Hæstiréttur íslands
Mál nr. 521/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
- Kynferðisbrot
- Rán
- Skipulögð glæpastarfsemi
- Hættubrot
- Umferðarlagabrot
- Rangar sakargiftir
- Skilorðsrof
- Reynslulausn
- Ítrekun
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 31. janúar 2013. |
|
Nr. 521/2012.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn Andreu Kristínu Unnarsdóttur (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl. Tómas Hrafn Sveinsson hdl.) X (Oddgeir Einarsson hrl.) Elíasi Valdimar Jónssyni (Jón Egilsson hrl. Auður Björg Jónsdóttir hdl.) Y (Erlendur Þór Gunnarsson hrl. Eva Hrönn Jónsdóttir hdl.) Jóni Ólafssyni og (Björgvin Jónsson hrl.) Óttari Gunnarssyni (Arnar Þór Stefánsson hrl.) (Valgeir Kristinsson hrl. réttargæslumaður) |
Líkamsárás. Kynferðisbrot. Rán. Skipulögð glæpastarfsemi. Hættubrot. Umferðarlagabrot. Rangar sakargiftir. Skilorðsrof. Reynslulausn. Ítrekun. Sératkvæði.
A, EV og J voru sakfelld fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ruðst í heimildarleysi inn á heimili A, veist að B og þvingað hann með ofbeldi úr úr íbúðinni og því næst veist að A með margvíslegu ofbeldi. Ó var sakfelldur fyrir sama brot, enda var talið sýnt að hann hefði komið að skipulagningu líkamsárásarinnar auk þess sem hann greiddi fyrir inngöngu þeirra A, EV og J á heimili A. Ó var einnig sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa skilið A eftir meðvitundarlitla og liggjandi í blóði sínu án bjargar og læst útidyrum að heimili hennar er hann hafði sig á brott. Á hinn bóginn voru þau A, EV, J og Ó sýknuð af ákæru um kynferðisbrot þar sem háttsemi þeirra hefði haft þann tilgang einan að meiða A. Sömu ákærðu voru einnig sýknuð af ákæru um rán. Ákæruvaldinu var ekki talin hafa tekist sönnun um sekt X í líkamsárásinni. Þeir X og Y voru auk fyrrgreindra ákærðu ákærð fyrir brot gegn 175. gr. a. almennra hegningarlaga, með vísan til þess að þau væru öll meðlimir í eða hefðu tengsl við samtök, sem lögregla hér á landi og erlendis hefði skilgreint sem alþjóðleg glæpasamtök, og að háttsemi þeirra hefði verið liður í skipulagðri brotastarfsemi. Þetta var ekki talið sannað. Loks var A sakfelld fyrir umferðarlagabrot og rangar sakargiftir. Var refsing A ákveðin fangelsi í fimm ár og sex mánuði, EV og J fangelsi í fjögur ár og sex mánuði og Ó í fjögur ár. Þeim A, EV, J og Ó var gert að greiða A óskipt 2.000.000 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. og 13. júlí 2012 af hálfu ákæruvaldsins og í samræmi við yfirlýsingar ákærðu Andreu Kristínar Unnarsdóttur, Elíasar Valdimars Jónssonar, Jóns Ólafssonar og Óttars Gunnarssonar um áfrýjun. Hann krefst þess aðallega að ákærðu verði öll sakfelld samkvæmt ákærum og að ákærðu X og Y verði dæmdir til refsingar, en refsing annarra ákærðu verði þyngd. Til vara krefst hann ómerkingar hins áfrýjaða dóms og þess að málinu verði vísað heim í hérað.
Ákærða Andrea Kristín krefst mildunar á refsingu og að til frádráttar tildæmdri refsivist komi gæsluvarðhald sem hún hefur sætt frá 22. desember 2011. Þá krefst hún lækkunar einkaréttarkröfu.
Ákærði Elías Valdimar krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins en til vara refsimildunar. Þá krefst hann þess að gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 29. desember 2011 komi til frádráttar tildæmdri refsivist. Einnig krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af henni, en að því frágengnu lækkunar kröfunnar.
Ákærði Jón krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann refsimildunar, að gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 22. desember 2011 komi til frádráttar tildæmdri refsivist og lækkunar á einkaréttarkröfu.
Ákærði Óttar krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins en til vara mildunar refsingar og komi til frádráttar henni gæsluvarðhaldsvist hans. Þá krefst ákærði þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, til vara sýknu af henni, en að því frágengnu lækkunar kröfunnar.
Ákærðu X og Y krefjast hvor fyrir sitt leyti aðallega staðfestingar héraðsdóms en til vara að þeir verði ekki dæmdir til refsingar og að þessu frágengnu að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar. Þá krefjast þeir aðallega sýknu af einkaréttarkröfu en til vara að hún verði lækkuð.
A krefst þess að ákærðu verði óskipt gert að greiða sér 4.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
I
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að sannað sé að ákærðu Andrea Kristín, Elías Valdimar og Jón hafi aðfaranótt fimmtudagsins 22. desember 2011 ruðst í heimildarleysi inn á heimili brotaþola, A, veist að B sem þar var staddur í heimsókn og þvingað hann með ofbeldi út úr íbúðinni og því næst ráðist á brotaþola meðal annars með því að sparka í höfuð hennar, skera í fingur hennar með hnífi og slá hana með leðurkylfu, svo og með því að ákærði Elías Valdimar, sem hulið hafði andlit sitt, hafi stungið fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola og klemmt þar á milli, allt eins og nánar greinir í I. kafla ákæru 14. mars 2012.
Fram er komið að þessi háttsemi þeirra hafði þann tilgang að meiða brotaþola og þegar litið er til atvika málsins telst hún ekki til samræðis eða annarra kynferðismaka í skilningi 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á hinn bóginn var hér um að ræða afar illyrmislega líkamsárás sem fellur undir 2. mgr. 218. gr. laganna, bæði þegar litið er til aðferðar og afleiðinga árásarinnar. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður einnig staðfest niðurstaða hans um að háttsemi ákærða Óttars sé sönnuð. Hann kom bæði að skipulagningu líkamsárásarinnar og atvikum á vettvangi eins og rakið er í héraðsdómi. Telst þáttur þessa ákærða nægilegur til þess að hann verði metinn aðalmaður í broti.
Ekki er með öllu ljóst hversu lengi ákærði Óttar var einn með brotaþola í íbúðinni að aflokinni árásinni en fram er komið að hann læsti íbúðinni sérstaklega á eftir sér með lykli áður en hann skildi brotaþola bjargarlausa eina þar eftir. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um að ákærði Óttar hafi einnig gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður ekki fallist á að ákærðu hafi gerst sek um ránsbrot samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga.
Í héraðsdómi, sem skipaður var þremur héraðsdómurum, var framburður ákærðu og vitna metinn með tilliti til annarra gagna á þann veg að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að axla þá sönnunarbyrði um sekt ákærða X í framangreindri líkamsárás, sem mælt er fyrir um í 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Verður það sönnunarmat hvorki endurskoðað samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laganna né eru næg efni til að neyta heimildar 3. mgr. sömu greinar til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm að þessu leyti. Verður hann því staðfestur um sýknu ákærða X af líkamsárás þeirri sem að framan greinir.
Með sömu athugasemd, en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður einnig fallist á það mat hans að ekki hafi verið færðar sönnur fyrir að líkamsárásin hafi verið liður í starfsemi tilgreindra skipulagðra brotasamtaka. Verður því staðfest niðurstaða dómsins um að sýkna öll ákærðu af ákæru fyrir brot gegn 175. gr. a. almennra hegningarlaga. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að háttsemi ákærða Y, eins og henni er lýst í ákæru 14. mars 2012, verði ekki felld undir hlutdeild í broti gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga sem hefur að geyma hærri refsimörk en það ákvæði laganna sem hann er ákærður fyrir að hafa brotið í II. kafla ákærunnar, sbr. 1. mgr. 180. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærðu Andreu Kristínar samkvæmt ákæru 22. mars 2012 fyrir brot gegn 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og 148. gr. almennra hegningarlaga.
II
Ákærðu Andrea Kristín, Elías Valdimar, Jón og Óttar hafa unnið sér til refsingar samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Auk þess hefur ákærði Óttar unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laganna, en ákærða Andrea Kristín samkvæmt 148. gr. þeirra og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga.
Sakaferill ákærðu er rétt rakinn í héraðsdómi. Hefur ákærða Andrea Kristín með brotum sínum rofið skilorð reynslulausnar er hún hlaut 1. febrúar 2011 á 165 daga eftirstöðvum fangelsisrefsingar og ber að taka hana upp og dæma með er ákærðu verður ákveðin refsing í máli þessu samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Með dómi Héraðsdóms Reykjaness 9. júlí 2010 var ákærði Óttar dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna, fyrir meiri háttar líkamsárás samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Með brotum sínum nú rauf ákærði Óttar það skilorð og verður skilorðsbundni hluti refsingarinnar tekinn upp og dæmdur með refsingu í þessu máli samkvæmt 60. gr. almennra hegningarlaga. Jafnframt því hefur óskilorðsbundni hluti þess dóms ítrekunaráhrif á þá refsingu sem honum verður gerð samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. Verður refsing síðastnefndra tveggja ákærðu einnig ákveðin með hliðsjón af ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga. Að virtu því sem að framan er rakið en að öðru leyti þeim atriðum sem greinir í hinum áfrýjaða dómi, einkum um þá þaulskipulögðu og sérstaklega hættulegu líkamsárás sem ákærðu stóðu saman að, verður refsing ákærðu Andreu Kristínar ákveðin fangelsi fimm ár og sex mánuðir, refsing ákærðu Jóns og Elíasar Valdimars fjögur ár og sex mánuðir, en refsing ákærða Óttars fjögur ár. Ekki eru efni til að skilorðsbinda refsingu þeirra. Til frádráttar refsingu ákærðu komi gæsluvarðhaldsvist þeirra.
Staðfest er niðurstaða héraðsdóms um skaðabótaábyrgð ákærðu gagnvart brotaþola samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Verður niðurstaða héraðsdóms um fjárhæð skaðabóta staðfest, en af almennum reglum fjármunarréttar leiðir að engin efni eru til annars en að ákærðu Andrea Kristín, Jón, Elías Valdimar og Óttar greiði þá fjárhæð óskipt líkt og brotaþoli krefst. Með hinum áfrýjaða dómi var skaðabótakröfu hennar á hendur ákærðu X og Y vísað frá héraðsdómi og er sú niðurstaða ekki til endurskoðunar hér fyrir dómi.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Málsvarnarlaun skipaðra verjenda ákærðu X og Y fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir, greiðast úr ríkissjóði. Ákærðu Andrea Kristín, Elías Valdimar, Jón og Óttar verða dæmd til að greiða annan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjanda sinna og þóknun réttargæslumanns brotaþola sem ákveðast með sama hætti og að framan greinir.
Það athugast að ekki er gert ráð fyrir því í lögum nr. 88/2008 að greinargerðir ákærðra manna séu teknar upp í dóm með þeim hætti sem gert var í hinum áfrýjaða dómi.
Dómsorð:
Héraðsdómur er óraskaður um sýknu ákærðu X og Y af kröfum ákæruvaldsins og er einkaréttarkröfu á hendur þeim vísað frá Hæstarétti.
Ákærða Andrea Kristín Unnarsdóttir sæti fangelsi í fimm ár og sex mánuði.
Ákærðu Elías Valdimar Jónsson og Jón Ólafsson sæti hvor um sig fangelsi í fjögur ár og sex mánuði.
Ákærði Óttar Gunnarsson sæti fangelsi í fjögur ár.
Héraðsdómur er óraskaður um frádrátt gæsluvarðhaldsvistar ákærðu.
Ákærðu Andrea Kristín, Elías Valdimar, Jón og Óttar greiði óskipt A 2.000.000 krónur með vöxtum eins og greinir í héraðsdómi.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru óröskuð.
Ákærða Andrea Kristín greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Vilhjálmi Hans Vilhjálmssyni hæstaréttarlögmanni, 753.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Elías Valdimar greiði skipuðum verjanda sínum, Jóni Egilssyni hæstaréttarlögmanni, 627.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Jón greiði skipuðum verjanda sínum fyrir Hæstarétti, Björgvini Jónssyni hæstaréttarlögmanni, 753.500 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Óttar greiði skipuðum verjanda sínum, Arnari Þór Stefánssyni hæstaréttarlögmanni, 627.500 krónur í málsvarnarlaun.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, og ákærða Y, Erlendar Þórs Gunnarssonar hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði.
Annan sakarkostnað fyrir Hæstarétti, 1.158.906 krónur, þar með talda þóknun réttargæslumanns brotaþola, Valgeirs Kristinssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur greiði ákærðu Andrea Kristín, Elías Valdimar, Jón og Óttar óskipt.
Sératkvæði
Ingibjargar Benediktsdóttur
Ég er sammála meiri hluta dómenda um annað en niðurstöðu hans í I. kafla ákæru 14. mars 2012 að því er varðar þá háttsemi ákærða Elíasar Valdimars Jónssonar að stinga fingrum upp í endaþarm brotaþola og leggöng og klemma þar á milli, en sá verknaður var í hinum áfrýjaða dómi talinn varða við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með lögum nr. 40/1992 og nr. 61/2007 var ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga um kynferðisbrot breytt þar sem gildandi lög um þau brot þóttu ekki veita þolendum brota nægilega réttarvernd. Var áhersla lögð á að tryggja friðhelgi, sjálfsákvörðunarrétt, kynfrelsi og athafnafrelsi brotaþola. Markmiðið var meðal annars að færa reglurnar til nútímalegs horfs og auka vernd barna og kvenna gegn kynferðisbrotum.
Með lögum nr. 40/1992 var ákvæði 194. gr. rýmkað verulega meðal annars á þann veg að undir það féllu svokölluð önnur kynferðismök. Í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 40/1992 sagði meðal annars að hugtakið „önnur kynferðismök“ yrðu lögð að jöfnu við samræði og bæri að skýra fremur þröngt þannig að átt væri við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju, er kæmi í stað hefðbundins samræðis eða hefði gildi sem slíkt (surrogat). Væru þetta athafnir sem veittu eða væru almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægju. Um hugtakið „önnur kynferðismök“ sagði síðan í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum nr. 61/2007 að undir það teldist meðal annars falla sú háttsemi að setja fingur eða hluti í leggöng eða endaþarm. Þetta hefur verið staðfest meðal annars með dómum Hæstaréttar 10. júní 2010 í máli nr. 421/2009, 16. febrúar 2012 í máli nr. 624/2011 og 16. maí 2012 í máli nr. 572/2011.
Ákærði Elías Valdimar veittist að brotaþola ásamt meðákærðu Andreu Kristínu og Jóni eins og nánar er lýst í niðurstöðu hins áfrýjaða dóms. Jafnframt stakk hann fingrum upp í endaþarm hennar og leggöng og klemmdi á milli. Með þessum verknaði beitti hann brotaþola grófu kynferðislegu ofbeldi og braut þannig freklega gegn kynfrelsi hennar. Er fallist á með ákæruvaldinu að þessi háttsemi hafi verið af kynferðislegum toga og afar niðurlægjandi fyrir brotaþola. Skiptir ekki máli hvort tilgangur ákærða hafi verið einhver annar en að veita sér kynferðislega fullnægju, enda nægir að verknaður sé almennt til þess fallinn. Varðar þetta brot ákærða Elíasar Valdimars við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga, en með liðsinni sínu verða ákærðu Andrea Kristín og Jón talin hlutdeildarmenn í því broti hans, sbr. 22. gr. laganna. Á hinn bóginn hefur ákæruvaldinu ekki tekist að sýna fram á að ákærði Óttar hafi tekið þátt í þessu broti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 20. júní 2012.
Mál þetta, sem dómtekið var að aflokinni aðalmeðferð 9. maí sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 14. mars 2012, „á hendur Andreu Kristínu Unnarsdóttur, kennitala [...], Breiðuvík 35, Reykjavík, X, kennitala [...], [...], [...], Elíasi Valdimar Jónssyni, kt. [...], Holtsbúð 95, Garðabæ, Y, kt. [...], Smárarima 65, Reykjavík, Jóni Ólafssyni, kt. [...], Berjarima 24, Reykjavík og Óttari Gunnarssyni, kt. [...], Brekkugötu 11, Vogum.
I.
Gegn ákærðu Andreu, X, Elíasi, Jóni og Óttari fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás, rán, nauðgun og þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi, aðfaranótt fimmtudagsins 22. desember 2011. Að undirlagi ákærða X og ákærðu Andreu, sem lögðu á ráðin og skipulögðu verknaðinn, héldu ákærðu Andrea, Jón, Elías og Óttar að heimili A, kt. [...], að [...] í [...] þar sem ákærði Óttar lauk upp útidyrunum með lykli, skildi dyrnar eftir ólæstar og greiddi þannig fyrir inngöngu meðákærðu Andreu, Elíasar og Jóns, sem skömmu síðar ruddust í heimildarleysi inn á heimili A og veittust að B, kennitala [...], sem var staddur í íbúðinni, þvinguðu hann með ofbeldi út úr íbúðinni og læstu útidyrunum. Þá veittust þau með ofbeldi að A, slógu og spörkuðu ítrekað í höfuð hennar og líkama, m.a. með leðurkylfu, skelltu henni í gólfið, drógu hana á hárinu um íbúðina, reyttu og klipptu eða skáru hár hennar og rifu það upp með rótum, skáru eða klipptu í hægri vísifingur hennar, slitu upp nögl á sama fingri, hótuðu því að taka af henni alla fingur ef hún segði til þeirra og neyddu upp í hana fíkniefnum. Þá lagði ákærða Andrea hníf að hálsi A, auk þess sem hún tók um háls A og þrengdi að öndunarvegi hennar. Ákærði Elías stakk fingrum upp í endaþarm A og leggöng og klemmdi á milli ennfremur sem hann sagði við hana að hún hefði ekki átt að „fokkast í þessari fjölskyldu“. Ákærðu Andrea, Jón og Elías höfðu á brott með sér farsíma þeirra A og B auk lyklakippu A sem hafði m.a. að geyma hús-, bíl- og auðkennislykil. Ákærði Óttar skildi A eftir meðvitundarlitla, liggjandi í blóði sínu án bjargar og læsti útidyrahurðinni er hann hafði sig á brott.
Brot ákærðu var liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka en ákærðu öll eru meðlimir í eða hafa tengsl við samtök sem lögregla hér á landi og erlendis hefur skilgreint sem alþjóðleg glæpasamtök, en samtökin eru Hells Angels auk stuðningssamtakanna Torpedo Crew og S.O.D. Verknaður ákærðu var annars vegar hefndaraðgerð og hins vegar liður í því að endurheimta bifhjól sem ákærða Andrea taldi vera í sinni eigu en komst í vörslur A skömmu fyrir árásina og til að endurheimta farsíma ákærðu Andreu sem var einnig í vörslum A og hafði að geyma tilteknar myndir af ákærðu Andreu.
Við atlöguna hlaut A heilahristing, mar, skrámur og yfirborðshrufl á andliti, gagnaugum, hægri eyrnasnepli og höfði, glóðarauga og bólgu á vinstra auga, skallabletti í hársverði, mar á hægra kjálkabarði, mar og roðaför hægra megin á hálsi, dreifð eymsli í brjóstkassa og yfirborðsáverka á kvið, yfirborðsáverka á baki, roðabletti og fjölmargar rispur á upphandleggjum, báðum öxlum og ofanverðu baki, mar á vinstri kálfa, mar og eymsli á hægri sköflungi og tognun í lendhrygg, brjósthrygg og hálshrygg, alldjúpan 2 sm skurð á hægri vísifingri og lausa nögl, roða og margar húðrispur innanvert á lærum, bogadregna rispu rétt utan við endaþarmsop vinstra megin, stóran marblett á vinstri rasskinn og annan minni þar fyrir neðan, mikil eymsli í endaþarmi, leggöngum og spönginni þar á milli og áfallastreituröskun.
Brot ákærðu Andreu, X, Elíasar, Jóns og Óttars teljast varða við 175. gr. a., 1. mgr. 194. gr., 2. mgr. 218. gr. og 252. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 auk þess sem brot ákærða Óttars telst einnig varða við 1. mgr. 220. gr. sömu laga.
II.
Gegn ákærða Y fyrir þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi, sbr. I. ákærulið, með því að hafa, að tilstuðlan ákærða X fyrir árásina sem þar er lýst, tekið við poka skömmu eftir árásina sem hafði að geyma fatnað, þ.e. skíðagrímu og jakka, sem ákærði Elías klæddist við árásina, auk ofangreindrar leðurkylfu, en ákærðu Andrea, Jón og Elías afhentu ákærða Y pokann á dvalarstað hans að [...],[...]. Ákærði Y geymdi innihald pokans á heimili sínu þar til lögregla haldlagði munina þann 30. desember 2011.
Telst þetta varða við 175. gr. a. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A er þess krafist að ákærðu verði dæmd til að greiða henni skaða- og miskabætur in solidum samtals að fjárhæð kr. 5.188.151 ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2011 til 13. apríl 2012 en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist lögmannsþóknunar að mati dómara að viðbættum virðisaukaskatti.“
Við framhaldsaðalmeðferð voru af hálfu brotaþola lagðar fram á dskj. nr. 35, breyttar dómkröfur, en þar segir að af hálfu brotaþoli sé þess krafist að ákærðu verði in solidum dæmd til að greiða brotaþola 4.000.000 króna í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2011 til 13. apríl 2012, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist lögmannsþóknunar að mati dómara að viðbættum virðisaukaskatti. Í kröfugerðinni er tekið fram að fallið sé frá bótakröfu vegna eigna- og fjártjóns að sinni en að áskilinn sé réttur til þess að höfða mál vegna þess tjóns síðar.
Mál nr. S-228/2012 var sameinað þessu máli. Það er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 22. mars 2012, á hendur ákærðu Andreu Kristínu „fyrir eftirtalin brot gegn umferðarlögum og almennum hegningarlögum, framin að kvöldi laugardagsins 25. júní 2011 í Garðabæ:
1. Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifhjólinu RP-587, án þess að hafa ökuskírteini meðferðis, norður Hafnarfjarðarveg og gegn rauðu ljósi á gatnamótum Hafnarfjarðarvegar og Lyngás í Garðabæ, og síðan að verslunarkjarna við Litlatún í Garðabæ þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Telst þetta varða við 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
2. Fyrir rangar sakargiftir, með að hafa er lögregla hafði afskipti af akstri ákærðu í tilviki því sem lýst er í 1. ákærulið, skýrt lögreglu rangt frá nafni sínu og kennitölu er ákærða gaf upp nafn og kennitölu C, kt. [...], og ritaði nafn hennar undir vettvangsskýrslu lögreglu og þannig komið því til leiðar að Rut fékk sent sektarboð fyrir að aka gegn rauðu ljósi og fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis við aksturinn.
Telst þetta varða við 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Að því er varðar ákæru, útgefna 14. mars 2012, er af hálfu ákærðu Andreu Kristínar Unnarsdóttur aðallega krafist sýknu, til vara að háttsemi ákærðu verði heimfærð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og henni gerð sú vægasta refsing sem lög leyfa, en að hún verði sýknuð af öðrum kröfum ákæruvaldsins. Til þrautavara er þess krafist að ákærða verði sýknuð af háttsemi skv. 175. gr. a, 1. mgr. 194. gr. og 252. gr. almennra hegningarlaga, en að henni verði gerð sú vægasta refsing sem lög frekast heimila fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Þá er þess krafist að gæsluvarðhald er ákærða hefur sætt frá 22. desember 2011 komi með fullri dagatölu til frádráttar dæmdri refsivist.
Að því er varðar ákæru, útgefna 22. mars 2012, er þess krafist að ákærða verði dæmd til vægustu refsingar sem lög frekast heimila.
Þá er þess krafist að bótakröfu brotaþola á hendur ákærðu verði vísað frá dómi, en til vara að ákærða verði sýknuð af kröfunni, en til þrautavara að hún verði lækkuð verulega.
Loks er þess krafist að skipuðum verjanda ákærðu verði tildæmd hæfileg málsvarnarlaun úr ríkissjóði að mati dómsins, með vísan til framlagðrar tímaskýrslu, þ.m.t. fyrir verjandastörf hans á rannsóknarstigi málsins, auk virðisaukaskatts á málsvarnarlaun.
Af hálfu ákærða X er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að honum verði gerð eins væg refsing og lög leyfa.
Þá er krafist frávísunar á einkaréttarkröfu í málinu, en til vara að hann verði sýknaður af henni.
Loks er þess krafist að málsvarnarlaun skipaðs verjanda verði greidd úr ríkissjóði samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Af hálfu ákærða Elíasar Valdimars Jónssonar er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds í málinu. Til vara er þess krafist að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, en brot hans verði heimfært til 217. gr. almennra hegningarlaga (sic) og til þrautavara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast leyfa og að refsingin verði höfð skilorðsbundin frá dómsuppsögu. Komi til sakfellingar í málinu er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist ákærða komi til frádráttar tildæmdri refsingu.
Þá er þess krafist að bótakröfu brotaþola verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af bótakröfunni, en til þrautavara að krafan verði lækkuð verulega.
Af hálfu ákærða Y er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, til vara að hann verði ekki dæmdur til refsingar og til þrautavara að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.
Þá er þess krafist að ákærði verði sýknaður af bótakröfu brotaþola og að málsvarnarlaun skipaðs verjanda verði greidd úr ríkissjóði samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Af hálfu ákærða Jóns Ólafssonar er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvalds, til vara að hann verði dæmdur til þeirrar vægustu refsingar sem lög framast leyfa fyrir þá háttsemi sem sannað þykir að hann hafi framið. Verði ákærði sakfelldur er þess krafist að gæsluvarðhaldsvist, sem hann hefur sætt, komi í stað refsingar að öllu leyti, eða a.m.k. til frádráttar henni.
Þá er af hálfu ákærða krafist frávísunar á einkaréttarkröfu, en til vara sýknu af bótakröfu og til þrautavara að hún verði lækkuð verulega.
Loks er þess krafist að skipuðum verjanda ákærða verði dæmd hæfileg málsvarnarlaun úr ríkissjóði, samkvæmt framlagðri tímaskýrslu eða að mati dómsins.
Af hálfu ákærða Óttars Gunnarssonar er þess aðallega krafist að hann verði sýknaður af öllum sakargiftum. Til vara er þess krafist, verði hann sakfelldur í málinu að einhverju leyti, að honum verði aðeins gert að sæta vægustu refsingu er lög leyfa, og að gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti komi að öllu leyti í stað refsingar, eða a.m.k. til frádráttar henni.
Þá er þess krafist að einkaréttarkröfu brotaþola verði vísað frá dómi, en til vara að ákærði verði sýknaður af henni og til þrautavara að krafan verði lækkuð verulega.
Loks er krafist málsvarnarlauna skipuðum verjanda ákærðu til handa, hver sem úrslit málsins verða, og að málsvarnarlaun og annar sakarkostnaður málsins verði greiddur úr ríkissjóði.
Málavextir
Ákæra, útgefin 14. mars 2012.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu, dags. 22. desember 2011, barst lögreglumönnunum Lárusi Má Andréssyni og Pétri Má Sveinssyni tilkynning klukkan 03:20 frá fjarskiptamiðstöð lögreglu um að fara að [...], íbúð [...], vegna slagsmála. Komið hafi fram í tilkynningunni að sjúkrabifreið væri á leið á vettvang þar sem einn væri meðvitundarlaus. Í skýrslunni segir að þegar lögreglumenn hafi komið á vettvang hafi tilkynnandinn, B, tekið á móti lögreglumönnum á jarðhæðinni og fylgt þeim að íbúð [...]. Þegar inn í íbúðina var komið hafi lögreglumenn séð brotaþola, A, liggja meðvitundarlausa á gólfinu við sjónvarpsrýmið, eins og segir í skýrslunni. Athuguð hafi verið lífsmörk hjá brotaþola og hafi hún komið til meðvitundar, en ekki getað svarað lögreglumönnum. Skömmu síðar hafi sjúkrabifreið komið á vettvang og flutt brotaþola á slysadeildina í Fossvogi til frekari aðhlynningar. Töluvert af blóði hafi verið í íbúðinni ásamt hárlokkum úr brotaþola.
Í skýrslunni segir að rætt hafi verið við vitnið B á vettvangi og hafi hann tjáð lögreglu að hann hefði verið í heimsókn hjá brotaþola þegar tveir menn og ein kona hefðu ráðist inn í íbúðina. Þá hefði hann staðið inni í eldhúsi og brotaþoli verið við borðstofuborðið. Honum hefði verið ýtt út úr íbúðinni og fólkið læst hann úti. Hann hefði verið fyrir utan í smátíma og síðan séð fólkið yfirgefa íbúðina og læsa á eftir sér. Hefði hann byrjað að banka á útidyrahurðina og þá hefði brotaþoli komið skríðandi að hurðinni, alblóðug, og opnað fyrir honum. Hefði hann borið hana inn í sjónvarpsrýmið. Síminn hans hefði verið tekinn og því hefði hann orðið að fara til nágranna til að fá að hringja á neyðarlínuna. Samkvæmt skýrslunni tjáði B lögreglu að annar karlmannanna hefði verið lítill, hálfsköllóttur með rauðbirkið hár, en vitnið gat ekki lýst hinum karlmanninum þar sem hann hefði verið með eitthvað fyrir andlitinu. Konan hefði verið með sítt, dökkt hár og heiti Andrea. Vitnið tjáði lögreglu að fólkið hefði flúið af vettvangi á rauðri bifreið af eldri gerðinni af Toyota Corolla station.
Í skýrslunni segir að rannsóknarmenn frá tæknideild hafi komið á vettvang og ljósmyndað hann, en einnig hafi verið leitað að förum. Við rannsókn í íbúðinni hafi fundist ætlað maríhúana í krukku fyrir ofan ísskápinn. Loks segir að skipt hafi verið um lás á íbúðinni og hún innsigluð.
Þá segir í skýrslunni að upplýsingar hafi komið frá lögreglumanni, sem rætt hafði við brotaþola á slysadeild, umað árásarmennirnir væru ákærða Andrea Kristín og kærasti hennar, en brotaþoli vissi ekki hver þriðji maðurinn var.
Að svo búnu hafi lögreglumenn farið að skráðu lögheimili ákærðu Andreu að Breiðuvík 35, en þar hafi ákærðu Andrea og Jón verið handtekin í þágu rannsóknar málsins laust fyrir klukkan 05:30.
Í skýrslu Svans Elíssonar lögreglumanns hjá tæknideild lögreglu, dags. 9. janúar 2012, segir að þegar hann hafi komið á vettvang klukkan 05:26 hafi hann hitt þar fyrir fjóra lögreglumenn ásamt B, sem setið hafi á rúmi inni í hjónaherbergi og hjá honum hafi verið lögreglumaður. Brotaþoli hafði þá þegar verið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild. Sjá hafi mátt blóð víða í íbúðinni, m.a. á útidyrahurð, anddyri, í stofu/eldhúsi, baði og þvottaherbergi. Svo hafi virst sem glerskápur í stofunni hefði verið færður til og einnig borðstofuborð. Stóll hafi legið á hliðinni undir borðinu og á gólfinu þar rétt hjá hafi mátt sjá brotinn vasa. Einnig hafi mátt sjá blóð í stigahúsi á þriðju hæð.
Í skýrslunni segir að húsið að [...] sé fimm hæða fjöleignarhús. Gengið sé inn í íbúðir af svölum og stigahús sé sameiginlegt fyrir íbúa. Stigahúsið sé læst og til að komast inn þurfi lykil eða hringja dyrabjöllu hjá íbúa. Þegar komið sé inn í stigahúsið sé hringstigi á milli hæða og lyfta. Gengið sé úr stigahúsinu inn á svalir og sé þar sérinngangur inn í hverja íbúð, en fjórar íbúðir séu á hverri hæð.
Í skýrslunni segir að íbúð 302 sé um 70 fm að stærð með svölum, en í íbúðinni sé forstofa, tvö svefnherbergi á vinstri og hægri hönd þegar gengið sé úr forstofu, stofa/eldhús, sem sé í alrými, baðherbergi og þvottahús, sem sé inn af baðherbergi.
Í skýrslunni segir að læsa þurfi útidyrahurð að íbúð [...] með lykli að utanverðu þegar íbúðin sé yfirgefin. Ekki hafi verið að sjá að útidyrahurðin hefði verið spennt upp eða að brotist hefði verið inn. Ætla megi að útidyrahurðin hafi verið ólæst þegar gerendur komu inn.
Í hjónaherbergi á hægri hönd þegar komi væri inn úr forstofu hafi verið tvær dýnur á gólfi og tveir svartir ruslapokar. Fataskápar hafi verið tómir. Í herbergi beint á móti hjónaherberginu hafi verið rúm ásamt barnadóti, fötum og þess háttar.
Í stofunni hafi mátt sjá tvo tveggja sæta sófa, sjónvarp og glerskáp, sem virtist hafa verið dreginn fram. Við hliðina á skápnum hafi verið tvær ferðatöskur. Við svalahurð hafi verið borðstofuborð, sem virtist hafa verið fært til og við borðið hafi mátt sjá stól sem legið hafi á gólfinu og annan við endann á borðinu. Á gólfinu við svalahurðina og undir borðinu hafi verið brotinn vasi.
Í stofu hafi mátt sjá talsvert blóð á gólfinu og ljóst hár við glerskáp og stofuborð. Ætla megi að þar hafi verið ráðist á brotaþola, en hún hafi verið við glerskápinn/ferðatöskurnar þegar gerendur komu inn í íbúðina. Í skýrslunni segir að svo hafi virst að brotaþoli hafi náð að skríða um átta metra eftir gólfinu að anddyrinu, en þar sé millihurð, og að útidyrahurð og náð að opna fyrir vitninu B, sem hafi verið læstur úti, en sjá hafi mátt blóð á gólfinu í stofunni, í anddyri, á hurð og hurðarhúni. Hluti af daufu skófari á gólfinu með ætluðu blóði í hafi verið ljósmyndaður.
Þá segir í skýrslunni að brotaþoli hafi legið fyrir framan tveggja sæta sófa, en þar hafi verið talsvert blóð og einnig ljóst hár á gólfinu. Á eldhúsborði hafi verið klippur, sem lagt hafi verið hald á og síðar leitað að fingraförum á með límáferð, en engin nothæf fingraför hafi verið til staðar á klippunum. Í bað- og þvottaherbergi hafi mátt sjá blóð á gólfi. Í þvottahúsinu hafi verið þvottavél með fatnaði í og hafi svo virst að einhver hefði tekið þvottinn úr vélinni. Í anddyri hafi mátt sjá blóð á gólfi, útidyrahurð og á vegg.
Í skýrslu tæknideildar lögreglu er að finna ljósmyndir af vettvangi, m.a. af brotaþola, ljósmyndir af klippum og fíkniefnum, sem haldlögð voru á vettvangi, ljósmyndir af vitninu B, bifreið brotaþola af tegundinni [...], og uppdrátt af íbúð [...] þar sem merkt hefur verið inn á hvar blóð, hár, skófar og klippur fundust á vettvangi.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 28. desember 2011, var framkvæmd fingrafaraleit á glasi, sem haldlagt var á vettvangi, og fundust samanburðarhæf fingraför á glasinu. Við rannsókn kom í ljós að fingraförin voru eftir vitnið B.
Á meðal gagna málsins er upptaka af símtali vitnisins B við neyðarlínu vegna árásarinnar. Í samantekt lögreglunnar um símtalið, dags. 2. febrúar 2012, segir að 22. desember 2012 hafi komið tilkynning til neyðarlínunnar um líkamsárás að [...] og hafi verið hringt inn klukkan 03:18. Þar segir að nágranni brotaþola hafi hringt úr heimasíma sínum, en B hafi síðan tekið við símanum. Í símtalinu komi fram hjá B að brotaþoli væri meðvitundarlaus eða meðvitundarlítil, þ.e. hún opnaði augun, en virtist vera í losti. Einnig að hún gæti ekki talað þrátt fyrir að hún reyndi það. Einnig komi fram í símtalinu að um hálftími væri liðinn frá árásinni á brotaþola og að þrír hefðu ráðist á brotaþola. Í símtalinu heyrist ekkert í brotaþola, en það styðji framburð B um að brotaþoli hafi ekki verið með fulla meðvitund.
Á meðal gagna málsins er vottorð Theodórs Friðrikssonar, læknis á Landspítala, háskólasjúkrahúsi, dags. 22. desember 2011. Þar segir að brotaþoli hafi verið flutt á slysadeild í Fossvogi með sjúkrabifreið eftir áverka, sem hún hafi hlotið við líkamsárás í heimahúsi. Í vottorðinu segir að þegar sjúkraflutningamenn hafi komið á vettvang hafi verið mikið blóð þar og brotaþoli blóðug í framan og í hári. Hafi hún virst vera meðvitundarlítil. Hún hafi svarað áreiti, en ekki talað við sjúkraflutningamenn. Mikið hafi verið af lausu hári í kringum hana og föt blóðug.
Við skoðun á slysadeild hafi brotaþoli horft í kringum sig, en ekki svarað neinum spurningum. Hún hafi þó virst vera vakandi og að fylgjast með því sem var að gerast. Hún hafi síðan vaknað betur upp og gefið betri lýsingu á þeim áverkum, sem hún hafði orðið fyrir. Í vottorðinu er haft eftir brotaþola að tveir menn og ein kona hafi komið inn í íbúðina og ráðist á hana. Hún hafi verið slegin í líkamann með kylfu, en einnig hafi verið sparkað í hana, þ.e. í kvið, mjaðmagrind og milli fóta. Hún hafi einnig greint frá einhverri kynferðislegri misbeitingu, en hafi ekki viljað opna sig meira hvað það varðaði. Hún hafi þó samþykkt að fara í skoðun á neyðarmóttöku. Brotaþoli hafi einnig greint frá því að gerð hafi verið tilraun til að klippa af henni fingur með einhvers konar klippum, en það hefði ekki tekist.
Í vottorðinu segir að við skoðun hafi brotaþoli verið lurkum lamin um allan líkamann, þ.e. á höfði, brjóstkassa, kvið og baki. Hún hafi verið með sjáanlega áverka í andliti og höfði, aðallega á gagnaugum og aftur í hársvörðinn beggja vegna, þ.e. vægt mar, skrámur og yfirborðshrufl. Einnig hafi hún verið með einhverja skallabletti á þessu svæði, en hún muni vera með hárlengingar. Eitthvað af lausu hári, sem verið hafi á vettvangi, hafi verið úr hárlengingum. Brotaþoli hafi verið mjög aum alls staðar í andliti og upp á höfuðleður og með eymsli niður á hálsinn beggja vegna við þreifingu. Þó hafi ekki verið sjáanleg áverkamerki. Brotaþoli hafi verið með smá yfirborðsmar á hægra kjálkabarði og á hálsinum hægra megin. Við þreifingu á brjóstkassa og kvið hafi hún verið með allnokkur dreifð eymsli. Sjá hafi mátt væga yfirborðsáverka neðarlega á kvið, en þó ekkert sláandi og ekki hafi verið að sjá neitt mar út í húðinni. Brotaþoli hafi verið mjög aum við þreifingu niður eftir öllu baki, bæði brjósthrygg og lendhrygg og þá hafi brotaþoli verið stirð í hreyfingum. Lungnahlustun hafi verið hrein og kviður mjúkur svo að enginn grunur hafi verið um innri áverka. Hægra megin ofarlega á baki hafi verið tveir bogalaga yfirborðsáverkar, sem gætu samrýmst því að vera bitfar. Mar hafi sést aftanvert á hægra herðablaði og hægri öxl. Ekki hafi verið að sjá áverka á neðri útlimum fyrir utan mar á vinstri kálfa og mar og eymsli hafi virst vera framanvert á hægri sköflungi. Þetta hafi þó ekki verið stórir áverkar.
Á hægri vísifingri yfir miðkjúku hafi verið alldjúpur, u.þ.b. 2 sm skurður, rétt ofan við nærlið vísifingurs. Skurðurinn gæti samrýmst því að vera eftir klippur eða eitthvað slíkt eins og brotaþoli hafi borið um.
Samkvæmt sneiðmynd af höfði og hálsi hafi ekki verið neinir innri áverkar þar. Fingur hafi verið deyfður og skoðaður frekar. Ekki hafi verið grunur um sina- eða taugaáverka og því hafi hann verið saumaður saman.
Í vottorðinu segir að fylgst hafi verið með brotaþola yfir nóttina og fram eftir degi og hafi hún þá kvartað um að hún sæi ekki eðlilega á vinstra auga, en henni hafi fundist vera blindur blettur þar. Hafi því verið ákveðið að senda hana til augnlæknis. Við skoðun þar hafi komið í ljós talsvert mar á neðra augnloki vinstra megin og minni háttar blæðing inn á forhólf vinstra auga.
Samkvæmt vottorðinu var greining slysadeildar á áverkum brotaþola eftirfarandi: Heilahristingur, mar og yfirborðsáverkar á höfði, blæðing í forhólf auga, mar á hálsi, mar á öxl og upphandlegg, sár á fingri, mar á fótlegg, tognun í lendhrygg, brjósthrygg og hálshrygg.
Í lok vottorðsins segir að líkamlegir áverkar brotaþola virðist fyrst og fremst vera mjög dreift mar og yfirborðsáverkar víðsvegar um líkamann. Þá sé hún með áverka á fingri, sem gæti samrýmst því að gerð hafi verið tilraun til þess að klippa af henni fingur með einhvers konar verkfæri. Í vottorðinu segir að áverkar brotaþola ættu að jafna sig og gróa á tveimur til þremur vikum hið mesta og ekki megi ætla að aðrar líkamlegar afleiðingar af þessum áverkum verði annað en örmyndun á fingri. Um kynferðislega misbeitingu er vísað til vottorða og álits lækna á neyðarmóttöku.
Loks segir að brotaþoli hafi útskrifast í kvennaathvarfið síðdegis 23. desember 2011. Með vottorðinu fylgdu ljósmyndir af yfirborðsáverkum í andliti, hálsi og útlimum og sári á fingri.
Á meðal gagna málsins er einnig skýrsla Arnars Haukssonar læknis, dags. 22. desember 2012, um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola á neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi þann sama dag kl. 16:00. Í kaflanum um frásögn sjúklings er haft eftir brotaþola að hún hafi verið heima hjá sér kvöldið áður og einn vinur hjá henni, sem hafi verið að fara. Annar vinur hennar, sem hafi gist hjá henni, hafi haft lykil. Hann muni hafa sleppt inn fólki, e.t.v. úr Hells Angels, og hafi þau verið u.þ.b. þrjú til fjögur, þar af einn grímuklæddur, vinkona hennar og maður hennar. Brotaþoli hafi skýrt frá því að þessi vinkona hennar hafi stolið úr íbúð hennar á meðan hún var í Bandaríkjunum. Þau hafi komið til að segja henni að láta ógert að kæra hana. Fólkið hafi síðan gengið í skrokk á henni og hótað að taka af henni alla putta ef hún segði til þeirra. Vinkona hennar hafi svæft hana endurtekið með því að grípa hana kverkataki. Sá grímuklæddi hafi troðið fingri í rass og klof og klemmt á milli, en það hafi verið rosalega sárt. Í hana hafi verið sparkað og hún m.a. slegin í andlit og sparkað í hana víðar. Brotaþoli hafi talið að fólkið hafi pínt hana í tæpa klukkustund. Notuð hafi verið töng á puttann á henni og þá hafi þau notað hníf og skorið í fingurinn á henni og hótað að taka hann af. Einnig hafi þau slitið upp nögl á fingri hennar. Hún hafi grátið og beðið um miskunn og sagst mundu gera hvað sem er ef henni yrði sleppt. Jafnframt hafi fólkið sett eitthvert efni í nasirnar á henni og látið hana kyngja því og sagt: „Nú verður ekki tekið mark á þér af því að þú ert undir áhrifum.“ Hún hafi verið dregin á hárinu og lausar flyksur hafi verið úti um allt. Stungið hafi verið í kviðvegg hennar hægra megin við nafla með nál/sprautu. Einn hafi tekið út á sér liminn og hótað að míga á hana, en í því hafi hún verið svæfð og kvaðst hún ekki hafa vitað hvað gerðist á meðan hún var í dái. Vinkona hennar hafi virst stjórna aðgerðum. Hún hafi haldið henni á meðan þeir píndu hana og sagt í sífellu: „Farið varlega það má ekki sjást á henni.“ Hafi hún einnig ítrekað gripið um háls henni og svæft hana. Að lokum hafi hún verið læst inni svo að hún kæmist ekki út.
Loks er haft eftir brotaþola að henni hafi liðið djöfullega og verið mjög hrædd því búið væri að hóta bæði henni og foreldrum hennar ef hún segði til fólksins. Þá er eftir henni haft að henni sé rosalega illt í höfði, baki, leggöngum og endaþarmi, auk eymsla um allan líkamann og henni fyndist vera blindur blettur í sjón á vinstra auga.
Um skoðun á fótum, innanverðum lærum og rassi, spöng og leggöngum segir að bogadregin rispa hafi verið rétt utan við endaþarmsop á vinstri rasskinn. Margar húðrispur og roði hafi verið innanvert á lærum, stór marblettur aftan á vinstri rasskinn og annar minni þar fyrir neðan. Mikil eymsli frá endaþarmi og leggöngum og hafi verið sárt að sitja. Þá segir í skýrslunni að framangreindir áverkar samrýmist ytra áreiti. Marblettur á rassi gæti verið eftir fast klip í hann og eymsli í rassi og spöng aftan til og hægra megin í leggöngum gæti samrýmst sögu um að klipið hefði verið fast með fingrum innan í rassi og leggöngum og mar á rasskinn gæti samrýmst því að klipið hefði verið fast og klemmt fast að.
Við skoðun á ytri kynfærum hafi komið í ljós byrjandi roðaför og petechiur á vinstri rasskinn, hálfbogadregið. Við leggangaskoðun hafi verið mjög miklir verkir við snertingu, einkum í afturvegg legganga. Í endaþarmi hafi verið miklir verkir en ekki hægt að sjá áverka þar sem ekki hafi verið hægt að þreifa vegna eymsla. Bogadregin rispa hafi verið í húð vinstra megin rétt utan við endaþarmsop.
Í kaflanum um niðurstöðu læknis segir m.a. að brotaþoli hafi verið mjög aum í spöng á milli endaþarms og legganga og ofurviðkvæm þar við skoðun.
Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 1. mars 2012, var alkóhól ekki í mælanlegu magni í blóði eða þvagi brotaþola. Í þvaginu hafi fundist amfetamín, benzódíazepinsambönd, kannabínóíðar, kódein, morfín, lídókaín, citalópram, koffein og nikótín.
Í blóðsýninu, sem tekið hafi verið klukkan 12:30, hafi mælst amfetamín 165 ng/ml, en styrkur þess sé eins og oft finnist í blóði þeirra sem misnoti amfetamín. Þá hafi fundist í blóði fremur lágur styrkur róandi og kvíðastillandi lyfja og svefnlyf, en styrkur þess hafi verið eins og eftir töku lyfsins í fremur stórum skömmtum við svefnleysi. Framangreind lyf hafi slævandi áhrif á miðtaugakerfið. Þá hafi mælst í blóði hitalækkandi og verkjastillandi lyf eins og eftir töku lyfsins í lækningalegum skömmtum og staðdeyfilyf, eins og eftir notkun lyfsins við staðdeyfingu.
Í lok matsgerðarinnar segir að niðurstöður rannsóknanna bendi til þess að hlutaðeigandi hafi verið undir áhrifum amfetamíns og slævandi áhrifum tetrahýdrókannabínóls, nítrazepams, díazepams og nordíazepams þegar blóðsýnið var tekið.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 20. janúar 2012, fundust í buxum, peysu, toppi og sokki, sem brotaþoli var í við komu á slysadeild, ásamt hársýnum frá brotaþola, blettir sem gáfu jákvæða svörun við for og staðfestingarprófum sem blóð. Á meðal gagna málsins eru og ljósmyndir af áðurgreindum fatnaði brotaþola og hárflyksum, sem fundust á vettvangi.
Þá er á meðal gagna málsins vottorð dr. Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings, dags. 4. mars 2012, um skoðun og viðtöl við brotaþola. Þar kemur fram að sálfræðingurinn hitti brotaþola, þar sem hún lá á Landspítalanum hinn 23. desember sl. og á tímabilinu 23. desember 2011 til 2. mars 2012 hitti sálfræðingurinn brotaþola níu sinnum, en ræddi einnig við hana í síma á tímabilinu. Í samantekt vottorðsins segir m.a.:
„Allt viðmót A bendir til þess að hún hafi upplifað mikinn ótta, bjargarleysi og lífshættu í kjölfar meintrar árásar. Niðurstöður endurtekins greiningarmats sýna að A þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun í kjölfar meints kynferðisbrots. Auk þess þjáist A af alvarlegu þunglyndi. Sálræn einkenni hennar í kjölfar áfallsins samsvara einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir. Þykir ljóst að atburðurinn hefur haft víðtæk og alvarleg áhrif á hana. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvara vel frásögnum hennar í viðtölum. Hún virðist ávallt hreinskilin, trúverðug og samkvæm sjálfri sér.
Eins hefur komið fram að A hefur sýnt mikinn vilja til að takast á við þá erfiðleika sem hún hefur upplifað eftir meinta árás. Sökum alvarleika þeirra afleiðinga sem A upplifir í kjölfar meintrar árásar hefur áhersla í meðferðarvinnu verið á að styrkja bjargráð hennar og vinna að undirbúningi á formlegri úrvinnslu áfalls. Meðferðarvinna er því á frumstigum. Gert er ráð fyrir að hún haldi áfram meðferðarvinnunni en ekki er hægt að segja með vissu hve langan tíma meðferð tekur eða hvort bati náist.“
Samkvæmt gögnum málsins var gerð húsleit í íbúð ákærðu Andreu að Breiðuvík 35 í Reykjavík, fimmtudaginn 22. desember sl. Í íbúðinni var lagt hald á fatnað, skó, húslykla, handklæði og sjö farsíma.
Í skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 29. desember 2012, eru ljósmyndir úr íbúð ákærðu Andreu, sem teknar voru á meðan húsleit fór fram. Á þessum myndum má sjá á eldhúsbekk merki með árituninni: „Support your local Hells Angels Iceland“ og vesti, sem hékk á stól í eldhúsi með árituninni „S.O.D. MC Reykjavík“ á baki og annarri svipaðri áritun framan á vestinu.
Við skoðun á bifreiðinni RO-345 af gerðinni Toyota Corolla station fannst ekki blóð, en í hólfi á milli framsæta fannst lyklakippa með húslyklum og lykli að bifreið af gerðinni [...], sem og auðkennislykli frá banka.
Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 14. febrúar 2012, var alkóhól ekki í mælanlegu magni í blóði ákærðu Andreu, en amfetamín í blóði mældist 95 ng/ml. Í matsgerðinni segir að styrkur amfetamíns í blóði sé eins og búast megi við þegar amfetamín er tekið í fremur stórum lækningalegum skömmtum. Önnur ólögleg ávana- og fíkniefni voru ekki í mælanlegu magni í blóði ákærðu Andreu.
Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 14. febrúar 2012, mældist magn alkóhóls í blóði ákærða Jóns 0,21 og amfetamín í blóði mældist 155 ng/ml. Í matsgerðinni segir að styrkur amfetamíns í blóði sé eins og oft finnst í blóði þeirra, sem misnota amfetamín. Önnur ólögleg ávana- og fíkniefni voru ekki í mælanlegu magni í blóði ákærða Jóns.
Ákærði Óttar Gunnarsson var handtekinn 22. desember 2011, klukkan 20:30 og vistaður í fangaklefa að lokinni skýrslutöku á lögreglustöð. Á meðal gagna málsins eru ljósmyndir af fatnaði sem ákærði Óttar var í við handtöku.
Ákærði Elías var handtekinn á heimili móður sinnar að [...] í [...] 29. desember 2011, klukkan 16.35, og fluttur á lögreglustöð þar sem hann var vistaður. Samkvæmt gögnum málsins var farið að nýju að [...] hinn 30. desember 2011, klukkan 19.10, til að leita að munum, sem tengdust málinu. Þar var m.a. lagt hald á svarta hanska í náttborðsskúffu í herbergi ákærða og Carhart camo-litaðar buxur, sem ákærði Elías var í við handtöku. Þá hafi móðir Elíasar afhent lögreglu með eftirgangsmunum skó ákærða, sem hann var í þegar árásin átti sér stað, en Elías hafi tjáð lögreglu að búið væri að setja skóna í þvottavél eftir árásina.
