Hæstiréttur íslands
Mál nr. 51/2015
Lykilorð
- Lánssamningur
- Gengistrygging
|
|
Fimmtudaginn 10. september 2015. |
|
Nr. 51/2015.
|
Landsbankinn hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) gegn Hallfríði G. Hólmgrímsdóttur (Skarphéðinn Pétursson hrl.) |
Lánssamningur. Gengistrygging.
H höfðaði mál gegn L hf. og krafðist viðurkenningar á því að í lánssamningi hennar og S, sem L hf. rakti rétt sinn til, hefði falist lán í íslenskum krónum bundið við gengi erlends gjaldmiðils með ólögmætum hætti. Að virtri fyrirsögn lánssamningsins, tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar í erlendum gjaldmiðli og vöxtum lánsins var talið að um lán í erlendum gjaldmiðli væri að ræða. Fengju ákvæði samningsins um gengistryggingu þar engu breytt um. Þá var ekki talið sýnt fram á að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 væru fyrir hendi þannig að leitt gæti til ógildingar samningsins. Var L hf. því sýknaður af kröfum H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir gerðu stefnda og Sparisjóðurinn í Keflavík með sér lánssamning 31. maí 2006. Samningurinn bar yfirskriftina „Lánasamningur í erlendri mynt“ en samkvæmt honum viðurkenndi stefnda að skulda Sparisjóðnum í Keflavík 36.800.000 japönsk jen eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum, miðað við sölugengi japanskra jena, svissneskra franka og evra í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi, því sem hærra reyndist. Vextir skyldu vera LIBOR vextir.
Þá var kveðið á um það í samningnum að lántaki veitti skuldareiganda heimild til að skuldfæra viðskiptareikning sinn við Sparisjóðinn í Keflavík fyrir afborgunum, vöxtum og innheimtukostnaði af láninu á gjalddögum. Drægist greiðsla fram yfir gjalddaga væri skuldareiganda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags. Yrðu vanefndir á samningnum bæri að greiða dráttarvexti af skuldinni í samræmi við vaxtalög og héldist gengistrygging á gjaldfallinni fjárhæð eftir gjalddaga skyldi greiða dráttarvexti í samræmi við vaxtalög.
Að ósk stefndu samþykkti Sparisjóðurinn í Keflavík breytingar á skilmálum lánssamningsins í fimm skipti á tímabilinu 29. október 2008 til 31. október 2010 og báru allar skilmálabreytingarnar yfirskriftina „Breyting á greiðsluskilmálum erlends endurláns.“ Í skilmálabreytingunum var vísað til lánssamnings þess sem hér um ræðir sem upphaflega hafi verið að fjárhæð 36.800.000 japönsk jen, en ekki getið um jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum.
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi hefur áfrýjandi tekið við réttindum og skyldum lánveitanda samkvæmt lánssamningnum.
Í samræmi við ákvæði X til bráðabirgða, sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010, endurreiknaði áfrýjandi lán stefndu 1. júlí 2011 og var staða lánssamningsins eftir endurútreikninginn 34.905.136 krónur í stað 49.186.350 króna fyrir hann. Hinn 19. desember 2012 undirrituðu aðilar málsins viðauka við umræddan lánssamning sem nefndur var skilmálabreyting og þar var fjárhæðin tilgreind 34.905.136 krónur til samræmis við endurútreikninginn.
II
Í málinu deila aðilar um hvort fyrrgreindur samningur feli í sér lán í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum sem bundið sé gengi erlends gjaldmiðils. Skuldbinding í erlendum gjaldmiðli fer ekki gegn ákvæðum 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001, en á hinn bóginn er óheimilt að binda lán eða annars konar skuldbindingu í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, sbr. dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010. Af orðalagi fyrrgreindra lagaákvæða og lögskýringargögnum verður ráðið að við úrlausn á því hvort um sé að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðli verði fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Í því sambandi skiptir einkum máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í þeim.
Samkvæmt framansögðu bar fyrirsögn lánssamningsins með sér að um væri að ræða skuldbindingu í erlendri mynt auk þess sem skuldbindingin þar var tilgreind í japönskum jenum þótt vísað hafi verið til jafnvirðis lánsfjárhæðarinnar í íslenskum krónum, án þess þó að jafnvirðisfjárhæðar í íslenskum krónum væri getið. Engin breyting varð á tilgreiningu skuldarinnar að þessu leyti þegar skilmálum lánssamningsins var síðar breytt. Þá voru vextir samkvæmt láninu til samræmis við að um erlent lán væri að ræða. Samkvæmt þessu bar form og meginefni skuldabréfsins ótvírætt með sér að um væri að ræða lán í japönskum jenum. Verður því lagt til grundvallar að lán þetta hafi verið gilt lán í hinum erlenda gjaldmiðli og fá fyrrnefnd ákvæði samningsins um gengistryggingu þar engu breytt. Þá hefur stefnda ekki sýnt fram á að skilyrði 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga séu fyrir hendi sem geti leitt til ógildingar samnings aðila. Með vísan til framangreinds verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefndu.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Landsbankinn hf., er sýknaður af kröfum stefndu, Hallfríðar G. Hólmgrímsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. október 2014.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 17. september sl., er höfðað með áritun á stefnu 28. febrúar 2014.
Stefnandi er Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, kt. [...], Laut 41, Grindavík.
Stefndi er Landsbankinn hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:
1. Að viðurkennt verði með dómi að í lánssamningi Sparisjóðsins í Keflavík og stefnanda frá 31. maí 2006 hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
2. Að viðurkennt verði með dómi að eftirstöðvar lánssamnings frá 31. maí 2006 milli Sparisjóðsins í Keflavík og stefnanda hafi hinn 1. febrúar 2011 verið að fjárhæð 22.466.491 króna.
Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öðrum tölulið í dómkröfum stefnanda, sem og af málskostnaðarkröfu stefnanda. Jafnframt krefst stefndi þess að fyrsta tölulið í dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi.
Til vara krefst stefndi sýknu af öllum dómkröfum stefnanda.
Loks krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
II.
