Hæstiréttur íslands
Mál nr. 352/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Innstæða
- Forgangskrafa
|
|
Miðvikudaginn 5. júní 2013. |
|
Nr. 352/2013.
|
Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf. (Hildur Sólveig Péturssóttir hrl.) gegn Byggðastofnun (Garðar Garðarsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Innstæða. Forgangskrafa.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem krafa B við slit fjármálafyrirtækisins S hf. var viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Deilt var um hvort krafa B væri til komin vegna innstæðu B hjá S hf. sem nyti tryggingarverndar laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og þar með forgangs við slit S hf. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að B væri ekki aðildarfélag í skilningi 3. gr. og 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og væri B því ekki undaskilið tryggingarvernd af þeim sökum. Að virtu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um skýringu hugtaksins „innstæða“ í skilningi tilskipunar 94/19/EB var talið að fé sem B hefði látið S hf. í té hefði verið innstæða í skilningi þágildandi laga nr. 98/1999. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2013, þar sem krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 271.296.011 krónur var viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að krafa varnaraðila njóti stöðu sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit sóknaraðila. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Málsatvikum er skilmerkilega lýst í hinum kærða úrskurði. Úrslit málsins ráðast af því hvort fé það sem varnaraðili lét af hendi til sóknaraðila í febrúar og mars 2009 hafi talist innstæða í skilningi 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og það ákvæði var fyrir breytingu með 5. gr. laga nr. 79/2012. Í 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 var meðal annars kveðið á um að undanskilið tryggingu samkvæmt 1. mgr. hennar væru innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður- og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning. Samkvæmt 3. gr. laganna skulu viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir, sem nýta sér heimildir laga til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og hafa staðfestu hér á landi, eiga aðild að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta. Eru þau nefnd aðildarfyrirtæki í lögum nr. 98/1999. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að varnaraðili hafi ekki talist aðildarfyrirtæki sjóðsins í merkingu þeirra laga á þeim tíma sem að framan greinir.
Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, eins og það ákvæði hljóðaði á þeim tíma sem hér um ræðir, sagði að með innstæðu samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar væri átt við innstæðu sem tilkomin væri vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði bæri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er giltu samkvæmt lögum eða samningum. Þá var þar tekið fram að tryggingin næði hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eða annarra krafna sem útgefnar væru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa. Að virtu ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu „innstæða“ í skilningi tilskipunar 94/19/EB, sem gerð er grein fyrir í dómi Hæstaréttar 17. janúar 2013 í máli nr. 169/2011, og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er tekið undir þá niðurstöðu sem þar kemur fram að féð, sem varnaraðili lét af hendi til sóknaraðila og um er deilt í málinu, hafi verið innstæða samkvæmt þágildandi 9. gr. laga nr. 98/1999. Samkvæmt því verður úrskurðurinn staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., greiði varnaraðila, Byggðastofnun, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2013.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn varnaraðila til dómsins með bréfi sem barst héraðsdómi 18. apríl 2011. Var um heimild til að leita úrlausnar dómsins vísað til 171. gr. sbr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var þingfest 16. maí 2011, tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð fimmtudaginn 7. mars sl., en endurflutt og tekið til úrskurðar að nýju þriðjudaginn 30. apríl sl.
Sóknaraðili málsins er Byggðastofnun, Ártorgi 1, Sauðárkróki en varnaraðili er Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis hf., Lágmúla 6, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa hans að fjárhæð 275.439.628 krónur á hendur varnaraðila við slit hans. Þar af verði kröfu að fjárhæð 271.296.011 krónur skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. en kröfu að fjárhæð 4.143.382 krónur verði skipað í réttindaröð skv. 1. tl. 114. gr. sömu laga. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði afstaða slitastjórnar varnaraðila um að krafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa, skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að fjárhæð 271.296.011 krónur Þá krefst varnaraðili málskostnaðar.
I
Í greinargerð Byggðastofnunar, sóknaraðila málsins, er því lýst að hún sé sérstök stofnun í eigu íslenska ríkisins og að um hana gildi lög nr. 106/1999. Hlutverk sóknaraðila sé að vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni, m.a. með fjármögnun verkefna og veitingu lána. Tekjur sóknaraðila séu framlag úr ríkissjóði eins og ákveðið sé í fjárlögum hverju sinni svo og fjármagnstekjur. Auk þess sé sóknaraðila heimil lántaka til starfsemi sinnar, innanlands eða erlendis, innan ramma fjárlaga hverju sinni. Vegna eðlis starfseminnar hafi sóknaraðili oft umtalsvert fé handbært og beri honum samkvæmt fyrirmælum í 16. gr. l. nr. 106/1999 að geyma það á reikningum í bönkum eða sparisjóðum eða í tryggum verðbréfum.
Af gögnum málsins og skýrslu Magnúsar Helgasonar forstöðumanns rekstrarsviðs sóknaraðila má ráða að Magnús leitaði eftir því í símtali við starfsmann varnaraðila „að ávaxta“ hjá varnaraðila 250.000.000 krónur 2. febrúar 2009. Þar samdist þeim um að féð yrði ávaxtað til 16. febrúar á 20,9% vöxtum. Fyrir liggur að umrætt lán/innlán var framlengt í þrígang í öll skiptin að frumkvæði varnaraðila og var áföllnum vöxtum ávallt bætt við höfuðstól. Í síðasta skiptið var samningur gerður 16. mars 2009 og bar að greiða lánið/innlánið 23. sama mánaðar. Þetta er sá samningur sem um er deilt í málinu.
Á samningnum er tilgreint að samningstegund sé peningamarkaðslán. Þá kemur fram að auk ákvæða sem fram komi í samningnum gildi um hann almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti hjá varnaraðila sem viðskiptamaður hafi fengið og kynnt sér. Samningsdagur er sagður 16. mars 2009. Lánveitandi er sagður sóknaraðili. Lántaki er sagður varnaraðili. Fjárhæð er tilgreind 256.086.231 króna, en fjárhæð vaxta 1.025.768 og vaxtaprósenta 20,6. Gildisdagur er sagður 16. mars 2009 en gjalddagi 23. mars 2009. Þá er kveðið á um að varnaraðili skuli greiða ISK inn á nánar tilgreindan reikning sóknaraðila. Á samningnum er síðan áletrunin: Vinsamlega staðfestið ofangreind viðskipti með undirritun hér að neðan og sendið afrit til SPRON.
Samningurinn er undirritaður fyrir hönd beggja aðila. Aðila greinir á um hvort umrætt skjal á að réttu að teljast kvittun eða samningur.
Ekki kom til greiðslu umræddrar kröfu þar sem Fjármálaeftirlitið beitti heimild sinni samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 125/2008, til að víkja stjórn varnaraðila frá 21. mars 2009 og setja yfir varnaraðila skilanefnd. Í ákvörðun FME var einnig ákveðið að flytja til Nýja Kaupþings banka hf. skuldbindingar varnaraðila vegna innstæðna. Á hinn bóginn var einnig ákveðið að Nýi Kaupþing banki hf. myndi ekki yfirtaka „peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum sem kunn[i] að eiga innlán hjá SPRON“. Í ljósi þessa var hið umdeilda lán/innlán sóknaraðila hjá varnaraðila ekki flutt til Nýja Kaupþings banka hf.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 23. júní 2009 var SPRON tekið til slita og skipuð slitastjórn. Innköllun vegna slitameðferðar varnaraðila var birt og lýsti sóknaraðili kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests.
Féllst slitastjórn varnaraðila á fjárhæð kröfunnar utan að ekki var tekin afstaða til kröfu um innheimtukostnað þar sem hún félli undir 114. gr. laga nr. 21/1991 sem eftirstæð krafa og ljóst þótti að ekkert fengist greitt við slitin upp í slíkar kröfur.
Féllst slitastjórnin á höfuðstól að fjárhæð 256.086.231 króna, vexti að fjárhæð 1.025.768 krónur og dráttarvexti til 23. júní 2009 að fjárhæð 14.184.012 krónur. Framangreindar fjárhæðir eru óumdeildar milli aðila. Þá gerir sóknaraðili ekki ágreining um þá ákvörðun slitastjórnar að fella kröfu hans um innheimtukostnað undir 114. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili lýsti kröfu sinni sem forgangskröfu skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Því hafnaði slitastjórn varnaraðila og taldi um almenna kröfu að ræða sem félli undir 113. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar inn lögmælts frests. Haldnir voru fundir til að jafna ágreining um kröfuna en án árangurs. Á síðasta fundi aðila 15. apríl 2011 var það sameiginleg ákvörðun að rétt væri að vísa ágreiningnum til úrlausnar dómsins.
