Hæstiréttur íslands

Mál nr. 370/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Barnavernd
  • Vistun barns
  • Gjafsókn


                                     

Þriðjudaginn 4. júní 2013.

Nr. 370/2013.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

gegn

M og

K

(Ásbjörn Jónsson hrl.)

Kærumál. Börn. Barnavernd. Vistun barns. Gjafsókn.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem felldur var úr gildi úrskurður B um vistun barna M og K utan heimilis í allt að einn mánuð. Talið var að B hefði ekki verið heimilt að vista börnin utan heimilis á grundvelli a. liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, þar sem B hafði áður úrskurðað að börnin skyldu vistuð utan heimilis á grundvelli b. liðar sömu lagagreinar. Tekið var fram að B hefði staðið til boða að gera sjálfstæða kröfu um úrskurð héraðsdóms um vistun barnanna með vísan til 28. gr. barnaverndarlaga. Skorti úrskurð B því lagastoð og var hann felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ingibjörg Benediktsdóttir. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. maí 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013, þar sem felldur var úr gildi úrskurður sóknaraðila frá 30. apríl sama ár um vistun tveggja barna varnaraðila utan heimilis í allt að einn mánuð frá 5. maí 2013. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að Hæstiréttur „fallist á úrskurð Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 2013“.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða kærumálskostnað, sem renni í ríkissjóð, en um hann og gjafsóknarkostnað varnaraðila fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, greiði 250.000 krónur í kærumálskostnað, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila, M og K, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 250.000 krónur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 23. maí 2013, barst dómnum 6. maí  sl. með kröfu sóknaraðila, M og K, [...], um að úrskurði varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, Tjarnargötu 11, Reykjavík, frá 30. apríl 2013 verði hrundið. Með úrskurðinum var ákveðið að börn sóknaraðila, C og D, skuli vistuð á heimili á vegum varnaraðila í allt að einn mánuð frá og með 5. maí 2013.

Af hálfu sóknaraðila var þess í upphafi einnig krafist að varnaraðila verði gert að afhenda sóknaraðilum börnin þegar í stað, en við málflutning var þess krafist, í ljósi breyttra aðstæðna, að sóknaraðilum verði heimilað að hafa börnin á heimili sínu og að þau verði ekki sótt þangað að nýju með aðstoð lögreglu. Sóknaraðilar krefjast málskostnaðar úr ríkissjóði, þ.m.t. kostnaðar vegna dómtúlks og þóknunar lögmanns samkvæmt málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti, á grundvelli 1. mgr. 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og gjafsóknarleyfis.

Varnaraðili, Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, gerði í greinargerð þá kröfu að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti úrskurð varnaraðila frá 30. apríl sl., þannig að heimilt sé að vista börnin D og C, utan heimilis sóknaraðila, í allt að einn mánuð frá og með 30. apríl 2013. Við meðferð málsins kom fram að endanleg krafa varnaraðila er um staðfestingu úrskurðar frá 30. apríl 2013 um vistun barnanna í allt að einn mánuð frá og með 5. maí s.á. Af hálfu varnaraðila er ekki gerð krafa um málskostnað.

Úrskurður barnaverndarnefndar er borinn undir héraðsdóm samkvæmt heimild í 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um meðferð málsins gilda ákvæði XI. kafla barnaverndarlaga, auk ákvæða X. kafla barnaverndarlaga og laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, eftir því sem við getur átt, sbr. 61. gr. barnaverndarlaga.

