Hæstiréttur íslands
Mál nr. 564/2014
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Ásetningur
|
|
Fimmtudaginn 22. janúar 2015. |
|
Nr. 564/2014.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Bjarni S. Ásgeirsson hrl.) |
Kynferðisbrot. Ásetningur.
X var sýknaður af ákæru um brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að framburður X hefði í héraði verið metinn trúverðugur og talið ósannað, meðal annars að virtum framburði X og vitna, að hann hefði af ásetningi notfært sér ölvun og svefndrunga A og gegn vilja hennar haft við hana samræði, en í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála yrði sú niðurstaða ekki endurmetin til sakfellingar X fyrir réttinum. Var ákæruvaldið samkvæmt þessu ekki talið hafa axlað þá sönnunarbyrði sem á því hvíldi eftir 108. gr. sömu laga, að sýna fram á ásetning X til nauðgunar umrætt sinn og þar með saknæmi verknaðar hans. Að því virtu taldi Hæstiréttur að ekki yrði heldur talið að önnur gögn málsins, sem rakin voru í héraðsdómi, skyldu leiða til þess að fallast skyldi á þá kröfu ákæruvaldsins að neyta heimildar 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 til ómerkingar héraðsdómsins.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2014 af hálfu ákæruvaldsins. Hann krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og dæmdur til refsingar, en til vara ómerkingar hins áfrýjaða dóms.
Ákærði krefst staðfestingar héraðsdóms.
I
Ákærða er gefið að sök brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa haft samræði við A að kvöldi föstudagsins 4. október 2013 gegn vilja hennar en hann hafi notfært sér að hún hafi ekki getað spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga. Ákærði neitar sök og telur að samfarirnar hafi verið með fúsum og frjálsum vilja þeirra beggja.
Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga er verknaður sem refsing er lögð við samkvæmt þeim lögum ekki saknæmur nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Fyrir gáleysisbrot skal því aðeins refsa að sérstök heimild sé til þess í lögunum en slík heimild er ekki í 194. gr. almennra hegningarlaga. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 61/2007 og breyttu XXII. kafla almennra hegningarlaga segir að ásetningur verði að ná til allra efnisþátta verknaða eins og þeim sé lýst í refsiákvæðum. Í því felist að hann verði að taka bæði til verknaðaraðferðar og kynmakanna. Ásetningur þurfi einnig að ná til þess að nota hinar ólögmætu verknaðaraðferðir til þess að ná fram kynmökunum. Þá verði ásetningur að taka til þvingunarinnar þegar brotið sé gegn 194. gr. en í því felist að þetta sé gert gegn vilja brotaþola þannig að samþykki hans sé ekki fyrir hendi. Loks þurfi ásetningur að ná til orsakasambandsins á milli verknaðaraðferða sem leiða til þvingunar og kynmaka. Þá segir í athugsemdunum að þegar „ákærði neitar sök getur verið mjög erfitt að sanna huglæga afstöðu hans til verknaðarins. Verða dómstólar þá að meta hvað ákærði hafi hlotið að gera sér grein fyrir og tvinnast þá oft saman sakarmat og sönnunarmat. Mat ákærða á aðstæðum er lagt til grundvallar þannig að ekki er unnt að refsa honum fyrir nauðgun ef hann hafði réttmæta ástæðu til að ætla að þolandi væri samþykkur kynmökunum. Ástæða þess er sú að þá er ekki fyrir hendi ásetningur til að þvinga þolanda til kynmaka.“
II
Í hinum áfrýjaða dómi er rakinn framburður ákærða og vitna um málavexti og lýst öðrum gögnum um ástand ákærða og brotaþola umrætt kvöld. Eins og þar kemur fram höfðu hún og þrjár aðrar konur saman til afnota herbergi á gistiheimilinu að B, en herbergið mun allajafna hafa verið notað sem fundarherbergi. Gengu þær ekki allar til náða á sama tíma umrætt kvöld. Tvær þeirra báru fyrir dómi að þær hefðu heyrt kynlífsstunur í herberginu eftir að þær lögðust til svefns. Lýsti önnur þeirra því að um hafi verið að ræða ánægjustunur frá konu. Hin konan, sem gekk til sængur skömmu síðar, kvaðst einnig hafa heyrt brölt og stunur í konu og dregið þá ályktun að verið væri að hafa samfarir í herberginu. Hún hafi ekki kært sig um það og svipt sænginni af rúmi brotaþola og þá séð hana og ákærða í samförum. Brotaþolinn lýsti nánar upplifun sinni af atlotum ákærða þannig: „Ég ... fann fyrir einhverjum atlotum, einhverju, ég get ekki sagt að ég man ekki ... að hafa verið færð úr fötunum eða tekin úr fötunum. En ég hérna, en ég segi eitthvað ertu komin ástin mín í sem sagt það eru orð sem hafa endurómað í kollinum á mér síðan þá og hérna, og ég væri glöð að sjá hann. Og síðan í rauninni jú man ég að hann er eitthvað svona að byrja að elskast við mig. Og hérna, í rauninni man ekki nákvæmlega hvað gerðist á hvaða tímapunkti.“
III
Ákærði hefur staðfastlega neitað sök og lýst því að brotaþoli hafi vaknað upp er hann settist á rúmstokkinn þar sem hún lá, þau hafi hvískrað og látið vel hvort að öðru og síðan haft samfarir. Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik sem telja má honum í óhag. Við mat á því hvort saknæmisskilyrði 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga sé fullnægt verður ákærði því að njóta þess vafa sem er í málinu um þá huglægu afstöðu sem bjó að baki verknaði hans.
Héraðsdómur hefur metið framburð ákærða trúverðugan og talið ósannað að ákærði hafi af ásetningi notfært sér ölvun og svefndrunga brotaþola og gegn vilja hennar haft við hana samræði, eins og áskilnaður er gerður um í 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga. Reisti héraðsdómur þessa niðurstöðu sína meðal annars á framburði ákærða og vitna, en samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 verður sú niðurstaða ekki endurmetin til sakfellingar ákærða fyrir Hæstarétti eins og ákæruvaldið gerir aðallega kröfu um. Samkvæmt þessu hefur ákæruvaldið ekki axlað þá sönnunarbyrði, sem á því hvílir eftir 108. gr. laga nr. 88/2008, að sýna fram á ásetning ákærða til nauðgunar umrætt sinn og þar með saknæmi verknaðar hans. Að því virtu verður heldur ekki talið að önnur gögn málsins, sem rakin eru í héraðsdómi, leiði til þess að fallist verði á varakröfu ákæruvaldsins um að neytt verði heimildar 3. mgr. 208. gr. laganna til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. Verður hann því staðfestur.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins verður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Sakarkostnaður fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Bjarna S. Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, 868.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 25. júlí 2014.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. júní sl., var höfðað 20. febrúar 2014 með ákæru ríkissaksóknara á hendur X, fæddum [...], til heimilis að [...], [...], „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 4. október 2013, að B í [...], haft samræði við A, gegn vilja hennar, en ákærði notfærði sér það að A gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga.
