mótmælir því að yfirlýsingar ráðamanna í lok september 2008 geti hafa skapað þær væntingar hjá stefnanda að bankanum yrði bjargað og björt framtíð blasti við þeim sem keypti hlutafé í honum.  Þær geti ekki grundvallað bótaskyldu ríkisins.  Þær hafi verið settar fram samkvæmt bestu vitund á þeim tíma, en mál hafi fljótlega þróast til verri vegar.  Þá hafi ríkið ekki tekið ábyrgð á fjárfestingarákvörðunum þeirra sem ákváðu að taka áhættu með fjármuni sína í þessu umróti. 

             Nánar um málsástæður stefnda Fjármálaeftirlitsins

             Fjármálaeftirlitið kveðst hafa farið í einu og öllu eftir þeim lagaákvæðum sem heimili því að krefjast þess að viðskipti með fjármálagerninga verði stöðvuð.  Þessi heimild sé í 7. mgr. 133. gr. laga nr. 108/2007, sbr. einnig 4. mgr. 31. gr. laga nr. 110/2007.  Ekki hafi verið sýnt fram á saknæma háttsemi.  Ákveðið hafi verið að stöðva viðskiptin vegna þess að augljós hætta hafi verið á því að innherjaupplýsingar væru til staðar hjá þeim sem næst stóðu samningagerðinni og fyrirhuguðum ráð­stöfunum.  Þegar atvik höfðu skýrst hafi ekki lengur verið ástæða til að koma í veg fyrir viðskiptin.  Upplýsingar sem gátu haft áhrif á verð bréfanna hafi þá verið öllum aðgengilegar. 

             Stefndi bendir á að hlutabréf í Glitni hafi verið settir á athugunarlista þegar opnað var fyrir viðskiptin, sbr. lið 8.2 í Reglum fyrir útgefendur fjármálagerninga.  Hafi verið mælst til þess að því fyrirkomulagi yrði haldið þar til hluthafafundur yrði haldinn um aukningu hlutafjár.  Með þessu hafi verið varað við því að verðmyndun væri óviss og að sama gilti um „framtíð útgefandans“. 

             Stefndi byggir á því að viðbrögð Fjármálaeftirlitsins hafi verið í samræmi við gildandi reglur.  Segir hann að þótt illa horfi um rekstur fyrirtækja verði réttur til að eiga viðskipti ekki tekinn af eigendum hlutabréfa.  Reglurnar eigi að tryggja að allir viti jafnmikið um þessar horfur og að varað sé sérstaklega við því ef blikur séu á lofti.  Það hafi verið gert með því að loka fyrst fyrir viðskipti og setja bréfin síðan á athugunarlista. 

             Báðir þessir stefndu byggja á því að þeir beri ekki ábyrgð á seljanda hluta­bréfanna eða Glitni, sem hafði milligöngu um viðskiptin.  Almennar yfirlýsingar stjórnmálamanna eða fulltrúa opinberra stofnana geti ekki skapað samningsaðilum bótarétt.  Skoða verði allar yfirlýsingar í ljósi þess umróts sem hafi verið á mörkuðum, en aðstæður breyst frá einum degi til annars.  Yfirlýsingum hafi verið ætlað að koma í veg fyrir glundroða og áhlaup á bankakerfið, sem hefði valdið íslensku samfélagi óbætanlegum skaða um ókomna tíð.

             Þá er byggt á því að yfirlýsingunum hafi ekki verið beint til hluthafa eða væntanlegra kaupenda að hlutum.  Þeir hafi ekki haft ástæðu til að taka ákvarðanir um fjárfestingar vegna yfirlýsinganna, fyrr en ljóst væri hvort af þátttöku ríkisins yrði. 

             Stefndu segja að ekki sé fullnægt skilyrðum sakarreglunnar.  Þá hafi samkomulagið við Glitni ekki skapað skyldu til að leggja bankanum til fé eftir að hann var kominn í greiðsluþrot. hvað þá að bótaréttur geti skapast hjá hundruðum eða þúsundum hluthafa Glitnis vegna þess. 

             Stefndu mótmæla fjárhæð bótakröfu sem ósannaðri, einnig  útreikningi hennar og upphafsdegi dráttarvaxta. 

