Hæstiréttur íslands
Mál nr. 191/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Greiðsla
|
|
Fimmtudaginn 16. janúar 2014. |
|
Nr. 191/2013. |
DZ Bank AG (Sigríður Rut Júlíusdóttir hrl.) gegn LBI hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) og gagnsök |
Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Greiðsla.
L hf. (áður LÍ hf.) krafðist þess að staðfest yrði með dómi riftun á greiðslu LÍ hf. á peningamarkaðsinnláni til D þann 9. október 2008 sem og að D yrði gert að endurgreiða fjárhæðina sem greidd var. Greiðslan fór fram eftir að Fjármálaeftirlitið hafði sett skilanefnd yfir L hf. Byggði L hf. kröfu sína á 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í niðurstöðu Hæstaréttar var rakið að í dómum Hæstaréttar í málum nr. 441/2011 og 112/2012 hefði því verið slegið föstu að á tímabilinu 7. október 2008 til 22. apríl 2009 hefði L hf. verið settur í aðstöðu, sem jafna mætti til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðarði þau atvik sem málin tóku til. Taldi Hæstiréttur einnig að leggja yrði stöðu skilanefndar, að því er varðaði þá ráðstöfun sem deilt var um í málinu, að jöfnu við ráðstöfun skiptastjóra í þrotabúi. Yrði riftunarreglum XX. kafla laga nr. 21/1991 ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum skiptastjóra, sem gerðar hefðu verið eftir upphaf gjaldþrotaskipta, en um heimildir hans færi samkvæmt 1. mgr. 122. gr. laganna. Að sama skapi yrði þeim reglum ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum, sem hefðu verið gerðar af eða á ábyrgð skilanefndar sem skipuð var yfir L hf. 7. október 2008. Breytti engu þar um þótt ráðstöfun sú, sem riftunar var krafist á, hefði verið gerð fyrir lögákveðinn frestdag við slitameðferð bankans. Þegar af þessari ástæðu var D sýknaður af kröfu L hf.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Eiríkur Tómasson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. mars 2013. Hann krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, en til vara sýknu af kröfum gagnáfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 28. maí 2013. Hann krefst þess að dóminum verði breytt á þann veg að aðaláfrýjanda verði gert að greiða af dæmdri fjárhæð vexti aðallega samkvæmt 8. gr. en til vara 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 10. október 2008 til 15. september 2011, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins beindi aðaláfrýjandi, sem mun vera þýskur viðskiptabanki, boði 25. september 2008 til Landsbanka Íslands hf., sem nú ber heiti gagnáfrýjanda, um svonefnt peningamarkaðsinnlán að fjárhæð 80.000.000 krónur, sem bæri 16,1% ársvexti og yrði á gjalddaga 9. október sama ár, en vextir yrðu samkvæmt því að fjárhæð 500.889 krónur. Gagnáfrýjandi samþykkti þetta boð sama dag. Þessi viðskipti fóru fram með rafrænum samskiptum án þess að frekari skriflegir samningar væru gerðir.
Að morgni 29. september 2008 var greint frá því opinberlega að vegna fjárhagsörðugleika hafi Glitnir banki hf. skömmu áður leitað eftir fyrirgreiðslu Seðlabanka Íslands, en þetta hafi leitt til þess að fyrrnefnda bankanum hafi verið boðið hlutafjárframlag úr ríkissjóði að fjárhæð 600.000.000 evrur gegn 75% eignarhluta í honum og hafi stjórn félagsins og helstu hluthafar samþykkt það boð. Í héraðsdómsstefnu kveður gagnáfrýjandi stjórn Landsbanka Íslands hf. hafa haldið fund sama dag og hafi þar verið rætt um að þessi „ákvörðun ríkisins hafi haft neikvæð áhrif á eigið fé“ félagsins, svo og að leita yrði „allra skynsamlegra leiða til þess að treysta og styrkja eiginfjárstöðu bankans“, en samkvæmt þessu hafi legið fyrir á því tímamarki að bankinn „uppfyllti ekki kröfur sem til hans voru gerðar um stöðu eiginfjárgrunns“. Fjármálaeftirlitið í Bretlandi hafi krafist þess 3. október 2008 að gagnáfrýjandi legði 400.000.000 sterlingspund á reikning við Englandsbanka ekki síðar en að morgni 6. sama mánaðar sem varasjóð vegna innlánsreikninga í útibúi hans þar í landi. Seðlabanki Evrópu hafi samhliða þessu tilkynnt gagnáfrýjanda um breytingar á skilmálum í endurhverfum viðskiptum milli þeirra, sem hafi aukið þörf hans á lausafé um 400.000.000 evrur. Þótt breska fjármálaeftirlitið hafi 5. október 2008 lækkað kröfu sína um framlag frá gagnáfrýjanda í varasjóð í 200.000.000 sterlingspund hafi hann ekki fengið við þetta ráðið og því leitað eftir aðstoð Seðlabanka Íslands, sem neitað hafi verið um.
