Hæstiréttur íslands
Mál nr. 632/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. september 2016, sem barst héraðsdómi sama dag og réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. september 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfesta ákvörðun hans 3. sama mánaðar um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind ákvörðun hans verði staðfest.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði liggur fyrir sálfræðileg matsgerð 4. apríl 2016 um hagi brotaþola. Þar kemur meðal annars fram að greindarvísitala hennar sé á stigi vægrar greindarskerðingar, en vegna einhverfueinkenna og skorts á aðlögunarhæfni verði að telja að skerðing hennar sé meiri en niðurstöður greindarprófs gefa til kynna og hugsanlega megi flokka þroskaskerðingu hennar á mörkum vægrar og miðlungs skerðingar. Einnig telur matsmaður að brotaþoli eigi af þessum sökum erfitt með að setja varnaraðila mörk en gagnvart henni hafi hann yfirburði vegna aldursmunar og greindarfars.
Að virtum rannsóknargögnum málsins leikur rökstuddur grunur á því að varnaraðili hafi framið brot gegn brotaþola sem varðað geti refsingu eftir XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Jafnframt stendur brotaþoli höllum fæti gagnvart varnaraðila og því er hætt við að hann muni brjóta gegn henni ef friðhelgi hennar er ekki vernduð. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum bæði a. og b. liða 4. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Vegna þeirrar hömlunar sem brotaþoli býr við getur ekki skipt máli þótt hún sé mótfallin nálgunarbanninu, enda er nægjanlega leitt í ljós að öðrum og vægari úrræðum verði ekki komið við, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt þessu verður krafa sóknaraðila tekin til greina.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum frá 3. september 2016 um að varnaraðili, X, sæti nálgunarbanni í þrjá mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða sé við lögheimili A að [...] í [...] eða heimili föður hennar að [...] í sama sveitarfélagi, nálgist hana á almannafæri á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus eða setji sig í samband við hana með nokkru móti.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Kristjáns B. Thorlacius hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 7. september 2016
Ár 2016, miðvikudaginn 7. september, er á dómþingi Héraðsdóms Suðurlands sem háð er að Austurvegi 4, Selfossi, af Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómara kveðinn upp úrskurður þessi.
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum hefur, með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 krafist þess að Héraðsdómur Suðurlands úrskurði að staðfest verði ákvörðun lögreglustjórans í Vestmannaeyjum sem tekin var þann 3. september 2016, með vísan til a. og b. liðar 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.
Umrædd ákvörðun felur í sér að X, kt. [...] sætir nálgunarbanni gagnvart A, kt. [...], í þrjá mánuði frá birtingu ákvörðunarinnar. X er á þessu tímabili bannað að veita A eftirför, bannað að koma að eða vera við lögheimili hennar að [...] og heimili föður hennar að [...], nálgast hana á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni eða setja sig í samband við hana í eigin persónu eða með öðru móti svo sem í gegnum síma, tölvupóst eða samfélagsmiðla, þar á meðal facebook.
Krafan barst dóminum á tölvupósti 5. september 2016 og var hún tekin fyrir á dómþingi 7. september 2016. Var þá mættur Kristján B. Thorlacius hrl., skipaður verjandi varnaraðila og upplýsti að varnaraðili mótmælti kröfunni og krefðist þess að henni yrði hafnað en til vara að nálgunarbanni yrði markaður skemmri tími. Þá krafðist verjandi þóknunar. Þá sótti Jónína Guðmundsdóttir hdl., skipaður réttargæslumaður, þing vegna brotaþola og upplýsti að brotaþoli vildi ekki að varnaraðila yrði gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni. Gerði réttargæslumaður jafnframt kröfu um þóknun. Af hálfu lögreglustjóra er krafist staðfestingar ákvörðunarinnar.
