Hæstiréttur íslands

Mál nr. 147/2005


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 3. nóvember 2005.

Nr. 147/2005.

Íslandsbanki hf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

þrotabúi Móa hf.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Sératkvæði.

Leigugreiðslur fyrirtækisins M samkvæmt samningum við Í um leigu á tækjum voru í verulegum vanskilum er félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar í desember 2002. Bú M var síðan tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember 2003 og var frestdagur 19. desember 2002. Í júlí 2003 greiddi M skuld sína við Í með víxlum, samþykktum af þriðja manni, og skyldi ráðstafa víxilfjárhæðinni til greiðslu gjaldfallinna leiguskulda vegna notkunar tækjanna eftir frestdag. Fallist var á kröfu þrotabús M um riftun greiðslunnar á grundvelli ákvæða 1. mgr. 139. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Sératkvæði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2005. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Fram er komið að áfrýjandi hafi yfirtekið rekstur Glitnis hf., sem gerði samninga við Móa hf., annars vegar 10. september 2001 um fjármögnunarleigu á vörubifreið og hins vegar 6. október 1999 um kaupleigu á dráttarvél og heyþyrlu. Í héraðsdómi kemur fram að beiðni Móa hf. um heimild til greiðslustöðvunar barst Héraðsdómi Reykjavíkur 19. desember 2002 og var fallist á hana með úrskurði 27. þess mánaðar. Þá var fyrirtækinu veitt heimild til að leita nauðasamnings með úrskurði 9. apríl 2003. Lauk þá greiðslustöðvun samkvæmt 2. tölulið 2. mgr. 23. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og við tók tímabil sem samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laganna er sambærilegt greiðslustöðvun. Við dóm Hæstaréttar 7. október 2003 í máli nr. 303/2003 var hafnað kröfu um staðfestingu nauðasamnings og féll þá endanlega niður heimildin til að leita nauðasamnings samkvæmt 6. tölulið 41. gr., sbr. 59. gr. laga nr. 21/1991. Bú Móa hf. var síðan tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003. Samkvæmt 3. mgr., sbr. 2. og 4. mgr., 2. gr. sömu laga var frestdagur því 19. desember 2002, en umþrætt skuld var greidd eftir frestdag. Leigugreiðslur Móa hf. samkvæmt samningunum munu hafa verið í verulegum vanefndum er félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar, en greiðsla sú sem stefndi krefst riftunar á fór fram 27. júlí 2003. Um var að ræða víxla samþykkta af þriðja manni með gjalddaga 17. september 2003 og átti víxilfjárhæðinni einungis að ráðstafa til greiðslu gjaldfallinna leiguskulda vegna notkunar tækjanna eftir frestdag.

Fram er komið í málinu að búskröfur fengust ekki að fullu greiddar við gjaldþrotaskiptin og verður ekki séð að ráðstöfun sú sem leiddi til myndunar þeirrar fjárkröfu, sem krafist er riftunar á, hafi með einhverjum hætti verið samþykkt af aðstoðarmanni Móa hf. við á greiðslustöðvunartíma eða umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum, þrátt fyrir að Glitnir hf. hafi á þeim tíma haft vitneskju um hvernig komið var í fjármálum fyrirtækisins. Samkvæmt 40. gr. laga nr. 21/1991 breytir engu um niðurstöðu málsins það mat stjórnarformanns Móa hf. að þrotabúinu hafi verið nauðsynlegt í þágu rekstursins að nota þessi tæki eftir frestdag, enda ekki nægilega í ljós leitt að ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg til að forðast tjón í skilningi 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Er þegar af þessum ástæðum fallist á kröfu stefnda um riftun á grundvelli ákvæða 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Ákvæði héraðsdóms um upphafstímamark dráttarvaxta verður staðfest með skírskotun til forsendna hans. Þá skal málskostnaðarákvæði héraðsdóms vera óraskað.

Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Íslandsbanki hf., skal greiða stefnda, þrotabúi Móa hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 


Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

I.