Að morgni 6. október 2008 gaf ríkisstjórnin út svofellda yfirlýsingu: „Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum og sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu. Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingasjóðs innstæðueigenda tekur til.“ Forsætisráðherra flutti ávarp sama dag, þar sem greint var frá stórfelldum örðugleikum, sem íslenskir viðskiptabankar stæðu frammi fyrir, og boðað að flutt yrði á Alþingi frumvarp til laga, sem myndi gera ríkinu kleift að bregðast við ástandi á fjármálamörkuðum. Að kvöldi þessa dags var frumvarp þess efnis samþykkt sem lög nr. 125/2008 og leiddu þau meðal annars til breytinga á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Á grundvelli 100. gr. a. síðarnefndu laganna, sbr. 5. gr. þeirra fyrrnefndu, ákvað Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 að taka yfir vald hluthafafundar í gagnáfrýjanda, víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Í fréttatilkynningu, sem gagnáfrýjandi sendi frá sér sama dag, kom fram að það væri markmið skilanefndar að tryggja að viðskiptabankastarfsemi hans héldi áfram og hafi hann ekki verið tekinn til slita þótt hann nyti vegna þessarar ráðstöfunar verndar fyrir fullnustugerðum lánardrottna.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008, sem kom til framkvæmda klukkan 9 að morgni þess dags, var nánar tilgreindum eignum og skuldbindingum gagnáfrýjanda ráðstafað til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú heitir Landsbankinn hf., og tók hann frá þeim tíma yfir starfsemi gagnáfrýjanda, sem þessu tengdist. Meðal eigna, sem fluttar voru á þennan hátt frá gagnáfrýjanda, voru kröfuréttindi hans og allt reiðufé, en um skuldbindingar, sem nýi bankinn tók við, sagði meðal annars eftirfarandi í ákvörðuninni: „Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum ... Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals“. Aðaláfrýjandi sendi tilkynningu til gagnáfrýjanda sama dag um riftun rammasamnings þeirra frá 20. júní 2004 um afleiðuviðskipti, en um heimild til þessa vísaði aðaláfrýjandi til ákvæðis í samningnum, sem samkvæmt framlagðri þýðingu tók til „gjaldþrotsatburðar“ hjá öðrum samningsaðilanum. Samkvæmt málatilbúnaði aðilanna gerðist það jafnframt þennan sama dag að lagðar voru 80.500.889 krónur á innlánsreikning, sem mun hafa verið stofnaður á nafni aðaláfrýjanda hjá Nýja Landsbanka Íslands hf. Óumdeilt er að með þessu hafi verið endurgreitt peningamarkaðsinnlán aðaláfrýjanda til gagnáfrýjanda, svo og að það hafi gerst sökum þess að farið hafi verið með innlánið eins og það hafi verið flutt til nýja bankans með áðurnefndri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Í bréfi Fjármálaeftirlitsins 11. nóvember 2008 til gagnáfrýjanda kom fram að stjórn þess hafi „tekið til umfjöllunar hvaða áhrif ákvarðanir eftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. ... hafa á ... svokölluð peningamarkaðslán/innlán frá fjármálafyrirtækjum ... Á fundi stjórnar Fjármálaeftirlitsins í dag var ákveðið að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar til ... Nýja Landsbanka Íslands hf. ... Er því beint til endurskoðenda sem annast endanlegan frágang stofnefnahagsreikninga að huga sérstaklega að þessu og jafnframt að skilanefndir og stjórnir félaganna vinni eftir því sama þar sem mikilvægt er að um samræmi sé að ræða við framkvæmd málsins.“ Í öðru bréfi Fjármálaeftirlitsins 21. sama mánaðar var þessi afstaða ítrekuð og hún rökstudd.
Með lögum nr. 129/2008 var aftur breytt lögum nr. 161/2002 og á grundvelli þeirra var gagnáfrýjanda veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008. Í breytingalögunum var einnig kveðið á um að í þeim fjármálafyrirtækjum, sem Fjármálaeftirlitið hafði sett skilanefnd yfir, skyldi frestdagur miðast við gildistöku breytingalaganna, sem var 15. nóvember 2008. Með lögum nr. 44/2009 voru enn gerðar breytingar á ýmsum ákvæðum laga nr. 161/2002. Við þá breytingu var gagnáfrýjandi, sem naut ennþá heimildar til greiðslustöðvunar, tekinn til slita, en um þá meðferð voru sett sérstök ákvæði í síðastnefndu lögin. Var þar einkum mælt fyrir um að reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skyldu gilda meðal annars um lýsingu og meðferð krafna, svo og að um slitastjórn, störf hennar og þá menn, sem ættu sæti í henni, skyldu gilda reglur laganna um skiptastjóra. Upphaf slita skyldi miðast við 22. apríl 2009, en þann dag tóku lög nr. 44/2009 gildi.
