Hæstiréttur íslands

Mál nr. 400/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 28. júní 2011.

Nr. 400/2011.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjaransdóttir settur vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Guðmundur St. Ragnarsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til 22. júlí 2011 klukkan 16, en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 23. apríl 2011, nú síðast samkvæmt dómi Hæstaréttar 30. maí 2011 í máli nr. 337/2011, þar sem staðfestur var úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2011 um gæsluvarðhald til 24. júní sama ár. Þar var talið að skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 væri fullnægt og var dómurinn reistur á því lagaákvæði. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði hefur ákæra nú verið gefin út á hendur varnaraðila vegna þeirra ætluðu brota, sem hafa legið gæsluvarðhaldsvist hans til grundvallar, og mun aðalmeðferð málsins vera fyrirhuguð 7. og 8. júlí 2011.  Ekkert hefur komið fram í málinu sem breytir því mati sem lá fyrrgreindum dómi Hæstaréttar til grundvallar. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann því staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júní 2011.

Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærða, X, kt. [...],[...],[...], með dvalarstað í Fangelsinu Litla-Hrauni, Eyrarbakka, verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 22. júlí 2011, kl. 16.00 en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli hans.

Í greinargerð kemur fram að upphaf máls lögreglu megi rekja til útkalls lögreglu á neyðarmóttöku vegna A sem þar hafi verið  í skoðun vegna meintrar nauðgunar. Samkvæmt frásögn A hafi hún sagt tvo menn, þá X og Y, hafa nauðgað sér aðfaranótt 22. apríl á heimili sínu að [...],[...].  Hafi hún verið að skemmta sér með Y, sem hún hafi þekkt fyrir og B. Hafi þau verið í miðbæ Reykjavíkur og farið á nokkra skemmtistaði. Leiðin hafi síðan legið heim til hennar. B hafi fljótlega farið að sofa en A og Y haldið áfram að spjalla. Skömmu síðar hafi ákærði boðað komu sína, hafi A þekkt hann fyrir en Y ekki. Ákærði hafi farið inn í herbergi ásamt A en hún hafi haft kynferðislegan áhuga á honum. Hann hafi hins vegar skipað Y að koma til þeirra inn í herbergið og lagt til að hann tæki þátt í kynmökum með þeim. Undir þetta hafi A og Y þó hvorug tekið. Ákærði hafi hins vegar gengið hreint til verks og þvingað A með ofbeldi til munnmaka og stjórnað því sem fram  hafi farið m.a. með því að skipa Y að hafa einnig kynmök við A. Hafi hún verið afar hrædd við ákærða og tekið þá ákvörðun að berjast ekki á móti til að hljóta ekki skaða af. Hafi hann verið afar harkalegur við hana, rifið í hár hennar, klipið hana og stjórnað hreyfingum hennar. Eftir um hálftíma hafi ákærði hætt kynmökunum og gengið út úr herberginu en skipað Y að halda áfram að eiga kynmök við A. Beri Y og A saman um að fljótlega eftir að ákærði hafi farið fram hafi þau hætt. Eftir þetta hafi ákærði reiðst heiftarlega. Hafi hann m.a. haft uppi hótanir við A um að berja hana og Y. Næsta morgun hafi A greint nokkrum aðilum þ.á m. B, sem hafi sofið í öðru herbergi, frá atvikum. Í framhaldinu af því hafi hún farið á neyðarmóttöku til skoðunar.

Ákærði hafi verið handtekinn hinn 23. apríl og hafi hann kannast við  að hafa verið á heimili A aðfaranótt 22. apríl þar sem hann og Y hafi haft samfarir við hana. Einnig hafi hún haft munnmök við þá báða. Segist ákærði hafa haft frumkvæði að þessu en Y og A hafi verið samstíga í því sem fram hafi farið. Hann hafi kannast við að vera „skapmikill maður“ og hafi hann upplifað A sem „hóru“ og „druslu“ vegna framkomu hennar. Framburður hans um það sem hafi gerst í svefnherberginu hafi verið nokkuð á annan veg en framburðir Y og A.

Samkvæmt skýrslu sem tekin hafi verið af Y hafi hann viðurkennt  að hafa haft samræði við A. Þá kveði hann ákærða hafa látið hana hafa  munnmök við sig. Hafi hann í fyrstu talið að A væri samþykk því sem fram hafi farið, eða látið til leiðast, en þegar ákærði hafi tekið þátt hafi það greinilega breyst. Hann hafi upplifað ákærða sem ógnandi persónu en allt hans fas hafi verið slíkt þó hann hafi ekki beitt hann ofbeldi heldur aðeins gefið honum fyrirskipanir. Hann segi ákærða hafa verið ógnandi og mjög harkalegan við A m.a. annars hafi hann klipið í brjóst hennar, rifið í hár hennar og stjórnað hreyfingum hennar í einu og öllu. Hafi hann ekki þorað að hreyfa andmælum.

A og Y beri saman um atburðarrásina í veigamiklum atriðum, m.a. um það hvernig ákærði hafi stjórnað kynmökunum í einu og öllu og að þeim hafi staðið ógn af honum. Þá beri þeim saman um að ákærði hafi státað sig af ofbeldisverkum sínum í almennu tali nokkru áður.

Ákærði hafi einnig verið kærður fyrir nauðgun. Hafi kæra verið lögð fram. 18. apríl sl. af hálfu forráðamanns C sem þá hafi verið 17 ára gömul. Í skýrslu sem tekin hafi verið af C hafi hún greint frá því að ákærði hefði brotið gegn henni aðfaranótt 27. mars sl. á dvalarstað hans í Reykjavík. Hafi þau áður verið í samskiptum á Facebook en ákveðið að hittast umrædda nótt og hafi ákærði sótt hana. Hafi C lýst því að hún hafi viljað hafa við hann samræði og hafi það haft eðlilegan aðdraganda. Skyndilega hafi ákærði byrjað að vera ógnandi í hegðun og beitt hana ofbeldi og stjórnað hreyfingum hennar. Hafi hann m.a. þvingað hana til munnmaka, endaþarmsmaka, rifið í hár hennar, bitið hana, slegið hana utanundir og klipið fast í brjóst hennar. Þá hafi hann sagt hana vera hans „eign“ og hafi greipið þéttingsfast um háls hennar og hótað því að hálsbrjóta hana ef hún hefði aftur samræði við fyrrverandi kærasta sinn. Hafi hún af þessum sökum óttast ákærða og ekki þorað að andmæla honum nema að litlu leyti. C hafi leitað aðhlynningar fyrst á heilsugæslu og síðar á neyðarmóttöku, en samkvæmt upplýsingum þaðan hafi hún borið áverka, m.a. á brjóstum sem geti samrýmst því að hún hafi verið klipin og bitin. Þá hafi hún greint vitnum frá því sem hafi gerst.

Ákærði  segi kynmökin við C hafa verið með hennar samþykki.  Hafi hann kannast við að hafa verið „smá harkalegur“ en hún hafi vitað hvað hann vildi, enda hafi hann sagt við hana að hann væri „ekki góður strákur og enginn trúboðagaur.“ Hann aðhyllist „rough sex“ og hafi C mátt vita það.

Um sé að ræða tvö gróf brot þar sem ákærði hafi beitt yfirburðastöðu sinni, ofbeldi og ógnandi tilburðum til að hafa samræði við tvær ungar konur gegn vilja þeirra, sbr. 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Líkindi séu með málunum tveimur, sérstaklega þegar litið sé til aðferða ákærða við að koma fram vilja sínum með það eitt í huga að fullnægja eigin hvötum. Hafi hann virt að vettugi kynfrelsi kvennanna. Í báðum tilvikum sé um að ræða stutt kynni og hafi hann ekki áður haft samræði við þær. Þá hafi þær báðar reynt að mótmæla honum í upphafi en hætt því af ótta við hann.

Gögn málsins þyki benda til þess að ákærði hafi brotið gegn þessum tveimur konum. Framburður brotaþolanna hvors um sig þyki trúverðugur en engin tengsl séu á milli þeirra. Framburður A fái styrka stoð af framburði Y. Þyki lýsing hans á aðstæðum samræmast í öllum atriðum því sem hún hafi lýst. Hafi hún borið á sama veg um það sem hafi gerst í svefnherberginu umrætt sinn, hjá lögreglu og hjá neyðarmóttöku. Þá samræmist marblettir á líkama hennar þeirri lýsingu sem hún hafi gefið á ofbeldi ákærða. Þessu til viðbótar séu til staðar óbein sönnunargögn.

Framburður C hafi verið borinn undir ákærða eins og áður sé rakið og  hafi hann kannast við að hafa verið harkalegur, m.a. „nartað í eyra og háls“ og „gripið í hár.“ Í gögnum úr þeim læknisskoðunum sem hún hafi gengist undir í kjölfar atvika komi fram að áverkar hafi verið á líkama hennar.

Hafi  framburður hennar verið á sama veg frá upphafi. Til viðbótar séu til staðar óbein sönnunargögn.

Mál þetta hafi borist ríkissaksóknara hinn 30. maí sl. og hafi meðfylgjandi ákæra verið gefin út hinn 10. júní sl. Fyrirhugað sé að aðalmeðferð málsins fari fram 7. og 8. júlí nk.

Ákærði hafi verið samfellt í gæsluvarðhaldi frá því að hann var handtekinn  hinn 24. desember sl., sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá 29. apríl og 27. maí 2011, og dóma Hæstaréttar í málum nr. 261/2011 og 337/2011.

Með vísan til ofangreinds leiki grunur á að ákærði hafi með háttsemi sinni brotið gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga en brot gegn ákvæðinu geti varðar allt að 16 ára fangelsi.

Með vísan til tilvitnaðra lagaákvæða, alvarleika sakarefnis og á grundvelli almannahagsmuna þyki nauðsynlegt að ákærði sæti gæsluvarðhaldi þar til dómur gangi í máli hans.

Með vísan til framangreinds sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga.

Eins og að framan greinir hefur verið gefin út ákæra á hendur ákærða X fyrir nauðgun og hefur hún verið birt honum.  Ákveðin hefur verið aðalmeðferð málsins í héraði 7. og 8. júlí n.k.  Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna gruns um þau brot, sem hann er nú ákærður fyrir, frá 23. apríl 2011, nú síðast á grundvelli dóms Hæstaréttar Íslands frá 30. maí sl.  Brot þau sem ákærði er ákærður fyrir geta varðað allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Með hliðsjón af eðli hinna meintu brota verður talið að nauðsynlegt sé með tilliti til almannahagsmuna að ákærði sæti gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, meðan ákærumál hans er til meðferðar fyrir dóminum. 

Verður því orðið við kröfunni um framlengingu gæsluvarðhaldsins eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að marka varðhaldinu skemmri tíma.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

X, kt. [...],[...],[...], með dvalarstað í Fangelsinu Litla-Hrauni, Eyrarbakka, er gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi til 22. júlí 2011, kl. 16.00, en þó eigi lengur en þar til dómur gengur í máli hans.