         Svo sem lýst er í atkvæði meirihluta dómenda var frestdagur í þrotabúi Móa hf. 19. desember 2002. Ágreiningur aðila snýst um greiðslu Móa hf. 27. júlí 2003 til áfrýjanda, þar sem afhentur var víxill á hendur þriðja manni að fjárhæð 1.500.000 krónur. Áfrýjandi tók við víxli þessum sem greiðslu á skuld samkvæmt tveimur samningum við Móa hf. sem grein er gerð fyrir í atkvæði meirihlutans og kveður hann víxilinn hafa gengið til greiðslu á leigu sem féll til vegna leiguafnota þeirra muna, sem samningarnir greina, eftir frestdag og fram að greiðsludegi. Liggur fyrir að leigugjaldið fyrir afnot þeirra þetta tímabil nam nokkru hærri fjárhæð en víxilfjárhæðinni.

II.

         Í 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 er kveðið á um skilyrði þess að krefjast megi riftunar á greiðslu skuldar ef greitt er eftir frestdag. Eru þar talin upp þrjú tilvik þess að ekki sé unnt að gera slíka kröfu. Eitt þeirra er það sem hér reynir á, að nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni.

         Þann 18. maí 2005, eða eftir að héraðsdómur gekk, var að ósk áfrýjanda tekin í Héraðsdómi Reykjavíkur skýrsla af Kristni Gylfa Jónssyni fyrrverandi stjórnarformanni Móa hf. Í framburði hans kom fram, að hinir leigðu lausafjármunir hafi verið notaðir við rekstur fyrirtækisins eftir frestdag og notkunin hafi verið nauðsynlegur liður í rekstrinum á þessu tímabili. Vörubifreiðin hafi verið notuð til að draga sérútbúna vagna fyrir kassa undir sláturkjúklinga frá uppeldisstöð í sláturhús. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti mótmælti stefndi því ekki að nauðsynlegt hafi verið að hafa tæki til að draga þessa vagna, en taldi að þetta hefði mátt leysa á annan hátt, án þess þó að skýrt væri nánar hver sú lausn hefði átt að vera og hvað hún hefði kostað Móa hf.  Vitnið bar jafnframt að dráttarvélin og heyþyrlan hefðu verið notuð við að koma áburði, sem til féll í rekstrinum, á tún í eigu fyrirtækisins og hirða hey af túnunum. Af hálfu stefnda var við málflutning fyrir Hæstarétti talið líklegt að þessi tæki hefðu verið notuð á þennan hátt, þótt komast hefði mátt hjá því. Ekki var í þessu tilviki heldur skýrt nánar hvernig það hefði mátt gera og við hvaða kostnaði. Í málinu liggur fyrir, að hvorki aðstoðarmaður við greiðslustöðvun né umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum höfðu gefið yfirlýsingu um samþykki við því að hinir leigðu munir yrðu í leiguafnotum áfram eftir frestdaginn.

III.

         Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1991 getur skuldari, sem á í verulegum fjárhagsörðugleikum og vill freista þess að koma nýrri skipan á fjármál sín með aðstoð lögmanns eða löggilts endurskoðanda, sem hann hefur ráðið í því skyni, leitað heimildar til greiðslustöðvunar. Í 2. mgr. sömu greinar er meðal annars kveðið á um að skuldara, sem leitar þessarar heimildar, beri að gera grein fyrir hvernig hann hyggist leysa úr fjárhagsörðugleikum sínum með því að fá þessa heimild. Af þessum lagaákvæðum er ljóst, að heimild til greiðslustöðvunar hefur þann tilgang að gera skuldara í stakk búinn til að standa í skilum við lánardrottna sína, og miðar úrræðið því meðal annars að því að þjóna hagsmunum þeirra. Til þess að ná markmiðum greiðslustöðvunar er nauðsynlegt, að skuldara sé unnt að halda rekstri sínum áfram og hafa þá lánardrottnar að sínu leyti hag af því að svo sé.

