Hæstiréttur íslands

Mál nr. 399/2012


Lykilorð

  • Skilasvik
  • Peningaþvætti
  • Ákæra


                                     

Fimmtudaginn 16. maí 2013

Nr. 399/2012.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Gísla Hilmi Hermannssyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Skilasvik. Peningaþvætti. Ákæra.

G voru í I. lið ákæru gefin að sök skilasvik með því að hafa sem eigandi og framkvæmdastjóri FA ehf. fjarlægt eða látið fjarlægja, og tekið þannig undir sig, án heimildar veðhafa, túrbínu sem tengd var skipsvél og tvo björgunarbáta úr skipinu V, þrátt fyrir að skipið ásamt rekstrartækjum og fylgifé væri veðsett samkvæmt skuldabréfi og ráðstafað þannig fjármunum FA ehf. svo ekki samrýmdist réttindum veðhafa. Þá var G í III. lið ákærunnar ákærður fyrir tilraun til peningaþvættis með því að hafa reynt að afla sér ávinnings með því að selja áðurgreinda túrbínu til nýrra eigenda V. Björgunarbátar þeir sem voru í V hafði G tekið úr öðru skipi sem einnig var í eigu FA ehf., en selt hafði verið í brotajárn. Taldi hann að björgunarbátarnir hefðu af þeim sökum ekki fallið undir veðsetningu samkvæmt skuldabréfi sem FA ehf. hafði gerst skuldari að við kaup á skipinu V og að því bæri að sýkna hann af ákæru hvað þetta varðaði. Hæstiréttur taldi engan vafa leika á því að björgunarbátarnir hefðu fallið undir veðsetningu samkvæmt skuldabréfinu, enda hefði FA ehf. verið skylt samkvæmt skilmálum skuldabréfsins að endurnýja björgunarbátana þegar þeir sem fyrir voru urðu ónothæfir. Hefði G borið, teldi hann sig eða aðra eiga betri rétt en veðhafana að þessu leyti, að óska eftir skriflegri heimild til þess að fjarlægja björgunarbátana úr skipinu. Taldi Hæstiréttur að sannaðar væru þær sakir sem G var að þessu leyti borinn í I. lið ákæru og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar þótti ekki sannað að G hefði tekið túrbínu þá sem um ræddi úr skipinu fyrir 17. mars 2010, er skipið var selt nauðungarsölu. Ætti brotalýsing 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga hvað þennan þátt varðaði því ekki við í málinu. Taldi Hæstiréttur að niðurstaða yrði ekki reist á 244. gr. almennra hegningarlaga hvað þetta varðaði þar sem málið hefði ekki verið reifað að því leyti í héraði eða G gefinn kostur á að verjast á þeim grundvelli. Var G því sýknaður af þeim hluta I. liðar ákærunnar. Loks var G sakfelldur fyrir tilraun til brots gegn 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga um peningaþvætti, enda hefði hann verið kominn að túrbínunni með háttsemi sem honum hefði hlotið að vera ljóst að hefði falið í sér auðgunarbrot samkvæmt almennum hegningarlögum. Var honum gert að sæta fangelsi í 8 mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Helgi I. Jónsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. maí 2012 og krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt liðum I og III í ákæru og dæmdur til refsingar, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu heimvísað.

Ákærði krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara ómerkingar hans og heimvísunar málsins.

I

Ákærði var framkvæmdastjóri, aðaleigandi og eini stjórnarmaður einkahlutafélagsins FiskAra, sem hafði meðal annars með höndum útgerð fiskiskipa. Félagið mun hafa keypt fiskiskipið Val ÍS 18, með skipaskrárnúmeri 1324, fyrir mitt ár 2007, en skipið var áður í eigu [...] ehf. Við kaupin yfirtók FiskAri ehf. meðal annars skuld, sem tryggð var með veði í skipinu, samkvæmt skuldabréfi 29. nóvember 2005. Vegna skuldaraskiptanna var gerður sérstakur skriflegur viðauki við bréfið 11. maí 2007 sem mælti fyrir um þau. Ákærði ritaði undir viðaukann fyrir hönd FiskAra ehf. Í veðskuldabréfinu var að finna skuldaviðurkenningu fyrir láni, sem tilgreint var í erlendum myntum. Til tryggingar greiðslu skuldarinnar eins og hún væri á hverjum tíma að viðbættum vöxtum og kostnaði var framangreint fiskiskip sett að veði með 2. veðrétti næst á eftir tilgreindri skuld við Sparisjóð Vestfirðinga. Í veðskuldabréfinu voru meðal annars svofelldir skilmálar: ,,Skipið er nýtt í atvinnurekstri veðsala og er veðsett ásamt þeim tækjum, sem tilheyra útgerð skipsins skv. 31. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Veðsala er ekki kunnugt um aðrar þinglýstar veðskuldir eða kvaðir á skipinu. Eignin er veðsett í núverandi ástandi, með öllum síðari endurbótum og viðaukum, hverju nafni sem nefnast. Skipið er veðsett með rá og reiða, aflvél og öðrum vélbúnaði svo og öllu, sem skipinu fylgir og fylgja ber í því ástandi, sem veðið nú er með öllum síðari endurbótum og viðaukum, hverju nafni sem nefnast. Þá er skipið ennfremur veðsett með rekstrar og orkubirgðum og öllum lausafjármunum og öðrum fylgihlutum, hverju nafni sem þeir nefnast og eru í eigu veðsala og ætlaðir til notkunar á skipinu og við rekstur þess eða við veiðar um lengri eða skemmri tíma svo sem veiðarfærum, vindum, kraftblökk, ratsjá, fiskleitartækjum, dýptarmælum og öðrum mæli- og fjarskiptatækjum, hvort heldur þeir eru um borð eða í landi, eins og frekast verður veðsett að veðlögum á hverjum tíma ... Veðrétturinn nær til rekstrartækjanna í heild eins og þau eru á hverjum tíma. Óheimilt er að stofna til veðréttar í rekstrartækjum einum og sér meðan rekstrarveðsamningur þessi er í gildi ... Veðsala er óheimilt að skipta út eða framselja veðsett rekstrartæki ef slíkt er ekki í samræmi við eðli rekstrarins og skerðir að mun tryggingu veðhafa. Eftir að veðhafi hefur komið fram greiðsluáskorun til undirbúnings fullnustugerðar til innheimtu veðkröfu þessarar, fellur niður takmörkuð heimild veðsala til að skipta út eða framselja rekstrartæki nema fyrir liggi skriflegt samþykki veðhafa sbr. 1. og 2. mgr. 27. gr. l. nr. 75/1997. Skylt er veðsala að halda hinu veðsetta vel við og hlíta eftirliti með viðhaldi, sem skuldareigandi kynni að gera ráðstafanir til og leyfa eftirlitsmönnum hans aðgang að eignunum og öðru því sem veðsett er og gefa þeim eða skuldareiganda hverjar þær upplýsingar sem krafist kann að verða. Veðsala ber jafnan að sjá um, að fullnægt sé öllum þeim öryggisráðstöfunum, sem krafist er um þess kyns eignir, sem hér er um að ræða, í gildandi lögum og reglugerðum á hverjum tíma.“

Svo sem áður greinir gekkst FiskAri ehf. undir þessar skuldbindingar með áritun sinni á viðaukann, sem gerður var við veðskuldabréfið.

Í málinu er upplýst að FiskAri ehf. átti að minnsta kosti eitt annað fiskiskip, Sigga Þorsteins ÍS 123, skipaskrárnúmer 11, sem selt var í brotajárn til Danmerkur í júlí 2008. Um borð í því skipi voru björgunarbátar með raðnúmerum C020701 og Y070402 sem skoðaðir voru af eftirlitsaðilum í júlí 2006. Ákærði upplýsti í skýrslu fyrir dómi að björgunarbátarnir sem voru í Val hafi verið orðnir ónýtir og hafi bátarnir, sem voru í Sigga Þorsteins, verið settir um borð í Val þegar síðarnefnda skipið var selt í brotajárn. Samræmist þessi lýsing ákærða skoðunarvottorðum eftirlitsaðila. Í skoðunarskýrslum Gúmmíbátaþjónustu Norðurlands sf. 5. ágúst 2008 kemur fram að björgunarbátar með framangreindum raðnúmerum voru þá um borð í Val. Liggur ekki annað fyrir í málinu en þeir hafi verið þar áfram og sannað er að um var að ræða sömu björgunarbáta og [...] og félagi hans tóku að beiðni ákærða úr bátnum aðfaranótt 11. febrúar 2010 en nauðungarsala fór fram á skipinu þann dag. Lögregla fann björgunarbátana á heimili ákærða eftir ábendingu hans 31. maí 2010.

Fyrir liggur að Valur kom til Akraness 13. október 2009 og var skipið þá sett í slipp. Það mun hafa verið fært úr slipp 3. nóvember sama ár og því lagt við hafnarkant í Akraneshöfn. Ákærði mun hafa fengið fyrirtækið A ehf. til þess að endurbæta túrbínu og spíssa sem voru við aðalvél skipsins. B sölustjóri félagsins gaf skýrslu fyrir héraðsdómi. Hann kvað samstarfsmann sinn C hafa farið að beiðni ákærða upp á Akranes og tekið túrbínu og spíssa af aðalvél skipsins og framkvæmt viðgerð á þessum munum á verkstæði félagsins. Hann kvað sig og C vera einu starfsmenn þess. Í málinu liggur fyrir reikningur félagsins 13. nóvember 2009 vegna verksins. Hann er stílaður á einkahlutafélagið Mun ferskari, en ákærði var aðaleigandi og í fyrirsvari fyrir það félag. A ehf. munu hafa fengið D til þess sem starfsmann undirverktaka að setja túrbínuna og spíssana aftur við aðalvél skipsins. Hann bar í samtali við lögreglu og í skýrslu fyrir dómi að hann hafi farið um borð framangreindra erinda og að því loknu ræst aðalvélina til þess að ganga úr skugga um að rétt hafi verið að verki staðið. Hann kvað þetta hafa verið 16. nóvember 2009 og studdi það við minnisbók. Þá hafi engin túrbína verið við aðalvél skipsins. Hann kvað einnig að einhverjir hefðu þá verið um borð líklega frá útgerð skipsins.

