Hæstiréttur íslands
Mál nr. 842/2015
Lykilorð
- Vinnuslys
- Skaðabætur
- Líkamstjón
- Meðdómsmaður
- Ómerking héraðsdóms
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Áfrýjandinn Tryggingamiðstöðin hf. skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2015. Hann krefst aðallega sýknu en til vara að áfrýjandinn A verði látinn bera tjón sitt sjálfur að verulegu leyti. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti úr hendi áfrýjandans.
Áfrýjandinn A áfrýjaði málinu fyrir sitt leyti 30. desember 2015 gagnvart stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu B ehf., hjá stefnda, sameiginlega með ábyrgðartryggingu C hf. hjá áfrýjandanum Tryggingamiðstöðinni hf., vegna vinnuslyss 6. júní 2012. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.
Stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Til vara krefst hann þess að bótaréttur áfrýjandans A verði aðeins viðurkenndur að hluta og málskostnaðarákvörðun hins áfrýjaða dóms staðfest. Loks krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Svo sem rakið er í héraðsdómi varð áfrýjandinn A, þá starfsmaður B ehf., fyrir slysi 6. júní 2012 um borð í togaranum […] en áfrýjandinn vann þá að viðgerð á honum og notaði til þess vinnupall í eigu útgerðar skipsins, C hf. Fyrir liggur að lögregla tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins samdægurs um slysið.
Áfrýjandinn A byggir á því að vinnuveitandi hans og C hf. beri sameiginlega ábyrgð á slysinu og afleiðingum þess en það megi fyrst og fremst rekja til bilunar eða vanbúnaðar í vinnupalli sem hann hafi notað við verk sitt. Fyrir liggur að áfrýjandinn A setti sjálfur upp umræddan vinnupall og deila aðilar meðal annars um hvort hann hafi gert það með réttum hætti. Eins og málið liggur fyrir og án þess að fram hafi farið fullnægjandi rannsókn Vinnueftirlitsins og lögreglu var héraðsdómara ókleift að fjalla um málsástæður sem uppi eru hafðar um þennan þátt málsins á grundvelli almennrar þekkingar og menntunar eða lagakunnáttu. Því var þörf á sérkunnáttu og bar héraðsdómara að kveðja til meðdómsmenn samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þar sem héraðsdómari lét það ógert er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Um gjafsóknarkostnað A fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir en gjafsóknarleyfi hans, útgefið 24. febrúar 2016, nær ekki til áfrýjunar hans gagnvart stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður A fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, 600.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 2015.
I.
Mál þetta var höfðað 19. nóvember 2014 og dómtekið 9. september 2015.
Stefnandi er A, til heimilis að […], en stefndu eru Tryggingamiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík, og Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta in solidum úr ábyrgðartryggingu B ehf., hjá Vátryggingafélagi Íslands hf., og ábyrgðartryggingu C hf., hjá Tryggingamiðstöðinni hf., vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 6. júní 2012. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara að stefnandi verði látinn bera hluta tjóns síns sjálfur að verulegu leyti. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar, en til vara er þess krafist að bótaréttur stefnanda verði aðeins viðurkenndur að hluta og málskostnaður felldur niður.
II.
Stefnandi var starfsmaður hjá B ehf. þegar hann slasaðist á fæti þann 6. júní 2012 við vinnu að viðgerð á skipinu […] sem lá við bryggju í […]. Skipið er eigu útgerðarfélagsins C hf. […]. Við vinnuna notaði stefnandi vinnupall í eigu C hf. Þegar stefnandi fór niður af vinnupallinum að lokinni vinnu sinni hrundi pallurinn. Féll stefnandi niður með pallinum og hlaut slæmt brot á hægri fæti.
Stefnandi var 59 ára á slysdegi, […] að mennt, og hafði starfað hjá B ehf. við almennar viðgerðir og […] í um 13 ár þegar slysið varð.
Lögregla var kvödd samdægurs á vettvang slyssins. Samkvæmt vettvangsskýrslu lögreglunnar, sem dagsett er sama dag og slysið varð, þ.e. þann 6. júní 2012, skoðaði lögregla vinnupallinn og tók myndir af honum. Segir í vettvangsskýrslu lögreglu að stefnandi hafi verið að vinna við breytingar á skipinu. Hann hafi verið á pallinum í einhvern tíma þegar hann færði sig til. Pallurinn hafi þá fallið saman og stefnandi fallið á gólfið. Segir í skýrslu lögreglu að við skoðun á pallinum þá er hann samsettur með 4 þverstífum 2 neðarlega og 2 ofarlega og einni skástífu. Læsing er á efri hluta skástífunnar og hefur hún losnað. Segir í skýrslunni að óskað hafi verið eftir starfsmanni frá Vinnueftirlitinu á vettvang.
Samkvæmt skýrslu lögreglu, þann 28. ágúst 2012, lýsir stefnandi aðstæðum þannig að hann hafi verið við vinnu á pallinum í tvo og hálfan tíma. Að lokinni vinnu þegar stefnandi hafi verið á leið niður af pallinum hafi hann dottið í sundur. Kvaðst hann ekki vita hvers vegna pallurinn datt í sundur. Hann hafi sjálfur sett pallinn saman og það hafi hann gert hundrað sinnum og kunni alveg á þetta. Þetta væri mjög einfalt.
B ehf. tilkynnti Vinnueftirliti ríkisins um slysið þann 5. desember 2012. Segir m.a. í tilkynningu að vinnueftirlitið hafi verið kallað til þegar slysið varð en hafi fyrst neitað að koma þar sem slysið hafi orðið um borð í skipi. Segir í tilkynningunni að stefnandi hafi verið á vinnupalli í lest […]. Þegar hann hafi farið niður af pallinum hafi hann þurft að „smokra“ sér af honum og hafi festingar losnað, því þegar hann stígi niður á þrepin til að komast niður hafi pallurinn hrunið. Hafi stefnandi dottið niður um 2,5-3 metra og pallurinn ofan á hann.
Samkvæmt því sem greinir í tölvuskeyti Vinnueftirlits ríkisins til lögmanns stefnanda, dags. 3. september 2015, fékk vinnueftirlitið tilkynningu um slysið sama dag og það gerðist. Segir þar að vinnueftirlitið hafi farið á slysstaðinn, en þegar þangað var komið hafi enginn verið á staðnum. Er tekið fram í tölvuskeytinu að erfitt sé að rannsaka slys sem þetta án þess að ná sambandi við einhvern sem þekki aðstæður vel og/eða hafi orðið vitni af slysinu. Því hafi verið tekin ákvörðun um að ræða við vitni síðar og skoða lögregluskýrslu þegar hún lægi fyrir. Eftirlitsmaður sem kom á staðinn tók ljósmyndir af vettvangi slyssins sem liggja fyrir í gögnum málsins. Meðal þeirra eru engar myndir af vinnupallinum.
Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dóminum. Einnig gáfu skýrslu fyrir dóminum þeir D, verkstjóri hjá B ehf. og E, fyrrverandi verkstjóri á vélaverkstæði C hf.
Stefnandi kvaðst fyrir dóminum ekki hafa fengið leiðbeiningar við uppsetningu vinnupallsins. Hann hafi ávallt sett þverstífurnar á láréttu böndin og þannig hafi hann sett pallinn saman þegar slysið varð. Kvaðst hann hafa farið nokkrum sinnum upp og niður af pallinum áður en slysið varð. Geti hann ekki gert sér grein fyrir hvers vegna pallurinn hafi hrunið. Þá sagðist hann fyrst hafa heyrt það ári eftir að slysið varð að setja ætti þverstífurnar á lóðréttu stöngina, en ekki á þverstöngina eins og hann hefði ávallt sett palla saman. Tók hann fram að umræddur pallur hefði verið úr léttu áli sem auðvelt væri að setja saman. Þá kvaðst hann oft hafa sett saman sambærilega vinnupalla. Þá kvaðst hann oft áður hafa unnið fyrir C hf.
D tók, m.a. fram að allur gangur væri á því hvernig menn settu vinnupalla saman. Sumir setji þverböndin í láréttu stöngina og aðrir í þá lóðréttu. Þá tók hann fram að pallar væru mismunandi að gerð og settir saman á mismunandi vegu.
E kvaðst hafa komið á vettvang skömmu eftir slysið og skoðað aðstæður. Hann telur að pallurinn hafi ekki verið rétt reistur af stefnanda. Eftir að hafa horft á pallinn sé það hans skoðun að pallurinn hafi ekki verið settur rétt saman og eftir slysið væru pallar alltaf rétt upp settir. Þá taldi hann að ekki hefði verið þörf á að leiðrétta stefnanda þar sem hann hefði haft mikla reynslu. Vitnið kvaðst hafa skoðað pallinn ásamt öryggisfulltrúa C hf. skömmu eftir slysið. Pallurinn hafi verið settur saman á láréttu bitana, en ekki þá lóðréttu. Hann tók fram að haldið hefði verið áfram með verkið. Pallurinn hefði verið reistur aftur, langstífur settar á réttan stað og pallurinn notaður. Þá væri pallurinn enn í notkun og hefði ekki fallið saman síðan. Það væri ekki séð að galli hefði verið í pallinum sjálfum. Allt hefði fylgt með þegar hann hefði verið reistur aftur.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur að slysið megi rekja til vanrækslu og vanbúnaðar sem B ehf. og C hf. beri sameiginlega skaðabótaábyrgð á. B ehf. hafi verið vinnuveitandi stefnanda og þannig borið ábyrgð á öryggi á vinnustað. C hf. hafi verið eigandi vinnupallsins og lagt stefnanda hann til við vinnuna. Það sé skylda vinnuveitanda að tryggja öruggt starfsumhverfi fyrir starfsmenn sína, hvort sem starfsmenn séu að vinna fyrir vinnuveitanda á starfsstöð hans eða annars staðar, auk þess að útvega starfsmönnum fullnægjandi og örugg tæki til að vinna vinnuna. Bæði B ehf. og C hf. hafi borið að fylgja lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og öryggisreglum, en þá skyldu hafi báðir vanrækt. Því beri þeir bótaábyrgð á tjóni stefnanda.
Stefnandi vísar til 13., 14., 37., 42. og 65. gr. a í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hafi ofangreindir aðilar ekki gætt að nefndum lagaákvæðum, enda brotið gegn skráðum hátternisreglum. Stefnandi vísar einnig til 8. gr. reglna um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð nr. 547/1996, sem mælir fyrir um að atvinnurekandi eða verktaki skuli við framkvæmd verks hverju sinni sjá til þess að skipulag á byggingarvinnustað sé fullnægjandi, sbr. einnig d-lið 3. tölul. sömu greinar. Þá vísar stefnandi til greinar 3.2. í reglum um röraverkpalla nr. 331/1989 þar sem segir að atvinnurekandi skuli sjá til þess að þeir sem noti verkpalla fái nauðsynlegar leiðbeiningar um notkun þeirra. Samkvæmt grein 4.1. í sömu reglum skuli aldrei taka verkpall í notkun fyrr en frá honum hafi verið gengið á fullnægjandi hátt. Enginn hluti í verkpalli megi geta losnað við notkun hans, sbr. grein 5.2.
Stefnandi telur ljóst að orsök slyssins sé að rekja til þess að skrúfa eða læsing hafi losnað á vinnupallinum með þeim afleiðingum að pallurinn féll saman undir honum. Þetta komi fram í lögregluskýrslu sem gerð hafi verið eftir slysið og einnig í tilkynningu vinnuveitanda stefnanda til Vinnueftirlitsins þann 5. desember 2012. Því sé ljóst að vinnupallurinn hafi ekki uppfyllt lögbundnar öryggiskröfur og að skyldum B ehf. og C hf. hafi ekki verið fullnægt.
Stefnandi vísar til þess sem fram kemur í lögregluskýrslu um að vinnupallurinn hafi staðið á trégrind sem hafi verið óstöðug og hreyfst ef þungi var settur ofan á hana. Slíkur aðbúnaður sé ófullnægjandi, sbr. grein 4.3.3. í viðauka með reglugerð nr. 367/2006 um notkun tækja. Í greindu ákvæði komi fram að tryggja skuli að burðareiningar vinnupalls renni ekki til, með því að festa þær við undirstöðuna eða með búnaði sem hindri að þær renni til eða á einhvern annan hátt með sömu áhrifum. Auk þess verði undirstöður og gólfeiningar að hafa nægilegt burðarþol og að tryggja verði að vinnupallur sé stöðugur. Á þeim vanbúnaði beri B ehf. og C hf. ábyrgð.
Stefnandi vísar til skyldna verkstjóra í 21. og 23. gr. laga nr. 46/1980. Hafi áðurgreindir aðilar vanrækt að hafa verkstjóra á staðnum til að tryggja öryggi á vinnustað í samræmi við greindar reglur. Þá vísar stefnandi til 5. og 7. gr. reglugerðar nr. 367/2006, varðandi ráðstafanir atvinnurekanda til að tryggja að tæki hæfi því verki sem verið sé að vinna að og um upplýsingaskyldu varðandi notkun tækja. Stefnandi vísar einnig til 10. gr. sömu reglugerðar um skoðunarskyldu atvinnurekanda eftir að tæki hafi fyrst verið sett upp.
Stefnandi tekur fram að kallað hafi verið eftir lögreglu þegar slysið átti sér stað og að hún hafi mætt á slysstað. Vinnuveitandi hafi ekki tilkynnt slysið til vinnueftirlitsins samdægurs eins og lög geri ráð fyrir og því hafi engin rannsókn farið fram á tildrögum þess og á því hvers vegna festingin losnaði eða gaf sig með þeim afleiðingum að pallurinn hrundi. Stefnandi vísar til 79. gr. laga nr. 46/1980 þar sem fram kemur að atvinnurekandi skuli án ástæðulausrar tafar tilkynna til Vinnueftirlitsins slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Telur stefnandi að sinnuleysi gagnvart lögbundinni tilkynningarskyldu hafi komið í veg fyrir að Vinnueftirlit og lögregla könnuðu tildrög slyssins. Beri stefndu hallann af þeim sönnunarskorti.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda, Tryggingamiðstöðvarinnar hf.
Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti. Ekkert samningssamband hafi verið á milli stefnda og Útgerðarfélagsins C hf. og hafi félagið ekki borið vinnuveitandaábyrgð á stefnanda þegar hann vann verk sín. Bendir stefndi á að B ehf. hafi tekið umrætt verk að sér fyrir útgerðarfyrirtækið C hf. og sinnt því verki sem sjálfstæður verktaki. Stefnandi hafi verið starfsmaður þessa sjálfstæða verktaka. Fram komi í lögregluskýrslu, dags. 28. ágúst 2012, sem tekin var af stefnanda þann sama dag, að verkstjóri og yfirmaður stefnanda hafi verið D, starfsmaður B ehf. Stefnandi hafi því sjálfur litið svo á að hann starfaði undir verkstjórn B. Hafi vinnuveitanda hans borið að sjá honum fyrir öruggu starfsumhverfi.
Þá bendir stefndi á að tilkynningu til vinnueftirlitsins hafi verið fullnægt, sbr. það sem segir í lögregluskýrslu, dags. 6. júní 2012. Starfsmaður þess hafi komið á vettvang.
Stefndi tekur fram að ekkert sé komið fram sem bendi til þess að vinnuumhverfi á slysstað hafi ekki verið forsvaranlegt. Þá telur stefndi að slysið verði fyrst og fremst rakið til rangrar uppsetningar vinnupallsins. Stefnandi hafi einn unnið að uppsetningu hans. Stefndi telur að eignarhald á vinnupallinum skipti engu máli í tengslum við mat á bótaskyldu í máli þessu. Það sem skipti máli sé hvort pallurinn hafi verið forsvaranlegur og hvort hann hafi verið settur saman á réttan hátt. Samkvæmt gögnum málsins hafi pallurinn verið í fullkomnu ástandi. Það sem hafi orsakað slysið hafi verið röng uppsetning hans og hann því óstöðugri en annars hefði verið, sem stefnandi beri einn ábyrgð á. Hann beri því alla ábyrgð á eigin tjóni og beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum.
Varakrafa stefnda um eigin sök stefnanda byggir á því að stefnandi hafi sjálfur sett upp vinnupallinn og það hafi hann í þessu tilviki gert með röngum hætti. Stefnanda hafi borið að kanna styrkleika vinnupallsins áður en hann hóf störf á honum og með því að gera það ekki hafi hann sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Á því beri hann einn ábyrgð og eigi hann að bera verulegan hluta tjónsins sjálfur.
3. Helstu málsástæður og lagarök stefnda, Vátryggingarfélags Íslands hf.
Krafa stefnda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á því að B ehf. eigi enga sök á slysi stefnanda, þar sem B hafi hvorki haft umráðarétt yfir þeim vinnustað sem slysið varð á, þ.e. um borð í togaranum […], né heldur verkstjórnarvald á staðnum. Það hafi verið í höndum eiganda og útgerðarmanns togarans. Þá átti B ehf. Ekki rörapallinn eða lét stefnanda hann í té. Þannig hafi B ekki borið ábyrgð á vinnustaðnum og vinnuörygginu þar sem slysið varð eða tækjum og tólum sem þar voru notuð. Telur stefnandi það meginreglu í íslenskum rétti að vinnuveitandi beri ekki bótaábyrgð á öðrum vinnustað en sínum eigin. Eigi staðhæfingar stefnanda um meint brot B ehf. á tilvísuðum lögum og reglum um aðbúnað og öryggi á vinnustöðum, um rörapalla og um notkun tækja sér því enga stoð.
Þá hafi B ehf. ekki haft neitt verkstjórnarvald á umræddum vinnustað. Verkstjórnarvald hafi verið í höndum C hf. Auk þess hafi engin þörf verið fyrir sérstaka eða viðvarandi verkstjórn af hálfu verkstjóra við að setja saman rörapallinn, þegar litið sé til fagþekkingar og starfsreynslu stefnanda og þess að um einfalt verk hafi verið að ræða.
Stefndi mótmælir því að vinnuveitandi hafi ekki tilkynnt slysið strax til vinnueftirlitsins og að stefndi beri af þeim sökum ábyrgð á tjóni stefnanda. Sé staðhæfing þessi röng og bótaregla þar að lútandi ekki til í íslenskum rétti. Slysið var tilkynnt strax til vinnueftirlitsins eins og fram kemur í vettvangsskýrslu lögreglu og slysatilkynningu B ehf.
Þá telur stefndi ósannað að slysið megi rekja til saknæmrar vinnuaðstöðu um borð í togaranum, skorts á viðhaldi með búnaði og tækjum eða til bilunar eða galla í rörapallinum, skorts á leiðbeiningum við uppsetningu, skorts á verkstjórn eða skorts á áhættumati. Það eina sem liggi fyrir um orsök slyssins sé að skrúfa eða læsing á efri hluta skástífunnar hafi losnað, sbr. það sem fram kemur í lögregluskýrslu, og að pallurinn hafi hrunið af þeim ástæðum. Hvergi sé í skýrslum lögreglu minnst á bilun eða galla í pallinum eða búnaði hans.
Telur stefndi að orsök slyss stefnanda sé ekki að rekja til annars en að skrúfa eða læsing á efri hluta skáskífunnar hafi losnað og pallurinn þess vegna hrunið. Um það hafi stefnandi hins vegar ekki við aðra að sakast en sjálfan sig. Stefnandi hafi sett saman rörapallinn og staðið einn að því verki. Átti stefnandi í ljósi reynslu og fagþekkingu sinnar að vita manna best, hvað þyrfti til að skrúfan eða læsingin losnaði ekki meðan hann væri að vinna á pallinum. B ehf. Og C hf. áttu ekki að þurfa að vaka yfir og leiðbeina stefnanda um þetta. Leiði þetta einnig til sýknu stefnda.
Varakrafa stefnda sé byggð á því að stefnandi hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi með því að búa ekki svo um hnútana að skrúfan eða festingin á skáskífunni gæti ekki losnað, en það hafi verið mjög brýnt þar sem unnið hafi verið í mikilli hæð. Beri því að skerða rétt stefnanda til bóta verulega og viðurkenna aðeins bótarétt að hluta, sbr. 1. mgr. 23. gr. a í skaðabótalögum nr. 50/1993. Telur stefndi að skerða beri rétt stefnanda til bóta eigi minna en að hálfu, verði fallist á bótaskyldu.
IV.
Niðurstaða
Fyrir liggur í máli þessu að þegar stefnandi slasaðist á fæti þann 6. júní 2012 var hann starfsmaður hjá B ehf. Stefnandi er […] að mennt og hafði unnið hjá B í um 13 ár þegar slysið varð. Hann var sendur til vinnu um borð í togara sem er í eigu útgerðarfélagsins C hf. Við vinnu sína um borð í skipinu notaði hann vinnupall sem var í eigu C hf. Stefnandi setti vinnupallinn sjálfur saman um borð í skipinu og liggur fyrir að hann hafi oft áður reist slíka vinnupalla. Við uppsetningu pallsins í umrætt sinn setti hann þverstífurnar á láréttu böndin eins og hann hafði ávallt gert þegar hann reisti vinnupalla. Í skýrslu lögreglu sem kom á slysstað segir að læsing á efri hluta skástífunnar hafi losnað. Vinnueftirlit ríkisins var kvatt á staðinn af lögreglu sama dag og slysið varð. Þegar eftirlitið kom á staðinn til að kanna slysstað var enginn á vettvangi til þess að taka á móti fulltrúa þess og því var slysið ekki rannsakað af vinnueftirlitinu, hvorki þá né síðar.
Ekki liggja fyrir gögn í málinu um hver hafi verið rétt uppsetning á umræddum rörapalli. Stefnandi telur að honum hafi orðið ljóst ári eftir slysið að festa bæri þverstífur í lóðrétta stöng vinnupallsins. Á hinn bóginn telur vitnið E að honum hafi verið ljóst að ávallt bæri að festa þverstífur í lóðrétta stöng vinnupallsins. Vitnið D telur að á þessu sé allur gangur.
Samkvæmt framansögðu er í máli þessu deilt um tilurð slyssins. Er einkum deilt um hvað hafi orðið þess valdandi að vinnupallurinn féll saman þegar stefnandi steig niður af pallinum. Stefnandi telur ljóst að slysið sé að rekja til þess að skrúfa eða læsing hafi losnað af vinnupallinum með þeim afleiðingum að pallurinn féll saman undir stefnanda, sbr. skýrslu lögreglu. Stefndu telja að slysið verði fyrst og fremst rakið til rangrar uppsetningar vinnupallsins, með vísan til sömu lögregluskýrslu, enda séu engin gögn eða upplýsingar um bilun eða galla í umræddum vinnupalli.
Úrlausn málsins ræðst af því hvort tildrög slyssins hafi verið nægjanlega upplýst við skoðun lögreglu á slysadegi og þar með hvort rannsókn vinnueftirlitsins á vinnupallinum hefði varpað öðru ljósi á orsök þess ef hún hefði farið fram strax eftir slysið.
Í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum er kveðið á um skyldu vinnuveitanda að tilkynna slys til Vinnueftirlits ríkisins. Eins og þar kemur fram er skylda þessi tengd við alvarleika slyss. Samkvæmt ákvæðinu skal atvinnurekandi, m.a. tilkynna til Vinnueftirlits ríkisins öll slys þar sem starfsmaður verður óvinnufær í einn eða fleiri daga. Eins og áður segir var slysið tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins samdægurs af lögreglu, en eftirlitið sá sér ekki kleift að rannsaka slysstað, þar sem enginn var um borð í skipinu við komu þess. Því liggja ekki fyrir aðrar upplýsingar um vinnupall þennan en þær sem fram koma í skýrslu lögreglu. Telja verður að með skoðun vinnueftirlitsins hefði mátt fá nánari upplýsingar um orsök slyssins og þar með hvað hafi orðið þess valdandi að skrúfa eða læsing losnaði af vinnupallinum og þá hvers vegna eða hvort e.t.v. aðrar ástæður kunni að hafa valdið slysinu.
C hf. var eigandi vinnupallsins sem stefnandi féll af og lagði honum til pallinn í því skyni að hann notaði hann við störf sín um borð í skipi félagsins. Telur dómurinn með vísan til fyrrgreinds ákvæðis að sú skylda hafi hvílt á C hf. að tilkynna um slysið til vinnueftirlitsins og sjá til þess að vinnueftirlitinu væri gert kleift að skoða slysstað um borð í skipi félagsins.
Verður því að leggja til grundvallar í málinu að stefnandi hafi orðið fyrir líkamstjóni umrætt sinn sem rekja megi til bilunar í festingum pallsins eða öðrum búnaði hans eða skorts á leiðbeiningum við uppsetningu hans og frágang. Ber C hf. því skaðabótaábyrgð á tjóni sem stefnandi varð fyrir og rekja má til ófullnægjandi búnaðar pallsins. Í ljósi þessa telur dómurinn ósannað að stefnandi hafi viðhaft rangt verklag við uppsetningu vinnupallsins umræddan dag. Er því viðurkenndur réttur stefnanda til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu C hf. hjá Tryggingamiðstöðinni hf. vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 6. júní 2012.
Sem fyrr segir var C hf. eigandi vinnupallsins sem stefnandi notaði um borð í skipi félagsins. B ehf. hafði því hvorki boðvald yfir stefnanda við það verk, auk þess sem B ehf. hafði engan umráðarétt yfir starfsaðstöðu stefnanda sem hann innti af hendi um borð í skipi C hf. Með vísan til þeirrar meginreglu íslensks réttar og dómafordæma að vinnuveitandi beri ekki ábyrgð á öðrum vinnustað en sínum eigin, verður stefndi Vátryggingafélag Íslands hf. því sýknað af öllum kröfum stefnanda.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., að greiða stefnanda, A 1.400.000 krónur í málskostnað.
Málskostnaður á milli stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., fellur niður.
Ragnheiður Snorradóttir, héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Viðurkenndur er réttur stefnanda, A, til skaðabóta úr ábyrgðartryggingu C hf. hjá Tryggingamiðstöðinni hf., vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 6. júní 2012.
Stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., ber að greiða stefnanda 1.400.000 krónur í málskostnað.
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknað af öllum kröfum stefnanda.
Málskostnaður á milli stefnanda og stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., fellur niður