Slitastjórn gagnáfrýjanda tilkynnti aðaláfrýjanda með bréfi 15. ágúst 2011 að hún rifti framangreindri greiðslu til hans frá 9. október 2008 á grundvelli 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 103. gr. laga nr. 161/2002. Skoraði hún á aðaláfrýjanda að greiða gagnáfrýjanda 80.500.889 krónur með vöxtum, aðallega samkvæmt 8. gr. og til vara 4. gr. laga nr. 38/2001, frá 9. október 2008 til greiðsludags. Með því að aðaláfrýjandi varð ekki við þeirri áskorun höfðaði gagnáfrýjandi mál þetta 25. október 2011.
II
Engin haldbær rök eru til að verða við aðalkröfu aðaláfrýjanda um að héraðsdómur í málinu verði ómerktur.
Samkvæmt framansögðu leitar gagnáfrýjandi með máli þessu riftunar á þeirri ráðstöfun, sem hann kveður felast í því að peningamarkaðsinnlán aðaláfrýjanda til sín hafi verið greitt 9. október 2008 með því að fjárhæð þess ásamt umsömdum vöxtum hafi verið lögð inn á reikning aðaláfrýjanda í Nýja Landsbanka Íslands hf. Hafi þetta gerst vegna óvissu um hvort peningamarkaðsinnlán teldust innlán, sem yrðu yfirtekin af nýja bankanum samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Verði riftunarkrafan tekin til greina beri aðaláfrýjanda að endurgreiða fjárhæðina, sem lögð var inn á reikning hans.
Með dómi Hæstaréttar 28. nóvember 2011 í máli nr. 441/2011 var því slegið föstu að með ákvörðun Fjármálaeftirlitins 7. október 2008 og skipun skilanefndar yfir gagnáfrýjanda, sem hafi farið með allar heimildir félagsins og öll málefni þess, þar á meðal haft umsjón með eignum og annast rekstur þess, hafi gagnáfrýjandi verið settur í aðstöðu, sem jafna mætti til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar tilkall annarra til peninga í vörslum hans á grundvelli eignarréttinda. Hafi þessu ástandi fyrst lokið 22. apríl 2009 þegar lög nr. 44/2009 tóku gildi, en þá var gagnáfrýjandi tekinn til slita eins og áður greinir. Með dómi Hæstaréttar 22. mars 2012 í máli nr. 112/2012 var framangreind aðstaða gagnáfrýjanda á hinu tilgreinda tímabili áréttuð, en í málinu var leyst úr um skyldu hans til að endurgreiða peninga, sem honum höfðu verið ofgreiddir í uppgjöri í lok október og byrjun nóvember 2008.
Skilanefndin, sem sett var yfir gagnáfrýjanda, var skipuð í skjóli opinbers valds og var henni samkvæmt heiti sínu ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila hans. Verður að leggja stöðu skilanefndar að því er varðar þá ráðstöfun, sem gagnáfrýjandi krefst riftunar á og var á ábyrgð nefndarinnar, að jöfnu við ráðstöfun skiptastjóra í þrotabúi. Reglum XX. kafla laga nr. 21/1991 um riftun ráðstafana þrotamanns er ætlað að leiðrétta afturvirkt ráðstafanir þrotamanns, sem í raun hafa falið í sér mismunun milli lánardrottna hans. Er riftunarreglunum og reglum um endurgreiðslu við riftun ætlað að tryggja jafnræði kröfuhafa að því marki, sem unnt er að lögum, við gjaldþrotaskiptin og úthlutun úr þrotabúi. Eftir upphaf gjaldþrotaskipta gilda á hinn bóginn aðrar reglur um heimildir til að ráðstafa fjármunum þrotabús og fer skiptastjóri með þær heimildir, sbr. 1. mgr. 122. gr. laganna. Framangreindum riftunarreglum verður ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum skiptastjóra, sem gerðar hafa verið eftir upphaf gjaldþrotaskipta. Með sama hætti verður þeim reglum ekki beitt til að hnekkja ráðstöfunum, sem voru gerðar af eða á ábyrgð skilanefndar sem skipuð var yfir gagnáfrýjanda 7. október 2008. Þótt frestdagur við slitameðferð gagnáfrýjanda hafi eins og að framan greinir verið með lögum ákveðinn 15. nóvember 2008 og ráðstöfun sú, sem riftunar er krafist á, hafi því verið gerð fyrir þann dag, breytir það ekki framangreindri niðurstöðu. Verður aðaláfrýjandi þegar af þessari ástæðu sýknaður af kröfum gagnáfrýjanda.
Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, DZ Bank AG, er sýkn af kröfum gagnáfrýjanda, LBI hf.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 2012:
I.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. desember sl., höfðaði Landsbanki Íslands hf. í slitameðferð, Austurstræti 16, Reykjavík, á hendur DZ Bank AG, Platz der Republik, 60265, Frankfurt am Main, Þýskalandi, með stefnu birtri 25. október 2011.
