Hæstiréttur íslands
Mál nr. 301/2001
Lykilorð
- Kærumál
- Opinber skipti
- Fjárslit
- Óvígð sambúð
|
|
Mánudaginn 27. ágúst 2001: |
|
Nr. 301/2001. |
M(Sigurður G. Guðjónsson hrl.) gegn K (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Kærumál. Opinber skipti. Fjárslit. Óvígð sambúð.
Deilt var um hvort uppfyllt væru skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. til að fram færu opinber skipti til fjárslita milli M og K vegna loka óvígðrar sambúðar. Þótt ýmislegt benti til þess að skilyrði ofangreinds lagaákvæðis um samfellda sambúð í a.m.k. tvö ár væri uppfyllt, var með hliðsjón af skráningu lögheimilis M og gegn eindreginni neitun K talið að svo væri ekki. Kröfu M um opinber skipti var því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júlí 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. ágúst sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 2001, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fram fari opinber skipti til fjárslita milli hans og varnaraðila vegna loka óvígðrar sambúðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kveðið verði á um það að opinber skipti til fjárslita skuli fara fram á „búi” málsaðila. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, M, um að opinber skipti fari fram til fjárslita milli hans og varnaraðila, K.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur 16. júlí 2001
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 27. apríl sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 18. júní sl.
Sóknaraðili er M, [...].
Varnaraðili er K [...].
Sóknaraðili krefst þess að fram fari opinber skipti til fjárslita á búi hans og varnaraðila..
Varnaraðili gerir þá aðalkröfu að hafnað verði beiðni sóknaraðila um opinber skipti. Til vara er þess krafist að hafnað verði að fjárfélag hafi myndast með aðilum. Jafnframt krefst varnaraðili þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu að mati dómsins auk virðisaukaskatts.
I
Málavextir
Í máli þessu er um það deilt hvort uppfyllt séu skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. um opinber skipti til fjárslita á milli aðila. Með aðilum er ágreiningur um það hvort stofnast hafi til óvígðrar sambúðar með þeim en samband þeirra hófst árið 1995 og lauk á árinu 2000. Ekki var um skráða sambúð að ræða. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að á greindu tímabili var um samvistir að ræða hjá aðilum og búsetu á þremur stöðum. Fyrst á heimili foreldra gerðarbeiðanda að [...], síðan um stuttan tíma árið 1996 á [...] og loks á [...].
Krafa sóknaraðila byggir á því að honum beri hlutdeild í sameiginlegri eignamyndun á sambúðartíma.
Krafa sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita á búi aðila var tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. apríl sl. og var þeirri kröfu andmælt af hálfu varnaraðila. Er sá ágreiningur til úrlausnar í máli þessu.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili heldur því fram að aðilar hafi búið saman í óvígðri sambúð sem hafi hafist í ágúst 1995 á heimili foreldra sóknaraðila, þeirra G og A að [...]. Þar hafi þau búið fram í júní 1996 er þau fluttu á [...]. Í ágúst árið 1996 hafi þau fest kaup á fasteigninni [...]. Þar hafi þau ráðist í miklar framkvæmdir áður en þau fluttu inn en þær framkvæmdir hafi verið fjármagnaðar með bankaláni með veði í fasteign foreldra sóknaraðila. Haustið 1999 hafi verið ráðist í enn frekari framkvæmdir og endurnýjun á umræddri íbúð í framhaldi af skemmdum á lögnum í íbúðinni.
Samhliða þessu hafi aðilar keypt og endurbyggt eldra hús við [...]. Sóknaraðili hafi unnið mikið við endurbyggingu og innréttingu á framangreindu húsi og aðstoðað við að setja þar á stofn krána “L[...]” og gistiheimili. Hann hafi svo unnið hlutastarf við krána og gistiheimilið framan af en tekið svo við rekstrinum í febrúar 2000 og gert þá miklar breytingar á eldhúsi og sal krárinnar.
Sóknaraðili hafi unnið mikið við endurnýjanir og verðmætaaukningu á fasteignum þeim sem keyptar hafi verið á sambúðartímanum en hann hafi unnið sem iðnaðarmaður og aflað sér mikillar reynslu sem slíkur. Þá hafi sóknaraðili engu minna fé til lagt til endurbótanna á fasteignunum en varnaraðili.
