Hæstiréttur íslands

Mál nr. 665/2010


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Bætur fyrir missi framfæranda


                                                         

Fimmtudaginn 13. október 2011.

Nr. 665/2010.

Aníta Rún Bech Kajudóttir

Gunnhildur Erla Lindudóttir og

Hulda Siggerður Lindudóttir

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

Suðurverki hf. og

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

Vinnuslys. Skaðabætur. Bætur fyrir missi framfæranda.

L lést af slysförum þegar grafa sem hann stjórnaði valt á vinnusvæði við Desjárstíflu við Kárahnjúka. A, G og H, dætur L, kröfðu vinnuveitanda hans, verktakafyrirtækið S hf., og vátryggingarfélag þess V hf. um bætur vegna missis framfæranda. Með vísan til þeirra reglna sem giltu um útbúnað vinnuvéla og upplýsinga frá Vinnueftirlitinu og innflytjanda grafa af þeirri gerð sem L starfaði á í umrætt sinn var talið að miða yrði við að útbúnaður gröfunnar hefði verið í samræmi við lög. Á hinn bóginn hefði útbúnaður hennar kallað á ítrustu varkárni af hálfu S hf. þegar hún var notuð við þær erfiðu og hættulegu aðstæður sem voru fyrir hendi þar sem L var við störf. Ekki varð séð að verkstjórar S hf. hefðu fylgst með athafnasvæðinu sem L starfaði á og farið yfir með honum hvernig haga mætti framkvæmd verksins þannig að öryggi yrði sem best tryggt. Þetta hefði þeim borið að gera samkvæmt gátlista S hf. Auk þess hefði ekki verið forsvaranlegt að L væri einn við störf og þá sérstaklega með hliðsjón af því að birtu var farið að bregða á vinnusvæðinu og að ekki hafði verið kveikt á vinnuljósum. Var því talið að verkstjórn S hf. hefði verið ábótavant þegar slysið varð og að orsök þess yrði rakin til saknæmrar háttsemi sem S hf. og V hf. bæru ábyrgð á. Ekki var talið sýnt fram á að ætluð sök L hefði verið slík að áhrif skyldi hafa á kröfur A, G og H. Aftur á móti hefðu A, G og H ekki sýnt fram á að ætla mætti að þær yrðu fyrir framfærslutjóni eftir 18 ára aldur og að þær ættu þar með rétt á bótum á grundvelli 2. málsliðar 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eftir þann tíma. Kröfur þeirra um útfararkostnað voru engum gögnum studd og ekki á þær fallist. Voru S hf. og V hf. dæmd til að greiða A, G og H skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 3. desember 2010. Áfrýjandinn Aníta Rún Bech Kajudóttir krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 4.632.772 krónur, áfrýjandinn Gunnhildur Erla Lindudóttir krefst þess að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 3.109.840 krónur og áfrýjandinn Hulda Siggerður Lindudóttir að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 3.696.306 krónur. Allar gera þær kröfu um 4,5% ársvexti frá 2. apríl 2006 til 20. maí 2009 en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst áfrýjandinn Aníta Rún að stefndu verði sameiginlega gert að greiða sér 4.218.796 krónur, áfrýjandinn Gunnhildur Erla krefst á sama hátt 2.695.864 króna og áfrýjandinn Hulda Siggerður 3.282.350 króna með vöxtum eins og í aðalkröfu greinir. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar úr hendi stefndu í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem þeim hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjenda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

I

Sunnudaginn 2. apríl 2006 klukkan 20:06 barst lögreglu tilkynning um að vinnuvél hefði oltið í grjótnámu við Desjarárstíflu við Kárahnjúka. Skömmu síðar hafði Þorsteinn Njálsson læknir samband við lögreglu og tilkynnti að stjórnandi vélarinnar, Lúðvík Alfreð Halldórsson, væri látinn. Lögregla fór þegar á staðinn og hafði meðal annars tal af Helga Benóný Gunnarssyni yfirverkstjóra og Þóri Árnasyni verkstjóra stefnda Suðurverks hf. Einnig kannaði Vinnueftirlit ríkisins vettvang daginn eftir. Engin vitni voru að slysinu en meðal gagna málsins eru myndir af vettvangi og skýrslur Vinnueftirlitsins og rannsóknardeildar lögreglu á Eskifirði. Formlegar skýrslur af áðurnefndum verkstjórum voru teknar af lögreglu í  júlí 2006.

Daginn sem Lúðvík lést hafði verið sprengt 60-70 metra langt belti úr um níu metra háu bergstáli í fyrrgreindri grjótnámu og myndaðist allt að sex metra hár grjóthaugur framan við bergið. Lúðvík heitinn vann við að hreinsa grjót og frostköggla úr kanti bergstálsins svo að unnt væri að flytja grjót úr námunni í stæði Desjarárstíflu, en það verk átti að hefjast næsta dag. Meðan á verkinu stóð varð beltagrafan, sem Lúðvík stjórnaði, að vera ofan á grjóthaugnum og mun hann hafa þurft að gera plan undir gröfuna eftir því sem verkinu vatt fram. Samkvæmt skýrslu lögreglu virtist sem vinstra belti gröfunnar hefði farið fram af austurhluta plansins, sem var í fjögurra metra hæð frá botni námunnar, og fallið niður tvo metra þegar hún valt. Halli á grjóthaugnum niður af planinu mun hafa verið 30°. Við það að grafan valt lagðist stjórnhús hennar saman með þeim afleiðingum að Lúðvík lést. Gálgi gröfunnar var nánast í efstu stöðu með skófluna opna en hún var sögð geta teygt tennur skóflunnar upp í um 11,09 metra hæð með gálgann í hæstu stöðu og skófluna fullopna. Merki voru um að grafan hefði færst til á planinu, fjær bergstálinu, og hafði lögregla eftir Þóri Árnasyni að slysið hafi líklega orðið þegar Lúðvík var að koma ónothæfu efni framar í námuna. Í lögregluskýrslunni sagði að við rannsókn málsins væri horft til tveggja möguleika um ástæðu þess að grafan hafi oltið, annars vegar að hún hefði staðið á ótraustu undirlagi með fremsta hluta vinstra beltisins og hefði undirlagið gefið sig, en hins vegar að um það bil þriðjungur vinstra beltisins hefði staðið út af planinu. Ekki væri unnt að útiloka annan möguleikann sem orsök eða meðorsök slyssins.

Við skýrslugjöf hjá lögreglu kvaðst hvorugur verkstjóranna geta sagt til um ástæður slyssins, en báðir lýstu þeir Lúðvík sem reyndum og góðum starfsmanni. Fyrir dómi kom fram hjá Helga Benóný Gunnarssyni að eftir sprengingu væri bergstálið yfirleitt hreinsað með vélum staðsettum ofan á því, en síður úr námunni neðan við það. Samkvæmt framburði verkstjóranna beggja var ekki talið rétt að viðhafa slík vinnubrögð í þessu tilviki vegna mikillar hálku ofan á berginu.

Á þeim tíma er slysið varð munu starfsmenn stefnda Suðurverks hf. hafa  staðið tólf tíma vaktir í tólf daga í senn en fengið þess á milli frí í sex daga. Helgi Benóný bar fyrir dómi að hann hafi beðið Lúðvík um að framkvæma verkið vegna þess að hann væri hæfastur til þess. Lúðvík hóf störf klukkan sjö að morgni 2. apríl 2006 en mun hafa viljað ljúka verki sínu þetta kvöld því að hann hugðist taka sér frí daginn eftir. Hann hélt því starfi sínu áfram þegar aðrir starfsmenn fóru í kvöldmat og var einn við vinnu í námunni þegar slysið bar að höndum. 

