Hæstiréttur íslands

Mál nr. 495/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 30

 

Þriðjudaginn 30. desember 2003.

Nr. 495/2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C-liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. desember 2003. Kærumálsgögn bárust réttinum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2003, þar sem fallist var á kröfu sóknaraðila um að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 3. febrúar 2004 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Fallist er á með héraðsdómara að skilyrðum c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald sé fullnægt. Eru því ekki efni til að vísa jafnframt til a. liðar sama lagaákvæðis. Með þessari athugasemd verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. desember 2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að X, [kt.], [heimili], verði á grundvelli a- og c-liða 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 gert að sæta gæslu­varðhaldi frá lokum þess gæsluvarðhalds sem hann nú sætir, en lýkur í dag kl. 16:00, uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til 3. febrúar 2004, kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að þann 15. desember sl. hafi kærði verið úrskurðaður af Héraðsdómi Reykjavíkur til að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16:00 í dag á grundvelli a-liðar 103. gr. laga nr. 19/1991 að kröfu lögreglustjórans í Reykjavík. Hafi úrskurðurinn verið kærður til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi nr. 480, 2003.

Ákæra hafi verið gefin út í dag á hendur kærða og send til Héraðsdóms Reykjavíkur. Ákært sé fyrir 9 þjófnaðartilvik, 4 hylmingar­brot og 2 fjársvikstilvik flest framin í ágúst 2003. Til rannsóknar hjá lögreglunni í Reykjavík sé einnig fjöldi mála þar sem X sé kærður.  Málin séu mjög mismunandi langt á veg kominn.  Nokkur fjöldi mála sé á loka­rannsóknarstigi og verði málin því send til lögfræði­deildar til ákærumeðferðar á næstu dögum. 

Þá sé einnig mikill fjöldi mála til rannsóknar hjá lögreglunni í  Kópavogi.  Stefnt sé að því að gefa út aðra ákæru á hendur kærða á gæsluvarðhalds­tímanum.  Skv. sakavottorði hafi kærði langan sakaferil og hann hafi margoft verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og sérrefsilögum nú síðast með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn hafi verið upp þann 3. október sl.  Þar hafi hann verið dæmdur til 7 mánaða fangelsisrefsingar en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðs­bundið í 3 ár.  Hér myndi því vera um skilorðsrof að ræða skv. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknar­hagsmuna fyrir viku síðan vegna mála er þá hafi verið á frumrannsóknarstigi hjá lögreglu.  Kærði hafi verið handtekinn þann 15. desember og haft við handtöku í fórum sínum bakpoka sem hafði að geyma ýmsan varning, meint þýfi. Á gæsluvarðhaldstímanum hafi verið unnið að rannsókn málanna og hafi við þá rannsókn komið fram tengsl kærða við fleiri brot. Þessi mál séu enn á rannsóknarstigi hjá lögreglu.  Enn eigi eftir að afla frekari gagna, taka skýrslur af kærða og vitnum.

Kærði hafi síðustu mánuði verið í fjöldamörgum afbrotum og hafi ekki þrátt fyrir afskipti lögreglunnar látið sér segjast heldur haldið brotastarfseminni áfram. Hann sé í neyslu fíkniefna og telji lögregla að hann fjármagni neyslu sína með afbrotum. Yfirgnæfandi líkur séu á að kærði haldi áfram brota­starfseminni fari hann frjáls ferða sinna og sé því nauðsynlegt að hann sæti gæsluvarðhaldi.  Að mati lögreglunnar sé mikilvægt að orðið verði við kröfu hennar svo koma megi í veg fyrir frekari afbrot kærða og unnt verði að ljúka rannsókn mála hans.

Lögreglan kveður kærða vera grunaðan um fjölda brota gegn 244. gr., 254. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til alls framanritaðs, framlagðra gagna og loks með vísan til a- og c-liðar 1. mgr. 103. gr., laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, sé þess farið á leit að krafan verði tekin til greina eins og hún sé fram sett.

                 Kærði á sakaferil að baki m.a. þjófnaði og auðgunarbrot auk umferðalagabrota og áfengis- og fíkniefnabrota. Hann hlaut síðast dóm 3. október sl., sjö mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár. Síðan þá hefur lögreglan í Reykjavík og Kópavogi unnið að rannsókn fjölda mála, sem kærði er talinn tengjast, og nú í dag var gefin út ákæra á hendur honum. Ákært er fyrir níu þjófnaði, fjögur hylmingar­brot og tvö fjársvikabrot.

Þá hefur lögreglan í Reykjavík nú til rannsóknar nokkur innbrots- og þjófnaðarmál, sem framin hafa verið að undanförnu, og þykja sterkar líkur á að kærði tengist. Loks hefur lögreglan í Kópavogi fjölda mála til rannsóknar á hendur kærða.  Rannsókn er mismunandi langt á veg komin og á eftir að taka frekari skýrslur af kærða svo og vitnum.  Rökstuddur grunur er fyrir hendi um að kærði eigi aðild að þessum málum þrátt fyrir neitun hans og verður að telja að kærði geti torveldað rannsókn málsins ef hann gangi laus.  Með vísan til þessa og rannsóknargagna í heild ber að fallast á að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægt hér.

Þá er til þess að taka að svo sem sjá má af framansögðu hefur kærði verið ákærður fyrir brot á hegningarlögum og sætir rannsókn vegna ætlaðra brota sem gætu varðað hann fangelsisrefsingu. Nauðsyn ber til að stöðva brotastarfsemi kærða til að unnt sé að ljúka málum hans og þykja skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 vera fyrir hendi.

Samkvæmt öllu framansögðu er krafa lögreglustjórans í Reykjavík um að kærði sæti gæsluvarðhaldi tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til þriðju­dagsins 3. febrúar 2004 kl. 16.00.