Málsatvik og úrskurður barnaverndarnefndar 30. apríl 2013

Með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 5. mars 2013 var ákveðið að börnin D, fædd [...], og C, [...], yrðu vistuð á Vistheimili barna í tvo mánuði. Bæði börnin, sem lúta forsjá foreldra sinna, sóknaraðila í þessu máli, eru með þroskafrávik. D hefur verið greind með ódæmigerða einhverfu og C hefur verið greindur með dæmigerða einhverfu og alvarlega þroskahömlun. Bæði börnin eru talin í þörf fyrir öflugan stuðning, þjálfun og sérkennslu og stuðning varðandi félagsleg samskipti. Til grundvallar ákvörðun barnaverndarnefndar lá tillaga starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur, sem haft höfðu verulegar áhyggjur af uppeldisaðstæðum þeirra hjá sóknaraðilum, sem ekki hafi fylgt tillögum Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins um úrræði fyrir börnin. Börnin hafi hvorki virst fá þann stuðning sem þeim hafi verið talinn nauðsynlegur né hafi þau sótt skóla í á annað ár. Vistunin kom til framkvæmdar 12. mars 2013 þegar starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur fóru í fylgd lögreglu og túlks að heimili fjölskyldunnar að [...] og börnin voru flutt með bifreið lögreglu að Vistheimili barna í Reykjavík. Úrskurður barnaverndarnefndar frá 5. mars 2013 var staðfestur í héraðsdómi 12. apríl s.á. og var úrskurður héraðsdóms staðfestur með dómi Hæstaréttar 2. maí s.á. Vistun barnanna á grundvelli þeirrar ákvörðunar stóð til 5. maí sl. Barnaverndarnefnd hafði einnig falið starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur að gera með foreldrum áætlun um meðferð máls þar sem fram kæmi að vinna skyldi að því að koma börnunum í skóla ásamt því að lagt yrði mat á þroskastöðu barnanna og líðan. Þá skyldu foreldrar undirgangast forsjárhæfnismat á tímabilinu og málið leggjast að nýju fyrir barnaverndarnefnd innan tveggja mánaða.

Með greinargerð starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 22. apríl 2013 til barnaverndarnefndar Reykjavíkur var gerð grein fyrir því hvernig til hefði tekist. Þar kemur fram að börnin hafi ítrekað lýst vanlíðan sinni og vilja til að fara aftur í umsjá foreldra. Engin samvinna hafi hins vegar náðst við foreldra og þau hvorki undirritað meðferðaráætlun né skrifað undir samning um umgengni við börnin á Vistheimilinu. Þau hafi þó virt umgengnistímann en ekki farið að tilmælum starfsmanna t.d. hvað það varði að koma með mat inn á Vistheimilið. Telpunni hafi staðið til boða að fara með starfsmönnum út úr húsi en hún hafi neitað því. Drengurinn sé duglegur að fara út í garð og leika sér. Sálfræðingur Barnaverndar Reykjavíkur hafi verið að hitta börnin til að fylgjast með líðan þeirra og börnin hafi rætt við talsmann um líðan sína. Börnin sæki skóla frá Vistheimilinu, drengurinn sé í [...] og telpan í [...]. Skólagangan hafi gengið vel og börnin lýst ánægju sinni með skólavistina. Nú sé verið að sækja um sjúkraþjálfun fyrir telpuna eins og Greiningarstöð hafi lagt til á árinu 2008. Málið sé lagt fyrir nefndina vegna tilmæla hennar 5. mars sl. um fyrirlögn innan tveggja mánaða og vegna þess að engin samvinna hafi náðst við foreldra á tímabilinu.

Þá segir í greinargerðinni að á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga sé það enn mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að ástæða sé til að hafa miklar áhyggjur af börnunum í umsjá foreldra sinna. Börnin hafi til langs tíma hvorki fengið þann stuðning sem þeim hafi verið talinn nauðsynlegur né hafi þau sótt skóla í á annað ár. Telji starfsmenn að hér hafi verið um grófa vanrækslu að ræða. Frá því börnin hafi komið á Vistheimili barna hafi nokkur árangur náðst í málinu og börnin sæki skóla sem virðist hafa góð áhrif á þau. Ekki hafi verið gert forsjárhæfnismat á foreldrum en þau hafi bæði hafnað því og að skrifa undir meðferðaráætlun. Reynt hafi verið til þrautar að fá foreldra til samvinnu og samstarfs mánuðum saman. Sé það mat starfsmanna að foreldrum hætti til að ofvernda börn sín með því að taka þau úr aðstæðum sem þau kvarti undan, þannig að börnin einangrist félagslega og fái ekki þá kennslu og örvun sem þeim sé talin fyrir bestu. Börnin verði þannig afar háð foreldrum sínum og háðari en hollt megi teljast. Telji starfsmenn því brýnt að nýta tímann á Vistheimili barna vel til að koma börnunum í viðunandi úrræði og sjá hvaða leiðir séu færar í því sambandi. Færu börnin strax heim aftur sé talið víst að allt falli aftur í fyrra horf, þ.e. að foreldrar séu tilbúnir til að ræða úrræði en sætti sig síðan ekki við þau þegar á hólminn sé komið. Það sé því mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur að bæta þurfi aðstæður barnanna til lengri tíma og að unnið verði að því að koma lífi barnanna í viðunandi horf, áður en þau geti á ný farið í umsjá foreldra sinna. Tillögur starfsmanna voru þær að börnin dveljist áfram á Vistheimili barna til 5. júlí 2013 svo hægt verði að ljúka skólagöngu þeirra með viðeigandi hætti. Einnig var lagt til að foreldrum verði gert að undirgangast forsjárhæfnismat en það sé talið mikilvægt til að hægt sé að leita lausna í málinu miðað við styrkleika foreldra og veikleika.