Í ódagsettri skýrslu Vinnueftirlitsins, sem byggð er á vettvangsskoðun daginn eftir slysið, er vísað í ýmis gögn sem liggja frammi í máli þessu og jafnframt eru þar teknar upp frásagnir verkstjóra stefnda Suðurverks hf. hjá lögreglu frá því í júlí 2006. Í skýrslunni segir meðal annars: „Við skoðun Vinnueftirlitsins á vettvangi lá grafan á hliðinni og stjórnhús hennar lá á stórum steini og hafði það lagst mikið saman. Gröfuarmurinn var mikið reistur og sneri í um 45° miðað við stöðu beltanna. Af ummerkjum að dæma voru greinileg för eftir belti vélarinnar þar sem hún hafði staðið á plani þar sem grjóthryggur hafði myndast milli beltanna. Við skoðun á undirlagi vinstra beltis sást að þar vantaði u.þ.b. 1/3 í undirlagið miðað við undirlag hægra beltis. ... Við skoðun á vettvangi var mikil hálka og svæðið erfitt yfirferðar. Af ummerkjum að dæma var ekki hægt að sjá að steinn eða annar jarðvegur hafi skriðið undan vinstra belti gröfunnar. Samkvæmt upplýsingum veðurstofu var veðrið á Kárahnjúkum slysdaginn kl. 19:00 eftirfarandi: Hámarks vindhraði NNV 6,3 m/s, hiti -7,4°C og gekk á með smá éljum. ... Beltagrafan er Caterpillar 345 BL árgerð 2003. ... Vélin var með gilda skoðun frá Vinnueftirlitinu til ágúst 2006. Lúðvík var með gild réttindi á vélina. ... Að mati Vinnueftirlitsins var vélin rétt búin miðað við það verk sem henni var ætlað. ... Miðað við stöðu gröfuarms sem var u.þ.b. í efstu stöðu og skófluna framrétta og stöðu við undirvagn virðist, sem henni hafi verið beint að námukantinum (móbergslaginu) ofan á bergstálinu, þegar hún valt. Af ummerkjum að dæma virðist ljóst að vélin hefur ekki skriðið til heldur oltið, þar sem grjóthryggur milli beltafaranna, þar sem vélin hafði staðið var mjög greinilegur. ... Með hliðsjón af ofangreindu og þeim gögnum sem liggja fyrir er það mat Vinnueftirlitsins að rekja megi orsök slyssins til þess að grafan hafi staðið þannig að framendi vinstra beltisins hafi verið á lofti, þar sem í undirlagið vantaði u.þ.b. 1/3 af lengd þess og hún því oltið á hliðina vegna þyngdartilfærslu. Einnig er hugsanlegt að undirlag vinstra beltis gröfunnar hafi gefið sig og við það hafi hún oltið á hliðina. Mögulegt er að ofangreindir þættir hafi verið samverkandi.“

Í framangreindri skýrslu lögreglunnar sagði að dagsbjart hefði verið er slysið varð. Af því sem fram er komið í málinu verður þó ekki fullyrt hvenær slysið hafi nákvæmlega orðið en þegar litið er til þess hversu langt Lúðvík var kominn með verk sitt verður helst ráðið að það hafi orðið laust fyrir klukkan átta um kvöldið. Það hefur því líklega átt sér stað skömmu fyrir sólsetur sem var klukkan 19:53 á Kollaleiru við Reyðarfjörð þennan dag samkvæmt vottorði Veðurstofu Íslands. Ekki mun hafa verið kveikt á vinnuljósum á svæðinu og ekki er upplýst hvort og þá að hve miklu leyti bergstálið kunni að hafa byrgt fyrir sólarljós.

Umrædd beltagrafa mun hafa vegið 51,5 tonn en eins og greinir í héraðsdómi var hún búin sterku húsi og grind til varnar hlutum sem kynnu að falla ofan frá niður á hana eða svokölluðu FOPS (Falling Object Protective Structure). Við flutning málsins fyrir Hæstarétti kom fram af hálfu stefndu að ekki verði ráðið af gögnum málsins að tækið hafi verið búið styrktu grindarstjórnarhúsi til varnar í veltum eða svokölluðu TOPS (Tip Over Protection Structure), eins og miðað var við í hinum áfrýjaða dómi. Óumdeilt er að vélin var ekki búin veltigrind eða svokölluðu ROPS (Rollover Protective Structure).

II

Málsástæður og lagarök aðila eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Áfrýjendur eru ófjárráða dætur Lúðvíks heitins og krefjast þær skaðabóta úr hendi stefnda Suðurverks hf. á grundvelli sakarreglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð, en á hendur stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. vegna ábyrgðartryggingar stefnda Suðurverks hf. hjá félaginu. Reisa þær kröfur sínar einkum á því að slysið verði rakið til þess að öryggisbúnaði beltagröfunnar hafi verið ábótavant, þar á meðal hafi hún ekki verið búin veltigrind eins og lögskylt sé, og að verkstjórn af hálfu stefnda Suðurverks hf. hafi verið ófullnægjandi. Stefndu halda því á hinn bóginn fram að hvorki stefndi Suðurverk hf. né starfsmenn félagsins beri saknæma ábyrgð á slysinu. Benda þeir meðal annars á að búnaður gröfunnar hafi fullnægt öllum kröfum sem gerðar séu til vinnuvélar af þessari gerð. Sem vanur gröfustjórnandi beri Lúðvík alla sök á því hvernig fór, en hann hafi oft áður unnið við sams konar aðstæður og fyrir hendi voru þegar slysið átti sér stað.

III

 Í 13. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er mælt fyrir um að atvinnurekandi skuli tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað, meðal annars við framkvæmd vinnu, sbr. V. kafla laganna. Þá eru í VII. kafla þeirra sérstök ákvæði um vélar, tækjabúnað og fleira. Í gögnum málsins er svokallaður gátlisti eða áhættugreining verkþátta úr staðlaðri öryggis- og umhverfishandbók stefnda Suðurverks hf. sem virðist vera gerður samkvæmt fyrirmælum í XI. kafla laga nr. 46/1980. Í gátlistanum kemur fram að vegna vinnu sem þessarar þurfi að greina áhættu „einu sinni á úthaldi“ og þegar verið sé að „moka í námu“ með gröfu séu „hættur vinnuaðgerðar ... ótraust undirstaða, jarðvegshrun og ofhleðsla“. Í dálki sem ber heitið „Eyðing eða varnaraðgerðir við hættu“ segir að í tilvikum sem þessum þurfi að „fylgjast með athafnasvæði tækisins og hafa traust undirlag“. Á framlögðu eyðublaði eru reitir þar sem gert er ráð fyrir skráð sé hvaða dag og hvenær dagsins verkið sé yfirfarið samkvæmt listanum. Engin slík skráning er í gögnum málsins.

Í þágildandi reglugerð nr. 431/1997 um notkun tækja, sem sett var á grundvelli 47. gr. laga nr. 46/1980, segir meðal annars í 2. mgr. 3. gr. að sé ekki að fullu unnt að tryggja að starfsmenn geti notað tæki án þess að hætta öryggi sínu eða heilsu, skuli atvinnurekandi gera nauðsynlegar ráðstafanir til að áhættunni sé haldið í lágmarki. Í viðauka við reglugerðina er svo að finna lágmarkskröfur sem tæki verða að uppfylla samkvæmt 4. gr. hennar. Í grein 3.1. í viðaukanum er að finna reglur varðandi lágmarkskröfur um hreyfanleg tæki, hvort sem þau eru sjálfknúin eða ekki. Í grein 3.1.4. segir að hreyfanlegt tæki sem geti borið einn eða fleiri starfsmenn skuli vera þannig búið að við raunveruleg notkunarskilyrði sé takmörkuð hætta á að það velti eða því hvolfi. Einnig er tekið fram að ekki séu gerðar kröfur um veltigrind þegar tækið standi stöðugt við notkun eða sé sjálft þannig hannað að það geti ekki oltið. Þó segir að ef hætta sé á að starfsmaður sem er á tækinu geti kramist milli hluta tækis og undirlags, ef tækið velti, skuli vera á því öryggisbúnaður til að koma í veg fyrir slíka hættu.