Í endurbótum að [...] hafi m.a. falist að endurnýjaðar voru timburveggklæðningar, hraunhúð og gömul málning var skafin af steinveggjum. Þá hafi gólfefni (flísar) verið fjarlægt. Veggir hafi verið kalkaðir og málaðir að nýju, byggðir hafi verið pallar undir svefnherbergi ásamt undirstöðu fyrir heitan pott. Pottinum hafi verið komið fyrir ásamt frárennsli, raflögn og loftræstingu. Pallarnir hafi verið flísalagðir og arinn hlaðinn úr grágrýti. Vegna skemmda á klóaki árið 1999 hafi þurft að brjóta upp gólf í miðstöðvarherbergi og eldhúsi. Þá hafi verið settir upp nýir milliveggir, glerveggur hlaðinn í kringum baðherbergið og við heita pottinn. Gat hafi verið sagað á burðarvegg vegna hurðar, allir veggir málaðir að nýju og auk þess hafi flísar verið lagðar á eldhús, gang og miðstöðvarherbergi.
Vegna kaupa á [...] hafi sóknaraðili unnið hörðum höndum við endurnýjun á fasteigninni og stofnun rekstrar þar í formi gistiheimilis og krár. Hafi hann unnið samfleytt í 3 mánuði við endurnýjun húseignarinnar og útvegað bæði starfsmenn og verkfæri til verksins. Húseignin hafi áður verið heildsala og gleraugnaverslun og hafi allar innréttingar verið hreinsaðar út og endurinnréttað þar inni. Eftir að endurbótum lauk hafi sóknaraðili verið í hlutastarfi við reksturinn eða þar til hann hafi tekið við rekstri krárinnar “L[...]” í febrúar 2000.
Í október 2000 hafi komið upp óeining á milli aðila og hafi þau slitið samvistum. Sambúðarslitin hafi farið fram með þeim hætti að sóknaraðili hafi gengið af sameiginlegu heimili þeirra og hafi fram til dagsins í dag hvorki fengið föt né persónulega muni er hann átti í íbúðinni. Varnaraðili hafi neitað að eiga samskipti við hann og sé honum því nauðugur einn kostur að leita til dómstóla til að ná fram rétti sínum til hlutdeildar í sameiginlegri eignamyndun á sambúðartíma.
Aðilar hafi búið saman en ekki verið skráð í sambúð. Sóknaraðili hafi lagt fram yfirlýsingar vitna til að sýna fram á að um raunverulega sambúð hafi verið að ræða. Tekið er fram að frá árinu 1995 til sambúðarslita hafi öll laun sóknaraðila verið lögð inn á bankareikning varnaraðila nr. 406133 hjá Sparisjóði vélstjóra en á því tímabili munu það hafa verið kr. 8.500.000,00 samkvæmt skilagreinum sem sóknaraðili hafi í fórum sínum.
Sóknaraðili gerir kröfu um að fá afhenta persónulega muni sína er hafi verið á sameiginlegu heimili þeirra. Einnig gerir gerðarbeiðandi tilkall til hlutdeildar í sameiginlegri eignamyndun á sambúðartíma. Eignamyndun á sambúðartíma sé sem hér segir:
Íbúð að [...] að frátöldum
áhvílandi skuldum að fjárhæð kr. 3.200.000,00 kr. 14.720.000,00
Fasteignin [...] að frátöldum
áhvílandi skuldum að fjárhæð kr. 20.000.000,00 kr. 50.000.000,00
Bifreiðin [...] kr. 4.000.000,00
Strax Holdings Inc., hlutabréf USD 5.000 x 3,5 =
USD 17.500 x 85 kr. 1.487.500,00
Hlutabréf í Íslandsbanka hf. kr. 3.000.000,00
Hlutabréf í Netverki kr. 200.000,00
Hlutabréf Oz kr. 100.000,00
Samtals kr. 73.507.500,00
Auk þess hlutdeild í einkahlutafélaginu A, [...], sem sé stofnað af varnaraðila á sambúðartíma þeirra. A ehf. sé eigandi veitinga- og hótelrekstrar að [...].
Krafa sóknaraðila er byggð á því að honum beri hlutdeild í sameiginlegri ofangreindri eignamyndun á sambúðartíma í réttu hlutfalli við þær tekjur sem aðilar hafi komið með í búið á sambúðartímanum frá október 1995 til október 2000.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að hann og varnaraðili hafi sannanlega búið í óvígðri sambúð í skilningi 100. gr. laga nr. 20/1991 í u.þ.b. fimm ár og á þeim tíma hafi allar eignir bús þeirra myndast. Hann eigi því samkvæmt dómhelguðum réttarreglum rétt til hluta hreinnar eignarmyndunar á sambúðartíma í samræmi við það hlutfall tekna sem hann hafi komið með í búið á sambúðartímanum, a.m.k. helming af eignamyndun á sambúðartíma.
