Hæstiréttur íslands
Mál nr. 725/2010
Lykilorð
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Vinnuslys
- Tilkynning
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2011. |
|
Nr. 725/2010.
|
Kristín Fjeldsted (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Odda hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Skaðabætur. Líkamstjón. Vinnuslys. Tilkynning.
K krafði O ehf. um bætur vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir þegar hún féll aftur fyrir sig er hún var að smúla gólf í fiskvinnslusal að loknum vinnudegi 13. febrúar 2004. Byggði K á því að slysið yrði rakið til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna hjá O ehf. sem aftur á móti taldi um óhappatilviljun og/eða eigin sök K að ræða. Slysið var ekki tilkynnt til V fyrr en 22. október sama ár. Féllst Hæstiréttur á með héraðsdómi að vanræksla O ehf. á lögboðinni skyldu hans á að tilkynna um slysið til V ætti að leiða til þess að lýsing K á málsatvikum, sem og þær upplýsingar er lægju fyrir í málinu, yrðu lagðar til grundvallar við úrlausn þess. Taldi Hæstiréttur að K hefði ekki sýnt fram á að aðstæður á vinnustað er hún slasaðist hefðu verið óvenjulegar eða þannig að af þeim stafaði sérstök hætta sem O ehf. hefði borið að koma í veg fyrir. Þá yrði ekki séð að fjarvera verkstjóra hefði leitt til aukinnar slysahættu fyrir K enda hefði hún verið vanur starfsmaður. Var talið ósannað að slys K hefði orðið vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi O ehf. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsenda var staðfestur hinn áfrýjaði dómur um sýknu O ehf. af kröfum K.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. desember 2010. Hún krefst þess að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og stefndi dæmdur til að greiða 3.051.723 krónur með 4,5% ársvöxtum af 1.336.025 krónum frá 13. febrúar 2004 til 24. júlí 2004, en af 4.518.101 krónu frá þeim degi til 30. maí 2006, en af 3.841.064 krónum frá þeim degi til 15. júní 2006, en af 3.051.723 krónum frá þeim degi til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af þeirri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara krefst félagið lækkunar á kröfu áfrýjanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.
Fallist er á með héraðsdómi að vanræksla stefnda á lögboðinni skyldu félagsins á að tilkynna um slysið til Vinnueftirlitsins eigi að leiða til þess að lýsing áfrýjanda á málsatvikum, sem og þær upplýsingar sem liggja fyrir í málinu, verði lagðar til grundvallar við úrlausn þess.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að aðstæður á vinnustað, er hún slasaðist, hafi verið óvenjulegar eða þannig að af þeim hafi stafað sérstök hætta, sem stefnda hefði borið að koma í veg fyrir. Þá verður ekki séð að fjarvera verkstjóra hafi leitt til aukinnar slysahættu fyrir áfrýjanda við starf hennar, enda var hún vanur starfsmaður og hafði oft unnið að þrifum á vinnustaðnum. Þurfti hún því ekki sérstaka leiðsögn við verkið. Er samkvæmt þessu ósannað að slys áfrýjanda hafi orðið vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi sem stefndi ber ábyrgð á. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur.
Hvor málsaðila skal bera sinn kostnað af málinu, sbr. 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2010.
Mál þetta, sem var dómtekið 14. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristínu Fjeldsted, kt. 061159-2159, með stefnu birtri 10. desember 2009 á hendur Bjargi ehf., kt. 671072-0149 og Sjóvá Almennum tryggingum hf., kt. 680568-2789 til réttargæslu.
Bjarg ehf., kt. 671072-0149, sameinaðist Odda hf., kt. 550367-0179 samkvæmt samrunaáætlun dags. 30. nóvember 2007. Við samrunann tók Oddi hf. við réttindum og skyldum Bjargs ehf. og er Oddi hf. því réttur aðili málins.
Þann 22. september 2009 veitti Fjármálaeftirlitið heimild til yfirfærslu vátryggingastofns Sjóvár-Almennra trygginga hf., kt. 701288-1739 til Sjóvár-Almennra trygginga hf. (áður SA trygginga hf.), kt. 650909-1270, sbr. 86. gr. laga nr. 60/1994 um vátryggingastarfsemi. Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 650909-1270 eru því réttur aðili máls þessa til réttargæslu.