Svo sem áður greinir var skipið selt nauðungarsölu 11. febrúar 2010. Sama dag ritaði hæstbjóðandi, Sparisjóðurinn í Keflavík, bréf til sýslumannsins á Ísafirði og óskaði eftir að fá umráðarétt yfir skipinu gegn greiðslu uppboðsandvirðis. Var þegar á þetta fallist af hálfu sýslumanns og fór sparisjóðurinn því með vörslur skipsins frá þeim degi. Fékk sparisjóðurinn E til þess að hafa eftirlit með skipinu og ganga frá því, meðal annars með því að læsa hurðum og tryggja að óviðkomandi færi ekki um borð. Í skýrslu lögreglunnar um samtal við E kom fram að hann hafi strax veitt því athygli að björgunarbátana hafi vantað í skipið en hafi ekki tekið eftir því hvort túrbínan væri þá horfin. Mun E hafa tilkynnt 12. febrúar 2010 Sparisjóðnum í Keflavík um hvarf björgunarbátanna. Fljótlega var upplýst við athugun á eftirlitsmyndavélum hvernig hvarf þeirra bar að og kærði sparisjóðurinn 15. febrúar 2010 ákærða og meðákærðu í héraði fyrir ólögmæta töku björgunarbátanna.

Sparisjóðurinn í Keflavík auglýsti Val fljótlega til sölu. Fyrirsvarsmenn einkahlutafélagsins F voru þá að leita að skipi fyrir félagið. Framkvæmdastjóri þess, G, kvaðst hafa skoðað Val þremur til fjórum vikum áður en kaupsamningur um skipið var svo gerður 25. mars 2010. Hafi skipið þá verið í höfninni á Akranesi. Í skýrslu fyrir dómi kvaðst hann sannfærður um að hann hefði tekið eftir því, er hann fór niður í vélarrúm skipsins við skoðunina, ef túrbínu hefði vantað við aðalvélina. Ef svo hefði verið, hefði blasað við stórt gat. H, sem áformað var að yrði skipstjóri á skipinu, ef af kaupum yrði, kvaðst í skýrslu fyrir dómi telja sig geta fullyrt að túrbínan hefði verið við aðalvél skipsins er hann skoðaði það nokkru fyrir kaupin.

Svo sem fram er komið keyptu F ehf. skipið 25. mars 2010 og var það þá þegar afhent þar sem það var í Akraneshöfn. Framkvæmdastjóri félagsins, áðurnefndur G, upplýsti í skýrslu fyrir dómi að þegar hann hefði komið um borð eftir afhendingu til að sigla skipinu til Kópavogs hefði I sölufulltrúi hjá skipamiðlun haft símsamband við hann með ábendingu um að ekki skyldi ræsa aðalvél skipsins vegna þess að þá gæti vélin skemmst þar sem túrbínuna vantaði við vélina. Bauð I jafnframt túrbínu til sölu sem fyrrverandi eigandi, ákærði í málinu, ætti. Við athugun í framhaldi af þessu samtali varð G, og öðrum sem á staðnum voru, ljóst að túrbínuna vantaði við aðalvélina. Varð niðurstaðan sú, í samráði við Sparisjóðinn í Keflavík, að kaupa túrbínuna af ákærða. Var um það samið og kom ákærði þegar 26. mars 2010 með túrbínuna og aðstoðaði við að setja hana við aðalvél skipsins. Þótt ákærða hafi verið lofað greiðslu fyrir túrbínuna hefur sú greiðsla ekki verið innt af hendi. Landsbankinn hf., sem þá hafði yfirtekið Sparisjóðinn í Keflavík, kærði ákærða 22. júní 2011 vegna ætlaðra skilasvika sem reist var á því að ákærði bæri sjálfur ábyrgð á töku túrbínunnar úr skipinu.

II

Ákærði er í málinu borinn tvenns konar sökum. Annars vegar eru honum í I. lið ákæru gefin að sök skilasvik með því að hafa á tilgreindu tímabili, sem eigandi og framkvæmdastjóri FiskAra ehf., fjarlægt eða látið fjarlægja úr fiskiskipinu Val og tekið þannig undir sig án heimildar veðhafa, túrbínu, sem tengd var aðalvél skipsins og tvo björgunarbáta þar sem skipið lá í Akraneshöfn, þótt það ásamt rekstrartækjum og fylgifé væri veðsett eins og nánar er tilgreint í ákæru og ráðstafað þannig fjármunum FiskAra ehf. svo ekki samrýmdist réttindum veðhafa. Hins vegar er ákærði borinn sökum í III. lið ákæru um tilraun til peningaþvættis með því að hafa föstudaginn 26. mars 2010 reynt að afla sér ávinnings með því að selja túrbínu þá, sem áður greinir, til nýrra eigenda Vals fyrir 600.000 krónur.

III

Í hinum áfrýjaða dómi er lagt til grundvallar að ákærði hafi beðið meðákærða í héraði, [...] X, að taka björgunarbátana úr Val og það hafi meðákærði ásamt félaga sínum, sem einnig var meðákærður í héraði, gert aðfaranótt 11. febrúar 2010. Héraðsdómur leggur einnig til grundvallar að björgunarbátarnir hafi, er veðskjöl voru gerð í nóvember 2005 og viðaukinn við veðskuldabréfið í maí 2007, tilheyrt bátnum Sigga Þorsteins, en síðan verið fluttir um borð í Val. Ágreiningur sé um hvort veðskuldabréfið og viðaukinn taki til björgunarbátanna. Svo unnt sé að komast að niðurstöðu um þann ágreining þurfi að taka afstöðu til þess hvaða skyldur efni framangreindra skjala og eftir atvikum hvaða þýðingu reglur laga nr. 75/1997 geta haft að virtum atvikum máls. Úr þessum einkaréttarlega ágreiningi verði ekki skorið í sakamáli sem þessu. Vegna ágreiningsins verði því ekki slegið föstu, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði hafi haft ásetning til þess að taka undir sig sem framkvæmdastjóri FiskAra ehf., án heimildar veðhafa, björgunarbátana og ráðstafa þannig fjármunum félagsins svo að ekki varð samrýmt réttindum veðhafanna. Var ákærði þess vegna sýknaður af þeim sakargiftum sem lutu að töku björgunarbátanna.

Er ákærði fyrir hönd FiskAra ehf. undirritaði 11. maí 2007 viðaukann við veðskuldabréfið frá í nóvember 2005, sem fól í sér skuldaraskipti að bréfinu á þann hátt að FiskAri ehf. kom í stað fyrri skuldara, hlaut hann að kynna sér hvaða skuldbindingar fælust í þeirri ráðstöfun fyrir félagið og fyrir hann sjálfan sem fyrirsvarsmann þess. Með því hlaut honum að vera ljóst að skipið væri veðsett ásamt tækjum þeim, sem tilheyrðu útgerð þess, og að veðsetningin tæki til allra síðari endurbóta og viðauka hverju nafni sem nefndust. Í veðskuldabréfinu var einnig tíundað að skipið væri veðsett með öllum lausafjármunum og öðrum fylgihlutum, hverju nafni sem nefndust og væru í eigu veðsala og ætlaðir til notkunar á skipinu og við rekstur þess eða við veiðar um lengri eða skemmri tíma. Þá var í veðskuldabréfinu lagt bann við því að veðsali skipti út eða framseldi veðsett rekstrartæki ef slíkt væri ekki í samræmi við eðli rekstrarins og skerti að mun tryggingar veðhafa. Loks var lögð sú skylda á veðsala að halda hinu veðsetta vel við og sjá um að fullnægt væri öllum öryggisráðstöfunum, sem krafist er um þess kyns eignir og hið veðsetta samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum á hverjum tíma.

Ákærði hefur sjálfur upplýst að þeir björgunarbátar sem voru í Val hafi verið ónýtir og hafi hann, þegar fiskiskipið Siggi Þorsteins var selt á árinu 2008, sett björgunarbátana úr því skipi í Val. Ekki liggur annað fyrir en að þeir hafi verið eign FiskAra ehf. en ekki ákærða sjálfs, enda hefur hann engum stoðum rennt undir það. FiskAra ehf. var skylt samkvæmt skilmálum veðskuldabréfsins að endurnýja björgunarbátana úr Val þegar þeir sem fyrir voru urðu ónothæfir. Það var gert með því að flytja þá sem voru í Sigga Þorsteins yfir í Val. Liggur ekki annað fyrir en að þeir hafi verið þar í um eitt og hálft ár er ákærði lét fjarlægja þá nóttina áður en skipið skyldi selt nauðungarsölu. Leikur enginn vafi á því að björgunarbátarnir féllu undir veðsetninguna samkvæmt framangreindu skuldabréfi. Bar ákærða, ef hann taldi sig eða aðra eiga betri rétt en veðhafarnir að þessu leyti, að fara að skilmálum veðkuldabréfsins og óska eftir skriflegri heimild veðhafa til þess að fjarlægja björgunarbátana úr skipinu, sbr. og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 75/1997. Þær skýringar ákærða eru fráleitar og jafnframt þýðingarlausar í málinu, að [...] hafi lánað honum fé fyrir dráttartaug er sigla skyldi Sigga Þorsteins til Danmerkur sumarið 2008 og hann, til að endurgjalda honum lánið, hafi afsalað björgunarbátunum til [...], sem síðan hafi lánað þá aftur um borð í Val. Fundust enda björgunarbátarnir á heimili ákærða að [...], [...], eins og áður er rakið. Er ekki umdeilt að verðmæti þeirra, 200.000 krónur, sé réttilega tilgreint í ákæru.