Af hálfu sóknaraðila er vísað til reglna sifjaréttar um búskipti, einkum dómvenju um skipti eigna sambúðarfólks. Einnig er vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.
Sóknaraðili byggir kröfu sína á 100. gr. laga nr. 20/1991 og reglum sifjaréttar um búskipti. Einnig er vísað til almennra reglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili byggir kröfur sínar á því að ekki séu uppfyllt skilyrði 100.gr. laga nr. 20/1991, þar sem aldrei hafi verið um sambúð málsaðila að ræða í skilningi lagagreinarinnar.
Af hálfu varnaraðila er tekið fram um málavexti að málsaðilar hafi verið í lauslegu sambandi um nokkurra ára skeið, með hléum. Þau hafi kynnst árið 1995 og slitið endanlega sambandi árið 2000. Hafi aldrei verið um neina sambúð að ræða milli aðila, hvorki skráða né óskráða. Aðilar hafi aldrei rætt framtíðaráform sín á þeim nótum að þau væru að taka upp sambúð, né rugla saman fjármálum sínum. Varnaraðili hafi verið í skóla á þessu tímabili og hafi því litlar tekjur haft. Smátíma hafi varnaraðili búið í íbúð föður síns við [...]. Á þeim tíma hafi varnaraðili átt lögheimili hjá foreldrum sínum í [...], utan tímabilsins, er hún bjó á [...] í kjallaraíbúð, sem hún hafi keypt með fjárhagslegum stuðningi foreldra sinna. Varnaraðili sé einkabarn.
Fjölskylda varnaraðila hafi rekið veitinga- og gistihús í [...], um árabil. Varnaraðili hafi tekið virkan þátt í þeim rekstri með foreldrum sínum. Sóknaraðili hafi aldrei verið í fastri vinnu á meðan kunningsskapur hafi verið með málsaðilum. Um tíma hafi sóknaraðili aðstoðað foreldra varnaraðila við reksturinn. Hann hafi ávallt fengið greitt fyrir vinnuframlag sitt, enda hafi hann engar tekjur haft annarstaðar frá. Sóknaraðili hafi allan tímann verið í miklum fjárhagslegum erfiðleikum, hann hafi ekki talið fram til skatts um árabil og verið tekinn til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms hinn l4. desember 1999. Þar sem sóknaraðili hafi ekki talið fram til skatts, hafi skattyfirvöld áætlað á hann tekjur og innheimtumaður ríkissjóðs sé því með fjárkröfur á hendur honum vegna vangoldinna opinberra gjalda. Af þeim sökum hafi sóknaraðili ekki getað verið á launaskrá hjá neinum. Hafi honum því verið greitt sem verktaka.
Sóknaraðili hafi látið skrá lögheimili sitt á Hagstofu Íslands hinn 8.janúar 1998 á [...], án þess að varnaraðila væri um það kunnugt. Einnig hafi sóknaraðili gert tilraun til þess að fá lögheimili sitt skráð í [...], en varnaraðila hafi tekist að koma í veg fyrir það.
Varnaraðili reisir kröfur sínar á því að skilyrði til opinberra skipta samkvæmt 100. gr. laga nr. 20/1991 séu ekki fyrir hendi. Ekki hafi verið um óvígða sambúð að ræða. Aðilar hafi verið í sambandi um tíma, aldrei skráð i sambúð, enda hafi varnaraðili skráð sóknaraðila strax í burtu, er hún hafi komst að því að hann hafi látið skrá sig á lögheimili hennar án hennar samþykkis. Ekki hafi verið um óvígða sambúð að ræða í þeim skilningi, að aðilar mynduðu með sér fjárfélag og séu því skilyrði fyrir opinberum skiptum til fjárslita milli aðila ekki fyrir hendi. Framlagðar yfirlýsingar kunningja sóknaraðila um að málsaðilar hafi verið í óvígðri sambúð, með þeim réttaráhrifum að heimilt sé að krefjast opinberra skipta, hafi enga þýðingu. Sóknaraðili hafi ekki lagt fram nein gögn sem styðja það að skilyrði fyrir opinberum skiptum sé fyrir hendi þ.e. að fjárfélag hafi myndast með málsaðilum eða að sóknaraðil hafi með einhverjum hætti lagt fram fé til meintrar eignarmyndunar þeirra.
