Hæstiréttur íslands
Mál nr. 2/2010
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
|
Fimmtudaginn 28. október 2010. |
|
|
Nr. 2/2010. |
M (Dögg Pálsdóttir hrl.) (Þyrí H. Steingrímsdóttir hdl.) gegn K (Sigurbjörn Magnússon hrl.) (Stefán A. Svensson hdl.) og gagnsök |
Börn. Forsjá.
M og K deildu um forsjá barna sinna. Dómkvaddur matsmaður hafði komist að þeirri niðurstöðu að þau væru bæði vel hæf til að fara með forsjá barnanna. Í héraðsdómi var K falin forsjáin ásamt því að kveðið var á um umgengni við M, en aðilar undu niðurstöðu héraðsdóms um umgengnina. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að K búi enn á æskuheimili barnanna þar sem þau hafi átt lögheimili undanfarin ár. Af gögnum málsins væri ljóst að erfiðleikar í samskiptum aðila yrðu einkum raktir til þess að M hafi ekki beitt sér til þess að framfylgt yrði þeirri skipan á umgengni hans við börnin, sem á hverjum tíma var ákveðin, ýmist með úrskurði sýslumanns eða samkomulagi aðila. Í ljósi þess yrði að telja að betur yrði stuðlað að góðu sambandi barnanna við báða foreldra með því að K yrði falin forsjá þeirra. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. janúar 2010. Hann krefst þess að sér verði falin forsjá barna málsaðila A og B til 18 ára aldurs þeirra. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 8. mars 2010. Hún krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Við málflutning fyrir Hæstarétti var upplýst að fjárskiptum málsaðila væri lokið og hefði gagnáfrýjandi leyst til sín raðhús að [...], sem var heimili aðila og barna þeirra fram að sambúðarslitum, en þar hefur gagnáfrýjandi átt heimili síðan. Þá hafa verið lögð gögn fyrir Hæstarétt, þar sem fram kemur að eftir uppkvaðningu héraðsdóms hafi aðalaláfrýjandi fest kaup á einbýlishúsi í [...] skammt frá heimili gagnáfrýjanda.
Aðilar una niðurstöðu hins áfrýjaða dóms um umgengni.
Samkvæmt matsgerð dómkvadds manns eru báðir aðilar vel hæfir til að fara með forsjá barnanna. Gagnáfrýjandi býr á æskuheimili barnanna þar sem þau hafa átt lögheimili undanfarin ár. Af gögnum málsins er ljóst að erfiðleikar í samskiptum aðila verða einkum raktir til þess að aðaláfrýjandi hefur ekki beitt sér til þess að framfylgt yrði þeirri skipan á umgengni hans við börnin, sem á hverjum tíma var ákveðin, ýmist með úrskurði sýslumanns eða samkomulagi aðila. Í ljósi þess verður telja að betur verði stuðlað að góðu sambandi barnanna við báða foreldra með því að gagnáfrýjanda verði falin forsjá þeirra. Samkvæmt þessu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Hvor aðila verður látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Tveir dómarar, Ingibjörg Benediktsdóttir og Garðar Gíslason, telja að dæma eigi aðaláfrýjanda til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti.
Það athugast að ekki er í héraðsdómi tiltekið hvort áfrýjun fresti réttaráhrifum hans, svo sem boðið er í 1. mgr. 44. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 4. desember 2009.
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. nóvember sl., er höfðað með birtingu stefnu hinn 30. janúar 2008.
Stefnandi er K, kt. [...], [...], [...].
Stefndi er M, kt. [...], [...], [...].
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnanda verði með dómi falin óskipt forsjá barna málsaðila; þeirra A, kt. [...], og B, kt. [...]. Þá krefst stefnandi þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar stefnda í samræmi við tillögu stefnanda á dskj. nr. 31. Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi og er gerð krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.
Stefndi krefst þess aðallega að honum verði dæmd forsjá barna málsaðila; þeirra A, kt. [...], og B, kt. [...], og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu lágmarks meðlags frá dómsuppsögu. Þá krefst stefndi þess að inntak umgengisréttar verði ákvarðað í samræmi við tillögur hans. Loks krefst stefndi þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins.
II.
Stefnandi og stefndi hófu sambúð í [...] [...] og tóku upp formlega sambúð á árinu [...]. Sambúðinni var slitið í [...] árið [...]. Eiga þau saman börnin A, fædda [...], og B, fæddan [...]. Stefndi á auk þess uppkomin börn af fyrra hjónabandi sem hafa búið hjá móður sinni. Þá á stefndi barn fætt í [...] [...] sem býr erlendis hjá móður sinni. Stefnandi og stefndi bjuggu saman í [...] og áttu síðast sameiginlegt lögheimili að [...], þar sem stefnandi býr enn með börnum málsaðila. Stefnandi var heimavinnandi frá fæðingu barnanna og fyrstu ár þeirra. Er börnin komust á leikskóla- og skólaaldur fór stefnandi að vinna en hefur að eigin sögn ætíð haft styttri vinnudag en stefndi og sinnt börnunum á daginn að skóla loknum. Á meðan á sambúð málsaðila stóð var stefndi í fullri vinnu sem læknir og er reyndar enn og hefur hann þurft að vera talsvert erlendis vegna vinnu sinnar.
Í stefnu segir að fyrst eftir sambúðarslitin hafi málsaðilar ekki samið formlega um forsjá og umgengni en stefnandi kveðst hafa hvatt stefnda eindregið til að sinna reglulegri umgengni við börnin og ítrekað óskað eftir því að samkomulag varðandi forsjá og umgengni yrði sett formlega niður. Stefndi hafi jafnan færst undan því að setja slíkt niður með formlegum hætti en hafi viljað haga umgengni fremur eins og honum hentaði hverju sinni. Reynt hafi verið að koma á samkomulagi varðandi forsjá og umgengni með börnunum hjá sýslumanninum í [...] sem og fyrir milligöngu lögmanna aðila. Þegar á hólminn hafi verið komið hafi stefndi hins vegar aldrei verið tilbúinn til að staðfesta neitt slíkt samkomulag. Aðilar hafi m.a. þegið aðstoð sálfræðings á vegum viðkomandi sýslumannsembættis og að mati stefnanda hafi komist þar á ígildi samkomulags um forsjá og umgengni. Það samkomulag hafi hins vegar átt eftir að staðfesta hjá sýslumannsembættinu. Stefndi hafi þó ekki virt samkomulagið þegar til hafi komið og ekki skilað börnunum úr umgengni í samræmi við samkomulag þar um.
Samkomulag tókst að lokum um að aðilar færu sameiginlega með forsjá barnanna og að þau ættu lögheimili hjá stefnanda, en ágreiningi um umgengni var vísað til úrskurðar sýslumannsins í [...]. Úrskurður var kveðinn upp 26. september 2007 og var í honum kveðið á um að regluleg umgengni stefnda við börnin skyldi vera aðra hverja viku frá kl. 17 á fimmtudegi til skólabyrjunar á þriðjudagsmorgni þar á eftir. Stefndi kærði úrskurð sýslumanns til dómsmálaráðuneytis, en þeirri kæru var vísað frá vegna málshöfðunar stefnanda.