Samkvæmt framansögðu og með vísan til þess að sönnuð eru atvik að töku björgunarbátanna aðfaranótt 11. febrúar 2010 er fullnægt kröfu 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um að sannaðar séu þær sakir sem ákærði er að þessu leyti borinn í ákæru. Er brotið þar réttilega heimfært til 2. töluliðar 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV

Ákærði upplýsti í skýrslu fyrir dómi að svonefnt hús á þeirri túrbínu sem var í Val hafi verið sprungið. Hann hafi því útvegað aðra túrbínu og látið gera hana upp. Fyrir dómi gáfu einnig skýrslu um síma vitnin B, sölustjóri A ehf. og D, starfsmaður J ehf. Voru skýrslur þeirra fyrir dómi að efni til eins og skýrsla lögreglu um samtal hennar við vitnin, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 88/2008. Gat héraðsdómur metið hvort skilyrði væru fyrir því að ákveða hvort vitnin kæmu í eigin persónu fyrir dóminn til skýrslugjafar eða gæfu skýrslu um síma, sbr. 4. mgr. 116. gr. laganna. Í málinu liggur fyrir reikningur A ehf. vegna vinnu á verkstæði félagsins og um borð í Val við endurbyggingu á túrbínu og spíssum við vél skipsins. D bar að honum hefði verið falið að fara með þessa muni á Akranes og setja þá við aðalvél skipsins, sem gekk eftir. Í skýrslu B kom fram að túrbínan, sem tekin var úr Val og uppgerð af A ehf., hafi verið sett aftur um borð í skipið. Þótt tekið sé tillit til mats héraðsdóms á sönnunargildi skýrslu D er vegna alls framangreinds unnt að leggja til grundvallar að sama túrbínan og tekin var úr skipinu hafi verið sett í það aftur að lokinni viðgerð. Verður með sama hætti og rakið var um björgunarbátana að leggja til grundvallar að með því hafi endurbætt túrbínan orðið hluti þess sem veðsett var með skipinu, enda gerði ákærði veðhöfum enga grein fyrir því að hlutir, sem eru nauðsynlegir til þess að aðalvél skipsins verði notuð, hafi verið í eigu einhvers annars en FiskAra ehf. Ákærða var samkvæmt skilmálum veðskuldabréfsins óheimilt að fjarlægja túrbínuna, nema með skriflegu samþykki veðhafa, enda fólst í því skerðing á tryggingu veðhafa eða hagsmunum eigenda skipsins, ef ekki var ætlunin að setja hana í aftur. Með framburði vitnanna G, H og I, sem kvað ákærða hafa tjáð sér að hann væri með túrbínuna úr skipinu og atvikum málsins að öðru leyti er sannað að túrbína sú, sem ákærði reyndi að selja nýjum eiganda Vals, F ehf., í mars 2010 var sú sama og sett var nýuppgerð í skipið í nóvember 2009.

Eins og rakið er í héraðsdómi lýstu vitnin G og H því í skýrslum fyrir dómi að þeir hefðu við skoðun á skipinu nokkru fyrir kaupin 25. mars 2010 talið sig vissa um að þá hefði túrbínan verið við aðalvél skipsins. Fyrir liggur að sýslumaðurinn á Ísafirði gaf 17. mars 2010 út afsal til Sparisjóðsins í Keflavík sem hæstbjóðanda við nauðungarsöluna. Afsalið var afhent til þinglýsingar sama dag. Féllu þá niður öll veðbönd á skipinu, sbr. 2. mgr. 56. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Samkvæmt framangreindu er ósannað að túrbínan hafi verið fjarlægð úr skipinu fyrir 17. mars 2010. Á brotalýsing sú, sem fram kemur að þessu leyti í I. lið ákæru og miðar við skilasvik, því ekki við í málinu. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti gat ákæruvaldið þess að rétt hefði verið að ákæra til vara fyrir brot á 244. gr. almennra hegningarlaga ef lagt yrði til grundvallar að ósannað væri túrbínan hefði verið fjarlægð áður en Sparisjóðurinn í Keflavík eignaðist skipið. Ekkert liggur fyrir um að málið hafi verið reifað að þessu leyti í héraði eða ákærða gefinn kostur á því að verjast á þessum grundvelli. Verður niðurstaða því ekki reist á 244. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008. Verður ákærði því sýknaður af þessum hluta I. liðar ákærunnar. 

Á hinn bóginn er sannað að ákærði freistaði þess að selja F ehf. túrbínuna fyrir 600.000 krónur og afhenti hana í því skyni 26. mars 2010, en fékk kaupverðið ekki greitt. Samkvæmt framansögðu var ákærði kominn að túrbínunni með háttsemi sem honum hlaut að vera ljóst að fól í sér auðgunarbrot samkvæmt almennum hegningarlögum, þótt af framangreindum ástæðum verði ekki í málinu dæmt um hvort hann hafi gerst sekur um brot á 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. þeirra eða 244. gr. Verður honum því refsað fyrir brot sem tilgreint er í III. lið ákæru og réttilega er þar heimfært til 1. mgr. 264. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 8. nóvember 2001 í máli nr. 200/2001, sem birtur er á síðu 3856 í dómasafni réttarins það ár.

Ásetningur ákærða til brotanna var einbeittur, sbr. 6. tölulið 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Verður refsing hans fyrir framangreind brot ákveðin fangelsi í átta mánuði, sem með hliðsjón af sakaferli hans, þykir mega skilorðsbinda á þann hátt sem lýst er í dómsorði.

Ákærði greiði sakarkostnað í héraði eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi, sem er þóknun verjanda hans, ásamt virðisaukaskatti og ferðakostnaði. Ákærði verður dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Ákærði, Gísli Hilmir Hermannsson, sæti fangelsi í átta mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar í þrjú ár frá uppkvaðningu dóms þessa og hún falla þá niður, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 415.754 krónur í sakarkostnaðar í héraði og allan áfrýjunarkostnað málsins, 388.468 krónur, þar með talda málflutningsþóknun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur.

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 2. maí 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var 8. mars sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 20. desember 2011 á hendur ákærðu, Gísla Hilmi Hermannssyni, kt. [...] til heimilis að [...], [...], X, kt. [...], [...], [...], og Y, kt. [...], [...], [...];

fyrir eftirfarandi brot framin á árinu 2010 nema annað sé tekið fram:

I.

Gegn ákærða Gísla Hilmi fyrir skilasvik, með því að hafa á tímabilinu 16. nóvember 2009 til 26. mars, sem eigandi og framkvæmdastjóri Fiskara ehf., kt. [...], fjarlægt eða látið fjarlægja, og tekið þannig undir sig, án heimildar veðhafa, túrbínu sem tengd er skipsvél (Mitsubishi raðnúmer D11885) að verðmæti kr. 600.000 og tvo björgunarbáta (raðnúmer C020701 og Y070402) að verðmæti kr. 200.000, úr skipi Fiskara ehf., Vali ÍS-18, skipaskrárnúmer 1324, þar sem skipið lá í Akraneshöfn, þrátt fyrir að skipið ásamt rekstrartækjum og fylgifé, væri veðsett Sparisjóði Vestfirðinga, síðar Sparisjóði Keflavíkur, síðar Landsbankanum hf., nú NBI hf., samkvæmt skuldabréfi, dags. 29. nóvember 2005, samanber viðauka dagsettan 11. maí 2007, og ráðstafað þannig fjármunum Fiskara ehf. svo ekki varð samrýmt réttindum veðhafa.

Telst þetta varða við 2. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga.

II.

Gegn ákærðu X og Y fyrir hlutdeild í skilasvikum meðákærða Gísla Hilmis, með því að hafa í sameiningu fimmtudaginn 11. febrúar fjarlægt tvo björgunarbáta (raðnúmer C020701 og Y070402), að verðmæti kr. 200.000, úr skipinu Vali ÍS-18, skipaskrárnúmer 1324, þrátt fyrir að skipið ásamt rekstrartækjum og fylgifé væri veðsett með þeim hætti sem greinir í I. ákærulið, og aðstoðað þannig meðákærða Gísla Hilmi við að ráðstafa fjármunum Fiskara ehf. svo ekki varð samrýmt réttindum veðhafa.

Telst þetta varða við 2. tl. 1. mgr. 250. gr., sbr. 22. gr. almennra hegningarlaga, en til vara 261. gr. sömu laga.

III.

Gegn ákærða Gísla Hilmi fyrir tilraun til peningaþvættis með því að hafa föstudaginn 26. mars reynt að afla sér ávinnings með því að selja túrbínu samkvæmt I. ákærulið til nýrra eigenda Vals ÍS-18, skipaskrárnúmer 1324, F ehf., kt. 640506-1800, fyrir kr. 600.000.

Telst þetta varða við 1. mgr. 264., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Af hálfu ákærða Gísla Hilmis eru þær kröfur aðallega gerðar í málinu að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Til vara krefst ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa. Í báðum tilvikum er gerð krafa um að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg þóknun verjanda til handa.