Málavextir
Í hinni kærðu ákvörðun segir að þann 3. júní 2016 hafi lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum borist bréf frá réttargæslumanni brotaþola, þar sem farið hafi verið fram á, fyrir hennar hönd, að lögreglustjórinn tæki ákvörðun um að X skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart A vegna kynferðisbrota gegn henni. Þann 4. júní 2016 hafi lögreglustjórinn tekið ákvörðun, með vísan til 1. mgr. 3. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011, að X skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart A í þrjá mánuði frá birtingu ákvörðunarinnar. Hafi ákvörðun lögreglustjórans verið staðfest með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands þann [...] í máli nr. [...]. Nálgunarbannið sem X hafi verið gert að sæta í júní sl. falli úr gildi þann 4. september nk. Hafi lögreglustjórinn því, með vísan til 3. mgr. 3. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 tekið ákvörðun um að X skuli sæta áframhaldandi nálgunarbanni gagnvart A í þrjá mánuði til viðbótar.
Segir að þann 14. mars 2015 hafi B, kt. [...], og C, kt. [...], komið á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum ásamt dóttur B, A, kt. [...], og tilkynnt að þeim [sic.] grunaði að A hafi orðið fyrir kynferðisbroti af hálfu X, kt. [...]. A sé þroskahömluð. B hafi orðið var við að A liði illa og líðan hennar hafi versnað að undanförnu, eða frá því í nóvember 2015. B hafi rætt við dóttur sína daginn áður og hafi hún þá greint honum frá því að X og hún væru í miklum samskiptum og hann hafi boðið henni heim til sín í nokkur skipti. Hafi hún greint hún frá því að þau hafi oft kúrað saman og í eitt skiptið hafi hann verið nakinn undir sænginni í rúminu. Hafi A sagst hafa séð að hann hafi verið nakinn þegar hann hafi svarað í símann en þá hafi hann snúið sér þannig að hún hafi séð rassinn á honum. Hafi hún sagst ekki hafa séð kynfæri hans. A hafi einnig greint frá því að hann hafi í nokkur skipti káfað á kynfærum hennar, bæði innan klæða og utan. A hafi ekki viljað eða getað greint frá því hvað hann hafi gengið langt. Þá hafi hún greint frá því að hann hafi beðið um að fá að sjá kynfæri hennar en það hafi verið óljóst í frásögn hennar hvort hún hafi sýnt honum eitthvað eða ekki. Brotin hafi átt að hafa átt sér stað á haustmánuðum 2014 á heimili kærða. Aðspurð hafi A sagst ekki líta á X sem kærasta sinn og sagst ekki vilja að hann væri kærasti sinn. Hann hefði aldrei beitt hana ofbeldi og væri hún því ekki hrædd við hann. Þá hafi verið rætt við móður brotaþola, D, kt. [...], sem kvaðst hafa vitað af samskiptum brotaþola og sakbornings. Hafi hún sagt samband þeirra vera vinasamband. Að sögn D hafi reyndar á tímabili litið út eins og brotaþoli liti á sakborning sem kærasta sinn og hún hafi spurt brotaþola út í það. Brotaþoli hafi hins vegar svarað að hún liti ekki á sakborning sem kærasta sinn heldur vin. Hafi D greint frá því að brotaþoli hafi tjáð sér að sakborningur hafi lagst upp í rúm til hennar nakinn auk þess sem hann hafi verið að reyna að fá hana til að sýna á sér kynfærin, sem hún hafi þó ekki gert.
Í framhaldinu hafi verið teknar skýrslur af E, kt. [...], stjúpföður brotaþola, D, móður brotaþola, C, stjúpmóður brotaþola og B, föður brotaþola. Skýrslutökurnar hafi allar farið fram þann 17. mars 2015 nema skýrslutaka B sem hafi verið þann 18. mars 2015. Samkvæmt framburði D, móður brotaþola, hafi brotaþoli og sakborningur fyrst kynnst fyrir nokkrum árum þegar brotaþoli hafi fengið lánaða vespu hjá sakborningi. Hafi hún greint hún frá því að tveimur árum síðar hafi brotþoli farið að vinna á [...] þar sem sakborningur hafi unnið og upp frá því samstarfi hafi myndast vinátta. Öll hafi þau greint frá því að sakborningur og brotaþoli væri vinir og væru í miklum samskiptum. Þá hafi þau greint frá því að brotaþoli hafi sagt þeim frá framangreindum kynferðisbrotum og hún kærði sig ekki um þau. Auk þess hafi þau greint frá vanlíðan brotaþola í kjölfar brotanna.
