Hæstiréttur íslands
Mál nr. 398/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Skuldabréf
- Aðild
|
|
Miðvikudaginn 12. október 2011. |
|
Nr. 398/2011.
|
Eyrir Invest ehf. (Gunnar Sturluson hrl.) gegn Kaupþingi banka hf. og (Stefán A. Svensson hrl.) Deutsche Bank Trust Company Americas (Eyvindur Sveinn Sólnes hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Skuldabréf. Aðild.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu, sem E ehf. hafði lýst við slit K hf. Málsatvik voru þau að K hf. gaf út skuldabréf í október 2006 til bandarísks félags, með gjalddaga í janúar 2010, í tengslum við skuldabréfaútboð hins fyrrnefnda. D var falið í þágu eiganda skuldabréfanna að taka við greiðslum og leita eftir atvikum fullnustu á kröfunum samkvæmt þeim. E ehf. keypti hlut í skuldabréfinu í apríl 2008. K hf. var sett skilanefnd áður en að gjalddaga bréfsins kom. Við slit K hf. lýsti D kröfu um greiðslu vegna skuldar samkvæmt skuldabréfinu í heild, en E ehf. lýsti einnig kröfu vegna hlutdeildar sinnar í bréfinu. Við slit K hf. var krafa D samþykkt í meginatriðum, en kröfu E ehf. hafnað. Ágreiningi um þessa afstöðu slitastjórnar var vísað til héraðsdóms. Talið var að D hefði verið rétt að hafa uppi kröfu samkvæmt skuldabréfinu en að E ehf. brysti heimild til að gera kröfu á grundvelli þess fyrir sitt leyti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Eiríkur Tómasson, Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. júní 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2011, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu, sem sóknaraðili hafði lýst við slit varnaraðilans Kaupþings banka hf. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa, sem varnaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas lýsti við slit varnaraðilans Kaupþings banka hf. á grundvelli skuldabréfs með auðkenninu ISIN nr. US48632FAC59, verði hafnað að því marki sem hún fari í bága við lýsta kröfu sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðilinn Kaupþing banki hf. kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 30. júní 2011. Hann krefst þess aðallega að framangreindri dómkröfu sóknaraðila verði hafnað, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur um annað en málskostnað. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 1. júlí 2011. Hann krefst þess aðallega að hafnað verði dómkröfu sóknaraðila, en staðfest ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað sér til handa. Til vara krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var mál þetta munnlega flutt 6. október 2011.
Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til þess að varnaraðilinn Kaupþing banki hf. gaf út skuldabréf 4. október 2006 til bandarísks félags með heitinu Cede & Co. að fjárhæð 679.250.000 bandaríkjadalir og var það auðkennt ISIN nr. US48632FAC59. Þessi ráðstöfun var liður í útboði varnaraðilans á skuldabréfum að fjárhæð samtals 10.000.000.000 bandaríkjadalir, sem reist var á útgáfulýsingu 27. mars 2006 ásamt viðauka 21. september sama ár, svo og samningum hans við varnaraðilann Deutsche Bank Trust Company Americas annars vegar frá 12. apríl 2006, sem tók til allra skuldabréfanna, og hins vegar 4. október sama ár um útgáfu skuldabréfa að fjárhæð samtals 1.000.000.000 bandaríkjadalir í flokki með heitinu „Series C Senior Floating Rate Notes Due 2010“, en til þess flokks heyrði fyrrnefnt skuldabréf að fjárhæð 679.250.000 bandaríkjadalir. Samkvæmt þessum gögnum kom varnaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas fram í viðskiptunum sem svokallaður „trustee“, sem meðal annars er nefndur vörsluaðili í framlögðum þýðingum, en honum var á þeim grunni meðal annars falið í þágu eiganda skuldabréfanna að taka við greiðslum og leita eftir atvikum fullnustu á kröfum samkvæmt bréfunum. Varnaraðilinn Kaupþing banki hf. kveðst hafa selt öll skuldabréfin, sem fyrrgreint útboð tók til, jafnharðan og þau voru gefin út, en fjögur nafngreind erlend fjármálafyrirtæki hafi boðið til sölu á verðbréfamarkaði hlutdeild í hverju skuldabréfi, sem eftir atvikum önnur fjármálafyrirtæki hafi miðlað enn frekar. Sóknaraðili keypti 9. apríl 2008 fyrir milligöngu varnaraðilans Kaupþings banka hf. hlut að nafnverði 10.000.000 bandaríkjadalir í skuldabréfinu með auðkenninu ISIN nr. US48632FAC59, en gjalddagi þess var 15. janúar 2010.
Áður en komið var að gjalddaga skuldabréfsins hafði Fjármálaeftirlitið 9. október 2008 neytt heimildar samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í varnaraðilanum Kaupþingi banka hf., víkja stjórn hans frá og setja yfir hann skilanefnd. Við slit varnaraðilans, sem þannig fóru í hönd, lýsti varnaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas meðal annars kröfu um greiðslu heildarskuldar samkvæmt skuldabréfinu ISIN nr. US48632FAC59 sem svokallaður vörsluaðili þess. Sóknaraðili lýsti einnig kröfu vegna hlutdeildar sinnar í sama skuldabréfi, en krafðist jafnframt að þeirri kröfu yrði skuldajafnað við tilteknar kröfur varnaraðilans Kaupþings banka hf. á hendur sér. Í skrá um lýstar kröfur við slit síðastnefnds varnaraðila samþykkti slitastjórn í meginatriðum kröfu varnaraðilans Deutsche Bank Trust Company Americas á grundvelli skuldabréfsins, en hafnaði á hinn bóginn kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili andmælti afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu sinnar og kröfu varnaraðilans Deutsche Bank Trust Company Americas, en sá síðarnefndi mótmælti jafnframt að fjárhæð kröfu hans yrði skert að tilteknu öðru leyti, svo sem slitastjórn hafði talið rétt að gera. Ekki tókst að leysa ágreining um þessi atriði og vísaði slitastjórn honum til Héraðsdóms Reykjavíkur 12. janúar 2011.
Þegar mál þetta var þingfest af framangreindu tilefni 17. janúar 2011 var ákveðið með stoð í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að skipta sakarefni þess á þann hátt að fyrst yrði eingöngu leyst úr því hvort varnaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas færi gagnvart öðrum málsaðilum einn með kröfu á grundvelli skuldabréfsins með auðkenninu ISIN nr. US48632FAC59, en að því búnu yrði eftir atvikum leyst úr ágreiningi um fjárhæð krafna. Að þessu gerðu krafðist sóknaraðili þess að kröfu varnaraðilans Deutsche Bank Trust Company Americas á grundvelli skuldabréfsins yrði hafnað að því leyti, sem hún færi í bága við kröfu sóknaraðila, sem reist væri á sama skuldabréfi. Varnaraðilar kröfðust á hinn bóginn að þessari kröfu sóknaraðila yrði hafnað.
Í hinum kærða úrskurði var tekin afstaða til málsástæðna aðilanna, sem fyrrgreindar kröfur þeirra voru reistar á, og komist að þeirri niðurstöðu að varnaraðilanum Deutsche Bank Trust Company Americas hafi verið rétt að hafa uppi kröfu við slit varnaraðilans Kaupþings banka hf. samkvæmt skuldabréfinu, sem áður er getið, en sóknaraðila brysti á hinn bóginn heimild til að gera kröfu á grundvelli þess fyrir sitt leyti. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á þá niðurstöðu. Þótt þessi niðurstaða málsins hafi í úrskurðarorði hins kærða úrskurðar ranglega verið dregin saman með þeim orðum að hafnað væri kröfunni, sem sóknaraðili hafi lýst við slit varnaraðilans Kaupþings banka hf., eru ekki efni til að ómerkja úrskurðinn, sem verður samkvæmt framansögðu staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Eyris Invest ehf., um að kröfu, sem varnaraðili Deutsche Bank Trust Company Americas lýsti við slit varnaraðila Kaupþings banka hf. á grundvelli skuldabréfs 4. október 2006 með auðkenninu ISIN nr. US48632FAC59, verði hafnað að því leyti, sem hún fari í bága við kröfu, sem sóknaraðili lýsti fyrir sitt leyti við slitin vegna hlutdeildar í sama skuldabréfi.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðili greiði hvorum varnaraðila 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2011.
Málsmeðferð, aðild, ágreiningsefni og kröfur
1. Mál þetta var þingfest 17. janúar 2011, en þá var lagt fram bréf slitastjórnar Kaupþings banka hf., dagsett 12. janúar sl., þar sem óskað var úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur vegna ágreinings um lýsta kröfu Deutsche Bank Trust Company Americas (hér skammstafað DBTCA) við slitameðferð bankans. Í bréfi slitastjórnar segir að kröfunni hafi verið lýst sem „heildarkröfu (e. global claim) vegna skuldabréfaútgáfu undir 144A Note Program vegna útgáfu með ISIN nr. US48632FAC59“. Í samræmi við skilmála útgáfunnar hafi kröfunni verið lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í kröfuskrá er krafan merkt sem krafa nr. 20091228-0259. Sjá má þar að fjárhæð lýstrar kröfu var 73.213.710.453 krónur. Að auki var þess krafist að 676.410.528 krónur yrðu viðurkenndar sem krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Slitastjórn Kaupþings banka hf. samþykkti kröfuna með breytingum, alls að fjárhæð 73.210.057.120 krónur, sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Fram kemur í áðurnefndu bréfi slitastjórnar að afstaða slitastjórnar hafi byggst á „skilmálum Senior Indenture og útgáfulýsingu (e. Offering Circular) „skuldabréfa“útboðsins en samkvæmt skýrum ákvæðum þeirra hefur DBTCA, sem Trustee, einn heimild til að lýsa kröfu gagnvart útgefanda. Í samræmi við það var kröfum einstakra aðila (e. beneficial owners) vegna sömu útgáfu hafnað“. Slitastjórn féllst ekki á áfallinn kostnað á kröfuna fyrir 22. apríl 2009, og mótmælti kröfuhafi þeirri afstöðu slitastjórnar.
