Hæstiréttur íslands

Mál nr. 259/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. maí 2006.

Nr. 259/2006.

M

(Garðar Briem hrl.)

gegn

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að M yrði gert að greiða K málskostnað í héraði vegna forsjármáls milli aðila, sem lauk að öðru leyti með dómsátt.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. apríl 2006, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli varnaraðila á hendur sóknaraðila, sem lokið var að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málskostnaður í héraði verði felldur niður, en til vara að hann verði lækkaður. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. apríl 2006.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 12. apríl sl., var þingfest 26. október 2005.

Dómkröfur stefnanda voru þær að henni yrði með dómi falin forsjá barnanna A, fæddrar 2003 og B, sem fæddur er 2005, að stefndi greiddi með hvoru barni mánaðarlega tvöfalt meðalmeðlag eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá 1. júní 2005 til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra og að kveðið yrði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki fer með forsjá barnanna. Að auki krafðist stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi úr hendi stefnda að viðbættum virðisaukaskatti.

Í greinargerð krafðist stefndi þess að kröfum stefnanda yrði hafnað og að honum yrði falin óskipt forsjá barna aðila, að kveðið yrði á um inntak umgengnisréttar þess foreldris sem ekki færi með forsjána með þeim hætti að reglulegar samvistir yrðu vika í senn hjá hvoru foreldri en nánar yrði kveðið á um inntak umgengnisréttar í samræmi við greinargerð stefnda, að stefndi yrði sýknaður af meðlagskröfu stefnanda og að stefnanda yrði gert að greiða einfalt meðalmeðlag eins og það ákvarðast af Tryggingastofnun ríkisins hverju sinni, frá uppsögu dóms til fullnaðs 18 ára aldurs barnanna.

Í þinghaldi 12. apríl sl. gerðu aðilar sátt í málinu um annað en málkostnað. Voru sjónarmið aðila að þessu leyti reifuð í þinghaldinu og málið tekið til úrskurðar að því er varðar málskostnað.

Samkvæmt framangreindri dómsátt aðila fer stefnandi ein með forsjá barna aðila en stefndi greiðir tvöfalt lágmarksmeðlag með hvoru barni til fullnaðs 18 ára aldurs þeirra. Um umgengni eru nákvæm fyrirmæli um aðlögunartíma barnanna hjá stefnda en jafnframt kveðið á um að sú tilhögun verði tekin til endurskoðunar næsta haust. Þá er einnig að finna í sáttinni sérstök ákvæði um umgengni barnanna við stefnda á stórhátíðum.

Niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal hver sá sem tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum málskostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. laganna. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu.

Báðir málsaðilar kröfðust forsjár barnanna en með ofangreindri dómsátt var ákveðið að forsjáin yrði óskipt í höndum stefnanda og þá voru ákvæði um umgengni ekki í samræmi við kröfur stefnda í greinargerð. Með hliðsjón af efni dómsáttarinnar annars vegar og kröfugerðar aðila fyrir dóminum hins vegar, er það niðurstaða dómsins að beita beri meginreglu 130. gr. laga nr. 91/1991 við úrlausn á ágreiningi aðila um málskostnað. Samkvæmt því ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað, þar með talda þóknun lögmanns stefnanda sem þykir hæfilega ákveðin 498.000 að meðtöldum virðisaukaskatti og útlagðan kostnað vegna stefnubirtingar, 1.650 krónur. Hins vegar þykir rétt að hvor aðili beri sinn hluta kostnaðar vegna öflunar sálfræðimats í samræmi við samkomulag aðila í þinghaldi í málinu 16. nóvember 2005 þess efnis að aðilar greiddu matsgerðina til helminga.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Stefndi, M, greiði stefnanda, K, 499.650 krónur í málskostnað.