Print

Mál nr. 303/2003

Lykilorð
  • Kærumál
  • Nauðasamningur

Þriðjudaginn 7

 

Þriðjudaginn 7. október 2003.

Nr. 303/2003.

Hamar ehf. og

Reykjagarður hf.

(Jóhann H. Níelsson hrl.)

gegn

Móum hf., fuglabúi

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Kærumál. Nauðasamningur.

M hf. hafði verið veitt heimild til nauðasamningsumleitana á grundvelli frumvarps þar sem félagið bauðst m.a. til að greiða 30% samningskrafna. Á fundi með atkvæðismönnum til að greiða atkvæði um frumvarpið töldust 70,38% atkvæða eftir kröfufjárhæð hafa fallið til samþykkis á því. Fékk það því nægilegt fylgi til að teljast samþykkt. Í kjölfarið féllst héraðsdómari á kröfu M hf. um staðfestingu nauðasamnings. H ehf. og R hf. kærðu þá niðurstöðu til Hæstaréttar. Í Hæstarétti var gerð athugasemd við það að tiltekin krafa hefði á umræddum fundi verið látin njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt ákvæði 4. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. án kröfu þar um í stað þess að telja hana til samningskrafna. Sá sem fór með kröfuna hafði ekki sótt fundinn. Vegna þessa hlaut samningsfrumvarp M hf. ekki samþykki frá atkvæðismönnum sem fóru með samningskröfur sem svaraði til 30,5963% atkvæða eftir kröfufjárhæð og því fellt á fundinum. Með vísan til þessa var kröfu M hf. um staðfestingu nauðasamnings hafnað, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 28. júlí 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2003, þar sem staðfestur var nauðasamningur varnaraðila við lánardrottna sína. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings og honum gert að greiða þeim málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði staðfestur, en til vara að lagt verði fyrir umsjónarmann með nauðasamningsumleitunum hans að halda á ný innan tveggja vikna frá uppsögu dóms í málinu fund með atkvæðismönnum um frumvarp hans að nauðasamningi til að láta atkvæðagreiðslu um það fara fram að nýju. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdómara fyrir sitt leyti. Getur því framangreind krafa hans um endurskoðun á ákvæði úrskurðarins um málskostnað ekki komist að fyrir Hæstarétti.

Með ákvörðun Hæstaréttar 1. september 2003 var aðilum málsins gefinn kostur á að afla frekari gagna um nánar tiltekin atriði.

I.

Samkvæmt gögnum málsins leitaði varnaraðili 17. desember 2002 eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til greiðslustöðvunar. Beiðni hans um þá heimild var tekin til greina með úrskurði 27. sama mánaðar og greiðslustöðvunin síðan framlengd með öðrum úrskurði 20. janúar 2003 allt til 8. apríl sama árs. Áður en greiðslustöðvunartímanum var lokið lagði varnaraðili fyrir héraðsdóm beiðni 2. apríl 2003 um heimild til nauðasamningsumleitana á grundvelli frumvarps að nauðasamningi, sem dagsett var 20. mars sama árs. Í frumvarpinu bauðst varnaraðili til að greiða samningskröfur að 30 hundraðshlutum, en þó þannig að kröfur að fjárhæð allt að 100.000 krónur yrðu greiddar að fullu og sú fjárhæð yrði jafnframt lágmarksgreiðsla upp í hærri kröfur. Átti að greiða hverja kröfu með þremur jöfnum afborgunum 1. október 2003, 1. febrúar 2004 og 1. júní sama árs, en eigendur samningskrafna, sem fengju greidda heildarfjárhæð allt að 100.000 krónur, skyldu þó fá hana í einu lagi 1. október 2003. Í frumvarpinu var mælt fyrir um að trygging væri ekki boðin fyrir greiðslum. Í 3. gr. frumvarpsins var tekið fram að eftir 1. janúar 2003 skyldu ekki reiknast „samningsvextir, dráttarvextir né annar kostnaður, t.d. innheimtu- og lögmannskostnaður“ af samningskröfum. Þá sagði einnig eftirfarandi í 4. gr. frumvarpsins: „Forsenda samnings þessa er að núverandi hluthafar samþykki að færa hlutafé félagsins niður um 70%.“

Af gögnum málsins verður ráðið að Héraðsdómur Reykjavíkur hafi með úrskurði 7. apríl 2003 heimilað varnaraðila að leita nauðasamnings á grundvelli frumvarpsins, sem hér var lýst. Umsjónarmaður með nauðasamningsumleitunum gaf út innköllun 10. sama mánaðar, þar sem meðal annars var tilkynnt að fundur yrði haldinn með atkvæðismönnum til að greiða atkvæði um frumvarp varnaraðila á tilteknum stað og tíma 2. júní 2003. Umsjónarmaðurinn tilkynnti jafnframt lánardrottnum um þetta með dreifibréfi 16. apríl 2003, þar sem meðal annars kom fram að fresti til að lýsa kröfum myndi ljúka 21. maí sama árs. Innan kröfulýsingarfrestsins virðast umsjónarmanninum hafa borist samtals 184 kröfur. Hann gerði 30. maí 2003 skrá um samningskröfur við nauðasamningsumleitanirnar, þar sem meðal annars kom fram að heildarfjárhæð lýstra krafna hafi numið 1.227.032.416 krónum. Lýsti umsjónarmaðurinn þeirri afstöðu að hann teldi samningskröfur vera samtals að fjárhæð 718.914.156 krónur og ákvað hann þar innbyrðis vægi þeirra við atkvæðagreiðslu um frumvarp varnaraðila eftir kröfufjárhæðum. Atkvæði eftir höfðatölu atkvæðismanna voru samkvæmt skránni 133 talsins.

Fundur var haldinn til að greiða atkvæði um frumvarp varnaraðila á áður ákveðnum tíma 2. júní 2003. Vegna athugasemda, sem þar komu fram af hendi atkvæðismanna, voru gerðar nokkrar breytingar á skrá umsjónarmannsins, auk þess sem tilteknar kröfur voru lækkaðar eða afturkallaðar á fundinum. Breyttist af þessum sökum heildarfjárhæð samningskrafna frá því, sem umsjónarmaðurinn hafði ráðgert í áðurnefndri skrá, og þar með vægi þeirra við atkvæðagreiðslu eftir kröfufjárhæðum. Jafnframt urðu breytingar á atkvæðafjölda eftir höfðatölu atkvæðismanna. Þá kom einnig upp ágreiningur um nokkrar kröfur, sem ekki tókst að jafna, og töldust því atkvæði á grundvelli þeirra til ágreiningsatkvæða. Var síðan gengið til atkvæða um frumvarp varnaraðila. Féllu þau þannig að eftir höfðatölu voru greidd 109 atkvæði til samþykkis á frumvarpinu, en atkvæðismenn, sem fóru með 65,1% atkvæða eftir kröfufjárhæð, lýstu sig samþykka því. Að fenginni þessari niðurstöðu reiknaði umsjónarmaðurinn atkvæði á nýjan leik með því að taka frá ágreiningsatkvæði, sem greidd höfðu verið gegn frumvarpi varnaraðila. Með þessu töldust 70,38% atkvæða eftir kröfufjárhæð hafa fallið til samþykkis á frumvarpinu. Fékk það á þennan hátt nægilegt fylgi til að teljast samþykkt.

Varnaraðili lagði 6. júní 2003 fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur kröfu um staðfestingu nauðasamnings á grundvelli frumvarps síns. Við meðferð kröfunnar fyrir dómi héldu sóknaraðilar ásamt Mjólkurfélagi Reykjavíkur svf. uppi andmælum gegn henni. Fyrir liggur að sóknaraðilinn Hamar ehf. fór með óumdeilda samningskröfu á hendur varnaraðila, en sóknaraðilinn Reykjagarður hf. fór með ágreiningsatkvæði og Mjólkurfélag Reykjavíkur svf. einnig að hluta. Greiddu þessi þrjú félög atkvæði gegn frumvarpi varnaraðila á fyrrnefndum fundi 2. júní 2003. Mál þetta var þingfest fyrir héraðsdómi 30. sama mánaðar vegna framkomins ágreinings um kröfu varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings, en hún var tekin til greina með hinum kærða úrskurði. Mjólkurfélag Reykjavíkur svf. unir við þá niðurstöðu og á ekki aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

II.

Við nauðasamningsumleitanir varnaraðila barst umsjónarmanni með þeim meðal annars kröfulýsing tollstjórans í Reykjavík 19. maí 2003, þar sem lýst var kröfu vegna opinberra gjalda að fjárhæð samtals 49.085.365 krónur að meðtöldum áföllnum vöxtum og kostnaði. Krafan var þar sundurliðuð eftir tegundum gjalda og tímabilum, en í engu var vikið að því að kröfuhafinn teldi sig mundu eiga að njóta ákveðinnar stöðu í réttindaröð ef bú varnaraðila hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Í áðurnefndri skrá um samningskröfur tók umsjónarmaðurinn kröfu þessa upp með fjárhæðinni 48.592.722 krónur, en með því virðist sem hann hafi dregið frá fjárhæð samkvæmt kröfulýsingunni samtals 492.643 krónur, sem svöruðu til kröfuliða tollstjórans í Reykjavík vegna þungaskatts og bifreiðagjalda, með þeirri skýringu að kröfuhafinn nyti lögveðréttar fyrir þeim. Á þessum grunni taldist tollstjóri fara með eitt atkvæði eftir höfðatölu atkvæðismanna, en 6,759% atkvæða eftir kröfufjárhæð.

