Hæstiréttur íslands
Mál nr. 197/2009
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Umgengni
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 5. nóvember 2009. |
|
Nr. 197/2009. |
M (Dögg Pálsdóttir hrl. Þórarinn V. Þórarinsson hdl.) gegn K(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl., Þórdís Bjarnadóttir hdl.) |
Börn. Forsjá. Umgengnisréttur. Gjafsókn.
M og K deildu um forsjá dóttur sinnar. Dómkvaddur matsmaður hafði komist að þeirri niðurstöðu að aðilar væru bæði hæf til að fara með forsjá barns þeirra og hafði því mati ekki verið haggað með yfirmatsgerð. Héraðsdómur, skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, komst einnig að sömu niðurstöðu, en taldi það þjóna hagsmunum barnsins best að móðirin hefði forsjána. Í skýrslu matsmannsins kom ennfremur fram að það væri álit hans að K hefði komið í veg fyrir eðlileg tengsl barnsins við föðurfólk sitt og sú afstaða hefði vakið upp spurningar um hæfi hennar til að gæta hagsmuna stúlkunnar að þessu leyti. Talið var að þrátt fyrir að fram hefði komið í málinu að umgengni barnsins við föður og föðurfólk sitt hefði verið lítil sem engin frá því héraðsdómur gekk og K hefði verið ósamvinnuþýð varðandi umgengnina yrði að líta til þess að ekki væri enn fullreynt hvort K réði bót þar á. Því væri ekki að svo komnu nægileg ástæða til að raska þeirri skipan sem hefði verið á forsjá barnsins í rúm átta og hálft ár með því að fela hana M. Var niðurstaða héraðsdóms um að K færi með forsjá barnsins staðfest. Þá þótti rétt að ákveða barninu rýmri umgengni við M en gert hafði verið í héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2009. Hann krefst þess að sér verði dæmd forsjá dóttur aðila, A, og stefndu gert að greiða frá uppsögu dóms í málinu einfalt meðlag með henni til fullnaðs 18 ára aldurs. Hver sem úrslit málsins verða krefst áfrýjandi þess að ákveðið verði hvernig umgengni við barnið verði háttað. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var það niðurstaða dómkvadds matsmanns að aðilar væru bæði hæf til að fara með forsjá barns þeirra og hefur því mati ekki verið haggað með yfirmatsgerð. Héraðsdómur, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómsmönnum, sálfræðingi og félagsráðgjafa, komst að sömu niðurstöðu, en taldi það þjóna barninu best að móðirin hefði forsjána með vísan til 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Var jafnframt til þess litið að með því að raska ekki forsjánni væri best tryggður stöðugleiki í umönnun barnsins. Í skýrslu matsmanns fyrir héraðsdómi kom fram að það væri álit hans að stefnda hafi komið í veg fyrir eðlileg tengsl barnsins við föðurfólk sitt og vekti sú afstaða hennar upp spurningar um hæfi hennar til að gæta hagsmuna stúlkunnar að þessu leyti. Aðspurður um það hvort það myndi þjóna hagsmunum barnsins best að móðirin hefði áfram forsjána sagði matsmaðurinn: „Ef það yrðu tryggð eðlileg samskipti við föðurfjölskylduna þá kannski væri það svona best fyrir hana.“ Fram er komið í málinu að umgengni barnsins við föður og föðurfólk sitt hefur verið lítil sem engin frá því að héraðsdómur gekk, meðal annars vegna þess að móðir hefur flutt tímabundið af landi brott, en einnig sýna gögn málsins að hún hefur verið ósamvinnuþýð varðandi umgengnina. Þrátt fyrir það verður að líta til þess að ekki er enn fullreynt hvort stefnda ráði bót þar á og er því ekki að svo komnu alveg nægileg ástæða til að raska þeirri skipan sem verið hefur á forsjá barnsins í rúm átta og hálft ár með því að fela hana áfrýjanda. Með vísan til framangreinds og forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður niðurstaða hans um að stefnda fari með forsjá barnsins staðfest.
Báðir aðilar krefjast þess að kveðið verði á um umgengnisrétt, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Rétt er að ákveða barninu rúma umgengni við föður sinn og haga henni meðan barnið er búsett erlendis á þann veg að það dvelji hér á landi hjá honum önnur hver jól í tvær vikur frá og með 20. desember, í fyrsta sinn næstkomandi jól, í níu daga aðra hvora páska frá og með pálmasunnudegi, í fyrsta sinn árið 2010, og fjórar vikur að sumarlagi, en þar að auki á tveggja mánaða fresti í fimm daga í senn, frá og með síðasta miðvikudegi mánaðarins, í fyrsta sinn í nóvember 2009. Aðilar una niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um umgengnina þegar svo stendur á að barnið er búsett hér á landi að öðru leyti en því að áfrýjandi krefst þess að það dvelji hjá sér aðra hvora helgi frá föstudegi síðdegis til mánudagsmorguns. Er sú krafa hans tekin til greina. Ekki er ágreiningur um að það foreldranna sem ekki fær forsjá barnsins skuli greiða hinu einfalt meðlag með því.
Ákvæði héraðsdóms um máls- og gjafsóknarkostnað verða staðfest, en rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um að stefnda, K, fari með forsjá A, dóttur hennar og áfrýjanda, M, svo og um greiðslu meðlags, málskostnað og gjafsóknarkostnað.
Umgengni áfrýjanda við barnið skal þannig háttað á meðan stefnda og barnið búa erlendis: Barnið dvelji hér á landi hjá áfrýjanda önnur hver jól í tvær vikur frá og með 20. desember, í fyrsta sinn jólin 2009, aðra hvora páska í níu daga frá og með pálmasunnudegi, í fyrsta sinn árið 2010, fjórar vikur að sumarlagi og þar að auki á tveggja mánaða fresti í fimm daga í senn frá og með síðasta miðvikudegi mánaðarins, í fyrsta sinn í nóvember 2009. Staðfest er ákvæði héraðsdóms um umgengni á meðan barnið er búsett á Íslandi, þó þannig að það dvelji hjá áfrýjanda aðra hvora helgi frá föstudegi síðdegis til mánudagsmorguns.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefndu fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vesturlands 26. mars 2009.
Mál þetta var höfðað 27. mars 2008 og dómtekið 6. mars 2009. Stefnandi er M, [...] í Z, en stefnda er K, [...] í [...] í Noregi.
Stefnandi gerir eftirtaldar kröfur á hendur stefndu:
1. Að honum verði falin forsjá dóttur málsaðila, A, fædd [...] 1998, til 18 ára aldurs hennar.
2. Að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fær forsjá dótturinnar.
3. Að stefndu verði gert að greiða stefnanda einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hennar.
4. Að stefndu verði gert að greiða málskostnað.
Stefnda gerir eftirtaldar kröfur á hendur stefnanda:
1. Að kröfur stefnanda um forsjá verði hafnað og að stefndu verði falin forsjá barnsins til 18 ára aldurs þess.
2. Að ákveðið verði inntak umgengnisréttar við það foreldri sem ekki fer með forsjá barnsins.
3. Að stefnanda verði áfram gert að greiða stefndu einfalt lágmarksmeðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess.
4. Að stefnanda verði gert að greiða málskostnað eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Árið 1996 hófu málsaðilar óvígða sambúð í Z en þau voru þá bæði á 26. aldursári. Þau eignuðust síðan dóttur sína, A, fædda [...] 1998. Fyrir átti stefnda soninn B, fæddan árið 1993, sem ólst upp hjá stefndu og síðan málsaðilum eftir að sambúð þeirra hófst.