Fjölmargir kröfuhafar mótmæltu afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfunni á kröfuhafafundum, og kröfðust þess að kröfur þeirra yrðu á sama hátt viðurkenndar sem almennar kröfur. Allir byggja á því að þeir eigi sjálfstæða kröfu á hendur Kaupþingi banka hf. á grundvelli skuldabréfa sem gefin hafi verið út af bankanum og falli undir skuldabréfaútgáfu með ISIN nr. US48632FAC59. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining um kröfuna, hvorki gagnvart DBTCA né öðrum kröfuhöfum sem mótmælt höfðu afstöðu slitastjórnar, var málinu vísað til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.
2. Við þingfestingu málsins ákvað dómari að sóknaraðilar skyldu vera þeir sem mótmælt hefðu afstöðu slitastjórnar Kaupþings banka hf. til viðurkenningar kröfu DBTCA, en að varnaraðilar skyldu vera DBTCA og slitastjórn Kaupþings banka hf. Upphaflega voru sóknaraðilar fleiri en þeir sem nú standa að málinu, en á síðari stigum hafa þeir fallið frá aðild sinni. Eftir standa þeir sem taldir eru upp hér að framan.
Krafa sóknaraðilans Eyris Invest ehf. er alls að fjárhæð 10.283.847,13 Bandaríkjadalir. Í kröfulýsingu fyrirtækisins 12. ágúst 2009 er krafan sögð byggjast á „skuldabréfi sem útgefið var af Kaupþingi að höfuðstólsfjárhæð USD 10.000.000 US dollarar tíu milljónir 00/100 en skuldabréfið var gefið út á grundvelli heildarútgáfuramma (e. Senior/Subordinated Medium-Term Note Program) að fjárhæð USD 10.000.000.000 með vísan til lýsingar (e. Offering Circular) dags. 27. mars 2006 (uppfært 21. september 2006) útgefið af skuldara“. Meðal sóknaraðilanna Arowgrass Master Fund Ltd. o.fl. eru svokallaðir „eiginlegir eigendur skuldabréfa“ (e. beneficial owners), útgefinna á grundvelli sömu skuldabréfaútgáfu, og lýstu þeir kröfum sínum á grundvelli þeirra eigna. Eins og áður segir hafnaði slitastjórn kröfum allra sóknaraðila og byggðist sú afstaða á því að aðeins DBTCA, sem „trustee“ skuldabréfaútgáfunnar (ýmist nefnt „fjárvörsluaðili“, „samningsvörsluaðili“ eða „umsýsluaðili“ í íslenskri þýðingu), væri heimilt að lýsa kröfum á grundvelli útgáfunnar. Þar sem DBTCA hefði lýst heildarkröfu á grundvelli skuldabréfaútgáfunnar væri óhjákvæmilegt að hafna öðrum kröfum, sem byggðust á sömu útgáfu, þ. á m. frá sóknaraðilum þessa máls.
Fram kemur í gögnum málsins að sóknaraðilarnir Arowgrass Master Fund Ltd. o.fl. séu hópur alþjóðlegra fjármálafyrirtækja sem séu eigendur verðbréfa, útgefinna af Kaupþingi banka hf., en komi fram fyrir hönd stærri hóps kröfuhafa, sem allir hafi andmælt afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu DBTCA. Niðurstaða málsins sé hins vegar bindandi fyrir þá alla.
3. Að ósk aðila og með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, féllst dómari á að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði aðeins fjallað um það álitaefni hvort hafna bæri heildarkröfu DBTCA, að því marki sem hún færi í bága við kröfu sóknaraðila, en að ágreiningur um fjárhæð kröfunnar yrði látinn hvíla á meðan. Í kjölfar þessa ákváðu sóknaraðilarnir Arrowgrass Master Fund Ltd. o.fl. að gera engar dómkröfur í þessum þætti málsins. Af sama tilefni var bókað í þinghaldi 4. maí sl. að sóknaraðilinn Eyrir Invest ehf. og varnaraðilinn DBTCA féllu að svo stöddu frá kröfum sínum um viðurkenningu fjárhæða krafna sinna. Við munnlegan flutning málsins kváðust varnaraðilar engar kröfur gera á hendur Arrowgrass Master Fund Ltd. o.fl.
4. Í samræmi við ofanritað krefst sóknaraðilinn Eyrir Invest ehf. þess að heildarkröfu DBTCA á hendur varnaraðilanum Kaupþingi banka hf., sem grundvallast á skuldabréfinu „Series C Global Note“ með ISIN nr. US48632FAC59, útgefnu samkvæmt skilmálum Senior Indenture USD 10.000.000.000 MTN-skuldabréfaútgáfunnar (e. Senior/Subordinated Medium Term Note Program), verði hafnað, að því marki sem hún fari í bága við kröfu sóknaraðila nr. 20090922-0033 í kröfuskrá Kaupþings banka hf. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Varnaraðilinn DBTCA krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðilans Eyris Invest ehf. og að sóknaraðilanum verði gert að greiða honum málskostnað, að mati dómsins, auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Varnaraðilinn Kaupþing banki hf. krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi Eyris Invest ehf., að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Málið var tekið til úrskurðar 11. maí sl. Við upphaf aðalmeðferðar gaf aðilaskýrslu fyrir dóminum Árni Oddur Þórðarson, forstjóri sóknaraðila. Ekki er ástæða til að rekja framburð hans, en vikið verður að honum þyki tilefni til.
Málsatvik
Á árinu 2006 ákvað Kaupþing banki hf. að ráðast í skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum til öflunar lánsfjár, alls 10.000.000.000 Bandaríkjadala. Af því tilefni var gefin út útgáfulýsing (e. offering circular), dagsett 27. mars 2006 og síðar viðauki við hana 21. september sama ár, fyrir skuldabréfaútgáfuna „USD 10.000.000.000 Senior/Subordinated Medium-Term Note Program“, þar sem annars vegar var að finna ýmsar fjárhagslegar upplýsingar um útgefandann, Kaupþing banka hf., en hins vegar helstu skilmála skuldabréfaútgáfunnar og þeirra skuldabréfaflokka sem ætlunin var að gefa út. Um eins konar rammaskilmála var að ræða, en tekið var fram að um einstakar útgáfur skuldabréfa giltu jafnframt þeir skilmálar sem þá yrðu ákveðnir. Samhliða gerðu Kaupþing banki hf., sem útgefandi, og varnaraðilinn DBTCA, sem fjárvörsluaðili (e. trustee), með sér rammasamning um skuldabréfaútgáfu (e. senior indenture), þar sem kveðið var á um ýmsa skilmála fyrirhugaðra skuldabréfaútgáfa og réttindi og skyldur DBTCA, sem fjárvörslu- eða umsýsluaðila þeirra útgáfa. Á grundvelli samningsins var Kaupþingi banka hf. heimilað að gefa út tiltekin skuldabréf, hér ýmist nefnd „allsherjarskuldabréf“, „altæk skuldabréf“ eða „forgangsskuldabréf“ (e. global notes) í einum eða fleiri flokkum skuldabréfa. Jafnframt sagði þar að aðilar gætu gert með sér einn eða fleiri viðbótarrammasamninga (e. supplemental indenture) vegna áforma um einstakar skuldabréfaútgáfur.
Með stoð í áðurnefndum rammasamningi um skuldabréfaútgáfu (senior indenture) gerðu Kaupþing banki hf. og DBTCA með sér viðbótarrammasamning 4. október 2006 (e. second supplemental indenture), þar sem kveðið var á um skilmála fyrir skuldabréfaútgáfuna „Series C Senior Floating Rate Notes due 2010“. Sama dag gaf Kaupþing banki hf. út allsherjarskuldabréf undir þeirri skuldabréfaútgáfu, hér nefnt „Series C Senior Floating Rate Note“, að fjárhæð 679.250.000 Bandaríkjadalir, merkt ISIN nr. US48632FAC59. Samkvæmt skjalinu skuldbatt bankinn sig til að endurgreiða fjárhæðina til Cede & Co. 15. janúar 2010, en það fyrirtæki hafði verið tilnefnt sem viðtökuaðili af hálfu vörslufyrirtækisins (eða „verðbréfamiðstöðvarinnar“) The Depository Trust Company (DTC) í áðurnefndri útgáfulýsingu. Samkvæmt gögnum málsins er síðastnefnda fyrirtækið, DTC, aðal verbréfavörslufyrirtæki Bandaríkjanna og gegnir sambærilegu hlutverki og Verðbréfaskráning Íslands hf. hér á landi, m.a. við eignaskráningu verðbréfa og utanumhald vegna uppgjörs í verðbréfaviðskiptum. Ekki er um það ágreiningur að Cede & Co. sé skráður handhafi og eigandi umrædds allsherjarskuldabréfs samkvæmt tilnefningu DTC. Ekki er heldur um það deilt að varnaraðilanum DBTCA sé heimilt, fyrir hönd Cede og Co., að lýsa kröfu við slitameðferð Kaupþings banka hf. á grundvelli allsherjarskuldabréfsins.