Kröfur ákærða X í málinu eru aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, til vara að honum verði ekki gerð refsing en til þrautavara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Í öllum tilvikum krefst ákærði þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg þóknun til handa verjanda hans.

Ákærði Y krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa. Í báðum tilvikum krefst ákærði þess að allur sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þar með talin hæfileg þóknun verjanda hans til handa.

I.

Hinn 15. febrúar 2010 lagði Sparisjóðurinn í Keflavík fram kæru á hendur ákærða Gísla Hilmi, þá forsvarsmanni FiskAra ehf., og starfsmanni félagsins, ákærða X, fyrir meint brot gegn ákvæði 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í kærunni var og tekið fram að sparisjóðinn grunaði einnig að ákærði Y væri meðsekur hinum tveimur fyrrnefndu.

Í kæru sparisjóðsins var til þess vísað að FiskAri ehf. hefði átt og gert út bátinn Val ÍS-18, skipaskrárnúmer 1324. Báturinn hefði verið veðsettur sparisjóðnum að fullu með öllum búnaði og veiðiheimildum. Báturinn hefði verið sleginn sparisjóðnum á uppboði hjá sýslumanninum á Ísafirði 11. febrúar 2010. Samdægurs, að fenginni rökstuddri beiðni frá sparisjóðnum, hefði sýslumaðurinn á Ísafirði gefið út staðfestingu á því að sparisjóðurinn fengi afhent yfirráð yfir bátnum frá uppboðsdegi. Síðan sagði svo í kærunni: „Strax sama dag eftir uppboðið fékk sparisjóðurinn aðila á Akranesi til að loka og læsa öllum aðgöngum inn í bátinn þar sem hann liggur í höfninni á Akranesi ... Ofanritaður aðili er E ...“.

Af hálfu sparisjóðsins var einnig rakið í kærunni að 12. febrúar 2010 hefði útibússtjóra sparisjóðsins á Ísafirði borist símtal frá fyrrnefndum E sem tilkynnt hefði að tveir björgunarbátar væru horfnir af þilfari Vals ÍS-18. Hefði komið fram hjá E að á myndbandsupptöku úr öryggismyndavél við Akraneshöfn mætti sjá bifreið með kerru ekið að hlið bátsins. Tveir menn hefðu síðan farið um borð og nokkru síðar híft báða björgunarbátana á kerruna og ekið brott.

Samdægurs mun hafa komið í ljós að mennirnir tveir á myndbandsupptökunni voru ákærðu X og Y. Þegar starfsmenn sparisjóðsins náðu símasambandi við ákærða X gekkst hann strax við því að hafa tekið bátana en neitaði hins vegar að afhenda sparisjóðnum þá nema samkvæmt fyrirmælum [...], ákærða Gísla Hilmis, þar um, enda hefði það verið hann sem beðið hefði X um að taka bátana.

Í lok maí 2010 lagði lögreglan á Vestfjörðum hald á fyrrnefnda björgunarbáta á heimili [...] Gísla Hilmis [...]. Við það tækifæri kannaðist ákærði Gísli Hilmir við að um væri að ræða báta sem um hríð hefðu verið um borð í Vali ÍS-18. Fullyrti ákærði hins vegar að bátarnir væru persónuleg eign hans, enda kæmu þeir upphaflega úr skipinu Sigga Þorsteins ÍS, sem ákærði hefði selt úr landi í brotajárn. Í skýrslutöku hjá lögreglu ítrekaði ákærði efnislega þessa afstöðu sína.

Hinn 22. júní 2011 lagði Landsbanki Íslands (útibú bankans á Ísafirði), sem þá hafði tekið við réttindum og skyldum sparisjóðsins, fram nýja kæru á hendur ákærða Gísla Hilmi. Í kærunni krafðist Landsbankinn þess „... að þeim sem sekir kunna að reynast um þjófnað á túrbínu úr Val ÍS-18 í byrjun árs 2010 verði refsað lögum samkvæmt.“ Var til þess vísað að eftir að fyrri kæra var lögð fram hefði komið í ljós að túrbína Vals ÍS-18 hefði verið fjarlægð úr bátnum. Hefði ákærði Gísli Hilmir skömmu síðar, með milligöngu félagsins K ehf., boðið nýjum eigendum bátsins, F ehf., sem keypt hefðu bátinn af SpKef sparisjóði eftir áðurnefnt uppboð, túrbínu til kaups. Strax hefði þá vaknað grunur um að ákærði hefði tekið túrbínuna úr bátnum og væri nú að bjóða nýjum eigendum hana til kaups. Í framhaldinu höfðu bankinn og F ehf. samvinnu sín á milli og fór svo að þeir náðu túrbínunni úr höndum ákærða Gísla Hilmis án þess að hann fengi greiðslu fyrir.

Við skýrslutöku hjá lögreglu 23. ágúst 2010 neitaði ákærði að túrbína sú sem hann hefði boðið F ehf. til kaups hefði verið túrbínan úr Val ÍS-18. Um hefði verið að ræða túrbínu sem hann hefði sjálfur látið gera upp og hefði ekki ætlað að láta með bátnum.

Rannsókn lögreglu á málinu lauk í nóvember 2011 og 20. desember það ár gaf lögreglustjórinn á Vestfjörðum út ákæru á hendur ákærðu samkvæmt áðursögðu.

II.

A.

Ákærði Gísli Hilmir, sem var er atvik máls gerðust eigandi og framkvæmdastjóri FiskAra ehf., skýrði svo frá fyrir dómi að björgunarbátar þeir er mál þetta vörðuðu væru lausafé og komnir úr bátnum Sigga Þorsteins ÍS sem verið hefði í eigu FiskAra ehf. þar til hann var seldur í brotajárn. Bátarnir hefðu því ekki tilheyrt Vali ÍS-18 heldur eingöngu verið lánaðir þangað þar sem björgunarbátarnir um borð í Vali, sem á sínum tíma hefðu verið veðsettir með bátnum, hefðu verið orðnir ónýtir. Lánið á bátunum hefði grundvallast á loforði sparisjóðsins um að ákærði fengi bátinn eftir uppboð, sem sjóðurinn hefði síðan ekki efnt. Tók ákærði fram í þessu sambandi að kostnaður við að kaupa senda í bátana og skoða þá hefði ekki verið greiddur af FiskAra ehf. heldur öðru félagi.

Þá greindi ákærði Gísli Hilmir svo frá að er hann hafi verið á sjó úti við Noregsstrendur, líklega að áliðnu árinu 2009, hefði [...], meðákærði X, náð sambandi við hann símleiðis, þrátt fyrir stopult símasamband, og sagst ætla að sækja „dótið sitt“ um borð í Val ÍS-18. Kvaðst ákærði hafa sagt meðákærða að það væri óþarfi, ákærði myndi geta tekið dótið þegar hann kæmi aftur heim, enda væri sparisjóðurinn búinn að lofa honum bátnum eftir fyrirhugað uppboð. Ákærði sagði X hafa greint sér frá samtali sem hann hefði skömmu áður átt við L sparisjóðsstjóra er brugðist hefði hinn versti við þegar meðákærði upplýsti hann um þá fyrirætlan sína að fara um  borð í bátinn og sækja eigur sínar. L hefði talið slíkan leiðangur óþarfan með öllu þar sem þeir [...], Gísli Hilmir og X, gætu farið um borð í bátinn eftir uppboðið til að sækja eigur sínar þar sem ákærði fengi bátinn í hendur eftir uppboðið. Ákærði kvað meðákærða hins vegar ekki hafa látið sig og hann haldið fast við þá fyrirætlan að sækja föggur sínar um borð í bátinn.

Úr því að meðákærði X hélt sig við fyrirætlan sína kvaðst ákærði hafa beðið hann um að taka björgunarbátana tvo úr fiskikari á þilfari bátsins. Ástæðuna sagði ákærði þá að hann hefði óttast, af gefnu tilefni, að bátunum yrði annars stolið þar sem þeir lágu lausir í karinu. Kvaðst ákærði ekki hafa haft um það hugmynd fyrr en síðar að meðákærði Y, [...] færi með X í þennan leiðangur. Spurður um hvort eignarhald á björgunarbátunum hefði komið til tals í símtali þeirra [...] kvað ákærði svo ekki hafa verið, enda engin ástæða til þar sem FiskAri ehf. hefði á þessum tímapunkti verið þinglýstur eigandi bátsins og jafnframt hefði staðið til að ákærði fengi bátinn eftir uppboðið samkvæmt áðursögðu. Í þessu sambandi upplýsti ákærði einnig að [...] hefði ekki á nokkurn hátt haft með rekstur eða fjárhagsleg málefni FiskAra ehf. að gera.

Fram kom hjá ákærða Gísla Hilmi að farið hefði verið með björgunarbátana heim til [...]. Þann mann sagði hann í raun eiga björgunarbátana þar sem hann hefði lagt út fé í til tengslum við drátt bátsins Sigga Þorsteins ÍS til Danmerkur þar sem báturinn hefði verið seldur í brotajárn árið 2008. Björgunarbátana hefði ákærði ekki selt með heldur tekið þá úr bátnum, ásamt ýmsum öðrum hlutum, og látið senda þá til baka. Síðan hefði ákærði afsalað björgunarbátunum til [...] sem endurgreiðslu á hinum útlagða kostnaði. Ákærði hefði síðan fengið bátana lánaða hjá [...] til að setja í Val ÍS-18 þar sem þeir sem í honum voru hefðu verið ónýtir og ákærði verið orðinn févana og ekki getað keypt nýja.