Af hálfu tollstjórans í Reykjavík var áðurnefndur fundur 2. júní 2003 til að greiða atkvæði um samningsfrumvarp varnaraðila ekki sóttur. Á fundinum gerði varnaraðili athugasemdir um kröfu tollstjóra á þeim grunni að sá hluti hennar, sem féll í gjalddaga á árinu 2003, ætti að njóta stöðu í réttindaröð samkvæmt ákvæði 4. töluliðar 110. gr. laga nr. 21/1991, þar sem aðstoðarmaður varnaraðila við greiðslustöðvun hafi „stofnað til þessara krafna“, svo sem tekið var til orða í fundargerð umsjónarmannsins. Féllst umsjónarmaðurinn á þessa athugasemd varnaraðila og lækkaði fjárhæð samningskröfu tollstjóra í 25.544.481 krónu, þannig að vægi atkvæðis hans eftir kröfufjárhæð taldist 4,4049%. Atkvæði var ekki greitt á grundvelli þessarar kröfu.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 21/1991 skulu kröfulýsingar lánardrottna við nauðasamningsumleitanir gerðar úr garði á sama hátt og við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt 2. mgr. 117. gr. laganna, sem þannig á hér við, ber lánardrottni meðal annars að tiltaka í kröfulýsingu hverrar stöðu hann krefjist að fá að njóta í réttindaröð. Sé engin krafa gerð um þetta efni verður að líta svo á að hlutaðeigandi lánardrottinn telji kröfu sína vera meðal almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga. Við nauðasamningsumleitanir getur lánardrottinn afsalað sér forgangsrétti, sem hann nyti ella fyrir kröfu sinni ef til gjaldþrotaskipta kæmi á búi skuldarans, og gert þannig kröfuna að samningskröfu, sbr. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991. Eins og tollstjórinn í Reykjavík hagaði efni kröfulýsingar sinnar 19. maí 2003 verður að líta svo á að hann hafi afsalað sér samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði hugsanlegum rétti, sem hann kynni ella að hafa getað notið eftir 4. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 við gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila. Á þessu hafði hann einn forræði. Gat varnaraðili því ekki fengið því réttilega framgengt á áðurnefndum fundi 2. júní 2003 að tollstjórinn í Reykjavík nyti betri réttar en hann óskaði sjálfur eftir. Umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum varnaraðila bar því að virða að vettugi athugasemdir varnaraðila við kröfu tollstjórans í Reykjavík og láta hana standa óbreytta í skrá um samningskröfur með fjárhæðinni 48.592.722 krónur.

Samkvæmt málatilbúnaði varnaraðila, sem hefur ekki sætt andmælum af hálfu sóknaraðila að þessu leyti, voru samningskröfur samkvæmt skrá umsjónarmanns með nauðasamningsumleitunum ýmist afturkallaðar eða lækkaðar á fundinum 2. júní 2003 um samtals 63.745.531 krónu. Í skránni var heildarfjárhæð allra krafna, sem atkvæðisréttur taldist fylgja, upphaflega talin nema fyrrnefndum 718.914.156 krónum, en eftir þær breytingar, sem hér var getið, var fjárhæðin orðin 655.168.625 krónur. Ágreiningur reis á fundinum um atkvæðisrétt Mjólkurfélags Reykjavíkur svf. og sóknaraðilans Reykjagarðs hf. í skjóli krafna, sem námu alls 67.075.370 krónum, en báðir þessir lánardrottnar voru sem áður segir andsnúnir samningsfrumvarpi varnaraðila. Voru því óumdeildar samningskröfur, sem atkvæði fylgdu, samtals 588.093.255 krónur að meðtalinni áðurnefndri kröfu tollstjórans í Reykjavík með þeirri fjárhæð, sem greindi í skrá umsjónarmannsins. Varnaraðili kveður atkvæði á grundvelli krafna að fjárhæð alls 84.911.468 krónur hafa verið greidd gegn frumvarpi hans, en atkvæðismenn, sem fóru með kröfur samtals að fjárhæð 45.204.737 krónur, hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna. Fjarverandi á fundinum hafi verið atkvæðismenn, sem fóru með samningskröfur að fjárhæð alls 1.225.981 krónu, auk tollstjórans í Reykjavík, sem átti samkvæmt skrá umsjónarmannsins að fara með atkvæði á grundvelli samningskröfu að fjárhæð 48.592.722 krónur. Samkvæmt þessu hlaut samningsfrumvarp varnaraðila ekki samþykki frá atkvæðismönnum, sem fóru með samningskröfur að fjárhæð samtals 179.934.908 krónur af framangreindum 588.093.255 krónum. Eftir kröfufjárhæð svarar þetta til 30,5963% atkvæða. Frumvarp varnaraðila að nauðasamningi, þar sem gert var sem áður segir ráð fyrir 70% eftirgjöf af samningskröfum, var því fellt á fundinum 2. júní 2003. Þegar af þessari ástæðu verður að hafna kröfu varnaraðila um staðfestingu nauðasamnings, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991, en fyrir áðurgreindri varakröfu varnaraðila er engin lagastoð og verður henni því jafnframt hafnað.

Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Móa hf., fuglabús, um staðfestingu nauðasamnings.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. júlí 2003.

I

                Sóknaraðili máls þessa eru Móar hf., fuglabú, kt. 440788-1229, Völuteigi 2, Mosfellsbæ.  Varnaraðilar eru Hamar ehf., kt. 431298-2799, Vesturvör 7, Kópavogi, Mjólkurfélag Reykjavíkur, kt. 470269-6429, Korngörðum 5, Reykjavík og Reykjagarður hf., kt. 430272-0719, Suðurreykjum 3, Mosfellsbæ.

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að staðfestur verði með úrskurði nauðasamningur sóknaraðila, Móa hf., fuglabús, við lánardrottna sína, á grundvelli samningsfrumvarps, dags. 20. mars 2003, sem var samþykkt á fundi atkvæðismanna hinn 2. júní 2003.  Jafnframt er þess krafist að varnaraðilar verði dæmdir in solidum til þess að greiða sóknaraðila málskostnað að skaðlausu að mati dómsins.

                Samhljóða kröfur varnaraðila eru að hafnað verði kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings sóknaraðila frá 2. júní 2003.  Þá er þess krafist að sóknaraðila verði gert að greiða varnaraðilum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins og til vara að hver málsaðili verði látinn bera sinn hluta málskostnaðar, að því gefnu að fallist verði á aðalkröfu sóknaraðila.

                Ágreiningsmál þetta um staðfestingu nauðasamnings sóknaraðila fyrir dómi var þingfest í þinghaldi þann 30. júní 2003 eftir fram komin mótmæli varnaraðila og var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi þann 14. júlí s.á.

II

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. apríl 2003, var sóknaraðila veitt heimild til að leita nauðasamnings við lánardrottna og var Halldór Jónsson hrl. skipaður umsjónarmaður.  Innköllun til lánardrottna (samningskröfuhafa) birtist í fyrra sinni í Lögbirtingablaði hinn 25. apríl 2003 og kröfulýsingarfrestur stóð til 23. maí s.á.  Frumvarp sóknaraðila að nauðasamningi var borið óbreytt undir atkvæði á fundi umsjónarmanns með atkvæðismönnum hinn 2. júní 2003, en til hans hafi verið boðað með innköllun í Lögbirtingablaði.  Einnig var boðað til fundarins með bréfi, sem sent var öllum þeim er lýst höfðu kröfum vegna nauðasamninganna. Líkt og kveðið er á um í bréfi umsjónarmanns til héraðsdóms, dags. 20. júní 2003, var á ofangreindum fundi gengið til atkvæða um frumvarpið og það samþykkt.

 Frumvarp að nauðasamningi sóknaraðila er svohljóðandi:

1. gr.

Hvað boðið er og hvenær greiðsla fer fram.

1.1.       Lánardrottnum sem fara með samningskröfur er boðin greiðsla á 30% þrjátíu hundraðshlutum – krafna sinna, en þó þannig að lágmarksgreiðsla kr. 100.000,00 og kröfur til og með þeirri fjárhæð greiðast að fullu.

1.1.1            Kröfur sem eru lægri en 100.000,00 teljast þannig ekki til samningskrafna og fylgir þeim ekki atkvæðisréttur.

 

1.2. Greiðslur munu fara fram með þremur jöfnum greiðslum:

1.      október 2003, 1. febrúar 2004, 1. júní 2004.

1.2.1. Lánardrottnar sem eiga kröfur að fjárhæð kr. 100.000,00 eða lægri, miðað við 1. janúar 2003, fá þær greiddar að fullu 1. október 2003.  Lágmarksgreiðsla til annarra lánardrottna skal vera kr. 100.000,00 og greiðist sú fjárhæð hinn 1. október 2003.

 

2. gr.

Trygging fyrir greiðslum.

2.1                Trygging verður ekki veitt fyrir greiðslum samkvæmt framangreindu.

 

3. gr.

Samningskröfur miðast við 1. janúar 2003.

3.1. Eftir 1. janúar 2003 reiknast hvorki samningsvextir, dráttarvextir né annar kostnaður, t.d. innheimtu- og lögmannskostnaður af skuldbindingum Móa ehf. gagnvart þeim aðilum sem samningskröfur eiga á hendur fyrirtækinu.

 

4. gr.

Forsenda samnings.

Forsenda samnings þessa er að núverandi hluthafar samþykki að færa hlutafé félagsins niður um 70%. 

Með bréfi til héraðsdóms, dags. 6. júní 2003, krafðist sóknaraðili staðfestingar á nauðsamningi á grundvelli samningsfrumvarps, sem samþykkt var á fundi atkvæðismanna 2. júní 2003.  Tilkynnt var að frumvarp að nauðasamningi hefði hlotið samþykki atkvæðismanna sem farið hafi með 109 atkvæði og 65,10% atkvæða eftir kröfufjárhæðum.  Hafi ágreiningsatkvæði því skipt máli um niðurstöðu.  Umsjónarmaður hafi innt fundarmenn eftir því hvort vilji væri til að kjósa aftur eða breyta atkvæðum en engar kröfur hafi borist þar um.  Hann hafi þá tekið út ágreiningskröfur sem goldið hafi frumvarpinu neikvæði og hafi niðurstaðan þá breyst í 70,38%.  Auk þess bæri, sbr. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., að taka út auð atkvæði og þeirra sem ekki mættu.  Látið hafi verið við það sitja að taka út eina kröfu (kröfu Búnaðarbanka Íslands hf.) með þessum hætti.  Hafi frumvarpið þá talist samþykkt með yfir 76% atkvæða.  Er atkvæði allra atkvæðismanna sem ekki mættu eða sátu hjá hafi verið tekin út auk ágreiningsatkvæða hafi umsjónarmaður metið að frumvarp að nauðasamningi teldist samþykkt með 80,34% atkvæða.