Í gögnum málsins, bæði ofangreindri útgáfulýsingu og umræddu allsherjarskuldabréfi, er fjallað um svokallaða „hagsmunaeign“ eða hlutdeild í allsherjarskuldabréfum (e. beneficial ownership in global notes eða beneficial interest). Jafnframt er þar gerð grein fyrir hinu „óbeina vörslukerfi“ (e. indirect holding system) sem stuðst er við í viðskiptum með hlutdeild eða hagsmunaeign í allsherjarskuldabréfum, eins og hér háttaði til. Í greinargerð varnaraðilans DBTCA er þessu fyrirkomulagi lýst á eftirfarandi hátt, með tilvísun til framlagðra gagna:
„Í hinu óbeina vörslukerfi (e. indirect holding system) er eitt áþreifanlegt heildarverðbréf í handhöfn eins eiganda, t.d. DTC eða Cede & Co., sem tilnefnds aðila. Viðskipti fara ekki fram með því að framselja heildarverðbréfið heldur með framsali á hagsmunum eða „beneficial interest“ á grundvelli heildarverðbréfsins, sem er framkvæmt með rafrænum skráningum (e. book-entries) í skrám DTC, í skrám milligönguaðila sem hafa reikning hjá DTC (e. DTC member firms) og í skrám fyrirtækja sem eru viðskiptavinir slíkra milligönguaðila, allt til hagsbóta fyrir hina endanlegu viðskiptamenn, fjárfestana. Þannig er um að ræða öruggari og skilvirkari leið til að eiga viðskipti með „beneficial interest“ á grundvelli verðbréfanna. [ ] Til að unnt sé að framselja „beneficial interest“ í heildarverðbréfum samkvæmt þessu er til staðar marglaga (e. multitiered) vörslukerfi verðbréfamiðlara eða milligönguaðila (e. security intermediary). Fyrsti aðilinn í þessu kerfi er hinn skráði eigandi eða handhafi hins áþreifanlega heildarverðbréfs, í þessu tilfelli Cede & Co., tilnefndur af DTC. Í mörgum tilvikum er áskilið í þeim samningi sem útgáfa verðbréfsins er byggð á, að svokallaður „Trustee“ eða umsýsluaðili sé vörsluhafi heildarverðbréfsins og sé heimilað að grípa til aðgerða fyrir handhafa við vanskil útgefanda, eins og tilfellið er í þessu máli. „Beneficial interest“ í heildarverðbréfum er síðan dreift til næstu aðila að kerfinu, en það eru verðbréfamiðlanir og fjármálastofnanir sem eiga verðbréfareikning hjá handhafanum. Þessir aðilar eru síðan sjálfir með viðskiptamenn, ýmist önnur verðbréfafyrirtæki eða lokafjárfestirinn, og þeir eru síðan með reikning hjá þeim aðila. Þegar lokafjárfestirinn kaupir „beneficial interest“ í heildarverðbréfinu koma þau viðskipti fram á reikningsyfirliti hans. [ ] Þessi milligönguaðili tilkynnir síðan breytingar á heildarfjárhæð hjá sér til aðilans fyrir ofan í kerfinu. Að lokum koma þá breytingar á „beneficial interest“ DTC aðildarfyrirtækja fram í bókum DTC.“
Ekki er að sjá að ágreiningur sé með aðilum um að viðskipti með hagsmuni eða hlutdeild í umræddu allsherjarskuldabréfi hafi átt sér stað með þeim hætti sem að ofan greinir.
Í greinargerð sóknaraðilans Eyris Invest ehf. kveðst hann hafa keypt skuldabréf af Kaupþingi banka hf. 9. apríl 2008, að nafnvirði 10.000.000 Bandaríkjadala, og hafi skuldabréfið sama dag verið fært inn á safnreikning hans hjá Arion verðbréfavörslu hf. Í lok árs 2008 kveðst sóknaraðilinn hafa gert samkomulag við skilanefnd Kaupþings banka hf. og Arion banka hf., m.a. um skuldajöfnuð, sem fólst í því að Eyrir Invest ehf. gerði upp afleiðusamninga gagnvart Kaupþingi banka hf., en að skuld Kaupþings banka hf. samkvæmt áðurnefndu skuldabréfi frá 9. apríl 2008 skyldi ráðstafað inn á tiltekinn lánasamning sóknaraðila í bankanum. Í september 2009 hafi slitastjórn bankans gert sóknaraðila grein fyrir því að ekkert stæði skuldajöfnuði til fyrirstöðu annað en tæknileg atriði. Hafi honum síðar verið tjáð að óska þyrfti eftir svokölluðu „lokunarnúmeri“ (e. blocking number) á skuldabréfið og hafi það borist honum 15. desember sama ár.
Eins og áður greinir lýsti Eyrir Invest ehf. kröfu á hendur Kaupþingi banka hf. 12. ágúst 2009, og vísaði í kröfulýsingu sinni til þess að ofangreint skuldabréf frá 9. apríl 2008 hafi verið gefið út „á grundvelli heildarútgáfuramma (e. Senior/Subordinated Medium-Term Note Program) að fjárhæð USD 10.000.000.000“. Með kröfulýsingunni ítrekaði sóknaraðili skuldajöfnuð á öllum kröfum sínum gagnvart kröfum Kaupþings banka hf. á hendur honum.
Með bréfi 4. mars 2010 hafnaði slitastjórn Kaupþings banka hf. því að aðilar hefðu gert með sér samkomulag um uppgjör og skuldajöfnuð krafna í árslok 2008, ásamt því að hafnað var fullyrðingu sóknaraðila um að ekkert stæði skuldajöfnuði til fyrirstöðu annað en tæknileg atriði. Í bréfinu var skuldajafnaðarkröfunni hafnað, þar sem skilyrði fyrir skuldajöfnuði þóttu ekki fyrir hendi. Afstaða slitastjórnar var nánar rökstudd þannig: „Skuldajafnaðarkrafa Eyris Invest er byggð á meintum réttindum þeirra skv. skuldabréfi með ISIN US48632FAC59, útgefnu af Kaupþingi banka hf. en um er að ræða útgáfu sem nefnist Series C Global Note og myndar það skuldabréf í raun eina kröfu á hendur Kaupþingi. Kröfuhafinn samkvæmt skuldabréfinu er Cede & Co. en Deutsche Bank Trust Company Americas („Trustee“) er n.k. fulltrúi Cede og Co. sem kröfuhafa gagnvart Kaupþingi. Eyrir Invest, sem og aðrir fagfjárfestar, keyptu í gegnum milligönguaðila, hlutdeild í skuldabréfinu, s.k. „beneficial interest“. Með hliðsjón af framangreindu á Eyrir Invest ekki kröfu á grundvelli umrædds skuldabréfs á hendur Kaupþingi heldur einungs í hlutdeild í skuldabréfakröfu Cede & Co. á hendur Kaupþingi.“
Sóknaraðilinn Eyrir Invest ehf. mótmælti bæði afstöðu slitastjórnar til kröfu hans, svo og kröfu DBTCA, að því leyti sem hún færi í bága við kröfu hans.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila, Eyris Invest ehf.
Sóknaraðili byggir mál sitt á því að öll rök standi til þess að hafna beri kröfu DBTCA nr. 20091228-0413 í kröfuskrá Kaupþings banka hf., sem heildarkröfu vegna skuldabréfaútgáfu undir 144A Note Program vegna útgáfu með ISIN nr. US48632FAC59, að því marki sem hún fari í bága við kröfu hans nr. 20090922-0033 í kröfuskrá Kaupþings banka hf. Um leið mótmælir hann öllum rökum og andmælum sem komið hafa fram í máli varnaraðila. Hins vegar tekur hann fram að ekki sé gerður ágreiningur um heimild DBTCA til þess að lýsa kröfu fyrir hönd annarra skuldabréfaeigenda, sem ekki hafa kosið að lýsa kröfum sínum sjálfir, en áréttar að um heimild sé að ræða en ekki skyldu.
Í fyrsta lagi byggir sóknaraðili á því að skuldabréfið sem hann keypti af varnaraðila, Kaupþingi banka hf., 9. apríl 2008, sé skuldabréf eins og það hugtak hafi verið skýrt samkvæmt íslenskum rétti, enda felist í því skrifleg yfirlýsing þar sem útgefandi viðurkenni einhliða og skilyrðislaust skyldu sína til að greiða ákveðna peningaupphæð. Þá sé það og framseljanlegt. Skipti hér engu þótt aðilar hafi samið svo um að lög New York ríkis í Bandaríkjunum skyldu gilda um skuldabréfið, útgáfulýsinguna vegna upphaflegrar skuldabréfaútgáfu (offering circular), skilmála fyrir útgáfunni „Series C Global Notes“ eða rammasamning um skuldabréfaútgáfuna (senior indenture). Þá breyti það engu um þá staðreynd að sóknaraðili eigi kröfu á hendur útgefanda, Kaupþingi banka hf., þótt samið hafi verið sérstaklega um greiðslustað og greiðslufyrirkomulag með aðkomu DBTCA, sem eins konar staðgönguaðila. Í því sambandi leggur sóknaraðili áherslu á að hann hafi greitt Kaupþingi banka hf. fyrir skuldabréfið og hafi hann átt að njóta alls efnahagslegs ávinnings af því, en ekki DBTCA. Útgefanda, Kaupþingi banka hf., hafi einnig verið heimilt að slíta tilnefningu DBTCA sem fjárvörsluaðila (trustee) og tilefna annan aðila í þess stað. Slíkur aðili, sem standi með öllu utan tengsla samningsaðila, þ.e. sóknaraðila og varnaraðila Kaupþings banka hf., geti ekki samkvæmt gjaldþrotaskiptalögum talist eiga kröfu á hendur Kaupþingi banka hf., að því marki sem slík krafa fari í bága við kröfu raunverulegs eiganda umræddra hagsmuna. Bendir sóknaraðili hér á að kaupnóta vegna viðskiptanna sýni skýrlega að sóknaraðili hafi keypt skuldabréf, útgefið af Kaupþingi banka hf., að nafnvirði 10.000.000 Bandaríkjadala. Óumdeilt sé að sóknaraðili eigi þá hagsmuni sem bréfinu tengist, og felist þeir í kröfu hans á hendur bankanum til greiðslu ákveðinnar peningaupphæðar.
