Hæstiréttur íslands

Mál nr. 507/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögbann
  • Vörumerki


Miðvikudaginn 5

 

Miðvikudaginn 5. janúar 2005.

Nr. 507/2004.

Vörulagerinn ehf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

gegn

His Heitum íslenskum samlokum ehf.

(Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.)

 

Kærumál. Lögbann. Vörumerki.

V keypti með samningi í apríl 1998 rekstur tveggja veitingastaða í Reykjavík, sem reknir voru undir nafninu Hlöllabátar. Á árinu 2004 stundaði H veitingasölu í tveimur bifreiðum, undir merkjum Hlöllabáta samkvæmt heimild frá Hlöllabátum ehf., og síðar undir nafninu Hlölli. Krafðist V lögbanns gegn þessari veitingasölu H. Ljóst var samkvæmt samningnum að seljandi hugðist halda starfsemi sinni áfram jafnframt því að selja V hluta reksturs síns, auk þess sem ekkert átti að vera því til fyrirstöðu að hann tengdist nýjum veitingastöðum sambærilegum þeim sem verið var að selja þegar þrjú ár væru liðin frá kaupsamningi aðila. Þótti ekki í ljós leitt að Hlöllabátar ehf. hefðu veitt V víðtækari rétt en til svokallaðs nytjaleyfis samkvæmt 38. gr. vörumerkjalaga á nafninu Hlöllabátar. Þá hafði V heldur ekki leitt líkum að því að hann hafi öðlast rétt til heitisins Hlölli, sem H kvaðst nota við reksturinn. Var lögbannskröfu V því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 10. desember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2004, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lagt yrði lögbann við því að varnaraðili starfrækti veitingasölu undir merkjunum „Hlöllabátar“ og/eða „Hlölli“, eða noti tákn, sem lík eru þeim vörumerkjum, við rekstur í bifreiðinni LR-255, Iveco Daily og tengivagninum TO-433, Wells Cargo TW-122 eða á öðrum stöðum svo að í bága fari við rekstur sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumanns í Reykjavík 22. september 2004 um að hafna kröfu hans um lögbann og lagt fyrir sýslumann að leggja lögbann við því að varnaraðili starfræki veitingasölu undir merkjum Hlöllabáta og/eða Hlölla eða noti í veitingastarfsemi sinni tákn sem lík eru þeim vörumerkjum, svo sem áður greinir. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og honum dæmdur kærumálskostnaður.

Samkvæmt kröfugerð varnaraðila gerir hann ekki fyrir Hæstarétti athugasemdir við framsetningu kröfugerðar sóknaraðila, svo sem gert var í héraðsdómi, og verður því ekki fjallað um frávísunarkröfu hans sem þar var til meðferðar.

I.

Sóknaraðili keypti með samningi 16. apríl 1998 rekstur veitingastaða að Ingólfstorgi 1 og Lækjargötu 2 í Reykjavík af Hlöllabátum ehf. Veitingastaðirnir voru reknir undir nafninu Hlöllabátar. Undanskilið kaupum þessum var veitingastaður sem rekinn var af seljanda undir sama nafni að Þórðarhöfða í Reykjavík auk þriggja staða utan Reykjavíkur. Kaupandi öðlaðist þó með samningnum forkaupsrétt og forleigurétt að veitingastaðnum að Þórðarhöfða. Seljanda var að öðru leyti næstu þrjú árin óheimilt að tengjast, eiga hlut í eða opna sjálfur veitingastaði sambærilega þeim sem verið var að selja. Kaupverð veitingastaðanna nam 38.000.000 krónum, en í kaupunum var fasteign sem metin var á 15.000.000 krónur. Kaupunum fylgdu öll tæki og áhöld veitingastaðanna og uppskriftir að gerð Hlöllabáta. 

Sóknaraðili segir að í maí og júní 2004 hafi bifreiðin LR-255, Iveco Daily og tengivagninn TO-433, Wells Cargo TW-122 verið skráð á nafn Glitnis hf., en umráðamaður samkvæmt ökutækjaskrá sé varnaraðili. Ökutækin hafi verið merkt Hlöllabátum á öllum hliðum og í þeim fari fram veitingasala í Reykjavík og víðar undir merkjum Hlöllabáta og matseðill sé merktur með sama hætti. Varnaraðili mun hafa fengið leyfi hjá Hlöllabátum ehf. til að merkja ökutækin með greindum hætti og til að nýta uppskriftir að samlokum. Sóknaraðili segir að ekkert samband hafi verið haft við sig um þetta og kröfum sínum um að látið yrði af starfsemi þessari hafi ekki verið sinnt. Varnaraðili segist hafa hætt notkun auðkennisins Hlöllabátar og ætli sér ekki að taka það upp á ný. Hann noti í þess stað auðkennið Hlölli.