Áður hafði sýslumaðurinn í [...] með úrskurði, uppkveðnum 13. júlí 2007, gert stefnda að greiða stefnanda lágmarksmeðlag með börnunum. Síðar krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi henni tvö og hálft meðlag með börnunum og kvað sýslumaður upp úrskurð sinn í málinu hinn 2. apríl 2008 þar sem stefnda var gert að greiða stefnanda tvöfalt lágmarksmeðlag með börnunum. Stefndi kærði þann úrskurð til dómsmálaráðuneytisins og kvað ráðuneytið upp úrskurð sinn í málinu hinn 6. janúar 2009 og staðfesti úrskurð sýslumanns.
Stefnandi kveður stefnda hvað eftir annað hafa virt að vettugi úrskurð sýslumanns um umgengnina. Hafi stefndi neitað að afhenda börnin úr umgengni á tilskildum tíma og ekki skilað þeim fyrr en á fimmtudagssíðdegi og þannig brotið gegn úrskurði sýslumanns. Hafi stefnandi ávallt mótmælt þessum ráðstöfunum stefnda og talið þær vinna gegn hagsmunum barnanna. Er stefndi hafi einnig neitað að skila börnunum fimmtudaginn 20. desember 2007, eftir að hafa þá þegar verið búinn að hafa börnin tveimur dögum lengur en úrskurður sýslumanns sagði til um, kveðst stefnandi hafa leitað formlega eftir liðsinni barnaverndarnefndar [...]. Hafi starfsmaður nefndarinnar á bakvakt komið á heimili stefnda og rætt við báða foreldrana og börnin. Hafi þessu lyktað með því að börnin hafi loks farið heim með stefnanda. Eftir þetta hafi barnaverndarnefnd hafið könnun á högum barnanna, m.a. með viðtölum við börnin sjálf og með því að afla gagna frá skóla þeirra. Stefnandi og stefndi hafi einnig bæði farið í viðtal til starfsmanna nefndarinnar.
Stefnandi kveður nú svo komið að stefnandi geti ekki barnanna vegna unað við það ástand lengur að stefndi virði ekki mörk umgengni sinnar við börnin og skapi þannig óróleika og óvissu í kringum framkvæmd umgengni, sem aftur hafi áhrif á allt daglegt líf barnanna, þ.á m. skóla. Stefnandi kveðst því telja sig knúna til að höfða mál þetta og kveðst telja að allar leiðir til þess að ná samkomulagi um fyrirkomulag forsjár og umgengni varðandi börnin hafi verið reyndar til þrautar.
Í greinargerð stefnda segir að eftir sambúðarslit málsaðila hafi hann aðlagað sig skjótt að nýjum aðstæðum og jafnframt lagt megináherslu á að skapa sátt um samvistir barnanna við foreldra sína. Í þeim tilgangi hafi hann í byrjun látið sér lynda takmarkaða umgengni við börnin, sem frá upphafi hafi verið ákveðin af stefnanda. Þannig hafi hann einungis hitt börnin frá föstudegi til sunnudags aðra hverja helgi um nokkurra mánaða skeið, og jafnframt mátt sæta því að stefnandi kæmi endurtekið í veg fyrir samvistir barnanna við sig. Jafnframt hafi stefnandi frá upphafi lagt hindranir í veg fyrir að hann gæti haft samband við börnin gegnum síma, eða að börnin gætu haft samband við hann gegnum síma. Um það geti börnin vitnað.
Stefndi kveðst hafa lagt sig fram um að ná samkomulagi um umgengni barnanna við báða foreldra. Þegar stefnandi og stefndi höfðu hist endurtekið hjá sálfræðingi beggja málsaðila til að ná sátt um umgengni í aðdraganda jóla árið 2006 hafi stefnandi slitið þeim viðræðum einhliða. Sáttafundir með sálfræðingi sýslumannsins í [...] í febrúar 2007 hafi einungis skilað óásættanlegri tillögu stefnanda (fimmtudag/föstudag til sunnudags) og hafi stefnandi aldrei reynt að nálgast jafna umgengni barnanna við báða foreldra, líkt og skýrar og eindregnar óskir og einlægar vonir barnanna hafi frá upphafi staðið til. Stefnandi hafi frá upphafi neitað að hlýða á óskir barnanna, og vísað þeim frá sér þegar þau hafi rætt þessi mál við hana. Börnin hafi tjáð föður sínum vilja sinn til að tjá sig um þetta.
Þessar óskir barnanna hafi leitt til þess að þau hafi að eigin ósk og ráðstöfun dvalið jafnt hjá báðum foreldrum frá því í mars 2007, þrátt fyrir andstöðu stefnanda. Hafi hún beitt börnin þrýstingi um að láta af þessari tilhögun sinni og borið stefnda þeim sökum að hann beitti börnin tilfinningalegu ofbeldi og jafnframt að hann héldi þeim á heimili sínu gegn vilja þeirra. Þessar alvarlegu ávirðingar hafi verið metnar rangar og ómaklegar í umfjöllun Félagsþjónustu [...]. Þar hafi börnin meðal annars fengið að lýsa sinni sýn á málin með óþvinguðum hætti. Að sögn stefnda hafi börnin nú í ljósi þessarar málshöfðunar lýst eindregnum vilja sínum um að fá að ítreka þessar óskir sínar í viðtali við óvilhallan sérfræðing á þessu sviði. Vonbrigði barnanna séu mikil þar sem móðirin hafi neitað víðtækum tilraunum stefnda til að ná sáttum fram á síðustu stundu þessa máls, svo að komast mætti hjá málaferlum.
Í skilnaðarferli aðila kveðst stefndi hafa reynt að hafa hagsmuni barnanna að leiðarljósi og í lengstu lög forðast að draga þau inn í ágreining um forsjá og umgengni. Kveðst stefndi telja það afar mikilvægt að ásættanleg lausn náist um forsjá og umgengni þar sem hagsmunir barnanna og sjónarmið þeirra séu virt. Af hálfu sýslumannsins í [...] hafi C sálfræðingur verið fenginn til þess að ræða við börnin og kanna afstöðu þeirra til umgengninnar. Fram komi í skýrslu hans að börnin hafi verið samvinnuþýð, þau hafi tjáð sig skýrt og örugglega og ekkert benti til þess að þau væru undir þrýstingi frá foreldrum eða reynt hefði verið að móta vilja þeirra og afstöðu í málinu. Fram hafi komið í máli þeirra að þeim liði best ef foreldrarnir gætu verið vinir og næðu samkomulagi og sáttum. Þau hafi borið um það að þau vildu vera jafnt hjá hvoru foreldri fyrir sig, eins og umgengni væri nú háttað, og að það væri sanngjarnt. Stefndi tekur fram að börnin hafi dvalið til jafns hjá báðum foreldrum frá því í mars 2007 og að þau hafi ákveðið það sjálf og án nokkurrar þvingunar af hálfu stefnda. Stefnandi hafi hins vegar beitt börnin þrýstingi til að láta af jafnri umgengni og hótað að beita bæði lögreglu og barnaverndarnefndum í því skyni. Vegna óbilgirni stefnanda í garð stefnda (og barnanna) hafi börnin á síðustu mánuðum látið í ljósi þá ósk að dveljast meira hjá stefnda en stefnanda.