         Miðað við skýrslu fyrrverandi stjórnarformanns Móa hf., sem fyrr var getið, verður nú að leggja til grundvallar að afnot Móa hf. af hinum leigðu tækjum hafi verið nauðsynleg til að unnt væri að halda rekstri félagsins áfram eftir frestdag og fram að því að bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta. Þegar lagt er mat á hvort greiðslan, sem um er deilt í málinu, hafi verið nauðsynleg til að komast hjá tjóni, verður að líta til þess, að áfrýjandi hafði heimild til að rifta samningunum um leigumunina og krefjast skila á mununum vegna vanskila á greiðslu þeirrar leigu sem til féll eftir frestdag. Verður ekki talið að 1. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991 standi í vegi fyrir slíkri heimild í tilviki gagnkvæmra samninga þar sem báðir samningsaðilar inna greiðslur sínar af hendi á sama tíma eftir að greiðslustöðvun hefst, enda væri þá verið að skylda viðsemjanda þess, sem greiðslustöðvunar nýtur, til að láta honum í té afnot af eignum sínum, án þess að njóta um leið þeirrar tryggingar í gagngjaldinu sem að jafnaði er forsenda fyrir samningum af þessu tagi. Ef viðsemjandinn teldist ekki njóta nefndra úrræða vegna vanefnda á leigugreiðslum á þessu tímabili væri í reynd verið að skylda hann til að láta viðkomandi rekstri og þá eftir atvikum öðrum lánardrottnum í té verðmæti, sem til þess væru fallin að bæta efnahag viðsemjandans og bæta þar með stöðu annarra lánardrottna ef og þegar til gjaldþrots kæmi. Verður ekki talið að slík skylda fái samrýmst meginreglum laga um vernd eignarréttinda.

         Riftun af hálfu áfrýjanda hefði valdið því, að Móar hf. hefðu þurft að afla sér þessara rekstrartækja annars staðar til þess að forða erfiðleikum í rekstrinum. Sérstaklega er þetta ljóst að því er snertir flutning kjúklinga til slátrunar í sláturhús. Verður ekki séð, hvernig unnt hefði verið að halda þessum rekstri áfram án þess að þessu verkefni væri sinnt. Af hálfu áfrýjanda hafa verið lögð fram gögn um að öflun rekstrartækjanna hjá öðrum hefði valdið fyrirtækinu meiri útgjöldum en nam greiðslu leigunnar til hans og þykir, eins og sönnunarbyrði um þetta atriði er háttað, mega leggja þetta til grundvallar. Með vísan til alls þessa tel ég að greiðsla leigunnar, sem um er deilt, hafi verið nauðsynleg til að komast hjá tjóni og skipti í því efni ekki máli, þó að greitt hafi verið í einu lagi 27. júlí 2003 leiga sem til hafði fallið frá frestdegi og fram á greiðsludaginn, þar sem líta verði á þetta tímabil sem eina heild í þessu samhengi. Riftun á greiðsludegi hefði raunar að auki valdið því að tækin hefðu ekki verið til notkunar í rekstrinum frá þeim degi og þar til honum var hætt við töku bús Móa hf. til gjaldþrotaskipta.

IV.

         Riftunarreglur XX. kafla laga nr. 21/1991 hafa þann megintilgang að ónýta með afturvirkum hætti ráðstafanir sem skuldari hefur gert skömmu fyrir gjaldþrot í þeim tilgangi að mismuna lánardrottnum sínum. Verður að hafa þetta í huga við skýringu einstakra riftunarákvæða kaflans. Því fer fjarri að greiðsla sú, sem krafist er að rift verði í þessu máli, geti talist hafa verið innt af hendi í því skyni að gera hlut áfrýjanda betri en annarra lánadrottna. Má fremur segja að hún hafi haft þann tilgang að bæta hag þeirra. Leiða þessi sjónarmið, með hliðsjón af því sem að framan greinir, til þess að ákvæði 1. mgr. 139. gr. laganna verði ekki skýrð svo að leyfi riftun umræddrar greiðslu.

         Samkvæmt öllu framansögðu tel ég, að sýkna beri áfrýjanda af kröfu stefnda um riftun umræddrar greiðslu og dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 500.000 krónur.                                            

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 2005.

I

            Mál þetta sem dómtekið var 1. mars sl. höfðaði þrotabú Móa hf., kt. 440788-1229, Hafnarstræti 20, Reykjavík gegn Glitni, kt. 490503-3230, Kirkjusandi 2, Reykjavík, með stefnu birtri 14. júlí 2004. Glitnir er deild í Íslandsbanka hf. og því var aðildinni breytt þannig að Íslandsbanki hf. er stefndi í máli þessu.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

1.  Að staðfest verði með dómi riftun greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda að fjárhæð kr. 1.500.000.

