Hæstiréttur íslands
Mál nr. 636/2009
Lykilorð
- Líkamsárás
- Miskabætur
- Skilorð
- Sératkvæði
|
|
Mánudaginn 21. júní 2010. |
|
Nr. 636/2009.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) (Sveinn Andri Sveinsson hrl. f.h. brotaþola) |
Líkamsárás. Miskabætur. Skilorð. Sératkvæði.
X var sakfelldur fyrir líkamsárás með því að hafa ráðist á A, rifið í hár hennar og veitt henni nokkur hnefahögg í höfuð, handleggi og hendur, með þeim afleiðingum að A hlaut mar í andliti, og á handlegg og brot á litla fingur hægri handar. Brot X var talið varða við 1. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940. X var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. október 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjum. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða, en refsing hans þyngd.
A krefst 600.000 króna í miskabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2008 til 12. desember 2008 og dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún lögmannsþóknunar að fjárhæð 426.105 krónur.
Ákærði krefst sýknu og að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og refsiákvörðun.
Meiðsli þau sem brotaþoli varð fyrir eru staðfest með læknisvottorði og vætti læknis. Þær afleiðingar brotsins sem greindar eru í ákæru eru mar í andliti, mar á vinstri upphandlegg og brot á litla fingri hægri handar. Fyrir Hæstarétti heldur brotaþoli því fram að áfallið sem hún hafi orðið fyrir við atvikið hafi haft andlegar afleiðingar. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings þessari fullyrðingu og er ekki tilefni til að ætla að brotaþoli hafi ekki náð sér að fullu af þeim áverkum sem hún hlaut. Í ljósi þessa þykja miskabætur henni til handa hæfilega ákvarðaðar í héraðsdómi og verður hann staðfestur að því leyti með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.
Staðfest verður ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og lögmannsþóknun.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um sakfellingu og refsiákvörðun ákærða, X.
Ákærði greiði brotaþola, A, 250.000 krónur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. júlí 2008 til 12. desember sama ár og með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað og lögmannsþóknun skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samtals 261.826 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimarssonar hæstaréttarlögmanns 251.000 krónur.
Sératkvæði
Ólafs Barkar Þorvaldssonar hæstaréttardómara
Ákærða er gefin að sök líkamsárás með því að hafa 14. júlí 2008 „ráðist á A, rifið í hár hennar og veitt henni nokkur hnefahögg í höfuð, handleggi og hendur með þeim afleiðingum að A hlaut mar í andliti, mar á vinstri upphandlegg og brot á litla fingri hægri handar.“ Er ætluð háttsemi hans heimfærð undir 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Héraðsdómur reisir niðurstöðu sína á því; að A hafi farið á slysadeild þegar eftir samskipti við ákærða umræddan dag þar sem greinst hafi áverkar þeir sem um ræði í ákæru; að vitnið Aníta Rut Harðardóttir lögreglumaður hafi hitt A á vettvangi stuttu eftir að ákærði hafi verið horfinn á braut og að A hafi verið í uppnámi og með sýnilega áverka; að framburður A hafi verið trúverðugur, en hann fái stoð í framangreindum atriðum og loks að framburður ákærða hafi verið mjög ótrúverðugur um flest og er tiltekið sérstaklega að fráleitur sé framburður hans um að A kunni að hafa skaðað sig sjálf.
Ákærði og A munu hafa slitið samvistir fyrir mörgum árum og eiga saman einn son sem mun hafa verið 12 eða 13 ára er atvik áttu sér stað. Samkvæmt því sem fram kom við meðferð málsins verður ráðið að þau hafi sameiginlega forsjá drengsins en miklar deilur munu hafa verið milli þeirra um umgengi ákærða við hann. Bæði ákærði og A bera hvort annað sökum um að hitt sé ekki heilt á geði og kveður A ákærða hafa hótað sér og eiginmanni sínum. Þá segir hún ákærða neyta fíkniefna. Ekkert er að finna um þessi atriði í gögnum málsins, en þar er að finna úrskurð Dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins 16. október 2008 þar sem staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 16. júlí 2008 um að synja beiðni A um nálgunarbann vegna þess atviks sem hér um ræðir.
Eins og greinir í héraðsdómi ók ákærði umrætt sinn að húsi í [...] í Reykjavík í því skyni að hitta son sinn sem þar var staddur. Ákærði kvaðst hafa verið einn í för, en telja að eftir að þeir hafi mælt sér mót hafi drengurinn líklega haft samband við A sem komið hafi akandi til að hindra samskipti þeirra. Ákærði kvaðst hafa beðið eftir drengnum í kyrrstæðri bifreið sinni í [...] er A kom akandi þar að. Hafi hún farið úr bifreið sinni og slegið þungu höggi í bifreið hans, rifið upp hurðina og ráðist á sig þar sem hann sat í bifreiðinni.
Ákærði gaf tvisvar sinnum skýrslu hjá lögreglu. Hann var þar meðal annars spurður um þá fullyrðingu A að hann hafi slegið hana „nokkrum sinnum í höfuðið“ og var svar hans: „Nei hafna því algjörlega, kom til orðaskipta og í kjölfarið urðu minni háttar pústrar en alls ekkert ofbeldi og er af og frá að ég hafi slegið hana og valdið henni áverkum sem lögreglan lýsti fyrir mér.“ Fyrir dómi var ákærði sérstaklega spurður út í þetta svar sitt og sagði hann þá: „Ég leit þannig á árás af A á þessum tímapunkti.“ Þá var ákærði einnig spurður út í orð sín hjá lögreglu um að hann teldi að A hefði sjálf veitt sér þessa áverka. Kvaðst hann draga þá ályktun, en jafnframt kvaðst hann ekki hafa tekið eftir því hvort A var með áverka, enda ekkert „að spá í það“, eins og hann komst að orði. Þá nefndi hann aðspurður sem hugsanlega skýringu á áverkum A að hún gæti hafa slasað sig við að slá í bifreið hans.
A lýsti því fyrir dómi að sonur hennar hefði hringt og beðið hana um að sækja sig í [...]. Þegar þangað hafi verið komið hafi hún séð ákærða í bifreið og óttast að drengurinn væri með föður sínum í bifreiðinni. Hún hafi stöðvað bifreið sína þannig að vel geti hafa verið að hún hafi ekið „aðeins í veg fyrir“ ákærða, eins og hún komst að orði. Ákærði hafi komið út úr bifreið sinni, sparkað í hurð bifreiðar hennar, rifið upp hurðina og látið höggin dynja á sér meðan hún var í bifreiðinni. Hún lýsti því bæði hjá lögreglu og fyrir dómi að [...] kona hafi verið með ákærða í för. Fyrir dómi nefndi hún að sú kona hafi farið að gráta og beðið ákærða um að hætta barsmíðunum. Nánar aðspurð fyrir dómi kvaðst A hvorki þekkja þessa konu né vita hvers lensk hún væri. Hún gaf ekki aðra skýringu á fullyrðingu sinni hjá lögreglu um þjóðerni konunnar en að hún hafi dregið þá ályktun að konan væri [...].
Ákærði mun vera í sambúð með [...] konu. Vegna skýrslu A hjá lögreglu var konan yfirheyrð sem vitni hjá lögreglu og spurð út í hvert og eitt atriði í lögregluskýrslu A um málsatvik. Hún svaraði margítrekað því til að hún hefði ekki verið á staðnum umrætt sinn og í lok yfirheyrslunnar var hún spurð eftirfarandi spurningar: „Nú segir A að þú hafir verið í bifreiðinni hjá X þegar ofangreint atvik gerðist, hvers vegna telur þú að A sé að segja það ef það er ekki rétt?“ Svar vitnisins var svofellt: „Ég hef aldrei séð A og A hefur aldrei séð mig. Ég hef hitt son þeirra fyrir ca ári síðan en aldrei séð A. Ég veit ekki hvers vegna hún segist hafa séð mig.“ Ekki var óskað eftir að þessi kona gæfi skýrslu fyrir dómi.