Í þinghaldi hinn 9. apríl 2008 krafðist stefnandi þess að henni yrði fengin bráðabirgðaforsjá barnanna á meðan forsjármál aðila væri til lykta leitt. Í kjölfar þinghaldsins ákvað dómari sá er þá fór með málið, með vísan til 43. gr. barnalaga nr. 76/2003, að fá D sálfræðing til að ræða við börn málsaðila, A og B, sem þá voru á 11. og 12. ári, um stöðu þeirra og viðhorf til deiluefna foreldranna, einkum þó um tilhögun umgengni þeirra við foreldrana þar til endanleg niðurstaða forsjármálsins lægi fyrir. Skýrsla sálfræðingsins, sem dagsett er 20. apríl 2008, var lögð fram í þinghaldi hinn 7. maí sama ár. Í skýrslunni segir að í samtölum við börnin hafi komið fram að þau vildu helst að núverandi tilhögun héldist óbreytt (sjö dagar til skiptis), en að þau myndu sætta sig við annað fyrirkomulag ef foreldrarnir kæmust að samkomulagi um slíkt. Í niðurlagi skýrslunnar segir að börnin séu nátengd báðum foreldrum sínum, finni til óhollrar tryggðartogstreitu í kjölfar skilnaðarins og hlífi sér í flókinni stöðu með því að reyna að deila sér jafnt á milli sinna nánustu.
Í þinghaldi hinn 7. maí 2008 gerðu málsaðilar með sér tímabundna dómsátt um að þau færu áfram sameiginlega með forsjá barna sinna en börnin ættu lögheimili hjá móður. Þá sömdu þau svo um að börnin skyldu dveljast hjá föður aðra hverja viku frá fimmtudegi kl. 18 til miðvikudags kl. 18. Í sáttinni var einnig kveðið á um tilhögun umgengni í sumarleyfum og öðrum skólaleyfum. Samið var um að sáttin gilti til þriðjudagsins 18. nóvember 2008.
Er málið var tekið fyrir þriðjudaginn 18. nóvember 2008 kom fram að samskipti málsaðila hefðu ekki gengið sem skyldi frá því að hin tímabundna sátt var gerð og kvað stefnandi ekki vera sáttagrundvöll í málinu af sinni hálfu.
Í ljósi framangreinds lagði dómari fyrir málsaðila að afla sérfræðilegrar álitsgerðar í málinu í samræmi við ákvæði 3. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003. Jafnframt var bókað að málsaðilar væru sammála um að réttarsáttin frá 7. maí skyldi gilda áfram á meðan málið væri til meðferðar fyrir héraðsdómi.
Í þinghaldi hinn 27. nóvember 2008 lögðu málsaðilar fram í sameiningu beiðni um dómkvaðningu matsmanns. Til að framkvæma matið kvaddi dómari til matsstarfa D sálfræðing og var álitsgerð hans, sem dagsett er 25. maí 2009, lögð fram í þinghaldi 9. september sl.
Í niðurstöðukafla álitsgerðarinnar segir eftirfarandi um persónulega eiginleika foreldra og hagi:
„K býr við góðan hag og hefur persónulega eiginleika sem gera hana vel hæfa til að veita börnum sínum forsjá. Styrkur hennar liggur m.a. í skilningi hennar á börnunum og þörfum þeirra, hæfni til að annast börnin og sýna þeim ástúð, ala þau upp og veita þeim öryggi. Hún býður upp á stöðugleika og örvandi umhverfi sem hentar systkinunum vel. K gætir varúðar í umræðu við börnin um fjölskyldumálin, vill sem mest halda þeim utan við deilurnar. Hún er traustur uppalandi að mati undirritaðs, nákvæm og ábyrgðarfull manneskja, nátengd börnum sínum og ber hagsmuni þeirra mjög fyrir brjósti.
M hefur góðar ytri forsendur til að annast börn sín og býr yfir góðri persónulegri hæfni til að mæta þörfum þeirra. Hann er að mynda nýja fjölskyldu en fer hægt í sakirnar og tekur tillit til hagsmuna barnanna. Styrkur hans liggur m.a. í hæfni til að mynda persónuleg tengsl við börnin, sýna þeim skilning og öðlast trúnað. Hann gefur systkinunum færi á að ræða fjölskyldu- og umgengnismálin og hvetur þau almennt til að segja hug sinn og hafa skoðanir á málum. Hann hefur að undanförnu valið að beita sér ekki til fullnustu fyrir því að umgengni gangi samkvæmt samkomulagi aðila og ber við þrábeiðni barnanna. M er traustur uppalandi að mati undirritaðs og í nánum tengslum við börn sín.
Foreldrarnir eru þannig báðir vel hæfir uppalendur með góðar ytri aðstæður og í nánum, jákvæðum tengslum við börn sín. Verður ekki gert upp á milli þeirra hér í þeim efnum. Veikleiki þeirra í foreldrahlutverkinu felst í gagnkvæmri tortryggni sem leitt hefur til þess að samskiptin eftir skilnað hafa verið lítil og erfið. Þau hafa sameiginlega forsjá með börnum sínum en hefur mistekist að vinna saman sem foreldrar síðustu árin og m.a. ekki tekist að koma jafnvægi á umgengnisþáttinn. M telur að heift K í hans garð ráði þarna mestu, K álítur sökina M og m.a. tengjast markvissri viðleitni hans til að grafa undan tengslum barnanna við hana. Spennan milli foreldranna hefur komið börnunum í vanda og truflað tengsl þeirra við sína nánustu.“
Um stöðu barnanna og tengsl þeirra við foreldrana segir í matsgerðinni:
„Þau B og A eru sjálfstæðir og hæfileikaríkir einstaklingar sem gengur vel í námi, við iðkun áhugamála og í vinahópi en líða bæði fyrir togstreitu foreldra sinna í kjölfar skilnaðar fyrir þremur árum. Þau eru nátengd innbyrðist og einnig nátengd báðum foreldum sínum og það liggur þeim fjarri að gera þar upp á milli. Vegna yfirstandandi deilu eru þau stundum ósátt við framgöngu móður sinnar, finnst hún ekki hlusta nægilega á sjónarmið þeirra og að þau hafi fjarlægst. Um leið hrósa þau föður sínum, hefja hann dálítið á stall. Börnin hafa undanfarin misseri lagt áherslu á að fá að dvelja jafnlengi hjá foreldrum sínum á víxl, viku og viku í senn, og faðir þeirra hefur síðustu mánuði gefið færi á því fyrirkomulagi í óþökk móður. Systkinin segja matsmanni ákveðið að þau kjósi að framvegis verði skiptingin hnífjöfn því þannig líði þeim best. Í ljósi reynslunnar telur undirritaður, að sé þess kostur, ætti að koma til móts við þessar óskir systkinanna.“
Í lokakafla matsgerðarinnar segir að matsmaður efist um að börnunum sé til hagsbóta að öðru foreldrinu verði dæmd forsjáin. Slík ákvörðun sé ólíkleg til að jafna ágreining aðila og sé ávísun á frekari flokkadrætti, en í þeim séu systkinin í þann mund að verða virkir þátttakendur. Forsenda jafnvægis séu umgengnisreglur sem börn og fullorðnir sameinist um að virða í hvívetna.
Málsaðilar komu fyrir dóminn og gáfu aðilaskýrslu. Þá kom fyrir dóminn sem vitni D sálfræðingur og dómkvaddur matsmaður í málinu.
III.
Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á því að það sé börnunum fyrir bestu að hún fari ein með forsjá þeirra. Með hliðsjón af því sem rakið er í málavaxtalýsingu hér að framan, m.a. varðandi erfiðleika við framkvæmd umgengni samkvæmt úrskurði sýslumanns, telji stefnandi ljóst að engar forsendur séu fyrir því lengur að aðilar fari sameiginlega með forsjá barnanna. Sé þess því krafist að stefnanda verði einni dæmd forsjá þeirra með vísan til 2. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003.
Stefnandi kveðst telja ljóst að samkvæmt því sem að framan er rakið hafi stefndi ekki í hyggju að eiga nokkurt samstarf við stefnanda að því er varði skipan á högum barna aðila. Að mati stefnanda séu aðgerðir og framkoma stefnda í kringum umgengni til þess fallin að skaða hagsmuni barnanna og valda róti á tilfinningalífi þeirra og daglegu lífi. Ekki sé með öllu ljóst hvað vaki fyrir stefnda með háttsemi hans en að mati stefnanda sé ljóst að þar geti ekki ráðið hagsmunir barnanna. Stefndi hafi á sínum tíma boðist til að gera samkomulag um að umgengni hans með börnunum væri frá fimmtudagssíðdegi til þriðjudagsmorguns aðra hverja viku, eins og nú hefur verið kveðið á um í úrskurði sýslumanns. Um leið hafi hann samt sem áður tilkynnt að óskuðu börnin eftir að vera hjá honum lengur hverju sinni myndi hann verða við því. Stefndi hafi ávallt borið börnin fyrir sig er hann hafi brotið gegn umgengni. Hafi hann fríað sjálfan sig allri ábyrgð hvað það varði, bæði gagnvart stefnanda og yfirvöldum. Hafi hann lýst því yfir að þarna ráði eingöngu vilji barnanna og eigi hann ýmist að vera sá að vera til jafns hjá aðilum eða að vera alfarið hjá stefnda. Að mati stefnanda sýni háttsemi stefnda að hann hafi engan skilning á þörfum barna fyrir festu og öryggi og því hlutverki foreldris að vera sá sem ábyrgðina ber. Ef það sé rétt sem stefndi haldi fram, að hann sé eingöngu að fara að vilja barnanna, sé stefndi að gera börnin ábyrg fyrir eigin aðstæðum, þ.e. að það sé alfarið í þeirra valdi í hvernig skorðum daglegt líf þeirra sé. Að mati stefnanda sé slíkt óviðunandi uppeldisskilyrði fyrir börn. Það sé foreldranna að setja ramma utan um daglegt líf barna sinna eftir því sem þeir telji þjóna þörfum og hagsmunum barna sinna best. Þá sé það grundvallarforsenda sameiginlegrar forsjár að foreldrar eigi gott samstarf um allt sem snýr að daglegu lífi barnanna og sameinist í því að búa sem best að högum þeirra og þörfum, þ.á m. hvað varði umgengni við það foreldri sem barnið búi ekki hjá að jafnaði. Að mati stefnanda hafi verið fullreynt að slíkt samstarf við stefnda sé ekki mögulegt.
Stefnandi kveðst hafa verið aðalumönnunaraðili barnanna frá upphafi. Hún hafi verið heimavinnandi fyrst eftir fæðingu þeirra og alla tíð unnið styttri vinnudag en stefndi. Hafi stefnandi því komið mun meira að umönnun barnanna en stefndi og myndað við þau sterk og góð tengsl. Stefnandi kveðst vera fjárhagslega sjálfstæð og hafa átt nokkrar eignir áður en til sambúðar aðila hafi verið stofnað. Stefnandi hafi ekki hafið sambúð að nýju. Þá hafi stefnandi ekki aukið við sig vinnu í kjölfar sambúðarslitanna og hafi ekki hug á að breyta því í nánustu framtíð. Stefndi hafi aftur á móti alltaf unnið mun lengri vinnudag en stefnandi auk þess sem hann sé oft erlendis vinnu sinnar vegna. Þá hafi stefnandi gott net af vinum og ættingjum í kringum sig sem geti hlaupið undir bagga ef þurfa þykir. Að sama skapi hafi stefndi ekkert slíkt net í kringum sig og því sé erfitt að sjá hvernig hann ætti að geta sinnt börnunum jafn mikið og stefnandi miðað við vinnuálag hans.
Stefnandi kveðst búa með börnunum á æskuheimili þeirra að [...], [...] þar sem sameiginlegt heimili málsaðila hafi verið. Húsnæðið sé rúmgott og börnin séu í nærliggjandi skóla og eigi sína vini og kunningja í nágrenninu, auk þess sem þau stundi þar sínar tómstundir. Stefndi hafi hins vegar verið í leiguhúsnæði frá því sambúð aðila lauk og búseta hans hafi verið ótrygg. Stefndi búi ekki í nágrenni við skóla eða vini barnanna. Þá sé ekki ljóst hvernig fjölskylduaðstæðum stefnda muni vera háttað í nánustu framtíð. Eigi hann eins og áður segir unnustu og ungt barn sem búi erlendis ásamt eldra barni unnustunnar. Ekki sé ljóst hvort og þá hvar stefndi og unnusta hans muni stofna til sameiginlegs heimilis í framtíðinni. Að mati stefnanda myndi það valda minnstri röskun á stöðu og högum barnanna að fela henni forsjá þeirra til frambúðar.
Stefnandi kveðst telja sig hafa þá persónulegu eiginleika sem til þurfi til að sinna uppeldi og þörfum barna sinna. Stefnandi hafi ætíð sinnt þörfum og hag barnanna vel og haft reglu á uppeldi þeirra. Telji stefnandi sig vera í alla staði góða fyrirmynd barna sinna.
Frá því að sambúð aðila lauk hafi börnin búið hjá stefnanda en farið í umgengni til stefnda. Hafi stefnandi frá upphafi hvatt stefnda til þess að rækja umgengni við börnin og alltaf gert sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að börnin eigi góða umgengni og gott samband við stefnda. Stefnandi telji hins vegar ótækt að stefndi taki sér slíkt sjálfdæmi sem raunin sé varðandi umgengni við börnin og brjóti gegn úrskurði þar til bærra yfirvalda. Hafi stefnandi miklar áhyggjur af því hvernig fordæmi stefndi setji börnunum með þessari háttsemi sinni, þ.e. að það sé ekkert athugavert við það að fara gegn boðum og bönnum, bæði stefnanda sem annars uppalanda þeirra sem og yfirvalda í landinu. Telji stefnandi að stefndi sé ekki heppileg fyrirmynd barnanna að þessu leyti.
Stefnandi kveðst telja að öllu framangreindu virtu að það samrýmist best þörfum og hagsmunum barna aðila að henni verði einni falin forsjá þeirra.
