Hæstiréttur íslands

Mál nr. 706/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fasteign
  • Þinglýsing
  • Aflýsing
  • Eignarnám


                                     

Fimmtudaginn 12. nóvember 2015.

Nr. 706/2015.

Kópavogsbær

(Guðjón Ármannsson hrl.)

gegn

Þorsteini Hjaltested og

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

Kærumál. Fasteign. Þinglýsing. Aflýsing. Eignarnám.

K kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu um að hrundið yrði ákvörðun sýslumanns um að afmá úr fasteignabók sáttargerð um eignarnám á landi úr jörðinni Vatnsenda í Kópavogi. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að samkvæmt 32. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 væri réttarvernd eignarnámsgerða háð þinglýsingu og við mat á því hvort að umrædd sáttargerð teldist eignarnámsgerð í skilningi ákvæðisins yrði að horfa til efnis hennar. Taldi Hæstiréttur að ljóst væri að sáttargerðin væri staðfesting á réttindum K yfir hinu eignarnumda landi og því eignarnámsgerð í skilningi fyrrgreinds ákvæðis og hefði því K verið rétt að þinglýsa sáttargerðinni. Var ákvörðun sýslumanns því felld úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2015, en kærumálsgögn bárust réttinum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. september 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hrundið yrði ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 10. júní 2014 um að afmá úr fasteignabók sáttargerð 30. janúar 2007 um eignarnám á landi úr jörðinni Vatnsenda í Kópavogi. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði hrundið og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði gerðu sóknaraðili og varnaraðilinn Þorsteinn Hjaltested með sér svokallaða sáttargerð 30. janúar 2007 í kjölfar þess að umhverfisráðherra veitti sóknaraðila 10. sama mánaðar heimild til eignarnáms á landi úr jörðinni Vatnsenda. Í sáttargerðinni, sem var lögð fram 8. febrúar 2007 í máli þessara aðila fyrir matsnefnd eignarnámsbóta, var í 1. gr. lýst afmörkun hins eignarnumda landsvæðis og í 2. gr. var kveðið á um greiðslur fyrir landið sem annars vegar skyldi inna af hendi með peningum við undirritun sáttargerðarinnar og síðan 1. febrúar 2007, samtals 2.250.000.000 krónur, og hins vegar með því að varnaraðilinn Þorsteinn fengi án endurgjalds úthlutað tilteknum fjölda lóða úr landinu sem sóknaraðili skuldbatt sig til að skipuleggja fyrir byggingu íbúðarhúsa og atvinnuhúsnæðis. Í sáttargerðinni sagði að sóknaraðili „tekur yfir hið eignarnumda landsvæði í samræmi við ákvæði laga nr. 11/1973“ um framkvæmd eignarnáms. Þar var að auki kveðið á um skyldu hans til að greiða kostnað varnaraðilans af „framkvæmd eignarnámsins“ samkvæmt úrskurði matsnefndarinnar, svo og allan kostnað af „þinglýsingu eignarnámsgerðar“ og „stofnun lóða og þinglýsingu lóðaleigusamninga vegna þeirra.“ Óumdeilt er að sóknaraðili hefur innt af hendi peningagreiðslur samkvæmt sáttargerðinni að því leyti sem þær eru þegar fallnar til, en ágreiningur hefur á hinn bóginn staðið milli hans og varnaraðilans Þorsteins um réttar efndir hennar að öðru leyti.

Sóknaraðili afhenti sáttargerðina til þinglýsingar hjá sýslumanninum í Kópavogi 30. mars 2007 og var hún innfærð í þinglýsingabók 29. mars 2008. Með bréfi til sýslumanns 17. febrúar 2014 kröfðust sjö manns, sem kallað hafa eftir arfi við skipti á varnaraðilanum dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, þess að sáttargerðin yrði afmáð úr þinglýsingabók. Með bréfi 10. júní sama ár greindi sýslumaður frá ákvörðun sinni um að verða við þessari kröfu sökum þess að skjalið ætti „ekki lengur erindi á þinglýsingarvottorð“ og hefði það „nú verið yfirstrikað eins og gert er við eldri skjöl þegar líftíma þeirra á þinglýsingarvottorði er lokið.“ Skilja verður þessa ákvörðun svo að samkvæmt henni hafi sáttargerðin verið afmáð úr þinglýsingabók. Lýtur ágreiningur aðila að því hvort sú ákvörðun hafi verið réttmæt.