Á meðal gagna málsins er að finna ljósmyndir af þessum munum, þ.e. buxum, hönskum, skóm og hníf.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 4. janúar 2012, kemur fram að 30. desember 2011, klukkan 23:00, fóru lögreglumenn í fangaklefa ákærða Elíasar til að ræða við hann og skoða húðflúr, sem ákærði er með á hægri hendi, en brotaþoli hafði þá lýst húðflúri, sem hún sagði að grímuklæddi maðurinn hefði verið með. Ákærði hafi þá tjáð þeim að hann hefði farið að [...] í [...] eftir árásina, en þar væri ákærði Y búsettur. Ætti Y að vera með föt og vopn, sem notuð hefðu verið við árásina. Um væri að ræða skíðagrímu, Nike-jakka og barefli, þ.e. leðurkylfu. Einnig hafi ákærði tjáð lögreglumönnum að með því að segja frá þessu væri hann mjög hræddur um líf sitt og heilsu og því vildi hann ekki að þetta kæmi fram í skýrslu.
Strax í kjölfarið af framangreindu eða klukkan 23:34 var farið að [...] og knúið dyra. Í skýrslunni segir að ákærði Y hafi komið til dyra og eftir að erindið hafði verið kynnt hafi Y framvísað poka með svartri lambhúshettu og Nike-jakka, en einnig hefði ákærði sótt leðurpung, sem hann hafði sett upp á hillu á heimili sínu. Tjáði Y lögreglu að hann hefði verið beðinn um að geyma þessa hluti fyrir ákærðu Andreu og Jón. Ljósmyndir af þessum munum eru á meðal gagna málsins.
Ákærði X var handtekinn 13. janúar 2012, klukkan 10:45, og vistaður í fangaklefa að lokinni skýrslutöku á lögreglustöðinni í [...]. Þá var ákærði Y handtekinn 16. janúar 2012, klukkan 21:28, og vistaður í fangaklefa að lokinni skýrslu.
Fatnaður, skór og handklæði, sem haldlögð voru í húsleit að Breiðuvík 35 voru tekin til rannsóknar og samkvæmt niðurstöðu rannsóknar tæknideildar lögreglu, dags. 12. janúar 2012, fundust blettir í handklæði og skóm af ákærðu Andreu, sem gáfu jákvæða svörun við for- og staðfestingarprófum sem mennskt blóð.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 10. janúar 2012, fundust hins vegar engin lífsýni, sem nothæf gætu talist til DNA-kennslagreiningar, í þeim gögnum, sem haldlögð voru að [...].
Fatnaður sem ákærði Óttar var í við handtöku var rannsakaður með tilliti til blóðs, en ekkert blóð fannst við þá skoðun með polylight-fjölbylgjuljósgjafa.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 10. janúar 2012, fundust engin lífsýni í þeim gögnum, sem haldlögð voru heima hjá ákærða Y, sem nothæf gætu talist til DNA-kennslagreiningar, þ.e. í skíðagrímu, jakka og kylfu. Í skýrslunni segir að þó sé ekki hægt að útiloka að í stroksýnum, sem tekin hefðu verið af kylfunni og á innanverðri hlið lambhúshettunnar, væri að finna lífsýni í formi þekjufruma.
Sýni úr handklæði og skóm ákærðu Andreu og Jóns, sem haldlögð voru að Breiðuvík 35, lambhúshetta, sem haldlögð var að [...], og hanskar, sem haldlagðir voru að [...], auk stroksýna af lófa og fingri ákærðu Andreu, lófum og enni ákærða Jóns og höndum ákærða Óttars voru send til DNA-greiningar hjá Statens kriminalteknisk laboratorium í Svíþjóð. Með gögnunum voru send samanburðarsýni frá þolanda og fimm grunuðum einstaklingum.
Samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu, dags. 19. mars 2012, var niðurstaða rannsóknarinnar sú að DNA-snið allra sýnanna af skóm ákærðu Andreu var eins og DNA-snið brotaþola, en blóð úr brotaþola greindist ekki annars staðar.
Í skýrslunni segir að ekki hafa verið hægt að samkenna lífsýni úr lambhúshettunni og lífsýni, sem fundist hafi í báðum hönskunum, hafi ekki verið hægt að rekja til brotaþola eða ákærðu.
Hinn 30. janúar 2012 var gerð húsleit á heimili ákærða X að [...], en ekkert virðist hafa fundist við þá leit sem þýðingu hefur í þessu máli.
Á meðal gagna málsins er greinargerð lögreglu, dags. 26. janúar 2012, um notkun símanúmera ákærðu um það leyti sem líkamsárásin átti sér stað á [...] í [...], aðfaranótt 22. desember 2011. Athugað var hvort símarnir voru í námunda við vettvang árásarinnar um klukkan 02:30. Þá voru skoðuð tengsl milli aðila málsins út frá samskiptum þeirra í síma aðfaranótt 22. desember 2011.
Þá eru á meðal gagna málsins gögn frá símafyrirtækjum um símnotkun allra grunaðra og brotaþola frá klukkan 00:54 hinn 20. desember til klukkan 23:43 hinn 22. desember 2011.
Jafnframt er þar að finna greinargerð lögreglu, dags. 3. janúar 2012, um notkun símanúmers ákærða X frá klukkan 23:24 að kvöldi 21. desember og til klukkan 09:40 að morgni 22. desember 2011.
Loks er á meðal gagna málsins skýrsla lögreglu, dags. 30. janúar 2012, um rannsókn á gögnum í Nokia-síma brotaþola og iPhone-síma ákærðu Andreu og getur þar að líta sms-skilaboð, send úr og í umrædda síma, sem og símtalaskrá úr báðum símum. Á meðal gagna úr síma ákærðu Andreu er samtal hennar og ákærða Óttars á samskiptasíðunni Facebook hinn 21. desember sl.
Þá er á meðal gagnanna skýrsla lögreglu, dags. 29. desember 2011, um skoðun á Samsung-síma, sem haldlagður var á heimili ákærðu Andreu og Jóns, og var í eigu ákærða Elíasar, en þar getur m.a. að líta sms-skilaboð frá Andreu til Elíasar frá 19. desember 2011.
Samkvæmt skýrslu lögreglu, dags. 31. janúar 2012, kom í ljós við skoðun á gögnum í síma ákærða Óttars að búið var að eyða mótteknum og sendum skilaboðum í símanum og ekki var hægt að sjá símtalaskrá símans.
Á meðal gagna málsins er upplýsingaskýrsla lögreglu um aðild ákærðu X, Jóns, Óttars, Andreu og Elíasar að vélhjólagengjum ásamt ljósmyndum. Í málinu hafa einnig verið lagðar fram skýrslur ríkislögreglustjóra um mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi, dagsettar í júní 2008, 2009 og 2010. Einnig hefur verið lögð fram skýrsla norsku lögreglunnar sem ber heitið: Politets bekjempelse av kriminelle MC-gjenger i peroiden 2011 til 2015 og íslensk þýðing hennar, sem og skýrsla Europol: Knowledge Report: The Hells Angels MC: A Criminal Organisation, dags. 17. febrúar 2012. Þá hefur verið lögð fram skýrsla lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurnesjum um starfsemi Hells Angels á Íslandi, dags. í apríl 2012. Jafnframt hefur verið lögð fram fundargerðabók Hells Angels ásamt skýrslu lögreglunnar um haldlagningu hennar, svo og fundargerðabók S.O.D. Reykjavík. Loks hefur verið lögð fram upplýsingaskýrsla lögreglu, dags. 7. maí 2012, þar sem gefur að líta ljósmyndir af ákærðu Andreu, teknar 10. júní 2010, og bréf, sem ákærði X ritaði stjórn Hells Angels 18. mars 2012 og fannst í áðurgreindri fundargerðabók samtakanna.
Á meðal gagna málsins er skjalaskrá lögreglu í máli nr. 007-2012-151 vegna líkamsárásar, sem brotaþoli er talin hafa orðið fyrir 1. janúar 2012, en þann dag klukkan 21.24 var brotþoli dregin út úr bifreið við slysadeild Landspítalans í Fossvogi og skilin þar eftir meðvitundarlítil á bílaplaninu. Málið mun vera óupplýst.
Ákæra, útgefin 22. mars 2012.
Um málavexti er vísað til ákæru.
Framburður ákærðu
Ákærða Andrea Kristín játaði að hafa gerst sek um líkamsárás samkvæmt ákæru, útgefinni 14. mars sl., en neitaði sök að öðru leyti að því er þá ákæru varðar. Hún játaði sök að því er varðar ákæru, útgefna 22. mars sl.
Ákærða sagði að hún og meðákærðu Jón og Elías hefur farið í íbúð brotaþola umrædda nótt til að sækja meðákærða Óttar, sem hefði verið að flytja þaðan út, svo og til að sækja síma ákærðu, sem hefði innihaldið mjög persónulegar myndir af henni. Sagði ákærða að myndirnar hefðu eingöngu verið ætlaðar manninum hennar, en brotþoli hefði verið búin að hóta að birta þær á netinu. Einnig hefðu þau verið að sækja mótorhjól, sem brotaþoli hefði komið með til hennar nokkru áður, en ákærða kvaðst hafa keypt hjólið af fyrrverandi sambýlismanni brotaþola, D, á 250.000 krónur. Hún sagðist ekki hafa verið byrjuð að borga kaupverðið. Sagðist ákærða ekki hafa vitað fyrr en löngu síðar að hjólið væri stolið. Ákærða sagði að brotaþoli hefði náð í hjólið þar sem það var geymt og tjáð viðkomandi að hún væri að ná í það fyrir ákærðu. Sagðist ákærða hafa frétt að brotaþoli hefði sett hjólið á kerru frá ákærðu og farið með það heim til sín.
Ákærða sagði að hún og meðákærðu Jón og Elías hefðu fyrst farið og sótt meðákærða Óttar í partí í Hafnarfirði. Þau hefðu síðan farið að heimili brotaþola á [...] og séð bifreið hennar fyrir utan húsið. Þau hefðu því farið upp til að ná í símann og spyrja brotaþola hvort mótorhjólið væri í bílageymslunni. Hún sagði að Óttar hefði farið út úr bifreiðinni skömmu áður en þau fóru upp í íbúðina. Ákærða sagði að dyrnar á stigaganginum niðri hefðu verið opnar og þau hefðu síðan gengið upp stigann og farið inn í íbúðina hjá brotaþola. Sagðist hún fyrst hafa farið inn í herbergi til meðákærða Óttars, en þar hefði hann verið að pakka niður. Sagðist ákærða reyndar hafa haldið að hann væri búinn að pakka niður og að þau væru bara að ná í dótið hans. Hún sagðist síðan hafa farið aftur fram og þá hefði brotaþoli sagt: „Hæ, eruð þið komin til að berja mig?“ Brotaþoli hefði verið í annarlegu ástandi og sagðist ákærða hafa reynt að ræða við hana og spurt hana um símann og hvað hún hefði gert við hjólið. Ákærða sagði að rifrildi þeirra hefði síðan farið úr böndunum, en ákærða kvaðst hafa stjakað við brotaþola og rifið í hárið á henni. Sagðist ákærða hafa tekið eftir hníf á borðinu, sem hún kvaðst hafa kannast við sem hníf frá sér. Kvaðst hún hafa opnað hnífinn, haldið í hárið á brotaþola og ætlað að skera hárlengingarnar af brotaþola, en þá hefði brotaþoli borið fyrir sig höndina og hún óvart skorið í fingurinn á brotaþola. Kvaðst ákærða ekki hafa ætlað að skera í fingurinn á brotaþola. Sagðist ákærða strax hafa séð blóð og þá hefði henni brugðið mjög.
Ákærða sagðist hafa fengið hræðslukast því brotaþoli hefði sagt mjög ljóta hluti um dóttur hennar, þ.e. hún hefði hótað því að hún og D myndu ná í hana á frístundaheimilið og skilja hana eftir einhvers staðar úti í vegkanti. Sagðist ákærða sjá mjög eftir því sem hún gerði, en þetta hefði bara farið algerlega úr böndunum. Þá sagði ákærða að sig minnti að hún hefði kýlt brotaþola einu sinni til tvisvar í andlitið. Jafnframt kvaðst ákærða hafa sparkað í brotaþola einu sinni til tvisvar, þ.e. í klofið á henni og í bakið, en hún sagðist þó ekki vera viss. Ákærða sagði að þegar hún hefði rifið í hárið á brotaþola, þ.e. í hnakkanum og togað hana þannig til sín og síðan skorið á hárlengingarnar hefði hún tekið eftir því að brotaþoli hafði pissað á sig og að hún hefði skorið hana í fingurinn. Sagði ákærða að sér hefði brugðið mjög þegar hún sá blóð og farið strax frá.
Aðspurð kvaðst ákærða aldrei hafa séð B í íbúðinni. Þá kvaðst hún ekki vera viss um hvort einhverjir aðrir beittu brotaþola ofbeldi, en þetta hefði gerst mjög hratt. Hún sagði að meðákærði Jón hefði verið á vappi í stofunni í leit að símanum hennar, en meðákærði Elías hefði staðið fyrir aftan hana eða við hliðina á henni. Kvaðst hún halda að Elías hefði stjakað við brotaþola, en sagðist þó ekki vera viss. Átökin hefðu aðallega verið á milli hennar og brotaþola. Ákærða sagðist aðspurð ekki hafa séð meðákærðu Jón og Elías slá brotaþola og sagðist ekki geta verið viss um hvað þeir gerðu. Sagði ákærða að allar afleiðingar árásarinnar mætti rekja til hennar háttsemi eða svo hljóti að vera.
Ákærða sagði að þau hefðu bara gengið beint inn í íbúðina með því að opna hurðina. Hún sagðist ekki vita hvort dyrnar voru ólæstar, en svo hljóti að vera. Þá sagði hún að meðákærði Óttar hefði boðið þeim inn, enda hefðu þau verið að sækja hann.
Aðspurð kvaðst ákærða ekki hafa sparkað í höfuð brotaþola og sagðist ekki hafa séð neinn gera það, en ákærða sagðist hafa verið yfir brotaþola allan tímann. Þá neitaði hún því að hafa stappað á höfði brotaþola. Sagðist ákærða hafa verið í þykkbotna, svörtum mótorhjólaklossum. Þá kannaðist ákærða ekki við að leðurkylfu hefði verið beitt. Aðspurð kvað hún klippurnar hafa verið á staðnum og sagðist hún hafa tekið þær upp og spurt brotaþola að því hvort hún hefði ætlað að nota þær á hana, þ.e. ákærðu. Ákærða kvaðst ekki hafa beitt klippunum við árásina og neitaði því að hafa hótað að beita þeim. Þá neitaði hún því að hafa neytt fíkniefnum upp í brotaþola. Einnig neitaði hún því að hafa lagt hníf að hálsi brotaþola eða að hafa þrengt að öndunarvegi hennar. Kvaðst hún ekki geta útskýrt áverka á hálsi og kjálka brotaþola. Ákærða sagði að enginn hefði stungið fingrum upp í leggöng og endaþarm brotaþola og enginn hefði áreitt brotaþola kynferðislega. Hún sagðist sjálf hafa verið áreitt kynferðislega í mörg ár og kvaðst aldrei mundu gera annarri manneskju það. Hún sagðist aðspurð ekki muna eftir því að meðákærði Elías hefði sagt við brotaþola að hún hefði ekki átt að vera að „fokkast“ í þessari fjölskyldu. Ákærða sagði að hún og meðákærðu Jón og Elías hefðu síðan yfirgefið íbúðina og sagðist hún hafa rætt við brotaþola áður en hún fór og þá hefði brotaþoli verið með meðvitund. Sagðist hún hafa sagt við brotaþola að hún fengi lyklakippuna aftur þegar brotaþoli skilaði hjólinu og hefði brotaþoli þá sagt: „Já, í hádeginu á morgun.“
Ákærða sagði að Óttar hefði enn verið inni í herbergi að pakka þegar hún og meðákærðu Jón og Elías fóru. Aðspurð kvaðst ákærða ekki kannast við að nokkur af þeim hefði verið með grímu, en sagði að Elías hefði verið með húfu.
Ákærða sagðist ekki hafa fundið símann sinn heima hjá brotaþola og því hefði hún tekið lyklakippu brotaþola með sér, en á kippunni hefðu einnig verið húslyklar að hennar eigin íbúð. Hún sagðist ekki hafa orðið vör við að fleira væri tekið úr íbúð brotaþola. Kvaðst ákærða hafa tekið lyklakippuna í þeim tilgangi að fara út í bifreið brotaþola til að leita að símanum sínum, en þar hefði hún fundið hann á milli sætanna. Hún sagði að símkort brotaþola hefði verið í símanum og sagðist hún hafa tekið það úr símanum og hent því út úr bifreiðinni á heimleiðinni.
Hún og meðákærðu Jón og Elías hefðu síðan ekið af stað og farið heim til meðákærða Y. Hefðu þau haldið að hann væri vakandi og ætlað að kíkja til hans í heimsókn með bjórkippu. Hefðu þau staðið á þröskuldinum hjá Y í um mínútu og á meðan hefði hundurinn á heimilinu ætlað að troða sér út. Hefði kærasta meðákærða Y orðið æst og gargað á þau og sagðist ákærða því hafa hlaupið aftur út í bíl. Ákærða kannaðist ekki við það að þau hefðu afhent Y skíðagrímu, leðurkylfu og jakka. Eftir þetta hefðu þau farið aftur á [...] að sækja meðákærða Óttar og þar hefði hann staðið á bak við fjölbýlishúsið við hliðina á fjölbýlishús brotaþola. Kvaðst ákærða ekki hafa viljað skilja hann eftir einan á [...]. Sagði ákærða að þau hefðu skutlað Óttar eitthvað ofar á [...].
Aðspurð sagði ákærða að áður en þau fóru heim til brotaþola hefðu þau farið heim til meðákærða X og ætlað að fá lánaða sendibifreið hjá honum til að ná í mótorhjólið. Hún sagði að sig minnti að Jón hefði sótt lykla að bílskúr þar sem þau hefðu ætlað að setja hjólið inn og sagðist ákærða hafa talað við konu X á meðan. Síðan hefði komið í ljós að þau þyrftu ekki að fara á sendibifreiðinni þar sem bifreið þeirra var með dráttarkúlu og þau hefðu getað dregið kerruna með hjólinu á henni. Hún sagði að meðákærði X hefði tjáð þeim að brotaþoli hefði hringt í hann um nóttina og verið þvoglumælt, en X hefði ekki skilið alveg tilganginn með símtalinu þar sem hann þekkti hana ekki. Hún hefði tjáð honum að hún hefði fólk á bak við sig og spurt hvort hann ætlaði að skipta sér af stríði hennar við ákærðu Andreu. Þá hefði X sent meðákærða Óttari sms-skilaboð og spurt hvort hann gæti ekki tekið síma ákærðu af brotaþola.
Útprentun af sms-skilaboðum á skjali merktu IV-1-6, bls. 3, var borin undir ákærðu. Sagði ákærða að X hefði haldið að brotaþoli væri að hóta sér og fjölskyldu sinni, þ.e. konu og börnum. Sagðist ákærða ekki geta svarað því hvort meðákærði X hefði átt við hana sjálfa.
Aðspurð sagði ákærða að árásin á brotaþola hefði ekki verið skipulögð. Undir ákærðu var þá borin útprentun af sms-skilaboðum frá henni til meðákærða Elíasar frá 19. desember sl. þar sem segir: „Ég ætla að fokking að rústa þessari A tussu. Heldurðu að tíkin sé ekki farin að hringja í Nonna og fokking ljúga upp á mig!“ Sagði ákærða að þetta hefði verið skrifað í geðshræringu, en hún sagðist hafa sent þetta eftir að brotaþoli hefði verið búin að ljúga upp á hana framhjáhaldi og haft samband við manninn hennar og sýnt honum þessar myndir. Sagði ákærða að engin meining hefði verið á bak við þetta. Ákærðu var þá bent á að síðar um kvöldið hefði hún aftur sent sms-skilaboð til Elíasar þar sem segir: „Hringir í manninn minn og fokking drullar yfir mig.“ Sagðist ákærða einnig kannast við þessi skilaboð, en þetta hefði verið sent í reiðikasti. Ákærða sagði að meðákærði Jón hefði farið frá henni út af þessu, en komið heim aftur tveimur dögum síðar eða 21. desember um fimmleytið.
Ákærða kannaðist við að hafa sent Jóni sms-skilaboð að kvöldi 20. desember þar sem segir: „Það fokkar enginn í minni fjölskyldu. Ég ákvað að setja mig frekar í hergírinn heldur en sjálfsvorkunnar- og vælugír. Ég vona að þú skiljir mig, ég er búin að fá nóg.“ Hún sagðist einnig kannast við að Jón hefði sent henni eftirfarandi svarskilaboð: „Sama hér.“ Ákærða kvaðst hafa verið að tala um brotaþola í sínu skeyti og með fjölskyldu hefði hún átt við sig og manninn sinn. Sagði að þarna hefði brotaþoli verið búin að hóta því að setja mjög persónulegar myndir af henni á netið og ljúga til um framhjáhald hennar.
Þá kannaðist ákærða við að hafa sent E Nova sms-skilaboð að kvöldi 21. desember klukkan 00.47 þar sem segir: „Elli er batteríslaus þannig að hringdu bara í þennan síma. Dótið hennar er allt hér ennþá. Ég vil ekki sjá þetta fokking drasl hingað, en ég verð að fá símann minn. Hún er á svaka keyrslu núna og þykist vera búin að tala við X og þykist vera að fara að hitta þig og F, hehehe kíktu endilega sem fyrst vinur.“ Ákærða sagði að um væri að ræða E og F væri F. Þá sagðist ákærða hafa verið að tala um brotaþola og dótið hennar í skilaboðunum Með X væri átt við meðákærða X og Elli væri meðákærði Elías. Ákærða sagði að brotaþoli hefði sagt henni þetta sjálf, þ.e. að hún ætti fund með X.
Ákærða sagðist hafa farið heim til meðákærða X á miðvikudagskvöldinu, þ.e. fyrr um kvöldið, og sagðist hún hafa setið hjá honum og spjallað á meðan hún beið eftir Jóni, sem hefði verið þarna í nágrenninu. Sagðist ákærða þarna hafa séð X senda Óttari sms-skilaboð um að taka símann af brotaþola.
Ákærða sagði að þegar þau hefðu komið heim til meðákærða X síðar um kvöldið til að ná í sendibifreiðina minnti sig að X hefði sagt að Y væri vakandi inni í [...] ef þau lentu í einhverju veseni með bílana. Þau hefðu því haldið að hann væri heima vakandi að fá sér bjór og því hefðu þau farið heim til hans. Aðspurð kvaðst ákærða ekki hafa orðið vör við að X hringdi í Y á meðan þau stoppuðu við á heimili X, enda sagðist ákærða hafa verið inni í stofunni og talað við konuna hans X. Ákærða sagðist hins vegar hafa heyrt X segja þeim að Y væri vakandi inni í [...] ef þau væru að fara þangað.
Tengingar á milli síma ákærðu og meðákærða X frá 21. 22. desember sl. voru nú bornar undir ákærðu. Sagði ákærða að þessi símtöl hefðu eitthvað tengst afmælisgjöf til konu X og hvort hann yrði heima á meðan Nonni væri á fundi. Símtöl eftir miðnætti 22. desember hefðu tengst því að fá lánaða bifreið hjá X og hvert þau gætu farið með hjólið því strákurinn á verkstæðinu hefði verið farinn heim. Ákærða neitaði því að í þessum símtölum hefðu þau verið að skipuleggja árásina.
Undir ákærðu voru nú borin sms-skilaboð úr síma ákærðu að kvöldi 21. desember til þriggja aðila, svohljóðandi: „Veiðileyfi á A var gefið út á A fyrir skömmu. Kvikindið hótaði fjölskyldu minni, reyndi að kúga X, drullaði yfir G og H blandast í umræðuna líka. Endilega láttu það berast, gæskan.“ Sagðist ákærða kannast við þessi skilaboð og sagðist hún hafa verið að láta fólk vita að brotaþoli væri ekki lengur heima hjá henni og að brotaþoli hefði stolið af henni og svikið hana. Kvaðst ákærða hafa sent þetta til I, J og K, en ákærða sagði að þetta væri djammlið, sem hún þekkti. Kvaðst ákærða hafa heyrt þetta orðalag hjá gömlum vini brotaþola, sem hún hefði hitt í heimahúsi fyrr um daginn, þ.e. hann hefði talað um „open season“ á A og sagði ákærða að sér hefði fundist þetta sniðugt og ákveðið að nota þetta orðalag. Ákærða sagði að þetta hefði ekkert með það að gera að hún væri að skipuleggja árás á brotaþola.
Eftirfarandi færslur á Facebook 21. desember voru nú bornar undir ákærðu: Andrea: „Kallinn kominn heim. Nú er það full on revenge! Nú er hún að væla í E, vill hitta okkur á eftir og leysa þetta í góðu, hahaha, dumb bitch.“ Óttar svarar: „Hún er með aðrar yfirlýsingar hér. Hún er heima.“ Andrea: „Hvað er hún að segja. X ætlar að koma með að hitta hana, væntanlega en hún á ekki að vita af því.“ Óttar: Ég bjalla í þig á eftir. Hvað ertu annars að gera?“ Andrea: „Nonnsi er í baði og ég er að fara að skutla honum á fund og fer svo inn í fjörð í þetta. Er hún bara ein þarna hjá þér?“ Óttar: „Yes, hvenær á þetta að gerast ?.“ Andrea: „Nonni var að banna mér að hitta hana án hans. Hann vill vera með. Elska þennan kall minn sko. Þannig að eftir fund.“ Ákærða var beðin um að skýra þetta. Sagði hún að þetta hefði bara verið eitthvert töffaratal í sér. Sagðist hún hafa verið hætt að treysta meðákærða Óttari og sagðist hafa verið að vona að hann myndi leka þessu í brotaþola, sem myndi leiða til þess að brotaþoli yrði hrædd og myndi skila henni aftur dótinu. Með ummælunum „að fara í þetta“ sagðist ákærða hafa átt við að til hefði staðið að ná í dót Óttars. Ákærðu var þá bent á að samkvæmt þessum ummælum hefði ekki átt að leysa þetta í góðu og sagði ákærða þá að aldrei hefði staðið til að meiða brotaþola.
Ákærða sagði að meðákærði Óttar hefði farið á undan henni og meðákærðu Jóni og Elíasi upp í íbúð brotaþola, en ákærða sagði að Óttar hefði farið inn til að ná í dótið sitt. Ákærða var þá spurð að því af hverju þau hefðu ekki farið öll saman upp í íbúðina og sagði ákærða að þau hefðu aðeins farið einni til tveimur mínútum á eftir Óttari upp í íbúðina. Sagðist ákærða hafa farið í íbúðina til að ná í símann sinn. Aðspurð neitaði ákærða því að þetta hefði tengst því að þau ætluðu að koma brotaþola að óvörum. Ákærða var þá spurð að því af hverju Jón og Elías hefðu farið með henni upp í íbúðina í ljósi þess að hún ætlaði bara að ná í símann sinn. Sagði ákærða þá að Jón hefði viljað fara með henni til að sýna brotaþola að hún hefði ekki náð að eyðileggja neitt á milli þeirra. Elías hefði bara farið með þeim af því að hann hefði verið heima hjá þeim.
Aðspurð um klúbbinn Torpedo Crew sagði ákærða að hann hefði verið lélegur brandari eða skopstæling á Hells Angels og öðrum mótorhjólaklúbbum. Hún sagði að strákarnir, sem hefðu verið með henni í klúbbnum, hefðu kosið hana sem forseta klúbbsins. Þeim hefði fundist það fyndið því konur gætu ekki verið forsetar í svona mótorhjólaklúbbum. Þau hefðu látið útbúa merki og djammað saman þrjár helgar og síðan hefði þetta bara dáið út því engum öðrum hefði þótt þetta fyndið. Með henni í klúbbnum hefðu verið L, M, N og meðákærði Elías. Engin af þeim hefði átt mótorhjól og klúbburinn hefði ekki átt neitt klúbbhús. Undanfari Torpedo Crew hefði verið klúbbur, sem kallaður hefði verið „MC Fells Angels“, en hann hefði verið stofnaður af nokkrum strákum í Breiðholtinu, sem ákærða sagðist þekkja.
Ljósmynd af ákærðu í vesti með merkingunni „known associates“, á skjali merktu II, 9-1, bls. 2 og 3, var nú borin undir ákærðu. Sagðist ákærða hafa pantað þetta merki á netinu, en slík merki væri hægt að kaupa á mörgum sölusíðum. Hún sagði að þessi merki hefðu ekki tengst Hells Angels og sagði ákærða að engin eiginleg tengsl hefðu verið á milli Torpedo Crew og Hells Angels. Um sama vinahópinn hefði hins vegar verið að ræða.
Ljósmynd á skjali merktu II-3-2, sem tekin var á heimili ákærðu, af merki þar sem stendur „Support your local Hells Angels Iceland“ var nú borin undir ákærðu. Sagði ákærða þá að um væri að ræða límmiða sem til væru á hennar heimili og hægt væri að panta á netinu. Aðspurð sagðist ákærða ekki vita hvernig samtök Hells Angels væru, en ákærða sagðist ekki vera meðlimur í þeim. Sagðist hún ekki stunda fundi hjá þeim og ekki mega koma í klúbbhúsið nema í fylgd mannsins síns. Sagðist hún ekki vita til þess að meðlimir í Hells Angels eða öðrum mótorhjólasamtökum hefðu atvinnu af brotastarfsemi og sagðist sjálf ekki hafa komið að slíkri starfsemi.
Skráning í fundargerðabók Hells Angels frá 18. febrúar 2010, bls. 7, var nú borin undir ákærðu, en þar er ritað: „Torpedo komu ekki. Lagt var til að merkin væru tekin til baka,“ Sagði ákærða að um hefði verið að ræða merki, sem áðurgreindir Breiðhyltingar hefðu verið búnir að láta búa til fyrir sig. Hún sagði að X hefði spurt sig hvort hún gæti talað við þá því hún þekkti þá. Sagðist ákærða ekki geta skýrt bókunina í fundargerðabókinni að öðru leyti.
Eftirfarandi bókun í sömu fundargerðabók 25. mars 2010, bls. 13, var nú borin undir ákærðu: „Torpedos. X setti Andreu þar inn og það verður fylgst vel með hvernig það þróast með merki og fleira. Þetta er opið fyrir stelpur og stráka.“ Ákærða var innt eftir skýringum á þessu í ljósi þess að hún hefði áður sagt að engin tengsl hefðu verið á milli Torpedo Crew og Hells Angels. Sagði ákærða að um hefði verið að ræða áðurgreindan vinahóp úr Breiðholtinu, þ.e. svonefnt Fellagengi. Sagði ákærða að um hefði verið að ræða vinargreiða hjá X því hún hefði þekkt þessa stráka. Ekkert meira en það.
Eftirfarandi bókun í áðurgreindri fundargerðabók 25. nóvember 2010, bls. 44: Andrea er velkomin í húsið í partí eða veislur með manninum sínum.“ Sagði ákærða að um væri að ræða meðákærða Jón. Hún sagði að Jón mætti hjá Hells Angels vegna þess að hann væri í S.O.D., sem væri mótorhjólaklúbbur. Hún sagðist ekki vita hvort S.O.D. væri stuðningsklúbbur Hells Angels.
Ákærða kvaðst hafa neitað öllum sakargiftum í skýrslu sinni hjá lögreglu 22. desember sl. því hún hefði verið hrædd við það sem hún hafði gert og hvernig hún ætti að taka á því. Hún sagði að þetta hefði aldrei átt að ganga svona langt og aldrei hefði staðið til að meiða brotaþola eða skera hana.
Ákærða sagðist hafa kynnst brotaþola mjög ungri og sagði að brotaþoli hefði alltaf verið eins og litla systir hennar. Hún sagði að brotaþoli hefði alltaf átt í basli með fíkniefnaneyslu sína. Hún sagði að brotaþoli hefði flutt inn til hennar eftir að hafa átt í hörðum deilum við fyrrverandi sambýlismann sinn. Ákærða sagði að á meðan brotaþoli hefði verið hjá henni hefði dóttir hennar verið tekin í neyðarvistun vegna neyslu brotaþola. Hún sagði að brotaþoli hefði stolið símanum heima hjá henni þegar hún henti brotaþola út, en á símanum hefðu verið nektarmyndir af ákærðu. Þá hefði brotaþoli hótað að kæra hana til barnaverndaryfirvalda vegna vanrækslu á börnunum. Aðspurð um bakland brotaþola sagði ákærða að hún þekkti D og O, en þeir gætu beitt ofbeldi. Ákærða sagði að brotaþoli hefði fengið að geyma hjá henni ýmislegt dót á meðan hún var í Los Angeles.
Ákærða sagði að þau meðákærði Jón hefðu verið saman í fimm til sex ár og búið saman af og til á þeim tíma. Þau hefðu hætt saman í tvo daga skömmu fyrir atvik málsins og sagði ákærða að sér hefði liðið mjög illa yfir því, þ.e. að vera að missa manninn sinn og einnig vegna myndanna í símanum.
Ákærða sagðist hafa kynnst meðákærða Elíasi fyrir nokkrum árum, en sagðist fyrst hafa kynnst honum almennilega í meðferð á Vogi síðastliðið haust. Ákærða viðurkenndi að hafa tekið inn amfetamín eða ritalín áður en hún fór heim til brotaþola umrætt kvöld. Hún sagðist ekki hafa beðið Elías um að koma með þeim Jóni, en sagðist halda að hann hefði bara komið með af því að hann hafði verið hjá henni dagana á undan og hlustað á hana grenja á meðan Jón var í burtu. Aðspurð sagði hún að Elías hefði verið með húfu, en sagðist ekki hafa tekið eftir því hvort hann var með vettlinga. Þá sagðist hún ekki hafa séð hann hylja andlit sitt. Hún neitaði því að hafa séð Elías beita ofbeldi í umrætt sinn. Mynd af leðurkylfu, II-6-4-1, bls. 2, var borin undir ákærðu og sagðist hún ekki hafa séð þessa leðurkylfu á vettvangi og sagðist hún ekki hafa séð meðákærða Elías með hana.
Ákærðu var bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu 27. desember sl. hefði hún ekki kannast við að nokkur hefði verið með grímu á vettvangi. Í skýrslu sinni hjá lögreglu 29. sama mánaðar hefði henni hins vegar verið gefinn kostur á því að greina frá því hver hinn þriðji árásarmaður var sem klæddur var grímu og hefði hún svarað því svo til að það hefði verið Elli. Sagði ákærða þá að lögregla hefði verið búin að sýna henni mynd af lambhúshettu, sem hún taldi að Elías hefði verið með. Hún sagðist ekki hafa séð Elías hylja andlit sitt. Ákærðu var bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu 29. desember sl. hefði hún sagt að hún héldi að Elías hefði slegið brotaþola. Sagðist ákærða þá ekki vera viss. Þá var henni bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu hefði hún borið um það að hafa kýlt brotaþola þrisvar. Sagðist ákærða samt sem áður halda að það hefði ekki gerst oftar en tvisvar.
Ákærða sagði að Óttar hefði ekki haft neitt hlutverk í árásinni og hann hefði ekki vitað hvað til stóð. Hann hefði aðeins ætlað að sækja töskurnar sínar. Hún sagði að Óttar hefði verið talsvert ölvaður þegar þau sóttu hann í partíið. Hún sagðist hafa verið hætt að treysta Óttari og talið að hann stæði með A. Bæði hefði hún verið búin að biðja hann margsinnis um að taka símann af A áður en myndirnar birtust á netinu og þá hefði hún frétt af því að Óttar hefði verið niðri á verkstæði þegar brotaþoli sótti hjólið. Ákærða kvaðst aðspurð hafa verið búin að vera í samskiptum við Óttar fyrr um daginn og sagðist m.a. hafa skutlað honum á veitingastaðinn Hressó.
Ákærða sagði að aldrei hefði komið til tals að meðákærði X kæmi með þeim til brotaþola. Hún sagði að X hefði ekki vitað af hugsanlegu ofbeldi og neitaði hún því að þau hefðu þurft leyfi hjá honum til að beita ofbeldi. Aðspurð um erindi þeirra heim til meðákærða Y sagði ákærða að Y væri bílakall og þau hefðu bara ætlað að kíkja til hans með bjór þar sem þau hefðu ekki vitað betur en að hann væri vakandi. Hún sagði að Y hefði sennilega ekki átt von á þeim og konan hans hefði ekki verið ánægð að sjá þau. Sms-skilaboð á skjali merktu IV-6-1-1 voru borin undir ákærðu og sagðist hún sennilega hafa verið að biðjast afsökunar á einhverju sem hún sagði við konu Y. Ákærða sagði að meðákærði Elías hefði orðið eftir hjá Y, en hann hefði ekki farið með þeim Jóni að ná í Óttar.
Ákærðu voru nú sýndar ljósmyndir af vettvangi á skjali merktu II-1-2, bls. 40-41. Sagði ákærða að þau hefðu ekki skilið við brotaþola á þann hátt sem sjá mætti á myndunum. Hún sagði að brotaþoli hefði setið á gólfinu fyrir framan borðstofuborðið og verið með meðvitund. Sagðist ákærða ekki geta skýrt það af hverju brotaþoli hefði verið með skerta meðvitund þegar lögregla kom á staðinn. Þá sagði ákærða að búið væri að færa til húsgögn í stofunni, t.d. sófann. Jafnframt sagðist ákærða ekki hafa séð svona mikið blóð á vettvangi eins og sjá mætti á myndunum. Taldi ákærða að blætt hefði úr hendinni á brotaþola því hún hefði borið höndina fyrir sig þegar hún skar úr henni hárlengingarnar.
Ákærða gaf skýrslu hjá lögreglu 22., 27. og 29.desember 2011 og 3., 6. og 11. janúar 2012.
Ákærði X neitaði sök og kvaðst enga aðkomu hafa átt að þessu máli. Hann sagði að 20. desember sl. hefði brotaþoli hringt í hann seint að kvöldi og spurt hann út í meðákærðu Andreu og hefði hún beðið hann um að leysa ágreiningsmál þeirra vegna einhvers síma og gagna sem á honum væru. Ákærði kvaðst í fyrstu ekki hafa áttað sig á því hver brotaþoli var, en brotaþoli hefði tjáð honum að hún væri fyrrverandi kona D, sem ákærði sagðist kannast við. Kvaðst ákærði hafa beðið brotaþola um að hringja ekki aftur og tjáð henni að hann vildi ekkert skipta sér af þessu. Sagðist hann hafa beðið hana vinsamlegast um að láta sig og fjölskyldu sína í friði, en ákærði sagði að honum hefði fundist vera ófriður af þessu gagnvart fjölskyldu sinni. Sagðist ákærði síðan hafa lagt á.
Um kvöldmatarleytið daginn eftir hefði meðákærða Andrea komið til hans á meðan Jón var á fundi og tjáð honum að þetta mál væri enn í gangi. Kvaðst ákærði þá hafa hringt í O, fyrrverandi kærasta brotaþola, og tjáð honum að ef hann næði í brotaþola mætti hann taka símann hjá brotaþola og skila honum til meðákærðu Andreu því þetta væri farið að trufla hans persónulega líf. Hefði O ætlað að gera það.
Ákærði sagði að Andrea hefði síðan hringt í hann síðar um kvöldið og tjáð honum að búið væri að stela hjólinu hennar og óskað eftir aðstoð, þ.e. hún hefði beðið um að fá lánaðan bíl hjá honum til að sækja mótorhjólið. Meðákærðu Andrea, Jón og Elías hefðu síðan komið til hans seint um kvöldið til að fá bílinn lánaðan, en þá hefði Óttar hringt og tjáð þeim að hjólið væri á kerru. Þau hefðu því ekki þurft á bílnum hans að halda. Þá kvaðst ákærði hafa ráðlagt þeim að ná í hjólið því það hefði hann sjálfur gert ef hann stæði í þeirra sporum. Aðspurður af sækjanda kvað hann ekki hafa komið til tals að leita aðstoðar lögreglu vegna málsins. Ákærði sagðist halda að meðákærðu hefðu á þessum tímapunkti verið að mestu leyti búin að gleyma símanum og aðalatriðið hefði verið að ná í hjólið. Sagðist ákærði hafa lánað meðákærða Jóni lykil að bílskúr í hans eigu, þ.e. fjarstýringu, og ef hjólið kæmi í leitirnar hefði verið ætlunin að setja hjólið þar inn. Þá sagðist ákærði hafa hringt í meðákærða Y og beðið hann endilega um að svara meðákærða Jóni ef hann hringdi í hann. Ákærði sagði að meðákærði Y væri snillingur þegar að bílum kæmi og væri einnig einstaklega hjálpsamur. Með það hefðu meðákærðu farið og kvaðst ákærði síðan ekkert hafa vitað af málinu fyrr en daginn eftir þegar hann hefði lesið fréttir í blöðum um að ráðist hefði verið á konu í [...] í [...] og að par hefði verið handtekið. Vegna staðsetningar og tímasetningar árásarinnar sagðist ákærði hafa velt því fyrir sér hvort fréttirnar tengdust meðákærðu, en hann sagðist þó ekki hafa viljað trúa því. Kvaðst hann hafa hringt í meðákærðu Jón, Elías og Óttar, bæði til þess að fá bílskúrslykilinn til baka, en ákærði sagðist hafa átt von á mótorhjóli síðar um daginn og þurft á honum að halda, en einnig til þess að komast að því hvort meðákærðu tengdust fréttunum af líkamsárásinni. Hann sagði að sig minnti að Óttar hefði verið sá eini sem svaraði í símann og að hann hefði tjáð honum að búið væri að handtaka meðákærðu. Ákærði kvaðst hafa farið í vinnuna umræddan morgun, komið við í bókabúð og síðan heima hjá móður sinni, en þar hefði verið hringt í hann og hann fengið staðfestingu á því að meðákærðu Andrea, Jón og Elías hefðu verið handtekin vegna áðurgreindrar líkamsárásar.
Ákærði sagði að brotaþoli hefði ekki hótað honum, en hins vegar hefði verið ónæði af símtölum hennar og honum hefði fundist vera ófriður af þeim gagnvart fjölskyldu hans, þ.e. konu og barni. Sagði ákærða að sér hefði fundist óþægilegt að hún væri að hringja í hann um miðjar nætur og sagðist hann hafa sagt henni það. Hann kannaðist ekki við að hafa sagt við brotaþola að hún mætti ekki ógna fjölskyldu hans og þá sagðist hann ekki kannast við að E hefði ráðlagt brotaþola að ræða við ákærða. Ákærði sagðist þó halda að brotaþoli hefði haft samband við hann vegna þess að einhver hefði bent henni á að tala við hann þar sem hann þekkti Andreu. Ákærði kannaðist ekki við að hafa hótað brotaþola fyrir árásina að félagar í Hells Angels myndu valda henni líkamsskaða.
Símagögn lögreglu voru nú borin undir ákærða. Sagðist ákærði ekki vefengja símagögn lögreglu, en benti þó á að það vantaði fyrstu hringinguna frá brotaþola, en hún hefði fyrst hringt í hann 20. desember. Í símtali um miðnætti 22. desember sagðist ákærði hafa sagt við brotaþola að það væri rangt að halda þessum viðkvæmu myndum frá Andreu og hóta því að setja þær á netið. Hefðu þau brotaþoli sammælst um það að hún kæmi til hans á tattústofuna upp úr hádegi daginn eftir, þ.e. 22. desember, og skilaði símanum. Sagði ákærði að þetta hlyti að hafa átt sér stað áður en hann frétti af því að mótorhjólinu hefði verið stolið. Hann sagði að Andrea hefði síðan hringt í hann og tjáð honum að brotaþoli hefði stolið mótorhjólinu hennar og hefðu meðákærðu síðan komið til hans til að fá lánaðan bílinn.
Ákærði sagðist kannast við símtöl sín við meðákærðu Andreu frá klukkan 14:07 hinn 21. desember sl. og fram á aðfaranótt 22. desember og við brotaþola í kringum miðnætti og sagði ákærði að þau hljóti að hafa átt sér stað fyrst þau kæmu fram í gögnunum. Sagðist hann halda að þessi símtöl hefðu snúist um títtnefndan síma. Sagðist hann muna eftir að meðákærða Andrea hefði tjáð honum einhvern tímann síðar um kvöldið að hjólinu hefði verið stolið, en hann sagðist ekki muna tímasetninguna. Ákærði kannaðist við það að meðákærðu hefðu verið stödd heima hjá honum klukkan 01:53 aðfaranótt 22. desember sl. Í símtalinu við Y klukkan 01:54 þessa sömu nótt hefði hann beðið Y um að svara meðákærða Jóni ef hann skyldi hringja í hann og hefði Y strax sagt að það væri ekkert mál. Hann hefði þó verið svolítið fúll að þurfa að vaka eftir þessu. Sagðist ákærði hafa vitað að Y myndi ekki svara Jóni nema hann bæði hann um það, en ákærði sagðist ekki hafa nennt út í [...] til að hjálpa Jóni með hjólið. Nánar aðspurður sagði ákærði að ýmislegt hefði getað komið upp á, t.d. að lykilinn að hjólinu vantaði, hjólið væri ekki á kerru o.s.frv., en ákærði sagði að Y hefði verið með aðgang að bíl með lyftu. Ákærði kvaðst ekkert kannast við skíðagrímu, jakka og leðurkylfu, sem haldlögð hefðu verið heima hjá Y. Ákærði kvaðst ekki hafa verið að skipuleggja árásina með því að hringja í Y og biðja hann um að taka á móti þessum hlutum. Hann sagði að ekkert hefði verið rætt um það á meðan meðákærðu stoppuðu við á heimili hans að ráðast ætti á brotaþola og beita hana ofbeldi.
Ákærði kannaðist við að hafa sent sms-skilaboð til Óttars um kvöldið og beðið hann um að sækja símann til brotaþola, en ákærði neitaði að í því hefði komið fram að brotaþoli hefði hótað honum. Ákærði neitaði því að hafa gefið út veiðileyfi á brotaþola og sagðist ekki vita hvað það þýddi. Ákærða var bent á að Andrea hefði sent út sms-skilaboð um klukkan átta að kvöldi 21. desember sl. þar sem fram kæmi eftirfarandi: „Veiðileyfi á A var gefið út fyrir skömmu. Kvikindið hótaði fjölskyldu minni, reyndi að kúga X, drulla yfir G og H blandast inn í umræðuna líka. Endilega láttu þetta berast gæskan.“ Sagðist ákærði ekki kannast við þetta og sagðist ekki vita hvað meðákærða Andrea sendi út í sínum síma. Ákærði sagði að meðákærðu hefðu ekki þurft samþykki frá honum til að gera nokkurn skapaðan hlut.
Ákærða var bent á að í samskiptum Andreu og Óttars á Facebook umrætt kvöld hefði komið fram að hún væri að fara til brotaþola út í [...] og að X ætlaði væntanlega að koma með en hún ætti ekki að vita af því. Kvaðst ákærði ekki kannast við það að til tals hefði komið á milli hans og Andreu að hann kæmi með þeim út í [...]. Ákærði sagðist hafa lent í því reglulega undanfarin tvö til þrjú ár að vinir hans og kunningjar misnotuðu nafn hans ef viðkomandi vildu leggja áherslu á orð sín. Kvaðst hann halda að Andrea hefði í þessu tilviki viljað leggja áherslu á orð sín með því að bendla hann við málið. Sagði hann að þetta gæti tengst því að hann hefði starfað sem dyravörður, æft júdó og væri stór og sterkur strákur. Þetta þyrfti ekki að tengjast því að hann hefði verið í Hells Angels.
Ákærði neitaði því að hafa skipulagt eða lagt á ráðin um árásina á brotaþola. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað að til stæði að ráðast á brotaþola, beita hana ofbeldi og fremja kynferðisbrot. Sagðist ákærði fordæma kynferðisbrot. Hann sagði að dóttir sín hefði verið misnotuð kynferðislega þegar hún var 14 ára gömul og sagðist ákærði í kjölfarið hafa ráðist á gerandann og hlotið dóm fyrir.
Aðspurður um starfsemi Hells Angels sagðist ákærði ekki lengur vera meðlimur í Hells Angels og kvaðst kjósa að tjá sig ekki um samtökin. Sagði ákærði að Hells Angels kæmu þessu máli ekki við og kvaðst hann ekki svara spurningum sækjanda um Hells Angels. Aðspurður af verjanda ákærða Elíasar sagði ákærði að tilgangur samtaka Hells Angels á Íslandi væri að eiga og keyra um á Harley Davidson mótorhjólum, en tilgangur samtakanna væri ekki skipulögð glæpastarfsemi. Ákærði sagði að Torpedo Crew væri ekki til og hefði ekki verið til í rúmlega tvö ár. Þetta hefði átt að vera klúbbur mótorhjólafólks en ekkert hefði orðið úr því. Hann sagði að Andrea hefði verið í Torpedo Crew fyrir hans vinskap og fleiri, en ákærði sagði að Andrea væri mótorhjólakona og hefði hjólað mikið með honum og fleirum. Hann sagði að S.O.D. væri mótorhjólaklúbbur, en vildi ekki svara því hvort hann væri stuðningsklúbbur Hells Angels. Ákærði sagðist eiga mótorhjól, en sagði að það væri skráð á konuna sína.
Ákærði sagðist ekki vita til þess að meðákærðu Andrea og Jón væru í skipulögðum glæpasamtökum eða að þau stunduðu skipulagða glæpastarfsemi. Kvaðst hann hafa þekkt Jón í 10 ár og staðfesti að hann væri í S.O.D. Ákærði sagði að meðákærði Elías væri kunningi hans í mótorhjólabransanum og vinur margra kunningja hans. Hann sagði að Elías væri ekki meðlimur í mótorhjólasamtökum. Ákærði sagðist hafa þekkt meðákærða Óttar í 10-15 ár og sagðist ekki vita til þess að hann tæki þátt í skipulagðri glæpastarfsemi. Hann sagði að Óttar væri ekki meðlimur í Hells Angels, en hann hefði verið meðlimur í S.O.D., en hætt haustið 2011. Ákærði sagði að meðákærði Y væri laginn við bíla og mótorhjól og væri einnig einstaklega hjálpsamur og greiðvikinn þegar eitthvað kæmi upp á. Sagði ákærði að nóg væri að hringja í Y ef eitthvað bilaði og þá reddaði hann hlutunum, hvort sem það væri að nóttu eða degi. Hann sagði að alvanalegt hefði verið að þeir hefðu samband sín á milli að nóttu til.
Ákærði sagðist vera í sambúð og sagði að hann og kona hans ættu þriggja ára son saman, en fyrir ætti hann 19 ára dóttur. Sagðist ákærði vera járnsmiður, vélstjóri og rafsuðumaður að mennt og kvaðst lengst af hafa starfað sem slíkur, en kvaðst undanfarin tvö ár hafa starfað sem umsjónarmaður fasteigna í [...], sem væri eins konar geymsluskúraþyrping.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 13. og 17. janúar 2012. Í fyrri skýrslutökunni skýrði ákærði frá í öllum meginatriðum á sama veg og hér fyrir dómi, en í seinni skýrslutökunni kaus ákærði að tjá sig ekki um sakargiftir.
Ákærði Elías neitaði sök. Hann kvaðst hafa verið heima hjá meðákærðu Andreu á meðan meðákærði Jón var að heiman. Hann sagði að Andrea hefði verið alveg niðurbrotin vegna þess að brotaþoli hefði verið að ganga af sambandi hennar og Jóns dauðu. Hann sagði að Andrea væri ein af sínum bestu vinkonum og það hefði farið illa í hann að horfa upp á þetta. Kvaðst ákærði hafa gist heima hjá Andreu og passað hana meðan á þessu stóð því hún hefði verið hrædd um að einhver á vegum brotaþola kæmi til hennar og gengi í skrokk á henni. Hann sagði að Jón hefði síðan komið aftur heim til Andreu umrætt kvöld og þá hefði verið ákveðið að fara til brotaþola og fá skýringar á því hvað væri í gangi. Hann sagði að brotaþoli hefði verið búin að hóta Andreu því að kæra hana til barnaverndarnefndar og jafnframt hótað því að setja persónulegar myndir af Andreu úr síma hennar á netið. Hefði því verið ákveðið að fara og tala við brotaþola og fá málin á hreint. Sagði ákærði að meðákærðu Andrea og Jón hefðu beðið hann um að koma með sér og sagðist hann hafa ákveðið að fara með þeim til að vera þeim til stuðnings. Aðspurður sagðist ákærði kannast við að talað hefði verið um að brotaþoli hefði stolið einhverju mótorhjóli, en hann sagðist ekkert hafa verið að skipta sér af því.