Þann 30. júní 2003 var krafa sóknaraðila um staðfestingu tekin fyrir á dómþingi héraðsdóms, en henni var þá mótmælt af varnaraðilum þessa máls og þá þegar í stað þingfest ágreiningsmál það er hér um ræðir.

III

                Eins og áður greinir hafa varnaraðilar máls þessa allir mótmælt því, að umdeildur nauðasamningur verði staðfestur.  Lögðu þeir hver um sig fram greinargerð í málinu hinn 30. júní sl.  Kröfur þeirra eru þær sömu og málsástæður að mestu leyti.  Byggja þeir á því, að fjölmörg atriði standi því í vegi að krafa sóknaraðila um staðfestingu á nauðasamningi verði tekin til greina.  Annars vegar komi þar til atvik, sem héraðsdómara beri að gæta af sjálfsdáðum, samkvæmt 57. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti og hins vegar atvik, sem leiða eigi til þess að hafna beri staðfestingu nauðasamnings að kröfu varnaraðila, samkvæmt 58. gr. sömu laga.

                Varnaraðilar telja að ráða megi af gögnum máls að grunsemdir séu fyrir því að sóknaraðili hafi brotið gegn 2. tölul. 1. mgr. 57. gr. gþl. með því að hafa boðið ákveðnum kröfuhöfum ívilnun og vísa um þetta atriði til 3. tölul. 58. gr. gþl.  Í því sambandi benda  varnaraðilar á að í annarri af kröfulýsingum Sorpu hf., samtals að fjárhæð 5.631.135 krónur, sé tekið fram að kröfueigandi muni ekki greiða atkvæði með nauðasamningi.  Við atkvæðagreiðslu á fundi þann 2. júní 2003 hafi umsjónarmaður tilkynnt að krafa Sorpu hf. hafi verið afturkölluð.  Hafi það vakið grunsemdir í ljósi skýrrar afstöðu kröfueiganda um að skuldari hafi boðið kröfueiganda ívilnun um greiðslu gegn afturköllun kröfunnar.  Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á að krafa Orkuveitu Reykjavíkur að fjárhæð 16.821.278 krónur, sem lýst hafi verið við nauðasamningsumleitanir, hafi einnig verið afturkölluð á fundinum án þess að skýring hafi fengist á því hvers vegna krafan hafi verið afturkölluð.

Þá er á því byggt að svo ranglega hafi verið staðið að innköllun, tilkynningum til lánardrottna, meðferð krafna þeirra, fundi um frumvarp að nauðasamningi og atkvæðagreiðslu um það, að skipt hafi sköpum um niðurstöður atkvæðagreiðslu, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 57. gr. gþl.  Af því leiði að dómara beri af sjálfsdáðum að hafna kröfu um staðfestingu nauðasamningsins.

Í fyrsta lagi hafi verið ranglega tilgreindur vikudagur fundar í innköllun í Lögbirtingablaði þann 25. apríl 2003, með því að fundurinn hafi verið sagður haldinn á miðvikudegi en ekki á mánudeginum 2. júní 2003.

Í öðru lagi hafi kröfuskrá verið lögð fram föstudag 30. maí 2003, en fundur með atkvæðismönnum hafi verið haldinn mánudag 2. júní 2003.  Þetta hafi verið allt of skammur tími fyrir atkvæðismenn til að gæta hagsmuna sinna, sérstaklega í ljósi þess að á milli hafi verið helgi, auk þess sem afstaða umsjónarmanns til krafna varnaraðila hafi verið á þá leið að hafna miklum hluta þeirra.

Þá benda varnaraðilar á að ekki hafi verið gætt fyrirmæla 2. mgr. 46. gr. gþl., þess efnis að umsjónarmaður hafi tilkynnt hlutaðeigandi lánardrottni um afstöðu sína til kröfu með sannanlegum hætti með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara áður en fundur hafi verið haldinn til að greiða atkvæði um frumvarp sóknaraðila.  Varnaraðili kannast ekki við að hafa fengið slíka tilkynningu.

Í þriðja lagi telja varnaraðilar að meðferð umsjónarmanns á kröfum eigi að leiða til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings.  Annars vegar sé þar um að ræða meðferð auðra atkvæða og atkvæða þeirra sem ekki hafi mætt til fundar og hins vegar fjárhæð kröfu Kassagerðarinnar hf. og kröfu Tollstjórans í Reykjavík.

Um auð atkvæði og atkvæði þeirra sem ekki hafi mætt sé það að segja að á fundi 2. júní 2003 hafi frumvarp að nauðasamningi verið samþykkt með 65,10% atkvæða eftir kröfufjárhæðum.  Ágreiningsatkvæði hafi því skipt máli um niðurstöðu atkvæðagreiðslu.  Umsjónarmaður hafi því tekið út ágreiningskröfur sem goldið hafi frumvarpinu neikvæði og mun niðurstaðan þá hafa breyst í 70,38% samkvæmt bókun í fundargerð.  Aðferðin sé í sjálfu sér rétt, sbr. 4. mgr. 52. gr. gþl., þ.e. að virða að vettugi önnur ágreiningsatkvæði en þau sem fallið hafi til samþykkis frumvarpinu.

Þá hafi umsjónarmaður, á fundi 2. júní 2003, byggt á því að samkvæmt 4. mgr. 52. gr. gþl. bæri að taka út auð atkvæði og atkvæði þeirra sem ekki hafi mætt.  Á fundinum hafi verið látið við sitja að taka út kröfu Búnaðarbanka Íslands hf. með þeim hætti og muni frumvarpið þá hafa talist samþykkt með yfir 76% atkvæða samkvæmt bókun í fundargerð.  Í endanlegri kröfuskrá sem send hafi verið héraðsdómi sé búið að taka út öll önnur auð atkvæði og atkvæði þeirra er ekki hafi mætt.  Endanleg niðurstaða sé því sú að frumvarpið hafi talist samþykkt með 80,3428% atkvæða.  Þetta telja varnaraðilar með engu móti fá staðist og gera eftirfarandi athugasemdir við þá niðurstöðu umsjónarmanns.  Í 2.- 4. mgr. 52. gr. gþl. séu fyrirmæli um það er eitt eða fleiri ágreiningsatkvæði hafi komið fram, samkvæmt 3. mgr. 50. gr. gþl.  Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. byrji umsjónarmaður á að telja öll atkvæði, þ.m.t. ágreiningsatkvæði.  Þetta hafi hann gert og niðurstaða orðið sú að frumvarp að nauðasamningi hafi talist samþykkt með 65,10% atkvæða eftir kröfufjárhæðum.  Því hafi umsjónarmaður orðið að stíga annað skref, sem sé að reyna að jafna ágreining, sbr. 3. mgr. 52. gr.  Það hafi ekki lánast og umsjónarmaður því orðið að stíga þriðja skrefið samkvæmt 4. mgr. 52. gr. til að ná fram niðurstöðu.  Þar sé kveðið á um að ráðist úrslit atkvæðagreiðslu ekki á þann hátt sem í 3. mgr. 52. gr. segi, skuli umsjónarmaður að endingu telja ágreiningsatkvæði með sem hafi fallið til samþykkis frumvarpinu, en virða önnur ágreiningsatkvæði að vettugi.  Skuli úrslit, þannig fengin, ráða niðurstöðu nauðasamningsumleitana.

Eins og ráða megi af orðalagi 4. mgr. 52. gr. beri eingöngu að virða að vettugi önnur ágreiningsatkvæði en þau sem falli til samþykkis frumvarpi.  Umsjónarmaður hafi hins vegar gengið lengra með því að taka einnig út auð atkvæði og atkvæði þeirra sem ekki hafi mætt til fundar 2. júní 2003, enda þótt enginn ágreiningur væri um þau atkvæði.  Leggja verði áherslu á að enginn ágreiningur hafi verið um hin auðu atkvæði og atkvæði þeirra er ekki hafi mætt til fundar og tekin hafi verið út við talningu atkvæða, svo sem ráða megi af fundargerð og skýrri afstöðu umsjónarmanns í skrá um kröfur atkvæðismanna.  Engin heimild sé til þess að afgreiða þessi atkvæði með sama hætti og ágreiningsatkvæði.

Ágreiningsatkvæði séu þannig skilgreind í 3. mgr. 50. gr. gþl., að til þeirra teljist atkvæði greidd á grundvelli kröfu sem annað hvort sé talin á skrá umsjónarmanns samkvæmt 46. gr. og hafi verið mótmælt, eða þau sem hafi ekki verið talin í skránni en hlutaðeigandi lánardrottinn hafi sótt fundinn og krafist að fá að njóta atkvæðis fyrir.  Hvorugt þeirra tilvika, sem leitt geti til þess að atkvæði teljist ágreiningsatkvæði, átti við um nokkurt þeirra auðu atkvæða eða atkvæði þeirra sem ekki hafi mætt til fundar atkvæðismanna þann 2. júní 2003.

Af hálfu varnaraðila sé á því byggt að auð atkvæði, og atkvæði þeirra sem ekki  hafi mætt, hafi umsjónarmanni í raun borið að skoða sem atkvæði gegn frumvarpinu, en ekki taka þau út með þeim áhrifum að hækka vægi annarra atkvæða í talningu eftir fjárhæðum og hlutföllum krafna.  Varnaraðilar bendi sérstaklega á að hlutföllin sem mælt sé fyrir um í 49. gr. gþl., reiknist ekki aðeins af greiddum atkvæðum, eins og umsjónarmaður hafi lagt til grundvallar, heldur af heildarfjölda atkvæða sem geti hafa komið fram samkvæmt skrá um kröfur atkvæðismanna.  Með áskilnaðinum um að viðkomandi hlutfall atkvæða þurfi að falla til samþykkis frumvarpi sé jafnframt tekið af skarið um að ekki sé aðeins tekið tillit til atkvæða sem falli berum orðum til samþykkis frumvarpi og gegn því, heldur hafi hjáseta eða fjarvera atkvæðismanna einnig áhrif.  Atkvæðisréttur sem ekki sé nýttur skoðist þannig í raun og veru sem atkvæði gegn frumvarpinu þá upp sé staðið.

