Hæstiréttur íslands

Mál nr. 237/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framhaldssök
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 20

 

Mánudaginn 20. ágúst 2001:

Nr. 237/2001.

Jakob A. Traustason

(sjálfur)

gegn

Almennu málflutningsstofunni sf.

Hróbjarti Jónatanssyni

Jónatan Sveinssyni

Reyni Karlssyni og

Leifi Árnasyni

(Ólafur Axelsson hrl.)

 

Kærumál. Framhaldssök. Frávísunarúrskurður staðfestur.

J höfðaði mál á hendur A sf. og fleirum með stefnu 17. nóvember 1999. Eftir að héraðsdómari fékk málinu úthlutað, tók hann það fyrir í sjö skipti. Fyrst við upphaf aðalmeðferðar óskaði J eftir að leggja fram framhaldsstefnu í málinu. Talið var að J hefði hæglega getað höfðað framhaldsssök í málinu löngu fyrr en raun varð á. Úrskurður héraðsdóms um að vísa framhaldssökinni frá dómi var staðfestur samkvæmt því og með skírskotun til 29. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2001, þar sem hafnað var að sóknaraðili fengi komið að í máli sínu gegn varnaraðilum nánar tilgreindum dómkröfum. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að koma að í málinu „framhaldsstefnu í framhaldssök, dags. 21. maí 2001, er birt var fyrir stefndu þann sama dag og þingfest á boðuðu dómþingi í hlutaðeigandi máli, þann 31. maí 2001.” Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður.

I.

Sóknaraðili höfðaði mál þetta gegn varnaraðilum með stefnu 17. nóvember 1999. Það var þingfest 11. janúar 2000. Sóknaraðili krafðist þess í stefnu að varnaraðilar yrðu dæmdir í sameiningu til að greiða sér aðallega 2.560.271 krónu, en til vara 1.965.787 krónur, með dráttarvöxtum af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 20. nóvember 1988 til greiðsludags og málskostnað. Varnaraðilar tóku til varna í málinu og lögðu fram greinargerð á dómþingi 28. mars 2000. Héraðsdómarinn, sem kvað upp hinn kærða úrskurð, fékk málinu úthlutað 3. apríl sama árs. Hann tók það fyrir sjö skipti á tímabilinu frá 14. apríl 2000 til 22. mars 2001, en ákveðið var í síðastnefndu þinghaldi að aðalmeðferð yrði í málinu 31. maí 2001. Þegar málið var tekið fyrir þann dag var fært til bókar að sóknaraðili óskaði eftir að leggja fram framhaldsstefnu í málinu. Því mótmæltu varnaraðilar. Framhaldsstefnan var ekki lögð fram í þinghaldinu og tók héraðsdómari ágreining aðilanna um heimild sóknaraðila til að höfða framhaldssök þegar til úrskurðar. Var hinn kærði úrskurður síðan kveðinn upp 15. júní 2001 og niðurstaða hans sú, sem áður greinir.

Þótt framhaldssök sóknaraðila hafi samkvæmt framansögðu ekki verið þingfest með því að stefna í henni yrði lögð fram í dómi, verður að líta svo á að málsmeðferð héraðsdómara hafi jafngilt því að framhaldssökinni hafi verið vísað frá dómi. Er kæra úrskurðarins því heimil samkvæmt j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

II.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurður verður fallist á með héraðsdómara að sóknaraðili hefði hæglega getað höfðað framhaldssök í málinu löngu fyrr en raun varð á. Samkvæmt því og með skírskotun til 29. gr. laga nr. 91/1991 getur sóknaraðili þannig ekki nú komið framhaldssökinni að í málinu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða hverjum varnaraðila fyrir sig kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Jakob A. Traustason, greiði varnaraðilum, Almennu málflutningsstofunni sf., Hróbjarti Jónatanssyni, Jónatan Sveinssyni, Reyni Karlssyni og Leifi Árnasyni, hverjum fyrir sig 15.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. júní 2001.

