Hæstiréttur íslands

Mál nr. 291/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Faðerni
  • Börn
  • Aðilaskýrsla
  • Vitni


 

Mánudaginn 4. júní 2007.

Nr. 291/2007:

A

B

C og

D

(Hlöðver Kjartansson hrl.)

gegn

E

(Erlendur Gíslason hrl.)

Kærumál. Faðerni. Börn. Aðilaskýrsla. Vitni.

A, B, C og D höfðuðu mál til vefengingar á faðerni G, sem var fæddur í X  og skráður sonur F, föður sóknaraðila, og E. Kröfðust þau að þau fengju að gefa aðilaskýrslur og leiða nafngreind vitni fyrir héraðsdóm til að færa fram líkur fyrir því að E hefði ekki verið barnshafandi þegar hún og F fóru til Perú skömmu áður en G fæddist, svo og til að bera um frásögn F, er lést árið 2001, hvernig erlent fæðingarvottorð G hefði komið til. Ekki var talið fyrir fram útilokað að slík skýrslugjöf aðila og vitna, sem heimild væri fyrir í 4. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, gæti leitt til þess að þær líkur væru komnar fram fyrir kröfu sóknaraðila um vefengingu faðernis G að efni væru til sönnunarfærslu með mannerfðafræðilegri rannsókn. Var sóknaraðilum því heimilað að gefa þegar á þessu stigi aðilaskýrslur í málinu og leiða umrædd vitni fyrir dóminn.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um þeim yrði heimilað að gefa aðilaskýrslur og leiða fyrir dóm fjögur nafngreind vitni í máli þeirra á hendur varnaraðila til vefengingar á því að faðir þeirra, F, sem lést 13. mars 2001, sé faðir G. Kæruheimild er í b. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að þeim verði heimilað að gefa aðilaskýrslur fyrir héraðsdómi, svo og að leiða þar til skýrslugjafar sem vitni H, I, J og K. Þá krefjast sóknaraðilar málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt gögnum málsins gengu varnaraðili og faðir sóknaraðila í hjúskap 26. september 1990. Sóknaraðilar kveða þau hafa farið í nóvember 1994 til X, fyrrum heimalands varnaraðila, og dvalið þar fram í janúar eða febrúar 1995. Þegar þau hafi komið aftur til Íslands hafi verið með þeim drengurinn G, sem þá hafi verið nokkurra vikna gamall. Samkvæmt framlögðu fæðingarvottorði þjóðskrár er hann fæddur í X 17. nóvember 1994 og eru foreldrar hans sagðir vera varnaraðili og faðir sóknaraðila. Segir í vottorðinu að það sé gefið út samkvæmt „staðfestu fæðingarvottorði frá [X] dagsett 22. nóvember 1994“, en ljósrit af því liggur fyrir í málinu. Sóknaraðilar staðhæfa að varnaraðili hafi ekki verið barnshafandi þegar hún fór ásamt föður þeirra til X í nóvember 1994. Eftir heimkomuna hafi faðir þeirra tjáð þeim að hann hafi látið eftir varnaraðila að taka drenginn, sem væri „sonur frænku ... eða úr fjölskyldu hennar“. Telja sóknaraðilar að „skráning faðernis [G] í Þjóðskrá Íslands sé reist á röngu eða fölsuðu ætluðu fæðingarvottorði stjórnvalda í [X] um faðerni hans og móðerni“. Faðir sóknaraðila lést sem áður segir 13. mars 2001. Sóknaraðilar höfðuðu mál þetta 15. janúar 2007 til vefengingar á faðerni G og beina kröfum sínum að varnaraðila einni, sbr. síðari málslið 3. mgr. 21. gr. barnalaga nr. 76/2003. Undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi kröfðust sóknaraðilar þess að gerð yrði mannerfðafræðileg rannsókn á lífsýnum úr föður þeirra, varnaraðila og G. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði héraðsdómara 30. mars 2007, sem kærður var til Hæstaréttar. Í dómi réttarins 25. apríl sama ár í máli nr. 204/2007 var meðal annars vísað til þess að fyrir lægi áðurnefnt fæðingarvottorð frá X 22. nóvember 1994. Sóknaraðilar hefðu ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að það vottorð væri falsað, að varnaraðili hafi ekki verið barnshafandi þegar hún fór til X ásamt föður sóknaraðila eða að ástæða kynni að öðru leyti að vera til að draga í efa faðerni G. Af þessum sökum var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila óska þau eftir að gefa aðilaskýrslur og leiða vitni í málinu til að færa fram líkur fyrir því að varnaraðili hafi ekki verið barnshafandi þegar hún fór ásamt föður sóknaraðila til X í nóvember 1994, svo og til að bera um frásögn föðurins um hvernig erlenda fæðingarvottorðið hafi komið til. Eins og atvikum er háttað verður ekki fyrir fram útilokað að slík skýrslugjöf aðila og vitna, sem heimild er fyrir í 4. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, gæti leitt til þess að þær líkur þættu komnar fram fyrir kröfu sóknaraðila um vefengingu faðernis að efni væru til sönnunarfærslu með mannerfðafræðilegri rannsókn. Samkvæmt þessu verður sóknaraðilum heimilað að gefa þegar á þessu stigi aðilaskýrslur í málinu og leiða þau vitni, sem þau gera kröfu um.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af þessum þætti málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Sóknaraðilum, A, B, C og D, er heimilt að gefa aðilaskýrslur í máli á hendur varnaraðila, E, svo og að leiða þar til skýrslugjafar vitnin H, I, J og K.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. maí 2007.

             Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 11. maí sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað með stefnu áritaðri um birtingu hinn 15. janúar 2007.

             Dómkröfur stefnenda eru þær, að viðurkennt verði með dómi að faðir þeirra, F, [kt.], er lést hinn [...] 2001, og var þá til heimilis að [heimilisfang] í Reykjavík, sé ekki faðir skráðs sonar hans og stefndu, E, G, [kt. og heimilisfang]og að stefnda verði dæmd til þess að greiða stefnendum málskostnað.

             Dómkröfur stefndu eru þær, að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda og stefnendur verði in solidum dæmd til þess að greiða henni málskostnað að skaðlausu og við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til að greiddur sé virðisaukaskattur af málflutningsþóknun.

             Í þinghaldi hinn 7. maí sl. kröfðust stefndur þess að fá að gefa skýrslu í málinu sem og að leiða maka sína sem vitni í málinu.  Lögmaður stefndu mótmælti því að skýrslutökur þessar færu fram.

             Hinn 11. maí sl. fór fram munnlegur málflutningur um þetta ágreiningsefni.  Lögmaður stefnenda krafðist þess að úrskurðað verði heimilt að gefa skýrslu í málinu og leiða sem vitni í málinu maka stefnenda, H, I, J og K, til að svara spurningum lögmanna og dómara.  Jafnframt krafðist hann málskostnaðar í þessum þætti málsins.  Lögmaður stefndu gerði þá kröfu að hafnað verði kröfu stefnenda um að gefa skýrslu sem og að leiða umrædd vitni og krafðist málskostnaðar í þessum þætti málsins.

             Krafa stefnenda um að gefa skýrslu og leiða umrædd vitni tengist kröfu þeirra um að fram fari sú mannerfðafræðilega rannsókn, sem hafnað var að færi fram með dómi Hæstaréttar Íslands 25. apríl sl.  Stefnendur eigi lögvarinn rétt á að halda áfram sönnunarfærslu í máli þessu og fá úr því skorið hvort G sé sonur föður stefnenda.

             Stefndi byggir á því að umbeðnar skýrslutökur séu þarflausar og ekki til þess fallnar að sýna fram á að fæðingarvottorð G sé falsað og að eiginkona föður stefnanda hefði ekki verið barnshafandi í X.

             Eins og áður greinir hafnaði Hæstiréttur Íslands að fram færi mannerfðafræðileg rannsókn á lífssýnum úr stefnu, föður stefnenda og stefnendum sjálfum.  Kemur þar fram, að eins og í máli þessu hagi til, en faðir stefnenda var í hjúskap með stefndu á getnaðartíma og við fæðingu G og hafði með erfðaskrá sýnt í verki að hann hafi litið á G sem son sinn, verði að gera þá kröfu að sýnt sé fram á að ástæða kunni að vera til að vefengja skráð faðerni barns.  Hafi stefnendur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að fæðingarvottorðið sé falsað og að stefnda hafi ekki verið barnshafandi þegar hún og faðir stefnenda fóru til X 1994, eða að öðru leyti lagt fram gögn til stuðnings því að ástæða kunni að vera til að draga skráð faðerni G í efa. 

         Samkvæmt margnefndum dómi Hæstaréttar verður ekki talið að umbeðnar yfirheyrslur séu til þess fallnar að sýna fram á að áðurnefnt fæðingarvottorð sé falsað eða gera það sennilegt og verður því kröfu stefnenda um umbeðnar yfirheyrslur hafnað.

         Málskostnaðarákvörðun bíður efnisdóms.

         Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

             Hafnað er kröfu stefnenda, A, B, C og D, um að gefa skýrslu í máli þessu, sem og að leiða H, I, J og K, sem vitni í máli þessu.

         Ákvörðun málskostnaðar í þessum þætti málsins bíður efnisdóms.