Þá byggja varnaraðilar á að meðferð kröfu Kassagerðarinnar hf. hafi verið röng í skilningi 3. tölul. 57. gr. gþl. og beri dómara að lækka kröfuna af sjálfsdáðum.  Í kröfuskrá sé krafan skráð að fjárhæð 4.810.306 krónur en fyrir liggi að sú fjárhæð sé röng.  Kassagerðin hafi lýst tveimur kröfum.   Annars vegar kröfu að fjárhæð 590.797 krónur og hins vegar kröfu að fjárhæð 4.219.509 krónur.  Báðar kröfurnar hafi verið teknar á kröfuskrá en í raun og veru hafi einungis borið að taka lægri kröfuna á kröfuskrána.  Kröfu að fjárhæð 4.219.509 krónur hafi verið lýst fyrir misskilning en að baki henni sé ekkert í bókum Kassagerðarinnar.  Hafi hún því verið afturkölluð með bréfi lögmanns Kassagerðarinnar, dags. 19. júní 2003, til umsjónarmanns.  Nemi raunveruleg krafa því 590.797 krónum.  Þegar þetta sé virt sé ljóst að ranglega hafi verið staðið að meðferð kröfunnar.  Verði að taka tillit til þess og lækka hana niður í 590.797 krónur.

Loks telja varnaraðilar verulegar líkur á að ekki hafi verið farið rétt með kröfu Tollstjórans í Reykjavík á fundi atkvæðismanna 2. júní 2003.  Varnaraðilar telja að krafan hafi verið færð meira niður en heimilt sé samkvæmt 4. tölul. 110. gr. gþl.

Varðandi atriði, sem að mati varnaraðila leiði til þess að hafna beri staðfestingu nauðasamnings að kröfu varnaraðila, sé sýnt fram á að umsjónarmaður hafi afgreitt auð atkvæði og atkvæði þeirra sem ekki hafi mætt ranglega á grundvelli 4. mgr. 52. gr. gþl., en þau atkvæði geti að sjálfsögðu ekki talist til ágreiningsákvæða í skilningi tilvitnaðs lagaákvæðis.  Af hálfu varnaraðila sé á því byggt að auk þessara atvika, sem leiða eigi til þess að hafna beri staðfestingu nauðasamnings, beri einnig að hafna honum með vísan til 5. tölul. 58. gr. gþl.

Varnaraðilinn, Reykjagarður ehf., hafi lýst kröfu vegna nauðasamnings-umleitana sóknaraðila samkvæmt kröfulýsingu, dags. 20. maí 2003.  Krafan hafi byggst á óumdeildri reikningsskuld sóknaraðila við varnaraðila, samtals að höfuðstól 3.568.686 krónur, auk vaxta og kostnaðar eða samtals 3.889.313 krónur. 

Auk hinnar lýstu kröfu, sem að mati varnaraðila sé óumdeild og byggi á útgefnum reikningum og hreyfingum á viðskiptayfirliti sóknaraðila hjá varnaraðila, Reykjagarði, sem frá árinu 2000 hafi ekki verið andmælt, eigi aðilarnir í málaferlum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli E-17389/2002.  Það sé til komið vegna kröfu varnaraðila um skuldajöfnuð gegn útgefnum reikningum sóknaraðila og byggi krafa varnaraðila á að á þeim tíma er hann gat aðeins snúið sér til sóknaraðila um slátrun, hafi átt sér stað óeðlileg rýrnun á hráefni sem komið hafi verið með til slátrunar og þeirri söluvöru sem aftur hafi verið afgreidd út.  Forsögu máls megi rekja til sameiningaráforma aðila fyrir nokkrum árum er síðar hafi að engu orðið fyrir tilstilli samkeppnisyfirvalda en á þeim tíma hafi varnaraðili m.a. lokað sláturhúsi sínu og flutt slátrun til sóknaraðila og hafi því áfram verið háður sóknaraðila um slátrun frá apríl 2001 til nóvember 2002.  Varnaraðili hafi ávallt gert fyrirvara við greidda reikninga til sóknaraðila um óeðlilega rýrnun, fyrst með bréfi dags. 23 maí 2002 og síðan með hverjum reikningi allt til 20. nóvember 2002, er lögmaður varnaraðila hafi sent sóknaraðila bréf og tilkynnt um skuldajöfnuð við síðasta reikning sóknaraðila.  Hafi varnaraðili talið rýrnun nema 15.333.690 krónum auk dráttarvaxta eða samtals 16.902.569 krónur.  Í kjölfarið hafi sóknaraðili stefnt nefndum reikningi að fjárhæð 16.026.350 krónur fyrir héraðsdóm.  Varnaraðili hafi skilað greinargerð með kröfu um sýknu byggða á rétti til skuldajafnaðar umræddrar fjárhæðar vegna óeðlilegrar rýrnunar.  Í kjölfar hafi matsbeiðni verið lögð fram í því máli, dags. 17. febrúar 2003, og matsmenn tilnefndir en beðið sé niðurstöðu þeirra og aðalmeðferð boðuð 13. október 2003.  Sóknaraðili hafi enga aðra kröfu gert á hendur varnaraðila, hvorki um skaðabætur né annað.  Umrætt mál sé innheimtumál sóknaraðila og sýknukrafa varnaraðila byggi á óeðlilegri rýrnun er orðið hafi við meðhöndlun sóknaraðila.  Varnaraðili hafi gert kröfu um afslátt vegna rýrnunarinnar og telji öll skilyrði skuldajafnaðar fyrir hendi, en matsmenn hafi fengið gögn til að meta umrædda rýrnun. 

Með vísan til þessa krefst varnaraðili, að fjárhæð ágreiningsatkvæðis um kröfu hans að fjárhæð 3.885.313 krónur eigi að teljast að fullu við atkvæðagreiðsluna sem atkvæði greitt gegn frumvarpi sóknaraðila og hafi þá verið tekið tillit til 4.500 kr. lækkunar vegna kröfulýsingarkostnaðar. Því beri að viðurkenna að fullu þá kröfu sem Reykjagarður hafi lýst, eða 3.885.313 krónur.

Varnaraðili, Reykjagarður hf., tekur fram að félagið telji það hafa verið rangt að lækka kröfu varnaraðila, Mjólkurfélags Reykjavíkur svf. (hér eftir MR), sem og að taka ekki á skrá lýstar kröfur þess aðila, að fjárhæð 91.375.991 krónur, sem félagið sé í ábyrgð fyrir vegna skulda sóknaraðila við Landsbanka Íslands hf. 

Krafa varnaraðila MR var lækkuð um 48.190.057 krónur á fundi með atkvæðismönnum 2. júní 2003. Varnaraðili MR féllst á lækkun að fjárhæð 5.000.000 króna vegna skaðabótakröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila vegna gallaðs fóðurs.  Hins vegar mótmælti varnaraðili lækkun á kröfu sinni sem nam bókfærðu verði stofnsjóðs sóknaraðila, Móa ehf., í varnaraðila, MR, 43.190.057 krónur.  Krafan hafi því verið afgreidd sem ágreiningskrafa.

Í 5. tölul. 58. gr. gþl. sé svo fyrir mælt að hafna beri nauðasamningi ef eitt eða fleiri ágreiningsatkvæði, sem félli ekki til samþykkis frumvarpi að nauðasamningi, hafi verið virt að vettugi skv. 4. mgr. 52. gr. Frumvarpið myndi ekki hafa hlotið nægileg atkvæði til samþykkis ef þessi ágreiningsatkvæði hafi verið talin með og verulegar líkur séu færðar fyrir því að kröfur að baki þeim séu réttar og að þeim hafi átt að fylgja atkvæði um frumvarpið. Byggir varnaraðili, MR, á því að skilyrðum þessa ákvæðis sé fullnægt með því að kröfur að baki ágreiningsákvæði hans séu réttar.

Varnaraðili, MR, mótmælir lækkun á kröfu hans sem nemur bókfærðu verði stofnsjóðs sóknaraðila í varnaraðila, MR.  Af hálfu sóknaraðila hafi á fundi 2. júní 2003 verið vísað til að í 18. gr. samþykkta varnaraðila, sem segði, að kæmi til gjaldþrots stofnsjóðseiganda hefði varnaraðili aðgang að stofnsjóði stofnfélagans til skuldajafnaðar.  Niðurstaða umsjónarmanns hafi því orðið sú að um væri að ræða ágreiningskröfu í ljósi samþykkta varnaraðila, MR, og einnig með vísan til 5. tölul. 1. mgr. 28. gr. gþl.  Varnaraðili telji að það fái með engu móti staðist að lækka kröfu hans með þessum hætti.

Forsenda fyrir beitingu 5. tölul. l. mgr. 28. gr. gþl. sé að sjálfsögðu sú að uppfyllt séu skilyrði 100. gr. gþl. um skuldajöfnuð, en í síðarnefndu ákvæði sé miðað við að sá sem nýti rétt til skuldajafnaðar skuldi þrotabúi (hér sóknaraðila).  Varnaraðili, MR, bendir á að þar sem félagið skuldi sóknaraðila ekki neitt eigi ákvæðið ekki við.  Leggja verði áherslu á að bókfærð inneign sóknaraðila í varnaraðila sé eins og hver önnur eign, en ekki krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila.  Gerir varnaraðili kröfu til þess að þessu tvennu verði ekki „undið saman” við úrlausn þess hvort skuldajafnaðarréttur sé fyrir hendi. Ekkert í lögum nr. 22/1991 um samvinnufélög eða í nefndri 18. gr. samþykkta varnaraðila gefi tilefni til þessarar túlkunar.

Að mati varnaraðila, MR, sé ljóst að hinn umdeildi atkvæðisréttur hans hafi með réttu átt að vera fyrir hendi.  Telur varnaraðili, MR, að kröfur að baki ofangreindu ágreiningsatkvæði séu réttar og að því hafi átt að fylgja atkvæði um frumvarpið.  Með vísan til 5. tölul. 58. gr. gþl. sé þess krafist að dómari hafni staðfestingu nauðasamnings sóknaraðila.