Málsaðilar bjuggu í Z þar til sambúð þeirra slitnaði í mars 2001. Hinn 15. þess mánaðar staðfesti sýslumaðurinn á [...] samkomulag málsaðila um að stefnda færi með forsjá stúlkunnar og að stefndi greiddi einfalt meðlag með barninu.
Eftir sambúðarslitin flutti stefnda með börnin til Reykjavíkur, en hún festi kaup á íbúð í [...]hverfi. Allt frá sambúðarslitum foreldra hefur stúlkan búið hjá stefndu. Stúlkan var fyrst í leikskólanum X og síðan gekk hún í [...]skóla. Haustið 2005 fluttist fjölskyldan til Y og fór stúlkan þá í [...]skóla. Vorið 2008 flutti síðan stefnda með börn sín til Noregs og hefur verið búsett í bænum [...] skammt frá Ósló. Hóf stúlkan skólagöngu þar þá um haustið.
Málsaðilum ber saman um að fyrst eftir sambúðarslitin hafi umgengni dótturinnar og stefnanda gengið vel. Á því tímabili mun sonur stefndu einnig hafa haft umgengni við stefnanda. Eftir að stefnandi kynntist núverandi eiginkonu sinni, C, í september 2002 fór að bera á erfiðleikum í samskiptum aðila. Frá þeim tíma hætti sonur stefndu að hafa umgengni við stefnanda.
Stefnandi og eiginkona hans töldu að stefnda sinnti ekki með viðunandi hætti uppeldi dóttur málsaðila og beindu af því tilefni tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur í október 2004. Þar var málið kannað og var niðurstaða þeirrar athugunar að stefnda þyrfti að takast á við persónulega erfiðleika til að geta sinnt uppeldinu. Var ekki talið forsvaranlegt að ljúka vinnslu málsins fyrr en að loknu mati á forsjárhæfni. Einnig var gert ráð fyrir að stefnda fengi aðstoð sálfræðings til að taka á persónulegum vanda sínum og samskiptum hennar við börnin. Stefnda fór í viðtöl til Baldvins H. Steindórssonar, sálfræðings, vorið 2005. Samkvæmt bréfi sálfræðingsins til Barnaverndar Reykjavíkur 18. júlí það ár hafði henni orðið ýmislegt ágengt. Einnig taldi sálfræðingurinn að henni nýttist áframhaldandi stuðningur eða meðferð. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að mat á forsjárhæfni stefndu hafi farið fram á vegum Barnaverndar Reykjavíkur og lauk vinnslu barnaverndarmálsins vegna dóttur málsaðila árið 2005.
Með bréfum félagsmálastjóra Borgarbyggðar 11. og 25. júní 2007 var stefnandi kærður fyrir kynferðislega áreitni í garð dóttur málsaðila og sonar stefndu. Af því tilefni var tekið fyrir umgengni stefnanda við telpuna. Með bréfi ríkissaksóknara 25. febrúar 2008 var málið fellt niður þar sem rannsóknargögn þóttu ekki nægjanlega líkleg til sakfellis. Var þetta reist á því að ýmislegt þótti veikja framburð barnanna. Aftur á móti sagði í bréfinu að ekki yrði tekið undir með stefnanda að framburðir barnanna væru rangir.
Eftir að ríkissaksóknari tók ákvörðun sína 25. febrúar 2008 um að fella niður sakamálið komst ekki aftur á umgengni barnsins við stefnanda. Undir meðferð málsins hefur þó verið komið á vikulegum símtölum barnsins við stefnanda frá ársbyrjun 2009.
II.
Stefnandi er fæddur í Reykjavík árið 1970 og er 38 ára að aldri. Stefnandi er yngstur af þremur börnum foreldra sinna. Foreldrar stefnanda ráku garðyrkjufyrirtæki í Reykjavík þar til stefnandi var fimm ára að aldri en þá flutti fjölskyldan til [...] þar sem foreldrar hans reka [...].
Stefnandi lauk grunnskólanámi í [...]vorið 1985. Stefnandi átti við lestrarörðugleika að stríða og var hann greindur lesblindur árið 2004. Það ár hóf hann nám í [...]skólanum á [...] í [...] og lauk þaðan námi árið 2006 á [...]braut. Eftir að stefnandi lauk grunnskólanámi vann hann ýmis störf, meðal annars í [...], [...] þar í bæ og hjá foreldrum sínum við garðyrkjustörf, þar sem stefnandi starfar nú.
Fram kemur í gögnum málsins að stefnandi sé slæmur í baki, með mígreni og meltingarsjúkdóm. Að öðru leyti er stefnandi heilsuhraustur. Þá segist hann sjaldan drekka áfengi.
Svo sem áður getur kynntist stefnandi núverandi eiginkonu sinni, C, í september 2002, en þau gengu í hjúskap 2. júní 2006. C er hjúkrunarfræðingur og starfar hjá [...]. Saman eiga hjónin eina dóttur, D, fædda [...] 2003.
III.
Stefnda er fædd í Reykjavík árið 1970 og er 38 ára að aldri. Hún er elst í hópi þriggja alsystra. Þegar stefnda var fimm ára að aldri skildu foreldrar hennar. Móðir hennar giftist á ný og átti dóttur með þeim manni. Eftir skilnað foreldra ólst stefnda upp hjá móður sinni og stjúpföður en hann andaðist árið 2005. Fram hefur komið hjá stefndu að móðir hennar hafi á uppvaxtarárum stefndu verið í miklu ójafnvægi og iðulega lagt hendur á stefndu. Samskipti stefndu við föður sinn voru stopul eftir skilnað foreldra og rofnuðu þau við 10 ára aldur stefndu. Fyrir nokkrum árum tók stefnda aftur upp samband við föður sinn og hefur hann stutt hana fjárhagslega.
Árið 1993 kynntist stefnda bandarískum manni og bjuggu þau saman í Bandaríkjunum um nokkurra mánaða skeið. Með þeim manni átti stefnda son sinn B. Stefnda sleit sambandinu við manninn áður en barnið fæddist og hafa engin samskipti verið við hann síðan.
Stefnda gekk í [...]skóla og síðan í [...]skóla þaðan sem hún lauk grunnskólaprófi. Hún fór síðan í Iðnskólann og tók þaðan sveinspróf í hárgreiðslu árið 1991. Stefnda fór svo í [...]skólann á [...] í [...] og lauk þaðan prófi árið 1998. Þá lauk stefnda BS-gráðu í umhverfisskipulagsfræði frá [...]skólanum á [...] vorið 2008. Stefnda hóf mastersnám haustið 2008 í landslagsarkitektúr við [...]háskólann í [...] í Noregi og gerir ráð fyrir að vera þar við nám í 23 ár.
Eftir að stefnda tók sveinspróf í hárgreiðslu starfaði hún við þá iðn í þrjú ár en þurfti að hætta vegna ofnæmis fyrir efnum sem notuð eru við þau störf. Hún starfaði síðan í nokkur ár við garðyrkju þar til hún hóf nám í þeirri grein. Að loknu því námi vann hún við garðyrkjustörf á ýmsum stöðum þar til hún hóf nám á [...].
Stefnda var í sambúð í eitt ár eftir að hún flutti til Reykjavíkur frá Z. Þeirri sambúð lauk árið 2005 í kjölfar þess að sambýlismaðurinn beitti stefndu ofbeldi. Stefnda hefur verið heilsuhraust og segist hún drekka áfengi mjög sjaldan.
IV.