Ákærði sagði að þau hefðu síðan lagt af stað heim til brotaþola, en á leiðinni hefðu þau komið við einhvers staðar, en hann sagðist ekki vita hvar, því hann hefði verið úti í bíl á meðan. Hann neitaði því að hafa komið inn á heimili meðákærða X og sagðist ekki vita af hverju meðákærðu komu við heima hjá honum. Ákærði sagðist ekki hafa verið í góðu ástandi á þessum tíma, en hann hefði verið fallinn eftir hafa verið edrú í nokkurn tíma. Sagðist ákærði hafa verið undir áhrifum rivotril og smávegis kókaíns umrætt kvöld. Aðspurður sagði ákærði að ekki hefði verið talað um að leggja hendur á brotaþola, heldur hefði verið talað um að útkljá málið með því að tala saman. Ákærði neitaði því að þau hefðu tekið meðákærða Óttar upp í bílinn áður en þau fóru til brotaþola.
Ákærði sagði að þau hefðu síðan komið að heimili brotaþola og þar hefðu þau, þ.e. hann, Andrea og Jón, farið inn í húsið og upp í íbúð brotaþola. Hann sagði að dyrnar á stigaganginum hefðu verið ólæstar og þá hefði íbúðin verið ólæst. Sagði ákærði að sig minnti að Andrea hefði bankað, en sagðist ekki muna hvort einhver opnaði dyrnar. Þau hefðu síðan farið inn í íbúðina og byrjað að tala saman og orðið æst. Sagðist ákærði hafa tekið brotaþola og ýtt henni niður í gólfið. Þá sagðist ákærði hafa verið með litla leðurpyngju og sagðist hann hafa veitt brotaþola eitt högg í lærið með leðurkylfunni, en ákærði sagðist sjálfur hafa verið búinn að prófa að slá sjálfan sig með pyngjunni og kæmi miklu minna högg af henni en hnefahöggi. Á meðan hefðu meðákærðu staðið fyrir aftan hann og talað við brotaþola. Að svo búnu sagðist ákærði hafa sett brotaþola niður á gólfið og síðan fært sig frá og farið inn í herbergi til Óttars til að fylgjast með honum taka saman fötin sín og pakka í töskur. Sagðist ákærði hafa staðið fyrir framan herbergið og snúið sér frá brotaþola og því ekki séð hvað Andrea og Jón gerðu á meðan. Sagðist ákærði ekki hafa séð þau gera neitt. Skömmu síðar hefðu þau yfirgefið íbúðina og sagðist ákærði hafa horft inn í íbúðina áður en hann fór og séð að brotaþoli var með meðvitund. Sagðist ákærði sjá eftir því sem hann gerði, þótt það hefði ekki verið mikið. Hann sagði að ekki hefði verið talað um það fyrirfram að meiða brotaþola, heldur hefði þetta bara gerst og farið úr böndunum. Aðspurður sagði hann að Óttar hefði ekki haft neitt hlutverk í árásinni. Hann sagði að vel gæti verið að Óttar hefði kíkt fram á meðan hann var að pakka.
Aðspurður sagði ákærði að B hefði verið í stofunni þegar þau komu. Hann hefði verið þar í smátíma, en síðan hefði hann smokrað sér út. Hann sagði að ekki væri rétt að þau hefðu rekið hann út.
Aðspurður sagðist ákærði hafa verið í hermannabuxum, með hanska og skíðagrímu og sagðist ákærði hafa hulið andlit sitt. Þegar ákærði var inntur eftir skýringu á því að hann hefði hulið andlit sitt sagðist hann hafa verið í geðshræringu og verið á staðnum til að styðja vinkonu sína. Hann sagðist hins vegar ekki hafa viljað láta bendla sig við þetta, þ.e. þennan persónulega ágreining og allt þetta vesen. Sagðist hann hafa sett grímuna á sig í bílnum á leiðinni. Þá sagðist ákærði hafa sett á sig hanskana til að fela húðflúrið á höndum sínum og sagðist hann ekki hafa tekið þá af sér á vettvangi. Ákærði sagðist hafa haft leðurkylfuna meðferðis og verið með andlitið hulið því hann hefði ekki vitað nema einhverjir fleiri en brotaþoli væru í íbúðinni, sem hefðu getað ráðist á hann. Aðspurður sagði hann að Óttar hefði ekki verið í bílnum.
Aðspurður kvaðst ákærði hafa bankað í ökklann á brotaþola með höndunum. Hann neitaði því eindregið að hafa sett fingur í leggöng og endaþarm brotaþola og sagði að þetta hefði allt tekið mjög skamman tíma, en þau hefðu stoppað við í íbúðinni í 9-10 mínútur. Ákærða var þá bent á það að hjá lögreglu hefði hann sagt 15-20 mínútur og sagði ákærði að þá hefði hann verið á lyfjum og með brenglað tímaskyn.
Ákærði sagði að brotaþoli hefði verið með meðvitund þegar þau skildu við hana og hefði hún annaðhvort legið eða setið á gólfinu vinstra megin í stofunni þegar inn væri komið. Sagðist hann ekki hafa séð mikið blóð og kvaðst ekki hafa séð hvaðan blæddi, en kvaðst halda að það hefði verið úr fingrinum. Ákærða voru sýndar ljósmyndir af vettvangi og sagði ákærði að brotaþoli hefði ekki verið svona þegar þau skildu við hana. Sagðist ákærði ekki hafa veitt brotaþola þá áverka, sem lýst væri í ákæru. Sagðist ákærði aðeins hafa gert það sem hann hefði játað og áður lýst. Ákærði sagðist ekki vita af hverju blætt hefði úr brotaþola. Hann sagði að rangt væri að sparkað hefði verið ítrekað í höfuð og líkama brotaþola, að henni hefði verið skellt í gólfið eða hún verið dregin á hárinu um íbúðina. Þá væri rangt að hár hennar hefði verið reytt og klippt eða skorið úr því eða það rifið upp með rótum. Einnig væri rangt að skorið hefði verið í fingur hennar og að nögl hennar hefði verið slitin upp. Þá kannaðist ákærði ekki við það að hafa hótað að taka af brotaþola alla fingurna ef hún segði til þeirra eða að hafa neytt upp í hana fíkniefnum. Ákærði sagðist ekki hafa séð fíkniefni á staðnum. Hann kannast ekki við að hafa séð ákærðu Andreu leggja hníf að hálsi brotaþola eða þrengja að öndunarvegi hennar. Ákærði kannaðist við að hafa sagt við brotaþola þegar hann steig til baka að hún hefði ekki átt að vera að fokkast í þessari fjölskyldu og sagðist þá hafa átt við fjölskyldu Andreu og Jóns. Hann neitaði því hins vegar ákveðið að hafa stungið fingrum upp í leggöng og endaþarm brotaþola og að hafa klemmt á milli og sagði að enginn hefði gert neitt í þá veru. Ákærði sagði að honum þætti óendanlega vænt um meðákærðu Jón og Andreu, en hann sagðist aldrei mundu ganga svo langt að lemja stelpu í klessu, skera í fingurinn á henni og stinga fingrum upp í endaþarm og leggöng á henni fyrir þetta.
Ákærði sagði að þau hefðu síðan farið út og sagðist hann aðspurður ekkert hafa tekið með sér af vettvangi og sagðist ekki vita til þess að einhver annar hefði tekið eitthvað með sér. Sagðist ákærði ekki vilja tjá sig um það hvert þau fóru og sagðist ekki treysta sér til þess. Hann kvaðst ekki kannast við að hafa farið á heimili meðákærða Y og kaus að tjá sig ekki um það hvort hann hefði afhent þar leðurpyngjuna, jakka og skíðagrímu. Ákærða voru sýndar ljósmyndir af húfu, kylfu og jakka, sem haldlögð voru á heimili Y, sbr. skjal II-6-4-1, og sagðist ákærði kannast við þessa hluti og sagði að hann hefði verið með þessa muni á vettvangi. Hann neitaði hins vegar að tjá sig frekar um þessa muni og af hverju þeir fundust á heimili Y. Þá kannaðist ákærði við hanska á ljósmynd á skjali merktu II-5-3-6-8 og sagðist hafa verið með þá á vettvangi. Ákærði kannaðist ekki við að hafa sagt við lögreglu að hann væri hræddur um líf sitt.
Aðspurður kvaðst ákærði ekki vera meðlimur í Torpedo Crew og ekki vera meðlimur í neinum mótorhjólasamtökum. Hann sagðist ekki eiga mótorhjól og ekki hafa réttindi til að aka mótorhjóli. Ákærði sagðist þó hafa skemmt sér með fólki í Torpedo Crew. Hann kannaðist ekki við að Andrea hefði verið forseti klúbbsins. Ákærða var sýnd ljósmynd á skjali merktu II-9-1, bls. 3, og sagðist ákærði kannast við sig á myndinni og sagði að þetta hefði verið eitthvert djammrugl. Hann sagði að Torpedo Crew hefði ekki verið í afbrotum heldur hefði aðeins verið um djammklúbb að ræða. Ákærði sagðist þekkja einn til tvo í Hells Angels, en kaus að tjá sig ekki frekar um hverjir það væru. Hann kannaðist ekki við að einhver tengsl hefðu verið á milli Torpedo Crew og Hells Angels. Ákærða var þá bent á að fundargerðabók Hells Angels benti til þess að einhver tengsl hefðu verið þar á milli og sagði ákærði að sér væri ekki kunnugt um það. Hann sagði að Hells Angels væru mótorhjólasamtök og sagðist ekki vita til þess að samtökin tengdust skipulagðri brotastarfsemi.
Borin voru undir ákærða sms-skilaboð frá Andreu til ákærða hinn 19. desember kl. 20.41, sem hefjast á eftirfarandi orðum: „Ég ætla að fokking rústa þessari A tussu “ Sagðist ákærði ekki muna eftir þessum skilaboðum. Sagði ákærði að gloppur væru í minni sínu, en hann sagðist vera misþroska, ofvirkur með athyglisbrest, [...], félagsfælinn og með ofsakvíða. Þá sagðist ákærði hafa sprengt í sér miltað þegar hann var 14 ára og sagðist ákærði vera 75% öryrki vegna þessa.
Ákærði var spurður að því af hverju hann hefði breytt framburði sínum í miðri skýrslutöku hjá lögreglu 30. desember sl. eftir að hlé hafði verið gert á skýrslutökunni. Sagði ákærði að lögreglan hefði verið búin að hamra í honum að meðákærða Andrea væri búin að segja þetta og hitt, m.a. að hann hefði gengið grófast fram í árásinni. Sagðist ákærði þá hafa hugsað með sér að ef Andrea segði þetta hlyti hún að vera í vandræðum. Sagðist ákærðI hafa gefið skýrslu sína 30. desember sl. sína undir þrýstingi frá lögreglunni. Þá sagði ákærði að lögreglan hefði einu sinni reynt að tala við hann án þess að verjandi hans væri viðstaddur. Ákærði sagðist bara hafa sagt eitthvað í skýrslu sinni 30. desember 2011, en hann sagðist ekki hafa viljað að Andrea og Jón lentu í vandræðum. Sagðist ákærði hafa verið undir áhrifum lyfja þegar hann gaf skýrsluna og sagðist hann muna þetta betur nú. Hann sagði að lýsing hans í lögregluskýrslu á átökunum væri ekki rétt, en framburður hans um atvik málsins hér fyrir dómi væri réttur. Hann sagðist ekki vita til þess að meðákærði Jón tæki þátt í skipulagðri brotastarfsemi.
Ákærði var spurður út í ummæli sín í lögregluskýrslu um að hann vildi ekki taka „hit and run“ á fólk út af engu og sagðist ákærði kannast við að hafa sagt þetta, en sagði að þetta væri bara eitthvert rugl í sér. Hann sagði að eins og málið æxlaðist hefði þetta orðið hálfgert „hit and run“. Þau hefðu farið að rífast, hann lagt brotaþola í gólfið og veitt henni áverka á lærið og síðan farið. Ákærði sagði að „hit and run“ merkti að fara á einhvern stað, útkljá mál, ekki endilega með ofbeldi, og fara síðan.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 29. og 30. desember 2011 og 3. og 11. janúar 2012.
Ákærði Y neitaði sök. Hann sagði að ákærðu Jón og Andrea hefðu bankað upp á hjá honum og vakið hann umrædda nótt og sagði ákærði að þau hefðu haft poka meðferðis. Aðspurður sagði ákærði að ákærði Elías hefði ekki verið með þeim. Hann sagði að ákærði X hefði verið búinn að hringja í hann fyrr um nóttina og biðja hann um að svara í símann ef ákærði Jón hringdi því hann væri í einhverju veseni. Sagðist ákærði hafa gert það og haldið að um væri að ræða eitthvert bílavesen. Ákærða var bent á að samkvæmt símagögnum hefði ákærði X hringt í hann klukkan 01:54 þessa nótt og sagði ákærði að það hljóti að vera rétt. Aðspurður sagði ákærði að honum hefði ekki fundist beiðni X óeðlileg, en ákærði sagðist vera flutningabílstjóri og sagðist hann oft hjálpa fólki. Um einni til tveimur klukkustundum eftir að X hringdi í hann hefðu ákærðu Jón og Andrea komið til hans, en ákærði sagði að þau hefðu hringt á undan sér. Hann sagði að þau hefðu þó ekki tilkynnt komu sína í símtalinu. Sagðist ákærði hafa farið til dyra og fyrir utan hefðu staðið Andrea og Jón og hefði annað haldið á poka og hitt á bjórkippu. Hann sagðist ekki hafa viljað fá þau inn á heimilið með áfengi þar sem börn hefðu verið á heimilinu. Ákærði sagði að kærastan hans hefði komið niður og rekið þau í burtu, en ákærði sagðist hafa tekið við pokanum að beiðni ákærðu. Hélt ákærði að hann hefði gáð í pokann daginn eftir og sett leðurpunginn upp á skáp svo að börn kærustu hans næðu ekki í hann. Ákærði sagði að pokinn hefði síðan bara verið áfram í forstofunni. Ákærði sagðist ekki hafa sagt lögreglu frá pokanum í fyrstu því honum hefði ekki fundist hann skipta máli. Í pokanum hefði verið jakki og svört húfa og sagði ákærði að kærasta hans hefði óvart tekið þennan fatnað og hent í þvottavél því hún hefði haldið að þetta væri af strákunum sínum. Sagði ákærði að annar strákurinn ætti svipaðan íþróttajakka, en hann væri að æfa fótbolta. Aðspurður sagði ákærði að synir kærustu hans væru fjögurra og tíu ára gamlir. Sagði ákærði að í ljós hefði komið að ekki var um venjulega húfu að ræða heldur lambhúshettu. Ákærði sagðist ekki hafa tengt þessa hluti við ofbeldisverk og kvaðst einskis hafa spurt. Sagði ákærði að hann hefði alls ekki talið sig vera að hylma yfir með ákærðu með því að taka við pokanum.
Ákærða var bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu 16. janúar sl. hefði hann tjáð lögreglu að hann hefði kíkt í pokann þegar ákærðu voru farin. Sagðist ákærði ekki muna það nákvæmlega nú hvenær hann kíkti í pokann. Hann sagði að enginn hefði orðið eftir heima hjá honum þegar meðákærðu Andrea og Jón fóru.
Þá var ákærða bent á að samkvæmt símagögnunum virtist hann hafa hringt í meðákærða Jón klukkan 01:58 og 02:02 og að það væru einu tengingarnar á milli síma þeirra þar til meðákærðu hefðu komið á heimili hans. Sagðist ákærði þá hafa tjáð meðákærða Jóni að hann væri ekki á bíl og gæti því ekki aðstoðað við neitt.
Ákærði sagði að ekkert óvenjulegt væri við það að meðákærði X hringdi í hann á nóttunni og óskaði eftir aðstoð við eitthvað tengt bílum eða mótorhjólum. Hann sagði að ekkert fleira hefði farið á milli þeirra meðákærða X í símtalinu um nóttina en að framan greinir. Aðspurður sagðist ákærði ekki eiga heima í [...], en hann sagðist hafa verið heima hjá kærustu sinni umrædda nótt, en þar hefði verið hans annað heimili. Hann sagði að þau væru ekki lengur í sambúð.
Ákærði sagðist eiga mótorhjól og vera meðlimur í mótorhjólaklúbbnum Hells Angels, en sagðist ekki gegna neinni stöðu þar. Hann sagði aðspurður að Hells Angels stæði ekki fyrir skipulagðri glæpastarfsemi, heldur væri um að ræða klúbb áhugamanna um mótorhjól. Hann sagði að meðlimir klúbbsins hittust í kaffi á miðvikudagskvöldum og ræddu um mótorhjól. Hann sagði að meðlimir Hells Angels hittu meðlimi í erlendum klúbbum, en það væri ekki ósvipað og gerðist t.d. í Kiwanis. Hann sagðist ekki vilja lýsa þessum samskiptum frekar. Aðspurður sagðist ákærði hafa keypt sína flugmiða sjálfur í þau skipti sem hann hefði farið út til að hitta meðlimi í erlendum klúbbum. Ákærði sagði að tengsl væru á milli Hells Anges og S.O.D., en kvaðst ekki vilja tjá sig frekar um þau. Ákærði sagði að ef menn hegðuðu sér illa eða kæmu illa fram væru þeir teknir fyrir í klúbbnum. Viðkomandi væri þá gefin viðvörun um að vestið yrði tekið af honum. Ákærði neitaði því að menn yrðu að greiða sektir ef þeir hættu í klúbbnum. Þá sagði ákærði að ætlast væri til þess að meðlimir væru sýnilegir í vestum og sýndu þannig að þeir væru stoltir af klúbbnum sínum. Þá staðfesti ákærði að konur gætu ekki verið meðlimir í Hells Angels eða S.O.D. Ákærði kaus að tjá sig ekki um það hvað það merkti að vera „hangaround“ eða „prospectors“. Ákærði staðfesti og að Hells Angels hefði ekki fengið leyfi til að reka húðflúrstofuna „House of pain“ hér á landi, en ákærði sagði að slíkar stofur væru reknar á vegum Hells Angels um allan heim. Ákærði neitaði að tjá sig frekar um starfsemi Hells Angels á Íslandi.
Ákærði sagðist starfa hjá bílaumboði við flutning á bílum. Kvaðst hann hafa próf úr grunndeild bílaiðnaðar og hafa tekið tvær annir í bílamálun. Ákærði sagðist hafa gert við mótorhjól allra strákanna í klúbbnum. Hann sagði að algengt væri að hringt væri í hann ef fólk vantaði aðstoð vegna bíla og mótorhjóla og sagðist hann oft hafa komið að flutningi á bílum og hjólum. Hann sagði að ekki væri óvanalegt að hringt væri í hann um miðjar nætur til að óska eftir aðstoð.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 29. og 30. desember 2011 og 3., 10., 16. og 17. janúar 2012.
Ákærði Jón neitaði sök. Hann kvaðst hafa farið heim til brotaþola umrætt kvöld með meðákærðu Andreu til að ræða við brotaþola og ná í síma í þeirra eigu. Hann sagði að þau hefðu viljað fá að vita af hverju brotaþoli hefði verið að bera út lygar um framhjáhald Andreu. Einnig sagði ákærði að þau hefðu frétt það seint um kvöldið, þ.e. 21. desember sl., að brotaþoli hefði fyrr um kvöldið tekið mótorhjól sem þau Andrea hefðu talið vera í sinni eigu. Hefði ætlunin einnig verið að hafa uppi á hjólinu og ná í það. Ákærði sagði að meðákærði Elías hefði farið með þeim, en hann hefði verið staddur heima hjá Andreu þegar þau fóru af stað. Hann sagðist ekki muna hvort þau báðu hann um að koma með þeim. Hann sagði að þau hefðu komið við í sjoppu á leiðinni til brotaþola og farið þaðan upp á [...]. Sérstaklega aðspurður sagði ákærði að þau hefðu komið við hjá meðákærða X um hálftíma áður en þau fóru á [...], en ákærði sagði að X hefði lánað þeim lykil að bílskúr þar sem hann hefði ætlað að setja mótorhjólið inn. Ákærði sagði að þau hefðu öll farið inn til X og stoppað þar í um fimm mínútur. Aðspurður sagði hann að vel gæti verið rétt hjá meðákærða Elíasi að hann hefði beðið úti í bíl á meðan þau Andrea fóru inn til X. X hefði sagt þeim hvar bílskúrinn væri og boðist til að lána þeim bílinn sinn. Ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa talið vera þörf á því þar sem þau hefðu frétt að hjólið stæði á kerru. Hann sagði að ekki hefði komið til tals hvað þau væru að fara að gera og sagði ákærði að X ætti enga aðild að þessu máli. Sagðist ákærði hafa farið heim til X eingöngu í þeim tilgangi að fá lánaðan bílskúrslykilinn.
Ákærði sagði að þau hefðu síðan farið heim til brotaþola á [...]. Aðspurður sagði ákærði að dyrnar niðri hefðu verið opnar og þá sagðist ákærði ekki hafa komið fyrstur að dyrunum á íbúðinni og sagðist því ekki vita hvort einhver opnaði fyrir þeim. Sagðist ákærði halda að Elías hefði komið fyrstur að íbúðinni. Hann sagði að engin sérstök ástæða hefði verið því að Elías kom með þeim upp í íbúðina. Ákærði sagði að meðákærði Óttar hefði verið í partíi þarna skammt frá og hann hefði fengið far með þeim upp á [...]. Ákærði sagði að Óttar hefði farið á undan þeim inn í íbúðina. Þegar ákærði var inntur eftir skýringum á því sagðist hann ekki vita af hverju Óttar fór á undan þeim inn. Hann sagði að Óttar hefði ekki haft neitt hlutverk í árásinni og tók fram að hann hefði ekki opnað fyrir þeim dyrnar. Aðspurður kvaðst ákærði hafa séð B smokra sér út úr íbúðinni um leið og þau komu.
Ákærði sagði að þegar þau hefðu verið komin inn í íbúðina hefði upphafist rifrildi vegna áðurgreindra lyga og ásakana. Ákærði sagði að brotaþoli hefði haldið áfram að espa þau upp, þ.e. sig og Andreu, og haft uppi hótanir í tengslum við börn Andreu, nánar tiltekið að sækja dóttur Andreu og skilja hana eftir einhvers staðar úti í kanti. Þá hefði hún hótað því að setja myndirnar sem voru í símanum á netið. Aðspurður sagði ákærði að brotaþoli hefði augljóslega verið undir áhrifum þegar þau komu, en sjálfur sagðist hann hafa verið undir áhrifum amfetamíns. Sagði ákærði að þarna hefðu orðið smálæti á milli þeirra og kaus ákærði að tjá sig ekki um hvaða ofbeldi var beitt, en aðalátökin hefði verið á milli meðákærðu Andreu og brotaþola. Sjálfur sagðist ákærði ekki hafa beitt brotaþola ofbeldi og neitaði því að hafa snert brotaþola eða sparkað í líkama hennar eða höfuð. Þá sagði ákærði að ekki væri rétt að brotaþoli hefði verið dregin á hárinu. Hann sagðist ekki hafa séð að skorið væri í fingur brotaþola og kannaðist ekki við að brotaþola hefði verið hótað að allir fingur hennar yrðu skornir af henni ef hún segði til þeirra. Þá kannaðist ákærði ekki við það að fíkniefnum hefði verið neytt upp í brotaþola eða að meðákærða Andrea hefði lagt hníf að hálsi brotaþola og þrengt að öndunarvegi hennar. Ákærði sagðist ekki hafa sé Elías setja fingur upp í leggöng og endaþarm brotaþola og sagði ákærði að hann hefði orðið var við það ef svo hefði verið. Hann sagði að enginn hefði beitt brotaþola kynferðislegu ofbeldi, en ákærði kaus að tjá sig ekki um hvort öðru ofbeldi hefði verið beitt. Þá sagðist ákærði ekki hafa heyrt Elías segja: „Þú hefðir ekki átt að vera að fokkast í þessari fjölskyldu.“ Ákærði sagði að engum vopnum, svo sem klippum, hefði verið beitt. Ákærði kaus að tjá sig ekki um það sem meðákærðu Andrea og Elías gerðu. Hann sagðist hafa séð brotaþola pissa á sig, en þá hefði Andrea haldið í hárið á henni. Elías hefði hins vegar ekki verið að gera neitt á þeirri stundu.
Ákærði sagðist hafa aðstoðað Óttar við að taka saman dótið sitt, en Óttar hefði ekki lengur haft áhuga á því að búa hjá brotaþola því hún hefði verið búin að komast upp á milli allra vina sinna. Það hefði verið ástæða þess að þau sóttu hann og sagði hann að Óttar hefði viljað sækja dótið sitt.
Ákærði sagðist hafa leitað að símanum í íbúðinni og stuttu síðar hefðu þau yfirgefið svæðið. Hann sagði að brotaþoli hefði setið á gólfinu þegar þau fóru og hefði hún enn verið að hóta þeim. Hún hefði því verið með meðvitund. Nánar tiltekið sagði ákærði að brotaþoli hefði verið fyrir framan skápinn og fyrir aftan sófann á mynd nr. 68 á skjali merktu II.1.2. Sagðist hann hafa séð smávegis blóð á gólfinu, en ekki séð hvar blæddi. Ákærða voru sýndar ljósmyndir af vettvangi og sagði ákærði að brotaþoli hefði ekki verið í þessu ástandi þegar þau fóru, en þá hefðu engir áverkar verið á brotaþola. Á myndunum væri einnig miklu meira blóð á vettvangi en var þegar þau yfirgáfu hann. Ákærði sagði að áverkar brotaþola, sem frá væri greint í ákæru, gætu ekki verið eftir þau.
Ákærði sagði að ekki hefði verið um skipulagða árás að ræða, þ.e.a.s. ekki hefði verið ákveðið fyrirfram að beita neins konar ofbeldi, heldur hefðu átökin hafist þegar brotaþoli hefði haft uppi hótanir gagnvart þeim. Aðspurður kvaðst ákærði ekki vera viss hvort Elías var með hulið andlit eða grímu, en sagði að hann hefði verið með húfu og vettlinga þegar þau fóru af stað. Þá sagðist ákærði ekki hafa séð hann með leðurkylfu. Hann sagðist ekki vita til þess að Elías hefði tekið húfuna og vettlingana af sér á vettvangi.
Ákærða var kynntur framburður meðákærðu Elíasar og Andreu um þátt þeirra í árásinni, en ákærði kvaðst kjósa að tjá sig ekki um það sem þau gerðu.
Ákærði sagði að þau hefðu tekið síma og lykla með sér, en síminn hefði verið á stofuborðinu. Sagði ákærði að þau hefðu ætlað að athuga hvort myndirnar, sem brotaþoli hefði hótað að setja á netið, væru í símanum. Hann sagðist ekki vita um hvaða síma var að ræða eða hver átti hann. Ákærði sagði að á lyklakippunni hefðu verið lyklar að bifreið brotaþola og hefði Andrea ætlað að athuga hvort síminn hennar væri í bifreiðinni. Það hefði hún gert og fundið þar símann, sem þau hefðu verið að leita að. Ákærði sagði að þau hefðu einnig haldið að á kippunni væru lyklar að íbúð Andreu. Ákærða var bent á að sími brotaþola hefði fundist heima hjá Andreu og sagði ákærði að það hljóti þá að vera síminn sem þau tóku á heimili brotaþola í umrætt sinn. Ákærði sagði að þau hefðu ekki farið í íbúð brotaþola til að ræna brotaþola. Hann sagði að rætt hefði verið um að brotaþoli fengi lyklana um leið og þau fengju hjólið. Aðspurður neitaði ákærði því að hafa tekið síma B. Ákærði neitaði því að hafa tekið símann og lyklakippuna í auðgunarskyni og sagði hann að þau hefðu ekki farið heim til brotaþola til að ræna hana.
Eftir þetta hefðu þau, þ.e. ákærði, Andrea og Elías, haldið heim á leið, en komið við hjá meðákærða Y. Hann neitaði því að hafa afhent Y einhverja muni og sagðist ekki hafa verið með neitt í höndunum. Þá sagðist hann ekki vita til þess að einhver annar hefði afhent Y einhverja muni. Ákærða var þá bent á að heima hjá Y hefði verið haldlögð gríma, jakki og leðurkylfa, sem ákærði Elías hefði viðurkennt að hafa átt. Ítrekaði ákærði þá að hann hefði ekki afhent neina muni og sagðist ekki vita til þess að einhver annar hefði gert það. Ákærða var þá einnig bent á að ákærði Y hefði borið um það að aðeins ákærði og meðákærða Andrea hefðu komið heim til hans og að annað þeirra hefði verið með poka með munum í og hitt með bjórkippu. Ítrekaði ákærði þá að hann hefði ekki verið með neitt í höndunum. Ákærði neitaði að tjá sig um það af hverju þau hefðu komið við hjá Y, en sagði að sú heimsókn hefði ekki verið skipulögð fyrirfram. Þá sagðist ákærði ekki hafa séð meðákærða X hringja í nokkurn á meðan þau stoppuðu heima hjá honum. Þá kvaðst ákærði ekki muna eftir hvort hann var í einhverjum samskiptum við Y þessa nótt og sagðist ekki muna eftir að hafa rætt við Y um eitthvert mótorhjóla- eða bílavesen. Hann sagði þó að vel gæti verið að hann hefði hringt í hann einu sinni. Ákærða var þá bent á að samkvæmt símagögnum hefði Y hringt í ákærða kl. 01:58 og síðan aftur klukkan 02:02. Sagðist ákærði ekki hafa rætt við ákærða Y í þessi skipti. Kaus ákærði að tjá sig ekki frekar um heimsóknina til Y.
Ákærði kvaðst hafa átt mörg símtöl við meðákærða Óttar fyrr um kvöldið. Ákærða var þá bent á að um 12 símtöl á milli þeirra hefði verið að ræða á tímabilinu frá klukkan 00.16 til 01.44. Sagði ákærði þá að Óttar hefði verið undir áhrifum og að erfiðlega hefði gengið að tala við hann. Meirihluti símatalanna hefði farið í það að finna út hvar Óttar væri, hvað orðið hefði af hjólinu o.s.frv. Þá viðurkenndi ákærði að þeir hefðu rifist um það að hann hefði verið á staðnum þegar brotaþoli tók hjólið og sagðist ákærði hafa ýjað að því að hann stæði með brotaþola. Hann sagði að vel gæti passað að þau hefðu verið á heimili meðákærða X um klukkan 01.53 um nóttina. Hann sagðist ekki muna eftir að X hefði hringt í einhvern á meðan þau stoppuðu við hjá honum.
Aðspurður kvaðst ákærði kannast við það að brotaþoli hefði sakað Andreu um að hafa stolið innbúsmunum í hennar eigu.
Ákærði kvaðst vera meðlimur í S.O.D. Reykjavík, sem væri mótorhjólaklúbbur, þ.e. hópur vina sem hefði sameiginlegan áhuga á mótorhjólum. Ákærði sagði að S.O.D. væri karlaklúbbur og konur fengju ekki inngöngu í hann. Ákærði sagði að skammstöfunin S.O.D. stæði fyrir „Souls of Darkness“. Hann sagði að klúbburinn tengdist ekki glæpum og sagðist ákærði ekki stunda skipulagða glæpastarfsemi. Kvað hann S.O.D. hafa staðið fyrir fjáröflun til styrktar langveikum börnum á Reykjanesi. Aðspurður um tengsl S.O.D. við Hells Angels sagði ákærði að þetta væri lítið land og sagði að tengsl væru á milli allra mótorhjólamanna, m.a. færu þeir á sameiginlega viðburði. Ákærði játaði því að S.O.D. væri stuðningsklúbbur Hells Angels. Ákærði sagði að Hells Angels væri félagsskapur manna sem hefði áhuga á mótorhjólum og kvaðst hann ekki vita til þess að meðlimir Hells Angels stæðu fyrir glæpastarfsemi. Hann sagði að rétt væri að þeir sem sæktu um aðild að S.O.D. þyrftu að ganga í gegnum reynslutíma áður en þeir fengju að bera merki klúbbsins. Hann sagði að reynslutíminn væri hugsaður til að halda þeim í burtu sem svert gætu klúbbinn. Ákærði sagði að á vegum S.O.D. væri rekið klúbbhús þar sem félagsmenn geymdu mótorhjólin sín og hittust, en þar væri m.a. baraðstaða. Aðspurður sagði ákærði að á fundum væri rætt um málefni líðandi stundar. Hann viðurkenndi að klúbburinn væri með fundargerðabók eins og fleiri klúbbar. Aðspurður sagði ákærði að engin viðurlög væru við því að hætta í klúbbnum. Var honum þá bent á að samkvæmt fundargerð 20. janúar 2010 hefði verið samþykkt að þeir sem hættu í klúbbnum greiddu sex mánaða félagsgjald. Sagði ákærði að þetta hefði komið til tals vegna húsaleigu, sem klúbburinn hefði skuldbundið sig til að greiða. Ákærði kvaðst ekki hafa farið utan á vegum S.O.D. með Hells Angels-mönnum til að heimsækja erlend Hells Angels-samtök. Hann sagðist ekki geta sagt til um hvort einhverjir aðrir úr S.O.D. klúbbnum hefðu gert það. Ákærða var þá bent á að á fundi 8. júlí 2010 hefði verið bókað að framvegis þegar félagar í MC Iceland færu út færu einhverjir frá S.O.D. út. Sagðist ákærði þá kannast við þessa bókun. Hann sagði að ýmislegt væri rætt á fundum, en ekki öllu væri hrundið í framkvæmd. Einnig var ákærða bent á að 20. október 2010 væri bókað í fundargerðabókina: „Engill á landinu“. Þá sé bókað: „31. des þurfa 2 úr hverjum chapter að fara út til DK á afmæli englanna 30 ára afmæli.“ Sagðist ákærði ekki kannast við þessa bókun. Aðspurður sagðist ákærði hafa gengið í S.O.D. haustið 2010. Einnig var ákærða bent á bókun 10. nóvember 2010 en þar væri enn verið að tala um ferð til Danmerkur um áramót. Sagðist ákærði ekki muna eftir þessu. Aðspurður sagði ákærði að meðákærða Andrea hefði verið í Torpedo Crew, en stofnað hefði verið til þess klúbbs meira í gríni en alvöru. Þá sagði hann að meðákærði Óttar hefði hætt í S.O.D. í lok síðasta árs. Ákærði sagðist vera vinur meðákærða X og neitaði því að X hefði eitthvert vald yfir honum.
Ákærði var inntur eftir skýringu á því hvers vegna hann hefði í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu neitað því að hafa verið á staðnum. Sagði ákærði þá að honum hefði brugðið við að heyra lygar brotaþola um það sem átti að hafa gerst. Ákærða var bent á að í lögregluskýrslu 3. janúar sl. hefði hann borið um það að hafa fylgst með því sem gerðist inni í íbúðinni allan tímann og verið viðstaddur allan tímann sem brotaþoli var beitt líkamlegu ofbeldi. Var ákærða bent á að hér fyrir dómi hefði hann borið um það að hafa verið að fylgjast með Óttari pakka niður. Sagði ákærði að þetta hefði allt átt sér stað á sömu 10 fermetrunum og sagðist hann því vita hvað gerðist í íbúðinni. Loks var ákærða bent á að í lögregluskýrslu 30. desember sl. hefði hann ekki vitað hvort einhver af þeim ákærðu var í hönskum á vettvangi. Sagðist ákærði muna núna að ákærði Elías var í hönskum.
Ákærði kvaðst vera í sambúð með meðákærðu Andreu og sagðist sjálfur eiga tvo syni. Teknar voru skýrslur af ákærða 22., 27. og 30. desember 2011 og 3.og 11. janúar 2012.
Ákærði Óttar neitaði sök. Kvaðst hann hafa verið staddur á verkstæði um kvöldmatarleytið umrætt kvöld þegar brotaþoli hefði komið að sækja mótorhjól. Sagðist hann ekki hafa vitað þá að hún væri að stela hjólinu. Þaðan hefði hann farið heim til félaga síns í Samtúni og síðan á Hressó að skemmta sér. Þar sem hann hefði setið við drykkju á Hressó hefði hann fengið símtal frá meðákærða Jóni. Rætt hefði verið um það að ákærði hefði verið viðstaddur þegar mótorhjólinu var stolið og sagði ákærði að þeir meðákærði hefðu rifist um það hvort ákærði hefði aðstoðað við stuldinn á mótorhjólinu. Kvaðst ákærði hafa setið á Hressó um kvöldið ásamt tveimur strákum og síðan endað í partíi á [...] í [...] þar sem hann hefði haldið áfram að drekka. Fyrst hefði hann þó komið við á [...] til að ná í bjór. Í partíinu á [...] hefði hann aftur fengið símtal frá Jóni og hefði þá verið ákveðið að hann sækti dótið sitt og flytti út úr íbúðinni á [...].
Kvaðst ákærði því næst hafa farið í íbúðina á [...] og sagðist hann hafa verið að ljúka við að pakka niður og ná í dótið sitt þegar hann hefði heyrt læti frammi og séð að þrjár manneskjur voru komnar inn í íbúðina, þ.e. meðákærðu Andrea og Jón og maður með grímu, og sagði að sér hefði verið ýtt inn í herbergið. Kvaðst ákærði ekki hafa vitað þá hver maðurinn með grímuna var, en sagðist vita nú að það var meðákærði Elías. Hann sagðist aðspurður ekki vera viss hvort sá grímuklæddi var með hanska eða ekki. Ákærði sagðist hafa verið mjög drukkinn þegar þetta gerðist. Hann sagði að frammi hefði upphafist rifrildi, öskur og læti. Kvaðst hann hafa ætlað að stíga fram, en meðákærði Elías hefði ýtt honum aftur inn í herbergið. Sagðist ákærði hafa kíkt fram tvisvar til þrisvar en Elías hefði passað að hann héldi sig alltaf á sama stað. Ákærði sagði að öskrin, lætin og rifrildið hefði staðið yfir í um 10 mínútur, en þá hefði allt í einu orðið dauðaþögn. Sagðist ákærði hafa kallað fram en ekki fengið svar. Kvaðst ákærði þá hafa tekið töskurnar sínar og hraðað sér út. Ákærði sagðist ekki muna hvort hann kíkti fram í stofuna, en hann sagðist ekki hafa séð brotaþola þegar hann var á leiðinni út úr íbúðinni. Þá sagðist hann ekki muna eftir því hvort hann læsti íbúðinni. Hann kvaðst aðspurður hafa verið með lykla að íbúðinni, enda hefði hann verið með hana á leigu.
Ákærði sagði að hann og Jón væru gamlir vinir og á tímabili hefði svo virst að hann væri að taka afstöðu með brotaþola í málinu og hefði aðstoðað hana við að stela mótorhjólinu. Sagðist ákærði því hafa ákveðið að flytja út úr íbúðinni og sagðist hann hafa beðið Jón um að hjálpa sér við að ná í dótið hans. Sagði ákærði að það hefði greinilega verið ákveðið þarna á þessum tímapunkti að þetta skyldi gert strax. Aðspurður kvaðst ákærði væntanlega hafa tekið ákvörðun um það sjálfur. Ákærða var bent á að alls hefðu símtöl hans og Jóns verið 12 um kvöldið og sagði ákærði að þeir hefðu verið að rífast um það hvort hann stæði með brotaþola eða ekki og sagði að þeir hefðu skellt nokkrum sinnum hvor á annan. Í einu samtalanna hefði hins vegar verið ákveðið að hann flytti út úr íbúðinni.
Ákærði sagðist vita að meðákærðu sóttu hann í partíið, en hann sagðist hins vegar ekki muna eftir því þar sem hann hefði verið mjög drukkinn. Sagðist ákærði næst muna eftir sér þegar hann var kominn inn í íbúðina og að hann hefði verið að skamma brotaþola fyrir að vilja ekki sættast við ákærðu. Einnig að þetta væri komið út í of mikið vesen þar sem nú væri búið væri að ásaka hann fyrir þjófnað. Væri því orðið tímabært fyrir hana að hringja og leysa málin. Hann sagði að brotaþoli hefði þá sagt að sér þætti það leitt ef hann væri búinn að blandast inn í þetta.
Ákærði sagðist hafa verið með lykla að íbúðinni og því vita hvernig hann komst inn í íbúðina. Sagðist ákærði bara hafa ætlað inn til að ná í dótið sitt, en meðákærðu hefðu ekkert ætlað að koma með honum upp. Ákærði sagði að brotaþoli hefði flutt inn í íbúðina á meðan þetta var heimili hans og sagðist ákærði hafa litið svo á að brotaþoli byggi inni á sér. Ástandið hefði hins vegar verið orðið óþolandi vegna rifrildis og láta og því hefði hann ákveðið að flytja út. Nánar aðspurður kvaðst ákærði ekki muna eftir bílferðinni úr partíinu á [...] og að íbúðinni á [...].
Ákærði sagði að til að komast upp í íbúðina yrði fyrst yrði að fara inn um dyr á stigaganginum, sem venjulega væru læstar. Hann sagðist ekki vita hvernig meðákærðu komust inn í stigaganginn. Sagðist ákærði ekki hafa skilið eftir opið fyrir þau og sagði að ekki hefði verið rætt um að hann gerði það. Hann sagði að íbúðin uppi hefði greinilega ekki verið læst þegar meðákærðu komu, en til þess að læsa hurðinni að innan yrði að lyfta upp hurðarhúninum og snúa til að læsa. Þá þyrfti lykil til að læsa hurðinni að utan. Aðspurður sagðist ákærði ekki hafa séð meðákærðu koma inn í íbúðina, heldur heyrt að þau voru komin inn því þá hefði rifrildið byrjað.
Hann sagði að B hefði verið í íbúðinni þegar hann kom, en hann hefði rokið út þegar meðákærðu komu inn. Kvaðst ákærði ekkert hafa rætt við hann og sérstaklega aðspurður kvaðst hann ekki kannast við að hafa rætt við hann út um glugga.
Ákærði kvaðst kannast við að brotaþoli hefði hótað Andreu með því að hún væri búin að fá fólk til að fara heim til þeirra Jóns og gera þeim eitthvað, en ekki yrði hægt að rekja það til hennar. Sagðist ákærði ekki hafa tekið mark á þessu tali. Þarna hefðu tvær skapstórar konur verið að rífast og sagðist hann hafa talið þetta vera innantómt hjal. Einnig kvaðst ákærði hafa heyrt af því að brotaþoli hefði hótað meðákærða X með einhverju. Þá sagðist hann muna eftir reiðilegum sms-skilaboðum frá X um að hann ætti að taka símann af brotaþola. Hann sagði að verið gæti að í skilaboðum X hefði komið fram að brotaþoli hefði verið að hóta honum og fjölskyldu hans. Ákærði kannaðist ekki við það að brotaþoli hefði sakað Andreu um að hafa stolið frá sér innbúsmunum. Hann sagðist ekki vita af hverju brotaþoli var reið út í Andreu. Sagðist hann hafa forðast að setja sig inn í þessar deilur.
Ákærði sagði að Elías hefði í fyrstu ýtt honum inn í herbergið og þegar hann hefði kíkt fram hefði hann staðið við dyrnar. Sagðist ákærði einu sinni hafa stigið fram, en þá hefði honum verið ýtt aftur inn í herbergið. Hann sagði að enginn annar en Elías hefði staðið yfir honum í herberginu. Á meðan hefðu Andrea og Jón líklegast verið frammi í stofu. Sagðist ákærði hafa séð aftan á Jón þegar hann kíkti fram. Jón hefði því verið frammi í stofu allan tímann. Sagðist ákærði ekki hafa gert sér grein fyrir að þetta myndi þróast svona og enda með ofbeldi, en hann sagðist aðeins hafa heyrt að rifrildi var í gangi, en sagðist ekki hafa heyrt neitt detta eða brotna eða annað sem gaf til kynna að slagsmál væru í gangi. Sagðist ákærði ekki hafa orðið vitni að neinu ofbeldi í íbúðinni. Kvað hann sér ekki hafa dottið í hug að slíkt hefði átt sér stað í íbúðinni þegar hann yfirgaf hana. Ákærði sagði að það gæti vel verið að hann hefði læst á eftir sér þegar hann fór út úr íbúðinni. Ákærði kannaðist ekki við að hafa farið aftur inn í íbúðina, stjakað við brotaþola og sagt: „Shit, shit, shit!“ Þá kannaðist hann ekki við að hafa sparkað í brotaþola. Sagðist hann ekki hafa vitað að brotaþoli væri í íbúðinni og sagðist hafa haldið að allir hefðu farið niður til að athuga með hjólið. Sagðist hann hafa farið á bak við næstu blokk og verið þar í einhvern tíma. Sagðist hann síðan hafa hringt í Jón og beðið hann um að ná í sig. Það hefði Jón gert og skutlað honum beint upp á [...] til vinkonu ákærða. Ákærði sagði að Andrea hefði verið í bílnum hjá Jóni, en ekki Elías. Hann sagðist ekki hafa vitað að meðákærðu hefðu farið heim til meðákærða Y.
Ákærði sagðist hafa pakkað ofan í tvær stórar töskur, en einnig hefði hann verið með tvo svarta ruslapoka með sænginni sinni og einhverju fleira. Sagðist ákærði hafa sett töskurnar á sitthvora öxlina þegar hann yfirgaf íbúðina, en ekki getað tekið pokana með sér. Sagði ákærði að sér hefði verið brugðið eftir atvikið og sagðist því hafa beðið P um að fara upp í íbúð og ná í pokana. Sagðist hann ekki hafa viljað fara aftur upp í íbúðina ef ske kynni að einhverjir aðrir kæmu í íbúðina eða eitthvað meira vesen yrði þarna.
Ákærði sagði að X hefði hringt í hann morguninn eftir og spurt hann hvort fréttir af líkamsárás í Hafnarfirði tengdust rifrildi brotaþola og Andreu. Sagðist ákærði hafa reynt að hringja í Andreu þennan sama dag, en það hefði alltaf verið slökkt á símanum hennar. Sagðist ákærði hafa fengið áfall þegar hann frétti hvað hafði gerst.
Ákærði sagðist ekki hafa vitað að til stæði að beita brotaþola ofbeldi umrætt kvöld. Ákærði kannaðist við að hafa átt samskipti við Andreu á Facebook um klukkan fimm eða sex umræddan dag. Þar hefði Andrea tjáð sér að hún og brotaþoli ætluðu að hittast og að brotaþoli vildi leysa þetta í góðu. Einnig að X ætlaði að koma með þeim. Umrædd skilaboð voru lesin upp fyrir ákærða. Sagðist ákærði ekki hafa tekið mark á þessu, en þetta hefði gengið svona á víxl, t.d. hefði brotaþoli verið búin að segja honum að hún ætlaði að mæta á fund með E o.s.frv. Sagðist ákærði hafa litið á þetta sem eins konar „cat fight“ eða kjánalegt rifrildi á milli tveggja stelpna, sem hefðu viljað vera ógnandi með því að segjast þekkja hina og þessa, t.d. E og X. Sagðist ákærði ekki hafa búist við að þetta myndi fara út í svona rugl. Ákærði var inntur eftir því hvað hann hefði átt við þegar hann spurði Andreu: „Hvenær á þetta að gerast?“ Sagðist ákærði þá hafa átt við fundinn þar sem allir ætluðu að hittast. Sagðist ákærði ekki hafa tekið mark á tali um „full on revenge“ og að ekki ætti að leysa þetta í góðu. Sagðist ákærði ekki hafa túlkað þetta sem ofbeldi. Ákærði sagði að Andrea hefði þarna verið að segja sér hvað stæði til, en sjálfur sagðist hann ekki hafa verið með í ráðum.
Ákærði sagðist hafa kynnst brotaþola í gegnum Andreu, en þær hefðu verið mjög góðar vinkonur. Hann sagði að brotaþoli hefði ætlað að flytja til Los Angeles og vera þar í langan tíma og sér hefði verið boðið að leigja íbúðina hennar. Sagðist ákærði hafa flutt inn í íbúðina í lok nóvember sl. og greitt leigu fyrir desember inn á reikning brotaþola. Þegar ákærða kom til baka hefði hún verið edrú og til hefði staðið að hún fengi dóttur sína í umgengni og sagðist ákærði hafa boðið henni að vera í íbúðinni á meðan. Þegar dóttirin var farin hefði brotaþoli hins vegar verið áfram í íbúðinni, enda hefði hún verið húsnæðislaus. Hann sagði að þá hefði byrjað á henni eitthvert partístand.
Ákærði sagði að brotaþoli hefði verið edrú fyrstu dagana eftir að hún flutti inn, en hún hefði síðan hafið neyslu. Ákærði sagði að t.d. þegar hann vaknaði einn morguninn hefðu fjórir til fimm karlmenn verið í partí hjá brotaþola frammi í stofu og hefðu þau verið að neyta amfetamíns og grass. Sagðist ákærði hafa séð hana neyta amfetamíns og grass einum til tveimur dögum fyrir árásina. Ákærði sagðist hafa komið í íbúðina fyrr um kvöldið með jólapakka frá syni sínum, sem hann sagðist hafa skilið eftir í íbúðinni. Þá hefðu brotaþoli og B verið í íbúðinni að fá sér amfetamín í nefið og sennilega hefði B einnig verið að drekka bjór. Ákærði sagðist ekki geta sagt til um hvort þeirra hefði verið að fá sér amfetamín, en á borðinu hefði verið platti eða diskur með amfetamíni á.
Ákærði sagðist hafa gengið í S.O.D. Suðurnes árið 2009 eða 2010, en síðan hefði hann fært sig yfir í S.O.D. Reykjavík um mitt ár 2011. Hann sagðist hafa hætt í samtökunum í nóvember 2011 vegna þess að hann hefði ekki haft efni á því lengur að eiga og reka mótorhjól. Þá sagði hann að honum hefði fundist leiðinlegt að finna fyrir fordómum í garð mótorhjólaklúbba. Aðspurður sagði hann að upphaflega hefði S.O.D. verið stofnað sem forvarnarfélag gegn ölvunarakstri á mótorhjólum, en tilgangur samtakanna væri aðallega sá að standa fyrir því að menn hjóluðu saman. Þá nefndi ákærði að einu sinni hefðu samtökin safnað fjármunum til styrktar fötluðum börn. Ákærði sagði að S.O.D. væri opinber stuðningsklúbbur Hells Angels. Ákærði sagðist ekki stunda skipulagða glæpastarfsemi og sagðist heldur ekki vita til þess að meðákærði Jón stundaði slíkt.
Ákærða var bent á að í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu hefði hann ekki greint frá því hverjir það voru sem komu inn í íbúðina í greint sinn. Sagðist hann ekki vita af hverju hann greindi ekki frá þessu. Ákærði játaði því að hafa í fyrstu greint ranglega frá atvikum, en sagðist ekki geta skýrt af hverju hann gerði það.
Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 22., 23. desember 2011 og 4., 5., 11. og 12. janúar 2012.
Framburður vitna
Brotaþoli A sagði að mál þetta hefði átt sér nokkurn aðdraganda. Hún og ákærða Andrea væru búnar að þekkjast í mörg ár og vera vinkonur. Sagði hún að Andrea hefði oft brugðist sér. Jafnframt sagði brotaþoli að Andrea væri eins konar klappstýra og stjórnaði öllum í kringum sig, þ.á m. í vinahópnum.
Brotaþoli sagði að þegar hún hefði ákveðið að fara til Bandaríkjanna hefði hún sett allt dótið sitt inn í eitt herbergið í íbúðinni og framleigt íbúðina ákveðnum manni. Sá maður hefði verið búinn að vera með íbúðina í smátíma þegar Andrea hefði lagt til að Óttar, vinur hennar, fengi að vera í íbúðinni því hinn maðurinn væri þar hvort eð er svo lítið. Sagðist brotaþoli hafa samþykkt það og látið vita að Óttar mætti vera þarna í mánuð í senn. Brotaþoli sagðist síðan hafa komið heim fyrr en áætlað var og sagðist hún hafa sagt Óttari að hann mætti vera í íbúðinni út nóvember þar sem hún væri að fara norður. Hann yrði síðan að finna sér aðra íbúð þar sem hún ætlaði að flytja aftur í íbúðina með dóttur sinni. Þegar hún hefði komið að norðan að tveimur til þremur vikum liðnum hefði Óttar ekki enn verið búinn að finna sér aðra íbúð og hefði orðið að samkomulagi að hann mætti vera í íbúðinni með annan fótinn á meðan hann væri að finna sér annan samastað, en brotaþoli sagðist ekki hafa viljað henda honum út. Hún sagði að stundum hefði hann verið heima hjá Andreu og stundum hefði hún verið þar. Sagðist hún aðallega hafa verið í íbúðinni á [...] þegar hún var með dóttur sína.
