Hæstiréttur íslands
Mál nr. 455/2005
Lykilorð
- Víxill
- Málsástæða
|
|
Fimmtudaginn 30. mars 2006. |
|
Nr. 455/2005. |
Erlingur Ólafsson(Ólafur Sigurgeirsson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. (Helgi Sigurðsson hrl.) |
Víxlar. Málsástæður.
K höfðaði mál gegn S, E og J til greiðslu skuldar samkvæmt tveimur tryggingarvíxlum sem gefnir voru út af S, samþykktir af B og ábektir af E, Þ og J. E byggði sýknukröfu sína á samkomulagi hans og stjórnar B um að hann yrði leystur undan sjálfskuldarábyrgð vegna fyrirtækisins. Ekki var talið að samkomulagið væri bindandi gagnvart K þar sem enginn samningur þar að lútandi hafði verið gerður við bankann. Í héraði og fyrir Hæstarétti vildi E einnig byggja á því að umræddir víxlar hefði ekki verið sýndir í greiðslubanka og að honum hefði hvorki borist tilkynning um greiðslufall né greiðslustað. Ekki var talið að E hefði tilgreint þessar málsástæður nægilega í greinargerð sinni í héraði eða að honum hefði ekki verið unnt að hafa þær uppi fyrr en gert var. Hefði héraðsdómara því verið rétt að telja málsástæðurnar of seint fram komnar og komu þær heldur ekki til álita fyrir Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. október 2005 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi hefur meðal annars viljað reisa kröfu sína á því að víxlar þeir sem málið varðar hafi ekki verið sýndir í greiðslubanka og að honum hafi hvorki borist tilkynning um greiðslufall né greiðslustað. Eins og nánar er rakið í héraðsdómi mótmælti stefndi þessum málsástæðum sem of seint fram komnum og tók héraðsdómari ekki afstöðu til þeirra. Áfrýjandi hefur haldið því fram að þessar málsástæður hafi í raun komið fram í greinargerð hans í héraði, en ekki fyrst við aðalmeðferð málsins eins og byggt er á í hinum áfrýjaða dómi. Í því sambandi hefur áfrýjandi vísað til eftirfarandi ummæla í greinargerð: „Stefndi mótmælir stefnukröfum ennfremur á þeim grundvelli, að ekkert liggur fyrir um, að einhver skuld sé að baki tryggingarvíxlunum og þá ef svo væri, hvernig að innheimtu skuldarinnar hefur verið staðið.“ Þá hafi hann, með bréfi 15. júní 2005 og símskeyti 16. september 2005, meðal annars óskað eftir upplýsingum um hvar víxlarnir hafi verið sýndir til greiðslu dagana 21. til 23. júní 2004. Svar stefnda hafi hins vegar ekki borist fyrr en með bréfi dagsettu tveimur dögum fyrir aðalmeðferð málsins og hafi það verið ófullnægjandi að því leyti að ekki hafi komið fram upplýsingar um sýningu víxlanna heldur aðeins um vistun þeirra.
Áfrýjandi verður ekki talinn hafa í greinargerð sinni í héraði tilgreint nægilega þær málsástæður sem að framan er lýst. Þá verður ekki fallist á að honum hafi ekki verið unnt að hafa þær uppi fyrr en gert var vegna framangreindra bréfaskipta. Var héraðsdómara rétt að telja málsástæður þessar of seint fram komnar, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Koma þær heldur ekki til álita fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. sömu laga.
Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur að því er varðar áfrýjanda.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Erlingur Ólafsson, greiði stefnda, Kaupþingi banka hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. október 2005.
Mál þetta var þingfest 16. september 2004 og var dómtekið 23. september sl.
Stefnandi er Kaupþing Búnaðarbanki hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 19, Reykjavík vegna Kaupþings Búnaðarbanka hf., Austurstræti 5, Reykjavík.
Stefndu eru Sigurður Magnússon, Klapparstíg 1, Reykjavík, Erlingur Ólafsson, Reykjadal 1, Mosfellsbæ og Jóhann Sigurðsson, Seilugranda 1, Seltjarnarnesi.
Dómkröfur
Stefnandi krefst þess að stefndu greiði stefnanda skuld að fjárhæð 4.485.809 krónur og bankakostnað, 12.500 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 4.485.809 krónum frá 21. júní 2004 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins. Auk þess er krafist virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndi, Erlingur Ólafsson, krefst þess að verða alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfur sínar á tveimur tryggingarvíxlum, sem hann kveður standa til tryggingar tékkareikningi nr. 0301-26-009996 í Búnaðarbanka Íslands hf., aðalbanka, nú Kaupþing Búnaðarbanki hf. Víxlarnir eru útgefnir 21. maí 2004 með gjalddaga 21. júní 2004. Annar að fjárhæð 1.500.000 krónur. Hinn að fjárhæð 3.500.000 krónur. Útgefandi beggja víxlanna er Sigurður Magnússon en samþykkjandi Blómalagerinn beint frá bóndanum. Ábekingar eru Þorvaldur Snorrason, Erlingur Ólafsson og Jóhann Sigurðsson. Útgáfustaður er Reykjavík. Greiðslustaður er Búnaðarbanki Íslands hf., Reykjavík. Báðir víxlarnir voru framseldir af útgefanda. Víxlarnir voru ekki afsagðir, sbr. áritun á þá þar um.
Stefnandi kveður hafa verið nauðsynlegt að nota víxlana vegna vanskila á yfirdrætti á tékkareikningnum og skýri það mismun þann sem sé á dómkröfunni og fjárhæð tryggingarvíxlanna.
Tékkareikningurinn hafi lent í vanskilum og hafi stefndu verið tilkynnt um vanskilin með bréfum, dags. 9. júlí 2004.
Blómalagerinn ehf. hafi orðið gjaldþrota 9. júní 2004 og sé því ekki stefnt að svo stöddu. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.
Vísað er til víxillaga nr. 93/1933, einkum 7. kafla laganna um fullnustu vegna greiðslufalls. Málið er rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefndu. Varðandi varnarþing vísast til 35. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda, Erlings Ólafssonar
Stefndi kveðst hafa verið hluthafi í Blómalagernum ehf., sem séð hafi um heildsöludreifingu á blómaframleiðslu garðyrkjubænda sem stóðu að félaginu. Þann 6. febrúar 2003 hafi verið gert samkomulag milli stefnda og félagsins þess efnis að stefndi afsalaði sér eignarhluta sínum í félaginu til stjórnar án þóknunar. Samhliða þessu hafi stjórn félagsins samþykkt að leysa stefnda undan aðild hans að sameiginlegri sjálfskuldarábyrgð, sem hann hafi verið aðili að vegna Blómalagersins ehf. hjá Búnaðarbanka Íslands hf. Í þessu skriflega samkomulagi hafi því verið lýst yfir að Búnaðarbankinn hefði samþykkt samkomulagið fyrir sitt leyti og mundi láta Erling vita þar um, þegar bankinn hefði móttekið samkomulagið undirritað. Þetta hafi gengið eftir og starfsmaður bankans hafi staðfest þetta munnlega við stefnda.
Með bréfi, dags. 6. febrúar 2003, hafi stefnda verið tilkynnt að Blómalagerinn ehf. mundi ekki veita viðtöku til endursölu í verslunum Blómalagersins ehf. blómum frá stefnda eða fyrirtæki hans frá og með 7. febrúar 2003.
Þann 10. mars 2003 hafi svo verið gengið frá skriflegu lokauppgjöri við stefnda, sem stjórnarmenn félagsins hafi undirritað. Þar lýsi þeir því yfir að þeir hafi þá þegar gengist í þær ábyrgðir sem stefndi hafi verið í fyrir Blómalagerinn, og væri hann því laus undan þeim skuldbindingum og ábyrgðum sem hann hafi verið í fyrir félagið.
Það hafi svo ekki verið fyrr en við stefnu þessa máls að eitthvað virðist ekki hafa gengið eftir, eins og til stóð og samið hafi verið um, bæði við stjórnarmenn félagsins og bankann.
Stefndi byggir sýknukröfu sína aðallega á því að með því samkomulagi sem áður sé lýst hafi stefndi verið laus undan ábyrgð bæði gagnvart víxilhafa og öðrum ábyrgðarmönnum á tryggingarvíxlunum tveimur. Samkomulagið hafi verið samþykkt af Búnaðarbankanum hf. Stefnandi hafi tekið á sig réttindi og skyldur þess banka og sé bundinn við þá samninga sem þar voru gerðir. Meðal annars þann sem varði þetta mál.