Þann 18. mars 2015 hafi verið tekin skýrsla af sakborningi á lögreglustöðinni í Vestmannaeyjum. Hafi hann neitað sök og sagt þau bara vini. Hafi hann greint frá því að brotaþoli hafi komið nokkrum sinnum heim til hans og spilað tölvuleiki en það hafi aldrei verið neitt kynferðislegt í gangi á milli þeirra. Þá hafi þau borðað saman og hann hafi skutlað henni á milli staða.
Þann 20. mars 2015 hafi verið tekin skýrsla af brotaþola í Barnahúsi en vegna þroskahömlunar hennar hafi þótt þurfa að tryggja henni viðeigandi aðstöðu svo hún treysti sér til að tjá sig. Skýrslutakan hafi gengið hægt en vel fyrir sig og hafi brotaþoli gefið trúverðugan framburð.
Þann 1. apríl 2015 hafi aftur verið tekin skýrsla af sakborningi þar sem framburður brotaþola hafi verið borinn undir hann. Sem fyrr hafi hann neitað sök. Í skýrslutökunni hafi einnig samskipti kærða og brotaþola á facebook verið borin undir hann. Sakborningur hafi sent brotaþola skilaboð þar sem hann hafi spurt brotaþola hvort hann væri nokkuð að ganga of langt með strokunum og kúrinu. Skömmu síðar hafi sakborningur sent skilaboð um að sér þætti gott að kúra og hann sofi stundum nakinn. Í kjölfarið spyrji hann svo brotaþola hvort henni hafi þótt það óþægilegt. Brotaþoli hafi svarað að sér þætti það smá óþægilegt. Hafi sakborningur neitað að tjá sig um samskipti þeirra á facebook en játað þó að hafa sent framangreind skilaboð.
Í geðheilbrigðisrannsókn F geðlæknis dags. 25. júlí 2015, þar sem framkvæmt hafi verið geð- og greindarmat á brotaþola og geðheilbrigðismat á sakborningi, komi fram að heildargreindarvísitala brotaþola sé nálægt 75, sem teljist vera á jaðarsvæði en sakborningur sé ekki greindarskertur þar sem heildargreindarvísitala hans sé 100. Í matinu hafi komið fram að sakborningur og brotaþoli upplifi sig bæði sem einmana einstaklinga sem eigi fáa vini og sæki bæði í samskipti við hvort annað, auk þess sem þau hafi lýst nánum samskiptum sínum með hliðstæðum hætti eftir því sem best verði séð. Niðurstaða F hafi verið sú að sakborningur hafi virt þau mörk sem brotaþoli hafi sett í samskiptum þeirra en að hann hafi samt gengið lengra í þeirra nánu samskiptum en hún hafi verið tilbúin til að gera. Í matinu komi einnig fram að sakborningur hafi játað brot sín að hluta í matsviðtölum.
Brotaþoli hafi verið í sálfræðimeðferð hjá G, sálfræðingi. Í niðurstöðum vottorðs hennar dags. 24.11.15 komi fram að þetta ferli hafi verið íþyngjandi fyrir brotaþola, bæði vegna þess að henni liðið illa þegar brotin hafi átt sér stað sem og að henni líði illa í kjölfar þeirra þar sem hún hafi misst eina vin sinn. Brotaþoli voni að hún geti orðið vinur sakbornings aftur. G segist eiga erfitt með að sjá hvernig tryggja megi öryggi hennar í návist hans ef slík umgengni sé eftirlitslaus og segi G það alltaf vandmeðfarið þegar óskir fullveðja þroskahamlaðs einstaklings stangist á við mat samfélagsins um hvernig best sé að tryggja öryggi einstaklingsins. Í niðurstöðunum komi einnig fram að brotaþoli eigi almennt erfitt með að tjá eigin óskir ef hún mæti einhverju mótlæti. Þá telji G þau ekki vera á jafningjagrundvelli þar sem brotaþoli sé leiðitöm og auðvelt sé að hafa áhrif á skoðanir hennar og hegðun. Í lok vottorðsins sé dregin sú ályktun að þar sem að sakborningur hafi verið mikilvægur hluti af lífi hennar hafi það verið brotaþola einkar erfitt að setja honum mörk og með því stefna vináttu þeirra í hættu.
Þann 13. janúar 2016 hafi embætti lögreglustjórans borist bréf frá réttargæslumanni brotaþola þar sem hafi verið farið fram á að matsmaður yrði dómkvaddur til að framkvæma geð- og greindarmat á brotaþola. Í bréfinu hafi einnig verið farið fram á að lögreglustjórinn tæki ákvörðun um nálgunarbann. Þann 19. janúar 2016 hafi lögreglustjórinn tekið ákvörðun um að sakborningur skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart brotþola í þrjá mánuði frá birtingu ákvörðunarinnar. Héraðsdómur Suðurland hafi fellst ákvörðunina úr gildi með úrskurði þann [...] 2016 í máli nr. [...].
Gögn málsins hafi verið send embætti héraðssaksóknara þann 14. janúar 2016 þar sem lögreglustjórinn hafi talið rannsókn málsins lokið. Þann 27. janúar 2016 hafi málið verið endursent lögreglustjóranum til frekari rannsóknar þar sem nýjar upplýsingar væru komnar fram í málinu. Héraðssaksóknari hafi einnig talið rétt að lögreglustjóri færi fram á að dómkvaddur yrði sálfræðingur til að meta þroska og andlega heilsu brotaþola, getu hennar til að segja ósatt eða bera rangt um atvik sem og tengsl hennar við sakborning og upplifun hennar af þeirra samskiptum. Jafnframt hafi héraðssaksóknari talið að lögreglustjóri ætti að fara fram á að dómkvaddur yrði geðlæknir til að meta geðheilbrigði sakbornings og þá hvort 15. og/eða 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ætti við um hann.
Þann 8. febrúar 2016 hafi lögreglustjórinn farið þess á leit við Héraðsdóm Suðurlands að dómkvaddur yrði matsmaður til að leggja mat á framangreind atriði bæði hvað varðar sakborning og brotaþola. Þann 11. febrúar 2016 hafi H sálfræðingur verið dómkvaddur til verksins. Þann sama dag hafi beiðni lögreglustjóra um dómkvaðningu geðlæknis til að meta sakborning verið mótmælt af hálfu verjanda hans þar sem þegar lægi fyrir sérfræðiálit varðandi þá þætti sem krafist væri mats um. Þann 16. febrúar 2016 hafi verið kveðinn upp úrskurður þess efnis að dómkveðja skyldi matsmann til að meta geðheilbrigði sakbornings og þá hvort 15. og/eða 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ætti við um hann. Þann 18. febrúar 2016 hafi I geðlæknir verið dómkvaddur til verksins.
Þann 5. febrúar 2016 hafi verið tekin skýrsla af D, móður brotaþola, þar sem nýjar upplýsingar væru komnar fram í málinu. Hafi hún greint frá því að brotaþoli hafi greint sér frá því að sakborningur hefði sleikt eða kysst á henni kynfærahárin.
Þann 24. febrúar 2016 hafi verið tekin skýrsla af brotaþola þar sem nýjar upplýsingar væru komnar fram í málinu. Sem fyrr hafi brotaþoli gefið trúverðugan framburð.