Verði stefnanda dæmd forsjá barnanna kveðst hún munu stuðla að reglulegri umgengni barnanna við stefnda, eins og hún hafi gert frá því sambúðarslit aðila hafi átt sér stað. Í máli þessu sé farið fram á að dómari kveði á um inntak umgengnisréttar barnanna við stefnda, sbr. 4. mgr. 34. gr. laga nr. 76/2003. Verði fallist á kröfu hennar um forsjá barnanna kveðst hún fara fram á að umgengni barnanna verði eins og greinir á dskj. nr. 31, sem stefnandi lagði fram við upphaf aðalmeðferðar. Stefnandi kveðst telja að miðað við aðstæður og í ljósi reynslunnar sé rétt að með dómi verði kveðið eins nákvæmlega á um framkvæmd og tilhögun umgengni og unnt sé. Tillaga stefnanda að umgengni er eftirfarandi:
Börnin dvelji aðra hverja viku hjá stefnda frá fimmtudegi kl. 18.00 til miðvikudags kl. 18.00. Stefndi sæki börnin kl. 18.00 annan hvern fimmtudag á heimili stefnanda eða þar sem börnin eru stödd á þeim tíma hverju sinni vegna tómstunda. Stefnandi sæki börnin á miðvikudegi í vikunni þar á eftir kl. 18.00 á heimili stefnda eða þar sem börnin eru stödd á þeim tíma hverju sinni vegna tómstunda.
Upphaf reglulegrar umgengni stefnda frá dómsuppsögu miðist við sömu viku og verið hefði fyrir dómsuppsögu.
Umgengni um jól og áramót miðist alltaf við tímabilið frá Þorláksmessu til 2. janúar. Börnin dvelji hjá málsaðilum til skiptis á aðfangadag ár hvert og til skiptis á gamlárskvöld ár hvert.
Árið 2009 eru börnin vera hjá stefnda frá Þorláksmessu kl. 13.00 til jóladags kl. 13.00 Þau eru hjá stefnanda frá jóladegi kl. 13.00 til 28. desember kl. 13.00. Þau eru hjá stefnda frá 28. desember kl. 13.00 til 31. desember kl. 13.00. Þau eru hjá stefnanda frá 31. desember kl. 13.00 til 2. janúar 2010 kl. 13.00.
Regluleg umgengni hjá stefnda hefst að loknu jóla- og áramótafríi fimmtudaginn 7. janúar 2010 kl. 18.00.
Árið 2010 eru börnin hjá stefnanda frá Þorláksmessu kl. 13.00 til jóladags kl. 13.00. Þau eru hjá stefnda frá jóladegi kl. 13.00 til 28. desember kl. 13.00. Þau eru hjá stefnanda frá 28. desember kl. 13.00 til 31. desember kl. 13.00. Þau eru hjá stefnda frá 31. desember kl. 13.00 til 2. janúar 2010 kl. 13.00, er þau fara aftur til stefnanda.
Regluleg umgengni hjá stefnda hefst þá þar á eftir fimmtudaginn 13. janúar 2011 kl. 18.00.
Og þannig til skiptis koll af kolli. Við upphaf umgengni skulu börnin sótt af stefnda og við lok umgengni skulu þau sótt af stefnanda.
Fram að jóla- og áramótaleyfistíma gildi regluleg umgengni, þ.e. fram á Þorláksmessu. Að loknu jóla- og áramótaleyfi hinn 2. janúar hefji stefndi reglulega umgengni frá næsta fimmtudegi þar á eftir ef stefnandi hefur haft börnin yfir áramót. Hafi stefndi haft börnin yfir áramót sækir stefnandi börnin til stefnda 2. janúar og hefji reglulega umgegni frá næsta miðvikudegi þar á eftir.
Börnin dvelji í fimm vikur samfellt hjá hvoru foreldri í sumarleyfi. Regluleg umgengni fellur niður á meðan. Fram að sumarleyfistíma gildi regluleg umgengni.
Sumarleyfi miðist alltaf við miðjan júlí þannig að annar aðilinn er með börnunum í sumarleyfi fyrir miðjan júlí og hitt eftir miðjan júlí, sem svo víxlast árið eftir. Sumarleyfi miðist alltaf við fimmtudag um miðjan júlí ár hvert.
Sumarið 2010 verði börnin hjá stefnda í sumarleyfi fyrri hluta sumars, frá kl. 18.00 fimmtudaginn 10. júní, sótt af stefnda, til fimmtudagsins 15. júlí kl. 18.00. Sumarfrí stefnanda með börnunum hefst 15. júlí kl. 18.00, sótt af stefnanda, til fimmtudagsins 19. ágúst kl. 18.00.
Þegar stefndi hefur verið með börnin seinni hluta sumarleyfis hefst regluleg umgengni hjá stefnanda að því loknu. Þegar stefnandi hefur verið með börnin seinni hluta sumarleyfis hefst regluleg umgengni hjá stefnda að því loknu.
Börnin dvelji hjá málsaðilum til skiptis yfir páska ár hvert.
Árið 2010 eru börnin hjá stefnda frá kl. 18.00 miðvikudaginn 31. mars, daginn fyrir skírdag, til miðvikudagsins 7. apríl kl. 18.00 þegar þau fara til stefnanda.
Árið 2011 eru börnin hjá stefnanda frá kl. 18.00 miðvikudaginn 20. apríl, daginn fyrir skírdag, til miðvikudagsins 27. apríl. Þau fari þá að loknu páskaleyfi til stefnda í reglulega umgengni frá og með fimmtudeginum 28. apríl kl. 18.00.
Og þannig til skiptis koll af kolli og skulu sömu tímamörk gilda ár hvert.
Við upphaf umgengni um páska skulu börnin sótt af stefnda og við lok umgengni skulu þau sótt af stefnanda.
Fram að páskaleyfistíma gildi regluleg umgengni. Hafi börnin dvalið hjá stefnda í páskaleyfi hefst regluleg umgengni að nýju hjá stefnanda að loknu páskaleyfi, þ.e. frá miðvikudegi kl. 18.00. Hafi börnin dvalið hjá stefnanda í páskaleyfi hefst regluleg umgengni að nýju hjá stefnda að loknu páskaleyfi, þ.e. frá fimmtudegi kl. 18.00.
Aðrir hátíðardagar eða frídagar, en að framan greinir, þ.á m. skertir dagar í skóla, vetrarfrí eða önnur skólafrí, falla innan hinnar reglulegu umgegni. Slíka daga eru börnin hjá þeim aðila sem á reglulega umgengni hverju sinni.
Stefnandi kveðst telja að miðað við aðstæður og í ljósi reynslunnar sé rétt að með dómi verði kveðið eins nákvæmlega á um framkvæmd og tilhögun umgengni og unnt sé.
Stefnandi kveður málið höfðað á heimilisvarnarþingi barnanna, sbr. 1. mgr. 37. gr. barnalaga nr. 76/2003. Vísað er til barnalaga nr. 76/2003, um einstök ákvæði er vísað til þess sem að framan sé rakið. Vísað er til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum XXI. kafla varðandi málskostnað. Stefnandi kveður kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggja á lögum nr. 50/1988 þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur og sé henni því nauðsynlegt að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda.
IV.