Við þroskamat sem gert var á A, dóttur málsaðila, þegar stúlkan var á 3. aldursári, kom í ljós að hún var nokkuð á eftir í þroska. Talið var sennilegt að þetta stafaði af eyrnabólgu, sem stúlkan hafði þjáðst af frá unga aldri, og verulega skertri sjón.
Í skýrslu talmeinafræðings frá 11. febrúar 2003, þegar stúlkan var 5 ára að aldri, kom fram að hún hefði verið um einu ári á eftir í málþroska. Einnig sagði að telpan næði ekki að mynda rétt fjölmörg málhljóð og erfitt gæti verið að skilja tal hennar, jafnvel af allra nánustu.
Í febrúar 2006, þegar stúlkan var 8 ára gömul, var lagt fyrir hana málþroskapróf. Samkvæmt skýrslu félags- og skólaþjónustu Borgarbyggðar voru niðurstöður þeirra prófa að málþroskatala A væri langt á eftir jafnöldrum. Á sama tíma var einnig gert þroskamat á stúlkunni. Við það var lagt fyrir hana Wechsler greindarpróf og samkvæmt því var árangur á mörkum slaks meðallags og meðallags. Í niðurstöðum þroskamatsins kom fram að A glímdi við námsvanda. Niðurstöður bentu einnig til veikleika á málsviði og áhættuþátta við lestur og stærðfræði. Hins vegar hefði hún áberandi styrkleika í sjónrænni úrvinnslu.
Í desember 2007 var gerð lestrarathugun á stúlkunni en þá var hún rétt tæplega 8 ára að aldri. Samkvæmt skýrslu félags- og skólaþjónustu Borgarbyggðar sýndu niðurstöður þeirrar athugunar skýrt mynstur lestrarörðugleika (dyslexiu).
V.
Með matsbeiðni 11. júní 2008 fór stefnandi þess á leit að dómkvaddur yrði matsmaður til að kanna og leggja sérfræðilegt mat á forsjárhæfni málsaðila svo unnt yrði að komast að niðurstöðu um hvort þeirra teldist hæfara til að fara með forsjána. Hinn 12. sama mánaðar var Ágústa Gunnarsdóttir, sálfræðingur, dómkvödd og skilaði hún matsgerð sinni 25. nóvember sama ár. Þykir rétt að rekja í meginatriðum efni matsgerðarinnar að því marki sem haft getur áhrif við úrlausn málsins.
Fyrir málsaðila var lagt persónuleikapróf (Personality Assassement Inventory), sem gefur til kynna persónugerð og þau geðrænu einkenni sem mest eru áberandi í samanburði við viðmiðunarhópa. Niðurstöður þessa prófs voru eftirfarandi að áliti matsmanns:
Stefnandi:
Réttmætiskvarðar prófsins sýna að hann hafi haft tilhneigingu til að sýna sig í jákvæðu ljósi, vera tiltölulega laus við almenna veikleika eða vanda sem margir einstaklingar hafa. Hann virðist frekar tregur til að viðurkenna persónulegar takmarkanir og hugsanlega bæli hann eða afneiti álagi. Þetta gerir þó ekki niðurstöður ógildar. Ekki er óeðlilegt að einstaklingar sem taka persónuleikapróf við þessar aðstæður lýsi sér á jákvæðan hátt.
Klínískir kvarðar prófsins benda ekki til geðrænna vandamála. Próftaki lýsir vissum vanda sem tengist skapsveiflum. Sjálfslýsing hans bendir til að hann sé fljótur til að finnast hann vera beittur órétti og trúir auðveldlega að það sé verið að grafa undan hagsmunum hans. Hann lýsir áhyggjum af líkamlegri virkni sinni og heilsuvanda almennt. Hann greinir frá ýmsum almennum lítilsháttar líkamlegum einkennum, eins og höfuðverk, verkjum eða meltingarvanda. Líkamleg einkenni eru oft tengd depurð og kvíða.
Samkvæmt lýsingu hans virðist hann ekki eiga erfitt með að setja sig í spor annarra, sýnir ekki skapsveiflur eða hvatvísi. Hann virðist ekki vera vansæll, hvorki þunglyndur né kvíðinn. Hann telur sig ekki glíma við áfengisvanda, en próftaki lýsir ákveðnum persónuleikaeinkennum sem oft tengjast áfengisneyslu.
Sjálfsmynd hans virðist almennt vera jákvæð og stundum er sjálfsmat hans ógagnrýnið. Í samskiptum er hann sjálfsöruggur, öruggur og ráðandi. Aðrir hugsanlega sjá hann sem metnaðarfullan og með eiginleika leiðtoga. Honum líður vel í félagslegum aðstæðum en kýs samskipti þar sem hann getur haft stjórn. Hann virðist ekki vera undir meira álagi en gengur og gerist almennt. Hann greinir frá því að hann hafi gott stuðningsnet og margt fólk sem hann getur leitað til þegar hann þarf aðstoð.
Stefnda:
Einn réttmætiskvarði prófsins er yfir klínískum mörkum sem bendir til að hún hafi svarað ýmsum atriðum prófsins á óvenjulegan hátt. Annar réttmætiskvarði sýnir að hún hafi haft tilhneigingu til að sýna sig í jákvæðu ljósi, vera tiltölulega laus við almenna veikleika eða vanda sem margir einstaklingar hafa. Hún virðist treg til að viðurkenna minnsta veikleika og gerir lítið úr vanda. Þessi varnarháttur hennar dregur úr trúverðugleika prófniðurstöðu. Ekki er óeðlilegt að einstaklingar sem taka persónuleikapróf við þessar aðstæður lýsi sér á jákvæðan hátt.
Klínískir kvarðar prófsins eru allir í meðallagi og benda ekki til geðrænna vandamála. Samkvæmt lýsingu hennar sýnir hún ekki andfélagslega hegðun, getur sett sig í spor annarra, sýnir ekki fjandsemi, er ekki skapbráð eða hvatvís. Hún er hvorki kvíðin né glímir við heilsuvanda. Hún telur sig ekki eiga við áfengisvanda, en próftaki lýsir ákveðnum persónuleikaeinkennum sem oft tengjast áfengisneyslu.
Sjálfsmynd hennar virðist jákvæð. Hún er venjulega sjálfsörugg og bjartsýn. Hún sýnir seiglu og aðlögun í streituaðstæðum. Í samskiptum er hún sjálfstæð og í jafnvægi.
Matsmaður lagði sjálfsmatskvarða Becks fyrir A en sá kvarði er ætlaður börnum á aldrinum 714 ára. Um niðurstöður þess prófs segir svo í matsgerðinni:
Svarmynstur A líkist mjög svarmynstri barna sem eru kvíðin. Hún kveðst alltaf sofa illa, eigi erfitt með að sofna, hún óttist að hún sé að veikjast eða það sé eitthvað að henni, sé hrædd um að verða særð eða að meiðast og hefur áhyggjur af að fá lélegar einkunnir í skóla. Hún á oft erfitt með að koma sér að verki, langar stundum að gráta og er döpur. Sjálfsmat hennar er í meðallagi, hún er ánægð með sig, finnst hún vera góð manneskja, er góð við aðra, er ánægð með líkama sinn og er ánægð að vera hún. Þunglyndiseinkenni eru fá hjá henni og færri en gerast hjá jafnöldrum. Reiði er mjög lítil hjá A og hún ber góðan hug til fólks. Hún sýnir ekki truflandi hegðun og kemur vel fram við aðra.