Endanlegar dómkröfur stefnanda, Kristínar Fjeldsted, eru að stefndi greiði stefnanda 3.051.723 kr. með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, af 1.336.025 kr. frá 13. febrúar 2004 til 24. júlí 2004, en af 4.518.101 kr. frá þeim degi til 30. maí 2006, en þá af 3.841.064 kr. frá þeim degi til 15. júní 2006, en þá af 3.051.723 kr. frá þeim degi til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð, frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
Stefndi krefst til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar en réttargæslustefndi styður málsástæður og málatilbúnað stefnda.
I
Stefnandi lenti þann 13. febrúar 2004 í vinnuslysi er hún var við störf hjá Bjargi ehf. á Patreksfirði. Kveðst stefnandi hafa verið að smúla gólf að loknum vinnudegi þegar hún flæktist í kaðli og féll aftur fyrir sig og skall harkalega á afturendann og bakið á hörðu steingólfinu. Stefnandi kveður kaðalinn hafa legið með fram gólfinu frá fiskikari, sem komið hafi verið fyrir á vinnusvæði starfsmanna, en 10 mm kaðlar séu notaðir við löndun fisks í körum. Af einhverjum ástæðum hafði vinnuveitandi ekki hirt um að ganga frá köðlunum og þeir því legið með fram gólfum.
Stefnandi leitaði til læknis eftir slysið og var með mikil eymsli yfir rófubeini og í baki. Fljótlega var hafin meðferð með sjúkraþjálfun og bólgueyðandi lyfjum og verkjalyfjum. Stefnandi kveðst hafa verið meira og minna óvinnufær eftir slysið.
Í læknisvottorði Lúðvíks Ólafssonar, dags. 20. febrúar 2004, segir m.a.: Það vottast hér með að ég skoðaði Kristínu í dag vegna áverka sem hún kveðst hafa orðið fyrir í vinnu föstudaginn 13. febrúar síðastliðinn. Kveðst hún hafa dottið á rassinn og fundið til slæmra verkja neðst í baki síðar. Við skoðun er að finna merki um brot eða slæma tognun á rófubeini.
Þann 19. mars 2004 gefur Haraldur Á. Tómasson læknir á Patreksfirði út vottorð um óvinnufærni stefnanda frá 13. febrúar 2004 til 24. mars s.á.
Þann 6. apríl 2004 gefur sami læknir út vottorð þar sem fram kemur að stefnandi hafi runnið til á sleipu gólfi og skollið all harkalega á rassinn. Þá kemur þar fram að Gunnar Ingi Gunnarsson læknir hafi skoðað stefnanda þann 20. febrúar 2004 og að sjúkdómsgreiningin hafi verið brot á rófubeini.
Í beiðni um sjúkraþjálfun, sem Jón A. Jóhannsson læknir á Patreksfirði skrifar þann 17. janúar 2005, er lýst óhappi sem stefnandi hafi orðið fyrir í vinnu í febrúar sl. og að hún hafi brotið rófubein. Lýst er sögu um óþægindi í stoðkerfi, að stefnandi sé slæm af verkjum aftan á hnakka, yfir hálsi og herðum, milli herðablaða og iðulega í öllum hryggnum.
Í ódagsettri skýrslu Margrétar Brynjólfsdóttur sjúkraþjálfara kemur fram að stefnandi hafi komið í meðferð til hennar þann 20. janúar 2005. Lýst er verkjum í mjöðmum, upp eftir öllu baki, upp í hnakka, í herðum og einnig höfuðverkjum og verkjum fram í handleggi.
Í læknisvottorði Jóns Benediktssonar læknis, dagsettu 14. nóvember 2006, er lýst vinnuslysi þann 13. febrúar 2004 þegar stefnandi datt um band sem lá niður undir gólf út frá fiskikari.
Röntgenmyndir voru teknar af stefnanda þann 29. júlí 2005. Ekki fundust merki um brot á rófubeini og engin áverkamerki greindust.
Tekin var segulómmynd af allri hryggsúlu stefnanda þann 8. desember 2005. Þar sáust slitbreytingar í hálsi, brjósthrygg og lendhrygg og talið vera brjósklos milli sjötta og sjöunda hálshryggjarliða sem þrengir taugarótarop en ekki merki um taugarótarklemmu.
Í læknisvottorði Geirs H. Guðmundssonar, dags. 27. apríl 2005, vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri er lýst rófubeinsbroti í febrúar 2004 og enn óþægindum við það, einnig útbreiddum stoðkerfisverkjum vegna vefjagigtar. Fram kemur í vottorðinu að stefnandi treystir sér ekki í fiskvinnslu lengur og telur ekki aðra vinnu í boði fyrir sig á heimaslóðum, a.m.k. ekki í bili.
Í læknisvottorði frá Sigurði Á. Kristinssyni, dagsettu 22. maí 2006, kemur fram að lítið raunhæf meðferð hafi átt sér stað til að byrja með. Stefnandi hafi ekki farið í sjúkraþjálfun fyrr en í janúar 2005, um 11 mánuðum eftir vinnuslysið. Eins kemur fram í vottorðinu að stefnandi hafi farið til gigtlæknis í Mjódd haustið 2005 og hann hafi talið stefnanda með vefjagigt.
Í matsgerð Ragnars Jónssonar læknis og Sigurðar B. Halldórssonar hrl., dags. 8. september 2009, kemur fram að í sjúkragögnum komi ekki fram neinar lýsingar á brottfallseinkennum frá efri útlimum, þ.e. taugaleiðniverk, rótareinkennum, breyttum sinaviðbrögðum, lömunum/kraftminnkun eða vöðvarýrnun sem benda til þess að um brjóskloseinkenni frá hálsi hafi verið að ræða. Segulómun af hálsi þann 8. desember 2005 er talin sýna brjósklos milli sjötta og sjöunda hálsliðar hægra megin en einkenni frá slíku brjósklosi myndu gefa einkenni frá sjöttu hálstaugarót hægra megin með dofa og verkjaleiðni á þumalfingurssvæði og vísifingurssvæði en engu slíku hefur verið lýst.
Með bréfi réttargæslustefnda, dags. 13. júlí 2005, var bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu hafnað þar sem félagið taldi að um væri að ræða óhappatilvik sem væri ekki bótaskylt úr ábyrgðartryggingu stefnda hjá réttargæslustefnda. Þá niðurstöðu kærði stefnandi til Úrskurðarnefndar í vátryggingamálum en nefndin staðfesti niðurstöðu réttargæslustefnda og taldi að ekki lægi fyrir samkvæmt gögnum málsins að stefnandi hefði verið óvinnufær eftir slysið það lengi að vinnuveitanda hefði verið skylt að tilkynna um það til Vinnueftirlits ríkisins, sbr. 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Jafnframt segir í niðurstöðu Úrskurðarnefndar að ekki verði séð af málsgögnum að aðila greini á um það sem upplýsa hefði mátt, ef Vinnueftirlitið hefði verið kallað strax á staðinn.
II
Stefnandi telur höfnun réttargæslustefnda með öllu ótæka, enda hvíli rík skylda á vinnuveitanda að tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Af málsatvikum sé ljóst að kröfum laga nr. 46/1980 um fullnægjandi aðstæður á vinnustöðum hafi ekki verið fullnægt í starfsemi stefnda, þar sem ekki hafi verið tryggt að aðstæður á vinnustaðnum fullnægðu viðunandi kröfum um öryggi. Var því um að ræða óforsvaranlegar vinnuaðstæður.
Fyrst beri að nefna að þrátt fyrir slysið, hafi hvorki Vinnueftirlit ríkisins né lögreglan verið kölluð til af vinnuveitanda stefnanda, og því hafi ekki verið framkvæmd nein rannsókn á aðdraganda eða atvikum slyssins. Slysið hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en löngu síðar.
Vinnuveitanda stefnanda hafi borið skylda til að tilkynna slysið án tafar til Vinnueftirlits ríkisins og lögreglu. Þetta hafi verið mikilvægt til þess að fram gæti farið rannsókn á atvikum slyssins. Verði að telja þessa vanrækslu á tilkynningarskyldu afar ámælisverða. Sinnuleysi gagnvart lögbundinni tilkynningarskyldu hafi því komið í veg fyrir að Vinnueftirlit ríkisins eða lögregla könnuðu tildrög slyssins. Slíkt hafi hlotið að vera afar mikilvægt í ljósi þess hvernig slysið atvikaðist, þ.e. vegna vanbúnaðar á vinnustað og þess að um gæti verið að ræða slysagildru fyrir fleiri starfsmenn á vinnusvæðinu. Í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar, sbr. t.d. dóm í máli nr. 272/2008 og máli nr. 481/2008, beri stefndi og réttargæslustefndi, halla af skorti á sönnun um málsatvik sem telja verði að leiða hefði mátt í ljós við rannsókn Vinnueftirlits ríkisins eða lögreglu. Í þessu sambandi beri til þess að líta að Vinnueftirliti ríkisins sé ætlað að rannsaka orsakir slysa, sbr. 81. gr. laga nr. 46/1980, með síðari breytingum. Þar sem engin tilkynning hafi borist stofnuninni, þrátt fyrir lagaskyldu, sbr. 79. gr. sömu laga, hafi engin slík rannsókn farið fram. Til hliðsjónar megi nefna ummæli Hæstaréttar í máli nr. 272/2008 frá 5. febrúar 2009: Fallist er á það með héraðsdómi að þar sem engin rannsókn fór fram af hálfu Vinnueftirlits ríkisins, sökum þess að stefndi lét hjá líða að tilkynna eftirlitinu um slysið, verði frásögn áfrýjanda af atvikum lögð til grundvallar sem og þær upplýsingar sem liggja fyrir í málinu.
