Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-148
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Verksamningur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 2. maí 2019 leitar Jón Torfi Gylfason eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. apríl sama ár í málinu nr. 754/2018: Heilbrigðisstofnun Austurlands gegn Jóni Torfa Gylfasyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Heilbrigðisstofnun Austurlands leggst gegn beiðninni.
Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til greiðslu kröfu að fjárhæð 1.215.000 krónur sem hann kvað vera eftirstöðvar verklauna samkvæmt verksamningi sínum við gagnaðila um læknisstörf á tilteknu tímabili. Héraðsdómur tók kröfu leyfisbeiðanda til greina. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að leyfisbeiðanda hafi ekki tekist að sanna, gegn andmælum gagnaðila og skýru orðalagi samningsins um að greiðsla til leyfisbeiðanda skyldi nema tiltekinni fjárhæð fyrir hvern unninn sólarhring, að í honum hafi falist að greiðslur yrðu með sama hætti og við framkvæmd fyrri samnings milli aðila þannig að greitt yrði fyrir hvern almanaksdag á samningstímanum. Var gagnaðili því sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann til þess að ákvæði verksamningsins um verkkaup hafi verið túlkað með of ströngum hætti þar sem hvorki hafi verið litið til framkvæmdar fyrri verksamnings né forsendna leyfisbeiðanda við samningsgerð og væntinga hans um óbreytt verkkjör. Þá hafi niðurstaða málsins verulegt almennt gildi um túlkun samninga um vinnuframlag, einkum þegar nýr samningur leysir eldri samning af hólmi eða einstaklingur gerir verktakasamning við „stóran fagaðila.“ Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 3. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.