Hæstiréttur íslands

Mál nr. 239/2013


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjársvipting
  • Gjafsókn


                                     

Fimmtudaginn 26. september 2013.

Nr. 239/2013.

A

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að A, sem um langa hríð hafði glímt við vímuefnavanda, skyldi sviptur forsjá sonar síns á grundvelli a. og d. liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en reynt hafði verið til hlítar að beita öðrum og vægari úrræðum en forsjársviptingu en þau ekki borið árangur, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. apríl 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 11. mars síðastliðinn, var höfðað 8. janúar sl. af Reykja­víkur­­borg vegna Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Ráðhúsinu við Tjörnina, Reykja­vík, á hendur A, [...], [...].

Stefnandi krefst þess að stefndi verði sviptur forsjá sonar síns, B, kt. [...]-[...], sem nú er í tímabundnu fóstri, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda um að stefndi verði sviptur forsjá sonar síns. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda máls­kostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi og að við ákvörðun þóknunar lögmanns stefnda verði tillit tekið til skyldu lögmanns að innheimta 25,5% virðisaukaskatt af þóknun sinni, allt eins og ekki sé um gjafsóknarmál að ræða. Stefnda var veitt gjafsókn 23. janúar 2013.

Málið hefur sætt flýtimeðferð samkvæmt 53. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002 og XIX. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna

Stefndi er faðir drengsins B sem er fæddur [...] 2011. Í gögnum málsins kemur fram að eftir fæðingu drengsins hafi hann dvalist á Vistheimili barna ásamt foreldrum sínum í um það bil fimm mánuði eða þar til í september s.á. Ástæða þess var sú að tryggja þurfti öryggi drengsins en móðir hans hafði neytt fíkniefna á meðgöngu og átti auk þess við fleiri alvarleg vandamál að glíma sem vöktu efasemdir um getu hennar til að annast barnið.

Stefndi flutti með drengnum og móður hans á heimili foreldra hennar og þar bjuggu þau þar til í desember s.á. Þau fluttu þaðan í leiguíbúð og bjuggu þar þegar Barna­vernd Reykjavíkur fóru að berast tilkynningar frá lögreglu um afskipti hennar af heimili þeirra vegna átaka og fíkniefnaneyslu. Í kjölfarið var drengnum komið tímabundið fyrir á heimili móðurfjölskyldu en hann flutti síðan til föðurafa og stjúp­ömmu í apríl 2012 og býr ennþá hjá þeim.

Stefndi fór í meðferð á Vog í lok mars s.á. og í eftirmeðferð á Staðarfell og síðan á áfangaheimili. Af hálfu Barnaverndar Reykjavíkur var ákveðið að láta á það reyna hvort stefndi gæti tekið á vanda sínum. Stefndi gekkst undir forsjárhæfnismat í júlí s.á. Samkvæmt því var hann talinn hafa viðunandi foreldrahæfni og þar með getu til að skapa syni sínum þroskavænleg uppeldisskilyrði. Sú niðurstaða var þó talin algerlega háð því að hann héldi vímuefnabindindi. Það tókst ekki en því er ómótmælt í málinu að stefndi hafi verið í fíkniefnaneyslu frá því í júlí eða ágúst s.á.

Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2012 var móðir drengsins svipt forsjá hans. Í dóminum kemur fram að barnaverndaryfirvöld hefðu haft afskipti af málefnum hennar frá því á meðgöngu en samkvæmt gögnum málsins hefði hún neytt fíkniefna reglu­lega á þeim tíma. Hún og barnsfaðir hennar hefðu notið mikils stuðnings barna­verndar­yfirvalda eftir fæðingu drengsins og hafi þau dvalist um lengri tíma á Vistheimili barna og síðan í foreldrahúsum. Þau hafi fallið á vímuefnabindindi um það leyti er þau hafi flutt með drenginn í leiguíbúð síðla árs 2011 en þá fyrst hafi reynt á að þau önnuðust drenginn ein síns liðs. Móðirin hafi eftir það verið í viðvarandi vímu­efnaneyslu og átti ekki fastan samastað. Hún hafi ekki leitað sér meðferðar vegna fíknisjúkdóms síns. Sýnt þótti að hún væri ófær um að veita syni sínum þá vernd og um­önnun sem hann ætti rétt á samkvæmt 1. gr. barnaverndarlaga. Hún teljist augljós­lega vanhæf til að fara með forsjá drengsins. Dómurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 14. mars 2013.