Það sé því alfarið á ábyrgð vinnuveitanda að tilkynna viðkomandi yfirvöldum þegar slys ber að höndum á vinnustað og beri vinnuveitandi stefnanda allan halla af því að slysið var ekki rannsakað. Í 79. gr. laga nr. 46/1980 komi skýrlega fram að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Í tilviki stefnanda hafi slysið ekki verið tilkynnt fyrr en átta mánuðum seinna.
Samkvæmt 13. gr. laga nr. 46/1980 skal atvinnurekandi tryggja að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta á vinnustað. Í 37. gr. sömu laga, sbr. einnig 42. gr., segir að vinnu skuli haga og framkvæma þannig, að gætt sé fyllsta öryggis og góðs aðbúnaðar og hollustuhátta. Fylgja skuli viðurkenndum stöðlum, ákvæðum laga og reglugerða, svo og fyrirmælum Vinnueftirlits ríkisins, að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Verði því að telja að vinnuveitanda stefnanda hafi borið skylda til að tryggja að gætt væri góðs aðbúnaðar á vinnustað og að aðstæður væru ekki hættulegri en nauðsyn bar til.
Stefnandi byggir á að vinnuveitanda hafi borið að hlutast til um að gólfin á vinnustaðnum væru auð og hættulaus þar sem það megi vera augljóst að hvers kyns aðskotahlutir eða mishæðir á gólfi vinnustaðar geti skapað mikla hættu fyrir starfsfólk sem um það gangi. Stefnandi bendi á Hrd. 22. maí 2003 í máli nr. 20/2003 varðandi skyldu vinnuveitenda til að halda umferðarleiðum á vinnustöðum hreinum og öruggum. Þá leggi stefnandi áherslu á að henni var uppálagt að nota öfluga háþrýstidælu við þrifin en slík dæla þarfnist óskertrar athygli þess sem hana notar. Við slíkar aðstæður sé fráleitt að starfsmaður þurfi jafnframt að gæta hvers fótspors heldur megi hann treysta því að gólfin séu hrein og laus við hvers kyns hindranir. Í því sambandi vísi stefnandi til 6. tl. 6. gr. reglna nr. 581/1995, um húsnæði vinnustaða. Þar segi: Á gólfum vinnustaða mega ekki vera neinar hættulegar upphækkanir, göt eða hallar og skulu þau vera föst og stöðug.
Verði ákvæðið ekki túlkað með öðrum hætti en svo að á vinnuveitanda hvíli skylda til að tryggja að gólf á vinnustað séu slétt, auð og laus við alla aðskotahluti sem skapað geti hættu fyrir starfsmenn.
Þá byggir stefnandi á því að vinnuveitandi hennar hafi með öllu vanrækt að tryggja greiða og örugga umferðarleið starfsmanna fyrirtækisins þegar hann hafi komið körunum og áhangandi köðlum fyrir þar sem starfsmenn gengu um. Í þessu sambandi vísi stefnandi til 1. og 5. tl. 39. gr. fyrrgreindra reglna:
1. Umferðarleiðir, þar með talið innbyggðir eða fastir stigar, hlaðstæði og -pallar, skal staðsetja og útbúa þannig að fótgangendur og ökutæki megi nota þær vandkvæðalaust, með fullu öryggi og á þann hátt sem tilgangur þeirra segir til um og þannig að starfsmönnum sem eru við vinnu í grennd við þær stafi ekki hætta af.
5. Ef hættusvæði er á vinnustöðum þar sem starfsmenn geta hrasað eða hlutir fallið vegna þess hvernig vinnu er háttað skal afgirða þau eins og unnt er til að koma í veg fyrir aðgang óviðkomandi starfsmanna. Gera skal viðeigandi ráðstafanir til að vernda þá starfsmenn sem hafa aðgang að slíkum hættusvæðum. Hættusvæðin skulu greinilega merkt.
Þessu hafi vinnuveitandi stefnanda í engu sinnt. Þess í stað hafi vinnuveitandinn skeytingarlaust látið kaðlana liggja með fram gólfum. Slíkt beri að telja verkstjóra, sem ber ábyrgð á öryggi starfsmanna fyrir hönd vinnuveitanda, sbr. 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980, til gáleysis, enda hefði hann mátt vita að hætt væri við því að starfsmenn myndu flækja fætur í köðlunum og detta. Rétt sé að geta þess að þann dag sem slysið átti sér stað var verkstjóri fyrirtækisins í fríi og enginn hafi verið settur í hans stað. Engin raunveruleg verkstjórn hafi því verið á vinnustaðnum sem telja verði forsvarsmönnum stefnda til sakar enda hafi þeir með öllu brugðist þeim skyldum sem á þeim hvíldu samkvæmt framangreindum ákvæðum.
Með hliðsjón af öllu framangreindu og þeirri staðreynd að brotið hafi verið gegn skráðum hátternisreglum, sem á starfssviðinu gildi, telji stefnandi að forsvarsmenn stefnda hafi sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi. Á grundvelli þeirrar ólögfestu meginreglu íslensks skaðabótaréttar um vinnuveitandaábyrgð telji stefnandi að um sé að ræða bótaskylda háttsemi af hálfu stefnda og því eigi hún rétt á greiðslu úr frjálsri ábyrgðartryggingu stefnda.
Stefnandi geti því með engu móti fallist á þá niðurstöðu réttargæslustefnda að hafna bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu.
Dómkröfur stefnanda sundurliðast þannig:
|
1. |
Bætur skv. 3. gr. 40 x (700 x (6982/3282)) |
59.600 kr. |
|
2. |
Bætur skv. 4. gr. 15% af 8.509.500 kr. |
1.276.425 kr. |
|
3. |
Bætur skv. 5-7. gr. skbl. 1.200.000 x 4654 / 3282 = 1.701.645 1.701.645 x 9,350 x 20% |
3.182.076 kr. |
|
|
SAMTALS |
4.518.101 kr. |
|
|
|
|
|
|
Frádráttur vegna greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins: |
-677.039 kr. |
|
|
Frádráttur vegna greiðslu úr launþegatryggingu stefnda: |
-789.341 kr. |
|
|
Samtals |
3.051.723 kr. |
Kröfugerð stefnanda miðast við matsgerð Ragnars Jónssonar læknis og Sigurðar B. Halldórssonar hrl., dags. 8. september 2009, um afleiðingar slyssins. Er tekið mið af skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru á slysdeginum.
Krafa stefnanda um þjáningabætur byggir á 3. gr. skbl. Eru þjáningabæturnar reiknaðar með hliðsjón af matsgerðinni. Samkvæmt því reiknast þjáningabætur í alls 40 daga. Eru fjárhæðir síðan uppfærðar miðað við lánskjaravísitölu í desember 2009, sbr. 15. gr. laganna.
Krafa stefnanda um miskabætur byggir á 4. gr. skaðabótalaganna og áðurgreindu mati um 15% varanlegan miska. Fjárhæð bótanna tekur mið af grunnfjárhæðinni 4.000.000 kr. uppfærðri miðað við lánskjaravísitölu í desember 2009, sbr. 15. gr. skbl.
Krafa um bætur vegna varanlegrar örorku tekur einnig mið af framangreindri matsgerð og 5.-7. gr. skbl. Var varanleg örorka talin hæfilega metin 20% og miðast kröfugerð stefnanda við þá niðurstöðu.
Við ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku var ekki talið unnt að taka mið af tekjum stefnanda samkvæmt skattframtölum síðustu þrjú almanaksár fyrir slysið og því er miðað við 3. mgr. 7. gr. skbl.
Krafist er 4,5% vaxta skv. 16. gr. skbl. vegna þjáningabóta og varanlegs miska frá slysdegi, þann 13. febrúar 2004, fram að stöðugleikatímapunkti, þann 24. júlí 2004, en frá þeim degi einnig af bótum vegna varanlegrar örorku, skv. 16. gr. skbl., fram til þingfestingardags, en dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af þeirri fjárhæð frá þeim degi og fram til greiðsludags.
