Hæstiréttur íslands
Mál nr. 242/2011
Lykilorð
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 8. desember 2011. |
|
Nr. 242/2011.
|
Ágústa Erna Hilmarsdóttir (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) gegn Kristni Zimsen og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald hrl.) |
Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur. Gjafsókn.
Á varð fyrir líkamstjóni í umferðarslysi. Við útreikning bóta fyrir varanlega örorku til hennar voru árslaun ákveðin sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og miðað við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu. Síðar kom í ljós að afleiðingar slyssins voru alvarlegri en talið var í fyrstu og krafðist hún því endurupptöku á ákvörðun um bætur fyrir varanlega miska og varanlega örorku með vísan til 11. gr. skaðabótalaga. Deildu aðilar annars vegar um hvaða árslaun skyldi leggja til grundvallar útreikningi bótanna og hins vegar hvort draga skyldi frá bótum greiðslur sem áfrýjandi ætti rétt á frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins. Hæstiréttur vísaði til þess að þar sem Á hefði verið á öðru ári náms í hjúkrunarfræði þegar ákvörðun árslauna hið fyrra sinni hefði farið fram hefði sú ákvörðun verið umfram skyldu ef miðað væri við dóma Hæstaréttar um árslaun í málum þar sem námsmenn hefðu átt í hlut. Þegar af þeirri ástæðu var ekki fallist á það með Á að miða ætti við önnur og hærri árslaun við endurákvörðun á bótum fyrir varanlega örorku hennar. Þá taldi Hæstiréttur að jafnframt hefði verið heimilt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að draga frá bótunum greiðslur þær sem S hf. gerði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 16. febrúar 2011. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 30. mars sama ár og áfrýjaði hún öðru sinni 20. apríl 2011 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess aðallega að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 6.921.243 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 4. mars 2000 til 17. nóvember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 16. október 2009 að fjárhæð 124.745 krónur og 14. október 2010 að fjárhæð 327.457 krónur. Til vara krefst áfrýjandi þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 3.941.141 krónu með sömu vöxtum og í aðalkröfu greinir og að frádregnum sömu fjárhæðum miðað við sömu innborgunardaga og þar er lýst. Að þessu frágengnu krefst áfrýjandi þess að stefndu verði óskipt dæmd til að greiða sér 3.173.688 krónur með sömu vöxtum og áður greinir og að frádregnum sömu innborgunum miðað við sömu innborgunardaga. Í öllum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að dómkröfur áfrýjanda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.
I
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram lenti áfrýjandi í umferðarslysi 4. október 1999, þar sem hún varð fyrir líkamstjóni. Ágreiningslaust er í málinu að stefndu bera bótaábyrgð á tjóni hennar. Tímabundnar og varanlegar afleiðingar slyssins fyrir áfrýjanda voru metnar 21. desember 2001 og voru batahvörf talin vera 4. mars 2000, varanlegur miski var metinn 12 stig og varanleg örorka 15%. Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. greiddi áfrýjanda bætur 24. mars 2002 í samræmi við metnar afleiðingar. Áfrýjandi var á öðru ári náms í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands þegar slysið varð. Við útreikning bóta fyrir varanlega örorku voru árslaun hennar metin sérstaklega og miðað við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga sem störfuðu hjá ríkinu. Ekki var gerður fyrirvari við uppgjörið eða einstaka þætti þess.
Afleiðingar slyssins reyndust alvarlegri fyrir áfrýjanda en talið var í framangreindu mati. Voru dómkvaddir tveir menn 4. maí 2007 til þess að meta hver væri þá varanlegur miski hennar og varanleg örorka er leiddi af umferðarslysinu. Í matsgerð 12. október 2007 töldu matsmennirnir varanlegan miska áfrýjanda vegna slyssins vera 30 stig og varanlega örorku 30%. Áfrýjandi krafðist af þessu tilefni og með vísan til 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 endurupptöku á fyrri ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku vegna slyssins. Stefndu féllust á kröfuna, en við endurákvörðun bóta fyrir varanlega örorku reis ágreiningur og er í máli þessu deilt um tvö atriði. Annars vegar um hvaða árslaun skyldi leggja til grundvallar útreikningi bótanna og hins vegar hvort draga skyldi frá bótum greiðslur sem áfrýjandi ætti rétt á frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hefur greitt áfrýjanda bætur fyrir varanlega örorku, eins og hún var metin 12. október 2007, og við uppgjör bótanna miðað árslaun við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga í starfi hjá ríkinu, eins og gert var í upphaflegu uppgjöri. Þá hefur félagið dregið frá greiðslur sem áfrýjandi á rétt á frá lífeyrissjóði og Tryggingastofnun ríkisins. Unir áfrýjandi þessu ekki og krefst þess að árslaun við útreikning bóta fyrir þá varanlegu örorku, sem við bættist, verði miðað við ,,meðalheildarlaun félagsmanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga“ og að ekki komi til frádráttar á bótum vegna greiðslna frá þriðja aðila, enda sé ekki sérstök heimild til slíks frádráttar í 11. gr. skaðabótalaga.