Ekki verður fallist á með ákæruvaldinu að skýrslur ákærða hjá lögreglu annars vegar og fyrir dómi hins vegar séu misvísandi um atriði er undir ákærða voru borin fyrir dómi. Læknir sá sem skoðaði áverka A gaf ekki skýrslu fyrir dómi, heldur sá læknir er vann vottorð um hana úr sjúkraskrá. Samkvæmt vottorðinu eru áverkar A ekki verulegir að öðru leyti en því helst að brot kom á litlafingur hennar, sem ákærði kvaðst telja að kunni að hafa orsakast af því að hún hafi slegið harkalega í bifreið hans. Eins og að framan greinir taldi ákærði að deilur hans og A lægju að baki kæru hennar til lögreglu. Verður ekki fallist á að hugleiðingar ákærða eða ágiskun hans sem svar við spurningu um það hvers vegna A hafi haft áverka skuli leiða til þess að framburður hans teljist fráleitur og stuðla að sakfellingu hans.
Niðurstaða héraðsdóms er einkum reist á mati á trúverðugleika framburðar ákærða og kæranda fyrir dómi. Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála héraðsdóms sætir slíkt mat ekki endurskoðun fyrir Hæstarétti nema ákærði og vitni gefi skýrslu hér fyrir dómi. Telji Hæstiréttur að líkur séu á því að mat héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera rangt svo að einhverju skipti við úrlausn máls getur rétturinn fellt úr gildi héraðsdóm og meðferð málsins í héraði í þeim mæli að munnleg sönnunarfærsla geti farið þar fram eftir þörfum og leyst verði úr máli á ný, sbr. 3. mgr. 208. gr. laganna. Ég tel að mat héraðsdómara kunni að vera rangt um atriði er skipti máli. Á hinn bóginn tel ég ekki þörf á að málinu verði vísað til nýrrar meðferðar í héraði af þeirri ástæðu að kærandi og ákærði eru ein til frásagnar um það sem ákært er fyrir, en þrátt fyrir framburð A verður ekki litið svo á að sambýliskona ákærða eða önnur [...] kona hafi verið á vettvangi umrætt sinn. Þá eru önnur gögn ekki svo veigamikil um sekt ákærða að þau teljist, gegn staðfastri neitun hans, duga til að ákæruvaldið hafi fullnægt þeirri sönnunarbyrði, sem það ber samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008. Því tel ég að sýkna verði ákærða af kröfu ákæruvaldsins og því til samræmis að vísa skaðabótakröfu A frá héraðsdómi, sbr. 2. mgr. 176. gr. sömu laga, en fella allan sakarkostnað, bæði í héraði og fyrir Hæstarétti, á ríkissjóð samkvæmt 2. mgr. 218. gr. laganna.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. september 2009.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hinn 2. júní 2009 á hendur:
,,X, kt. [...], [...], Reykjavík
fyrir líkamsárás með því að hafa, mánudaginn 14. júlí 2008, að [...] í Reykjavík, ráðist á A, kt. [...], rifið í hár hennar og veitt henni nokkur hnefahögg í höfuð, handleggi, og hendur, með þeim afleiðingum að A hlaut mar á vinstri upphandlegg og brot á litla fingri hægri handar.
Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 11. gr. laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gerir fyrrnefnd A þá kröfu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miska- og skaðabætur samtals að fjárhæð kr. 725.496, auk vaxta frá því að hið bótaskylda atvik átti sér stað í samræmi við II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, og dráttarvaxta skv. III. kafla sömu laga frá því að mánuður var liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar.“
Verjandi ákærða krefst sýknu og að bótakröfu A verði vísað frá dómi, en til vara er krafist verulegrar lækkunar bótakröfu. Þess er krafist að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.m.t. málsvarnarlaun að mati dómsins.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar, dagsettri 14. júlí 2008, óskaði A eftir aðstoð lögreglu þann dag og kvað ákærða, barnsföður sinn, hafa ráðist á sig. Ráða mátti af frásögn hennar að deilur þeirra á milli tengdust umgengni við son þeirra. Í skýrslum er lýst sýnilegum áverkum á A sem hún kvað ákærða hafa veitt sér.