Stefnandi krefst þess aðallega að staðfest verði með dómi riftun á greiðslu Landsbanka Íslands hf. á peningamarkaðsinnláni að fjárhæð 80.500.889 krónur til stefnda hinn 9. október 2008. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 80.500.889 krónur, með vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til 15. september 2011, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er þess krafist að á fjárkröfuna reiknist vextir skv. 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til 15. september 2011, en með dráttarvöxtum skv. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Stefandi krefst þess og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Stefndi gerði einnig þá kröfu í greinargerð sinni að málinu yrði vísað frá dómi en með úrskurði, uppkveðnum 24. maí 2012, var þeirri kröfu hafnað.
II.
Málsatvik
Hinn 25. september 2008 gerðu málsaðilar með sér samning um peningamarkaðsinnlán (Money market deposit). Var um að ræða endurnýjun og framlengingu að hluta á fyrra peningamarkaðsinnláni. Lagði stefndi inn 80.000.000 króna hjá stefnanda þann sama dag og skyldi fjárhæðin bera 16,1% ársvexti. Umsaminn gjalddagi innlánsins var 9. október 2008 og námu umsamdir vextir því samtals 500.889 krónum.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í stefnanda Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Á grundvelli sömu laga tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að færa tilteknar eignir og skuldbindingar stefnanda inn í nýjan banka, Nýja Landsbanka Íslands hf. (síðar NBI hf. og enn síðar Landsbanki hf.), og tók sá banki til starfa að morgni 9. sama mánaðar. Stefnanda var eftir það veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum áðurnefndra laga, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009, þegar lögin öðluðust gildi. Er frestdagur við slitameðferðina 15. nóvember 2008 skv. III. bráðabirgðaákvæði laganna. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 29. apríl 2009 slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum.
Upplýst er í málinu að peningamarkaðsinnlán sem fjármálafyrirtæki höfðu lagt inn hjá stefnanda voru í upphafi færð yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. og að sá banki endurgreiddi stefnda framangreint peningamarkaðsinnlán á gjalddaga hinn 9. október 2008, samtals að fjárhæð 80.500.889 krónur. Með bréfi Fjármálaeftirlitsins til stefnanda, dags. 11. nóvember 2008, var tilkynnt að stjórn þess hefði ákveðið „að árétta að skuldbindingar vegna slíkra lána frá fjármálafyrirtækjum eru ekki fluttar til Nýja Glitnis banka hf., Nýja Landsbanka hf. (nú NBI hf.) og Nýja Kaupþings banka hf. með þeim ákvörðunum sem um ræðir“. Þá liggur og fyrir bréf eftirlitsins, dags. 21. sama mánaðar, þar sem stofnunin kveðst telja rétt að gera frekari grein fyrir meðferð svokallaðra peningamarkaðslána/innlána við uppskiptingu efnahagsreiknings gömlu bankanna. Kemur þar meðal annars fram að þegar um slík lán sé að ræða hafi verið fylgt þeirri reglu við uppskiptingu bankanna „að litið er á slíkar millifærslur sem innlán, nema þegar gagnaðili bankans hefur verið annað fjármálafyrirtæki. Í þeim tilvikum hefur verið litið á slíka millifærslu sem lánveitingu frá fjármálafyrirtæki sem hefur verið skilin eftir í gömlu bönkunum“.
Vegna endurgreiðslu á umræddu peningamarkaðsinnláni sendi slitastjórnin riftunaryfirlýsingu, dags. 15. ágúst 2011, þar sem hún lýsti yfir riftun á greiðslunni til stefnda og gerði kröfu um að stefndi myndi greiða stefnanda stefnufjárhæð málsins. Í yfirlýsingunni kom og fram að riftunin væri byggð á 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
III.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sína á því að uppfyllt séu skilyrði bæði 134. og 141. gr. laga nr. 21/1991, en bendir á að nægilegt sé til að riftun nái fram að ganga að skilyrði annars hvors þeirra séu uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 sé unnt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt er með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd hafi verið fjárhæð sem skert hafi greiðslugetu þrotamanns verulega nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Með hliðsjón af fjárhagsstöðu stefnanda þegar greiðsla peningamarkaðsinnlánsins hafi verið innt af hendi sé á því byggt að greiðslan hafi skert greiðslugetu bankans verulega í skilningi tilgreinds ákvæðis. Liggi fyrir að bankinn hafi verið ógjaldfær þegar greiðslan hafi verið innt af hendi og hafi kröfuhöfum því verið mismunað með greiðslunni. Samtals hafi verið greiddar 43.672.201.488 krónur, 280.034 sterlingspund og 40.579.742 bandarískir dalir vegna peningamarkaðsinnlána til fjármálafyrirtækja á tímabilinu 7. október til 19. nóvember 2008. Þá liggi fyrir að stefnandi hafi ekki haft fjármuni til að greiða hina umdeildu kröfu og kröfur annarra fjármálafyrirtækja vegna þessara innlána. Fjármagna hafi þurft greiðslurnar m.a. með láni frá Seðlabanka Íslands. Ljóst sé að greiðslan til stefnda og sambærilegar greiðslur hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega í skilningi tilvitnaðrar 134. gr.