II
Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga er að kröfu tjónþola heimilt að taka upp að nýju ákvörðun um bætur fyrir varanlegan miska og varanlega örorku með þeim skilyrðum, sem þar eru tíunduð. Málsaðilar deila ekki um að þessum skilyrðum sé fullnægt í málinu. Í þessari grein skaðabótalaga er ekki að finna heimildir til endurupptöku bótaákvörðunar vegna líkamstjóns á öðrum forsendum eða endurákvörðun á öðrum bótaliðum, en þar er getið. Um skilyrði endurupptöku bótaákvörðunar utan þeirra tilvika, sem tiltekin eru í 11. gr. skaðabótalaga, gilda almennar reglur. Ekkert liggur fyrir um að skilyrðum endurupptöku samkvæmt þeim sé fullnægt í málinu. Við uppgjör bóta 24. mars 2002 voru árslaun áfrýjanda miðuð við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga í starfi hjá ríkinu þótt hún hefði á slysdegi nýverið hafið nám á öðru ári í hjúkrunarfræði. Var þessi ákvörðun árslauna umfram skyldu þegar miðað er við dóma Hæstaréttar um árslaun í málum þar sem námsmenn hafa átt í hlut til dæmis dóm í máli nr. 246/2006, sem birtur er á bls. 5676 í dómasafni réttarins það ár, og í máli nr. 20/2009 frá 1. október 2009. Þegar af þessari ástæðu verður ekki fallist á með áfrýjanda að miða hafi átt við önnur og hærri árslaun við endurákvörðun á bótum fyrir varanlega örorku hennar.
Fallist er á með héraðsdómi að við uppgjör á endurákvörðuðum bótum til áfrýjanda fyrir varanlega örorku hafi verið heimilt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga að draga frá þær greiðslur sem stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gerði.
Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði þar með talin þóknun lögmanns hennar eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður en gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Ágústu Ernu Hilmarsdóttur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Guðjóns Ólafs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 500.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. október sl. er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu þann 30. júní 2009.
Stefnandi er Ágústa Erna Hilmarsdóttir, Asparási 5, Garðabæ en stefndu eru Kristinn Zimsen, Furugerði 12, Reykjavík og Sjóvá-Almennar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 6.921.243 krónur, auk 4,5% vaxta frá 4. mars 2000 til 17. nóvember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 16. október 2009 að fjárhæð 124.745 krónum, og 14. október 2010 að fjárhæð 327.457 krónum.
Þá krefst stefnandi til vara að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 3.941.141 krónur, auk 4,5% vaxta frá 4. mars 2000 til 17. nóvember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 16. október 2009 að fjárhæð 124.745 krónum, og 14. október 2010 að fjárhæð 327.457 krónum.
Þrautavarakrafa stefnanda er að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 3.173.688 krónur, auk 4,5% vaxta frá 4. mars 2000 til 17. nóvember 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum 16. október 2009 að fjárhæð 124.745 krónum, og 14. október 2010 að fjárhæð 327.457 krónum.
Þá krefst stefnandi þess í öllum tilvikum að stefndu verði in solidum dæmd til greiðslu málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að sýkna beri stefndu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða þeim málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins.
Stefndu krefjast þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og að málskostnaður verði felldur niður.
Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dagsettu 10. maí 2007, var stefnanda veitt gjafsókn við rekstur máls til heimtu frekari bóta vegna afleiðinga umferðarslyss 4. október 1999. Takmarkaðist gjafsóknin við rekstur málsins fyrir héraðsdómi.
I.
Helstu málavextir eru þeir, að þann 4. október 1999 ók stefndi Kristinn Zimsen jeppabifreiðinni BL-844 aftan á bifreið stefnanda, með fastanúmerið MH-109, þar sem hún stóð kyrrstæð á Miklubraut í Reykjavík, við gatnamót Háaleitisbrautar. Bifreið stefnda Kristins var tryggð lögbundnum ábyrgðartryggingum hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Stefnandi slasaðist töluvert við áreksturinn. Með matsgerð, dagsettri 21. desember 2001, mátu Björn Daníelsson lögfræðingur og Júlíus Valsson læknir m.a. varanlegan miska stefnanda 12 stig og varanlega örorku 15%. Stöðugleikapunktur var talinn vera 4. mars 2000. Á grundvelli matsgerðarinnar greiddi stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hinn 24. janúar 2002 kr. 7.704.389 í skaðabætur til handa stefnanda, auk lögmannskostnaðar. Við uppgjörið varð samkomulag milli aðila um að miða árslaun vegna útreiknings bóta fyrir varanlega örorku við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga hjá ríkinu. Þáverandi lögmaður stefnanda kvittaði fyrir bótunum úr hendi stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. án fyrirvara.