             Málsástæður og lagarök stefnda Kauphallar Íslands

             Stefndi kveðst hafa opnað fyrir viðskiptin með fjármálagerninga Glitnis þegar fyrir hafi legið það mat Fjármálaeftirlitsins að fjárfestar hefðu jafnan aðgang að upplýsingum til að meta virði bankans eftir að tilkynning um aðkomu ríkisins hafði verið birt.  Þá hafi bréf bankans verið sett á athugunarlista. 

             Stefndi segir að skilyrðum sakarreglunnar sé ekki fullnægt.  Varðandi þá full­yrðingu stefnanda að Kauphöllin hafi ekki lagt sjálfstætt mat á það hvort rétt væri að opna fyrir viðskipti að nýju, þá hafi það verið Fjármálaeftirlitið sem hafi ákveðið að ekki væri lengur til staðar ástæðan sem gefin var fyrir lokun viðskipta.  Kauphöllin hafi það hlutverk að framkvæma þessar ákvarðanir eftirlitsins.  Kauphöllin hefði getað stöðvað viðskiptin samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 110/2007 ef skilyrði hefðu verið talin til þess.  Kauphöllin hafi talið að ekki væru skilyrði til að stöðva viðskiptin og stefnandi hafi ekki sýnt fram á neitt sem hnekki því mati.  Segir stefndi að hann hafi talið að stöðvun viðskipta í andstöðu við mat Fjármálaeftirlitsins hefði brotið gegn 1. mgr. 24. gr. og verið til þess fallin að valda fjárfestum tjóni og draga úr trúverðugleika markaðarins. 

             Stefndi bendir á að heimildir Fjármálaeftirlitsins til að stöðva viðskipti séu rýmri en heimildir Kauphallarinnar, sbr. 2. tl. 3. mgr. 134. gr. laga nr. 108/2007 og 4. mgr. 31. gr. laga nr. 110/2007. 

             Stefndi segir það rangt að honum hafi yfirsést það að bera yrði tilboð ríkisins undir hluthafafund.  Bréf bankans hafi verið sett á athugunarlista og tekið fram að þau yrðu á listanum a.m.k. þangað til hluthafafundur hefði samþykkt tilboð ríkisins.  Þá séu ekki orsakatengsl milli tjóns stefnanda og þess að svo fór að tillaga um hlutafjár­aukningu var ekki borin undir hluthafafund.  Rekstrargrundvöllur bankans hafi hrunið í millitíðinni af öðrum ástæðum og hlutabréfin þar með orðið verðlaus.  Þá hefði greiðsla á hlutafjárframlagi ríkisins ekki bætt hlut stefnanda, en því fari fjarri að allar almennar kröfur verði greiddar úr búi bankans.  

             Stefndi mótmælir því að Kauphöllin hafi haft upplýsingar um aðstæður Glitnis sem leitt hefðu til lokunar fyrir viðskipti með fjármálagerninga Glitnis þann 30. september.  Ósannað sé að slíkar upplýsingar hafi verið til staðar.  Einnig sé ósannað að stefndi hafi búið yfir slíkum upplýsingum. 

             Stefndi kveðst hafa skipulegt eftirlit með því að útgefendur verðbréfa birti með sannanlegum hætti allar upplýsingar sem markaðnum séu nauðsynlegar.  Hann hafi ekki aðgang að neinum öðrum upplýsingum en þeim sem gerðar hafi verið opinberar og séu aðgengilegar fjárfestum.  Hann geti ekki ábyrgst efni tilkynninga sem honum berist.  Hins vegar beiti hann viðurlögum þegar skylda til upplýsingagjafar sé vanrækt. 

             Stefndi bendir á að Fjármálaeftirlitið fari með eftirlit með upplýsingagjöf út­gefenda fjármálagerninga, sbr. 133. gr. laga nr. 108/2007.  Fjármálaeftirlitið hafi lagt mat á fjárhagsstöðu bankans og talið hana trausta er horft var til eiginfjárstöðu og eignasafns.  Stefndi segir að sér hafi verið bæði rétt og skylt að leggja til grundvallar þær upplýsingar sem fram komu frá Fjármálaeftirlitinu, Seðlabankanum, forsætis­ráðuneytinu og Glitni sjálfum um trausta eiginfjárstöðu bankans og eðlilegan rekstur hans í kjölfar aðkomu ríkisins. 