Spurður um hvernig björgunarbátarnir hefðu komist til [...], þar sem lögregla hefði fundið þá og haldlagt 31. maí 2010, svaraði ákærði Gísli Hilmir því til að [...] hefði skutlað þeim [...]. Ástæðu þess að farið hefði verið með bátana [...] sagði ákærði hafa verið plássleysi hjá [...]. Ákærði hefði síðan ætlað að reyna að selja bátana svo [...] fengi peningana sína til baka. Tók ákærði fram að hann hefði aldrei verið spurður út í bátana, hvorki af sparisjóðnum né öðrum, og ekkert vitað af kæru sjóðsins fyrr en lögreglan birtist á heimili hans. Því sé fráleitt að halda því fram að hann hafi verið að fela bátana.

Ákærði Gísli Hilmir kvað Val ÍS-18 hafa verið gerðan út á árunum 2008 og 2009 með hjálp góðra manna í Keflavík. FiskAri ehf. hefði ekki gert bátinn út á því tímabili vegna deilna við sparisjóðinn sem lokað hefði reikningum félagsins. Staðfesti ákærði að hann hefði farið með Val ÍS-18 í slipp á Akranesi í október 2009. Þá kom fram hjá ákærða að hann og meðákærði X hefðu verið skipverjar á bátnum á hluta umrædds tímabils.[...]

Túrbínu þá sem nefnd er í ákæruliðum I og III sagði ákærði Gísli Hilmir ekki vera úr Vali ÍS-18. Þá túrbínu hefði ákærði fengið til að gera upp þar sem húsið á túrbínunni úr Vali ÍS-18 hefði verið sprungið. Ákærði hefði fengið þær ráðleggingar að keyra alls ekki vél bátsins með þeirri túrbínu þar sem það gæti valdið óbætanlegum skaða á bátsvélinni. Ákærði hefði því útvegað sér aðra túrbínu, notaða, og látið endurbyggja hana. Kvaðst ákærði hafa talið sig hafa fullan haldsrétt í þeirri túrbínu þar sem hann hefði sjálfur lagt út fyrir túrbínunni og annað fyrirtæki lánað honum fyrir endurgerð hennar. Ætlan ákærða hefði verið að setja túrbínuna í Val ÍS-18 í stað hinnar en ekki hefði orðið af því þar sem sparisjóðurinn hefði ekki staðið við þau fyrirheit að ákærði fengi bátinn eftir uppboðið. Tók ákærði fram að hann hefði að sjálfsögðu ekki verið að útvega túrbínu fyrir einhvern annan en sjálfan sig. Þá taldi hann aðspurður að gamla túrbínan hefði áfram verið um borð í bátnum. Spurður um hver hefði losað túrbínuna af vélinni svaraði ákærði því til að það hefði sá gert sem dæmt hefði túrbínuna ónýta. Sá hinn sami og varað hefði ákærða við því að reyna að nota hana frekar samkvæmt áðursögðu.

Aðspurður kvaðst ákærði Gísli Hilmir hafa verið framkvæmdastjóri félagsins Mun ferskari ehf., en það félag hefði verið í útgerð á tímabili. Ákærði hefði fengið peninga hjá félaginu, en hann hefði átt inni hjá því laun, til að greiða fyrir endurbyggingu túrbínunnar.

Um samskipti sín við K ehf. vegna túrbínunnar bar ákærði Gísli Hilmir að hann hefði einungis viljað aðstoða nýja eigendur Vals ÍS-18 við að koma vél skipsins í gang og samhliða því ná til baka þeim kostnaði sem hann hefði orðið fyrir við endurbyggingu túrbínunnar. Einnig hefði ákærði haft í huga þá áhættu sem nýir eigendur tækju reyndu þeir að gangsetja vélina með gömlu túrbínunni. Rætt hafi verið um að ákærði fengi 600.000 krónur fyrir túrbínuna og vegna þess kostnaðar sem hann hefði af því að keyra suður og vinna við bátinn í einn dag. Ákærði kvaðst hafa krafist þess að fá peningana áður en hann færi suður og því hefði umrædd fjárhæð verið lögð inn hjá K ehf. Nefndi ákærði að skipasalinn hefði gert kröfu um ⅓ af þeirri fjárhæð í þóknun. Ákærða hefði þótt það heldur mikið. Hefðu þeir eitthvað þráttað um þetta og á endanum sagðist ákærði hafa verið kominn inn á það að samþykkja kröfu skipasalans. Komist hefði á um það samkomulag að þegar búið væri að sigla bátnum til Kópavogs ætti að leggja greiðsluna inn á reikning ákærða, enda þá búið að sannreyna að túrbínan frá honum væri í lagi.

Ákærði Gísli Hilmir sagðist í kjölfarið hafa farið suður á Akranes þar sem hann hefði farið með hina endurbyggðu túrbínu um  borð í Val ÍS-18. Tók ákærði aðspurður sérstaklega fram að þá hefði túrbínan í fyrsta sinn verið að fara um borð í bátinn. Er hann hefði í kjölfarið krafist umsaminnar greiðslu hefði skipasalinn talið öll tormerki á því að afhenda hana. Hefði hann meðal annars upplýst að lögreglan hefði komið og handtekið hann og hefði frásögn hans öll verið hin ruglingslegasta. Niðurstaðan hefði síðan orðið að þeir hittust, ásamt væntanlegum kaupendum, og funduðu um málefnið. Er ákærði hefði mætt á staðinn hefði skipasalinn hins vegar upplýst að hann væri búinn að millifæra fjármunina til baka vegna hótana sparisjóðsins um að gerði hann það ekki yrði tekið fyrir öll viðskipti við hann í framtíðinni.

B.

Ákærði X sagðist hafa verið starfsmaður hjá FiskAra ehf. á sínum tíma, félagi sem verið hefði í eigu [...], meðákærða Gísla Hilmis. Aðspurður kvaðst ákærði hafa vitað af því að félagið væri í fjárhagsvandræðum og að sparisjóðurinn hefði óskað eftir nauðungar­sölu á báti félagsins, Vali ÍS-18. Hefði hann haft fregnir af  uppboðinu í samtali sem hann hefði átt við L sparisjóðsstjóra. Hann hefði hins vegar ekki vitað neitt nánar um fjárhagsleg málefni félagsins annað en það sem L hefði tjáð honum „... að við ættum að fá bátinn aftur ...“ eftir uppboðið. Sagðist ákærði hafa upplýst L um að hann hefði hug á því að fara og sækja muni sem hann ætti um borð í bátinn og hefði L reynt að fá hann ofan af því.

Eftir samtalið við L kvaðst ákærði X hafa verið orðinn ákveðinn í því að fara á Akranes og sækja eigur sínar um borð í Val ÍS-18, áður en báturinn yrði boðinn upp, þar sem hann hefði ekkert traust borið til sparisjóðsins og talið óvíst að hann fengi að aðgang að bátnum eftir uppboðið. Skýrði það hversu ákærði hefði verið seint á ferðinni umrætt sinn. Þar sem ákærði hefði verið bíllaus á þessum tíma hefði hann fengið far hjá meðákærða Y, vini sínum og [...], sem verið hefði á leið suður daginn eftir en flýtt för sinni að beiðni ákærða.

Ákærði kvaðst aðspurður halda að meðákærða Y hefði verið kunnugt um eignarhald FiskAra ehf. á Vali ÍS-18. Ákærði taldi hins vegar að hann hefði ekkert þekkt til þess hverjum báturinn væri veðsettur. Ekki rak ákærða minni til þess að eignarhald á björgunarbátunum hefði komið sérstaklega til tals milli hans og meðákærða. Aftur á móti hefði ákærði nefnt við meðákærða að erindi hans um borð væri að sækja muni í sinni eigu. Nánar spurður um hvaða munir það hefðu verið nefndi ákærði fatnað, verkfæri, tölvu, harðdiskflakkara, sæng o.fl., sem og tvo björgunarbáta er verið hefðu í fiskikari á þilfari bátsins. Bátana hefði ákærði tekið að ósk [...], ákærða Gísla Hilmis, sem hann hefði sett fram símleiðis.

Ákærði taldi mögulegt að hann og meðákærði Y hefðu yfirgefið bátinn um kl. 6:00 um morguninn. Spurður um hvað þeir hefðu gert við björgunarbátana upplýsti ákærði að þeir hefðu skilið bátana eftir hjá [...]. Hvað [...] hefði ætlast fyrir með björgunarbátana kvaðst ákærði ekki hafa vitað.

Aðspurður kannaðist ákærði við að fyrrnefndur L og annar starfsmaður sparisjóðsins, M, hefðu rætt við hann síðar þennan sama dag, eftir að þau fréttu af því að hann hefði tekið björgunarbátana úr Vali ÍS-18. Sagðist ákærði strax hafa kannast við að hafa tekið bátana, en hann hins vegar ekki viljað skila þeim án þess að ræða við [...] fyrst. Við hann hefði ákærði hins vegar ekki náð sambandi. Kom fram hjá ákærða að það hefði ekki verið fyrr en með þessum samtölum við starfsfólk sparisjóðsins sem hann gerði sér grein fyrir því að sjóðurinn liti svo á að óheimilt hefði verið að taka björgunarbátana úr Vali ÍS-18, enda þekkti hann ekkert til reglna um fylgifé báta. Enn fremur upplýsti ákærði að honum hefði verið kunnugt um að björgunarbátarnir hefðu upphaflega komið úr bátnum Sigga Þorsteins ÍS, er seldur hefði verið í brotajárn nokkru áður, þar sem hann hefði tekið þátt í að koma þeim báti á áfangastað í Danmörku.

C.