Krafa stefnanda í málinu er byggð á því að stefndi sé ófær um að fara með forsjá drengsins vegna langvarandi fíkniefnaneyslu og vangetu til að taka á þeim vanda. Krafan um forsjársviptingu er reist á því að hagsmunir barnsins krefjist þess en dag­legri umönnun og uppeldi barnsins sé alvarlega ábótavant verði forsjá þess í höndum stefnda. Enn fremur sé andlegri og líkamlegri heilsu og þroska barnsins veruleg hætta búin verði forsjáin í höndum stefnda sökum mikillar og langvarandi vímuefnaneyslu hans.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að skilyrði séu til að svipta hann forsjá sonarins. Stefndi fari fram á að honum verði veitt tækifæri til að taka sig á. Hann vilji syni sínum allt það besta eins og hann hafi ítrekað látið í ljós. Stefndi telur að hann sé hæft og gott foreldri þegar hann er ekki í vímuefnaneyslu. Önnur úrræði séu tæk en þau að svipta hann forsjá eins og gert sé ráð fyrir í barnaverndarlögum. Barnaverndar­yfirvöldum beri skylda til að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki og beita við­eigandi úrræðum til verndar börnum eftir því sem við eigi eins og kveðið sé á um í 2. gr. laganna. Þá beri barnaverndaryfirvöldum að gæta meðalhófs samkvæmt 12. gr. stjórn­sýslulaga og að beita ávallt vægustu úrræðum sem tiltæk séu hverju sinni.    

Málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er málsatvikum lýst þannig að um sé að ræða tæplega tveggja ára gamlan dreng sem lúti forsjá föður síns, stefnda. Móðir drengsins hafi verið svipt for­sjá hans 10. október sl. með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2081/2012. Mál drengsins hafi verið til meðferðar hjá Barnavernd Reykjavíkur frá nóvember 2010, en þá hafi hann verið í móðurkviði.

Af hálfu stefnanda sé vísað til þess að stefndi sé [...] ára gamall. Móðir hans hafi látist er hann var [...] ára gamall og hafi hann upp frá því búið hjá föður sínum og bræðrum þar til fósturmóðir kom til sögunnar. Stefndi sé í miðið af þremur bræðrum. Hann eigi einnig eina yngri hálfsystur sem faðir hans eigi með núverandi konu.

Stefndi hafi lokið grunnskólaprófi frá [...]skóla. Honum hafi almennt gengið ágætlega í námi. Hann hafi hafið nám við [...] eftir grunnskóla, þar sem hann hafi verið í tvö ár, en hann hafi flosnað frá menntaskólanámi vegna fíkni­efnaneyslu. Stefndi hafi lokið meiraprófi og um tíma hafi hann starfað sem bíl­stjóri auk þess sem hann hafi unnið ýmis störf í byggingariðnaði. Hann hafi marg­sinnis flosnað frá vinnu vegna óreglu.

Stefndi eigi að baki langa sögu um neyslu vímuefna. Hann hafi hins vegar hætt neyslu þeirra tímabundið um það leyti sem sonur hans fæddist. Stefndi hafi farið í afeitrun á Vogi og í kjölfarið í eftirmeðferðarprógramm á göngudeild SÁÁ. Á því tímabili er stefndi og barnsmóðir hans dvöldust með son sinn á Vistheimili barna hafi stefndi farið reglulega í vímuefnapróf. Öll prófin hafi mælst neikvæð.

Forsaga málsins hjá barnavernd nái allt aftur til meðgöngu. Óljóst hafi verið með fað­erni drengsins, en staðfest hafi verið í júlímánuði 2011 að stefndi væri faðir hans. Upp frá því hafi stefndi og barnsmóðir hans farið sameiginlega með forsjá drengsins.