             Þá bendir stefndi á að lokun fyrir viðskipti í kerfum hans banni ekki viðskipti með gerninga viðkomandi aðila, þau geti farið fram utan kauphallarinnar. 

             Stefndi mótmælir því að hann geti borið ábyrgð sem seljandi þegar hann virði reglur 13. gr. laga nr. 110/2007 um þagnarskyldu.  Það eigi sér ekki stoð í lögum eða réttarframkvæmd.  Þá kveðst stefndi ekki hafa upplýsingar um seljendur umræddra bréfa.  Hann geti einungis krafist upplýsinga um hverjir það séu ef til rannsóknar sé meint brot gegn lögum um verðbréfaviðskipti eða reglum kauphallarinnar.  Það eigi ekki við hér. 

             Stefndi mótmælir upphafsdegi vaxta í stefnukröfu sem órökstuddum og á sama hátt upphafsdegi dráttarvaxta.  Þá mótmælir hann fjárhæð bótakröfu sem ósannaðri. 

             Auk laga nr. 108/2007, nr. 110/2007 og nr. 161/2007 sem áður er getið vitnar stefndi til laga nr. 87/1998 og almennra reglna skaðabótaréttar. 

             Niðurstaða

             Við úrlausn þessa máls verður aðallega að skoða atburðarás sem hófst þegar Glitnir banki leitaði eftir láni í Seðlabankanum í september 2008.  Þá hefur það sem gerðist eftir að stefnandi keypti hlutabréfin ekki þýðingu, nema stefndu hafi verið skylt að forða Glitni frá greiðsluþroti. 

             Í bréfi ríkislögmanns til lögmanns stefnanda, dags. 10. september 2010, segir að Glitnir hafi þann 25. september 2008 óskað eftir fyrirgreiðslu í Seðlabankanum vegna lausafjárerfiðleika.  Hafi beiðnin verið óformleg og sett fram á fundi stjórnar­formanns bankans með bankastjórum Seðlabankans.  Síðar í bréfi ríkislögmanns er beiðni þessi sögð hafa verið um svokallað þrautavaralán. 

             Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis fór stjórnarformaður Glitnis á fund formanns bankastjórnar Seðlabankans 25. september 2008 „til að kynna honum áhyggjur af því að bankinn gæti ekki staðið í skilum með lán sem var á gjalddaga 15. október sama ár“.  Lausafjárstaða bankans hafi veikst mjög skyndilega síðustu dagana.  Segir að forsvarsmenn Glitnis hafi litið svo á að beiðst væri fyrirgreiðslu samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 36/2001.  Seðlabankinn vildi líta á hana sem beiðni um fyrir­greiðslu samkvæmt 2. mgr. 7. gr., sem nefnt er þrautavaralán eða örþrifalán.  Slík lán má bankinn veita lánastofnunum í lausafjárvanda þegar hann telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins.  Þessi afstaða bankans virðist í samræmi við þá trú hans að eiginfjárstaða Glitnis væri nægilega traust.  Höfðu ekki borist nánari upplýsingar um stöðu bankans en þessi óformlega beiðni og tilvísun til þess að hann myndi ekki geta greitt skuld á gjalddaga 15. október. 

             Dagana á eftir voru haldnir fjölmargir fundir í Seðlabankanum þar sem fjallað var um þessa lánsumsókn og stöðu Glitnis og annarra banka, m.a. komu forstjóri og aðstoðarforstjóri stefnda Fjármálaeftirlitsins á fundi í bankanum.  Fljótlega virðist bankastjórn Seðlabankans hafa tekið þá afstöðu að ekki skyldi veita lán, heldur kaupa hlut í bankanum fyrir tiltekna fjárhæð og eignast þar með ákveðinn hluta heildarhluta­fjár bankans. 

             Fram kemur í skýrslunni að í reynd hafi starfsmenn Seðlabankans ekki haft skýra mynd af raunverulegri fjárhagsstöðu Glitnis.  Tveir starfsmenn bankans, Jón Þ. Sigurgeirsson og Sturla Pálsson, skrifuðu minnisblað laugardaginn 27. september, sem bar fyrirsögnina Drög að áætlun vegna vanda fjármálakerfisins.  Í skýrslunni er tekið upp úr skýrslu Sturlu Pálssonar fyrir nefndinni þar sem hann segir að kerfið hafi verið hrunið.  Sturla kom ekki fyrir dóm til að skýra þessi orð nánar. 