Þann 23. mars 2016 hafi embætti lögreglustjórans borist bréf frá réttargæslumanni brotaþola þar sem réttargæslumaður hafi bent á að sakborningur hefði komið á vinnustað brotaþola í a.m.k. tvígang síðustu tvær vikurnar til að spjallað við hana. Í kjölfarið hafi lögreglan sett sig í samband við sakborning og beint þeim tilmælum til hans að vera ekki í samskiptum við brotaþola. Hafi sakborningur sagst ætla að fara eftir fyrirmælum lögreglu.
Í sálfræðilegri matsgerð H dags. 4. apríl 2016, hafi komið fram að heildargreindarvísitala brotaþola sé 65, þ.e.a.s. á stigi vægrar greindarskerðingar, en vegna einhverfueinkenna og skorts á aðlögunarfærni megi segja að skerðing hennar sé meiri en niðurstöður greindarprófs gefi til kynna og mætti því flokka hennar skerðingu á mörkum vægrar og miðlungs skerðingar. Þá komi fram að matsmaður telji að brotaþoli eigi erfitt með að setja sakborningi mörk m.t.t. kynferðislegra athafna vegna þroskavandamála og leið brotaþola í þeim efnum hafi verið í samræmi við þroska hennar, þ.e. að herða beltið sitt. Auk þess komi fram að vinátta sakbornings og brotaþola geri henni erfiðara um vik að setja mörk þar sem hún óttist að missa eina vin sinn. Í matsgerðinni leggi matsmaður einnig áherslu á að um 30 ára aldurmunur sé á brotaþola og sakborningi sem og verulegur munur sé á greindarþroska þeirra sem valdi algerri yfirburðastöðu sakbornings gegn brotaþola.
Í geðheilbrigðisrannsókn I dags. 10. apríl 2016 komi fram að sakborningur sé sakhæfur. Bæði samkvæmt 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá komi einnig fram að sakborningur hafi játað brot sína að hluta í matsviðtölum.
Þann 14. apríl 2016 hafi verið tekin skýrsla af J, kt. [...], mágkonu brotaþola, þar sem hún hafi haft nýjar upplýsingar um málið. Hafi hún greint frá því að brotaþoli hefði tjáð sér að sakborningur hefði ítrekað beðið brotaþola að snerta á sér kynfærin.
Þann 25. apríl 2016 hafi verið tekin skýrsla af K, kt. [...], bróður brotaþola. Hafi hann einnig greint frá því að brotaþoli hefði tjáð sér að sakborningur hefði beðið brotaþola að snerta á sér kynfærin.
Þann 22. apríl 2016 hafi verið tekin skýrsla af sakborningi og nýjar upplýsingar í málinu bornar undir hann. Hafi hann neitað að hafa skoðað kynfæri brotaþola sem og að hafa sleikt eða kysst á henni kynfærahárin. Þá hafi hann neitað því að hafa beðið hana að snerta á sér liminn.
Þann 3. júní 2016 hafi embætti lögreglustjórans í Vestmannaeyjum á ný borist bréf frá réttargæslumanni brotaþola þar sem farið hafi verið fram á að lögreglustjórinn tæki ákvörðun um að sakborningur skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola þar sem hann hefði verið að koma á vinnustað hennar og spjalla við hana þrátt fyrir að lögreglan hafi beint þeim tilmælum til hans að vera ekki í samskiptum við hana.
Sakboringur hafi að hluta til gengist við þeim brotum, sem honum séu gefin að sök, í viðtölum við geðlækna í tengslum við rannsókn málsins. Hann hafi þó neitað sök í skýrslutökum hjá lögreglu. Þá hafi brotaþoli lýst ítrekuðum brotum sakbornings gagnvart sér í skýrslutökum hjá lögreglu og fyrir dómi. Auk þess hafi vitni sömuleiðis greint frá því í skýrslutökum hjá lögreglu að brotaþoli hafi lýst fyrir þeim ítrekuðum brotum sakbornings gagnvart sér. Telji lögreglustjórinn því að rökstuddur grunur sé fyrir því að sakborningur hafi framið refsivert brot gagnvart brotaþola. Skilyrði a. liðar 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 sé því uppfyllt.