2.  Að stefndi verði dæmdur til þess að endurgreiða stefnanda kr. 1.500.000 ásamt dráttarvöxtum, skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 1. ágúst 2003 til greiðsludags. Einnig er þess krafist að dráttarvextir leggist við höfuðstól skv. 12. gr. sömu laga á tólf mánaða fresti í fyrsta sinn þann 1. september 2004.

3.  Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

II

Hinn 19. desember 2002 báðu Móar hf. um heimild til greiðslustöðvunar og var hún heimiluð með úrskurði héraðsdóms 27. desember 2002. Með úrskurði héraðsdóms 22. júní 2003 var staðfestur nauðasamningur Móa hf. við lánardrottna sína, en þeim úrskurði var  hnekkt með dómi Hæstaréttar 7. október 2003. Svo fór að fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrota 5. nóvember s.á.

             Í greinargerð stefnda segir að Glitnir og Móar hf. hafi um alllangt skeið, áður en til greiðslustöðvunarinnar kom, gert með sér samninga, ýmist um kaupleigu eða fjármögnunarleigu á flutningabifreiðum og ýmsum tækjum sem Móar hf. hafi notað í atvinnurekstri sínum. Í málinu hefur stefndi lagt fram samning um fjármögnunarleigu á Man vörubifreið árgerð 1997. Samningurinn er undirritaður 10. september 2001 og gildir hann til 14. október 2005 að lágmarki. Þá hefur stefndi lagt fram samning um kaupleigu á New Holland dráttarvél og heyþyrlu sem er undirritaður 6. október 1999 og gildir hann til 14. nóvember 2004.

             Á greiðslustöðvunartímanum greiddu Móar hf. ekkert samkvæmt framangreindum samningum til að byrja með. Samkvæmt yfirliti sem stefndi hefur lagt fram nam skuld Móa hf. við stefnda vegna vanskila á árinu 2003 samtals kr. 1.549.460 þann 15. júlí.

             Í samningunum eru ítarleg ákvæði um riftun, m.a. ef ekki er greitt á gjalddögum sem voru í hverjum mánuði. Í greinargerð stefnda kemur fram að í upphafi hafi stefndi ekki viljað grípa til riftunar samninganna, sem hefði verið íþyngjandi fyrir Móa hf. Þegar á árið leið hafi hann áformað riftun, en áður en til hennar kom hafi náðst samkomulag á milli Móa hf. og stefnda að víxill að fjárhæð kr. 1.500.000, samþykktur af þriðja manni, með gjalddaga 17. september 2003, yrði afhentur stefnda sem greiðsla 27. júlí 2003. Víxilfjárhæðinni hafi verið ráðstafað til greiðslu þeirra leiguskulda Móa hf. sem gjaldfallið hafi eftir frestdag. Samþykkjandi víxilsins er fyrirtækið Kentucy Fried Chicken.

             Stefnandi krefst riftunar á þessari greiðslu.

III

Vitnið Friðbjörn Björnsson, endurskoðandi og starfsmaður þb. Móa hf., kom fyrir dóminn og sagði að samkvæmt athugun sinni hefði skuld Móa hf. við stefnda numið kr. 8.124.642 áður en greitt hafi verið upp í hana með víxlinum. Á greiðslustöðvunartímanum hafi Móar hf. einnig greitt stefnda með peningum vegna leigusamninga, en aðeins í þetta eina skipti með víxli.

Vitnið sagði að við skoðun á bókhaldi Móa hf. hafi komið í ljós að fyrirtækið hafi á greiðslustöðvunartímanum tekið við víxlum frá aðilum sem það hafi selt vörur og greitt síðan kröfuhöfum sínum með víxlunum. Viðskipti af þessu tagi hafi numið nær 400 milljónum króna samanlagt.

 

             Í skýrslu sem aðstoðarmaður skuldara, Sigmundur Hannesson hrl., gaf skiptastjóra 9. febrúar 2004 kemur fram að hann hafi verið aðstoðarmaður á tímabilinu frá 19. desember 2002 til 9. apríl 2003. Segir þar m.a. orðrétt: „Sigmundur segir að hafa beri í huga að viðskiptabanki félagsins (Búnaðarbanki Íslands) hafi stöðvað öll viðskipti félagsins sem gerði reksturinn mjög erfiðan. Rekstri félagsins varð því ekki haldið áfram án þess að bregða að nokkru út frá þeirri meginlínu sem annars gilti um greiðslur og daglega fjármálastjórnun. Þannig má nefna sem dæmi að frá í janúar 2003 voru stærstu viðskiptavinirnir settir í viðskipti með víxla og það var gert með vitund og samþykki bankans. Víxlum þessum var svo í nokkrum tilvikum ráðstafað sem greiðslu til annarra með skriflegu samþykki Sigmundar. Til eru uppáskriftir Sigmundar t.d. hvað varðar greiðslur Kaupáss með viðskiptavíxlum.“

IV

             Stefnandi byggir riftunarkröfu sína á 134., 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hann heldur því fram að hver þeirra ein og sér leiði til þess að rifta eigi víxilgreiðslunni. Endurgreiðslukröfuna byggir stefnandi á 1. mgr. 142. gr. laganna að því leyti sem riftunarkrafan er byggð á 134. gr., en á 3. mgr. 142. gr. að því er varðar riftun samkvæmt 139. og 141. gr.

Stefnandi heldur því fram að víxill útgefinn af þriðja manni sé alltaf óvenjulegur greiðslueyrir í viðskiptum og svo hafi einnig verið í viðskiptum aðila málsins. Skuld Móa hf. við stefnda, sem safnast hafi upp á löngum tíma, hafi numið rúmum 8 milljónum þegar víxillinn var afhentur sem greiðsla upp í hana, en þetta hafi verið í eina skiptið sem stefndi hafi fengið víxilgreiðslu frá Móum hf. Aðstoðarmaður Móa hf. við greiðslustöðvun hafi ekki samþykkt þessa greiðslu. Samkvæmt dómi Hæstaréttar frá 29. apríl 1999 (H 1999.1782) gildi hið sama um greiðslur með óvenjulegum greiðslueyri eftir frestdag og á síðustu 6 mánuðum fyrir hann. Þannig sé fullnægt þeim hlutlægu skilyrðum sem kveðið sé á um í 1. mgr. 134. laga nr. 21/1991.

Þá heldur stefnandi því fram að greiðslan sé riftanleg samkvæmt 1. mgr. 139. gr. gjaldþrotalaga. Ljóst sé að krafa stefnda, sem greidd hafi verið með víxlinum, verði ekki greidd af þrotabúinu, en ekki sé einu sinni hægt að greiða búskröfur á hendur því. Ekkert sé komið fram sem bendi til þess að undantekningarákvæði 139. gr. eigi hér við. Stefndi hafi vitað um hvernig greiðslugetu Móa hf. var háttað og greiðslan hafi ekki verið nauðsynleg til þess að forða tjóni. Stefndi hafi hvorki rift samningunum né hótað riftun þeirra, enda hafi honum verið riftun óheimil samkvæmt 22. gr. laga nr. 21/1991. Ekki sé í ljós leitt að tæki þau sem samningarnir voru um hafi verið Móum hf. nauðsynleg til áframhaldandi rekstrar á greiðslustöðvunartímanum, og harla ólíklegt sé að svo hafi verið.

Stefnandi heldur því og fram að víxilgreiðslan sé á ótilhlýðilegan hátt til hagsbóta fyrir stefnda á kostnað kröfuhafa í þrotabúi Móa hf. sem fái þeim mun minna upp í kröfur sínar verði greiðslunni ekki rift. Stefndi hafi vitað um ógjaldfærni Móa hf. þegar greiðslan fór fram. Þannig sé fullnægt skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 til riftunar.