II

Í 1. mgr. 29. gr. þinglýsingalaga segir að þinglýsa skuli réttindum yfir fasteign til þess að þau haldi gildi sínu gagnvart þeim sem reisa rétt sinn á samningum um eignina og gagnvart skuldheimtumönnum eiganda eða annars rétthafa að eign. Samkvæmt 32. gr. laganna er réttarvernd eignarnámsgerða háð þinglýsingu. Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði sagði meðal annars um síðarnefndu lagagreinina í athugasemdum með frumvarpi sem varð að þinglýsingalögum að það væri „eignarnámsgerðin í fullri mynd og hún ein“ sem gæti orðið grundvöllur þinglýsingar og þyrfti eigandi ekki að þola þá þinglýsingu á eign sinni fyrr en bætur hefðu verið greiddar. Samkvæmt 13. gr. laga nr. 11/1973 getur eignarnemi tekið umráð eignarnumins verðmætis gegn greiðslu matsfjárhæðar og kostnaðar af mati og sama gildir þegar sátt hefur orðið um eignarnámsbætur eftir 7. gr. laganna.

Við mat á því hvort sáttargerðin 30. janúar 2007 teljist eignarnámsgerð í skilningi 32. gr. þinglýsingalaga verður að horfa til efnis hennar. Í henni var lýst afmörkun hins eignarnumda lands og samkomulagi um endurgjald fyrir það. Þá sagði í sáttargerðinni að sóknaraðili yfirtæki hið eignarnumda landsvæði í samræmi við ákvæði laga nr. 11/1973 og bæri allan kostnað af þinglýsingu eignarnámsgerðar. Af þessu er ljóst að sáttargerðin var staðfesting á réttindum sóknaraðila yfir hinu eignarnumda landi og því eignarnámsgerð í skilningi 32. gr. þinglýsingalaga. Breytir þar engu þótt nú sé deilt um efndir ákvæða sáttargerðarinnar um annað en greiðslu peninga, en í þessu máli er hvorki til úrlausnar ágreiningur um það efni né hvort varnaraðilinn Þorsteinn hafi verið bær til að gera ráðstöfun sem þessa um land Vatnsenda. Að þessu virtu var sóknaraðila rétt að þinglýsa sáttargerðinni, enda var vernd réttinda hans samkvæmt henni háð þinglýsingu og eru engin rök til að telja þörf á þeirri vernd liðna undir lok, svo sem sýslumaður virðist hafa lagt til grundvallar ákvörðun sinni sem hér er deilt um. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina á þann hátt sem fram kemur í dómsorði.

Eftir þessum úrslitum verður varnaraðilum í sameiningu gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi 10. júní 2014 um að afmá úr þinglýsingabók sáttargerð 30. janúar 2007 um eignarnám á landi úr jörðinni Vatnsenda í Kópavogi.

Varnaraðilar, Þorsteinn Hjaltested og dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, greiði í sameiningu sóknaraðila, Kópavogsbæ, samtals 1.000.000 krónur málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 30. september 2015.

Með bréfi sýslumannsins í Kópavogi, sem barst Héraðsdómi Reykjaness 12. nóvember 2014, var skotið til dómsins úrlausn þinglýsingarstjóra 10. júní 2014 þar sem hann féllst á beiðni um að afmá sáttargerð í eignarnámsmáli um jörðina Vatnsenda, Kópavogi, úr fasteignabók. Málið var tekið til úrskurðar 23. september sl.

Sóknaraðili er Kópavogsbær, Hamraborg, Kópavogi, en varnaraðilar eru dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, Fjarðargötu 11, Hafnarfirði, og Þorsteinn Hjaltested, Vatnsenda, Kópavogi.

Dómkröfur sóknaraðila eru þær að hrundið verði þeirri úrlausn sýslumannsins í Kópavogi 10 júní 2014 að afmá af þinglýsingavottorði Vatnsenda, landnúmer 11697, sáttargerð um eignarnám, dagsett 30. janúar 2007. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested gerir þá kröfu að dómkröfum sóknaraðila verið hafnað og að varnaraðila verði dæmdur málskostnaður úr hendi sóknaraðila. Varnaraðili Þorsteinn Hjaltested krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að sóknaraðili verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar.