Brotaþoli sagði að þegar hún hefði flutt inn í íbúðina fyrir alvöru og skoðað hana eftir heimkomuna hefði komið í ljós að búið var að fjarlægja úr íbúðinni öll fötin hennar, svo og öll föt og muni sem tilheyrðu dóttur hennar. Sagðist hún hafa spurt Andreu að þessu og hefði Andrea tjáð henni að hún hefði leyft sér að taka borðstofustólana og leikföng dóttur hennar því hún hefði verið að fara að halda upp á afmæli dóttur sinnar. Brotaþoli sagðist síðan hafa séð leikföng og annað dót frá dóttur sinni heima hjá Andreu. Hún sagði að mikið hefði verið búið að reyna á vináttu þeirra Andreu á þessum tíma og sjálf hefði hún verið að ljúka erfiðum kafla í sínu lífi. Sagðist hún hafa þurft að leita eftir einhverjum stuðningi einhvers staðar, en svo sannarlega hefði hún leitað á röng mið.
Brotaþoli sagði að þegar hér var komið sögu hefðu þær Andrea verið búnar að vera ósáttar í smátíma og sagðist hún hafa komið til hennar skilaboðum um að henni þætti vænt um að fá fötin sín aftur. Hefði Andra þá látið hana fá pínulitla tösku með nokkrum flíkum í og á henni hefði verið miði, sem á stóð: „Fokkaðu þér!“ Sagðist brotaþoli þá hafa ákveðið að þær ættu ekki lengur samleið.
Brotaþoli kvaðst hafa verið búin að vera með síma frá Andreu í láni frá því í september, en í símanum hefðu verið tvær mjög viðkvæmar myndir af Andreu. Þá kvaðst ákærða hafa vitað af því að Andrea hefði haldið fram hjá meðákærða Jóni. Kvaðst hún hafa beðið Jón um að hitta sig og sagt honum frá myndunum og framhjáhaldinu. Hún sagði að sorglegt væri hvernig ákærða hefði komið fram við Jón allan þann tíma sem þau hefðu verið saman. Sagðist hún margsinnis hafa heyrt Andreu tala niður til Jóns og þá hefði hún komið illa fram við hann.
Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki hafa verið að reyna að ná sáttum við Andreu um það leyti sem atvik málsins áttu sér stað. Kvaðst hún áður hafa rætt við E og spurt hann að því hvort hann gæti leitt þær saman. Hann hefði samþykkt það, en ekkert gert. Þá sagðist brotaþoli hafa blandað meðákærða X inn í þetta af einskærri fávísi og í örvæntingu og af mikilli hræðslu. Sagðist hún sennilega fyrst hafa talað við X tveimur dögum fyrir atvik málsins. Sagðist hún hafa sagt við hann að hún væri að reyna að fá Andreu til að skila henni áðurgreindum fatnaði og innbúsmunum. X hefði sagt við hana að hann skildi ekki af hverju hún væri að blanda honum inn í þetta. Hún hefði þá tjáð honum að hún væri að leita til fólks, sem hún vissi að Andrea tæki mark á. Þá hefði X sagt að hún væri að ógna fjölskyldu sinni, en brotaþoli sagðist ekki hafa skilið þau ummæli ákærða.
Brotaþoli kvaðst hafa setið uppi með mótorhjól, sem hún hefði fengið frá stelpu, sem aftur hafði fengið það upp í skuld. Hún sagðist hafa vitað að hjólið tengdist tryggingasvikamáli og sá sem tæki við því yrði að fela það í einhvern tíma. Kvaðst hún því hafa leyft Andreu að fá hjólið með þeim skilyrðum að hún borgaði hjólið seint og illa.
Brotaþoli kvaðst hafa farið á verkstæðið hjá Q í [...] fyrir miðnætti 21. desember sl. og náð í umrætt hjól. Þar hefði Óttar verið staddur og einhver annar. Sagðist hún hafa farið með hjólið af áðurgreindu verkstæði og í bílageymsluna á [...] og síðan hefði hún skilað bílnum og kerrunni. Hún sagðist síðan hafa farið heim og verið í einhverju sambandi við Óttar. Hún sagði að hann hefði þóst vera vinur hennar, en síðar hefði komið í ljós að hann lék tveimur skjöldum. Brotaþoli sagði að B hefði verið staddur hjá henni þetta kvöld, en hún sagðist hafa beðið hann um að hjálpa sér við að taka hjólið af kerrunni. Þegar hún hefði verið búin að skila bílnum og kerrunni hefði B komið upp í íbúðina til hennar, en brotaþoli sagðist hafa farið að taka til og ganga frá í íbúðinni. Sagðist hún hafa verið taugaspennt og aum og beðið B um að vera aðeins lengur.
Brotaþoli sagðist hafa heyrt í Óttari í tvígang eftir að hún tók hjólið, en Óttar hefði síðan komið í íbúðina, sem hefði verið læst, og opnað með lykli. Hann hefði sagt við hana að hún væri búin að gera allt brjálað og að hann yrði að fara. Hún sagði að Óttar hefði staðið við dyrasímann og verið með ruslapokarúllu með sér. Brotaþoli sagði að sér hefði litist vel á það að Óttar ætlaði loksins að flytja út og sagðist hún hafa gengið inn í stofu og að ferðatöskunum við skápinn og í sama mund hefðu Andrea, Jón og grímuklæddur maður komið askvaðandi inn í íbúðina í áðurgreindri röð. Brotaþoli sagði að B hefði verið staddur í eldhúsinu, en hann hefði haft orð á því þegar Óttar kom að eitthvað skrýtið væri í gangi. Hún sagði að síminn hefði verið tekinn af B og honum hefði síðan verið hent út og útidyrahurðinni lokað og læst. Hún sagðist síðast hafa séð Óttar í anddyrinu að loka á eftir B, en síðan væri atburðarásin í þoku.
Brotaþoli sagði að Andrea hefði strax ráðist á sig og sagðist hún hafa endað í gólfinu og þar hefði hún legið við hliðina á ferðatöskunum. Hún sagði að Jón hefði staðið vinstra megin við hana og grímuklæddi maðurinn fyrir framan hana. Hún sagði að Andrea hefði sparkað í höfuðið á henni og kýlt hana. Þá hefðu þau og sérstaklega Andrea öskrað stöðugt á hana. Hún sagði að Jón hefði sparkað í bakið og rassinn á henni og síðan klipið í höndina á henni, en Andrea hefði haldið í hægri höndina á henni. Næst hefði Andrea tekið upp hníf, sem brotaþoli kvaðst halda að ákærða hefði verið með á sér, rifið í hárið á henni og tekið um hálsinn á henni. Brotaþoli kvaðst þó ekki vera viss um í hvaða röð ákærða gerði þetta. Þá hefði Andrea skorið í fingurinn á henni og á meðan hefði hún sagt að ef brotaþoli segði frá þessu myndi hún taka alla puttana af henni. Kvaðst brotaþoli hafa horft á hana og beðið hana um að hætta og beðið hana um að fyrirgefa sér, en Andrea hefði horft í augun á henni og hlegið og sagt að það væri allt of seint að biðjast afsökunar nú. Aðspurð sagði brotaþoli að ákærða hefði ekki skorið hana óvart í fingurinn. Brotaþoli sagðist hins vegar aðspurð ekki vita hvort Andrea klippti í fingurinn á henni með klippum eða hvort hún skar í hann með hníf. Hún sagði að Andrea hefði einnig skorið af henni hárið og jafnframt rifið það upp með rótum, en brotaþoli sagði að Andrea hefði m.a. rifið hana upp á hárinu. Hún sagði að Andrea hefði rifið hárið upp með rótum á stórum bletti á höfðinu og sagðist brotaþoli þurfa að notast við gervihár eftir það. Sagði brotaþoli að skallablettirnir á höfði hennar væru afleiðing af árásinni. Kvaðst brotaþoli hafa verið mjög veik í hársverðinum fyrir og hefði Andrea vitað af því. Brotaþoli kvaðst ekki vita hversu oft Andrea sparkaði í hana, en brotaþoli sagði að Andrea hefði verið í skóm með stáltá. Hún sagði að Andrea hefði sparkað í bakið á henni og höfuðið og jafnframt hefði hún kýlt hana. Þá hefði Andrea sparkaði í klofið á henni. Brotaþoli sagði að Jón hefði einnig sparkað í hana, þ.e. í bakið og rasskinnina. Hún sagði að sparkað hefði verið að lágmarki þrisvar í höfuðið á henni, þ.e. aftan á hnakka, ofan á höfuðið, í ennið og þá hefði verið sparkað eða stappað ofan á höfðinu á henni. Þá hefði Andrea kýlt hana nokkrum sinnum og gripið utan um hálsinn á henni og sagt við hana að hún ætti að iðrast. Kvaðst brotaþoli hafa beðið ákærðu um að stoppa, en hún sagði að þau hefðu öll þrjú verið yfir sér allan tímann. Hún sagði að Andrea og Jón hefðu bæði haldið henni með því að taka í sitt hvorn handlegginn á henni og setja þá aftur fyrir bak. Á meðan hefði grímuklæddi maðurinn gripið utan um strenginn á buxunum hennar og lyft henni upp og sagði brotaþoli að allur þunginn hefði verið á handleggjunum á sér. Grímuklæddi maðurinn hefði síðan farið með höndina ofan í buxurnar að framanverðu, sett fingur í endaþarm og leggöng og klipið í spöngina á milli. Hann hefði verið mjög ógnandi og sagt: „Ég er ekki svo góður strákur núna!“ Þá hefði hann dregið hana á hárinu og sagt: „Þú hefðir ekki átt að fokkast í þessari fjölskyldu!“
Brotaþoli sagði að ákærðu hefðu farið að hlæja þegar hún pissaði á sig, en það hefði hún gert þegar Andrea sagði að hún ætlaði að meiða hana svo mikið að hún myndi ekki ná sér aftur. Hún sagði að Andrea hefði margítrekað að hún mætti ekki segja frá annars myndi hún taka alla puttana af henni. Brotaþoli sagðist muna eftir atburðarásinni í brotum, en hún sagðist muna eftir því að höggin dundu á henni og þá sagðist hún muna eftir því að ákærðu hlógu.
Brotaþoli sagði að Andrea hefði tekið um hálsinn á henni og þrengt að öndunarvegi hennar. SAgði brotaþoli sagði að henni hefði sortnað fyrir augum og þá sagði hún að sér hefði fundist hún detta út oftar en einu sinni. Brotaþoli sagði að Andrea hefði neytt ofan í hana fíkninefnum. Hún sagði að ákærðu hefðu verið með fíkniefni meðferðis, en hún sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir hvers konar fíkniefni þetta voru, en þau hefðu verið blautkennd. Þau hefðu troðið þessum fíkniefnum upp í nefið á henni og síðan hefðu þau komið með vatnsglas og hellt á hana. Brotaþoli sagðist vera óvirkur fíkill og kvaðst hafa verið nýfallin á þessum tíma, þ.e. daginn áður eða tveim dögum áður, en brotaþoli sagðist hafa verið búin að ná góðum edrú-tímabilum inn á milli. Hún sagði að Andrea hefði sagt við hana: „Þú getur gleymt því að þú verðir marktæk þegar þetta mælist í þér.“ Aðspurð nánar um fíkniefnaneyslu sína sagði brotaþoli að hún hefði fengið sér smók af jónu kvöldið áður og umrætt kvöld sagðist hún hafa opnað bjór og verið búin að taka nokkra sopa af honum. Hún sagðist hins vegar ekki hafa verið búin að neyta fíkniefna þetta sama kvöld. Brotaþoli kvaðst einnig hafa fallið um áramótin, en sagðist vera búin að vera edrú síðan.
Brotaþoli sagðist ekki hafa þekkt grímuklædda manninn, en hann hefði verið í ljótum hermannabuxum, ógeðslegum strigaskóm, svörtum jakka með hvítri línu og með skíðagrímu. Þá hefði hann verið með hanska, en hún sagði að hann hljóti að hafa tekið þá af sér á einhverjum tímapunkti því hann hafi ekki verið í hönskum þegar hann fór með höndina ofan í buxurnar hjá henni. Þá sagðist hún muna eftir að hafa séð hann án hanska. Hún sagði að hendurnar á honum hefðu verið húðflúraðar, stórar og ljótar. Hún sagðist ekki treysta sér ekki til að lýsa húðflúrinu og sagðist ekki geta sagt til um hvort það var mikið eða lítið. Aðspurð sagði brotaþoli að grímuklæddi maðurinn hefði ekki hneppt buxunum frá þegar hann fór með höndina ofan í þær. Um hefði verið að ræða lágar mjaðmabuxur með stuttum rennilás og úr teygjanlegu gallaefni.
Brotaþoli sagði að eftir að ákærðu fóru og hún var ein eftir myndi hún óljóst eftir því að hafa náð fram á gang og að hafa teygt sig upp í hurðina og tekið úr lás, en þar hefði B verið. Hún sagðist ekki gera sér grein fyrir hversu lengi hún lá á gólfinu áður en hún komst fram í anddyrið. Hún sagðist þó muna eftir því að Óttar nálgaðist hana og ýtti við henni með fætinum, en brotaþoli sagðist ekki gera sér grein fyrir því í hvaða stöðu hún var þá. Sennilega hefði hún ekki sýnt nein viðbrögð og sagðist hún muna eftir því að Óttar fór og lokaði á eftir sér, en hann hefði farið síðastur út úr íbúðinni. Sagðist brotaþoli síðan muna óljóst eftir því að hafa komist inn í anddyrið og tekið úr lás. Hún sagðist ekki gera sér grein fyrir því hversu langur tími leið frá því að Óttar fór og þar til hún opnaði fyrir B, en brotaþoli kvaðst halda að hún hefði misst meðvitund um tíma. Þá sagðist hún ekki muna eftir því sem gerðist eftir að hún náði að opna fyrir B. Brotaþoli sagðist hafa reynt að loka á þessar minningar og sagðist halda að það væri svolítið óljóst í hvaða röð atvikin gerðust.
Brotaþoli sagði að hár sitt hefði verið rifið upp með rótum. Hún sagðist hafa misst hárið fyrir sex árum vegna krabbameinslyfjameðferðar. Hún sagðist alltaf hafa verið með þunnt ár og hægan hárvöxt, en alltaf lagt mikið upp úr því að vera með sítt hár. Í september eða október síðastliðinn hefði hún verið orðin sátt við hárið á sér, en þá hefði það verið búið að ná sér mjög vel efir veikindin. Kvaðst hún því hafa leyft sér að fá sér hárlengingar, sem hún hefði hún ekki getað áður því það hefði verið of mikið álag á hárið. Sagðist hún hafa látið lengja á sér hárið nokkrum dögum fyrir árásina.
Aðspurð kvaðst brotþoli ekki muna eftir leðurkylfu eða leðurpyngju, en sagði að grímuklæddi maðurinn hefði verið með eitthvað í höndunum. Hún sagði að Andrea hefði verið með hníf og Jón með eitthvert rör, sennilega plaströr. Hún sagði að ákærðu hefðu verið með þessa hluti á lofti, en sagðist ekki gera sér grein fyrir í hvað röð þeir voru látnir dynja á henni. Hún sagðist ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort ákærðu tóku eitthvað úr íbúðinni þegar þau fóru, enda hefði hún verið með litla meðvitund þegar þar var komið sögu.
Brotaþoli kvaðst ekki þekkja ákærða Elías, en sagðist hafa séð hann nokkrum sinnum heima hjá Andreu og Jóni. Hún sagðist halda að þau væru öll tengd einhverju gengi.
Brotaþola var bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu 22. desember sl. hefði hún sagt að grímuklæddi maðurinn hefði skorið í fingurinn á henni. Sagði brotaþoli þá að það væri ekki rétt, en hins vegar hefðu grímuklæddi maðurinn og Jón haldið henni á meðan Andrea skar hana í fingurinn. Þá hefði Andrea ýtt nöglinni upp þar til hún fór alveg ofan í kviku og losnaði.
Brotaþoli sagði að X hefði talað um að hún væri að ógna fjölskyldu hans og kvaðst brotaþoli hafa átt erfitt með að átta sig á því hvað hann meinti með þessu. Hún sagði að í eitt skiptið þegar hún hefði hringt í síma X hefði konan hans svarað og tjáð sér að X væri að svæfa og hvort hún gæti ekki skilað til hans að hringja til baka og sagðist brotaþoli hafa þakkað henni fyrir það. X hefði síðan hringt í hana til baka og spurt hana að því hvort hún væri að hóta fjölskyldu sinni. Sagðist brotaþoli hafa sagt nei, hún hefði bara talað við konuna hans og hún hefði tjáð henni að hann væri að svæfa. X hefði þá sagt: „Ja, þú veist alveg hvað ég á við.“ Sagðist brotaþoli þá hafa sagt: „Nei, ég veit það ekki.“ X hefði þá sagt: Ef þú hefur uppi einhverjar hótanir gagnvart mér og minni fjölskyldu, þá verður því náttúrulega svarað. Brotaþoli sagðist þá hafa sagt: „Fínt, ég get komið og hitt þig hvar og hvenær sem er.“ Sagði brotaþoli að X hefði þá boðið henni að koma á tattú-stofuna til hans daginn eftir og þar gætu þau talað saman.
Brotaþoli sagðist ekki hafa áttað sig á því hvort X hefði í alvöru meint það að hún hefði verið að hóta konunni hans eða börnum, en brotaþoli sagðist ekki hafa hótað neinum nokkrum sköpuðum hlut. Brotaþoli var spurð að því hvort X hefði hótað henni og sagðist hún halda að X hefði ekki hótað sér beint, en sagðist hins vegar halda að þau hefðu öll verið að fara á bak við sig, þ.e. sagt eitt en verið að skipuleggja eitthvað annað.
Brotaþola var bent á að símtal þeirra X klukkan 00:17 hefði verið 15 mínútna langt. Sagðist brotaþoli ekki muna eftir að eitthvað meira hefði farið á milli þeirra í símtalinu en að framan greinir. Sagðist brotaþoli telja að í því væri falin hótun þegar X hefði sagt við hana að því yrði svarað ef hún hefði uppi hótanir gagnvart sér og sinni fjölskyldu.
Brotaþola var bent á að samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu hefði hún tjáð lögreglumanni á slysadeild skömmu eftir árásina að X hefði fyrir árásina hótað henni að félagar úr Hells Angels myndu valda henni líkamsskaða. Hún sagði að þarna væri rétt eftir sér haft og staðfesti hún að X hefði notað þessi orð sjálfur. Sagðist brotaþoli vera hrædd við að segja frá því að X hefði hótað sér. Sagðist hún vera hrædd við ákærða X og Hells Angels. Aðspurð af verjanda ákærða X af hverju hún hefði ekki minnst á þetta í skýrslum sínum hjá lögreglu 22., 23. 28. desember og 4. janúar sagðist brotaþoli hafa reynt að blanda X sem minnst inn í málið í fyrstu. Hún sagðist síðan hafa séð af gögnum málsins að hann hefði blandast meira inn í málið en hún gerði sér grein fyrir í fyrstu.
Brotaþoli sagði að þeir áverkar sem lýst væri í ákæru væru allir eftir árásina. Hún sagðist ekki hafa verið með nein tognunareinkenni í lendhrygg, brjósthrygg og hálshrygg fyrir hana. Staðfesti brotaþoli hafa verið með mikil eymsli í endaþarmi, leggöngum og spönginni þar á milli eftir árásina. Hún sagði að andleg líðan hennar hefði verið slæm frá því að atvik málsins áttu sér stað og sagði að málið væri búið að hafa áhrif á allt hennar líf, bæði hana sjálfa, börnin hennar og fjölskyldu hennar. Kvaðst hún hafa verið undir verndarvæng lögreglunnar frá því að atvik málsins áttu sér stað.
Brotaþoli sagði að þegar hún hefði orðið fyrir annarri líkamsárás 1. janúar sl. hefði henni fundist að hún ætti að bakka með þetta allt saman. Hún sagði að í greint sinn hefði karlmaður komið aftan að henni og sagt: „Djöfull ertu heimsk!“ og síðan sagðist hún ekki muna eftir sér fyrr en hún vaknaði uppi á sjúkrahúsi. Hún sagðist hins vegar hafa séð á myndbandi að henni hefði verið hent út úr bifreið við slysadeildina. Sagðist hún hafa vaknað uppi á sjúkrahúsinu við alveg sömu aðstæður og eftir fyrri árásina að því undanskildu að við henni hefði blasað spegilmynd fyrri upplifunar þar sem hún hefði verið í herberginu hinum megin á ganginum. Sömu lögreglumennirnir hefðu hins vegar verið yfir henni og að taka af henni skýrslu. Sagðist hún ekki hafa vitað almennilega hvað hafði gerst. Brotaþoli sagðist ekki vita hvað gerðist eða hvað var gert við hana frá því að ráðist var á hana og þar til hún vaknaði á sjúkrahúsinu. Hún sagði að þegar hún vaknaði upp hefði henni liðið eins og hún væri að upplifa nákvæmlega sama hlutinn, en bara í öðru herbergi. Henni hefði því fundist hún vera að endurupplifa fyrra atvikið. Sagðist hún að sjálfsögðu hafa viljað láta kanna ástand sitt með hliðsjón af því að hún vissi ekkert hvað hafði gerst frá því að á hana var ráðist og þar til hún vaknaði á sjúkrahúsinu. Brotaþoli sagðist vita það eitt að á hana réðist karlamaður og sagðist hún hafa haft sínar grunsemdir um hver var þar að verki.
Aðspurð af verjanda ákærðu Andreu sagði brotaþoli að sig rámaði í það að Óttar hefði komið í íbúðina um ellefuleytið um kvöldið með jólapakka. Þá sagðist hún geta fullyrt að engin læti hefðu verið í íbúðinni hjá henni á milli klukkan 19:00 og 20:00 um kvöldið þrátt fyrir upplýsingaskýrslu þess efnis í málinu.
Brotaþoli sagðist aðspurð hafa verið með síma frá Andreu í láni. Í símanum hefðu verið nektarmyndir af Andreu, m.a. myndir af kynfærum hennar og aðrar mjög viðkvæmar upplýsingar. Hún sagði að myndirnar hefðu staðfest það sem hún hefði sagt ákærða Jóni, þ.e. að hún hefði haldið fram hjá honum. Brotaþoli neitaði því eindregið að hafa hótað Andreu að hún myndi gera eitthvað á hlut dóttur hennar, R. Sagðist hún hafa passað R margsinnis og sagðist hún aldrei mundu hóta börnum eða fólki í tengslum við börnin þeirra.
Aðspurð um frásögn hennar í lögregluskýrslu um að hún hefði heyrt Óttar tala við B út um gluggann sagðist brotaþoli hafa séð á eftir Óttari loka sig inni í herbergi þegar ákærðu komu í íbúðina. Hún sagði að millihurðin fram á gang hefði verið lokuð, en hún sagðist hafa heyrt að eitthvað var í gangi í herberginu, en sagðist ekki geta fullyrt það að Óttar og B hefðu verið að tala saman.
Brotaþoli sagði að rétt væri að hún hefði fyrst haldið að grímuklæddi maðurinn væri E af því að hann hefði ætlað að vera milligöngumaður á milli hennar og Andreu og sjá til þess að þær myndu hittast. Hún sagðist ekki þekkja E vel.
Brotaþola var bent á að hún hefði borið um það hjá lögreglu að klippt hefði verið í puttann á henni. Sagði brotaþoli þá að vel gæti verið að bæði hefði verið klippt og skorið í puttann á henni, en hún sagðist ekki vita hvort Andrea var með klippur eða hníf.
Brotaþoli sagði að rétt væri að hún hefði farið í leyfisleysi inn í íbúð ákærðu Andreu í byrjun febrúar sl. Kvaðst hún hafa átt mjög erfitt uppdráttar á þessum tíma og átt mjög erfitt með að sætta sig við það sem gerst hafði. Sagðist hún hafa verið með lítið af fötum og þá hefði hana vantað leikföng dóttur sinnar og annað dót frá henni.. Brotaþoli kvaðst hafa farið á lögreglustöð sama dag og hún fór inn í íbúð Andreu og sagt lögreglu frá þessu.
Brotaþoli var spurð út í sms-skilaboð hennar til Andreu 20. desember sl. þar sem segir: „Já heyrðu sömuleiðis, þá fer ég bara í þetta á fullu. Er með sms frá þér sem vinkonur þínar í Borgartúninu myndu meta. Þú vilt stríð, flott, ég er alveg fullklár.“ Brotaþoli sagði að með „vinkonum í Borgartúni“ hefði hún átt við Barnaverndarnefnd Reykjavíkur, en brotaþoli sagðist þekkja starfsmenn hennar. Sagðist hún hafa aðstoðað Andreu í samskiptum hennar við barnaverndarnefnd, en hún kvaðst vera vel marktæk hjá barnaverndarnefnd þar sem hún hefði ekki beitt þau blekkingum.
Aðspurð af verjanda ákærða Elíasar sagði brotaþoli að Óttar hefði fengið að vera í íbúðinni í nóvember, en hann hefði ekki greitt leiguna fyrr en í desember. Hann hefði hins vegar fengið að vera áfram í íbúðinni þar til hann fyndi annan samastað.
Brotaþoli sagði aðspurð að áverkar á endaþarmi og leggöngum hennar hefðu ekki komið eftir spark ákærðu Andreu í klofið á henni. Hún sagðist ekki gera sér grein fyrir hvort kynferðisbrotið átti sér stað í lok árásarinnar eða um miðbik hennar. Aðspurð sagðist brotaþoli hafa verið misnotuð kynferðislega þegar hún var ung, en hún sagðist ekki hafa þolað kynferðisofbeldi af þessu tagi áður.
Aðspurð af verjanda Óttars sagði brotaþoli að útidyrahurðin á íbúðinni hefði verið með þriggja punkta læsingu og hefði aðeins þurft að snúa læsingunni til að opna hurðina, en hins vegar yrði að lyfta húninum og snúa til að læsa. Aðspurð sagðist hún ekki geta skýrt það af hverju hún sagði í skýrslu hjá lögreglu 23. desember að Óttar hefði komið upp og hringt og sagt í símann: „Þau eru hér tvö“, en í öðrum skýrslum hefði hún ekki minnst á þessa hringingu. Hún sagðist ekki geta sagt til um það nú hvort Óttar hringdi eftir að hann kom upp í íbúðina. Hún sagði að Óttar hefði komið fyrstur inn og farið síðastur út. Hann hefði opnað fyrir ákærðu og síðan læst á eftir sér. Hún sagðist ekki vita hvað hann gerði þarna á milli.
Brotaþoli sagðist ekki muna eftir því þegar lögregla kom á vettvang og sagðist því gera ráð fyrir að hún hefði þá verið meðvitundarlaus. Hún sagðist muna eftir að Óttari hefði brugðið þegar hann sá hana og ýtti við henni, en hún sagðist ekki hafa getað svarað honum, en getað opnað augun aðeins, en síðan hefði hún fjarað út aftur.
Brotaþoli sagðist hafa rætt við B á meðan hún var í kvennaathvarfinu og kvaðst telja líklegt að hann hefði fyllt aðeins í eyðurnar hjá henni. Síðar hefði hún lokað á B eins og aðra. Hún sagðist hafa talið líklegt að B hefði talað við Óttar á meðan hann var inni í herberginu, en hún sagði að glugginn á herberginu væri við hliðina á útidyrunum. Hún sagðist hins vegar ekki geta fullyrt um þetta, enda hefði hún verið inni í stofu á meðan.
Í upplýsingaskýrslu lögreglu um viðtal við brotaþola á slysadeild aðfaranótt 22. desember sl. lýsti brotaþoli atvikum með svipuðum hætti. Þar er þó haft eftir henni að ákærði Jón hafi slegið hana nánast strax í rot og Andrea sparkað í hana þar sem hún lá á gólfinu. Eftir brotaþola er haft að eftir að grímuklæddi maðurinn hafði sett fingur upp í endaþarm og leggögn hafi hann rifið buxurnar hennar niður og þá hafi hún haft þvaglát vegna hræðslu. Grímuklæddi maðurinn hafi þá togað buxurnar upp aftur. Þá er eftir brotaþola haft að hún hefði verið í símasambandi við ákærða X um kvöldið og að hann hefði hótað henni að félagar í Hells Angels myndu valda henni líkamsskaða og að þetta hafi tengst deilum hennar við ákærðu Andreu.
Tekin var kæruskýrsla af brotaþola hjá lögreglu 22. desember 2011 eftir hádegi á Landspítalanum í Reykjavík. Þar greindi brotaþoli frá málsatvikum með svipuðum hætti og að ofan greinir. Þar sagði brotaþoli þó að grímuklæddi maðurinn hefði dregið hana á hárinu og skellt henni á gólfið. Um leið og hann setti fingur í endaþarm og leggöng hennar og klemmdi á milli hefði hann spurt hana að því hvort hún vildi að hann skæri þarna á milli. Einnig að hann hefði tekið út á sér getnaðarliminn og haft á orði að hann myndi pissa á hana, en hún vissi ekki hvort hann hefði gert það. Þá hefði Andrea sett hníf að hálsi hennar og skorið skurfur á líma hennar hér og þar. Þá hefðu þau öll þrjú sparkað í höfuðið á henni, bakið og kviðinn.
Brotaþoli gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 23. desember 2011. Þar sagði brotaþoli að hún hefði séð Óttar fara inn í herbergið og hringja og segja í símann „þau eru hér tvö.“ Skömmu síðar hefðu ákærðu komið inn í íbúðina. Kvaðst hún halda að Óttar hefði sett krókana á hurðirnar niðri svo að þau kæmust inn í stigahúsið. Brotaþoli sagði að dyrunum hefði ekki verið læst eftir að ákærði Óttar kom inn í íbúðina. Á þessu stigi kvaðst brotaþoli halda að grímuklæddi maðurinn væri E af því hvernig hann talaði við hann og hvað hann sagði við hana.
Brotaþoli gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 28. desember 2011. Þar greindi brotaþoli frá málsatvikum með svipuðum hætti og hér fyrir dómi. Þar sagði hún þó að eftir að árásarmennirnir yfirgáfu íbúðina hefði ákærði Óttar komið til sín og sparkað létt í sig og kallað nafnið hennar. Þegar hún hefði ekki svarað hefði hann sagt: „Shit, shit, shit“ og í því sagt við einhvern í símann að hann væri að koma. Þá lýsti brotaþoli því að ákærðu hefðu dregið hana á hárinu um íbúðina og sagði að þau hafi öll sparkað í hana þar sem hún lá á gólfinu. Hún sagði að ákærði Jón hefði sparkað í sig um leið og hann kom inn og stigið á vinstri hönd hennar þegar hún lá á gólfinu. Sagðist hún hafa fengið högg og spörk frá honum líkt og hinum þegar hún lá á gólfinu. Aðspurð um ákærða X kvaðst brotaþoli vilja halda honum alfarið fyrir utan þetta mál.
Brotaþoli gaf á ný skýrslu hjá lögreglu 4. janúar 2012 og skýrði frá málsatvikum á sama hátt og hér fyrir dómi. Þar sagði hún þó að ákærði Jón hefði sparað nokkrum sinnum í hendurnar á henni og tekið hana í armlás, þ.e. snúið upp á hendi hennar aftur fyrir bak. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki vita hvort ákærði X tengdist árásinni, en sagði að hann væri eins konar fyrirliði. Hefði hún heyrt ákærðu Andreu og Jón setja hann á stall og því hefði hún beðið X um að koma á sáttum á milli þeirra Andreu.
Loks gaf brotaþoli skýrslu 11. janúar 2011. Þar sagði hún að grímuklæddi maðurinn hefði togað í buxnastreng hennar með vinstri hendi en sett hægri höndina ofna í buxurnar hjá henni.
Vitnið B sagðist hafa verið í heimsókn hjá brotaþola umrætt kvöld, en vitnið sagðist hafa verið í símasamskiptum við brotaþola fyrr um daginn. Sagðist vitnið hafa komið til brotaþola rétt fyrir miðnætti og sagðist vitnið fyrst hafa að beiðni brotaþola aðstoðað hana við að taka mótorhjól af kerru. Eftir það hefðu þau sest niður og fengið sér bjór. Eftir drykklanga stund hefði ákærði Óttar komið inn í íbúðina til að taka saman dótið sitt að eigin sögn. Hefði Óttar sagt hátt og snjallt: „Ég er farinn. Ég stend ekki í svona rugli.“ Sagðist vitnið hafa vitað að Óttar hefði verið að vísa til þess að brotaþoli var búin að vera að atast í fólki. Í fyrra skiptið sem Óttar hefði komið í íbúðina til að ná sér í bjór hefði hann sagt við brotaþola að hún yrði að fara að róa sig niður og þá hefði Óttar einnig verið að vísa til ágreinings hennar og ákærðu Andreu. Skömmu eftir að Óttar kom í íbúðina í síðara skiptið hefði þrennt komið inn í íbúðina, rekið vitnið út og gengið síðan í skrokk á brotaþola. Sagðist vitnið ekki hafa vitað fyrr en þetta fólk, sem vitnið sagðist ekki þekkja persónulega, hefði allt í einu staðið inni í stofunni, en það hefði hvorki bankað né hringt á bjöllu. Vitnið sagðist ekki hafa verið í sjónlínu við innganginn og því ekki séð í hvaða röð fólkið kom inn. Þá sagðist vitnið ekki hafa séð hvort Óttar læsti hurðinni á eftir sér. Vitnið sagði að fólkið hefði rekið hann út með því að segja honum að drulla sér út. Þá gæti verið að annar strákurinn hefði ýtt við honum, en það hefði verið sá minni og sem ekki var með grímuna. Vitnið sagði að brotaþoli hefði staðið við hillusamstæðu og töskur í stofunni þegar fólkið komið inn. Vitnið sagði að fólkið hefði rekið vitnið út úr íbúðinni og sagðist vitnið ekki hafa komist aftur inn. Sagðist vitnið hafa bankað á glugga á íbúðinni, en þar hefði einhver öskrað á vitnið. Kvaðst vitnið þá bara hafa farið og lagt af stað heim, en sagðist síðan hafa snúið við.
Sagðist vitnið hafa bankað tvisvar til þrisvar hjá brotaþola og um það bil þegar vitnið hefði verið orðið sannfært um að enginn væri heima hefði forstofuhurðin opnast og brotaþoli komið skríðandi eftir gólfinu í átt að útidyrahurðinni og opnað hana. Sagði vitnið að brotaþoli hefði teygt sig upp að snerlinum og snúið honum, en brotaþoli hefði ekki staðið í fæturna. Sagðist vitnið hafa tekið brotaþola upp og borið hana inn í stofu og sett hana fyrst í sófann, en brotaþoli hefði ekki getað setið í sófanum og því hefði vitnið á endanum lagt brotaþola á gólfið í læsta hliðarlegu og farið að leita að símanum sínum til að hringja á sjúkrabíl, en vitnið sagði að ástandið á brotaþola hefði ekki verið gott, en hún hefði ekki svarað vitninu. Kvaðst vitnið ekki geta sagt til um það hvort brotaþoli var meðvitundarlaus eða ekki. Vitnið sagði að sími vitnisins hefði orðið eftir í íbúðinni, sem hefði m.a. orðið til þess að vitnið sneri við. Sagðist vitnið ekki hafa fundið símann í íbúðinni og því hefði vitnið farið og bankað hjá nágrönnunum og fengið að hringja þar í neyðarlínuna. Vitnið sagði að blóð hefði verið á vettvangi og eitthvað blóð á höfðinu á brotaþola, en ekki mikið. Vitnið sagðist ekki muna hvort brotaþoli var með blóð á hendi. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið á þeim stað þar sem hann lagði hana í læsta hliðarlegu þar til lögregla kom á staðinn, sbr. myndir nr. 68 og 71 af vettvangi í gögnum máls. Vitnið sagðist halda að það hefði farið inn á baðherbergið til að ná í handklæði, en kannaðist ekki við að hafa farið inn í þvottahúsið.
Vitnið sagðist halda að ekki meira en hálftími hefði liðið frá því að hann fór af vettvangi og þar til hann kom aftur í íbúðina til brotaþola. Vitnið sagðist hafa verið búið að drekka hálfan bjór, en sagðist ekki hafa verið búið að neyta fíkniefna. Vitnið sagðist ekki hafa orðið vart við að brotaþoli væri að neyta fíkniefna umrætt kvöld, en sagðist hafa talið að brotaþoli væri undir áhrifum þar sem brotþoli hefði verið æst og ör. Vitnið sagði að brotaþoli hefði hins vegar verið að róast. Vitnið sagðist vera búinn að þekkja brotaþola frá því að þau voru börn og sagðist vita hvenær brotaþoli væri undir áhrifum og hvenær ekki. Sagði vitnið að brotaþoli hefði notað flest efni í gegnum tíðina. Vitnið sagðist ekki hafa sett sig inn í deilur brotaþola og ákærðu, en sagðist hafa vitað að brotaþoli hefði verið búin að áreita eitthvert fólk.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði sagt sér frá kynferðisbrotinu 25. eða 26. desember sl. Eftir það hefði hann farið aftur í skýrslutöku hjá lögreglu og sagðist hann þá hafa skýrt lögreglu frá því sem brotaþoli hefði sagt vitninu. Vitnið sagðist hafa hlúð að brotaþola á vettvangi þar til lögregla kom á staðinn og sagði að brotaþoli hefði ekkert tjáð sig. Sagðist vitnið hafa reynt að fá viðbrögð frá brotaþola, en sagðist engin hafa fengið. Þá sagðist vitnið hafa strokið blóð framan úr brotaþola til að athuga hvort hún væri heil. Vitnið sagði að sér hefði ekki fundist brotaþoli vera meðvitundarlaus, en hún hefði hins vegar ekki svarað neinu áreiti. Sagði vitnið að brotaþoli hefði ekki gefið til kynna að kynferðisbrot hefði verið framið.
Vitnið sagði að einn árásarmannanna hefði verið með skíðagrímu, en kvaðst ekki muna hvort hann var með hanska. Í fyrstu kvaðst vitnið ekki muna eftir því hvort það sá fólkið aftur þegar vitnið kom til baka. Síðar í skýrslunni rifjaðist hins vegar upp fyrir vitninu að það hefði mætt fólkinu á bifreið af gerðinni Toyota Corolla þegar vitnið kom til baka, en þá hefði fólkið verið að aka frá [...]. Sagðist vitnið hafa séð fólkið inni í bifreiðinni og kvaðst halda að fólkið hefði tekið eftir vitninu á sinni bifreið. Vitninu var bent á að í skýrslutöku hjá lögreglu hefði vitnið ekki borið um það að hafa lagt af stað heim á leið. Sagðist vitnið þá hafa lagt af stað á bifreið og ætlað til bróður síns í [...]. Þá var vitninu bent á að í lögregluskýrslu hefði það borið um að hafa drukkið þrjá bjóra og sagði vitnið þá að það gæti vel verið. Vitnið sagði að dyrnar á stigaganginum niðri hefðu verið opnar þegar hann kom til baka, en vitnið sagði að nóg hefði verið að ýta á hurðina til að komast inn. Sagðist vitnið því hafa gengið greiðlega inn.
Vitninu var bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu hefði það borið um það að hafa ekkert farið frá húsinu. Sagði vitnið þá að hið rétta væri að hann hefði ekið í burtu frá húsinu og út í [...]. Vitnið sagði að rétt væri að örfáar mínútur hefðu liðið frá því að hann komst inn í íbúðina og þar til hann hringdi á neyðarlínu. Vitninu var bent á að gengið væri út frá því í málinu að árásarfólkið hefði yfirgefið vettvang klukkan 02:40 og að vitnið hefði hringt á neyðarlínu klukkan 03:18. Var vitnið spurt að því hvað hefði gerst á þessum 38 mínútum. Sagðist vitnið hafa verið að leita að símanum og fengið að hringja hjá lögreglu. Vitnið neitaði því að einhver sviðsetning hefði verið á vettvangi og sagði að þetta mál væri vitninu óviðkomandi. Nánar aðspurt sagðist vitni hafa bankað á glugga á íbúðinni eftir að vitninu var hent út og hefði einhver öskrað á hann úr herberginu. Vitnið sagði að fólkið hefði verið ógnandi þegar þau komu inn. Sagðist vitnið hafa hugleitt það að kalla á lögreglu og því hefði vitnið snúið við, en sagði að þetta mál hefði verið vitninu óviðkomandi. Vitninu var bent á að í lögregluskýrslu hefði vitnið sagt að það gæti ekki sagt til um það hversu langur tími leið frá því að fólkið kom í íbúðina og þar til lögreglan kom, en það væri á bilinu 30-60 mínútur. Sagði vitnið að þetta væri rétt.
Vitnið var spurt að því af hverju það hefði ekki skýrt lögreglu frá því að vitnið hefði farið af vettvangi. Vildi vitnið í fyrstu meina að það hefði skýrt frá því hjá lögreglu, en sagði síðan að ástæða þess að það hefði ekki skýrt frá þessu væri sú að vitnið væri próflaust. Þá sagðist vitnið hafa verið undir áhrifum áfengis, en vitnið hefði verið búið að drekka þrjá til þrjá og hálfan bjór. Vitnið sagði að framburður sinn hjá lögreglu um það sem gerðist eftir að vitninu var hent út úr íbúðinni litaðist talsvert af því að hann hefði verið að fela það fyrir lögreglunni að hann hefði verið að aka bifreið. Þá sagði vitnið að þegar hann hefði gefið skýrslu hjá lögreglu um hádegi 23. desember hefði hann verið búinn að vera vakandi frá því að atvik gerðust. Sagðist vitnið hafa misst það út úr sér nú fyrir dómi að hann hefði ekið bifreið.
Vitnið sagði að litið hefði út fyrir að brotaþoli hefði verið slegin í rot. Aðspurt sagðist vitnið ekki hafa séð hníf eða klippur liggja á glámbekk hjá brotaþola áður en fólkið kom í íbúðina. Aðspurt sagðist vitnið aðeins einu sinni hafa rætt við brotaþola eftir að atvik málsins áttu sér stað.
Vitnið sagði að áreiti, sem hann hefði orðið fyrir og tilkynnt um til lögreglu 13. janúar sl., hefði reynst vera máli þessu algjörlega óviðkomandi, sbr. skýrslu á skjali merktu II.9.3.
Vitnið Lárus Már Andrésson lögreglumaður lýsti aðkomu lögreglu á vettvang. Kvað hann brotaþola hafa legið meðvitundarlausa eða meðvitundarlitla á gólfinu í sjónvarpsrými. Blóð hefði verið á vettvangi og mikið af hári. Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki brugðist við áreiti og ekki svarað þegar reynt hefði verið að ræða við hana. Einu viðbrögðin frá brotaþola hefðu verið stunur. Kvaðst vitnið ekki hafa getað gert sér grein fyrir hvar blæddi úr brotaþola, en sennilega hefði það verið úr höfði og fingrum. Vitnið sagði að vinur brotaþola, B að nafni, hefði verið á vettvangi þegar lögregla kom. B hefði tjáð þeim að honum hafi verið hent út úr íbúðinni þegar árásarfólkið kom og útidyrahurðinni verið læst. Vitnið sagði að sig minnti að B hefði talað um að útidyrahurðin hefði verið ólæst þegar hann var inni í íbúðinni. Síminn hefði verið tekinn af honum þannig að hann hefði ekki getað hringt í neyðarlínuna. Vitnið kvaðst minna að B hefði nefnt ákærðu Andreu, sem eina af þeim sem ráðist hefði á brotaþola. Lárus kvaðst ekki hafa handtekið ákærðu. Lárus kvaðst ekki hafa nákvæma tímasetningu á því hvenær hann kom á vettvang, en kvaðst hafa verið fyrstur á vettvang.
Vitnið kvaðst hafa gert frumskýrslu í málinu og skráð þar heiti brots, þ.e. brot gegn 217. gr. almennra hegningarlaga, en vitnið sagði að það brot væri skráð í fyrstu eða þar til annað kæmi í ljós. Vitnið kvaðst hafa rætt við vitnið B og sagði að sig minnti að B hefði talið að nokkrar mínútur, ef til vill fimm til tíu mínútur, væru liðnar frá því að árásin átti sér stað. Vitninu var bent á að samkvæmt gögnunum hefðu 38 mínútur liðið frá því að árásinni lauk og þar til hringt hefði verið á neyðarlínuna. Kvaðst vitnið ekkert geta sagt til um það. Aðspurt sagði vitnið að engin merki hefðu verið um sviðsetningu á vettvangi. Vitnið staðfesti að brotaþoli hefði legið á hliðinni eins og sæist á mynd nr. 69 í gögnum máls, upp við vegg við hliðina á sjónvarpinu, þegar lögreglan hefði komið á vettvang. Að lokum staðfesti vitnið efni frumskýrslu málsins.
Vitnið Pétur Már Sveinsson lögreglumaður kvaðst hafa ritað upplýsingaskýrslu vegna samtals við brotaþola á slysadeild. Í fyrstu hefði hann rætt einn við brotaþola, en síðan hefði Haukur Bent Sigmarsson lögreglumaður einnig komið og rætt við brotaþola. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega klukkan hvað vitnið ræddi við brotaþola á slysadeild, en líklega hefði það verið á milli klukkan fimm og sex. Vitnið kvað brotaþola hafa greint svo frá að ákærðu Andrea, Jón, kærasti hennar, og einhver þriðji maður, sem hefði verið með grímu, hefðu ráðist á sig á heimili sínu. Hún hefði fljótlega verið slegin í rot og þá hefði verið sparkað í hana, en einn árásarmannanna hefði verið í skóm með stáltá. Sá sem hefði verið með dulu fyrir andlitinu hefði farið með fingur inn fyrir nærbuxur og buxur brotaþola og sett fingur í leggöng og í endaþarm og klemmt á milli. Sá hinn sami hefði hvíslað að henni eitthvað á þá leið að hann væri ekki þessi góði strákur. Þá hefði brotaþoli greint frá því árásarfólkið hefði neytt ofan í hana fíkniefni, líklega amfetamín. Einnig hefði brotaþoli greint svo frá að hún hefði verið í símasamskiptum við ákærða X áður en atburðirnir gerðust vegna deilna hennar og Andreu. Kvaðst vitnið ekki muna nákvæmlega hvort brotaþoli hefði rætt um hótanir, en langt væri um liðið síðan hann ritaði skýrsluna og kvaðst vitnið vísa til hennar um það sem hann myndi ekki nú. Þá hefði brotaþoli nefnt ákærða Óttar og sagði vitnið að sig minnti að brotaþoli hefði talað um hann hefði verið hjá henni í um tvær vikur.
Þá sagði vitnið að brotaþoli hefði nefnt það að á hana hefði verið ráðist vegna síma frá Andreu, sem hún hefði verið með í sinni vörslu, en í símanum hefðu verið viðkvæmar myndir eða upplýsingar. Vitnið sagði að ef það kæmi fram í skýrslu hans að brotaþoli hefði tjáð honum að ákærði X hefði hótað henni að meðlimir í Hells Angels á Íslandi myndu valda henni líkamstjóni þá væri það rétt, en vitnið kvaðst ekki muna þetta nú. Vitnið sagðist hafa ritað viðtal vitnisins við brotaþola niður jafnóðum og síðan hefði skýrslan verið rituð í kjölfarið. Þá staðfesti vitnið að hafa ritað upplýsingaskýrslu þá sem lægi frammi í málinu. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið mjög hrædd og virkað mjög trúverðug.
Aðspurt kvaðst vitnið ekki muna hvort brotaþoli hefði reynt að lýsa vaxtarlagi þess sem var með grímuna, en vitnið tók fram að brotaþoli hefði verið í miklu uppnámi. Kvaðst vitnið örugglega hafa spurt um það, en sennilega hefði brotaþoli ekki getað svarað honum. Vitnið sagðist ekki minnast þess að brotaþoli hefði minnst á E eða húðflúr. Vitnið kvaðst hvorki muna eftir því að brotaþoli hefði talað um garðklippur eða hníf. Hún hefði hins vegar talað um að árásarmennirnir hefðu neytt ofan í sig amfetamíni.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið í svo miklu uppnámi þegar hann ræddi við hana að hann hefði ekki hafa getað greint það hvort hún væri undir áhrifum lyfja eða fíkniefna. Aðspurt kvað vitnið byggja mat sitt á trúverðugleika brotaþola á innsæi sínu þegar hann sæi ofsahrædda manneskju. Kvaðst vitnið aðspurt ekki verið sálfræðimenntað. Vitnið sagði að brotaþoli hefði legið á gólfi í stofunni þegar lögregla kom á vettvang, eins og sjá mætti á mynd nr. 69, en tók fram að þeir hefðu þurft að færa sófann frá. Ekkert hefði verið rætt um það á vettvangi að kynferðisbrot hefði verið framið. Brotaþoli hefði verið mjög rænulítil eða svo til meðvitundarlaus. Vitnið kvaðst ekki muna klukkan hvað hann og Lárus Már komu á vettvang, en sennilega hefði það verið um klukkan 03:20 eins og greindi í frumskýrslu.
Vitnið P kvaðst hafa verið í samskiptum við ákærða Óttar aðfaranótt 22. desember 2011. Sagði vitnið að þeir hefðu hist á Hressó um níu- eða tíuleytið og fengið sér bjór. Þeir hefðu síðan fengið sér að borða og farið svo í partí á [...] um tvöleytið um nóttina. Vitnið sagði að Óttar hefði farið úr partýinu eftir að hringt hafði verið í hann. Síðar um nóttina hefði Óttar beðið vitni um að fara og sækja poka með fötum, en ákærði hefði tjáð honum að hann væri að fara í flug daginn eftir. Sagðist vitnið hafa ætlað að sækja pokann, en þegar hann hefði komið að blokkinni á [...] hefði lögreglubifreið verið fyrir utan húsið. Sagðist vitnið hafa verið búið að heyra að einhver læti hefðu átt sér stað þarna áður og þegar hann hefði séð lögreglubílinn fyrir utan húsið hefði hann ákveðið að doka við og athuga málið, en vitnið sagðist hafa verið svolítið forvitið. Vitnið sagði að Óttar hefði greint sér frá því að læti hefðu átt sér stað þarna, en ekki talað meira um þau. Þá hefði Óttar sagt sér að enginn væri í íbúðinni. Vitnið sagði að þegar Óttar hefði beðið vitnið um að sækja pokann hefði hann virkað á vitnið eins og hann ætti að sér að vera. Sagði vitnið að Óttar hefði látið sig fá lykla að íbúðinni.
Aðspurt sagði vitnið að Óttar hefði lítið rætt S.O.D við sig, en tjáð sér að þetta væri mótorhjólaklúbbur. Vitnið sagði að Óttar hefði drukkið talsvert um nóttina og verið drukkinn. Vitnið sagði að Óttar hefði farið einu sinni úr partíinu og komið síðan aftur með kókdós. Síðar hefði hann farið aftur úr partíinu, en vitnið sagðist ekki muna klukkan hvað það var. Eftir einhvern tíma hefði Óttar hringt í vitnið og beðið það um að ná í pokann í íbúðina og kvaðst vitnið halda að það hefði verið upp úr klukkan þrjú.
Vitnið kvaðst sjálft hafa verið drukkið, en alveg með rænu. Vitninu var bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu 28. desember 2011 hefði hann tjáð lögreglu að ákærði Óttar hefði verið stressaður þegar hann hefði látið vitnið hafa lyklana að íbúðinni. Sagði vitnið að þetta gæti verið rétt, en sagði að Óttar hefði virkað á sig eins og hann vildi ekki sækja fatapokann sjálfur, en það gæti hafa verið vegna þess að hann hefði verið svo drukkinn. Vitninu var bent á að í skýrslu sinni hjá lögreglu hefði vitnið skýrt svo frá að Óttar hefði sagt sér ýmsar sögur af S.O.D. og að vitnið gerði sér vel grein fyrir því að Óttar væri ekki alltaf réttum megin við lögin. Einnig að Óttar hefði boðið vitninu inngöngu í S.O.D. en vitnið hefði neitað því. Sagðist vitnið hafa átt við það að hann hefði heyrt sögur af því að ákærði keyrði oft hratt á mótorhjóli.