Telst brot þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000, með vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 4. október 2013 en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“
Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara vægustu refsingar sem lög frekast heimila og verulegrar lækkunar einkaréttarkröfu. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg þóknun verjanda að viðbættum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
II
Atvik máls
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu kom brotaþoli, A, á lögreglustöðina á Blönduósi kl. 10:34 hinn 5. október sl. og lagði fram kæru á hendur ákærða vegna nauðgunar sem átt hefði sér stað á B nóttina áður. Í beinu framhaldi var brotaþola tilkynnt að rannsóknarlögreglumaður kæmi frá Akureyri til að taka af henni skýrslu sem hann gerði og lauk skýrslutöku af brotaþola kl. 15:06. Klukkan 13:59 og 14:00 gaf brotaþoli blóð og þvagsýni í þágu rannsóknar málsins. Eftir að skýrslutöku lögreglu lauk á Blönduósi fór hún á neyðarmóttöku Landspítala Háskólasjúkrahúss í Reykjavík til skoðunar og var hún komin þangað kl. 18:40 og gekkst í framhaldi af því undir réttarlæknisfræðilega skoðun sem C kvensjúkdómalæknir framkvæmdi. Ákærði var handtekinn á heimili sínu kl. 16:35 sama dag og farið með hann til Akureyrar þar sem tekin var af honum lögregluskýrsla auk þess sem hann gekkst líkt og brotaþoli undir réttarlæknisfræðilega skoðun. Ákærði var látinn laus rétt eftir hádegi daginn eftir. Í framhaldi af þessu tók lögregla skýrslur af vitnum.
Undir rekstri málsins kom fram að brotaþoli kom á B um hádegisbil föstudaginn 4. október sl. og með henni í för voru þrjár aðrar konur. Tilgangur ferðarinnar var að sækja stóðréttir sem haldnar voru í [...] þessa helgi. Þá var einnig verið að opna gestastofu í reiðhöllinni á B og var skemmtun þar á föstudagskvöldinu vegna þess. Konurnar gistu allar saman í einu herbergi, sem staðarhaldari kallar fjölskylduherbergi, og mun það aðallega vera notað til gistingar yfir sumarmánuðina en að vetri er það fundarherbergi. Herbergi þetta er skammt frá aðalinnganginum að gistiheimilinu og að því eru tvennar dyr. Aðrar af gangi, sem læst er með lykli beggja vegna, en hinar úr matsal en þeim dyrum er eingöngu hægt að læsa utan frá. Í herberginu voru á þessu tíma fjögur rúm, tvö þeirra upp við vegginn að matsalnum og hafði brotaþoli rúmið, sem var nær aðalinnganginum í herbergið, til umráða en vitnið D rúmið sem var þar fyrir innan.
III
Framburður fyrir dómi verður nú rakinn í aðalatriðum
Ákærði kvaðst hafa mikil tengsl við fólkið á B og hann sé því vel kunnugur þar. Hann kvaðst hafa komið þangað rétt fyrir kl. 19:00 þennan dag. Hann hafi setið í anddyri þegar vitnið E kom að og bauð honum inn í herbergi sem stúlkurnar fjórar höfðu til umráða. Hann hafi setið þar og spjallað og þegið eitt glas að drekka og það hafi verið fyrsta áfengið sem hann neytti þennan dag. Ákærði kvað stúlkurnar hafa setið á sínum rúmum nema E sem fært hafi honum drykkinn. Ákærði kvaðst halda að hann hafi setið á rúmi sem brotaþoli átti og brotaþoli hafi setið þar líka en hann hafi ekki vitað hver átti hvaða rúm. Í framhaldi af því hafi hann farið og snætt kvöldverð og að honum loknum farið út í skemmtunina þar sem hann hafi drukkið eitthvað af bjór og dansað. Um ölvunarástand sitt bar ákærði að hann hafi verið „vel í því“. Ákærði kvaðst ekki hafa hitt brotaþola fyrir þetta kvöld og mundi ekki eftir sérstökum samskiptum við hana um kvöldið en hann hafi dansað við einhverjar stúlknanna og mögulega brotaþola. Ákærði kvaðst ekki geta sagt að neinn samdráttur hafi verið með honum og brotaþola en stúlkurnar hafi allar verið hressar og skemmtilegar. Ákærði taldi að hann og brotaþoli hafi í eitt skipti gengið saman út til að reykja en það hafi þá verið fleira fólk fyrir utan skemmuna. Ákærði kvaðst ekki hafa velt því fyrir sér hvert ölvunarástand brotaþola var en hann hafi ekki tekið eftir því að hún væri eitthvað slagandi eða þess háttar. Á einhverjum tímapunkti hafi hann farið af skemmtuninni og inn í herbergi stúlknanna en hann mundi ekki hvort hann fór einn eða með brotaþola en taldi þó að hún hafi verið komin inn í herbergið á undan honum. Ákærði kvaðst ekki geta útskýrt í hvaða tilgangi hann fór inn í herbergi stúlknanna eða hvort hann hefði lagst upp í rúm hjá einhverri hinna ef brotaþoli hefði ekki verið þar. Hann mundi til þess að þegar hann kom inn í herbergið hafi hann séð brotaþola liggja í rúminu og hann hafi ekki séð betur en að hún væri vakandi en hún hafi snúið sér að honum og opnað augun. Hvort hinar stúlkurnar voru inni í herberginu á þessum tíma viti hann ekki en hann hafi ekki orðið var við að aðrir væru í herberginu. Þegar hann var kominn inn í herbergið hafi hann sest á rúmið hjá henni og síðan lagst við hlið hennar og þau hvíslast eitthvað á, strokið hvort öðru, tekið utan um hvort annað og kysst tungukossi. Síðan hafi eitt leitt af öðru og fljótlega hafi þau byrjað að hafa samfarir og kysst meðan á þeim stóð. Brotaþoli hafi tekið þátt í samförunum en hún hafi hreyft á sér mjaðmirnar og stunið. Ákærði bar að hann hefði aldrei farið að reyna við brotaþola hefði hún verið sofandi. Samfarir þeirra hafi staðið yfir í einhverja stund, örfáar mínútur, þar til D, vinkona brotaþola, kom inn með offorsi. Hún hafi kallað eitthvað á þá leið: „Hver er þetta eða hvað er í gangi hérna?