Hæstiréttur íslands
Mál nr. 395/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Fjárslit milli hjóna
|
|
Miðvikudaginn 22. ágúst 2007. |
|
Nr. 395/2007:
|
M(Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn K (Guðjón Ægir Sigurjónsson hrl.) |
Kærumál. Fjárslit milli hjóna.
K og M, sem höfðu verið í hjúskap, deildu um hvort fasteignirnar FJ og ME og hjólhýsið A ættu að koma til skipta og í hvers hlut eignirnar ættu að falla. Talið var að fasteignin FJ ætti að koma til skipta, enda hefði hún verið í eigu M á þeim degi sem úrlausn um eignir og skuldir við skipti á búi þeirra var miðuð við. Fasteignin var talin hjúskapareign M og féll í hans hlut við skiptin. Fallist var á að fasteignin ME væri séreign K og kæmi því ekki til skipta, en hjólhýsið kom ekki til skipta þar sem það hafði verið selt fyrir þann dag sem skiptin voru miðuð við.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 26. júní 2007, þar sem leyst var úr ágreiningi aðila um nánar tilgreind atriði við opinber skipti til fjárslita vegna hjónaskilnaðar þeirra. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fasteignin B í Kópavogi komi ekki til skipta, en komi til þess falli hún í hans hlut. Þá krefst hann þess að fasteignin A á Selfossi komi til skipta. Að öðru leyti verði hinn kærði úrskurður staðfestur um annað en málskostnað. Hann krefst aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, en til vara að málskostnaður falli niður.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti með kæru 9. júlí 2007, sem barst héraðsdómi degi síðar. Hún krefst þess að hjólhýsið A komi til skipta og falli í hennar hlut, en að hinn kærði úrskurður verði að öðru leyti staðfestur. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili festi kaup á fasteigninni B í Kópavogi með kaupsamningi og afsali 15. júní 2001. Var skjalinu þinglýst 4. júlí 2001. Gögn málsins benda til þess að fasteign þessi hafi verið í eigu sóknaraðila 22. ágúst 2002, en við skiptin ber að miða við eignir og skuldir bús málsaðila á þeim degi samkvæmt dómi Hæstaréttar 8. september 2004 í máli nr. 323/2004. Fasteign þessi eða ígildi hennar kemur því til skipta í búi málsaðila og verður með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar staðfest sú niðurstaða að þessi eign skuli falla í hlut sóknaraðila.
Með þeim rökum sem greinir í hinum kærða úrskurði verður fallist á þá úrlausn að fasteignin A á Selfossi teljist hafa komið í stað fasteignarinnar að D, Selfossi, en sú eign var gerð að séreign varnaraðila með kaupmála 30. júní 1992. Telist A því séreign hennar sem ekki komi til skipta.
Með vísan til forsendna í hinum kærða úrskurði verða staðfestar niðurstöður hans um hjólhýsi A og ætlaða skuld sóknaraðila við varnaraðila að fjárhæð 1.374.678 krónur.
Samkvæmt því sem að framan greinir verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Rétt er að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 26. júní 2007.
Sóknaraðili er K, kt. [...].
Varnaraðili er M, kt. [...].
Með bréfi dagsettu 17. maí 2006 og mótteknu 18. maí s.á. gerði sóknaraðili kröfu um að tiltekinn ágreiningur milli aðila við opinber skipti á búi þeirra yrði leiddur til lykta í Héraðsdómi Suðurlands. Málið var þingfest þann 7. júní 2006 og fékk sóknaraðili þá frest til 28. ágúst s.á. til að skila greinargerð. Þann dag var varnaraðila veittur frestur til 18. október s.á. til skila á greinargerð. Þann 23. nóvember 2006 var aðalmeðferð ákveðin 7. desember og var málið tekið til úrskurðar þann dag. Úrskurður var kveðinn upp þann 9. febrúar 2007 og var sá úrskurður kærður til Hæstaréttar sem vísaði málinu heim til endurflutnings þann 13. mars sl. Þann 10. apríl sl. krafðist varnaraðili þess að dómarinn viki sæti með vísan til g-liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Var úrskurður kveðinn upp þann 12. apríl sl. en þar hafnaði dómarinn kröfu varnaraðila um að hann viki sæti. Boðað var til aðalmeðferðar þann 23. maí sl. en að beiðni lögmanna var veittur frestur til 12. júní sl. en þá fór aðalmeðferð fram og var málið tekið til úrskurðar sama dag.