I

Mál þetta á rætur að rekja til erfðaskrár sem Magnús Einarsson Hjaltested gerði 4. janúar 1938 en samkvæmt henni skyldu allar eignir hans, jörðin Vatnsendi og lausir munir, ganga til Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested með nánar greindum takmörkunum. Sigurður Kristján lést 1966 og með dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 var komist að þeirri niðurstöðu að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda væri á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested. Dánarbúið er nú undir opinberum skiptum. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 751/2014 var því slegið föstu að afnota- og umráðaréttur að jörðinni væri á hendi varnaraðilans Þorsteins Hjaltested en þessi réttindi voru áður á hendi föður hans, Magnúsar Sigurðssonar Hjaltested, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 110/1967.

Þann 30. janúar 2007 var gerð sátt í eignarnámsmáli sóknaraðila og varnaraðila Þorsteins um að sóknaraðili fengi i sinn hlut 864 hektara úr landi Vatnsendajarðarinnar. Var skjalið móttekið til þinglýsingar 30. mars 2007 en innfært 29. mars 2008. Fram kemur í gögnum málsins að sýslumanni í Kópavogi barst beiðni 15. febrúar 2014 um að framangreind sáttargerð um eignarnám yrði afmáð úr fasteignabók. Þinglýsingarstjóri féllst á beiðnina 10. júní 2014 og segir m.a. eftirfarandi í bréfi hans til málsaðila: „Skjal þetta innheldur lýsingu á því hvar það land liggur sem Kópavogsbær hefur tekið eignarnámi. Á þeim tíma sem skjalinu var þinglýst voru ákvæði laga á þann veg að skylt var að þinglýsa stofnskjölum. Eðlilegt var að þinglýsa einnig öðrum skjölum, sambærilegum við stofnskjöl, er vörðuðu legu, stærð og staðsetningu lands. Þinglýsing skjalsins var þess vegna ekki röng á þeim tíma sem þinglýsingin var gerð þótt deila megi um hversu mikið erindi ákvæði um bótagreiðslur eigi í þinglýsingarbækur. Fallast má á það að skjalið eigi ekki lengur erindi á þinglýsingarvottorð og hefur það nú verið yfirstrikað eins og gert er við eldri skjöl þegar líftíma þeirra á þinglýsingarvottorð er lokið.“

 Í bréfi, dagsettu 1. júlí 2014, tilkynnti sóknaraðili að hann hygðist bera þessa úrlausn þinglýsingarstjóra undir héraðsdóm. Sýslumaður sendi kæru sóknaraðila með bréfi til héraðsdóms 12. nóvember 2014 og kemur jafnframt fram í bréfi sýslumanns að kæra sóknaraðila hafi ekki verið árituð um móttöku hjá sýslumanni er hún barst en hún hafi borist innan þess frests sem 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 tiltekur.

II

Sóknaraðili telur mjög óljóst hvað felist í úrlausn þinglýsingarstjóra. Ekki sé skýrt nánar hvað felist í „yfirstrikun“ skjalsins og ekki sé vísað til tiltekinna ákvæða í þinglýsingalögum um réttaráhrif þess. Þá veki athygli að hvorki sé talað um að skjalinu hafi verið aflýst eða það afmáð. Þaðan af síður komi fram að skjalinu hafi verið aflýst úr þinglýsingabók. Einungis sé vísað til þinglýsingavottorðs í því sambandi. Að mati sóknaraðila sé vegið að áreiðanleika þinglýsingarbókar með svo óskýrri ákvörðun. Sóknaraðili neyðist hins vegar til að setja fram kröfugerð sína þannig að gerð sé krafa um að hrundið verði þeirri úrlausn sýslumannsins í Kópavogi frá 10. júní 2014 að afmá af þinglýsingarvottorði Vatnsenda sáttargerð um eignarnám, dags. 30. janúar 2007. Það sé þó vandkvæðum bundið að setja fram kröfugerð þegar ákvörðunin sé jafn óskýr og raun ber vitni.