Í niðurlagi matsgerðarinnar er að finna kafla með samantekt og ályktunum matsmanns sem er svohljóðandi:
Persónulegir eiginleikar og hagir foreldra
M og K hófu sambúð haustið 1996. Aðilar eru sammála um að sambúðin hafi verið stormasöm og brestir hafi komið í sambandið mjög snemma. Þau eignast saman A í janúar 1998. Þau halda sambandinu áfram vegna dóttur sinnar fram á sumar 2001 er þau skilja endanlega. Eftir skilnað þeirra var gott samkomulag varðandi forsjá og umgengni. Móðir fékk forsjá stúlkunnar og faðir ríflega umgengni. Í byrjun kom eldri hálfbróðir stúlkunnar einnig með henni í umgengni til föður. Allt gekk vel þar til faðir fór í annað samband. Stjúpsonur hans hætti að koma og árekstrar urðu tíðir í sambandi við umgengni stúlkunnar. Aðilar máls eru sammála um að erfiðleikar í samskiptum hafi byrjað þegar faðir fór í samband við núverandi eiginkonu sína. Móður fannst nýja konan vera stjórnsöm og taka fram fyrir hendurnar á sér sem varð til þess að móðir dró til baka munnlegt samkomulag við föður um ríflega umgengni. Í október 2004 tilkynnti faðir og eiginkona hans móður til barnaverndar vegna lélegrar umhirðu stúlkunnar, líkamlegrar vanrækslu og exems sem ekki var meðhöndlað.... Málið var kannað frekar og í framhaldi af því var haldinn sáttafundur hjá félagsmálayfirvöldum án árangurs. Eftir fundinn urðu samskipti málsaðila mun stirðari og leiddu til algjörs samskiptaleysis í kjölfar ásakana K á hendur M fyrir meinta kynferðislega áreitni í garð A í júní 2007. Málið var fellt niður í febrúar 2008 þar sem saksóknari taldi málið ólíklegt til sakfellis. M neitaði ætíð sök. Eftir að kæran kom fram í júní 2007 hefur faðir hvorki hitt né heyrt í dóttur sinni. Ennfremur var slitið á nánast allt samband við föðurfjölskylduna.
Móðir flutti til Noregs í júní 2008 stuttu áður en faðir óskaði eftir farbanni á stúlkuna. Móðir segir að það hafi verið ákveðið fyrir löngu að hún færi til Noregs í nám og að ekkert óeðlilegt hafi verið við brottflutning þeirra mæðgna.
Móðir býr ásamt börnunum sínum tveimur í 3ja herbergja stúdentaíbúð í [...]. Móðir er á námslánum og hefur leigutekjur af íbúð sinni í Reykjavík. Faðir er í dag kvæntur C og eiga þau saman fimm ára dóttur. Þau búa í einbýlishúsi í Z. Þau eru bæði útivinnandi í traustu starfi og hafa ágætar tekjur.
Í niðurstöðum á persónuleikaprófum foreldra eru engar vísbendingar um geðraskanir. Svarmynstur þeirra beggja sýnir að þau hafi haft tilhneigingu til að sýna sig í jákvæðu ljósi, telja sig laus við almenna veikleika eða vanda sem fólk almennt hefur. Ekki er óeðlilegt að einstaklingar sem taka persónuleikapróf við þessar aðstæður lýsi sér á svipaðan hátt. Sjálfslýsing föður bendir þó til að honum finnist hann beittur órétti, en niðurstöður móður ber að túlka með varúð þar sem svarmynstur hennar telst óvenjulegt og dregur úr trúverðugleika niðurstöðu prófsins.
Þegar móðir mat líðan dóttur sinnar á CBCL matslista kom í ljós að hún sá ekki í fari stúlkunnar nein einkenni vandkvæða í hegðun eða tilfinningum. Allir kvarðar voru í meðallagi sem þýðir að móðir meti það svo að stúlkan sýni ekki meiri merki vanlíðunar en börn almennt á hennar aldri.
Þegar K talaði um meinta kynferðislega áreitni sýndi hún engin tilfinningaleg viðbrögð, en reiði, saknaðar og sorgar gætti þegar M og fjölskylda hans talaði um málið. Þau telja málið runnið undan rifjum K til að koma í veg fyrir að stúlkan fái að umgangast föðurfjölskyldu sína. Eiginkona M grét þegar hún ræddi um málið og hvernig komið væri fyrir A.
Tengsl barns við foreldra og óskir barns um framtíðarbúsetu
Faðir hefur eins og áður hefur komið fram ekki hitt dóttur sína síðan í júní 2007. Fyrir þann tíma kom stúlkan í reglulega umgengni til föður. Stúlkan hafði lýst því yfir við föður sinn að hún myndi vilja búa hjá honum. Eiginkona föður tók stúlkunni vel og kallaði stúlkan hana [...] mömmu þegar hún var í umgengni. Í viðtali við matsmann tjáði stúlkan sig um að hún vildi búa hjá mömmu sinni og B. Hún sagði að sér fyndist leiðinlegt ef hún væri ekki hjá mömmu sinni og B því henni þætti svo vænt um þau. Einnig sagði hún að mamma sín yrði leið ef hún byggi ekki hjá henni og myndi sakna hennar. Stúlkan hefur búið hjá móður sinni eftir skilnað foreldra hennar, fyrst í Z, síðan í Reykjavík, á [...] og sl. sumar flutti hún til Noregs með móður sinni og eldri hálfbróður.
Í viðtali með matsmanni teiknaði stúlkan mynd af fjölskyldu sinni. Enginn úr föðurfjölskyldu hennar var á myndinni. Hún teiknaði bróður sinn fyrst, síðan móður sína og fjóra aðila úr móðurfjölskyldu. Stúlkan var svo upptekin af því að teikna sem flesta af móðurfjölskyldu sinni á myndina að hún gleymdi að teikna sjálfa sig þar til matsmaður spurði hana í tvígang hvort ekki vantaði einhvern mikilvægan inn á myndina, þá mundi hún eftir sér. Mjög óvenjulegt er að börn gleymi að teikna sig sjálf. Þau setja sig sjálf venjulega í forgrunn og teikna aðra í kringum sig.
Margt bendir til þess að A sé í tilfinningalegri klemmu milli foreldra sinna eftir skilnaðinn. Einnig að hún leggi sig fram við að sýna móður sinni hollustu, með ýmsu móti. Það þarf ekki að þýða að K sjálf sé meðvitað að setja henni einhver boð og bönn, heldur að stúlkan skynji andrúmsloftið milli foreldra sinna. Mjög sláandi er að hún nefndi aldrei föður sinn nánast á nafn í viðtalinu, hún hafði heldur ekkert frumkvæði að einhverju frekari spjalli um föður sinn, spurði ekkert um hann eða fólkið hans. Í hvert sinn sem matsmaður reyndi að nálgast þetta umræðuefni breyttist hegðun stúlkunnar, hún varð stundum kjánaleg og reyndi að beina athyglinni að algjörlega óskyldu viðfangsefni eins og t.d. hvort við hefðum séð hina og þessa bíómynd. Stundum svaraði hún einnig á mjög fullorðinslegan hátt „ég vil ekki tala um þetta“ eða „ég vil ekki svara þessari spurningu“. Þá forðaðist hún augnsamband við matsmenn, hélt hendi fyrir andlit sitt eða grúfði sig fram í stólnum og sneri baki í matsmenn. Stutta stund í viðtalinu var eins og A gleymdi sér augnablik og ræddi á mjög eðlilegan og glaðlegan hátt um pabba sinn, mömmu [...], [...] og fleiri úr föðurfjölskyldu sinni. Að mati matsmanns geta þetta verið vísbendingar um þá tilfinningaklemmu sem hún er í.
Þegar A var spurð út í atriði varðandi föður sinn, hvort hún saknaði hans eða hvort hún vildi fara í heimsókn til hans gáfu svör hennar hugsanlega til kynna að einhver fullorðinn kunni að hafa haft áhrif á svör hennar. Eins og áður sagði var hún fljót að svara á fullorðinslegan hátt “ég vil ekki svara þessari spurningu” eða “ég vil ekki tala um þetta”. Önnur dæmi að hún sagði að hún gæti ekki talað við föður sinn í síma því það væri svo dýrt að hringja frá Noregi til Íslands, afi og amma hennar á Íslandi væru alltaf að vinna og hefðu ekki tíma til að sinna henni og að mamma [...] væri að vinna á nóttunni. Einnig nefndi hún að þau yrðu í Noregi í þrjú ár og hún gæti ekki hitt pabba sinn því sennilega yrðu þau áfram í Noregi. Þetta eru líka vísbendingar um þá tilfinningaklemmu sem hún er í og það er mat matsmanns að þrátt fyrir allt sakni stúlkan pabba síns og föðurfjölskyldunnar. Að mati matsmanns eru vísbendingar um það þegar matsmaður spurði hvort hún væri með einhver skilaboð til pabba síns teiknaði hún hjarta á blað sem skilaboð til hans og sagði matsmanni síðar undir lok viðtalsins með tilfinningu að hún saknaði hans.
Niðurstöður sjálfsmatskvarða Becks sem A svaraði líkist mjög svarmynstri barna sem eru kvíðin. Hún kveðst alltaf sofa illa, eigi erfitt með að sofna, hún óttist að hún sé að veikjast eða það sé eitthvað að henni, sé hrædd um að verða særð eða að meiðast og hefur áhyggjur af að fá lélegar einkunnir í skóla. Hún á oft erfitt með að koma sér að verki, langar stundum að gráta og er döpur. Sjálfsmat hennar er í meðallagi, hún er ánægð með sig, finnst hún vera góð manneskja, er góð við aðra, er ánægð með líkama sinn og er ánægð að vera hún. Þunglyndiseinkenni eru fá hjá henni og færri en gerast hjá jafnöldrum. Reiði er mjög lítil hjá A og hún ber góðan hug til fólks. Hún sýnir ekki truflandi hegðun og kemur vel fram við aðra.
Systkinahópur
A á tvö hálfsystkini; móðurmegin er B fæddur 1993 og föðurmegin er D fædd 2003. A hefur alist upp með B fyrir utan þau ár sem hann var í fóstri á vegum barnaverndar. Gott samband virðist vera á milli þeirra systkina og segist A mundi sakna hans ef hún byggi ekki hjá honum. Hún vildi lítið ræða um D en að sögn föður náðu þær vel saman þegar A var í umgengni hjá honum.
Breyting á umhverfi
A er nýflutt til Noregs með móður sinni og eldri hálfbróður. Hún hefur aldrei áður farið til útlanda og var þetta mikil breyting fyrir hana. Hún virðist sakna Íslands og skólafélaga sinna. Hún hefur aðlagast ágætlega nýju umhverfi, er byrjuð í skóla, er að læra nýtt tungumál og hefur eignast vinkonur. Fái faðir forsjána mun stúlkan búa í Z í umhverfi sem hún þekkir mjög vel. Hún bjó þar með foreldrum sínum og kom í reglulega umgengni eftir skilnaðinn til föður í Z. Þar á hún einnig vinkonur.
Húsnæðismál
Faðir býr ásamt eiginkonu sinni og dóttur í 200 fm einbýlishúsi í Z. Fallegur og vel hirtur garður er í kringum húsið og búa þau í mjög barnvænu umhverfi. A hefur sérherbergi hjá þeim þar sem hún hefur góða aðstöðu. Móðir býr ásamt börnum sínum í 3ja herbergja stúdentaíbúð í [...] í Noregi. Umhverfið er barnvænt og stutt er í skóla fyrir A. Stúlkan hefur sérherbergi og góða aðstöðu.
Liðsinni vandamanna
Faðir hefur gott stuðningsnet í kringum sig; foreldrar hans, systkini og vinir í Z, einnig foreldrar eiginkonu hans. Þau öll standa þétt við bakið á honum. K hefur stuðning af móðurbróður sínum og eiginkonu hans. Hún er í litlu sambandi við foreldra sína og systur og hefur takmarkaðan stuðning þar. Hún er í sambandi við eina systur sína og vinkonur.
Umgengni barns og forsjárlauss foreldris
M hafði lengi hugsað um að sækja um forsjá stúlkunnar en óttaðist að móðirin myndi láta stúlkuna gjalda þess. Um tíma var búið að vera erfitt samkomulag milli þeirra og erfitt var fyrir föður að fá stúlkuna til sín utan hefðbundinnar umgengni eins og t.d. þegar hann gifti sig. Dropinn sem fyllti mælinn var þegar móðir kærði hann fyrir meinta kynferðislega áreitni, þá hafi hann ákveðið að sækja um forsjá stúlkunnar, þar sem hann getur ekki hugsað sér að dóttir hans lifi í lyginni lengur. Hann sæki um forsjá hennar því honum sé mjög annt um hana og þau hjónin geti boðið stúlkunni ást og umhyggju. Hann vill stuðla að því að stúlkan vaxi úr grasi með gott veganesti sem fæst í ástríku uppeldi og góðu sambandi við foreldra sína.
Hann telur að forsjá stúlkunnar sé betur komin hjá sér en K. Hann telur sig geta veitt barninu þann andlega stuðning sem hún þurfi, hann geti hjálpað henni með námið, geti boðið henni upp á stöðugleika og sé ekki í stöðugum flutningum eins og móðir hennar. Hjá honum sé hún í góðu sambandi við föðurfjölskyldu sína, vinkonur hennar og vinir búi einnig í Z og hún hafi góða aðstöðu hjá honum. Eiginkona hans hafi tekið stúlkunni sem sinni eigin dóttur og hafi A kallað hana mömmu þegar hún var hjá þeim í umgengni og hafi þær náð vel saman.
M telur sig vera hæfari uppalanda en K. Hann sé laus við skapsveiflur sem hún hafi. Hún skipti oft um vinnu, en hann sé stöðugur í vinnu. Hann hlusti á barnið sitt og sé til staðar fyrir hana. Þarfir fjölskyldunnar séu honum efstar í huga. Faðir telur að heimilisaðstæður barnsins yrðu mjög góðar fengi hann forsjána. Hann telur sig geta búið stúlkunni öryggi, menntun og góða og trygga framtíð. Hann segist munu gera allt sem hann geti til að hjálpa henni að aðlagast og er tilbúinn til að leita sér aðstoðar fagmanns um hvernig best sé að standa að komu stúlkunnar. Fái hann forsjá stúlkunnar myndi hann vilja hafa reglulega umgengni aðra hverja helgi og umgengni um jól, páska og sumarleyfi verði eins og getið er í stefnu hans sem lögð var fram í Héraðsdómi Vesturlands hinn 1. apríl 2008. Hann ætlar að virða almenna umgengnissamninga fái hann forsjána. Faðir yrði fyrir miklum vonbrigðum fái móðir forsjá stúlkunnar, en hann segist munu halda áfram að berjast fyrir því að stúlkan fái að kynnast föðurfjölskyldu sinni. Fái móðir forsjána myndi faðir vilja hafa reglulega umgengni aðra hverja helgi, en sem mesta umgengni um jól, páska og í sumarfríi. Hann segist vilja fá eitthvað að segja um hagsmuni barnsins.
Móðir telur það stúlkunni fyrir bestu að hún haldi áfram að hafa forsjá hennar. Hún sinni þroskamálum hennar, þær mæðgur séu mjög nánar og að stúlkan sé mjög hænd að eldri bróður sínum. Móðir telur sig hæfari uppalanda en föður, hún hafi sinnt öllum málum stúlkunnar og stuðlað að andlegri vellíðan hennar. Fái hún forsjána yrðu litlar breytingar á heimilisaðstæðum stúlkunnar og telur hún sig geta boðið henni mjög góða framtíð. Hún hefur engar hugmyndir um það hvernig umgengni við föður yrði fái hún forsjána. Hún telur að sálfræðingur og barnavernd þurfi að meta aðstæður og tryggja þyrfti öryggi stúlkunnar og einnig þyrfti stúlkan að hafa vilja til að hafa samband við föður sinn. Fái faðir forsjána óttast móðir um öryggi stúlkunnar. Það hefði mikil áhrif á hana og móðir er ekki viss hvernig hún myndi bregðast við, en myndi hafa verulegar áhyggjur af stúlkunni, af þroska hennar, öryggi og vellíðan. Varðandi samninga út frá þörfum stúlkunnar sagði móðir að hún viti ekki hvort þau M geti náð saman. Henni finnst móðir hans og eiginkona hafa verið með yfirgang við hana og telur að þær komi í veg fyrir að hún og M nái samkomulagi. Til þess að geta virt almenna umgengnissamninga vill móðir fá tryggingu fyrir því að stúlkan verði örugg í umsjá föður og vill leysa málið með aðstoð fagaðila.
Félagsleg staða föður og félagslegt net hans er sterkara en móður. Hann er í betri tengslum við foreldra sína og fjölskyldu sína, er með gott vinanet í kringum sig, en móðir á erfiðara með tengslamyndun, er í litlu sambandi við foreldra sína og fjölskyldu. Skap hennar hefur verið óútreiknanlegt en hún hefur gert ýmislegt til að bæta það. Hana skortir sveigjanleika, virðist ekki setja þarfir stúlkunnar í forgrunn og hefur móðir slitið á allt samband stúlkunnar við föðurfjölskylduna. Stúlkan hefur ekki einu sinni fengið að ræða í síma við föður sinn, afa eða ömmu. Móðir virðist yfirfæra samskiptavandamál sín við fjölskyldu M á stúlkuna sem til dæmis kemur fram í algerum viðskilnaði við föðurfjölskylduna. Ef málið fellur ekki móður í hag sér hún ekkert framhald, en aftur á móti faðir, ef málið fellur honum ekki í hag, sér framhald. Hann segist munu halda áfram að berjast fyrir því að stúlkan fái að kynnast föðurfjölskyldu sinni. Faðir talar um hvernig hann vilji tryggja umgengni stúlkunnar við móður og virða almenna umgengnissamninga fái hann forsjána en móðir ræddi það ekki og vildi setja það í hendur á fagaðilum eða láta stúlkuna ákveða hvort hún hitti föður sinn, fái hún forsjána. Að mati matsmanns er það óraunhæft að setja stúlkuna í þá stöðu að þurfa að velja á milli foreldra sinna. Í þessu máli tekur stúlkan stöðu með móður sinni og ef hún segðist vilja hitta föður sinn væri hún að „svíkja“ móður sína. Barn á ekki að þurfa að velja milli á foreldra sinna, það á rétt á samskiptum við báða foreldra og fjölskyldur þeirra.
VI.
Stefnandi reisir kröfu sína um að honum verði falin forsjá barnsins á því að það sé barninu fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Til stuðnings þessu heldur stefnandi því fram að hann sé hæfari en stefnda til að fara með forsjána. Í því sambandi fullyrðir stefnandi að hann hafi meiri skilning á þörfum stúlkunnar og sé betur til þess fallinn að veita henni ást, umhyggju og stöðugleika. Einnig telur stefnandi að hans uppeldisaðferðir séu heppilegri og vænlegri til árangurs en aðferðir stefndu sem stefnandi telur of harkalegar. Í þeim efnum bendir stefnandi á að þegar stúlkan fékk lús í 1. bekk grunnskóla hafi stefnda gripið til þess ráðs að raka af henni sítt og mikið hár í stað þess að kemba það og þvo. Hafi það verið stúlkunni mikil raun og valdið henni vanlíðan að ganga um með krúnurakað höfuðið sem duldist engum. Þá telur stefnandi að vanhæfni stefndu til að fara með forsjána hafi komið fram og bendir í því sambandi meðal annars á að barnaverndaryfirvöld hafi haft afskipti af henni. Jafnframt vísar stefnandi til þess að líkamlegri og andlegri umönnun dótturinnar sé ábótavant hjá stefndu.
Stefnandi tekur fram að hann hafi miklar áhyggjur af þroska dóttur sinnar og telur að hún sé á eftir jafnöldrum sínum í þroska. Því sé afar brýnt að örva hana á alla lund og hvetja, en það fullyrðir stefnandi að stefnda geri ekki. Jafnframt heldur hann því fram að stefnda hvorki aðstoði stúlkuna við heimanámið né hvetji hana til að vinna verkefni sem auki skilning hennar og þroska, eins og hún nauðsynlega þurfi. Allt þetta hafi stefnandi hins vegar gert þegar stúlkan var hjá honum í umgengni. Einnig tekur stefnandi fram að hann hafi áhyggjur af andlegri líðan dóttur sinnar hjá stefndu og telur sig merkja breytingar á hegðun hennar til hins verra. Áður hafi hún verið mun glaðværari og kát sem barn. Síðustu misseri hafi hún hins vegar sýnt einkenni kvíða og þunglyndis.
Stefnandi vísar til þess að rík tengsl séu milli hans og dóttur sinnar. Hafi hann annast telpuna fyrstu árin og síðan haft reglulega umgengni við stúlkuna eftir að sambúðin við stefndu slitnaði allt þar til um mitt ár 2007 þegar stefnda tók fyrir umgengnina og flutti síðan af landi brott. Frá ársbyrjun 2009 hafi stefnandi síðan átt vikuleg samtöl símleiðis við barnið. Einnig telur stefnandi að matsgerð málsins staðfesti góð tengsl hans og barnsins.
Þá tekur stefnandi fram að stúlkunni hafi liðið mjög vel í umgengni hjá sér. Þar þekki hún vel til og eigi góða vini og aðstæður allar hinar bestu. Einnig fullyrðir stefnandi að hann muni stuðla að góðri og ríflegri umgengni við stefndu. Þess sama megi hins vegar ekki vænta af hennar hálfu í ljósi reynslunnar. Hér vísar stefnandi til þess að stefnda hafi tálmað umgengni frá árinu 2007 og síðan flutt af landi brott með barnið. Megi gera ráð fyrir slíkum hindrunum af hálfu stefndu hér eftir sem hingað til og því séu augljósir erfiðleikar fyrirsjáanlegir við að koma á þeirri umgengni sem dómurinn kann að ákveða verði stefndu falin forsjáin.
Til stuðnings kröfu um meðlag vísar stefnandi til IX. kafla barnalaga.
VII.
Stefnda reisir kröfu sína um forsjá á því að hagsmunum barnsins sé best borgið með því að hún fari með forsjána, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Til stuðnings því bendir stefnda á að hún hafi verið aðalumönnunaraðili stúlkunnar allar götur frá fæðingu hennar. Þannig hafi stefnda séð um barnið í veikindum og öllum erfiðleikum vegna þroskafrávika. Stefnda hafi mikið lagt á sig til að bæta og örva þroska stúlkunnar og í hvívetna fylgt ráðleggingum sérfræðinga í þeim efnum.
Stefnda heldur því fram að hæfi hennar til að fara með forsjána verði ekki vefengt. Hún sé bæði hraust og reglusöm, eigi auðvelt með nám og hafi ávallt staðið sig vel í vinnu. Jafnframt telur stefnda að hún hafi sýnt í verki innsæi í þarfir barnsins, enda hafi hún tryggt barninu gott atlæti og öryggi. Mótmælir stefnda harðlega fullyrðingum stefnanda í þá veru að hún hafi ekki sinnt barni þeirra og að stúlkan hafi verið illa hirt og ekki fengið viðhlítandi aðstoð við heimanámið. Þessar tilhæfulausu aðfinnslur hafi hins vegar valdið miklum samskiptaörðugleikum við stefnanda og eiginkonu hans.
Stefnda telur öldungis ljóst að barnið sé tengdast sér og þau tengsl séu mikil og góð og órjúfanleg. Tekur stefnda fram að stúlkan vilji helst búa hjá sér og treysti og trúi stefndu fyrir sínum málum. Hjá stefndu búi einnig eldri bróðir stúlkunnar sem hún sé einnig tengd sterkum böndum, enda hafi þau systkini alist upp saman. Hins vegar séu tengslin við stefnanda mun minni, enda hafi stúlkan dvalið mun minna hjá honum. Stefnda dregur þó ekki í efa að telpunni þykir vænt um föður sinn.
Stefnda vísar til þess að breyting á skipan forsjár væri til þess fallin að raska verulega högum barnsins og þeim stöðugleika sem hún hefur búið við frá fæðingu. Þetta hefði í för með sér að stúlkan yrði tekin úr því umhverfi sem hún þekkir og frá þeim sem hún er tengdust. Með engu móti geti verið réttlætanlegt að taka þá áhættu, enda geti slík breyting hæglega valdið stúlkunni töluverðum skaða.
Stefnda bendir á að umgengni hafi verið felld niður eftir að upp kom alvarlegt mál þar sem ætluð kynferðisleg áreitni stefnanda í garð stúlkunnar var til rannsóknar. Tekur stefnda fram að henni hafi verið gefin fyrirmæli af barnaverndaryfirvöldum um að stöðva umgengni meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu. Stefnda telur að fara verði gætilega þegar umgengni verði komið á aftur og mikilvægt sé að umgengni fari í fyrstu fram undir eftirliti og samkvæm ráðum sérfræðinga. Stefnda andmælir því harðlega að hún hafi tálmað umgengni. Þvert á móti hafi hún brugðist rétt við í ljósi aðstæðna og í samræmi við fyrirmæli barnaverndaryfirvalda. Stefnda fullyrðir að hún verði til samvinnu um umgengni og telur að hún hafi sýnt það í verki með því að greiða fyrir samskiptum með vikulegum símtölum barnsins og stefnanda.
Til stuðnings meðlagskröfu með barninu úr hendi stefnanda vísar stefnda til 53., 55. og 57. gr. barnalaga.
VIII.
1.
Þegar foreldra greinir á um forsjá barns skal dómur kveða á um hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni er fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Við mat á þessu ber öðru fremur að líta til persónulegra eiginleika foreldra, tengsla barns við hvort foreldri um sig, hvort forsjárákvörðun leiði til breytinga á umhverfi barnsins, allra ytri aðstæðna og hvort barni verði tryggð umgengni við það foreldri sem ekki verður falin forsjáin. Að auki ber, eftir því sem við á, að hafa til hliðsjónar önnur þau atriði sem rakin eru í skýringum við fyrrgreint lagaákvæði í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna.
Málsaðilar hófu óvígða sambúð í Z árið 1996 og fæddist dóttir þeirra, A, árið 1998. Í mars 2001 slitu aðilar sambúðinni og í kjölfarið gerðu þeir samkomulag 15. sama mánaðar, sem staðfest var af sýslumanninum á [...], um að stefnda færi með forsjá barnsins. Frá sambúðarslitum og fram á mitt ár 2007 naut barnið umgengni við föður, en þá var tekið fyrir umgengnina vegna grunsemda um kynferðislega áreitni stefnanda gagnvart barninu. Stefnandi höfði síðan mál þetta 27. mars 2008 og þá um vorið flutti stefnda með barnið til Noregs. Frá áramótum hefur stefnandi átt vikuleg samtöl símleiðis við dóttur sína.
2.
Í matsgerð Ágústu Gunnarsdóttur, sálfræðings, er rækilega lýst öllum aðstæðum og högum málsaðila. Einnig gerir matsmaður grein fyrir menntun þeirra og störfum, auk þess að greina frá sambúðinni, slitum hennar og öllum samskiptum í kjölfarið. Þá lýsir matsmaður aðstæðum og högum barnsins og greinir frá niðurstöðum þeirra sálfræðiprófa sem lögð voru fyrir málsaðila og barnið. Þótt ekki komi fram afdráttarlaus niðurstaða matsmanns um forsjárhæfni málsaðila verður að virða hana í ljósi matsgerðarinnar, sem aðilar hafa ekki leitað endurskoðunar á með yfirmati. Aftur á móti sagði matsmaður í skýrslu sinni fyrir dómi að hann teldi málsaðila báða hæfa til að fara með forsjána. Þetta ber jafnframt að meta í ljósi annarra gagna málsins og þess sem komið hefur fram við málsmeðferðina.
Svo sem hér hefur verið rakið naut stúlkan ríflegrar umgengni við stefnanda þar til um mitt ár 2007 þegar grunur vaknaði um að stefnandi hefði sýnt telpunni kynferðislega áreitni. Í kjölfar skýrslutöku fyrir dómi og lögreglurannsóknar felldi ríkissaksóknari málið niður þar sem rannsóknargögn þóttu ekki renna nægum stoðum undir sakargiftir. Verður ekki litið hjá þessum málalyktum og því geta þessar ásakanir í garð stefnanda, eins og málið liggur hér fyrir dóminum, ekki haft áhrif við úrlausn málsins. Hefur heldur ekkert annað komið fram sem bendir til að stúlkunni sé hætta búin hjá stefnanda.
Samkvæmt því sálfræðiprófi sem lagt var fyrir stefnanda benda klínískir kvarðar prófsins ekki til geðrænna vandamála. Einnig þóttu lýsingar hans benda til að hann ætti ekki erfitt með að setja sig í spor annarra, auk þess sem hann sýndi ekki skapsveiflur eða hvatvísi. Þá virtist hann ekki vera vansæll, þunglyndur eða kvíðinn, auk þess sem sjálfsmat hans var jákvætt.
Stefnandi er kvæntur C og fram hefur komið í málinu að samskipti hennar og A hafa verið góð. Auk liðsinnis eiginkonu sinnar stendur samhent fjölskylda að baki stefnanda og allar ytri aðstæður hans eru með ágætum. Að þessu öllu virtu verður stefnandi talinn hæfur til að fara með forsjána.
Stefnda hefur annast dóttur sína allt frá fæðingu barnsins. Fyrir liggur að stúlkan var ekki heilsuhraust fyrstu árin og á 3. aldursári fór að bera á þroskafrávikum. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að stúlkan hafi fengið viðeigandi stuðning af því tilefni bæði af hendi stefndu og skólayfirvalda. Stefnandi hefur hins vegar talið að umönnun stúlkunnar hjá stefndu hafi ekki verið viðunandi og beindi af því tilefni tilkynningu til Barnaverndar Reykjavíkur haustið 2004. Það mál var fellt niður að lokinni athugun og eftir að stefnda hafði fengið viðeigandi stuðning.
Fyrir stefndu var lagt sama sálfræðipróf og fyrir stefnanda. Samkvæmt niðurstöðum prófsins voru klínískir kvarðar prófsins í meðallagi og bentu ekki til geðrænna vandamála. Lýsing hennar benti ekki til andfélagslegrar hegðunar, að hún ætti erfitt með að setja sig í spor annarra, sýndi fjandsemi eða væri skapbráð eða hvatvís. Þá benti prófið ekki til að hún væri kvíðin. Sjálfsmynd hennar væri jákvæð og hún sýndi seiglu og aðlögun í streituaðstæðum.
Stefnandi hefur lengst af verið einstæð móðir og alið önn fyrir tveimur börnum sínum. Hún hefur ýmist verið í vinnu eða lagt stund á nám og er nú í mastersnámi í landslagsarkitektúr. Fyrir liggur að stefnda hefur að mestu þurft að treysta á sjálfa sig og þegar á heildina er litið verður ekki betur séð en að hún hafi í gegnum árin sinnt dóttur sinni af alúð og samviskusemi. Verður því einnig talið að stefnda sé hæf til að fara með forsjána.
3.
Þótt matsmaður hafi ekki lagt tengslapróf fyrir barnið verður ráðið af matsgerðinni og öðru því sem komið hefur fram við meðferð málsins að stúlkan er tengdust móður sinni. Þannig lýsti stúlkan því sjálf að hún vildi helst búa hjá móður sinni og bróður. Einnig kemur fram í matsgerðinni að gott samband sé milli þeirra systkina. Er að sínu leyti eðlilegt að tengsl stúlkunnar séu á þennan veg í ljósi þess að stúlkan hefur lengst af verið í umsjá stefndu, auk þess sem hún hefur ekki hitt föður sinn frá miðju ári 2007.
Af hálfu stefnanda hefur því verið haldið fram að stefnda hafi tálmað umgengni hans við barnið og telur stefnandi að það eigi að hafa áhrif við úrlausn málsins. Með hliðsjón af því að til rannsóknar hjá lögreglu var ætlað kynferðisbrot stefnanda gagnvart stúlkunni og í samræmi við venjubundin vinnubrögð í slíkum málum verður ekki talið að stefnda hafi brugðist rangt við með hliðsjón af aðstæðum þegar hún felldi niður umgengnina að höfðu samráði við barnaverndaryfirvöld. Þá getur heldur ekki haft áhrif við úrlausn málsins þótt stefnda hafi flutt með barnið af landi brott eftir að málið var höfðað og er þá til þess að líta að tilefnið var formlegt nám sem hún leggur stund á. Einnig er þess að gæta að stefnda hefur fyrir sitt leyti greitt fyrir samskiptum barnsins við stefnanda með vikulegum símtölum þeirra á milli.
Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að best þjóni hagsmunum barnsins að stefnda fari með forsjána, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga, nr. 76/2003. Er þá jafnframt litið til þess að með því móti verður best tryggður stöðugleiki í umönnun barnsins í stað þeirrar röskunar sem væri samfara því að taka barnið úr umhverfi sínu og koma því fyrir í aðstæðum sem barnið þekkir síður. Verður stefnda því sýknuð af forsjárkröfu stefnanda og í samræmi við það er henni falin forsjá barnsins.
4.
Í samræmi við framangreinda niðurstöðu verður með vísan til 6. gr. 57. gr. barnalaga, nr. 76/2003, tekin til greina krafa stefndu um að stefnanda verði gert að greiða einfalt meðlag með barninu.
Þegar inntak umgengnisréttar stúlkunnar við stefnanda er ákveðið er til þess að líta að um nokkra hríð hefur umgengni legið niðri. Þá hefur óhjákvæmilega áhrif á umgengnina að stúlkan er ásamt móður sinni búsett í Noregi. Að þessu gættu þykir hæfilegt að umgengni verði hagað þannig að stúlkan dvelji með stefnanda fjórum sinnum á ári í þrjá sólarhringa í senn nema annað sé tekið fram, þar með talið umgengni um jól og páska. Umgengni skal fara fram þannig að stúlkan komi til stefnanda tvisvar ár hvert og hann fari og hitti hana í Noregi jafn oft, nema aðilar komi sér saman um annað. Annað af þeim skiptum sem stúlkan kemur og dvelur hjá stefnanda skal frá og með árinu 2010 vera að sumarlagi og þá skal dvölin vera tvær til fjórar vikur. Í fyrsta sinn sem umgengni fer fram skal hún vera í Noregi þannig að stefnandi hitti stúlkuna tvívegis, fyrri daginn í tvær klukkustundir og þann síðari í fjórar klukkustundir. Þegar stefnda flytur aftur til landsins skal umgengni vera þannig að stúlkan dvelji hjá stefnanda aðra hverja helgi frá föstudegi síðdegis til sama tíma á sunnudegi. Einnig skal stúlkan dvelja hjá stefnanda í sumarleyfi í fjórar vikur. Um jól og áramót dvelji stúlkan önnur hver jól hjá stefnanda og áramót hjá stefndu og öfugt, en páskaleyfi skiptist jafnt á milli aðila.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefnda hefur gjafsókn í málinu og greiðist allur gjafsóknarkostnaður hennar úr ríkissjóði, svo sem í dómsorði greinir.
Benedikt Bogason, héraðsdómari, kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum Anni G. Haugen, lektor, og Þorgeiri Magnússyni, sálfræðingi.
Dómsorð:
Stefnda, K, er sýknuð af forsjárkröfu stefnanda, M, og er stefndu falin forsjá barns þeirra, A.
Stefnandi greiði stefndu einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu.
Meðan stefnda og barnið eru búsett erlendis verður umgengni barnsins við stefnanda sem hér segir:
1. Stúlkan dvelji fjórum sinnum á ári með stefnanda í þrjá sólarhringa í senn, sbr. þó 3. og 4. tölul.
2. Umgengni skal fara þannig fram að stúlkan komi til stefnanda tvisvar ár hvert og hann fari og hitti hana í Noregi jafn oft nema aðilar komi sér saman um annað.
3. Annað af þeim skiptum sem stúlkan kemur til landsins og dvelur hjá stefnanda skal frá og með árinu 2010 vera að sumarlagi og þá skal dvölin vera tvær til fjórar vikur.
4. Í fyrsta sinn sem umgengni fer fram skal hún vera í Noregi þannig að stefnandi hitti stúlkuna tvívegis, fyrri daginn í tvær klukkustundir og þann síðari í fjórar klukkustundir.
Þegar stefnda flytur aftur til landsins með barnið skal umgengni vera sem hér segir:
1. Stúlkan dvelji hjá stefnanda aðra hverja helgi frá föstudegi síðdegis til sama tíma á sunnudegi.
2. Stúlkan dvelji hjá stefnanda ár hvert í sumarleyfi í fjórar vikur.
3. Um jól og áramót dvelji stúlkan önnur hver jól hjá stefnanda og áramót hjá stefndu og öfugt, en páskaleyfi skiptist jafnt á milli aðila.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Valgerðar Valdimarsdóttur, héraðsdómslögmanns, 718.116 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.
Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.