Fyrir dóminum gerðu aðilar sömu kröfur og gerðar voru í greinargerð aðila svo og sem höfðu verið gerðar á fyrri stigum málsins. Þá lagði lögmaður varnaraðila fram ný gögn varðandi sölu á hjólhýsinu sem ágreiningur er um.
Málsatvik.
Með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 10. september 2002 var bú ofangreindra aðila tekið til opinberra skipta vegna hjónaskilnaðar þeirra. Bergsteinn Georgsson hdl. var skipaður skiptastjóri og lagði hann fram tillögu að samningi um skiptingu eigna og skulda vegna framangreindra hjúskaparslita 22. nóvember 2005. Var tillagan tekin fyrir á skiptafundi 1. desember 2005 og mótmæltu lögmenn beggja aðila frumvarpinu. Var gerð nánari grein fyrir ágreiningi aðila á skiptafundi sem haldinn var 22. mars 2006. og ágreiningi þar að lútandi því vísað til dómsins í samræmi við ákvæði 122. gr. laga nr. 20/1991 með bréfi skiptastjóra dagsettu 17. maí 2006. Það bréf barst dóminum 18. maí 2006 og var málið þingfest 7. júní 2006 Eftir að málsaðilar höfðu skilað greinargerðum sínum var málið flutt munnlega um kröfur aðila 7. desember sl. og tekið til úrskurðar sama dag. Málið var endurflutt þann 12. júní sl. og tekið til úrskurðar sama dag.
Málavextir eru þeir, eins og að ofan greinir, að bú aðila var tekið til opinberra skipta þann 10. september 2002 vegna skilnaðar þeirra og hefur verið í skiptameðferð síðan. Hafa aðilar ekki náð samkomulagi um hvaða eignir skuli falla undir skiptin. Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 323/2004, sem kveðinn var upp 8. september 2004, skar dómurinn úr um við hvaða tímamark skyldi miða skiptin og var niðurstaðan sú að miða skyldi við 22. ágúst 2002. Á skiptafundi 22. nóvember 2005 lagði skiptastjóri fram tillögu að skiptum sem aðilar náðu ekki samkomulagi um. Boðaði skiptastjóri þá til fundar 22. mars 2006 með ábyrgðarbréfi þar sem tilgreind voru óleyst ágreiningsefni í stafliðum a-e. Á fundinum varð ágreiningur milli aðila um stafliði a og c-e og tókst skiptastjóra ekki að jafna þann ágreining. Í kjölfarið sendi skiptastjóri málið til héraðsdóms til úrskurðar.
Kröfur og málsástæður sóknaraðila:
Dómkröfur sóknaraðila eru eftirfarandi:
a) Í fyrsta lagi að hjólhýsið nr. [...] komi til skipta og það falli í hlut sóknaraðila samkvæmt tillögu skiptastjóra frá 22. nóvember 2005.
b) Í öðru lagi að fasteignin A, Selfossi, verði ekki felld undir skipti á búi sóknaraðila og varnaraðila.
c) Í þriðja lagi er þess krafist að fasteignin B, Kópavogi, komi til skipta við skipti á búi sóknaraðila og varnaraðila og falli í hlut varnaraðila.
