Hæstiréttur íslands
Mál nr. 262/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
|
Föstudaginn 29. maí 2009. |
|
|
Nr. 262/2009. |
Magnús Þorsteinsson(Benedikt Ólafsson hrl.) gegn Straumi-Burðarási Fjárfestingabanka hf. (Gísli Guðni Hall hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa S um að bú M yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. maí 2009, þar sem bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður ekki dæmdur kærumálskostnaður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 4. maí 2009.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 30. apríl sl., barst dóminum þann 2. mars sl., en var höfðað við þingfestingu þess 22. apríl sl.
Sóknaraðili, Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hf., Borgartúni 25, Reykjavík, krefst þess að bú varnaraðila, Magnúsar Þorsteinssonar, kt. 061261-5409, áður með lögheimili að Hafnarstræti 20, Akureyri, en nú í Rússlandi, verði tekið til gjaldþrotaskipta. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um gjaldþrotaskipti verði hafnað og málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I.
Sóknaraðili kveðst hafa veitt BOM fjárfestingum ehf. lán þann 12. október 2005 að fjárhæð 1.063.958.324 krónur, með lánssamningi dagsettum 13. október 2005. Skyldi lánið bera þriggja mánaða LIBOR/REIBOR vexti að viðbættu 1,7% álagi. Hafi lánið að viðbættum vöxtum átt að endurgreiðast í einu lagi 10. október 2007. Sóknaraðili hafi fengið handveðrétt í hlutabréfum í Icelandic group hf. að nafnverði 108.404.569 krónur, samkvæmt handveðsyfirlýsingu, dagsettri 13. október 2005. Í henni komi fram að komi til þess að markaðsverð bréfa í Icelandic group hf. verði 15% lægra en kaupverð að fjárhæð 1.063.958.324 krónur að viðbættum fjármagnskostnaði, sem falli á lánið, skuli BOM fjárfestingar ehf. koma með viðbótartryggingar, sem starfsmenn sóknaraðila meti fullnægjandi, allt þar til tryggingarmörkum verði náð á ný. Verði BOM fjárfestingar ehf. ekki við kröfu um viðbótartryggingar innan 5 virkra daga sé heimilt að gjaldfella lánssamninginn og ganga að tryggingum í þeirri röð sem sóknaraðili telji besta.
Með bréfi 9. febrúar 2006 hafi sóknaraðili kallað eftir auknum tryggingum þannig að fyrrnefnd skilyrði yrðu uppfyllt. Með yfirlýsingu BOM fjárfestinga ehf. 16. febrúar 2006 hafi sóknaraðila verið sett að handveði reiðufjárinnistæða að fjárhæð 75.000.000 króna. Með samkomulagi BOM fjárfestinga ehf. og sóknaraðila, dagsettu 10. október 2007, hafi skilmálum lánssamningsins verið breytt í nokkrum atriðum. Helstu breytingar hafi verið þær að varnaraðili gerðist ábyrgðaraðili og gjalddagi hafi verið færður til 10. október 2008. Að öðru leyti hafi upphaflegur lánssamningur átt að standa óbreyttur. Með yfirlýsingu 10. janúar 2008 hafi varnaraðili tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslu láns samkvæmt lánssamningnum með áorðnum breytingum. Í 1. gr. yfirlýsingarinnar hafi ábyrgðarfjárhæð verið takmörkuð við 930.000.000 króna auk 20% ársvaxta frá 10. janúar 2008 til greiðsludags.
Með bréfi sóknaraðila til BOM fjárfestinga ehf. 25. ágúst 2008 hafi verið kallað eftir frekari tryggingum innan 5 virkra daga þannig að uppfyllt yrðu skilyrði í lánssamningnum og handveðsyfirlýsingum um nægar tryggingar. Er þarna hafi verið komið sögu hafi Icelandic group hf. verið afskráð í Kauphöll Íslands og því ekki neinn skipulegur verðbréfamarkaður fyrir hlutabréf í félaginu. Áður en það hafi verið afskráð hafi skráð viðskipti með hlutabréf í því verið á genginu nálægt 1,0. Starfsmenn sóknaraðila hafi metið það svo að augljóst væri að markaðsverð veðsettra bréfa í félaginu væri langt frá því að uppfylla skilyrði um tryggingamörk. Með bréfi til BOM fjárfestinga ehf. 2. september 2008 hafi sóknaraðili tilkynnt um riftun og gjaldfellingu láns samkvæmt lánssamningnum með heimild í handveðsyfirlýsingu í 11. gr. lánssamningsins. Í ákvæðunum sé skýr heimild sóknaraðila til gjaldfellingar lánsins við þær aðstæður að ekki sé svarað kalli um auknar tryggingar. Með innheimtubréfi sóknaraðila til varnaraðila 11. september 2008 hafi verið skorað á hann að greiða ábyrgðarskuld samkvæmt áður nefndri yfirlýsingu innan 5 daga frá dagsetningu bréfsins eða semja um greiðslu. Bréfunum hafi ekki verið svarað. Tekið er fram að einnig hafi starfsmenn sóknaraðila rætt við varnaraðila beint símleiðis og á fundum.
Sóknaraðili höfðaði innheimtumál gegn BOM fjárfestingum ehf. og varnaraðila sem var þingfest 2. október 2008 í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Varnaraðili tók til varna. Í greinargerð er krafist frávísunar málsins, en þeirri kröfu mun hafa verið hrundið með úrskurði. Þá er krafist sýknu á þeim grundvelli að varnaraðili sé ekki skuldbundinn af ábyrgðaryfirlýsingunni. Sóknaraðili kveðst telja ljóst að málsúrslit muni dragast verulega vegna málsvarna varnaraðila, sem að hans mati einkennist af fyrirslætti og viðleitni til að tefja málið.
Sóknaraðili krafðist þess 6. febrúar s.l. að fram færi kyrrsetningargerð til tryggingar skuldinni. Gerðinni lauk án árangurs 20. febrúar 2009. Telur sóknaraðili ekkert gefa til kynna að varnaraðili sé fær um að standa í skilum við sig innan skamms tíma. Vísar hann til 1. tl. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti og fleira.
II.
Varnaraðili kveðst telja að hann sé allt að einu fær um að standa full skil á skuldbindingum sínum. Hann sé ekki í persónulegum vanskilum og hafi staðið lánardrottnum sínum skil á þeim skuldbindingum sem hann hafi gengið í og hafi komið í gjalddaga og hann telji sig fullfæran um að standa skil á skuldbindingum sínum um fyrirsjáanlega framtíð. Við greinda kyrrsetningargerð hafi verið mætt af hálfu varnaraðila og því mótmælt að hún næði fram að ganga þar sem krafa að baki kyrrsetningarbeiðninni væri umdeild og umþrætt fyrir dómstólum og væri henni mótmælt af varnaraðila. Hafi sýslumaður eigi að síður ákveðið að gerðin næði fram að ganga. Hin umdeilda krafa að baki gerðinni hafi verið 1.152.424.997 krónur og hafi varnaraðili ekki getað bent á eignir til tryggingar þeirri gríðarlegu fjárhæð.
Varnaraðili kveðst reka umfangsmikla viðskiptastarfsemi í Rússlandi. Gefi kyrrsetningargerðin ranga mynd af fjárhag hans þar sem hann sé að fullu fær um að standa í skilum við lánardrottna sína og sú meinta krafa á hendur honum sem að baki kyrrsetningunni standi eigi ekki við rök að styðjast og muni hann verða sýknaður af henni af dómstólum. Vísar hann til greinargerðar sinnar í máli nr. E-534/2008, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra. Sú greinargerð liggur frammi í þessu máli.
Í öðru lagi telur varnaraðili að þar sem hann eigi ekki lögheimili á Íslandi og sé ekki undanþeginn lögsögu dómstóla í öðrum ríkjum verði ákvæðum laga nr. 21, 1991 um gjaldþrotaskipti á búi hans ekki beitt, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21, 1991.
III.
Samkvæmt vottorði þjóðskrár breytti varnaraðili, sem áður bjó að Hafnarstræti 20, Akureyri, um heimili 7. apríl síðastliðinn og á nú heimili í Rússlandi. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1991 verður ákvæðum laganna því aðeins beitt um gjaldþrotaskipti á búi skuldara sem er einstaklingur, að hann eigi lögheimili hér á landi og sé ekki undanþeginn lögsögu íslenskra dómstóla.
Þegar krafa um gjaldþrotaskipti barst dómnum átti varnaraðili lögheimili í umdæmi þessa dómstóls. Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. laga nr. 21/1991 verður farið með kröfu í því umdæmi þar sem hún kom réttilega fram þótt skuldarinn flytji lögheimili sitt úr umdæminu áður en endanleg afstaða er tekin til hennar. Ber því, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 21/1991, að ljúka meðferð kröfunnar að efni til hér fyrir dómi þótt varnaraðili sé fluttur úr umdæminu.
Í málinu liggja frammi framangreindur lánssamningur og ábyrgðaryfirlýsing varnaraðila. Þótt fram sé komið að varnaraðili krefjist sýknu í dómsmáli sem höfðað hefur verið til heimtu skuldarinnar verður sóknaraðili engu að síður talinn lánardrottinn hans í skilningi 65. gr. laga nr. 21/1991 á grundvelli þessara gagna.
Fyrir liggur að kyrrsetning var reynd hjá varnaraðila án árangurs þann 20. febrúar sl. Ekkert er fram komið sem styður fullyrðingu hans um að honum sé engu síður unnt að standa skil á skuldbindingum sínum. Liggur því ekki annað fyrir en að gerðin gefi rétta mynd af fjárhag hans.
Samkvæmt þessu ber samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 1. tl. þeirrar mgr., að taka kröfu sóknaraðila til greina. Krafa hans um málskostnað kom fyrst fram við munnlegan málflutning. Hann hefur ekki lagt fram greinargerð af sinni hálfu sem yrði talin tæmandi um kröfugerð. Heimilt er, en ekki skylt að leggja fram greinargerð í málum sem rekin eru samkvæmt XXIII. kafla laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 166. gr. þeirra. Verður kröfu um málskostnað því ekki vísað á bug með skírskotun til þess að hún var ekki höfð uppi í greinargerð. Rétt þykir hins vegar eftir atvikum að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri þessa máls.
Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ:
Bú varnaraðila, Magnúsar Þorsteinssonar, er tekið til gjaldþrotaskipta.
Málskostnaður fellur niður.