Í áðurgreindri skýrslu Vinnueftirlitsins er lýst beltagröfunni sem Lúðvík stjórnaði þegar slysið varð. Er þar komist svo að orði: „Að mati Vinnueftirlitsins var vélin rétt búin miðað við það verk sem henni var ætlað.“ Í bréfi Heklu hf. til lögmanns áfrýjenda 16. október 2008 segir ennfremur að grafan hafi hvorki verið búin veltigrind né vottuðu ROPS húsi, en hins vegar sterku húsi af annarri gerð og FOPS vottaðri varnargrind. Hafi grafan og hús hennar verið smíðuð „til samræmis við útlistun og kröfur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/37/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um vélabúnað“. Í hinum áfrýjaða dómi er við það miðað að grafan hafi staðið stöðug við notkun, en af því sem fram er komið í málinu og fyrr er rakið verður ekki ráðið að svo hafi verið. Með vísan til þess sem að framan segir um búnað gröfunnar verður engu að síður að leggja til grundvallar við úrlausn þessa máls að hann hafi fullnægt þeim kröfum sem lög og þágildandi reglur gerðu til hans. Á hinn bóginn kallaði það á ítrustu varkárni af hálfu stefnda Suðurverks hf. þegar vinnutæki af þessari gerð var notað við umrætt verk við þær aðstæður sem fyrir hendi voru. 

Samkvæmt því sem rakið er að framan voru aðstæður mjög erfiðar og hættulegar umrætt sinn. Af þeim sökum var afar brýnt að verkstjórar stefnda Suðurverks hf. fylgdust með athafnasvæði því þar sem nota átti gröfuna, svo að vitnað sé til fyrrgreinds gátlista félagsins, og færu yfir með Lúðvík, sem stjórnanda gröfunnar, hvernig haga mætti framkvæmd verksins þannig að öryggi yrði sem best tryggt. Ekki verður séð að þessa hafi verið gætt og fyrir dómi kváðust verkstjórarnir ekki hafa athugað ástand plansins, sem grafan stóð á, áður en hafist var handa við verkið. Eins og aðstæður voru var heldur ekki forsvaranlegt af þeim að skilja Lúðvík einan eftir við verkið, ekki síst þar sem birtu var farið að bregða og ekki hafði verið kveikt á vinnuljósum í námunni. 

Með vísan til þessa verður talið að verkstjórn af hálfu stefnda Suðurverks hf. hafi verið ábótavant þegar slysið varð þannig að orsök þess verði rakin til saknæmrar háttsemi sem stefndu bera ábyrgð á. Þá þykja stefndu ekki hafa sýnt fram á að ætluð sök Lúðvíks heitins hafi verið slík að áhrif skuli hafa á kröfu áfrýjenda.

IV

Skaðabótakröfur áfrýjenda eru sundurliðaðar í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir hafa áfrýjendur, hverjar um sig, gert kröfu um bætur vegna missis framfæranda sem samsvara einföldum barnalífeyri til 20 ára aldurs. Þær rökstyðja þessar kröfur sínar með því að almennt taki öll börn stúdentspróf eða önnur framhaldsskólapróf og njóti því stuðnings framfæranda til tvítugs. Í 1. mgr. 14. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 er einungis mælt fyrir um bætur fyrir missi framfæranda til handa börnum frá því að tjón verður til 18 ára aldurs en heimilt er að ákveða barni bætur eftir þann aldur samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 12. gr. laganna. Verða bætur á grundvelli síðarnefnda ákvæðisins einungis metnar einstaklingsbundið, sbr. dóm Hæstaréttar 10. mars 2011 í máli nr. 341/2010. Þegar faðir áfrýjenda lést voru rúm 11 ár þar til reynt gæti á þessa framfærslu áfrýjandans Gunnhildar Erlu en hún er elst áfrýjenda. Að þessu virtu þykja þær ekki hafa sýnt fram á að ætla megi að þær verði fyrir framfærslutjóni eftir 18 ára aldur. Verður því ekki fallist á þessar kröfur þeirra. Þá eru kröfur áfrýjenda um bætur vegna útfararkostnaðar engum gögnum studdar og verður heldur ekki á þær fallist.

Verða stefndu því dæmdir til að greiða áfrýjandanum Anítu Rún Bech Kajudóttur, 3.518.796 krónur, Gunnhildi Erlu Lindudóttur 2.345.864 krónur og Huldu Siggerði Lindudóttur 2.932.350 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Stefndu verða dæmdir til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og greinir í dómsorði. Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð gjafsóknarkostnaðar verður staðfest. Um gjafsóknarkostnað áfrýjenda að öðru leyti fer samkvæmt því sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Stefndu, Suðurverk hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði óskipt áfrýjandanum Anítu Rún Bech Kajudóttur 3.518.796 krónur, áfrýjandanum Gunnhildi Erlu Lindudóttur 2.345.864 krónur og áfrýjandanum Huldu Siggerði Lindudóttur 2.932.350 krónur, allt með 4,5% ársvöxtum frá 2. apríl 2006 til 20. maí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð gjafsóknarkostnaðar skal vera óraskað.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda fyrir Hæstarétti 695.000 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns áfrýjenda 600.000 krónur.

Stefndu greiði óskipt samtals 1.786.850 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem renni í ríkissjóð.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. september 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 3. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kaju Ósk Skarphéðinsdóttur f.h. ófjárráða dóttur sinnar, Anítu Rúnar Bech Kajudóttur, Greniteigi 7, Reykjanesbæ og Lindu Björgu Reynisdóttur f.h. ófjárráða dætra sinna, Gunnhildar Erlu Lindudóttur og Huldu Siggerðar Lindudóttur, Rifkelsstöðum 2a, Akureyri á hendur Suðurverki hf., Hlíðarsmára 11, Kópavogi og Vátryggingafélagi Íslands, Ármúla 3, Reykjavík með stefnu birtri 15. júní 2009.

Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndu verði in solidum gert að greiða:

Anítu Rún Bech Kajudóttur kr. 4.632.772, með 4,5% ársvöxtum frá 2. apríl 2006 til 20. maí 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Gunnhildi Erlu Lindudóttur kr. 3.109.840, með 4,5% ársvöxtum frá 2. apríl 2006 til 20. maí 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Huldu Siggerði Lindudóttur kr. 3.696.306, með 4,5% ársvöxtum frá 2. apríl 2006 til 20. maí 2009 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, og taki tildæmdur málskostnaður mið af því að stefnendur eru ekki virðisaukaskattskyldar.

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnenda og tildæmdur málskostnaður úr þeirra hendi að mati dómsins, en til vara að stefnukröfur verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Málsatvik

Faðir stefnenda, Lúðvík Halldórsson, lést í vinnuslysi við Desjarárstíflu Kárahnjúkavirkjunar þann 2. apríl 2006. Starfaði Lúðvík hjá stefnda Suðurverki hf. og var við störf þegar slysið átti sér stað. Lúðvík var þaulvanur vélavinnumaður, er hafði starfað á gröfu hjá stefnda, Suðurverki hf., frá því í nóvember 2003, eða um rúmlega þriggja ára skeið. 

Tildrög slyssins, eins og þeim er lýst í skýrslu Vinnueftirlitsins, voru þau að Lúðvík vann á gröfu við að hreinsa grjót úr kanti grjótnámunnar, en sprengt hafði verið þar skömmu áður. Stóð grafan á plani í sprengdri grjóthrúgunni við verkið þegar hún valt á hliðina. Féll grafan tvo metra niður í námuna og stjórnhús hennar lenti á stórum steini með þeim afleiðingum að Lúðvík lést.

Þegar slysið varð var Lúðvík að vinna í grjótnámu norðan við vinnubúðir Suðurverks við Desjárstíflu. Var honum falið að hreinsa úr bergvegg námunnar eftir að lokið hafði verið við að sprengja bergið. Aðstæður voru allar erfiðar, en miklar frosthörkur höfðu verið. Ekki var hægt að hreinsa úr berginu ofan frá vegna hálku, en á brún námunnar, þar sem sprengt hafði verið, var ótraust móbergslag og frostkögglar, sem hætta var á að féllu niður. Þurfti að hreinsa þetta burt með beltagröfunni. Sökum aðstæðna var Lúðvík því staðsettur niðri í námunni við hreinsun á hinum 9 metra háa bergvegg. Búið var til eins konar stæði fyrir gröfuna á hinu sprengda svæði en færa þurfti gröfuna til á vinnustæðinu eftir því sem leið á verkið.