Um meint fjármálaleg tengsl sóknar- og varnaraðila sé þetta að segja. Sóknaraðili hafi aldrei verið í fastri vinnu á þeim tíma er kunningsskapur var með aðilum. Fyrir vinnuframlag í þágu foreldra varnaraðila hafi hann fengið greitt. Á hinn bóginn hafi sú tekjuöflun ekki nægt til framfærslu sóknaraðila og hafi varnaraðili greitt fyrir hann ýmsan persónulegan kostnað með greiðslukorti sínu en sóknaraðili ráði hvorki yfir persónulegum bankareikningi né greiðslukortum vegna fjárhagsstöðu sinnar.
Sóknaraðili krefjist þess að honum beri hlutdeild í sameiginlegri eignamyndun á "sambúðartímanum" frá október 1995 til október 2000 í "réttu" hlutfalli við þær tekjur, er þau gerðarbeiðandi og gerðarþoli komu með á sambúðartímanum"
Í fyrsta lagi hafi ekki verið um neina sambúð að ræða. Aðilar hafi aldrei verið í sambúð, hvorki skráðri né óskráðri. Í öðru lagi hafi sóknaraðili ekki lagt fram fjármagn til meintrar eignamyndunar. Hann hafi ekki aflað nægilegs fjár til eigin persónulegra nota, hvað þá eins og haldið sé fram að hann hafi lagt fram fé eða að vinnuframlag hans hafi verið með þeim hætti að það hafi skapað honum hlutdeild í meintum eignum varnaraðila, sem hafi myndast á meintum sambúðartíma. Það sé ljóst að á þeim tíma er kunningsskapur hafi verið með málsaðilum þá hafi sóknaraðili í raun og veru verið á framfæri varnaraðila og foreldra hennar.
Það hafi verið talið skilyrði að sá aðili sem ekki sé skráður eigandi að eign á meintum sambúðartíma verði að geta sýnt fram á að hann hafi tekið þátt í eignamynduninni með beinum fjárframlögum eða með því að sýna fram á að hann hafi með vinnu sinni á heimilinu stuðlað að því að bæta aðstöðu hins aðilans til tekjuöflunar. Í síðara tilvikinu sé þá oft um það að ræða að annar aðili gæti bús og barna á meðan hinn aðilinn aflar teknanna
Sóknaraðili geti um það að öll "laun" hans á hinum meinta sambúðartíma, hafi verið lögð inn á bankareikning varnaraðila kr. 8.500.000,- á fimm ára tímabili. Sannleikurinn sé sá að sóknaraðili hafi fengið heimild til þess að nota bankareikning varnaraðila, þar sem hann vegna fjárhagserfiðleika hafi ekki getað ráðið yfir slíkum. Á grundvelli skilagreina geti hann hvorki sýnt fram á né sannað að hann hafi átt það fé sem lagt hafi verið inn á umræddan bankareikning. Samkvæmt framlögðum gögnum hafi veltan á bankareikningi þessum í Sparisjóði vélstjóra á árunum 1997-2000 verið 4.000.000 kr. Reikningurinn hafi verið stofnaður árið 1995. Það ár og árið 1996 hafi reikningurinn ekki verið notaður. Þennan reikning hafi báðir málsaðilar notað.
Um tilgreindar eignir sé þetta að segja:
1. [...]. Varnaraðili hafi keypt umrædda íbúð og hafi hún verið fjármögnuð með þeim hætti að faðir varnaraðila hafi lagt fram strax í upphafi 1.000.000 kr.
2. Varnaraðili og foreldrar hennar hafi síðan hjálpast að við að greiða eftirstöðvarnar. Varnaraðili sjálf hafi ekki haft bolmagn til þess að kaupa umrædda kjallaraíbúð en hafi getað það með fjárstuðningi foreldra sinna. Varnaraðili sé einkabarn og fjölskyldan afar samrýmd.
3. Fasteignin að [...] sé alfarið eign foreldra varnaraðila. Faðir varnaraðila hafi keypt hana og fjármagnað, eins og framlagður kaupsamningur beri með sér.
4. Bifreiðin [...], sé skráð eign varnaraðila. Bifreiðin sé að mati sóknaraðila að verðmæti 4.000.000 kr. Staðreyndin sé sú samkvæmt meðfylgjandi gögnum, að bifreiðin sé í mesta lagi að verðmæti 1.650.000 - 1.900.000 kr. Bílalán, sem á bifreiðinni hvíli, sé 3.000.000 kr. Bifreiðin sé veðsett langt upp fyrir verðmæti hennar.
5. Hlutabréfin, sem um sé getið hafi öll verið keypt fyrir fé föður varnaraðila. Varnaraðili hafi haft heimild til þess að ráðstafa fé af reikningi föður síns og hafi það verið gert í samráði við hann. Varnaraðili hafi átt helming í hlutabréfum Netverks, sem í dag séu óseljanleg og lítils virði. Þau hafi verið keypt á sínum tíma fyrir 200.000 kr. Oz hlutabréfin séu einnig óseljanleg í dag og lítils virði, voru fyrir (sic) 100.000 kr. Gengið í dag sé 0.25. Strax Holding hlutabréfin. Um hafi verið að ræða ævintýrafyrirtæki sem faðir varnaraðila hafi freistast til þess að taka þátt í. Framlögð séu gögn vegna þessara hlutabréfakaupa. Hlutabréf í Íslandsbanka séu persónuleg eign föður varnaraðila. Þau liggi í Íslandsbanka sem trygging fyrir yfirdrætti hans þar. Þau séu 300.000 kr.
Vinnuframlag sóknaraðila vegna [...] hafi verið mjög óverulegt. Varnaraðili hafi tekið lán að fjárhæð 800.000 kr. til þess að laga til þar. Klóakrör hafi brostið og það hafi orðið tryggingarmál. Tryggingarnar hafi séð um þessa viðgerð að langmestu leyti. Kostnaður hafi og fallið á aðra húseigendur að [...]. Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi unnið við þetta hörðum höndum. Hann hafi verið í íhlaupavinnu hjá foreldrum varnaraðila og fengið greitt fyrir hvert einasta verk er hann hafi unnið og vel það.
Varnaraðili mótmælir beiðni um opinber skipti. Um sambúð hafi ekki verið að ræða. Engin sameiginleg eignamyndun hafi átti sér stað hjá málsaðilum.
Varnaraðili byggir kröfu sína um að hafnað verði beiðni um opinber skipti á 100. gr. laga nr. 20/1991. Einnig byggir varnaraðili kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningsréttar. Vísað er sérstaklega til H. 1997.232.
IV
Niðurstaða
Úrlausn máls þessa lýtur að því hvort uppfyllt séu skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum ofl., og því hvort fallast megi á kröfu sóknaraðila um opinber skipti til fjárslita á milli aðila.
Í 100. gr. laga nr. 20/1991 segir að ef karl og kona slíta óvígðri sambúð eftir að hafa búið samfleytt í að minnsta kosti tvö ár eða búið saman skemmri tíma og annaðhvort eignast barn eða konan sé þunguð af völdum karlsins, geti annað þeirra eða þau bæði krafist opinberra skipta til fjárslita á milli þeirra.
Það hefur almennt verið talin óvígð sambúð þegar karl og kona búa saman sem hjón, án þess að hafa gengið í hjúskap. Líta verður svo á að sambúð geti hafist á heimili annarra en sambúðaraðilanna sjálfra, t.d. á heimili foreldra þeirra. Ekki er óalgengt að þar sé lagður grunnurinn að áframhaldandi sambúð, þá á sameiginlegu heimili sambúðaraðilanna, þar sem hið eiginlega heimilishald hefst. Ennfremur hefur það verið talið hugtaksskilyrði að með þeim hafi myndast einhverskonar fjárhagsleg samstaða á sambúðartímanum en eðli máls samkvæmt er það forsenda fjárskipta á milli sambúðarfólks að ekki sé um algjörlega aðskilinn fjárhag að ræða. Hins vegar kæmi það til athugunar við skiptameðferð, ef á fjárskipti yrði fallist, hvort að eignarmyndun hafi átt sér stað á sambúðartímanum og hver væri hlutdeild sambúðaraðilanna hvors um sig í þeirri eignarmyndun.
Aðilar máls þessa voru ekki skráðir sem sambúðaraðilar hjá Hagstofu Íslands. Hins vegar má ráða af skýrslu A, móður sóknaraðila, fyrir dómi, að þau hafi búið saman á heimili hennar [...]. Kveður hún varnaraðila hafa sofið þar, matast og að litið hafi verið á hana sem hluta af heimilisfólkinu. Hún hafi geymt þar fatnað og á þeim tíma er hún stundaði nám í myndlist hafi hún haft þar áhöld, pappír ofl. Málsaðilar hafi svo flutt saman tímabundið á [...], en dvalist svo aftur skamman tíma að [...], þar til þau fluttust að [...], á árinu 1999. Vitnið kvað sóknaraðila hafa búið að [...] og ekki komið í [...] fyrr en að sambúð hans með varnaraðila hafi lokið.