Framangreindar tillögur starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur voru teknar fyrir á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur 30. apríl 2013. Sóknaraðilar mættu á fund nefndarinnar ásamt lögmanni sínum og mótmæltu harðlega tillögu starfsmanna um áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis og mótmæltu því að þau hefðu ekki verið til samvinnu. K hafi mætt ítrekað til fundar við starfsmenn og báðir sóknaraðilar hafi lýst því yfir fyrir dómi að þau myndu koma börnunum í skóla og vera til samvinnu. Sóknaraðilar hafi staðið í þeirri trú að verið væri að vinna að hentugu skólaúrræði fyrir börnin. Af hálfu sóknaraðila K kom fram að hann telji að börnin hafi verið tekin af heimilinu án saka og að þau hafi verið beitt miklum órétti. Hann muni ekki undirgangast forsjárhæfnismat og telji það hegningarlagabrot að halda börnunum og neyða hann í forsjárhæfnismat. Af hálfu sóknaraðila M kom fram að ekki sé til skóli fyrir C og að upplýsingar væru um að D gæti ekki unnið í skólanum. Í skýrslu talsmanns barnanna sem lá fyrir fundinum kemur fram að afstaða barnanna sé skýr og þau hafi bæði lýst yfir vilja til að fara aftur í umsjá foreldra sinna. Fulltrúi lögmanns stúlkunnar D mætti einnig á fundinn og kom því á framfæri að vilji D sé skýr, hún vilji fara heim. Systkinin þurfi fyrst og fremst stöðugleika í líf sitt, þau séu ósátt við veru sína á vistheimilinu og mikilvægt sé að hlustað sé á óskir þeirra. Ef vista eigi börnin utan heimilis gegn vilja þeirra þurfi markmið vistunar utan heimilis að vera skýr og án alls vafa um að slík vistun sé börnunum fyrir bestu, en svo sé ekki að sjá í þessu máli. Barnaverndarnefnd vísaði til sjónarmiða starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur um nauðsyn áframhaldandi vistunar barnanna utan heimilis og tók málið til úrskurðar þar sem samþykki foreldra skorti.

Að úrskurði barnaverndarnefndar sama dag, 30. apríl 2013, sem krafist er að hrundið verði í máli þessu, stóðu fjórir af fimm nefndarmönnum en einn sat hjá við afgreiðslu málsins. Í úrskurðinum segir að nefndin taki undir mat starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur og telji að bæta þurfi aðstæður barnanna til lengri tíma og vinna að því að koma lífi barnanna í viðunandi horf áður en þau geti á ný farið í umsjá foreldra sinna, enda ljóst að markmiðum vistunar hafi ekki að öllu leyti verið náð vegna samvinnuskorts foreldra. Telji nefndin nauðsynlegt að börnin verði vistuð utan heimilis áfram enda ekki unnt að treysta því að foreldrar verði til samvinnu um framhald málsins þrátt fyrir yfirlýsingar þeirra þar um. Telji nefndin það ekki þjóna hagsmunum barnanna að fela foreldrum nú umsjá þeirra og ef illa gengur að fara á ný í lögregluaðgerð til að vista þau að nýju. Telji nefndin það vera áhættutöku sem ekki sé forsvaranleg og miðað við þann skort á innsæi sem foreldrar hafi sýnt við vinnslu málsins og vanstillingu sem faðir hafi meðal annars sýnt á fundi nefndarinnar í dag geti það beinlínis stofnað lífi og eða heilsu þeirra í hættu.