Sóknaraðili heldur því meðal annars fram að hann hafi öðlast rétt yfir óskráða vörumerkinu Hlöllabátar með kaupsamningnum 16. apríl 1998, en seljandi hafi rekið staðina undir þessu heiti allt frá 1986. Reisir hann rétt sinn á 2. mgr. 1. gr. samningsins og telur það ákvæði í samræmi við meginreglu 36. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki.

Varnaraðili byggir hins vegar á því að sóknaraðili eigi hvorki auðkennið né einkarétt á að nota það. Réttur sóknaraðila sé aðeins nytjaleyfi sem háð sé takmörkunum og skilyrðum. Þá skorti á það megin skilyrði lögbanns að varnaraðili noti merkið sem krafan snúi að eða að athöfnin sem banna eigi sé yfirvofandi. Hvað sem öðru líði hafi sóknaraðili engan rétt á nafninu Hlölli sem varnaraðili noti nú og hafi fulla heimild til nýtingar þess frá þeim sem með það fari.

II.

Ágreiningur er ekki um aðild málsins eða að varnaraðili leiði rétt sinn frá Hlöllabátum ehf., enda munu sömu aðilar standa að þessum fyrirtækjum að einhverju leyti. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann lagt við byrjaðri eða yfirvofandi athöfn geri gerðarbeiðandi það sennilegt að athöfnin brjóti gegn lögvörðum rétti hans, að gerðarþoli hafi þegar hafist handa um athöfnina og að réttindi hans muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum verði hann að bíða dóms um þau. Þá segir í 41. gr. laga nr. 45/1997 að unnt sé að krefjast lögbanns við athöfn sem þegar er hafin eða er sannanlega yfirvofandi og brýtur eða mun brjóta gegn vörumerkjarétti. Sóknaraðili þarf því að gera það sennilegt að rekstur varnaraðila brjóti í bága við rétt þann sem honum var veittur með samningi við Hlöllabáta ehf. með kaupsamningi 16. apríl 1998. Í 2. mgr. 1. gr. samningsins segir: „Afnotaréttur af nafninu Hlöllabátar fylgja með í kaupum þessum. Þá fylgja með uppskriftir af gerð Hlöllabáta og heimild til framleiðslu og sölu þeirrar vöru á ofangreindum stöðum og öðrum sem kaupandi kann að starfrækja.“ Að framan er því lýst að seljandi hugðist halda starfsemi sinni áfram jafnframt því að selja sóknaraðila hluta reksturs síns. Þá átti ekkert að vera því til fyrirstöðu að hann tengdist veitingastöðum sem væru sambærilegir þeim sem verið var að selja þegar þrjú ár væru liðin frá kaupsamningi aðila. Þegar tilvitnað ákvæði samningsins er skýrt samkvæmt orðalagi sínu, önnur ákvæði samningsins virt og jafnframt litið til aðstöðu samningsaðila í heild er ekki í ljós leitt að Hlöllabátar ehf. hafi veitt sóknaraðila víðtækari rétt en til svokallaðs nytjaleyfis samkvæmt 38. gr. 45/1997 á nafninu Hlöllabátar. Þá hefur sóknaraðili heldur ekki leitt líkum að því að hann hafi  öðlast rétt til heitisins Hlölli, sem varnaraðili kveðst nota við reksturinn.

Samkvæmt framansögðu hefur sóknaraðili ekki gert það nægilega sennilegt að starfsemi varnaraðila brjóti gegn lögvörðum rétti hans þannig að hann fái lagt lögbann við rekstri varnaraðila.

Niðurstaða héraðsdóms er því staðfest svo og málskostnaðarákvörðun hans.

Samkvæmt þessari niðurstöðu er rétt að sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Úrskurður héraðsdóms er staðfestur.

Sóknaraðili, Vörulagerinn ehf., greiði varnaraðila, His Heitum íslenskum samlokum ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. nóvember 2004.

             Máli þessu var skotið til dómsins með bréfi sóknaraðila 11. október sl.  Það var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð 18. nóvember sl.

             Sóknaraðili er Vörulagerinn ehf., kt. 711296-3879.

             Varnaraðili er His Heitar íslenskar samlokur ehf., kt. 450204-2180.

