Hæstiréttur íslands

Mál nr. 784/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


                                     

Föstudaginn 20. nóvember 2015.

Nr. 784/2015.

Lögreglustjórinn á Austurlandi

(Helgi Jensson fulltrúi)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Farbann.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram farbanni á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.   

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. nóvember 2015, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram farbanni allt til miðvikudagsins 2. desember 2015 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

       Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                           

Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 18. nóvember 2015.

Lögreglustjórinn á Austurlandi hefur með beiðni dagsettri þann 17. nóvember sl. gert kröfu um að X, [...], [...] ríkisborgara, verði gert að sæta farbanni í tvær vikur, frá miðvikudeginum 18. nóvember 2015 kl. 16.00  til miðvikudagsins 2. desember 2015 kl. 16.00, eða þar til dómur gangi í máli hennar, nr. 317-2015-[...], en ákæra verði gefin út í málinu eins fljótt og mögulegt verði.

Af hálfu kærðu er beiðni lögreglustjóra mótmælt og þess krafist að henni verði hafnað.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærða sé grunuð um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum, sem teljist varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með því að hafa flutt til landsins mjög mikið magn af MDMA, falið í bifreiðinni [...], sem komið hafi til [...] með farþegaferjunni [...] kl. 09.00 þann 8. september sl. Kl. 10:00 sama dag hafi bifreiðin komið akandi frá borði og farið í grænt tollhlið, en Y, fæddur [...] hafi ekið henni en kærða hafi setið í farþegasæti.  Tollgæslan hafi ákveðið að taka bifreiðina og kærðu í úrtaksleit. Við leit í bifreiðinni hafi fundist gríðarlegt magn af MDMA eða Extacy, falið í varadekki, tveimur gaskútum og í 14 niðursuðudósum, sem hafi verið í bifreiðinni. Hafi kærði Y  játað að hafa vitað um tilvist fíkniefnanna og vísað lögreglu á efnin, en eiginkona hans, kærða X, hafi neitað að hafa vitað um efnin. Y staðhæfi að X hafi ekki vitað um tilvist efnanna. Kærðu hafi síðan verið handtekin og nákvæmari leit farið fram í bifreiðinni.

Mjög mikið ósamræmi sé milli framburðar kærðu X og framburðar dóttur hennar, m.a. um það hvert för þeirra hafi verið heitið. Kærða hafi sagt dóttur sinni að hún og kærði Y væru að fara í frí til Suður-Spánar og hafi hún aldrei minnst á Ísland, samkvæmt framburði dótturinnar. Þetta hafi hún líka sagt nágrönnum sínum. Hafi kærða ekki gefið neinar skynsamlegar skýringar á þessu ósamræmi. Þá komi skýrt fram í framburði kærðu að hún og kærði Y hafi verið í fjárhagskröggum og margir ógreiddir reikningar hafi fundist í húsbíl þeirra. Samt sem áður segi kærða að þau hafi ákveðið að fara í frí til Íslands í heilan mánuð, leigja til þess húsbíl fyrir 4.600 Evrur og kaupa sér far fyrir þau og bílinn til Íslands fyrir um 2.000 Evrur, auk þess sem Y hafi látið hana hafa 1.600 Evrur til að greiða reikninga, að hennar sögn. Þá segi kærða að atvinnuleysisbætur hennar séu 800 til 900 Evrur á mánuði en útgjöldin séu 1800 til 2000 Evrur á mánuði. Kærði Y sé búinn að vera atvinnulaus lengi og sé öryrki. Kærða hafi engar skynsamlegar skýringar gefið á því hvaðan hún telji að þeir peningar sem allt í einu virtust vera til staðar séu komnir.

Kærða X sé því enn undir rökstuddum grun um að hafa tekið þátt í innflutningi fíkniefnanna, enda þyki framburður hennar mjög ótrúverðugur. Sendar hafi verið til útlanda beiðnir um rannsóknir á ákveðnum atriðum, sem m.a. beinist að því að upplýsa um þátttöku kærðu í málinu. Rannsóknargögn séu farin að berast en  ekki sé allt komið enn en von sé á frekari gögnum á næstu dögum. Fyrir liggi að ákæra í málinu verði gefin út fyrir 2. desember nk., en þá renni út gæsluvarðhald yfir eiginmanni kærðu. Því sé lögreglu nauðsynlegt að kærða verði úrskurðuð til að sæta áfram farbanni, en lögreglan óttist að kærða muni reyna að komast úr landi til að freista þess að komast undan málsókn eða fullnustu refsingar verði farbanni aflétt.

Krafa um farbann byggi á 1. mgr. 100. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Byggt sé á því að ætla megi að kærða muni reyna að komast úr landi, enda um erlendan ríkisborgara að ræða sem engin tengsl hafi við Ísland. Um sé að ræða rökstuddan grun um aðild kærðu að stórfelldu fíkniefnabroti, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Lögreglan sé ennþá að rannsaka málið og meðal annars sé beðið eftir upplýsingum frá erlendum yfirvöldum, sem miklu máli geti skipt til að upplýsa frekar um þátt kærðu í málinu.

Kærða hafi verið úrskurðuð til að sæta gæsluvarðhaldi í tvær vikur, eða til miðvikudagsins 23. september kl. 16.00, með úrskurði Héraðsdóms Austurlands, uppkveðnum þann 9. september sl. Gæsluvarðhaldið hafi síðan verið framlengt um tvær vikur með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum þann 23. september sl. Í framhaldi af því hafi kærða verið vistuð í fangelsinu Litla-Hrauni og síðan í fangelsinu á Akureyri. Gæsluvarðhaldið hafi síðan verið framlengt um tvær vikur með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra uppkveðnum þann 7. október sl., en sem Hæstiréttur Íslands hafi breytt í farbann til miðvikudagsins 21. október 2015, með dómi uppkveðnum 13. október sl. Farbannið hafi síðan verið framlengt um tvær vikur eða til miðvikudagsins 4. nóvember sl. kl. 16:00 með úrskurði Héraðsdóms Austurlands uppkveðnum 21. október sl. og hafi sá úrskurður verið staðfestur með dómi Hæstaréttar í máli nr. 723/2015. Að síðustu hafi farbannið verið framlengt um tvær vikur, eða til dagsins í dag kl. 16:00 með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands uppkveðnum 4. nóvember sl.

                Krafa um framlengingu farbanns sé nú lögð fyrir Héraðsdóm Suðurlands með heimild í 49. gr. laga nr. 88/2008, til hagræðis og flýtis, svo ekki þurfi að flytja kærðu til Egilsstaða til að koma fyrir dóm, en hún dveljist nú í Reykjavík.                

                Eins og rakið er hér að framan sætti kærða gæsluvarðhaldi frá 9. september til 13. október sl., er úrskurði héraðsdóms um áframhaldandi gæsluvarðhald var snúið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 690/2015. Þess í stað var með nefndum dómi réttarins kveðið á um að kærðu skyldi bönnuð för frá Íslandi með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Farbannið var framlengt til 4. nóvember sl. með úrskurði uppkveðnum 21. október sl. og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti, sbr. mál nr. 723/2015. Það farbann var síðan framlengt með úrskurði uppkveðnum 4. nóvember sl. og rennur það út kl. 16:00 í dag.  Líkt og fram kemur í þessum úrskurðum og dómum Hæstaréttar hefur kærða sætt þvingunarúrræðum vegna rökstudds gruns um aðild hennar að innflutningi á mjög miklu magni fíkniefna hingað til lands. Benda fyrirliggjandi rannsóknargögn ekki til annars en að enn leiki rökstuddur grunur á um aðild kærðu að innflutningi fíkniefnanna. Kærða er erlendur ríkisborgari og hefur engin tengsl við landið. Rannsókn málsins miðar vel að sögn lögreglu, en er ólokið og er m.a. beðið gagna erlendis frá. Samkvæmt framanrituðu og með vísan til b-liðar 1. mgr. 95. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008 verður að telja að enn séu uppfyllt skilyrði til þess að banna kærðu brottför af landinu. Þykja ekki efni til að marka farbanni skemmri tíma en krafist er, enda er kröfunni í hóf stillt og verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

 Kærðu, X, fæddri [...], er bönnuð för frá Íslandi allt til miðvikudagsins 2. desember 2015 kl. 16.00.