Ákærði Y sagði meðákærðu vera [...] og vini.

Aðspurður kvaðst ákærði Y ekki hafa sérstaklega hugleitt eignarhaldið á bátnum Vali ÍS-18 umrætt sinn og nefndi í því sambandi að meðákærði Gísli Hilmir hefði gegnum tíðina verið með mörg fyrirtæki á sínum snærum. Nánari þekkingu á þeim málum hefði ákærði hins vegar ekki búið yfir og hann því ekki vitað hvaða fyrirtæki meðákærða ætti bátinn. Því síður hefði ákærði haft nokkra hugmynd um það hvaða aðilar ættu veð í bátnum. Þá kvaðst ákærði aðspurður aldrei hafa verið í nokkurri aðstöðu til að kynna sér fjármál FiskAra ehf.

Um hvernig það kom til að hann fór um borð í Val ÍS-18 í Akraneshöfn ásamt meðákærða X bar ákærði Y að X hefði hringt í sig og innt sig eftir því hvort hann væri ekki til í að flýta fyrirhugaðri ferð sinni suður og fara með meðákærða að sækja dót um borð í Val ÍS-18. Ákærði kvaðst hafa sagt það vera lítið mál „... í þeirri trú að ég væri ekki að gera neitt rangt ...“. Á leiðinni suður sagði ákærði fyrirhugað uppboð á bátnum meðal annars hafa komið til tals, sem og að til stæði að meðákærði Gísli Hilmir fengi bátinn að nýju að uppboðinu loknu. Fjárhagsvandræði FiskAra ehf. hefðu að öðru leyti ekki verið rædd. Enn fremur hefði meðákærði X upplýst hann um að björgunarbátar þeir sem þeir hygðust taka úr Vali ÍS-18 væru í eigu [...] og hefðu upphaflega verið um borð í bátnum Sigga Þorsteins ÍS.

Ákærði bar að meðákærði X hefði tekið með sér úr Vali ÍS-18 verkfæri, auk poka sem í hefðu verið einhverjir hlutir. Saman hefðu þeir síðan fært björgunarbátana frá borði, eins og sjá megi á framlögðu myndskeiði úr eftirlits­myndavél við Akraneshöfn, og sett þá á kerru sem ákærði hefði fengið lánaða á leiðinni suður á bæ sem hann sé ættaður frá. Bátana hefðu þeir síðan farið með heim til [...] meðákærða Gísla Hilmis. Hvað gera hefði átt við þá í framhaldinu kvaðst ákærði ekki hafa haft hugmynd um. Spurður um hvort hann hefði veitt athygli merkingum á björgunarbátunum kvað ákærði svo ekki hafa verið. Hann hefði ekkert verið að spá í þá hluti. Skýringar meðákærða á því af hverju þeir væru að taka björgunarbátana frá borði, þ.e. að um eigur [...] væri að ræða og að þeir óttuðust að þeim yrði stolið af þilfarinu, kvaðst ákærði hafa tekið trúanlegar, enda enga ástæðu séð til annars. Þá hefði ákærði jafnframt haft af því áhyggjur að hann gæti lent í erfiðleikum með að endurheimta sína persónulegu muni frá borði eftir að uppboðið væri um garð gengið. Var á ákærða að skilja að samtal meðákærða X stuttu áður við L sparisjóðsstjóra hefði ráðið allnokkru um þær áhyggjur.

Spurður um hvort hann hefði fengið greitt fyrir umrætt viðvik sagði ákærði svo ekki hafa verið. Um vinargreiða hefði verið að ræða.

III.

L, sem var aðstoðarútibússtjóri hjá Sparisjóðnum í Keflavík á [...] er atvik máls gerðust, skýrði svo frá fyrir dómi að sparisjóðurinn hefði farið fram á fjárnám hjá FiskAra ehf. og síðar nauðungarsölu á bátnum Vali ÍS-18 vegna vanskila félagsins. Fram kom hjá vitninu að farið hefði verið fram á það af hálfu sparisjóðsins að hann fengi yfirráð bátsins strax eftir uppboðið og að bátnum yrði læst vegna fyrri samskipta við forsvarsmann FiskAra ehf.

Vitnið kannaðist aðspurt við að hafa rætt við ákærða X úti á götu í [...] þar sem ákærði hefði meðal annars haldið því fram að hann ætti fartölvu um borð í Vali ÍS-18. Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að það væri búið að loka bátnum og að hann ætti ekki erindi um borð. Hins vegar væri sjálfsagt að skoða það mál eftir uppboðið, sem vitnið taldi að fyrirhugað hefði verið daginn eftir, og afhenda ákærða tölvuna ef hann gæti sannað eignarhald sitt á henni.

Eftir að vitnið frétti af því að tveir menn, annar þeirra ákærði X, hefðu farið um borð í Val ÍS-18 og fjarlægt þaðan tvo björgunarbáta kvaðst það hafa haft símasamband við ákærða og beðið hann um að skila bátunum þar sem þeir væru eign sparisjóðsins, sjóðurinn ætti veð í bátunum. X hefði ekki viljað skila bátunum og sagst þurfa að ræða við [...], ákærða Gísla Hilmi, um það mál og hefði vitnið hvatt hann til að gera það. Fram kom hjá vitninu að það hefði ekki rætt við ákærða Gísla Hilmi vegna þessa, enda hefði hann á þessum tíma verið skipverji á norsku skipi og því erfitt að ná við hann sambandi.

Fram kom hjá vitninu að sparisjóðurinn hefði á tímabili átt veð í bátnum Sigga Þorsteins ÍS. Þær skuldbindingar hefðu hins vegar, að því er vitnið taldi, verið gerðar upp í tengslum við sölu bátsins í brotajárn.

Vitnið sagði í ljós hafa komið, eftir að sparisjóðurinn seldi F ehf. Val ÍS-18, að túrbínu vantaði á vél skipsins. F ehf. hefði síðan borist boð um að kaupa túrbínu í gegnum skipasala. Strax hefði vaknað grunur um að þar væri á ferðinni túrbínan úr skipinu og hefði því verið tekin ákvörðun um að sparisjóðurinn lánaði F ehf. fyrir túrbínunni og félagið í framhaldinu sett sig í samband við skipasalann. Í kjölfarið hefði túrbínan komið um borð í skipið. „Hvort það var sama túrbínan og var áður hef ég ekki hugmynd um, hef ekki tæknilega þekkingu á því.“

Aðspurt kvað vitnið sér ekki hafa verið kunnugt um það hvort umrædd túrbína hefði verið um borð í Vali ÍS-18 þegar sparisjóðurinn keypti bátinn á uppboði. Vitnið taldi að svo hefði verið en kvaðst ekki geta fullyrt það. Þá hefði vitninu heldur ekki verið kunnugt um það hvort túrbínan hefði verið um borð í bátnum þegar sparisjóðurinn seldi F ehf. hann.

M kannaðist aðspurð við að sparisjóðurinn hefði óskað eftir því að fá yfirráð Vals ÍS-18 strax á uppboðsdegi og að bátnum yrði þá þegar læst. Hefði þessi ósk verið sett fram vegna fyrri reynslu sparisjóðsins í tengslum við kaup hans á bátnum [...] á uppboði.

Vitnið greindi frá því að það hefði átt samtal við ákærða X eftir að í ljós kom að hann hefði tekið tvo björgunarbáta úr Vali ÍS-18. Kvaðst vitnið hafa farið fram á það við ákærða að hann skilaði bátunum, þar sem þeir væru fylgifé bátsins og veðsettir sparisjóðnum sem slíkir, en hann ekki orðið við þeirri kröfu.

Síðar sagðist vitnið hafa fengið símtal frá forsvarsmönnum F ehf. þess efnis að búið væri að bjóða þeim til sölu túrbínuna úr Vali ÍS-18, en túrbínuna taldi vitnið hafa verið í bátnum er sparisjóðurinn eignaðist hann á uppboði, og jafnframt er sjóðurinn seldi nefndu félagi bátinn nokkru síðar. Úr hefði orðið að sparisjóðurinn legði út fjármagn til kaupanna, 600.000 krónur, sem millifærðar hefðu verið inn á reikning þess skipasala sem milligöngu hefði haft um kaupin. Þegar túrbínan hefði verið komin um borð í Val ÍS-18 hefði vitnið haft samband við skipasalann og greint honum frá því að umrædd túrbína væri líklegast úr bátnum sjálfum og hefði því átt að fylgja honum við söluna. Í því ljósi hefði vitnið lagt að skipasalanum að endurgreiða fjármunina sem hann hefði á endanum gert.

G, framkvæmdastjóri F ehf., bar fyrir dómi að félagið hefði keypt Val ÍS-18 af sparisjóðnum eftir að sjóðurinn hafði auglýst hann til sölu. Vitnið kvaðst hafa skoðað bátinn áður en félagið festi kaup á honum, líklega 3-4 vikum áður, ásamt H og O. E hefði sýnt þeim bátinn sem þá hefði verið eign sparisjóðsins og staddur í Akraneshöfn. Hefði nefndur maður haft lyklavöld að bátnum. Sérstaklega aðspurt sagðist vitnið ekki hafa veitt því athygli að túrbínuna vantaði í skipið, en vitnið kvaðst hins vegar sannfært um að það hefði veit því athygli ef túrbínuna hefði vantað.

Þegar vitnið hefði eftir kaupin verið komið um borð í bátinn ásamt fleirum þeirra erinda að sigla honum til Kópavogs hefði því borist símhringing frá skipasala sem bent hefði vitninu á að kveikja ekki á bátnum vegna þess að við það gæti vélin skemmst þar sem túrbínuna vantaði á vélina. Vitnið hefði strax farið að vél bátsins og þá séð að þessar upplýsingar voru réttar, túrbínuna vantaði. Hefði verið búið að setja eitthvert efni í gatið sem hún skildi eftir sig.