             Sóknaraðili krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 21. september 2004 um að hafna því að leggja lögbann við því að „varnaraðili starfræki veitingasölu undir merkjum „Hlöllabáta” og/eða „Hlölli”, eða noti tákn sem eru lík þeim vörumerkjum í starfsemi sem tekur til svipaðrar vöru eða þjónustu eða að hætta sé á ruglingi, í bifreiðunum LR-255, Iveco Daily og tengivagninum TO-433, Wells cargo TW-122 né öðrum stöðum á Íslandi.”  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

             Varnaraðili krefst þess aðallega að ákvörðun sýslumanns um synjun lögbanns verði staðfest og að vísað verði frá dómi kröfu um að lagt verði fyrir fulltrúa sýslumanns að leggja lögbann við því að varnaraðili starfræki veitingasölu undir merkjum „Hlöllabáta” og/eða „Hlölla”, eða noti tákn sem eru lík þeim vörumerkjum í starfsemi sem tekur til svipaðrar vöru eða þjónustu eða að hætta sé á ruglingi, í bifreiðunum LR-255, Iveco Daily og tengivagninum TO-433, Wells cargo TW-122 eða öðrum stöðum á Íslandi.  Þá krefst varnaraðili sýknu af málskostnaðarkröfu sóknaraðila.

             Til vara krefst varnaraðili þess að vísað verði frá dómi kröfu um að lagt verði fyrir fulltrúa sýslumanns að leggja lögbann við því að varnaraðili starfræki veitingasölu undir merkjum „Hlöllabáta” og/eða „Hlölla”, eða noti tákn sem eru lík þeim vörumerkjum í starfsemi sem tekur til svipaðrar vöru eða þjónustu eða að hætta sé á ruglingi, í bifreiðunum LR-255, Iveco Daily og tengivagninum TO-433, Wells cargo TW-122 eða öðrum stöðum á Íslandi. 

             Til þrautavara krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hrundið.

 

             Með kaupsamningi dagsettum 16. apríl 1998 keypti sóknaraðili rekstur veitingastaða Hlöllabáta ehf. að Ingólfstorgi 1 og Lækjargötu 2, en þeir voru reknir undir nafninu Hlöllabátar.  Sóknaraðili segir að óskráða vörumerkið „Hlöllabátar” hafi fylgt með í kaupunum, en notkun þess hafi hafist 1986.  Kaupverðið hafi verið 38.000.000 króna, en fylgt hafi húsnæðið við Ingólfstorg, áhöld og tæki á veitingastöðunum og uppskriftir að gerð Hlöllabáta.

             Sóknaraðili segir að í maímánuði sl. hafi bifreið sú og tengivagn sem getið er í kröfugerð verið skráð í ökutækjaskrá.  Ökutæki þessi hafi verið merkt Hlöllabátum á öllum hliðum á mjög áberandi hátt og í þeim fari fram veitingasala í Reykjavík og víðar undir merkjum Hlöllabáta.  Seldir séu „bátar” og fleira samkvæmt matseðli sem merktur sé Hlöllabátum. 

             Varnaraðili fékk leyfi frá Hlöllabátum ehf. til að merkja ökutækin með framangreindum hætti og til að nýta vörumerkið og uppskriftir í veitingarekstri sínum.  Sóknaraðili segir að ekki hafi verið haft samband við sig vegna þessa.  Lögmaður sóknaraðila hafi með bréfi 15. júní 2004 krafist þess að veitingasölunni yrði hætt þegar í stað.  Því hafi ekki verið sinnt.

 

             Málsástæður og lagarök sóknaraðila.

             Sóknaraðili telur að hann hafi öðlast rétt yfir vörumerkinu „Hlöllabátar” með samningnum frá 16. apríl 1998.  Fram komi í 2. mgr. 1. gr. samningsins að réttur þessi fylgi með í kaupunum.  Sé þetta í samræmi við meginreglu 36. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki.  Réttur yfir merkinu hafi ekki verið undanþeginn með skýrum hætti í samningnum. 

             Sóknaraðili segir að greiddar hafi verið 23.000.000 króna fyrir reksturinn.  Því sé ljóst að réttur yfir vörumerkinu hafi átt að fylgja í kaupunum, en ekki einungis nytjaréttur. 

             Þar sem sóknaraðili hafi öðlast rétt yfir merkinu sé öðrum óheimilt að nýta það.  Undantekningar þær sem taldar séu í samningnum eigi hér ekki við.  Hlöllabátar ehf. hafi framselt rétt yfir merkinu til sóknaraðila og geti því ekki veitt öðrum heimild til að nota það. 