Í úrskurðinum segir svo að barnaverndarnefnd telji, að teknu tilliti til afstöðu foreldra og telpunnar sem og vanlíðanar D, sem fram hafi komið vegna vistunar utan heimilis, og að teknu tilliti til meðalhófs, að reyna verði til hins ýtrasta að fá frekari mynd af ástandi barnanna og aðstæðum í einn mánuð til viðbótar þeim tveimur mánuðum sem þegar hafi verið úrskurðað um. Á þeim tíma geti þau lokið skólagöngu sinni ásamt því að fundin verði sumarúrræði fyrir börnin og frekari heildarsýn náist. Þá verði þess enn á ný freistað að ná samvinnu við foreldra, meðal annars um gerð forsjárhæfnismats. Þyki nefndinni það nauðsynlegt til að kortleggja foreldrahæfni foreldranna og hvernig best væri að styrkja þau í uppeldishlutverkinu. Leggi nefndin ríka áherslu á að foreldrar verði til samvinnu um gerð forsjárhæfnismats. Þrátt fyrir yfirlýsingar foreldra um að vera í einhvers konar samvinnu treysti nefndin því ekki, í ljósi reynslunnar, að það verði. Nefndin hafi áhyggjur af samskiptum foreldra við börnin á Vistheimili og telji ljóst að takmarka þurfi að svo stöddu umgengni við börnin. Var því úrskurðað að börn sóknaraðila skuli vistuð á heimili á vegum Barnaverndarnefndar Reykjavíkur í allt að einn mánuð frá og með 5. maí 2013, sbr. a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Með kæru lögmanns sóknaraðila, sem barst héraðsdómi 6. maí sl., var þess krafist að úrskurði barnaverndarnefndar 30. apríl sl. verði hrundið. Í greinargerð varnaraðila, Barnaverndarnefndar Reykjavíkur, sem lögð var fyrir dóminn 15. maí sl., var krafist staðfestingar úrskurðarins. Börnin dvöldust áfram á Vistheimili barna þar til 17. maí sl. þegar sóknaraðilar námu þau á brott þaðan. Börnin voru enn á heimili sóknaraðila þegar mál þetta var tekið til úrskurðar að lokinni aðalmeðferð þess 23. maí sl.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að alls ekki sé unnt að una úrskurði barnaverndarnefndar frá 30. apríl sl. í ljósi þess hve illa börnunum líði á Vistheimili barna. Ekki sé unnt að fallast á nauðsyn þess að vista þau þar nú vegna skólagöngu þeirra þar sem skipulagi hafi verið komið á hana. Sóknaraðilar hafi ítrekað gefið loforð á fundi barnaverndarnefndar um að koma börnunum á hverjum degi í skólann ef þau kæmu heim og fallist á að undirgangast forsjárhæfnismat þegar börnin kæmu heim.

Telja verði úrskurðinn alvarlegt brot á 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga þar sem segi að beita skuli vægustu ráðstöfunum til að ná þeim markmiðum sem stefnt sé að og aðeins grípa til íþyngjandi ráðstafana ef lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti. Þá verði að telja að úrskurðurinn brjóti gegn 3. mgr. 26. gr., sbr. 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga þar sem segi að úrræði án samþykkis foreldra eigi ekki að standa lengur en þörf krefji hverju sinni. Því er andmælt að í a og b lið 1. mgr. 27. gr. felist að heimilt sé að vista barn utan heimilis í fjóra mánuði, eða tvisvar sinnum tvo mánuði. Bent er á að öll íþyngjandi ákvæði beri að skýra þröngt og að úrskurðurinn gangi þvert á meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Með úrskurðinum sé alvarlega brotið gegn meginreglu barnalaga og barnaverndarlaga um að barn skuli vera þar sem því sé fyrir bestu að vera. Það geti ekki talist best fyrir barn að vera þar sem það geti hvorki sofið né nærst og segi sjálft að sér líði hræðilega. Það sé ljóst að skilyrði 27. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið fyrir hendi þegar hinn kærði úrskurður gekk og hann brjóti einnig í bága við 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi heimilis og fjölskyldu. Skilyrði 27. gr. barnaverndarlaga um að brýnir hagsmunir barns mæli með aðgerðum hafi ekki verið fyrir hendi, auk þess sem vægari úrræði hafi ekki verið reynd.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili styður kröfu sína um staðfestingu úrskurðar barnaverndarnefndar frá 30. apríl 2013 fyrst og fremst við það að hann hafi fengið lögformlega málsmeðferð og sé gildur að lögum. Við uppkvaðningu hans hafi verið gætt meðalhófs og tekið mið af því að vægari úrræði samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga hafi verið reynd og séu þau fullreynd án þess að viðunandi árangur hafði náðst, þar sem aðstæður barnanna hafi ekki batnað. Varnaraðili hafi veitt sóknaraðilum víðtækan stuðning þar sem leitast hafi verið við að ná samvinnu í skólamálum barnanna og styrkja og aðstoða sóknaraðila í uppeldishlutverki sínu og þar með bæta líðan og stöðu barna þeirra. Sóknaraðilum hafi staðið til boða stuðningur af hálfu Þjónustumiðstöðvar en þau hafi ekki nýtt sér úrræðin sem skyldi. Varnaraðili telji sóknaraðila ekki hafa innsæi í þarfir barnanna og að uppeldisaðstæður þeirra séu og hafi verið óviðunandi.

Varnaraðili telji að málefnalegar ástæður hafi legið til úrskurðarins og að rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglna hafi verið gætt í hvívetna við meðferð málsins. Leiðarljós úrskurðarins hafi verið sjónarmið um heilsu, velferð og vellíðan barnanna og sú brýna nauðsyn að börnin sæki skóla og fái tækifæri til að þroskast og dafna eins og jafnaldrar þeirra við öruggar og góðar aðstæður. Enn fremur liggi úrskurðinum til grundvallar sú staðreynd að sóknaraðilar hafi ekki verið til samvinnu og að sóknaraðilar hafi neitað vanda sínum eða ekki þegið úrræði sem þeim hafi staðið til boða til að bæta aðstæður og velferð barnanna. Aðdragandi málsins hafi verið langur og börnin hafi ekki sótt skóla í á annað ár. Í málinu hafi því verið svo komið að vægari úrræði en vistun utan heimilis dugi ekki til og nauðsynlegt sé að börnin ljúki skólagöngu sinni þetta skólaár og fundin verði sumarúrræði fyrir þau.

Ekki sé í kæru minnst á skort á samvinnu sóknaraðila við þá aðila sem að málefnum barnanna hafi komið. Að því virtu, og með hliðsjón af afneitun og skorti sóknaraðila á samvinnu og innsæi í vanda sinn í gegnum tíðina og af því að svo virðist vera að börnin telji sig ábyrg fyrir afskiptum barnaverndaryfirvalda af málefnum fjölskyldunnar, þá séu sóknaraðilar eins og staða þeirra sé í dag ekki hæf til að veita börnum sínum þá viðeigandi umönnun og stuðning sem þau þurfi nauðsynlega á að halda. Nauðsynlegt hafi verið fyrir börnin að komast í annað umhverfi þar sem markmiðið sé að börnin byrji að sækja skóla á ný og búi við skýran ramma frá degi til dags, njóti útivistar og frístunda, en sóknaraðilar hafi ekki sinnt þeim þætti þrátt fyrir að barnaverndarnefnd hafi boðið þeim fjárhagslegan stuðning í þeim efnum.

Til stuðnings kröfu um staðfestingu úrskurðarins vísar varnaraðili til a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga. Varnaraðili telji það mæta brýnum hagsmunum barnanna best að vistast utan heimilis í takmarkaðan tíma svo vinna megi með sóknaraðilum á vanda þeirra. Börnin hafi í allt of langan tíma búið við miður góðar aðstæður í umsjá sóknaraðila og að mati varnaraðila hefur meðalhófsreglunnar verið gætt í hvívetna við meðferð málsins og ekki verið gripið til viðurhlutameiri úrræða en nauðsyn hafi krafist. Mál barnanna hafi verið til meðferðar hjá varnaraðila frá því um haustið 2011 án þess að aðstæður og líðan barnanna breyttist til batnaðar. Varnaraðili telur þá niðurstöðu, að nauðsynlegt sé að vista börnin utan heimilis, vera í samræmi við meginreglu barnaréttar, sbr. 4. gr. barnaverndarlaga, en við slíka ákvörðun beri sem endranær þegar málum barna sé skipað, að taka það ráð sem barni sé fyrir bestu.

Niðurstaða

Í 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er kveðið á um heimildir barnaverndarnefndar til að úrskurða um vistun barns utan heimilis í tilvikum þar sem ekki liggur fyrir samþykki foreldris og/eða barns sem náð hefur 15 ára aldri, enda mæli brýnir hagsmunir barns með því. Samkvæmt a-lið 1. mgr. ákvæðisins getur barnaverndarnefnd ákveðið að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði og í b-lið 1. mgr. ákvæðisins er barnaverndarnefnd heimilað að kveða á um töku barns af heimili í allt að tvo mánuði og um nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja öryggi þess eða til að unnt sé að gera viðeigandi rannsókn á barninu og veita því nauðsynlega meðferð og aðhlynningu.

Með úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur 5. mars 2013 var ákveðið að börn sóknaraðila, D og C, skyldu tekin af heimili sínu og vistuð á Vistheimili barna í tvo mánuði. Úrskurðurinn var staðfestur í héraðsdómi 12. apríl s.á. og var úrskurður héraðsdóms staðfestur með dómi Hæstaréttar 2. maí s.á. Vistun barnanna á grundvelli þeirrar ákvörðunar stóð til 5. maí sl. Barnaverndarnefnd úrskurðaði á ný um málefni barnanna 30. apríl sl., þá á þann veg að börnin skyldu vistast áfram á Vistheimili barna í einn mánuð til viðbótar frá 5. maí sl. Það er sá úrskurður sem borinn er undir héraðsdóm í máli þessu.

Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga er foreldrum eða barni sem náð hefur 15 ára aldri heimilt að bera úrskurð barnaverndarnefndar undir héraðsdómara innan fjögurra vikna frá því að úrskurður er kveðinn upp. Sóknaraðilar byggja málsókn sína fyrir dóminum á þessari heimild. Lögmaður barnsins D, sem er á sextánda ári, upplýsti fyrir dóminum að hún myndi ekki nýta heimild þessa fyrir sitt leyti.

Í 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga segir að ef barnaverndarnefnd telji nauðsynlegt að ráðstöfun skv. a- og b-lið 1. mgr. 27. gr. standi lengur en þar sé kveðið á um skuli nefndin gera kröfu um það fyrir héraðsdómi. Heimilt sé með úrskurði dómara að vista barn í allt að tólf mánuði í senn frá og með þeim degi þegar úrskurður dómara er kveðinn upp. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að sé krafist framlengingar vistunar skv. 27. gr. eða 28. gr. áður en vistunartíma ljúki haldist ráðstöfun þar til úrskurður eða dómur liggi fyrir.

Í athugasemdum um 28. gr. með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 80/2002 kemur fram að greinin sé á því reist að barnaverndarnefndir hafi eingöngu heimild til að taka ákvarðanir um vistun barna utan heimilis í tiltekinn tíma en verði að bera kröfu um lengri vistun undir dómstóla. Þar komi fram í 1. mgr. að barnaverndarnefnd beri að afla sér úrskurðar dómara ef vistun barns utan heimilis gegn vilja foreldris eða barns sem orðið er 15 ára eigi að standa lengur en tvo mánuði.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hefur ekki gert kröfu fyrir héraðsdómi á grundvelli 28. gr. barnaverndarlaga um að vistun barnanna D og C utan heimilis standi lengur en kveðið var á um í úrskurði nefndarinnar 5. mars 2013, sem staðfestur var í héraðsdómi 12. apríl s.á., og með dómi Hæstaréttar 2. maí s.á. en sú vistun stóð til 5. maí sl.