Samband stefnda við barnsmóður sína hafi einkennst af miklum átökum, en bæði hafi þau glímt við alvarlegan fíkniefnavanda til margra ára. Þau hafi sýnt vangetu og ábyrgðar­leysi til að halda sig frá vímuefnaneyslu og hugsa um velferð barnsins. Hún hafi verið svipt forsjá sonar síns 10. október 2012. 

Stefndi hafi verið til meðferðar- og greiningarvistunar með drenginn á Vistheimili barna ásamt barnsmóður sinni þar sem þau hafi dvalist um fimm mánaða skeið. Starfsfólk vistheimilisins hafi talið stefnda sýna góða samvinnu. Hann hafi bæði verið natinn og duglegur í allri umönnun drengsins og þar hafi hann sýnt mun meiri ábyrgð en móðirin. Eftir að stefndi og barnsmóðir hans luku dvöl á vistheimilinu í september 2011 hafi þau flutt á heimili foreldra barnsmóður stefnda. Þar hafi þau búið með son sinn fram í desember s.á., en þá hafi barnsmóðir stefnda tekið á leigu íbúð [...].

Í febrúar 2012 hafi borist tilkynningar um afskipti lögreglu af heimili þeirra vegna átaka og fíkniefnaneyslu. Í kjölfarið hafi drengnum verið komið fyrir tímabundið til tveggja mánaða á heimili móðurfjölskyldu. Í apríl s.á. hafi hann flutt til föðurafa og stjúpömmu og þar dveljist hann enn og þroskist og dafni vel. Vistun drengsins hafi komið til af því að foreldrar hans hafi fallið á vímuefnabindindi.

Eftir að tilkynning barst frá lögreglu um fall stefnda og barnsmóður hans hafi stefndi lýst yfir fullri samvinnu um að bæta hag sinn og stöðu. Hann hafi farið í meðferð á Vogi og Staðarfelli sem hann hafi lokið. Í framhaldinu hafi hann dvalist á Áfanga­heimilinu Vin. Hann hefði slitið sambandi við barnsmóður sína. Fram hafi komið að hann hefði gert sér grein fyrir því að þau gætu ekki verið saman vegna mikilla átaka í sambandi þeirra. Að auki hafi barnsmóðir hans ekki viljað fara í meðferð og taka á sínum málum líkt og stefndi hafði gert. Á þessum tíma hafi það verið álit starfsmanna barnaverndar að láta fullreyna á stuðning við stefnda, það er að gefa honum tækifæri til að ná tökum á fíkniefnavanda sínum, og í framhaldinu yrði lagt mat á getu hans til að viðhalda vímuefnabindindi. Jafnframt hafi verið gerð krafa um að stefndi undir­gengist forsjárhæfnismat.

Eftir að drengurinn var vistaður utan heimilis hafi stefndi á fundi Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 20. mars 2012 lýst yfir vilja til að taka á vímuefnavanda sínum og leita sér meðferðar. Hann hafi skrifað undir áætlun um meðferð máls og yfirlýsingu um að hann samþykki vistun drengsins til 26. septem­ber 2012, sbr. 1. mgr. 25. gr. barna­verndar­laga. Stefndi hafi þó haldið áfram vímu­efna­neyslu eftir fundinn. Tíu dögum síðar hafi hann komið í viðtal á skrifstofu Barnaverndar. Hann hafi sagst vera þreyttur á eigin ástandi og að hann ætti að mæta í afeitrun á Vog strax eftir viðtalið. Stefndi hafi farið í vímuefnameðferð, og að henni lokinni á áfangaheimili á vegum SÁÁ. Hugar­­far hans hafi verið breytt og hafi hann viljað standa sig vegna sonar síns. Hann hafi verið í víkingaprógrammi og sótt fundi og fyrirlestra á Vogi auk annarra AA funda.