Þennan dag hafði Lúðvík verið að vinna frá því klukkan 7 árdegis, með einnar og hálfrar klukkustundar hléi um miðbik dagsins á meðan sprengt var í námunni. Um klukkan 19.00 fóru aðrir, sem unnið höfðu við verkið, í mat en Lúðvík varð einn eftir til að ljúka verkinu. Var hann einn að störfum á svæðinu þegar grafan sem hann starfaði á valt með fyrrgreindum afleiðingum.

Engin vitni voru að slysinu.

Grafa sú sem Lúðvík starfaði á í umrætt skipti var með gilda skoðun frá Vinnueftirlitinu og hafði Lúðvík gild réttindi á gröfuna. Grafan var ekki búin veltigrind en var hins vegar búin styrktu grindarstjórnhúsi með tilliti til veltu, TOPS (Tip Over Protection Structure), og einnig til varnar hruni ofan frá eða FOPS (Falling Object Protection System). Var beltagrafan og stjórnhús hennar smíðað í takt við kröfur Evrópuráðstilskipunar nr. 98/73/EB og CE merkt.

Vinnueftirlitið kom á vettvang að morgni dags þann 3. apríl 2006, daginn eftir umrætt slys. Fór fram ítarleg rannsókn á slysinu af hálfu Vinnueftirlitsins og lögreglunnar á Eskifirði. Skv. rannsóknarskýrslu var veður á Kárahnjúkum kl. 20 þann 2. apríl á þann hátt að bjart var af degi, NNV 6.3 m/s, hiti – 7,3° C og gekk á með smá éljum. Við rannsókn á slysinu reyndist gálgi beltagröfunnar hafa verið sem næst í efstu stöðu, þegar slysið varð, og skóflan opin. Mátti sjá af ummerkjum að grafan hafði staðið þvert á planinu á grjótgarðinum með framendann (beltin til austurs) og efri hluta gröfunnar til suðausturs, afstaða til belta var um 45°. Þá mátti sjá að grafan hafði verið færð til um eina vélarlengd til austurs, og að grafan hafði oltið fram og yfir til vinstri úr þeirri stöðu og fallið niður af planinu um tvo metra, þar sem hún hafnaði á stórgrýti og efri hluti stjórnhússins lagðist saman. Reyndist grafan hafa staðið á planinu með þriðjung vinstra beltis í lausu lofti utan við jaðar plansins. Mátti og ráða af malarhrygg milli belta, að grafan hafði lyft upp hægra beltinu um leið og hún valt.

Ágreiningur varð um sök stefnda Suðurverks hf. í máli þessu og var honum skotið til Úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, sem með áliti 16. desember 2008 taldi ekki sýnt fram á að slysið hefði orðið vegna atvika sem stefndi, Suðurverk hf., ætti sök á. Var því höfðað mál þetta af hálfu stefnenda.

Málsástæður og lagarök stefnenda

Stefnendur reisa bótaábyrgð á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Stefnendur telja að koma hefði mátt í veg fyrir slys Lúðvíks Halldórssonar heitins ef verkstjórn og aðstæður á vinnustað hefðu verið fullnægjandi, lögum og reglum verið fylgt, grafan útbúin lögboðinni veltigrind og nægileg aðgát verið viðhöfð á vinnustað af hálfu stjórnenda stefnda, Suðurverks hf.

Byggja stefnendur á því að aðstæður til vinnu hafi verið slæmar á vinnusvæðinu umræddan dag, miklar frosthörkur á staðnum og víða hálka og snjór. Samt sem áður hafi Lúðvík heitnum verið falið að vinna einum, án þess að nokkur annar starfsmaður væri honum til aðstoðar, á afar stórgrýttu vinnusvæði í rökkri við hættulega vinnu. Þá hafi lýsing ekki verið fullnægjandi eins og komi fram í lögregluskýrslu dags. 12. júlí 2006 en þar segir að eftir slysið hafi starfsmenn gert ráðstafanir til að lýsa upp slysstaðinn. Þar að auki hafi Lúðvík verið við vinnu frá því kl. 7 árdegis eða í um 12 klukkustundir.

Stefnendur telja að verkstjóra Suðurverks hf. hafi verið vel ljóst hversu vandasamt og hættulegt það verk var sem hinum látna var falið að vinna þetta kvöld. Grafan hafi verið staðsett niðri í grjótnámu ofan á lausu grjóti þar sem reynt hafi verið að búa til svæði sem grafan gæti staðið á. Verkstjórnendum stefnda, Suðurverks hf., hafi verið fullljóst að færa þurfti gröfuna úr stað svo hreinsa mætti allan bergvegginn. Vegna þess að Lúðvík hafi verið skilinn einn eftir við þetta vandasama verk þá hafi hann ekki notið neinnar leiðsagnar frá starfsmanni niðri á jafnsléttu um undirlagið, heldur hafi hann þurft að meta aðstæðurnar sjálfur ofan úr gröfunni um leið og hann færði gröfuna til á vinnusvæðinu. Það sjónarhorn hafi gert honum nær ókleift að meta með fullnægjandi hætti aðstæður á vinnusvæðinu auk þess sem stefnendur bendi á að kvöldsett hafi verið og myrkur að skella á.

Stefnendur benda á að samkvæmt lögregluskýrslu hafi vinnuljós á svæðinu ekki verið kveikt þegar slysið varð. Allt þetta hafi stuðlað að slysinu. Með því að sjá til þess að einn starfsmaður Suðurverks hf. yrði eftir til að leiðbeina Lúðvík við að færa gröfuna og gæta þess að hún stæði á traustu undirlagi og kveikja vinnuljós á svæðinu þegar rökkvaði, jafnframt því að tryggja næga lýsingu, hefði mátt koma í veg fyrir banaslysið.

Stefnendur byggja kröfu sína jafnframt á því að stefndi, Suðurverk hf., hafi ekki farið eftir ákvæðum reglugerðar um notkun tækja nr. 431/1997 sem í gildi var á slysdegi. Benda stefnendur á að í 1. mgr. 3. gr. segi að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki, sem starfsmönnum séu látin í té innan fyrirtækisins, henti til þeirra verka sem vinna eigi, þannig að starfsmenn geti notað þau án þess að öryggi þeirra eða heilsu stafi hætta af. Af þessu sé ljóst að það sé á ábyrgð atvinnurekanda að velja tæki sem henti til þeirra verka sem starfsmönnum er ætlað að vinna. Starfsmenn eigi að geta notað tækin sem þeim hafi verið fengin til vinnu og jafnframt eigi þeir að geta treyst því að öryggi þeirra eða heilsu stafi ekki hætta af.

Stefnendur benda á að þegar tæki séu valin til vinnu skuli atvinnurekandi hafa í huga þau sérstöku vinnuskilyrði, þær aðstæður og þá áhættu gagnvart öryggi og heilsu starfsmanna sem fyrir hendi séu innan fyrirtækisins og á vinnustað. Einkum skuli atvinnurekandi hafa í huga áhættu á þeim stað þar sem vinna fer fram og enn fremur aðra þá áhættu sem notkun viðkomandi tækis kunni að hafa í för með sér, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Það verk sem Lúðvík heitnum hafi verið falið að vinna hafi verið hættulegt enda vann hann á stæði ofan í grjótnámu sem þakið var lausu stórgrýti. Því hafi verið mikilvægt að grafa sú er hann notaði við verkið væri búin þeim öryggisbúnaði, sem aðstæður sem þessar hafi krafist. Svo hafi hins vegar ekki verið, þar sem grafan var ekki búin fullnægjandi öryggisgrind til að tryggja öryggi stjórnandans að mati stefnenda.