“ og rifið af honum sængina. Hann hafi sprottið á fætur en D hafi ráðist að honum með hrópum og spörkum og hann hafi hrökklast út úr herberginu. Að sögn ákærða komu þessi viðbrögð D honum á óvart en hann kvaðst ekki sjá hvað henni kæmi við þótt vinkona hennar hefði samfarir við einhvern mann. Hann hafi verið frammi nokkra stund en þá hætt sér inn aftur til að sækja símann sinn sem hann hafði verið með í brjóstvasa og taldi víst að væri í rúmi brotaþola. Að sögn ákærða var brotaþoli ekki mikið klædd en hann hafi ekki séð það heldur fundið. Hún hafi sennilega verið í toppi og nærbuxum og taldi ákærði fullvíst að brotaþoli hafi sjálf farið úr nærbuxunum meðan hann afklæddi sig. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvað varð til þess að hann fór inn í herbergi stúlknanna. Vera kunni, án þess að hann hafi áttað sig á því, að einhver samdráttur hafi verið á milli þeirra eða að þau hafi sýnt hvort öðru einhvern áhuga. Kannski hafi hann langað til að eiga frekari samskipti við þessa konu en hann hafi verið undir áhrifum áfengis og þá hugsi menn ekki alltaf rökrétt. Þegar hann kom inn í herbergið hafi ljósin verið slökkt en smábirta hafi komið inn um glugga á rennihurðinni. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við að aðrir en hann og brotaþoli væru í herberginu. Aðspurður um hversu vel hann myndi eftir kvöldinu kvaðst hann muna þau gloppótt en hann kvaðst muna vel eftir samförunum og aðdraganda þeirra en hvers vegna hann muni þetta vel en annað ekki geti hann ekki útskýrt. Eftir þetta hafi hann fengið far heim til sín en áður hafi hann farið út í skemmuna og sótt úlpuna sína.
Daginn eftir hafi hann farið í [...] þar sem hann hafi hitt E sem hafi sagt honum að brotaþoli væri farin suður. Hann hafi þá talið að brotaþoli væri með samviskubit líkt og hann og ekki viljað vera þarna lengur. Hann kvaðst hafa farið snemma heim og verið kominn þangað um fjögurleytið. Skömmu síðar hafi F lögreglumaður komið og tilkynnt honum að hann væri handtekinn vegna gruns um kynferðisofbeldi. Hann kvaðst hafa orðið mikið hissa á komu lögreglumannsins og spurt hann í forundran: „Ertu ekki að grínast?“
Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvers vegna brotaþoli lýsti atvikum með þeim hætti sem hún gerir. Hann sagðist hins vegar fullviss um að samfarir þeirra hefðu verið með fúsum og frjálsum vilja beggja. Að hans mati var hún fullmeðvituð um það sem var að gerast þegar þau byrjuðu að taka utan um hvort annað og kyssast. Hann kvaðst ekki geta ímyndað sér að hún hafi talið sig vera í atlotum við manninn sinn, það hefði verið trúlegra ef hann hefði verið á staðnum. Hann kvaðst ekki trúa því að fólk sem sýnir viðbrögð eins og brotaþoli gerði sé sofandi. Ákærði kvaðst ekki hafa áttað sig á viðbrögðum brotaþola þegar D kom inn og réðst að honum, enda hafi hann verið í sjokki.
Ákærði kom aftur fyrir dóminn eftir að vitnið A hafði gefið skýrslu og kvaðst þá aðspurður ekki hafa hitt hana í reiðtúr fyrr þennan dag enda hafi hann ekki verið þar. Þá kvaðst hann ekki hafa verið tregur til að yfirgefa herbergi stúlknanna heldur hafi hann hrökklast þaðan út undan hrópum og spörkum.
Vitnið A, brotaþoli í máli þessu, kvaðst hafa lagt af stað norður til B ásamt vinkonum sínum um klukkan níu þennan morgun og verið komin þangað um hádegið þar sem hún hafi snætt hádegisverð. Eftir það hafi þeim verið ekið í réttir og þær farið í reiðtúr. Ákærði hafi verið starfsmaður B og verið með í reiðtúrnum og þá hafi hún spjallað við hann. Hún kvaðst hafa opnað einn bjór á leiðinni norður og drukkið áfengi allan daginn. Um kvöldmatarleytið hafi drykkjan aukist og þegar hún var inni í herbergi að blanda sér í glas hafi ákærði komið þar inn um dyrnar að eldhúsinu og spjallað við hana. Hún kvaðst hafa verið óhress með að ákærði kæmist með þessum hætti inn í herbergið og hún hafi athugað hvort ekki væri hægt að læsa hurðinni. Hún hafi nefnt þetta við vinkonur sínar sem hafi lítið gert úr þessu. Fljótlega eftir að ákærði kom inn í herbergið hafi G komið inn og hinar stelpurnar skömmu síðar að hún telur. Hún og ákærði hafi verið ein í herberginu í u.þ.b. fimm mínútur og þau þá setið á rúmi hennar og spjallað. Nánar aðspurð um þetta bar vitnið að þetta kunni að hafa verið fyrir kvöldmat. Hún kvaðst ekki muna eftir því að ákærði hafi í tvígang komið inn í herbergi þeirra. Vitnið bar að fyrir utan þetta hafi ekki verið samdráttur milli hennar og ákærða en hann hafi sótt í að spjalla við hana og einu sinni hafi þau staðið fyrir utan skemmuna og spjallað en á þeim tíma hafi ákærði verið að reykja. Að sögn vitnisins var alls enginn samdráttur á milli þeirra. Henni hafi þó þótt sem ákærði veitti henni eftirtekt. Um kvöldið hafi hún fundið til verulegra áfengisáhrifa og fyrir miðnætti hafi hún verið orðin það drukkin að hún þurfti að fara að sofa. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hversu mikið áfengi hún drakk þennan dag en hún hafi verið orðin mjög ölvuð. Á þeim tíma hafi hún ekki fundið D sem var með lykil að herberginu og hún hafi þá fengið starfsstúlku til að opna fyrir sig. Á hvaða tíma þetta var geti hún ekki sagt til um en taldi að þetta hafi verið fyrir miðnætti. Hún kvaðst muna eftir því að hafa beðið stúlkuna um að læsa herberginu, en hvort hún gerði það viti hún ekki. Hún kvaðst hafa háttað sig í náttföt, náttbuxur og bol, og síðan hringt í kærasta sinn eftir að hún var komin upp í rúm. Hún hafi talað um að hún væri orðin „blindfull“ og væri komin inn í herbergi og farin að sofa. Hann hafi sagt henni að halda áfram að skemmta sér en hún hafi sagt að hún gæti ekki meir. Hún kvaðst hafa séð á síma sínum að hún hafi hringt í manninn sinn tvisvar til þrisvar sinnum á skömmum tíma en samtal þeirra hafi staðið í 20 mínútur eða svo en hvað þeim fór á milli muni hún ekki. Hún kvaðst þó muna eftir því að maðurinn hennar hafi sagt að það væri erfitt að skilja hana. Eftir þetta hafi hún sofnað. Það næsta sem hún muni er að hana dreymir að maðurinn hennar sé kominn. Hún kvaðst muna eftir því að hafa fundið fyrir einhverjum atlotum en man ekki til þess að hafa verið færð úr fötunum. Hún hafi sagt eitthvað á þá leið: „Ertu komin ástin mín?“ og að hún væri glöð að sjá hann. Hvort hana dreymdi þetta eða hvort hún sagði þetta upphátt viti hún ekki en hún kvaðst gera sér grein fyrir því að maðurinn hennar var á Selfossi þar sem hann var að skemmta sér. Því séu líkurnar á því að hann hafi verið kominn á staðinn engar. Hún bar að henni hafi fundist þetta allt vera draumur. Síðan heyri hún herbergisfélaga sinn koma inn og hún spyrji hvað sé að gerast undir sænginni hennar. Hún vakni síðan við það að sængin er rifin af henni og þá sjái hún framan í ákærða og æpi upp: „Ert þetta þú?“ Þá hafi hún áttað sig á því hvað var að gerast. Að sögn vitnisins var einhver týra sem kom innan úr eldhúsinu en ljósin hafi verið slökkt. Þegar hún vaknaði hafi hún ekki lengur verið í náttbuxunum en hún hafi verið í bolnum. Hún mundi ekki með hvaða hætti hún fór úr náttbuxunum. Hún sagðist ekki muna eftir samförunum sjálfum, henni hafi þótt sem þetta væri draumur en hún mundi til þess að hún var snert. Meira muni hún ekki og þá ekki hvort hún tók þátt í samförunum. Ákærði hafi hins vegar verið nakinn.
Þegar D kom að þeim hafi D kallað: „Hver er þarna hvað er að gerast“, D hafi rifið upp sængina og séð hver þetta var og framan í hana. Síðan hafi D byrjað að berja í ákærða og rekið hann út, öskrað hátt á hann: „Komdu þér út“. Sjálf muni hún að ákærði var tregur til að fara út en hvers vegna viti hún ekki en hann hafi gefið sér tíma til að fara í fötin. Önnur stúlka, E, sem svaf innst í herberginu, hafi þá farið fram og rætt við hótelstjórann og sagt honum frá því sem gerst hafði. Eftir þetta hafi ákærði komið aftur inn í herbergið og þá um dyrnar að matsalnum í þeim tilgangi að ná í símann sinn sem hann hafði komið fyrir undir kodda hennar.
Brotaþoli kvaðst ekki hafa fundið fyrir ákærða inni í sér en hún hafi fundið að það var komið við hana, hún hafi fundið eitthvað en hún viti þetta ekki nákvæmlega. Það eina sem hún viti er að hún vaknaði nakin að neðan með karlmann ofan á sér og hún viti að hún hafi ekki boðið honum upp í til sín og alls ekki í herbergi þar sem vinkonur hennar sváfu einnig.
Eftir að ákærði var farinn hafi hún „bara verið frosin“ en hún muni að E var þá vöknuð og hún og D hafi verið hjá henni en G hafi sofið allan tímann. Þær hafi rætt þetta eitthvað og hún hafi sagt við þær að þær skyldu bara gleyma þessu en þetta hafi bara verið vondur draumur. Eftir smástund hafi hún áttað sig á að þetta var nauðgun og daginn eftir hafi hún verið frosin og tóm og þá ákveðið að kæra. Hún hafi í fyrstu ætlað sér að harka þetta af sér en hún hafi ekki viljað eyðileggja daginn fyrir hinum stelpunum. Í morgunverðinum hafi henni þótt sem allir væru að horfa á hana en eftir morgunmat hafi hún ákveðið að segja G frá þessu. Hún hafi síðan hringt í manninn sinn og eftir það í neyðarnúmerið 112 til að fá upplýsingar um það hvað hún ætti að gera.
Frá því að atvik þetta átti sér stað hafi líf hennar verið rússíbani og henni þótt sem allir væru á móti henni, allir væru að fylgjast með henni og þá hafi samband hennar við manninn sinn hangið á bláþræði. Í raun hafi henni þótt sem allt sem sagt var við hana væri sagt á neikvæðan hátt og til þess gert að meiða hana, sem ekki hafi verið raunin. Í dag þyki henni erfitt að skemmta sér án þess að maðurinn hennar sé með og hún eigi erfitt með að vera þar sem mikið er af fólki.
Vitnið H, sambýlismaður brotaþola, greindi frá því að brotaþoli hafi hringt í hann umrætt kvöld á milli klukkan 23:00 og 24:00 en hann hafi þá verið heima hjá sér. Hann hafi ekki heyrt neinn hávaða í kringum brotaþola en hún hafi sagt honum að hún væri ein í herberginu. Að sögn vitnisins heyrði hann greinilega að brotaþoli hafði neytt áfengis og að það hafi verið gaman hjá henni en hún aðeins orðin þreytt. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hve mikil áfengisáhrif brotaþola voru. Vitnið mundi ekki hvort brotaþoli hafi sagt honum frá því að hún væri að fara að sofa eða hvort hún ætlaði að skemmta sér áfram. Daginn eftir hafi brotaþoli hringt í hann, niðurbrotin, og greint honum frá því sem gerst hafði og beðið hann um að koma að sækja sig, sem hann hafi gert. Að sögn vitnisins hefur brotaþola liðið mjög illa eftir þetta atvik sem m.a. hafi lýst sér í vondum kvíðaköstum.