             Sóknaraðili kveðst mótmæla þeim skilningi sýslumanns að hann hafi einungis fengið nytjaleyfi, en ekki eignarrétt að vörumerkinu.  Sýslumaður virðist hér byggja einungis á 2. mgr. 1. gr. samningsins.  Samninginn verði hins vegar að túlka í heild og þar sem ekki sé sérstaklega tekið fram að merkið fylgi ekki með, sbr. 36. gr. vörumerkjalaga, þá fylgi það með.  5. gr. samningsins styrki þá niðurstöðu, en þar sé kveðið á um takmarkaðan rétt seljanda til að nota merkið.  Sé þar greinilega um tæmandi talningu að ræða.

             Verði ekki fallist á að hann hafi fengið framseldan eignarrétt að merkinu telur sóknarðili að hann hafi fengið nytjaleyfi sem sé einkaleyfi til notkunar merkisins á Íslandi.  Undantekningar við því séu tæmandi taldar í 5. gr. samningsins og þær eigi ekki við hér. 

             Sóknaraðili segir að 10. gr. kaupsamnings hans við Hlöllabáta ehf. banni seljanda að stunda sömu eða svipaða starfsemi um tiltekinn tíma.  Þetta ákvæði banni aðeins tiltekna starfsemi en hér sé ekki vísað til notkunar vörumerkisins. 

             Samkvæmt þessu telur sóknaraðili að uppfyllt séu skilyrði 41. gr. vörumerkjalaganna og 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu og lögbann.

 

             Málsástæður og lagarök varnaraðila.

             Varnaraðili segir aðalfrávísunarkröfu sína styðjast við að krafa sóknaraðila um lögbann sé svo óljós og ónákvæm að hún sé ekki dómhæf, ekki sé hægt að fella hana í dómsorð með hefðbundinni umorðun. 

             Þá geti sóknaraðili ekki gert víðtækari kröfur hér fyrir dómi en hann gerði hjá sýslumanni.  Ákvörðun sýslumanns hafi verið að hafna lögbanni við veitingasölu undir merkinu „Hlöllabátar” í tilteknum bíl og tengivagni.  Ekki séu réttarfarsskilyrði til að leggja fyrir sýslumann að gera annað en það sem hann hafnaði með ákvörðun sinni. 

             Varnaraðili segir að sóknaraðili eigi hvorki vörumerkið né einkarétt til að nota það.  Hann bendir á að lokaákvæði kaupsamningsins sé nú niður fallið, hafi það lagt einhverjar kvaðir á seljanda varðandi notkun auðkenna sinna.  Réttur sóknaraðila sé aðeins nytjaleyfi, háð takmörkunum og skilyrðum.  Sóknaraðili eigi ekki betri rétt en hann sjálfur. 

             Þá bendir varnaraðili á að nú bresti það meginskilyrði að hann noti merkið sem lögbannskrafan beindist að.  Því hafi hann hætt fljótlega því hann hafi viljað greina rekstur sinn skýrlega frá rekstri sóknaraðila.  Hann hafi engan hug á að taka auðkennið upp aftur og því sé ekki yfirvofandi nein athöfn sem hægt sé að banna.

             Varnaraðili vísar til 24. gr. laga nr. 31/1990.  Sóknaraðili yrði ekki fyrir teljandi spjöllum þó varnaraðili héldi áfram notkun auðkenna sinna.  Þá njóti samkeppnis­hagsmunir sóknaraðila ekki lögverndar gegn rekstri varnaraðila, a.m.k. ekki eftir að þriggja ára tímabil samkvæmt samningnum sé liðið.

             Þá segir varnaraðili að sóknaraðili eigi engan rétt til auðkennisins „Hlölli”.  Þá mótmælir hann því að ruglast megi á merkjunum. 

             Þrautavarakröfu sína segir varnaraðili byggjast á því að sóknaraðili eigi engan rétt til að leggja hömlur á notkun sína á þeim auðkennum sem hann hafi notað.

             Til vara kveðst varnaraðili vísa til þess að hagsmunir sínir af því að nota auðkennin séu mun meiri en hagsmunir sóknaraðila af lögbanni, en þeir séu jafnframt nægilega tryggðir með bótareglum.  Nægilegt ætti að vera að hann setti tryggingu samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 og að lögbanni væri þar með afstýrt. 

 

             Forsendur og niðurstaða. 

             Kröfugerð sóknaraðila er nægilega skýr.  Hann krefst lögbanns við því að varnaraðili stundi ákveðna starfsemi undir tilteknum vörumerkjum.  Verður kröfum hans ekki hafnað með því að þær séu óljósar eða óákveðnar.  Vikið verður að því síðar hvort sóknaraðili geri hér víðtækari kröfur en hann gerði hjá sýslumanni og þá hvaða afleiðingar það hefði. 

