Hæstiréttur íslands

Mál nr. 249/2013

A (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)
gegn
Fili ehf. (Einar Baldvin Axelsson hrl.)

Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


Vinnuslys. Skaðabætur. Líkamstjón.

A höfðaði mál gegn F ehf. og krafðist skaðabóta vegna slyss sem A varð fyrir sem kranamaður við byggingarframkvæmdir sem F ehf. hafði tekið að sér. Undirverktaki F ehf. hafði fengið vinnuveitanda A til að hífa burt steypt svalahandrið sem þurfti að losa frá svölum hússins sem unnið var við. A hlaut tjón er hann datt af verkpalli sem hann stóð á við verkið í kjölfar þess að handriðið féll af svölunum og á pallinn. A hafði ekki tilkynnt tryggingafélagi F ehf. um slysið fyrr en hartnær áratug eftir að slysið varð. Þá var ekki nægjanlega vandað til rannsóknar á orsökum slyssins og voru málsatvik því um margt óljós. Þurfti A að bera hallann af þeim sönnunarskorti sem af þessu hafði hlotist. Ósannað var að verkpallurinn sem A stóð á hefði verið svo hár eða þeirrar gerðar að skylt hafi verið að hafa á honum fallvarnir. Þá var ekki talið að orsök slyssins mætti að rekja til aðbúnaðar á verkpallinum, heldur til þess hvernig staðið var að hífingu svalahandriðsins. Var slysið því rakið til aðgæsluleysis A sjálfs eða óhappatilviljunar og F ehf. sýknað.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. apríl 2013. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 2.751.104 krónur með 4,5% ársvöxtum af 511.925 krónum frá 25. september 2000 til 25. janúar 2001, af 2.751.104 krónum frá þeim degi til 20. október 2010, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af sömu fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður. 

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi fékk stefndi B, sjálfstæðan verktaka, til að taka að sér það verk að saga steypt handrið af svölum fjöleignarhússins númer […] við […] og fjarlægja þau. B fékk C ehf. til þess að sjá um að hífa handriðin af svölunum, en áfrýjandi var starfsmaður þess fyrirtækis. Aðdragandi slyss þess, sem mál þetta á rætur sínar að rekja til, var sá að áfrýjandi fór ásamt B og tveimur öðrum starfsmönnum þess síðarnefnda upp á verkpall, sem stefndi hafði reist við fjöleignarhúsið, til að setja keðjur, sem brugðið hafði verið á eitt af handriðunum, á krók krana er áfrýjandi stjórnaði. Hafði áfrýjandi meðferðis fjarstýringu er hann notaði á verkpallinum til að stjórna krananum. Þegar búið var að setja keðjurnar á krókinn og taka slakann af þeim fóru B og starfsmenn hans af pallinum, en áfrýjandi varð þar eftir. Átti slysið sér stað að sögn áfrýjanda þegar hann var í þann mund að fara niður af pallinum.

Í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins um slysið kom fram í kafla hennar um vinnubrögð og starfshætti að er slysið varð hafi áfrýjandi staðið á verkpalli sem hafi verið reistur við húsalengjuna og stjórnað þar krananum með fjarstýringu. Síðan sagði: „Keðju hafði verið slegið um handriðið og henni brugðið í krók kranans. Eftir að hafa tekið slakann af hífibúnaðinum (keðjunni) ætlaði [áfrýjandi] síðan að hífa handriðið af svölunum. Áður en hann náði að taka slakann af keðjunni féll handriðið niður milli veggjar og vinnupalls. [Áfrýjandi] hafði staðið á vinnupallinum framan við handriðið og þegar það losnaði ætlaði hann að forða sér frá en rak sig í stiga sem notaður var til að komast upp á vinnupallinn, missti fótanna og féll til jarðar. Fallhæðin var 2 metrar.“ Taldi vinnueftirlitið að með hliðsjón af framangreindu mætti helst rekja orsök slyssins til þess að handriðið hafi verið losað frá festingum sínum áður en búið var að ganga frá því til hífingar, fallvarnir verkpallsins hafi verið ófullnægjandi og aðstæður á honum hafi „mögulega“ ekki verið nægilega öruggar þar sem áfrýjandi hafi rekið sig í stiga pallsins. Í kafla skýrslunnar um tilvitnun í lög og reglur var vísað til gr. 21.1. í B. hluta IV. viðauka reglna nr. 547/1996 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð, þar sem segir meðal annars að á verkpöllum skuli vera handrið ef hæðin er meiri en tveir metrar frá jörð eða öðrum fleti. Í lok skýrslunnar var tekið fram að þess væri krafist af verktökum að sett yrði fallvörn á verkpalla.

Eins og rakið hefur verið sagði í skýrslu vinnueftirlitsins um aðstæður á verkpallinum er svalahandrið féll niður að þá hafi áfrýjandi verið búinn að taka slakann af keðjunni, sem fest var á krók kranans, og ætlað að hífa handriðið af svölunum, en þar sagði jafnframt að handriðið hafi fallið áður en áfrýjandi hafi verið búinn að taka slakann af keðjunni. Í þessu felst mótsögn. Þá var sú ályktun órökstudd og án nokkurs samhengis við kafla skýrslunnar um vinnubrögð og starfshætti á slysstað að orsök slyssins væri meðal annars að rekja til þess að handriðið hafi verið losað frá festingum sínum áður en búið var að ganga frá því til hífingar. Að lokum er þess að geta að í skýrslunni var því slegið föstu að fallhæðin af verkpallinum hafi verið tveir metrar og síðan vísað í fyrrnefnda grein reglna nr. 547/1996 um skyldu til að hafa fallvarnir á verkpöllum ef hæð þeirra væri meiri en tveir metrar. Þrátt fyrir það var komist að þeirri niðurstöðu í skýrslunni að orsök slyssins mætti meðal annars rekja til ófullnægjandi fallvarna verkpallsins sem notast var við í umrætt skipti.

II

Sönnunarbyrði um að stefndi eða einhver sem hann ber ábyrgð á hafi valdið áfrýjanda tjóni umrætt sinn með bótaskyldum hætti hvílir á áfrýjanda. Hartnær áratugur leið frá slysinu þar til áfrýjandi tilkynnti réttargæslustefnda um það og óskaði eftir afstöðu hans til bótaskyldu. Þar sem svo langur tími er liðinn frá slysinu og ekki var nægilega vandað til rannsóknar á orsökum þess eru málsatvik um margt óljós. Samkvæmt framansögðu ber áfrýjandi hallann af þeim sönnunarskorti.

Aðilar deila um hvort verkpallur sá, er áfrýjandi féll af, hafi verið tveir metrar eða tveir og hálfur metri að hæð. Heldur áfrýjandi hinu síðarnefnda fram og vísar því til stuðnings til skýrslu lögreglu um málið, en þar sagði að búið hafi verið að reisa verkpalla sem væru „2,50 metrar á hæð.“ Gegn þessari málsástæðu áfrýjanda teflir stefndi fram þeim rökum að í skýrslu Vinnueftirlits ríkisins segði að fallhæð hafi verið tveir metrar. Þá komi hið sama fram í skýrslum B og fyrirsvarsmanns stefnda, D, fyrir dómi. Að virtum þeim gögnum er ósannað að hæð verkpallsins frá jörðu hafi verið meiri en tveir metrar.

Einnig heldur áfrýjandi því fram að án tillits til hæðar verkpallsins hafi verið skylt að hafa fallvarnir á honum þar sem um hafi verið að ræða röraverkpall. Stefndi andmælir því að verkpallurinn hafi verið þeirrar gerðar sem kveðið er á um í 1. gr. reglna nr. 331/1989 um röraverkpalla. Beri gögn málsins ekki með sér að svo hafi verið. Í skýrslu vinnueftirlitsins var verkpalli þeim, er áfrýjandi féll af, að engu leyti lýst. Þá var þar heldur ekki vísað til þess að reglur nr. 331/1989 ættu við um pallinn, heldur var um fallvarnir einungis skírskotað til reglna nr. 547/1996. Samkvæmt þessu er ósönnuð sú staðhæfing áfrýjanda að hann hafi fallið af röraverkpalli í merkingu reglna nr. 331/1989 og af þeim sökum verið skylt að hafa fallvarnir á pallinum.  

Samkvæmt öllu framansögðu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.