Vitnið G kvaðst í fyrsta sinn hafa hitt ákærða í herberginu, sem hún og vinkonur hennar höfðu til afnota, fljótlega eftir kvöldmat þetta kvöld. Ákærði og brotaþoli hafi þá verið ein í herberginu og hann á rúmi brotaþola og spjallað við hana. Vitnið kvaðst hafa farið á skemmtun í reiðhöllinni og þar hafi hún séð ákærða og brotaþola á spjalli við innganginn. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið eftir því að ákærði og brotaþoli hafi verið að draga sig saman um kvöldið. Fyrir henni hafi ákærði eingöngu verið fullorðinn maður að skemmta sér með öðru fólki. Vitnið greindi frá því að þegar líða tók á kvöldið hafi hún tekið eftir því að brotaþoli var ekki inni í reiðhöllinni. Hún hafi fengið D, sem var með lykilinn að herbergi þeirra, til að athuga hvort brotaþoli væri farin á gistiheimilið. Þegar þær komu inn í herbergi þeirra hafi brotaþoli setið á rúmi sínu og verið komin í náttföt en hvort hún var að taka augnmálningu af sér með bómull mundi hún ekki. Hún hafi sagt við þær að hún hafi verið orðin svo ölvuð að hún hafi ákveðið að fara að sofa. Hún og D hafi þá ákveðið að fara aftur í reiðhöllina og verið þar í 30 til 40 mínútur en að þeim tíma liðnum hafi þær og E allar ákveðið að fara að sofa. Þegar þær komu aftur í herbergið hafi brotaþoli verið þar steinsofandi. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir því að brotaþoli var þá í náttbuxum en sængin hafi ekki verið alveg yfir henni. Þær hafi kveikt ljósið í herberginu og spjallað aðeins og hlegið „svona pínu læti í okkur“ eins og vitnið komst að orði. Brotaþoli hafi sofið þetta allt af sér og ekki rumskað við komu þeirra. Í framhaldi af þessu hafi þær farið að sofa nema D sem hafi ætlað að taka af sér málninguna. Vitnið kvaðst eftir þetta hafa lagst í rúmið sitt, sett í sig eyrnatappa og sofnað og ekki vaknað aftur fyrr en næsta morgun. Vitnið taldi að brotaþoli hafi verið undir áhrifum áfengis líkt og hún sjálf en þær hefðu neytt áfengis allan daginn. Sjálf hafi hún verið orðin þreytt og gerði ráð fyrir að brotaþoli hafi verið það líka. Nánar aðspurð um áfengisneyslu og áfengisáhrif á brotaþola svaraði vitnið því til að hún hefði þekkt brotaþola í 11 ár og hún hafi aldrei séð hana það ölvaða að hún væri dettandi og viti ekki hvað hún geri.
Vitnið E, mágkona vitnisins I, staðarhaldara að B, kvaðst þekkja ákærða sem hún hafi hitt um kvöldmatarleytið umræddan dag. Hún hafi hitt hann í forstofunni á B og hún hafi sagt við hann að hún ætlaði að kynna hann fyrir vinkonum sínum og þau farið saman inn í herbergið sem þær höfðu til umráða. Þar hafi hann spjallað við þær vinkonur einhverja stund en hún síðan farið og fengið sér kvöldmat. Eftir kvöldmatinn hafi hún farið á skemmtunina í reiðskemmunni. Að sögn vitnisins var hún lítið með brotaþola þennan dag en þær hafi hist einstaka sinnum og bar vitnið að hún hafi, eins og þær vinkonur allar, verið „á sneplunum“. Aðspurt kvaðst vitnið ekki hafa tekið eftir því að einhver samdráttur væri á milli ákærða og brotaþola, sem hún þekki lítið, en hún hafi séð þau fara saman út að reykja. Að sögn vitnisins var ákærði hress og kátur um kvöldið. Vitnið kvaðst hafa farið að sofa milli klukkan 23:00 og 00:30 en hún hafi hitt E og D sem hafi tjáð henni að brotaþoli væri farin að sofa og þær ákveðið að gera það líka. Vitnið kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort brotaþoli var þá í rúmi sínu og minntist þess ekki að brotþoli hafi rætt eitthvað við þær. Vitnið sagði að þær hefðu ekki kveikt öll ljósin í herberginu en hún hafi háttað sig og farið upp í rúm að sofa. Fljótlega eftir að þær voru komnar inn í herbergið hafi ljósin einfaldlega verið slökkt. Skömmu síðar hafi hún orðið vör við að einhver kom inn í herbergið og hún heyrði karlmannsrödd segja: „Eruð þið ekki hressar stelpur, eruð þið ekki á leiðinni á ballið?“ Hún hafi hugsað með sér að best væri að viðkomandi færi út. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort þetta hafi verið rödd ákærða. Hvort viðkomandi fór út úr herberginu viti hún ekki. Næst muni hún til þess að hafa heyrt kynlífsstunur og talið að ein vinkvenna hennar væri að fróa sér en þótt það hálf furðulegt en síðan hafi hún sofnað. Vitnið kvaðst ekki átta sig á því hve langur tími leið á milli þess að hún heyrði karlmannsröddina og þar til hún heyrði stunurnar. Vitnið kvaðst hafa vaknað þegar D var að reka ákærða út úr herberginu með hrópum og hún hafi kallað hann illum nöfnum og verið mjög reið. Á þessum tíma hafi ljósin verið kveikt og hún hafi séð ákærða hlaupa út en hann hafi komið inn aftur gegnum dyrnar að eldhúsinu og þá verið að leita að símanum sínum. D hafi enn verið reið og rekið hann aftur út en ákærði hafi fengið síma sinn. Vitnið kvað brotaþola hafa verið í sjokki og sagt að hún hafi haldið að þetta væri maðurinn sinn. Vitnið kvaðst hafa farið út úr herberginu og sagt vitninu I frá því sem gerst hafði. Þegar hún talaði við I hafi klukkan verið 00:30. Vitnið bar að daginn eftir hafi brotaþoli verið í sjokki.