Í vitnaskýrslu Jóns Ólafssonar, hrl. kom fram að hann hafi selt varnaraðila íbúðina að [...], og hafi hann eingöngu haft samskipti við varnaraðila og föður hennar. Upphaflega hafi sóknaraðili þó komið með varnaraðila á fasteignasöluna. Í samtölum sínum við varnaraðila hafi ekki komið fram að hún væri í sambúð.
Fram hefur komið í greinargerð varnaraðila og í framburði hennar fyrir dómi, að hún hafi verið skráð með lögheimili hjá foreldrum sínum. Hún hafi oft dvalið hjá sóknaraðila að [...], en telur sig ekki hafa verið þar í sambúð, heldur hafi hún búið hjá foreldrum sínum og haft sínar persónulegu eigur þar. Um þriggja mánaða skeið hafi hún búið að [...]. Hún hafi keypt [...], í ágúst 1999, með aðstoð foreldra sinna og telji það hafa verið sitt heimili þó svo að sóknaraðili hafi dvalist þar hjá henni. Kveður hún hann hafa haft lykla að íbúðinni og haft hjá henni ýmsa persónulega muni, en einnig hafi hann oft verið fjarverandi. Hún telji þau fyrst og fremst hafa verið kærustupar þar til sambandinu lauk endanlega í október 2000.
Samkvæmt vottorði frá Hagstofu Íslands, óskaði sóknaraðili eftir því þann 8. júní 1998, að lögheimili hans yrði skráð að [...], en 1. febrúar 1999 hafi hann látið flytja lögheimili sitt þaðan og að [...]. Varnaraðili kveðst hafa komist að því fyrir tilviljun og þann 28. nóvember 1999 hafi hún látið skrá hann sem óstaðsettan í hús frá 1. febrúar 1999.
Meðal gagna málsins er veðskuldabréf, dags. 28. júlí 1997, að fjárhæð kr. 1.000.000 kr. og var húseignin [...] sett að veði til tryggingar greiðslu þess. Að sögn sóknaraðila var ætlunin að nota það fé til að fjármagna kaup á [...]. Varnaraðili kveður það hafa verið persónulegan greiða foreldra sóknaraðila að veita henni þessa aðstoð. Peningana hafi hún notað til niðurgreiðslu lána en einnig vegna íbúðarinnar að í [...]. Hún hafi greitt af láninu ein og sé það nú uppgreitt.
Fjölmörg vitni gáfu skýrslur fyrir dómi til að staðfestingar á efni yfirlýsinga sem lagðar voru fram af málsaðilum báðum, um meinta sambúð málsaðila eða um meint kærustuparasamband. Við mat á sönnunargildi þeirra verður að líta til tengsla þeirra við málsaðila.
Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið má þó ráða að málsaðilar hafi verið samvistum að einhverju leyti frá ágúst 1995 og uns sambandi þeirra lauk á árinu 2000. Upphaflega að [...], og að [...], á meðan framkvæmdir stóðu yfir á [...], en á þeim tíma hafði sóknaraðili frumkvæði að því að fá kunningja sína, sem nokkrir gáfu skýrslur fyrir dómi, til að aðstoða þau. Ennfremur má ráða að hann hafi búið, a.m.k. um hríð að [...], en staðfest er af varnaraðila að sóknaraðili hafi haft þar ýmsa persónulega muni sína, svo sem málverk, borð, skáp, verkfæri, fatahengi og skíði. Framangreint veðskuldabréf veitir einnig ákveðna vísbendingu um samstöðu málsaðila á þeim tíma er lánið var tekið. Þegar hins vegar m.a. er litið til þess hvernig skráningu lögheimilis sóknaraðila var háttað samkvæmt framansögðu verður að telja ósannað að um samfelldan samvistartíma aðila hafi verið að ræða. Gegn eindreginni neitun varnaraðila verður því ekki talið að uppfyllt séu skilyrði 100. gr. laga nr. 20/1991 um opinber skipti til fjárslita milli málsaðila. Ber því að hafna kröfu sóknaraðila, en eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Kröfu sóknaraðila, M, um að opinber skipti til fjárslita fari fram á búi hans og varnaraðila, K, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.