d) Í fjórða lagi er þess krafist að við skiptin verði tekið tillit til skuldar varnaraðila við sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð kr. 1.374.678,- auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 16. maí 2003 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Sóknaraðili telur í fyrsta lagi að hjólhýsið nr. [...] eigi að koma undir skiptin. Byggir sóknaraðili kröfu sína á því að umrætt hjólhýsi hafi verið hjúskapareign varnaraðila á hjúskapartíma þeirra hjóna. Þá telur sóknaraðili jafnframt framlagt afsal fyrir hjólhýsinu, dagsett 24. maí 2002, þar sem því er afsalað til C, sambýliskonu varnaraðila, vera málamyndagerning. Þrátt fyrir áskoranir þess efnis hafi varnaraðila ekki tekist að sanna að um raunverulega eignatilfærslu hafi verið að ræða og hafi afsalið því ekkert gildi, enda hefði varnaraðili fyrst á skiptafundi þann 22. mars 2006 borið því við að umrætt hjólhýsi væri selt.
Í öðru lagi gerir sóknaraðili þá kröfu að fasteignin A, Selfossi, falli utan skipta. Byggir sóknaraðili þá kröfu sína á því að um sé að ræða séreign sem falli utan skipta skv. 74. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, sbr. 1. mgr. 104. gr. laga nr. 20/1991. Segir sóknaraðili að aðilar hafi gert með sér kaupmála þann 30. júní 1992, þar sem kveðið hafi verið á um að fasteignin D, Selfossi, skyldi verða séreign sóknaraðila. Jafnframt sé getið í 3. gr. nefnds kaupmála að arður og það sem kæmi í stað séreignar hvors aðila um sig yrði séreign þess sem séreignina ætti. Sóknaraðili segir að við samvistarslit aðila í september 2001 hafi orðið samkomulag með aðilum um að varnaraðili myndi kaupa fasteignina D, Selfossi. Hafi varnaraðili greitt helming kaupverðsins, kr. 5.700.000, þann 15. nóvember 2001 til sóknaraðila. Þann 26. október hafi sóknaraðili keypt fasteignina A en kaupin hafi farið fram í þeirri trú sóknaraðila að varnaraðili myndi standa við kaupin á D. Var fasteigninni A eingöngu ætlað að koma í stað fasteignarinnar D, og af þeim sökum heldur sóknaraðili því fram að fasteignin A sé séreign sóknaraðila sem hefði komið í stað séreignar þeirrar er fyrir var og falli því utan skipta, sbr. ákvæði 75. gr., sbr. 74. gr. hjúskaparlaganna. Þá bendir sóknaraðili á að ekki sé ágreiningur um að kaupmálinn sé fullgildur, sbr. yfirlýsingu í fundargerð skiptafundar þess efnis 20. nóvember 2003.
Í þriðja lagi gerir sóknaraðili þá kröfu að fasteignin B, Kópavogi, komi til skipta milli aðila. Kveður sóknaraðili varnaraðila hafa verið eiganda eignarinnar á því tímamarki sem skiptin miðist við, skv. kaupsamningi dagsettum 15. júní 2001. Þá segir sóknaraðili riftunaryfirlýsingu á milli varnaraðila og E, dags. 15. júlí 2002, sem varnaraðili lagði fram á skiptafundi 22. mars 2006, bersýnilega vera tilbúning sem miði að því að koma eigninni undan skiptum. Yfirlýsingunni hafi aldrei verið þinglýst og í landskrá fasteigna sé eignin skráð eign varnaraðila þann 28. júlí 2005. Jafnframt bendir sóknaraðili á að varnaraðili hafi talið eignina fram sem sína eigin í skattframtölum 2003, eftir tímamark riftunaryfirlýsingarinnar. Telur sóknaraðili því eignina vera hjúskapareign varnaraðila sem koma skuli til skipta á milli aðila, sbr. 54. gr. og 99. gr. hjúskaparlaga.