Varnaraðilinn, MR, mótmælir þeirri ákvörðun umsjónarmanns, að taka úr kröfuskrá kröfur að fjárhæð 91.375.991 króna, sem varnaraðili, MR, sé í ábyrgð fyrir vegna skulda sóknaraðila við Landsbanka Íslands hf.  Fyrir liggi, að verði nauðasamningur sóknaraðila staðfestur, haggi hann ekki rétti lánardrottins sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., til að ganga að tryggingu, sem varnaraðili hafi sett fyrir efndum skuldbindingar til fullnustu á henni allri eða til að krefja varnaraðila, MR, sem ábyrgðarmann um fulla greiðslu, sbr. 4. mgr. 60. gr. gþl.  Komist nauðsamningur á og krafa Landsbanka Íslands hf. verði lækkuð um 70% liggi ekki annað fyrir en að varnaraðilinn verði krafinn um mismuninn til að krafan teljist að fullu efnd, þ.e. 70%.  Af þessu sé ljóst að varnaraðili, MR, hafi gífurlegra hagsmuna að gæta hvað varði atkvæðisrétt fyrir þessum hluta kröfunnar.  Þess sé því krafist að framangreind krafa varnaraðila, MR, verði að fullu tekin til greina.  Í því sambandi skuli sérstaklega áréttað að varnaraðila, MR, hafi ekki gefist færi á að gæta hagsmuna sinna þar sem honum hafi ekki verið kunnugt um þessa niðurstöðu umsjónarmannsins fyrr en á fundi atkvæðismanna hinn 2. júní 2003.

Af hálfu varnaraðila er áréttað, að verði tekið tillit til auðra atkvæða og atkvæða þeirra sem ekki mættu, verði niðurstaðan sú að 70,1599% teljast hafa samþykkt frumvarpið. Verði hins vegar tekið tillit til ágreiningskröfu varnaraðila, MR, er nemi bókfærðu verði stofnsjóðs sóknaraðila í varnaraðila, MR, 43.190.057 krónur, verði niðurstaðan sú að 65,2663% teljist hafa samþykkt frumvarpið.  Verði jafnframt fallist á kröfu varnaraðila um að taka inn á kröfuskrá ábyrgðarkröfur að fjárhæð 91.375.991 krónur, verði niðurstaðan sú að 56,8726% teljist hafa samþykkt frumvarpið.

Af hálfu varnaraðila, Reykjagarðs hf., sé talið ljóst, að verði tekið tillit til ágreiningskröfu félagsins að fjárhæð 3.885.313 krónur, verði niðurstaðan sú að 69.6989% teljist hafa samþykkt frumvarp sóknaraðila til nauðasamninga.

Af hálfu varnaraðila, Hamars ehf., sé talið ljóst, að verði fallist á hækkun á kröfu Tollstjórans í Reykjavík, og/eða hluta krafna annarra varnaraðila samkvæmt kröfu eða ex officio, verði niðurstaðan sú að frumvarp sóknaraðila teljist ekki hafa hlotið 70% atkvæða eftir fjárhæðum.

Með vísan til ofangreinds telji varnaraðilar að þeir hafi fært fram verulegar líkur fyrir því að frumvarp sóknaraðila teljist fallið samkvæmt 49. gr. gþl.

Um lagarök vísa varnaraðilar kröfum sínum til stuðnings til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 28., 49., 52., 57., 58., 60. og 100. gr.  Þá vísa varnaraðilar til laga nr. 22/1991 um samvinnufélög. 

Málskostnaðarkrafa varnaraðila er byggð á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Sóknaraðili hefur mótmælt staðhæfingum varnaraðila, um að hann hafi ívilnað lánardrottnum sínum gegn því að þeir myndu afturkalla kröfur sínar.

Af hálfu allra varnaraðila sé á því byggt að grunsemdir séu fyrir því að sóknaraðili hafi brotið gegn 2. tl. l. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991 með því að bjóða ákveðnum kröfuhöfum ívilnun og er jafnframt vísað til 3. t1. 58. gr. laganna.  Byggi þeir annars vegar á því að í annarri af tveimur kröfulýsingum Sorpu hf. hafi komið fram að kröfueigandi muni ekki greiða atkvæði með nauðasamningnum en á fundinum hafi kröfur Sorpu hf. verið afturkallaðar.  Hins vegar hafi Orkuveita Reykjavíkur afturkallað kröfu sína á fundinum án þess að skýring hafi fengist á því af hverju krafan hafi verið afturkölluð.

Á fundi umsjónarmanns með atkvæðismönnum hafi m.a. komið fram, að kröfur Sorpu hf. og kröfur Orkuveitunnar hafi verið afturkallaðar en rétt sé að árétta í þessu sambandi að varnaraðilar hafi ekki leitað eftir skýringum viðkomandi lánardrottna á fundinum fyrir því að afturkalla kröfur sínar.  Kröfuhöfum, sem og öðrum, sé frjálst að skipta um skoðun án þess að þurfa að gera varnaraðilum grein fyrir af hverju það sé gert.  Nauðasamningur sóknaraðila við lánardrottna skapi samningskröfuhöfum betri réttarstöðu en ef bú sóknaraðila yrði tekið til gjaldþrotaskipta.  Leiða megi að því líkur að kröfuhafar hafi séð hagsmunum sínum betur borgið en með að setja sig upp á móti viðleitni sóknaraðila til að forða félaginu frá gjaldþroti, því við gjaldþrot félagsins séu líkindi til að almennir kröfuhafar tapi öllum kröfum sínum.

Á því sé byggt af hálfu allra varnaraðila að svo ranglega hafi verið staðið að innköllun, tilkynningum til lánardrottna, meðferð krafna þeirra, fundi um frumvarp að nauðasamningi og atkvæðagreiðslu um það, að það hafi skipt sköpum um niðurstöðu atkvæðagreiðslu, sbr. 3. tl. l. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991 og beri dómara af sjálfsdáðum að hafna kröfu um staðfestingu nauðasamningsins, jafnframt því sem vísað sé til 5. tl. 58. gr. sömu laga.

Sóknaraðili kveður að umsjónarmaður hafi í störfum sínum unnið af fagmennsku og hlutleysi og hafi gætt þess í hvívetna að ganga ekki á hlut lánardrottna við úrlausn hins erfiða verkefnis. Umsjónarmaður hafi fylgt ákvæðum laga nr. 21/1991, m.a. varðandi innköllun, tilkynningar til lánardrottna, meðferð lýstra krafna, fundarboð, fundarsköp á fundi með atkvæðismönnum um frumvarp að nauðasamningi, þ.m.t. atkvæðagreiðslu um frumvarpið og beri því að leggja niðurstöðu fundarins til grundvallar við úrlausn og staðfesta nauðasamning sóknaraðila við lánardrottna sína samkvæmt framansögðu í samræmi við kröfu sóknaraðila.

Með tilliti til langs aðdraganda þessa máls þar sem málefnið hafi lögum samkvæmt ítrekað komið til umfjöllunar Héraðsdóms Reykjavíkur, og haldnir hafi verið fundir með samningskröfuhöfum án athugasemda af þeirra hálfu, sé því sérstaklega mótmælt að 57. gr. laga nr. 21/1991 geti með einum eða öðrum hætti átt hér við.

Á því sé byggt af hálfu varnaraðila, einkum Mjólkurfélags Reykjavíkur (hér eftir MR), að umsjónarmanni hafi ekki verið rétt að færa lýsta kröfu MR niður um 91.375.991 krónur þ.e. vegna þess hluta kröfu Landsbanka Íslands, sem MR sé í ábyrgð fyrir vegna skulda sóknaraðila við bankann.  Fyrrverandi lögmaður MR hafi ekki hreyft andmælum né gert athugasemdir f.h. síns umbjóðanda á fundi með samningskröfuhöfum vegna afstöðu umsjónarmanns að þessu leyti sem honum hafi þó verið fullkunnugt um.  Ekki sé um það deilt, að þær kröfur sem Landsbankinn hafi lýst séu vegna skulda sóknaraðila við bankann þar sem Landsbankinn teljist eigandi viðkomandi krafna að hluta til með ábyrgð MR.  Landsbanki Íslands hafi sem kröfueigandi fullt og óskorað vald og forræði á kröfum sínum og hafi verulega hagsmuni af því að fá hluta krafna sinna greiddan í gegnum nauðasamning sóknaraðila þar sem m.a. liggi ekki ljóst fyrir á þessu stigi máls hver greiðslugeta MR sé.  Því hafi umsjónarmanni verið rétt að færa kröfu MR niður sem nemi lýstum ábyrgðarkröfum MR og veita Landsbanka Íslands hf. fullan og óskoraðan atkvæðisrétt vegna krafna sinna.

Á því sé byggt af hálfu varnaraðila að fella beri kröfu Kassagerðar Reykjavíkur hf. af skrá.  Því til áréttingar sé lögð fram í málinu afturköllun kröfunnar, dags. 19. júní 2003.  Í þessu sambandi sé rétt að árétta að fyrir liggi í gögnum málsins að umrædd krafa Kassagerðarinnar sé skráð í bókum sóknaraðila, sem skuld.  Kassagerðin hafi mælt með nauðasamningsumleitunum sóknaraðila á grundvelli fyrirliggjandi frumvarps hinn 2. apríl 2003.  Lýstar samningskröfur Kassagerðarinnar hafi verið í fullu samræmi við bókfærða skuld sóknaraðila við Kassagerðina.  Lýstar samningskröfur Kassagerðarinnar hafi verið samþykktar af umsjónarmanni jafnframt því sem lögmaður þess félags hafi greitt atkvæði á fundi samningskröfuhafa og nýtt þannig atkvæðisrétt á fundinum.  Hinn 19. júní 2003 hafi lögmaður Kassagerðarinnar afturkallað kröfulýsingu vegna lýstrar kröfu að fjárhæð 4.219.509 krónur án haldbærra skýringa og án gagna.  Við það hafi verið látið sitja að afturkalla kröfulýsinguna þar sem hún hafi verið send vegna misskilnings og að baki kröfunni sé engin skuld í bókum Kassagerðarinnar hf.  Ljóst sé af samantekt umsjónarmanns að meðferð hans á kröfulýsingum Kassagerðarinnar hafi verið hnökralaus.  Því sé harðlega mótmælt, m.a. með hliðsjón af því sem hér hafi verið rakið, að varnaraðilar geti byggt á því að fella beri kröfulýsingu Kassagerðarinnar af skrá. Kassagerðinni sé frjálst að skipta um skoðun og afskrifa kröfu sína á hendur sóknaraðila í stað þess að fá 30% kröfunnar greidd í gegnum nauðasamning en afturköllun kröfunnar ein og sér eftir atkvæðagreiðslu um frumvarp sóknaraðila á fundi tilsjónarmanns með samningskröfuhöfum haggi ekki niðurstöðu atkvæðagreiðslu um frumvarp sóknaraðila.  Málsástæður varnaraðila, hvað við komi kröfu um að fella kröfu Kassagerðarinnar af skrá, falli ekki innan ramma 58. gr. laga nr. 21/1991 og beri þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfu varnaraðila.