Í annan stað bendir sóknaraðili á að í útgáfulýsingu vegna skuldabréfaútgáfunnar sé að finna margvíslegar fjárhagslegar upplýsingar um útgefandann, Kaupþing banka hf. Eðli málsins samkvæmt séu þar engar slíkar upplýsingar um DBTCA, Cede & Co., né heldur DTC (Depository Trust Company), enda hafi kaupendur hvorki verið að kaupa skuldabréf sem gefin hafi verið út af þeim félögum, né hafi þau félög verið að afla lánsfjár með útgáfu skuldabréfa. Því beri að líta á þessi félög sem eins konar staðgöngumenn útgefanda, en útgefandi hafi gefið skuldabréfið út og fengið greitt fyrir það hjá sóknaraðila. Þjónusta þessara félaga sé því áþekk þeirri sem Verðbréfaskráning Íslands hf. veiti hér á landi, þ.e. eignaskráning verðbréfa og utanumhald vegna uppgjörs í verðbréfaviðskiptum. Þá sé í útgáfulýsingunni skýrlega tekið fram að DBTCA sé fjárvörslu- eða umsýsluaðili (trustee) vegna þess flokks sem skuldabréfið tilheyri og að gengið hafi verið frá rammasamningi (senior indenture) við það félag.
Í útgáfulýsingunni sé einnig fjallað um hlutverk staðgönguaðilanna Cede & Co. og DTC. Komi þar fram að Cede & Co. haldi á allsherjarskuldabréfunum (global notes) fyrir hönd DTC til hagsbóta fyrir meðlimi DTC, í því skyni að auðvelda framsal og uppgjör verðbréfaviðskipta. Síðan segi að hvorki Cede & Co. né DTC muni neyta neinna réttinda sem tengist umræddum skuldabréfum og að allar greiðslur sem til falli vegna þeirra muni fara til meðlima og þaðan til raunverulegra eigenda krafnanna (beneficial owners). Af þessu telur sóknaraðili ljóst að Cede & Co. og DTC séu ekki frekar en DBTCA eigendur kröfuréttinda á hendur varnaraðilanum Kaupþingi banka hf. Hinir raunverulegu kröfuhafar séu þeir sem nefndir eru „beneficial owners“ í útgáfulýsingunni, líkt og sóknaraðili. Af þeirri ástæðu hafi DTC úthlutað sóknaraðila svokölluðu lokunarnúmeri, en því sé aðeins úthlutað til þeirra sem eigi kröfu. Sé því staðfest að sóknaraðili sé eigandi skuldabréfsins, og þar með kröfunnar sem hann hafi lýst við slitameðferð Kaupþings banka hf.
Í samræmi við ofanritað er á því byggt að samkvæmt umræddri útgáfulýsingu eigi DBTCA ekki eignarréttindi og/eða kröfur á hendur Kaupþingi banka hf., umfram það sem leiði af hlutverki þessa aðila sem staðgönguaðila. Þá hafi útgáfulýsingin ekki að geyma nein ákvæði sem veiti þessum aðila fortakslausa heimild til þess að lýsa kröfum á grundvelli skuldabréfsins, enda færi slíkt í bága við reglur gjaldþrotaskiptalaga og réttindi raunverulegra eigenda, sem sjálfir hafi lýst kröfum á hendur Kaupþingi banka hf.
Í þriðja lagi byggir sóknaraðili á því að hann sé ekki aðili að rammasamningi Kaupþings banka hf. og DBTCA frá 12. apríl 2006 um útgáfu skuldabréfa (senior indenture), og að samningurinn hafi ekki verið kynntur honum við kaup hans á skuldabréfinu 9. apríl 2008. Þar komi fram að DBTCA sé sem fjárvörsluaðila heimilt að lýsa kröfu á grundvelli skuldabréfsins. Hins vegar segi þar ekkert um að félaginu sé skylt að lýsa kröfu. Því telur sóknaraðili að ákvæðið takmarki ekki rétt raunverulegra eigenda krafna til að lýsa þeim eða taka á móti greiðslum. Einnig er á það bent að umræddur samningur kveði ekki á um það að DBTCA eigi eignarréttindi og/eða kröfur á hendur Kaupþingi banka hf., umfram það sem leiði af hlutverki þessa aðila sem staðgönguaðila.
Sóknaraðili bendir loks á að hann hafi ekki undirritað skilmála fyrir útgáfunni „Series C Global Notes“ og hafi þeir heldur ekki verið kynntir honum þegar hann keypti skuldabréfið. Þá eigi hið sama við um skilmálana, útgáfulýsinguna og rammasamninginn; þar sé engin ákvæði að finna um að DBTCA eigi eignarréttindi og/eða kröfur á hendur Kaupþingi banka hf., umfram það sem leiði af hlutverki þessa aðila sem staðgönguaðila. Ekki sé þar heldur mælt fyrir um fortakslausa heimild DBTCA til þess að lýsa kröfum á grundvelli skuldabréfsins.
Með vísan til ofanritaðs byggir sóknaraðili á því að heildarkrafa DBTCA vegna skuldabréfaútgáfu undir 144A Note Program, með ISIN nr. US48632FAC59, eigi sér hvorki stoð í lögum né samningum, að því marki sem hún fari í bága við kröfu sóknaraðilans, þar sem ekkert skuldarsamband sé á milli Kaupþings banka hf. og DBTCA á grundvelli umræddrar skuldabréfaútgáfu. Hins vegar hafi það félag heimild til að lýsa kröfu til hagsbóta og í umboði raunverulegra eigenda krafna samkvæmt skuldabréfaútgáfunni. Sú niðurstaða hafi þó enga þýðingu í þessu máli, þar eð sóknaraðili hafi þegar lýst kröfu sinni, sem raunverulegur eigandi hennar. Telur sóknaraðili að DBTCA hafi enga lögvarða hagsmuni af því að fá kröfu sína viðurkennda, að því marki sem hún fari í bága við kröfu sóknaraðila, enda hafi sá aðili lýst kröfu vegna hagsmuna sem hann eigi með réttu.
Um lagarök, kröfum sínum til stuðnings, vísar sóknaraðili einkum til ákvæða laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, ásamt síðari breytingum. Jafnframt er vísað til meginreglna samningaréttar og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa hans styðst við 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök varnaraðila, Deutsche Bank Trust Company Americas
Varnaraðilinn Deutsce Bank Trust Company Americas (DBTCA) mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðilans Eyris Invest ehf. að fyrirtækið hafi keypt skuldabréf af Kaupþingi banka hf., að nafnvirði 10.000.000 Bandaríkjadala, og eigi þar af leiðandi kröfu á hendur bankanum, enda hafi sóknaraðili ekki lagt fram eintak af slíku skuldabréfi, né nokkur önnur sönnunargögn um eignarhald á seljanlegu fjármálaskjali sem bankinn hafi gefið út. Óumdeilt sé hins vegar, og staðfest með kvittun eða staðfestingu verðbréfamiðlara, að Eyrir Invest ehf. hafi í gegnum hið óbeina vörslukerfi keypt hagsmuni (beneficial interest) á grundvelli allsherjarskuldabréfsins. Þau viðskipti séu skráð á reikningi sóknaraðila hjá verðbréfamiðlara eða milligönguaðila sóknaraðila, í þessu tilviki Arion verðbréfavörslu hf. Arion verðbréfavarsla hf. sé með reikning hjá Citibank N.Y. og þar séu hagsmunir þess aðila skráðir sem „beneficial interest“. Citibank N.Y. sé síðan með reikning hjá DTC, þar sem hagsmunir Citibank N.Y. séu loks skráðir, einnig sem „beneficial interest“. Eyrir Invest ehf. sé því ekki handhafi (e. holder) að neinu skuldabréfi Kaupþings banka hf. vegna þessara viðskipta, og því síður eigandi að sjálfu allsherjarskuldabréfinu. Engum hluta allsherjarskuldabréfsins hafi heldur verið afsalað til Eyris Invest ehf. Kvittunin, sem sóknaraðili leggi fram í málinu, sé ekki einhliða og óskilyrt yfirlýsing um greiðslu til Eyris Invest ehf., og verði af þeim sökum ekki talin skuldabréf, hvorki að íslenskum né bandarískum lögum. Hins vegar sýni hún að fyrirtækið hafi keypt hagsmuni, „beneficial interest“, á grundvelli allsherjarskuldabréfsins. Þegar þau kaup fóru fram hafi skuldabréfið þegar verið gefið út til Cede & Co. og verið í vörslu þess. Af þeirri ástæðu hafi Kaupþingi banka hf. verið ógerlegt að selja neina hlutdeild Cede & Co. í allsherjarskuldabréfinu.
Í ljósi ofanritaðs byggir varnaraðili á því að sóknaraðili hafi ekki keypt skuldabréf af Kaupþingi banka hf. 9. apríl 2008, heldur aðeins tiltekna hagsmuni, „beneficial interest“, á grundvelli allsherjarskuldabréfsins. Sem „beneficial owner“ hafi sóknaraðili einungis samningsbundin réttindi gagnvart verðbréfamiðlara eða milligönguaðila sínum (e. securities intermediary), en ekki nein bein réttindi gagnvart Kaupþingi banka hf. sem útgefanda skuldabréfsins. Kaupþing banki hf. sé aðeins skuldbundinn gagnvart löglegum eiganda og handhafa skuldabréfsins, þ.e. Cede & Co., og geti bankinn ekki losnað undan skuldbindingum sínum á grundvelli skuldabréfsins með greiðslu til Eyris Invest ehf.