Í fjórða lagi gerir sóknaraðili þá kröfu að tekið verði tillit til skuldar varnaraðila við sóknaraðila, sem til er komin vegna uppgreiðslu sóknaraðila á skuld sem hvíldi á fasteigninni D, Selfossi, sem sóknaraðili telur að falla eigi utan skipta. Segir sóknaraðili varnaraðila hafa greitt sóknaraðila kr. 5.700.000 þann 16. maí 2003, sem skyldi vera hluti af uppgjöri sem þá hafi verið fyrirhugað. Hafi fasteignin D verið veðsett vegna greiðslunnar með veðtryggingarbréfi að fjárhæð kr. 6.000.000. Þar sem ekki hafi náðst samkomulag um skiptin hafi sóknaraðili endurgreitt varnaraðila framangreinda skuld með því að greiða upp áhvílandi veðtryggingarbréf, að því marki sem nauðsynlegt var til að aflétta veðinu þegar eignin var seld öðrum. Hafi skuldin verið fallin í gjalddaga og hafi sóknaraðili þurft að greiða kr. 7.074.678 til veðhafa með vöxtum og kostnaði. Þannig hafi sóknaraðili greitt kr. 1.374.678 umfram skuld sína við varnaraðila og gerir sóknaraðili því kröfu um að mismunurinn verði greiddur honum við skiptin, auk dráttarvaxta frá 16. maí 2003.
Kröfur og málsástæður varnaraðila:
Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi:
a) Í fyrsta lagi að hafnað verði kröfum sóknaraðila þess efnis að hjólhýsið nr. [...] komi til skipta á búi sóknaraðila og varnaraðila.
b) Í öðru lagi að því verði hafnað að fasteignin B, Kópavogi, komi til skipta á búi sóknaraðila og varnaraðila, sem og að við skiptin, ef til þeirra kemur, falli fasteignin í hlut varnaraðila.
c) Í þriðja lagi að þeirri kröfu sóknaraðila verði hafnað, að við skiptin á búi sóknaraðila og varnaraðila verði tekið tillit til meintrar skuldar varnaraðila við sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð kr. 1.374.678 auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 16. maí 2003 til greiðsludags.
d) Í fjórða lagi að fasteignin A, Selfossi, komi til skipta við skipti á búi sóknaraðila og varnaraðila.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að viðbættum virðisaukaskatti.
Varnaraðili krefst þess í fyrsta lagi að hafnað verði þeirri kröfu sóknaraðila að hjólhýsið nr. [...] komi til skipta á búi sóknaraðila og varnaraðila. Vísar varnaraðili til þess að hjólhýsið hafi verið selt í maí 2002 en skv. dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 8. september 2004, skuli úrlausn um eignir og skuldir miðast við 22. ágúst 2002. Í málinu liggi fyrir afsal, dagsett 24. maí 2002, þar sem fram komi að kaupverðið sé að fullu greitt, sem hafi verið 700.000 krónur. Gildi afsalið sem kvittun og hvíli sönnunarbyrðin á sóknaraðila, að sýna fram á að um málamyndagerning hafi verið að ræða en varnaraðili mótmælir því að svo hafi verið.
Í öðru lagi felst varnaraðili ekki á að eignin B, Kópavogi, komi til skipta á búi aðila. Kveðst varnaraðili aldrei hafa í reynd eignast fasteignina og aldrei greitt neitt fyrir hana. Hann hafi aldrei greitt þá víxla sem tilgreindir hafi verið í afsali fasteignarinnar, auk þess sem hann hafi aldrei yfirtekið áhvílandi skuldir. Segir varnaraðili að um málamyndagerning hafi verið að ræða og hafi seljandi fasteignarinnar rift kaupunum með samþykki varnaraðila.