Í XI. kafla barnaverndarlaga eru ákvæði um meðferð mála fyrir dómi samkvæmt 27. gr. og 28. gr. Í 62. gr. laganna, eins og henni var breytt með 30. gr. laga nr. 80/2011, er kveðið á um aðild og kröfugerð í slíkum málum. Þar segir í 1. mgr. að barnaverndarnefnd sé sóknaraðili ef hún krefst úrlausnar héraðsdóms en varnaraðilar séu foreldrar og barn sem náð hafi 15 ára aldri. Í 2. mgr. kemur fram að þegar foreldrar eða barn leiti úrlausnar teljist þau sóknaraðilar en barnaverndarnefnd varnaraðili og á það við í þessu máli þar sem foreldrar eru sóknaraðilar og krefjast þess að úrskurði barnaverndarnefndar 30. apríl 2013 um áframhaldandi vistun barnanna verði hrundið. Aðild var með sama hætti farið í fyrrnefndu dómsmáli þar sem sóknaraðilar freistuðu þess að fá hnekkt úrskurði barnaverndarnefndar frá 5. mars 2013. Í 2. mgr. 62. gr. barnaverndarlaga segir einnig að þegar barnaverndarnefnd teljist varnaraðili þá sé nefndinni heimilt að gera í greinargerð sjálfstæða kröfu um úrskurð samkvæmt 28. gr.

Samkvæmt því sem greinir í fyrrnefndum úrskurði héraðsdóms frá 12. apríl 2013 barst dómnum 15. mars s.á. krafa sóknaraðila um að úrskurði barnaverndarnefndar frá 5. mars s.á. yrði hrundið og var málið tekið til úrskurðar 8. apríl s.á. Samkvæmt úrskurði héraðsdóms krafðist varnaraðili staðfestingar úrskurðar síns um vistun barnanna utan heimilis í allt að tvo mánuði, en neytti ekki heimildar til að gera í sama máli sjálfstæða kröfu um úrskurð samkvæmt 28. gr. um að héraðsdómur heimilaði að börnin yrðu vistuð utan heimilis lengur en í tvo mánuði.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að skilyrði 27. gr. barnaverndarlaga hafi ekki verið fyrir hendi til að kveða upp þann úrskurð sem krafist er að verði hrundið. Því er andmælt að í ákvæðinu felist heimild til að vista barn utan heimilis lengur en í tvo mánuði, en öll íþyngjandi ákvæði beri að skýra þröngt. Af hálfu varnaraðila er því haldið fram að úrskurðurinn hafi fengið lögformlega málsmeðferð og að hann sé gildur að lögum. Þá er byggt á því að sú ákvörðun sem í úrskurðinum felist sé börnunum fyrir bestu og beri því að staðfesta hann með vísun til meginreglna barnaréttar. Um lagagrundvöll úrskurðarins að öðru leyti og kröfu sinnar um staðfestingu hans vísar varnaraðili til a-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga.

Í athugasemdum um 27. gr. með frumvarpi því sem varð að barnaverndarlögum nr. 80/2002 kemur fram að a-liður 1. mgr., um að barn skuli vera kyrrt á þeim stað þar sem það dvelst í allt að tvo mánuði, eigi fyrst og fremst við um þær aðstæður þegar foreldrar hafi samþykkt ráðstafanir um úrræði utan heimilis. Segir þar að vera megi að foreldrum snúist hugur en barnaverndarnefnd meti það svo að hagsmunum barns sé best borgið með áframhaldandi vistun og geti þá kveðið á um slíka vistun í allt að tvo mánuði. Tveir mánuðir þyki hæfilegur tími til að meta stöðu og þarfir barns, taka ákvörðun um hvort barn skuli snúa heim eða nauðsyn þess að grípa til annarra ráðstafana, svo sem vistunar til frekari meðferðar.

Í úrskurði barnaverndarnefndar 30. apríl 2013, um áframhaldandi vistun barnanna D og C utan heimilis, var vísað til a-liðar 1. mgr. 27. gr. sem heimildar fyrir ákvörðuninni. Aðstæður í máli þessu eru þó gjörólíkar þeim aðstæðum sem löggjafinn gerði í fyrrnefndum athugasemdum með frumvarpi helst ráð fyrir að a-lið ákvæðisins yrði beitt um. Þar var gert ráð fyrir að ákvörðun barnaverndarnefndar um áframhaldandi vistun tæki við af vistun utan heimilis sem foreldrar hefðu samþykkt. Sóknaraðilar í máli þessu höfðu ekki samþykkt vistun utan heimilis sem barnaverndarnefnd ákvað 30. apríl sl. að skyldi haldið áfram, heldur freistuðu þess þá fyrir dómi að fá hnekkt úrskurði barnaverndarnefndar 5. mars 2013 um töku barnanna af heimili og vistun þeirra utan heimilis í allt að tvo mánuði. Úrskurður barnaverndarnefndar 5. mars 2013 byggðist á heimild í b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga sem á við um þær aðstæður að ákvörðun feli í sér töku barns af heimili. Sá úrskurður var staðfestur með úrskurði héraðsdóms 12. apríl s.á., sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar 2. maí s.á. Hafði barnaverndarnefnd með þeirri ráðstöfun fullnýtt það svigrúm sem lög leyfa samkvæmt framansögðu til að vistun barnanna utan heimilis án samþykkis sóknaraðila verði ákveðin án atbeina dómstóla áður en til vistunar eða áframhaldandi vistunar kemur.

Varnaraðili hefur í máli þessu lagt áherslu á að nauðsynlegt sé og börnunum fyrir bestu að þau verði vistuð utan heimilis sóknaraðila í allt að einn mánuð til viðbótar, frá 5. maí sl. Það leysir hann þó ekki undan þeirri skyldu að hlíta málsmeðferðarreglum varðandi vistun barnanna í lengri tíma en tvo mánuði. Varnaraðili hefur ekki leitað þeirra úrræða sem honum hafa staðið til boða að lögum til að bera undir héraðsdóm hvort af lengri vistun barnanna geti orðið. Þau úrræði voru samkvæmt framangreindu að gera sjálfstæða kröfu um úrskurð samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga um að ráðstöfun standi lengur en ákveðið var í úrskurði 5. mars 2013, annað hvort í greinargerð í hinu fyrra dómsmáli eða í sérstöku máli fyrir héraðsdómi.

Með vísun til alls þess sem að framan greinir verður fallist á það með sóknaraðilum að úrskurð barnaverndarnefndar 30. apríl 2013 um vistun barna þeirra utan heimilis í allt að einn mánuð frá 5. maí sl. hafi skort lagastoð. Verður úrskurðurinn því felldur úr gildi. Í því felst að fallist er á kröfu sóknaraðila um að börnin verði ekki tekin af heimili sínu með lögregluvaldi á grundvelli úrskurðarins.

Varnaraðili gerir ekki kröfu um málskostnað. Sóknaraðilar hafa gjafsókn í máli þessu samkvæmt gjafsóknarleyfi útgefnu 7. maí sl., sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 80/2002, sem lagt var fyrir dóminn við aðalmeðferð málsins. Sóknaraðilar hafa ekki gert kröfu um málskostnað úr hendi varnaraðila, þótt það sé áskilið í gjafsóknarleyfinu. Verður varnaraðila því ekki gert að greiða málskostnað sóknaraðila þrátt fyrir úrslit málsins og verður málskostnaður felldur niður. Gjafsókn sóknaraðila er lögbundin og skal gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er þóknun lögmanns þeirra, Þuríðar K. Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 619.970 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagður kostnaður vegna aðstoðar dómtúlks, 50.000 krónur, án virðisaukaskatts, því greiðast úr ríkissjóði.

Úrskurðinn kveður upp Kristrún Kristinsdóttir héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Úrskurður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 30. apríl 2013, um vistun C og D utan heimilis í allt að einn mánuð frá 5. maí 2013, er felldur úr gildi. 

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila, sem er þóknun lögmanns þeirra, Þuríðar K. Halldórsdóttur héraðsdómslögmanns, 619.970 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og útlagður kostnaður vegna aðstoðar dómtúlks, 50.000 krónur, án virðisaukaskatts, greiðist úr ríkissjóði.