Vitnið sagði skipasalann hafa boðið F ehf. túrbínu til sölu og hefði félagið farið í það með sparisjóðnum að nálgast túrbínuna, sem síðan hefði verið gert. Kom fram hjá vitninu að strax hefði legið fyrir að seljandi túrbínunnar væri ákærði Gísli Hilmir. Úr hefði orðið að sparisjóðurinn lánaði F ehf. fé til kaupa á túrbínunni, félagið hefði lagt þá fjármuni inn hjá skipasalanum og seljandinn komið með túrbínuna um borð þar sem hún var tengd við vélina. Farið hefði verið fram á það við skipasalann að seljandinn fengi ekki kaupverðið afhent fyrr en búið hefði verið að láta reyna á túrbínuna og báturinn kominn inn í Kópavogshöfn. Áður en af því hefði orðið hefði sparisjóðurinn sett sig í samband við skipasalann og upplýst hann um að túrbínan tilheyrði skipinu og væri því eign sjóðsins. Seljandinn hefði því aldrei fengið kaupverðið.

H sagðist, í kjölfar þess að Valur ÍS-18 var auglýstur til sölu af sparisjóðnum, hafa skoðað bátinn að utan þar sem hann lá í Akraneshöfn. Taldi vitnið að þetta hefði verið um þremur vikum áður en F ehf. keyptu bátinn. Nokkru síðar hefði vitnið skoðað bátinn að nýju og þá ásamt fleiri aðilum. Spurður um hver hefði sýnt þeim bátinn svaraði vitnið því til að það hefði gert E, en hann hefði verið með lyklavöld að bátnum sem verið hefði læstur. Taldi vitnið sig geta fullyrt að túrbína hefði verið á vélinni við þessa skoðun.

Eftir að F ehf. höfðu keypt Val ÍS-18 kvaðst vitnið hafa farið ásamt fleirum, vélstjóra og stýrimanni, upp á Akranes þeirra erinda að sækja bátinn. Einnig hefði verið á staðnum skoðunarmaður sem taka hefði átt út bátinn vegna haffærisundanþágu, en ætlunin hefði verið að sigla bátnum í Kópavogshöfn. Sú skoðun hefði gengið vel en þegar gangsetja hefði átt skipið og sigla því af stað hefði vélstjórinn komið upp úr vélarrúminu og tilkynnt að túrbínuna vantaði í skipið. G hefði gengið í að finna út úr því máli og eftir nokkra stund hefði ákærði Gísli Hilmir komið með túrbínuna í skipið, vélstjórinn og hann sett hana við vélina, og skipinu síðan verið siglt til Kópavogshafnar. Spurt um hvort það vissi hvaðan túrbínan kom svaraði vitnið: „Hún kom bara frá honum. Þetta er bara túrbína af þessari vél, það er ekkert flókið. Svona túrbínur eru ekkert úti um allt.“ Vitnið taldi „... augljóst mál að þetta væri túrbínan af þessari vél. Hvaða önnur túrbína gat þetta verið?“

D, starfsmaður fyrirtækisins J, kvaðst hafa tekið við túrbínu hjá A ehf, sem þar hefði verið til viðgerðar, farið með hana upp á Akranes og sett hana við vél Vals ÍS-18. Þetta hefði verið 16. nóvember 2009 samkvæmt skráningu í tímabók vitnisins. Kom fram hjá vitninu að báturinn hefði þá verið kominn niður úr slippnum og á flot. Aðspurt kvað vitnið enga túrbínu hafa verið við vélina þegar það kom að henni þeirra erinda að setja hina nýuppteknu túrbínu í, ásamt spíssunum. Vitnið kvaðst að endingu hafa sett vél bátsins í gang í stutta stund en með því hefði verkefni þess verið lokið.

Vitnið gat ekki svarað því hvort sú túrbína sem það setti við vél bátsins hefði verið úr bátnum eða hvort um hefði verið að ræða einhverja aðra túrbínu sem hefði verið endurbyggð.

B, sölustjóri hjá A ehf., kannaðist við að fyrirtækið hefði annast viðgerð á túrbínu og spíssum úr Vali ÍS-18. Vitnið kvað C, framkvæmda­stjóra A ehf., hafa farið um borð í bátinn á Akranesi og náð í túrbínu og spíssa úr aðalvél skipsins og hefði verkið síðan verið unnið á verkstæði fyrirtækisins.

I, eigandi K ehf., kvað ákærða Gísla Hilmi hafa haft samband við sig eftir að Valur ÍS-18 hafði verið seldur á uppboði. Ákærði hefði upplýst að hann væri með túrbínuna úr skipinu í sínum fórum og væri hún persónuleg eign hans. Hefði ákærði farið þess á leit við vitnið að það hefði samband við F ehf. og byði þeim túrbínuna til kaups. Það hefði vitnið gert síðar þennan sama dag.

Einnig kom fram hjá vitninu að annaðhvort í þessu sama símtali eða síðar hefði ákærði Gísli Hilmir nefnt að hann hefði jafnframt til sölu tvo björgunarbáta sem vitnið hefði einnig komið á framfæri við F ehf. að væru til sölu.

Vitnið kvað F ehf. hafa lýst yfir áhuga á að kaupa túrbínuna og félagið verið tilbúið til að greiða fyrir hana uppsett verð, 600.000 krónur. Það fyrirkomulag hefði verið viðhaft að kaupandinn greiddi kaupverðið inn á fjárvörslu­reikning þar sem fjármunirnir hefðu átt að vera þar til staðreynt hafði verið að varan væri í lagi. Áður en viðskiptin hefðu gengið í gegn að fullu hefði vitninu hins vegar borist tölvupóstur frá sparisjóðnum þar sem bent hefði verið á að viðskiptin gætu verið vafasöm. Vegna tölvupóstsins kvaðst vitnið hafa haft samband við ákærða Gísla Hilmi og innt hann sérstaklega eftir hvort hann ætti þessa túrbínu persónulega og jafnfram hvar sú túrbína væri þá sem fylgja ætti bátnum. Vitnið hefði fengið loðin svör frá ákærða við þessari fyrirspurn. En ákærði síðan greint frá því að eignarhald hans á túrbínunni grundvallaðist á því hversu mikið hann væri búinn að láta gera við hana á sinn eigin reikning. Í framhaldinu hefði vitnið ákveðið að endurgreiða F ehf. fyrrnefndar 600.000 krónur.

Þá komu einnig fyrir dóm sem vitni Hlynur Snorrason lögreglufulltrúi og Skúli Berg rannsóknarlögreglumaður en ekki þykir ástæða til að rekja framburð þeirra sérstaklega.

IV.

A.

Upplýst er í málinu að síðla nætur 11. febrúar 2010 tóku ákærðu X og Y tvo björgunarbáta úr fiskikari á þilfari bátsins Vals ÍS-18, en báturinn var þá í umráðum FiskAra ehf. Fyrir liggur að þetta gerðu þeir að beiðni meðákærða sem hann hafði sett fram í símtali við [...], ákærða X, daginn áður. Ljóst er að enginn asi var á ákærðu umrætt sinn, en samkvæmt framlagðri upptöku úr eftirlitsmyndavél við Akraneshöfn komu þeir að bátnum laust fyrir klukkan 03:00 um nóttina og héldu á brott með björgunarbátana, sem og einhverja persónulega muni ákærða X, klukkan rúmlega 07:30 um morguninn.

Svo sakfellt verði fyrir brot gegn 2. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 verður ásetningur að vera sannaður, sbr. 18. gr. sömu laga, og þarf hann að ná til allra þátta í efnislýsingu brotsins.

Sakargiftir á hendur ákærða Gísla Hilmi er björgunarbátunum tengjast byggjast á því að Sparisjóður Vestfirðinga, nú NBI hf., hafi átt veðrétt í bátunum samkvæmt skuldabréfi frá 29. nóvember 2005, sbr. og viðauka við skuldabréfið frá 11. maí 2007. Svo sem rakið er í kafla II A hefur ákærði Gísli Hilmir hins vegar haldið því fram í málinu að björgunarbátarnir séu lausafé sem verið hefði í bátnum Sigga Þorsteins ÍS þar til hann var seldur í brotajárn. Hefur ákærði fullyrt að bátarnir hafi því ekki tilheyrt Vali ÍS-18 heldur eingöngu verið lánaðir þangað þar sem björgunarbátarnir um borð í Vali, sem á sínum tíma hefðu verið veðsettir með bátnum, hefðu verið orðnir ónýtir.

Ljóst er af rannsóknargögnum lögreglu, sbr. lögregluskýrslu frá 28. nóvember 2011 og fylgiskjöl hennar, að umræddir tveir björgunarbátar voru skoðaðir árin 2005 og 2006 hjá Fjarðarneti ehf., Gúmmíbátaþjónustu, á Ísafirði og tilheyrðu þeir þá bátnum Sigga Þorsteins ÍS. Þá er af sömu gögnum ljóst að við skoðun framkvæmda af Gúmmíbátaþjónustu Norðurlands 5. ágúst 2008 voru bátarnir tilgreindir sem bátar af Vali ÍS-18.

Upplýst er í málinu samkvæmt áðursögðu að þegar nefnd veðskjöl voru útbúin tilheyrðu björgunarbátarnir tveir ekki Vali ÍS-18 heldur bátnum Sigga Þorsteins ÍS. Jafnljóst er að bátarnir voru síðar, sbr. t.d. fyrrnefnda skoðun þeirra á árinu 2008, teknir til notkunar á Vali ÍS-18.