Auk þess sé á því byggt, eins og atvikum sé háttað, að skuldin hafi verið greidd fyrr en eðlilegt hafi verið, enda hafi, vegna fjárhagsstöðu bankans og óvissu um efndir skuldbindinga, ekki verið réttmætt að greiða peningamarkaðsinnlánið á þessum degi. Þá hafi greiðslan ekki verið venjuleg eftir atvikum þegar af þeirri ástæðu að kröfuhöfum bankans hafi verið, eða mátt vera, kunnugt um fall hans og ógjaldfærni.
Þegar greiðslan til stefnda hafi verið innt af hendi hafi stefnandi verið ógjaldfær. Hafi bankanum því verið óheimilt að efna aðrar skuldbindingar en nauðsynlegt hafi verið til að koma í veg fyrir verulegt tjón eða þær sem greiðast myndu við gjaldþrotaskipti. Á þessu tímamarki hafi bankinn hvorki átt laust reiðufé í íslenskum krónum né erlendum gjaldeyri og hafi greiðslan því verið fjármögnuð með lántöku. Bendi stefnandi í þessu sambandi á að á árinu 2008 hafi ástandið á erlendum og íslenskum fjármálamörkuðum farið versnandi og þegar liðið hafi á árið hafi staða stefnanda og margra annarra fjármálafyrirtækja verið orðin mjög alvarleg sökum alþjóðlegrar lausafjárkreppu. Hinn 29. september hafi verið tilkynnt að ríkisstjórn Íslands og helstu hluthafar Glitnis banka hf. (Glitnir) hefðu gert með sér samning um yfirtöku ríkisins á 75% af hlutafé bankans. Hafi með aðgerðinni verið reynt að mæta lausafjárþörf Glitnis þar sem allar leiðir fyrir lánsfjáröflun íslensku bankanna hafi verið lokaðar. Hafi aðgerðin haft í för með sér að virði eignarhluta annarra hluthafa í Glitni hefði rýrnað verulega frá skráðu markaðsvirði. Hafi stærsti eigandi Glitnis, FL Group hf., og fleiri tengdir aðilar verið stórir lántakendur í stefnanda. Ljóst hafi verið að þessi aðgerð myndi hafa veruleg áhrif á stöðu fjármálafyrirtækja í landinu. Á fundi bankaráðs stefnanda hinn 29. september 2008 hafi verið rætt um að ákvörðun ríkisins hefði haft neikvæð áhrif á eigið fé bankans. Einnig hafi komi fram á fundinum að leita þyrfti allra skynsamlegra leiða til að treysta og styrkja eiginfjárstöðu bankans. Hafi á þessum tímapunkti legið fyrir að stefnandi uppfyllti ekki kröfur sem til hans væru gerðar um stöðu eiginfjárgrunns bankans. Síðdegis hinn 3. október 2008 hafi Fjármálaeftirlitið í Bretlandi gert kröfu um að stefnandi greiddi 400.000.000 sterlingspunda til Englandsbanka að morgni mánudagsins 6. sama mánaðar til þess að auka við varasjóð vegna Icesave-reikninga í Bretlandi. Á sama tíma hafi Seðlabanki Evrópu tilkynnt breytingar á skilmálum í endurhverfum viðskiptum við stefnanda. Hafi breytingar þessar samanlagt haft í för með sér að lausafjárþörf bankans hafið vaxið um 800.000.000 evra. Á sunnudeginum 5. október 2008 hafi legið fyrir að Seðlabanki Evrópu hefði frestað að gera kröfu um 400.000.000 evra innborgun auk þess sem breska Fjármálaeftirlitið hefði lækkað kröfur sína í 200.000.000 sterlingspunda. Hafi eini möguleiki stefnanda til að fjármagna þessa kröfu eftirlitsins verið að leita til Seðlabanka Íslands um fyrirgreiðslu. Um helgina 4. til 5. október 2008 hafi beiðnir um úttektir af Icesave-reikningum stefnanda í Bretlandi og Hollandi aukist verulega og vegna skorts á erlendum gjaldeyri og hinn 6. sama mánaðar hafi ekki verið unnt að greiða út allar beiðnir um úttektir sem safnast hefðu upp um helgina. Við upphaf viðskipta mánudaginn 6. október hafi svo legið fyrir að Seðlabanki Íslands væri ekki reiðubúinn að lána stefnanda þá fjármuni sem bankinn þyrfti til að geta staðið við skuldbindingar sínar á þessum viðskiptadegi. Hafi bankinn því verið ógjaldfær þann dag. Síðar þann sama dag hafi þáverandi forsætisráðherra tilkynnt opinberlega að yfirvofandi væri hrun bankakerfisins og hin svokölluðu neyðarlög nr. 125/2008 hafi tekið gildi.