Eins og fyrr greinir barst málið héraðsdómi 15. apríl 2011. Málið hefur með samkomulagi aðila og dómara sætt frestun. Var fyrst beðið úrlausnar Hæstaréttar í svokölluðum „neyðarlagamálum“ sem og málum vegna svokallaðra „heildsölulána/innlána“. Dómar þessir sem eru allmargir voru kveðnir upp í Hæstarétti 28. október 2011. Þá var máli þessu einnig frestað í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar 15. desember 2011 þar sem rétturinn ákvað að óska eftir ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði er m.a. lutu að skilgreiningu hugtaksins innstæða í skilningi 1. mgr. 1. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB um innlánatryggingakerfi. Var frestunin ákveðin með úrskurði að kröfu varnaraðila gegn mótmælum sóknaraðila. Dómur EFTA-dómstólsins var kveðinn upp 22. nóvember 2012 og dómur Hæstaréttar í máli nr. 169/2011, sem varð tilefni álitsumleitunarinnar var kveðinn upp 17. janúar 2013.
II
Í greinargerð sinni kveður sóknaraðili að afstaða varnaraðila um að hafna því að kröfu sóknaraðila verði skipað í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. l. nr. 21/1991 virðist byggjast á því einu að hann telji að þeir fjármunir sem sóknaraðili afhenti varnaraðila til varðveislu og ávöxtunar þann 16. mars 2009 hafi ekki verið „innstæða sem tilkomin [sé] vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfssemi“ heldur hafi verið um að ræða lán sem sóknaraðili eigi að hafa veitt varnaraðila með þeim skilmálum sem fram komi á móttökukvittun varnaraðila vegna viðskiptanna. Sóknaraðili kveðst ítreka mótmæli sín við þessari afstöðu varnaraðila.
Kveður sóknaraðili að með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., svokölluðum „neyðarlögum“, hafi m.a. verið breytt ýmsum ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Sú breyting sem hér skipti máli sé í 6. gr. laga nr. 125/2008, þar sem bætt hafi verið nýrri málsgrein í þágildandi 1. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svohljóðandi: „Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Með lögum nr. 44/2009, sem tekið hafi gildi 22. apríl 2009 hafi þessu ákvæði verið breytt lítillega og sé efnisregluna nú að finna í 3. mgr. 102 gr. laga nr. 2009 og hljóði hún nú svo: „Við slit fjármálafyrirtækis gilda sömu reglur og um rétthæð krafna á hendur þrotabúi, en þó skulu kröfur um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta teljast til krafna sem njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“
Sé litið til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta þá segi í 3. mgr. 9. gr. þeirra laga, að með innstæðu skv. 1. mgr. [9. gr.] sé átt við innstæðu sem sé tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum . Í 6. mgr. 9. gr. segir þó að undanskildar tryggingu skv. 1. mgr. [9. gr.] séu „innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja...“ Tilvitnaðar lagagreinar þarfnist nánari útskýringa og skuli fyrst vikið að síðast nefnda atriðinu, þ.e. hverjir séu aðilar að þessu tryggingarkerfi, sem hér eftir verði nefnt Tryggingarsjóðurinn.
Fyrirsögn 3. gr. laga nr. 98/1999 er: Aðilar að sjóðnum. Segir í upphafi greinarinnar að viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfþjónustu og aðrir sem stundi viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem staðfestu hafi hér á landi, skuli eiga aðild að sjóðnum. Framangreind upptalning vísi til skilgreininga í lögum um fjármálafyrirtæki. Í 10. tl. 1. gr. a. laga nr. 161/2002 (orðskýringar) sé að finna flokkun fjármálafyrirtækja, en samkvæmt þeirri flokkun skiptist þau í viðskiptabanka, sparisjóði, lánafyrirtæki, rafeyrisfyrirtæki, verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlun eða rekstrarfélag verðbréfasjóðs sem fengið hafi starfsleyfi skv. 6. gr. sbr. 4. gr. Í nefndri 4. gr. séu taldar upp tegundir starfsleyfa sem fjármálafyrirtæki geti sótt um og sé þar skilið milli heita fjármálafyrirtækja með sama hætti og gert sé í 10. tl. 1. gr. a og talið sé upp í sjö liðum hér að framan. Af þeim fyrirtækjum sem flokkist sem fjármálafyrirtæki séu aðeins fjórir flokkar af sjö sem teljist aðilar að Tryggingarsjóðnum. Sóknaraðili, Byggðastofnun, sé flokkuð sem lánafyrirtæki skv. 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 og eigi sem slík ekki skylduaðild að Tryggingarsjóðnum og hafi aldrei verið aðili að honum og hafi þar af leiðandi ekki greitt til hans iðgjald skv. 6. gr. l. nr. 98/1999. Innstæður, sem sóknaraðili kunni að eiga hjá einhverjum aðila að Tryggingarsjóðnum við slit þess aðila eða við skiptameðferð á búi hans, séu því ekki undanþegnar ábyrgð Tryggingarsjóðsins á grundvelli 6. mgr. 9. gr. l. nr. 98/1999.
Eftir standi þá að skilagreina hvort fjármunir sóknaraðila teljist vera innstæða hjá varnaraðila eða lán til hans. Eins og að framan geti sé það hlutverk sóknaraðila að efla atvinnulíf á landsbyggðinni, m.a. með lánveitingum eða ábyrgðum til einstakra aðila og skuli þær lánveitingar/ábyrgðir vera í samræmi við hlutverk stofnunarinnar. Sé fjallað um þá starfsemi í 11. gr. laga um Byggðastofnun nr. 106/1999 og séu reglur stofnunarinnar um lánveitingar nánar útfærðar í rgl. 347/2000 og verklagsreglum sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu.
Í greinargerð sóknaraðila er framangreindum réttarheimildum ítarlega lýst og með hvaða hætti og með hvaða takmörkunum sóknaraðila sé heimilt að lána fé. Þurfi slík lán að vera veitt í samræmi við tilgang stofnunarinnar og við lánveitinguna gætt tilgreindra málsmeðferðarreglna. Þá sé heimild sóknaraðila til að lána fé einnig bundin þeim landfræðilegu takmörkunum að stofnunni sé óheimilt að veita lán til fyrirtækja í Reykjavíkurborg (og nágrannabyggðalögum höfuðborgarinnar), en höfuðstöðvar varnaraðila séu og hafi verið í Reykjavík.
Kveður sóknaraðili að honum hafi því verið óheimilt að lögum að veita varnaraðila lán og það hafi varnaraðili mátt vita. Varnaraðila, sem fjármálastofnun, hafi í það minnsta borið að ganga úr skugga um að ákvörðun um lánveitingu hefði verið tekin með þeim hætti hjá Byggðastofnun sem mælt sé fyrir um í lögum um stofnunina og áminnstri reglugerð og vinnureglum. Þá liggi fyrir að stjórn varnaraðila hefði sjálf þurft að setja fram lánabeiðni og fjalla um lántöku með formlegum hætti á stjórnarfundi.
Af framangreindu megi sjá að sóknaraðili sé opinber lánastofnun með fastmótað lögbundið hlutverk og útlánareglur og taki því ekki þátt í lánastarfsemi á millibankamarkaði. Verði því að hafna alfarið þeirri málsástæðu varnaraðila að honum hafi verið fengnir umræddir fjármunir sem lán frá sóknaraðila, en varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu sinni.
Þegar umdeildum fjármunum hafi verið ráðstafað til varnaraðila 16. mars 2009 hafi varnaraðili gefið kvittun fyrir móttökunni á eyðublaði frá sér sem liggi fyrir í málinu. Segi í þeirri kvittun að um sé að ræða peningamarkaðslán og að um það gildi almennir skilmálar um markaðsviðskipti hjá SPRON, sem viðskipavinur (hér sóknaraðili) hafi fengið og kynnt sér. Skemmst sé frá því að segja að sóknaraðili kannist ekki við að hafa fengið umrædda markaðsskilmála og þaðan af síður að hann hafi samþykkt þá skilmála eða uppfyllt þau skilyrði sem varnaraðili hafi þó sjálfur sett með þeim. Segir í almennu skilmálunum að SPRON krefjist þess að stjórnir félaga undirriti þá áður en unnt sé að eiga viðskipti við SPRON. Þá segi að viðskiptavinur skuli ganga í gegnum ferli í samræmi við lög nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Einnig sé lögð sú skylda á SPRON að láta viðskiptamann gangast undir sérstakt mat í samræmi við reglur SPRON og ákvæði 15. eða 16. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Þá segi að með undirritun skilmálanna veiti viðskiptavinur SPRON heimild til að stofna fyrir sig VS-reikning. Ekkert af þessu hafi verið gert. Hins vegar segi í skilmálunum að lendi SPRON í greiðsluerfiðleikum þá sé inneign viðskiptamanns tryggð í samræmi við lög 98/1999 um innstæðutryggingar.