Vitnið S greindi svo frá að hann hefði verið með ákærða Óttari aðfaranótt 22. desember 2011. Kvaðst vitnið hafa hitt ákærða á Hressó og síðan farið í partí í Hafnarfirði, en Óttar hefði farið úr partíinu um 20 mínútum á undan vitninu. Vitnið sagðist ekki vita hvað klukkan var þá. Kvaðst vitnið síðan hafa hitt ákærða Óttar seinna um nóttina, en þá hefði ákærði beðið þá um að fara og sækja fatapoka. Sagði vitnið að Óttar hefði sennilega ekki nennt að fara sjálfur að sækja pokann þar sem hann hafi verið svo fullur. Þá hefði Óttar greint þeim frá því að einhver læti hefðu verið í íbúðinni fyrr um nóttina en íbúðin væri nú tóm. Hann hefði látið hann og P hafa lykla til að fara inn í íbúðina. Þeir hefðu hins vegar hætt við að fara inn í íbúðina þegar þeir hefðu séð lögregluna fyrir utan fjölbýlishúsið og að hlaupa inn í húsið. Þeir hefðu því farið og sagði vitnið að þeir hefðu ekkert vitað hvað var í gangi. Vitnið sagði að Óttar hefði verið eins og hann átti að sér að vera þegar hann bað þá að fara inn í íbúðina og sagði að hann hefði ekki virst vera stressaður. Sagði vitnið að Óttar hefði verið mjög ölvaður, en vitnið kvaðst sjálft hafa verið alsgáð þetta kvöld.
Vitnið Q kvaðst ekki hafa verið í öðrum samskipum við brotaþola að kvöldi 21. desember 2011 en þeim, að brotaþoli hefði hringt í sig til að sækja mótorhjól í eigu ákærðu Andreu úr geymslu af verkstæði, sem vitnið kveðst vinna á. Hann kvaðst ekki hafa fett fingur út í það að brotaþoli sækti hjólið þar sem hann hefði talið þær Andreu vera vinkonur. Brotaþoli hefði síðan komið og hefði hún notið aðstoðar við að setja hjólið á kerru. Síðar um kvöldið kvaðst vitnið hafa frétt af því að eitthvert rifrildi væri í gangi og að brotaþoli hefði tekið hjólið ófrjálsri hendi. Vinur vitnisins, E, hefði hringt í vitnið og tjáð því þetta. Vitnið sagði að hjólið hefði verið sótt um tíu- eða ellefuleytið, en þegar vitnið hefði verið á leiðinni heim um tólfleytið hefði E hringt í vitnið. Kvaðst vitnið þá hafa séð að í símanum voru ósvöruð símtöl frá ákærðu Andreu. Aðspurt um hvað farið hefði á milli brotaþola og vitnisins sagði vitnið að brotaþoli hefði vaðið um allt þegar hún kom að sækja hjólið og sagðist vitnið ekki hafa náð samhengi í það sem hún sagði. Þá hefði brotaþoli reitt fram hvítt efni sem vitnið hefði talið vera amfetamín og sagt að hún gæti komist í mikið af svoleiðis ef vitnið og annar maður, sem var staddur á verkstæðinu, gætu hjálpað sér að losa sig við amfetamínið. Hún hefði sem sagt verið að bjóða þeim amfetamín til kaups. Kvaðst vitnið hafa merkt það á lyktinni að um amfetamín væri að ræða. Aðspurt kvað vitnið ákærða Óttar hafa verið á staðnum, en kvaðst ekki muna hvort hann og brotaþoli komu saman, en sagði að Óttar hefði að minnsta kosti komið á svipuðum tíma.
Vitnið kvaðst þekkja ákærða Y úr mótorhjólabransanum og vita til þess að hann kynni að gera við hjól, en sagðist ekki vita til þess að hann hefði það að atvinnu. Aðspurt sagði vitnið amfetamínið, sem brotaþoli bauð til kaups, hafa verið í poka. Sagði vitnið að ástæða þess að hann greindi ekki frá þessu hjá lögreglu væri sú að hann hefði ekki verið spurður að þessu og ekki talið það sitt hlutverk að benda á þetta. Vitnið kvaðst varla vera dómbært á það hvort brotaþoli var undir áhrifum fíkniefna eða áfengis, en sagði að hún hefði verið mjög ör. Kvaðst vitnið vera málkunnugt brotaþola, en sagði að ákærðu væru öll vinir hans.
Vitnið T neitaði því að hafa útvegað eða selt ákærðu Andreu hníf. Vitnið var spurt um sms-skilaboð, sem vitnið sendi ákærðu Andreu, svohljóðandi: „Þú manst að þú hefur aldrei fengið hnífa héðan.“ Sagðist vitnið kannast við þessi skilaboð. Sagðist vitnið hafa látið Andreu fá hnífa, en ekki þennan dag. Sagðist vitnið hafa keypt hnífa á afslætti í fyrirtækinu og selt Andreu þá á fullu verði og hefði vitnið ekki viljað að yfirmenn hans fréttu af þessu. Nánar aðspurt kvaðst vitnið hafa einu sinni hafa selt Andreu hníf. Kvaðst vitnið vinna hjá fyrirtæki sem selji hnífa
Vitnið U, fyrrverandi kærasta ákærða Y, skoraðist undan því að gefa skýrslu í málinu.
Vitnið Svanur Elísson rannsóknarlögreglumaður kvaðst hafa annast rannsókn á vettvangi. Þegar vitnið hefði komið á vettvang hefðu verið þar fyrir lögreglumenn ásamt vitninu B. Blóð hefði verið á gólfi, útidyrahurð, í stofunni, inni á baði og á ganginum sem liggi að útidyrahurðinni. Þá hefðu verið ljósar hárflyksur á gólfi. Einnig hefðu verið þarna klippur, sem lögreglan hefði lagt hald á. Vitnið sagði að vettvangurinn hefði miðast við stofuna, eldhúsið og ganginn fram að útidyrahurð. Aðspurt nánar um blóð á gólfinu staðfesti vitnið að svo hefði virst sem brotaþoli hefði náð að skríða eftir gólfi inn í anddyri og náð að opna útidyrahurðina fyrir þeim sem læstur var úti. Þannig hefði myndast blóðslóð, þ.e. blóðslettur hefðu verið á gólfinu og neðarlega á veggnum, svo og í anddyrinu og á hurðinni. Myndir af vettvangi voru bornar undir vitnið og sagðist vitnið reikna fastlega með því að blóðið væri eftir það þegar brotaþoli hefði skriðið fram ganginn. Sagði vitnið að lögreglumenn á vettvangi hefðu tjáð sér að brotaþoli hefði skriðið fram og að vitni hefði borið um það að hafa borið brotaþola inn aftur. Þá væru blóðsletturnar það neðarlega á veggnum og hurðinni og síðan gólfinu að það samræmdist því að hún hefði skriðið eftir gólfinu, en hefði ekki komið af því að brotaþoli hefði verið flutt til. Aðspurt um merki um átök á vettvangi sagði vitnið að svo hefði virst að stofuborðið og sófinn hefðu verið færð til, en sagði að það gæti verið eftir sjúkraflutningamennina eða lögreglumennina þegar þeir hlúðu að brotaþola. Vitnið kvaðst ekki geta sagt að um bein merki um átök hefði verið að ræða á vettvangi. Vitnið greindi frá því að fíkniefni hefðu fundist á ísskápnum og í eldhúsinu hafi verið einhverjar fíkniefnaleifar og staðfesti vitnið aðspurt að það hefði verið tóbaksblandað kannabis. Vitnið kvaðst ekki hafa séð neinar leifar af hvítu efni á stofuborðinu.
Vitnið sagði að útidyrahurðin hefði verið með þriggja punkta læsingu og yrði að læsa með lykli að utanverðu. Vitnið kvaðst ekki hafa leitt hugann að því að um sviðsetningu hefði verið að ræða, en kvaðst ekki telja að svo hefði verið þar sem blóðsletturnar hefðu náð frá þeim stað þar sem brotaþoli lá upprunalega og að útidyrahurðinni. Um væri að ræða blóðslettur á gólfi og neðarlega á vegg. Að því er varðar blóð í sófanum sagði vitnið að lögreglumenn hefðu tjáð sér að vitnið B hefði borið brotaþola inn eftir að hún hafði opnað hurðina fyrir honum og lagt hana í sófann. Vitnið kvaðst hafa tekið hárið í sínar vörslur, en ekki annast rannsókn á því.
Vitnið sagði að dyrnar á stigahúsinu væru að öllu jöfnu læstar og sagðist vitnið hafa þurft að láta opna fyrir sér þegar það kom á vettvang. Vitnið sagðist ekki hafa tekið eftir því hvort krækjur voru við aðalinnganginn niðri til að halda hurðinni opinni, en sagði að á millihæðinni á þriðju hæðinni væru krækjur. Dyrnar á millihæðinni hefðu hins vegar verið ólæstar.
Vitnið kvaðst hafa farið að Breiðuvík og tekið myndir þar. Á þeim myndum sjáist Hells Angels-merki sem vitnið kunni ekki skýringar á. Þá sjáist símar á myndum, uppstilltir, en þetta séu símar sem hefðu verið hér og þar í íbúðinni.
Aðspurt um blóðslettur á baðherbergi og í þvottaherbergi kvaðst vitnið ekki vita um ástæður þess að þar voru blóðslettur. Kvaðst vitnið ekkert hafa rætt við brotaþola. Þá sagði vitnið að vel gæti verið að lítið hefði blætt úr brotaþola þegar hún skreið fram í anddyrið og því væri ekki meira blóð á gólfinu en raun ber vitni. Vitnið kvaðst halda að ekkert blóð hefði verið á ákærðu Andreu við handtöku.
Aðspurt um menntun vitnisins sagðist vitnið hafa unnið í tæknideild lögreglunnar í nokkur ár og sótt námskeið í þessum fræðum, bæði í Danmörku og Noregi.
Vitnið var spurt um umfjöllun í skýrslu sinni á blaðsíðu 48, undir mynd nr. 82, en þar kæmi fram að greina hefði mátt fáar höggslettur, sem benti til þess að brotaþoli hefði legið á gólfinu þegar henni voru veittir áverkar og skýringin á fáum blóðslettum væri sú að blóðsletturnar hefðu kastast á ætlaða gerendur. Var vitnið beðið um skýringu á þessu. Sagði vitnið þá að þetta væri ályktun Ragnars Jónssonar, blóðslettusérfræðings, en vitnið kvaðst einungis hafa fært þetta inn í skýrsluna. Aðspurt hvernig það samræmist því að ekkert blóð hefði fundist á fötum ákærðu sagðist vitnið ekki hafa skýringar á því, en sagðist ekki vita hvenær ákærðu voru handtekin, þ.e.a.s. hvort þau voru handtekin í beinu framhaldi af verknaðinum. Vitnið tók hins vegar fram að ef blóðslettur kastist frá þá kastist þær á húsgögn, fatnað eða annað í kring, en rétt væri að Ragnar skýrði það atriði.
Vitninu var bent á að samkvæmt gögnum málsins hefði einungis greinst blóð á öðrum skó ákærðu Andreu. Var vitnið spurt að því hvort það samræmdist því mikla magni af blóði, sem verið hefði á vettvangi, sér í lagi ef að ákærða hefði staðið yfir brotaþola. Vitnið kvað það vel geta staðist og færi það einungis eftir því hvar ákærða hefði gengið um íbúðina. Aðspurt um ætlaðan upphafsstað árásar, merktan nr. 1 á teikningu, sagði vitnið að allt benti til þess að þar hefðu átökin hafist. Var vitninu bent á að þar við hliðina væri hár skápur með styttum ofan á, sem ekkert virtust hafa hreyfst og var vitnið spurt að því hvort það benti til þess að um sviðsetningu væri að ræða. Sagðist vitnið ekkert hafa leitt hugann að því og því gæti það ekkert tjáð sig um það. Aðspurt sagði vitnið að hvorki hefðu fundist nothæf fingraför né blóð á klippum, á bls. 34 í vettvangsskýrslunni. Aðspurt um mynd af skófari á bls. 27 í sömu skýrslu sagði vitnið að skófarið hefði ekki verið samanburðarhæft, þ.e. það hefði verið frekar dauft og ekki nothæft far. Vitnið kvaðst ekki vita úr hverjum blóðið á baðherbergi var.
Vitnið Ragnar Jónsson lögreglumaður kvaðst hafa komið á vettvang í greint sinn með Svani vinnufélaga sínum. Vitnið sagði að Valþór vinnufélagi þeirra, sem hefði verið nýbyrjaður í starfi, hefði eingöngu komið með til að sjá hvernig rannsókn sem þessi færi fram. Aðspurt um menntun sína í rannsóknum á vettvangi sagði vitnið að hún væri fólgin í blóðferlagreiningu og sagðist vitnið hafa sérhæft sig í henni frá árinu 2001. Vitnið hefði hlotið menntun sína í Bandaríkjunum, en einnig hefði vitnið sótt ráðstefnur og námskeið víðs vegar um Evrópu.
Vitnið kvaðst ekki hafa ritað skýrslu um vettvangsrannsóknina, en sagði að það sem þar kæmi fram væri haft eftir vitninu. Vitnið sagði að það væri meginregla að þegar um höggslettur væri að ræða og eyða hefði myndast í kringum blóðug svæði hefði verið þar einhver fyrirstaða, manneskja eða munur. Einnig væri þekkt að unnt væri að veita fólki áverka án þess að blóð slettist, til dæmis með því að skera það þannig að mikið blæddi. Það væri því einna helst þetta tvennt sem gæti skýrt það að á vettvangi, þar sem talið væri að ráðist hefði verið á brotaþola, hefðu verið óvenjufáar blóðslettur. Vitnið sagði að slettist blóð alltaf annað hvort af áhaldi eða hlut á hreyfingu þannig að þar þyrfti ákveðinn kraftur að vera að verki og þá yrðu blóðblettirnir ákaflega litlir og stefnulaga. Þumalputtareglan væri að þetta gerðist við högg númer tvö, þ.e. fyrsta höggið blóðgaði manneskju, en við högg eða spark númer tvö væri blóðið farið að kastast eða dreifast. Þá var lagt fyrir vitnið að fram hefði komið í málinu að ekkert blóð hefði greinst á fötum ákærðu í þessu máli, þ.e. einungis á einni hlið á skóm. Aðspurt hvernig skýringin um ætlaða fyrirstöðu samræmdist þessu sagði vitnið að hin ætlaða fyrirstaða væri meginregla, þ.e.a.s. ef það hefðu myndast eyður þá hefði einhver fyrirstaða verið fyrir hendi. Hvort ákærðu hefðu verið handtekin klukkutíma eða tíu tímum seinna hefði vitnið svo ekkert með að gera. Alveg augljóst væri að brotaþola hefði blætt og hún fengið einhver högg því blóð hefði slest í einhverjum mæli. Þá hefði brotaþoli fengið það mikla áverka að henni hefði blætt töluvert mikið. Annað væru bara getgátur hjá vitninu. Vitnið tók fram að það hefði ekki ritað skýrsluna og væri kannski ekki fullkomlega sátt við hvernig efni hennar væri sett fram.
Vitnið sagðist hafa skoðað ætlaðan upphafsstað á vettvangi með vinnufélaga sínum, en brotaþoli hefði legið fáeinum metrum frá hinum ætlaða upphafsstað innar í íbúðinni. Þeir hefðu einnig séð önnur blóðug ummerki eins og á útidyrahurðinni að innanverðu en þar hefði verið mikið blóðkám. Vitnið sagði að brotaþoli hefði klárlega legið á þeim stað þar sem blóðblettirnir voru á gólfinu, en þar hefði einnig verið hár eða hárlengingar og sagði vitnið að blóðblettirnir hefðu verið óreglulegir, en þekkt væri að það gerðist þegar blóð kæmist í hár. Á staðnum þar sem brotaþoli lá þegar lögregla kom á vettvang hefðu verið blettir, sem væru einkennandi fyrir blóð sem kæmi frá vitum, en það væru blettir með loftbólum og sagði vitnið að þegar slíkir blettir þornuðu þá yrðu eftir hringir með eyðu í miðjunni. Vitnið var spurt um blóðkámið innan á hurðinni og hvort vitnið gæti gert sér í hugarlund hvort brotaþoli hefði staðið upp, setið eða legið eða teygt sig upp þegar hún opnaði hurðina. Vitnið sagðist ekki geta áttað sig á því út frá káminu.
Vitnið kvaðst ekki muna eftir því að vitninu hefði fundist eitthvað óeðlilegt við ummerki á vettvangi. Aðspurt um mynd af sófa á vettvangi sagði vitnið að nóg hefði verið að brotaþoli hefði legið þar í nokkrar sekúndur til að slíkir blóðblettir mynduðust. Vitnið sagði að ef um væri að ræða hringlaga bletti á gólfi eða tauma eftir vegg þá benti það til þess að blóð hefði fallið beint niður af blæðandi manneskju.
Fyrir vitnið voru lagðar myndir úr sömu skýrslu um vettvangsrannsóknina og niðurstaða úr skýrslunni um þá leið, sem talið væri að brotaþoli hefði farið að útidyrahurð. Sagðist vitnið ekki gera neinar athugasemdir við niðurstöðu samstarfsmanns síns í skýrslunni.
Vitnið sagði að fáar blóðslettur hefðu verið á vettvangi og að greina hefði mátt eyður sitthvoru megin, þ.e. nær sófanum. Annars vegar væri meiri blóðdreifing til hliðanna, en hins vegar væri blóð á vegg og á skáp sem þarna hefði verið. Vitnið sagðist hafa séð töskur upp við skápinn fyrr um nóttina eða um morguninn, en þær hefðu ekki verið þar þegar þeir komu á staðinn seinna um daginn. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa skoða þær sérstaklega, þ.e. hvort blóð hefði verið á þeirri hlið sem sneri að brotaþola.
Vitnið V sagðist minnast þess að konan hans hefði vakið hann upp umrædda nótt og sagt vitninu að það væri mjög mikill hávaði í húsinu. Sagðist vitnið ekki vita klukkan hvað þetta var, en vitnið sagðist hafa verið vakandi í um klukkutíma og hefði verið eins og það væri að draga úr látunum. Kvaðst vitnið því hafa farið að sofa aftur, en vitnið sagðist hafa haldið að um drykkjulæti væri að ræða og því hefði vitnið ekki gert mikið með þetta. Daginn eftir hefðu þau farið að ræða þetta betur og þá hefði kona vitnisins farið að segja því að henni hefði fundist eins og verið væri að henda fólki í veggi og þá hefði hún heyrt óp. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa heyrt það að verið væri að berja að dyrum. Kona vitnisins hefði hins vegar heyrt mun meira en vitnið, en hún hefði verið vakandi í um tvo klukkutíma.
Aðspurt sagði vitnið að dyrnar á stigaganginum væri ekki alltaf læstar því stundum væri eins og hún lokaðist ekki almennilega. Sagði vitnið að þrýsta þyrfti á hurðina til að loka henni almennilega. Nánar aðspurt sagði vitnið að hurðin lokaðist stundum og stundum ekki.
Vitnið kvaðst hafa heyrt einhverjar barsmíðar um nóttina, þ.e. í lokin, en sagðist ekki geta tímasett það nákvæmlega. Þetta hefði þó verið eftir miðnætti. Vitnið sagðist búa á fimmtu hæð í íbúð [...]. Vitnið sagðist ekki vita hvaðan hávaðinn barst úr húsinu. Nánar aðspurt kvaðst vitnið hafa heyrt kvenmannsrödd eða raddir og eins og verið væri að henda einhverjum á milli eða í vegg. Vitnið sagðist ekki hafa tengt hávaðann við ofbeldi þrátt fyrir að hafa heyrt dynki. Vitnið staðfesti framburð sinn hjá lögreglu að því undanskildu að hann kannaðist ekki við að hafa heyrt að knúið hefði verið fast og lengi á útidyrahurð. Vitnið sagðist ekki hafa skýringar á því af hverju aðrir íbúar í húsinu urðu ekki varir við þennan hávaða.
Vitnið Z sagðist búa í íbúð nr. [...] að [...] í [...]. Hún sagðist hafa vaknað upp við mikinn hávaða aðfaranótt 22. desember sl., þ.e. fólk að tala og mikla dynki eins og eitthvað væri að skella utan í veggi eða gólf. Sagðist hún ekki muna hvað klukkan var. Hún sagði að sér hefði ekki þótt þetta eðlilegt og sagðist hún hafa beðið dágóða stund, en þetta hefði bara magnast. Hún sagði að sér hefði ekki staðið á sama og því hefði hún vakið manninn sinn. Hann hefði bara róað hana niður og sagði vitnið að þetta hefði síðan gengið yfir. Hún sagðist oft hafa orðið vör við hávaða í húsinu vegna skemmtanahalds, þ.e. hávaða í tónlist og þess háttar, en þetta hefði verið eitthvað allt annað. Vitnið sagði að þetta hefði staðið yfir í góða stund eða u.þ.b. 15-20 mínútur. Vitnið sagði að sér hefði ekki fundist þetta koma frá sömu hæð og vitnið byggi á, en vitnið sagðist búa á efstu hæðinni og því hljóti hávaðinn að hafa borist af hæðunum fyrir neðan íbúð vitnisins. Vitnið sagðist ekki hafa farið út í glugga til að athuga mannaferðir.
Vitnið Þ, íbúi að [...] í [...], kvaðst hafa komið heim til sín einhvern tímann eftir kvöldmat að kvöldi 21. desember og verið sofnuð um miðnætti. Til hennar hefði leitað náungi um klukkan tvö eða þrjú um nóttina og beðið um að fá að hringja á neyðarlínuna. Kvaðst vitnið hafa hringt í neyðarlínuna og síðan afhent viðkomandi símann. Kvaðst hún síðan hafa farið út úr sinni íbúð til að ná í símann sinn, en ekki farið inn í íbúð brotaþola þar sem maðurinn hefði komið á móti sér með símann. Kvaðst hún ekki hafa orðið vör við neinn hávaða eða læti um nóttina og verið sofandi, en vaknað upp við það að áðurnefndur maður hefði barið á hurðina til að hringja. Vitnið staðfesti og að einhver hefði knúið að dyrum hjá henni fyrr um daginn og spurt hvort brotaþoli ætti heima þar, en hún kvaðst ekki vita nákvæmlega klukkan hvað það átti sér stað.
Vitnið Æ, sem kvaðst hafa verið gestkomandi að [...] aðfaranótt 22. desember sl. greindi svo frá að dyrabjöllunni hefði verið hringt hjá honum um klukkan þrjú um nóttina. Hann hefði hins vegar ekki séð neinn þegar hann fór til dyra. Vitnið kvaðst síðan hafa orðið vart við blikkljós, annað hvort frá sjúkrabíl eða lögreglu.
Vitnið Theódór Friðriksson læknir staðfesti að hafa ritað vottorð vegna komu brotaþola á slysadeild í umrætt sinn. Hann sagði að tímasetningin í vottorðinu, þ.e. klukkan 04:11, miðist áreiðanlega við það þegar brotaþoli var skráð inn á deildina. Kvaðst vitnið ekki hafa tekið á móti brotaþola, en sagðist hafa komið að umönnun hennar daginn eftir og því ritað vottorðið. Hann sagði að fjöldi manns hefði komið að hennar máli meðan hún var á spítalanum. Sérfræðingur á vakt hefði annast hana við komu, en vitnið sagðist hafa tekið við umönnun brotaþola um fjórum klukkustundum síðar og sagðist vitnið hafi skoðað hana undir hádegi. Brotaþoli hefði ekki viljað láta skoða sig mikið við komu, en vitnið kvaðst hafa fengið að skoða hana. Vitnið sagði að sér hefði skilist að brotaþoli hefði lítið viljað tjá sig við komu. Brotaþoli hefði verið með dreifð eymsli um allan líkama, þó aðallega og sjáanlega á höfðinu. Hún hefði verið með áverka á gagnaugum sitt hvorum megin og upp í hárssvörðinn. Þá hefði brotaþoli verið með skallabletti, en vitnið sagði að sér hefði skilist að brotaþoli hefði verið hárreytt. Þá hefði verið mar á kjálkabarði og hálsi og breið eymsli á brjóstkassa, kvið og baki. Mar neðarlega á kvið og á bakinu hefðu verið yfirborðsáverkar og á baki hafi verið nýlegt sár, sem litið hefði út eins og bitfar. Þá hefðu verið áverkar eða mar á vinstri kálfa og þá hefði verið sár á vísifingri. Vitnið sagði að teknar hefðu verið myndir af einhverjum af þessum áverkum.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði greint frá því að tveir menn og ein kona hefðu komið inn í íbúðina og ráðist á sig, þ.e. slegið hana víða um líkamann með kylfu og sparkað í hana og vísaði vitnið til þess sem eftir brotaþola væri haft í vottorðinu. Vitnið sagði að brotaþoli hefði lítið viljað segja vitninu, en hún hefði greint frá framangreindu við komu á deildina. Aðspurt sagði vitnið að miðað við áverka brotaþola væri ekki hægt að útiloka að sparkað hefði verið í höfuð brotaþola, en hún hefði verið með mar, skrámur og yfirborðsáverka beggja vegna á höfðinu og aðallega á gagnaugum. Þá hefði brotaþoli farið í skoðun hjá augnlækni daginn eftir árásina og þá hefði hún verið með bólgur undir augum beggja vegna og mar undir vinstra auga. Þá hefði komið í ljós að hún var með örlitla blæðingu í forhólf á vinstra auga, sem ekki var sjáanleg við venjulega skoðun. Vitnið sagði að samkvæmt klínísku mati hefði brotaþoli greinst með heilahristing, en slíkt mat byggðist á þeim einkennum sem brotaþoli hefði haft, en ekki hefði verið tekin mynd til að staðfesta það. Erfitt væri að greina slíkt með vissu alveg í byrjun, heldur yrði að sjá til hvernig einkenni þróuðust. Vitnið sagði að einkenni eftir heilahristing væru venjulega viðvarandi í nokkra daga á eftir og stundum vikur og mánuði. Vitnið sagðist yfirleitt setja greiningu um heilahristing í sjúkraskrá þegar viðkomandi væri með mjög mikil einkenni þótt slíkt væri ekki staðfest með myndgreiningu. Vitnið sagðist hafa farið í gegnum sjúkraskrá brotaþola og sneiðmynd af höfði hennar áður en það kom til að bera vitni í málinu og sagði að á sneiðmyndinni væri lýsti mari undir höfuðleðri uppi á hvirflinum og blæðingu undir húð efst á höfði vinstra megin og yfir vinstra auga, en einnig hægra megin.
Vitnið sagði að áverkar á hálsi brotaþola gætu vissulega samsvarað því að brotaþoli hefði verið tekin kverkataki og að hert hefði verið að hálsi hennar, en þessir áverkar gætu einnig verið eftir eitthvað annað.
Að því er varðar áverka á fingri sagði vitnið að sárið svari til þess að skorið hefði verið eða klippt í fingurinn, en sárið, sem hefði verið djúpt, hefði legið þvert yfir fingurinn, rétt framan við liðinn. Vitnið var spurt hvort blætt hefði úr brotaþola annars staðar en úr fingri og sagði vitnið að brotaþoli hefði verið með skrámur á höfðinu, en ekki hefði verið að sjá nein dýpri sár, en sagði að þar gæti hafa blætt úr. Vitnið tók þó fram að mikið gæti blætt úr fingursári. Vitnið sagði að erfitt væri að fullyrða hvort allt blóðið hefði komið úr fingrinum á brotaþola, en ítrekaði að skrámur og sár hefðu verið á höfðinu. Vitnið sagði að á höfði brotaþola hefðu verið blettir þar sem vantað hefði hár, en vitnið sagðist ekki vita nákvæmlega hversu stórir þeir blettir voru. Vitnið sagði að blettirnir hefðu verið í hársverðinum við gagnaugun. Vitnið sagði að ekki hefði verið annað að sjá en að áverkar brotaþola hefðu allir verið ferskir við komu. Vitnið sagði aðspurt að erfitt væri að fullyrða um það hvort um sjálfsáverka hefði verið að ræða. Áverkar á höfði og baki hefðu ekki verið þesslegir og sagði vitnið að slíkt hefði ekki flögrað að vitninu.
Að því er varðar andlegt ástand brotaþola við skoðun sagði vitnið að brotaþoli hefði lítið viljað tjá sig. Sagðist vitnið ekki treysta sér til að meta það hvernig brotaþola leið, en kvaðst þó ætla að henni hefði ekki liðið neitt sérstaklega vel. Vitnið sagðist ekki geta séð það af þeim gögnum sem vitnið hafði kynnt sér að brotaþola hefðu verið gefin lyf á sjúkrahúsinu. Vitnið tók þó fram að lyfjagjafir væru oft skráðar á pappír og slíkt væri ekki fært í tölvu síðar þannig að ekki væri víst að þær upplýsingar væri að finna í þeim gögnum sem vitnið hefði kynnt sér. Þó sagðist vitnið vita til þess að brotaþoli hefði fengið verkjalyf, en ekki önnur lyf svo að vitnið vissi til.
Vitnið sagði að brotaþoli kæmi til með að bera ör á fingri eftir sárið. Þá staðfesti vitnið að aðrir áverkar hefðu átt að jafna sig á tveimur vikum og hverfa alveg á þremur vikum. Erfitt væri hins vegar að fullyrða hvort um frekari afleiðingar yrði að ræða, t.d. hvort viðkomandi hefði einhverja verki lengur.
Aðspurt sagði vitnið að hættulegt gæti verið að skilja manneskju eftir með skerta meðvitund eftir höfuðhögg. Þá sagði vitnið að ef meðvitund minnkaði gæti það haft áhrif á öndun viðkomandi.
Vitnið Arnar Hauksson læknir sagðist hafa skoðað brotaþola um klukkan 16:00 hinn 22. desember sl. Sagðist vitnið hafa tekið niður frásögn brotaþola til að meta það hvað hann ætti að skoða. Hann sagði að frásögnina væri að finna í vottorði hans. Vitnið sagði að mikið af lýsingu brotaþola hefði samsvarað þeim áverkum sem á brotaþola voru. Atburðarásin væri margflókin og því væri ekki hægt að rekja tilurð hvers áverka fyrir sig heldur yrði að horfa á heildarmyndina. Vitnið sagði að lyfin, sem fram kæmu í vottorðinu, væru þau lyf sem brotaþoli hefði tjáð honum að hún væri að taka. Þá hefði vitnið séð í gögnum frá slysadeildinni að brotaþoli var búin að fá sterk verkjalyf um nóttina.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið í miklu uppnámi við skoðun og verið mjög hrædd. Hún hefði óttast um öryggi sitt og foreldra sinna. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið mjög illa farin, litið illa út, verið eirðarlaus og sagði að hún hefði grátið. Hún hefði hins vegar verið samvinnuþýð við skoðun og lagt sig fram um að unnt væri að taka af henni góða skýrslu. Vitnið sagði að í vottorðinu væru lýsingar, sem komið hefðu af slysadeildinni, t.d. um að hún hefði verið þvagblaut. Hún hefði hins vegar verið komin í önnur föt þegar vitnið skoðaði hana.
Vitnið sagði að það að brotaþoli hefði misst þvag við árásina gæti verið af ýmsum ástæðum, t.d. að henni hefði verið mikið mál að pissa, að hún hefði orðið fyrir áverka eða fundið fyrir mikilli hræðslu. Vel þekkt væri að fólk pissaði á sig af hræðslu.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki verið með neina áverka á ytri kynfærum, fyrir utan það að hún hefði verið með langa rispu utanvert á vinstri rasskinn. Ekki væri hægt að segja til um hvernig sú rispa hefði komið. Brotaþoli hefði hins vegar verið aum í endaþarmi og afturvegg legganga, sem gæti samræmst því að hún hefði verið meidd þar. Sagði vitnið að þau eymsli gætu samræmst frásögn brotaþola. Vitnið sagðist ekki hafa getað þreifað brotaþola og sagðist ekki hafa lagt á hana að þreifa hana um endaþarm.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið með byrjandi roðaför, þ.e. 6-7 sm bogadregna rispu og petechiur eða litlar blæðingar á vinstri rasskinn, en slíkir áverkar gætu komið eftir snöggan áverka. Mikil eymsli hefðu verið á svæðinu á milli leggangaops og endaþarms en engir sýnilegir áverkar. Brotaþoli hefði verið mjög aum í afturvegg legganga þegar vitnið hefði farið þar inn fyrir. Þá hefði brotaþoli verið mjög aum í rassinum og sagði að hún hefði ekki getið setið bein vegna verkja. Þegar vitnið hefði ætlað að rétta úr brotaþola hefði hún orðið að halla sér. Sagðist vitnið hafa ritað „ofurviðkvæm“ við skoðun og sagði vitnið að svolítið þyrfti til að slíkt væri skráð.
Vitnið sagði að blóðsýni hefði verið tekið úr brotaþola kl. 12.30 og aftur kl. 14.20 á slysadeild. Þá kæmi fram í gögnum sjúkrahússins að á slysadeild hafði brotaþoli fengið bæði parkódín- og morfínskyld lyf, svo og torodol, en allt væru þetta sterk verkjalyf. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið undir áhrifum við skoðun og sagði að hún hefði verið sljó. Vitnið tók fram að frásögn brotaþola af því sem gerðist hefði samræmst vel þeim áverkum sem hún var með og því hefði hann talið frásögn hennar trúverðuga.
Aðspurt sagði vitnið að brotaþoli hefði verið með stungusár, þ.e. far eftir nál á kvið. Aðspurt sagði vitni að ekki væri hægt að útiloka það að einkenni nr. 4 á bls. 6 í vottorðinu væru eftir fast spark í klof brotaþola ef gerandinn var í skóm með stáltá, þ.e.a.s. ef viðkomandi hefði hitt nákvæmlega þennan blett. Vitnið sagðist ekki geta sagt til um það hvort brotaþoli hefði tjáð honum að sparkað hefði verið í klof hennar. Vitnið staðfesti að brotaþoli hefði tjáð sér að einn hefði tekið liminn út á sér og hótað að míga á hana, en þá hefði hún verið „svæfð“.
Aðspurt sagði vitnið að ekki þyrftu að vera sjáanlegir áverkar á ytri kynfærum þótt farið hefði verið með fingur inn í leggöng og endaþarm, þ.e.a.s. ef enginn áverki hefði verið veittur utan frá. Ef áverkinn væri veittur innanfrá gæti komið slæmt mar og bólga í vefina þar, en brotaþoli hefði einmitt verið mjög aum aftan til í leggöngunum. Enginn áverki hefði hins vegar verið í húðinni utan á því og hefði verið eins og áverkinn hefði verið veittur innan frá. Aðspurt sagði vitnið að rispur gætu komið í endaþarm og leggöng en það væri mjög einstaklingsbundið. Vitnið sagði að áverkar í leggöngum og endaþarmi brotaþola gætu samræmst því að klipið hefði verið í spöngina á milli. Sagði vitnið að ef sparkað hefði verið í klof brotaþola í skóm með stáltá hefði mátt búast við mun meiri áverkum utan á húð en þarna var og hefði þá mátt búast við verulegum áverkum utan á húð. Aðspurt sagði vitni að allir ytri áverkar brotaþola hefðu verið tiltölulega nýir og ferskir, en ekki væri hægt að segja til um hversu gamlir innri áverkarnir voru. Vitnið var spurt að því hvort áverkar á leggöngum og endaþarmi brotaþola gætu verið eftir kynlífsreynslu og sagði vitnið þá að allt væri mögulegt. Aðspurt sagðist vitnið ekki hafa fundið áverka við þreifinguna sem slíka, þ.e.a.s. vitnið sagðist ekki hafa séð neina skurði, rispur eða sprungur inni í leggöngunum. Þá sagði vitnið að erfitt væri að meta það hvort bólgur væru á þessu svæði. Ályktun vitnisins hefði verið sú að verkurinn væri í milliveggnum milli legganga og endaþarms. Vitnið sagði að vegna eymsla hefði vitnið ekki getað þreifað endaþarm brotaþola. Að lokum staðfesti vitnið skýrslu sína um réttarfræðilega skoðun á brotaþola á skjali merktu II.2.3.
Vitnið Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur í tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kvaðst hafa menntun sem lögreglumaður og vera með meistaragráðu í réttarvísindum. Vitnið staðfesti að hafa gert skýrslu á skjali merktu II.2.4. og skýrslu um framhaldsrannsókn, dags. 23. apríl 2012.
Vitnið kvaðst hafa rannsakað fatnað brotaþola og hár, sem var á vettvangi. Hann sagði að á buxum brotaþola hefðu verið blóðblettir og stór, gulleitur blettur í klofi og upp að mitti. Samkvæmt skýrslu neyðarmóttökunnar hefðu buxurnar verið þvagblautar við komu, en þær hefðu verið orðnar þurrar þegar hann fékk þær í hendur. Sagðist vitnið ekki hafa getað staðreynt að um þvag hefði verið að ræða. Vitnið sagði að engin efnislýsing hefði verið á buxunum sjálfum, en um hefði verið að ræða buxur úr hefðbundnu gallaefni, en blandað einhverju teygjuefni því það hefði verið teygjanleiki í buxunum. Sagði vitnið að buxurnar hefðu teygst til hliðanna og hefði teygjanleikinn verið u.þ.b. 3 millimetrar á sentimetra. Hver sentimetri af efninu hefði því getað teygst upp í 1,3 sentimetra. Vitnið kvaðst telja að mögulegt hefði verið að fara með hönd ofan í buxnastreng brotaþola, miðað við að hún hefði verið í umræddum buxum, og stinga fingrum inn í leggöng og endaþarm og síðan klípa á milli. Sagði vitnið að um svokallaðar „low cut“-buxur hefði verið að ræða, þ.e. þær hefðu ekki náð hátt upp á mittið og þá ætti teygjanleikinn í efninu að gera þetta mögulegt almennt séð. Hér yrði þó að hafa í huga hversu þröngar buxurnar væru á viðkomandi og hversu stór höndin væri á þeim sem setti hana ofan í strenginn. Vitnið sagði að ekki hefði verið kannað hvort fingraför hefðu verið á buxnahnappinum. Vitnið sagði að buxurnar hefðu verið sundurklipptar þegar hann skoðaði þær, en það hefði verið gert á slysadeild, en vitnið sagðist ekki hafa séð aðrar skemmdir á buxunum. Engin togmerki hefðu verið þar sem hnappurinn væri festur við strenginn.
Vitnið sagði að málmkúla, sem fundist hefði í nærbuxum, hefði reynst vera skrautsteinn, sennilega af einhverjum fatnaði. Ekki væri hægt að segja til um hvenær steinninn hefði fest í nærbuxunum. Aðspurt kvaðst vitnið telja ólíklegt að þessi kúla hefði getað valdið áverkum á brotaþola því hún hefði verið kúpt og föst inni í faldi buxnanna.
Vitnið sagði að heildarlengd leðurkylfunnar hefði verið 30,5 sm, en kylfuhausinn hefði verið 18 sm langur. Heildarþyngd kylfunnar hefði verið 450,60 g. Sagðist vitnið hafa skoðað innihald kylfunnar og þar hefðu reynst vera litlar málmkúlur. Miðað við þyngd kylfunnar væri hægt að veita fólki áverka með henni, en sjálfsagt yrði að slá með henni af nokkru afli.
Aðspurt um hárið, sem fundist hefði á vettvangi, sagði vitnið að í hárinu hefði verið klessa, sem lími hár saman og því gætu verið í þessu hár vegna hárlenginga. Vitnið sagði að við hárlengingar væri notað mannahár. Vitnið sagðist þó ekki geta fullyrt að um mannahár hefði verið að ræða í þessu tilviki. Hárið hefði verið aflitað, en þá hyrfi miðjan úr hárinu og því gæti hann ekki fullyrt að um mannahár væri að ræða. Í dekkri hlutanum af hárlufsunum hefði reynst vera blóð og þar hefðu verið sjáanlega teygðar rætur, sem væri einkennandi fyrir hár sem væri togað eða rifið úr hársverði. Sagðist vitnið því geta fullyrt að hluti af hárinu væri mennskt hár, sem hefði verið togað eða rifið úr hársverði. Vitnið sagði að þetta hár hefði fylgt gögnum frá neyðarmóttöku.
Vitnið sagðist hafa fundið blóð á skóm ákærðu Andreu og við skoðun og greiningu á því hefði komið í ljós að það væri úr brotaþola, þ.e. DNA-snið þess hefði verið það sama og í blóði brotaþola. Um hefði verið að ræða litla blóðdropa, annars vegar á og við sylgju og hins vegar á hliðinni. Blettirnir á og við sylgjuna hefðu virst vera kámblettir, en hinir stefnuvirkir, þ.e. þeir hefðu verið að falla. Hann sagðist ekki geta útilokað að þeir væru eftir spark. Önnur blóðsýni í fatnaði og skóm ákærðu hefðu verið úr þeim sjálfum.
Vitnið Kristín Magnúsdóttir staðfesti matsgerð, sem liggur fyrir í málinu frá Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, dags. 1. mars 2012.
Vitnið sagði að ekki væri hægt að segja til um hvort magn þess amfetamíns, sem fundist hefði í blóði brotaþola, hefði verið eftir neyslu í eitt eða fleiri skipti. Vitnið sagði að yfirleitt hverfi amfetamín úr blóði og úr þvagi á nokkrum klukkustundum og innan við sólarhring, en það færi eftir magni. Þó væri hægt að finna það í þvagi allt að tveimur sólarhringum eftir neyslu. Aðspurt kvað vitnið þó eðlilegt að efnið finnist í þvagi við sýnatöku klukkan 16:00 ef þess hefði verið neytt klukkan 02:30 um nóttina. Vitnið sagði að ekki væri hægt að reikna neinar stærðir til baka með neinni nákvæmni, en ef engin neysla hefði átt sér stað eftir klukkan þrjú um nóttina, þá hefði styrkur amfetamíns klukkan 02:30 að öllum líkindum verið meiri en sá sem fram kæmi í sýnunum, en styrkurinn færi lækkandi á þessum klukkustundum. Vitnið sagði að ef drukkinn hefði verið einn hálfs lítra bjór, fimm prósent sterkur, kvöldið áður hefði alkókól í blóði verið horfið á þeim tíma sem blóðsýni var tekið. Vitnið sagði að tetrahydrókannabínól virka efnið í kannabis.
Vitnið Þorbergur Ingvi Sævarsson lögreglumaður kvaðst hafa rætt við ákærða Elías í fangaklefa ásamt Margeiri Sveinssyni hinn 30. janúar, sbr. skýrslu á skjali merktu II.6.1. Vitnið sagði að þeir hefðu farið í fangaklefann til ákærða til að athuga húðflúr á hendi ákærða því brotaþoli hafði þá lýst að grímuklæddi maðurinn hefði verið með húðflúr á handarbakinu. Svo hefði reynst vera og í framhaldinu hefðu þeir farið að ræða við ákærða. Sagði vitnið að í því samtali hefði ákærði sagt þeim hvar kylfan, gríman og jakkinn væru, þ.e. heima hjá ákærða Y. Hefði þeim skilist á ákærða að hann hefði verið með þessa hluti þegar árásin átti sér stað. Þá hefði ákærði tjáð þeim að hann hefði ekki þorað að segja frá þessu við skýrslutöku. Þeir hefðu þó gert honum grein fyrir því að þeir myndu gera um þetta upplýsingaskýrslu. Vitnið sagði að þetta hefði flýtt fyrir rannsókninni, en þó hefði ætlunin verið að gera húsleit heima hjá Y.
Vitninu var bent á að ákærði Elías hefði breytt framburði sínum í skýrslu hjá lögreglu 30. desember sl. eftir hlé sem gert var á yfirheyrslunni. Var vitnið spurt að því hvort vitnið hefði sem yfirheyrandi haft áhrif á það að ákærði breytti framburði sínum. Neitaði vitnið því og sagði vitnið að það minnti að ákærði hefði sjálfur óskað eftir hléi til að ráðfæra sig við verjanda sinn. Vitnið sagðist ekki kannast við að hafa lagt ákærða orð í munn við skýrslutökuna. Þá sagðist vitnið ekki kannast við að hafa spurt ákærða um efni trúnaðarsamtals ákærða við verjanda sinn.
Vitnið sagðist ekki minnast þess að ákærði Elías hefði skýrt af hverju hann hefði skilið þessa muni eftir heima hjá ákærða Y.
Vitnið Margeir Sveinsson lögreglumaður staðfesti að hafa ásamt vitninu Þorbergi Ingva farið í fangaklefa til ákærða Elíasar hinn 30. desember sl. til að skoða húðflúr á ákærða, en brotaþoli hafði þá lýst því í skýrslu að grímuklæddi maðurinn hefði veri með húðflúr. Þá lýsti vitnið því að ákærði hefði skýrt þeim frá því að gríman væri heima hjá meðákærða Y. Einnig hefði ákærði tjáð þeim að hann hefði ekki þorað að greina frá þessu við skýrslutöku þar sem hann væri hræddur við líkamsmeiðingar. Vitnið sagði að lögregla hefði ekki vitað af því að hlutirnir væru heima hjá Y, en að ætlunin hefði verið að fara í húsleit á heimili ákærða Y og á fleiri stöðum til að leita að þessum munum. Vitnið sagði að ákærði Elías hefði ekki skýrt það af hverju þessir munir væru heima hjá Y.
Vitnið staðfesti að hafa ritað skýrslu á skjali merktu IV.5.4, en þar væri um að ræða endursögn á samtali við ákærða X. Vitnið kannaðist ekki við að hafa fullyrt við ákærða við þetta tilefni að hann teldi að hann væri ekki viðriðinn málið.
Vitnið Jón G. Sigurgeirsson lögreglumaður staðfesti skýrslu sína á skjali merktu II.7.3. Vitnið sagði að skýrslan væri unnin upp úr gögnum frá símafyrirtækjunum. Vitnið sagði að upplýsingar í skýrslu á skjali merktu II.8.3, þ.e. um samskipti ákærðu Andreu og Óttars á Facebook, væru fengnar úr iPhone-síma Andreu. Vitnið staðfesti efni þessarar skýrslu einnig. Þá staðfesti vitnið efni skýrslu sinnar á skjali merktu II.19.1. Vitnið sagði að ákveðinn tíma tæki að flytja samtal frá neyðarlínu til lögreglunnar og því kæmi fram í frumskýrslu að hringt hefði verið í neyðarlínu klukkan 03.20, en í raun hefði símtalið borist neyðarlínu klukkan 03.18. Vitnið sagði að fram hefði komið í samtalinu við B, þegar hann hringdi á neyðarlínuna, að hálftími væri liðinn frá árásinni.
Vitninu var bent á að vitnið hefði spurt ákærða Elías um efni trúnaðarsamtals ákærða við verjanda sinn við yfirheyrslu hinn 11. janúar sl., sbr. skjal merkt IV.3.4, bls. 5, sbr. bókun á bls. 8. Sagðist vitnið kannast við þetta. Sagði vitnið að ákærði hefði á þessum tíma verið í einangrun og hitt einn mann og það hefði verið verjandi ákærða. Sagði vitnið að það væri ekki almennt verklag lögreglu að spyrja að slíku, en ástæða hefði þótt til þess í þessu tilviki.
Vitnið Snorri Örn Árnason, starfsmaður lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, kvaðst hafa rannsakað símagögn málsins og ritað skýrslu á skjali II.7.2, bls. 1-7, og útbúið tímalínu á dskj. nr. 18. Vitnið sagði að síðarnefnda skjalið væri unnið upp úr símagögnum og öðrum gögnum málsins. Tímasetningar í skjalinu væru fengnar úr útskriftum frá símafyrirtækjunum og stillt upp á tímalínu. Vitnið sagði að örvarnar táknuðu símasamskipti á milli ákærðu, brotaþola og annarra og sagði að nafn þess sem hringdi væri alltaf í línu fyrir ofan nafn þess sem hringt væri í. Örin segði einnig til um í hvaða átt símasamskiptin væru. Á tímalínunni væri ekki tilgreint sérstaklega með hvaða hætti símtækin tengdust, þ.e. bæði gæti verið um símtal eða sms-skilaboð að ræða. Vitnið sagði að nákvæm tímasetning samskipta á Facebook hefði ekki komið fram í þeim gögnum, sem hann vann upp úr. Aðspurt sagði vitnið að tengingar á milli símtækja kæmu fram í gögnunum þótt ekki hefði verið svarað í símann eða símtalið sent í talhólf. Vitnið sagði að tímalínan hefði upphaflega verið sett upp á rannsóknarstigi, en á síðari stigum hefði upplýsingum úr símagögnum verið bætt við. Sagðist vitnið hafa unnið tímalínuna á seinni stigum í samvinnu við fulltrúa ákæruvalds. Sagðist vitnið t.d. hafa fengið send þau sms-skilaboð, sem fara áttu inn í tímalínuna, en sagðist ekki hafa tekið ákvörðun um það sjálft.
Vitnið Haukur Sigmarsson lögreglumaður kvaðst hafa gert skýrslu um rannsókn á gögnum í símum sakborninga, sbr. skjal merkt II.8.2, og staðfesti vitnið efni hennar. Vitnið sagði að í skýrslunni væru sms-skilaboð úr Nokia E71-1, síma brotaþola, og úr iPhone síma ákærðu Andreu. Vitnið sagði að ekkert símkort hefði verið í Nokia-símanum, en um væri að ræða upplýsingar, sem vistast hefðu í símtækinu sjálfu. Í þessum upplýsingum kæmu fram skilaboð frá Andreu, sem send væru í símann. Þá sagðist vitnið hafa gert skýrslu á skjali merktu II.8.4.2, en þar kæmu fram skilaboð úr síma ákærða Elíasar. Staðfesti vitnið efni skýrslunnar. Einnig sagðist vitnið hafa gert skýrslu á skjali merktu II.8.5, en vitnið sagði að búið hefði verið að eyða mótteknum og sendum skilaboðum í síma ákærða Óttars, sem og símtalaskrá.
Vitnið Berglind Eyjólfsdóttir lögreglumaður sagði að haft hefði verið samband við vitnið 13. janúar sl. og það beðið um að útvega brotaþola skjól og kvaðst vitnið hafa gert það. Í framhaldinu hefði vitnið verið í reglulegu sambandi við brotaþola til fylgjast með því að brotaþoli væri nokkuð örugg, svo og til að fylgjast með því hvar hún væri stödd eða búsett hverju sinni. Vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki þorað að búa heima hjá sér og verið hrædd við hefndir. Kvaðst vitnið hafa verið tengiliður brotaþola við lögregluna og sagði að brotaþoli hefði haft greiðan aðgang að vitninu og getað hringt í vitnið á hvaða tíma sólarhringsins sem var. Á tímabili hefði lögreglan útvegað brotaþola skjól á fleiri en einum stað og sagði vitnið að brotaþoli hefði verið samvinnufús og viljað standa sig. Vitnið sagði að mikil hræðsla hefði komið yfir brotaþola öðru hverju þegar hún heyrði sögur, sem hún vissi ekki hver stóð á bak við, og hefði hún verið óörugg og hrædd. Kvaðst vitnið hafa upplýst fjarskiptamiðstöð reglulega um að bregðast skjótt við ef kallað yrði á lögreglu úr síma brotaþola. Vitnið kvaðst enn vera tengiliður lögreglu við brotaþola. Vitnið kvaðst hafa talað mjög reglulega við brotaþola og sagði að brotaþoli hefði haldið sig frá neyslu frá því að vitnið fór að fylgjast með brotaþola. Aðspurt sagði vitnið að brotaþoli hefði minnst á það við sig að hún hefði farið á heimili ákærðu Andreu og sótt þar dót sem hún átti. Vitnið sagði að í brotaþola hefði bæði verið hræðsla og reiði.
Vitnið Berglind Guðmundsdóttir, sálfræðingur á Landspítalanum, staðfesti skýrslu sína, dags. 4. mars 2012, um meðferð brotaþola og áhrif meintrar árásar á hana. Vitnið sagði að þegar skýrslan var rituð hefði hún verið búin að hitta brotaþola níu sinnum í eigin persónu, auk þess að hafa átt við hana nokkur símaviðtöl. Frá 4. mars hefðu þær hist tvisvar sinnum og átt u.þ.b. fjögur símaviðtöl. Einnig sagðist vitnið hafa verið með til hliðsjónar ítarlega sjúkraskrá geðdeildar Landspítalans, átt viðtöl við Ö, sem hefði sinnt meðferð brotaþola frá 2006, og Á, sem einnig hefði sinnt brotaþola frá því fyrir atburðinn. Þá hefði hún haft undir höndum skýrslu frá neyðarmóttöku vegna komu brotaþola þangað.
Vitnið kvaðst vera doktor í klínískri sálfræði frá Bandaríkjunum. Kvaðst hún hafa sérhæft sig í afleiðingum áfalla og stundað rannsóknir á því sviði. Þá kvaðst vitnið hafa stundað meðferð þolenda ýmissa áfalla, þ. á m. kynferðisofbeldis frá árinu 1999, stundað greiningarviðtöl og gert nokkur hundruð greiningarmöt.
Vitnið sagði að brotaþoli hefði upplifað umrætt atvik sem alvarlegt áfall og þegar viðbrögð hennar við atburðinum væru borin saman við alþjóðleg greiningarkerfi kæmi í ljós að hún uppfyllti grundvallarviðmið um alvarlegt áfall. Auk þess hefði brotaþoli á fyrstu dögum og vikum frá atburðinum greint frá alvarlegum áfallastreitueinkennum og þunglyndiseinkennum og hefði hún fengið alvarleg kvíðaköst á þessum tíma. Þessi einkenni hefðu haldist nokkuð stöðug og ákveðin einkenni hefðu jafnvel versnað þegar frá leið og dofi minnkaði, sérstaklega hefðu minningar, martraðir og ótti um öryggi sitt valdið henni mestri truflun. Þá hefðu komið tímabil þar sem þunglyndi var mjög alvarlegt og lífsleiðinn mikill. Niðurstaða greiningarinnar hefðu því verið alvarleg áfallastreituröskun og alvarlegt þunglyndi í kjölfar árásarinnar aðfaranótt 22. desember sl.
Vitninu kvaðst hafa verið kunnugt um árás, sem brotaþoli varð fyrir 1. janúar sl. Þá sagði vitnið að brotaþoli væri með langa áfallasögu, þ.e. hefði gengið í gegnum gríðarlega margt í sínu lífi. Því skipti máli í þessu tilviki að gera ítarlega mismunargreiningu og yrði þá að gera sér grein fyrir hver séu einkenni áfallastreitu. Þau fælust í fyrsta lagi í endurupplifun á tilteknum atburði, í öðru lagi forðun frá áreitum eða minningum sem tengjast tilteknum atburði, sem og dofa og tilfinningaviðbrögðum því tengdu og í þriðja lagi ofurárvekni sem einnig væri tengd tilteknu áreiti. Í tilfelli brotaþola hefði verið um að ræða endurupplifun á árásinni sem átti sér stað 22. desember sl. og þær minningar, sem hefðu verið brotaþola sérstaklega erfiðar, væru þegar henni hefði verið haldið báðum megin og einn af meintum gerendum fór ofan í buxur hennar og setti fingur inn í endaþarm og leggöng og kleip á milli. Einnig þegar rifið var í hárið á henni og skorið í fingurinn, svo og þegar hún missti þvag. Þessar endurminningar hefðu verið að leita hvað sterkast á brotaþola.
Vitnið sagði að matið væri fjölþætt, sérstaklega vegna þess hversu flókin saga brotaþola væri. Vitnið sagði að í fyrsta lagi hefði farið fram mjög ítarlegt greiningarviðtal við brotaþola þar sem reynt hefði verið að flokka og átta sig á sögu brotaþola og þá hefðu verið lagðir fyrir brotaþola spurningalistar til að athuga samræmi. Einnig skipti máli að vitnið hitt brotaþola reglulega á löngu tímabili þar sem þær hefðu rætt ólíka þætti í atburðarásinni og sagði vitnið að stöðugleiki og samræmi hefði verið í frásögn og tilfinningaviðbrögðum brotaþola. Vitnið sagði að einkenni áfallastreituröskunar væri ekki bara það sem viðkomandi tjáði með orðum heldur fylgdu þessu mikil tilfinningaviðbrögð eða doði, sem kæmi þá fram í hegðun og líkamlegum viðbrögðum, t.d. gráti og titringi í höndum. Slík einkenni kæmu þá fram mjög skyndilega og yrði þá umbreyting á tilfinningalegum viðbrögðum, sem væru mjög sýnileg. Vitnið sagði að þannig væru mörg slík einkenni og þættir, sem kæmu fram endurtekið á tímabilinu, sem gerði frásögn og viðbrögð brotaþola trúverðug. Kvaðst vitnið hafa metið brotaþola trúverðuga.
Vitnið sagði að erfitt væri að segja til um það á þessum tímapunkti hverjar horfur væru á því að brotaþoli næði sér af framangreindum einkennum. Kvaðst hún telja að brotaþoli þyrfti ítarlega áfallamiðaða meðferð, samhliða því að hún byggði upp getu til að takast á við slíka meðferð. Slík meðferð krefðist mjög flókinnar úrvinnslu, þ.e. að farið væri ítarlega í gegnum alla atburðarásina og þá krefðist meðferðin þess að brotaþoli þyldi að ganga í gegnum mjög erfiðar tilfinningar, þ.e. að fara í gegnum atburðinn aftur og aftur og vinna úr þeim tilfinningaviðbrögðum, hugsunum og túlkunum sem komu fram á meðan atburðurinn átti sér stað. Það krefðist mikils af þolendum og það væru alls ekki allir sem kæmust í gegnum slíkt. Ef brotaþola hins vegar það tækist það mætti gera ráð fyrir að slík meðferð tæki þrjá til fjóra mánuði, en vitnið kvaðst hafa unnið með þolendum í alvarlegum málum í eitt til tvö ár, þ.e. sex til tólf mánuði og síðan eftirfylgni eftir það. Mjög erfitt meðferðarferli væri því fram undan hjá brotaþola. Hér yrði að hafa í huga að brotaþoli yrði að byggja sig fyrst upp til að þola meðferðina. Líkti vitnið því við að brotaþoli hefði verið fótbrotin á hægri fæti fyrir atburðinn, en hefði gengið ágætlega að ganga á hækjum þótt það hefði verið flókið og erfitt. Eftir atburðinn væri hún hins vegar fótbrotinn á báðum og þá dygðu engar hækjur, aðeins hjólastóll og mikil endurhæfing. Kvaðst vitnið gera ráð fyrir að brotaþoli yrði áfram í meðferð hjá sér, en einnig yrðu önnur úrræði á geðdeild notuð samhliða til að byggja upp getu og streituþol hjá brotaþola. Sagði vitnið að brotaþoli væri í viðtölum þar hjá geðlækni, sem sæi einnig um lyfjagjafir til brotaþola. Vitnið tók fram að áfallastreituröskun og þunglyndi væru geðsjúkdómar. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið á lyfjum fyrir atburðinn, en eftir hann hefði þurft að auka skammtinn og bæta við fleiri lyfjum til að hjálpa brotaþola að takast á við líðan sína. Bætt hefði verið við svefnlyfjum, kvíðastillandi lyfjum og lyfjum til að auka tilfinningalegt jafnvægi. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið lögð inn á geðdeild í byrjun mars til að auka öryggiskennd hennar og hjálpa henni að takast á við umhverfið.
Aðspurt af verjanda ákærðu Andreu kvað vitnið að sér hefði ekki verið kunnugt um að brotaþoli hefði farið inn á heimili ákærðu Andreu í febrúar sl. Vitnið sagði að það væri vel þekkt í fræðunum og af áralangri klínískri reynslu að þótt fólk hefði orðið fyrir ofbeldi af völdum einhvers tiltekins gæti viðkomandi tekist á við að vera í nálægð gerandans og sækti jafnvel í það. Vitnið sagði að lífsleiðahugmyndir brotaþola væru fólgnar í því að vilja deyja eða flýja, enda upplifði hún sig hvergi örugga í þessum heimi. Hún upplifði mikinn ótta, en engar vísbendingar væru um það í dag að brotaþoli væri að veita sjálfri sér skaða. Aðspurt af verjanda ákærða Jóns kvað vitnið engar líkur vera á því að um falskar minningar hjá brotaþola væri að ræða og útskýrði vitnið það í ítarlegu máli. Vitnið sagði að margt væri mjög óljóst að því er ætlaða árás hinn 1. janúar sl. varðaði og miðað við það ástand, sem brotaþoli var í við komu á slysadeild, væri erfitt að átta sig á því hvað hefði verið í gangi. Það gæti hins vegar gerst að viðkomandi hefði fengið „flash back“, en þau gætu verið það raunveruleg að viðkomandi fyndist að hann hefði endurupplifað atburðinn. Ekkert nýtt hefði hins vegar bæst við eftir þá árás og í meðferðinni hefði fókusinn áfram verið á úrvinnslu á fyrri árásinni því hún hefði haft meiri áhrif á brotaþola og valdið meiri skaða. Vitnið sagði að síðari árásin hefði hins vegar vissulega haft áhrif á brotaþola. Vitnið sagði að brotaþoli hefði gengið í gegnum mjög margt í sínu lífi og verið með ýmislegt í farteskinu fyrir árásina, en í greiningarmatinu væri verið að fjalla um það sem bæst hefði við þá reynslu við árásina. Ávallt yrði að skoða þá breytingar sem ættu sér stað þegar einn atburður bættist ofan á annan. Í áfalla- og streitufræðunum væri það regla að meira væri ávallt verra. Þegar alvarlegum atburði væri bætt ofan á annan alvarlegan atburð væri það ávallt verra. Samkvæmt samtölum, sem vitnið hefði átt við geðlækna brotaþola, hefði brotaþoli verið að ná meiri stöðugleika, sem væri vísbending um að hún hefði verið búin að vinna eitthvað úr sinni fortíð. Aðspurt af verjanda ákærða X sagði vitnið að brotaþoli hefði ekki verið greind með áfallastreituröskun fyrir árásina 22. desember sl. Sagði vitnið að gert hefði verið mat á brotaþola í júlí 2011 í tengslum við áfengis- og vímuefnameðferð brotaþola á þeim tíma. Kvaðst vitnið hafa hitt brotaþola tvisvar sinnum fyrir áramót, þ.e. 23. desember sl. og 28. desember sl., en þá hefði farið fram mat á afleiðingum ætlaðrar árásar, þ.e.a.s. hvort þær uppfylltu viðmið A, þ.e. viðmið um áfall samkvæmt alþjóðlegum greiningarkerfum. Þá kvaðst vitnið hafa átt langt viðtal við brotaþola í síma 26. desember sl.
Vitnið Eiríkur Valberg lögreglumaður var spurður út í upplýsingaskýrslu sem hann hefði ritað um aðild ákærðu Andreu, X, Óttars, Jóns og Elíasar að vélhjólagengjum. Vitnið taldi engan vafa leika á að ákærði X hefði verið forseti Hells Angels á Íslandi á þeim tíma er skýrslan var rituð, samanber viðtöl við hann og myndir sem fram kæmu í skýrslunni. Ákærði Jón hefði á þessum tíma gegnt trúnaðarstörfum fyrir vélhjólagengið S.O.D. Reykjavík, en fundargerðarbók félagsins hefði fundist heima hjá honum við húsleit. Lögregla teldi einnig fullvíst að ákærða Andrea Kristín væri forseti samtakanna Torpedo Crew, en í skýrslunni væru myndir af henni í vesti merktu samtökunum og með árituninni „president“. Jafnframt væri ákærði Elías meðlimur í sömu samtökum, en í skýrslunni væri að finna ljósmynd því til staðfestingar. Sú mynd hefði verið til í safni lögreglu, tekin af netinu af Facebook-síðu. Vestin, sem ákærðu Andrea og Elías sjáist í á mynd í skýrslunni, væru merkt Torpedo Crew, en vesti ákærðu Andreu væri líka með árituninni „president“ og með merkingunni „known associate“ sem í þessum heimi þýddi að viðkomandi væri þekktur samstarfsaðili Hells Angels. Væri þetta byggt á almennri þekkingu lögreglu, en einnig mætti ráða þetta af heimasíðu Hells Angels. Vitnið kvað lögreglu telja að framangreind samtök tengdust skipulagðri brotastarfsemi á Íslandi. Það væri m.a. byggt á því sem fram kæmi í fundargerðarbók Hells Angels, sem hefði verið haldlögð 22. mars 2012, en þar mætti sjá að meðlimir Hells Angels á Íslandi hefðu gríðarlega mikil samskipti við meðlimi Hells Angels erlendis og hefðu miklum skyldum að gegna gagnvart þeim. Þessar skyldur væru m.a. fjárhagslegs eðlis og fólgnar í skyldumætingu á ákveðna fundi. Einnig væru þær fólgnar í upplýsingaskyldu með bréfasendingum til meðlima Hells Angels erlendis og þá aðallega í Noregi. Einnig væri meðlimum Hells Angels gert skylt að taka afstöðu til deilna milli klúbba annars staðar í heiminum.
Aðspurt hvort það væri eitthvað sem bendli meðlimi Hells Angels á Íslandi við brotastarfsemi hér innanlands benti vitnið á færslu í fundargerðarbók samtakanna frá 29. desember 2010 þar sem fram kæmi að ákveðinn maður væri að hætta í klúbbnum og ekki í góðu. Þar væri bókað að menn ættu að vopnast og vera „high alert“. Um tengsl samtakanna við brotastarfsemi á Íslandi kvaðst vitnið geta nefnt nokkur mál, svo sem húsleit í austurborg Reykjavíkur í júní 2011 þar sem haldlagðar hefðu verið kannabisplöntur og ólögleg skotvopn. Þar hefðu fundist gögn frá Hells Angels, sem upphaflega hafi verið send að Gjáhellu 5, en verið komin í þetta húsnæði. Þá hefðu þeir menn, sem handteknir hefðu verið í tengslum við málið, tengst Hells Angels, en þeir hefðu verið í Fáfni, sem hefði verið undanfari Hells Angels. Einn þeirra hefði einnig verið meðlimur í Hells Angels á þessum tíma.
Aðspurt kvaðst vitnið hafa ritað skýrslu um starfsemi Hells Angels á Íslandi, sem væri á meðal gagna málsins, en hún hefði verið rituð til þess að meta hvort um skipulögð brotasamtök væri að ræða með hliðsjón af máli því sem hér væri til meðferðar.
Vitnið kvaðst telja ákærðu Andreu vera forseta Torpedo Crew m.a. vegna ljósmyndar af henni þar sem hún væri auðkennd með merki þess félags og merkingunni „president“, en vitnið sagðist ekki vita hvenær myndin væri tekin. Í bókun í fundargerðarbók Hells Angesl 25. mars 2010 kæmi og fram að að X setji ákærðu Andreu inn í Torpedo Crew. Vitnið sagðist ekki hafa upplýsingar um það hvort Torepedos Crew væri enn starfandi, en í fundargerðarbókinni væri að finna færslu um sambærilegt gengi, Red and White Crew, þar sem skýrt væri tekið fram að sá félagsskapur hefði verið lagur niður. Enga slíka færslu væri þar að finna um Torepedos Crew. Engar upplýsingar væru um erlend samskipti Torpedo Crew og kvaðst vitnið ekki hafa vitneskju um reglur félagsins eða fundargerðarbækur. Vitnið kvaðst engu að síður telja að um slíkt gengi væri að ræða þar sem gengið væri undir stjórn Hells Angels. Vitnið kvaðst ekki vera kunnugt um tengingu á milli félagsskaparins Fells Angels og Torpedo Crew. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta hrakið þá fullyrðingu að Torpedo Crew væri bara „djammklúbbur“ nokkurra félaga. Vitnið benti á að í áðurgreindri skýrslu kæmi fram að innan lögreglu væri lítið vitað um starfsemi Torpedo Crew og um það væri enginn ágreiningur
Vitnið sagði að ákærði Jón væri talinn gegna trúnaðarstörfum fyrir vélhjólagengið S.O.D., þ.e. ritari klúbbsins, þar sem fundargerðarbókin hefði fundist heima hjá honum.
Þá sagði vitnið að aðild ákærða Elíasar að vélhjólagengi væri byggð á ljósmynd á blaðsíðu þrjú í skýrslunni. Vitnið sagði að strangar reglur giltu um vesti í slíkum gengjum og að hann gæti bent á að þegar tveir menn hefðu hætt í Hells Angels nýlega mætti sjá færslu í fundargerðarbókinni um að það ætti að brenna vestin þeirra. Því teldi hann að menn væru ekki gera að gamni sínu með því að klæðast slíkum vestum. Vitnið kvað myndina vera eina gagnið um að ákærði væri meðlimur í mótorhjólasamtökunum.
Vitnið sagðist hafa verið kallað til þegar ljóst hefði þótt að málið tengdist Hells Angels. Kvaðst hann hafa verið rannsóknardeildinni í [...] til aðstoðar, þ.e. yfirheyrt að minnsta kosti einn sakborning og tekið þátt í einni húsleit og svo ritað upplýsingaskýrsluna. Sagði vitnið að Karl Steinar Valsson hefði beðið vitnið um að rita skýrsluna í tengslum við þetta mál og í þeim tilgangi að upplýsa um það hvernig samtök eins og Hells Angels störfuðu og hvernig þau hefðu haft aðkomu að brotastarfsemi á Íslandi. Lagt var fyrir vitnið það sem fram kæmi á blaðsíður þrjú í skýrslunni að Hells Angels væru alþjóðleg skipulögð brotasamtök, en þar væri vísa til Kanada, Þýskalands og Europol. Vitnið sagði að umræddar upplýsingar væru opinberar að því er varðar Kanada og Þýskaland og þá væru heimildir fengnar úr skýrslu Europol frá febrúar 2012 um Hells Angels, en í þeirri skýrslu, sem væri mjög ítarleg, hefði Europol komist að þeirri niðurstöðu að Hells Angels væru skipulögð brotasamtök miðað við viðmiðanir Evrópusambandsins þar um. Vitnið sagði að uppbygging Hells Angels á Íslandi væri eins og uppbygging Hells Angels erlendis. Sagði vitnið að í heimsreglum samtakanna væri kveðið á um það að ekki mætti stofna Hells Angels klúbb nema með samþykki heimsþings samtakanna. Vitnið kvað lögreglu sjá merki þess að aðilar tengdir samtökunum hefðu verið virkir í afbrotum og sagði vitnið að þau mál, sem nefnd væru í skýrslunni, væru talin séu tengjast meðlimum Hells Angels.
Aðspurt kvaðst vitnið hafa skoðað fundargerðarbók Hells Angels, sem haldlögð hefði verið. Ekkert hefði komið fram í fundargerðarbókinni, sem bendlaði Hells Angels beint við einhverja brotastarfsemi, en hins vegar sæi lögregla ýmis einkenni, sem bentu til þess að samtökin störfuðu eftir sama sniði og gert væri erlendis. Mikið væri fjallað um erlend samskipti í bókinni og þyrftu meðlimir hér á landi að sækja fundi í Evrópu, standa skil á einhverjum gjöldum til samtaka erlendis og þá væri mikið talað um „big house crew“ sem væru samtök til stuðnings meðlimum, sem væru í fangelsi og fjölskyldum þeirra. Margar bókanir væru um þetta í fundargerðarbókinni. Þá kæmi fram að meðlimir Hells Angels færu í mjög margar ferðir til útlanda og sagðist lauslega áætla að ferðirnar hefðu verið um 30 og þá færu yfirleitt fleiri en einn meðlimur í hverja ferð. Um væri að ræða fundi í Evrópu, heimsóknir til annarra klúbba og væri hægt að sjá af bókinni að skylt væri að heimsækja einhvern vissan fjölda klúbba í Evrópu áður en þeir yrðu fullgildir meðlimir, en það væri í samræmi við upplýsingar lögreglu og hið sama gilti um Bandaríkin. Um væri að ræða heimsóknir til klúbba, m.a. til Noregs, en einnig til Danmerkur. Þá var lögð fyrir vitnið upplýsingaskýrsla frá 7. maí 2012. Sagði vitnið að þær hefðu fundistá USB-minnislykli í húsleit hjá meðlimi í vélhjólagenginu Outlaws í Hafnarfirði 30. apríl 2012. Vitnið sagði að merkingin 81 stæði fyrir skammstöfunina HA, eða Hells Angels. Aðspurt um merkinguna Red and White Crew merkja stuðningsklúbb við Hells Angels og í fundargerðarbókinni kæmi fram að svo væri.
Vitnið sagði að í fundargerðarbókinni kæmi fram að samtökin Red and White Crew hefðu verið starfandi og verið á vegum Hells Angels, en verið lögð niður. Vitnið sagði að almennt væru konum ekki leyfð innganga í mótorhjólaklúbba eins og Hells Angels, þ.e. MC-klúbba. Hins vegar gætu konur verið meðlimir í Crew, þ.e. Red and White Crew og Torpedo Crew og væri sérstök bókun um slíkt í fundargerðarbók Hells Angels að því er varðar Torpedo Crew.
Vitnið sagði að á fundi, sem hann hefði verið á hjá Europol í september 2011, hefði hann verið varaður sérstaklega við því að eitt af þeim atriðum sem mikið væri notað í fjölmiðlaáróðri Hells Angels og tengdra klúbba, væri að setja upp „charity-event“ í því skyni að hafa áhrif á almenningsálitið. Lagt var fyrir vitnið skjal af fréttavef Víkurfrétta um fyrrgreint „charity-event“ og var vitnið spurt að því hvort þetta væri þá dæmi um herferð sem svona samtök færu í og kvað vitnið svo vera.
Vitnið Ð kvaðst hafa sett hárlengingar í brotaþola, síðast í október eða nóvember sl., en vitnið kvaðst reka hárlengingarstofu. Vitnið sagði að ekki hefði verið nóg af hári á höfði brotaþola til að setja í hana fulla lengingu. Vitnið sagði að full lenging væri 100 lokkar, en aðeins hefði verið hægt að setja 70 lokka í brotaþola. Vitnið sagði að inn á milli í hári brotaþola hefðu verið blettir þar sem svo hefði virst að hárið væri að byrja að vaxa upp aftur, en ekki væri hægt að setja hárlengingar í svo stutt hár.
Vitnið É, sambýliskona ákærða X, sagðist hafa staðið í jólaundirbúningi og verið að pakka inn gjöfum að kvöldi 21. desember þegar ákærði X hefði fengið símtal frá brotaþola um klukkan hálf tólf um kvöldið. Ákærði hefði verið veikur og orðið hissa á því að einhver væri að hringja í hann svona seint. Kvaðst vitnið hafa heyrt að brotaþoli var mjög óðamála og mikið niðri fyrir og hefði ákærði X verið mjög hissa og ekki vitað hver væri að hringja. Síðan hefði hann áttað sig á því og sagt að hann vildi ekki láta blanda sér í þessi mál og að þau kæmu honum ekkert við. Eftir símtalið hefði ákærði X sagt vitninu frá efni símatalsins sem hefði verið um framhjáhald maka brotaþola með ákærðu Andreu o.s.frv. Ákærði X hefði tjáð henni að hann hefði áttað sig á hver var í símanum þegar brotaþoli hefði sagst vera fyrrverandi kona einhvers D í [...] og þá áttað sig á því að hann hefði hitt hana einu sinni áður. Síðar hefði ákærði X talað við annað hvort ákærðu Andreu eða Jón vegna símtalsins við brotaþola og þá hefðu þau greint honum frá deilum, sem uppi væru á milli ákærðu Andreu og brotaþola, m.a. vegna síma með viðkvæmum myndum af ákærðu Andreu og hótana um að þær yrðu birtar. Ákærða X hefði ofboðið þessar hótanir og því hefði hann hringt aftur í brotaþola og spurt hvað henni gangi til með þessu. Einnig hefði hann lýst því að honum þætti þetta rangt og beðið brotaþola að setja sig í spor ákærðu Andreu og spyrja sig hvernig henni liði ef að einhver hótaði því að birta slíkar myndir af henni. Vitnið sagði að ákærði hefði tjáð sér að brotaþoli hefði verið æst í byrjun samtalsins, en hann hefði náð að róa hana niður og í lokin hefði hún hálfpartinn beðist afsökunar á þessu og sagt að hún hefði ekki meint neitt með þessu. Kvaðst vitnið hafa heyrt ákærða segja í símann að það væri gott að heyra og að brotaþoli ætti náttúrulega bara að skila þessum síma. Eftir símtalið hefði hann tjáð vitninu að brotaþoli hefði sagt að hún gæti og vildi ekki hitta ákærðu Andreu eða Jón og því hefði hann boðist til að vera milligöngumaður um það, þ.e. hann skyldi skila símanum fyrir hana. Kvaðst vitnið hafa heyrt ákærða segja í símann að hann gæti tekið við símanum og komið honum til ákærðu Andreu og Jóns og að brotaþoli gæti hitt hann úti á tattú-stofu og sagði vitnið að símtalið hefði endað á vinsamlegum nótum.
Aðspurt kvaðst vitnið alls ekki hafa heyrt að ákærði X hótaði brotaþola. Hann hefði byrst sig við hana í upphafi þar sem brotaþoli hafi verið svo æst og þá hefði brotaþoli róast niður og símtalið orðið rólegra. Vitnið sagði að alrangt væri að ákærði X hefði sagt að félagar úr Hells Angels myndu veita brotaþola líkamlegan skaða. Kvaðst vitnið hafa setið við hliðina á ákærða og heyrt það sem hann sagði í símann. Vitnið kvaðst ekki vita til þess að ákærði hefði átt fleiri símtöl við brotaþola um kvöldið eða um nóttina.
Vitnið sagði að ákærði X hefði fengið símtal um klukkan hálf tvö um nóttina frá annað hvort ákærðu Andreu eða Jóni þar sem fram hefði komið að brotaþoli hefði stolið mótorhjóli frá ákærðu Andreu og að þau væru á leiðinni til þeirra. Hefðu ákærðu Andrea og Jón verið að velta því fyrir sér hvort þau gætu fengið lánaðan bíl til að flytja mótorhjólið og jafnframt hefðu þau spurt ákærða X ráða. Hann hefði tjáð þeim þá skoðun sína að ef að ákærða Andrea ætti mótorhjólið og vissi hvar það væri niður komið þá ætti hún bara að sækja hjólið. Vitnið sagði að heimsóknin hefði verið mjög stutt eða í mesta lagi tíu mínútur. Vitnið sagði að með ákærðu Andreu og Jón hefði verið ákærði Elías. Vitnið kvaðst hafa rætt mest við ákærðu Andreu, m.a. um stuldinn á mótorhjólinu. Ákærða Andrea hefði verið mjög reið og kvaðst vitnið hafa tjáð henni að hún skildi hana mjög vel miðað við það sem búið væri að ganga á. Á meðan á heimsókninni stóð hefði eitthvert hinna gestkomandi fengið símtal þar sem fram hafi komið að mótorhjólið væri á kerru og því hefði ekki þurft að fá lánaðan bílinn til að flytja mótorhjólið. Ákærði X hefði hins vegar lánað meðákærðu hurðaropnara að bílskúr sem þau væru með á leigu í [...] til að meðákærðu gætu sett mótorhjólið þar inn. Vitnið sagði að þau hefðu einungis vitað að meðákærðu ætluðu að sækja mótorhjólið og koma því fyrir í bílskúrnum, en ekki vitað af öðrum fyrirætlunum þeirra. Vitnið kvaðst ekki hafa gert ráð fyrir mótorhjólið væri heima hjá brotaþola. Vitnið sagði að þau ákærði X hefðu síðan farið að sofa, en þau hefðu verið orðin þreytt enda með tveggja ára barn á heimilinu.
Morguninn eftir kvaðst vitnið hafa séð frétt á netinu um að par og þriðji maður hefðu ráðist inn á heimili konu í [...] og veitt henni áverka og að fólkið væri í gæsluvarðhaldi. Kvaðst vitnið hafi hugsað með sér hvort verið gæti að þar væri um að ræða ákærðu Andreu, Jón og Elías. Sagðist vitnið hafa sýnt ákærða X fréttina og þau talið líklegt að um meðákærðu væri að ræða, en samt varla trúað því. Ákærði X hefði prófað að hringja í þau til að athuga hvort þau svöruðu í símann. Hann hefði síðan fljótlega farið að heima til að útrétta ýmislegt. Ákærði X hefði síðan frétt það hjá ákærða Óttari að meðákærðu hefðu verið handtekin. Hefðu þau ákærði verið í algjöru sjokki yfir þessu og varla trúað þessu.
Aðspurt sagði vitnið að eftir að meðákærðu fóru frá þeim um nóttina hefði ákærði X hringt í ákærða Y og sagt honum að svara í símann ef ákærði Jón myndi hringja í hann, en vitnið sagði að ákærði Y væri ekki vanur að svara símanum á nóttunni. Hefði ákærði X sagt við ákærða Jón áður en þau fóru, að ef þau vantaði hjálp með hjólið eða eitthvað, þá skyldu þau hafa samband við ákærða Y. Hugsunin hefði verið sú að þau ákærði X vildu fara að sofa og vildu fá frið. Aðspurt kvaðst vitnið ekki kannast við að ákærði X stundaði brotastarfsemi, hvorki skipulagða eða óskipulagða, en vitnið sagði að þau lifðu ósköp venjulegu lífi.
Vitnið Í, móðir ákærða X, sagði að ákærði hefði komið til hennar í morgunkaffi um korter til tuttugu mínútur yfir níu til hálf tíu að morgni 22. desember sl. og verið farinn um klukkan tíu. Vitnið sagði að hann hefði ekkert rætt um árásina í [...]. Einhver hefði hringt í hann, en vitnið kvaðst ekki hafa heyrt það sem hann sagði í símann, þar sem hann hefði farið inn í annað herbergi. Síðan hefði vitnið heyrt hann hækka róminn og segja eitthvað á þá leið: „Fyrir hvað?“ Þau hefðu ekki rætt þetta símtal, en í kjölfarið hefði hann sagst þurfa að fara. Aðspurð um viðbrögð ákærða X við símtalinu sagði vitnið að hann hefði virst vera reiður, pirraður og undrandi í röddinni. Hann hefði þó ekki haft orð á því af hverju svo væri, en raddtónninn hefði gefið vitninu til kynna að eitthvað hefði komið honum á óvart. Þá sagði vitnið að kona ákærða hefði átt afmæli þennan dag og því hefðu þau farið til þeirra seinni partinn. Sagðist vitnið þá hafa frétt af árásinni og að fólk tengt ákærða og konu hans hefðu verið handtekin í tengslum við hana, en vitnið sagði að ákærði og konan hans hefðu verið miður sín vegna þessa.
Vitnið Ó kvaðst starfa í [...], sem væri búsetuúrræði Stígamóta. Vitnið sagði að brotaþoli hefði búið þar í upphafi árs að beiðni lögreglu þar sem hún hefði orðið fyrir árás og talið öryggi sínu stefnt í hættu. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið mjög hrædd við komu og í dálítið miklu áfalli. Vitnið staðfesti efni vottorðs frá 22. febrúar 2012 þar sem fram kæmi að brotaþoli hefði stöðugt verið hrædd og hefði reglulega fengið óttaköst þrátt fyrir að Kristínarhús væri vaktað með öryggisgæslu og lögregla hefði verið í stöðugu sambandi við starfsmenn þess. Vitnið sagði að brotaþoli hefði dvalið í [...] 13. janúar til 6. febrúar með einhverjum smá hléum, en hún hefði dvalið þar í heildina í tæpan mánuð.
Vitnið Gauti Grétarsson sjúkraþjálfari staðfesti að hafa ritað vottorð vegna brotaþola dagsett 3. apríl 2012. Kvað hann brotaþola hafa byrjað í meðferð hjá honum 22. mars 2012 vegna áverka sem hún hefði orðið fyrir. Brotaþoli hefði tjáð vitninu að hún hefði orðið fyrir líkamsárás í desember, en ekki getið um að koma hennar væri vegna líkamsárásar, sem átt hefði sér stað 1. janúar sl. Hefði brotaþoli komið með beiðni frá Landspítala vegna tognunar í brjóst-, háls- og lendahrygg og þegar hann hefði farið að spyrja hana út í áverkann, þá hefði hann strax séð á líkamsstöðu hennar að hún ætti erfitt með að vera upprétt og væri hokinn. Vitnið sagði að brotaþoli hefði verið með mikla verki í baki, sérstaklega hægra megin og undir herðablaðinu og að brotaþoli hefði átt erfitt með að standa upprétt, en hún hefði einnig átt erfitt með að liggja því hún hefði í raun ekki getað legið með bakið í beinni stöðu. Sagðist vitnið ekki hafa getað tekið mikið á brotaþola því erfitt hefði verið að hreyfa hana til.
Vitnið sagði að afleiðingar líkamsárásarinnar hefðu verið svipaðar og eftir alvarlegt bílslys en þá væri fólk oft illa farið alls staðar, en ekki bara á einhverjum einum stað. Kvaðst vitnið hafa metið hlutina sem svo að þarna væri um alvarlega áverka að ræða og því hefði hann þurft að fara rólega í meðferðina til að ýfa ekki neitt upp. Aðspurt kvað vitnið brotaþola einungis hafa komið einu sinni til sína eftir skoðunina og þannig alls tvisvar, en þá hefði vitnið farið utan. Kvaðst vitnið reikna með því að brotaþoli héldi meðferðinni áfram eftir réttarhöldin. Vitnið sagði að erfitt væri að segja til um batahorfur brotaþola eftir svo alvarlegt tjón, en gera mætti ráð fyrir að það tæki langan tíma að bæta ástandið.
Að því er varðaði árásina, sem brotaþoli hefði orðið fyrir 1. janúar sl. sagði vitnið að ef viðkomandi væri viðkvæmur fyrir þá væri það verra ef maður lenti í einhverju aftur. Vitnið kvaðst einungis hafa haft beiðni frá lækninum Eggerti Eyjólfssyni og upplýsingar frá brotaþola þegar hann ritaði vottorðið, en vitnið sagði að matið byggðist síðan á því hvað unnt væri að framkvæma. Aðspurt sagði vitnið að brotaþoli hefði ekki greint honum frá því að hún hefði lent í bílslysi áður og hefði verið metin öryrki eftir það.
Vitnið F kvaðst þekkja brotaþola og sagði að brotaþoli hefði haft sambandi við vitnið daginn fyrir árásina vegna deilu við ákærðu Andreu. Hefði brotaþoli spurt hann hvort hann ætlaði að skipta sér af stríði brotaþola við ákærðu Andreu, en vitnið kvaðst vera vinur þeirra beggja. Vitnið kvaðst hafa sagt henni að það ætlaði ekki að skipta sér af því þar sem það kæmi vitninu ekkert við. Brotaþoli hafi sagst ætla að ganga frá ákærðu Andreu, þ.e. drepa hana, berja, slasa eða eitthvað í þá veru. Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþola í janúar eða febrúar og þá hefði hún viðurkennt að þessi kynferðishluti væri rangur. Hún hefði sagt að E hefði farið eitthvað ofan í brókina á sér og að þessi maður með grímuna hafi farið eitthvað í klofið á sér og að hún vildi að þeir rotnuðu vegna þess sem þeir hefðu gert henni.
Vitnið G kvaðst þekkja til ákærðu Andreu og Jóns, sem og brotaþola. Vitnið sagði að ekki væri rétt að það hefði tekið nektarmyndir af ákærðu Andreu eða staðið í framhjáhaldi með henni.
Ákærði Elías kom aftur fyrir dóminn. Hann kaus að greina ekki frá því hvar hann hefði fengið leðurpyngju og grímu, sem hann hefði verið með á vettvangi. Hann sagði að rétt væri að hann kallaði ákærðu Andreu systur og sagði að hún væri ein besta vinkona hans. Sagðist ákærði elska hana alveg út af lífinu og sagði að hún væri búin að hjálpa honum í gegnum erfiða kafla í lífi hans. Kvaðst hann líta á hana sem stóru systur sína.
Ákærða Andrea kom fyrir dóminn að nýju og kvaðst kannast við það að hafa farið heim til ákærða X um klukkan hálf sjö eða átta að kvöldi 21. desember s1. Hún sagði aðspurð að ákærði X hefði ætlað að senda ákærða Óttari skilaboð og sagðist hún hafa séð hann vera í símanum, en ekki séð skilaboðin sem hann sendi. Aðspurð um tengsl sín við Hells Angels kvað ákærða Torpedo Crew ekki hafa verið klúbb, þ.e. þau hafi ekki verið með klúbbhús eða haldið fundi, en þau hefðu hins vegar verið með vesti. Hún kvaðst aðspurð ekki hafa séð hafa séð áður ljósmyndir, sem fram kæmu í upplýsingaskýrslu lögreglu frá 7. maí sl., en kvaðst muna eftir þegar þær voru teknar. Myndirnar hefðu átt að vera fyrir eitthvert dagatal og hún hefði í raun verið í hlutverki fyrirsætu á myndunum. Aðspurð um merkinguna 81 kvað ákærða ætla að merkingin stæði fyrir Hells Angels. Aðspurð um fyrir hvað merkingin Red and White Crew stæði fyrir kvaðst ákærða ekki vita það, en hún kvaðst ekki tilheyra neinum klúbbi eða gengi eða neinu öðru. Kvaðst hún aðeins hafa verið beðin um að sitja fyrir á myndum fyrir eitthvert dagatal og sagðist hún ekki hafa séð myndirnar áður. Hún sagðist oft hafa fyrir á myndum áður. Ákærða sagði að langt væri síðan myndirnar voru teknar, sennilega fyrir tveimur til þremur árum.
Aðspurð um hvort ákærða hefði verið formlegur meðlimur í Red and White Crew kvaðst vitnið ekki vita fyrir hvað það stæði. Kvaðst hún ekki geta svarað því hvort um formleg samtök á Íslandi væri að ræða. Ákærði sagðist ekki muna eftir því hvort ákærði X hefði talað um að brotaþoli hefði hótað honum, en hann hefði talað um að það væri ónæði af henni þar sem hún hefði verið að hringja um miðjar nætur. Aðspurð sagðist hún ekki hafa lesið sms-skilaboðin, sem ákærði X sendi ákærða Óttari, en sagðist gruna að hann hefði bara verið að biðja hann að taka símann af brotaþola.
Ákærði X kom að nýju fyrir dóminn. Hann staðfesti að hafa skrifað framlagt bréf úr fangelsinu 18. mars 2012, en sagðist ekki vilja tjá sig um efni þess. Hann staðfesti þó að bréfið fjallaði um það af hverju hann væri ekki lengur forseti Hells Angels. Kvað ákærði það vera vegna deilna um einhver vafaatriði og sagði að efni bréfsins skýrði sig sjálft. Ákærða var bent á að í bréfinu kæmi fram að hann hefði ávallt látið klúbbinn ganga fyrir og að hann hefði ávallt fórnað öllu fyrir klúbbinn og bræður sína. Ákærði kvaðst ekki vilja tjá sig um það hvort aðrir meðlimir Hells Angels væru bræður hans. Þá kvaðst hann ekki vilja tjá sig um það hvort þetta þýddi að hann væri tilbúinn að gefa líf sitt fyrir klúbbinn og bræður sína.
Ákærði Óttar kom fyrir dóminn að nýju. Hann kvaðst ekki vilja tjá sig um það hvort hann hefði fengið einhverjar hótanir vegna málins. Var honum þá bent á að verjandi hans hefði hafi lagt fyrir dóminn með greinargerð sinni upplýsingaskýrslu lögreglu, dagsetta 4. janúar 2012, þar sem því væri lýst að ákærði, sem handtekinn hefði verið vegna málsins, hefði fengið líflátshótanir vegna málsins, sem hann tæki mjög alvarlega. Aðspurður um hvort ákærði kannaðist eitthvað við þetta kvaðst hann ekkert geta tjáð sig um þessa skýrslu.
Greinargerðir ákærðu
Greinargerð ákærðu Andreu Kristínar Unnarsdóttur.
Í greinargerð ákærðu Andreu er á það bent að vélhjólasamtökin Hells Angels hafi aldrei viðurkennt konur sem meðlimi og geti ákærða ekki hafa verið á vegum Hells Angels eða tengdra samtaka, eins og haldið sé fram í ákæru. Þá hafi ákærða sjálf vísað til þess að samtökin Torpedo Crew hafi enga starfsemi og engan tilgang. Árásin sé sögð skipulögð af Hells Angels og stuðningsfélögum. Í skýrslu íslensku lögreglunnar sé reynt að tengja ákærðu við samtökin með fátæklegum og röngum hætti. Segi í skýrslunni að stuðningsgengi séu oft uppeldisgengi fyrir verðandi meðlimi Hells Angels. Þetta eigi sér stoð í rannsóknarskýrslu Europol. Þá segi að Torpedo Crew sé ekki vélhjólagengi en sé talið sinna afbrotum fyrir Hells Angels. Enn fremur segi að með því að slík gengi hafi ekki MC klúbba, megi konur vera meðlimir, en forseti Torpedo Crew sé kona. Þetta sé rangt og í ósamræmi við skýrslu Europol og önnur þekkt gögn um samtök Hells Angels. Sérstakar athugasemdir beri að gera við skýrslu íslensku lögreglunnar um starfsemi Hells Angels á Íslandi. Þar sé vísað í málið og fullyrði lögreglan í skýrslu sinni að atburðir hafi verið þeir sem brotaþoli lýsi án athugasemda um að niðurstaða málsins liggi ekki fyrir. Þetta sýni að rannsókn málsins sé huglæg fremur en hlutlæg. Sé þetta í andstöðu við svokallaða ,,sannleiksreglu” 2. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Brot ákærðu samkvæmt 175. gr. a., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 sé með öllu ósannað og sæti raunar furðu að hún sé ákærð samkvæmt umræddu lagaákvæði. Beri því að sýkna hana af þessum ákærulið.
Þá er af hálfu ákærðu bent á að framburður brotaþola um ætlaða nauðgun sé afar ótrúverðugur, en lýsing brotaþola hjá lögreglu á því hversu auðvelt hafi verið að framkvæma verknað, vegna nærfata hennar, standist varla, enda sýni myndir og rannsókn lögreglu að buxur hennar komi í veg fyrir slíkan verknað. A hafi verið í þröngum hvítum síðbuxum með málmtölu í streng og stuttum rennilás. Klippa hafi þurft buxurnar af henni við komu á spítala frá streng og niður eftir báðum skálmum. Aðstæður á staðnum og fatnaður brotaþola girði fyrir það að hin meinta nauðgun geti hafa átt sér stað með þeim hætti sem brotaþoli lýsi en engar frekari skýringar hafi verið gefnar. Þeir áverkar sem greindir hafi verið við skoðun geti ekki staðfest nauðgunarbrot enda geti þeir hæglega verið eftir annað eða fyrri samfarir. Þá séu líkurnar á því að marblettur á rassi sé eftir hina meintu nauðgun mjög fjarlægar enda ekki nálægt því svæði sem lýsing brotaþola taki til. Einnig megi nefna að ekki virðist hafa verið kannað hvort áverkar á brotaþola hafi verið nýlegir eða gamlir. Helstu sönnunina um nauðgun telji rannsakandi vera staðhæfingu brotaþola um eymsli á þeim stöðum sem hún fullyrði að meðákærði Elías hafi klipið sig.
Sök ákærðu hvað varðar nauðgun sé ósönnuð enda hafi ásetningur hennar til að fremja slíkt brot ekki verið til staðar. Ákærða verði ekki sakfelld fyrir annað og meira í atburðarrásinni en ásetningur hennar nái til. Það sé afar langsótt að ákærða hafi vitað að kynferðisbrot, sem mögulega tekur örstuttan tíma, jafnvel sekúndubrot, myndi eiga sér stað eða að hún gæti gert ráð fyrir því að svo færi, enda hafi ákærða verið upptekin á sama tíma af því að sparka í höfuð brotaþola eftir því sem brotaþoli segi í skýrslutöku hjá lögreglu. Um brot ákærðu hvað varði þennan lið ríki fullkominn sönnunarskortur og því beri að sýkna ákærðu af broti gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Á það er bent að ákærða hafi viðurkennt líkamsárás í málinu. Því fari þó fjarri að sjálfgefið sé að verknaðarlýsingin eigi undir 2. mgr. 218. gr. hgl. Ákærða ítreki það sem hún hafi staðfastlega áður haldið fram, þ.e. að hún hafi ætlað að skera hárlengingar af brotaþola og hún hafi við það óvart skorið í fingur brotaþola. Ákærða hafi kýlt hana einu sinni eða tvisvar og að hún hafi einnig togað í hárið á henni og þá hafi brotaþoli pissað á sig. Ákærða hafi viðurkennt að hún hafi veitt brotaþola sár á fingurinn. Þar hafi hins vegar verið um óviljaverk að ræða. Ásetningur hennar hafi eingöngu náð til þess að klippa hár en ekki skaða fingur. Hvað þetta varði verði ákærða ekki sakfelld fyrir umrætt óviljaverk sitt og beri því að sýkna hana af 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við skoðun ákverka virðist nokkuð ljóst að klippum var ekki beitt enda sé einungis sár öðru megin á fingrinum en ekki báðum megin eins og annars hlyti að vera. Framburður ákærðu sé því afar trúverðugur um þennan þátt málsins. Þá beri loks að benda á að samkvæmt gögnum málsins hafi brotaþoli átt nokkra sök í aðdraganda málsins og þá í samræmi við 3. mgr. 218. gr. b., almennra hegningarlaga.
Ákærða sé enn fremur sökuð um að hafa framið rán samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft á brott með sér farsíma brotaþola og Arnars Hjartarsonar, sem staddur hafi verið í íbúð brotaþola umrætt auk þess að hafa á brott með sér lyklakippu brotaþola. Auðgunartilgangur ákærðu sé ekki skýrður nánar í ákæru enda ekki um slíkan tilgang að ræða. Rán sé auðgunarbrot í skilningi XXVI. kafla almennra hegningarlaga, afbrot sem framið sé í þeim tilgangi að hagnast fjárhagslega. Auðgunartilgangur sé skilyrði fyrir því að ránsbrot geti talist fullframið. Í tilviki ákærðu sé ekki sýnt fram á auðgunarásetning eða önnur skilyrði þess að um rán hafi verið að ræða. Því beri að sýkna ákærðu af ráni samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga.
Með hliðsjón af alvarleika málsins og ásökunum á hendur ákærðu sé óhjákvæmilegt að benda á að framburður brotaþola sé á margan hátt ótrúverðugur og í honum sé slíkt misræmi að ekki sé mark á honum takandi. Við lestur lögregluskýrslna komi í ljós að í fyrstu hafi brotaþoli borið að ákærða hafi verið með litlar garðklippur og gert sig líklega til þess að klippa af henni einn fingurinn, en hún hafi náð að koma fingrinum frá. Í skýrslutöku hjá lögreglu 22. desember 2011 segi brotaþoli að grímuklæddi maðurinn í málinu hafi klippt í vísifingur hennar með töng sem hann hafi meðferðis og hótað henni í kjölfarið að klippa alla fingurna af. Í skýrslutöku 28. desember 2011 breyti brotaþoli framburði sínum enn og segi þá að ákærða hafi skorið í fingurinn um leið og hún hafi hótað að taka alla fingurna af. Brotaþoli sé einnig tvísaga í vitnisburði sínum hvað varði grímuklædda manninn. Í fyrstu taki hún vel eftir og sjái húðflúr á hönd hans, en segist ekki geta lýst vaxtarlaginu. Síðar breyti hún framburði sínum og segist líklega hafa verið í villu með húðflúrið enda sé hún 99% viss um hver sá grímuklæddi hafi verið og nafngreinir manninn. Síðar hverfi hún frá þeim framburði að nýju.
Brotaþoli segi frá því í skýrslu að árásarfólkið hafi neytt ofan í hana amfetamín eða kókaín, látið hana sjúga í nef og gleypa. Segi hún að árásarfólkið hafi sagt að þar með yrði henni ekki trúað. Þessi lýsing sé ótrúverðug og afar langsótt og miklu fremur til þess að fela eða breiða yfir eigin neyslu. Þegar skýrsla um blóð- og þvagsýni úr brotaþola hafi verið tekin hafi komið í ljós að brotaþoli hafi verið undir áhrifum örvandi og slævandi efna. Framburður brotaþola hvað varði neyslu standist ekki. Samkvæmt því sem greini í gögnum málsins hafi brotaþoli verið í yfirliði þegar lögreglu hafi borið að garði en hún lýsi því að hún hafi verið vönkuð og meðvitundarlítil. Engu að síður séu lýsingar hennar nokkuð nákvæmar þegar hún vilji það við hafa. Hvað þetta varði verði að telja framburð hennar ómarktækan. Brotaþoli hafi lýst ótta sínum við ákærðu og að hún þori varla út úr húsi. Hún eigi að upplifa ofsakvíða og ótta vegna árásarinnar Þrátt fyrir þetta hafi brotaþoli sýnt bíræfni í framgöngu sinni gagnvart ákærðu eftir atburðinn. Þannig hafi hún brotist inn í íbúð ákærðu 1. febrúar 2012 og haft á brott með sér verðmæti.
Varðandi skaðabótakröfu brotaþola sé krafist frávísunar á henni með vísan til aðalkröfu ákærðu um sýknu af refsikröfum ákæruvaldsins, sbr. 2. mgr. 176. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá sé krafa um frávísun bótakröfunnar byggð á því að framsetning kröfunnar uppfylli ekki skilyrði 2. og 3. mgr. 174. gr. og 174. gr. laga um meðferð sakamála og að krafan sé vanreifuð bæði efnislega og tölulega og að í henni séu fullyrðingar sem ekki standast nánari skoðun. Til vara sé þess krafist að ákærða verði sýknuð af bótakröfunni en til vara að krafan verði stórlega lækkuð.
Greinargerð ákærða X.
Í greinargerð ákærða X er á það bent að sama dag og ákærði var handtekinn, eða 13. janúar sl., hafi hann gefið ítarlega skýrslu hjá lögreglu þar sem hann hafi útskýrt samskipti sín við aðila þessa máls. Sé sá framburður trúverðugur í alla staði og hafi hvorki verið hrakinn með framburði annarra sakborninga eða vitna, né að hann stangist á við gögn málsins. Þar komi meðal annars fram að það hafi verið brotaþoli sem hafi átt frumkvæðið að samskiptum við ákærða en ekki öfugt. Sé það í samræmi við framburð brotaþola sjálfs. Erindið hafi varðað ágreining sem tengdist meðal annars síma í eigu meðákærðu Andreu sem brotaþoli hafi haft undir höndum. Ákærði kveðst vera málinu óviðkomandi og samræmist það einnig framburði brotaþola. Ákærði kveðst síðan hafa fengið þær upplýsingar að í símanum væru viðkvæmar myndir af Andreu og hann hafi þá hringt í brotaþola daginn eftir og beðið hana að skila umræddum síma. Hafi þau ákveðið að hittast á tattústofu ákærða síðar, þ.e. eftir að umrædd átök áttu sér stað, til að skila símanum. Ákærði kveðst viðurkenna að þrír meðákærðu í málinu, þau Andrea, Elías og Jón, hafi komið til sín kvöldið sem átökin hafi átt sér stað. Kveður ákærði að þau hafi komið til sín og ætlað að fá ráðleggingar varðandi mótorhjól sem mun hafa verið stolið af ákærðu Andreu.
Í málsgögnum sé að finna skjal sem sé dagsett 3. janúar sl. og beri heitið „greinargerð um samskipti símanúmera”. Í skjalinu komi fram að ákærði hafi átt eitt tæplega tveggja mínútna símtal við meðákærða Y klukkan 01.54. Gríma og kylfa sem talin séu tengjast meintu broti hafi fundist við húsleit hjá Y síðar eftir að meintir árásaraðilar hafi komið að heimili Y um nóttina. Það gefi augaleið að símtal ákærða í þennan aðila þurfi ekki að þýða að það hafi tengst skipulagningu líkamsárásar og kynferðisbrots. Getgátur Ríkissaksóknara í þá veru veki furðu í því ljósi að Y upplýsti í yfirheyrslu hjá lögreglu 17. janúar 2012 að í símtalinu hafi ákærði spurt hann hvort hann gæti ekki „svarað Nonna í símann“ og talið að þetta væri „eitthvað bílavesen“, sem samræmist því að verið var að sækja ökutæki sem brotaþoli mun hafa stolið. Sé þetta símtal því ekki vísbending um aðild ákærða að broti fremur en staðfesting á skýringum ákærða. Í Facebook-samskiptum meðákærðu Andreu við meðákærða Óttar komi fram að ákærði ætli „væntanlega“ að koma með að hitta brotaþola en hún eigi ekki að vita af því. Samkvæmt gögnum lögreglu hafi tilgáta hennar fyrst verið að ákærði kunni að vera grímuklæddi aðilinn en nú séu þessi ummæli notuð til að rökstyðja að ákærði sé annars konar þátttakandi í verknaðnum. Varðandi þessi ummæli Andreu þá bendi þau í fyrsta lagi ekki sérstaklega til þess að Andrea hafi yfir höfuð talað við ákærða um að fara til brotaþola enda getur orðið „væntanlega“ vísað til væntingar hennar sjálfrar og margt sem bendi til þess að hún hafi einmitt sett sig í samband við ákærða eftir þessi Facebook samskipti en ekki fyrir þau. Í öðru lagi, jafnvel þótt ákærði hefði á einhverjum tímapunkti viðrað þann möguleika að fara til brotaþola og vakið þar með væntingar hjá Andreu um slíkt, þá jafngildi það ekki ásetningi til afbrots í slíkri ferð, ef til hennar myndi koma. Sé því afar langsótt að tengja aðild ákærða að meintu broti við þessar hugleiðingar Andreu í samskiptum hennar við Óttar. Lögregla segi í skýrslum að fram komi í SMS skeyti frá Andreu að gefið hafi verið út svokallað „veiðileyfi“ á brotaþola. Ákærði hafi þvertekið fyrir að hafa gefið nokkurt slíkt leyfi eða að orðalag á borð við þetta hafi verið notað í tengslum við bifhjólafélagið sem hann hafi átt aðild að.