DBTCA byggir einnig á því að samkvæmt fyrirliggjandi skilmálum skuldabréfaútgáfunnar skuli beita lögum New York ríkis um túlkun allsherjarskuldabréfsins og kröfu Eyris Invest ehf. í máli þessu. Samrýmist það og 3. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, sem kveði á um að beita skuli þeim lögum sem samningsaðilar hafi valið berum orðum. Á grundvelli þessa er á því byggt að samkvæmt lögum New York ríkis sé Kaupþing banki hf. aðeins skuldbundinn gagnvart Cede & Co., sem eiganda og handhafa skuldabréfsins, og DBTCA, sem fjárvörslu- eða umsýsluaðila. Í samræmdum viðskiptalögum New York ríkis (The New York Uniform Commercial Code) komi einnig fram að aðili sem ekki sé eigandi skuldabréfs, en aðeins eigandi að hagsmunum á grundvelli skuldabréfs, sé handhafi réttinda (e. entitlement holder) og eigi réttindi gagnvart sínum milligönguaðila (e. securities intermediary), eins og þau hugtök séu skýrð í þeim lögum. Jafnframt sé þar tekið fram að „entitlement holder“ („beneficial owner“), eigi engin réttindi í skuldabréfinu sjálfu eða gegn útgefanda þess, en að slík réttindi séu hlutfallslegur réttur í þeim hagsmunum sem milligönguaðili (e. securities intermediary) eigi. Þar sem óumdeilt sé að Cede & Co. sé eini handhafi að allsherjarskuldabréfinu í þessu máli, verði aðeins fjárfest í því skuldabréfi í gegnum slíkan milligönguaðila, enda hafi sá hinn sami reikning hjá DTC, beint eða óbeint. Samkvæmt skilmálum allsherjarskuldabréfsins og öðrum gögnum málsins séu aðildarfélög DTC milligönguaðilar sem hvorki eigi beina kröfu á hendur Kaupþingi banka hf. né eignarhald í allsherjarskuldabréfinu.
Jafnvel þótt réttindi Eyris Invest ehf. gagnvart milligönguaðila sínum, Arion verðbréfavörslu hf., og réttindi Arion verðbréfavörslu hf. gagnvart sínum milligönguaðila, Citibank N.Y., væru háð íslenskum lögum, byggir varnaraðili á því að réttindi Citibank N.Y. gagnvart Kaupþingi banka hf. og Cede & Co. séu engu að síður háð lögum New York ríkis. Þar sem hvorki Citibank N.Y. né Arion verðbréfavarsla hf. séu eigendur að neinum hluta allsherjarskuldabréfsins samkvæmt lögum New York ríkis geti afleidd réttindi Eyris Invest ehf. þar af leiðandi ekki veitt því fyrirtæki meiri réttindi en tvö fyrrgreindu fyrirtækin eigi. Réttindi Eyris Invest ehf. verði aftur á móti aðeins leidd af réttindum í eigu Citibank N.Y. og flutt áfram pro rata til Eyris Invest ehf. í gegnum Arion verðbréfavörslu hf. Samkvæmt lögum New York ríkis sé Citibank N.Y. milligönguaðili í viðskiptum þessum og séu hagsmunir þess á grundvelli skuldabréfsins staðfestir með skráningu á reikningi þess hjá DTC.
Af ofansögðu telur varnaraðili ljóst að engum hluta allsherjarskuldabréfsins hafi verið afsalað til sóknaraðila, enda hafi hvorki Kaupþing banki hf., Citibank N.Y. eða Arion verðbréfavarsla nokkra heimild til að afsala slíkri eign Cede & Co. Þá hafi hvorki Citibank N.Y. né Arion verðbréfavarsla hf. leyfi til að lýsa kröfu fyrir hönd Cede & Co. á grundvelli skuldabréfsins. Hið sama gildi um sóknaraðilann Eyri Invest ehf., sem aðeins eigi réttindi gagnvart Arion verðbréfavörslu hf. Afleiðingin sé sú að sóknaraðili eigi engin bein réttindi gagnvart Kaupþingi banka hf.
Varnaraðili mótmælir þeirri staðhæfingu sóknaraðila að DTC hafi úthlutað sóknaraðila lokunarnúmeri vegna þess að fyrirtækið væri eigandi að hluta af margnefndu allsherjarskuldabréfi. Þvert á móti staðfesti úthlutun lokunarnúmers hið gagnstæða, enda hefði sóknaraðili enga þörf fyrir lokunarnúmer væri hann raunverulegur eigandi skuldabréfsins. Eina ástæðan fyrir útgáfu lokunarnúmers sé að koma í veg fyrir viðskipti með „beneficial interest“ hjá beinum eða óbeinum aðilum að DTC, og hefði slíkt lokunarnúmer augljóslega ekki verið gefið út ef sóknaraðili væri eigandi skuldabréfsins. Í ljósi þessa byggir varnaraðili á því að útgáfa lokunarnúmers af hálfu DTC hafi ekki myndað neinn eignarrétt að allsherjarskuldabréfinu.
Af hálfu varnaraðila er jafnframt á því byggt að Eyrir Invest ehf. geti ekki sýnt fram á eignarhald að neinu skuldabréfi á grundvelli fyrirliggjandi útgáfulýsingar. Þótt útgáfulýsingin innihaldi einungis upplýsingar um fjárhagsstöðu Kaupþings banka hf., en ekki stöðu DTC, hafnar varnaraðili þeirri málsástæðu sóknaraðila að í því geti falist að sóknaraðili eigi kröfu á hendur útgefanda allsherjarskuldabréfsins, Kaupþingi banka hf. Útgáfulýsingin, og þær fjárhagslegu upplýsingar sem þar sé að finna um útgefandann, geri fjárfestum kleift að meta líkurnar á því að útgefandi standi við skuldbindingar sínar, en veiti hins vegar engar upplýsingar um fjárhagsstöðu milligönguaðila. Verði fjárfestar sjálfir að bera ábyrgð á vali milligönguaðila og að þeir annist réttilega greiðslur til þeirra frá útgefanda. Hvað sem öðru líður fullyrðir varnaraðili að kaup Eyris Invest ehf. á „beneficial interest“ á grundvelli allsherjarskuldabréfsins hafi ekki byggst á fyrirliggjandi útgáfulýsingu, enda hafi fyrirtækið hafnað því að fá eintak af útgáfulýsingunni þegar gengið hafi verið frá kaupunum. Áréttar varnaraðili að sóknaraðili sé hvorki kröfuhafi gagnvart Kaupþingi banka hf. né DTC. Krafa hans sé hins vegar í formi hlutdeildar í allsherjarkröfu Cede & Co. á hendur Kaupþingi banka hf. á grundvelli skuldabréfsins (beneficial interest), og leidd af þeirri greiðslu sem Arion verðbréfavarsla hf. taki við frá Citibank N.Y.
Varnaraðili telur ljóst að sú afstaða slitastjórnar Kaupþings banka hf. að samþykkja aðeins kröfu DBTCA á grundvelli allsherjarskuldabréfsins, en hafna jafnframt öllum kröfum sem eigendur hagsmuna, þ.á m. sóknaraðili, hafi lýst við slitameðferð bankans, hafi verið rétt, enda hafi hún bæði verið í samræmi við 117. gr. laga nr. 21/1991 og ákvæði fyrirliggjandi rammasamnings Kaupþings banka hf. og DBTCA frá 12. apríl 2006. Í tilvitnuðum rammasamningi sé skýrlega kveðið á um heimild DBTCA, sem fjárvörsluaðila, til að lýsa kröfu við slitameðferð og taka á móti greiðslum og dreifa þeim, allt í nafni handhafa skuldabréfsins. Jafnframt segi þar að slitastjórn eða skiptastjóri hafi heimild handhafa skuldabréfsins til að inna greiðslu af hendi til fjárvörsluaðilans. Engin ákvæði sé aftur á móti að finna í samningnum sem heimili eigendum hagsmuna að lýsa kröfu og fá greiðslur á grundvelli slíkra krafna. Ekki sé þar heldur að finna neina heimild til handa slitastjórn eða skiptastjóra til að afhenda eigendum hagsmuna greiðslur á grundvelli slíkra kröfulýsinga.
Varnaraðilinn bendir einnig á að krafa fjárvörsluaðilans við slit Kaupþings banka hf. tryggi hagsmuni allra eigenda „beneficial interest“. Í tilvitnuðum rammasamningi segi þannig að fjárvörsluaðilinn skuli, um leið og hann hafi fengið greiðslu frá slitastjórn á grundvelli kröfunnar, afhenda handhafa þá greiðslu, að frádreginni þóknun og kostnaði. Í kjölfar þess skuli handhafi skuldabréfsins leggja greiðsluna inn á reikninga þeirra aðildarfélaga DTC sem eigi hagsmuni á grundvelli skuldabréfsins. Samkvæmt lögum New York ríkis eigi þeir aðilar síðan að leggja greiðslur inn á reikninga viðskiptavina sinna. Hvorki útgefandi né fjárvörsluaðili beri hins vegar beina ábyrgð á greiðslum til eigenda hagsmuna. Samkvæmt því telur varnaraðili engan vafa leika á því að eigendur hagsmuna (beneficial interest) eigi engan rétt gagnvart Kaupþingi banka hf. og hafi af sömu ástæðu enga heimild til að lýsa eða innheimta kröfu á hendur bankanum á grundvelli slíkra hagsmuna. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að samkvæmt bandarískum lögum og réttarframkvæmd sé fjárvörslu- eða umsýsluaðili (trustee) rétti aðilinn til að lýsa slíkum kröfum fyrir hönd handhafa, og að hafna beri kröfum sem eigendur hagsmuna kunni að lýsa á grundvelli slíkra hagsmuna.