Byggt er á því að ákvörðun um „yfirstrikun“ á sáttargjörðinni sé hvað sem öðru líður byggð á misskilningi. Með eignarnámi Kópavogsbæjar árið 2007 hafi Kópavogsbær eignast um 864 hektara af landi lögbýlisins Vatnsenda. Sáttargerðin sé því hin þinglýsta staðfesting á tilvist eignarnámsins. Aðilar að ofangreindri sáttargerð hafi um langt skeið deilt um réttar efndir hennar. Meðal annars af þeirri ástæðu hafi verið lokið við að stofna sjálfstæðar eignir um það land sem tekið var eignarnámi 2007. Því sé mjög mikilvægt fyrir sóknaraðila að sáttargerðarinnar sé getið á þinglýsingarvottorði. Sóknaraðili byggir á því að efnisatriði sáttarinnar eigi brýnt erindi við alla þá sem þurfi að styðjast við þinglýsingarvottorð um jörðina Vatnsenda. Í því sambandi megi nefna að í dag ráðist afmörkun lögbýlisins Vatnsenda af 1. gr. sáttarinnar. Í sáttargerðinni sé einnig að finna ákvæði um yfirfærslu eignarréttar í tilefni eignarnámsins. Áréttað sé að sáttargerðin sé hin þinglýsta eignarheimild sóknaraðila að því landi sem tekið var eignarnámi í upphafi árs 2007. Því fari fjarri að rétti samkvæmt skjalinu sé bersýnilega lokið í skilningi 38. gr. þinglýsingalaga.

Sóknaraðili byggir á því að allur samanburður við hin svonefndu stofnskjöl sé byggður á misskilningi. Sóknaraðili vísar jafnframt til þess að samkvæmt 32. gr. þinglýsingalaga sé réttarvernd eignarnámsgerða háð þinglýsingu. Sóknaraðili hafi af því stórkostlega hagsmuni að ekki ríki vafi um tilvist sáttargerðarinnar sem þinglýstrar eignarheimildar að hinu eignarnumda landi.

Sóknaraðili bendir á að eignarnámið árið 2007 hafi farið fram samkvæmt eignarnámsheimild ráðherra og beinst að þeim aðila sem þinglýsingabók tilgreini sem eiganda landsins. Varnaraðili Þorsteinn hafi þá verið þinglýstur eigandi Vatnsenda ásamt því að vera ábúandi jarðarinnar.

Kröfu um málskostnað styður sóknaraðili við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Varnaraðili Þorsteinn Hjaltested byggir á því að sóknaraðili hafi engan lögvarinn rétt til að fá þinglýst á jörðina Vatnsenda samkomulagi um greiðslu eignarnámsbóta meðan sóknaraðili hafi ekki greitt fullar bætur eða aflað sér heimildar til umráðatöku hins eignarnumda með vísan til 14. gr. l. nr. 11/1973. Af 2. mgr. 10. gr. l. nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms leiði að réttur varnaraðila Þorsteins til bóta vegna skerðinga á óbeinum eignarréttindum hans til jarðarinnar Vatnsenda er sjálfstæður réttur sem varnaraðili Þorsteinn hafi einn forræði á. Varnaraðili Þorsteinn sé eigandi umráða og afnotaréttar að hinu eignarnumda landi og verði sóknaraðili að fara að fyrirmælum laga nr. 11/1973 vilji hann taka hið eignarnumda úr umráðum varnaraðila Þorsteins. Sá ágreiningur sé eiganda beins eignarréttar óviðkomandi þar sem umráða- og afnotaréttur jarðarinnar Vatnsenda hafi ekki verið á hendi dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested síðan 7. maí 1968, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 99/1968.

Á því er byggt af hálfu varnaraðila Þorsteins að þinglýsingarstjóri hafi ekki staðið formlega rétt að þinglýsingu umþrættrar sáttargerðar um greiðslu eignarnámsbóta þar sem skjalið stofni engan rétt til umráða eða afnota jarðarinnar Vatnsenda. Skjalið fjalli einungis um afmörkun eignarnumins landsvæðis og greiðslu eignarnámsbóta til varnaraðila. Hvergi í texta skjalsins sé vikið að yfirfærslu eignarréttar til handa sóknaraðila. Í 3. gr. sáttargerðarinnar sé beinlínis tekið fram að um yfirtöku hinna eignanumdu réttinda fari eftir fyrirmælum laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Skilyrðum umráðatöku samkvæmt þeim lögum sé ekki fullnægt. Umráðataka landsins gegn mótmælum varnaraðilans Þorsteins sé ólögmæt aðgerð sem fari gegn fyrirmælum 2. mgr. 10. gr., 13 gr. og 14 gr. l. nr. 11/1973 og 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Á því er byggt að fyrirmæli 32. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 kveði á um að einungis eignarnámsgerð í fullri mynd sé tæk til þinglýsingar eins og lagagreinin sé útskýrð í greinargerð með frumvarpi að ákvæðinu. Þar segi m.a. að eigandi þurfi ekki að þola þinglýsingu á eignarnámsgerð á eign sinni fyrr en bætur séu greiddar.

Varnaraðilinn Þorsteinn þurfi ekki að sæta því að réttarvernd óbeinna eignarréttinda hans yfir jörðinni Vatnsenda, sem sé réttilega þinglýst, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 167/2015, verði skert með þinglýsingu á umþrættu skjali. Umráða- og afnotaréttur alls eignarnámslandsins sé á hendi varnaraðilans Þorsteins þar sem eignarnámsgerðin sé enn yfirstandandi og eignarnámsbætur hafi ekki verið greiddar að fullu, sbr. 2. mgr. 10. gr. l. nr. 39/1978, sbr. 13. gr. sömu laga. Færslur á blað jarðarinnar Vatnsenda í þinglýsingabók eigi að endurspegla þetta réttarástand með skýrum hætti.

Varnaraðili Þorsteinn vísar til 32. gr. laga nr. 39/1978, 2. mgr. 10. gr., 13. gr. og 14. gr. laga nr. 11/1973 og til 72. gr. laga nr. 33/1944.

Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested byggir á því að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 701/2012 hafi því verið slegið föstu að beinn eignarréttur að jörðinni Vatnsenda sé enn á hendi varnaraðila dánarbús Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested sem hafi látist 1966. Opinberum skiptum á búinu sé ekki lokið. Í Hæstaréttarmálinu nr. 751/2014 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að afnota- og umráðarétturinn sé á hendi varnaraðilans Þorsteins Hjaltested.

                Aðilar að sáttargerð þeirri, sem sóknaraðili krefjist nú að verði færð á ný inn í þinglýsingabækur, hafi verið sóknaraðili og varnaraðilinn Þorsteinn. Eigandi beins eignarréttar hafi ekki verið aðili að sáttargerðinni og hafi ekkert komið að undirbúningi eða framgangi eignarnámsins.

                Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested byggir kröfur sínar á því að sóknaraðili eigi ekki lögvarinn rétt og í raun ekki lögvarða hagsmuni af því að fá eignarnámssáttinni þinglýst á ný á jörðina. Dánarbúinu, sem eigandi beins eignarréttar að jörðinni, verði ekki með dómi gert að þola að sáttagerð um eignarnám, sem það var ekki aðili að, verði þinglýst á jörðina. Dánarbúið sé eins og fyrr segir undir skiptum og skiptastjóri hafi verið rækilega upplýstur um hagsmuni sóknaraðila sem tengist jörðinni. Dómi Hæstaréttar um töku búsins til opinberra skipta og dómi Hæstaréttar í málinu nr. 701/2012 hafi verið þinglýst á jörðina. Þinglýsingabækur beri því með sér að eigandi hins beina eignarréttar að jörðinni sé undir opinberum skiptum. Hagsmunir sóknaraðila verði því ekki í uppnámi þótt eignarnámssáttinni verði ekki þinglýst að nýju. Það sé því engin þörf á að þinglýsa sáttinni.

                Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested vísar einnig til þess að skilyrðum 32. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 sé ekki fullnægt til þess að sóknaraðili geti gert framangreinda kröfu. Uppgjöri eignarnámssáttarinnar sé langt í frá lokið en það sé ekki fyrr en greiðslu eignarnámsbóta sé að fullu lokið sem eigandi þurfi að þola þinglýsingu eignarnámsgerðar. Hið sama gildi að sjálfsögðu um eignarnámssátt.