Ljóst sé að þau óbeinu sönnunargögn sem vísað hafi verið til í gæsluvarðhaldsmálum ákærða í þessu máli nægi ekki til þess að talið verði hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi tekið þátt í refsiverðu broti, hvað þá að hann hafi beinlínis fyrirskipað slíkt. Fleiri atriði í gögnum málsins styrki þessa niðurstöðu. Í skýrslu sinni, dagsettri 23. desember sl., hafi vitnið Óttar Gunnarsson lýst því að ákærða Andrea og brotaþoli hafi átt í illdeilum vegna meints framhjáhalds þeirrar fyrrnefndu sem brotaþoli hafi hótað að upplýsa um. Hið sama komi fram í framburði Andreu, brotaþola sjálfs og annarra í málinu. Sé því ljóst að meðákærðu Andrea og Jón, gátu sjálf haft sínar persónulegu hvatir til að fremja afbrot gagnvart brotaþola sem komi ákærða eða félagi sem hann hafi verið aðili að á engan hátt við. Tilgátan um að ákærði hafi skipulagt árásina sé því harla ólíkleg og a.m.k. ljóst að það sé mögulegt að framangreindir aðilar hafi tekið það upp hjá sjálfu sér að ráðast á brotaþola án þess að vilji eða ásetningur ákærða hafi staðið til þess.
Samkvæmt ákæru hafi ákærði lagt á ráðin um að framin yrði stórfelld líkamsárás, sbr. 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga Ákærði mótmæli því að hafa haft nokkra vitneskju um meinta árás og sé slíkt ósannað, sbr. framangreint. Jafnvel þótt sannað yrði að ákærði hafi haft einhverja vitneskju um að árás væri möguleg jafngilti það því ekki að ákærði hafi skipulagt brotið eða tekið þátt í því á nokkurn annan hátt. Ákærði telji ennfremur að jafnvel þótt sannað yrði að hann hafi tekið þátt í því að leggja á ráðin um meinta árás að slíkt gæti í mesta lagi talist hlutdeildarbrot þar sem aðkoma hans í framkvæmd brots sé engin. Jafnvel þótt það væri gefið að ákærði hafi lagt á ráðin um meinta árás, þá telji ákærði að meint líkamsárás falli einungis undir 217. gr. almennra hegningarlaga enda sé hvorki sannað að stórfellt líkams- og heilsutjón hafi hlotist af henni né að aðferð hafi verið sérstaklega hættuleg. Jafnvel þótt ásetningur ákærða verði talin hafa náð til þess að framin yrði líkamsárás þá sé ósannað að ásetningur hans hafi náð til þess að slík árás yrði meiriháttar eða sérstaklega hættuleg þannig að varðaði við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða sé einnig gefið að sök að hafa skipulagt nauðgun á hendur brotaþola. Til þess að unnt sé að sakfella ákærða fyrir þennan þátt málsins þurfi að sanna ásetning hans til þess að gerendur afbrotsins myndu fremja umrætt meint kynferðisbrot. Engin slík sönnun liggi fyrir enda verði að telja líklegast að ef kynferðisbrot hafi verið framið hafi það ekki verið fyrirfram ákveðið.
Ákærða er loks gefið að sök að hafa tekið þátt í ráni með því að þeir sem hafi verið á vettvangi hafi haft á brott með sér muni í eigu brotaþola. Ákærði hafi ekkert vitað um þessa muni sem haldið sé fram að hafi verið teknir og hafi hvorki séð þá né haft í vörslum sínum eftir atvikið. Það sama eigi því við um þetta atriði og önnur atvik sem sögð séu hafa átt sér stað á staðnum, þ.e. ásetningur ákærða til þess að slíkt brot skyldi framið sé ósannaður. Grundvallarskilyrði þess að hægt sé að telja ákærða hafa framið afbrot samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga sé að afbrotið hafi verið framið í auðgunarskyni sbr. 243. gr. s.l. Engin gögn bendi til þess að ákærði hafi auðgast með einhverjum hætti á þessu afbroti eða til hafi staðið að hann auðgaðist með einhverjum hætti á meintri aðför gagnvart brotaþola.
Tilgáta ákæruvaldsins um að brotið sé hluti af skipulagðri glæpastarfsemi sé algerlega úr lausu lofti gripin. Vandséð sé hvernig framangreindar deilur ákærðu Andreu annars vegar og brotaþola hins vegar tengist starfsemi bifhjólafélagsins Hells Angels enda hafi hvorugar verið meðlimir í því félagi. Því sé mótmælt að ákærðu hafi öll verið meðlimir í skipulögðum glæpasamtökum eins og fullyrt sé í ákæru. Í fyrsta lagi sé aðild ákærðu að bifhjólafélögum mjög mismunandi háttað og tilheyri því ýmist ekki neinum eða ólíkum félögum. Samkvæmt gögnum málsins virðist aðeins ákærði, Y og Jón vera meðlimir í einhverskonar vélhjólafélögum, en ekki brotaþoli, Óttar, Andrea og Elías. Þar af hafi aðeins ákærði og Y verið meðlimir í Hells Angels á Íslandi.
Að mati ákærða eigi skilyrði 175. gr. a. almennra hegningarlaga ekki við í málinu og ekki verði með neinu móti séð hvernig meint árás á brotaþola geti verið liður í starfsemi félags sem ákærði hafi verið aðili að. Fram komi í ákæru að tilefnið hafi meðal annars verið erjur vegna síma og bifhjóls sem ákærða Andrea hafi talið brotaþola hafa stolið af sér. Fram komi í gögnum málsins að miklar erjur hafi verið milli Andreu og brotaþola persónulegs eðlis vegna mögulegrar uppljóstrunar um meint framhjáhald. Í ákæru sé sagt að meint árás hafi einnig verið hefndaraðgerð. Óljóst sé fyrir hvað Hells Angels eigi að hafa verið að hefna fyrir auk þess sem slíkt sé ósannað. Þá sé það ósannað í málinu að Hells Angels séu skipulögð brotasamtök. Engu breyti í þessu sambandi þótt lögregluyfirvöld hafi skilgreint samtökin sem slík enda fari þau með rannsókn mála gagnvart ákærðu í málinu og því ekki hlutlaus aðili til að meta slíkt. Skýrslur annarra lögregluyfirvalda eru sama marki brenndar. Það sé ekki hægt að leggja til grundvallar mat þess aðila sem reynir að afla sönnunar um brot á því hvort að refsiskilyrðum sé fullnægt. Slíkt mat sé í höndum dómstóla á grundvelli sönnunargagna sem aflað hafi verið. Samkvæmt ákvæðinu þurfi meðlimir meintra brotasamtaka að vera a.m.k. þrír. Ljóst sé að tveir ákærðu hafi tilheyrt Hells Angels á Íslandi. Engin önnur gögn liggi fyrir um fjölda meðlima. Þá sé ósannað að það sé meginmarkmið Hells Angels á Íslandi að fremja refsiverðan verknað sem varði a.m.k 4ra ára fangelsi. Fullyrðingum í gögnum lögreglu sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Tilgangur og markmið samtakanna sé lögmætt. Jafnvel þótt einstaka meðlimir hafi gerst brotlegir við lög sé það ekki í grundvallaratriðum ólíkt því sem eigi við um önnur lögmæt samtök manna. Jafnvel þótt sannað væri að markmið samtakanna væri að fremja refsiverð brot þá væri ósannað að slíkt markmið væri í ávinningsskyni. Ekki liggi fyrir hver meintur ávinningur samtakanna ætti að vera af slíkum brotum, t.d. meintu broti í þessu máli. Sanna þurfi að meginmarkmiðið sé að fremja alvarleg brot með skipulegum hætti. Að mati ákærða skorti algerlega að reynt sé að sanna slíkt. Ekki liggur fyrir hvaða brot það þá eru eða á hvaða hátt þau eru framin með sérstaklega skipulegum hætti. Væri brotastarfsemi verulegur þáttur í starfsemi samtakanna ætti að liggja fyrir gríðarmikill fjöldi refsidóma á hendur félagsmönnum. Ekkert slíkt sé að finna í gögnum málsins.
Greinargerð ákærða Elísar Valdimars Jónssonar.
Í greinargerð ákærða Elíasar segir að málsatvik liggi mjög skýrt fyrir en ákæran sé í engu samræmi við staðreyndir málsins. Málið snúist um rifrildi og deilur tveggja kvenna sem magnist og leiði til átaka. Brotþoli og meðákærða Andrea hafi verið vinkonur til margra ára. Báðar eigi þær við óreglu að stríða. Til deilna hafi komið milli þeirra sem virðist aðallega hafa snúist um þrennt, þ.e. að þær hafi vænt hvor aðra um þjófnað á innanstokksmunum, deilt um viðskipti með þýfi, en brotaþoli hafði selt meðákærðu Andreu mótorhjól og deilt um vörslur þýfisins og framgang þessara viðskipta. Þá hafi brotaþoli komist yfir síma meðákærðu Andreu sem hafi haft að geyma persónulegar myndir af ákærðu sem brotaþoli hafi hótað að setja á netið.
Enn fremur hafi brotaþoli borið ákærðu Andreu ranglega sökum um framhjáhald og hafi brotaþoli lagt fram viðkvæmar myndir af Andreu því til sönnunar. Hafi hinar röngu ásakanir leitt til sambúðarslita ákærðu Jóns og Andreu sem hafi farið mjög illa í ákærðu Andreu. Brotaþoli hafi hvergi verið banginn og hafi haft í hótunum við Andreu m.a. um að senda tilkynningar um slæman aðbúnað barna ákærðu Andreu til barnaverndaryfirvalda og hafi einnig verið í sambandi við ýmsa aðila, svo sem F, E o.fl.
Í greinargerðinni segir að ákærði Elías neiti sök í málinu. Hann sé sjúklingur og eigi við andleg veikindi að stríða, sem og vímuefnavanda. Ákærði sé eignalaus, fátækur öryrki, félagsfælinn, kvíðinn, þunglyndur og hafi aldrei stundað afbrot. Hann eigi ekki mótorhjól og sé ekki í neinum mótorhjólasamtökum. Ákærði hafi nýverið kynnst ákærðu Andreu, með þeim hafi tekist góður vinskapur og hafi hann verið á heimili ákærðu Andreu og Jóns meðan á sambúðarslitunum stóð vegna ávirðinga brotaþola um framhjáhald. Ákærði hafi orðið vitni að andlegum kvölum Andreu þegar ákærði Jón yfirgaf hana. Hann hafi fyrir tilviljun verið á heimili ákærðu þegar Jón hafi loks ætlað að koma heim aftur og farið með að hitta brotaþola til að leysa málin. Ákærði hafi ekki staðið að neinni skipulagningu heimsóknarinnar en farið með ákærðu fyrir þeirra orð sem passívur félagi. Kjarninn í frásögn ákærða sé sá að ákærði hafi ekki ætlað að meiða neinn og hafi ekki ráðist að neinum á vettvangi. Hann hafi ekki verið í neinum illindum við brotaþola. Hann hafi aðeins farið með þar sem ákærðu Andrea og Jón hafi ætlað að ræða við brotaþola um þeirra mál. Viðvera ákærða í íbúð brotaþola hafi aðeins verið nokkrar mínútur.
Í greinargerðinni segir að ákærði hafi ekki haft ásetning til að meiða brotaþola. Hann sé ekki glæpamaður og taki ekki þátt í skipulagðri brotastarfsemi. Hann hafi engu rænt og ekki beitt brotaþola kynferðislegu ofbeldi. Ákærði hafi verið með húfu og vettlinga á höndum þá stuttu stund sem aðilar hafi verið á vettvangi. Enginn líkamsvökvi eða DNA-sýni hafi fundist á hönskum eða húfu. Frásögn brotaþola um kynferðisbrot með þeim hætti sem hún lýsi sé ómögulegt að framkvæma. Ákærði vísi til þess að frásögn brotaþola sé mjög ótrúverðug um að tveir aðilanna hafi haldið henni til sitt hvorrar hliðar meðan sá þriðji hafi náð að troða hendi niður níðþröngar gallabuxur frá mitti og niður fyrir mjaðmir og náð að stinga fingrum í endaþarm og leggöng og klemma á milli. Ákærði Elías sé beinamikill og með stórar hendur og klæddur hönskum. Ekkert hafi séð á buxum brotþola, engin rifa eða skemmd.
Rétt sé að ítreka það að ákærða Andrea hafi viðurkennt að hafa sparkað í klof brotaþola í stígvélum og geti það skýrt áverka brotaþola á þessu svæði. Vegna lyfja og slævðrar meðvitundar hafi brotaþoli náð fram rangri eða falskri upplifun af atvikum. Þá verði að benda á læknisvottorðs brotaþola, dagsett 22. desember 2011. Þá segi brotaþoli meðal annars að sparkað hafi verið milli fóta hennar.
Í greinargerðinni er ennfremur á það bent að brotaþoli hafi orðið fyrir annarri árás í byrjun þessa árs og eigi að hafa verið slegin í höfuðið. Þá hafi hún mátt þola kynferðisofbeldi af hendi afa síns og annarra frá barnsaldri. Einnig hafi brotaþoli lent í óreglu á barnsaldri og þá hafi tveir sambýlismenn hennar beitt hana ofbeldi. Telja verði sennilegt að andleg veikindi brotaþola í dag séu vegna annarra atvika í lífi hennar.
Að því er varðar bótakröfu brotaþola er á það bent að eigin sök eða framkoma brotaþola við ákærðu Andreu skuli hafa áhrif til lækkunar bótakrafna.
Að er varðar sakargiftir um þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi er á það bent af hálfu ákærða að málið snúist um deilur ákærðu Andreu og brotaþola og ástir og örlög. Þessar deilur hafi ekkert með alþjóðlega glæpastarfsemi að gera. Á það er bent að ákærði sé ekki einu sinni meðlimur í mótorhjólasamtökum hvað þá að hann tengist skipulagðri brotastarfsemi.
Hugleiðingar lögreglumanna um að allir mótorhjólamenn sem tengist Hells Angels eða tali við þá séu brotamenn hafi enga þýðingu við úrlausn málsins. Alþjóðlegir eða innlendir glæpamenn ráði engu um deilur ákærðu og brotaþola.
Greinargerð ákærða Y.
Í greinargerð ákærða Y segir að honum sé í ákæru gefin að sök þátttaka í skipulagðri brotastarfsemi með því að hafa haft í frammi þá háttsemi, sem í ákæru greinir og er sú verknaðarlýsing talin varða við 175. gr. a. almennra hegningarlaga. Ákærða sé ekki gefið að sök að hafa brotið gegn neinu öðru refsiákvæði almennra hegningarlaga. Í ákvæðinu séu talin upp skilyrði sem þurfi að vera uppfyllt svo ákvæðinu verði beitt, en þau séu að sammælast við annan mann um að fremja verknað sem varðar að minnsta kosti 4 ára fangelsi, og að framkvæmd verknaðarins er liður í skipulagðri brotastarfsemi.
Í greinargerðinni er á það bent að í ákærunni sé þess ekki getið hvaða brot það sé sem ákærði eigi að hafa sammælst við annan mann um að fremja. Í verknaðarlýsingunni sé tekið fram að ákært sé fyrir þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi, sbr. ákærulið I. En ákvæði 1. mgr. 175. gr. a. almennra hegningarlaga geri þann áskilnað að tiltekinn verknaður verði að vera framinn sem liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Verknaðarlýsing ákærunnar um að ákærði hafi tekið við poka úr hendi ákærðu Andreu, Jóns og Elíasar sé ekki heimfært undir annað refsiákvæði almennra hegningarlaga né refsiákvæði sérlaga, eins og t.a.m. gera verði ef færa á verknaðarlýsingu brots undir 173. gr. a. almennra hegningarlaga.
Í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins er hafi orðið að lögum nr. 149/2009, sem bætt hafi 175. gr. a. við almenn hegningarlög, sé tekið fram að öll refsiverð brot, sem fullnægi þeirri kröfu að varða a.m.k. fjögurra ára fangelsi, geti orðið grundvöllur að verknaði sem sé liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Megi af þessu ráða að löggjafinn geri ráð fyrir að heimfæra þurfi ákveðinn verknað undir annað refsiákvæði svo beita megi ákvæði 175. gr. a. almennra hegningarlaga. Ákvæði 175. gr. a., um skipulagða brotastarfsemi, uppfylli ekki eitt og sér áskilnað grunnreglu 69. gr. laga nr. 33/1944 um skýrleika refsiheimilda. Ákvæðið sé eyðuákvæði og geti ekki staðið án tilvísunar til annarra refsiákvæða. Með eyðuákvæðum sé átt við refsiákvæði sem hafi ekki sjálf að geyma verknaðarlýsingu heldur vísi um það beint eða óbeint til annarra laga- eða regluákvæða. Almennt sé viðurkennt í refsirétti að refsilög eigi að túlka þröngt leiki vafi á því hvort sakarefni heyri undir tiltekið refsiákvæði. Komi tveir eða fleiri lögskýringarkostir til greina beri að velja þann sem leiði til sýknu. Þetta lögskýringarsjónarmið sé leitt af grundvallarreglunni um lögbundnar refsiheimildir.
Samkvæmt því sem greini að framan sé þannig með öllu óljóst samkvæmt ákærunni hvaða verknaður, sem varða eigi að minnsta kosti 4 ára fangelsi, það sé sem ákærða sé gefið að sök að hafa framið. Beri af þeirri ástæðu einni þá þegar að sýkna ákærða.
Greinargerð ákærða Jóns Ólafssonar.
Í greinargerð ákærða Jóns segir að samkvæmt gögnum málsins er áætlað að hin meinta árás hafi verið yfirstaðin klukkan 2:42 eftir miðnætti. Það komi fram í skýrslu vegna tímasetninga. Af frumskýrslu lögreglu megi hins vegar ráða að ekki hafi verið tilkynnt um hina meintu árás fyrr en klukkan 03:20. Ákærði telji að tíminn frá klukkan 2:42 til klukkan 03:20 sé óútskýrður en á þeim tíma geti brotaþoli hafa veitt sér áverka og/eða vitnið B en þau eru ein til frásagnar um það hvað gekk á þennan tíma. Þá sé jafnvel mögulegt að hinn meinti brotaþoli og áðurnefnt vitni hafi sviðsett vettvanginn ásamt því að sammælast um ýkta og ranga frásögn af atburðum þetta kvöld enda kannast ákærði ekki við frásögn brotaþola af kvöldinu. Þá bendi ákærði á að verulegt ósamræmi sé í frásögn brotaþola af atvikum málsins. Hún segi ýmist að meðákærða Andrea hafi klippt sig í puttann eða að hinn grímuklæddi þriðji maður hafi gert það. Þá segi brotaþoli að meðákærða Andrea hafi skorið sig. Þá kveður hún í einni skýrslutöku að meðákærði Óttar hafi staðið vörð við millihurð en í annarri skýrslutöku kveður hún hann hafa verið inni í herbergi. Þá kveðst brotaþoli á einum stað í skýrslutöku hjá lögreglu hafa misst meðvitund um það leyti sem ákærðu yfirgáfu íbúðina. Á öðrum stað segir hún hins vegar að meðákærði Óttar hafi orðið eftir til að taka saman dótið sitt eftir að aðrir meðákærðu hafi verið farnir út. Ákærði telji þetta það mikið misræmi í framburði brotaþola að ekki verði á honum byggt.
Þá segi vitnið B að það hafi borið brotaþola inn í stofu og lagt meðvitundarlitla á sófa í stofunni. Þrátt fyrir þetta þá liggi brotaþoli á gólfinu þegar sjúkraflutningamenn hafi borið að. Ákærði telji brotaþola hafa fært sig niður á gólf til að hylja eiturlyf sem þar lágu eftir hamaganginn sem varð á milli aðila. Þá sé á þessum sama stað blóðkám eftir brotaþola. Ákærði telji það renna stoðum undir að hún hafi fært sig niður á gólf til að hylja eiturlyfin. Ákærði bendi á að samkvæmt niðurstöðum úr DNA-rannsókn hafi ekkert blóð fundist á fötum ákærða og einungis blóð á skóm ákærðu Andreu. Í skýrslu tæknideildar sé fullyrt að blóð hafi átt að kastast á gerendur vegna þess hversu lítið af blóðslettum hafi verið að finna á vettvangi, þrátt fyrir það finnist ekkert blóð í fötum þeirra. Þá bendi ákærði á að ekkert blóð og engin fingraför hafi fundist á klippum, kylfu eða öðrum vopnum sem brotaþoli kveði hafa verið notuð í umrætt sinn. Það telji ákærði til marks um það að þessum vopnum hafi aldrei verið beitt líkt og hann hafi haldið fram áður. Ákærði telji að framburður brotaþola um að klippum og kylfu hafi verið beitt sé hugarburður. Þá greini brotaþoli frá því í sálfræðiskýrslu að hún lifi í stöðugum ótta um að ráðist verði á sig aftur, en rétt sé að fram komi að brotaþoli sé ekki hræddari við hann en svo að hún hafi brotist inn á sameiginlegt heimili ákærða og meðákærðu Andreu, en ákærði hafi kært það til lögreglu.
Í einkaréttarkröfu brotaþola séu myndir af skallablettum á höfði hennar. Ákærði telji að brotaþoli hafi haft þessa skallabletti lengi og hafi verið kominn með þá löngu áður en hin umdeildu atvik hafi átt sér stað og séu þeir afleiðing lyfjameðferðar sem hún hafi farið í.
Í greinargerðinni segir að ákærði hafi því að hafa gerst sekur um nauðgun eða önnur kynferðismök líkt og hann sé ákærður fyrir. Ákærði hafi allt frá upphafi neitað sök varðandi þetta atriði og telji í raun að þetta hafi ekki gerst, en hafi það gerst þá hafi hann ekki átt þátt í því og því ekki vitað af því. Þá bendi ákærði á að brotaþoli hafi sjálf ítrekað borið í skýrslutökum hjá lögreglu að það hafi verið grímuklæddur þriðji maður, hugsanlega meðákærði Elías Valdimar Jónsson, sem hafi stungið fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola. Megi því vera ljóst að ákærði Jón hafi hvergi komið nærri hinu meinta kynferðisbroti, hafi það yfir höfuð átt sér stað. Hann hafi ætíð neitað því í skýrslutökum að hafa beitt brotaþola kynferðisbroti auk þess sem hún hafi aldrei borið slíkar sakir á hann. Í því ljósi telji ákærði að sýkna beri hann af þessu ákæruatriði.
Ákærði kveðst benda á að það sé ákæruvaldið sem beri sönnunarbyrðina fyrir því að ákærði hafi haft ásetning til allra þátta þeirrar háttsemi sem honum sé gefið að sök. Í því ljósi þurfi ákæruvaldið að sýna fram á að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að hinn meinti brotaþoli yrði beittur kynferðisbroti en það sé eins fjarri sanni og hugsast geti. Komist dómurinn hins vegar að því að sakfella beri ákærða telji ákærði að hann verði einungis sakfelldur fyrir minniháttar hlutdeild í kynferðisbrotinu.
Ákærði kveðst neita því að hafa gerst sekur um brot á 252. gr. almennra hegningarlaga líkt og hann sé ákærður fyrir. Ákærði kannist ekki við hafa tekið þá hluti af heimili hins meinta brotaþola sem hann sé ákærður fyrir að hafa tekið. Ákærði bendi á að allan vafa um sekt skuli skýra sökunaut í hag. Ekkert liggi fyrir í málinu þess efnis að ákærði hafi tekið þá hluti sem hann sé ákærður fyrir. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að sýkna hann af þessum ákærulið. Þá hafi auðgunarásetningur ekki verið til staðar en það sé frumröksemd fyrir því að hægt sé að ákæra og dæma fyrir rán, sbr. 243. gr. almennra hegningarlaga.
Í greinargerði segir að ákærði neiti því að hafa gerst brotlegur við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Hvergi komi fram í skýrslum að ákærði hafi beitt tækjum eða að brotaþoli hafi orðið fyrir stórfelldu líkams- og/eða heilsutjóni af völdum árásarinnar. Ákærði ítreki það sem fram komi í skýrslum af brotaþola, en þar komi fram að hann hafi haft sig minnst í frammi af þeim aðilum sem hafi verið á vettvangi. Þá sé fram komið að ákærði telji að engum vopnum hafi verið beitt. Komist dómurinn hins vegar að því að ákærði hafi gerst sekur um líkamsárás þá telji ákærði að heimfæra verði hið meinta brot undir 217. gr. almennra hegningarlaga með hliðsjón af því að engum vopnum var beitt og minniháttar áverka hins meinta brotaþola.
Ákærði kveðst neita því að hafa gerst brotlegur við 175. gr. a. almennra hegningarlaga. Ákærði bendi á að það liggi ekkert fyrir í málinu um að hin meintu brot hafi verið fyrirfram skipulögð. Ákærði telji í raun að þetta mál tengist skipulagðri glæpastarfsemi ekki á nokkurn hátt, heldur snúist um ósætti tveggja kvenna, ákærðu Andreu og brotaþola, sem hafi farið úr böndunum. Sé langt seilst hjá ákæruvaldinu að reyna að fella þetta mál undir 175. gr. a. almennra hegningarlaga. Það liggi fyrir í málinu að ákærði sé meðlimur í félagsskap sem kallast S.O.D. Hann sé einn ákærðu sem sé aðili að þessum bifhjólaklúbbi. Meðákærðu séu annað hvort utan klúbba eða í öðrum klúbbum. Þá liggi jafnframt fyrir að einn ákærðu sé kvenkyns og geti því ekki orðið aðili að Hells Angels, sem virðist vera sá klúbbur sem ákærðu séu sakaðir um að stunda skipulagða glæpastarfsemi með. Ósannað sé í málinu að sá félagsskapur sem ákærði tilheyri, S.O.D, sé skipulögð glæpasamtök. Engin hlutlæg gögn liggi fyrir um það, þó svo lögreglan hafi reynt að skilgreina Hells Angels sem skipulögð glæpasamtök, en ákærði sé ekki meðlimur í þeim samtökum, en öll gögn ákæruvaldsins hnígi í þá átt að Hells Angels séu skipulögð glæpasamtök.
Greinargerð ákærða Óttars Gunnarssonar.
Í greinargerð ákærða er á það að af atvikum málsins og framburði ákærðu hjá lögreglu fari því víðs fjarri að ákærði geti borið refsiréttarlega ábyrgð á því sem farið hafi fram í íbúðinni að [...], en óumdeilt sé að ákærði með engum hætti ráðist sjálfur á brotaþola, en hann hafi verið inni í herbergi að pakka niður föggum sínum meðan atlagan átti sér stað. Meðákærðu hafi ítrekað verið spurð um það hjá lögreglu hvort ákærði Óttar hafi gegnt einhverju hlutverki í umræddri árás. Hafi því ætíð verið svarað neitandi. Ákærði hafi sjálfur hafnað því alfarið að hafa vitað hvað til stóð umrætt kvöld.
Með vísan til alls framangreinds beri að sýkna ákærða af sakargiftum er varði líkamsárás, rán og kynferðisbrot í máli þessu. Þá verður ennfremur og hvað sem öllu öðru líði að taka sérstaklega fram og árétta það mikilvæga atriði að til að sakfella megi ákærða verði ákæruvaldið að sanna að hann hafi haft ásetning til allra þátta þeirrar háttsemi sem honum sé gefin að sök. Þessi regla, sem nefnd hafi verið samsvörunarreglan í refsirétti feli í sér að huglæg afstaða geranda þurfi að taka til allra efnisþátta afbrots á þeirri stundu þegar afbrotið sé framið, þ.e. verknaðarstund. Þannig þurfi ákæruvaldið að sýna fram á að ásetningur ákærða hafi staðið til þess að ráðist yrði á brotaþola með þeim alvarlega hætti sem gert hafi verið. Gáleysi nægi ekki, sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Af öllum atvikum, og hvernig sem á málið sé litið, sé slíkt bæði rangt og ósannað. Þannig liggi fyrir, og sé staðfest í framburði ákærðu Andreu, að mál þetta hafi algerlega farið úr böndunum þegar ákærðu, Andrea, Jón og Elías hafi verið komin á heimili brotaþola. Þannig hafi meðákærða Andrea sagt að ætlunin og uppleggið hafi verið að ræða við A en síðan hafi A ögrað henni, og hótað að birta nektarmyndir af henni á netinu og klaga hana til barnaverndaryfirvalda, og þá hafi Andrea orðið mjög reið og misst stjórn á skapi sínu.
Þá hafi Andrea getið um það í framburði sínum hjá lögreglu 11. janúar 2012, að ætlunin hafi verið að ná í síma hennar sem A hafi verið með og hafi innihaldið viðkvæmar upplýsingar, sem og að athuga með hjól sem Andrea hafi talið sig eiga, en var í fórum A. Þetta styðjist ennfremur við framburð ákærða X að það litla sem hann viti um málið sé að ætlunin hafi verið að ná í umræddan síma og hjól.
Með vísan til alls framangreinds sé útilokað, hvernig sem á málið sé litið, að ákærði Óttar geti borið á því refsiréttarlega ábyrgð hversu stórkostlega mál fóru úr böndunum við það að ákærða Andrea reiddist og hafði að því frumkvæði að gengið var í skrokk á brotaþola. Hans ásetningur geti aldrei hafa staðið til slíkrar líkamsárásar, kynferðisbrots, ráns eða neitt í þá veru, heldur í mesta lagi til þess að ætlunin hafi verið að ræða við A. Þegar af þeirri ástæðu, og hvað sem öllu öðru líði, beri að sýkna ákærða Óttar af sakargiftum í máli þessu.
Við úrlausn máls þessa verði enn fremur að horfa til þeirrar aðstöðu sem ákærði hafi verið í. Að honum hafi verið saumað í aðdraganda árásarinnar af öðrum ákærðu, sem hafi sakað hann um að standa með brotaþola í deilum hennar við Andreu varðandi síma, hjól o.fl.
Í greinargerðinni segir að ákærði hafi sakargiftum er lúti að því að árásin á brotaþola hafi verið liður í þátttöku í skipulegri brotastarfsemi. Í fyrsta lagi beri að hafna þeim sakargiftum þegar af þeirri ástæðu að óumdeilt sé að ákærði hafi verið hættur í bifhjólaklúbbnum S.O.D. Auk þess sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að S.O.D. séu skipuleg glæpasamtök. Ennfremur beri að hafna þessum sakargiftum þar sem því sé harðlega mótmælt, hvað sem öllu öðru líði, að mál þetta eða árás sé liður í einhverri skipulagðri glæpastarfsemi. Málið eigi uppruna sinn og afleiðingar einvörðungu í deilum tveggja kvenna, og reiði, tilfinningum og fleiru því tengdu. Inn í það virðist, af mismikilli tilviljun, þvælast hinir og þessir menn. Tilurð málsins, og það sem gerst hafi á brotavettvangi, hafi því verið eins óskipulagt og hugsast geti, og sé á engan hátt hægt að fella undir lið í skipulagðri brotastarfsemi. Hvernig sem á málið sé litið verði að sýkna skjólstæðing minn af sakargiftum er lúti að þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi.
Til viðbótar framangreindu sé ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa skilið brotaþola „eftir meðvitundarlitla, liggjandi í blóði sínu án bjargar“ og að hafa læst „útidyrahurðinni er hann hafði sig á brott“. Þessu mótmæli ákærði sem röngu og ósönnuðu. Eins og ákærði hafi greint frá hjá lögreglu 23. desember 2011 hafi hann verið inni í herbergi íbúðarinnar þegar árásin hafi átt sér stað að pakka niður föggum sínum, og hafi farið beinustu leið úr íbúðinni þegar árásin hafi verið afstaðin, enda hafi hann ekki séð brotaþola og talið að þremenningarnir hafi haft hana á brott með sér. Ákærði hafi heyrt læti í íbúðinni þegar árásin hafi átt sér stað og farið svo út þegar allt hafi verið orðið hljótt enda hafi hann talið að enginn væri í íbúðinni. Á því sé byggt að ákærði hafi ekki vitað af brotaþola inni í íbúðinni og verði því ekki refsað fyrir brot gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Þá sé mótmælt sem ósönnuðu ástandi brotaþola þegar ákærði hafi yfirgefið íbúðina en fyrir liggi að býsna langur tími hafi liðið frá því að árásin hafi verið gerð og þar til B vinur brotaþola, sem hafi verið í húsinu og vissi hvað gekk á, hringdi á lögreglu. Hafi brotaþoli og B engar skýringar gefið á þessu en meðal annars veki athygli að brotaþoli virðist hafa legið á gólfinu lengst inni í íbúðinni þegar lögreglu hafi borið að garði og það jafnvel þótt hún hafi, að eigin sögn, skriðið langa vegalengd og opnað fyrir B til að hleypa honum inn. Á því sé byggt af hálfu ákærða að stór hluti áverka brotaþola kunni að hafa verið sviðsettur af brotaþola í samvinnu við nefndan B eftir að ákærðu hafi yfirgefið íbúðina, til að láta líta út sem árásin hafi verið mun verri en hún í raun var. Loks kannast ákærði ekki við að hafa „stjakað“ við brotaþola á leið sinni út úr íbúðinni, eins og haldið sé fram í ákæru. Með vísan til framangreinds beri að sýkna ákærða af sakargiftum sem beinist að broti gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga.
Loks beri, hvað sem öðru líði, sjálfstætt að sýkna ákærða af sakargiftum fyrir brot gegn. 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga komi til þess að hann verði sakfelldur fyrir líkamsárás. Ástæðan sé sú að líkamsárás tæmir sök gagnvart 1. mgr. 220. gr. Þannig verði sami maður ekki sakfelldur, að því er varði sama verknað, fyrir líkamsárás og brot gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga. Þegar af þessari refsiréttarlegu ástæðu beri að sýkna ákærða af sakargiftum er lúti að broti gegn 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga komi til þess að hann verði sakfelldur fyrir líkamsárás. Verði ekki fallist á að sýkna ákærða af þessum sakargiftum er þess krafist að honum verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa vegna þeirra.
Niðurstaða.
Ákæra, útgefin 14. mars 2012.
Fram er komið að atvik málsins áttu sér nokkurn aðdraganda. Samkvæmt gögnum málsins og framburði ákærðu Andreu og brotaþola eiga þau rót að rekja til þess að brotaþoli ásakaði ákærðu Andreu um stuld á innbúsmunum og fatnaði úr íbúð brotaþola á meðan hún var erlendis. Í kjölfar þess hélt brotþoli því fram að ákærða Andrea hefði haldið fram hjá ákærða Jóni og hótaði að birta viðkvæmar myndir úr síma ákærðu á netinu, en brotaþoli taldi myndirnar sanna mál sitt um framhjáhald ákærðu. Einnig hótaði brotaþoli því að kæra ákærðu Andreu til barnaverndarnefndar. Ásakanir brotaþola um ætlað framhjáhald ákærðu Andreu höfðu mikil áhrif á líf ákærðu Andreu og urðu til þess að ákærði Jón fór frá henni um tíma. Olli það miklu hugarvíli og örvæntingu hjá ákærðu Andreu eins og sjá má af sms-skilaboðum, sem send voru úr síma hennar til ákærða Jóns hinn 20. desember sl. Þá má sjá af sms-skilaboðum úr síma ákærðu Andreu og skrifum hennar á Facebook dagana 19. 21. desember sl. að hún bar mjög þungan hug til brotaþola vegna alls framangreinds. Deilur brotaþola og ákærðu Andreu náðu síðan hámarki er brotaþoli sótti mótorhjól á verkstæði skömmu áður en atvik málsins áttu sér stað og fór með það heim til sín, en ákærða Andrea taldi sig hafa keypt hjólið af brotaþola.
I. kafli ákæru. Sérstaklega hættuleg líkamsárás, rán og nauðgun.
Þáttur ákærðu Andreu Kristínar Unnarsdóttur, Elíasar Jóns Valdimarssonar og Jóns Ólafssonar.
Ákærðu hafa öll viðurkennt að hafa komið í íbúð brotaþola aðfaranótt 22. desember sl. og hafa borið um að þar hafi komið til átaka, aðallega á milli ákærðu Andreu og brotaþola.
Ákærða Andrea hefur viðurkennt hér fyrir dómi að deilur þeirra brotaþola hafi farið úr böndunum þegar þær hittust í íbúðinni og að hún hafi misst stjórn á skapi sínu. Kvaðst ákærða hafa stjakað við brotaþola, rifið í hár hennar í hnakkanum og togað hana til sín. Þá kvaðst ákærða hafa gripið til hnífs, sem hún sá á borðinu, og ætlað að skera hárlengingar úr hári brotaþola á meðan hún hélt í það. Brotaþoli hefði þá borið fyrir sig höndina og þá hefði hún óvart skorið í fingurinn á brotaþola. Hélt ákærða því fram að það hefði ekki verið af ásetningi gert. Þá viðurkenndi ákærða að hafa kýlt brotaþola einu sinni til tvisvar í andlitið og að hafa sparkað einu sinni til tvisvar í klof brotaþola og bak. Sagði ákærða fyrir dóminum að hún héldi að allar afleiðingar árásarinnar væri að rekja til sinnar háttsemi. Ákærða neitaði öðrum ákæruatriðum og sagði að kynferðisbrot og önnur háttsemi, sem lýst væri í ákærunni og hún hefði ekki viðurkennt, hefði ekki átt sér stað.
Ákærða kannaðist ekki við að ákærði Elías hefði hulið andlit sitt, en sagði hins vegar að hann hefði verið með húfu. Kvaðst hún halda að ákærði Elías hefði stjakað við brotaþola, en sagðist þó ekki vera viss. Hún sagðist hvorki hafa séð ákærða Elías né ákærða Jón slá brotaþola.
Framburður ákærðu Andreu hefur tekið nokkrum breytingum frá því að hún gaf fyrst skýrslu um málið, en ákærða var yfirheyrð sex sinnum hjá lögreglu meðan á rannsókn málsins stóð. Í fyrstu neitaði ákærða því alfarið að hafa ráðist á brotaþola. Kvaðst hún hafa farið til brotaþola um kvöldið til að ná í símann sinn, en sagði að ákærði Jón hefði beðið úti í bíl á meðan. Þá sagði ákærða að í íbúð brotaþola hefðu eingöngu verið hún, brotaþoli og ákærði Óttar, sem gæti vottað að brotaþoli hefði verið í fínu lagi þegar hún fór úr íbúðinni.
Í annarri skýrslu sinni viðurkenndi ákærða að hafa ráðist á brotaþola, þ.e. rifið í hárið á henni og ætlað skera úr því hárlengingar, en þá hefði hún óvart skorið brotaþola í fingurinn. Jafnframt viðurkenndi ákærða að hafa kýlt brotaþola þrisvar í andlitið, en þá hefði brotaþoli pissað á sig og dottið í gólfið. Þá kvaðst ákærða halda að hún hefði sparkað í brotaþola. Einnig viðurkenndi ákærða að ákærði Jón hefði einnig verið í íbúðinni, sem og einhver þriðji aðili, sem ákærða vildi í fyrstu ekki greina frá hver væri. Síðar í skýrslunni viðurkenndi ákærða að það hefði verið ákærði Elías. Einnig greindi ákærða frá því að auk símans hefðu verið að leita að mótorhjóli í eigu ákærðu. Þá sagði ákærða að hún og ákærðu Jón og Elías hefðu farið heim til ákærða Y eftir árásina.
Í þriðju skýrslu sinni lýsti ákærða háttsemi sinni á svipaðan hátt og í fyrri skýrslu að öðru leyti en því að hún hefði líklega sparkað tvisvar í brotaþola. Þá viðurkenndi ákærða að ákærði Elías hefði verið með grímu, þ.e. með lambhúshettu yfir höfðinu og sagðist hún halda að hann hefði einnig slegið brotaþola.
Næst sagðist ákærða ekki vera viss hvort ákærði Elías var með grímu, en sagði að hann hefði verið með húfu á hausnum. Þegar ákærðu var kynnt að áverkar hefðu verið á kynfærum brotaþola eftir árásina sagðist ákærða halda að hún hefði sparkað í klof brotaþola.
Ákærði Elías viðurkenndi fyrir dómi að hafa tekið brotaþola og ýtt henni niður í gólfið. Þá sagðist hann hafa veitt brotaþola eitt högg í lærið með leðurkylfu, sem hann hefði haft meðferðis og sagðist hafa bankað í ökklann á brotaþola með höndunum. Að svo búnu hefði hann ýtt brotaþola niður á gólfið, stigið til baka og sagt við brotaþola að hún hefði ekki átt að vera að „fokkast“ í þessari fjölskyldu. Þá viðurkenndi ákærði að hafa verið með hulið andlit og kvaðst hafa sett á sig grímu í bílnum á leiðinni til brotaþola. Einnig sagðist ákærði hafa verið með hanska til að fela húðflúr á höndum sínum.
Ákærði Elías neitaði því að hafa stungið fingrum upp í leggöng og endaþarm brotaþola og klemmt á milli. Einnig neitaði ákærði öðrum ákæruatriðum, svo sem að sparkað hefði verið ítrekað í höfuð og líkama brotaþola, að hár hennar hefði verið skorið eða það rifið upp með rótum, svo og að skorið hefði verið í fingur brotaþola og nögl á fingri hennar slitin upp. Þá kannaðist ákærði ekki við það að hafa farið á heimili ákærða Y og kaus að tjá sig ekki um það hvort hann hefði afhent þar leðurkylfu, jakka og skíðagrímu. Hann kannaðist þó við þessa hluti á ljósmynd og viðurkenndi að hafa verið með þá á vettvangi. Loks kannaðist ákærði hvorki við það að hafa komið við á heimili ákærða X né að ákærði Óttar hefði verið tekinn upp í bílinn á leiðinni til brotaþola.
Framburður ákærða hefur verið óstöðugur frá því að fyrsta skýrsla var tekin af honum hjá lögreglu, en ákærði var yfirheyrður fjórum sinnum meðan á rannsókn málsins stóð. Í fyrstu neitaði ákærði því að hafa farið með ákærðu Andreu og fleirum heim til brotaþola umrædda nótt. Í þriðju skýrslutökunni viðurkenndi ákærði að hafa verið á vettvangi og tuskað brotaþola eitthvað til og lýsti ákærði háttsemi sinni með svipuðum hætti og hér fyrir dómi. Þá kemur fram í upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 13. janúar 2012, sem staðfest hefur verið hér fyrir dómi af lögreglumönnunum Þorbergi Ingva Sævarssyni og Margeiri Sveinssyni, að daginn eftir að ákærði var handtekinn greindi ákærði lögreglu frá því að hann hefði farið heim til Y eftir árásina og þar ættu að vera jakki, skíðagríma og leðurkylfa, sem hann hefði verið í og notað við árásina. Í kjölfarið voru þessir munir haldlagðir á heimili ákærða Y.
Ákærði Jón sagði fyrir dómi að aðalátökin hefðu verið á milli ákærðu Andreu og brotaþola, en kaus að tjá sig ekki um það hvaða ofbeldi var beitt. Hann sagðist sjálfur ekki hafa beitt brotaþola ofbeldi og neitaði því að hafa snert brotaþola eða sparkað í líkama hennar og höfuð. Þá neitaði ákærði öðrum ákæruatriðum og sagði að kynferðisbrot og önnur háttsemi sem lýst væri í ákærunni hefði ekki átt sér stað.
Framburður Jóns hefur, líkt og framburður ákærðu Andreu og Elíasar, tekið nokkrum breytingum frá því að hann gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu, en ákærði var yfirheyrður fimm sinnum hjá lögreglu meðan á rannsókn málsins stóð. Í fyrstu neitaði ákærði því að hafa verið á vettvangi umrædda nótt og kvaðst hafa komið heim til sín um miðnætti og ekkert farið út eftir það. Síðar játaði ákærði að hafa farið með ákærðu Andreu á heimili brotaþola, en kaus að tjá sig ekki frekar um atvik málsins. Hann sagðist þó hafa fylgst með því sem gerðist inni í íbúðinni allan tímann og kvaðst hafa verið viðstaddur allan þann tíma sem brotaþoli var beitt líkamlegu ofbeldi.
Auk framangreinds innbyrðis ósamræmis á framburði ákærðu, ber ákærðu ekki saman um málsatvik að ýmsu leyti. Þá þykir framburður ákærðu ekki vera í samræmi við framlögð gögn, svo sem ljósmyndir og skýrslu um rannsókn á vettvangi og vottorð lækna um áverka brotaþola.
Eins og að framan greinir hefur ákærði Elías viðurkennt að hafa tekið í brotaþola, ýtt henni niður í gólfið, slegið hana með leðurkylfu í lærið og bankað með höndum í ökklann á henni. Ákærða Andrea kvaðst hins vegar ekki hafa séð ákærða Elías slá brotaþola og kannaðist ekki við að leðurkylfu hefði verið beitt við árásina.
Þá hefur ákærði Elías viðurkennt að hafa hulið andlit sitt með skíðagrímu og verið með hanska til að fela húðflúr á höndum sínum, en þetta hefði hann gert til að koma í veg fyrir að hann yrði bendlaður við málið. Er þetta í samræmi við framburð ákærða Óttars, sem bar um það að þriðji árásarmaðurinn, þ.e. ákærði Elías, hefði verið með grímu. Ákærða Andrea kannaðist hins vegar ekki við það að ákærði Elías hefði hulið andlit sitt, en sagði að hann hefði verið með húfu. Ákærði Jón sagðist ekki vera viss hvort ákærði Elías var með grímu, en sagði að hann hefði verið með húfu og vettlinga þegar þau fóru af stað. Þá viðurkenndi ákærði Elías að hafa sagt við brotaþola að hún hefði ekki átt að vera að „fokkast“ í þessari fjölskyldu, en hvorki ákærða Andrea né ákærði Jón könnuðust við það.
Ákærði Jón bar um það að engum vopnum hefði verið beitt, en það er ekki í samræmi við framburð ákærðu Andreu sem hefur viðurkennt að hafa tekið upp hníf og ætlað að skera hárlengingar úr hári brotaþola, en þá hefði hún óvart skorið í fingur hennar. Þá er framburður ákærða Jóns ekki í samræmi við framburð ákærða Elíasar, sem kvaðst hafa beitt leðurkylfu.
Eins og áður greinir hefur ákærða Andrea viðurkennt að hafa rifið í hár brotaþola og togað hana til sín. Ennfremur að hafa tekið upp hníf og ætlað að skera hárlengingar úr hári brotaþola á meðan hún hélt í það, en þá hefði hún óvart skorið í fingurinn á brotaþola. Þá hefur ákærða viðurkennt að hafa kýlt brotaþola í andlitið og að hafa sparkað í klof brotaþola og bak. Hvorki ákærði Jón né ákærði Elías hafa hins vegar viljað kannast við að þetta hafi átt sér stað og heldur ekki önnur ákæruatriði, sem ákærða Andrea hefur ekki viðurkennt. Er þessi framburður ákærðu Jóns og Elíasar hvorki í samræmi við framburð ákærðu Andreu né ummerki á vettvangi, en eins og fram kemur í gögnum málsins var talsvert blóð og hár á gólfi íbúðarinnar. Þá er þessi framburður ákærðu ekki í samræmi við framlögð læknisvottorð um áverka brotaþola og skýrslur lækna hér fyrir dómi. Þá þykir framburður ákærðu Andreu um að allar afleiðingar árásarinnar megi rekja til hennar háttsemi ekki trúverðugur með hliðsjón af þeirri háttsemi sem ákærða hefur viðurkennt að hafa haft í frammi og þeim margvíslegu og dreifðu áverkum sem brotaþoli var með eftir árásina.
Ákærðu Andrea og Jón hafa bæði borið um það að þau hafi, ásamt ákærða Elíasi, komið við heima hjá ákærða X áður en þau fór heim til brotaþola. Hefur ákærði X borið á sama veg, sem og kona hans, vitnið É. Ákærði Elías kannaðist hins vegar ekki við að hafa komið við heima hjá X og kvaðst hafa beðið úti í bíl á meðan ákærðu Andrea og Jón komu við einhvers staðar á leiðinni. Þá kannaðist ákærði Elías alls ekki við að hafa sótt ákærða Óttar í partí á [...] áður en þau fóru heim til brotaþola, en það samræmist ekki framburði ákærðu Andreu, Jóns og Óttars, sem öll hafa borið um það að ákærðu hafi sótt ákærða Óttar í partí á [...]og ekið honum heim til brotaþola. Ákærði Óttar kvaðst reyndar ekki muna eftir bílferðinni, en sagðist vita að ákærðu hefðu sótt hann í partíið.
Ákærði Elías sagði fyrir dómi að ákærðu Andrea og Jón hefðu beðið hann um að koma með sér heim til brotaþola umrætt kvöld og sagðist hann hafa farið með þeim til að vera þeim til stuðnings. Kvaðst hann hafa verið heima hjá Andreu og gætt hennar á meðan ákærði Jón var að heiman og sagði að það hefði farið illa í sig að horfa upp á ákærðu Andreu brotna niður vegna framgöngu brotaþola og sambandsslita þeirra Jóns. Ákærða Andrea neitaði því hins vegar að hafa beðið ákærða Elías um að koma með þeim og ákærði Jón kvaðst ekki muna hvort þau gerðu það.
Ákærði Y hefur borið um það að ákærðu Andrea og Jón hafi komið við hjá honum um nóttina og hafi annað haldið á poka og hitt á bjórkippu. Sagðist hann hafa tekið við pokanum að beiðni ákærðu, en í honum hefði verið leðurpungur, jakki og svört lambhúshetta. Ákærði Y sagði að enginn hefði orðið eftir heima hjá honum þegar ákærðu Andrea og Jón fóru. Ákærðu Andrea og Jón hafa hins vegar bæði borið um það að þau hafi, ásamt ákærða Elíasi, komið við heima hjá Y eftir árásina og sagðist Andrea halda að Elías hefði orðið eftir hjá Y þegar þau fóru. Hvorugt þeirra kannaðist hins vegar við að hafa afhent ákærða Y poka með fyrrnefndum munum. Ákærði Elías kannaðist aftur á móti ekki við að hafa farið heim til ákærða Y og kaus að tjá sig ekki um það hvort hann afhenti Y poka með áðurgreindum munum. Ákærði kannaðist þó við húfu, kylfu og jakka, sem haldlögð voru á heimili ákærða Y og viðurkenndi að hann hefði verið með þessa muni á vettvangi.
Loks þykir framburður ákærðu Andreu um að ákærði Jón hafi verið á vappi um íbúðina að leita að símanum á meðan árásin átti sér stað hvorki samrýmast framburði ákærða Jóns hér fyrir dómi né hjá lögreglu þar sem hann fullyrti að hann hefði fylgst með því sem gerðist í íbúðinni allan tímann og sagðist hafa verið viðstaddur allan þann tíma sem brotaþoli var beitt líkamlegu ofbeldi.
Eins og að framan greinir hefur framburður ákærðu Andreu, Jóns og Elíasar verið reikull og óstöðugur. Þá ber þeim ekki saman í mörgum mikilvægum atriðum um málsatvik. Með vísan til þess þykir framburður þeirra ótrúverðugur.
Framburður brotaþola hefur verið stöðugur í öllum meginatriðum og samræmist hann ummerkjum á vettvangi, framlögðum læknisvottorðum um áverka brotaþola og framburði vitna. Ljóst þykir af gögnum málsins að brotaþoli var meðvitundarlaus eða meðvitundarlítil við komu lögreglu á vettvang og gat ekki svarað spurningum. Er það og í samræmi við framburð brotaþola sjálfrar, en hún kvaðst ekki muna eftir því þegar lögregla kom á vettvang. Einnig samræmist það framburði vitnisins B og upptöku af símtali vitnisins við neyðarlínu um nóttina. Hið sama kemur fram í framlögðu læknisvottorði Theódórs Friðrikssonar læknis.