Stefndi kveðst telja sig hæfari en stefnandi til að annast uppeldi barnanna. Hann þekki líf barnanna vel, gleði jafnt sem sorgir, hann þekki áhugamál þeirra, vini þeirra og fjölskyldur a.m.k. jafn vel og stefnandi. Ekki síst telji stefndi sig vera í góðu tilfinningalegu jafnvægi og geta sinnt börnum sínum, gefið þeim ást, hlustað á þau, sinnt þeirra tilfinningalega þörfum og jafnframt talað jákvætt um stefnanda og átt við hana gott samband. Hann trúi því að hann og stefnandi geti unnið vel saman að hagsmunum barnanna þegar þetta mál sé til lykta leitt og vilji barnanna hafi náð fram að ganga. Stefndi kveðst vita að það sé vilji beggja foreldra að tryggja velferð barnanna og hamingju, og kveðst vilja í hvívetna vinna að samkomulagi, jafnri umgengni, sátt um framfærslu, virðingu í samskiptum og sáttfýsi. Hann kveðst telja sig hafa sýnt með ótvíræðum hætti ró og yfirvegun í þessu máli. Hann sé þess fullviss að dómur í takt við kröfur hans muni geta skapað góða sátt til langframa, tryggt að litið verði til vilja barnanna þannig að framtíðarheill þeirra verði höfð að leiðarljósi í takt við ákvæði barnalaga. Stefndi kveðst telja að kröfur stefnanda muni skapa endalausa ósátt í þessu máli og ganga gegn óskum og hagsmunum barnanna þegar til skemmri og lengri tíma sé litið.
Verði honum dæmd forsjá, muni hann stuðla að því að umgengni við börnin fari fram eins og best verði á kosið. Kveðst stefndi fara fram á að umgengni barnanna og stefnanda verði sem hér segir, verði fallist á kröfur hans í málinu:
Börnin dvelji til skiptis hjá foreldrunum, þannig að þau séu hjá stefnda frá miðvikudegi kl. 18.00 til fimmtudags kl. 18.00, en hjá stefnanda frá fimmtudegi kl. 18.00 til miðvikudags kl. 18.00.
Í sumarleyfum dvelji börnin 5 vikur samfleytt hjá hvoru foreldri á ári hverju til skiptis fyrri og seinni hluta sumars.
Fyrirkomulag á samvistum um jól, áramót og páska miðist við jafna umgengni barnanna við báða foreldra og taki mið af úrskurði sýslumannsins í [...] frá 26. september 2007.
Stefndi kveðst telja það mikilvægt að börnin eigi góða umgengni og gott samband við báða foreldra sína og sé það í samræmi við vilja barnanna. Hann kveðst einnig telja að framangreindar umgengnistillögur samrýmist hvað best þörfum og hagsmunum barnanna. Það sé honum mikið í mun að farsæl niðurstaða náist í deilu þessari sem báðir foreldrar og börnin geti sætt sig við.
Stefndi kveðst telja að stefnandi búi ekki yfir nauðsynlegu tilfinningajafnvægi og ástúð til að axla foreldraskyldur við núverandi aðstæður, en hann muni sjálfur leggja allt sem honum sé mögulegt af mörkum til að skapa sátt um framtíð barnanna, ef ákvörðun verði í takt við kröfur hans. Það sé í takt við þá viðleitni hans að skapa börnunum jafna möguleika til samvista við báða foreldra, líkt og þau hafi óskað frá upphafi og tjáð óhindrað við báða foreldra, tvo óháða sálfræðinga og starfsfólk Félagsþjónustu [...]. Stefndi kveðst því telja sig hafa unnið með einbeittum hætti með framtíðarhagsmuni barnanna að leiðarljósi, og í takt við eindreginn vilja þeirra frá upphafi þessa máls.
Stefndi kveðst munu hafa frumkvæði að því, ef dómur fellur honum í hag, að leita sátta og samninga við stefnanda um umgengni barnanna við báða foreldra, og jafnframt að leggja meðlag barnanna inn á framtíðarreikning barnanna, sem verði tiltækt til ráðstöfunar er þau verði eldri.
Stefndi kveðst byggja kröfur sínar á ákvæðum barnalaga nr. 76/2003 og kveðst vísa sérstaklega til 34. gr. laganna og um málsmeðferð til 6. kafla laganna og ákvæða laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 eftir því sem við eigi. Hann kveður kröfu sína um málskostnað styðjast við ákvæði 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 3. mgr. 129. gr. sömu laga. Stefndi kveðst byggja kröfu sína um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefndi kveðst ekki vera virðisaukaskattskyldur. Sé því nauðsynlegt að hann fái dæmt álag úr hendi gagnaðila sem þeirri fjárhæð nemi.
V.
Við mat á því hvort þjóni betur hagsmunum barnanna að stefnandi fari með forsjá þeirra eða stefndi ber fyrst og fremst að líta til þeirra sjónarmiða, sem talin eru upp í 1.-4. lið, 6.-8. lið og 10. lið að ofan. Atriði sem lúta að kyni og aldri, breyttu umhverfi eða sök og ólögmætri sjálftöku eiga ekki við í málinu.
Eins og fram hefur komið hafa börnin átt lögheimili hjá stefnanda að [...] í [...] frá sambúðarslitum málsaðila, en þar bjó fjölskyldan áður en til sambúðarslitanna kom. Stefndi býr einnig í [...] og í nágrenni við stefnanda, en þó í öðru hverfi. Þá hefur komið fram að undanfarin misseri hafa börnin dvalið saman og að jöfnu hjá foreldrunum á víxl, sjö daga í senn. Hefur þessi skipan komist á gegn vilja stefnanda og þrátt fyrir úrskurð sýslumannsins í [...] frá 26. nóvember 2007 þar sem kveðið var á um að umgengni stefnda við börnin skyldi vera aðra hverja viku frá klukkan 17 á fimmtudegi til skólabyrjunar á þriðjudagsmorgni þar á eftir og þrátt fyrir tímabundna sátt málsaðila frá 7. maí 2008 um að börnin skyldu dvelja átta sólarhringa hjá móður og síðan 6 sólarhringa hjá föður á meðan málið væri til meðferðar hjá dómstólum.
Óumdeilt virðist vera að stefnandi bar aðalábyrgð á umönnun barnanna fyrstu árin, en fram hefur komið að hún vann heima fyrstu búskaparárin og hafði styttri vinnudag en stefndi eftir að hún hóf störf utan heimilis. Þá kemur fram í viðtölum matsmanns við stefnda og börnin að tengsl þeirra hafi orðið nánari eftir skilnaðinn en fyrir hann. Bæði börnin nefna að þau hafi kynnst föður sínum betur eftir skilnaðinn og drengurinn tekur fram að hann hafi verið meira með móður sinni en föður áður en foreldrar hans slitum samvistum, enda hafi faðir hans verið mikið að heiman.
Í framlagðri matsgerð á dskj. nr. 21 kemur fram að börnin eru nátengd báðum foreldrum sínum og þeim er fjarri að gera upp á milli þeirra. Börnin leggja mikla áherslu á að þau dvelji jafnlengi hjá foreldrum sínum á víxl, viku og viku í senn. Með vísan til framangreinds er því ekki um það að ræða í máli þessu að börnin eða annað þeirra sé nátengdara öðru foreldri sínu.
Í matsgerðinni eru báðir málsaðilar metnir vel hæfir og traustir uppalendur og í nánum, jákvæðum tengslum við börn sín. Gerir matsmaður ekki upp á milli þeirra í þeim efnum. Matsmaður telur styrk stefnanda liggja m.a. í skilningi hennar á börnunum og þörfum þeirra, hæfni til að annast börnin og sýna þeim ástúð, ala þau upp og veita þeim öryggi. Þá telur matsmaður hana nákvæma og ábyrgðarfulla manneskju, sem beri hagsmuni barna sinna mjög fyrir brjósti. Styrk stefnda telur matsmaður hins vegar liggja í hæfni hans til að laða fram og koma til móts við tilfinningar barnanna, öðlast trúnað þeirra og mæta þeim með einlægum hætti.