Vitnið D kvaðst hafa hitt ákærða í fyrsta sinn umrætt kvöld en hann hafi þá setið á rúmi brotaþola og verið að spjalla við hana. Hvort þetta var fyrir eða eftir kvöldmat mundi hún ekki. Vitnið sagði brotaþola og ákærða hafa verið undir miklum áhrifum áfengis þetta kvöld. Vitnið kvaðst þó ekki hafa verið með brotaþola allt kvöldið og því hafi hún ekki fylgst með áfengisneyslu hennar en brotaþoli hafi þó ekki verið undir það miklum áhrifum áfengis að hún væri slagandi. Vitnið bar að hún hefði ekki orðið vör við að ákærði og brotaþoli væru eitthvað að draga sig saman. Sjálf kvaðst hún hafa drukkið áfengi en hún hafi ekki verið mikið drukkin. Vitnið greindi frá því að um kvöldið hafi brotaþoli verið komin inn á herbergi og í náttföt, náttbuxur og bol, þegar hún og G komu þar inn. Þær G hafi farið út aftur til að ná í E en brotaþoli hafi ætlað að fara að sofa. Þegar þær komu til baka hafi brotaþoli verið sofnuð, steinsofandi, og ekki rumskað þrátt fyrir að þær hafi kveikt ljósið, spjallað saman og verið með „svona læti“. Hún hafi síðan farið fram til að taka af sér málninguna og hringja eitt símtal en hina tvær hafi farið að sofa. Þegar hún kom aftur inn í herbergið, 30 til 40 mínútum síðar, hafi ljósin verið slökkt og þögn í herberginu. Hún hafi lagst í sitt rúm og þá heyrt „eitthvað brölt, einhver hljóð“ einhverjar stunur og því snúið sér við og séð bungu í rúmi brotaþola. Hún hafi þá staðið á fætur, kveikt ljósið og spurt hvað væri í gangi. Þá hafi hún séð ákærða og brugðið við það. Hún hafi þá tekið sængina af þeim en ákærði hafi legið ofan á brotaþola. Vitnið kvaðst þá hafa orðið mjög reið og rekið ákærða út úr herberginu. Brotaþoli hafi þá verið í sjokki og skelfingu lostin af reiði og hún hafi slegið ákærða. Vitnið kvaðst þá hafa áttað sig á að brotaþoli var ekki samþykk því sem ákærði var að gera. Aðspurð hvort brotaþoli hafi virst hissa á því sem var að gerast svaraði vitnið því til að hún hafi verið mjög hissa, hún hafi sest upp, horft í kringum sig og sagt: „Ég hélt að þetta væri maðurinn minn.“ Ákærði hafi hins vegar verið lengi að koma sér út og hún því tekið í hann, slegið til hans, sparkað í hann og hent honum út. Aðspurð um viðbrögð ákærða svaraði vitnið því þannig: „Hann bara fór í svona keng svona og svo öskraði hann bara á mig að ég væri rugluð“. Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hvort brotaþoli var með augun opin þegar hún tók af þeim sængina. Á þessum tíma hafi brotaþoli ekki verið lengur í náttbuxum. Stuttu síðar hafi ákærði komið aftur inn í herbergið í gegnum dyrnar að eldhúsinu og beðið um símann sinn. Hún hafi varnað honum inngöngu en brotaþoli hafi fundið símann og rétt ákærða.
Vitnið I, staðarhaldari á B, kvaðst hafa verið á staðnum þessa helgi og hann hafi hitt ákærða þetta kvöld. Ákærði, sem hann þekki, hafi verið ölvaður líkt og margir sem voru á staðnum en ákærði hafi ekki skorið sig úr hvað ölvunarástand varðar. Vitnið kvaðst ekki hafa tekið neitt sérstaklega eftir brotaþola þetta kvöld og því geti hann ekkert sagt til um ástand hennar en hann hafi séð ákærða hjá henni og vinkonum hennar. Að sögn vitnisins lauk skemmtuninni um miðnætti og hann hafi verið kominn inn á gistihúsið um hálftíma síðar. Um það leyti hafi hann hitt vitnið E, sem sé mágkona hans, og hún hafi sagt honum að einhvers konar kynlífsathöfn hefði farið fram en hann hafi engar ályktanir dregið af því. Hún hafi sagt honum að stúlkurnar hefðu hent ákærða út. Hann hafi sagt henni að þær yrðu að gera það sem þær teldu að gera þyrfti. Vitnið kvaðst hafa hitt brotaþola daginn eftir þegar hún var að taka dótið sitt og gera upp herbergið og hún hafi þá verið niðurdregin en hann taldi að ef hann hefði engar upplýsingar haft þá hefði hann ekki séð neitt athugavert við hana. Hann kvaðst hafa verið á staðnum allan daginn og vaktað herbergið að ósk lögreglu. Að sögn vitnisins kom ákærði ekki að reiðtúr sem farinn var á föstudeginum þessa helgi.
Vitnið J var við störf á B umrætt kvöld. Vitnið kvaðst ekki muna sérstaklega eftir brotaþola þetta kvöld en hana minnti þó að brotaþoli hafi beðið hana um vatn að drekka. Vitnið kvaðst ráma í að hafa opnað herbergi brotaþola fyrir henni og hún telur að brotaþoli hafi þá verið undir áhrifum áfengis en hún hafi verið þvoglumælt. Á þessum tíma hafi enginn verið í matsalnum en opið hafi verið inn í eldhúsið. Vitnið kvaðst ekki muna hvort brotaþoli hafi beðið hana um að læsa herberginu en venjan sé sú að ef starfsfólk er beðið um að opna herbergi þá sé það gert, en ekki læst. Nánar aðspurð um þetta eftir að henni hafði verið kynntur framburður hennar hjá lögreglu bar vitnið að hún hafi spurt brotaþola hvort hún ætlaði ekki að læsa en brotaþoli svarað því til að þess þyrfti ekki þar sem vinkonur hennar væru á leiðinni. Vitnið taldi að hún hefði ekki séð ákærða á þessum tíma en töluverður umgangur fólks hafi verið frammi á ganginum vegna þess að salerni í reiðskemmunni biluðu. Vitnið kvaðst ekki geta sagt til um hvort ákærði var undir áhrifum áfengis en hún hafi séð hann þetta kvöld. Vitnið greindi frá því að hún teldi að frágangi í eldhúsi hafi lokið um miðnætti og að því loknu hafi hún hjálpað til við frágang í reiðskemmunni.
Vitnið K var við störf á B umrætt kvöld. Hún kvaðst hafa komið til vinnu milli klukkan 16:00 og 17:00. Hún hafi afgreitt í matsal um kvöldið en farið út í reiðskemmu um kl. 22:00. Vitnið kvaðst þekkja ákærða sem hún hafi séð í kvöldverðinum og þegar hann kom inn í reiðskemmuna. Taldi vitnið að hann hafi verið „frekar mikið“ undir áhrifum áfengis. Vitnið kvaðst hafa tekið eftir konunum sem gistu saman í herbergi, bæði í kvöldverðinum og síðar um kvöldið, en hvort ákærði átti einhver samskipti við þær viti hún ekki. Vitnið kvaðst hafa farið til síns heima laust eftir miðnætti og þá hafi frágangi í reiðskemmunni verið lokið. Að sögn vitnisins greindi vitnið L henni frá því að hún hafi fundið ákærða inni í matsal skömmu áður en hann hélt til síns heima.