 

Í því máli sem hér er til meðferðar fyrir dómi gerði stefnandi þær dómkröfur í stefnu sinni, sem birt var 18. nóvember 1999, aðallega að stefndu yrðu dæmdir til að greiða honum bótakröfu að fjárhæð 2.560.271 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 500.000 krónum frá 20. nóvember 1988 til 1l. júní 1991 og af 785.000 krónum frá þeim degi til 26. september 1993 og af 1.274.849 krónum frá þeim degi til 19. október 1996 og af 2.560.271 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Til vara krafðist stefnandi þess að stefndu yrðu dæmdir til að greiða honum bótakröfu að fjárhæð 1.965.787 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 500.000 krónum frá 20. nóvember 1988 til 10. ágúst 1991 og af 1.115.000 krónum frá þeim degi til 12. nóvember 1993 og af 1.965.787 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Málið var þingfest 11. janúar 2000, úthlutað dómara 3. apríl 2000.  Á dómþingi 14. apríl 2000 var málinu frestað til gagnaöflunar til 4. maí það ár.  Þann dag var málinu enn frestað í sama tilgangi til 27. júní það ár.  Þann dag voru lögð fram skjöl af hálfu stefnanda og stefndu og málinu frestað að ósk stefnanda til frekari gagnaöflunar til 8. september 2000.  Þann dag voru lögð fram fleiri skjöl af hálfu stefnanda ásamt áskorun stefnanda um að stefndu legðu fram gögn um ákveðin atriði sem hann tilgreindi.  Málinu var þá frestað til 22. sama mánaðar.  Í því þinghaldi voru frekari skjöl lögð fram af hálfu stefnanda og lýstu stefnandi og lögmaður stefndu öflun sýnilegra sönnunargagna lokið.  Aðalmeðferð málsins var þá ákveðin 1. desember 2000.  Þann 1. desember 2000 var aðalmeðferð málsins frestað vegna veikinda lögmanns stefndu.  Í samráði við stefnanda var aðalmeðferðinni frestað til 22. mars 2001, en dómarinn taldi að fyrir þann tíma væri fullbókað að dómtaka mál til viðbótar öðrum málum, sem þá voru ákveðin til aðalmeðferðar hjá honum.  Þann 22. mars 2001 lagði stefnandi, með samþykki lögmanns stefndu, fram 9 skjöl til viðbóta.  Lögmaðurinn kvaðst þurfa að kynna sér þessi gögn og var þá aðalmeðferð málsins enn frestað og nú til 31. maí sl.

Á dómþingi 31. maí sl. óskaði stefnandi eftir að leggja fram framhaldsstefnu.  Þar er tilgreint að endanlegar dómkröfur stefnanda séu nú þær aðallega að stefndu verði, in solidum, dæmdir til að greiða honum bótakröfu að fjárhæð 4.567.350 kr. ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 285.000 kr. frá 11. júní 1991 til 26. september 1993 og af 774.849 kr. frá þeim degi til 19. október 1996 og af 4.564.350 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Segir að til vara sé krafist að stefndu verði, in solidum, dæmdir til að greiða honum bótakröfu að fjárhæð 3.972.866 kr. samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 615.000 kr. frá 10. ágúst 1991 til 12. nóvember 1993 og af 1.465.797 kr. frá þeim degi til 19. október 1996 og af 3.972.866 kr. frá þeim degi til greiðsludags.  Þá segir að stefnandi geri vara varakröfu, er sé sams konar krafa og aðalkrafa í upphaflegri stefnu málsins, og þrautavarakröfu, er sé sams konar krafa og sett var fram sem varakrafa í upphaflegri stefnu.

Lögmaður stefndu mótmælti framhaldsstefnu á grundvelli þess að hún væri of seint fram komin og ætti sér ekki lagastoð.  Stefnandi taldi hins vegar að ákv. 29. gr. eml. fælu í sér heimild til að framhaldsstefna með þessum hætti.  Var þessi ágreiningur þá tekinn til úrskurðar.

Í svonefndri framhaldsstefnu segir m.a.: „Sú viðbótarkrafa sem tilkomin er með framhaldsstefnu þessari (eða framhaldssök) byggir á skuldastöðuyfirliti innheimtumáls nr. 0339-002, dags. 19. september 996, en það gagn fékk stefnandi fyrst í hendur er stefndu lögðu það fram undir rekstri málsins sem dskj. 14."

Dómskjal nr. 14. var lagt fram á dómþingi 28. mars 2000.  Verður að meta það til vanrækslu af hálfu stefnanda að hafa ekki gert viðbótarkröfur fyrr en í maí 2001 vegna upplýsinga sem honum var kunnugt um 28. mars 2000.  Gegn mótmælum stefndu verður því ekki fallist á að stefnandi komi að í þessu máli umræddum viðbótarkröfum.

Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Hafnað er kröfu stefnanda, Jakobs A. Traustasonar, um að koma að í þessu máli bótakröfu að fjárhæð 4.567.350 krónur ásamt dráttarvöxtum og til vara bótakröfu að fjárhæð 3.972.866 krónur ásamt dráttarvöxtum.