             Að frumkvæði dómsins leitaði stefnandi eftir því að fá eintak af þessu  minnis­blaði Jóns Þ. Sigurgeirssonar og Sturlu Pálssonar til framlagningar í málinu, en Seðla­bankinn neitaði beiðni hans.  Aðilar kváðust vera sammála um að efnisatriði minnis­blaðsins væru réttilega endursögð í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. 

             Af minnisblaðinu má ráða að höfundar þess hafi fyrst og fremst litið á vanda bankans sem lausafjárvanda, en að hann gæti haft í för með sér mjög alvarlegar af­leiðingar fyrir alla viðskiptabankana.  Hins vegar eru allar tillögur sem var að finna á minnisblaðinu miðaðar við að Glitnir yrði rekinn áfram, félaginu yrði ekki slitið.  Á hinn bóginn er skýrt að menn sáu að ekki væri annað fyrir höndum en gjaldþrot Glitnis ef ekki kæmi til lán eða annars konar fjárframlag og ræddu það sem raunhæfan möguleika. 

             Þann 30. september kynnti formaður bankastjórnar Seðlabankans sér stöðu Glitnis.  Haft er eftir honum í skýrslu rannsóknarnefndarinnar að hann hafi orðið fyrir „sjokki“ þegar hann sá að stærsti eigandi bankans skuldaði bankanum 170 milljarða króna í gegnum nokkur félög.  Komið hafi í ljós síðar um var að ræða skuld upp á meira en 300 milljarða króna.  Forstjóri Fjármálaeftirlitsins hafi andmælt þessum skilningi hans og sagt að þetta væru ekki sömu aðilarnir. 

             Eins og rakið er að framan kannaði Stefán Svavarsson skuldastöðu Glitnis sunnudaginn 5. október.  Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er vitnað beint í minnisblað Stefáns þar sem segir:  „Áhættan gagnvart þjóðarbúinu er mikil við þær aðstæður sem nú ríkja og lausafjárvandinn sem við blasir gæti orðið að alvarlegum eiginfjárvanda.“ 

             Síðar kom í ljós að bankinn gat ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar, hvorki á gjalddaga né síðar.  Í málinu liggur hins vegar ekki fyrir að Seðlabankinn eða Fjármálaeftirlitið hafi haft frekari upplýsingar um raunverulega stöðu bankans þegar fjallað var um lánsumsóknina og hún afgreidd með tillögu um hlutafjárframlag.  Þá hefur stefnandi heldur ekki sýnt fram á að stefndi Fjármálaeftirlitið hefði átt að gera sér grein fyrir raunverulegri stöðu Glitnis á þessum tíma. 

             Ekki verður fallist á að stefnandi geti krafið stefndu um bætur vegna þess sem hann kallar samverknað handhafa ríkisvalds við framkvæmd löggjafar- og framkvæmdavalds.  Setning laga nr. 125/2008 stangaðist ekki á við stjórnarskrá og stefnanda var ekki valdið tjóni með setningu þeirra.  Tjóni hans var heldur ekki valdið með þeirri ákvörðun að taka yfir vald hluthafafundar Glitnis og skipa bankanum skila­nefnd.  Tjón hans varð er hann keypti hlutafé í banka, sem varð gjaldþrota nokkrum dögum síðar.  Stefndu áttu ekki sök á gjaldþroti bankans. 

             Yfirlýsingar um hlutafjárframlag ríkisins, sem þar með myndi eignast 75% hlut í bankanum voru ekki gáleysislegar af hálfu forsætisráðherra.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að þegar þessi yfirlýsing var gefin hafi ráðherra eða Fjármálaeftirlitinu mátt vera ljóst að sú aðgerð dygði bankanum ekki.  Boðað hafði verið til hluthafa­fundar, en hann var ekki haldinn þar sem Fjármálaeftirlitið hafði tekið yfir vald fundarins áður en til hans kom. 