                Varnaraðili dánarbú Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested vísar til 32. gr. laga nr. 39/1978. Krafan um máls­kostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr., laga nr. 91/1991 um með­ferð einka­mála, sbr. 2. mgr. 131. gr. skiptalaga nr. 20/1991.

                                                                                                III

                Sáttargerð í eignarnámsmáli sóknaraðila og varnaraðila Þorsteins Hjaltested var móttekin til þinglýsingar 30. mars 2007. Með sáttinni skyldi sóknaraðili eignast 864 hektara lands úr jörðinni Vatnsenda. Þann 10. júní 2014 ákvað þinglýsingarstjóri að afmá sáttargerðina úr fasteignabók. Sóknaraðili krefst þess nú að skjalið verði á ný fært inn í þinglýsingarbækur.

                Í hinni umþrættu sáttargerð sóknaraðila og varnaraðila Þorsteins Hjaltested í eignarnámsmáli segir að greiðslur fyrir hið eignanumda greiðist með peningum að fjarhæð 2.250.000.000 króna, með 300 lóðum sem sóknaraðili tók að sér að skipuleggja, en varnaraðili skyldi hirða leigu af, og loks með 11% af byggingarétti fyrir íbúðarhús og atvinnuhús úr hverjum skipulagsáfanga. Óumdeilt er að tvær síðustu greiðslurnar hafa ekki verið inntar af hendi.

                Í 32. gr. þinglýsingalaga segir að réttarvernd eignarnámsgerðar sé háð þinglýsingu. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 39/1978 segir svo m.a. í athugasemdum um 32. gr. laganna: „Eftir að sá aðili, sem nýtur eignarnámsheimildar, hefur tekið ákvörðun um að neyta hennar um tiltekna eign, getur liðið allnokkur tími uns eignarnámi er hrundið í framkvæmd. Getur það þá verið hagsmunarmál fyrir eignarnema að fá þinglýst á eign yfirlýsingu, þar sem lýst er hinu fyrirhugaða eignarnámi. í 32. gr. er ekki veitt heimild til að þinglýsa slíkum fyrirætlunum né öðrum frumaðgerðum í sambandi við eignarnám. Það er eignarnámsgerðin í fullri mynd og hún ein, sem getur verið grundvöllur þinglýsingar, og rétt að geta þess, að eigandi þarf ekki að þola þinglýsingu á eignarnámsgerð á eign sinni, fyrr en bætur eru greiddar.“

                Í 13. gr. laga nr. 11/1972 um framkvæmd eignarnáms er kveðið á um að eignarnemi fái ekki umráð eignarnuminna verðmæta nema gegn greiðslu matsfjárhæðar. Sama gildir þegar sátt hefur orðið um eignarnámsbætur, sbr. 7. gr., eða umráðataka verið heimiluð gegn tryggingu, ef tryggingar hefur verið krafist, sbr. 14. gr.

                Samkvæmt framansögðu er það meginregla að eignarnámsþoli þarf hvorki að þola þinglýsingu eignarnámsgerðar né að umráð hins eignarnumda færist til eignarnema nema að bætur séu greiddar. Sáttargerðinni var því ranglega þinglýst og var því þinglýsingarstjóra rétt á grundvelli 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 að afmá skjalið úr fasteignabók. Verður því þegar af þessari málsástæðu fallist á kröfur varnaraðila í málinu.

                Krafa varnaraðila verður því tekin til greina og eftir þessum úrslitum verður sóknaraðili úrskurðaður til þess að greiða varnaraðilum hvorum um sig 300.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

                                                                                Úrskurðarorð

                Hafnað er kröfu sóknaraðila, Kópavogsbæjar, um að hrundið verði úrlausn sýslumannsins í Kópavogi 10. júní 2014 um að afmá úr fasteignabók sáttargerð um eignarnám á landi úr jörðinni Vatnsenda, Kópavogi, dagsett 30. janúar 2007, sem móttekin var til þinglýsingar 30. mars 2007.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila, Þorsteini Hjaltested, 300.000 krónur í málskostnað og varnaraðila, dánarbúi Sigurðar Kristjáns Lárussonar Hjaltested, 300.000 krónur í málskostnað.