Af gögnum málsins megi sjá að sakborningur og brotaþoli hafi verið í reglulegum samskiptum áður en til nálgunarbannsins kom. Telji lögreglustjórinn því, með hliðsjón af fyrri samskiptum sakbornings og brotaþola, að hætta sé á því, ef sakborningur sætir ekki nálgunarbanni gagnvart brotaþola, að hann muni setja sig í samband við hana og brjóta gegn henni á ný. Skilyrði b. liðar 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 sé því einnig uppfyllt.
Þá vilji lögreglustjórinn benda á að í samskiptum þeirra hafi sakborningur ítrekað sagt að mál þetta væri rugl og vitleysa og gert lítið úr brotum sínum gagnvart brotaþola. Telji lögreglustjórinn að þannig sé sakborningur að hafa áhrif á framburð brotaþola á síðari stigum málsins. Því sé mikilvægt að þau séu ekki í samskiptum meðan málið er til meðferðar í réttarvörslukerfinu þar sem samskipti þeirra geti hafi alvarlegar afleiðingar á framgang málsins í kerfinu. Í vottorði G, sálfræðings, komi fram að auðvelt sé að hafa áhrif á brotaþola og skoðanir hennar auk þess sem hún sé leiðitöm. Auk þess komi fram í mati H, sálfræðings, að brotaþoli sé greindarskert þar sem heildargreind hennar sé 65 stig, sem teljist vera væg greindarskerðing, en vegna einhverfueinkenna hennar og skorts á aðlögunarhæfni megi segja að greindarskerðing hennar sé meiri og sé því á mörkum vægrar og miðlungs greindarskerðingar. Í mati I komi fram að sakborningur sé ekki greindarskertur. Verulegur munur sé því á greind sakbornings og brotaþola auk þess sem um 30 ára aldursmunur sé á þeim og valdi það algerri yfirburðastöðu sakbornings gagnvart brotaþola.
Auk þess telji lögreglustjórinn að friðhelgi brotaþola verði ekki vernduð með öðrum og vægari hætti en nálgunarbanni sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu frá 23. mars 2016 hafi lögreglan beint þeim tilmælum til sakbornings að vera ekki í samskiptum við brotaþola. Hafi sakborningur sagst ætla að fara að fyrirmælum lögreglu. Síðar hafi lögreglu borist upplýsingar frá réttargæslumanni brotaþola að sakborningur væri að setja sig í samband við brotaþola með því að koma á vinnustað hennar til að spjalla við hana. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu frá 3. júní 2016 hafi vinnuveitandi brotaþola staðfest að sakborningur hefði verið að koma á vinnustað brotaþola til að hitta hana og spjalla við hana.
Með vísan til alls framangreinds hafi lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum því tekið ákvörðun um sakborningur skuli sæta áframhaldandi nálgunarbanni gagnvart brotaþola í þrjá mánuði til viðbótar, eða þar til málinu er lokið í réttarvörslukerfinu, líkt og nánar greinir í ákvörðunarorði. Sakborningur og brotaþoli séu óskyld, þau vinni ekki á sama vinnustað, séu ekki í sömu fjölskyldu og tengist ekki með öðrum hætti en vinskap. Áhrif nálgunarbannsins séu því að mati lögreglustjórans ekki verulega íþyngjandi fyrir sakborning.
Réttaráhrif ákvörðunar þessarar miðist við birtingu. Brot gegn ákvörðun þessari varði sektum eða fangelsi allt að einu ári, sbr. 232. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Lögreglustjóri skuli bera ákvörðunina undir héraðsdóm svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur sólarhringum eftir að ákvörðun var birt fyrir sakborningi, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.