Varnaraðili mótmælir því loks að meint samkomulag, sem sóknaraðili fullyrðir að hann hafi gert við skilanefnd Kaupþings banka hf. og stjórnendur Arion banka hf. um uppgjör skulda, hafi hér nokkurt gildi, enda hafi þeim aðilum verið óheimilt að breyta fjárhæð allsherjarskuldabréfsins og ganga með því á lögvarin réttindi handhafa og eiganda þess.
Um lagarök vísar varnaraðili til laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., með síðari breytingum, sérstaklega til 117. gr. þeirra laga. Um lagaskilarétt er vísað til laga nr. 43/2000, sérstaklega 3. gr. Málskostnaðarkrafa hans er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Varðandi erlend lög er sérstaklega vísað til kafla 8-102 og 8-503 í samræmdum viðskiptalögum New York ríkis (New York Uniform Commercial Code). Auk þess er vísað til kafla 501 í bandarískum gjaldþrotaskiptalögum (The United States Bankruptcy Code) og reglu 3003 í bandarískum alríkisreglum um málsmeðferð við gjaldþrotaskipti (The United States Federal Rules of Bankruptcy Procedure).
Málsástæður og lagarök varnaraðila, Kaupþings banka hf.
Af hálfu Kaupþings banka hf. er á því byggt að sóknaraðili eigi ekki lögvarða kröfu á hendur bankanum samkvæmt kröfulýsingu hans, merkt nr. 20090922-0033 í kröfuskrá bankans. Þegar af þeirri ástæðu geti krafa meðvarnaraðila, DBTCA, ekki talist brjóta í bága við kröfu sóknaraðila. Um leið er hafnað þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann hafi keypt skuldabréf á hendur bankanum og bent á að sú fullyrðing fái enga stoð í gögnum málsins. Reyndar hafi sóknaraðili ekki lagt fram nein gögn sem sýni að Kaupþing banki hf. hafi einhliða og skilyrðislaust skuldbundið sig til að greiða honum ákveðna peningaupphæð. Þvert á móti komi skýrlega fram í gögnum málsins, þ. á m. í allsherjarskuldabréfinu sem hér sé fjallað um og falli undir skuldabréfaútgáfuna „Series C Senior Floating Rate Note“, að Kaupþing banki hf. hafi eingöngu undirgengist fjárskuldbindingu gagnvart Cede & Co. Samkvæmt því sé engu skuldarsambandi til að dreifa á milli aðila á grundvelli þeirra viðskipta sem sóknaraðili vísi til.
Varnaraðilinn bendir einnig á að sóknaraðili viðurkenni sjálfur að vera eigandi hagsmuna (beneficial owner) í allsherjarskuldabréfi, útgefnu af bankanum. Byggir hann á því að slík réttindi geti aldrei orðið grundvöllur beinna kröfuréttinda á hendur honum, en forsenda þess sé sú að varnaraðili hafi sjálfur undirgengist skuldbindingu gagnvart sóknaraðila, eða gagnvart einhverjum sem hafi framselt rétt sem hann hafi átt á hendur varnaraðila til sóknaraðila. Slíku sé ekki til að dreifa, og því skorti á að fyrir hendi sé nauðsynlegt skuldarsamband á milli sóknaraðila og varnaraðila. Það sé aftur forsenda þess að sóknaraðili geti að íslenskum lögum talist eiga lögvarða kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli téðrar skuldabréfaútgáfu. Telur varnaraðili að hvorki verði leitt af lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., né öðrum réttarreglum, að eigandi hagsmuna geti átt kröfu í bú varnaraðila þegar beinu skuldarsambandi sé ekki til að dreifa. Að dómi varnaraðila eigi sóknaraðili eingöngu kröfu gagnvart Arion verðbréfavörslu hf. á grundvelli síns „beneficial interest“, sem síðan eigi aftur kröfu á grundvelli síns „beneficial interest“ gagnvart næsta lagi fyrir ofan, og svo koll af kolli, allt til handhafa skuldabréfsins, Cede & Co., eða DBTCA, sem fjárvörslu- eða umsýsluaðila. Þessu til stuðnings vísar varnaraðilinn til samræmdra viðskiptalaga New York ríkis (The New York Uniform Commercial Code), svo og til ákvæða áðurnefnds rammasamnings Kaupþings banka hf. og DBTCA frá 12. apríl 2006 (senior indenture).
Varnaraðili kveðst með engu móti sjá hvernig kaupnóta vegna viðskipta sóknaraðila og Kaupþings banka hf. 9. apríl 2008 geti rennt stoðum undir málatilbúnað sóknaraðila, enda segi þar aðeins að sóknaraðili hafi keypt „Kaupthing Bank hf. Float 15.01.2010 KAUP Float 01/10“ og sé þar beinlínis vísað til númers allsherjarskuldabréfsins, þ.e. ISIN nr. US486312FAC59. Samskipti aðila í aðdraganda viðskiptanna fái heldur engu breytt í þessu efni. Sóknaraðili sé fagfjárfestir í skilningi laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og búi því yfir sérfræðiþekkingu á viðskiptum sem þessum. Hafi honum verið í lófa lagið að kalla eftir öllum gögnum sem giltu um skuldabréfaútgáfuna. Það hafi hann ekki gert, en þvert á móti talið það óþarft. Verði hann því sjálfur að bera hallann af aðgæsluleysi sínu. Þá telur varnaraðili hér engu skipta þótt sóknaraðili hafi fengið úthlutað svokölluðu lokunarnúmeri, enda geti slíkt aldrei að lögum skapað honum bein kröfuréttindi á hendur Kaupþingi banka hf. Loks mótmælir varnaraðili fullyrðingu sóknaraðila þess efnis að slitastjórn Kaupþings banka hf. hafi viðurkennt að sóknaraðili ætti umkrafin kröfuréttindi á hendur varnaraðila, enda væri slíkt ósamrýmanlegt betri rétti handhafa og eiganda umrædds skuldabréfs, í þessu tilviki Cede & Co.
Verði niðurstaða dómsins sú að sóknaraðili eigi umkrafin kröfuréttindi á hendur varnaraðila, byggir varnaraðili á því að meðvarnaraðili, DBTCA, eigi engu að síður einn rétt á því að lýsa kröfum sem eigi rætur að rekja til umþrættrar skuldabréfaútgáfu. Af þeirri ástæðu beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila. Því til stuðnings vísar hann til áðurgreinds rammasamnings 12. apríl 2006 (senior indenture), sem teljist hluti af þeim skilmálum sem gilt hafi um skuldabréfaútgáfuna. Þannig komi skýrlega fram í kafla 5.4 í rammasamningnum að fjárvörslu- eða umsýsluaðili (e. trustee) hafi rétt til þess að lýsa kröfu á grundvelli allsherjarskuldabréfsins við gjaldþrotaskipti eða slitameðferð útgefanda, og að skiptastjóri hafi í slíkum tilvikum heimild handhafa skuldabréfanna til að inna greiðslur af hendi til fjárvörsluaðilans. Með vísan til þessa telur varnaraðili að aðeins DBTCA, sem fjárvörsluaðila, sé heimilt að lýsa kröfu vegna umræddrar skuldabréfaútgáfu við slitameðferð Kaupþings banka hf. Þar sem DBTCA hafi lýst heildarkröfu vegna útgáfunnar leiði það til þess að eigendur hagsmuna, þ.e. þeir sem aðeins eigi hlutdeild í skuldabréfakröfu Cede & Co. á hendur Kaupþingi banka hf., eins og sóknaraðili í máli þessu, geti ekki jafnframt lýst kröfu sinni. Byggir varnaraðili á því að ofangreind regla eigi sér einnig stoð í bandarískum gjaldþrotaskiptalögum (The United States Bankruptcy Code), gr. 501(a). Jafnframt er á því byggt að sama niðurstaða leiði af íslenskum lögum, þ.e.a.s. ef kaup á fjármálagerningi eru hluti af heildarútgáfu sem geymi ákvæði um að veita tilteknum aðila heimild til að lýsa heildarkröfum, svo sem hér sé ástatt, þá sé slíkt bindandi fyrir aðra sem telji sig eiga einhvers konar réttindi á grundvelli sömu útgáfu. Því geti þeir ekki lýst kröfu vegna sömu útgáfu, þannig að gilt sé. Að mati varnaraðila gæti gagnstæð niðurstaða leitt til glundroða og vandkvæða við greiðslu krafna úr búi hans.
Í ljósi ofanritaðs áréttar varnaraðili að sóknaraðili geti ekki lýst neinum kröfuréttindum við slit varnaraðila vegna hlutdeildar sinnar í umræddri skuldabréfaútgáfu, eða hagsmuna á grundvelli hennar (beneficial ownership), heldur hafi meðvarnaraðili, DBTCA, sem fjárvörsluaðili, einn rétt til slíks.
Til stuðnings málskostnaðarkröfu sinni vísar varnaraðili til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laganna.