Stefndi mótmælir stefnukröfum ennfremur á þeim grundvelli, að ekkert liggi fyrir um, að einhver skuld sé að baki tryggingarvíxlunum og þá ef svo væri, hvernig að innheimtu skuldarinnar hafi verið staðið.
Stefndi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu- og samningsréttar um að samningar séu bindandi og eftir þeim skuli fara.
Krafan um málskostnað styðst við 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða
Í munnlegum málflutningi kom fram í ræðu lögmanns stefnda að skilyrði um sýningu víxilsins væru ekki uppfyllt. Jafnframt vék hann að skorti á tilkynningum til stefnda varðandi greiðslufall o.fl. Af hálfu stefnda kom þó ekki fram ósk um að nýjar málsástæður væru bókaðar. Lögmaður stefnanda mótmælti öllum málsástæðum stefnda, sem ekki koma fram í greinargerð hans, sem of seint fram komnum. Verður því einungis fjallað um þær málsástæður stefnda er fram koma í greinargerð hans. Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að með samkomulagi stjórnar Blómalagersins ehf. hafi stefndi, Erlingur, verið leystur undan aðild sinni að sameiginlegri sjálfskuldarábyrgð sem hann hafi verið aðili að vegna Blómalagersins ehf. hjá Búnaðarbanka Íslands. Samkomulagið hafi verið samþykkt af Búnaðarbanka Íslands hf. Stefnandi hafi yfirtekið réttindi og skyldur þess banka og sé því bundinn af samkomulaginu.
Í umræddu samkomulagi stjórnar Blómalagersins, dags. 6. febrúar 2003, segir að Búnaðarbankinn og Sparisjóður Keflavíkur hafi samþykkt samkomulagið fyrir sitt leyti og muni láta Erling vita þar um þegar þeir hefðu móttekið samkomulagið.
Björn Óskar Björgvinsson, endurskoðandi Blómalagersins ehf., bar fyrir dómi að hann hefði fengið umrætt samkomulag í hendur og getið þess í lokauppgjöri Blómalagersins og Erlings Ólafssonar, dags. 20. mars 2003. Hins vegar hefði hann ekki séð nein gögn frá stefnanda varðandi niðurfellingu á ábyrgð stefnda, Erlings.
Þóra Björg Briem, fyrirtækjafulltrúi hjá stefnanda, kom fyrir dóminn. Hún kannaðist við að beiðni hefði borist til stefnanda um að fella niður ábyrgð Erlings Ólafssonar en þeirri beiðni hefði verið hafnað.
Þegar virt er það sem fram hefur komið þykir ekki sýnt fram á að samkomulag sem stjórn Blómalagersins ehf. gerði um að fella niður sjálfskuldarábyrgð stefnda, Erlings, sé bindandi gagnvart stefnanda þar sem enginn samningur þar að lútandi virðist hafa verið gerður við stefnanda.
Stefnandi hefur lagt fram í málinu tvo lögformlega víxla, sbr. 1. gr. víxillaga nr. 93/1933, og eru þeir í samræmi við lýsingu stefnanda í stefnu. Málið er rekið samkvæmt 17. kafla laga nr. 91/1991. Koma mótmæli stefnda, Erlings, varðandi þá skuld er að baki víxlinum stendur, því ekki til álita.
Stefndu Sigurður Magnússon og Jóhann Sigurðsson hafa ekki sótt þing í málinu en þeim er löglega birt stefna í málinu.
Samkvæmt framansögðu ber því að taka til greina kröfur stefnanda á hendur stefndu í málinu.
Stefndu greiði stefnanda málskostnað sem ákveðst 550.000 krónur.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Sigurður Magnússon, Erlingur Ólafsson og Jóhann Sigurðsson, greiði stefnanda, Kaupþingi Búnaðarbanka hf. 4.485.809 krónur og bankakostnað, 12.500 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 4.485.809 krónum frá 21. júní 2004 til greiðsludags.
Stefndu greiði stefnanda 550.000 krónur í málskostnað.