             Þegar stefnandi keypti hlutabréfin gat hann ekki treyst því að ríkissjóður væri orðinn eigandi að 75% hlutafjár í Glitni.  Honum mátti vera ljóst að hluthafafundur þyrfti að samþykkja aðkomu ríkisins og hann gat séð þetta af öllum tilkynningum sem gefnar voru út um málið.  Hann gat ekki byggt neinar væntingar um verðgildi hluta­bréfanna á aðgerðum og yfirlýsingum stjórnvalda. 

             Lokað hafði verið fyrir viðskipti með hlutabréf í Glitni.  Stefndi Fjármála­eftirlitið byggir á því að ekki hafi lengur verið tilefni til að hindra viðskiptin eftir að yfirlýsing um hlutafjárframlag ríkisins hafði verið kynnt opinberlega.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að aðrar ástæður hafi orðið til þess að viðskiptin voru stöðvuð.  Þá hefur hann ekki skýrt nánar fullyrðingu sína um að jafnræði fjárfesta hafi ekki verið tryggt er viðskiptin voru heimiluð á ný.  Það er rétt hjá honum að engar breytingar höfðu orðið á markaðnum, en komin var yfirlýsing um að lagt yrði fram nýtt hlutafé að tilteknum skilyrðum uppfylltum.  Tilvísun stefnanda til tilkynningar sem Fjármála­eftirlitið gaf út viku síðar, 6. október, getur ekki skipt neinu máli.  Stefnandi hefur ekki sýnt fram á að einhverjir hafi vitað hvernig staða Glitnis var í raun og veru.  Af þeim upplýsingum sem fram eru komnar um vitneskju manna dagana 25. til 29. september er ekki hægt að draga þá ályktun að menn hafi vitað eða mátt vita að Glitni yrði ekki bjargað. 

             Stefnandi hefur ekki upplýst um sérstakar yfirlýsingar sem Fjármálaeftirlitið hafi beint að honum.  Hinar almennu tilkynningar voru efnislega réttar og gátu ekki valdið neinum misskilningi ef þær voru lesnar í heild.  Þá hefur hann ekki sannað að eftirlitinu hafi mátt vera ljóst að 600 milljóna evra hlutafjárframlag dygði ekki til að bjarga bankanum.  Yfirlýsingarnar var ekki unnt að skilja sem svo að Glitnir væri orðinn að ríkisbanka, eins og stefnandi sagði í aðilaskýrslu sinni.  Hafi stefnandi byggt ákvörðun sína á slíkum misskilningi getur hann ekki krafist bóta fyrir tjón sitt. 

             Rúnar Guðmundsson sótti fund í Seðlabankanum 30. september samkvæmt ákvörðun forstjóra Fjármálaeftirlitsins.  Hann lýsir því að rætt hafi verið um að bankarnir væru að falla.  Hann vildi ekki kannast við að rætt hefði verið sérstaklega um Glitni, en þó hlýtur öllum að hafa verið ljóst að tilefnið var umsókn bankans um lán til þrautavara.  Þótt litið yrði svo á að í kjölfar þessa fundar hafi Fjármálaeftirlitinu borið að taka Glitni til nákvæmrar skoðunar í samræmi við heimildir eftirlitsins, hefði stöðvun viðskipta eftir slíka athugun ekki hindrað kaup stefnanda, en hann keypti bréf sín um það leyti sem þessi fundur var haldinn í Seðlabankanum. 

             Stefandi segir ljóst vera að Fjármálaeftirlitið hafi ekki uppfyllt eftirlitsskyldur sínar samkvæmt lögum nr. 87/1998.  Þetta er ekki rökstutt frekar.  Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram nokkur gagnrýni á svokölluð álagspróf eftirlitsins.  Þá er bent á að eftirlitið hafi haft víðtækar heimildir til athugana á starfs­stöðvum eftirlitsskyldra aðila.  Starfsmenn hafi ekki sýnt næga festu og ákveðni í störfum sínum.  Þessir ágallar leiða ekki til viðurkenningar bótaskyldu vegna tjóns stefnanda.  Hér er um að ræða almennar ályktanir, en ekki hefur verið upplýst frekar um brotalamir í eftirliti með Glitni.  Fullyrðingar stefnanda um að Fjármálaeftirlitið hafi ekki uppfyllt eftirlitsskyldur sínar eru ekki rökstuddar frekar og eru ósannaðar.  Þá er einnig ósönnuð fullyrðing stefnanda um að Fjármálaeftirlitið hafi vitað þegar þann 30. september hversu illa Glitnir var staddur.  Nákvæmlega hvenær eftirlitinu á að hafa orðið ljóst að Glitni yrði ekki bjargað er óvíst, en telja verður að eftir að stefnandi keypti hlutabréfin hafi ekki verið unnt að hindra tjón hans.  Vanræksla á að grípa til ráðstafana eftir fund Rúnars Guðmundssonar í Seðlabankanum og eftir að formaður bankastjórnar Seðlabankans komst að því að útlán Glitnis til eigenda bankans voru óhófleg, getur ekki komið til nánari skoðunar, en slík viðbrögð hefðu ekki komið í veg fyrir kaup stefnanda á hlutabréfunum. 