Fyrir liggur samkvæmt framansögðu að NBI hf. og ákærða Gísla Hilmi greinir á um hvort veðréttur bankans, sem grundvallast samkvæmt ákæru á skuldabréfi frá 29. nóvember 2005 og viðauka við skuldabréfið frá 11. maí 2007, taki til hinna umdeildu björgunarbáta. Svo komast megi að niðurstöðu um þann ágreining þarf að taka afstöðu til efnis nefndra veðskjala og þeirra skyldna sem á skuldara voru lagðar samkvæmt þeim. Enn fremur þarf að taka afstöðu til þess hvort, og þá eftir atvikum með hvaða hætti, ákvæði laga nr. 75/1997 um samningsveð geta haft áhrif á úrlausn ágreiningsins, allt að virtum þeim málsatvikum sem að framan hafa verið rakin. Úr hinum einkaréttarlega ágreiningi ákærða Gísla Hilmis og NBI hf. verður ekki skorið í því sakamáli sem hér er til úrlausnar. Tilvist ágreiningsins leiðir hins vegar til þess að mati dómsins að ekki verður slegið föstu, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði Gísli Hilmir hafi haft ásetning til að taka undir sig, sem eigandi og framkvæmdastjóri FiskAra ehf., án heimildar veðhafa, títtnefnda tvo björgunarbáta og ráðstafa þannig fjármunum FiskAra ehf. svo ekki varð samrýmt réttindum veðhafa. Verður ákærði Gísli Hilmir því sýknaður af þeim sakargiftum.

Þegar af ofangreindri niðurstöðu leiðir að sýkna ber ákærðu X og Y af kröfum ákæruvalds í málinu.

B.

Sakargiftir á hendur ákærða Gísla Hilmi er túrbínu þá varða sem nefnd er í ákæruliðum I og III byggjast á því að Sparisjóður Vestfirðinga, nú NBI hf., hafi átt veðrétt í bátnum Vali ÍS-18 samkvæmt áðurnefndu skuldabréfi frá 29. nóvember 2005 og viðauka við skuldabréfið frá 11. maí 2007 og hafi veðrétturinn náð til nefndrar túrbínu.

Svo sem rakið er í kafla II A hefur ákærði Gísli Hilmir borið að túrbína sú sem hann bauð F ehf. til kaups hefði ekki verið úr Vali ÍS-18. Túrbínuna hefði ákærði fengið til að gera upp þar sem húsið á túrbínunni úr Vali ÍS-18 hefði verið sprungið. Ákærði hefði því útvegað sér aðra túrbínu, notaða, og látið endurbyggja hana. Kvaðst ákærði hafa talið sig hafa fullan haldsrétt í þeirri túrbínu þar sem hann hefði sjálfur lagt út fyrir túrbínunni og annað fyrirtæki lánað honum fyrir endurgerð hennar. Ætlan ákærða hefði verið að setja túrbínuna í Val ÍS-18 í stað hinnar en ekki hefði orðið af því þar sem sparisjóðurinn hefði ekki staðið við þau fyrirheit að ákærði fengi bátinn eftir uppboðið. Taldi ákærði aðspurður að gamla túrbínan hefði áfram verið um borð í Vali ÍS-18. Spurður um hver hefði losað túrbínuna af vélinni svaraði ákærði því til að það hefði sá gert sem dæmt hefði túrbínuna ónýta.

Hvað þetta ákæruatriði varðar kom fram hjá vitninu B, sölustjóra A ehf., að fyrirtækið hefði annast viðgerð á túrbínu og spíssum úr Vali ÍS-18. Kvað vitnið C, framkvæmdastjóra A ehf., hafa farið um borð í bátinn á Akranesi og náð í túrbínuna.

D, starfsmaður J, bar að hann hefði tekið við túrbínu hjá A ehf., farið með hana upp á Akranes og sett hana við vél Vals ÍS-18 hinn 16. nóvember 2009, samkvæmt skráningu í tímabók vitnisins. Sagði vitnið enga túrbínu hafa verið við vélina þegar það kom að henni nefndan dag.

Við aðalmeðferð málsins gáfu og skýrslu tveir fyrrverandi starfsmenn Sparisjóðs Vestfirðinga. Kvaðst annar þeirra, L, ekki hafa hugmynd um hvort túrbína sú sem ákærði Gísli Hilmir bauð F ehf. til kaups hefði verið sama túrbína og var áður í bátnum „... hef ekki tæknilega þekkingu á því ...“ sagði vitnið. M bar hins vegar um þetta atriði að hún hefði lýst því yfir við skipasala, sem milligöngu hefði haft um sölu túrbínunnar, að túrbína sú sem ákærði Gísli Hilmir byði til sölu væri líklegast úr bátnum sjálfum. Þá bar H, skipstjóri á [...], áður [...], um þetta atriði að augljóst mál væri  „... að þetta væri túrbínan af þessari vél. Hvaða önnur túrbína gat þetta verið?“

Við mat á því hvort lögfull sönnun sé fram komin fyrir því að ákærði hafi fjarlægt eða látið fjarlægja úr Vali ÍS-18, og tekið þannig undir sig, án heimildar veðhafa, túrbínu þá sem hann síðar bauð F ehf. til kaups, og hann þannig ráðstafað fjármunum FiskAra ehf. svo ekki varð samrýmt réttindum veðhafa, verður fyrst til þess að líta að í ákæru er tilgreind túrbína af Mitsubishi-gerð, með raðnúmerið D11885. Ljóst er að ákærði afhenti F ehf. þá túrbínu um borð í Vali ÍS-18, [...], eftir að félagið festi kaup á bátnum. Ekki liggja hins vegar fyrir nein skjalleg sönnunargögn sem talin verða sanna að um sé að ræða sömu túrbínu og tekin var úr bátnum haustið 2009.

Í öðru lagi verður ekki fram hjá því horft að áðurnefndur C var ekki leiddur fyrir dóm sem vitni við aðalmeðferð málsins og liggur því ekki fyrir staðfesting hans á því að atvik hafi verið með þeim hætti sem vitnið B lýsti samkvæmt framansögðu. Verður ákæruvaldið að bera hallann af því, sbr. 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ekki nýtur vitnisburðar C í málinu.

Í þriðja lagi verður að virða framburð vitnisins D í því ljósi að skýrsla var tekin af vitninu í gegnum síma við aðalmeðferð málsins, sem aldrei hefði komið til álita, sbr. 4. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008, ef af gögnum málsins hefði mátt ráða hvers efnis framburður þess yrði. Dregur sá háttur sem viðhafður var við skýrslutöku af vitninu óhjákvæmilega nokkuð úr sönnunargildi framburðar þess.

Að síðustu verður ekki með nokkru móti fram hjá því litið að G bar fyrir dómi að hann væri sannfærður um að hann hefði veitt því athygli ef túrbínu Vals ÍS-18 hefði vantað er hann skoðaði bátinn, líklega 3-4 vikum áður en F ehf. festu kaup á bátnum. Þá taldi H sig geta fullyrt að túrbína hefði verið á vélinni við þá skoðun. Verður ekki hjá því komist að setja þennan framburð vitnanna í samhengi við það sem telja verður óumdeilt í málinu um að Sparisjóður Vestfirðinga hafi fengið umráð bátsins strax eftir uppboðið 11. febrúar 2010 og að bátnum hafi þá strax verið læst og ráðinn umsjónarmaður með honum.

Þegar allt framangreint er heildstætt virt þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna gegn neitun ákærða, svo ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, að ákærði Gísli Hilmir hafi fjarlægt eða látið fjarlægja úr Vali ÍS-18, og tekið þannig undir sig, án heimildar veðhafa, túrbínu þá sem hann síðar bauð F ehf. til kaups, og hann þannig ráðstafað fjármunum FiskAra ehf. svo ekki varð samrýmt réttindum veðhafa. Verður ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum samkvæmt ákærulið I er túrbínuna varða. Af þeirri niðurstöðu leiðir jafnframt að sýkna ber ákærða Gísla Hilmi af sakargiftum samkvæmt ákærulið III. Verður hann því alfarið sýknaður af kröfum ákæruvalds í málinu.

V.

Með vísan til niðurstöðu dómsins um sýknu allra ákærðu, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, verður kostnaður sakarinnar felldur á ríkissjóð, þar með talin þóknun skipaðra verjenda ákærðu fyrir störf þeirra vegna reksturs málsins fyrir dómi. Þykir þóknun verjendanna hæfilega ákveðin með eftirgreindum hætti að virðisaukaskatti meðtöldum:

Þóknun skipaðs verjanda ákærða Gísla Hilmis, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., er ákveðin 376.500 krónur. Ferðakostnaður lögmannsins, 39.254 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði. Þóknun skipaðs verjanda ákærða X, Grétars Dórs Sigurðssonar hdl., er ákveðin 313.750 krónur. Ferðakostnaður lögmannsins, 33.900 krónur, greiðist einnig úr ríkissjóði. Þá ákveðst þóknun skipaðs verjanda ákærða Y, Fróða Steingrímssonar hdl., einnig 313.750 krónur. Ferðakostnaður lögmannsins, 33.900 krónur, skal greiddur úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveður upp Kristinn Halldórsson héraðsdómari. Fyrir uppsögu dómsins var gætt 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

D Ó M S O R Ð:

Ákærðu, Gísli Hilmir Hermannsson, X og Y, skulu sýkn af kröfum ákæruvalds í máli þessu.

Allur kostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði.