Hæstiréttur íslands

Mál nr. 708/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                     

Mánudaginn 19. október 2015.

Nr. 708/2015.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi

(Jón Haukur Hauksson fulltrúi)

gegn

X

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. október 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 14. október 2015 þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 11. nóvember 2015 klukkan 15. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 14. október 2015.

Lögreglustjórinn á Vesturlandi hefur í dag krafist þess að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi í fjórar vikur eða til miðvikudagsins 11. nóvember 2015, kl. 15:00.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á Vesturlandi hafi til rannsóknar atburði sem gerst hafi í íbúð á efri hæð hússins nr. [...] við [...] á [...] síðdegis 2. október 2015. Lögreglu hafi borist skilaboð frá Neyðarlínu um meðvitundarleysi manns á [...] og hafi lög­reglu­menn strax farið á vettvang. Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi þar verið fyrir kærði og vitnið [...], sem hafi verið að hnoða hjarta brotaþola, A. Vitnið hefði fyrr um daginn verið inni í herbergi sínu og heyrt kærða og brotaþola rífast. Vitnið hefði farið út úr herbergi sínu um 30 mínútum áður en lögregla hafi verið kvödd á staðinn og þá heyrt í kærða og brotaþola. Þegar vitnið hafi síðar heyrt kærða fara út úr íbúð­inni hafi vitnið farið út úr herbergi sínu. Hefði vitnið sagst hafa heyrt í kærða vera að moka úti og þá farið að kanna með brotaþola og séð hann á grúfu í sófa í stofu íbúðarinnar. Hefði brota­þoli verið búinn að missa þvag og verið orðinn blár í framan. Vitnið hefði sagt að þykk, ljósleit reim hefði verið bundin utan um háls brota­þola og blóðugt belti verið við hlið hans. Vitnið hefði hringt í 112 og kallað eftir aðstoð sjúkra­flutn­inga­manna og lögreglu. Á meðan á símtalinu stóð hefði kærði komið aftur inn, tekið reimina sem áður hafi verið um háls brotaþola, brugðið henni um háls brotaþola og hert að. Vitnið hefði reynt að stöðva kærða sem hefði látið af þessu þegar heyrðist í sírenum lögreglubifreiðar nálgast húsið.

Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi brotaþoli ekki verið með púls, hafi ekki andað, verið blóðugur í andliti og byrjaður að blána. Skömmu á eftir lögreglu hafi sjúkraflutnings­menn komið á vettvang ásamt vakt­lækni og hjúkrunarfræðingi. Brotaþoli hafi verið fluttur á Sjúkrahúsið á [...] og þaðan strax á bráða­móttöku Landspítala í Fossvogi, þar sem hann hafi látist 7. október s.l. af völdum áverkanna.

Kærði hafi yfirgefið vettvang á meðan lögregla og sjúkralið hafi verið þar en hafi skömmu síðar verið hand­tekinn við [...] á [...]. Kærði hafi verið áberandi ölvaður við handtöku.

Við rannsókn á vettvangi hafi fundist þykk ljósleit reim og blóðugt hvítt belti með svörtu mynstri í frystikistu í eldhúsi. Sylgja sem talin sé tilheyra beltinu hafi fundist á gólfi í borðstofu og leður­festingar fyrir sylgjuna í sófanum þar sem brotaþoli hafi legið þegar lögregla hafi komið að. Fyrr þennan sama dag hafi lögregla þurft að hafa afskipti af kærða vegna ölvunaróláta hans. Hann hafi þá verið klæddur í sömu föt og við handtökuna utan þess að þá hafi verið þykk ljósleit reim í peysu hans. Þegar reimin hafi fundist í frystikistunni hafi vantað málmhólk á annan enda hennar. Sam­bæri­legur málmhólkur hafi fundist í fötum brotaþola, þegar hann hafi verið afklæddur á sjúkrahúsi.           

Skýrsla hafi verið tekin af kærða á lögreglustöðinni á [...] 3. og 4. október og í fangelsinu á [...] 11. október 2015. Kærði hafi játað að hafa sett hendur um háls brotaþola og hert að. Þá hafi hann einnig játað að hafa sett reim um háls brotaþola og hert að.

Vitni séu að símtölum kærða þar sem hann tali um að hann geri sér grein fyrir að alvarleg atvik hafi átt sér stað og að hann geti þurft að sæta ábyrgð.

Í framhaldi af handtöku kærða hafi hann verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands í máli nr. [...]/2015 sem stað­festur hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. [...]/2015. Kærði sé nú gæsluvarðhaldsfangi í fangelsinu á [...].

Kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um brot sem varði við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsiramminn sé allt að ævilangt fangelsi. Auk játninga kærða liggi fyrir í málinu skýr og greinargóður fram­burður vitnis sem fái stoð í þeim sönnunar­gögnum og athugunum sem lögregla hafi nú þegar aflað í máli þessu. Með tilliti til almanna­hagsmuna sé ekki forsvaranlegt að kærði gangi laus. Ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn sem eru sterklega grunaðir um alvar­leg brot gangi ekki lausir. Þannig séu aðstæður í þessu máli. Það myndi særa réttar­vitund almenn­ings yrði kærði látinn laus. Rannsókn málsins sé vel á veg komin en ekki lokið. Meðal annars liggi fyrir að afla vott­orða frá sérfræðingum og láta fara fram geðrannsókn dóm­kvadds matsmanns á kærða.

Með vísan til framanritaðs og gagna málsins sé nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæslu­varðhaldi á meðan mál hans er til rannsóknar og til meðferðar í réttarvörslukerfinu.

Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Með vísan til framanritaðs og ganga málsins er fallist á það með lögreglustjóra á Vesturlandi að kærði sé undir sterkum grun um að hafa valdið dauða A með því að hafa brugðið ól um háls hans og hert að. Rannsókn málsins er á lokastigi. Kærði hefur neitað sök en þó viðurkennt að hafa hert að hálsi A. Samkvæmt krufningaskýrslu er dánarorsök A talin vera kyrking. Brot þetta getur varðað allt að ævilöngu fangelsi samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með tilliti til almannahagsmuna er jafnframt á það fallist að brotið sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar. Eru því uppfyllt skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi. Verður því fallist á kröfu lögreglu eins og hún er sett fram, en ekki þykir ástæða til að marka varðhaldinu skemmri tíma.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 11. nóvember 2015, kl. 15:00.