             Ekki er upplýst í málinu hvort vörumerkið Hlöllabátar er nú skráð eða ekki og þá hvernig.  Ætla má að vörumerkjaréttur hafi stofnast til auðkennisins þó óskráð væri samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997.

             Réttindi sóknaraðila yfir vörumerkinu Hlöllabátar byggjast á kaupsamningi hans við Hlöllabáta ehf. frá 16. apríl 1998.  Aðalefni þess samnings er sala á rekstri tveggja veitingastaða í Reykjavík, á Ingólfstorgi og við Lækjargötu.  Einnig var húsnæði veitingastaðarins við Ingólfstorg selt.  Þá er svofellt ákvæði í 2. mgr. 1. gr. um vörumerkið:  „Afnotaréttur af nafninu Hlöllabátar fylgja með í kaupum þessum.  Þá fylgja með uppskriftir af gerð Hlöllabáta og heimild til framleiðslu og sölu þeirrar vöru á ofangreindum stöðum og öðrum sem kaupandi kann að starfrækja.”  Í 1. mgr. 5. gr. er kaupanda (sóknaraðila) heimilað:  „... að setja á fót fleiri veitingastaði undir nafninu Hlöllabátar.  Nær heimild þessi til starfrækslu slíkra staða á Íslandi en seljandi hefur einn heimild til að setja slíka veitingastaði upp erlendis.”  Síðan segir:  „Þeir staðir sem þegar eru starfræktir á Patreksfirði, Bolungarvík og Vestmannaeyjum halda nöfnum sínum svo lengi sem viðkomandi rekstraraðilar kæra sig um.  Þá breytist í engu réttur seljanda til starfrækslu veitingastaðar síns í Þórðarhöfða undir nafninu Hlöllabátar.” 

             Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. skyldi kaupandi eiga forkaups- og forleigurétt að umræddum veitingastað á Þórðarhöfða.  Þá var í 6. gr. sagt að samkomulag yrði gert milli aðila um verðlagningu og auglýsingar fyrir Hlöllabáta.

             Af efni samningsins er ljóst að sóknaraðili keypti aðeins hluta af þeim rekstri er Hlöllabátar ehf. stóðu fyrir á þessum tíma.  Þegar af þeirri ástæðu getur ekki komið til þess að hann verði talinn hafa eignast eignarrétt að vörumerkinu samkvæmt 2. mgr. 35. gr. vörumerkjalaga.  Þá verður að telja að í 2. mgr. 1. gr. samningsins sé skýrt kveðið á um það að kaupandi (sóknaraðili) fái afnotarétt af merkinu.  Þessi afnotaréttur er að sönnu víðtækur, veitir allt að því ótakmarkaðan rétt til notkunar hér á landi. 

             Það eru tvö atriði í 5. gr. samningsins sem kunna að horfa til skilnings á því hvaða réttindi sóknaraðili fékk í raun framseld.  Upphafsákvæði greinarinnar veitir sóknaraðila heimild til að opna veitingastaði og auðkenna þá með vörumerkinu.  Þetta væri óþarft ákvæði ef hann hefði eignast einkarétt til að nota merkið.  Í lokamálslið 1. mgr. 5. gr. er síðan tekið fram að réttur seljanda til að nota auðkennið á veitingastað við Þórðarhöfða breytist ekki.  Þetta ákvæði væri óþarft, nema ef hann hefði veitt einkarétt að merkinu eða til notkunar þess.  Þó mætti finna skýringu á tilvist þessa ákvæðis í 10. gr. samningsins.

             Þegar þessi samningsákvæði eru skoðuð og samningurinn í heild, þ.á.m. áðurgreind 6. gr., verður komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi ekki öðlast einkarétt til notkunar á vörumerkinu, hvort sem er eignarrétt eða einkanytjaleyfi.  Sóknaraðili á því ekki þau réttindi yfir merkinu að hann geti bannað varnaraðila nýtingu þess.  Verður því að hafna kröfu hans um lögbann. 

             Að fenginni þessari niðurstöðu þarf ekki að fjalla um hvort sannað sé að varnaraðili noti einungis nafnið „Hlölli” og hvort kröfugerð sóknaraðila hér fyrir dómi sé of víðtæk. 

             Í samræmi við þessa niðurstöðu verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað.

             Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

             Kröfu sóknaraðila um lögbann er hafnað.

             Sóknaraðili, Vörulagerinn ehf., greiði varnaraðila, His Heitum íslenskum samlokum ehf., 150.000 krónur í málskostnað.