Kröfur stefnanda styðjast við skaðabótalög nr. 50/1993, með síðari breytingum og almennar ólögfestar reglur íslensks réttar um skaðabætur, þ.á m. sakarregluna og regluna um vinnuveitendaábyrgð. Einnig vísar stefnandi kröfum sínum til stuðnings til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra. Stefnandi er ekki virðisaukaskattsskyldur aðili skv. lögum nr. 50/1988 og ber því nauðsyn til að tekið verði tillit til skattsins við ákvörðun málskostnaðar.
III
Stefndi byggir aðalkröfu sína á því að hann beri ekki skaðabótaábyrgð á tjóni stefnanda þar sem það verði ekki rakið til atvika sem hann ber ábyrgð á að lögum. Orsök tjónsins sé að rekja til óhappatilviljunar og/eða eigin sakar stefnanda.
Stefnandi, sem hafi verið að leysa af í fiskvinnslunni í tvo daga vegna forfalla, hafi þekkt vel til aðstæðna enda unnið þar áður í a.m.k. tvö ár. Þá hafi hún unnið við fiskvinnslu frá því að barnaskóla lauk. Stefnandi hafi oft þurft að smúla gólfin með háþrýstidælu eins og hún hafi verið að gera þegar óhappið átti sér stað. Henni hafi verið, eða mátt vera, kunnugt um að fiskikörin væru færð inn á vinnslusvæðið með böndum af þeirri gerð sem lýst hafi verið og því borið að fylgjast vel með því hvort slíkar hindranir væru á svæðinu. Stefnandi hafi sýnt af sér verulegt gáleysi með því að líta ekki fram fyrir sig og niður fyrir fætur sér. Ekki sé hægt að líta fram hjá því að fiskikör eins og þau er um ræði séu af þeirri stærð að þau, eða það sem við þau er tengt, eigi ekki að fara fram hjá þeim sem þar gangi um. Tjón stefnanda sé því einungis að rekja til aðgæsluleysis hennar sjálfrar.
Ekki verði séð að saknæm háttsemi hafi átt sér stað af hálfu starfsmanna stefnda. Um eðlileg vinnubrögð hafi verið að ræða þegar fiskikörin voru staðsett á vinnslusvæði starfsmanna stefnda og gengið hafi verið frá þeim á eðlilegan máta. Þetta hafi verið alvanalegt á vinnustað stefnda. Stefnandi, sem unnið hafði lengi við fiskvinnslu, og þar af í a.m.k. tvö ár hjá stefnda, hafi átt að vita hvernig vinnubrögð eigi sér þar stað.
Um einfalt verk hafi verið að ræða sem ekki krefjist sérstakrar verkstjórnar. Sérstaklega að teknu tilliti til þess að stefnandi var þaulvön og gjörþekkti aðstæður.
Ekki verði séð að 6. tl. 6. gr. reglna nr. 581/1995 um húsnæði vinnustaða eigi hér við. Í 6. gr. reglnanna sé vísað til hættulegra upphækkana, gata eða halla og að gólf skuli vera föst og stöðug. Hér hafi einungis verið um að ræða band sem legið hafi á gólfinu. Stefnanda hafi verið í lófa lagið að veita því eftirtekt ef hún hefði gætt nægilega vel að sér. Ekki sé því með nokkru móti sýnt að ákvæðið eigi við í þessu tilviki, enda hefði stefnandi getað farið um svæðið vandkvæðalaust ef eðlileg aðgát hefði verið sýnd. Verið sé að tala almennt um gerð gólfa og að þau skuli vera í samræmi við ákvæði byggingarreglugerða. Ekki sé átt við það sem venjulega liggi á gólfi, eins og í þessu tilfelli fiskikör og það sem því tengist, til að eðlileg vinnsla geti átt sér stað.
Eins verði ekki séð að 1. og 5. tl. 39. gr. sömu reglna eigi hér við. Ef túlka eigi reglurnar á þann hátt að ekkert megi vera á gólfum á vinnustöðum eða að allir hlutir sem á gólfum eru séu starfsmönnum til hættu, því þeir gætu mögulega dottið um þá, þá hljóti allir vinnuveitendur að brjóta þær reglur á degi hverjum. Á öllum vinnustöðum séu tæki og/eða búnaður sem nauðsynlegur sé til að vinna geti gengið eðlilega fyrir sig. Starfsmenn þurfi að taka það til greina þegar þeir ferðist um vinnusvæðið. Þá sé fráleitt að líta svo á að um hættusvæði hafi verið að ræða sem borið hafi að girða af eða merkja sérstaklega. Stefndi beri því ekki ábyrgð á tjóni stefnanda á grundvelli reglna um húsnæði vinnustaða.
Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 skuli atvinnurekandi án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll þau slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur séu á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skuli tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Þegar stefnandi lendi í því óhappi að detta sé engin leið fyrir stefnda að sjá út hvaða afleiðingar það óhapp hafi. Margoft lendi fólk í því að renna á afturendann án þess að neitt líkamstjón verði. Stefnandi segi sjálf að hún muni ekki vel hvernig einkenni hafi þróast í kjölfar óhappsins, en fyrst hafi hún haft verki í rófubeinssvæði og síðar hafi komið fram verkur í hálsi. Ekkert hafi því bent til þess að þarna væri um langvarandi óvinnufærni að ræða eða alvarlegt slys sem krefðist snarlega atbeina Vinnueftirlits.
Af framangreindu telji stefndi ljóst vera að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda.
Varakrafa um lækkun bóta sé í fyrsta lagi byggð á því að bætur eigi að lækka verulega vegna eigin sakar stefnanda. Stefnandi hafi verið þaulvön og gjörkunnug aðstæðum. Sé vísað til þess sem fyrr segi um eigin sök stefnanda eftir því sem við á.
Í öðru lagi mótmæli stefndi efnislegum niðurstöðum þeirrar matsgerðar sem liggi fyrir í málinu og bendir meðal annars á að líkt og vitnað er um í matsgerð, þá séu brjósklos eftir slys afar sjaldgæf. Leiði því ekki líkur að því að um brjósklos sé að ræða hjá stefnanda sem tengja megi því óhappi sem hún varð fyrir í febrúar 2004. Eins skrifi Geir Hlíðberg Guðmundsson læknir í vottorði fyrir stefnanda, dags. 17. febrúar 2005, að sjúkdómsgreining sé fibromyalgia eða vefjagigt. Vefjagigt hafi marga orsakaþætti á borð við veirusýkingu, matareitrun og/eða andlega líðan, meðan sumir einstaklingar séu einfaldlega útsettari fyrir vefjagigt og hjá þeim finnist ekkert sérstakt sem komi sjúkdómnum af stað. Ekki sé því hægt að rekja vefjagigt stefnanda með óyggjandi hætti til óhappsins. Að lokum megi geta þess að Jón Aðalsteinn Jóhannsson læknir, skrifi í beiðni um þjálfun fyrir stefnanda dags. 17. janúar 2005, að stefnandi hafi „ ... ekki gert mikið æfingar sjálf“. Þetta sé um ári eftir að bæði óhappið átti sér stað og stefnandi leitaði fyrst til læknis. Ætla megi að stefnandi hefði getað komið í veg fyrir frekara tjón ef hún hefði stundað eðlilega endurhæfingu líkt og mælt sé með undir líkum kringumstæðum.
Í þriðja lagi geri stefndi fyrirvara við alla tölulega útreikninga og forsendur þeirra í stefnu og áskilji sér rétt til að leggja fram útreikning á tjóni stefnanda síðar, eftir atvikum að fenginni niðurstöðu dómkvaddra matsmanna.
Í fjórða lagi krefjist stefndi þess að þegar greiddar bætur úr slysatryggingu launþega að fjárhæð 771.821 kr. komi til frádráttar sem og aðrar greiðslur sem stefnandi kunni að hafa fengið eða eigi rétt á frá þriðja manni vegna óhappsins, sbr. 2. mgr. 2. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Stefndi vísi til skaðabótalaga nr. 50/1993, almennra reglna skaðabótaréttar um saknæmi, orsakasamhengi, sönnunarbyrði, gáleysi og eigin sök tjónþola. Um málskostnað sé vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Ekki er um það deilt að stefnandi varð fyrir slysi við vinnu sína hjá stefnda 13. febrúar 2004 og að hún hefur orðið fyrir tjóni vegna þess.
Stefnandi byggir á að slysið verði rakið til óforsvaranlegra vinnuaðstæðna hjá stefnda. Stefndi byggir hins vegar á því að orsök tjóns stefnanda sé að rekja til óhappatilviljunar og/eða eigin sakar stefnanda.
Fyrir liggur að slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlitsins fyrr en með tilkynningu dags. 22. 10. 2004.