Í þriðja lagi krefst varnaraðili þess að fasteignin A, Selfossi, komi til skipta á búi aðila. Kveður varnaraðili sóknaraðila hafa keypt eignina undir lok árs 2001 og hafnar því að sú eign komi í stað fasteignarinnar D, Selfossi, þar sem sóknaraðili hafi jafnframt verið eigandi þeirrar eignar þegar hann eignaðist A. Hafi því sóknaraðili átt tvær fasteignir, annars vegar D, sem var hans séreign, og hins vegar A, sem þá var hjúskapareign hans og eigi því að koma til skipta á búi aðila, sbr. 54. gr. og 99. gr. hjúskaparlaga.
Í fjórða lagi hafnar varnaraðili kröfu sóknaraðila um meinta skuld varnaraðila við sóknaraðila upp á kr. 1.374.678. Telur varnaraðili að miða skuli eignir og skuldir aðila við 22. ágúst 2002 en umrædd skuld hafi ekki komið upp á yfirborðið hjá sóknaraðila fyrr en á árinu 2006. Því komi ekki til álita að hin meinta skuld teljist til skulda bús aðila og ekki verði dæmt um hana í máli þessu og því beri að hafna henni. Þá mótmælir varnaraðili fjárhæð kröfunnar, sem hann segir ranga. Vísar varnaraðili m.a. til leiðréttrar kvittunar, dagsettrar 16. maí 2003, þar sem skuldin er sögð 1.209.799 krónur, auk þess að reiknaður sé tvöfaldur innheimtukostnaður lögmanns sóknaraðila.
Niðurstöður og forsendur.
Ágreiningur aðila í máli þessu er fjórþættur og til þess að ljúka megi skiptum á búinu er nauðsynlegt að leysa úr þessum ágreiningi aðila, sbr. 122. gr., sbr. 112. gr. laga nr. 20/1991.
Í fyrsta lagi er ágreiningur um það hvort hjólhýsi nr. [...] eigi að koma undir skiptin.
Í öðru lagi er ágreiningur um það hvort fasteignin A, Selfossi, eigi að falla undir skiptin.
Í þriðja lagi er ágreiningur um hvort eignin B, Kópavogi, eigi að koma til skipta í búi aðila og því mótmælt af hálfu varnaraðila að eignin falli í hlut hans komi hún til skipta.
Í fjórða og síðasta lagi er ágreiningur um það hvort taka skuli tillit til meintrar skuldar varnaraðila við sóknaraðila, sem til er komin vegna uppgjörs skuldar er tryggð var með veði í fasteigninni D, Selfossi, og sóknaraðili greiddi.
Að því er varðar fyrsta liðinn þá er um að ræða hjólhýsi nr. [...] sem var hjúskapareign aðila, en varnaraðili lagði fram afsal, dagsett 24. maí 2002, þar sem fram kemur að hann afsali C hjólhýsinu. Í fylgiskjali nr. 2, sem fylgdi óundirrituðum drögum að skilnaðarsamningi aðila, dagsettum 12. mars 2002, kemur fram að umrætt hjólhýsi sé eign varnaraðila og gert er að tillögu að það komi í hlut sóknaraðila, en samningur þessi var lagður fram sem skjal nr. 4 á fyrsta fundi skiptastjóra, þann 16. október 2002. Ekki náðust sættir um framangreindan skilnaðarsamning. Á öðrum fundi skiptastjóra, þann 20. nóvember 2002, lagði skiptastjóri fram skjal nr. 22 „Samningur um hjúskaparslit“, ódagsett og óundirritað, en þar er umrætt hjólhýsi enn tilgreint sem eign varnaraðila og nú lagt til að það verði útlagt honum við skiptin. Ekki náðust sættir um þau drög skilnaðarsamkomulagsins. Á fjórða skiptafundi, þann 20. nóvember 2003, var lagt fram skjal nr. 31 sem var kröfugerð sóknaraðila um fjárslit aðila. Þar var umrætt hjólhýsi enn tilgreint sem hjúskapareign varnaraðila en sú breyting hafði orðið á að sóknaraðili gerði kröfu um að hjólhýsið yrði útlagt sér. Ekki náðist samkomulag um kröfu sóknaraðila. Engin gögn voru lögð fram á fimmta skiptafundi, þann 28. júlí 2005, er varða tilhögun hjólhýsisins. Á sjötta skiptafundi, þann 22. nóvember 2005, lagði skiptastjóri fram tillögu að fjárslitasamningi aðila. Í tillögunni var lagt til að hjólhýsið kæmi í hlut sóknaraðila við útlagningu eigna. Á sjöunda fundi skiptastjóra, þann 1. desember 2005, hélt varnaraðili því fyrst fram að hann hefði selt umrætt hjólhýsi í maí 2002 og því ætti það að vera utan skipta. Á áttunda skiptafundi skiptastjóra, þann 22. mars 2006, lagði varnaraðili fram skjal nr. 43, afsal um hjólhýsi til C, dagsett 24. maí 2002. Framangreint afsal er einungis undirritað af varnaraðila og C og er kaupverð tilgreint kr. 700.000. Sóknaraðili hefur skorað á varnaraðila að leggja fram gögn til stuðnings því að um raunverulega eignatilfærslu hafi verið að ræða en varnaraðili hefur af því tilefni bent á að umrætt afsal sé fullnaðarkvittun. Við aðalmeðferð málsins þann 12. júní sl. lagði varnaraðili loks fram yfirlit úr ökutækjaskrá þar sem fram kemur að kaupdagur [...] hafi verið 24. maí 2002 og skráð í ökutækjaskrá þann 16. ágúst 2002. Samkvæmt dómi Hæstaréttar (Hrd: 323/2004) var kveðið á um að skiptin skyldi miða við 22. ágúst 2002. Samkvæmt því hafði salan á hjólhýsinu sannanlega farið fram fyrir þann dag. Verður því kröfu sóknaraðila um að hjólhýsið [...] skuli koma til skipta við búskipti aðila hafnað.
Þá skal vikið að öðrum lið ágreinings aðila um hvort fasteignin B, Kópavogi, eigi að koma til skipta á búi aðila. Varnaraðili hefur haldið því fram í málinu að hann hafi aldrei eignast fasteignina B, Kópavogi, þar sem hann hafi aldrei greitt fyrir hana, þ.e. aldrei greitt þá víxla sem greindir eru í afsali seljanda til varnaraðila sem kaupanda. Þá hafi hann ekki yfirtekið þar til greindar skuldir og hefur varnaraðili jafnframt borið því við að um málamyndagerning hafi verið að ræða. Aukinheldur hafi seljandi rift kaupum á fasteigninni með samþykki varnaraðila. Til þess er að líta að vanefndarúrræðið riftun er ákvöð sem einhliða er beitt af þeim sem neytir úrræðisins gegn þeim sem riftunin á að beinast að. Til þess þarf ekki samþykki af hálfu þess er riftunin beinist að. Þá er vanefndarúrræðið riftun einungis tækt seljanda áður en gefið hefur verið út afsal til kaupanda fyrir viðkomandi eign. Við útgáfu afsals fellur niður möguleiki seljanda til að beita vanefndarúrræðinu, þar sem útgáfa afsals merkir endanlega eignatilfærslu frá seljanda yfir til kaupanda nema sá fyrirvari hafi verið gerður í afsalinu. Varnaraðili keypti fasteignina B, Kópavogi, með kaupsamningi og afsali dagsettu 15. júní 2001 og innfærðu í þinglýsingabók 4. júlí 2001. Þá telur varnaraðili fasteignina fram sem eign í eignadálki skattframtals síns fyrir árið 2002. Engin gögn liggja frammi í málinu sem hníga að því að eignin kunni að vera séreign varnaraðila. Ráðstöfun þessa framkvæmdi varnaraðili fyrir tímamark skipta, þ.e. 22. ágúst 2002. Þá skiptir engu hvort víxlarnir hafi verið greiddir eða ekki vegna kaupanna en engin gögn hafa verið lögð fram sem sýna fram á tilvist þeirra. Samkvæmt 54. gr., sbr. 99. gr. hjúskaparlaga telst eign maka hjúskapareign nema sérstakar heimildir standi til annars og gildir þá einu hvenær í hjúskapartíð aðila eignarinnar er aflað. Þá taka skipti aðila til heildareigna hvors maka um sig nema sérstaklega sé samið um annað eða lög mæli á annan veg. Við framangreint tímamark skipta var fasteignin B, Kópavogi, skráð eign varnaraðila í þinglýsingabók sýslumannsins í Kópavogi. Samkvæmt öllu framanröktu, með tilliti til fyrirliggjandi gagna og með vísan til 54. gr., sbr. 99. gr. hjúskaparlaga telur dómurinn fasteignina B, Kópavogi, vera hjúskapareign varnaraðila sem koma skuli til skipta á búi sóknaraðila og varnaraðila. Að þessari niðurstöðu fenginni er tillaga skiptastjóra um að eignin falli í hlut varnaraðila staðfest.
Í þriðja lagi er ágreiningur milli aðila um hvort taka skuli tillit til meintrar skuldar varnaraðila við sóknaraðila upp á kr. 1.374.678 við skiptin. Sóknaraðili segir umrædda skuld vera til komna vegna fyrirætlana varnaraðila um að kaupa fasteignina og séreign sína D, Selfossi. Varnaraðili greiddi sóknaraðila kr. 5.700.000 þann 15. nóvember 2001 vegna fyrirhugaðra kaupa hans á fasteigninni D, Selfossi. Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að varnaraðili hafi af því tilefni fengið að veðsetja fasteignina með veðtryggingarbréfi að fjárhæð kr. 6.000.000. Varnaraðili hefur einnig haldið því fram að til hafi staðið hjá honum að kaupa umrædda fasteign en aðila hefur greint á um hvort framangreind greiðsla hafi verið fullnaðargreiðsla eða einungis fyrir 50% hlut fasteignarinnar. Hins vegar liggur enginn kaupsamningur fyrir í málinu vegna sölu sóknaraðila á fasteigninni D, Selfossi, til varnaraðila. Þá benda engin gögn önnur í málinu til þess að slíkur samningur hafi komist skriflega á milli aðila eða slíkum kaupsamningi hafi verið þinglýst á eignina. Þann 16. maí 2003 greiðir sóknaraðili gjaldfallna yfirdráttarskuld varnaraðila sem tryggð var með framangreindu veðtryggingarbréfi. Skýrist krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila af mismun milli þeirrar greiðslu er sóknaraðili innti af hendi við uppgreiðslu skuldar þeirrar er tryggð var með framangreindu veðtryggingarbréfi og þeirrar greiðslu er varnaraðili greiddi sóknaraðila þann 15. nóvember 2001. Að teknu tilliti til alls sem að framan er rakið, er lýtur að umræddri kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila, telur dómurinn sér ekki fært annað en að líta svo á að ekki hafi komist á kaupsamningur milli varnaraðila og sóknaraðila, heldur hafi sóknaraðili einungis lánað varnaraðila veð í séreign sinni skv. framangreindu veðtryggingarbréfi. Í 1. mgr. 101. gr. hjúskaparlaga segir að skuldir þær sem maki hafi bakað sér eftir tímamark skipta komi ekki til álita við skiptin. Telja verður að meint skuld varnaraðila við sóknaraðila hafi ekki stofnast fyrr en við uppgreiðslu sóknaraðila á skuld varnaraðila, eða þann 16. maí 2003, en tímamark skipta er 22. ágúst 2002. Verður að líta svo á að sóknaraðili hafi óumbeðið greitt skuld varnaraðila og eigi því endurkröfurétt eftir almennum reglum kröfuréttar. Þegar af þeirri ástæðu kemur meint skuld varnaraðila við sóknaraðila ekki til álita við skipti á búi aðila.
Varðandi fjórða lið ágreinings málsaðila, er varðar það hvort fasteignin A, Selfossi, skuli koma undir skiptin, verður að skera úr um það hvort eignin kunni að vera ígildi séreignar sóknaraðila. Aðilar gerðu með sér kaupmála sem undirritaður var 30. júní 1992 og skráður í kaupmálabók sýslumannsins á Selfossi þann 4. ágúst 1992, þar sem fasteignin D, Selfossi, var gerð að séreign sóknaraðila, skv. 1. mgr. 1. gr. kaupmálans. Í 3. gr. kaupmálans segir að arður og það sem komi í stað séreignar aðila skuli verða séreign þess sem séreignina átti. Á skiptafundi 20. nóvember 2003, þar sem lögmenn beggja aðila voru viðstaddir, er bókað: „Ekki er ágreiningur um að kaupmáli aðila er fullgildur“, en undir fundargerð skiptafundarins rita lögmenn beggja aðila. Aukinheldur er það sérstaða kaupmála umfram aðra löggerninga að opinber skráning er ekki einungis gildisskilyrði gagnvart þriðja manni, heldur og gagnvart þeim sem að kaupmálanum standa. Þegar litið er til þess hversu langt er um liðið frá því að kaupmálinn var gerður og skráður í kaupmálabók sýslumannsins á Selfossi, eða um 10 ár, miðað við tímamark skipta, ásamt framangreindu og öðrum gögnum málsins, verður að telja óumdeilt að fasteignin D, Selfossi, sé séreign sóknaraðila. Sóknaraðili hefur haldið því fram að samkomulag hafi orðið með aðilum um að varnaraðili keypti séreign sóknaraðila, fasteignina D, Selfossi, við samvistarslit þeirra í lok árs 2001. Því til staðfestingar liggur frammi í málinu kvittun fyrir greiðslu varnaraðila upp á kr. 5.700.000, eða sem svarar til 50% hluta fasteignarinnar til sóknaraðila, dagsett 15. nóvember 2001, vegna kaupa varnaraðila á fasteigninni D, Selfossi. Í kaupsamningi um fasteignina A, Selfossi, dagsettum 26. október 2001, þar sem sóknaraðili er tilgreindur sem kaupandi, kemur fram að kaupandi skuli greiða þann 15. nóvember 2001 kr. 4.100.000. Verður því að ætla að framangreind greiðsla sem komið hafi úr séreign sóknaraðila, D, Selfossi, hafi farið til greiðslu skv. kaupsamningi um fasteignina A, Selfossi. Þá var fasteignin D, Selfossi, metin á kr. 11.400.000, en kaupverð fasteignarinnar A, Selfossi, var skv. kaupsamningi kr. 10.650.000. Þar að auki er til þess að líta að sóknaraðili hefur ekki keypt aðra fasteign en A, Selfossi. Samkvæmt 75. gr. hjúskaparlaga verða verðmæti sem koma í stað séreignar einnig séreign, þ.e. ígildi séreignar telst áfram séreign viðkomandi. Forsenda þess er þó ávallt sú að ígildið sé við lýði og tengsl þess og frumeignar verði rakin. Að öllu framangreindu virtu, ásamt fyrirliggjandi gögnum í málinu og að ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að andvirði séreignar sóknaraðila hafi verið ráðstafað á annan veg, telur dómurinn að fasteignin A, Selfossi, sé ígildi séreignar sóknaraðila, D, Selfossi, og sé því séreign sóknaraðila sem skuli falla utan skipta. Komi þar ekki að sök að báðar fasteignirnar hafi verið skráðar á sóknaraðila þann 22. ágúst 2002, sem sé tímamark skipta.
Eftir þessum málsúrslitum þykir rétt að varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ástríður Grímsdóttir, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 200.000 krónur í málskostnað.