Þegar stefndi hafði lokið vímuefnameðferð hafi hann undirgengist forsjárhæfnismat, í byrjun sumars 2012. Niðurstöður matsins sýni að stefndi búi yfir miklum styrkleikum í uppeldislegu tilliti og viðunandi foreldrahæfni. Þær niðurstöður séu þó algerlega háðar því að stefndi haldi vímuefnabindindi. Í viðtölum virtist stefndi heiðarlegur og einlægur í samskiptum og almennt bera hagsmuni sonar síns fyrir brjósti. Frá upphafi hafi stefndi virst fær um að mynda frumgeðtengsl við son sinn og strax sýnt innsæi gagnvart frumþörfum hans. Mat sálfræðingsins hafi verið að ekki ætti að hrófla við núverandi fósturráðstöfun fyrr en í fyrsta lagi að einu og hálfu áru liðnu, eða þegar sýnt þætti að stefndi hefði náð stöðugleika í bindindi og gæti tekið á sig ábyrgð með ótví­ræðum hætti.

Í lok sumars hafi starfsmenn barnaverndar fengið þær upplýsingar að stefndi væri fallinn á vímuefnabindindinu og hafi þeir haft samband við hann vegna þess í beinu framhaldi. Stefndi hafi viðurkennt vímuefnaneyslu en hann hefði fallið í tvo daga og þá farið inn á Vog. Óskað hafi verið eftir því að stefndi mætti í viðtal á skrifstofu barna­verndar og gengist undir vímuefnapróf. Stefndi hafi tekið vel í það. Hann hafi þó hvorki mætt í bókaðan tíma né afboðað komu sína. Fljótlega eftir vímuefnameðferðina virtist stefndi hafa fallið á vímuefnabindindinu og í dag sé hann í neyslu ásamt barns­móður sinni. Ítrekað hafi verið reynt að fá stefnda til að mæta í viðtal á skrifstofu Barna­verndar Reykjavíkur í þeim tilgangi að fara yfir stöðu málsins en án árangurs. Stefndi hafi hvorki verið í samskiptum við son sinn eftir að hann féll á vímuefna­bindindinu né til samvinnu við starfsmenn Barna­verndar.

Með vísan til 4. gr. barnaverndarlaga, þar sem segi að í barnaverndarstarfi skuli beita þeim ráðstöfunum sem ætla megi að séu barni fyrir bestu og með vísan til a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. sömu laga sé það mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur út frá for­sögu málsins að stuðningur við föður á grundvelli barna­verndarlaga sé fullreyndur og megni ekki að breyta forsjárhæfni hans til hins betra.

Það sé mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur að með hliðsjón af öllum gögnum málsins, forsögu og forsjárhæfnismati, sem fyrir liggi í málinu, að stuðningur á grund­velli barnaverndarlaga við stefnda sé fullreyndur. Í ljósi ungs aldurs drengsins og þess mikilvæga tíma, sem framundan sé í lífi hans varðandi geðtengslamyndun við um­önnunar­­­aðila, telji nefndin það þjóna hagsmunum hans að stefndi verði sviptur for­sjá hans. Borgarlögmanni hafi verið falið að krefjast þess fyrir dómi að stefndi yrði sviptur forsjá sonar síns á grundvelli a- og b-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Á fundi nefndarinnar 30. október 2012 hafi stefndi samþykkt að sonur hans yrði vistaður hjá föður hans og konu hans þar til forsjársviptingarmál fyrir dómstólum yrði til lykta leitt. 

Stefnandi byggi kröfu sína um forsjársviptingu á því að ákvæði a- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt í máli þessu. Stuðningsaðgerðir á grundvelli laganna dugi ekki til að tryggja öryggi drengsins og fullnægjandi uppeldisskilyrði til frambúðar á heimili stefnda. Að mati stefnanda sé stefndi óhæfur til að annast son sinn vegna fíkniefnaneyslu. Ítrekað hafi verið reynt að aðstoða stefnda á víðtækan hátt en sú aðstoð hafi ekki gagnast honum sem skyldi. Í ljósi forsögu málsins og ástands stefnda nú, sé talið að öryggi drengsins sé ógnað í umsjá stefnda og lífi hans stefnt í tvísýnu. Gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að daglegri umönnun drengsins verði stefnt í verulega hættu, fari stefndi með forsjá hans. Heilsu og þroska drengsins sé hætta búin fari stefndi með forsjá hans eins og málum sé háttað.