Niðurstaða
Ágreiningur þessa máls á rætur að rekja til „allsherjarskuldabréfs“ (e. global note), nefnt „Series C Senior Floating Rate Note“, sem Kaupþing banki hf. gaf út 4. október 2006 undir flokki skuldabréfaútgáfunnar „Series C Senior Floating Rate Notes due 2010“. Var útgáfan liður í umfangsmikilli skuldabréfaútgáfu sem bankinn réðst í árið 2006 til öflunar lánsfjár í Bandaríkjunum, nefnd „USD 10.000.000.000 Senior/Subordinated Medium-Term Note Program“. Umrætt skuldabréf var að fjárhæð 679.250.000 Bandaríkjadalir, merkt ISIN nr. US48632FAC59. Við slitameðferð Kaupþings banka hf. lýsti Deutsche Bank Trust Company Americas (DBTCA), sem fjárvörslu- eða umsýsluaðili skuldabréfaútgáfunnar (e. trustee), heildarkröfu vegna skuldabréfsins, alls að fjárhæð 73.213.710.453 krónur, auk áfallins kostnaðar. Sóknaraðili, sem byggir á því að hann sé eigandi skuldabréfs sem Kaupþing banki hf. hafi gefið út 9. apríl 2008 á grundvelli allsherjarskuldabréfsins, lýsti einnig kröfu á hendur bankanum, og nam hún 10.283.847,13 Bandaríkjadölum. Slitastjórn Kaupþings banka hf. samþykkti kröfu DBTCA sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, að fjárhæð 73.201.057.120 krónur, en hafnaði kröfu sóknaraðila með þeim rökstuðningi að aðeins DBTCA, sem fjárvörsluaðila, væri heimilt að lýsa kröfu á grundvelli allsherjarskuldabréfsins. Í málinu greinir aðila á um hvort einungis handhafi allsherjarskuldabréfsins og skráður eigandi þess, Cede & Co., samkvæmt tilnefningu vörslufyrirtækisins The Depository Trust Company (DTC), eigi kröfuréttindi á hendur Kaupþingi banka hf. á grundvelli skuldabréfsins, og hvort aðeins DBTCA, sem fjárvörsluaðila, sé þá heimilt að lýsa þeirri kröfu í umboði skráðs handhafa og eiganda við slitameðferð Kaupþings banka hf.
Fram er komið að Kaupþing banki hf. gaf út útgáfulýsingu (e. offering circular) í tilefni af fyrirhugaðri skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum. Annars vegar var þar að finna ýmsar fjárhagslegar upplýsingar um bankann, en hins vegar helstu skilmála skuldabréfaútgáfunnar og þeirra flokka skuldabréfa sem til stóð að gefa út. Skjal þetta liggur frammi í málinu og hefur hluti þess verið lagður fram í íslenskri þýðingu. Fram kemur þar að allsherjarskuldabréfin (þar ýmist nefnd „forgangsskuldabréf“ eða „altæk skuldabréf“) sem boðin verða fram, verði gefin út samkvæmt rammasamningi milli Kaupþings banka hf., sem útgefanda, og Deutsche Bank Trust Company Americas, sem fjárvörsluaðila. Um skráningu skuldabréfanna, eigendur hagsmuna (e. beneficial owners) og greiðslu höfuðstóls og vaxta segir þar m.a. svo í íslenskri þýðingu:
„DTC gegnir hlutverki fjárvörslusjóðs [hér áður nefnt „vörslufyrirtæki“ eða „verðbréfamiðstöð“] fyrir altæku skuldabréfin. Sé þess ekki getið sérstaklega skulu altæku skuldabréfin gefin út sem fullkomlega skráð verðbréf í nafni Cede & Co. [ ] Kaup á altækum skuldabréfum eða altækum inneignarskírteinum í samræmi við kerfi DTC þurfa að vera gerð af beinum DTC aðilum eða fyrir tilstilli þeirra og fá þeir afhenta inneign fyrir altæku skuldabréfin eða altæku inneignarskírteinin á bókum DTC. Hagsmuneign sérhvers raunverulegs kaupanda að altæku skuldabréfi eða inneignarskírteini skal síðan skrá á bækur beinna og óbeinna DTC aðila. Eigendur hagmuna fá ekki afhenta skriflega staðfestingu frá DTC um kaup sín en eigendur hagsmuna eiga að fá skriflega staðfestingu þar sem getið er um helstu atriði viðskiptanna, svo og regluleg yfirlit yfir inneignir sínar frá þeim beina eða óbeina DTC aðila sem viðskipti hans gengu í gegnum. [ ] Greiðslur á höfuðstól og vöxtum af altækum skuldabréfum og altækum inneignarskírteinum skulu inntar af hendi til DTC. DTC hefur þann hátt á að það færir tekjur á reikninga beinna DTC aðila á gjalddaga í samræmi við eignir þeirra hvers um sig eins og þær koma fram á bókum DTC [ ] Greiðsla á höfuðstól og vöxtum til DTC er á ábyrgð útgefanda, útborgun slíkra greiðslna til beinna DTC aðila skal vera á ábyrgð DTC og útborgun slíkra greiðslna til eigenda hagsmuna skal vera á ábyrgð beinna og óbeinna DTC aðila.“
Á grundvelli útgáfulýsingarinnar gerðu Kaupþing banki hf., sem útgefandi, og Deutsche Bank Trust Company Americas (DBTCA), sem fjárvörsluaðili, með sér rammasamning um skuldabréfaútgáfu (e. senior indenture) 12. apríl 2006, og síðar viðbótarrammasamning 4. október sama ár. Í fyrri samningnum var kveðið á um form, efni og ýmsa skilmála skuldabréfa sem fyrirhugað var að gefa út í mismunandi flokkum. Tekið er þar fram að handhafi og eigandi sérhvers slíks skuldabréfs skuli talinn sá aðili sem skuldabréfið er skráð á í skuldabréfaskrá, og taki sá aðili við greiðslu á höfuðstól og vöxtum. Í síðari samningnum voru skilmálar hins vegar sérstaklega ákveðnir fyrir þann flokk skuldabréfaútgáfunnar sem bar heitið „Series C Senior Floating Rate Notes due 2010“. Fram kemur þar að heildarfjárhæð þeirra skuldabréfa sem gefa átti út undir heiti þessa skuldabréfaflokks skyldi takmarkast við 1.000.000.000 Bandaríkjadala. Jafnframt segir þar að DTC skuli vera vörslufyrirtæki fyrir útgefin allsherjarskuldabréf í hverjum flokki og að bréfin skuli skráð í nafni Cede & Co. samkvæmt tilnefningu DTC. Á grundvelli þessara samninga gaf Kaupþing banki hf. síðan út allsherjarskuldabréfið sem hér er fjallað um, „Series C Senior Floating Rate Note“, merkt ISIN nr. US48632FAC59, og er það hluti af áðurnefndum skuldabréfaflokki. Samkvæmt bréfinu skuldbatt Kaupþing banki hf. sig til að greiða Cede & Co., sem tilnefndum aðila af hálfu DTC, höfuðstól skuldabréfsins, ásamt umsömdum vöxtum, á gjalddaga 15. janúar 2010.
Í 5. kafla fyrrnefnds rammasamnings um skuldabréfaútgáfuna er fjallað um vanefndir útgefanda. Þar segir að í slíkum tilvikum skuli útgefandinn, Kaupþing banki hf., greiða fjárvörsluaðilanum, DBTCA, gjaldfallna fjárhæð, ásamt vöxtum. Jafnframt er þar mælt fyrir um heimild fjárvörsluaðilans til að innheimta og lýsa kröfu vegna heildarupphæðar höfuðstóls skuldabréfanna, auk álags og vaxta, við slitameðferð og gjaldþrotaskipti útgefanda, svo og í þeim tilvikum að taka við innheimtum fjármunum frá útgefanda og útdeila þeim með ákveðnum hætti. Þá segir að „skilastjóri“ eða skiptastjóri hafi leyfi handhafa skuldabréfanna til að inna af hendi slíkar greiðslur til fjárvörsluaðila.
Í áðurnefndri útgáfulýsingu, sem og í rammasamningnum og allsherjarskuldabréfinu, er tekið fram að skjölin séu háð og skuli túlkuð í samræmi við lög New York ríkis.
Ágreiningslaust er að sóknaraðili átti viðskipti við Kaupþing banka hf. 9. apríl 2008 og keypti þá, eins og skráð er á kaupnótu; „Kaupthing Bank hf. Float 01.2010“ með auðkenni „KAUP Float 01/10“ og „ISIN númer US48632FAC59“. Nafnverð hins keypta var 10.000.000 Bandaríkjadala og var kaupverðið, að frádregnum kostnaði, tekið út af tilgreindum reikningi sóknaraðila og viðskiptin færð inn á safnreikning hans hjá Arion verðbréfavörslu hf. Byggir sóknaraðili á því að kaupnótan sýni skýrlega að hann hafi í viðskiptum þessum keypt skuldabréf, útgefið af Kaupþingi banka hf., og eigi hann þá hagsmuni sem bréfinu tengjast, ásamt rétti til að lýsa kröfu við slit Kaupþings banka hf. á grundvelli þess.