Vitnið L var vaktstjóri í reiðhöllinni umrætt kvöld. Hún kvaðst þekkja ákærða og kvað hann hafa verið mikið drukkinn um kvöldið. Hún kvaðst þekkja þrjár þeirra kvenna sem gistu saman í herbergi en brotaþola hafi hún ekki séð áður. Vitnið kvaðst lítið hafa orðið vör við brotaþola þetta kvöld og ekki geta sagt til um ölvunarástand hennar. Þá kvaðst hún ekki muna til þess að hafa séð brotaþola og ákærða saman þetta kvöld. Hún kvað ákærða hafa ætlað að fá far með henni heim og af þeim sökum hafi hún leitað að honum og að endingu hafi hann komið úr matsalnum inn í eldhús. Á þessum tíma hafi tvennar af fernum dyrum inn í matsalinn verið læstar og því eingöngu hægt að komast þangað í gegnum eldhúsið eða úr herberginu sem brotaþoli gisti í. Vitninu þótti sem ákærði hefði komið úr þeirri átt, þ.e. eins og hann væri að koma úr herberginu. Á þessum tíma hafi ákærði verið undir áhrifum áfengis.
Vitnið C kvensjúkdómalæknir kvaðst hafa hitt brotaþola um kl. 21:00 að kvöldi 5. október 2013. Vitnið kvaðst muna vel eftir þessu máli og hvernig brotaþoli lýsti því sem gerst hafði. Vitnið kvaðst hafa upplifað frásögn hennar mjög trúverðuga en hann hafi ekki haft ástæðu til að halda að frásögnin væri ekki rétt. Brotaþoli hafi verið döpur og þreytt eins og fram komi í skýrslu hans. Vitnið kvaðst hafa merkt við í viðeigandi reiti í skýrslu sinni en tekur fram að einn kross eigi að vera línu neðar. Vitnið bar að hann haki við á viðeigandi staði í skýrslunni eftir upplifun sinni á viðtali við brotaþola. Hún hafi því verið skýr, fjarræn, dofin, muni lítið, með grátköst, í hnipri og að henni hafi staðið hrollur. Vitnið taldi að brotaþoli hafi ekki vitað hvað var að gerast fyrr en hún var vakin. Það skýri að hann merkti við í skýrslu sinni í reitinn „veit ekki“ við mörgum spurningum sem lagðar voru fyrir brotaþola. Að lokum staðfesti vitnið skýrslu sína.
Vitnið M hjúkrunarfræðingur kvaðst hafa tekið á móti brotaþola á neyðarmóttöku um kl. 18:40 umræddan dag og beðið með henni þar til læknisskoðun hófst og þá hafi hún verið viðstödd læknisskoðunina. Þegar hún hitti brotaþola hafi hún verið miður sín, hálfdofin, fjarræn, lítil í sér, kalt, föl, þreytt og ósofin. Vitnið kvaðst staðfesta það sem fram kemur í skýrslu vitnisins C.
Vitnið N, hjúkrunar- og kynfræðingur, greindi frá því að brotaþola hafi verið vísað til sálfræðiþjónustu Neyðarmóttöku LSH þar sem hún starfi. Vitnið kvaðst hafa fengið þjálfun og menntun til viðbótar við hjúkrunarmenntun sína til að fást við mál af þessum toga. Að sögn vitnisins hitti hún brotaþola þrisvar sinnum og að hennar mati var brotaþoli samkvæm sjálfri sér í viðtölunum. Vitnið kvaðst hafa lagt próf fyrir brotaþola sem hafi sýnt að hún var með almenn einkenni áfallastreituröskunar en einkennin hafi minnkað með tímanum sem bendi til að brotaþola gangi vel að vinna úr áfallinu og hafi ekki þörf fyrir frekari viðtöl hjá vitninu. Vitnið staðfesti vottorð sem hún gerði og liggur frammi í málinu.
IV
Niðurstaða
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa að kvöldi föstudagsins 4. október 2013 haft samræði við brotaþola, A, gegn vilja hennar, og við það notfært sér að hún gat ekki spornað við samræðinu sökum ölvunar og svefndrunga. Í ákæru er brotið talið varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði viðurkennir að hafa haft samræði við brotaþola í umrætt sinn en ber því við að hún hafi verið vakandi og samfarirnar farið fram með fullum vilja og samþykki hennar. Brotaþoli kveðst hins vegar hafa verið sofandi en vaknað við það að vinkona hennar tók af þeim sængina og þá áttað sig á að ákærði var að hafa við hana samfarir.
Ákæruvaldið reisir kröfu sína um sakfellingu á framburði brotaþola sem að mati ákæruvaldsins hefur verið staðfastur og trúverðugur, auk þess sem hann fær stoð í framburði annarra vitna og rannsóknargögnum málsins. Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á því að leggja verði hans eigin framburð um málsatvik til grundvallar við úrlausn málsins. Að mati ákærða hefur ákæruvaldinu ekki tekist að færa fram lögfulla sönnun fyrir sekt hans.
Ákærði hefur frá upphafi rannsóknar málsins neitað sök. Hann bar í öllum aðalatriðum á sama veg hjá lögreglu og hér fyrir dómi þannig að ekki er teljandi ósamræmi í framburði hans. Að mati dómsins er framburður hans trúverðugur.
Brotaþoli hefur líkt og ákærði verið staðföst í framburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi og er óverulegt ósamræmi í framburði hennar og er það mat dómsins að framburður brotaþola sé trúverðugur.
Af framburði vitna fyrir dóminum má ráða að brotaþoli fór af skemmtuninni á B milli klukkan 23:00 og 24:00 umrætt kvöld. Hún fór á gistiheimilið þar sem starfsstúlka opnaði fyrir henni herbergið sem hún hafði til afnota ásamt þremur öðrum konum. Stuttu síðar komu tvær kvennanna inn í herbergið og þá var brotaþoli vakandi en komin í náttföt og sagðist ætla að fara að sofa. Ráða má að um hálftíma síðar hafi konurnar sem deildu herbergi með brotaþola allar komið í herbergið og að á þeim tíma hafi brotaþoli verið sofandi og ekki vaknað þrátt fyrir að þær hafi kveikt ljósið í herberginu og spjallað eitthvað saman. Vitnin E og G lögðust í sín rúm en vitnið D fór út úr herberginu en kom þangað aftur að liðnum 30 til 40 mínútum. Hún lagðist til hvílu en varð þá vör við hljóð sem kom frá rúmi brotaþola. Hún reis þá á fætur og sá ákærða, tók ofan af honum sængina og rak hann á dyr. Við þetta vaknaði vitnið E sem fór fram og greindi vitninu I, staðarhaldara á B, frá því sem gerst hafði en á þeim tíma var klukkan nálægt hálfeitt eftir miðnætti. Af þessu má ráða að ákærði hefur komið inn í herbergið eftir að vitnin E og G fóru að sofa og eftir að vitnið D fór út úr herberginu og hefur hann því ekki verið þar inni í þetta sinn lengur en í hálfa klukkustund eða svo.