Ákærði var handtekinn síðar sama dag og í skýrslutöku hjá lögreglunni neitaði hann að hafa slegið A en kvað hafa komið til orðaskipta á milli þeirra og í kjölfarið ,,urðu minniháttar pústrar“. Hann neitaði að hafa veitt A áverka.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvaðst hafa farið í [...] þennan dag þeirra erinda að hitta son þeirra A en þeir hefðu mælt sér mót í [...]. Kveðst ákærði hafa verið búinn að bíða lengi í götunni er A kom akandi á mikilli ferð. Ákærði kvaðst hafa setið einn í bílnum sínum er A kom þar að og sló þungt högg í bílinn, auk þess sem hún reif upp dyrnar í bílnum og réðist á ákærða með því að rífa í hann. Ákærði kvaðst ekki hafa farið út úr bíl sínum heldur ekið í burtu. Við skýrslutöku hjá lögreglunni lýsti ákærði því að til orðaskipta hefði komið milli þeirra A og í kjölfarið minniháttar pústrar, en engu ofbeldi hefði verið beitt. Aðspurður um þetta fyrir dómi kvaðst ákærði hafa litið þannig á háttsemi A og því greint svo frá hjá lögreglu. Ákærði kvaðst ekki hafa veitt því athygli hvort A hafði einhverja sýnilega áverka eftir að þau hittust þennan dag en í frumskýrslu lögreglunnar er því lýst að lögreglukona, sem kom á vettvang, hafi séð áverka á A. Ákærði kvaðst ekki hafa skýringar á áverkum A en hún kunni að hafa hlotið þá við að slá í bifreið ákærða. Hann viti það þó ekki. Hjá lögreglunni greindi ákærði svo frá að hann telji A hafa veitt sér áverkana sjálfa. Fyrir dómi kvaðst hann trúa því á hana að hún hefði veitt sér áverkana sjálf og skýrði hann þetta álit sitt þótt hann viti ekkert um þetta.
Vitnið A kvað ákærða hafa haft samband við son þeirra einum eða tveimur dögum fyrir atburðinn sem hér um ræðir og tilkynnt syni þeirra að hann væri kominn til landsins og gefið honum upp símanúmer sitt. Þennan dag hringdi sonur þeirra í hana og sagði að faðir hans hefði hringt og hefði viljað fá að sækja hann. Hún kvaðst þegar hafa lagt af stað að sækja son sinn sem staddur var hjá félögum sínum í [...]. Þegar hún ók [...] kvaðst hún hafa mætt bifreið sem ákærði ók og [...] kona var með honum í bifreiðinni en A kvaðst hafa dregið þá ályktun að konan væri [...]. Hún viti það hins vegar ekki. A kvað hugsanlegt að hún hafi ekið lítillega í veg fyrir bifreið ákærða sem þegar kom út úr bíl sínum og sparkaði í dyr bifreiðarinnar, rífa dyrnar upp og gripið um tagl sem hún hafði hárið í og lét ákærði höggin dynja á henni þar sem hún sat í bíl sínum og hafi hún hlotið áverkana sem lýst er í ákærunni en ákærði hafi mest slegið hana í höfuðið. Hún kvaðst hugsanlega hafa hlotið fingurbrotið er hún bar fyrir sig hendurnar. Konan sem var með ákærða í för hefði farið að gráta og bað ákærða um að hætta en A kveðst viss um að kona var með ákærða í för, en eins og rakið var bar ákærði að hafa verið einn á ferð. A kvaðst hafa borið hendur fyrir höfuð sér en skyndilega hætti ákærði barsmíðunum og ók í burtu.
A kvaðst engin högg hafa veitt ákærða eða ráðist gegn honum eins og hann bar fyrir dóminum. Eftir að ákærði fór kvaðst hún hafa hringt í lögregluna sem kom á vettvang skömmu síðar. Hún kvaðst vera orðin heil af líkamlegu áverkunum og lýsti líðan sinni eftir þennan atburð. Hún kvaðst hafa farið aftur á slysadeild en þessa er ekki getið í læknisvottorði hennar en hún fór á slysadeild sama dag og hér um ræðir.
Vitnið Aníta Rut Harðardóttir lögreglumaður fór á vettvang og ræddi við A eftir atburðinn sem hér um ræðir. Hún kvað A hafi verið í mjög miklu uppnámi og hafi hún greint svo frá að fyrrum sambýlismaður hennar hefði ráðist á hana. Aníta staðfesti frumskýrslu sem hún ritaði vegna málsins en þar lýsti hún því meðal annars að A hefði verið með sjáanlega áverka á höfði og verið farinn að bólgna á hægri vanga, verið rispuð á hendi og á enni og lítillega hafi blætt úr sári. Þá hafi hún fundið mikið til í hægri hendi. Lýsing hennar í lögregluskýrslunni væri rétt þótt hún myndi ekki allt nú.