Ekki er unnt að fallast á að orðalag ofangreindrar kaupnótu gefi til kynna að sóknaraðili hafi í umrætt sinn keypt skuldabréf, eins og það hugtak hefur almennt verið skilgreint í kröfurétti hér á landi, og styðja heldur engin önnur gögn þá staðhæfingu sóknaraðilans. Þykir því ekki skipta máli þótt starfsmaður sóknaraðila hafi í aðdraganda viðskiptanna talið sig vera að kaupa skuldabréf, útgefið af Kaupþingi banka hf., enda er sóknaraðili fagfjárfestir í skilningi laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og bjó yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði. Ekki taldi hann heldur ástæðu til að kynna sér þau gögn sem lágu að baki viðskiptunum. Hins vegar ber kaupnótan með sér að hún er „skrifleg staðfesting, þar sem getið er um helstu atriði viðskiptanna“, eins og áðurnefnd útgáfulýsing mælti fyrir um að viðskiptavinur ætti að fá í hendur við kaup á hagsmunum í allsherjarskuldabréfinu, og vísar þannig greinilega til kaupa sóknaraðila á hagsmunum sem tengjast skuldabréfaútgáfunni „Series C Senior Floating Rate Notes due 2010“ og allsherjarskuldabréfi í þeim flokki, nefnt „Series C Senior Floating Rate Note“, merkt ISIN nr. US48632FAC59. Í ljósi þessa, svo og með vísan til skilmála ofangreindrar útgáfulýsingar og rammasamnings um skuldabréfaútgáfuna, þar sem beinlínis er tekið fram að skráður handhafi og eigandi allsherjarskuldabréfsins sé Cede & Co. samkvæmt tilnefningu DTC, hafnar dómurinn þeirri málsástæðu sóknaraðila að hann eigi kröfurétt á hendur Kaupþingi banka hf. á grundvelli þeirra viðskipta sem hér eru rakin, og geti af þeirri ástæðu krafist greiðslu sér til handa. Um leið er minnt á að samkvæmt skuldabréfinu skuldbatt Kaupþing banki hf. sig til að greiða Cede & Co. fjárhæð skuldabréfsins, ásamt vöxtum, og verður ekki séð af gögnum málsins að bankinn geti einhliða komist hjá þeirri greiðsluskyldu, t.a.m. með því að greiða eigendum hagsmuna milliliðalaust hlutdeild þeirra í heildarkröfu Cede & Co. á hendur bankanum. Ekki verður heldur séð að neinu breyti í þessu efni þótt sóknaraðili hafi fengið úthlutað svokölluðu lokunarnúmeri, eða að hann sé ekki beinn aðili að rammasamningi Kaupþings banka hf. og DBTCA frá 12. apríl 2006.
Ljóst er af málatilbúnaði sóknaraðila að hann viðurkennir heimild DBTCA til þess að lýsa kröfu á grundvelli títtnefnds allsherjarskuldabréfs, fyrir hönd eigenda hagsmuna, þótt hann árétti jafnframt að um heimild sé að ræða en ekki skyldu. Þar sem hann hafi hins vegar sjálfur lýst kröfu við slitameðferð bankans vegna eignar sinnar í skuldabréfinu, byggir hann á því að hafna beri heildarkröfu DBTCA, að því marki sem hún fari í bága við hans eigin kröfu.
Þar sem dómurinn hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili eigi ekki kröfurétt á hendur Kaupþingi banka hf., þar sem ekki hafi stofnast til skuldarsambands á milli aðila á grundvelli viðskipta þeirra 9. apríl 2008, verður þessari málsástæðu hafnað. Af framlögðum gögnum verður heldur ekki séð að eigendur hagsmuna (e. beneficial owners), eins og sóknaraðili telur sig raunar vera í máli þessu, hafi heimild til að lýsa slíkri kröfu. Þvert á móti gerir margnefndur rammasamningur frá 12. apríl 2006 aðeins ráð fyrir því að fjárvörsluaðilinn, DBTCA, geti lýst kröfu við slitameðferð, sbr. 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, og að sá aðili hafi einn rétt til að móttaka greiðslur við úthlutun.
Eins og áður greinir var um það samið að bæði undirliggjandi samningar og sjálft allsherjarskuldabréfið skyldi túlkað samkvæmt lögum New York ríkis. Ber því að beita þeim lögum við túlkun á efni skjalanna, sbr. 3. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, enda hafi tilvist og efni þeirra réttarreglna sem við eiga nægilega verið leitt í ljós, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Varnaraðilinn DBTCA hefur í máli þessu lagt fram þrjár álitsgerðir jafn margra bandarískra lögfræðinga, í því skyni að upplýsa um fyrirkomulag þeirrar skuldabréfaútgáfu sem hér er fjallað um, hlutverk og réttarstöðu þeirra aðila sem þar koma helst við sögu, svo og um tilvist og efni þeirra réttarreglna sem við eiga. Álitsgerðirnar hafa verið lagðar fram í íslenskri þýðingu og hefur þeim hvorki verið mótmælt né hnekkt með neinu móti. Verður ekki annað ráðið en að niðurstaða dómsins á þeim álitaefnum sem hér eru til úrlausnar, og kynnt hefur verið hér að framan, sé að öllu leyti í samræmi við bandarískar reglur á þessu réttarsviði. Í því sambandi er sérstaklega vísað til álitsgerðar lögmannsstofunnar Nixon Peabody LLP í New York, en þar er bæði fjallað um heimild fjárvörsluaðila til að lýsa kröfu við gjaldþrotameðferð, svo og hagsmuni endanlegra eigenda réttinda. Þar segir m.a. svo:
„[ ] er samningsvörsluaðili [hér áður nefndur „fjárvörslu- eða umsýsluaðili“, í þessu tilviki DBTCA] réttur aðili til þess að lýsa kröfu vegna allsherjarskuldabréfsins í máli útgefanda [ ] samkvæmt gjaldþrotalögum. [ ] yrði krafa samningsvörsluaðila samþykkt sem hin rétta krafa, þar sem lýst væri þeirri skuld sem felst í allsherjarskuldabréfinu í gjaldþrotamálinu. Kröfu, sem lýst væri af endanlegum [eiganda] réttinda, yrði hafnað þar sem litið yrði á hana sem sömu kröfu og lýst var af samningsvörsluaðila. Krafa samningsvörsluaðila yrði ekki lækkuð vegna neinna krafna sem lýst kynni að vera af endanlegum eigendum réttinda.
[ ] á grundvelli laga í New York ríki er allsherjarskuldabréfið einungis á skrá hjá DTC, sem er eigandi allsherjarskuldabréfsins. Fjárfestar, sem keypt hafa réttindi, sem eigendur hagsmuna, gegnum óbeint eignaskráningarkerfi DTC, eru ekki skráðir eigendur allsherjarskuldabréfsins. Réttindi þeirra eru réttindi eigenda hagsmuna og þau vottast af reikningsyfirliti hjá verðbréfamiðlurum þeirra en ekki af skrám samningsvörsluaðilans. Lagaákvæðin sem gilda um réttindi hvers þessara aðila er að finna í 8. gr. almennra viðskiptalaga í New York (e. New York Uniform Commercial Code, N.Y.U.C.C.). Samkvæmt gr. 8-102(14) í NY UCC telst DTC, sem skráningaraðili, „verðbréfamiðstöð“ gagnvart þátttakendum sem eiga reikninga hjá DTC þar sem skuldfærð hafa verið endanleg réttindi í allsherjarskuldabréfinu. Sérhver þessara þátttakenda er aftur á móti „verðbréfamiðstöð“ gagnvart viðskiptavinum sínum, sem þátttakandinn hefur selt hluta af réttindum sínum og skuldfært á reikning sinn. Í gr. 8-102(7) eru aðilar, sem eiga réttindi í bréfinu með milligöngu verbréfamiðstöðvar, nefndir „rétthafar“ (e. entitlement holders). Eignarréttur rétthafa, sem tengist tiltekinni fjáreign ... er hlutfallslegur eignarréttur af öllum réttindum í viðkomandi fjáreign, sem er í vörslu viðkomandi verðbréfamiðstöðvar ... sbr. gr. 8-503(b) NY UCC. Þessi hlutfallslegi eignarhlutur endanlegs eiganda kallast „réttur samkvæmt verðbréfi“ (e. security entitlement), sbr. gr. 8-102(17) í NY UCC. Eins og fram kemur í skýringu 2 við gr. 8-503 er „réttur skv. verðbréfi“ ... ekki krafa sem beinist að tilteknum hlut sem unnt er að tilgreina, heldur er um að ræða safn réttinda og hagsmuna sem aðili á gagnvart eigin verðbréfamiðstöð og þeim eignum sem verðbréfamiðstöðin er með í vörslu sinni. ... Grundvallaratriðin í reglunum um hið óbeina eignaskráningarkerfi eru að eigin verðbréfamiðstöð rétthafa ber skylda til þess að sjá um að rétthafi fái í hendur öll fjárhagsleg og félagsréttarleg réttindi sem fjáreignin felur í sér og að rétthafi geti aðeins leitað til þeirrar miðstöðvar um efndir á skyldunum. Rétthafi getur ekki haft uppi kröfur beint á hendur öðrum aðilum, svo sem öðrum verðbréfamiðstöðvum þar sem verðbréfamiðstöðin heldur viðkomandi eignir. Með öðrum orðum eru endanlegir eigendur réttinda í allsherjarskuldabréfinu rétthafar samkvæmt gildandi lögum í New York ríki og eiga aðeins rétt gagnvart eigin verðbréfamiðstöð.“
Í ljósi alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að aðeins Deutsche Bank Trust Company Americas, sem fjárvörsluaðila og í umboði skráðs handhafa og eiganda allsherjarskuldabréfsins „Series C Senior Floating Rate Note“, merkt ISIN nr. US48632FAC59, hafi verið heimilt að lýsa kröfu vegna skuldabréfsins við slitameðferð Kaupþings banka hf., og að slitastjórn bankans hafi af þeirri ástæðu borið að hafna kröfu sóknaraðila. Er kröfu sóknaraðila því hafnað.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður málskostnaður felldur á sóknaraðila, og þykir hann hæfilega ákveðinn 2.000.000 króna til DBTCA, en 500.000 krónur til Kaupþings banka hf. Við ákvörðun málskostnaðar til DBTCA hefur að nokkru leyti verið tekið tillit til mikils útlagðs kostnaðar aðilans við öflun álitsgerða bandarískra lögmannsstofa.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfu sóknaraðila, Eyris Invest ehf., að fjárhæð 10.283.847,13 Bandaríkjadalir, sem lýst var við slitameðferð Kaupþings banka hf. á grundvelli skuldabréfsins „Series C Senior Floating Rate Note“, merkt ISIN nr. US48632FAC59, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðilanum, Deutsche Bank Trust Company Americas, 2.000.000 króna í málskostnað, en varnaraðilanum, Kaupþingi banka hf., 500.000 krónur.