Kröfur stefnanda byggist og á því að það hafi verið ótilhlýðilegt í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 að greiða einstökum kröfuhöfum út fjármuni þegar ljóst hafi verið að stefnandi væri ógjaldfær og ljóst mátti vera að viðkomandi greiðsla gæti skert jafnræði kröfuhafa. Þá telji stefnandi að líta verði svo á að kröfuhafar bankans, og þá sérstaklega fjármálafyrirtæki, hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni hans í síðasta lagi frá skipun skilanefndar hinn 7. október 2008. Í ljósi þeirra aðstæðna sem verið hafi á íslenskum fjármálamarkaði þegar greiðslurnar hafi átt sér stað, og þess að stefnandi hafi verið ógjaldfær, hafi ekki verið tilhlýðilegt af stjórnendum stefnanda að greiða upp peningamarkaðsinnlánið.
Með vísan til 142. gr. laga nr. 21/1991 krefjist stefnandi þess að stefndi greiði stefnanda 80.500.889 krónur með vöxtum. Aðallega sé á því byggt að stefndi skuli greiða vexti skv. 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá því greiðslan hafi verið innt af hendi til upphafsdags dráttarvaxtareiknings þar sem endurheimtukrafa vegna riftunar á grundvelli 141. gr. sé skaðabótakrafa skv. 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991. Til vara sé byggt á því að stefnda beri að greiða vexti á umræddu tímabili skv. 4. gr. laga nr. 38/2001. Krafan um dráttarvexti miðist við að þeir reiknist á kröfuna mánuði eftir að áskorun um greiðslu hafi verið send til stefnda, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
IV.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að um aðildarskort sé að ræða hjá stefnanda þar sem hin umdeilda greiðsla til stefnda hafi verið innt af hendi af Nýja Landsbanka Íslands hf. Hafi það verið gert í kjölfar yfirtöku nýja bankans á peningamarkaðssjóðsinnlánum frá stefnanda samkvæmt yfirlýsingu Fjármálaeftirlitsins hinn 9. október 2008. Eftir að endurgreiðslan til stefnda hafi átt sér stað þann sama dag virðist sem Fjármálaeftirlitið hafi með sérstöku bréfi sínu, dags. 21. nóvember 2008, „gert frekari grein fyrir“ meðferð peningamarkaðsinnlána. Komi þar fram að stofnunin hefði fylgt þeirri reglu að flokka peningamarkaðsinnlán til innlána nema í þeim tilvikum sem gagnaðili banka hefði verið annað fjármálafyrirtæki en þá ætti að líta á slíkar greiðslur sem lánveitingar frá fjármálafyrirtækjum sem skildar hefðu verið eftir í gömlu bönkunum, þ.e. í þessu tilviki hjá stefnanda. Haldi stefndi því fram að þetta bréf hafi enga þýðingu fyrir málið og feli ekki í sér ákvörðun af neinu tagi. Þá liggi fyrir að bréfið hafi verið sent eftir að umrædd greiðsla hafi verið innt af hendi.
Stefndi vísi til þess að almenn skilyrði riftunar séu ekki uppfyllt í máli þessu. Þannig liggi fyrir að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni, en ráða megi af 142. gr. laga nr. 21/1991 að það skilyrði þurfi að vera til staðar svo að riftun geti talist heimil. Stefnandi haldi því sjálfur fram í stefnu að afstaða hans sé sú að peningamarkaðsinnlán séu innstæður og þar með forgangskröfur við slit stefnanda. Þar sem fyrir liggi að forgangskröfur muni greiðast að fullu við slitameðferð varnaraðila sé ljóst að endurgreiðslan hafi ekki valdið stefnanda neinu tjóni. Þá hafi umrædd ráðstöfun átt sér stað eftir að skilanefnd varnaraðila hafi verið skipuð yfir starfsemi varnaraðila, sem jafna megi við að gjaldþrotaskipti hafi hafist, og verði riftun því ekki beitt með vísan til riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga.
Á því sé byggt að skilyrði 134. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt. Þannig sé því mótmælt að hin umdeilda endurgreiðsla hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega enda hafi greiðslugetu hans ekki nema að örlitlu leyti verið varið í umrædda greiðslu. Ljóst sé af upplýsingum stefnanda sjálfs í stefnu að þessi viðskipti aðilanna hafi ekki numið nema 0,2% af þeim peningamarkaðsinnlánum sem greidd hafi verið eftir að skilanefnd stefnanda hafi verið skipuð og ekki numið nema broti af auðseljanlegum eignum og innstæðum stefnanda hjá Seðlabanka Íslands. Hafi greiðslugeta stefnanda því einungis að hluta verið nýtt til þess að greiða umrædd peningamarkaðsinnlán. Opinberar tölur úr árshlutauppgjöri stefnanda frá 30. júní 2008 renni jafnframt stoðum undir þá ályktun. Þannig megi nefna að á þeim tíma hafi eignir og innstæður stefnanda hjá Seðlabanka Íslands numið 27,87 milljörðum króna og útistandandi skammtímakröfur á önnur fyrirtæki numið 260,9 milljörðum króna, eða samtals 288,9 milljörðum króna. Þá hafi Viðskiptablaðið birt upplýsingar frá stefnanda hinn 29. september 2008 þar sem fram hafi komið að lausafjárstaða bankans væri á þeim degi 8,9 milljarðar evra, samanborið við 7,8 milljarða evra hinn 40. júní sama ár.