Stefnendur benda jafnframt á þá skyldu atvinnurekanda, sem finna megi í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar, að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að áhættu sé haldið í lágmarki geti atvinnurekandinn ekki að fullu tryggt að starfsmenn geti notað tæki án þess að stofna öryggi sínu eða heilsu í hættu. Því hafi mátt gera þær lágmarkskröfur til stefnda, Suðurverks hf., að sjá til þess að grafa Lúðvíks væri búin fullnægjandi öryggisbúnaði, en svo hafi ekki verið. Ljóst sé því að stefndi, Suðurverk hf., hafi ekki farið að fyrirmælum þessara ákvæða enda hafi grafan ekki verið búin fullnægjandi öryggisbúnaði til að tryggja öryggi stjórnandans. Þá hafi vinnusvæðið verið stórhættulegt og ekki gerðar neinar ráðstafanir til að draga úr hættunni með lýsingu eða hjálp við að staðsetja gröfuna þegar kom að því að færa þurfti hana til við vinnuna.

Stefnendur tilgreina I. viðauka reglugerðarinnar, en í grein 2.6. segi að þegar öryggi og heilbrigði starfsmanna krefjist skuli tryggja stöðugleika tækja með festingum eða á annan hátt. Jafnframt sé að finna lágmarkskröfur um hreyfanleg tæki í grein 3.1.4. Þar segi að hreyfanlegt tæki með starfsmönnum skuli vera þannig búið að við raunveruleg notkunarskilyrði sé takmörkuð hætta á því að það velti eða því hvolfi. Það skuli gert annað hvort með veltigrind sem komi í veg fyrir að tækið hallist meira en 45° eða með grind sem skapi nægilegt rými umhverfis starfsmann á tækinu verði hallinn meiri en 45° eða með öðrum búnaði sem hafi sömu áhrif.

Stefnendur tilgreina einnig ákvæði 3. mgr. 3.4.1. greinar reglugerðarinnar en þar segi að sé hætta á að starfsmaður sem sé á tækinu geti kramist milli hluta tækis og undirlags, ef tækið velti, skuli vera á því öryggisbúnaður til að koma í veg fyrir slíka hættu. Svo hafi ekki verið við ofangreinda framkvæmd og leiði það einnig til bótaábyrgðar stefnda Suðurverks hf. Er og bent á að í grein 3.4.3. segi að sé hætta á því að sjálfknúin vél velti, þar sem ökumaður sé innanborðs, skuli hanna hana og útbúa þannig að á henni séu festingar fyrir veltigrind. Ef vélin velti, eigi veltigrindin að tryggja nægilegt aflögunarrými fyrir ökumann þannig að stýrishúsið klemmi hann ekki.

Stefnendur vísa í að samkvæmt upplýsingum frá Ásmundi Jónssyni, framkvæmdastjóra vélasviðs Heklu hf., dags. 16. október 2008, hafi grafan sem Lúðvík var á ekki verið búin veltigrind eða búnaði í samræmi við ofangreind ákvæði. Það sé því ljóst að Suðurverki hf. hafi borið að tryggja að verk það sem Lúðvík vann væri unnið þannig að sem minnst hætta stafaði af og þannig hefði mátt koma í veg fyrir andlát hans. Sé því ljóst af framansögðu að stefndi, Suðurverk hf., hafi ekki farið eftir þeim reglugerðarákvæðum sem stefnendur hafi tilgreint. Samkvæmt íslenskum rétti sé bótaábyrgð nær undantekningarlaust viðurkennd þegar farið hafi verið á svig við laga- og reglugerðarákvæði og það leitt til tjóns.

Stefnendur telja stefnda, Suðurverk hf., einnig hafa kosið að fylgja ekki ákvæðum II. viðauka reglugerðarinnar, en þar segi í grein 1.1 að tæki skuli staðsett og notað þannig að sem minnst hætta stafi af fyrir þá sem það nota. Einnig sé að finna reglu í ákvæði 3.1.1 sem varða notkun tækja sem lyfta skuli byrðum. Þar segi að tæki sem séu hreyfanleg og ætluð til að lyfta byrði skuli notuð þannig að stöðugleiki tækisins sé tryggður á meðan á notkun tækisins stendur við allar fyrirsjáanlegar aðstæður og tekið sé mið af því hvernig undirlagið sé. Stefndi, Suðurverk hf., hafi ekki virt þessar skyldur sínar sem hvíli á atvinnurekanda og verkstjórum í umboði hans því planið þar sem grafan var staðsett hafi bæði verið stórgrýtt og undirlag þess laust. Því hafi stefnda Suðurverki hf. borið skylda til þess að sjá til að vinnuumhverfi væri forsvaranlegt og í samræmi við lög og reglur en það hefði t.d. mátt gera með því að útbúa stærra og stöðugra vinnuplan fyrir verk það sem Lúðvík var falið að vinna að mati stefnenda. Benda stefnendur einnig á ákvæði 1. mgr. 27. gr. reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996 sem fjallar um uppgröft, vinnu við brunna, neðanjarðarvinnu, gangnagerð og jarðvegsvinnu, en þar segi að gera skuli viðeigandi varúðarráðstafanir við uppgröft, vinnu við brunna, neðanjarðarvinnu og gangnagerð og nota viðeigandi undirstöður.

Stefnendur telja upptalin brot á reglum og reglugerð ásamt áðurnefndri vanrækslu leiða til bótaskyldu Suðurverks hf. Einnig hafi verið brotin ákvæði laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980 og megi sem dæmi nefna ákvæði 37., 42. og 46. gr. laganna. Stefnendur benda á að íslenskir dómstólar hafi gert strangar kröfur til vinnuveitenda og verkstjóra að tryggja eftir fremsta megni öryggi starfsmanna og skapa sem öruggastar vinnuaðstæður og vísa í dóm Hæstaréttar frá 19. mars 2009 í máli nr. 363/2008.

Af framansögðu sé það því ljóst að mati stefnenda að stefnda, Suðurverk hf., hafi virt að vettugi laga- og regluákvæði um hvernig standa skuli að verki til að takmarka slysahættu við jafnhættulegar verkframkvæmdir og þarna var unnið. Telja stefnendur því ljóst að stefnda beri bótaábyrgð á slysi Lúðvíks og krefjast þar af leiðandi greiðslu úr ábyrgðartryggingu stefndu, Suðurverks hf., sem félagið hafði á slysadegi hjá stefnda, Vátryggingafélagi Íslands hf.

Hvað varðar regluna um meðábyrgð tjónþola þá telja stefnendur hana ekki eiga við í þessu tilviki. Reglan sé á þann veg að tjónþoli beri tjón sitt sjálfur í samræmi við þá ábyrgð sem hann beri á því. Eins og fram sé komið hafi Lúðvík verið falið að vinna við afar hættulegar aðstæður á gröfu sem ekki hafi uppfyllt lágmarkskröfur um öryggi. Hefði stefndi farið eftir reglum, hefði slysið a.m.k. ekki orðið jafn alvarlegt og raun bar vitni.

Bótaútreikningur stefnenda

Við ákvörðun bótafjárhæðar byggja stefnendur á ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdegi. Bótakrafa stefnenda er, eins og hún var í kröfubréfi stefnenda til stefnda Vátryggingafélags Íslands hf. dagsettu 20. apríl 2009.

1.                       Bætur vegna hæfilegs útfararkostnaðar, sbr. 12. gr. skaðabótalaga.

Lúðvík heitinn átti dætur sínar með tveimur konum og báru því tvær fjölskyldur kostnað af útför hans. Stefnandi Hulda Siggerður og stefnandi Gunnhildur krefjast bóta vegna hæfilegs útfararkostnaðar hvor að fjárhæð kr. 350.000. Stefnandi Aníta Rún krefst bóta vegna hæfilegs útfararkostnaðar að fjárhæð kr. 700.000.

2.                       Bætur vegna missis framfæranda, sbr. 13. gr. skaðabótalaga.

Á árinu 2006 var barnalífeyrir kr. 17.249, á mánuði. Samkvæmt 62. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé heimilt að ákveða framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ungmennis samkvæmt kröfu þess allt til þess er það nær 20 ára aldri. Stefnendur reisa kröfu sína á því að í dag taki almennt öll börn stúdentspróf eða önnur sambærileg framhaldsskólapróf og séu því í námi til 20 ára aldurs.