Brotaþoli gaf blóð- og þvagsýni klukkan 13:59 og 14:00 næsta dag eða um 13 til 14 klukkustundum eftir atvikið en við rannsókn á þessum sýnum fannst ekkert alkóhól. Er því enga vísbendingu að fá um alkóhólmagn í blóði brotaþola á þeim tíma sem ætlað brot átti sér stað. Af framburði vitna má ráða að brotaþoli var undir áhrifum áfengis en ógerlegt er að átta sig á hversu mikil þau áhrif voru. Vitni báru hins vegar ekki að hún hafi verið við það að sofna ölvunarsvefni og lýstu því ekki að hún hafi verið reikul í spori vegna áfengisneyslu. Áður en brotaþoli lagðist til svefns fór hún í náttföt og hringdi í unnusta sinn, vitnið H. Hann bar að brotaþoli hafi verið ein í herberginu og kvað hann greinilegt að brotaþoli hefði neytt áfengis en gat ekki sagt til um hversu miklum áfengisáhrifum hún var undir.
Að framan er rakið að ákærði kvaðst hafa komið inn í herbergið, en þar hafi verið rökkur, og sest á rúmið hjá brotaþola og hann ekki séð betur en að hún væri vakandi. Þau hafi hvíslast eitthvað á og síðan strokið hvort öðru og kysst. Síðan hafi eitt leitt af öðru og þau haft samfarir af fúsum og frjálsum vilja og með samþykki beggja. Brotaþoli hefur hins vegar borið á þann veg að hún hafi verið sofandi, dreymt að maðurinn hennar væri kominn og hún hafi fundið fyrir einhverjum atlotum. Hún bar að annaðhvort hafi hún sagt eitthvað á þá leið: „Ertu komin ástin mín?“ eða þá að hana hafi dreymt að hún hefði sagt þetta. Hún kvaðst vita það eitt að hún hafi vaknað nakin að neðan með karlmann ofan á sér og hún viti að hún hafi ekki boðið honum upp í til sín og alls ekki í herbergi þar sem vinkonur hennar sváfu einnig. Hún hafi síðan vaknað við að vitnið D reif af henni sængina og þá hafi hún hrópað: „Ert þetta þú?“ Á þeim tíma hafi hún áttað sig á því hvað var að gerast.
Ákærði kvaðst fyrir dóminum ekki geta skýrt út í hvaða tilgangi hann fór inn í herbergið sem brotaþoli gisti í. Vitnið E bar að hún hafi, eftir að hún var lögst til hvílu, heyrt einhvern koma inn í herbergið og karlmannsrödd segja: „Eruð þið ekki hressar stelpur, eruð þið ekki á leiðinni á ballið?“ og verður að telja afar líklegt að þar hafi ákærði verið á ferð. Ákærði hafi síðan, eins og hann hefur lýst, sest á rúmið hjá brotaþola. Þetta bendir ekki til þess að hann hafi komið inn í herbergið með þann ásetning að notfæra sér ölvun eða svefndrunga brotaþola í kynferðislegum tilgangi.
Samkvæmt 18. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er verknaður, sem refsing er lögð við samkvæmt lögunum, ekki saknæmur nema hann sé unninn af ásetningi eða gáleysi. Fyrir gáleysisbrot skal því aðeins refsa, að sérstök heimild sé til þess í lögunum. Ekki er heimilt að refsa fyrir gáleysisbrot gegn 194. gr. laganna. Samkvæmt þessu þarf ákæruvaldið að færa fram lögfulla sönnun fyrir því að ákærði hafi framið brot það sem honum er gefið að sök af ásetningi. Áður er rakið hvernig ákærði og brotaþoli lýstu því hvernig það kom til að þau höfðu samfarir. Brotaþoli taldi sig dreyma að maður hennar væri kominn til hennar en ákærði bar að brotaþoli hafi tekið fullan þátt í samförunum sem samkvæmt framburði þeirra kann hvorutveggja að vera rétt. Hvað þetta varðar má horfa til þess að vitnið E heyrði kynlífsstunur sem hún taldi koma frá konu en það bendir til þess að brotaþoli hafi tekið þátt í samræðinu en vel kann að vera að það hafi verið vegna þess að hana dreymdi að maður hennar væri kominn til hennar. Það leiðir hins vegar til þess að ákærða gat ekki verið ljóst að brotaþoli var andsnúin atlotum hans. Að mati dómsins telst því ósannað, gegn staðfastri neitun ákærða, að hann hafi af ásetningi notfært sér ölvun og svefndrunga brotaþola og gegn vilja hennar haft við hana samræði og ber því að sýkna hann af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Framburður vitna og skýrslur sérfræðinga fá þessari niðurstöðu ekki breytt.
Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 skal allur sakarkostnaður greiðast úr ríkissjóði þar með talin 700.000 króna þóknun verjanda ákærða, Bjarna Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns auk 90.000 króna kostnaðar vegna aksturs, svo og 300.000 króna þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns. Þóknanir innifela virðisaukaskatt.
Að fenginni þessari niðurstöðu ber með vísan til 176. gr. laga um meðferð sakamála að vísa einkaréttarkröfu A frá dómi.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari er ósammála niðurstöðu meirihluta dómsins og telur fram komna lögfulla sönnun fyrir sekt ákærða. Telur hún að ákærða hafi, með hliðsjón af kringumstæðum í málinu, hlotið að vera ljóst að samþykki brotaþola til samræðis við hann hafi ekki legið fyrir og að ákærði hafi með því notfært sér að brotaþoli gat ekki spornað við samræðinu vegna ölvunar- og svefndrunga. Því beri að sakfella hann fyrir brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga og gera honum refsingu. Að þessari niðurstöðu fenginni beri að dæma hann til að greiða brotaþola miskabætur.
Af hálfu ákæruvalds sótti málið Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.
Halldór Halldórsson, Bogi Hjálmtýsson og Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómarar kveða upp dóm þennan að gættum ákvæðum 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála.
Dómsorð
Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur sakarkostnaður, þar með talin 700.000 króna þóknun Bjarna Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns, auk 90.000 króna aksturskostnaðar og 300.000 króna þóknun réttargæslumanns brotaþola Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði.
Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.