Samkvæmt kröfuskrá, sem tilsjónarmaður hafi lagt fram á fundi atkvæðis-manna þann 2. júní 2003, komi m.a. fram að lýstar kröfur hafi numið samtals 1.227.032.416 krónum.  Eftir að umsjónarmaður hafi yfirfarið kröfurnar og gert athugasemdir í samræmi við 46. gr. laga nr. 21/1991 hafi niðurstaða hans orðið að alls 133 kröfuhafar væru handhafar samningskrafna samtals að fjárhæð 718.914.156 krónum.  Í fundargerð umsjónarmanns komi m.a. fram að eftirgreindar athugasemdir varðandi atkvæðafjölda og atkvæðarétt hafi verið gerðar við kröfuskrá eins og hún var lögð fram á fundinum:

Lögmaður sóknaraðila hafi gert athugasemd við að kröfu Deloitte & Touche hafi aðeins verið gefið eitt atkvæði en um væri að ræða tvö félög.  Í fundargerð sé kveðið á um að yfirlýsing þessi hafi verið sannreynd á fundinum og kröfuskrá hafi verið leiðrétt til samræmis.  Samkvæmt kröfuskrá sé Deloitte & Touche gefið eitt atkvæði.  Svo virðist sem umsjónarmanni hafi láðst að færa tvö atkvæði inn á kröfuskrá.  Í samræmi við ofangreinda athugasemd hafi því alls 110 atkvæði eftir höfðatölu greitt frumvarpinu já-atkvæði en ekki 109 eins og kröfuskrá beri með sér.

Lögmaður sóknaraðila hafi gert athugasemd vegna lýstrar kröfu Reykjagarðs hf. og upplýst að sóknaraðili ætti um 20 milljón kr. kröfu á Reykjagarð og borið við rétti til skuldajafnaðar, skv. 5. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991.  Sóknaraðili hafi staðfastlega mótmælt lýstri kröfu Reykjagarðs sem tilhæfulausri og að hún ætti ekki við rök að styðjast.   Samkvæmt innheimtubréfi, dags. 1. apríl 2003, sem sé hluti kröfulýsingar Reykjagarðs hf., sé krafa þessi sögð vera reikningsskuld vegna rýrnunar á kjúklingi fyrir tímabilið desember 2001 til mars 2002.  Samkvæmt kröfulýsingu sé skuldin sögð vera samkvæmt reikningsyfirliti fyrir árin 2000 til 2003, auk yfirlits og afrita af 4 reikningum, en reikningarnir séu dags. 28. og 31. október 2002, samtals að fjárhæð 388.490 krónur.  Ofangreindum reikningsyfirlitum fylgi hvorki reikningar né önnur gögn sem styðji kröfuna.  Til frekari rökstuðnings fyrir athugasemdum sóknaraðila í þessu sambandi fylgi hjálagt símbréf Arnar Höskuldssonar hrl., sem reki innheimtumál sóknaraðila á hendur Reykjagarði hf., ásamt stefnu í málinu og útreikningi á stöðu innheimtumálsins.  Í þessu sambandi skuli og hafa hugfast að umsjónarmaður hafi óskað eftir afstöðu Harðar Kristjánssonar f.h. Reykjagarðs hf., sem mætt hafi á fundinn, en hann hafi haft til þess skriflegt umboð frá framkvæmdastjóra Reykjagarðs hf.  Í fundargerð umsjónarmanns segi m.a. að Hörður hafi sagt að ágreiningurinn væri óleystur milli aðila og ljóst að um ágreiningskröfu væri að ræða.  Umsjónarmaður hafi verið því samsinna og krafan því merkt sem ágreiningskrafa.  Yfirlýsing Harðar Kristinssonar fáist hvorki samrýmst samantekt tengdri kröfulýsingu Reykjagarðs hf., í nauðasamninga Móa hf., né staðhæfingum sem engin efnisleg rök hafi verið færð fyrir í greinargerð Reykjagarðs hf.  Í greinargerð varnaraðila Reykjagarðs hf., sé staðhæft, að krafa þess sem lýst hafi verið vegna nauðasamningsumleitana sóknaraðila sé byggð á óumdeildri reikningsskuld sóknaraðila við varnaraðila.  Síðar í greinargerðinni sé hin lýsta krafa að mati varnaraðila sögð óumdeild og hafi ekki verið andmælt frá árinu 2000.  Þessum órökstuddu fullyrðingum sé, með hliðsjón af framansögðu, ákveðið mótmælt, m.a með vísan til fyrrgreinds símbréfs Arnar Höskuldssonar hrl.

Lögmaður sóknaraðila hafi gert athugasemd við lýsta kröfu Tollstjóraembættisins, að fjárhæð 49.085.365 krónur og talið að sá hluti kröfunnar sem gjaldféll á árinu 2003, sbr. stöðuyfirlit embættisins, teldist til krafna sem nytu forgangs, skv. 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, á þeim grunni, að hann sem aðstoðarmaður á greiðslustöðvunartíma, hefði stofnað til þessara krafna og myndi sá hluti lýstrar kröfu því vera undanskilinn áhrifum nauðasamnings sóknaraðila við lánardrottna. Umsjónarmaður hafi fallist á framangreind sjónarmið.

Lögmaður sóknaraðila hafi gert tvíþættar athugasemdir við lýstar kröfur MR.  Annars vegar hafi mótmæli lotið að því að lækka bæri kröfu MR um 20 milljónir króna vegna samkomulags um bætur fyrir skemmt/gallað fóður sem sóknaraðili hafi keypt af MR og hins vegar hafi því verið mótmælt að MR gæti notið atkvæðisréttar vegna samningskrafna sem næmu bókfærðu verði stofnsjóðs sóknaraðila í MR að fjárhæð 43.190.057 krónur. 

Um rök fyrir samkomulagi um 20 milljón króna bætur vegna gallaðs fóðurs samkvæmt framansögðu vísist m.a. til tölvupósts frá endurskoðanda sóknaraðila sem staðfesti að um greindan 20 milljón króna afslátt hafi verið rætt og samið milli MR og sóknaraðila og við það hafi verið miðað í ársreikningum beggja aðila.  Til frekari áréttingar vísist og til síðasta ársreiknings og árshlutauppgjörs sóknaraðila sem liggi fyrir í gögnum máls.  Fyrrverandi lögmaður MR hafi mótmælt því að um 20 milljón króna afslátt hafi verið samið, en fallist á að lækka kröfu MR um 5 milljónir króna sem væri hlutfallslega sami afsláttur og samið hafi verið um við alla aðra framleiðendur.  Forsvarsmaður kjúklingabúsins Vors hafi sagt yfirlýsingu fyrrverandi lögmanns MR standa að þessu leyti þar sem ekki hafi verið búið að semja við alla aðra framleiðendur.  Umsjónarmaður hafi ekki talið að fram væru komin fullnægjandi rök svo unnt væri að færa kröfu MR í kröfuskrá sem ágreiningskröfu að þessu leyti gegn skýlausri afstöðu/yfirlýsingu fyrrverandi lögmanns MR.  Hafi ákvörðun umsjónarmanns því orðið sú að færa kröfu MR niður í kröfuskrá um 5 milljónir króna.

Á því sé byggt af hálfu sóknaraðila að umsjónarmanni hafi borið að færa kröfu MR niður um 5 milljónir króna og færa mismuninn, 15 milljónir króna, í kröfuskrá sem ágreiningskröfu. 

Sóknaraðili  gerði athugasemdir við og mótmælti því, að MR gæti notið atkvæðisréttar vegna samningskrafna, sem næmi bókfærðu verði stofnsjóðs sóknaraðila í MR. Í 18. gr. samþykkta MR segi m.a., að um útborgun á stofnsjóðsinneign félagsmanna fari eftir ákvæðum samvinnufélagalaga, en að auki skuli stofnsjóðsinneign koma til greiðslu við gjaldþrot félagsmanns, að því marki sem sú inneign gangi ekki upp í skuld félagsmanns við félagið.  Sóknaraðili kveðst ekki hafa verið að krefjast skuldajafnaðar við stofnsjóðsinneign heldur hafi hann vegna ákvæða í samþykktum MR, þar sem félaginu sé tryggður skuldajöfnunarréttur vegna stofnsjóðsinneignar, komi til gjaldþrots.  Varnaraðilinn MR geti því ekki notið atkvæðisréttar vegna samningskrafna, sem nemi bókfærðu verði stofnsjóðs sóknaraðila í MR, sem ekki sé deilt um hvert sé, samkvæmt 4. tl. sbr. 5. tl. 28. gr. laga nr. 21/1991.  Samkvæmt 4. tl. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 21/1991, séu þær kröfur undanþegnar áhrifum nauðasamnings, sem tryggðar séu með veðrétti eða sambærilegum tryggingaréttindum í eignum skuldara, en hér sé í raun um kröfu að ræða, sem yrði skipað í forgangsstöðu eftir 111. gr. við gjaldþrotaskipti.

Niðurstaða umsjónarmanns hafi orðið sú, að um ágreiningskröfu væri að ræða, í ljósi samþykkta MR og með vísan til 5. tl. 28. gr. laga nr. 21/1991.

Fyrrverandi lögmaður MR hafi mótmælt kröfu sóknaraðila um skuldajöfnuð og sagt að það sjónarmið væri viðhaft af hálfu MR, að ekki væri hægt að innleysa stofnsjóðsinneign fyrr en við gjaldþrot.  Í greinargerð varnaraðila sé því mótmælt, að lækka beri kröfu MR, sem nemi bókfærðu verði stofnsjóðs sóknaraðila í MR.  Sóknaraðili telur að í báðum tilvikum sé um misskilning varnaraðila að ræða, þar sem ekki sé verið að krefjast skuldajafnaðar.  Ljóst sé hins vegar að MR geti aldrei notið atkvæðisréttar um frumvarp sóknaraðila að nauðasamningi við lánardrottna vegna samningskrafna sem nemi bókfærðu verði stofnsjóðs sóknaraðila í MR.