Fram kemur í matsgerðinni að málsaðilar hafast ólíkt að þegar að því kemur að ræða um fjölskyldu- og umgengismálin við börnin. Stefnandi hefur kosið að gæta varúðar í umræðu við þau um ágreining foreldranna um umgengni og vill halda þeim sem mest utan við deilurnar. Stefndi hefur hins vegar gefið systkinunum færi á að ræða þessi mál og hefur hvatt þau almennt til að segja hug sinn og skoðanir á málunum. Þá vill stefndi að farið verði að óskum barnanna varðandi umgengnina og telur það lykilinn að sátt. Segir í matsgerðinni að stefndi hafi að undanförnu valið að beita sér ekki til fullnustu fyrir því að umgengni gangi samkvæmt samkomulagi aðila og beri við þrábeiðni barnanna. Stefnandi leggi hins vegar áherslu á að fyrirkomulag umgengninnar verði fastmótað þannig að ekki skapist möguleiki á að sveigja það til.
Í matsgerðinni kemur fram að stefndi telur stefnanda beita börnin þrýstingi og ofríki vegna umgengnismálanna með því að ganga gegn einlægum vilja þeirra varðandi fyrirkomulag umgengni. Stefnandi telur hins vegar að stefndi beiti sér við að spilla tengslum systkinanna við hana og telur nauðsynlegt að gripið verði inn í þá atburðarás með því að auka vægi hennar sjálfrar sem forsjáraðila.
Fram hefur komið að stefnandi býr ein með börnum sínum og hefur ekki stofnað til sambands við annan mann. Stefndi er hins vegar í nánu sambandi við konu, E að nafni, sem býr í [...], og á með henni telpu fædda [...]. E á auk þess þrjú börn samfeðra úr fyrri sambúð á aldrinum [...] til [...] ára og búa tvö þeirra hjá henni, en hið þriðja hjá ættingjum í [...]. Í matsgerðinni kemur fram að enn sé óráðið hvort og þá hvenær og hvar þau stofni eitt heimili saman, en bæði séu bundin hvort á sínum stað vegna atvinnu og þarfa barna sinna.
Í matsgerðinni segir að börnin séu í grunninn nátengd báðum foreldrum sínum en veigri sér orðið við að viðurkenna fjölbreytnina sem slík tengsl feli jafnan í sér. Merki séu um að þau byrgi frekar kenndir sínar eða beini þeim annað. Þá segir að þau séu orðin helst til gagnrýnislítil í garð föður síns, einkum telpan, hún viti um jákvæðan hug móður í sinn garð en hiki við að beina að henni sterkum, jákvæðum tilfinningum. Einnig segir þar að þau virðist samsama sig meira stöðu föður í deilunni og finnist móðirin stundum ósanngjörn í hans garð. Slík þróun, í aðra hvora áttina, verði gjarnan þegar börn þreytist á að aðlagast mótsagnakenndum tengslum í nánasta umhverfi sínu og geti ekki lengur þóknast á víxl andstæðum hagsmunum þeirra sem næstir þeim standi.
Eins og fram hefur komið leggja börnin mikla áherslu á að þau dvelji jafnlengi hjá foreldrum sínum á víxl, viku og viku í senn, en hafa ekki tekið sérstaka afstöðu til þess hjá hvoru foreldranna forsjáin skuli að vera og þar með lögheimili þeirra.
Í ljósi atvika málsins þykir ekki koma til greina að ákveða að hvorum málsaðila um sig verði fengin forsjá annars barnsins þar sem hætta þykir á að slíkt fyrirkomulag valdi togstreitu á milli foreldranna og jafnvel barnanna. Þá kemur og fram í matsgerð að börnin eru nátengd innbyrðis og einnig nátengd foreldrum sínum báðum og að þeim er fjarri að gera upp á milli þeirra. Loks þykir slík skipan á forsjá hvorki verða leidd af kröfugerð málsaðila né óskum barnanna.
Ljóst er að báðir málsaðilar eru vel hæfir til að fara með forsjá barnanna og hafa góðar ytri forsendur til að annast þau. Stefnandi býr enn á æskuheimili barnanna og hyggst gera það áfram, en stefndi býr í leiguhúsnæði, sem hann kveður ekki vera til frambúðar. Húsnæðismál málsaðila þykja þó ekki skipta sköpum í málinu.
Á hinn bóginn ríkir nokkur óvissa um fjölskyldumál stefnda. Fram hefur komið að stefndi er í fjarbúð með barnsmóður sinni í [...], sem á fyrir þrjú önnur börn, þar af eitt sem á við hegðunarvanda að etja að sögn stefnda. Stefndi kveður enn óráðið hvort og þá hvenær og hvar hann og barnsmóðir hans stofna eitt heimili saman. Þá kveður hann tengsl barnanna við hálfsystur sína og barnsmóður hans góð og að börnin sjái þau fimm sem fjölskyldueiningu. Tengslin við önnur börn barnsmóður hans séu enn sem komið er minni.
Ljóst þykir að ekki er mikil reynsla komin á samband barnanna við barnsmóður stefnda og enn minni við börn hennar af fyrra sambandi. Fram kemur í matsgerð að börnin hitta fjölskyldu stefnda í fríum, þ.e. um hátíðir og á sumrin. Talsverð óvissa þykir því ríkja um raunveruleg áhrif barnsmóður stefnda og barna hennar á samskipti barnanna við föður sinn, svo og um framtíðaráform stefnda varðandi búsetu og stofnun sameiginlegs heimilis með barnsmóður sinni.
Í framlagðri matsgerð og skýrslu stefnanda hér fyrir dómi kom fram að stefndi hefur valið að beita sér ekki til fullnustu fyrir því að umgengni gangi samkvæmt samkomulagi aðila og ber við þrábeiðni barnanna. Þykir þetta benda til þess að stefnda sé ekki umhugað um eða lagið að skapa reglu og setja börnunum viðeigandi mörk í þessum efnum og þar með stuðla að því að jafnvægi náist í samskiptum aðila. Þá hefur stefndi valið að gefa börnunum færi á að ræða ágreining foreldranna varðandi umgengnina og hefur hvatt þau til að segja hug sinn og hafa skoðanir á því máli öndvert við stefnanda, sem hefur kosið að halda börnunum utan við þessar deilur. Ljóst þykir að þetta hefur leitt til þess, svo sem fram kemur í matsgerð, að börnin samsama sig meira stöðu föður í deilunni og eru orðin helst til gagnrýnislítil í hans garð, en að sama skapi hefur gagnrýni þeirra á framgöngu móður þeirra farið vaxandi. Þá kemur fram í matsgerð að þau hika við að beina að henni sterkum, jákvæðum tilfinningum þrátt fyrir vitneskju um jákvæðan hug hennar í þeirra garð. Ljóst er því að sú aðstaða, sem að framan er lýst, hefur grafið undan sambandi barnanna við móður sína og stuðlað að óheilbrigðum og skaðlegum flokkadráttum.
Þegar allt framangreint er virt og með vísan til þeirrar óvissu sem ríkir um fjölskylduhagi og framtíðaráform stefnda þykir það best til þess fallið til að tryggja velferð barnanna, A og B, að stefnandi fari með forsjá þeirra. Er þá einnig horft til þess að viðhorf stefnanda til málsins er með þeim hætti að hún er talin líkleg til að virða umgengnisrétt barnanna við föður sinn.
