Hæstiréttur íslands

Mál nr. 185/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísun frá Hæstarétti


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. apríl 2002.

Nr. 185/2002.

Höfin sjö hf.

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

gegn

Fasteignafélaginu Rán ehf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

 

Kærumál. Útburðargerð. Lögvarðir hagsmunir. Frávísun máls frá Hæstarétti.

H hf. kærði til Hæstaréttar úrskurð héraðsdóms þar sem F ehf. var  heimilað að fá H hf. borið með beinni aðfarargerð út úr nánar tiltekinni fasteign. Málinu var vísað frá Hæstarétti á þeim grundvelli að H hf. hefði ekki réttarhagsmuni af því að hinn kærði úrskurður kæmi til endurskoðunar þar sem útburðargerðin hefði þegar farið fram.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 27. mars 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að honum yrði heimilað að fá sóknaraðila borinn með beinni aðfarargerð út úr fasteign, sem auðkennd er sem eignarhluti II í fiskverkunarhúsi á nyrðri lóð við Patrekshöfn á Patreksfirði. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um framangreinda aðfarargerð, svo og að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt endurrit úr gerðabók sýslumannsins á Patreksfirði, þar sem fram kemur að útburðargerð hafi farið fram í samræmi við hinn kærða úrskurð 19. apríl 2002. Samkvæmt þessu hefur sóknaraðili ekki lengur réttarhagsmuni af því að hinn kærði úrskurður komi til endurskoðunar. Verður málinu því sjálfkrafa vísað frá Hæstarétti.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 27. mars 2002.

Mál þetta barst dómnum hinn 8. febrúar sl.  Það var tekið til úrskurðar 19. mars sl.  Upphaflegur gerðarbeiðandi var Guðfinnur Pálsson, Aðalstræti 118 a, Patreksfirði, en Fasteignafélagið Rán ehf., Aðalstræti 52, sama stað, tók við aðild hans samkvæmt ódagsettri yfirlýsingu, sem var lögð fram í þinghaldi 8. mars sl.

Gerðarbeiðandi krefst þess að fá umráð fasteignarinnar Fiskverkunarhús við Patrekshöfn, nyrðri lóð, eignarhluti II, Patreksfirði, Vesturbyggð og að gerðarþoli, Höfin sjö hf., Laugavegi 97, Reykjavík, verði ásamt öllu sem félaginu tilheyrir, borinn út úr vinnslusölum sömu fasteignar, hvort tveggja með beinni aðfarargerð.  Þá er krafist málskostnaðar og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Gerðarþoli krefst þess að kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað og máls­kostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda.

I.

Samkvæmt lýsingu umboðsmanna aðila á málavöxtum og efni framlagðra skjala var ofangreindur fasteignarhluti seldur nauðungarsölu á uppboði, sem lauk hinn 27. nóvember 2001.  Gerðarþoli, sem kveðst hafa leigt eignarhlutann, var hæstbjóðandi á uppboðinu.  Hinn 19. desember 2001 framseldi stjórnarformaður hans réttindi og skyldur samkvæmt boðinu til Guðfinns Pálssonar, sem hefur nú framselt þau gerðarbeiðanda.

Hinn 21. desember 2001 ritaði lögmaður gerðarþola nefndum Guðfinni bréf og sendi sýslumanninum á Patreksfirði afrit, þar sem hann kvað framsalið ógilt, þar sem einungis einn stjórnarmaður hefði staðið að því en tvo stjórnarmenn þyrfti til að skuldbinda félagið.  Sýslumaður mun hafa samþykkt boðið hinn 20. desember sl., eins og það hafði verið framselt.  Sýslumaður tók ekki við greiðslum sem gerðarþoli sendi honum í kjölfarið, en tók við greiðslum frá Guðfinni Pálssyni og síðar gerðarbeiðanda.  Gaf hann út afsal til gerðarbeiðanda hinn 28. febrúar sl. 

Málskoti gerðarþola til héraðsdóms vegna nauðungarsölunnar var vísað frá dómi með úrskurði 30. janúar sl.  Milli gerðarþola annars vegar og gerðarbeiðanda og Guðfinns Pálssonar hinsvegar er nú rekið einkamál hér fyrir dómi, þar sem gerðarþoli krefst þess m.a. að gerðarbeiðandi verði dæmdur til að afsala sér eign­inni gegn nánar tiltekinni greiðslu. 

Í tengslum við ofangreint framsal boðs gerðu Guðfinnur Pálsson og stjórnarformaður gerðarþola skriflegt samkomulag.  Samkvæmt því átti gerðarþoli að veita Guðfinni umráð eignarinnar þegar í stað, þó þannig að vinnslusalir yrðu rýmdir fyrir 15. janúar sl. en skrifstofuaðstaða fyrir 15. febrúar sl. 

II.

Gerðarbeiðandi kveður gerðarþola ekki hafa rýmt eignina í samræmi við samkomulagið.  Hann hafi látið brjótast inn í húsnæðið og skipta um skrár eftir að sýslumaður hafi veitt gerðarbeiðanda umráð eignarinnar.  Hafi verið skorað á gerðarþola að rýma eignina með ábyrgðarbréfi dagsettu 20. janúar 2002.  Hafi hann staðið í vegi fyrir réttmætum umráðum gerðarbeiðanda yfir eigninni og sé honum því nauðsynlegt að fá þau viðurkennd og gerðarþola borinn út.   Vísar hann til 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991 og þess að samkvæmt samkomulagi aðila hafi gerðarþoli átt að veita Guðfinni Pálssyni umráð eignarinnar.

Gerðarþoli kveður sig óbundinn af loforði stjórnarformanns síns um að rýma eignina, þar sem ofangreint samkomulag hafi verið undirritað af honum einum, en tveir stjórnarmenn hefðu þurft til að koma, til að þessi ráðstöfun yrði bindandi fyrir gerðarþola.

 Enn fremur kveðst gerðarþoli byggja á því að sex mánaða upp­sagnar­frestur, sem kveðið er á um í 3. tl. 56. gr. laga nr. 36/1994, sé ekki liðinn.  Breyti nauð­ungarsalan engu um að segja verði leigusamningnum upp með þeim fresti.  Telur gerðarþoli að þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 leiði það af 5. mgr. 42. gr. laga nr. 36/1994 að réttindi samkvæmt leigusamningi, sem ekki eru háð þinglýsingu, haldist áfram, þrátt fyrir nauðungarsöluna.

III.

Í bréfi, sem Guðfinnur Pálsson ritaði stjórnarformanni gerðarþola hinn 20. janúar sl. kveðst hann hafa fengið húsnæðið afhent af sýslumanninum á Patreksfirði, en skorar á gerðarþola að rýma það.  Segir þar jafnframt að innbrot í húsnæðið hafi verið kært til lögreglu.  Ekki liggur fyrir með hvaða hætti sýslu­maður hafi tekið umráð þessa húsnæðis og fengið þau bréfritara.  Í bréfi, sem lögmaður gerðarþola ritaði sýslumanninum á Patreksfirði 7. mars sl., segir hins vegar að gerðarþoli hafi látið skipta um læsingu og að tilkynning hafi verið fest á hurð fyrir dyrum hússins, þar sem fram kemur að gerðarþoli hafi umráð hússins.  Samkvæmt þessu liggur fyrir að gerðarþoli meinar gerðarbeiðanda að njóta þeirra réttinda sem hann gerir kröfu um að sér verði fengin með aðfarargerð.

Eins og rakið er í I. kafla þessara forsendna samþykkti sýslumaðurinn á Patreksfirði boð í eignina með Guðfinn Pálsson sem rétthafa að því, að undan­gengnu áðurgreindu framsali boðsins til hans.  Öðlaðist Guðfinnur þá umráðarétt yfir eigninni, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga nr. 90/1991.  Gerðarbeiðandi er nú eigandi eignarinnar samkvæmt afsali frá sýslumanni.  Er réttur hans til hennar skýr og ótvíræður samkvæmt afsalinu.  Skiptir ekki máli þótt dómsmál sé rekið milli aðila, sbr. 79. gr. laga nr. 90/1989. 

Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 falla niður öll veðbönd, umráðaréttindi, kvaðir, höft og önnur réttindi yfir eign við útgáfu afsals að undangenginni nauðungarsölu sem var krafist eftir heimild í 6. eða 7. gr. laganna, nema annað leiði beinlínis af lögum, eða eignin hafi verið seld með þeim skilmálum að þau standi óhögguð eða kaupandinn hafi síðar tekið þau að sér.  Í fyrrnefndu afsali er tekið fram að öll veðbönd og önnur umráðaréttindi yfir hinni afsöluðu eign falli niður samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991.  Samkvæmt þessu féllu umráðaréttindi gerðarþola samkvæmt leigusamningi, sem hann kveðst hafa haft um eignina, en hefur raunar ekki lagt fram, niður við nauðungar­söluna.  Leiðir hvorki af 5. mgr. né öðrum ákvæðum 42. gr. laga nr. 36/1994, eða öðrum ákvæðum laga, að leigusamningurinn standi áfram þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 og segja þurfi honum upp með sex mánaða fyrirvara.    Þegar af þessari ástæðu og að teknu tilliti til þess að gerðarþoli hefur fengið nægilegt ráðrúm til að rýma eignina að undangenginni áskorun frá gerðarbeiðanda, verða kröfur gerðarbeiðanda teknar til greina.

Af ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989 leiðir að óþarft er að hafa uppi kröfu um að heimilað verði fjárnám fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Málskostnaður ákveðst 50.000 kr.

Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.

ÚRSKURÐARORÐ:

Að kröfu gerðarbeiðanda, Fasteignafélagsins Ránar ehf., er heimilt að bera gerðarþola, Höfin sjö hf., út úr eignarhluta II í fiskverkunarhúsi á nyrðri lóð við Patreks­höfn, Patreksfirði, með beinni aðfarargerð og fá gerðarbeiðanda umráð hans.

Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda 50.000 kr. í málskostnað.