Er umsjónarmaður hafi tekið ákvörðun vegna fram kominna athugasemda á fundi hafi hann farið yfir breytingar er gerðar hafi verið á kröfuskrá og gert fyrirvara um breytingar.  Þá hafi verið gengið til atkvæða um frumvarp sóknaraðila.  Samkvæmt fundargerð umsjónarmanns hafi niðurstaða atkvæðagreiðslu orðið sú að 109 atkvæði, eftir höfðatölu, hafi fallið til samþykkis frumvarpi en 65,10% atkvæða eftir kröfufjárhæðum.  Því hafi ljóst orðið, að ágreiningskröfur skiptu máli um niðurstöðu.  Á því stigi hafi umsjónarmaður innt fundarmenn eftir hvort vilji væri til að kjósa aftur eða breyta atkvæðum og hafi engar kröfur borist þar um.  Þá hafi umsjónarmaður tekið út ágreiningskröfur sem goldið höfðu frumvarpinu neikvæði og hafi niðurstaða þá orðið 70,38% atkvæða eftir kröfufjárhæðum sem féll til samþykkis frumvarpinu.  Fram komi hjá umsjónarmanni, að skv. 4. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991, bæri auk þess að taka út auð atkvæði og atkvæði þeirra er ekki mættu.  Á fundi hafi verið látið sitja við að taka út kröfu Búnaðarbanka með þessum hætti og umsjónarmaður þá lýst frumvarpið samþykkt með yfir 76% atkvæða. 

Vegna túlkunar varnaraðila á ákvæðum 50. og 52. gr. laga nr. 21/1991, vegna meðferðar ágreiningatkvæða, auðra atkvæða og þeirra sem ekki mættu, skuli eftirfarandi áréttað með vísan til athugasemda með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 21/1991 og segi m.a.: 

„Fáist hins vegar ekki málalok með þessu móti (skv. 3. mgr. 52. gr.- innskot) verður umsjónarmaðurinn að grípa til þriðja og síðasta úrræðisins til að ná fram niðurstöðu atkvæðagreiðslu.  Skv. 4. mgr. 52. gr. felst þetta úrræði í því að umsjónarmaðurinn telji atkvæðin enn á ný og þessu sinni með því að taka óumdeild atkvæði og ágreiningsatkvæði til samþykkis frumvarpinu með, en sleppa öllum öðrum ágreiningsatkvæðum hvort sem þau voru greidd gegn frumvarpinu, lánardrottinn tók ekki afstöðu til frumvarpsins eða atkvæðisréttar á grundvelli þeirra var ekki neytt.  Við talningu eftir þessari aðferð breytist innbyrðis vægi atkvæða nokkuð því ágreiningsatkvæði sem hafa fallið gegn frumvarpinu eða voru ekki greidd, verða afmáð með öllu úr atkvæðaskrá.  Við það fækkar höfðatöluatkvæðum og að sama skapi hækkar vægi allra annarra atkvæða í talningu eftir kröfufjárhæðum þannig að samningsfrumvarp gæti talist samþykkt með atbeina færri atkvæðismannna en ella. Niðurstaðan sem fæst við beitingu þessa síðasta kosts um atkvæðatalningu telst endanleg samkvæmt niðurlagsorðum 4. mgr. 52. gr. þannig að annaðhvort hefur frumvarið verið samþykkt eða ekki.” 

Ákvæði 52. gr. frumvarpsins leiði til þess að ágreiningur verði virtur að vettugi til hagsbóta því að frumvarp teljist samþykkt.  Með vísan til framanritaðs megi ljóst vera að frumvarp sóknaraðila hafi verið samþykkt með lögformlegum hætti á fundi atkvæðismanna.

Þar sem frumvarp sóknaraðila hafi ekki verið staðfest fyrir dómi í samræmi við kröfu sóknaraðila og andmæli komið fram frá varnaraðilum, sé það í þessu máli sem varnaraðilum gefist kostur á, innan ramma ákvæða 57. og 58. gr. laga nr. 21/1991, að andmæla staðfestingu nauðasamnings.  Með vísan til 58. gr. geti varnaraðilar hreyft andmælum á þeim forsendum að samningsfrumvarp hafi fengist samþykkt með styrk ágreiningsatkvæðis eða vegna þess að tillit hafi ekki verið tekið til ágreiningsatkvæðis sem félli því ekki til samþykkis. Eftir að búið sé að taka tillit til athugasemda sóknaraðila og skera úr ágreiningsatriðum varðandi atkvæðisrétt samningskröfuhafa sé staðan eftirfarandi:  Atkvæðisrétt að frumvarpinu hafi haft 126 samningskröfuhafar samkvæmt höfðatölu en 110 atkvæðismenn hafi greitt frumvarpinu samþykki sitt.  Á móti hafi verið sex og þrír hafi setið hjá.  Hlutfall atkvæðisbærra, er samþykkt hafi frumvarpið eftir höfðatölu, sé 87,3015%. Miðað við framlagða kröfuskrá umsjónarmanns hafi handhafar samningskrafna, að fjárhæð 718.914.156 krónum atkvæðisrétt.  Á fundi samningskröfuhafa hafi handhafar samningskrafna að fjárhæð 408.358.347 krónum samþykkt frumvarpið eða 65.10% eftir fjárhæðum talið (svo í greinargerð sóknaraðila).

Hafi lögmaður sóknaraðila gert athugasemdir við kröfuskrá umsjónarmanns eins og hún hafi legið fyrir á fundi vegna krafna MR, Tollstjóra og Reykjagarðs hf., þar sem þeir aðilar hafi ekki getað átt atkvæðisrétt vegna krafna sinna í heild eða að hluta.  Yrði fallist á rök sóknaraðila vegna ágreiningskrafna samkvæmt framansögðu, og heildarsamningskröfur færðar niður samkvæmt því, yrði niðurstaða sem hér greinir: 

 

   Heildarfjárhæð samningskrafna sem notið hafi

   atkvæðisréttar samkvæmt kröfuskrá:    kr.    718.914.156.-

 

   Eftirgreindir aðilar hafi afturkallað kröfur sína á fundi

   umsjónarmanns:  

   - Orkuveitan    kr.    l6.129.396

   - Sorpa    kr.    5.631.135                                                                                                                                                     = kr.   21.760.531

                                                                                           = kr.    697.153.625

 

   Búnaðarbanki Íslands hafi lækkað samnings­-

   kröfur sínar á fundi tilsjónarmanns:    kr.                        41.985.000

      kr.    655.168.625

Samningskröfur færðar niður vegna ágreinings

um atkvæðavægi vegna athugasemda lögmanns sóknaraðila:

 

Kröfuhafi:                                              Krafa á skrá:                                          Lækkun:

a. Tollstjóraembættið    kr.    48.592.722    kr.    23.408.241­

b. MR       kr.       123.612.526       kr.       63.190.057­

c. Reykjagarður hf. kr.       3.885.313      kr.       3.885.313

kr.  90.483.611­

 

Samtals samningskröfur = kr. 564.685.014­

 

Eftirgreindir aðilar hafi greitt atkvæði á móti

frumvarpi sóknaraðila, eftir fjárhæðum:

MR                                         kr. 60.422.469­

Rafgull                                   kr.      258.790

Loftorka                                 kr.   2.270.020­

Hamar ehf.                             kr. 21.227.102­

Frjálsi lífeyrisj.                      kr.      733.087                   kr. 84.911.468­

 

Eftirgreindir aðilar hafi lýst kröfum en ekki mætt á fund tilsjónarmanns:

IMG                    kr. 215.341

Byko                  kr. 160.038

Kaldbakur         kr. 266.833

                     kr. 102.792

Rvk.borg           kr. 343.777

Skipulst.            kr. 137.200

Tollstjóraemb.  kr. 25.184.481             kr. 26.410.462

 

Eftirgreindir aðilar hafi setið hjá við atkvæðagreiðslu á fundi tilsjónarmanns:

Búnaðarbanki   kr. 44.236.311

Glitnir                                     kr.       117.596

Þröstur Karlsson                      kr.      850.830                          kr. 45.204.737

 

Samtals á móti, þeir sem ekki hafi greitt

atkvæði og þeir sem hafi setið hjá við atkvæða-

greiðslu á fundi samningskröfuhafa:                        kr. 156.526.667­

 

- eða 27,83 % af heildarsamningskröfum

                Með hliðsjón af framansögðu hafi handhafar samningskrafna að fjárhæð 408.158.347 krónum samþykkt frumvarpið eða 72,28%, af heildarfjárhæð samningskrafna.

Ljóst sé því, af því sem hér hafi verið rakið, að taka beri kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings við lánardrottna sína til greina á grundvelli samningsfrumvarps, dags. 20. mars 2003, sem samþykkt hafi verið á fundi atkvæðismanna hinn 2. júní 2003.  Við úrlausn þessa máls verði og að hafa í huga hagsmuni allra þeirra lánardrottna sóknaraðila sem samþykkt hafi frumvarpið og verði af verulegum fjárhæðum, um 200 milljónum króna, verði frumvarpið ekki samþykkt, jafnframt því sem á milli 70 og 80 manns missi atvinnu nái sóknaraðili ekki nauðasamningi við lánardrottna.  Þá liggi fyrir að aðilar hafi skráð sig fyrir nýju hlutafé í Móum hf., sem m.a. sé ætlað að standa undir nauðasamningi sóknaraðila.

V

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort staðfesta beri nauðasamning sóknaraðila, Móa hf. á grundvelli samningsfrumvarps, dagsettu 20. mars 2003, sem samþykkt var á fundi atkvæðismanna hinn 2. júní 2003.  Samkvæmt samningnum er lánardrottnum, sem fara með samningskröfur, boðin greiðsla á 30% krafna sinna, þó þannig að lágmarksgreiðsla er 100.000 krónur og kröfur til og með þeirri fjárhæð greiðast að fullu. 

Samkvæmt 49. gr. laga nr. 21/1991, þarf því atkvæðafjöldi til samþykkis frumvarpinu að vera 70 hundraðshlutar atkvæða, bæði eftir höfðatölu allra atkvæðismanna og fjárhæðum krafna þeirra, til þess að frumvarpið teljist samþykkt.

Á fundi með atkvæðismönnum hinn 2. júní sl., voru greidd atkvæði um frumvarp að nauðasamningi sóknaraðila.  Skiptu ágreiningskröfur niðurstöðu um atkvæðagreiðsluna.

Varnaraðilar máls þessa greiddu atkvæði gegn frumvarpi að nauðasamningi, en tvær kröfur varnaraðila hafi verið afgreiddar sem ágreiningskröfur, þ.e. krafa Reykjagarðs hf. og krafa Mjólkurfélags Reykjavíkur svf. 

Í 57. gr. fyrrgreindra laga nr. 21/1991, eru tilgreind þau atriði sem héraðsdómara er ætlað að gæta af sjálfsdáðum og gætu leitt til höfnunar kröfu um staðfestingu nauðasamnings.  Af hálfu varnaraðila er haldið fram að á málsmeðferð nauðasamningsumleitana séu slíkir annmarkar að hafna beri staðfestingu frumvarpsins, sbr. 3. tl. 1. mgr. 57. gr. laga nr. 21/1991 um gjalþrotaskipti o.fl.  Þannig hafi t.d. verið ranghermt í auglýsingu um innköllun, að fundur með atkvæðismönnum færi fram miðvikudag en ekki mánudag 2. júní 2003, svo sem rétt var, auk þess sem kröfuskrá hafi fyrst legið fyrir hjá umsjónarmanni föstudag 30. maí sl.  Þá hafi umsjónarmaður ekki kynnt hlutaðeigandi lánardrottnum um afstöðu sína til krafna með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara áður en atkvæðagreiðsla um frumvarp fór fram, sbr. 2. mgr. 46. gr. gþl. 

   Samkvæmt greinargerð umsjónarmanns með nauðasamningunum kemur fram, að vegna þeirra mistaka, sem urðu við birtingu auglýsingar í Lögbirtingablaðinu hafi hann tilkynnt öllum kröfuhöfum í ábyrgðarbréfi um fundarstað og tíma.        Þá verður ekki séð af fundargerðum, að athugasemdir hafi komið fram um birtingu gagna eða tímafrest.  Samkvæmt því verður ekki talið að fyrir hendi séu þau atvik sem kunni að hafa skipt sköpum um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar. 

   Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að stærstur hluti kröfu Kassagerðarinnar hf. hafi verið afturkallaður þann 19. júní sl. þar sem ekki hafi verið um slíka kröfu að ræða og verði meðferð hennar því að teljast röng skv. 3. tl. 57. gr. laga nr. 21/1991.  Fyrir liggur, að umrædd kröfulýsing var móttekin af umsjónarmanni og sannreynd.  Liggur og ekki fyrir annað, en að umrædd krafa hafi verið til er atkvæðagreiðsla um frumvarpið fór fram.  Ber því að líta svo á, að krafa þessi hafi verið afturkölluð, eftir að neytt hafði verið atkvæðisréttar á grundvelli hennar um samþykki fyrir frumvarpinu.  Verður því ekki haggað við því sem ætla mátti réttmæta beitingu atkvæðisréttar á þeim tímapunkti.

                Af hálfu varnaraðila er jafnframt til þess vísað að krafa embættis Tollstjórans í Reykjavík, að fjárhæð 49.085.365 krónur, hafi sumpart verið færð niður sem forgangskrafa, sbr. 4. tl. 110. gr. gþl., þar sem þær hafi fallið í gjalddaga á greiðslustöðvunartíma en varnaraðilar bera því við að umræddar kröfur hafi í reynd stofnast áður.  Samkvæmt fundargerð er hér um að ræða kröfur, sem umsjónarmaður á greiðslustöðvunartímanum samþykkti að yrðu ekki greiddar á gjalddaga þeirra, sem var á árinu 2003.  Í ljósi þessara ráðstafana verður að telja, að kröfur þessar hafi stofnast á þeim tíma og teljist því til forgangskrafna samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 og því undanskildar áhrifum nauðasamningsins.

                Af hálfu varnaraðila er og talið að líkur séu til þess, að afturköllun Sorpu hf. og Orkuveitu Reykjavíkur á lýstum kröfum þeirra kunni að fela í sér vísbendingar um mögulega ívilnun, sbr. 2. tl. 1. mgr. 57. gr., sbr. 3. tl. 58. gr. gþl. en telja verður slíkt ósannað enda það eitt komið fram að kröfurnar hafi verið afturkallaðar.

   Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að það hafi verið röng túlkun á 4. mgr. 52. gr. laga nr. 21/1991 hjá umsjónarmanni að reikna ekki atkvæði samningskröfuhafa sem ekki guldu atkvæði um frumvarp sóknaraðila sem atkvæði gegn staðfestingu frumvarpsins enda sé ekki um eiginleg ágreiningsatkvæði gegn frumvarpi að ræða sbr. 4. mgr. 52. gr. gþl., sbr. og 5. tl. 58. gr. s.l.  Sóknaraðili styður þá ráðstöfun umsjónarmanns með vísan til ummæla í greinargerð og er á það fallist með sóknaraðila.  Bar umsjónarmanni að taka út ágreiningskröfur, sem guldu frumvarpinu neikvæði, en hins vegar ekki auð atkvæði eða þeirra, sem ekki mættu.  Með því að taka út ágreiningskröfur, sem guldu frumvarpinu neikvæði, var það samþykkt með 70,3% atkvæða.

Samkvæmt framansögðu verður ekki fallist á með varnaraðilum að þeir annmarkar séu á málsmeðferðinni, eða önnur þau atriði samkvæmt 57. gr. laga nr. 21/1991, sem leiði við svo búið til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings.

Kemur þá til skoðunar hvort hafna beri kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðsamnings samkvæmt 58. gr. laganna, að kröfum varnaraðila. 

                Af hálfu varnaraðila, Reykjagarðs hf., er gerð krafa til þess að taka beri að fullu til greina við mat á atkvæðavægi, bótakröfu Reykjagarðs hf., að upphæð 3.889.813 krónur, en af hálfu sóknaraðila er fullyrt að hafna beri alfarið þeirri ágreiningskröfu gegn frumvarpinu með vísan til þess að ágreiningur sé um téð viðskipti aðila og sé mál af því tilefni rekið fyrir dómstólum.  Samkvæmt fundargerð umsjónarmanns með nauðasamningsumleitan sóknaraðila var því lýst yfir af hálfu Reykjagarðs, að ágreiningur þessi væri óleystur milli aðila og því ljóst, að um ágreiningskröfu væri að ræða.  Samkvæmt því er krafan réttilega metin af umsjónarmanni nauðasamningsumleitana.

                Af hálfu varnaraðila, Mjólkurfélags Reykjavíkur svf., er þess jafnframt krafist að taka beri að fullu til greina við mat á atkvæðavægi ábyrgðarkröfu Mjólkurfélags Reykjavíkur svf. gagnvart Landsbanka Íslands vegna skulda sóknaraðila við Landsbankann, að upphæð 91.375.991 króna, en því hafi verið hafnað af umsjónarmanni.  Er á það fallist með sóknaraðila að hafna beri þeirri kröfu varnaraðila enda séu ábyrgðarskuldbindingar Mjólkurfélags Reykjavíkur svf. gagnvart Landsbanka Íslands hf. óviðkomandi því hversu bankinn ráðstafar þeim kröfuréttindum sínum við nauðsamningsumleitanir.  Krafa þessi er háð skilyrðum, sem enn eru ekki komin fram og fylgir henni því ekki atkvæðisréttur. 

                Í gögnum málsins liggur ekki fyrir, að samkomulag hafi verið gert milli sóknaraðila og MR um 20 milljón króna afslátt eða skaðabætur til handa sóknaraðila vegna gallaðs fóðurs.  Samkvæmt því var rétt að lækka kröfu varnaraðila aðeins um þær 5 milljónir króna, sem fallist var á af hálfu varnaraðila.                

                Af hálfu varnaraðila er gerð krafa um að ekki beri að taka til greina við mat á atkvæðavægi 43.190.057 króna bókfærðan stofnsjóð sóknaraðila hjá varnaraðila, Mjólkurfélagi Reykjavíkur svf., enda sé þar um eign en ekki kröfu sóknaraðila að ræða.  Af hálfu sóknaraðila hefur verið vísað til þess að Mjólkurfélagið eigi forgangskröfu til greiðslu af andvirði stofnfjárinneignar sóknaraðila við möguleg gjaldþrotaskipti samkvæmt stofnsamningi Mjólkurfélags Reykjavíkur svf. og njóti félagið því sérstaks hagræðis sem líta beri til.  Í 18. gr. samþykkta varnaraðila segir, að komi til gjaldþrota stofnsjóðseiganda hafi MR aðgang að stofnsjóði stofnfélagans til skuldajöfnunar.  Samkvæmt skýlausu ákvæði 5. tl. 28. gr. laga nr. 21/1991, hefur því nauðasamningur sóknaraðila ekki áhrif á þennan hluta kröfu varnaraðila.

                Þegar allt framangreint er virt er ekki fallist á kröfur varnaraðila um að hafna beri kröfu sóknaraðila um staðfestingu nauðasamnings á grundvelli 58. gr. laga nr. 21/1991.

Niðurstaða atkvæðagreiðslu um staðfestingu nauðasamnings sóknaraðila var sú, að eftir kröfufjárhæðum féllu 70,38% til samþykkis frumvarpinu og 109 greiddu því atkvæði, eða meira en 70% atkvæða, bæði eftir kröfufjárhæðum og höfðatölu. 

                Með vísan til alls þess sem að ofan hefur verið ritað, ber því að fallast á kröfu sóknaraðila og staðfesta umdeildan nauðasamning og þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

                Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.                   

               

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                 Staðfestur er nauðasamningur Móa hf., fuglabús, við lánardrottna sína, á grundvelli samningsfrumvarps frá 20. mars 2003, sem var samþykkt á fundi atkvæðismanna þann 2. júní 2003.

                Málskostnaður fellur niður.