Hagsmunir drengsins mæli eindregið með því að stefndi verði sviptur forsjá hans og að hann verði vistaður áfram á heimili hjá nákomnum, föðurafa og stjúpömmu, þar sem vel sé hlúð að honum og réttur hans til viðunandi uppeldis og umönnunar sé tryggður, auk þess sem öryggi hans verði tryggt. Drengurinn hafi verið samfellt í umsjá ættingja sinna frá febrúar 2012, þ.e. fyrst í umsjá móðurforeldra en frá byrjun apríl s.á. í umsjá föðurafa og stjúpömmu þar sem hann búi við gott atlæti.

Drengurinn sé ungur en langflest börn myndi sterk geðtengsl við sína nánustu í frum­bernsku en góð tengsl séu undirstaða alls þroska. Með vísan til alls þessa sé það mat stefnanda að það þjóni hagsmunum drengsins best að þeim stöðugleika sem kominn sé á verði ekki raskað enda sé það í fullu samræmi við megin­reglu barnaverndarlaga, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna, um að í barnaverndarstarfi skuli stuðla að því að stöðugleiki ríki í uppvexti barna. Krafa stefnanda byggist á því að of mikil og óforsvaranleg áhætta felist í því að láta stefnda fara með forsjá sonar síns.

Stefnandi telji drenginn eiga rétt á viðunandi umönnun og vernd í samræmi við aldur hans og þroska samkvæmt 1. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga. Mat stefnanda sé að stefndi geti ekki sinnt forsjár- og uppeldisskyldum sínum gagnvart drengnum eins og honum sé skylt á grundvelli 2. mgr. sömu greinar. Meðal þeirra skyldna sé að gæta velferðar drengsins og búa honum viðunandi uppeldisaðstæður, en stefndi sé í sambúð með barnsmóður sinni sem hafi verið svipt forsjá drengsins 10. október 2012. Stefndi hafi undir­gengist forsjárhæfnismat í byrjun sumars 2012. Niðurstöður matsins sýni að stefndi búi yfir miklum styrkleikum í uppeldislegu tilliti og viðunandi foreldrahæfni. Miklar vonir hafi verið bundnar við það að stefndi gæti haldið vímuefnabindindi og farið einn með forsjá sonar síns. Því miður sé staðan önnur í dag.

Að mati stefnanda hafi verið leitast við að eiga eins góða samvinnu við stefnda um málið eins og aðstæður leyfi. Þá hafi verið leitast við að beita eins vægum úrræðum gagnvart stefnda og unnt hafi verið hverju sinni. Stefnandi telji stuðnings­aðgerðir fullreyndar í því skyni að bæta forsjárhæfni stefnda en hann hafi ekki haldið vímuefnabindindi. Önnur barnaverndarúrræði en forsjársvipting séu því ekki tæk nú, en brýna nauðsyn beri til að skapa drengnum til frambúðar það öryggi og umönnun sem hann eigi rétt á að búa við lögum samkvæmt. Geti þau stuðningsúrræði sem stefnandi hafi yfir að ráða ekki megnað að skapa drengnum þau uppeldisskilyrði sem hann eigi skýlausan rétt til hjá stefnda. Að mati stefnanda hafi vægustu ráðstöfunum ávallt verið beitt til að ná þeim markmiðum sem að hafi verið stefnt og sé krafa stefnanda sett fram samkvæmt fortakslausu ákvæði 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga. Meðal­hófsreglunnar hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist.

Það séu frumréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Almenn skylda foreldra, sem lögfest sé í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga, sé að sýna börnum virðingu og umhyggju, auk þess sem óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Þessi regla sé grundvallar­regla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé og skylt að veita börnum vernd eins og mælt sé fyrir um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í Alþjóðasamningi um borgara­leg og stjórnmálaleg réttindi, sbr. lög nr. 10/1979.

Með skírskotun til alls framanritaðs, meginreglna í barnaverndarrétti, sbr. 4. gr. barna­verndarlaga, og gagna málsins geri stefnandi þá kröfu að stefndi verði sviptur forsjá sonar síns, sbr. a- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga, enda muni önnur og vægari úrræði ekki skila tilætluðum árangri.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi telur málsatvikum rétt lýst í stefnu. Hann vilji þó leggja áherslu á að hann hafi ávallt leitast við eiga góða samvinnu við barnaverndaryfirvöld þegar málefni drengs­ins séu annars vegar. Þannig hafi hann samþykkt að drengurinn væri vistaður hjá föðurafa og stjúpömmu. 

Stefndi hafi ávallt reynt setja hagsmuni sonar síns í fyrsta sæti sem birst hafi meðal annars í því að koma honum í öruggt skjól, þegar stefndi hafi sjálfur glímt við það böl sem vímuefnaneysla hans og móður barnsins hafi haft í för með sér. Stefndi hafi virt þau fyrirmæli að koma ekki á heimili föður síns, þar sem drengurinn dveljist í fóstri, þegar stefndi sé undir áhrifum vímuefna.

Þótt fíkniefnavandi stefnda sé nú mikill, alvarlegur og langvarandi hafi hann samt ekki glatað mikilvægum eigindum sem foreldrum séu nauðsynlegar. Því til stuðnings vísi stefndi til þess sem fram komi í forsjárhæfnismatinu.

Stefndi búi ennþá yfir heiðarleika og einlægni í samskiptum við annað fólk. Hann sýni ábyrgð, áræðni og frumkvæði í uppeldislegu tilliti. Hann búi yfir dómgreind til að meta andlegar og líkamlegar þarfir sonar síns. Þá hafi stefndi myndað mikilvæg geðtengsl við son sinn. Þessi persónueinkenni stefnda sýni sig þegar hann sé ekki undir áhrifum fíkniefna.

Stefndi búi vissulega einnig yfir þeim neikvæðu fylgifiskum fíkniefnaneyslunnar sem séu svo vel þekktir og rýri hæfni hans í foreldrahlutverkinu. Á neyslutímabilum geti hann þannig verið sjálfmiðaður og ábyrgðarlaus. 

Stefndi telji sig geta yfirunnið þá erfiðleika sem réttilega hafi verið lýst í stefnu sem þeim vanda sem hann eigi við að etja og sem hafi gert honum erfitt að sinna föðurhlutverkinu.

Stefndi viðurkenni að meðferð sé honum alger og brýn nauðsyn til að yfirvinna þessa erfiðleika. Hann geri sér ljóst að hin langa neyslusaga hans og endurteknar innlagnir á meðferðarstofnanir séu mestu veikleikar hans. Hann trúi því hins vegar og vonar einlæglega að fái hann tækifæri til að komast í viðhlítandi meðferð og takist að viðhalda stöðugleika með virkri eftirmeðferð eigi hann þrátt fyrir allt möguleika á lífi án vímuefna.

Stefndi telji þessi atriði mæla gegn því að orðið verði við kröfu stefnanda um að svipta hann forsjá sonarins. Þrátt fyrir vandamál stefnda sé ekki fullreynt með að hann geti bætt sig fái hann til þess tækifæri. Hann bíði eftir að komast í meðferð sem hafi átt að vera tiltæk um þessar mundir eða jafnvel fyrr. Stefndi telji því að sú krafa sem stefnandi geri hér fyrir dómi sé óþarflega harkaleg þar sem vægari úrræði séu tiltæk.

Til stuðnings kröfu sinni um sýknu vísi stefndi aðallega til þess sem komi fram í 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga en þar segi að einungis skuli gera kröfu um sviptingu for­sjár ef önnur og vægari úrræði gagnast ekki til úrbóta eða að slíkar aðgerðir hafa verið reyndar án viðunandi árangurs.

Stefndi telji að ákvæði 28. gr. sömu laga eigi við í máli þessu en þar sé foreldri í raun gefið tækifæri til að láta af óreglu og koma lífi sínu í rétt horf áður en komi til svo alvarlegs inngrips sem varanleg forsjársvipting sé. Stefndi telji að í málinu hafi verið brotið gegn meðalhófsreglu 2. mgr. 29. gr. laganna og önnur úrræði séu ekki full­reynd. 

Stefndi vísi jafnframt til 2. mgr. 8. gr. laga nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Þar komi fram að stjórnvöld skuli ekki ganga á rétt sérhvers manns til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu nema lög mæli fyrir um slíkt og nauðsyn beri til. Í máli þessu séu önnur og vægari úrræði en forsjársvipting tiltæk eins og stefndi hafi bent á.

Þá telji stefndi að kröfur stefnanda séu í andstöðu við 2. gr. barnaverndarlaga þar sem m.a. komi fram að það sé markmið laganna að styrkja fjölskyldur í uppeldishlutverki sínu. Forsjársvipting sé alvarlegt inngrip og beri ekki að taka slíka kröfu til greina, nema ríkar ástæður séu til, enda sé hverju barni eðlilegt að alast upp hjá eigin foreldrum.

Með vísan til framgreinds telji stefndi að ekki séu lagaskilyrði fyrir því að svipta hann forsjá sonar síns. 

Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 130. gr., en krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn til­dæmdan úr hendi stefnanda. 

Niðurstaða

Forsaga máls stefnda og drengsins hjá Barnavernd Reykjavíkur nær allt aftur til þess er drengurinn var í móðurkviði. Stefndi á að baki langa sögu um neyslu vímuefna en fór í meðferð og var án vímuefna um tíma um það leyti sem drengurinn fæddist. Stefndi og barnsmóðir hans nutu mikils stuðnings barnaverndaryfirvalda eftir fæðingu drengsins. Dvöldust þau um nærri fimm mánaða skeið á Vistheimili barna, til að byrja með undir stöðugu eftirliti starfsfólks.

Eftir þetta dvöldust foreldrarnir með drenginn hjá móðurömmu hans um tveggja mánaða skeið og fluttu þaðan með hann í leiguíbúð. Þar var hann aðeins hjá þeim um skamma hríð og allan þennan tíma hvíldi umönnun drengsins ekki síður á ömmunni en foreldrunum. Þegar ljóst varð að foreldrarnir voru fallin á bindindi var drengnum komið í vistun eins og áður hefur verið lýst, fyrst hjá ömmunni, og svo síðar hjá föðurforeldrum.

Stefndi og barnsmóðir hans voru talin hafa fallið á vímuefnabindindi sínu skömmu eftir að þau fluttu inn í leiguíbúðina en stefndi hefur staðfest við starfsmann Barna­verndar Reykjavíkur að hafa verið í neyslu frá því skömmu eftir að dvölinni á vistheimilinu lauk. Stefndi fór síðan í áfengismeðferð í mars 2012 og þaðan á áfanga­heimili og var án vímuefna um tíma. Drengurinn var áfram í fóstri og stefndi bar ekki ábyrgð á umönnun hans. Stefndi féll aftur síðla sumars 2012 og hefur verið í neyslu síðan.

Af framangreindu þykir sýnt að stefndi hefur vegna vímuefnaneyslu enga ábyrgð borið á umönnun drengsins frá því að hann var innan við ársgamall. Eftir fæðingu drengsins annaðist stefndi hann undir leiðsögn á Vistheimilinu og svo í takmörkuðum mæli fyrst eftir að dvölinni á Vistheimilinu lauk.

Fyrstu æviár barna einkennast af miklum framförum og mikilvægum þroskaáföngum. Á þeim tíma er lagður nauðsynlegur grundvöllur að áframhaldandi alhliða þroska þeirra. Almennar þarfir barna snúast um þroskavænleg skilyrði, alúð og umhyggju, öryggi, stöðugleika og samfellu og umfram allt annað geðtengslin sem þau byrja að mynda strax á fyrsta ári við helstu umönnunaraðila sína. Þessi tengsl eru talin vera mikilvægasta verkefni fyrsta æviskeiðsins og er börnum nauðsynlegt að stuðlað sé að því að það ferli fái að þróast. Ef rof verður á tengslamyndun skapast hætta á margvís­legum misfellum í þroska. Við mat á forsjárhæfni er því mikilvægt að skoða hvernig foreldri hefur mætt almennum þörfum barnsins og sinnt tengslamyndun við það.

Ætla má að drengurinn hafi verið byrjaður að mynda geðtengsl við stefnda á fyrstu mánuðum ævi sinnar. Þegar drengurinn þurfti að fara í umsjá annarra hefur orðið rof á þeim tengslum og hann þurft að mynda geðtengsl við aðra umönnunaraðila. Hann hefur nú verið í vistun hjá föðurafa og konu hans frá því á eins árs afmælisdaginn sinn 12. apríl 2012. Samkvæmt gögnum málsins er hann mjög tengdur þeim, er glaður og virðist þroskast eðlilega. Það gefur til kynna að tengslamyndun við þau hafi gengið vel. Mikilvægt er fyrir drenginn að tryggja að hann þurfi ekki að ganga í gegnum frekari rof í tengslamyndun.

Stefndi heldur því fram að hann hafi ekki fengið mikil tækifæri til þess að gegna forsjárskyldum sínum. Hann rökstyður það með því að aðeins hafi verið gerðar tvær meðferðaráætlanir og fer hann fram á tækifæri til að taka sig á. Stefndi hefur allan tímann frá fæðingu drengsins átt kost á stuðningi barnaverndaryfirvalda og um leið átt þess kost að taka sig á. Undanfarna mánuði hefur Barnavernd Reykjavíkur hvorki tekist að ná símasambandi við stefnda né fá hann til viðtals vegna málefna drengsins. Stefnda er heimilt að heimsækja drenginn þegar hann er án vímuefna. Hann hefur samkvæmt því sem fram hefur komið í málinu varla nýtt sér það og undanfarna mánuði hefur hann ekki sóst eftir að hitta drenginn. Þegar hann kom í eitt skipti á heimili hans eftir flutninga á nýjan stað gaf hann sig hvorki að drengnum né veitti honum athygli. Stefndi fékk tækifæri til að koma fyrir dóminn og tala máli sínu, en hann mætti ekki.

Ekki verður séð á gögnum málsins að stefndi geti með nokkru móti tryggt drengnum þau uppvaxtarskilyrði sem eru honum lífsnauðsynleg. Þykir sýnt að stefndi er ófær um að veita syni sínum þá vernd sem hann á rétt á samkvæmt 1. gr. barnaverndarlaga. Tæk stuðningsúrræði hafa ekki skilað árangri og fyrir liggur að stefndi hefur ekki verið mót­tæki­legur fyrir þeim þannig að þau komi að gagni með viðunandi hætti. Ljóst þykir samkvæmt því sem kemur fram í gögnum málsins, að reynt hefur verið til hlítar að beita öðrum og vægari úrræðum en forsjársviptingu gagnvart stefnda en þau ekki borið árangur, sbr. 7. mgr. 4. gr. og 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Sökum þessa telst stefndi augljóslega van­hæfur til að fara með forsjá drengsins.

Samkvæmt því sem að framan er rakið, og með hagsmuni drengsins B að leiðarljósi, verður að fallast á það með stefnanda að uppfyllt séu skilyrði a- og d-liða 29. gr. barnaverndarlaga til að svipta stefnda forsjá drengsins. Verður krafa stefnanda því tekin til greina.

Stefnandi krefst ekki málskostnaðar.

Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talið þóknun lögmanns hans, Jóns Sigfúsar Sigurjónssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur án virðisaukaskatts.

Dóminn kváðu upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari og meðdómsmennirnir, Ágústa Gunnarsdóttir og Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingar.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, A, er sviptur forsjá sonar síns, B, kt. [...]-[...].

Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þar með talið þóknun lögmanns hans, Jóns Sigfúsar Sigurjónssonar hdl., 350.000 krónur án virðisaukaskatts.