Hæstiréttur íslands
Mál nr. 213/2012
Lykilorð
- Ábyrgð
- Málsástæða
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 29. nóvember 2012. |
|
Nr. 213/2012.
|
Trausti Ágústsson (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Ábyrgð. Málsástæða. Sératkvæði.
L hf. krafði T um greiðslu samkvæmt sjálfskuldarábyrgð sem hann hafði tekist á hendur vegna yfirdráttarheimildar B ehf. á veltureikningi hjá L hf. T byggði á því að hann væri óbundinn af samningi aðila um sjálfskuldarábyrgð þar sem L hf. hefði ekki farið að fyrirmælum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þegar T tókst á hendur ábyrgðina og því bæri að víkja ábyrgðinni til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom meðal annars fram að L hafi hafi brugðist þeirri skyldu sem á honum hvíldi á grundvelli laga nr. 32/2009. Í þeim lögum væri hins vegar engar reglur sem mæltu fyrir um ógildi samnings vegna annmarka af þeim toga sem uppi voru í málinu og yrði að finna slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar. Við meðferð málsins í héraði hefði T ekki leitast við að sýna fram á að skilyrðum þess að beita mætti ákvæði 36. gr. samningalaga hefði verið fullnægt í málinu Úr þessum annmarka yrði ekki bætt fyrir Hæstarétti svo sem T hefði leitast við að gera. Staðfesti Hæstiréttur því niðurstöðu héraðsdóms um að T bæri að greiða L hf. hina umkröfðu fjárhæð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. mars 2012. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Hinn 18. ágúst 2009 tókst áfrýjandi á hendur sjálfskuldarábyrgð á yfirdráttarheimild einkahlutafélagsins Bisón á veltureikningi félagsins nr. 295 hjá stefnda, sem þá hét NBI hf. Hámarksfjárhæð höfuðstóls sjálfskuldarábyrgðarinnar var 9.000.000 krónur. Á þeim tíma sem áfrýjandi gekkst undir ábyrgðina starfaði hann sem rekstrarstjóri verslana félagsins, en það rak tvær fataverslanir aðra í Kringlunni en hina í Smáralind. Samtals námu innstæðulausar færslur á framangreindum reikningi 9.483.727 krónum 20. febrúar 2011 og var reikningnum þá lokað. Með hinum áfrýjaða dómi var áfrýjandi dæmdur til að greiða stefnda 9.000.000 krónur með dráttarvöxtum auk málskostnaðar.
II
Áfrýjandi byggir á því að hann sé óbundinn af samningi aðila um sjálfskuldarábyrgð þar sem stefndi hafi ekki farið að fyrirmælum laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn þegar áfrýjandi tókst á hendur ábyrgðina. Stefndi byggir á því að lög þessi eigi ekki við um áfrýjanda.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. framangreindra laga er með ábyrgðarmanni átt við einstakling sem gengst persónulega í ábyrgð eða veðsetur tilgreinda eign sína til tryggingar efndum lántaka enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmanns eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans. Af málatilbúnaði stefnda verður ekki annað ráðið en að eingöngu sé á því byggt að lög nr. 32/2009 eigi ekki við um áfrýjanda þar sem umrædd ábyrgð hafi verið veitt í þágu atvinnurekstrar hans en ekki að hún hafi verið veitt í þágu fjárhagslegs ávinnings hans.
Samkvæmt ársreikningum Bisón ehf. vegna áranna 2008 og 2009 var allt hlutafé félagsins, 500.000 krónur, í eigu Ágústs Friðgeirssonar, föður áfrýjanda. Hann var því eigandi alls hlutafjár félagsins á þeim tíma sem áfrýjandi ritaði undir ábyrgðaryfirlýsinguna. Þá bera gögn málsins með sér að á sama tíma var áfrýjandi varamaður í stjórn félagsins en Ágúst var framkvæmdastjóri þess og einn prókúruhafi. Er engum gögnum til að dreifa í málinu um að áfrýjandi hafi, á þeim tíma er hann tókst á hendur fyrrnefnda sjálfskuldarábyrgð, haft þá hagsmuni af rekstri Bisón ehf. að jafna megi til þess að um hans eigin atvinnurekstur hafi verið að ræða. Breytir þar engu þótt blaðamaður, í ódagsettu viðtali við áfrýjanda, hafi fullyrt að sá síðarnefndi væri eigandi Bisón verslananna í Kringlunni og Smáralind eða að áfrýjandi hafi tekið svo til orða þegar hann gaf skýrslu fyrir héraðsdómi, aðspurður um á hvaða tímabili hann hafi starfað sem rekstrarstjóri félagsins og sagði „ ... ætli þetta séu ekki eitthvað ... tvö ár áður en við seljum.“ Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir ljóst að áfrýjandi taldist ábyrgðarmaður í skilningi laga nr. 32/2009 er hann tókst ábyrgðina á hendur.
III
Samkvæmt 4. gr. laga nr. 32/2009 skal lánveitandi meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gengst í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar skal lánveitandi með skriflegum hætti ráða ábyrgðarmanni frá því að gangast í ábyrgð ef greiðslumat bendir til þess að lántaki geti ekki efnt skuldbindingar sínar og með sama hætti skal lánveitandi ráða ábyrgðarmanni frá því að undirgangast ábyrgð ef aðstæður ábyrgðarmanns gefa tilefni til. Þá segir í 5. gr. laganna að lánveitandi skuli fyrir gerð ábyrgðarsamnings upplýsa ábyrgðarmann skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara, en í því felist meðal annars að veita upplýsingar um ýmis atriði sem tiltekin eru í stafliðum a til i. Af gögnum málsins er ljóst að stefndi brást þeirri ríku skyldu sem á honum hvíldi, annars vegar að láta fara fram greiðslumat á lántaka og hins vegar að upplýsa áfrýjanda skriflega um þá áhættu sem ábyrgð er samfara, áður en áfrýjandi tókst ábyrgð þessa á hendur. Áfrýjandi byggir sýknukröfu sína á því að stefndi hafi brugðist skyldum sínum að þessu leyti og því beri að víkja ábyrgðinni til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Í lögum nr. 32/2009 eru engar reglur sem mæla fyrir um ógildi samnings vegna annmarka af þeim toga sem uppi eru í þessu máli. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögunum segir um 5. gr. þeirra að vanræksla lánveitanda við samningsgerð geti leitt til þess að ábyrgðarmaður verði ekki bundinn við samning sinn. Ákvæði til bráðabirgða með lögunum hljóðar svo: „Heimilt er að víkja ábyrgð til hliðar í heild eða að hluta á grundvelli 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936, og að teknu tilliti til þeirra atvika er leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra ástæðna á fjármálamarkaði o.fl., nr. 125/2008.“ Þetta ákvæði verður ekki skýrt svo að þótt við stofnun ábyrgðar, sem fellur undir lögin hafi ekki verið farið að fyrirmælum þeirra, leiði það sjálfkrafa til þess að ógilda megi ábyrgðina á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936. Samningur aðila um sjálfskuldarábyrgð áfrýjanda verður því ekki ógiltur í heild eða að hluta af þeim sökum einum að stefndi hafi við gerð hans brugðist skyldum sínum, heldur verður að finna slíkri ógildingu stoð í reglum samningaréttar ef leysa áfrýjanda undan skyldum sínum samkvæmt samningnum.
Eins og áður greinir hefur áfrýjandi í héraðsgreinargerð sinni reist málatilbúnað sinn á því að þar sem stefndi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 32/2009 leiði það til þess að ábyrgðinni verði að víkja til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936. Áfrýjandi hefur á hinn bóginn ekki leitast við að sýna fram á að skilyrðum þess að beita megi greininni sé fullnægt. Þannig er í héraðsgreinargerðinni ekki byggt á því að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að stefndi beri fyrir sig ábyrgðina. Ekki er heldur leitast við að sýna fram á að það stafi af einhverjum eða öllum þeim tilvikum sem tilgreind eru í 2. mgr. 36. gr. framangreindra laga og eru grundvöllur ósanngirnismatsins eða þess að samningur sé andstæður góðri viðskiptavenju. Þótt í héraðsgreinargerðinni komi fram að stefndi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 4. og 5. gr. laga nr. 32/2009 og í öðru samhengi að töluverður aðstöðumunur hafi verið á málsaðilum nægir það ekki til að sýna fram á að skilyrðum 36. gr. laganna sé fullnægt. Úr þessum annmarka verður ekki bætt fyrir Hæstarétti svo sem áfrýjandi leitast við að gera, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður því ekki hjá því komist að staðfesta niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um kröfu stefnda.
Rétt þykir að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Sératkvæði
Benedikts Bogasonar
Ég er sammála meirihluta dómenda að lög nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn gildi í lögskiptum aðila, en ósammála niðurstöðu þeirra að öðru leyti af eftirfarandi ástæðum:
Í lögum nr. 32/2009 er ekki mælt fyrir um hvaða réttaráhrif það hefur ef fyrirmælum laganna er ekki fylgt við stofnun ábyrgðar og velta þau því á öðrum réttarreglum, skráðum eða óskráðum. Í þeim efnum koma meðal annars til álita ógildingareglur samningaréttar, en á þær reynir í málinu.
Í greinargerð sinni í héraði reisir áfrýjandi sýknukröfu sína á því að stefndi hafi ekki fullnægt skyldum sínum gagnvart áfrýjanda samkvæmt lögum nr. 32/2009 og bendir því til stuðnings á að stefndi hafi ekki látið meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lánið, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Einnig er vísað til þess að stefnda hafi borið að ráða áfrýjanda frá því að gangast í ábyrgð ef aðstæður gáfu tilefni til, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Þá hafi stefndi átt að upplýsa áfrýjanda skriflega um þá áhættu sem ábyrgðinni væri samfara, sbr. 5. gr. laganna. Í greinargerðinni er því einnig haldið fram að töluverður aðstöðumunur hafi verið með áfrýjanda og stefnda. Loks segir í niðurlagi greinargerðarinnar að þar sem stefndi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt framansögðu leiði það til þess að ábyrgðinni verður vikið til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Um þetta er einnig vísað til dóms Hæstaréttar frá 17. maí 2005 í máli nr. 163/2005 og telur áfrýjandi málsatvik í því máli sambærileg að þessu leyti.
Áfrýjandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð gagnvart stefnda með yfirlýsingu 18. ágúst 2009 til tryggingar á yfirdrætti á reikningi Bisón ehf. hjá stefnda. Var fjárhæð ábyrgðarinnar bundin við 9.000.000 króna auk vaxta og kostnaðar. Í málinu liggur fyrir að umrætt félag var árið 2008, næsta rekstarár áður en áfrýjandi gekkst í ábyrgðina, rekið með tapi sem nam rétt rúmum 11.000.000 króna en tekjur ársins voru liðlega 12.500.000 krónur. Bú félagsins mun síðan hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 21. nóvember 2011. Að þessu gættu má slá því föstu að mat á fjárhag félagsins í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009 hefði leitt í ljós að verulegur vafi lék á hvort félagið gæti staðið í skilum gagnvart stefnda. Þegar það er haft í huga ásamt því að áfrýjandi var að gangast í ábyrgð fyrir umtalsverðri fjárhæð verður að leggja til grundvallar að stefnda hefði borið að ráða áfrýjanda frá því að gangast í ábyrgðina, sbr. 3. mgr. 4. gr. laganna. Þar sem stefndi sinnti að þessu leyti ekki skyldum sínum samkvæmt lögunum verður hann að bera hallann af því að óvíst er hvort áfrýjandi hefði allt að einu gengist í ábyrgðina að fengnum viðhlítandi upplýsingum og ráðgjöf sem stefnda bar með réttu að veita.
Þegar metið er hvort áfrýjandi hafi í héraði nægjanleg teflt fram málsástæðu um hvort ábyrgðinni verði vikið til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 er til þess að líta, sem áður segir, að hann reisir málatilbúnað sinn á því að stefnda hafi borið að meta hæfi lántaka til að standa í skilum. Einnig hafi stefnda verið skylt að upplýsa áfrýjanda skriflega um þá áhættu sem var samfara ábyrgðinni. Í samræmi við þetta hefði stefnda borið að ráða áfrýjanda frá því að gangast í ábyrgðina. Samhliða þessu vísar áfrýjandi til þess að töluverður aðstöðumunur hafi verið með aðilum. Af þessum sökum telur áfrýjandi að víkja hefði átt ábyrgðinni til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936. Í þessu fólst sú málsástæða að skuldbindingin, í ljósi stöðu samningsaðila og atvika við samningsgerðina, hafi verið með því móti að það sé ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju fyrir stefnda að bera ábyrgðina fyrir sig. Þótt ég fallist á það með meirihluta dómenda að efni hefðu verið til að reifa nánar þessa málsástæðu í greinargerð áfrýjanda í héraði tel ég ekki að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaðinum að horfi til réttarspjalla fyrir áfrýjanda.
Að því gættu að stefndi fór ekki eftir reglum 4. og 5. gr. laga nr. 32/2009 þegar áfrýjandi gekkst í verulega ábyrgð gagnvart stefnda og þegar litið er til aðstöðumunar málsaðila tel ég ósanngjarnt hjá stefnda að bera fyrir sig ábyrgðina. Því ber að víkja henni til hliðar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 og sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. febrúar 2012.
Mál þetta höfðaði NBI hf., nú Landsbankinn hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu birtri 22. mars 2011 á hendur Trausta Ágústssyni, kt. [...], Furugrund 42, Reykjavík. Málið var einnig höfðað á hendur Bisón ehf., kt. [...], og Ágústi Friðgeirssyni, kt. [...], en fallið var frá kröfum á hendur þeim. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 24. janúar sl.
Stefnandi krefst þess að stefndi Trausti verði dæmdur til að greiða 9.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. mars 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hans hendi. Til vara krefst hann þess að krafan verði lækkuð.
Bisón ehf., sem upphaflega var stefnt í málinu, var með tékkareikning í útibúi stefnanda að Álfabakka 10. Skuld á reikningnum nam 9.483.727 krónum þann 10. febrúar 2011, en þá var reikningnum lokað. Með yfirlýsingu dags. 18. ágúst 2009 tókst stefndi á hendur sjálfskuldarábyrgð á allt að 9.000.000 króna skuld á þessum reikningi, auk vaxta og kostnaðar. Stefnandi kveðst hafa sent stefnda innheimtubréf 10. febrúar 2011.
Stefnandi byggir á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðslu fjárskuldbindinga. Þá vísar hann til vaxtalaga.
Stefndi telur að lög um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 gildi um ábyrgð sína. Hann hafi hvorki verið hluthafi í félaginu né haft fjárhagslegan ávinning af því að gangast undir ábyrgðina. Hann hafi verið skráður varastjórnarmaður í félaginu þegar hann gekkst undir ábyrgðina. Það dugi ekki til að lög um ábyrgðarmenn eigi ekki við. Raunveruleg völd í félaginu hafi verið í höndum Ágústs Friðgeirssonar, sem einn hafi haft prókúru.
Stefndi vísar til þess að hann sé sonur stjórnarformanns félagsins. Þá sé mikill munur á aðstöðu sinni og stefnanda.
Stefndi byggir á því að stefnanda hafi borið að meta hæfi félagsins til að standa í skilum, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 32/2009. Þá hafi átt að ráða honum frá því að gangast í ábyrgðina, ef aðstæður gæfu tilefni til, sbr. 3. mgr. Loks hafi stefnanda borið að upplýsa hann skriflega um þá áhættu sem væri samfara ábyrgðinni, sbr. 5. gr. laganna. Ekki sé neitt komið fram sem sýni að þessa hafi verið gætt.
Verði ekki fallist á að lögin um ábyrgðarmenn hafi gilt um ábyrgð stefnda, hafi þau þó gilt um ábyrgðina frá 15. desember 2010, þegar afskiptum stefnda af félaginu lauk. Frá þeim tíma hafi hann ekki haft nein tengsl við félagið og því hafi undantekningarákvæði 2. mgr. 2. gr. laganna ekki getað átt lengur við um ábyrgðina. Því hefði átt að gæta ákvæða 3., 4. og 5. gr., eða fella ábyrgðina niður að öðrum kosti. Þessa hafi ekki verið gætt.
Þar sem stefnandi hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn, beri að víkja ábyrgðinni til hliðar, sbr. 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Stefndi vísar einnig til fordæmis í dómi Hæstaréttar í máli nr. 163/2005.
Stefndi telur að þó að hann hafi verið stjórnarmaður og framkvæmdastjóri í félaginu um skeið á árinu 2010, breyti það engu um skyldur stefnanda á þeim tíma er gengist var undir ábyrgðina og þegar afskiptum stefnda af félaginu lauk.
Varakrafa er studd við sömu sjónarmið og aðalkrafa. Verði ekki fallist á að víkja ábyrgðinni alfarið til hliðar, beri að gæta sömu sjónarmiða og lækka stefnukröfu. Vísar stefndi hér til 36. gr. samningalaga.
Stefndi og Ágúst Friðgeirsson gáfu skýrslur við aðalmeðferð málsins.
Ágúst Friðgeirsson sagði að Bisón ehf. hefði verið algerlega í sinni eigu. Stefndi Trausti hefði séð um rekstur verslunarinnar og þegið laun fyrir. Honum hafi ekki verið greitt neitt fyrir að gangast undir umrædda ábyrgð.
Stefndi Trausti sagðist ekki hafa átt neitt í félaginu. Hann hafi verið titlaður rekstrarstjóri, séð um innkaup, vaktaplön o.fl. Hann hafi verið beðinn um það af starfsmanni í Landsbankanum að gangast í umrædda ábyrgð. Hann kvaðst hafa slegið til í því skyni að liðka fyrir rekstrinum. Hann hafi ekki þegið neitt endurgjald fyrir. Þá kvaðst hann ekki hafa vitað nákvæmlega stöðu félagsins gagnvart bankanum þegar hann skrifaði undir. Hann mundi ekki nákvæmlega hversu lengi hann hefði starfað hjá félaginu. Tók hann svo til orða í skýrslu sinni að það hefði verið fram til þess er þeir hefðu selt félagið.
Stefnandi lagði fram í dóminum afrit af viðtali við stefnda er birtist í tímariti. Þar er Trausti sagður eigandi Bisón verslananna í Kringlunni og Smáralind. Segir að hann hafi þá fyrir um ári síðan keypt verslunina í Kringlunni og í framhaldi af því opnað verslun í Smáralind. Spurður um þetta viðtal gat stefndi litlar skýringar gefið. Sagði að blaðamaðurinn hefði skrifað textann, hann gæti ekki borið ábyrgð á honum.
Samkvæmt skráningu í hlutafélagaskrá var stefndi varamaður í stjórn Bisón ehf., a.m.k. frá 18. ágúst 2009, þ.e. sama dag og hann undirritaði umrædda ábyrgðaryfirlýsingu. Faðir hans, Ágúst Friðgeirsson, var einn í stjórn.
Niðurstaða
Stefndi andmælir gildi ábyrgðar sinnar á skuldbindingum Bisón ehf. eingöngu á grundvelli laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Hann staðfestir að hann hafi gengist undir ábyrgðina, en telur að henni beri að víkja til hliðar þar sem stefnandi hafi ekki gætt að reglum laganna.
Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. er með orðinu ábyrgðarmaður átt við einstakling sem gengst í persónulega ábyrgð eða veðsetur eign sína til tryggingar efndum lántaka, enda sé ábyrgðin ekki í þágu atvinnurekstrar ábyrgðarmannsins eða í þágu fjárhagslegs ávinnings hans, eins og segir í lögunum.
Stefnandi hefur leitt að því talsverðar líkur að stefndi hafi í reynd staðið fyrir rekstri Bisón ehf. Þegar stefndi gekkst undir ábyrgðina var hann varamaður í stjórn félagsins. Þá kynnti hann sig í tímariti sem eiganda fyrirtækisins. Getur hann ekki skorast undan því að þar sé rétt haft eftir honum, en textinn allur ber með sér að þar sé rætt við aðila sem öllu ræður í rekstri fyrirtækisins. Þá notaði hann orðalagið „í tvö ár áður en við seljum“ í aðilaskýrslu sinni, er hann svaraði spurningu um hvenær hann hefði starfað hjá fyrirtækinu.
Að þessu virtu hafa verið leiddar svo miklar líkur að því að stefndi hafi í raun verið stjórnandi fyrirtækisins Bisón ehf., að ekki er unnt að beita hér þeim ákvæðum laga um ábyrgðarmenn sem hann vísar til, sbr. 2. mgr. 2. gr. Varð þeim ekki beitt þegar hann gekkst undir ábyrgðina.
Samkvæmt gögnum settust nýir aðilar í stjórn félagsins 15. desember 2010, en stefndi og faðir hans hættu. Ábyrgðarsamningur aðila var þá í gildi og stefndi sagði honum ekki upp eða tilkynnti stefnanda um nýja hluthafa í félaginu. Þá heldur hann því ekki fram að skuldin hafi hækkað eftir að breytingar þessar urðu. Féll ábyrgðin ekki niður þótt ný stjórn tæki við í félaginu.
Verður ekki fallist á með stefnda að víkja beri ábyrgðarsamningnum til hliðar samkvæmt 36. gr. samningalaga. Er hvorki heimilt að fella samninginn alfarið úr gildi, né lækka kröfuna á stefnda. Verður því fallist á stefnukröfur málsins. Málskostnaður ákveðst 400.000 krónur, er tekið hefur verið tillit til virðisaukaskatts.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Trausti Ágústsson, greiði stefnanda, Landsbankanum hf., 9.000.000 króna, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 18. mars 2011 til greiðsludags og 400.000 krónur í málskostnað.