Ákvörðunarorð mælir fyrir um að sakborningur, X, kt. [...], skal sæta nálgunarbanni gagnvart A, kt. [...], í þrjá mánuði frá birtingu ákvörðunar þessarar. X er á þessu tímabili bannað að veita A eftirför, bannað að koma að eða vera við lögheimili hennar að [...] og heimili föður hennar að [...], nálgast hana á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni eða að setja sig í samband við hana í eigin persónu eða með öðru móti, svo sem í gegnum síma, tölvupóst eða samfélgasmiðla, þar á meðal facebook.
Var ofangreind ákvörðun birt varnaraðila 4. september 2016 kl. 13:40.
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna vegna þeirra atvika sem urðu tilefni þess að framangreint nálgunarbann var ákveðið af lögreglustjóra.
Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja háttsemi samkvæmt framanlýstum a-lið gagnvart brotaþola.
Í 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/2011 kemur fram að brotaþoli, aðili honum nákominn, lögráðamaður eða félagsþjónusta geti borið fram kröfu um nálgunarbann. Í 3. mgr. 3. gr. laganna kemur jafnframt fram að lögreglustjóri geti einnig að eigin frumkvæði tekið mál til meðferðar samkvæmt lögunum ef hann telji ástæðu til þess. Er krafa lögreglustjóra í málinu byggð á þessari heimild, en fram hefur komið að brotaþoli vill ekki að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni. Er afstaða brotaþola nú að þessu leiti önnur en fyrrum. Við fyrirtöku vísaði fulltrúi lögreglustjóra m.a. til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 235/2015 um að afstaða brotaþola réði ekki endilega niðurstöðu slíks máls.
Í málinu hefur komið fram að ekki liggur annað fyrir en að varnaraðili hafi virt það nálgunarbann sem hann hefur sætt frá því í sumarbyrjun. Ekki hefur komið fram að brotaþoli sé háð varnaraðila eða telji sig hafa tilefni til þess að óttast hann þannig að slík atriði geti haft áhrif á afstöðu hennar gagnvart áframhaldandi nálgunarbanni. Þykir þannig framangreindur dómur Hæstaréttar í málinu nr. 235/2015 hafa takmarkað fordæmisgildi hér. Má hér jafnframt líta til lögskýringargagna með ákvæði 3. mgr. 3. gr. nefndra laga.
Hins vegar hefur komið fram að brotaþoli hefur litið á varnaraðila sem vin sinn og í aðra röndina hefur henni fallið þungt að geta ekki haft við hann samskipti. Til þess ber að líta að þrátt fyrir skerðingu sína þá hefur brotaþoli fullt lögræði, en vegna skerðingar sinnar á hún rétt til aðstoðar frá sveitarfélaginu, m.a. í formi liðveislu í tengslum við samskipti sín við annað fólk, sbr. m.a. X. kafla laga nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Hagsmunir brotaþola eru ekki aðeins bundnir við að njóta verndar þeirrar sem lög nr. 85/2011 mæla fyrir um, heldur eru hagsmunir hennar einnig bundnir við að geta og mega hafa samskipti við fólk sem hún telur vini sína, þ. á m. varnaraðila.
Þá verður ekki horft fram hjá þeirri skerðingu á persónu- og ferðafrelsi varnaraðila sem felst í nálgunarbanni.
Þykja þannig ekki alveg nægar ástæður til að fallast á kröfu lögreglustjóra um að varnaraðili sæti áframhaldandi nálgunarbanni og verður því kröfunni hafnað.
Þóknun skipaðs verjanda kærða, Kristjáns B. Thorlacius hrl., ákveðst kr. 122.760 að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk aksturskostnaðar hans, kr. 12.540. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., ákveðst kr. 126.108 að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þóknanirnar og aksturskostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Hafnað er kröfu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að varnaraðili, X, skuli sæta nálgunarbanni gagnvart A.
Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Kristjáns B. Thorlacius hrl., kr. 122.760 að teknu tilliti til virðisaukaskatts, auk aksturskostnaðar hans, kr. 12.540, sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., kr. 126.108 að teknu tilliti til virðisaukaskatts.