             Ekki verður fallist á að stefnda Kauphöll Íslands hafi ekki verið heimilt að opna á ný fyrir viðskipti með hlutabréf Glitnis.  Þessi stefndi hafði upplýsingar um tiltekna ástæðu stöðvunar og þegar tilkynnt hafði verið opinberlega um tillögu um hlutafjárframlag, voru þær upplýsingar komnar fram sem vitað var um.  Þá hefur stefnandi ekki rökstutt á nokkurn hátt hvers vegna Kauphöllinni hafi ekki átt að vera heimilt að opna á ný fyrir viðskiptin.  Þegar verðbréfamarkaður hefur tekið hlutabréf til skipulegrar miðlunar á markaði þarf skýrar ástæður til að stöðva viðskiptin.  Þegar kynnt hafði verið áætlun um aðkomu ríkisins að Glitni og áframhaldandi rekstur hans, voru ekki ljósar ástæður til að hafa lokað fyrir viðskiptin.  Skömmu síðar kom í ljós að Glitnir var ógjaldfær, en Kauphöllinni gat ekki verið það ljóst 30. september 2008. 

             Stefnandi byggir á því að íslenska ríkið hafi ekki staðið við loforð um hluta­fjárframlag.  Þessi tillaga sem stefnandi vill kalla loforð fól í sér að ríkið keypti ný hlutbréf í Glitni fyrir tiltekna fjárhæð og að þessi hlutabréf teldust vera 75% alls hluta­fjár í félaginu.  Þetta var háð samþykki hluthafafundar Glitnis og mátti öllum sem lásu tilkynningu ríkisstjórnarinnar vera það ljóst.  Það samþykki var aldrei veitt.  Því kom ekki til þess að ríkissjóður yrði skuldbundinn til greiðslu framlagsins.  Þá mátti öllum vera ljóst að hlutabréf í bankanum voru ekki tekin eignarnámi, hann þjóðnýttur, eins og ýjað er að í stefnu. 

             Þá byggir stefnandi á því að stefndu beri ábyrgð á tjóni hans eins og þeir hefðu selt honum hlutabréfin.  Þar sem þeir neiti að segja honum hver seljandi bréfanna hafi verið, beri þeir ábyrgð sem seljendur samkvæmt lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000.  Stefndu bera fyrir sig þagnarskyldu samkvæmt 13. gr. laga nr. 87/1998 og 13. gr. laga nr. 110/2007.  Hvort sem það er rétt eða rangt að stefndu sé ekki heimilt að upplýsa stefnanda um hver hafi selt umrædd hlutabréf, leiðir neitun þeirra um upplýsingar ekki til þess að þeir verði ábyrgir sem seljendur bréfanna.  Til þess stendur engin heimild í lögum. 

             Samkvæmt framansögðu er kröfum stefnanda hafnað og verða stefndu sýknaðir af kröfum hans.  Málshöfðun þessi er ekki að ófyrirsynju og niðurstaðan ekki augljós.  Síst verður talið að a- og c-liðir 1. mgr., sbr. 2. mgr., 131. gr. laga nr. 91/1991 eigi hér við eins og einn hinna stefndu fullyrðir.  Málskostnaður verður felldur niður. 

             Dóm þennan kveður upp Jón Finnbjörnsson héraðsdómari. 

D ó m s o r ð

Stefndu, íslenska ríkið, Fjármálaeftirlitið og Kauphöll Íslands hf. eru sýknuð af kröfum stefnanda, Guðmundar Jóns Matthíassonar.

             Málskostnaður fellur niður.