Málsatvik eru þau að stefnandi og Sparisjóðurinn í Keflavík gerðu með sér lánssamning hinn 31. maí 2006 þar sem stefnandi viðurkenndi að skulda Sparisjóðnum í Keflavík 36.800.000 japönsk jen eða jafnvirði þeirra í íslenskum krónum miðað við sölugengi „japanskra jena, svissneskra franka og evra í íslenskum sparisjóðum á gjalddaga eða greiðsludegi, því sem hærra reynist.“ Lánið var til 40 ára og skyldi greiða það með jöfnum afborgunum á eins mánaðar fresti, í fyrsta skipti 1. ágúst 2005. Umsamdir vextir voru Libor-vextir eins og þeir væru ákveðnir í framangreindum myntum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði, auk 2,5% fasts vaxtaálags. Vextir skyldu reiknast frá útgáfudegi og greiðast á sama tíma og afborganir af höfuðstól. Í lánssamningnum er ákvæði þess efnis að lántaki veiti lánveitanda heimild til þess að skuldfæra tékkareikning sinn, 1192-26-800474, fyrir afborgunum, vöxtum og innheimtukostnaði af láninu á gjalddögum. Enn fremur er í lánssamningnum ákvæði þess efnis að dragist greiðsla fram yfir gjalddaga sé skuldareiganda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags. Þá er kveðið á um að haldist gengistrygging á gjaldfallinni fjárhæð eftir gjalddaga skuli greiða dráttarvexti í samræmi við vaxtalög. Lánssamningurinn fékk númerið 109ERLB061580008 í kerfum Sparisjóðsins í Keflavík.
Á meðal gagna málsins er nóta fyrir útborgun lánsins, sem ber yfirskriftina „Fjölmyntalán JPY“. Þar er lánsfjárhæðin tilgreind bæði í japönskum jenum, 36.800, og í íslenskum krónum, 23.758.080. Þá er lántökugjald tilgreint bæði í japönskum jenum og íslenskum krónum og að til ráðstöfunar sé lánsfjárhæðin að frádregnu lántökugjaldi, þ.e. 23.401.709 krónur. Ráðstöfunarreikningur stefnanda, 1109-26-9595, er tilgreindur í nótunni.
Stefnandi kveðst hafa notað lánið til að greiða upp verðtryggt lán hjá Íbúðalánasjóði, sem hvílt hafi á fasteign hennar að Laut 41 í Grindavík. Kveðst hún hafa staðið í skilum með afborganir af láninu fram í októbermánuð 2008.
Hinn 29. október 2008, 21. apríl 2009, 16. október 2009, 30. apríl 2010 og 31. október 2010 voru gerðar breytingar á greiðsluskilmálum lánsins, sem allar bera yfirskriftina „Breyting á greiðsluskilmálum erlends endurláns nr. 109ERLB061580008.“ Í skilmálabreytingunum, sem allar eru orðaðar á sama veg, er því lýst að stefnandi og Sparisjóðurinn í Keflavík hafi gert með sér lánssamning 31. maí 2006, sem hafi upphaflega verið að fjárhæð 36.800.000 japönsk jen, en ekki er getið um jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum. Samkvæmt skilmálabreytingunum skyldu á næstu sex gjalddögum aðeins greiðast vextir. Að öðru leyti skyldu skilmálar lánsins haldast óbreyttir.
Stefnandi kveður að á þessu tímabili hafi vaxtagreiðslur í hverjum mánuði verið á við mánaðarlega afborgun af láninu áður, eða á bilinu 130.000 -190.000 krónur.
Í samræmi við ákvæði X til bráðabirgða, sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, endurreiknaði stefndi lán stefnanda 1. júlí 2011. Í endurútreikningnum kom fram að staða lánssamningsins fyrir endurútreikning hafi verið 49.186.350 krónur, en 34.905.136 krónur eftir endurútreikning.
Afborganir af láninu féllu niður á tímabilinu frá 1. mars til 1. júlí 2011, en hófust að nýju 1. ágúst 2011 og frá þeim tíma og fram í janúar 2013 greiddi stefnandi bæði vexti og afborganir af höfuðstól. Námu mánaðarlegar greiðslur um 250.000 krónum á þessu tímabili.
Hinn 19. desember 2012 var gerð breyting á greiðsluskilmálum lánsins. Í skilmálabreytingunni var láninu lýst og kom þar fram að fjárhæð þess væri 34.905.136 krónur, enda hafði höfuðstóll þess þá verið endurreiknaður svo sem að framan er rakið. Samkvæmt skilmálabreytingunni skyldi greiðslu afborgana frestað og á næstu 5 gjalddögum skyldu aðeins greiddir vextir, í fyrsta skipti á gjalddaga 1. febrúar 2013. Fyrsti gjalddagi eftir frestun afborgana af höfuðstól skyldi vera 1. júlí 2013. Að öðru leyti skyldu skilmálar lánsins haldast óbreyttir. Frá og með 1. júlí 2013 hefur stefnandi greitt mánaðarlega vexti og afborganir af höfuðstól lánsins.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 var öllum eignum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til Spkef sparisjóðs, nema þeim sem sérstaklega voru undanskildar. Þá var einnig tilteknum skuldum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til Spkef sparisjóðs.
Þá tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 5. mars 2011 um að afturkalla starfsleyfi Spkef sparisjóðs frá og með 7. sama mánaðar, en þann dag tæki stefndi, sem þá hét NBI hf., við rekstri, eignum og skuldum sparisjóðsins.
Óumdeilt er að í samræmi við framangreindar ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins hafi stefndi tekið við réttindum og skyldum lánveitanda samkvæmt lánssamningnum.
Með bréfi, dags. 26. mars 2013, tilkynnti stefndi stefnanda að með hliðsjón af dómafordæmum í dómum Hæstaréttar í málum nr. 524/2011 og 332/2012 teldist lán stefnanda ekki vera gengistryggt, heldur erlent lán og því kæmi ekki til frekari endurútreiknings á eftirstöðvum hins umþrætta láns.
Stefnandi kom fyrir dóminn og gaf aðilaskýrslu.
III.
Stefnandi kveðst byggja fyrsta tölulið í dómkröfum sínum á því að í lánssamningi Sparisjóðsins í Keflavík og stefnanda, dags. 31. maí 2006, hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, sem hafi verið í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði 13. og 14. gr., sbr. 2. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Stefnandi kveðst benda á að tilgreining lánsfjárhæðarinnar í lánssamningnum sé afar óskýr. Ljóst sé að valið hafi verið að lána íslenskar krónur sem bundnar hafi verið sölugengi japanska jensins, uppreiknaðar á hverjum gjalddaga afborgana og vaxta. Öll framkvæmdin vegna lánsins sýni þetta, jafnframt því sem aðrar greinar samningsins séu þessu til staðfestingar. Vísar stefnandi þar til 7. og 8. gr. lánssamningsins þar sem segi að dragist greiðsla fram yfir gjalddaga sé skuldareiganda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags, svo og að haldist gengistrygging á gjaldfallinni fjárhæð eftir gjalddaga skuli greiða dráttarvexti í samræmi við vaxtalög.
Stefnandi kveður þetta sýna að í lánssamningurinn hafi verið gert ráð fyrir því að um lán í íslenskum krónum væri að ræða, sem tengt væri gengi myntarinnar sem tilgreind væri í upphafi hans. Stefnandi kveðst enn fremur benda á að allir sambærilegir lánssamningar frá forvera stefnda hafi verið framkvæmdir með sama hætti.
Stefnandi kveðst telja að þessi óskýrleiki í tilgreiningu myntar samningsins eigi að leiða til þess að skoða eigi lánssamninginn heildstætt. Því til stuðnings vísar stefnandi til nýlegra dóma Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1605/2013, Drómi hf. gegn Sætrum ehf. og í máli nr. E-822/2013, Drómi hf. gegn Magnúsi og Steingrími ehf.
Stefnandi bendir á að þegar lánið sé skoðað heildstætt komi í ljós að um gengistryggt lán hafi verið að ræða, sem hækkað hafi upp úr öllu valdi vegnar veikrar stöðu íslensku krónunnar gagnvart japönsku jeni, eða úr 23.758.080 krónum upphaflega í 49.186.350 krónur, þ.e. um tæpar 26 milljónir króna.
Stefnandi kveðst telja að framangreint sýni óumdeilanlega að lán hennar hafi verið bundið gengi japanska jensins með þeim hætti að ólögmætt hafi verið og sé enn samkvæmt 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 og því eigi að horfa framhjá þeim búningi sem Sparisjóðurinn í Keflavík hafi klætt lánið í. Sá búningur hafi falist í því að láta yfirskrift samningsins vera „Lánasamningur í erlendri mynt“ og tilgreina að lánið væri endurlánað erlent lánsfé, sem bera skyldi Libor-vexti. Ekkert af þessum atriðum sé í samræmi við raunveruleikann.
Varðandi heiti lánssamningsins kveðst stefnandi benda á að hún sé neytandi sem ekki hafi verið ljós munurinn á lánum í erlendri mynt annars vegar og í íslenskum krónum hins vegar þegar hún tók lánið. Þá sé ljóst að stefnandi hafi sóst eftir láni í íslenskum krónum og fengið lánið greitt út í íslenskum krónum, enda hafi lánið verið ætlað til fjárfestingar í fasteign hennar, Laut 41 í Grindavík.
Þá kveðst stefnandi benda á að engar erlendar myntir hafi skipt um hendur og að báðir aðilar hafi uppfyllt aðalskyldur sínar með greiðslu íslenskra króna. Stefndi með útborgun lánsins og stefnandi með afborgunum af láninu. Stefnandi telji því heiti lánsins ekki geta verið ákvarðandi um það hvort meta eigi lánið í erlendri mynt eða íslenskum krónum, heldur verði að horfa til þess hvaða gjaldmiðill hafi í raun skipt um hendur. Kveðst stefnandi því til stuðnings benda á dóm Hæstaréttar Íslands 21. nóvember 2013 í máli nr. 391/2013.
Þá kveðst stefnandi benda á að orðin „endurlánað erlent lánsfé“ í 1. málsgrein samningsins séu merkingarlaus, þar sem Sparisjóðurinn í Keflavík hafi engin jen keypt þegar hann lánaði stefnanda umrætt fé, enda liggi engin kaupnóta fyrir í málinu því til staðfestingar. Þessu til frekari stuðnings bendir stefnandi á að útborgunargengi lánsins 0,6456, sbr. dskj. 7, sé hvorki gengi dagsins 31. maí 2006, þegar samningurinn var undirritaður né lántöku- og útborgunardagsins 7. júní 2006, sbr. dskj. nr. 11.
Hvað varði ákvæðið um að lánið beri Libor-vexti kveðst stefnandi benda á að það sé engin staðfesting á því að um erlent lán hafi verið að ræða, enda hafi Libor-vextir einungis verið reiknaðir ofan á upphæðir í jenum áður en þær voru margfaldaðar með gengi íslenskrar krónu á móti jeni. Þessu til stuðnings kveðst stefnandi benda á greiðslukvittun á dskj. nr. 12. Þar megi sjá að fyrst hafi 3,160% Libor-vextir verið reiknaðir ofan á erlendan höfuðstól, 36.109.997 jen, sem gefi í ársvexti 1.141.076 jen. Sú fjárhæð hafi verið margfölduð með 30/360 til að finna mánaðarvextina 95.090 jen. Sú vaxtagreiðsla sé síðan gengistryggð með því að margfalda hana með gengi íslenskrar krónu á móti japönsku jeni á greiðsludegi.
Alveg það sama eigi við um gengistryggingu höfuðstólsins. Hann sé sagður 36.800.000 japönsk jen sem síðan sé deilt með 480 afborgunum, sem hver um sig gefi 76,667 japönsk jen. Sá fjöldi jena sé síðan margfaldaður með gengi íslensku krónunnar gagnvart japönsku jeni við hverja afborgun. Afleiðingar þessa hafi verið þær að ávallt hafi fengist færri jen fyrir hverja krónu og í því hafi falist gengistrygging. Um sé að ræða gengistryggingu sem jafnframt megi sjá af öðrum greiðslukvittunum sem stefnandi hafi fengið frá stefnda, sbr. dskj. nr. 13, en þar megi sjá sex greiðslukvittanir vegna seinni hluta árs 2006 og fyrri hluta árs 2007. Á öllum kvittununum sjáist að hinar erlendu fjárhæðir sem standi til greiðslu miðist við gengi íslenskrar krónu á greiðsludegi.
Þá kveðst stefnandi benda á að það hafi aldrei komið til greina að lán hennar yrði greitt út í japönskum jenum, enda hafi hún ætlað að nota lánið til fjárfestinga í íslenskri fasteign og þar hafi aðeins íslenskar krónur komið til greina. Þá hafi stefnandi ekki haft neinar tekjur í japönskum jenum eða öðrum erlendum gjaldmiðlum. Hún hefði því aldrei getað greitt af láninu í öðru en íslenskum krónum.
Stefnandi kveðst ennfremur benda á að lánaskjalið sé óskýrt um fleiri hluti en tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar og sé í raun svo miklum annmörkum háð að furðu sæti að notast hafi verið við það í lánsviðskiptum. Sem dæmi um galla á skjalinu megi nefna að í 9. málsgrein samningsins sé fjallað um nauðungarsölu „veðs“ án þess að tilgreina veðið. Þá sé þar að finna tilvísun til 17. kafla laga nr. 91/1991 um einkamál, sem alls ekki eigi við þar sem skjalið sé lánssamningur en ekki skuldabréf.
Stefnandi kveðst benda á að rétt geti verið að láta tilgreiningu fjárhæðar í skuldabréfi hafa höfuðvægi þegar um viðskiptabréf sé að ræða sem eigi að innihalda tæmandi lýsingu á þeim réttindum og skyldum sem bréfið feli í sér. Stefnandi telji þetta aftur á móti ekki eiga við um lánssamninga þar sem ein af meginreglum samningaréttar sé að fremur skuli horft til efnis lánssamnings en forms hans.
Stefnandi tiltekur að Hæstiréttur Íslands hafi bent á framangreinda sérstöðu skuldabréfa í dómi 2. maí 2013 í máli nr. 715/2012 og að af þeim sökum hafi ekki haft höfuðvægi í málinu hvernig aðilar efndu aðalskyldur sínar. Stefnandi kveðst telja þessu öfugt farið í fyrirliggjandi máli þar sem um lánssamning sé að ræða, sem eigi að meta á grundvelli efnis og þess hvernig aðilar efndu skyldur sínar, en ekki á grundvelli forms.
Framangreindu til stuðnings sé enn fremur að stefnandi sé neytandi sem hafi verið í viðskiptum við sérhæft fjármálafyrirtæki þar sem henni hafi verið tjáð að hún væri að gera lánssamning í íslenskum krónum. Tilgangur með lántökunni hafi verið fjárfesting í fasteign á íslenskum fasteignamarkaði, en erlendir gjaldmiðlar hefðu aldrei gagnast henni í þeim efnum.
Að lokum kveðst stefnandi benda á að það stangist á við jafnræðisreglu stjórnarskrár að láta óskýra tilgreiningu fjárhæðar í lánasamningi hafa þau áhrif að ekki verði leiðrétt með dómi lán aðila sem séu efnislega eins og lán þeirra sem dæmd hafi verið ólögmæt.
Stefnandi kveðst byggja annan lið í dómkröfum sínum á því að stefndi geti ekki krafið hana um viðbótarvexti fyrir liðna tíð og að eftirstöðvar samningsins hinn 1. febrúar 2011 séu því rangar. Þetta kveðst stefnandi byggja á því að reglan um fullnaðarkvittanir eigi við um atvik máls, enda séu öll skilyrði hennar uppfyllt.
Stefnandi kveðst benda á að fyrsta skilyrði reglunnar sé að skuldari hafi verið í góðri trú um lögmæti skuldbindingar sinnar. Skilyrði þetta sé uppfyllt í málinu, enda hafi gengistrygging ekki verið dæmd ólögmæt fyrr en 16. júní 2010 og ekki verði gerð sú krafa til hennar að þekkja rétta skýringu vaxtalaga fyrir þann tíma. Þá hafi stefndi án fyrirvara tekið við greiðslum hennar samkvæmt greiðslutilkynningum.
Annað skilyrði reglunnar sé að mikill aðstöðumunur hafi verið á milli kröfuhafa og skuldara. Skilyrði þetta sé óumdeilanlega uppfyllt í málinu, enda sé stefnandi neytandi sem tekið hafi lán hjá fjármálastofnun sem hafi búið yfir sérþekkingu á sínu sviði.
Þriðja skilyrði reglunnar sé að það standi stefnda nær að bera þann vaxtamun sem leitt hafi af ólögmætri gengistryggingu. Til þess að svo sé þurfi festa að hafa verið komin á framkvæmd samningsins, jafnframt því sem vaxtamunurinn þurfi að vera umtalsverður. Stefnandi kveðst telja að framangreint skilyrði sé uppfyllt, enda hafi verið búið að inna af hendi 55 greiðslur af láninu þegar það hafi verið endurreiknað. Stefnandi hafi því haft réttmætar væntingar til þess að þeir greiðsluseðlar sem henni hafi verið sendir væru réttir. Þá kveðst stefnandi telja að stefndi verði að bera hallann af því að hafa ekki endurreiknað lán hennar fyrr en mörgum mánuðum eftir gildistöku laga nr. 151/2010.
Þá kveðst stefnandi telja að sá vaxtamunur sem felist í viðbótarkröfu stefnda sé umtalsverður, hvort sem horft sé til upphaflegs höfuðstóls lánsins, eða til greiddra vaxta.
Í samræmi við það sem fram hafi komið kveðst stefnandi byggja á því að hann hafi fengið fullnaðarkvittanir fyrir afborgunum sínum af höfuðstól og vöxtum og því skuli draga greiddar afborganir hans af höfuðstól frá upphaflegum höfuðstól, sem þannig myndi réttar eftirstöðvar lánsins þann 1. febrúar 2011. Sá höfuðstóll sé að fjárhæð 23.758.080 1.291.589 = kr. 22.466.491. Stefnandi bendir á að framangreindur háttur hafi verið hafður á útreikningi réttra eftirstöðva í dómi Hæstaréttar Íslands 18. október 2012 í máli nr. 464/2012.
Þá bendir stefnandi á að lán hennar sé með jöfnum höfuðstólsafborgunum, eins og það sem um hafi verið fjalla í máli nr. 464/2012. Hún telji því að nota megi þá aðferð sem þar hafi verið stuðst við til að komast að því hvort um umtalsverða viðbótarkröfu hafi verið að ræða. Útreikningur samkvæmt áðurgreindri aðferð hafi verið lagður fram til viðmiðunar með bókun á dskj. nr. 26. Í áðurgreindu máli hafi verið talið að 28% viðbótarkrafa væri umtalsverð. Í þessu máli sýni útreikningarnir að viðbótarkrafa stefnda sé að fjárhæð 12.438.645 krónur eða 52%. Sé miðað við að stefnanda sé heimilt að taka inn í áðurgreindan útreikning óinnheimta gjalddaga frá 1. febrúar til 1. júlí 2011 sé hlutfall viðbótarkröfu af upprunalegum höfuðstól 11.942.510 krónur eða 50%.
Með hliðsjón af framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 464/2012 og síðari dómum réttarins sé ljóst að viðbótarkrafa stefnda sé umtalsverð og raunar afar há. Viðbótarkrafan sé svo há og íþyngjandi að það brjóti gegn ákvæði 72. gr. íslensku stjórnarskrárinnar að gera stefnanda að greiða hana, enda felist í því að greiðslur hennar af láninu séu með afturvirkum hætti teknar upp á grundvelli laga nr. 151/2010.
Stefnandi kveður dómkröfur sínar enn fremur byggðar á því að það sé ósanngjarnt af stefnda í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga að krefja stefnanda um efndir án frekari leiðréttingar. Ósanngirni lánsins sé augljós þegar skoðað sé hvað það hefur hækkað frá lántöku þrátt fyrir mjög háar og skilvísar afborganir af því. Lánið hafi hækkað úr tæpum 24 milljónum króna í rúmar 49 milljónir króna áður en það hafi verið endurreiknað í tæpar 35 milljónir króna.
Stefnandi bendir á að það hljóti að teljast ósanngjarnt í skilningi framangreindrar lagagreinar að láta einstakling bera framangreinda hækkun á fasteignaláni sínu, en lánið sé forsenda þess að hún og fjölskylda hennar hafi þak yfir höfuðið. Stefnandi bendir á að afborganir af láninu hafi lengi verið henni ofviða þrátt fyrir að henni hafi tekist með mikilli vinnu síðustu árin að halda því í skilum.
Hvað lagarök varðar kveðst stefnandi byggja mál sitt á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og lögum nr. 151/2010 um breytingu á þeim fyrrnefndu. Mál sitt byggi stefnandi jafnframt á lögum nr. 7/1936 um umboð, samningsgerð og ógilda löggerninga, sem og meginreglum samninga-, kröfu- og neytendaréttar. Þá er vísað til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um heimild til að hafa uppi viðurkenningarkröfu vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að lokum vísar stefnandi til laga nr. 33/1944 um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og meginreglna eignaréttar. Málskostnaðarkröfu sína kveðst stefnandi byggja á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Um varnarþing vísar stefnandi til 9. málsgreinar lánasamningsins, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og jafnframt til 34. gr. sömu laga.
IV.
Stefndi kveður kröfu sína um að fyrsta tölulið í dómkröfum stefnanda verði vísað frá dómi í fyrsta lagi reista á því að fyrsti og annar töluliður í dómkröfum stefnanda feli í raun í sér sömu efnislegu kröfurnar. Þannig sé ljóst að ekki verði viðurkennt með dómi að eftirstöðvar hins umþrætta lánssamnings hinn 1. febrúar 2011 hafi verið 22.466.491 króna án þess að dómurinn viðurkenni að lánssamningurinn feli í sér skuldbindingu stefnanda í íslenskum krónum. Stefnandi hafi þannig enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um fyrsta tölulið í dómkröfum sínum og beri að vísa þeirri kröfu frá dómi, sbr. skýrt orðalag 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Verði niðurstaða réttarins sú að sýkna beri stefnda af fyrsta kröfulið sé afleiðing þess sú að stefnandi geti ekki jafnframt átt lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómsins um annan tölulið í dómkröfunum þar sem kröfur samkvæmt báðum töluliðunum séu efnislega þær sömu.
Stefndi kveðst ekki hafna því að eiga aðild að þessu máli. Hann kveður sýknukröfur sínar í aðal- og varakröfu byggjast á sömu málsástæðum og lagarökum og því verði fjallað um þær í einu lagi.
Stefndi kveðst byggja kröfu sína um sýknu af fyrsta kröfulið stefnanda á því að með hinum umþrætta lánssamningi milli stefnanda og Sparisjóðsins í Keflavík, dags. 31. maí 2006, hafi stefnandi skuldbundið sig til að taka lán í erlendum gjaldmiðlum. Stefndi byggi á því að skuldbinding stefnanda sé í erlendri mynt, nánar tiltekið japönskum jenum, og falli þar af leiðandi utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 1. mgr. 13. gr. þeirra laga.
Stefndi bendir á að Hæstiréttur Íslands hafi margsinnis leyst úr því hvort skuldabréf eða lánssamningar með sambærilegum skilmálum og sá lánssamningur sem um ræði í þessu máli séu lán í erlendum myntum eða lán í íslenskum krónum bundin gengi erlendra gjaldmiðla. Af fordæmum Hæstaréttar í svokölluðum gengistryggingarmálum telji stefndi augljóst að hið umþrætta lán sé lögmætt erlent lán. Í þessu sambandi vísar stefndi sérstaklega til eftirfarandi dóma Hæstaréttar:
Við úrlausn á því, hvort um er að ræða skuldbindingar í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, hafi Hæstiréttur fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggi til grundvallar skuldbindingunni. Við þetta mat hafi rétturinn þannig litið til nokkurra atriða, svo sem heitis viðkomandi löggernings, tilgreiningar lánsfjárhæðar, vaxta og skilmálabreytinga. Við þetta mat hafi þó einkum skipt máli hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í slíkum gerningum. Um þetta vísar stefndi meðal annars til dóma Hæstaréttar 7. júní 2012 í máli nr. 524/2011 og 23. nóvember 2011 í máli nr. 551 og 552/2011.
Þá hafi verið talið, við úrlausn á því hvort um er að ræða skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum eða íslenskum krónum, að það hafi ekki þýðingu hvort greiðslur séu inntar af hendi í íslenskum krónum, þegar skýrt komi fram í lánssamningi að skuldin sé í erlendri mynt. Um þetta vísar stefndi til dóms Hæstaréttar 16. maí 2013 í máli nr. 757/2012, sbr. áðurnefndan dóm í máli nr. 524/2011.
Af hálfu stefnda er á því byggt að framangreind mál hafi ótvírætt fordæmisgildi fyrir það mál sem hér sé til umfjöllunar. Sé litið til forms og meginefnis þess lánssamnings sem deilt sé um í þessu máli, líkt og gert hafi verið í framangreindum málum, komi berlega í ljós að skuldbinding stefnanda samkvæmt lánssamningnum sé í japönskum jenum. Verði nú rakin þau atriði sem hafa þýðingu í því samhengi:
Í fyrsta lagi kveðst stefndi benda á að heiti hins umþrætta lánssamnings sé „Lánasamningur í erlendri mynt.“
Í öðru lagi sé lánsfjárhæðin samkvæmt orðalagi lánssamningsins eingöngu tilgreind í erlendri mynt, en þar komi fram að stefnandi „viðurkennir hér með að skulda Sparisjóðnum í Keflavík [ ] eða þeim sem hann vísar til JPY 36.800.000,00 Þrjátíuogsexmilljónirogáttahundruðþúsund japönsk yen eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum [ ].“
Sé þannig eina tilgreining á lánsfjárhæðinni í lánssamningnum í japönskum jenum, en hvergi í lánssamningnum sé fjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum. Hefði það verið vilji aðila að lánið væri í íslenskum krónum, hefði legið beint við að fjárhæð lánsins væri tilgreind í krónum.
Í stefnu er því haldið fram að tilgreining lánsfjárhæðarinnar í lánssamningnum sé óskýr. Stefndi kveðst hafna því alfarið. Þvert á móti sé skuldbinding stefnanda tilgreind með afar skýrum hætti í japönskum jenum eingöngu.
Þá kveðst stefndi hafna því alfarið að dómar Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-1605/2013, Drómi hf. gegn Sætrum ehf., og nr. E-822/2013, Drómi hf. gegn Magnúsi og Steingrími ehf., hafi fordæmisgildi í máli þessu. Þar hafi dómurinn talið orðalag samningsins óljóst um það hvort skuldbindingar lántaka væru í íslenskum krónum eða erlendum myntum, en þar hafi skuldbindingar lántaka verið tilgreindar sem jafnvirði tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum í nánar tilteknum erlendum myntum, en fjárhæðar lánsins í þeim myntum hafi einnig verið getið. Þar sem dómurinn hafi talið tilgreiningu lánsfjárhæða í samningunum óskýra hafi dómurinn talið rétt að skoða samningana heildstætt til að skera úr um í hvaða mynt skuldbinding lántaka væri og hafi þá litið til annarra ákvæða samninganna og framkvæmdar þeirra að öðru leyti. Hafi dómurinn þá meðal annars litið til tiltekinna ákvæða samninganna sem dómurinn hafi talið mjög afdráttarlaus um að samningarnir væru í íslenskum krónum bundnir við gengi erlendra gjaldmiðla. Hins vegar sé ekki þörf á að ráðast í slíkt heildarmat hér og skoða framkvæmd lánssamningsins sérstaklega, enda sé ekki hægt að líta fram hjá afdráttarlausu orðalagi lánssamningsins um skuldbindingu stefnanda í japönskum jenum. Um það kveðst stefndi vísa til dómaframkvæmdar Hæstaréttar sem sé mjög skýr að þessu leyti.
Af dómaframkvæmd Hæstaréttar megi draga þá ályktun að þegar um sé að ræða svo skýra tilgreiningu á skuldbindingunni í erlendri mynt, líkt og í þessu máli, nægi orðalag skuldbindingarinnar eitt og sér til að ráða úrslitum um hvort skuldbindingin sé í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Um það sé vísað til dóms Hæstaréttar 26. mars 2014 í máli nr. 187/2014.
Í þriðja lagi bendir stefndi á að sérstaklega sé tilgreint í upphafsákvæði samningsins að um endurlánað erlent lánsfé sé að ræða. Liggi þannig fyrir að Sparisjóðurinn í Keflavík átti japönsk jen þegar að lánveitingunni kom og var að veita lán í þeirri mynt. Hins vegar hafi einnig verið ljóst að lántaki hugðist nýta íslenskar krónur til að standa skil á afborgunum og vöxtum af láninu. Af þeim sökum hafi verið kveðið á um að miða skyldi við sölugengi japanskra jena við umreikning lánsins yfir í íslenskar krónur. Aldrei hafi hins vegar verið ætlunin að við þetta yrði eðlisbreyting á láninu og það skyldi frá upphafi teljast íslenskt lán.
Í fjórða lagi kveðst stefndi benda á að ákvæði um vexti í lánssamningnum samræmist því að um erlent lán sé að ræða, en stefnanda hafi borið að greiða Libor-vexti, auk 2,5% álags. Slíkir vextir séu eingöngu reiknaðir á erlenda gjaldmiðla, en ekki íslensku krónuna.
Í fimmta lagi hafi verið gerðar nokkrar skilmálabreytingar á láninu, líkt og áður hafi verið rakið í málavaxtalýsingu. Hafi þær allar, nema ein, borið heitið „Breyting á greiðsluskilmálum erlends endurláns“. Líkt og heiti þeirra gefi til kynna hafi þær allar lotið að breytingu á greiðsluskilmálum lánsins, en þar hafi aðeins verið kveðið á um frestun á greiðslu afborgana. Í framangreindum skilmálabreytingum hafi verið tilgreind upphafleg fjárhæð lánsins í japönskum jenum, en ekki hafi verið vikið að fjárhæð þess í íslenskum krónum. Kveðst stefndi telja að skilmálabreytingarnar veiti vísbendingu um það viðhorf samningsaðila að lánið hafi verið veitt í japönskum jenum.
Þá hafi verið gerð ein breyting til viðbótar á skilmálum lánsins í desember 2012. Þar hafi endurgreiðsluskilmálum lánsins verið breytt með sambærilegum hætti og áður. Komi þar fram upphafleg fjárhæð lánsins, umreiknuð í íslenskar krónur, sem sé fyllilega eðlilegt þar sem lánið hafði þá þegar verið endurreiknað og því breytt í lán í íslenskum krónum í júlí 2011. Styðji þessi breytta framsetning við málatilbúnað stefnda um að lánið hafi verið í erlendum myntum fram til þess tíma er það var endurreiknað. Þá kveðst stefndi jafnframt benda á að umrædd skilmálabreyting hafi eingöngu snúist um frestun afborgana af láninu, en hafi á engan hátt verið ætlað að breyta erlendu láni í lán í íslenskum krónum. Um þetta kveðst stefndi vísa til dóms Hæstaréttar 27. mars 2014 í máli nr. 750/2013. Þar hafi meðal annars verið deilt um hvort skilmálabreytingar á lánssamningum hafi falið í sér að þeim hefði verið breytt úr því að vera um lán í erlendum myntum í lán í íslenskum krónum, en þar hafði eftirstöðva lánsins verið getið í íslenskum krónum. Hafi því verið hafnað að skilmálabreytingarnar fælu í sér slíkar breytingar, enda hafi meginefni þeirra verið breyting á endurgreiðsluskilmálum lánanna, en hvorki myntbreyting né önnur umbreyting á gjaldmiðli þeirra.
Í samræmi við framangreint þurfi ekki að skoða frekar framkvæmd lánsins, en það komi einungis til skoðunar í þeim tilvikum þar sem skýring á texta þess lánssamnings þar sem skuldbindingu lántaka er lýst taki ekki af skarið um það hvort hún er í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum. Hafi það því enga þýðingu fyrir úrlausn málsins hvernig ráðgert hafi verið í samningi að skyldur aðilanna yrðu efndar og hvernig efndir þeirra hafi orðið í raun. Stefndi kveðst mótmæla tilvísun stefnanda til dóms Hæstaréttar 21. nóvember 2013 í máli nr. 391/2013 að þessu leyti, en í því máli hafi skuldbinding lántaka einungis verið tilgreind í íslenskum krónum, en hvergi var getið um hana í erlendum gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutfalli þeirra. Hafi sá dómur því ekkert fordæmisgildi í því máli sem hér sé til umfjöllunar.
Til stuðnings kröfu sinni vísi stefndi til 7. og 8. gr. hins umþrætta lánssamnings, þar sem þar komi fyrir orðið „gengistrygging“, en framangreind ákvæði lánssamningsins fjalli um útreikning dráttarvaxta við vanefndir. Kveðst stefndi benda á að reginmunur sé á framangreindu orðalagi lánssamningsins um gengistryggingu, sem virðist hafa verið í samningnum fyrir mistök, og ákvæðum þeirra samninga sem fjallað hafi verið um í áðurnefndum dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. E-1605/2013, Drómi hf. gegn Sætrum ehf., og nr. E-822/2013, Drómi hf. gegn Magnúsi og Steingrími ehf. Framangreint orðalag í nefndum ákvæðum lánssamningsins komi með engu móti heim og saman við efni samningsins að öðru leyti. Stefndi kveðst hafna því að þetta atriði geti ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins, enda beri lánssamningurinn það með sér að öllu öðru leyti að um lán í erlendri mynt hafi verið að ræða. Ekki verði litið fram hjá afdráttarlausu orðalagi lánssamningsins þar sem skuldbinding stefnanda sé tilgreind í japönskum jenum.
Þá kveðst stefndi mótmæla fullyrðingum stefnanda um að útborgunargengi lánsins 0,6456 geti hvorki verið gengi útgreiðsludags né undirritunardags lánsins með vísan í dskj. nr. 11. Bendir stefndi á að dskj. nr. 11 hafi að geyma gengisskráningu Seðlabanka Íslands en ekki gengisskráningu Sparisjóðsins í Keflavík og hafi því ekkert sönnunargildi um hvaða gengi skyldi nota við umreikning höfuðstóls lánsins í íslenskar krónur. Svo sem fram komi á kaupnótu lánsins, sem liggi frammi sem dskj. nr. 7, þvert á fullyrðingar stefnanda, hafi lánið verið keypt inn í kerfi Sparisjóðsins í Keflavík með höfuðstólinn 36.800.000 japönsk jen og af honum hafi verið innheimt 552.000 japönsk jen í lántökugjald. Þessar fjárhæðir séu síðan reiknaðar yfir í íslenskar krónur og við það fáist út fjárhæðin 23.401.709 krónur, sem lögð hafi verið inn á tilgreindan reikning stefnanda.
Þá kveðst stefndi jafnframt mótmæla fráleitum bollaleggingum stefnanda um að greiðslukvittanir á dskj. nr. 12 og 13 gefi til kynna að lánið hafi verið gengistryggt. Greiðslukvittanir sýni einfaldlega að afborgun höfuðstóls og greiðsla vaxta hverju sinni hafi byggst á því að höfuðstóll lánsins væri í japönskum jenum og séu útreikningar í samræmi við það. Þar sem stefnandi hafi óskað eftir að nota íslenskar krónur hafi þurft að reikna hversu mörg japönsk jen stefnandi þyrfti að kaupa hverju sinni og sýni greiðslukvittanir því gengið og íslenska fjárhæð.
Með hliðsjón af því sem að framan hafi verið rakið og skýrum fordæmum Hæstaréttar í sambærilegum málum, telji stefndi ótvírætt að hið umþrætta lán hafi verið lögmætt erlent lán. Ákvæði 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 eigi því ekki við í þessu máli og beri þar af leiðandi að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Í samræmi við framangreint sé hið umþrætta lán lögmætt erlent lán. Því hafni stefndi því að eftirstöðvar lánsins þann 1. febrúar 2011 hafi verið 22.466.491 króna, líkt og stefnandi gerir kröfu um. Lán stefnanda hafi verið endurreiknað 1. júlí 2011 í samræmi við bráðabirgðaákvæði X., sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010. Hafi það verið gert óháð því hvort lán stefnanda væri lögmætt lán í erlendri mynt eða gengistryggt lán í íslenskum krónum. Þann dag hafi eftirstöðvar láns stefnanda, umreiknaðar í íslenskar krónur, numið 49.186.350 krónum, en verið lækkaðar í 34.905.136 krónur. Vegna fyrirmæla í lögum hafi þannig höfuðstóll láns stefnanda verið lækkaður töluvert og umreiknaður í íslenskar krónur. Stefndi hafi þannig aldrei viðurkennt að lánið feli í sér ólögmæta gengistryggingu. Sjónarmið um fullnaðarkvittanir geti þannig ekki komið til skoðunar með sama hætti og ef um gengistryggt lán í íslenskum krónum hefði verið að ræða. Því hafni stefndi að sér beri að endurreikna eftirstöðvar láns stefnanda frekar.
Vilji svo ólíklega til að rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að hið umþrætta lán hafi verið lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001, kveðst stefndi fallast á með stefnanda að undantekningarregla kröfuréttar um fullnaðarkvittanir eigi við í þessu tilfelli og að miða beri útreikninga við síðasta greidda gjalddaga lánsins fyrir endurreikning þess, þ.e. 1. febrúar 2011.
Stefndi kveðst benda á að það hafi enga þýðingu við úrlausn þessa máls að um sé að ræða lánssamning, en ekki skuldabréf. Af dómafordæmum Hæstaréttar þar sem skorið hafi verið úr um sambærilegan ágreining hafi verið litið til sömu sjónarmiða, hvort sem viðkomandi skuldaskjal hefur verið lánssamningur eða skuldabréf. Um þetta kveðst stefndi meðal annars vísa til dóma Hæstaréttar 23. nóvember 2011 í máli nr. 551/2011, 27. september 2012 í máli nr. 50/2012 og 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012. Í öllum þessum málum hafi verið deilt um skuld samkvæmt lánssamningum og við mat á því hvort skuldbindingar lántaka samkvæmt þeim væru í íslenskum krónum eða erlendum myntum hafi rétturinn litið bæði til forms og meginefnis samninganna. Hafi þar vegið þyngst tilgreining viðkomandi samninga á skuldbindingu lántaka.
Þá kveðst stefndi hafna þeirri skýringu stefnanda að með því að í dómi Hæstaréttar 2. maí 2013 í máli nr. 715/2012 hafi það ekki haft höfuðvægi í málinu hvernig aðilar hefðu efnt skyldur sínar þar sem um skuldabréf hefði verið að ræða og ályktun stefnanda að þar með eigi þessu að vera öfugt farið í því máli sem hér sé til umfjöllunar. Kveðst stefndi benda á að í framangreindu máli hafi skuldbinding aðila verið tilgreind með skýrum hætti í skuldabréfinu í japönskum jenum og því hafi ekki skipt máli hvernig aðilar efndu skyldur sínar samkvæmt samningnum. Sé það í samræmi við önnur fordæmi Hæstaréttar og eigi sömu sjónarmið við í þessu máli.
Þá kveðst stefndi hafna alfarið sem rangri og ósannaðri þeirri fullyrðingu í stefnu að Sparisjóðurinn í Keflavík hafi tjáð stefnanda að hún væri að gera lánssamning í íslenskum krónum.
Stefndi kveðst einnig hafna málsástæðu stefnanda um að það stangist á einhvern hátt við jafnræðisreglu stjórnarskrár að dæma lán hennar lögmætt erlent lán. Lán stefnanda sé lán í erlendum myntum og íslensk lög heimili að veita lán í öðrum myntum en íslenskum krónum. Með sömu rökum kveðst stefndi hafna málsástæðu stefnanda um að það sé ósanngjarnt af stefnda að krefja stefnanda um efndir lánssamningsins samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Í samræmi við allt framangreint beri að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, enda sé skuldbinding stefnanda samkvæmt hinum umþrætta lánssamningi í japönskum jenum og falli því utan gildissviðs VI. kafla laga nr. 38/2001.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 3., 4., 13. og 14. gr. laganna. Einnig vísar stefndi til almennra reglna samninga- og kröfuréttar um samningsfrelsi, skuldbindingargildi loforða og efndaskyldu krafna. Um frávísunarkröfu vísar stefndi til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 2. mgr. 25. gr. laganna. Loks kveður stefndi kröfu sína um málskostnað styðjast við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
V.
Í máli þessu deila málsaðilar um hvort samningur stefnanda og forvera stefnda, Sparisjóðsins í Keflavík, frá 31. maí 2006 feli í sér lán í erlendum gjaldmiðli eða í íslenskum krónum sem bundið sé gengi erlends gjaldmiðils með ólögmætum hætti, sbr. 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Enginn tölulegur ágreiningur er í málinu.
Eins og ítrekað hefur komið fram í dómum Hæstaréttar skal við úrlausn þess hvort um gilt lán í erlendum gjaldmiðlum sé að ræða eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum fyrst og fremst litið til forms og meginefnis þeirra gerninga sem liggja til grundvallar skuldbindingunni. Við það mat hefur rétturinn einkum litið til þess hvernig sjálf skuldbindingin er tilgreind í samningnum. Í því sambandi er fyrst að líta til heitis lánssamnings aðila en hann ber yfirskriftina „Lánasamningur í erlendri mynt“. Í öðru lagi er lánsfjárhæðin samkvæmt orðalagi samningsins tilgreind eingöngu í japönskum jenum eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum miðað við sölugengi þriggja nánar tilgreindra erlendra gjaldmiðla. Í þriðja lagi eru vextir samkvæmt lánssamningnum til samræmis við að um erlent lán sé að ræða eða Libor-vextir. Í fjórða lagi er til þess að líta að á tímabilinu frá 29. október 2008 til 31. október 2010, þ.e. áður en lánið var endurreiknað í samræmi við fyrirmæli í bráðabirgðaákvæði X laga nr. 151/2010, sbr. 18. gr. laga nr. 38/2001, voru fimm sinnum gerðar breytingar á skilmálum lánssamningsins og bera þær allar yfirskriftina: „Breyting á greiðsluskilmálum erlends endurláns nr. 109ERLB061580008“ og er í þeim öllum einungis getið upphaflegrar fjárhæðar lánsins í japönskum jenum. Í fimmta lagi er þess getið í lánssamningnum, sem og í skilmálabreytingunum fimm að um endurlánað erlent lánsfé eða erlent endurlán sé að ræða.
Allt þykir þetta benda til þess að hér sé um lán í erlendum gjaldmiðli að ræða. Á hinn bóginn var einnig kveðið á um það í samningnum að drægist greiðsla fram yfir gjalddaga væri skuldareiganda heimilt að láta gengistryggingu haldast á gjaldfallinni fjárhæð til greiðsludags. Einnig var kveðið á um að ef gengistrygging héldist á gjaldfallinni fjárhæð eftir gjalddaga skyldi greiða dráttarvexti í samræmi við vaxtalög. Þótt þessi ákvæði þyki ekki samrýmast efni lánssamnings málsaðila að öðru leyti verður ekki fram hjá því litið að í þeim er kveðið á um að gengistrygging skuli haldast við vanefndir á samningnum, en engin þörf var á að kveða á um slíkt ef lánið var í raun í erlendum gjaldmiðli eins og stefndi heldur fram að samningurinn kveði á um. Hér var því um misræmi að ræða í samningnum, sem veldur því að ekki er afdráttarlaust hvort hann kveður á um gilt lán í erlendum gjaldmiðli eða ólögmætt gengistryggt lán í íslenskum krónum.
Þar sem efni samningsskilmálanna er ekki ljóst verður að líta til gagna um framkvæmd og efndir samningsins. Gögn málsins bera með sér að stefndi greiddi út lánsfjárhæðina í íslenskum krónum 7. júní 2006. Þá liggur einnig fyrir að stefnandi greiddi afborganir og vexti af láninu í íslenskum krónum. Málsaðilar efndu því báðir skuldbindingar sínar í þeim gjaldmiðli. Með hliðsjón af framangreindu þykir stefndi ekki hafa leitt í ljós að um lán í erlendum gjaldmiðli hafi verið að ræða. Samkvæmt því verður að líta svo á að í lánssamningi málsaðila hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Í greinargerð lýsir stefndi því yfir að komist rétturinn að þeirri niðurstöðu, sem að framan greinir, fallist hann á með stefnanda að undantekningarregla kröfuréttar um fullnaðarkvittanir eigi við í málinu og að miða beri útreikninga við síðast greidda gjalddaga lánsins fyrir endurútreikning þess, þ.e. 1. febrúar 2011, en enginn tölulegur ágreiningur er með aðilum. Með hliðsjón af framangreindu eru dómkröfur stefnanda teknar til greina.
Stefndi greiði stefnanda 753.000 krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp dóminn. Við uppkvaðningu dómsins var gætt ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Viðurkennt er að í lánssamningi Sparisjóðsins í Keflavík og stefnanda, Hallfríðar G. Hólmgrímsdóttur, frá 31. maí 2006 hafi falist lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra gjaldmiðla í andstöðu við 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.
Viðurkennt er að eftirstöðvar framangreinds lánssamnings hafi hinn 1. febrúar 2011 verið að fjárhæð 22.466.491 króna.
Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda 753.000 krónur í málskostnað.