Þá liggi ljóst fyrir að því skilyrði 134. gr. að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt hafi verið sé ekki fullnægt. Greiðslan hafi borist stefnda á samningsbundnum gjalddaga innlánsins, sem geti ekki talist of snemmt, og breyti aðstæður í því sambandi engu.
Stefndi byggi og á því að greiðslan hafi virst eðlileg í ljósi aðstæðna. Skipti í því sambandi meðal annars máli að greiðslan hafi verið innt af hendi á gjalddaga innlánsins, eftir að skilanefnd tók yfir rekstur stefnanda. Nýi Landsbanki hafi þá verið stofnaður og Fjármálaeftirlitið tekið ákvörðun sína hinn 9. október 2008 um að innlán frá fjármálafyrirtækjum og öðrum viðskiptavinum væru yfirtekin af þeim banka. Staðfesti þessar forsendur að endurgreiðslan hafi virst eðlileg í ljósi aðstæðna. Endurgreiðslan hafi og virst eðlileg í ljósi þess að stefndi hefði fengið úthlutun að fullu við slitameðferðina ef hún hefði ekki verið innt af hendi og þess að hún hafi verið framkvæmd eftir að bankinn hafi verið kominn undir stjórn skilanefndar.
Loks telji stefndi, vegna skilyrða tilvitnaðrar 1. mgr. 134. gr., að virða verði margvíslegar réttmætar væntingar hans í máli þessu. Snúi þær meðal annars að því að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, um yfirtöku Nýja Landsbanka Íslands hf. á láni stefnda, yrði ekki breytt með afturvirkum hætti, enda myndi það brjóta gegn jafnræðisreglu og leiða til mismununar kröfuhafa. Þá verði og að virða þær réttmætu væntingar stefnda að endurgreiðslan til hans hafi verið gild, sérstaklega í ljósi þess að stefnandi hafi á þeim tíma lotið stjórn skilanefndarmanna, sem séu opinberir sýslunarmenn.
Stefndi haldi því og fram að skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun séu ekki uppfyllt. Endurgreiðslan sem deilt sé um hafi ekki verið stefnda til hagsbóta á ótilhlýðilegan hátt á kostnað annarra kröfuhafa. Hún hafi hvorki komið í veg fyrir heimtur til kröfuhafa úr búi stefnanda né aukið skuldbindingar hans á kostnað kröfuhafa. Haldi stefndi því fram að stefnandi hafi verið fær um að standa við skuldbindingar sínar í íslenskum krónum, ráðstöfunin sem um sé deilt hafi ekki leitt til gjaldþrots bankans og stefndi hafi hvorki haft vitneskju um né átt að hafa vitneskju um gjaldþrotið. Skilyrðið um að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg sé ekki uppfyllt og stefndi leggi áherslu á að hann hafi ekki búið yfir vitneskju um og hefði ekki mátt vita um skilyrði sem mögulega hefðu valdið því að greiðslan teldist vera ótilhlýðileg. Vísi stefndi hvað þetta varði einnig til þeirra röksemda sem áður hafi verið raktar.
Kröfu stefnanda um vexti sé mótmælt, meðal annars með vísan til þess að ákvæði laga sem stefnandi vísi til heimili honum ekki að innheimta nokkurs konar vexti frá 9. október 2008.
V.
Niðurstaða
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að um aðildarskort sé að ræða þar sem fyrir liggi að stefnandi hafi ekki innt umdeilda endurgreiðslu peningamarkaðssjóðsinnláns af hendi til stefnda heldur hafi hún borist frá Nýja Landsbanka Íslands hf., nú Landsbanka hf. Eins og áður hefur verið lýst tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun hinn 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Í 7. tl. þeirrar ákvörðunar kemur m.a. fram að Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtaki skuldbindingar í útibúum stefnanda á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Ekki sýnist um það deilt að Nýi Landsbanki hf. hafi á grundvelli þessarar ákvörðunar yfirtekið umdeilt innlán frá stefnda 9. október 2008 og endurgreitt það á gjalddaga þess þann sama dag. Af fyrirliggjandi bréfi Fjármálaeftirlitsins til stefnanda, dags. 11. nóvember sama ár, og bréfi stofnunarinnar til allra er málið varðar, dags. 21. sama mánaðar, verður ráðið að stofnunin telur sig þurfa að „árétta“ og rökstyðja frekar að skuldbindingar vegna peningamarkaðsinnlána frá fjármálafyrirtækjum hafi ekki átt að flytjast til nýju bankanna, þar á meðal Nýja Landsbanka hf., með framangreindri ákvörðun stofnunarinnar hinn 9. október 2008.
Í fyrirliggjandi yfirlýsingu Deloitte ehf. vegna uppgjörs á peningamarkaðssjóðsinnlánum milli Landsbanka Íslands hf. og Nýja Landsbanka Íslands hf., dags. 29. ágúst 2012, kemur fram að sérfræðingar fyrirtækisins hafi unnið að því, í umboði Fjármálaeftirlitsins, að skipta efnahagsreikningi stefnanda milli Nýja Landsbanka Íslands hf. og þess gamla og farið eftir forskrift Fjármálaeftirlitsins á því hvaða eignir ættu að yfirfærast til nýja bankans. Þá kemur fram í yfirlýsingunni: „Til að jafna muninn á milli eigna og skulda sem NBI tók yfir gaf hann út skuldabréf fyrir mismuninum til LBI. Þar sem NBI hafði greitt hluta af umræddum peningamarkaðsinnlánum eftir skiptinguna þann 9. október 2008 leiddi það til þess að útgefið skuldabréf NBI til LBI er lægra sem nemur þessum greiðslum. LBI fékk því minna af eignum í sinn hlut við skiptinguna en hefði orðið ef umrædd peningamarkaðslán hefðu ekki verið greidd eins og FME hafði ráðgert í ákvörðunum sínum.“ Af framangreindu leiðir að sú ráðstöfun Nýja Landsbanka Íslands hf. að endurgreiða umrædda skuld til stefnda á þeim tíma hafði í för með sér skuldaaukningu fyrir stefnanda sem nam endurgreiðslufjárhæðinni. Verður því að líta svo á að stefnandi sé réttur aðili til að setja fram þá kröfu á hendur stefnda sem mál þetta snýst um.
Krafa stefnanda byggist á því að umrædd endurgreiðsla til stefnda sé riftanleg á grundvelli 1. mgr. 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. er unnt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt var með óvenjulegum greiðslueyri, fyrr en eðlilegt var eða greidd var fjárhæð sem skert hefur greiðslugetu þrotamanns verulega nema greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Vísar stefnandi til þess að greiðslan hafi verið innt af hendi fyrr en eðlilegt var, hún hafi skert greiðslugetu stefnanda verulega og hafi ekki getað virst venjuleg eftir atvikum. Séu því uppfyllt skilyrði ákvæðisins um riftun greiðslunnar. Varnaraðili telur hins vegar að ekkert þessara skilyrða sé fyrir hendi. Ekki er hins vegar um það deilt að greiðslan hafi verið innt af hendi innan þeirra tímamarka sem ákvæðið mælir fyrir um og að greiðslueyrir hafi verið venjulegur.
Fyrir liggur að umrædd greiðsla var innt af hendi á umsömdum gjalddaga peningamarkaðsinnlánsins hinn 9. október 2008. Þrátt fyrir það þykir hér verða til þess að horfa að þótt í 100. gr. a laga nr. 161/2002, eins og hún hljóðaði samkvæmt 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi ekki verið mælt fyrir um sérstaka málsmeðferð í framhaldi af ákvörðun eins og þeirri, sem Fjármálaeftirlitið tók um sóknaraðila 7. október 2008, voru öll málefni hans þá sett undir skilanefnd, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og hlaut samkvæmt heiti sínu að hafa verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila sóknaraðila. Verður því að líta svo á að á tímabilinu frá 7. október 2008 og þar til formleg slitameðferð hófst á grundvelli laga nr. 44/2009 hinn 22. apríl 2009 hafi sóknaraðili verið í aðstöðu, sem að hluta til má leggja að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans. Með tilliti til þeirrar grundvallarreglu laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 er lýtur að jafnrétti kröfuhafa verður hér við það að miða að greiðsla á skuld stefnanda á þessu tímabili teljist innt af hendi fyrr en eðlilegt var, enda verður ekki séð, með hliðsjón af þeim aðdraganda ráðstöfunarinnar sem að framan getur, að skilanefnd stefnanda hafi áður veitt samþykki sitt fyrir henni. Samkvæmt framansögðu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 til að rifta umræddri greiðslu til stefnda hinn 9. október 2008, enda verður því ákvæði beitt jöfnum höndum á tímabilinu eftir yfirtöku skilanefndar á rekstri stefnanda sem fyrir það tímamark.
Samkvæmt framansögðu er fallist á að rifta eigi umræddri greiðslu til stefnda með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 og að honum beri, með vísan til 142. gr. sömu laga, að endurgreiða stefnanda umkrafða fjárhæð með vöxtum eins og segir í dómsorði.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað svo sem getur í dómsorði.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Rift er greiðslu stefnanda, Landsbanka Íslands hf., til stefnda, DZ Bank AG, á peningamarkaðsinnláni að fjárhæð 80.500.889 krónur hinn 9. október 2008.
Stefndi greiði stefnanda 80.500.889 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. september 2011 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.