Sóknaraðili kannist ekki við að umræddir „Almennir skilmálar fyrir markaðsviðskipti hjá SPRON“ hafi gilt um innlánsviðskipti hans í mars 2009 né hafi það staðið til, enda hafi varnaraðili ekki virt þá skilmála sjálfur. Því verði ekkert byggt á umræddum skilmálum sóknaraðila í óhag.
Peningamarkaðsinnlán sé einn af innlánaflokkunum sem viðskiptabankar og sparisjóðir hafi boðið uppá. Yfirleitt hafi verið tiltölulega háir vextir greiddir af þessum innlánsreikningum enda hafi innstæða á þeim að jafnaði verið bundin í einhvern tiltekinn tíma í senn og oft hafi einnig þurft að tilkynna með einhverjum fyrirvara ef viðskiptavinur hygðist taka út fé af reikningnum. Mismunandi reglur hafi gilt um þessa tegund innlána milli fjármálastofnana og hafi þær ýmist byggst á fyrirfram tilkynntum almennum skilmálum eða á sérstökum samningi sem fjármálastofnun hafi gert við viðkomandi viðskiptavin hverju sinni, eins og gert hafi verið í þessu tilviki sem hér sé til úrlausnar. Það sé ekki hugtaksskilyrði að innstæða sé því aðeins talin innlán í skilningi laga nr. 98/1999, að um það gildi að féð sé laust til ráðstöfunar hvenær sem er og að vextir sem greiddir séu á innstæðuna séu einhliða ákveðnir af viðkomandi fjármálafyrirtæki. Þvert á móti sé gert ráð fyrir því í 9. gr. l. nr. 98/1999, að innlán geti byggst á samningi. Það hafi einmitt verið slíkur samningur sem falist hafi í móttökukvittun varnaraðila vegna viðskiptanna. Þessu til áréttingar skuli bent á að þegar FME hafi tekið ákvörðun 21. mars 2009 um að flytja allar innstæður í SPRON í Nýja Kaupþing banka hf., þá segi í 1. tl. ákvörðunarinnar að allir skilmálar um tímalengd innlána skuli halda sér. Það þýði að viðurkennt sé að samningar geti kveðið á um að innstæður geti verið bundnar hjá lánastofnun í einhvern fyrirfram ákveðin tíma; m.ö.o.; þar sé ekki skilgreiningaratriði eða skilyrði til að flokka afhenta fjármuni sem „innstæðu“ í skilningi 3. mgr. 9. gr. l. nr. 98/1999, að hún sé alltaf laus til útborgunar. Í sömu ákvörðun komi fram að umsamdir vextir skyldu líka haldast óbreyttir.
Þá skipti heldur ekki máli með hvaða hætti varnaraðili hafi bókað umrætt fé í bækur sínar. Liðin sé sú tíð að sparifjáreigendur hafi átt sérstakar „sparisjóðsbækur“ þar sem viðskipti þeirra og viðskiptastaða hafi verið færð inn jafnóðum og hreyfing hafi orðið á reikningum. Fjármálastofnanir séu að sjálfsögðu bókhaldsskyldar og beri að færa inn- og útborganir viðskiptavina jafnóðum í bókhaldi sínu. Viðskiptavinurinn ráði engu um það hvernig það sé gert og það geti ekki ráðið eðli viðskiptanna hvernig fjármálastofnun færi bókhald sitt heldur ráði þar hvað viðskiptavinurinn telji sig vera að gera sbr. III. kafla í Hrd. 276/2011. Ef viðskiptavinurinn telji sig vera að afhenda fjármálastofnun venjulegt innlán en stofnunin bóki það sem aðra tegund lánsviðskipta þá sé það samt innlán sem flokka beri sem innstæðu í skilningi 9. gr. l. nr. 98/1999 sbr. V. kafla í Hrd. 311/2011. Slíkt innlán (með áföllnum vöxtum ef við eigi) beri að flokka sem kröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. l. nr. 21/1991 við slit eða skipti lánastofnunar, eins og áður sé rakið og hér sé krafist.
Það sé rétt að minnast á, að þegar FME hafi fært innstæður SPRON til Nýja Kaupþings banka hf. en hafi undanskilið í þeim flutningum peningamarkaðsinnlán fjármálafyrirtækja, þá hafi í ákvörðun FME ekki falist neinn úrskurður um réttarstöðu viðkomandi innlána annarra fjármálafyrirtækja við slitameðferð SPRON. Sóknaraðili hafi einnig átt fé hjá Glitni banka hf. sem eins hafi staðið á um þegar FME hafi flutt innstæður Glitnis til Nýja Glitnis banka hf. Sú innstæða hafi staðið sóknaraðila til ráðstöfunar hjá nýja bankanum á þeim degi sem um hafi verið samið við gamla bankann og með umsömdum vöxtum.
Í stað þess að sóknaraðili fengi innstæðu sína greidda hjá á umsömdum „lausnardegi“ hjá Nýja Kaupþingi banka hf. þá þurfi sóknaraðili að sækja hana sem forgangskröfu á hendur varnaraðila.
Við munnlegan málflutning mótmælti lögmaður sóknaraðila m.a. því að krafa hans gæti talist verðbréf og við endurflutning málsins reifaði hann sjónarmið sín um að í dómi Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli réttarins nr. 722/2012 kæmu fram skýrlega sjónarmið til stuðnings þessu.
III
Varnaraðili kveðst hafna því að krafa sóknaraðila njóti stöðu í réttindaröð sem forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Kveðst hann í fyrsta lagi byggja á því að krafa sóknaraðila uppfylli ekki skilyrði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 til að njóta þeirrar stöðu í skuldaröð. Sönnunarbyrði fyrir því að þeim skilyrðum sé fullnægt hvíli á sóknaraðila og telji varnaraðili að sóknaraðila hafi ekki tekist sú sönnun. Í þessu samhengi bendi varnaraðili einkum á að sóknaraðili sé lánastofnun í skilningi íslenskra laga og evrópuréttar, eins og nánar verði vikið að síðar. Af þeim sökum njóti innstæða sóknaraðila ekki tryggingarverndar samkvæmt lögum nr. 98/1999 og þar af leiðandi ekki forgangsréttar við slitameðferð varnaraðila. Þegar af þeirri ástæðu geti krafan ekki notið þeirrar rétthæðar við slit varnaraðila, sem sóknaraðili krefjist, og þurfi því raunar ekki að leysa sérstaklega úr því hvort krafan sé til komin sem innlán eða lánveiting.
Verði ekki fallist á framangreint byggii varnaraðili í öðru lagi á því að samningur málsaðila hafi falið í sér lánveitingu og teljist af þeirri ástæðu ekki til innstæðu í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Að því frágengnu byggi varnaraðili á því í þriðja lagi að krafa sóknaraðila sé í formi verðbréfs í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og njóti þar af leiðandi ekki tryggingaverndar laganna.
Samkvæmt tilskipun 94/19/EC um innstæðutryggingar, sem lög nr. 98/1999 byggi á, séu innstæður lánastofnana (e. Credit Institution) undanskildar tryggingarvernd hennar.
Sóknaraðili sé fjármálafyrirtæki sem hafi starfsleyfi sem lánafyrirtæki skv. 3. tl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002. Í 2. mgr. 4. gr. laganna segi að fjármálafyrirtæki sem hafi starfsleyfi skv. 1. - 4. tl. 1. mgr. teljist vera lánastofnun í skilningi laganna. Sóknaraðili teljist því til fjármálafyrirtækis, lánafyrirtækis og lánastofnunar samkvæmt lögum nr. 161/2002. Framangreint hafi að mati varnaraðila lykilþýðingu fyrir úrlausn málsins.
Í athugasemdum við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 komi fram að hugtakið lánastofnun sé skilgreint í samræmi við tilskipun 2000/12/EC um stofnun og rekstur lánastofnana, þ.e. sem fyrirtæki með starfsemi sem felist í að taka á móti innlánum eða öðru fé frá almenningi til endurgreiðslu og veita lán fyrir eigin reikning (e. "credit institution" shall mean an undertaking whose business is to receive deposits or other repayable funds from the public and to grant credits for its own account.) Tilskipun 2000/12/EC hafi verið endurútgefin með áorðnum breytingum sem tilskipun nr. 2006/48/EC. Skilgreiningin á lánastofnun sé sú sama í báðum tilskipununum.
Í 4. tl. 1. gr. tilskipunar 94/19/EC um innlánatryggingakerfi sé lánastofnun skilgreind á sama hátt og í tilskipun 2000/12/EC, nú tilskipun 2006/48/EC:
4. 'credit institution' shall mean an undertaking the business of which is to receive deposits or other repayable funds from the public and to grant credits for its own account;
Samkvæmt ofangreindu sé ljóst að fjármálafyrirtæki sem teljist til lánastofnunar í skilningi laga nr. 161/2002 falli einnig undir hugtakið lánastofnun í tilskipun 94/19/EB. Í ljósi þess að sóknaraðili sé lánastofnun og það fjármagn sem hann hafi afhent varnaraðila tímabundið til ráðstöfunar hafi verið í eigin þágu og fyrir eigin reikning þá njóti krafa sóknaraðila ekki tryggingaverndar samkvæmt tilskipun 94/19/EC og lögum nr. 98/1999.
Ráðið verði af dómi Hæstaréttar frá 2. júní 2010 í máli nr. 184/2010 að krafa þurfi ekki aðeins að falla undir skilgreiningu hugtaksins innstæða samkvæmt lögum nr. 98/1999 til þess að hún njóti rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 heldur þurfi hún einnig að teljast til tryggðrar innstæðu skv. fyrrnefndu lögunum. Það sé í samræmi við markmið og tilgang fyrrgreindrar tilskipunar um neytendavernd. Í markmiðsákvæði tilskipunarinnar segi í 10. tl.:
„Rétt er að þau innlán sem lánastofnanir stofna til í eigin þágu og fyrir eigin reikning séu undanskilin tryggingu.“
Í 1. tl. 2. gr. tilskipunarinnar sé svofellt ákvæði í samræmi við framangreint:
„Eftirfarandi telst ekki til innlána sem má endurgreiða í gegnum tryggingakerfi:
Innlán af hálfu annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning, sbr. þó 3. mgr. 8. gr.“
Markmið og tilgangur setningar laga nr. 98/1999 hafi verið að lögfesta framangreinda tilskipun 94/19/EC um innlánatryggingakerfi. Með setningu laganna hafi fallið úr gildi X. kafli brottfallinna laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði sem upphaflega hafi lögfest umrædda tilskipun. Í lögskýringargögnum með 9. gr. núgildandi laga nr. 98/1999 komi fram að greinin sé byggð á 1.- 3. mgr. 78. gr. hinna brottfelldu laga. Í 2. og 3. mgr. greinarinnar segi svo:
„Með innstæðu í 1. mgr. er átt við innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum. Tryggingin nær hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla og annarra krafna sem útgefnar eru af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
Undanskildar tryggingu skv. 1. mgr. eru innstæður í eigu annarra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning og innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti, svo og innstæður dóttur- eða móðurfélags þessara stofnana.“
Í athugasemdum sem hafi fylgt með frumvarpi til laganna segi um 3. mgr. 78. gr. þeirra:
„Í 3. mgr. eru taldar upp innstæður sem samkvæmt tilskipuninni skulu ávallt vera undanþegnar tryggingu. Þar er í fyrsta lagi um að ræða innstæður í eigu annarra viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana fyrir þeirra eigin reikning. Innstæðutryggingum er fyrst og fremst ætlað að bæta tjón almennra innstæðueigenda en ekki annarra lánastofnana sem ættu að búa yfir nægjanlegri þekkingu á fjárhagsstöðu annarra slíkra stofnana til að vita hvar þeim er hætt að leggja inn fé sitt.“
Með 3. mgr. 78. gr. umræddra laga hafi verið lögfest ákvæði 1. liðs 2. gr. tilskipunarinnar sem kveði á um að innlán af hálfu annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning teljist ekki til innlána sem megi endurgreiða í gegnum tryggingakerfi. Samhljóða ákvæði hafi ekki verið tekið upp í núgildandi lög nr. 98/1999. Af lögskýringargögnum verði þó ráðið að vilji löggjafans hafi staðið til að byggja 9. gr. á sömu efnisreglum og 1. - 3. mgr. 78. gr. hinna brottfelldu laga og telji varnaraðili að skýra beri 9. gr. laga nr. 98/1999 með hliðsjón af því.
Í ljósi þess sem hér hafi verið rakið, svo og þess að skýra beri lög nr. 98/1999, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við tilskipun 94/19/EC, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og bókun 35 sem sé hluti EES samningsins, þá teljist innlán af hálfu annarra lánastofnana í þeirra eigin þágu og fyrir eigin reikning ekki til innstæðna í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og séu jafnframt undanskildar tryggingavernd laganna, sbr. einnig 6. mgr. 9. gr. laganna. Varnaraðili árétti sérstaklega í þessu sambandi að greinarmunur sé á ákvæði 1. liðs 2. gr. tilskipunar 94/19/EC og 2. mgr. 7. gr. hennar. Hið fyrrnefnda ákvæði, sem hér sé byggt á, feli í sér fortakslausan undanskilnað frá tryggingarvernd, í samræmi við neytendasjónarmið þau sem tilskipunin byggi á, en á móti feli hið síðarnefnda ákvæði í sér heimild fyrir aðildarríki til að undanskilja ákveðna aðila eða innstæður tryggingavernd.
Fallist dómurinn ekki á að framangreint leiði til þess að hafna beri kröfum sóknaraðila byggi varnaraðili einnig á því að þeir fjármunir sem sóknaraðili hafi afhent varnaraðila tímabundið til ráðstöfunar hafi falið í sér lánsviðskipti milli tveggja fjármálafyrirtækja en ekki innlánsviðskipti.
Varnaraðili leggi áherslu á að við mat á því hvort um lánsviðskipti eða innlánsviðskipti hafi verið að ræða beri að beita heildstæðu mati á málsatvikum og gögnum málsins út frá gildandi lagaumhverfi með sérstakri hliðsjón af stöðu sóknaraðila sem fjármálafyrirtækis. Af þessu mati leiði að þegar um viðskipti á milli fjármálafyrirtækja sé að ræða séu jafnan löglíkur til þess að um lánsviðskipti sé að ræða, sem séu liður í lausafjárstýringu þeirra og ávöxtun á handbæru fé, en að öndverð regla gildi þegar mótaðili viðskiptanna sé ekki fjármálafyrirtæki.
Í ákvörðunum FME um ráðstöfun eigna og skulda Glitnis, Kaupþings og Landsbankans frá október 2008 hafi verið kveðið á um að nýju bankarnir skyldu yfirtaka skuldbindingar í útibúum bankanna „á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum.“ Þá hafi verið tekið fram að nýju bankarnir yfirtækju „innlendar innstæður miðað við stöðu og áunna vexti“ á ákveðnum degi. Í ákvörðuninni hafi ekki verið skilgreint nánar hvað átt væri við með hugtökunum innlán eða innstæða í þessu samhengi. Í kjölfarið hafi komið í ljós að framkvæmd nýju bankanna á ákvörðuninni hafi verið mismunandi. Af því tilefni var unnið minnisblað fyrir Fjármálaeftirlitið um álitaefnið sem lagt hafi verið til grundvallar ákvörðun stjórnar FME þann 11. nóvember 2008 um að peningamarkaðslán fjármálafyrirtækja hjá bönkunum yrðu ekki flutt til hinna nýju banka. Af því leiði eðli málsins samkvæmt að stjórn FME hafi ekki litið á peningamarkaðslán / peningamarkaðsinnlán fjármálafyrirtækja sem innlán eða innstæðu í skilningi laga.
Í öðru bréfi FME um sama efni þann 21. nóvember 2008 sé grundvöllur ákvörðunar stjórnar FME skýrður nánar. Eins og þar greini hafi ákvörðun FME verið byggð á „heildstæðu mati á öllum þáttum og skoðun á ýmsum gögnum sem aflað [hafi verið] um efni og eðli þessara samninga.“ Þá hafi verið upplýst að horft hefði verið til fjögurra nánar greindra þátta við matið sem varnaraðili telji að séu meðal þeirra meginatriða sem horfa beri til við mat á því hvort viðskipti sóknaraðila teljist til innlánsviðskipta eða lánsviðskipta. Nánar tiltekið hafi verið horft til eftirfarandi þátta:
- Eðli þeirra samninga sem um ræðir. Samkvæmt ákvörðun FME er vandséð að nokkur eðlismunur sé á peningamarkaðslánum og „öðrum millibankalánum.“
- Peningamarkaðslán séu þáttur í reglubundinni starfsemi fjármálafyrirtækja ólíkt slíkum innlánum einstaklinga og fyrirtækja.
- Hvernig viðkomandi innstæður hafi verið færðar í bækur viðkomandi banka.
- Hvort greitt hafi verið iðgjald af peningamarkaðslánum fjármálafyrirtækja í tryggingasjóð innstæðueigenda. Upplýst hafi verið að enginn bankanna þriggja hafi greitt iðgjald af þessum lánum og eins og síðar verði rakið hafi sóknaraðili ekki greitt iðgjald af peningamarkaðsláni sóknaraðila eða annarra fjármálafyrirtækja til sjóðsins.
Ofangreind sjónarmið FME, sem verði vart túlkuð á annan veg en þann að peningamarkaðslán fjármálafyrirtækja teljist ekki til innstæðna í skilningi laga nr. 98/1999, fái fulla stoð í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann 22. desember 2010 í máli Aresbank S.A. gegn Landsbankanum, Fjármálaeftirlitinu og íslenska ríkinu, sbr. einnig úrskurð Hæstaréttar frá 15. desember 2011 í máli nr. 169/2011. Fyrir héraðsdómi hafi Aresbank S.A. aflað matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Samkvæmt matsgerðinni sé litið svo á að þegar fjármálafyrirtæki sé lánveitandi í samningi um peningamarkaðslán þá sé samningsgerðin liður í útlánastarfsemi þess en á móti sé litið á samning um peningamarkaðslán sem tímabundna ávöxtun á lausu fé þegar lánveitandi sé ekki fjármálafyrirtæki. Í matsgerðinni hafi hefðbundin millibankalán milli fjármálafyrirtækja og peningamarkaðsinnlán milli sömu aðila verið borin saman. Niðurstaða matsgerðarinnar hafi verið sú að peningamarkaðsinnlán milli tveggja fjármálafyrirtækja væri millibankalán og teldist til lánveitingar en ekki innstæðu í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999.
Héraðsdómur, sem skipaður var tveimur héraðsdómurum og sérfróðum meðdómsmanni, lagði niðurstöðu matsgerðarinnar til grundvallar í niðurstöðu sinni og staðfesti að peningamarkaðslán milli tveggja fjármálafyrirtækja teldust ekki til innstæðu í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar sem kvað upp úrskurð um að rétt væri að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á hugtakinu innstæða skv. 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EC um innlánatryggingakerfi. Af úrskurði Hæstaréttar verði ekki dregin önnur ályktun en að dómar Hæstaréttar sem fallið hafi þann 28. október 2011 og varðað hafi svokölluð heildsöluinnlán (e. wholesale deposit) hafi ekki fordæmisgildi í málum sem varði peningamarkaðslán þegar lánveitandi sé fjármálafyrirtæki. Bendi varnaraðili auk þess á að í umræddum málum hafi kröfuhafar verið sveitarfélög í Bretlandi og Hollandi en ekki fjármálafyrirtæki líkt og í máli þessu.
Við munnlegan málflutning gerði lögmaður varnaraðila grein fyrir því að hann teldi framangreind sjónarmið eiga við fullum fetum þrátt fyrir að frá því greinargerð var skrifuð hafi dómur EFTA-dómstólsins fallið, sem og dómur Hæstaréttar í ofangreindu máli. Vísaði lögmaður varnaraðila m.a. til þess að eins að Hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu sinni þá hafi þeim sjónarmiðum sem hann byggir á ekki verið hafnað.
Með vísan til framangreinds telji varnaraðili ljóst að við skýringu á hugtakinu innstæða verði fyrst og fremst að líta til þess hver sé mótaðili viðskiptanna. Ákvarðanir FME, þau gögn sem legið hafi ákvörðunum til grundvallar sem og matsgerð dómkvaddra matsmanna í framangreindu máli, sem hafi fordæmisgildi hér, styðji þessa ályktun.
Verði ekki fallist á að framangreint leiði til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila sé jafnframt á því byggt að viðskiptin teljist ekki til innlánsviðskipta þar sem þau falli ekki undir hugtakið innlán eins og það beri að skýra.
Í 1. grein tilskipunarinnar sé hugtakið innlán (e. deposit) skilgreint með eftirfarandi hætti:
„any credit balance which results from funds left in an account or from temporary situations deriving from normal banking transactions and which a credit institution must repay under the legal and contractual conditions applicable, and any debt evidenced by a certificate issued by a credit institution.“
Í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda, sbr. dóm Héraðsdóm Reykjavíkur þann 22. desember 2010 í máli Aresbank, sé 1. gr. tilskipunarinnar þýdd svo:
„þá merkir hugtakið „innlán“ hvers konar inneign sem verður til við það að fjármagn er látið standa eftir inni á bankareikningi eða vegna tímabundinna aðstæðna sem stafa af almennum bankaviðskiptum og sem innlánsstofnun skal endurgreiða í samræmi við þar að lútandi laga- og samningsskilmála, og hvers konar skuld sem viðurkennd er með vottorði, útgefnu af innlánsstofnun.“
Það sé liður í inntaki innstæðuhugtaksins að fjármagn standi eftir inni á bankareikningi eða að innlánstofnun hafi með vottorði viðurkennt skuld vegna innstæðu.
Samkvæmt skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópuráðsins sé með bankareikningi sérstaklega átt við hlaupa- og sparireikninga en einnig hvers konar geymslustað þar sem fjármunir séu almennt geymdir til lengri tíma en á hlaupareikningum (e. any other instrument in which funds generally remain for longer than in current accounts). Hlaupareikningar séu tékkareikningar með höfuðbókarnúmerið 26.
Varnaraðili bendi á að það fjármagn sem sóknaraðili hafi lánað varnaraðila hafi verið lagt inn á reikning fjárstýringar SPRON nr. 1159 26 1159. Í málinu liggi fyrir yfirlit yfir færslur á umræddum reikningi. Eins og þar komi fram hafi fjárhæðin verið lögð inn á reikninginn þann 2. febrúar 2009 sem þá hafi verið í mínus (með yfirdrætti) en eftir innlögnina hafi staða reikningsins verið jákvæð um 212.111.111 krónur. Daginn eftir, eða þann 3. febrúar, hafi fjárhæðin verið tekin út af reikningnum. Sú fjárhæð, sem sóknaraðili hafi lánað varnaraðila, hafi ekki verið sérgreind inni á umræddum reikningi þann dag sem hún hafi verið þar eða síðar hvorki á þeim reikningi eða öðrum reikningum hjá varnaraðila. Fjárhæðin hafi aldrei verið lögð inn á sérgreindan reikning í nafni sóknaraðila eða annan reikning sem hann hafi átt tilkall til, enda hafi sóknaraðili engan innlánsreikning átt hjá varnaraðila.
Af innstæðuhugtakinu og lögskýringargögnum verði ekki annað ráðið en fjármunirnir þurfi á einhvern hátt að tilheyra eiganda þeirra eða vera auðkenndir honum til að geta talist til innstæðu. Með öðrum orðum verður að telja að innstæðueigandi þurfi að geta sýnt fram á það með einhverjum hætti að fjármunirnir séu „merktir“ honum sérstaklega hjá viðkomandi innlánsstofnun á tilteknum bankareikningi sem innlán.
Slíkt geti komið til annars vegar með því fjármunir standi inni á sérgreindum reikningi í nafni eða kennitölu innstæðueigandans eða á annars konar reikningi sem hann hafi umráð yfir og/eða tilkall til, t.d. safnreikningi. Þá verði jafnframt talið að eigandi fjármunanna þurfi að hafa aðgang að þeim með einhverjum hætti eða að hafa ráðstöfunarrétt yfir þeim og möguleika til að afla upplýsinga um innstæðuna, t.d. í heimabanka. Að öðrum kosti væri örðugt að sýna fram á að fjármunir þeir sem afhentir hafi verið innlánsstofnun tímabundið til ráðstöfunar hafi verið innlán en ekki hefðbundin lánveiting.
Hins vegar geti það talist til innstæðu ef vottorð, útgefið af innlánsstofnun, staðfesti að viðkomandi eigi innstæðu hjá viðkomandi innlánsstofnun (e. deposit receipts).
Þegar hvorki bankareikningi né vottorði, sem staðfesti inneign, sé til að dreifa þurfi að kanna hvort eigandi þeirra hafi slík umráð yfir fjármununum að það megi jafna til þess að þeir standi inni á bankareikningi. Í samræmi við almennar reglur standi það sóknaraðila nær að sýna fram á að svo hafi verið.
Peningamarkaðslán sóknaraðila uppfylli ekki framangreind skilyrði. Varnaraðili telji að efni samnings málsaðila beri skýrlega með sér að samningur um lán hafi komist á milli málsaðila. Nánar tiltekið lofi sóknaraðili að lána tiltekna fjárhæð og varnaraðili lofi að endurgreiða sömu fjárhæð, auk vaxta, á gjalddaga. Umræddur samningur milli málsaðila sé samningurinn um skammtímalán sem beri heitið peningamarkaðslán og sé efni hans í samræmi við eðli slíkra lána. Í samningnum sé sóknaraðili tilgreindur sem lánveitandi og varnaraðili lántaki. Hvergi komi fram orðið innlán í texta samningsins og hafi sóknaraðili með engu móti getað litið svo á að um samning um innlán væri að ræða.
Varnaraðili minni á að hér á landi ríki frelsi um efni samnings og verði lánssamningur eðli málsins samkvæmt ekki talinn fela í sér innlánsviðskipti nema innihald samningsins og forsendur fyrir honum gefi það til kynna. Eins og að framan sé reifað sé sóknaraðili fjármálafyrirtæki og sem slíkt sérfræðingur á sviði fjármála og viðskipta. Á sóknaraðila hvíli því að sýna fram á að samningurinn sé annars efnis en orðalag hans gefi skýrlega til kynna.
Umsamin vaxtakjör gefi sterka vísbendingu um hvaða forsendur sóknaraðili hafi haft fyrir samningsgerðinni þar sem vaxtakjörin gefi til kynna hversu mikil áhætta felist í viðskiptum. Því hærri sem vextirnir séu þeim mun meiri hætta sé talin á tapi eðli málsins samkvæmt.
Vextir samkvæmt samningi málsaðila hafi verið sérstaklega umsamdir 20,6% og töluvert hærri en þeir vextir sem sóknaraðila hafi staðið til boða á innlánsreikningum sóknaraðila á þessum tíma eða annarra innlánsstofnanna. Hæstu vextir sem hafi boðist á óverðtryggðum innlánum hjá varnaraðila sem numið hafi 250.000.000,- krónum hafi verið á vaxtabótareikningi 18,6% og hafi vextirnir verið greiddir einu sinni á ári.
Vaxtakjör peningamarkaðsláns sóknaraðila beri öll einkenni þess að lánssamningur hafi komist á milli málsaðila og sé það í fullu samræmi við efni samningsins sjálfs. Vaxtakjör hans hafi verið hærri en á innlánsreikningum og hafi sóknaraðila mátt vera það ljóst. Þá hafi sóknaraðila jafnframt mátt vera ljóst að vaxtakjörin sem um hafi verið samið hafi verið töluvert yfir REIBID vöxtum á millibankamarkaði, eða sem svari til 2,6% á þessum tíma. Ofangreint renni eindregið stoðum undir þá staðreynd að forsenda sóknaraðila fyrir samningsgerðinni hafi verið að veita varnaraðila lán og fá fyrir vikið mun hærri ávöxtun heldur en í boði hafi verið á hefðbundnum innláns- og sparisjóðsreikningum hjá varnaraðila eða öðrum sem tekið hafi við innlánum á þeim tíma.
Gjalddagi samningsins og greiðslustaður gefi eindregið til kynna að lánssamningur hafi komist á milli aðila. Varnaraðili byggi á því að grundvallarmunur sé á skilmálum um gjalddaga og greiðslustað eftir því hvort skuldbinding sé innlán eða lán.
Í lánssamningum megi nánast fullyrða að gjalddagi sé ávallt umsaminn og greiðslustaður sé að meginreglu hjá kröfuhafa. Ef krafa sé ekki greidd á réttum tíma sé fyrir hendi vanefnd af hálfu skuldara sem heimili kröfuhafa að beita vanefndaúrræðum. Til að mynda að krefja skuldara um dráttarvexti frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi, hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Hins vegar sé meginreglan í innlánsviðskiptum sú að þegar samið sé um binditíma innláns þá sé fjármagn laust til útborgunar eftir þann tíma hjá viðkomandi innlánsstofnun. Það sé háð frumkvæði kröfuhafa að fá fjármagnið „afhent“. Í þeim tilvikum sem innlán sé bundið í tiltekinn tíma samkvæmt skilmálum viðkomandi innlánsreiknings sé meginreglan sú að innstæðan sé laus til útborgunar eftir þann tíma hjá viðkomandi banka.
Í máli þessu hafi aðilar sérstaklega samið um gjalddaga lánsins sem gefi það eindregið til kynna að lánssamningur hafi komist á milli aðila enda ætti orðalag um gjalddaga engan veginn við ef um innlánsviðskipti hefði verið að ræða. Þá hafi sérstaklega verið um það samið að peningamarkaðslánið yrði greitt inn á bankareikning kröfuhafa nr. 565-26-100 sem muni vera tékkareikningur sóknaraðila hjá Glitni banka hf.
Sóknaraðili hafði í upphafi samband við fjárstýringu SPRON vegna viðskiptanna en ekki gjaldkera í einhverju útibúa SPRON, eins og hefði verið gert ef um innlögn á innlánsreikning hefði verið að ræða. Í tölvukerfi Reiknistofu bankanna hafi öll innlán viðskiptamanna SPRON verið skráð. Samkvæmt ákvörðun FME frá 21. mars 2009 um yfirtöku FME á valdi hluthafafundar SPRON hafi öll innlán SPRON flust til Nýja Kaupþings hf. (nú Arion banki hf.), sem falist hafi í tilfærslu allra innlánsreikninga í RB kerfinu til Nýja Kaupþings banka hf. Peningamarkaðslán sóknaraðila hafi hins vegar ekki verið skráð sem innlán í tölvukerfi Reiknistofu bankanna heldur í tölvukerfi fjárstýringar SPRON sem nefnt sé IT2. Í síðarnefnda kerfinu hafi verið haldið utan um afleiðuviðskipti, millibankalán, peningamarkaðslán og önnur viðskipti sem verið hafi liður í fjármögnun SPRON og lausafjárstýringu.
Sóknaraðili hafi ekki getað haft væntingar til þess að viðskiptin fælu í sér innlögn hans á bankareikning hjá SPRON eða innstæðuviðskipti, enda liggi fyrir í málinu að sóknaraðili hafi ekki átt bankareikning hjá SPRON á árunum 2005-2009.
Þá vísi varnaraðili einnig til þess að viðskiptin hafi ekki verið færð í bókhald SPRON sem innstæðuskuldbinding heldur sem skuld. Peningamarkaðslán fjármálafyrirtækja hafi ekki verið færð sem innstæður eða „almenn innlán“ eins og þau hafi verið nefnd í ársreikningum SPRON.
Samkvæmt yfirliti sem liggi fyrir í málinu hafi innstæður hjá varnaraðila, eða „Almenn innlán“ eins og þær séu nefndar, verið í lok árs 2007 að fjárhæð 82,829 ma. króna og að fjárhæð 98,280 ma. króna í lok árs 2008. Af þessum fjárhæðum hafi sóknaraðili grett iðgjöld til Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Eins og nánar greinir í sundurliðunarskjölum á almennum innlánum SPRON, sem greidd hafi verið iðgjöld af sem innstæðum, hafi hvorki millibankalán né peningamarkaðslán fjármálafyrirtækja á milli verið á meðal þeirra lána sem greidd hafi verið iðgjöld af.
Að endingu byggi varnaraðili á því að krafa sóknaraðila sé í formi verðbréfs í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og njóti þar af leiðandi ekki tryggingaverndar.
Vísi varnaraðili til skilgreiningar á hugtakinu verðbréf í lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og eldri lögum um sama efni nr. 33/2003 og 13/1996, enda sé slíka skilgreiningu ekki að finna í lögum nr. 98/1999. Í 2. gr. laga nr. 13/1996, sem í gildi hafi verið við setningu laga nr. 98/1999, komi fram að verðbréf séu hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum. Með lögum nr. 33/2003 hafi hugtakið verið skilgreint sem hvers konar framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignarréttindum að öðru en fasteign eða einstökum lausafjármunum, svo sem hlutabréf, skuldabréf, áskriftarréttindi, skiptanleg verðbréf og breytanleg verðbréf. Í núgildandi lögum hafi efnisleg skilgreining á hugtakinu verðbréf verið felld niður en af athugasemdum í greinargerð megi þó ráða að brotfall skilgreiningarinnar hafi ekki falið í sér efnislega breytingu á merkingu hugtaksins. Það verði því áfram stuðst við skilgreininguna á verðbréfum í lögum nr. 33/2003.
Krafa sóknaraðila sé framseljanleg, enda kröfur og viðskiptabréf almennt framseljanleg nema samið sé um hið gagnstæða. Þá hljóði hún upp á ákveðna peningagreiðslu. Ekki sé gerð krafa um frekari formskilyrði til að samningur málsaðila falli undir hugtakið verðbréf. Verðbréf teljist ekki til innstæðu í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og njóti þar með ekki forgangsréttar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. við slitameðferð varnaraðila. Af þeirri ástæðu beri einnig að hafna kröfu sóknaraðila.
Við endurflutning málsins vísaði lögmaður varnaraðila til dóms Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012. Byggði hann á að nefndur dómur væri skýrt fordæmi um að samningur aðila væri verðbréf og því undanskilinn tryggingavernd.
Að öðru leyti en að framan greini kveðst varnaraðili mótmæla umfjöllun í greinargerð sóknaraðila um lánareglur sóknaraðila og áskilnað laga og reglna sem sóknaraðila sé gert að fylgja í starfsemi sinni sem rangri. Hlutverk Byggðastofnunar sé að efla atvinnulíf á landsbyggðinni m.a. með lánveitingum og ráðgjöf eftir þeim reglum sem um það gildi, eins og greini réttilega í greinargerð sóknaraðila. Hins vegar sé sóknaraðila ekki óheimilt að ávaxta handbært fé sitt með skammtímalánveitingum í formi peningamarkaðslána. Það sé grundvallarmunur á þeim lánveitingum sem miði að því hlutverki sem sóknaraðila sé ætlað að sinna og svo þeim lánveitingum sem mál þetta varði.
Þá mótmæli varnaraðili því sérstaklega að samningur aðila frá 16. mars 2009, hafi verið „kvittun fyrir móttöku“ eins og haldið sé fram í greinargerð sóknaraðila. Hið rétta sé að skjalið sé lánssamningur enda hafi hann verið undirritaður af starfsmanni Byggðastofnunnar með þeim kjörum sem málsaðilar hafi samið um í símtali. Kvittanir séu einhliða yfirlýsingar samkvæmt skilgreiningu og þess sé almennt ekki krafist að viðtakandi þeirra undirriti þær.
Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 102. gr., sem og breytingalaga nr. 125/2008 og nr. 44/2009. Þá sé vísað til gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991, einkum 112. gr. - 114. gr. Einnig til laga nr. 98/1999 um tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Þá sé vísað til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, sem og brottfallinna laga um sama efni nr. nr. 33/2003 og 13/1996. Einnig sé vísað til laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Þá sé vísað til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skýringu og túlkun löggerninga. Byggt sé á tilskipunum 94/19/EC, 2000/12/EC og 2006/48/EC. Málskostnaðarkrafa styðjist við 129. 131. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Vísað sé til brottfallinna laga nr. 113/1996 um viðskiptabanka og sparisjóði og reglna nr. 805/2009 um viðskipti á millibankamarkaði í íslenskum krónum.
IV
Ágreiningur aðila málsins lýtur að því hvort kröfu að fjárhæð 271.296.011 krónur, sem sóknaraðili lýsti við slitameðferð varnaraðila, skuli skipa í skuldaröð sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 eða sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þarf því að skera úr um það í málinu hvort viðskipti aðila falli undir skilgreiningu hugtaksins „innstæða“ samkvæmt 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og ef svo er hvort innstæðan njóti tryggingaverndar laganna, sbr. ákvæði sem nú er að finna í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og mælir fyrir um að innstæðum samkvæmt fyrrnefndu lögunum skuli skipa í skuldaröð samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili telur og að krafa sóknaraðila sé tilkomin vegna lánveitingar og teljist því ekki til innstæðu í ofangreindum skilningi, en einnig vísar hann til þess að krafan sé í formi verðbréfs í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og njóti því ekki tryggingaverndar laganna.
Eins og rakið er hér að framan þegar gerð var grein fyrir málatilbúnaði málsaðila liggur fyrir að sóknaraðili máls þessa er ríkisstofnun og um hann gilda lög nr. 106/1999. Sóknaraðili telst einnig lánastofnun samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 161/2002 og mun hafa starfsleyfi sem lánafyrirtæki samkvæmt 3. tl. 1. mgr. sömu lagagreinar. Til lánastofnana teljast einnig fjármálafyrirtæki sem hafa starfsleyfi samkvæmt töluliðum 1, 2 og 4 nefndrar lagagreinar, en það eru viðskiptabankar, sparisjóðir og rafeyrisfyrirtæki. Fyrir liggur að sóknaraðili fellur ekki undir 3. gr. laga nr. 98/1999 en þar er skilgreint hverjir séu aðilar að tryggingasjóði samkvæmt þeim lögum. Liggur fyrir í málinu bréf tryggingasjóðsins með staðfestingu þess að sóknaraðili sé ekki aðili að sjóðnum og hafi aldrei greitt iðgjöld til hans.
Lögum nr. 98/1999 er ætlað að innleiða tilskipun 94/19/EB um innlánatryggingakerfi en í 2. gr. tilskipunarinnar segir m.a. að innlán af hálfu annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning teljist ekki til innlána sem megi endurgreiða í gegnum tryggingakerfi.
Byggir varnaraðili á því að vegna tilvitnaðs ákvæðis tilskipunarinnar sé óheimilt að mæla fyrir um tryggingavernd þeirrar kröfu sem hér sé deilt um þar sem sóknaraðili sé lánastofnun í ofangreindum skilningi. Leiði þetta þegar til þeirrar niðurstöðu að hafna beri kröfu sóknaraðila.
Í 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 er kveðið á um að undanskilið tryggingu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar séu innstæður, verðbréf og reiðufé í eigu aðildarfyrirtækja, svo og móður og dótturfyrirtækja þeirra, fyrir þeirra eigin reikning. Aðrar undanþágur sem mælt er fyrir um í greininni hafa hér ekki þýðingu. Eins og fyrr er vikið að er kveðið á um það í 3. gr. laganna hverjir skuli eiga aðild að tryggingasjóðnum. Segir þar að viðskiptabankar, sparisjóðir, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og aðrir sem nýti sér heimildir til að stunda viðskipti með verðbréf í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti, sem hafi staðfestu hér á landi, skuli eiga aðild að sjóðnum. Þá kemur m.a. fram í lokamálslið greinarinnar að umrædd fyrirtæki séu í lögunum nefnd aðildarfyrirtæki.
Í 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska Efnahagssvæðið segir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við eigi, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggi. Umrædd lagagrein var skýrð svo í dómi Hæstaréttar 9. desember 2010 í máli nr. 79/2010 að lögskýring í samræmi við ákvæðið taki eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo sem framast er unnt gefin merking er rúmist innan þeirra og næst komist því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eigi á Evrópska efnahagssvæðinu, en hún geti á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið verði framhjá orðum íslenskra laga.
Með hliðsjón af sjónarmiðum sem fram koma í nefndum dómi Hæstaréttar sem einnig eiga sér trausta stoð í almennum lögskýringarreglum er ekki unnt að fallast á með varnaraðila að lög nr. 98/1999 undanskilji sóknaraðila tryggingavernd samkvæmt orðum sínum. Liggur enda fyrir í málinu að þótt sóknaraðili teljist lánafyrirtæki er hann ekki aðildarfyrirtæki í skilningi 6. mgr. 9. gr., sbr. 3. gr. laganna. Getur tilvísun til orða tilskipunarinnar og þess hvernig ákvæði hennar voru í öndverðu innleidd í íslenskan rétt ekki breytt því að slíkur skilningur rúmast ekki innan orða laganna en þau eru sú réttarheimild sem horfa ber til.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu liggur fyrir að taka afstöðu til þess hvort umrædd krafa geti talist innstæða í skilningi 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, sbr. skilgreiningu sem fram kemur í 3. mgr. ákvæðisins. Segir þar að með innstæðu í 1. mgr. sé átt við innstæðu sem tilkomin sé vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði beri að endurgreiða samkvæmt skilmálum sem gildi samkvæmt lögum eða samningum. Þá er tekið fram að tryggingin nái hins vegar ekki til skuldabréfa, víxla eð annarra krafna sem útgefnar séu af viðskiptabanka eða sparisjóði í formi verðbréfa.
Hér að framan var vitnað til 2. gr. tilskipunar 94/19/EB um innlánatryggingakerfi þar sem segir m.a. að innlán af hálfu annarra lánastofnana í eigin þágu og fyrir eigin reikning teljist ekki til innlána sem megi endurgreiða í gegnum tryggingakerfi. Hugtakið innlán er skilgreint í 1. gr. tilskipunarinnar með eftirfarandi hætti: „innlán“: innstæða sem er tilkomin vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun ber að endurgreiða með skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum, svo og kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verðbréfa.
Í dómi EFTA-dómstólsins 22. nóvember 2012 í máli nr. E-17/11 er fjallað um túlkun á hugtakinu „innlán“ í 1. mgr. 1. gr. tilskipunar 94/19/EB. Þar kemur meðal annars fram að innlán í skilningi tilskipunarinnar geti tekið á sig þrenns konar mynd. Í fyrsta lagi innstæða sem komin sé til vegna innláns. Í öðru lagi innstæða sem komin sé til vegna millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og lánastofnun ber að endurgreiða með skilmálum er gildi samkvæmt lögum eða samningum. Í þriðja lagi kröfur útgefnar af lánastofnun í formi verðbréfa, eða skuld sem staðfest hafi verið með annars konar skilríkjum.
Hér varðar ef til vill mestu að í dómi EFTA-dómstólsins kemur fram að orðalag tilskipunarinnar bendi ekki til þess að það hafi nokkur áhrif á hvort fjármunir skuli teljast innlán í skilningi hennar að innstæðueigandi sé lánastofnun. Það kunni á hinn bóginn að hafa áhrif á það hvort viðkomandi innlánseigandi uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu samkvæmt tilskipuninni. Kveður dómurinn á um að innlánshugtakið hafi annars vegar víðtæka (tæknilega) merkingu og hins vegar þrengri (virka) merkingu. Þá kemur fram að það sé landsdómstólsins að meta að hvaða marki reglur landsréttar vísi til EES-réttar, þegar reglur landsréttar, sem einungis stjórna aðstæðum innanlands, byggist á sömu eða sambærilegum lausnum og EES-réttur. Samkvæmt því sé það landsdómstólsins að taka afstöðu til þess hvort beita beri tæknilegri eða virkri skilgreiningu innlánahugtaksins í sambandi við þær reglur landsréttar sem um ræði í málinu.
Hér ber að nefna að í máli því sem var til skoðunar í nefndum dómi EFTA-dómstólsins var tekist á um það m.a. hvort spænsk lánastofnun gæti talist eiga innlán hjá íslenskum banka. Komust samningar á milli aðila með svokölluðu SWIFT samskiptakerfi. Var samið um að leggja fram tilteknar fjárhæðir sem endurgreiða átti með umsömdum vöxtum á tilgreindum dögum. Fram kemur að fjármunir þessir hafi ekki verið lagðir inn á sérstakan reikning í nafni hins spænska banka, viðtökubankinn hafi ekki gefið út sérstök skilríki fyrir móttöku fjárins, ekki var greitt iðgjald í Tryggingasjóð innstæðueigenda og fjárfesta og fjármunirnir munu hafa verið færðir sem lán í bókum viðtökubankans. Það var niðurstaða EFTA-dómstólsins að framangreind viðskipti teldust innlán í skilningi tilskipunarinnar þar sem um væri að ræða hefðbundna almenna bankastarfsemi, sbr. það sem fyrr segir um inntak innlánshugtaksins.
Það er mat dómsins að með sama hætti og að framan er lýst verði að telja þann samning sem um er deilt í máli þessu vera um innlán í skilningi tilskipunarinnar og þar með einnig ákvæðis 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 þar sem um sé að ræða innstæðu sem sé tilkomin vegna millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem samið var um endurgreiðslu á. Er ekki unnt að fallast á með varnaraðila að hér geti nokkru breytt þó samið hafi verið um að greiðslustaður væri hjá sóknaraðila eða að samið hafi verið um að varnaraðili skyldi greiða fjárhæðina á tilteknum degi inn á tiltekinn reikning.
Ber hér að horfa á viðskiptin út frá sjónarhóli sóknaraðila og getur varnaraðili ekki að réttu borið fyrir sig atriði er varða það hvernig hann sjálfur færði umrædd viðskipti í bókhaldi sínu eða að hann hafi ekki staðið skil á iðgjaldi til Tryggingasjóðs innstæðueigenda vegna þeirra. Skipta sjónarmið þessi einnig máli varðandi mat á eðli viðskiptanna sem slíkra og ber því að líta til þess hvað sóknaraðili mátti ætla um eðli þeirra. Viðskiptin komust á með símtali í upphafi og innlánið var framlengt með símtölum. Endurrit símtalanna liggja fyrir í málinu. Má þar sjá að starfsmaður sóknaraðila óskar eftir að „fá tilboð í ávöxtun“ á nánar greindri peningaupphæð. Hvergi er í símtölum þessum rætt um að sóknaraðili sé að lána varnaraðila peninga en starfsmaður varnaraðila nefnir viðskiptin „innlán“ í símtali 16. febrúar 2009. Það er mat dómsins að ekki séu efni til annars en að telja að í símtölum þessum hafi komist á samningur milli aðila, sem síðan hafi verið staðfestur með undirritun staðfestingarblaða sem liggja fyrir í málinu. Er það staðfestingarblað sem lýsir því innláni sem hér er deilt um undirritað af hálfu beggja aðila. Eins og fyrr er nefnt eru tilgreind á þessu blaði orðin lántaki og lánveitandi og viðskiptin kölluð peningamarkaðslán. Það er mat dómsins að umrætt skjal feli í sér staðfestingu beggja aðila á því að viðskipti með því efni sem aðilar höfðu samið um hafi komist á. Á hinn bóginn verður ekki fallist á að úrslitaáhrif verði lögð á þýðingu þess að viðskiptin eru nefnd „lán“ á umræddu skjali. Breytir það því að mati dómsins ekki neinu um að umrædd viðskipti verði talin innlán í skilningi tilskipunarinnar og þá einnig innstæða í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Þá verður og að hafna þeirri málsástæðu að umrætt skjal sé þess efnis eða eðlis að það geti talist verðbréf í skilningi síðari málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Ekki er unnt að fallast á með varnaraðila að dómur Hæstaréttar 22. mars 2013 í máli nr. 722/2012 hafi fordæmisgildi við úrlausn máls þessa enda fjallar það mál um löggerning sem torvelt er að bera saman við þann samning sem hér er um deilt. Á hinn bóginn fá þau sjónarmið, sem dómurinn hefur hér að framan vísað til, skýra stoð í dómum Hæstaréttar 28. október 2011 í málum nr. 276/2011 og 277/2011, sem snérust í meginatriðum um viðskipti sem svipar mjög til þeirra viðskipta sem um ræðir í máli þessu. Voru í þessum málum hafðar uppi fjölmargar af þeim málsástæðum sem varnaraðili þessa máls byggir á og var þeim þar hafnað, m.a. málsástæðu sem laut að því að yfirlýsingar sem staðfestu inntak samninga sem komist hefðu á milli aðila sem að öllu leyti sem máli getur skipt voru sambærilegir þeim sem hér ræðir um, gætu ekki talist verðbréf í skilningi síðari málsliðar 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Að gengnum dómi EFTA-dómstólsins sem að framan er að nokkru rakinn þykir einsýnt að sjónarmið þau sem fram koma í nefndum dómum Hæstaréttar eiga við fullum fetum í máli þessu og hafa þeir fordæmisgildi við úrlausn þessa máls. Er hér til þeirra vísað til fyllingar þeim forsendum sem hér hafa verið raktar.
Þegar af þeim ástæðum sem raktar eru hér að framan er það niðurstaða dómsins að hafna beri öllum málsástæðum varnaraðila og fallast á með sóknaraðila að krafa hans njóti forgangs samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila með þeirri undantekningu sem rakin er hér næst.
Slitastjórn varnaraðila tók ekki afstöðu til fjárhæðar þess hluta kröfu sóknaraðila sem talin var hafa stöðu eftirstæðrar kröfu samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 þar sem sýnt þótti að ekkert kæmi upp í hana við slitameðferðina. Sóknaraðili hefur ekki mótmælt því að kröfunni sé skipað í skuldaröð með þessum hætti. Í bréfi slitastjórnar til dómsins er ekki óskað úrlausnar um fjárhæð kröfunnar. Af framangreindum sökum getur umrædd krafa ekki komið til efnislegrar úrlausnar í úrskurði þessum og kemur því ekki frekar til álita.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn með þeirri fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði og er þar tekið tillit til virðisaukaskatts.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Krafa sóknaraðila, Byggðastofnunar, að fjárhæð 271.296.011 krónur, er viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 878.500 krónur í málskostnað.