Á slysdegi var stefnandi Hulda Siggerður 3 ára og 10 mánaða gömul og átti þá rétt til barnalífeyris til 18 ára aldurs eða í 170 mánuði. Stefnandi telur líklegt að hún hefði notið framfærslu föður síns til 20 ára aldurs og miðar hún því kröfu sína við 194 mánuði eða 194 x 17.249 = 3.346.306 kr.

Á slysdegi var stefnandi Gunnhildur 6 ára og 8 mánaða gömul og átti þá rétt til barnalífeyris til 18 ára aldurs eða í 136 mánuði. Stefnandi telur hér sömuleiðis líklegt að hún hefði notið framfærslu föður síns til 20 ára aldurs og miðar því kröfu sína við 160 mánuði eða 160 x 17.249 = 2.759.840 kr.

Á slysdegi var stefnandi Aníta Rún tæplega eins árs gömul og átti þá rétt á barnalífeyri til 18 ára aldurs eða í 204 mánuði. Stefnandi telur líklegt að hún hefði notið framfærslu föður síns til 20 ára aldurs og miðar því kröfu sína við 228 mánuði eða 228 x 17.249 = 3.932.772 kr.

Samkvæmt ofangreindu eru því gerðar eftirfarandi kröfur:

Stefnandi:

útfararkostnaður:

Missir framfæranda:

Hulda Sigg. Lindudóttir

350.000

3.345.306               3.696.306

Gunnhildur E. Lindudóttir

350.000

2.759.840               3.109.840

Aníta Rún Kajudóttir

700.000

3.932.772                4.632.772

Vaxtakrafa stefnenda byggð á 16. gr. skaðabótalaga. Vaxta krafist frá slysdegi, en dráttarvaxta frá 20. maí 2009, skv. 9. gr. sbr., 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, þegar mánuður var liðinn frá því lögmaður stefnenda krafði stefnda Vátryggingafélag Íslands hf. bréflega um greiðslu skaðabóta. Lágu þá fyrir mati stefnenda, öll gögn sem stefndu þurftu til meta tjónsatvik og fjárhæð bóta.

Málskostnaðarkrafa stefnenda byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi ekki virðisaukaskattskyldur og því nauðsynlegt taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar.

Stefndu Suðurverki hf. og Vátryggingafélagi Íslands hf. báðum stefnt í þessu sama máli með heimild í 44. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu 

Sýknukrafa stefndu byggð á því ekki sannað stefndi, Suðurverk hf. eða starfsmenn hans, eigi nokkra sök á slysi Lúðvíks, og telja þeir augljóslega megi rekja það til gáleysis hans sjálfs. Benda stefndu á í því sambandi á samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglunnar á Eskifirði og niðurstöðu rannsóknar Vinnueftirlitsins hafi slysið hlotist af því Lúðvík hafi staðsett gröfuna svo tæpt á planinu þriðjungur lengdar vinstra beltis gröfunnar hafi verið í lausu lofti utan við planið, er orsakaði þyngdartilfærslu á gröfunni til vinstri. Hafi þetta valdið því grafan valt niður af planinu. Telja stefndu það hafa verið stórkostlega gálaust af Lúðvík fara svona tæpt með gröfuna. Stefndu benda einnig á lögreglan og vinnueftirlitið hafi talið hugsanlegt, undirlagið undir vinstra belti gröfunnar hefði gefið sig og grafan oltið við það, eða báðir þessir þættir hafi saman orsakað það grafan valt. Telja stefndu það ekki skipta máli hvort heldur var, þar sem Lúðvík hafi í öllum tilvikum verið orsakavaldur þess grafan valt út af planinu. Hafi það verið Lúðvík og enginn annar sem hafi búið til undirstöðuna fyrir gröfuna til standa á. Því hafi Lúðvík sjálfur valdið slysinu með því vanrækja gera undirstöðuna nægilega trausta. sama skapi álíta stefndu Lúðvík hafi valdið slysinu með því fara með gröfuna svo tæpt út á jaðar plansins, vinstra belti gröfunnar fór út fyrir planið og grafan valt. Eigi Lúðvík því bersýnilega sjálfur sök á slysinu, enda hafi það staðið honum næst og verið í hans verkahring tryggja stöðugleika gröfunnar á planinu. Hafi það átt vera honum vandalaust enda manna vanastur búa til undirstöður undir gröfuna og útsýni gott úr stjórnhúsinu niður á belti og undirstöðu gröfunnar. Telja stefndu ekkert sem afsakar eigin sök Lúðvíks í þessu efni. Honum hafi aldrei getað dulist staðsetning gröfunnar á planinu og afstaða hennar til jaðars plansins. Með þessu atferli hafi Lúðvík sýnt stórkostlegt gáleysi.

Þá benda stefndu á að niðurstöðu vinnueftirlitsins um orsakir slyssins, sem studd sé niðurstöðu rannsóknar lögreglunnar á Eskifirði á slysinu, hafi ekki verið hnekkt. Beri því að leggja hana til grundvallar um orsakir slyssins.

Stefndu mótmæla því að stefnda, Suðurverki hf., hafi verið lögskylt að búa gröfuna veltigrind sbr., 3.1.4. gr. rgl. nr. 431/1997. Þar segi að hreyfanleg tæki skuli annað hvort búin veltigrind eða vera með grind, sem skapi nægilegt rými umhverfis starfsmann, ef hallinn verði meiri en 45°, eða með öðrum búnaði sem hafi sömu áhrif. Telja stefndu að grafan hafi verið búin slíkum búnaði og sé það staðfest af Vinnueftirlitinu að grafan hafi verið rétt búin miðað við það verk sem henni var ætlað. Þá segi í grein 3.1.4 að ekki séu gerðar kröfur um veltigrindur þegar tækið stendur stöðugt við notkun. Fari því fjarri að skylt hafi verið að búa gröfuna veltigrind.

Stefndu segja ósannað að stefndi, Suðurverk hf., hafi brotið nokkur ákvæði laga eða reglugerða í tengslum við framkvæmd verksins, er Lúðvík var að vinna við þegar hann lést og að andlát hans verði rakið til þess. Hefði Vinnueftirlitið enda getið þess í skýrslu sinni hefði svo verið. Telur stefndi að tilvísanir stefnenda í almenn öryggis- og aðgæsluákvæði í lögum og reglugerðum og lítt rökstuddar fullyrðingar um meint brot stefnda á þeim hafi því ekkert gildi í þessu efni. Segir stefndi jafnframt ósannað að veltigrind hefði komið í veg fyrir slysið eins og það bar að, og raunar sé það afar ósennilegt, þar sem grafan féll um tvo metra niður af planinu og skall með stýrishúsið á stórgrýti svo efri hlutinn féll saman. Veltigrind hefði engu breytt þar um.

Samkvæmt veðurlýsingu í rannsóknarskýrslu lögreglunnar hafi verið bjart af degi þegar slysið varð. Sé því rangt hjá stefnendum að rökkvað hafi verið og nauðsynlegt að lýsa vinnusvæðið upp meðan vinna stóð yfir. Segir stefndi því alls ósannað að vöntun á vinnulýsingu hafi valdið slysinu. Það að starfsmenn hafi gert ráðstafanir til að lýsa upp slysstaðinn við rannsókn eftir slysið sanni ekki að lýsingar hafi verið þörf meðan Lúðvík var við störf, svo sem stefnendur haldi fram, enda hafi Vinnueftirlitið engar athugasemdir gert hvað varðaði lýsingu á svæðinu.

Stefndi segir ekki hafa verið þörf á né skylt að hafa sérstakan aðstoðarmann á staðnum þegar slysið varð. Mjög vel hafi sést úr stjórnhúsi gröfunnar niður á undirlagið og belti gröfunnar og vandalaust fyrir stjórnanda gröfunnar að sjá staðsetningu hennar á undirlaginu. Hafi Lúðvík verið manna reyndastur að vinna með beltagröfu við þessar starfsaðstæður og manna færastur til að fylgjast sjálfur með og meta allar aðstæður við vinnuna og stöðu gröfunnar á undirlaginu. Stefndi segir Lúðvík sjálfan hafa stjórnað framkvæmd á verkinu, enda unnið gröfuvinnu í námunni allan veturinn og engin þörf hafi verið á annarri verkstjórn. Segir stefndi að ef þess hefði verið þörf hefði Lúðvík fengið aðstoðarmann ef hann hefði óskað þess, en svo hafi ekki verið. Vinnueftirlitið hafi heldur engar athugasemdir gert við það eða verkstjórnina. Sé því alls ósannað að mati stefnda að viðvera aðstoðarmanns á staðnum hefði afstýrt slysinu.