Við skoðun lækna á slysadeild greindi brotaþoli strax frá því að tveir menn og ein kona hefðu komið inn í íbúðina og ráðist á hana, slegið hana í líkamann með kylfu, en einnig hefði verið sparkað í hana. Þá greindi brotaþoli frá einhverri kynferðislegri misneytingu, en vildi ekki opna sig meira hvað hana varðaði, en samþykkti að fara í skoðun á neyðarmóttöku. Loks greindi brotaþoli frá því að gerð hefði verið tilraun til að klippa af henni fingur.
Vitnið Pétur Már Sveinsson lögreglumaður hefur staðfest að hafa rætt við brotaþola á slysadeild, sennilega á milli klukkan fimm og sex umrædda nótt eða skömmu eftir að brotaþoli kom þangað. Þar hefði brotaþoli greint frá því að ákærðu Andrea, Jón og einhver grímuklæddur maður hefðu ráðist á sig á heimili sínu og skýrði brotaþoli frá því að grímuklæddi maðurinn hefði farið með hönd inn fyrir buxur og nærbuxur og sett fingur inn í leggöng og endaþarm hennar og klemmt á milli. Þá greindi brotaþoli frá árásinni með líkum hætti og hún gerði hér fyrir dómi, þ.e. að sparkað hefði verið í hana, hún verið slegin í rot og að neytt hefði verið ofan í hana fíkniefnum.
Við skoðun á neyðarmóttöku síðar sama dag greindi brotaþoli frá atvikum, m.a. kynferðisbrotinu, með sama hætti og áður, en bætti við að ákærða Andrea hefði „svæft“ hana endurtekið með því að taka hana kverkataki. Þá hefði hún verið slegin í andlitið, skorið hefði verið í fingur hennar með hníf, en einnig hefði verið notuð töng. Þá hefði verið slitin upp nögl á fingri hennar. Ennfremur hefði nál eða sprautu verið stungið í kviðvegg hennar hægra megin við nafla. Fær síðastnefnt atriði stoð í vottorði og skýrslu Arnars Haukssonar læknis hér fyrir dómi.
Í kæruskýrslu sama dag lýsti brotaþoli atvikum með svipuðum hætti, en þar kom fram til viðbótar fyrri skýrslu að ákærða Andrea hefði sett hníf að hálsi hennar og skorið skurfur á líkama hennar hér og þar. Jafnframt kom fram að grímuklæddi maðurinn hefði verið með húðflúr á hægri hendi, en fram er komið í málinu að ákærði Elías er með húðflúr á sömu hendi. Bar brotaþoli um þetta áður en upplýst var hver grímuklæddi maðurinn var. Svipaðar upplýsingar koma fram í síðari skýrslum hennar hjá lögreglu og eins og áður greinir er samræmi í öllum meginatriðum á frásögn brotaþola hjá lögreglu og hér fyrir dómi.
Eins og áður greinir samræmist frásögn brotaþola einnig vel þeim áverkum sem á henni voru, en samkvæmt gögnum málsins voru áverkarnir allir ferskir við komu brotaþola á slysadeild. Fram kom í skýrslu Theódórs Friðrikssonar læknis fyrir dómi að miðað við áverka brotaþola væri ekki hægt að útiloka að sparkað hefði verið í höfuð brotaþola, en hún hefði verið með mar, skrámur og yfirborðsáverka á gagnaugum beggja vegna, bólgur undir báðum augum og mar undir vinstra auga, sem og blæðingu í forhólf vinstra auga. Einnig hefði brotaþoli greinst með heilahristing við skoðun. Þá hefði komið fram á sneiðmynd af höfði brotaþola að hún var með mar undir höfuðleðri uppi á hvirflinum og blæðingu undir húð efst á höfði vinstra megin og yfir vinstra auga, en einnig hægra megin. Jafnframt sagði læknirinn að sár á fingri svaraði til þess að skorið hefði verið eða klippt í fingurinn, en sárið hefði verið djúpt og legið þvert yfir fingurinn, rétt framan við liðinn. Þá hefðu blettir verið á höfði brotaþola þar sem vantað hefði hár.
Með hliðsjón af framangreindu og því hversu djúpt sárið á fingri brotaþola var, þvert yfir fingurinn og rétt framan við liðinn þykir framburður Andreu um að hún hafi slæmt hnífnum óvart í fingur brotaþola ótrúverðugur. Þá kemur fram í gögnum málsins að á skóm Andreu fannst blóð úr brotaþola, þ.e. falldropar sem bendir til þess að blóðdropar hafi fallið úr sárinu á skóna.
Fram kom hjá Arnari Haukssyni lækni að brotaþoli hefði verið mjög aum í afturvegg legganga við þreifingu, þ.e. aftan til í leggöngunum og þá hefði brotaþoli verið mjög aum í rassinum og ekki getað setið bein vegna verkja heldur orðið að halla sér. Sagði vitnið að brotaþoli hefði verið ofurviðkvæm við skoðun á þessum stöðum. Enginn áverki hefði hins vegar verið í húðinni utan á og því hefði svo virst að áverkinn hefði verið veittur innan frá. Sagði vitnið að áverkar í leggöngum og endaþarmi brotaþola gætu því samræmst því að klipið hefði verið í spöngina á milli. Ef sparkað hefði verið í klof brotaþola í skóm með stáltá hefði hins vegar mátt búast við verulegum áverkum utan á húð og mun meiri en þarna hefði verið.
Brotaþola og vitninu B bar saman um að ákærðu hefðu hent B út úr íbúðinni skömmu eftir komu sína þangað, en vitnið B sagði að annar karlmannanna hefði ýtt við honum. Framburður brotaþola um að hún hefði heyrt að eitthvað var í gangi inni í herberginu, sem ákærði Óttar hvarf inn í, fær og stuðning í framburði vitnisins B, en vitnið sagðist hafa bankað á glugga á íbúðinni eftir að honum var hent út, en þar hefði einhver öskrað á hann. Þá bar brotaþola og vitninu saman um að brotaþoli hefði staðið við hillusamstæðu í stofunni að ná í töskur, sem þar voru, þegar ákærðu komu inn í íbúðina, en sjá má á ljósmyndum af vettvangi að þar var talsvert blóð og ljóst hár á gólfinu og segir í skýrslu um rannsókn á vettvangi að þar megi ætla að ráðist hefði verið á brotaþola. Einnig hefur vitnið B staðfest, að eftir að ákærðu voru farin og vitnið hafði bankað ítrekað á útidyrnar hjá brotaþola, hefði hann séð millihurðina opnast og brotaþola koma skríðandi eftir gólfinu í átt að útidyrahurðinni og teygja sig upp í snerilinn til að opna hana, en vitnið sagði að brotaþoli hefði ekki staðið í fæturna. Er þetta í samræmi við framburð brotaþola og ummerki á vettvangi en þar mátti sjá blóðbletti eftir ganginum og fram í anddyrið, sem og neðarlega á millihurð fram í anddyri, neðarlega á vegg í anddyrinu og neðarlega á útidyrahurð og allt upp á miðja hurð og við snerilinn og hurðarhúninn.
Vitnið B þykir hafa gefið trúverðuga skýringu á því hvers vegna hann skýrði ekki frá því hjá lögreglu að hann hefði ekið í burtu af vettvangi, en síðan snúið við og komið aftur í íbúðina til að athuga með brotaþola, en vitnið kvaðst hafa verið próflaust og undir áhrifum áfengis og því ekki viljað greina frá því að hann hefði sest undir stýri á bifreið. Þykir því komin fram skýring á því hvers vegna 38 mínútur liðu frá því að talið er að ákærðu hafi yfirgefið vettvang og þar til hringt var á neyðarlínu, en vitnið sagðist halda að um hálftími hefði liðið frá því að hann fór af vettvangi og þar til hann kom aftur í íbúðina. Eftir það hefði hann hlúð að brotaþola, leitað að símanum sínum, en ekki fundið og því fengið að hringja hjá nágranna. Að þessu virtu þykir framburður vitnisins greinargóður og trúverðugur.
Með hliðsjón af skýrslu lögreglu um framhaldsrannsókn, dags. 23. apríl 2012, og framburði Björgvins Sigurðssonar, sérfræðings í tæknideild lögreglu, fyrir dómi þykir trúverðugur sá framburður brotaþola að unnt hafi verið að fara með hönd niður í buxur hennar og nærbuxur og setja fingur í leggöng og endaþarm án þess að hneppa frá buxunum, en fram hefur komið að buxurnar voru úr teygjanlegu efni, lágar í mittið og brotaþoli í svokölluðum g-streng. Þegar brotþoli kom fyrir dóminn mátti og sjá að hún er mjög grannvaxin, en það má og sjá af ljósmyndum af brotaþola í gögnum málsins. Einnig kemur fram í vottorði Arnars Haukssonar læknis að margar húðrispur og roði hafi verið innanvert á lærum og rispa í húð vinstra megin rétt utan við endaþarmsop. Þá hafi verið stór marblettur á vinstri rasskinn og annar minni þar fyrir neðan og bar læknirinn um það hér fyrir dómi að þeir gætu samræmst því að þar hefði verið klemmt fast á. Allt þykir þetta geta samræmst því að farið hafi verið með hönd niður í buxur brotaþola.
Framburður brotaþola um að hún hafi verið dregin um á hárinu, hár hennar hafi verið reytt, klippt eða skorið og rifið upp með rótum samræmist áverkum, sem voru á höfði hennar við komu á slysadeild og áðurgreindri skýrslu lögreglu um framhaldsrannsókn, dags. 23. apríl 2012, sem staðfest var af Björgvini Sigurðssyni, sérfræðingi hjá tæknideild lögreglu, fyrir dómi, en þar kemur fram að á hárflygsu, sem fannst á vettvangi og tekin var til rannsóknar, hafi verið rauðleitur eða blóðugur endi með sjáanlegri teygðri rót og því væri greinilega um mennskt hár að ræða, sem togað hefði verið úr hársverði.
Þá fær framburður brotaþola um að henni hafi verið skellt í gólfið stuðning í framburði nágranna hennar, vitnisins Z, sem vaknaði upp við mikinn hávaða umrædda nótt og heyrði dynki eins og eitthvað væri að skellast utan í veggi eða í gólf.
Þá fær framburður brotþola um að ákærða Andrea hafi tekið um háls hennar og þrengt að öndunarvegi hennar stoð í þeim áverkum, sem brotaþoli var með á hálsi og sjá má af ljósmyndum, en í vottorði Theódórs Friðrikssonar læknis kemur einnig fram að brotaþoli hafi verið með eymsli niður á hálsinn beggja vegna við þreifingu og með yfirborðsmar á hægra kjálkabarði og á hálsinum hægra megin.
Brotaþoli skýrði strax frá því að ákærðu hefðu hótað að taka af henni alla fingur ef hún segði til þeirra og að ákærða Andrea hefði lagt hníf að hálsi hennar. Einnig skýrði hún strax frá því að ákærðu hefðu neytt upp í hana fíkniefnum, sem hefðu verið blautkennd. Hún hefði því átt erfitt með að sjúga efnið upp í nefið og því hefðu ákærðu látið hana kyngja því með því að hella upp í hana vatni. Samkvæmt gögnum málsins mældist amfetamín í blóði brotaþola, sem styður frásögn hennar, en einnig mældist sama fíkniefni í blóði ákærðu Andreu og Jóns. Hvorki ákærði Óttar né vitnið B gátu staðfest að hafa séð brotaþola neyta amfetamíns um kvöldið, en brotaþoli hefur borið um að hún hafi hvorki verið undir áhrifum fíkniefna né áfengis þegar árásin átti sér stað. Samkvæmt gögnum málsins var alkóhól ekki í mælanlegu magni í blóði eða þvagi brotaþola daginn eftir.
Loks fær framburður brotaþola stuðning í framlögðu vottorði og skýrslu vitnisins Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings hér fyrir dómi, en vitnið hefur haft brotaþola til meðferðar frá 23. desember 2011. Í vottorði sálfræðingsins kemur fram að brotaþoli þjáist af alvarlegri áfallastreituröskun og alvarlegu þunglyndi í kjölfar árásarinnar. Í skýrslu vitnisins kom fram að þær minningar, sem væru brotaþola sérstaklega erfiðar, væru tengdar ætluðu kynferðisbroti, svo og þegar rifið hefði verið í hárið á henni, skorið í fingurinn og þegar hún hefði misst þvag.
Við mat á trúverðugleika framburðar brotaþola verður að hafa í huga að atburðarásin var margflókin og árásarmennirnir margir, auk þess sem brotaþoli virðist hafa misst meðvitund meðan á árásinni stóð. Með hliðsjón af því að framburður brotaþola hefur verið stöðugur í öllum meginatriðum og fær stuðning í framburði vitna, ummerkjum á vettvangi og vottorði og skýrslum lækna og sálfræðings þykir framburður brotaþola trúverðugur.
Fram er komið að brotaþoli varð fyrir annarri árás viku síðar eða 1. janúar sl. og bar þá um það að á henni hefði verið brotið kynferðislega með sama hætti og í þessum máli, en dró síðar þá fullyrðingu til baka. Einnig er fram komið að þetta síðara mál er óupplýst. Með hliðsjón af skýrslu Berglindar Guðmundsdóttur sálfræðings og málsatvikum að öðru leyti þykir framangreint ekki varpa rýrð á trúverðugleika brotaþola í þessu máli.
Með vísan til alls framangreinds og þá sérstaklega til trúverðugs framburðar brotaþola, sem fær stuðning í gögnum málsins eins og að framan greinir, og með hliðsjón af misvísandi og ótrúverðugum framburði ákærðu Andreu, Jóns og Elíasar, þykir bera að leggja framburð brotaþola um árásina til grundvallar í málinu. Með hliðsjón af framangreindu þykir sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærðu Andrea, Elías og Jón hafi ruðst í heimildarleysi inn á heimili brotaþola, veist að B og þvingað hann með ofbeldi út úr íbúðinni og því næst veist öll þrjú með ofbeldi að brotaþola eins og nánar er lýst í ákæru, m.a. með því að sparka í höfuð brotaþola, skera í fingur hennar með hnífi og slá hana með leðurkylfu, svo og með því að ákærði Elías, sem hafði hulið andlit sitt, stakk fingrum upp í endaþarm og leggöng brotaþola og klemmdi á milli, allt eins og nánar greinir í ákæru, en með þessari háttsemi brutu ákærðu gegn kynfrelsi brotaþola. Um verkskipta aðild ákærðu Andreu, Elíasar og Jóns var að ræða og þykir háttsemi þeirra réttilega heimfærð til 1. mgr. 194. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í ákæru.
Þáttur ákærða Óttars Gunnarssonar.
Ákærði Óttar bar um það fyrir dómi að hann hefði verið að ljúka við að pakka niður og ná í dótið sitt í íbúð brotaþola þegar hann hefði heyrt læti frammi og séð að meðákærðu Andrea, Jón og maður með grímu voru komin inn í íbúðina og sagði að sér hefði verið ýtt inn í herbergið. Kvaðst hann ekki hafa vitað á þeim tíma hver maðurinn með grímuna var, en sagðist vita nú að það var ákærði Elías. Upp hefði hafist mikið rifrildi, öskur og læti og þegar hann hefði ætlað að líta fram hefði ákærði Elías ýtt honum aftur inn í herbergið og haldið honum þar allan tímann. Kvaðst hann því ekki hafa orðið vitni að neinu ofbeldi í íbúðinni. Hann sagði að öskrin, lætin og rifrildið hefði staðið yfir í um 10 mínútur, en þá hefði allt í einu orðið dauðaþögn. Kvaðst hann hafa kallað fram, en ekki fengið svar og því hefði hann tekið töskurnar sínar og hraðað sér út. Kvaðst hann ekki muna hvort hann kíkti fram í stofuna, en sagðist ekki hafa séð brotaþola þegar hann var á leiðinni út úr íbúðinni. Þá kvaðst hann ekki muna hvort hann læsti íbúðinni.
Ákærði viðurkenndi að hafa verið með lykla að íbúðinni, enda hefði hann búið þar á þessum tíma ásamt brotaþola, og kvaðst því vita hvernig hann komst inn. Ákærði sagði að íbúðin hefði greinilega verið ólæst þegar meðákærðu komu inn í hana. Hann sagðist ekki hafa vitað að til hefði staðið að beita brotaþola ofbeldi umrætt kvöld.
Ákærði játaði fyrir dómi að hafa skýrt ranglega frá atvikum í fyrstu og sagðist ekki hafa skýringar á því hvers vegna hann gerði það. Framburður ákærða hefur tekið miklum breytingum frá því að hann gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu við rannsókn málsins, en alls var ákærði yfirheyrður sex sinnum hjá lögreglu.
Í fyrstu skýrði ákærði svo frá að hann hefði verið í íbúðinni í umrætt sinn þegar einhverjir menn, sem ákærði kvaðst ekki þekkja og ekki vita hversu margir voru, hefðu ruðst inn í íbúðina, en einn þeirra hefði verið grímuklæddur. Sá hinn sami hefði hent honum í tvígang inn í herbergið og síðar hent honum út úr íbúðinni. Eftir það hefði hann farið fótgangandi til vinkonu sinnar. Ákærði neitaði því að ákærða Andrea hefði skutlað honum á [...] og sagði að hún hefði ekki verið með honum í íbúðinni.
Við næstu yfirheyrslu viðurkenndi ákærði að hafa heyrt rödd ákærða Jóns í íbúðinni og að hafa séð baksvip hans út um hálfluktar herbergisdyrnar. Þá viðurkenndi hann að hafa ekki sett í lás þegar hann kom inn í íbúðina. Einnig bar ákærði um það að honum hefði verið sagt að ef farið yrði í einhverjar aðgerðir gagnvart brotaþola ætti hann ekki að skipta sér af málinu, en með aðgerðum hefði verið átt við það að ákærða Andrea ætlaði að gera brotaþola eitthvað.
Í næstu skýrslutökum neitaði ákærði því að hafa vitað af því að til stæði að ráðast á brotaþola og sagðist hvorki muna hvernig hann fór úr partíinu á [...] og að [...] né hvernig hann fór heim til vinkonu sinnar á [...].
Eins og að framan greinir hefur framburður ákærða verið afar óstöðugur og þykir ótrúverðugur.
Fyrir dómi sagðist ákærði vita að meðákærðu hefðu sótt hann í partíið á [...]og ekið honum að íbúðinni á [...], en kvaðst ekki muna eftir bílferðinni sökum ölvunar. Þykir þessi framburður ákærða ótrúverðugur í ljósi þess að hann gat lýst málsatvikum og ferðum sínum með skýrum hætti bæði fyrir og eftir bílferðina.
Ákærði Óttar sagði fyrir dómi að á meðan hann var inni í herberginu hefði hann heyrt að rifrildi átti sér stað, en kvaðst ekki hafa heyrt neitt detta eða brotna eða annað, sem gefið hefði til kynna að átök væru í gangi. Þá hefði honum ekki dottið í hug að eitthvert ofbeldi hefði átt sér stað í íbúðinni þegar hann yfirgaf hana. Þykir þetta vera í miklu ósamræmi við framburð vitnanna Z og V, sem búa tveimur hæðum ofar í húsinu og beint fyrir ofan íbúð brotaþola, en vitnið Z kvaðst hafa vaknað upp við mikinn hávaða um nóttina og heyrt dynki eins og eitthvað væri að skella utan í veggi eða gólf. Sagði vitnið að þetta hefði staðið yfir í góða stund eða 15-20 mínútur. Eiginmaður vitnisins, V, kvaðst einnig hafa heyrt einhverjar barsmíðar um nóttina og þá kvaðst vitnið hafa heyrt kvenmannsrödd eða raddir og eins og verið væri að henda einhverjum á milli eða í vegg.
Ákærði viðurkenndi fyrir dóminum að hafa vitað af deilum ákærðu Andreu og brotaþola og hótunum þeirra á báða bóga, en kvaðst hafa forðast að setja sig inn í deilurnar sjálfar. Þá viðurkenndi hann að hafa átt samskipti við ákærðu Andreu á Facebook síðdegis daginn áður, þ.e. 21. desember, þar sem ákærða tilkynnti honum að kallinn væri kominn heim og nú væri það „full on revenge!!!!!“ og gerði grín að því að brotaþoli vildi leysa málið í góðu. Einnig að X, þ.e. ákærði X, ætlaði væntanlega að koma með að hitta hana, en hún, þ.e. brotaþoli, ætti ekki að vita af því. Þá greindi ákærða Andrea frá því að hún ætlaði að skutla Jóni á fund og fara „svo inní fjörð í þetta“ og spurði hvort hún, þ.e. brotaþoli, væri ein þarna hjá honum. Ákærði svaraði því játandi og spurði hvenær þetta ætti að gerast. Þá sagði ákærða Andrea honum að ákærði Jón hefði verið að banna henni að hitta hana án hans og að hann vildi fara með og að þetta yrði því eftir fund. Skýringar ákærðu Andreu á þessum ummælum þykja ótrúverðugar. Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að ákærða Óttari var fullkunnugt um það að hjá ákærðu Andreu stóð ekki til að fara með friði að brotaþola.
Þá liggur fyrir í gögnum málsins að ákærði Óttar og ákærði Jón hringdu ítrekað hvor í annan um kvöldið og nóttina og kom fram hjá ákærða að þeir hefðu rifist um það með hvorum ákærði Óttar stæði, þ.e. ákærðu Andreu eða brotaþola. Verður framburður ákærða ekki skilinn með öðrum hætti en að hann hafi að lokum ákveðið að láta undan þrýstingi frá ákærða Jóni og flytja út úr íbúðinni og það strax um nóttina. Hlaut ákærða því að vera ljóst að ákærðu Andrea og Jón báru bæði afar þungan hug til brotaþola og af samskiptum hans við ákærðu Andreu á Facebook fyrr um kvöldið hlaut honum einnig að vera kunnugt um það að þau vildu ná fundi hennar og að ekki var ætlunin að leysa málin í góðu.
Þá hefur komið fram að meðákærðu Andrea, Jón og Elías sóttu ákærða Óttar í partíið á [...], en ákærði Elías hefur borið um að hann hafi sett upp skíðagrímuna í bílnum á leiðinni til brotaþola og þá hefur komið fram að hann var með leðurkylfu meðferðis. Hlaut þessi útbúnaður sömuleiðis að hafa gefið ákærða sterka vísbendingu um hvað í vændum var.
Með hliðsjón af öllu framangreindu hlaut ákærða Óttari að vera um það kunnugt að til stóð að beita brotaþola ofbeldi þegar farið var að íbúð brotaþola um nóttina. Þá hefur ákærði viðurkennt að hafa opnað með lykli og að íbúðin hafi verið ólæst þegar meðákærðu komu inn í íbúðina skömmu á eftir honum. Þykir því ljóst að ákærði greiddi fyrir inngöngu meðákærðu Andreu, Elíasar og Jóns í íbúðina og gerði það að verkum að þau gátu ruðst í heimildarleysi inn á heimili brotaþola, komið þar að henni óviðbúinni og gengið þrjú í skrokk á henni einni. Þykir ákærði með þessari háttsemi hafa gerst sekur um hlutdeild í sérstaklega hættulegri líkamsárás. Gögn málsins þykja hins vegar ekki benda til þess að ákærða Óttari hafi hlotið að vera ljóst að meðákærðu ætluðu að brjóta gegn brotaþola kynferðislega og þykir varhugavert að telja það sannað. Verður ákærði því sýknaður af broti gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Framangreind háttsemi ákærða þykir hins vegar réttilega heimfærð til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 22. sömu laga.
Eins og áður greinir þykir ljóst með hliðsjón af framburði vitnanna V og Z að mikið gekk á í íbúð brotaþola á meðan á dvöl meðákærðu stóð í íbúðinni, en ákærði hefur sjálfur borið um að hafa heyrt mikil öskur og læti. Með hliðsjón af því og öllu framangreindu hlaut ákærða að vera ljóst að verið var að beita brotaþola ofbeldi. Hefur hann borið um að lætin hafi staðið yfir í um 10 mínútur, en þá hefði allt í einu orðið dauðaþögn. Þá hefði hann kallað fram, en ekki fengið svar og því hefði hann hraðað sér út. Þykir ljóst að ákærði læsti útidyrahurðinni þegar hann fór því vitnið B hefur borið um að hafa komið að læstum dyrum skömmu síðar.
Þá hefur ákærði borið um að hafa beðið vitnin P og S um það síðar um nóttina að fara upp í íbúðina til að ná fatapoka og látið þá fá lykla til að komast inn í íbúðina. Þykja skýringar ákærða á þessari beiðni ekki trúverðugar og þykir þetta benda til þess að ákærði hafi vitað af því að brotaþoli lá í blóði sínu í íbúðinni.
Með vísan til framangreinds og annarra gagna málsins þykir sannað að ákærði skildi brotaþola eftir meðvitundarlausa, liggjandi í blóði sínu og án bjargar og læsti útidyrahurðinni er hann hafði sig á brott, en af framburði vitnisins Theódórs Friðrikssonar læknis þykir ljóst að brotaþoli var í hættu þar sem hún var með skerta meðvitund. Er framangreind háttsemi ákærða réttilega heimfærð til 1. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í ákæru.
Í ákæru er ákærðu Andreu gefið að sök að hafa lagt á ráðin og skipulagt verknaðinn og að meðákærðu hafi að undirlagi hennar farið á heimili brotaþola í þeim tilgangi að ganga í skrokk á henni.
Með hliðsjón af áðurgreindum samskiptum ákærðu Andreu og Óttars á Facebook og sms-skilaboðum, sem ákærða sendi meðákærðu Jóni og Elíasi þar sem hún lýsir því m.a. yfir við ákærða Elías að hún ætli að rústa brotaþola, tilkynnir ákærða Jóni að hún sé búin að setja sig í hergírinn í staðinn fyrir sjálfsvorkunnar- og vælugírinn og að veiðileyfi á brotaþola hafi verið gefið út á brotaþola, sem og tíðar hringingar hennar til meðákærðu skömmu áður en árásin átti sér stað, þykir sannað að ákærða Andrea hafi lagt á ráðin og skipulagt árásina á brotaþola eins og í ákæru greinir og að undirlagi hennar hafi meðákærðu haldið á heimili brotaþola og haft í frammi þá háttsemi sem þar greinir. Sú staðreynd að ákærði Elías huldi höfuð sitt og húðflúr á höndum, að eigin sögn af því að hann vildi ekki láta bendla sig við málið, og hafði leðurkylfu meðferðis þykir og benda til þess að árásin var skipulögð, en ákærði Elías hefur borið um að hafa farið á staðinn til að styðja vinkonu sína, þ.e. ákærðu Andreu.
Í ákæru er ákærðu Andreu, Elíasi, Jóni og Óttari einnig gefið að sök rán með því að hafa haft á brott með sér farsíma þeirra brotaþola og B auk lyklakippu brotaþola, sem hafði að geyma hús-, bíl- og auðkennislykil og er háttsemin heimfærð til 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ósannað þykir að ákærðu hafi tekið síma B, en hann fannst ekki við húsleit á heimili ákærðu og rannsókn lögreglu hefur ekki leitt í ljós hvað af honum varð eða hvort hann var yfirleitt í íbúðinni. Þá þykir ljóst af öllum málsatvikum og framburði ákærðu Andreu og Jóns að ákærðu tóku þessa muni ekki í auðgunarskyni eins og áskilið er 252. gr. almennra hegningarlaga, heldur til þess að komast yfir síma ákærðu Andreu, sem talið var að innihéldi viðkvæmar myndir af henni og brotaþoli hafði hótað að birta á netinu. Þá kvaðst ákærða Andrea hafa tekið lyklana til að komast inn í bifreið brotaþola, sem stóð fyrir utan húsið, en þar kvaðst hún hafa fundið síma sinn. Með hliðsjón af framangreindu og með því að auðgunartilgangur þykir ekki sannaður ber að sýkna ákærðu Andreu, Jón, Elías og Óttar af ákæru um rán.
Þáttur ákærða X.
Í ákæru er ákærða X gefið að sök að hafa lagt á ráðin með ákærðu Andreu og skipulagt verknaðinn og í ákæru segir að meðákærðu hafi haldið á heimili brotaþola að undirlagi hans og ákærðu Andreu.
Ljóst er af gögnum málsins að ákærði X var ekki á vettvangi þegar árásin átti sér stað. Á hinn bóginn er ljóst að ákærði var í talsverðum samskiptum við meðákærðu og brotaþola að kvöldi 21. desember og aðfaranótt 22. desember sl., aðallega í síma, en einnig kom ákærða Andrea á fund hans um kvöldið og þá komu ákærðu Andrea, Jón og Elías við hjá ákærða X um nóttina að eigin sögn og ákærða til að fá lánaða bifreið og bílskúrshurðaropnara.
Ákærði X hefur neitað sök allt frá upphafi rannsóknar og hefur lýst því yfir að hann hafi enga aðkomu átt að þessu máli. Fyrir dómi neitaði ákærði því að hafa skipulagt eða lagt á ráðin um árásina á brotaþola og kvaðst ekki hafa vitað að til stæði að ráðast á brotaþola, beita hana ofbeldi og fremja kynferðisbrot. Ákærði kvaðst ekkert kannast við skíðagrímu, jakka og leðurkylfu, sem haldlögð hefðu verið heima hjá Y og neitaði því að hafa hringt í Y í þeim tilgangi að biðja hann um að taka á móti þessum hlutum. Sagði ákærði að ekki hefði komið til tals, á meðan ákærðu áttu viðdvöl á heimili hans, að ráðast ætti á brotaþola.
Framburður ákærða um samskipti hans við meðákærðu og brotaþola að kvöldi 21. og aðfaranótt 22. desember sl. samræmist framlögðum símagögnum og framburði meðákærðu og brotaþola. Brotaþoli og ákærði hafa bæði borið um það að brotaþoli hafi hringt í ákærða að fyrra bragði seint að kvöldi 20. desember sl. og beðið hann um að leysa ágreining, sem upp væri kominn á milli hennar og ákærðu Andreu. Kom fram hjá brotaþola að hún hefði í örvæntingu sinni leitað til ákærða X vegna þess að hún vissi að ákærða Andrea tæki mark á honum.
Sjá má af gögnum málsins að ákærða Andrea og brotaþoli hringdu báðar í ákærða um klukkan hálf-tólf að kvöldi 21. desember, fyrst ákærða einu sinni og þá brotaþoli tvisvar. Kom fram hjá ákærða X að Andrea hefði hringt í hann um kvöldið og tjáð honum að búið væri að stela mótorhjólinu og að hún þyrfti að fá lánaðan bíl hjá honum til að sækja hjólið. Skömmu eftir miðnætti hringdi ákærði fyrst í ákærðu Andreu og síðan í brotaþola. Ber ákærða og brotaþola saman um það að þau hafi sammælst um að hittast á tattú-stofu daginn eftir, að sögn brotaþola til að ræða málin, en að sögn ákærða til að afhenda honum símann.
Ákærði hefur neitað því að hafa hótað brotaþola í þessu símtali. Brotaþoli sagði hér fyrir dómi að ákærði hefði ekki hótað henni beint, en sagðist halda að ákærðu hefðu öll verið að fara á bak við sig. Síðar í skýrslunni staðfesti brotaþoli þó ummæli, sem eftir henni væru höfð skömmu eftir árásina, þ.e. að ákærði hefði fyrir árásina hótað henni að félagar úr Hells Angels myndu valda henni líkamsskaða. Framburður brotaþola að því er varðar þátt ákærða X hefur ekki verið staðfastur og í skýrslu hennar hjá lögreglu 28. desember sl. kvaðst brotaþoli vilja halda honum fyrir utan þetta mál. Í síðari skýrslum sínum hjá lögreglu, sem voru mjög ítarlegar, greindi hún ekki frá framangreindum hótunum ákærða X.
Ákærði sagði að þegar ákærðu Andrea, Jón og Elías hefðu komið til hans um nóttina til að fá lánaðan bílinn og bílskúrshurðaropnarann hefðu þau að mestu verið búin að gleyma símanum og aðalatriðið hefði verið að ná í hjólið. Ákærði kvaðst ekki hafa nennt út í [...] til að hjálpa ákærða Jóni með hjólið og því hefði hann hringt í ákærða Y, sem hefði verið í [...], og beðið hann um að vera ákærðu innan handar þar suður frá ef eitthvað kæmi upp á með hjólið. Sagði ákærði X að ákærði Y væri mjög bóngóður maður og snillingur þegar að bílum kæmi, en einnig hefði hann aðgang að bifreið með lyftu. Þá kom fram hjá ákærða og meðákærðu að Óttar hefði hringt í þau á meðan þau voru heima hjá ákærða og tjáð þeim að hjólið væri á kerru og því þyrftu þau ekki á bifreið ákærða að halda. Allt fær þetta stuðning í símagögnum, en þar kemur fram að ákærði hringdi heiman frá sér í ákærða Y klukkan 01:54, en samkvæmt sömu gögnum og framburði meðákærðu voru þau á sama tíma stödd heima hjá ákærða í [...].
Að sögn ákærða hafi meðákærðu farið að svo búnu frá honum og kvaðst hann ekkert hafa frétt af málinu fyrr en daginn eftir er hann hefði séð í fjölmiðlum að ráðist hefði verið á konu í [...] í [...] og að par hefði verið handtekið. Kvaðst ákærði þá hafa hringt í meðákærðu, bæði til þess að fá bílskúrshurðaropnarann til baka og til að athuga hvort grunur hans um að meðákærðu tengdust fréttinni væri réttur. Þessi framburður ákærða fær stuðning í framlögðum símagögnum, en þar kemur fram að eftir að hann hringdi í Y um nóttina átti hann engin samskipti við meðákærðu í síma fyrr en um klukkan 9:30 um morguninn er hann hringdi í meðákærða Elías og Óttar.
Framburður ákærða hefur verið stöðugur og fær stuðning í símagögnum og framburði meðákærðu Andreu og Jóns. Ákærði Jón sagði að ekki hafi komið til tals heima hjá ákærða X um nóttina hvað þau væru að fara að gera og sagði hann að ákærði X ætti enga aðild að þessu máli. Ákærða Andrea sagði að ekki hefði komið til tals að ákærði X færi með þeim út í [...] og sagði að hann hefði ekki vitað af hugsanlegu ofbeldi. Þá neitaði ákærða Andrea því að þau hefðu þurft leyfi hjá ákærða X til að beita ofbeldi. Þá sagði ákærði Y hér fyrir dómi að ekkert óvenjulegt hefði verið við það að ákærði X hringdi í hann á nóttunni og óskaði eftir aðstoð við eitthvað tengt bílum eða mótorhjólum.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er ekkert fram komið í málinu, sem er til þess fallið að draga skýringar ákærða á símhringingum og samskiptum hans við meðákærðu í efa, en fram hefur komið að meðákærðu eru öll vinir hans og kunningjar, sum til margra ára. Þá þykir ekkert komið fram í málinu sem tengir ákærða við skrif ákærðu Andreu á Facebook um að hann hygðist fara með meðákærðu á fund brotaþola um kvöldið eða tilkynningu í sms-skilaboðum hennar um að veiðileyfi á brotaþola hefði verið gefið út, en samkvæmt gögnunum voru þessi skilaboð send þremur einstaklingum, sem ekki tengjast þessu máli. Eins og áður greinir höfðu ákærða Andrea og brotaþoli haft í hótunum hvor við aðra og ógnað hvor annarri með því að þær hefðu talað við hina og þessa menn vegna ágreiningsins, sem þær töldu hafa mikla vigt í þessum efnum og ætluðu að beita sér í málinu. Er ekkert komið fram um að ákærði hafi haft áhrif á það hvaða tilkynningar ákærða Andrea setti á Facebook-síðu sína eða hvaða skilaboð hún sendi úr síma sínum.
Með vísan til alls framangreinds þykir ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði X hafi átt aðild að framangreindri líkamsárás og nauðgun. Ber því að sýkna hann af þeim brotum. Með vísan til þess sem að framan greinir um ætlað rán ber og að sýkna ákærða af því broti.
I. kafli ákæru. Þátttaka í skipulagðri brotastarfsemi.
Ákærðu er öllum gefin að sök þátttaka í skipulagðri brotastarfsemi og er háttsemin heimfærð til 175. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í ákæru. Segir í ákærunni að brot ákærðu hafi verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka, en ákærðu séu öll meðlimir í eða hafi tengsl við samtök sem lögregla hér á landi og erlendis hafi skilgreint sem alþjóðleg glæpasamtök, en samtökin séu Hells Angels auk stuðningssamtakanna Torpedo Crew og S.O.D.
Með því að ákærði X hefur verið sýknaður af aðild að líkamsárás, nauðgun og ráni samkvæmt I. kafla ákæru ber að sýkna hann einnig af broti gegn 175. gr. a almennra hegningarlaga.
Eins og að framan greinir hafa ákærðu Andrea, Jón og Elías verið sakfelld fyrir að hafa í félagi farið á heimili brotaþola og beitt hana ofbeldi og brotið gegn henni kynferðislega og ákærði Óttar fyrir hættubrot og hlutdeild í líkamsárásarbrotinu.
Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 149/2009, en með þeim var framangreint lagaákvæði um skipulagða brotastarfsemi lögfest, segir að við túlkun á skilyrðinu um sammæli manna verði að horfa til þess hvort maður hafi vitandi vits tekið þá ákvörðun að taka virkan þátt í starfsemi skipulagðra brotasamtaka með því að fremja verknað sem fullnægir framangreindum skilyrðum og framkvæmd verknaðarins sé liður í starfsemi slíkra samtaka.
Þá segir í athugasemdunum að með hugtakinu skipulögð brotasamtök sé áskilið að tilvist og mótun félagsskaparins sé ekki tilviljunarkennd heldur sé um að ræða meðvitað samstarf á milli þriggja eða fleiri manna um skipulega framkvæmd refsiverðra verka sem fullnægja framangreindum skilyrðum eða að verulegur þáttur í starfseminni felist í því að fremja slíkan verknað. Þá verði framkvæmd refsiverðs verknaðar að vera óbeint eða beint í ávinningsskyni.
Fram hefur komið í málinu að ákærði Jón er meðlimur í mótorhjólaklúbbnum S.O.D., sem mun vera skammstöfun á heitinu „Souls of Darkness“, en einnig hefur komið fram að klúbburinn er svokallaður stuðningsklúbbur Hells Angels á Íslandi. Þá hefur komið fram að ákærði Óttar var meðlimur í S.O.D. til skamms tíma, en mun hafa verið hættur í klúbbnum þegar atvik málsins áttu sér stað. Jafnframt hefur komið fram að konur geta hvorki orðið aðilar að S.O.D. né Hells Angels. Ákærðu Andrea og Elías munu hins vegar hafa stofnað sérstakan klúbb með heitinu Torpedo Crew, en samkvæmt bókun í fundargerðabók Hells Angels virðist sá klúbbur hafa haft einhver tengsl við Hells Angels á Íslandi. Samkvæmt framburði ákærðu Andreu og Elíasar var ekki stofnað til klúbbsins í neinni alvöru og kveða þau starfsemi hans hafa lagst af fljótlega eftir stofnun. Engin gögn hafa verið lögð fram um starfsemi klúbbsins fyrir utan ljósmyndir í upplýsingaskýrslu lögreglu, dags. 18. janúar 2012. Þar segir og að innan lögreglu sé lítil vitneskja um starfsemi klúbbsins og var það staðfest af vitninu Eiríki Valberg lögreglumanni fyrir dóminum. Í málinu hefur hins vegar verið lögð fram fundargerðabók S.O.D., sem haldlögð var á heimili ákærða Jóns, og fundargerðabók Hells Angels á Íslandi, sem haldlögð var í félagsheimili samtakanna að Gjáhellu 5 í Hafnarfirði. Ekkert í þessum fundargerðabókum eða öðrum gögnum málsins rennir stoðum undir það að tengsl séu á milli þessara samtaka og þess verknaðar, sem um er fjallað í máli þessu.
Eins og fram hefur komið eiga atvik málsins rót að rekja til persónulegs ágreinings brotaþola og ákærðu Andreu, en þær munu hafa þekkst lengi og verið nánar. Þá hefur komið fram að framganga brotaþola leiddi til sambandsslita þeirra Andreu og Jóns, en á meðan á þeim stóð dvaldi ákærði Elías á heimili ákærðu Andreu og var henni til stuðnings. Einnig hefur komið fram að ákærðu Óttar og Jón eru vinir til margra ára og á þessum sama tíma bjó ákærði Óttar í íbúð brotaþola. Ljóst þykir að þessar aðstæður allar urðu til þess að ákærðu Jón, Elías og Óttar drógust inn deilur brotaþola og ákærðu Andreu með þeim afleiðingum sem greinir í máli þessu. Ráða má af gögnum málsins og framburði ákærðu að deilurnar hafi stigmagnast uns upp úr sauð er brotaþoli sótti mótorhjól ákærðu Andreu af verkstæði.
Með hliðsjón af öllu framangreindu og sérstaklega aðdraganda árásarinnar verður ekki talið að ákæruvaldinu hafi tekist að sýna fram á að brot ákærðu Andreu, Elíasar, Jóns og Óttars hafi verið liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka, enda verður heldur ekki talið að sýnt hafi verið fram á að brotið hafi verið framið í ávinningsskyni, hvorki beint né óbeint.
Með vísan til framangreinds ber að sýkna ákærðu Andreu, Elías, Jón og Óttar af framangreindu broti.
II. kafli ákæru. Þáttur ákærða Y.
Eins og að framan greinir hefur ákærði X verið sýknaður af þeirri háttsemi, sem honum er gefin að sök í ákærunni. Ósannað er því að ákærði Y hafi að tilstuðlan X fyrir árásina tekið við áðurgreindum poka með fatnaði og leðurkylfu skömmu eftir hana. Með vísan til þess og áðurgreinds rökstuðnings fyrir sýknu annarra ákærðu af broti gegn 175. gr. a almennra hegningarlaga ber einnig að sýkna ákærða Y af því broti.
Í ákæru er ákærða Y eingöngu gefin að sök þátttaka í skipulagðri brotastarfsemi og er háttsemi hans talin varða við 175. gr. a almennra hegningarlaga. Verknaði hans er hins vegar ekki lýst sem eftirfarandi hlutdeild í brotum meðákærðu samkvæmt I. kafla ákæru, þ.e. að hann hafi annað hvort veitt liðsinni sitt til að halda við ólögmætu ástandi, sem skapast hefði fyrir brotið, eða notið hagnaðar af því. Þykja því ekki skilyrði til að sakfella ákærða fyrir hlutdeild í brotum meðákærðu.
Ákæra, útgefin 22. mars 2012.
Ákærða játaði brot sín skýlaust fyrir dóminum eins og þeim er lýst í ákæru, útgefinni 22. mars 2012. Þykir með játningu ákærðu sem á sér stoð í gögnum málsins sannað að ákærða hafi gerst sek um þá háttsemi sem ákært er fyrir og eru brot ákærðu rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Refsing, miskabætur og sakarkostnaður
Ákærða Andrea Kristín Unnarsdóttir er fædd 1979. Samkvæmt sakavottorði hefur hún frá árinu 2003 fjórtán sinnum sætt refsingu, aðallega fyrir umferðarlagabrot, en einnig fyrir fíkniefnalagabrot og einu sinni fyrir skjalabrot. Síðast gekkst ákærða undir tvær sáttir, sektargreiðslu og sviptingu ökuréttar, hjá lögreglustjóra hinn 22. desember 2012, fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Hinn 1. febrúar 2011 hlaut ákærða reynslulausn í eitt ár á 165 daga eftirstöðvum refsingar dóma frá 16. desember 2009, 22. desember 2008, 10. júní 2008, 28. mars 2007, 5. janúar 2007 og 22. nóvember 2006. Með broti sínu nú hefur ákærða Andrea rofið skilorð reynslulausnar frá 1. febrúar 2011 á 165 daga eftirstöðvum refsingar og ber því með vísan til 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga að ákveða refsingu í einu lagi fyrir það brot sem nú er dæmt um og með hliðsjón af fangelsisrefsingu sem óafplánuð er samkvæmt reglum 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 77. gr. sömu laga.
Ákærði Elías Valdimar Jónsson er fæddur 1983. Hinn 4. júlí 2005 hlaut ákærði 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Hinn 13. apríl 2010 gekkst ákærði undir sekt og sviptingu ökuréttar fyrir ölvunarakstur og akstur án þess að hafa ökuskírteini meðferðis. Þessi brot hafa ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.
Ákærði Jón Ólafsson er fæddur 1974. Á árunum 2002, 2006 og 2007 gekkst ákærði fimm sinnum undir sektargreiðslu og þrisvar undir sviptingu ökuréttar hjá lögreglustjóra vegna umferðarlagabrota. Hinn 7. desember 2006 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir nytjastuld og akstur sviptur ökurétti. Hinn 23. maí 2007 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot og akstur sviptur ökurétti. Var um hegningarauka við fyrri dóma að ræða, en jafnframt var skilorðsdómurinn frá 7. desember 2006 dæmdur upp. Hinn 19. september 2007 gekkst ákærði undir viðurlagaákvörðun dómara, sektargreiðslu og sviptingu ökuréttar, fyrir ölvunarakstur. Síðast var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi fyrir akstur sviptur ökurétti og var þar um hegningarauka að ræða við fyrri dóma. Loks gekkst ákærði undir greiðslu sektar hjá lögreglustjóra 11. október 2010 fyrir þjófnað. Sakarferill ákærða hefur ekki áhrif á ákvörðun refsingar í máli þessu.
Ákærði Óttar Gunnarsson er fæddur 1976. Hinn 30. júní 1997 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir hylmingu og líkamsárás. Hinn 20. apríl 2007 var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir fíkniefnalagabrot og loks var ákærði hinn 9. júlí 2010 dæmdur í níu mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Hefur síðastnefndi dómurinn ítrekunaráhrif í máli þessu. Með broti sínu nú hefur ákærði Óttar rofið skilorð dómsins frá 9. júlí 2010 og ber því með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að taka upp þann hluta dómsins sem bundinn var skilorði og gera ákærða refsingu í einu lagi fyrir bæði málin með hliðsjón af reglum 77. gr. sömu laga.
Við ákvörðun refsingar er litið til þess að árás ákærðu var framin í félagi og var skipulögð með það í huga að koma brotaþola á óvart, en ákærðu ruddust vopnum búin inn á heimili hennar um miðja nótt í þeim tilgangi að ganga í skrokk á henni. Er til þess litið að árás ákærðu var hrottafengin, ófyrirleitin og til þess fallin að niðurlægja brotaþola og svipta hana mannlegri reisn. Þá er litið til þess að ákærðu beittu stórhættulegri aðferð við atlögu sína og þykir ljóst að hún hefði getað haft mun alvarlegri afleiðingar í för með sér en raun varð á. Loks er litið til þeirra afleiðinga, sem verknaðurinn hefur haft í för með sér fyrir brotaþola. Ákærðu eiga sér engar málsbætur.
Með vísan til alls framangreinds þykir refsing ákærðu Andreu hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og sex mánuði. Þá þykir refsing ákærða Elíasar þykir hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár, refsing ákærða Jóns þykir hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur ár og refsing ákærða Óttars þykir hæfilega ákveðin í tvö ár og sex mánuði.
Í ljósi alvarleika verknaðarins þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna að neinu leyti.
Af hálfu brotaþola, A, er krafist miskabóta úr hendi ákærðu. Endanlegar dómkröfur brotaþola eru þær að ákærðu verði in solidum dæmd til að greiða brotaþola 4.000.000 króna í miskabætur með vöxtum eins og í ákæru greinir. Þá er krafist lögmannsþóknunar að mati dómara að viðbættum virðisaukaskatti.
Með því að ákærðu X og Y hafa verið sýknaðir af kröfum ákæruvalds ber að vísa bótakröfu brotaþola á hendur þeim frá dómi.
Með broti því sem ákærðu Andrea, Elías, Jón og Óttar eru sakfelld fyrir hafa þau bakað sér skaðabótaábyrgð gagnvart brotaþola samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt framlögðum sérfræðigögnum hefur brotið haft mikil áhrif á allt líf brotaþola og haft í för með sér mikla vanlíðan og öryggisleysi, en brotaþoli hefur verið greind með alvarlega áfallastreituröskun og alvarlegt þunglyndi í kjölfar árásarinnar. Einnig er litið til þess að samkvæmt mati sérfræðinga á brotaþoli fyrir höndum erfitt meðferðarferli til að ná sér af framangreindum einkennum. Í ljósi framangreinds þykja miskabætur til handa brotaþola hæfilega ákveðnar 2.000.000 króna og er ákærðu Andreu, Elíasi og Jóni gert að greiða brotaþola þá fjárhæð óskipt, þar af 500.000 krónur óskipt með ákærða Óttari. Fjárhæðin beri vexti eins og í dómsorði greinir.
Þar sem ákærðu X og Y hafa verið sýknaðir af kröfum ákæruvalds ber að greiða málsvarnarlaun skipaðra verjenda þeirra úr ríkissjóði, en málsvarnarlaun Oddgeirs Einarssonar hdl. þykja hæfilega ákveðin 1.568.750 krónur, og málsvarnarlaun Teits Björns Einarssonar hdl., 1.129.500 krónur, í báðum tilvikum að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ákærða Andrea greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 2.269.542 krónur, að fjórum fimmtu hlutum, ákærði Elías greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., 1.943.242 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hrl., 166.288 krónur, hvorutveggja að fjórum fimmtu hlutum, ákærði Jón greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Halldórs Björnssonar hdl., 1.644.678 krónur, að fjórum fimmtu hlutum og ákærði Óttar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hrl., 1.195.388 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Hjálmars Blöndal hdl., 469.621 krónu, hvoru tveggja að fjórum fimmtu hlutum, allt að meðtöldum virðisaukaskatti.
Rétt þykir að einn fimmti hluti framangreindra málsvarnarlauna verjenda ákærðu greiðist úr ríkissjóði.
Annan sakarkostnað að fjárhæð 1.871.948 krónur greiði ákærðu, Andrea, Elías, Jón og Óttar, óskipt, þar af þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinbergs Finnbogasonar hdl., 564.750 krónur.
Dóm þennan kveða upp Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari, Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari og Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Uppkvaðning dómsins hefur dregist vegna umfangs málsins og embættisanna dómara.
Dómsorð:
Ákærðu X og Y eru sýknir af kröfum ákæruvalds í máli þessu.
Ákærða Andrea Kristín Unnarsdóttir sæti fangelsi í fjögur ár og sex mánuði.
Ákærði Elías Valdimar Jónsson sæti fangelsi í fjögur ár.
Ákærði Jón Ólafsson sæti fangelsi í fjögur ár.
Ákærði Óttar Gunnarsson sæti fangelsi í tvö ár og sex mánuði.
Til frádráttar refsingu ákærðu komi gæsluvarðhald, sem þau hafa sætt vegna málsins, ákærðu Andrea og Jón frá 22. desember 2011, ákærði Elías frá 29. desember 2011 og ákærði Óttar frá 6. janúar 2012.
Ákærðu, Andrea, Elías og Jón, greiði brotaþola, A, óskipt 2.000.000 króna í miskabætur, þar af 500.000 krónur óskipt með ákærða Óttari, allt með vöxtum samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 22. desember 2011 til 13. apríl 2012, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X, Oddgeirs Einarssonar hdl., 1.568.750 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Teits Björns Einarssonar hdl., 1.129.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Ákærða Andrea greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar St. Ragnarssonar hdl., 2.269.542 krónur, að fjórum fimmtu hlutum, en einn fimmti greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Elías greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar hrl., 1.943.242 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Bjarna Haukssonar hrl., 166.288 krónur, hvoru tveggja að fjórum fimmtu hlutum, en einn fimmti greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Jón greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Björgvins Halldórs Björnssonar hdl., 1.644.678 krónur, að fjórum fimmtu hlutum, en einn fimmti greiðist úr ríkissjóði.
Ákærði Óttar greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnars Þórs Stefánssonar hrl., 1.195.388 krónur, og þóknun skipaðs verjanda síns á rannsóknarstigi, Hjálmars Blöndal hdl., 469.621 krónu, hvoru tveggja að fjórum fimmtu hlutum, en einn fimmti greiðist úr ríkissjóði.
Annan sakarkostnað að fjárhæð 1.871.948 krónur greiði ákærðu, Andrea, Elías, Jón og Óttar, óskipt, þar af þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Steinbergs Finnbogasonar hdl., 564.750 krónur.