Hæstiréttur íslands

Mál nr. 380/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framsal


Mánudaginn 13

 

Mánudaginn 13. júlí 2009.

Nr. 380/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Kærumál. Framsal.

Úrskurður héraðsdóms, um að staðfesta ákvörðun dómsmálaráðherra 29. maí 2009 um að framselja X til Póllands, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. júlí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2009, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðherra 29. maí 2009 um að framselja varnaraðila til Póllands. Kæruheimild er í 24. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili byggir kröfu sína meðal annars á því að 7. gr. laga nr. 13/1984 standi í vegi fyrir kröfu sóknaraðila um framsal. Samkvæmt þessu lagaákvæði má synja um framsal ef mannúðarástæður mæla gegn því svo sem aldur, heilsufar eða aðrar persónulegar aðstæður. Dómsmálaráðherra hefur metið aðstæður í þessu máli svo, að slíkar ástæður standi ekki gegn framsali varnaraðila. Ekki eru efni til að dómstólar hnekki því mati. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984 eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 150.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 2009.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 2. júlí sl.að loknum munnlegum málflutningi, sbr. 14. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum.

Af hálfu sóknaraðila er krafist staðfestingar ákvörðunar dómsmálaráðuneytisins frá 29. maí 2009 um að framselja X til Póllands.

Af hálfu varnaraðila er þess krafist að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins frá 29. maí 2009 um að framselja X til Póllands. Þá er krafist þóknunar verjanda að mati dómsins.

Upphaf máls þessa má rekja til þess að varnaraðili var handtekinn þann 13. febrúar sl. þar sem hann var eftirlýstur í Schengen upplýsingakerfinu (SIS). Í kjölfarið var tilkynning send til pólskra yfirvalda um að varnaraðili hafi verið handtekinn hér á landi og óskað eftir að nauðsynleg gögn vegna málsins yrðu send dómsmála-ráðuneytinu. Þann 12. mars sl. barst ríkissaksóknara bréf dómsmálaráðuneytisins þar sem fram kom að ráðuneytinu hafi borist beiðni pólskra dómsmálayfirvalda um framsal varnaraðila, sem er pólskur ríkisborgari.

Í framsalsbeiðninni kemur fram að krafist sé framsals til fullnustu tveggja refsidóma Héraðsdómsins í Wyszków, sem hér greinir:

1.        Með dómi uppkveðnum 31. janúar 2003 var varnaraðili fundinn sekur um rán, þ.e. brot gegn 1. mgr. 280. gr., sbr. 283. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa þann 20. maí 2002, í félagi við þrjá óþekkta menn, haldið höndum A og tekið úr buxnavasa hans veski sem í voru peningar að fjárhæð um PLN 40.  Refsing var ákveðin fangelsi í tvö ár, skilorðsbundið til fimm ára, og greiðsla bóta.

2.        Með dómi uppkveðnum 4. febrúar 2004 var varnaraðili fundinn sekur um tilraun til ráns, þ.e. brot gegn 1. mgr. 280. gr., sbr. 283. gr., sbr. 1. mgr. 13. gr. pólskra hegningarlaga, með því að hafa þann 21. janúar 2003 gert tilraun til að ræna B með því að hefta för hans og hóta að beita hann ofbeldi ef hann ekki léti af hendi peninga og tóbak. Varnaraðila tókst ekki að fullfremja brotið þar sem lögreglumaður kom á vettvang. Refsing var ákveðin fangelsi í eitt ár, skilorðsbundið til fjögurra ára.

Með tveimur ákvörðunum Héraðsdómstólsins í Wyszków, dags. 4. júlí 2006, var kveðið á um að varnaraðili skyldi afplána fangelsisrefsingu sem honum var dæmd með framangreindum dómum, þar sem hann hafði á skilorðstímanum framið samkynja brot, sbr. dóm sama dómstóls frá 28. febrúar 2006, sem fylgir gögnum málsins. Fram kom að einn mánuður og 18 dagar, sem varnaraðili hafði þegar afplánað af dæmdri refsingu skyldi koma til frádráttar. Varnaraðili kærði ákvarðanirnar til áfrýjunardómstóls í Ostroleka, sem staðfesti þær þann 31. ágúst og þann 7. september 2006.

Þá liggur fyrir refsiákvörðun Héraðsdómstólsins í Wyszków frá 11. október 2006 þar sem sameiginleg refsing varnaraðila fyrir brotin, sem hann var sakfelldur fyrir með dómunum frá 31. janúar 2003 og 4. febrúar 2004, var ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði, en tekið fram sá tími sem varnaraðili hafði þegar afplánað kæmi til frádráttar. 

Lögregla kynnti framsalsbeiðnina fyrir varnaraðila þann 31. mars sl. Hann kannaðist við að beiðnin ætti við hann en kvaðst hafna henni. Ríkissaksóknari sendi dómsmálaráðuneyti umsögn sína þann 8. maí sl. þar sem fram kom að lagaskilyrði framsals væru fyrir hendi. Þann 29. maí sl. féllst dómsmálaráðuneytið á framsalsbeiðni pólskra yfirvalda. Í ákvörðun ráðuneytisins kom fram að persónulegar aðstæður varnaraðila hér á landi gætu ekki staðið í vegi fyrir framsali, sbr. 7. gr. laga nr. 13/1984. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kynnti varnaraðila ákvörðun dómsmálaráðuneytis þann 10. júní sl. og með bréfi sem barst ríkissaksóknara sama dag krafðist varnaraðili úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur skv. 14. gr. laga nr. 13/1984.

Um skilyrði framsals samkvæmt I. kafla laga nr. 13/1984 er vísað til áðurnefndrar umsagnar ríkissaksóknara. Jafnframt þykir fullnægt skilyrðum II. kafla laganna um form framsalsbeiðninnar.

Niðurstaða

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 13/1984 um framsal sakamanna og aðra aðstoð í sakamálum er heimilt að framselja mann ef hann er í erlendu ríki grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað. Þær upplýsingar og gögn sem kveðið er á um í 12. gr. laganna að fylgja skuli framsalsbeiðni eru öll til staðar í máli þessu þar á meðal endurrit þeirra dóma sem fullnusta á, sbr. 4. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 13/1984 er framsal á manni því aðeins heimilt ef verknaður eða sambærilegur verknaður getur varðað fangelsi í meira en 1 ár samkvæmt íslenskum lögum. Brot þau sem varnaraðili hefur verið sakfelldur fyrir eru talin varða við 252. gr. og 252. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þar sem refsing getur varðað allt að 10 ára fangelsi. Skilyrði 3. gr. laga nr. 13/1984 um framsal varnaraðila eru því uppfyllt.  Fangelsisrefsing væri ekki fallin niður, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 83. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og er því einnig uppfyllt skilyrði 9. gr. laga nr. 13/1984 um framsal.

Í bréfi varnaraðila til dómsmálaráðuneytis 22. maí 2009 var framsali sérstaklega mótmælt með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1984 um mannúðarsjónarmið. Í bréfinu er rakið að varnaraðili hafi flutt til Íslands 31. október 2006 og hafi dvalið hér samfellt síðan. Hann búi hjá móður sinni sem hafi flust til landsins í maí 2008 og hann eigi pólska kærustu hér á landi. Varnaraðili hafi stundað atvinnu hér samfellt frá því að hann flutti til landsins og starfar nú sem bifreiðastjóri hjá C við akstur strætisvagna.  Varnaraðili talar og skilur íslensku enda hafi hann lagt sig fram um að læra íslensku og sótt námskeið til þess. Hann hafi aðlagast íslensku samfélagi mjög vel og eigi ekki brotaferil hér á landi.

Í ákvörðun dómsmálaráðherra frá 29. maí 2009 er fjallað ítarlega um það hvort skilyrði séu til þess að hafna kröfu um framsal á grundvelli 7. gr. laga nr. 13/1984. Þar vegast á gagnstæð sjónarmið. Annars vegar eðlilegir hagsmunir hins erlenda ríkis af því að fá einstakling framseldan og mikilvægi þess að ekki sé grafið undan framsalskerfinu sem er hluti af alþjóðlegu samstarfi á sviði afbrotamála. Hins vegar eru mannúðarástæður sem eru aldur, heilsufar og persónulegar ástæður. Ekki verður annað séð en þessi atriði hafi verið metin með réttum og málefnalegum hætti af hálfu dómsmálaráðherra og verður ekki talið að skilyrði séu til þess að hafna kröfu um framsal samkvæmt 7. gr. laga nr. 13/1984.

Samkvæmt framansögðu eru uppfyllt lagaskilyrði um framsal varnaraðila og verður því staðfest ákvörðun dómsmálaráðherra frá 29. maí 2009 um að framselja varnaraðila til Póllands, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þóknun verjanda varnaraðila, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðinn 278.880 krónur með virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður að fjárhæð 18.900 krónur, alls 297.780 krónur, greiðist úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 13/1984.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Ákvörðun dómsmálaráðherra frá 29. maí 2009 um að framselja varnaraðila, X, til Póllands, er staðfest.

Þóknun verjanda varnaraðila, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 278.880 krónur og útlagður kostnaður 18.900 krónur, alls 297.780 krónur, greiðist úr ríkissjóði.