Fullyrðingar í stefnu þess efnis að verk það sem Lúðvík var falið hafi verið mjög hættulegt segir stefnda vera rangar. Verkið hafi ekki verið hættulegra en gengur og gerist í malar- og grjótnámum, þar sem unnið sé með beltagröfum við hreinsun og tilfærslu grjóts og annarra jarðvegsefna. Hafi ekki verið um að ræða hættulegan atvinnurekstur í lagaskilningi. Verði því ekki séð að stefnendur byggi kröfur sínar á því að mati stefndu.

Því segja stefndu ljóst að þau beri ekki skaðabótaábyrgð á slysi Lúðvíks og því sé ekki grundvöllur til heimtu skaðabóta fyrir missi framfæranda úr hendi stefndu.

Varakröfu sína byggja stefndu á því að Lúðvík eigi í öllu falli meginsök á slysinu og beri að lækka stefnukröfur til samræmis við það. Vísa stefndu til eigin sakar Lúðvíks á slysinu eins og áður sé greint frá. Verði ekki fram hjá því horft að ef Lúðvík hefði ekki farið með belti gröfunnar út fyrir jaðar undirstöðunnar, eins og hann gerði, og ekki vanrækt að hafa undirstöðuna nægilega trausta í kantinn þá hefði ekkert slys orðið. Sé eigin sök Lúðvíks á slysinu því vafalaus að mati stefndu.

Þá telja stefndu að lækka beri stefnukröfur sem svari mismun á umstefndu jafnvirði barnalífeyrisgreiðslna til 20 ára aldurs og jafnvirði barnalífeyrisgreiðslna til 18 ára aldurs, en samkvæmt 14. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 takmarkist fjárhæð bóta við jafnvirði barnalífeyrisgreiðslna til 18 ára aldurs, en stefnendur hafi ekki leitt sönnur að því, að þeir myndu í raun hafa notið framfærslu Lúðvíks heitins til 20 ára aldurs svo sem stefnukröfur miðast við. Einnig mótmæla stefndu kröfu vegna áætlaðs útfararkostnaðar sem of hárri og órökstuddri og upphafstíma dráttarvaxtakröfu sé einnig andmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Niðurstaða

Stefnendur reisa bótaábyrgð á sakarreglunni og reglunni um vinnuveitendaábyrgð. Telja stefnendur að koma hefði mátt í veg fyrir slys Lúðvíks Halldórssonar heitins ef verkstjórn og aðstæður á vinnustað hefðu verið fullnægjandi, lögum og reglum verið fylgt, grafan búin lögboðinni veltigrind og nægileg aðgát verið viðhöfð á vinnustað af hálfu stjórnenda stefnda, Suðurverks hf.

Fram fór rannsókn á slysinu af hálfu lögreglunnar á Eskifirði og Vinnueftirlitsins. Samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglunnar á Eskifirði var Lúðvík Halldórsson við vinnu á Caterpillar beltagröfu í grjótnámu við Desjarárstíflu við Kárahnjúka þegar slysið varð 2. apríl 2006. Grjótið var unnið með því að sprengja fram brúnina í námunni og var beltagrafan notuð eftir sprengingar til að færa til grjótið og hreinsa brúnina. Fyrr þann dag sem slysið varð hafði verið sprengt kl.17:00 í námunni um 60 til 70 metra langt belti. Beltagrafan var staðsett uppi á grjóthaugnum sem hafði myndast framan við klettastálið við sprenginguna, þar sem Lúðvík útbjó púða (plan) fyrir vélina meðan hann vann verk sitt. Hann var að vinna við að hreinsa móbergslag og frostköggla úr brúninni og var einn við vinnu sína þegar slysið varð.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins segir svo um niðurstöðu rannsóknar:

Við skoðun Vinnueftirlitsins á vettvangi lá grafan á hliðinni og stjórnhús hennar lá á stórum steini og hafði það lagst mikið saman. Gröfuarmurinn var mikið reistur og sneri í um 45˚ miðað við stöðu beltanna. Af ummerkjum að dæma voru greinileg för eftir belti vélarinnar þar sem hún hafði staðið á plani þar sem grjóthryggur hafði myndast á milli beltanna. Við skoðun á undirlagi vinstra beltis sást að þar vantaði u.þ.b. 1/3 í undirlagið miðað við undirlag hægra beltis… Við skoðun á vettvangi var mikil hálka og svæðið erfitt yfirferðar. Af ummerkjum að dæma var ekki hægt að sjá að steinn eða annar jarðvegur hafi skriðið undan vinstra belti gröfunnar.

Í skýrslu Vinnueftirlitsins segir svo um niðurstöðu rannsóknar:

Miðað við stöðu gröfuarms sem var u.þ.b. í efstu stöðu og skófluna framrétta og stöðu við undirvagn virðist, sem henni hafi verið beint að námukantinum (móbergslaginu) ofan á bergstálinu þegar hún valt. Af ummerkjum að dæma virðist ljóst að vélin hefur ekki skriðið til heldur oltið, þar sem grjóthryggur milli beltafaranna, þar sem vélin hafði staðið var mjög greinilegur.

Um orsök slyssins segir svo í skýrslu Vinnueftirlitsins:

Með hliðsjón af ofangreindu og þeim gögnum sem liggja fyrir er það mat Vinnueftirlitsins að rekja megi orsök slyssins til þess að grafan hafi staðið þannig að framendi vinstra beltisins hafi verið á lofti, þar sem í undirlagið vantaði u.þ.b. 1/3 af lengd þess og hún því oltið á hliðina vegna þyngdartilfærslu. Einnig er hugsanlegt að undirlag vinstra beltis gröfunnar hafi gefið sig og við það hafi hún oltið á hliðina. Mögulegt er að ofangreindir þættir hafi verið samverkandi.

Niðurstaða Vinnueftirlitsins um orsök slyssins er á sömu lund og komist var að samkvæmt rannsóknarskýrslu lögreglu.

Stefnendur byggja í fyrsta lagi á því að ófullnægjandi aðstæður hafi verið til vinnu á vinnusvæðinu umræddan dag. Lúðvík hafi verið falið að vinna einum, án aðstoðar, á afar stórgrýttu vinnusvæði í rökkri við hættulega vinnu. Lýsing hafi ekki verið fullnægjandi.

 Vitnið Helgi Benóný Gunnarsson, verkstjóri hjá stefnda Suðurverki hf., bar fyrir dómi að vinna við námuna hafi staðið yfir allan veturinn, líklega allt frá árinu 2004. Hafi vinnan snúist um að ná í grjót til að setja utan á Desjarárstíflu. Vitnið sagði Lúðvík hafa verið alvanan, hann hafi verið mjög klár og hefði unnið lengi við það starf sem hann innti af hendi þennan dag. Vegna aðstæðna hafi verið ákveðið að vinna grjótvinnsluna neðan frá. Bergið hafi verið hallandi og því ekki aðstæður til að vinna bergið ofan frá. Vitnið segir að aðferðin við verkið hafi verið ákveðin af þeim í sameiningu. Þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem verkið var unnið á þennan hátt. Vitnið kvaðst ekki hafa skoðað sérstaklega planið sjálft sem grafan stóð á, en sagði Lúðvík allan veturinn hafa útbúið viðlíka plan undir gröfuna. Vitnið sagði það aldrei tíðkast að hafa annan mann til að leiðbeina við verkið á staðnum, því sá einstaklingur væri þá í mikilli hættu. Um beltagröfuna sem Lúðvík vann á sagði vitnið að um væri að ræða venjulega gröfu með sérstakri grjótskóflu. Veltigrindur séu inni í húsunum, og komi grafan þannig frá framleiðanda.