Í niðurlagi matsgerðarinnar segir að forsenda jafnvægis í samskiptum málsaðila og barnanna sé umgengnisreglur sem börn og fullorðnir sameinist um að virða í hvívetna.
Þau A og B eru á 14. og 12. ári. Að mati hins dómkvadda matsmanns eru þau vel þroskuð og vel haldin börn, eðlilega gefin, einörð, sjálfstæð og með mótaðar skoðanir á mörgu því sem um var rætt. Tjáðu þau sig bæði óhikað og opinskátt við matsmann og lýstu þar skoðunum sínum og óskum varðandi umgengnina. Matsmaður ræddi einnig við börnin í apríl 2008 og lögðu börnin þá einnig áherslu á að dvelja á víxl hjá foreldrum sínum, jafnlengi eða því sem næst.
Eins og áður segir leggja börnin nú ríka áherslu á að þau dvelji jafnlengi hjá foreldrum sínum á víxl, viku og viku í senn. Telja þau að þannig líði þeim best. Að mati dómsins þykir líklegt að í ósk barnanna um jafna umgengni felist fyrst og fremst einlæg von þeirra um að foreldrar þeirrar verði á eitt sáttir og að friður ríki um uppeldi þeirra. Telur hinn dómkvaddi matsmaður að í ljósi reynslunnar sé rétt að koma til móts við þessar óskir systkinanna, sé þess kostur.
Með vísan til framangreinds telur dómurinn að hagsmunum barnanna sé nú best borgið með því að þau dvelji hjá föður aðra hverja viku frá fimmtudegi kl. 18.00 til næsta fimmtudags þar á eftir kl. 18.00. Fyrirkomulag umgengni skal að öðru leyti vera eins og nánar greinir í dómsorði og skal upphaf reglulegrar umgengni stefnda frá dómsuppsögu miðast við sömu viku og verið hefði fyrir dómsuppsögu.
Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að hvor aðila um sig beri sinn kostnað af málinu.
Dóminn kveða upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari, Helgi Viborg sálfræðingur og Valgerður Magnúsdóttir sálfræðingur.
Dómsorð:
Stefnandi, K, fari með forsjá barna málsaðila, A, kt. [...], og B, kt. [...], til 18 ára aldurs þeirra.
Börnin dvelji aðra hverja viku hjá föður frá fimmtudegi kl. 18.00 til fimmtudags kl. 18.00. Faðir sæki börnin kl. 18.00 annan hvern fimmtudag á heimili móður eða þar sem börnin eru stödd á þeim tíma hverju sinni vegna tómstunda. Móðir sæki börnin á fimmtudegi í vikunni þar á eftir kl. 18.00 á heimili föður eða þar sem börnin eru stödd á þeim tíma hverju sinni vegna tómstunda.
Umgengni um jól og áramót miðist við tímabilið frá Þorláksmessu til 2. janúar. Börnin dvelji hjá foreldrum til skiptis á aðfangadag og á gamlárskvöld. Dvelji börnin hjá móður á aðfangadag skulu þau sama ár dvelja hjá föður á gamlárskvöld og síðan á víxl árið eftir. Við upphaf umgengni hjá föður skulu börnin sótt af föður og við lok umgengni hjá föður skulu þau sótt af móður. Skal umgengni vera með eftirgreindum hætti um jól og áramót ár hvert.
Árið 2009 skulu börnin vera hjá föður frá Þorláksmessu kl. 13.00 til jóladags kl. 13.00, frá þeim tíma hjá móður til 28. desember kl. 13.00, frá þeim tíma hjá föður til 31. desember kl. 13.00, frá þeim tíma hjá móður til 2. janúar 2010 kl. 13.00 og hefst þá regluleg umgengni hjá móður.
Regluleg umgengni hjá föður hefst að loknu jólaleyfi fimmtudaginn 7. janúar 2010 kl. 18.00.
Árið 2010 skulu börnin vera hjá móður frá Þorláksmessu kl. 13.00 til jóladags kl. 13.00, frá þeim tíma hjá föður til 28. desember kl. 13.00, frá þeim tíma hjá móður til 31. desember kl. 13.00, frá þeim tíma hjá föður til 2. janúar 2011 kl. 13.00 og hefst þá regluleg umgengni hjá föður.
Regluleg umgengni hjá móður hefst að loknu jólaleyfi fimmtudaginn 6. janúar 2011 kl. 18.00.
Að loknu jólaleyfi hinn 2. janúar hefst regluleg umgengni hjá því foreldri, sem börnin dvöldu ekki hjá á gamlárskvöld, næsta fimmtudag á eftir kl. 18.00.
Börnin dvelji hjá foreldrum til skiptis yfir páska ár hvert.
Árið 2010 eru börnin hjá föður frá kl. 18.00 miðvikudaginn 31. mars, daginn fyrir skírdag, til fimmtudagsins 8. apríl kl. 18.00 þegar þau fara til móður í reglulega umgengni.
Árið 2011 eru börnin hjá móður frá kl. 18.00 miðvikudaginn 20. apríl, daginn fyrir skírdag, til fimmtudagsins 28. apríl kl. 18.00 er þau fara til föður í reglulega umgengni.
Skal umgengni vera með framangreindum hætti til skiptis ár hvert. Við upphaf umgengni hjá föður skulu börnin sótt af föður og við lok umgengni hjá föður skulu þau sótt af móður.
Hafi börnin dvalið hjá föður í páskaleyfi hefst regluleg umgengni að nýju hjá móður að loknu páskaleyfi, þ.e. frá fimmtudegi kl. 18.00. Hafi börnin dvalið hjá móður í páskaleyfi hefst regluleg umgengni að nýju hjá föður að loknu páskaleyfi, þ.e. frá fimmtudegi kl. 18.00.
Aðrir hátíðar- eða frídagar en að framan greinir, þ.á m. skertir dagar í skóla, vetrarfrí eða önnur skólafrí, falla innan hinnar reglulegu umgengni og eru börnin þá hjá því foreldri sem á reglulega umgengni hverju sinni.
Börnin dvelji í fimm vikur samfellt hjá hvoru foreldri um sig í sumarleyfi og fellur regluleg umgengni niður á meðan.
Sumarleyfi miðist alltaf við fimmtudag um miðjan júlí ár hvert þannig að annað foreldrið er með börnunum í sumarleyfi fyrir miðjan júlí og hitt eftir miðjan júlí, sem svo víxlast árið eftir og þannig koll af kolli.
Sumarið 2010 verði börnin hjá föður í sumarleyfi fyrri hluta sumars, frá kl. 18.00 fimmtudaginn 10. júní, þá sótt af föður, til fimmtudagsins 15. júlí kl. 18.00. Sumarfrí móður með börnunum hefst 15. júlí kl. 18.00, þá sótt af móður, til fimmtudagsins 19. ágúst kl. 18.00.
Þegar faðir hefur verið með börnin seinni hluta sumarleyfis hefst regluleg umgengni hjá móður að því loknu. Þegar móðir hefur verið með börnin seinni hluta sumarleyfis hefst regluleg umgengni hjá föður að því loknu.
Málskostnaður fellur niður.