Stefnandi kveðst hafa látið Frey Héðinsson fyrirsvarsmann stefnda vita af slysinu. Því neitaði Freyr fyrir dóminum og kvaðst ekki hafa verið á staðnum í umrætt sinn. Kvaðst hann ekki hafa frétt af slysinu fyrr en svolítið seinna og þá talið að þetta væri ekkert alvarlegt. Það sé ástæðan fyrir því að slysið var ekki tilkynnt.
Fyrir liggur að stefnandi leitaði ekki læknis fyrr en 20. febrúar 2004 eða viku eftir slysið. Í læknisvottorði Gunnars Inga Gunnarssonar, dags. 3. mars 2004, til atvinnurekanda kemur fyrst fram að stefnandi sé óvinnufær vegna slyssins, þ.e. frá slysdegi, 13. febrúar 2004, og óvíst hve lengi.
Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys sem leiða til þess að starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings.
Fyrir liggur að stefndi tilkynnti slysið til réttargæslustefnda með tilkynningu dagsettri 9. mars 2004. Má því ljóst vera að stefnda var í síðasta lagi þá orðið ljóst að stefnandi hafði slasast svo alvarlega að tilkynningarskylda var vafalaus.
Telja verður hins vegar að það að stefndi sinnti ekki þessari skyldu sinni hafi ekki leitt til þess að málsatvik eru óljós þar sem ekki verður talið að rannsókn svo löngu eftir slysið hefði verið til þess fallin að upplýsa frekar um orsakir þess.
Þar sem engin vitni voru að slysinu, og þar sem engin rannsókn fór fram á því, verður að leggja lýsingu stefnanda á atvikum til grundvallar enda ekki gerðar athugasemdir við hana af hálfu stefnda.
Stefnandi, sem var að vinna hjá stefnda í afleysingum þegar slysið varð, kveðst í umrætt sinn hafa verið að smúla gólf í fiskvinnslusal þegar hún flæktist í kaðli, sem lá með fram gólfinu frá fiskikari, sem hafði verið komið fyrir upp við vegg á vinnusvæði starfsmanna. Hún hafi við það fallið aftur fyrir sig og skollið harkalega á afturendann og bakið á hart steingólfið. Hún hafi lokið vinnudeginum en slysið hafi orðið þegar honum var að ljúka.
Vitnið Freyr lýsti umræddu fiskikari þannig fyrir dóminum að það væri 320 lítra, u.þ.b. 120 x 70 cm í þvermál og 80 til 90 cm á hæð. Á milli eyrna, sem séu á hverju horni karsins, sé kaðallykkja, sem nái niður undir gólf en hún sé notuð þegar verið sé að hífa karið.
Ýmis ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum leggja skyldur á herðar atvinnurekendum að tryggja öryggi starfsmanna. Byggir stefnandi einkum á 13. gr., 37. gr. og 42. gr. laganna en einnig 6. tl. 6. gr. og 1. og 5. tl. 39. gr. reglna um húsnæði vinnustaða.
Fyrir liggur að stefnandi, sem hafði unnið við fiskvinnslu frá barnsaldri, hafði unnið í mörg ár hjá stefnda. Verður því við það að miða að hún hafi verið þar öllum hnútum gjörkunnug. Þá verður að telja starf það sem hún vann í umrætt sinn, þ.e. að smúla gólf, einfalt og ekki þarfnast sérstakrar verkstjórnar.
Fiskikör, sem fiskur er fluttur í, verður að telja óhjákvæmilegan fylgifisk fiskvinnslu. Þykir því það eitt og sér að fiskikör, eins og að framan er lýst, voru með veggjum, og á miðju gólfi vinnslusalar, í umrætt sinn ekki hafa leitt til þess að aðstæður hafi verið hættulegri en nauðsyn bar til. Samkvæmt því og þar sem ekki þykir í ljós leitt að aðbúnaður á vinnustaðnum hafi ekki að öðru leyti verið góður er það mat dómsins að umrætt slys verði ekki rakið til vanrækslu stefnda. Þykir því ekki í ljós leitt að stefndi hafi ekki sinnt nægilega skyldu sinni til að tryggja öryggi og góðan aðbúnað á vinnustað sínum. Verður því talið að umrætt slys hafi orðið fyrir óhapp sem stefndi ber ekki bótaábyrgð á. Samkvæmt því verður hann sýknaður af kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Oddi hf., er sýkn af öllum kröfum stefnanda, Kristínar Fjeldsted.
Málskostnaður fellur niður.