Vitnið Þórir Árnason, verkstjóri stefnda Suðurverks hf., sagði fyrir dómi að ekki tíðkist að setja viðbótar öryggisbúnað á húsið umfram það sem hafi verið til staðar á gröfunni. Vélin hafi verið búin grjóthlíf að framanverðu en slík hlíf gagnist ekki í slysi sem þessu. Sagði hann jafnframt að Lúðvík hefði verið mjög vanur starfi sem þessu og að hann hefði útbúið plan undir gröfuna. Hafði vitnið ekki séð neitt óvenjulegt við planið, það hafi virst venjulegt og traust, en vitnið sagðist hafa skoðað planið eftir slysið. Vitnið sagði jafnframt ekkert benda til þess að planið hefði gefið sig á einhvern hátt. Vitnið sagði aðferðina við að hreinsa bergið, en það var gert neðan frá, hafa komið til vegna þess að frost hafi verið mikið og því hentað illa að hreinsa bergið ofan frá. Vitnið sagði að oft væri haft samráð milli vinnumanna ef erfiðar aðstæður koma upp en yfirleitt séu þetta vanir menn sem vinni þessa hefðbundnu vinnu frá degi til dags. Vitnið áréttaði að Lúðvík hefði verið mjög vanur starfsmaður sem starfað hafði við þetta árum saman.

Samkvæmt vottorði veðurstofu var veður á Kárahnjúkum þann 2. apríl 2006 sem hér segir: kl. 19:00: NNV 6.3 m/s, hiti – 7,4° C , kl.20:00: NV 6,9, mesti vindhraði 7,0, hiti – 7,3° C. Í rannsóknarskýrslu lögreglu segir að bjart hafi verið af degi og gengið á með smáéljum.

 Af gögnum máls verður ekki ráðið að óforsvaranlegt hafi verið að fela Lúðvík að vinna þetta verk við þær aðstæður sem voru. Fyrir liggur að Lúðvík var mjög vanur og hæfur stjórnandi vinnuvéla, eins og þeirrar sem hann vann á er slysið varð. Þá hafa verkstjórar stefnda, Suðurverks hf., borið að hann hafi oft unnið samskonar verk áður og stjórnandi gröfunnar sé ávallt einn að verki. Þá benda rannsóknargögn ekki til annars en að verkið hafi verið unnið við viðunandi birtuskilyrði. Af hálfu Vinnueftirlitsins, sem rannsakaði slysavettvang, voru engar athugasemdir gerðar við vinnuaðstæður, verkstjórn eða framkvæmd verksins. Verður því ekki fallist á að stefndi, Suðurverk hf., beri bótaábyrgð á slysinu vegna ófullnægjandi starfsaðstæðna.

Stefnendur byggja í öðru lagi á því að slysið megi rekja til ófullnægjandi öryggisbúnaðar gröfunnar sem Lúðvík vann á er slysið varð. Í því sambandi er einkum vísað til þess að grafan hafi ekki verið búin veltigrind til að tryggja öryggi stjórnandans.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 431/1997 um notkun tækja, sem í gildi var þegar slysið varð, kemur fram að atvinnurekandi skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að tæki sem starfsmönnum eru látin í té innan fyrirtækis henti til þeirra verka sem vinna eigi eða séu hæfilega löguð að þeim. Í grein 3.1.4. í viðauka I í nefndri reglugerð, segir að hreyfanlegt tæki skuli annað hvort búið veltigrind sem komi í veg fyrir að tækið hallist meira en 45 gráður eða með grind, sem skapi nægilegt rými umhverfis starfsmann, ef hallinn verði meiri en 45°, eða með öðrum búnaði sem hafi sömu áhrif. Þá segir í 3. mgr. greinar 3.1.4. í viðauka I að sé hætta á að starfsmaður sem sé á tækinu geti kramist milli hluta tækis og undirlags, ef tækið velti, skuli vera á því öryggisbúnaður til að koma í veg fyrir slíka hættu.

Samkvæmt upplýsingum frá vélasviði Heklu hf., sem flytur inn Caterpillar vinnuvélar, var vinnuvél sú sem hér um ræðir ekki með búnað til að koma í veg fyrir að vélin ylti. Fram kom að vélin hafi verið búin sterku húsi og svokallaðri FOPS eða „Falling Object Protection System“ sem er vottuð varnargrind til varnar hlutum sem falla ofanfrá og niður á hús tækisins. Jafnframt er greint frá því að Caterpillar beltagröfur séu ekki búnar vottuðu ROPS húsi eða „Rolling Over Protective Structure. Tækið og hús þess sé smíðað til samræmis við útlistun og kröfur tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/37/EB um samræmingu laga aðildarríkjanna um vélabúnað og sé CE merkt eins og lög gera ráð fyrir. Vélin var með gilda skoðun frá Vinnueftirlitinu til ágúst 2006 og var hún að mati Vinnueftirlitsins rétt búin miðað við það verk sem henni var ætlað. Verður því ekki fallist á að með notkun tækisins í því verki sem hér um ræðir hafi, að því er öryggisbúnað þess varðar, verið brotið gegn 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 431/1997 og grein 3.1.4. í viðauka I, enda er þar sérstaklega tekið fram að ekki séu gerðar kröfur um veltigrindur þegar tækið stendur stöðugt við notkun.

Stefnendur byggja í þriðja lagi á því að stöðuleiki gröfunnar hafi ekki verið tryggður og með því hafi verið brotið gegn ákvæðum II. viðauka reglugerðar nr. 431/1997, en þar segi í grein 1.1. að tæki skuli staðsett og notað þannig að sem minnst hætta stafi af fyrir þá sem það nota. Einnig hafi verið brotið gegn grein 3.1.1. en þar segir að tæki sem séu hreyfanleg og ætluð til að lyfta byrði skuli notuð þannig að stöðugleiki tækisins sé tryggður á meðan á notkun tækisins stendur við allar fyrirsjáanlegar aðstæður og tekið sé mið af því hvernig undirlagið sé.

Eins og fram er komið stjórnaði Lúðvík sjálfur framkvæmd á verki sínu og bjó til undirstöðu (plan) með gröfunni ofan á grjótgarði fyrir gröfuna til að standa á við verkið. Var hann þaulvanur í slíkum verkum. Liggur ekkert fyrir um það í rannsóknargögnum að andstætt hafi verið greindum ákvæðum II. viðauka reglugerðarinnar hvernig að því verki var staðið og er þeirri málsástæðu hafnað.

Ekki verður fullyrt með vissu um orsök slyssins en af niðurstöðu rannsóknar lögreglu og Vinnueftirlitsins verður ráðið að tvennt komi til greina. Annars vegar að grafan hafi staðið þannig að framendi vinstra beltisins hafi verið á lofti, þar sem í undirlagið vantaði u.þ.b. 1/3 af lengd þess og hún því oltið á hliðina vegna þyngdartilfærslu. Hins vegar að undirlag vinstra beltis gröfunnar hafi gefið sig og við það hafi hún oltið á hliðina. Eins sé mögulegt að þessir þættir hafi verið samverkandi. Hvort heldur sem var er ósannað, eins og atvikum er háttað í máli þessu, að slysið verði rakið til atvika, sem stefndi, Suðurverk hf., ber bótaábyrgð á. Verða stefndu því sýknaðir af kröfum stefnenda í máli þessu, en rétt þykir að málskostnaður verði felldur niður.

Stefnendur hafa gjafsókn í máli þessu samkvæmt gjafsóknarleyfum dags. 12. febrúar 2009. Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnenda, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 1.091.850 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

      Stefndu, Suðurverk hf. og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýknir af kröfum stefnenda, Kaju Óskar Skarphéðinsdóttur f.h. ófjárráða dóttur sinnar, Anítu Rúnar Bech Kajudóttur, og Lindu Bjargar Reynisdóttur f.h. ófjárráða dætra sinna, Gunnhildar Erlu Lindudóttur og Huldu Siggerðar Lindudóttur, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður stefnenda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns stefnenda, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 1.091.850 krónur.