Theódór Friðriksson sérfræðingur á Slysa- og bráðadeild Landspítala Háskólasjúkrahúsi í Fossvogi, ritaði læknisvottorð vegna komu A á slysadeild kl. 17.38 hinn 14. júlí 2008. Vottorðið er dagsett 24. júlí 2008. Lýst er áverkum sem A kvað barnsföður sinn hafa veitt sér fyrr sama dag. Í vottorðinu segir að greiningin sé mar í andliti, mar á upphandlegg og brot á litla fingri. Theódór staðfesti vottorðið fyrir dómi en hann kvaðst hafa ritað vottorðið eftir sjúkrakrá, en hann hafi ekki skoðað A heldur aðstoðarlæknir á sjúkrahúsinu. Kvaðst Theódór telja að áverkarnir gætu samrýmst lýsingunni í ákærunni. Hann tók fram að láðst hefði að skrá í vottorðið verki eða eymsli sem A lýsti að hún hefði í báðum kjálkaliðum. Theódór kvað A hafa komið í endurkomu á slysadeildina hinn 21. júlí 2008 en ekki hafi verið búið að rita það í sjúkraskránna er læknisvottorð hennar sé ritað og því sé endurkomunnar ekki getið þar.
Niðurstaða
A fór í skoðun á slysadeild þegar eftir samskiptin við ákærða mánudaginn 14. júlí 2008. Þar greindust áverkarnir sem lýst er í ákæru og reyndar fleiri áverkar sem láðist að geta í læknisvottorðinu eins og vitnið Theódór Friðriksson sérfræðingur bar fyrir dóminum, en hann staðfesti og skýrði læknisvottorð A. Vitnið Aníta Rut Harðardóttir lögreglumaður hitti A á vettvangi stuttu eftir að ákærði var farinn, og lýsti Aníta því að A hefði verið í miklu uppnámi auk þess sem hún bar sýnilega áverka.
Ákærði neitar sök en framburður hans er um flest mjög ótrúverðugur og í ósamræmi við annað sem rakið hefur verið. Framburður ákærða um að A hefði ráðist á hann og að hún kunni að hafa skaðað sig sjálf er fráleitur og verður ekki lagður til grundvallar niðurstöðu málsins.
Að öllu þessu virtu er það mat dómsins að vitnisburður A sé trúverðugur og fær hann stuðning af flestu því sem rakið var. Misræmi í framburði ákærða sem kvaðst hafa verið einn á ferð er hann hitti A og í vitnisburði A sem kvað konu hafa verið í för með ákærða hefur ekki úrslitaáhrif við mat dómsins á trúverðugleika frásagnar hvors um sig. Trúverðugur vitnisburður A verður lagður til grundvallar niðurstöðunni. Er þannig sannað með vitnisburði A sem fær stoð í vitnisburði Anítu Rutar Harðardóttur og læknisvottorði A og með vitnisburði Theódórs Friðrikssonar og með öðrum gögnum málsins, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemi þá sem í ákæru greinir og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæðis.
Refsing ákærða, sem ekki hefur áður hlotið refsingu, þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 30 daga en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar eins og greinir í dómsorði.
Bótakrafa A sundurliðast svo að krafist er 600.000 króna í miskabætur og 125.496 króna vegna lögfræðiaðstoðar. A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk þóknunar vegna lögfræðiaðstoðar. Þykja bæturnar hæfilega ákvarðaðar 250.000 krónur auk vaxta eins og greinir í dómsorði. Þá greiði ákærði Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur héraðsdómslögmanni, skipuðum réttargæslumanni A, 99.600 krónur í réttargæsluþóknun með virðisaukaskatti.
Ákærði greiði 27.700 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði greiði Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni 161.850 krónur í málsvarnarlaun með virðisaukaskatti. Þóknun til verjandans er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð.
Hrafnhildur M. Gunnarsdóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 30 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsingin niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A kt. [...], 250.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. II. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 14. júlí 2008 til 12. desember 2008, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 27.700 krónur í útlagðan sakarkostnað ákæruvaldsins.
Ákærði greiði Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur héraðsdómslögmanni, skipuðum réttargæslumanni A, 99.600 krónur í réttargæsluþóknun að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærði greiði Hilmari Ingimundarsyni hæstaréttarlögmanni 161.850 krónur í málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti.