Hæstiréttur íslands
Mál nr. 713/2013
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Lausafjárkaup
- Stefna
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 15. maí 2014. |
|
Nr. 713/2013.
|
Kinnarstaðir ehf. (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn Hýsi-Merkúr ehf. (Ólafur Garðarsson hrl.) og gagnsök |
Skaðabótamál. Lausafjárkaup. Stefna. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.
K ehf. höfðaði mál gegn H ehf. og krafðist meðal annars skaðabóta vegna ætlaðra ágalla á stálgrindahúsi sem K ehf. hafði keypt af H ehf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að K ehf. hefði hvorki gert grein fyrir fjárkröfu sinni um skaðabætur í stefnu né lagt fram nokkur gögn henni til stuðnings svo sem áskilið væri í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hefði K ehf. þingfest málið án þess að fullnægt væri ákvæði 1. mgr. 95. gr. laga nr. 91/1991. Úr þessu hefði K. leitast við að bæta með matsgerðum sem aflað hefði verið síðar. Á hinn bóginn gerðu lög nr. 91/1991 ekki ráð fyrir að stefnandi fengi frest til að bæta úr slíkum annmörkum á málatilbúnaði í stefnu. Var málinu því vísað frá héraðsdómi án kröfu.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. nóvember 2013. Hann krefst þess að gagnáfrýjandi greiði sér 10.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 19. janúar 2013 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 5. febrúar 2014. Hann krefst sýknu af kröfu aðaláfrýjanda, en til vara að hún verði lækkuð. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í öllum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 29. nóvember 2011 og var það þingfest 1. desember sama ár. Í stefnu var aðallega krafist riftunar á samningi aðila 13. desember 2010 um kaup aðaláfrýjanda á efni í nánar tilgreint stálgrindahús og jafnframt að gagnáfrýjandi yrði dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 29.820.000 krónur með dráttarvöxtum frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara krafðist aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjandi greiddi sér skaðabætur að fjárhæð 10.000.000 krónur með dráttarvöxtum frá 27. október 2011 til greiðsludags, en að því frágengnu gerði hann kröfu um afslátt. Við fyrirtöku málsins 9. febrúar 2012 var bókað að umboðsmenn aðila fengju frest til gagnaöflunar um óákveðinn tíma „um framkomna frávísunarkröfu.“ Í þinghaldi 20. mars sama ár var málinu frestað til flutnings um frávísunarkröfuna til 25. maí 2012. Málið var munnlega flutt þann dag um þá kröfu og úrskurður kveðinn upp 3. júlí sama ár þar sem henni var hafnað. Á dómþingi 19. september 2012 lagði aðaláfrýjandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns til að meta tiltekin atriði og var nafngreindur maður dómkvaddur til starfans í sama þinghaldi. Í þinghaldi 10. janúar 2013 lagði aðaláfrýjandi síðan fram tvær matsgerðir. Við aðalmeðferð málsins 19. september sama ár féll aðaláfrýjandi frá riftunarkröfu sinni og kröfu um endurgreiðslu.
Í stefnu var því haldið fram að „hið selda“ væri haldið göllum þar sem „húsið“ væri alls ekki með því útliti sem um hafi verið samið og þyrfti að leggja í mikinn kostnað við frágang á því þar sem klæðning þess væri of stutt. Auk þess væri galli á klæðningunni sjálfri og festingu hennar og samskeytum, þar sem hún hreyfðist til í vindi og skapaði mikla hljóðmengun. Þar sem um svo marga, ólíka og „erfiða ágalla varðandi úrbætur er að ræða“ væri ljóst að „húsið“ stæði engan veginn undir þeim kröfum sem almennt mætti gera og teldist því gallað í skilningi laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Bæri gagnáfrýjanda að bæta aðaláfrýjanda allan kostnað og tjón sem hann hefði orðið fyrir, bæði vegna kaupanna af gagnáfrýjanda og byggingar hússins, og gera aðaláfrýjanda þannig eins settan og kaupsamningurinn hefði aldrei verið gerður. Varakrafa aðaláfrýjanda um afslátt byggðist á því að hið selda væri haldið verulegum göllum og því ekki nærri því eins verðmætt og það hefði verið ef gallarnir hefðu ekki verið fyrir hendi. Gagnáfrýjanda bæri því að veita aðaláfrýjanda afslátt af kaupverði sem næmi mismuninum á verðmæti gallaðrar vöru og ógallaðrar.
Aðaláfrýjandi gerði enga grein fyrir fjárkröfu sinni um skaðabætur í stefnu og lagði heldur engin gögn fram henni til stuðnings, svo sem áskilið er í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þingfesti hann málið á grundvelli stefnunnar án þess að fullnægt væri ákvæði 1. mgr. 95. gr. laganna um framlagningu gagna sem varða málatilbúnað stefnanda við þingfestingu. Úr þessu leitaðist hann við að bæta með matsgerðum, sem hann aflaði síðar. Lög nr. 91/1991 gera ekki ráð fyrir að stefnandi fái fresti til að bæta úr slíkum annmörkum á málatilbúnaði í stefnu og skiptir í því efni ekki máli þótt stefndi andmæli ekki frestum í þeim tilgangi, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 18. mars 2010 í máli nr. 413/2009.
Vegna framangreindra annmarka á málatilbúnaði aðaláfrýjanda í héraði verður að vísa málinu frá héraðsdómi án kröfu.
Eftir 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður aðaláfrýjandi dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Aðaláfrýjandi, Kinnarstaðir ehf., greiði gagnáfrýjanda, Hýsi-Merkúr ehf., samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. september sl., var höfðað 29. nóvember 2011 af hálfu Kinnarstaða ehf., Kinnarstöðum í Reykhólahreppi á hendur Hýsi-Merkúr ehf., Völuteigi 7 í Mosfellsbæ, til staðfestingar á riftun og greiðslu skaðabóta.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega krafa um greiðslu skaðabóta úr hendi stefnda að fjárhæð 10.000.000 króna auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá 27. október 2011 til greiðsludags. Til vara gerir stefnandi kröfu um afslátt úr hendi stefnda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi sem var lagður fram við aðalmeðferð málsins.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er þess jafnframt krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu samkvæmt málskostnaðaryfirliti eða að mati dómsins.
Stefndi gerði í greinargerð aðallega þá kröfu að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Með úrskurði héraðsdóms 3. júlí 2012 var kröfu stefnda um frávísun málsins hafnað. Ákvörðun málskostnaðar í þeim þætti málsins var látin bíða efnisdóms.
Í stefnu gerði stefnandi aðallega kröfu um staðfestingu riftunar á kaupsamningi stefnanda við stefnda, dags. 13. desember 2010, um kaup stefnanda á efni í Z-strucktur Stálgrindarhús frá Joris Ide. Samhliða riftunarkröfu krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi honum 29.820.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá þingfestingardegi til greiðsludags. Stefnandi féll frá þessum dómkröfum fyrir aðalmeðferð málsins.
Yfirlit málavaxta og ágreiningsefna
Stefnandi festi kaup á efni í stálgrindahús af stefnda með kaupsamningi, dags. 13. desember 2010. Húsið sem reisa átti á jörðinni Kinnarstöðum í Reykhólasveit var Z-strucktur stálgrindarhús frá Joris Ide, og skyldi stálgrindin í húsið vera 12 m að breidd, 25 m að lengd lengd, vegghæð 3,5 m og þakhalli á húsinu 15°. Útveggir og þak skyldu klædd með yleiningum, veggir hvítir en þak rautt og litur á áfellum samkomulag, sem aðilar gerðu með sér í tölvupóstsamskiptum. Byggingarnefndar- og verkfræðiteikningar voru innifaldar. Kaupverð samkvæmt kaupsamningnum var 7.881.000 krónur auk virðisaukaskatts. Með viðaukum við samninginn voru gerðar breytingar á pöntun, m.a. um þykkt á yleiningum og fjölda þakglugga. Var uppfært kaupverð samkvæmt sölureikningi 12. apríl 2011 8.888.048 krónur auk virðisaukaskatts. Starfsmaður stefnda sendi fyrirsvarsmanni stefnanda 24. janúar 2011 til staðfestingar þær teikningar af húsinu sem sendar voru framleiðanda við pöntun. Teikningarnar gerði hönnuður Cedrus ehf. fyrir stefnda 17. janúar 2011 og staðfesti fyrirsvarsmaður stefnanda að þessi teikning væri í samræmi við það sem um hefði verið talað. Teikningarnar sýna helstu mál byggingarinnar og útlit, m.a. klæðingu utan á húsinu sem nær niður að jörð og liggur neðsti hluti hennar utan á sökkli hússins, sem stendur hálfan metra upp úr jörð. Sama sýna teikningar sama hönnuðar 10. febrúar 2011 sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 11. apríl 2011.
Efnið í húsið mun hafa komið hingað til lands í aprílmánuði 2011. Hafist var handa við að grafa fyrir húsinu, en annar fyrirsvarsmaður stefnanda sá um þá jarðvegsvinnu. Í ljós kom að klöpp var undir og gera þurfti breytingar á steyptum sökklum vegna þess. Hönnuður hússins gerði breytingar á teikningum sínum 17. maí 2011. Á þeim teikningum er gert ráð fyrir að sérstök einangrun komi utan á steyptan sökkul neðan við klæðingu sem nái rétt niður á sökkulinn, en neðri brún klæðningarinnar sé hálfan metra frá jörðu. Þessar teikningar voru áritaðar af byggingarfulltrúa um að ekki væri samræmi á aðaluppdráttum og verkfræðiteikningum á frágangi eininga á sökklum. Húsið var reist sumarið 2011 af verktaka sem stefnandi hafði samið við. Þegar það var komið upp sáu fyrirsvarsmenn stefnanda að útlit þess var ekki í samræmi við það sem um var samið þar sem klæðingin á útveggjum hússins náði aðeins niður hluta af útveggjunum og endaði um hálfan metra frá jörð. Þá var litur á þakkanti ekki samlitur þaki eins og óskað hafði verið eftir í tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnanda til starfsmanns stefnda 19. janúar 2011.
Með tölvupósti fyrirsvarsmanns stefnanda til starfsmanns stefnda 4. september 2011 var athygli vakin á þessum atriðum og því að einangra þyrfti beran sökkulvegginn. Með tölvupósti lögmanns stefnanda til stefnda 5. október s.á. var þess krafist að bætt yrði úr ágöllunum, helst með því að húsið yrði klætt að nýju þannig að náð yrði að fullu því útliti hússins sem um hefði verið samið, en að öðrum kosti með því að stefndi lagaði sökkulinn á viðunandi hátt, greiddi allan kostnað við að reisa skemmuna og legði til mótora á hurðir með öllum fylgihlutum ásamt uppsetningu svo og ljós í skemmuna, hillur og hitapumpu. Með tilkynningu lögmannsins um galla á grundvelli 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, sem birt var fyrirsvarsmanni stefnda 4. nóvember s.á. var vísað til fyrrgreindra atriða en jafnframt tilkynnt að klæðning hússins virtist laus við og ylli miklum hávaða þegar vindur kæmi á húsið. Krafist var úrbóta með vísun til 34. gr. laga um lausafjárkaup. Í svarbréfi lögmanns stefnda 8. nóvember s.á. kom fram að stefndi hefði þegar fallist á að skipta um þakkant á eigin kostnað vegna litaósamræmis. Þá hafi stefndi þegar tilkynnt framleiðanda að það hvíni í húsinu í vindasömum veðrum og muni hann lagfæra það, komi í ljós að um ágalla sé að ræða. Með sama bréfi lögmanns stefnda var því hafnað að um verulega galla væri að ræða og tekið fram að klæðning hússins væri af þeirri stærð sem um hefði verið samið. Ástæða þess að klæðningin næði ekki niður að jörð væri sú að steypa hefði þurft 500 mm sökkulvegg vegna óska stefnanda um hærri hurðir á hlið hússins. Um þetta atriði snýst ágreiningur málsaðila fyrst og fremst. Engar úrbætur hafa verið gerðar og lokaúttekt byggingarfulltrúa á húsinu hefur ekki farið fram.
Yfirlýsing stefnanda um riftun kaupanna var birt 21. nóvember 2011 fyrirsvarsmanni stefnda, sem hafnaði riftun með bréfi lögmanns stefnda 22. nóvember s.á. Við meðferð málsins hefur stefnandi fallið frá kröfu um riftun kaupanna, en krefst skaðabóta og afsláttar vegna galla. Að beiðni stefnanda var matsmaður dómkvaddur í máli þessu 5. september 2012. Sami matsmaður var 19. júlí s.á dómkvaddur í sérstöku matsmáli sem stefnandi stofnaði til, en þar var verktakafyrirtækið sem reisti umrætt stálgrindarhús til varnar með stefnda í þessu máli. Báðar matsgerðirnar, sem eru meðal gagna málsins, eru dagsettar 19. desember 2012 og varða ástand hússins og meinta ágalla. Með sáttaboði 5. september 2012, daginn sem matsmaður var dómkvaddur í máli þessu, sem ítrekað var 11. febrúar 2013, eftir að matsgerðir lágu fyrir, bauð stefndi án viðurkenningar á bótaskyldu, að hann myndi á eigin kostnað klæða sökkulvegg með sams konar klæðningu og er á veggjum hússins, koma á eigin kostnað í veg fyrir að hljóð heyrist í vindasömum veðrum og skipta um gafl-áfellur.
Við aðalmeðferð málsins kom dómkvaddur matsmaður fyrir dóminn og staðfesti matsgerð sína. Fyrir dóminn komu tveir fyrirsvarsmenn stefnanda og fyrirsvarsmaður stefnda gaf skýrslu í síma. Fyrir dóminum gáfu skýrslur byggingarfulltrúi, hönnuður hússins, þeir verktakar sem steyptu sökkul og reistu húsið, nágranni stefnanda sem keypt hafði hús af stefnda og starfsmaður stefnda.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á því að stálgrindarhús það sem hann keypti af stefnda sé haldið svo verulegum göllum að það gefi honum rétt til að rifta kaupsamningi við stefnda. Fyrir liggi upplýsingar um að hið selda sé haldið verulegum ágöllum þannig að húsið sé alls ekki með því útliti sem um hafi verið samið og þurfi að leggja í mikinn kostnað við frágang á því þar sem klæðning hússins sé of stutt. Auk þessa sé galli í klæðingunni sjálfri og festingu hennar og samskeytum, þar sem hún hreyfist til í vindi og skapi mikla hljóðmengun, en það muni að öllum líkindum valda skemmdum á henni með tímanum. Þar sem um svo marga, ólíka og erfiða ágalla sé að ræða sé ljóst að húsið standi engan veginn undir þeim kröfum sem almennt megi gera og teljist það því gallað í skilningi laga um lausafjárkaup.
Þá hafi, með upplýsingum á heimasíðu stefnda, tölvupóstsamskiptum og viðræðum milli aðila, verið lofað ákveðnu útliti og sérstökum gæðum, bæði varðandi gerð og frágang hins selda, sem hafi ekki staðist. Hið keypta teljist þess vegna gallað auk þess sem það uppfylli ekki almenn viðmið. Það uppfylli ekki þau sérstöku loforð um gæði sem gefin hafi verið fyrir kaupin.
Krafa stefnanda um greiðslu bóta úr hendi stefnda og um afslátt byggist á því að hið selda sé haldið verulegum göllum og því ekki nærri því eins verðmætt og það hefði verið ef gallarnir hefðu ekki verið til staðar. Stefnda beri því að veita stefnanda afslátt af kaupverði sem nemi mismuninum á verðmæti gallaðrar vöru og ógallaðrar.
Kröfur sínar byggi stefnandi á ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Krafa um dráttarvexti byggist á 5. og 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur. Kröfu um málflutningsþóknun styðji stefnandi við reglur XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um varnarþing sé vísað til 33. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda og lagarök
Stefndi kveður málatilbúnað stefnanda byggja á því að stefndi hafi lofað einhverjum sérstökum gæðum og ákveðnu útliti sem ekki hafi staðist. Slíkt sé bæði rangt og ósannað. Hið rétta í málinu sé að aðilar hafi samið um kaupin og liggi fyrir kaupsamningur þess efnis. Stefndi hafi staðið við allt sitt, en hafi frá fyrstu tíð samþykkt, á sinn eigin kostnað, að skipta um gafl-flasningar og gera nauðsynlegar ráðstafanir svo að ekki heyrist hávaði þegar verulega vindasamt sé.
Stefnandi hafi ekki sýnt fram á tjón og engar málsástæður sé að finna fyrir skaðabótakröfu stefnanda. Ekki sé gerð grein fyrir orsakatengslum eða sennilegri afleiðingu á meintu tjóni stefnanda. Fjárhæðin sé líkt og aðrar í stefnunni úr lausu lofti gripin. Krafist sé dráttarvaxta frá 27. október 2011 sem sé illskiljanlegt, en krafa stefnanda um greiðslu hafi fyrst komið fram með stefnu.
Sú vara sem stefnandi hafi keypt af stefnda sé ekki haldin verulegum göllum. Hins vegar sé húsið haldið ágöllum, sem stefndi hafi margoft samþykkt að lagfæra. Um sé að ræða að skipta þurfi um flasningar vegna litamunar. Þetta hafi legið fyrir lengi en nú hafi efnið borist til landsins og sé það einungis háð veðri og samþykki stefnanda að skipta um flasningar. Aðrir ágallar séu þeir að svo virðist sem hvíni í húsinu þegar það taki á sig mikinn vind. Úr þessum ágalla hafi stefndi einnig samþykkt að bæta og sem fyrr sé beðið eftir viðbrögðum stefnanda svo hægt sé að fá aðgang að skemmunni.
Það sé með öllu ósannað að húsið sé ekki með því útliti sem um hafi verið samið. Þvert á móti sé það alveg eins og um hafi verið samið, þar sem alla tíð hafi legið fyrir hver hæð eininganna væri, þ.e. 3,5 metrar. Þar sem stefnandi sjálfur hafi viljað steypa 500 mm sökkul undir húsnæðið hefði hann þurft að óska eftir frekari magni eininga. Það sé í besta falli óeðlilegt að stefndi sem seljandi eigi að bera kostnað af því að stefnandi hafi byggt frekari undirstöður undir hús sitt án þess að panta aukið efni til að klæða sökkulinn.
Þá sé því alfarið mótmælt sem röngu að söluhluturinn standi ekki undir þeim kröfum sem almennt megi gera. Hið rétta sé að hið selda sé nákvæmlega eins og um hafi verið samið. Magnið sé raunar meira en umsamið magn, þ.e. 290,9 m2 af efni en ekki 277,0 fm2, en gæði vörunnar séu óumdeild. Hún henti vel í þeim tilgangi sem hún hafi verið ætluð til og sé þeim málatilbúnaði að varan uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu til hennar eða þess sem auglýst hafi verið fyrir kaupsamning algjörlega hafnað sem röngum.
Í málinu liggi ekkert fyrir um að leggja þurfi í mikinn kostnað í kjölfar kaupa stefnanda eða að klæðningin muni valda tjóni með tímanum. Bygging sökkulsins hafi alfarið verið á vegum stefnanda og á hans ábyrgð. Krafa stefnanda byggi á því að bygging sökkulsins hafi valdið honum tjóni. Slíkt sé ósannað. Þá geti stefnandi ekki undir nokkrum kringumstæðum gert kröfu á hendur stefnda um að stefndi bæti honum ætlað tjón við byggingu sökkuls sem hann sjálfur hafi ráðist í byggingu á. Að sama skapi sé reising hússins ekki á nokkurn hátt á ábyrgð stefnda og geti hann ekki borið ábyrgð á einhverju meintu tjóni við það. Ítrekað sé að ekkert tjón hafi verið sannað.
Samhengisins vegna þyki stefnda einnig rétt að fjalla um þær teikningar sem stefnandi fjalli um í málsatvikakafla í stefnu sem unnar hafi verið af Cedrus ehf. Á þessar teikningar sé ekki minnst í málsástæðukafla stefnunnar og geti þær því ekki komið til skoðunar undir rekstri málsins og á þeim geti stefnandi ekki byggt rétt. Engu að síður sé á það bent að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi haft samband við Cedrus ehf., og farið fram á breyttar sökkulteikningar í maí 2011. Í teikningum frá Cedrus ehf. sé sýnt að einangra þurfi utan á sökkul og upp að einingum. Teikningar þessar séu frá 17. maí 2011. Stefnandi hafi því vel vitað hvernig í pottinn var búið. Teikningarnar hafi sýnt hversu langt klæðningin hafi náð. Tölvupóstar til stefnanda í upphafi hafi sýnt að stefnandi þyrfti að gera sökkul ef hann vildi hærri hurð og í öllu kaupsamningsferlinu sé fjallað um að hæð eininganna sé 3,5 metrar. Til viðbótar þessu byggi stefndu á rannsóknarskyldu kaupanda á söluhlut, sbr. 31. gr. lausafjárkaupalaga.
Skaðabótakrafa stefnanda sé verulega vanreifuð. Í dómkröfukafla stefnu sé hún sögð byggja á grundvelli tjóns, þ.e. krafist sé skaðabóta. Ekkert sé hins vegar fjallað um hið meinta tjón í málsástæðukaflanum, fjárhæðin sé órökstudd með öllu. Ekki sé gerð grein fyrir því hvernig stefndi beri ábyrgð á hinu meinta tjóni og óljóst hvort krafist sé skaðabóta innan eða utan samninga. Að auki sé vaxtakrafa ódómtæk.
Krafa stefnanda um afslátt sé að sama skapi verulega vanreifuð. Því sé slegið föstu að um verulega galla sé að ræða og vermætarýrnun. Þessar fullyrðingar séu ekki studdar gögnum eða útskýrðar frekar. Af öllu framansögðu sé því ekki hægt að fallast á kröfur stefnanda í máli þessu og beri því að sýkna.
Um lagarök vísist til laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, almennra reglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála o.fl. Krafa varnaraðila um málskostnað byggi á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Krafa stefnanda um skaðabætur og varakrafa um afslátt eru byggðar á því að hið selda sé haldið verulegum göllum og sé því ekki nærri því eins verðmætt og það hefði verið ef gallarnir hefðu ekki verið til staðar. Kröfur sínar byggir stefnandi á ákvæðum laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, en kaupin sem málið er höfðað út af falla undir gildissvið laganna.
Söluhlutur telst gallaður samkvæmt 4. mgr. 17. gr. laganna ef hann er ekki í samræmi við þær kröfur sem fram koma í 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Í 1. mgr. segir að söluhlutur skuli, hvað varðar tegund, magn, gæði, aðra eiginleika og innpökkun, fullnægja þeim kröfum sem leiðir af samningi og í 2. mgr. segir að ef ekki leiði annað af samningi skuli söluhlutur m.a. henta í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til og hafa þá eiginleika til að bera sem seljandi hefur vísað til með því að leggja fram prufu eða líkan. Reglur um galla gilda samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laganna einnig þegar söluhlutur svarar ekki til þeirra upplýsinga sem seljandi hefur við markaðssetningu eða á annan hátt gefið um hlutinn, eiginleika hans eða notkun og ætla má að hafi haft áhrif á kaupin.
Í málinu þykir leitt í ljós samkvæmt gögnum þess, meðal annars matsgerðum sem ekki hefur verið hnekkt, svo og með framburði aðila og vitna fyrir dóminum, að hið selda er ekki í samræmi við það sem samið var um í kaupsamningi aðila 13. desember 2010 og viðaukum við hann og þá teikningu af húsinu sem starfsmaður stefnda sendi til framleiðanda samkvæmt tölvupósti sem hann sendi til stefnanda 24. janúar 2011. Með tölvupósti til stefnda sama dag staðfesti stefnandi að þessi teikning væri eins og þeir hefðu talað um. Felst ósamræmið fyrst og fremst í því að klæðningin utan á húsinu nær ekki niður að jörð eða gólfplötu eins og samþykkt teikning af húsinu gerði ráð fyrir að hún gerði. Þá er ágreiningslaust að litur á áfellum við þak, flasningar, er ekki í samræmi við tölvupóstsamskipti aðila fyrir kaupin um lit á áfellum, sem samkvæmt kaupsamningnum skyldi vera samkvæmt samkomulagi.
Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að breytt útlit hússins, það að klæðningin nái ekki niður á jörð, stafi af því að stefnandi hafi óskað eftir því að hurðir hússins yrðu hærri en á upphaflegum teikningum og því hafi orðið að hækka sökkul hússins og gera breytingar á teikningum í maí 2011 til samræmis. Stefndi telur að stefnandi hafi sjálfur átt að panta meira efni til samræmis við þessar óskir sínar. Upplýst er í málinu að í aðdraganda kaupanna, með tölvupósti til stefnda 15. nóvember 2010, voru settar fram óskir af hálfu stefnanda um hæð hurða. Í tölvupósti af hálfu stefnda 1. desember s.á. voru veittar upplýsingar um verð og kom þar meðal annars fram að til að koma svona háum hurðum í húsið þyrfti að steypa 500 mm sökkulvegg. Þessar forsendur lágu því fyrir þegar kaupin gerðust. Í gögnum málsins og við meðferð þess hefur komið fram að við undirskrift kaupsamnings 13. desember 2010 hafi ekki legið fyrir neinar teikningar, en teikningar voru innifaldar í kaupunum. Fyrstu teikningar sem sannanlega fara milli aðila eru dagsettar 17. janúar 2011 og sýna þær væntanlega sameiginlegan skilning aðila á innihaldi kaupsamnings. Þar eru sýndir steyptir veggir upp í hálfs metra hæð yfir gólfplötu og stálgrind þar ofan á, veggklæðning utan á stálgrind og steypta veggi er sýnd alveg niður undir plötuhæð gólfplötu. Síðari breytingar á teikningum í maí 2011, eftir að einingar eru komnar til landsins, eru tilkomnar vegna breytinga á dýpt undirstaðna og höfðu ekki áhrif á steypta veggi sem standa upp fyrir gólfplötu né heildarvegghæð skemmunnar og áttu því ekki heldur að hafa áhrif á stærð (sídd) veggklæðninga. Ekki verður fallist á þá málsástæðu stefnda að það hafi verið ákvörðun stefnanda að gerðar yrðu breytingar á teikningum sem hafi haft áhrif á sídd veggklæðningar. Breyttar teikningar hafa ekki verið samþykktar af byggingarfulltrúa, enda eru þær í ósamræmi við þá teikningu sem byggingarfulltrúi hafði áður samþykkt og gerði ráð fyrir að klæðning hússins næði niður að jörð utan á hálfs metra sökkli hússins. Kaupin voru byggð á teikningu sem er eins og sú sem byggingarfulltrúi hafði samþykkt. Hafna verður málsástæðu stefnda um að stefnandi geti ekki byggt rétt á misræmi í teikningum hússins vegna þess að málsástæðunnar sé ekki getið í viðeigandi kafla í stefnu málsins, enda byggir málssóknin að meginefni til á því misræmi í útliti hússins sem teikningarnar sýna og gerð er rækilega grein fyrir þeim grundvelli málsins í stefnu.
Með vísun til framangreindra lagaákvæða og samnings aðila ber að fallast á málsástæður stefnanda og telja breytt útlit hússins að þessu leyti til galla á hinu selda. Litur á þakkanti er ekki í samræmi við samkomulag við pöntun sem einnig er galli á hinu selda og hefur stefndi viðurkennt það.
Kaupandi glatar rétti sínum til þess að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda án ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var og í hverju gallinn er fólginn samkvæmt 32. gr. laga um lausafjárkaup. Með tilkynningu lögmanns stefnanda um galla sem birt var fyrirsvarsmanni stefnda 4. nóvember 2011 var þessari tilkynningarskyldu kaupanda fullnægt og getur hann því borið umrædda galla fyrir sig. Stefnandi hafði þá þegar, í byrjun september sama ár, þegar húsið hafði verið reist, gert athugasemdir við að útlit þess væri ekki í samræmi við það sem um hafði verið samið. Í tilkynningu lögmannsins var vísað til fyrrgreindra galla, en jafnframt var tilkynnt um að klæðning hússins virtist laus við og að hún ylli miklum hávaða þegar vindur kæmi á húsið. Um síðastnefnd atriði segir í stefnu málsins að galli sé í klæðningunni sjálfri og festingu hennar og samskeytum þar sem hún hreyfist til í vindi og skapi mikla hljóðmengun.
Fyrirliggjandi matsgerðum hefur ekki verið hnekkt með yfirmatsgerðum eða með öðrum hætti. Fyrsta matsspurningin í báðum matsgerðum lýtur að því hvort festingar á klæðningu hússins séu fullnægjandi, einkum varðandi festingar við grind hússins. Í niðurstöðum matsmanns um þessa spurningu segir að þegar horft sé til festinga á einingum á burðarvirki hússins (útveggjaása) sé tekið mið af útreiknuðu vindálagi á einingarnar og þeim upplýsingum sem fram komi hjá framleiðanda um bil milli veggása. Samkvæmt því sé bil milli veggása og festinga eininga í samræmi við hönnunarforsendur. Dómurinn er sammála niðurstöðu matsmannsins um þetta og fellst ekki á að festingar á klæðningu hússins séu ófullnægjandi. Í matsgerðunum er að finna umfjöllun, sem stefndi hefur andmælt, um það hvort frágangur á klæðningu með tilliti til loftþéttni sé í samræmi við lýsingar framleiðanda. Þessi umfjöllun fellur ekki undir það sem matsmanni var falið að meta og ekki er að finna í stefnu eða öðrum málatilbúnaði stefnanda kröfur eða málsástæður um meinta galla á hinu selda vegna loftleka eða óþéttleika eininga. Kemur umfjöllun og kostnaðarmat matsmanns um þessi efni því ekki til skoðunar við úrlausn málsins.
Í stefnu eru bornar fram málsástæður um galla sem felist í hljóðmengun í húsinu og kröfur gerðar á þeim grundvelli að slíkur galli sé fyrir hendi, en seljanda var tilkynnt um gallann 4. nóvember 2011. Af hálfu stefnda er því ekki í móti mælt að staðreynd hávaðamengun kunni að teljast galli á húsinu. Upplýst þykir, m.a. með framburði aðila og vitna, að umkvartanir stefnanda um hvin og hávaða í húsinu í vindi eigi við rök að styðjast. Starfsmaður stefnda, sem kom fyrir dóminn, sýndi sérfróðum meðdómsmönnum sýnishorn samskeyta eininganna sem notuð eru í húsið. Af gögnum málsins og því sem fram kom við skýrslugjöf fyrir dóminum, einkum af hálfu starfsmanns stefnda, er það mat dómsins að hávaðamengun sem rekja megi til samskeyta eininganna sé fyrir hendi í húsinu og að hún sé meiri en gera megi ráð fyrir að sé í húsum af þessu tagi og telja megi áskilda kosti slíkra húsa. Telja verður þessa hljóðmengun til galla á hinu selda, en samkvæmt 2. mgr. 17. gr. laga um lausafjárkaup er söluhlutur gallaður ef hann hentar ekki í þeim tilgangi sem sambærilegir hlutir eru venjulega notaðir til.
Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga um lausafjárkaup getur kaupandi krafist úrbóta, nýrrar afhendingar, afsláttar, riftunar og skaðabóta ásamt því að halda eftir greiðslu kaupverðs ef söluhlutur reynist gallaður og gallinn er hvorki sök kaupanda né stafar af aðstæðum sem hann varða. Réttur kaupanda til skaðabóta fellur ekki niður þótt hann geri aðrar kröfur eða þótt ekki sé unnt að halda slíkum kröfum fram. Í 1. mgr. 40. gr. laganna segir að kaupandi geti krafist skaðabóta fyrir það tjón sem hann bíður vegna galla á söluhlut, nema seljandinn sanni að þá megi rekja til tiltekinna hindrana.
Stefnandi krefst skaðabóta að fjárhæð tíu milljónir króna vegna galla. Taka verður undir það með stefnda að stefnandi hefur ekki stutt það rökum eða gögnum hvernig sú fjárhæð í stefnu var fundin eða tekist að sýna fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni vegna kaupanna er nemi þeirri fjárhæð. Á hinn bóginn verður samkvæmt framansögðu að telja að gallar séu sannreyndir á hinu selda, sem ekki hafi reynst hafa áskilda og umsamda kosti og að stefnandi eigi vegna gallanna rétt til skaðabóta úr hendi stefnda á grundvelli laga um lausafjárkaup. Takmörkuð og síðbúin boð stefnda um úrbætur skerða ekki rétt stefnanda til skaðabóta fyrir eðlileg útgjöld fyrir að fá bætt úr göllunum, sbr. 3. mgr. 34. gr. laga um lausafjárkaup. Það er því mat dómsins að stefnandi eigi rétt til skaðabóta vegna gallanna.
Það er mat dómsins að unnt sé að bæta úr gallanum sem veldur hljóðmenguninni með viðgerð sem felist í því að þétta utanhúsklæðningu með þan-þéttilista án þess að taka utanhússklæðningu niður. Kostnaður vegna þessa er að mati dómsins 365.000 krónur.
Unnt þykir að bæta fjártjón stefnanda vegna þessa galla að fullu með slíkri viðgerð. Hæfilegar skaðabætur vegna þakkants eru 79.800 krónur eins og greinir í matsgerð í matsmálinu og með þeim þykir tjón vegna gallans að fullu bætt. Vegna úrbóta við sökkul hússins er tekið undir tillögur matsmanns um leiðir til úrbóta og þykir kostnaður við þær hæfilega metinn í matsgerð í matsmálinu með 997.000 krónum ásamt 66.000 krónum vegna breytingar á aðaluppdráttum, samtals 1.063.000 krónur.
Þessar síðastnefndu viðgerðir geta þó eins og atvikum er hér háttað ekki bætt fyllilega úr þeim galla að samfelld klæðning nær ekki niður að jörð. Þær geta því ekki gert stefnanda eins settan og ef söluhlutur hefði verið ógallaður eða í þessu tilviki útlit hússins eins og það skyldi vera samkvæmt samþykktri teikningu, með samfelldri klæðningu niður að jörð. Í málinu liggur ekki fyrir mat á því að hvaða marki útlitsgallinn muni rýra verðmæti hússins, en það er mat dómsins að hann muni gera það og þessi galli valdi þannig stefnanda frekara fjártjóni sem stefndi beri ábyrgð á, en sem nemi kostnaði við þær úrbætur sem dómurinn telur nauðsynlegt að gera við sökkulinn og matsmaður lagði til. Stefnanda verða því, auk fyrrgreinds kostnaðar við klæðningu sökkuls, ákveðnar bætur úr hendi stefnda vegna útlitsgallans sem að mati dómsins þykja hæfilega ákveðnar 446.160 krónur.
Samkvæmt framansögðu er fallist á kröfu stefnanda um skaðabætur að hluta og verður stefnda gert að greiða stefnanda skaðabætur samtals að fjárhæð 1.953.960 krónur. Afsláttur af kaupverði vegna gallanna verður ekki ákveðinn til viðbótar skaðabótum.
Krafa stefnanda um dráttarvexti frá 27. október 2011, sem mótmælt er af hálfu stefnda, er í stefnu studd tilvísun til 5. gr. og 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001 og hefur stefnandi ekki stutt kröfu sína um þann upphafsdag dráttarvaxta neinum málsástæðum eða öðrum lagarökum. Taka verður undir það með stefnda að krafa stefnanda um upphafsdag dráttarvaxta í kröfunni um skaðabætur er illskiljanleg, en krafist var dráttarvaxta frá þingfestingu málsins á þá fjárkröfu sem gerð var í upphaflegri aðalkröfu um riftun. Dráttarvextir skulu reiknaðir samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu og á það ákvæði hér við, en 5. gr. laganna sem stefnandi vísar til á við um peningakröfur. Í 9. gr. laganna er sérákvæði um dráttarvexti af skaðabótakröfum þar sem mælt er fyrir um að slíkar kröfur skuli bera dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta, en dómstólar geti þó ef sérstaklega stendur á ákveðið annan upphafstíma dráttarvaxta. Í samræmi við meginreglu 9. gr. laganna verður ákveðið að bótafjárhæðin beri dráttarvexti frá 19. janúar 2013, en þá var liðinn mánuður frá dagsetningu matsgerðanna sem fyrir liggja í málinu.
Af hálfu beggja aðila eru gerðar kröfur um greiðslu málskostnaðar úr hendi gagnaðila með vísun til ákvæða 21. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Í 1. mgr. 130. gr. laganna segir að sá sem tapar máli í öllu verulegu skuli að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Í 3. mgr. 130. gr. segir að vinni aðili mál að nokkru og tapi því að nokkru eða veruleg vafaatriði séu í máli megi dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. Eins megi fara að ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað. Að teknu tilliti til allra krafna sem aðilar hafa gert í máli þessu og úrslita málsins þykir rétt, með vísun til síðastgreinds ákvæðis laga um meðferð einkamála, að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Dóminn kváðu upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari sem tók við meðferð málsins 2. apríl 2013 og meðdómsmennirnir Björn Marteinsson arkitekt og verkfræðingur og Gústaf Vífilsson byggingarverkfræðingur.
D Ó M S O R Ð:
Stefndi, Hýsir-Merkúr ehf., greiði stefnanda, Kinnarstöðum ehf., skaðabætur að fjárhæð 1.953.960 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 19. janúar 2013 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.