Af hálfu stefnda er því haldið fram skýra að beri 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 eftir orðanna hljóðan og samkvæmt því nái ákvæði hennar einungis til greiðslna með óvenjulegum greiðslueyri sem inntar hafi verið af hendi fyrir frestdag. Sá dómur Hæstaréttar sem vísað sé til af hálfu stefnanda geti ekki breytt skýrum texta lagagreinarinnar og verði greininni ekki beitt eins og stefnandi geri, hvorki með lögskýringu né lögjöfnun. Enda þótt á þá lögskýringu yrði fallist, að lagagreinin næði einnig til greiðslna með óvenjulegum greiðslueyri eftir frestdag, væri víxilgreiðslan til stefnda ekki riftanleg, því að ekki hafi verið um óvenjulegan greiðslueyri að ræða eins og málum var háttað. Upplýst sé að á greiðslustöðvunartímanum hafi víxilvelta Móa hf. numið um 400 milljónum króna, þ.e. fyrirtækið hafi tekið við víxlum sem greiðslu og síðan greitt með þeim, og hafi víxlarnir verið verulegur hluti af greiðslueyri fyrirtækisins. Þá hafi aðstoðarmaður við greiðslustöðvunina samþykkt að greiða mætti með víxlum. Stefndi heldur því og fram að Móar hf. hafi byrjað víxilviðskipti af þessu tagi fyrir frestdag. Þá telur stefndi að líta verði til þess að samþykkjandi víxilsins, Kentucy Fried Chicken, sé mjög traust fyrirtæki og því hafi víxillinn verið ígildi peninga í viðskiptunum. Málin horfi þannig við stefnda, sem sé stórt fjármálafyrirtæki, að víxlar séu venjulegur greiðslueyrir í viðskiptum.

Þá byggir stefndi á því að þau tæki, sem samningar stefnda við Móa hf. náðu til, hafi verið fyrirtækinu nauðsynleg til þess að halda venjulegum rekstri áfram og forða þannig tjóni sem hefði bitnað á öllum kröfuhöfum fyrirtækisins. Samkvæmt riftunarákvæðum í samningnum hafi stefnda verið heimilt að rifta þeim vegna vanefnda á greiðslum. Samningarnir hafi verið gerðir fyrir frestdag og verið viðvarandi á greiðslustöðvunartímabilinu. Riftun slíkra samninga á greiðslustöðvunartíma sé heimil samkvæmt meginreglum leiguréttar um riftun. Bannákvæði 1. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 21/1991 hefðu því ekki getað komið fyrir riftun samninganna vegna vanskila. Víxilgreiðslan hafi hins vegar komið í veg fyrir að riftunarheimildum væri beitt. Þessi aðstaða sem uppi hafi verið geri það að verkum að undantekningarákvæði 1. og 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, um heimild til að greiða skuld á greiðslustöðvunartíma til að forða tjóni og vegna nauðsynjar í atvinnurekstri þrotamanns, eigi hér við. Þegar svo sé skipti tegund greiðslunnar ekki máli eða hvort hún taldist venjulegur eða óvenjulegur greiðslueyrir í skilningi 134. gr. laganna.

Stefndi heldur því fram að riftun víxilgreiðslunnar verði ekki byggð á 141. gr. laga nr. 21/1991 og vísar þar til þess sem að framan er sagt. Greiðslan hafi verið til þess að koma í veg fyrir riftun og hafi verið endurgjald fyrir verðmæti sem Móar hf. hafi nýtt til tekjuöflunar og verðmætaaukningar á greiðslustöðvunartímanum. Þannig hafi greiðslan leitt til hagsbóta fyrir alla kröfuhafa, en ekki til hagsbóta fyrir einn kröfuhafa á kostnað annars, og því ekki verið ótilhlýðileg.

             Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda. Hann heldur því fram að dráttarvexti eigi ekki að dæma frá fyrri tíma en þingfestingardegi málsins og aldrei fyrr en mánuði eftir að stefnandi sendi stefnda riftunarbréf.

V

Eins og að framan greinir byggir stefnandi riftunarkröfu sína á 134., 139. og 141. gr. laga nr. 21/1991 hverri fyrir sig. Þrátt fyrir orðalag í 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 verður að telja það gilda lögskýringu að ákvæði greinarinnar um greiðslu skuldar með óvenjulegum greiðslueyri gildi ekki aðeins um greiðslu fyrir frestdag heldur einnig eftir hann, og því á greiðslustöðvunartíma eftir því sem við getur átt, sé greiðslustöðvun fyrir hendi á annað borð. Í máli þessu er óumdeilt að víxilgreiðslan var innt af hendi 27. júlí 2003, og því eftir frestdag. Fyrirtækið hafði ekki áður, eftir því sem upplýst verður að telja, greitt samkvæmt samningunum við stefnda með víxlum, hvorki þeim sem fyrirtækið hafði samþykkt né þriðjamannsvíxlum. Greiðslan var því óvenjuleg í viðskiptum aðila í skilningi 134. gr. laga nr. 21/1991, og um það skiptir ekki máli þótt stefndi kunni að líta á víxla sem venjulegan greiðslueyri í þeim viðskiptum sem hann stundar.

Þótt framangreind niðurstaða sé fengin þykir dómurinn verða, eins og hagar til í máli þessu, að taka afstöðu til þess hvort Móum hf. var heimilt að greiða skuldina vegna atvika sem fallið geta undir ákvæði 139. gr. laga nr. 21/1991.

Óumdeilt er að sú skuld sem greidd var greiðist ekki af eignum þrotabúsins verði henni rift. Greiðslan gekk til þess að greiða afborganir af samningunum sem gjaldfallið höfðu fyrri hluta ársins 2003 og voru í vanskilum. Ekkert liggur fyrir um það að aðstoðarmaður skuldara á greiðslustöðvunartímanum hafi samþykkt þessa greiðslu. Þá verður að byggja á því að stefndi hafi á greiðsludegi vitað eða hlotið að vita að Móar hf. höfðu fengið greiðslustöðvun og að við hafði tekið nauðasamningur, sbr. 2. tl. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 21/1991, sem staðfestur var með úrskurði héraðsdóms 22. júlí 2003, og því fyrir þann tíma að greiðslan var innt af hendi. Úrskurðinum var síðar hnekkt með dómi Hæstaréttar 7. október 2003. Líta verður svo á að samkvæmt þessu hafi greiðslustöðvunin staðið allt til þess að bú Móa hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 5. nóvember 2003, sbr. 3. tl. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 21/1991.

Sem fyrr segir var greiðslan samkvæmt þeim samningum sem gerðir höfðu verið um kaup eða leigu á vörubifreið, dráttarvél og heyþyrlu. Ekki liggja fyrir aðrar upplýsingar í málinu um rekstur Móa hf. en þær sem fram koma í úrskurði héraðsdóms frá 27. desember 2002, að samkvæmt vottorði Hagstofu Íslands sé tilgangur félagsins að reka alifuglabú, sláturhús, kjötvinnslu og skylda starfsemi. Í greinargerð stefnda er fullyrt að umrædd tæki hafi verið Móum hf. nauðsynleg vegna rekstursins, og þar sérstaklega tilgreind vörubifreiðin og dráttarvélin, og því hafi greiðslan verið heimil til þess að forða því tjóni sem leitt hefði af riftun samninganna. Nánari útlistun eða gögn um afnot þessara tækja og nauðsyn þeirra við búreksturinn hafa ekki komið frá stefnda og ekki er heldur upplýst að útilokað hafi verið að halda rekstrinum í viðunandi horfi án tækjanna á þeim tíma er greiðslan fór fram. Verður því gegn mótmælum stefnanda að telja ósannað að undantekningarákvæði í 1. og 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 eigi hér við.

Eftir framansögðu ber að rifta greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda samkvæmt 139. gr., sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991, og að taka endurgreiðslukröfu stefnanda til greina.            

             Stefnandi byggir riftunarkröfu sína einnig á 141. gr. laga nr. 21/1991. Að fenginni þeirri niðurstöðu sem að framan er lýst þykir ekki ástæða til þess að fjalla um þær málsástæður aðila málsins er varða þá lagagrein eða málsástæður aðila að öðru leyti.

             Stefndi hefur mótmælt upphafstíma dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi sendi stefnda riftunarbréf dagsett 19. maí 2004 en gerir kröfu um að dráttarvextir verði dæmdir frá 1. ágúst árið 2003. Hér er um að ræða endurgreiðslukröfu og því fer um dráttarvexti af henni samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Með tilvísun til framangreindrar lagagreinar verður dráttarvaxtakrafa stefnanda tekin til greina frá 20. júní 2004. 

             Málskostnaður sem stefndi greiði stefnanda er ákveðinn kr. 180.000 auk virðisaukaskatts.

             Friðgeir Björnsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð.

Rift er greiðslu viðskiptaskuldar Móa hf. við stefnda, Íslandsbanka hf., með víxli að fjárhæð kr. 1.500.000.

Stefndi greiði stefnanda, þrotabúi Móa hf., kr. 1.500.000 með dráttarvöxtum samkvæmt 3. kafla laga nr. 38/2001 frá 20. júní 2004 til greiðsludags.

 Stefndi greiði stefnanda kr. 180.000 í málskostnað auk virðisaukaskatts.