Óumdeilt er að heilsu stefnanda hrakaði eftir að uppgjörið átti sér stað. Með bréfi, dagsettu 15. september 2004, óskaði þáverandi lögmaður hennar eftir því við stefnda Sjóvá-Almennar tryggingar hf., að mál stefnanda yrði endurupptekið þar sem verulegar líkur væru á því að miska- og örorkustig væru verulega hærri en áður var talið, sbr. 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefndi féllst ekki á að skilyrði til endurupptöku væru uppfyllt með þeim fyrirvara að ekki lægi fyrir nýlegt læknisvottorð um breytingar á heilsufari stefnanda. Krafan var ítrekuð með bréfi þáverandi lögmanns stefnanda til stefnda þann 25. október 2005 en án árangurs.
Með matsbeiðni, dagsettri 21. mars 2007, óskaði lögmaður stefnanda eftir því að dómkvaddir yrðu tveir hæfir og óvilhallir matsmenn til þess að meta varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda, með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hefðu á heilsu stefnanda. Voru Birgir G. Magnússon lögfræðingur og Torfi Magnússon, heila- og taugasjúkdómalæknir, dómkvaddir til starfans 4. maí 2007. Í matsgerð sinni, dagsettri 12. október 2007, mátu þeir varanlegan miska stefnanda af völdum ofangreinds slyss til 30 stiga og varanlega örorku 30%.
Með bréfi, dagsettu 17. október 2007, gerði lögmaður stefnanda þá kröfu, að stefnanda yrðu greiddar bætur í samræmi við niðurstöður matsgerðarinnar. Miðaðist kröfugerðin við mismuninn milli matsgerðarinnar frá 21. desember 2001 og matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna frá 12. október 2007. Var gerð krafa sem svaraði til 18 stiga miska og 15% varanlegrar örorku. Krafist var 9.941.424 króna í bætur fyrir varanlega örorku. Miðaðist sú kröfugerð við meðalheildarlaun hjúkrunarfræðinga í janúar, febrúar og mars 2007, sem námu á þeim tíma 4.751.320 krónum, en stefnandi útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá Háskóla Íslands vorið 2003. Þá var krafist 1.198.440 króna í bætur fyrir varanlegan miska.
Með tölvupósti, dagsettum 9. janúar 2008, gerði stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. tillögu að lokauppgjöri við stefnanda byggða á fyrirliggjandi matsgerð en með sama árslaunaviðmiði og náðst hafði samkomulag um í janúar 2002. Fékk stefnandi því greiddar 3.020.181 krónu í bætur fyrir varanlega örorku hinn 1. febrúar 2008. Af hálfu stefnanda var uppgjör bóta samþykkt með fyrirvara um upphæð viðmiðunarlauna við útreikning bóta fyrir varanlega örorku, svo og frádrátt frá bótum vegna varanlegrar örorku, bæði að því er varðaði rétt til frádráttar og útreikning.
Í málinu liggur fyrir útreikningur Steinunnar Guðjónsdóttur tryggingastærðfræðings, dagsettur 20. desember 2007, á eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris stefnanda í samræmi við 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Var við þann útreikning miðað við að svonefndur stöðugleikapunktur væri 4. mars 2000 og var jafnframt reiknað með 4,05% ársafvöxtun. Að ósk stefnanda reiknaði Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur eingreiðsluverðmæti bótagreiðslnanna miðað við upplýsingar úr framangreindum útreikningi Steinunnar Guðjónsdóttur og annars vegar 4,05% ársafvöxtun en hins vegar 4,50% ársafvöxtun. Er útreikningur Bjarna Guðmundssonar dagsettur 16. janúar 2009. Af framlögðum tölvupósti stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. til lögmanns stefnanda, dagsettum 28. september 2009, kemur fram að stefndi fallist á að miða eigi við 4,5% ársafvöxtun en ekki 4,05% eins og hann hafði áður reiknað með. Hafði hann þá fengið nýjan útreikning Steinunnar Guðjónsdóttur á þessum forsendum 24. sama mánaðar. Hinn 16. október 2009 greiddi stefndi stefnanda 124.745 krónur í samræmi við hinn nýja útreikning að viðbættum vöxtum til greiðsludags.
Af hálfu stefnanda var þann 14. september sl. óskað eftir dómkvaðningu matsmanns til að meta eingreiðsluverðmæti greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og þær fjárhæðir, sem mögulega kynnu að koma til frádráttar kröfum stefnanda í málinu. Var Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur kvaddur til starfans og er matsgerð hans dagsett 8. október 2010. Við upphaf aðalmeðferðar málsins hér fyrir dóminum var eftirfarandi bókað eftir lögmönnum aðila: „Aðilar eru sammála um að úrlausn málsins skuli miðast við niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns á dskj. nr. 26. Að svo miklu leyti sem eingreiðsluverðmæti greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins kunni að koma til frádráttar skaðabótakröfu stefnanda, skuli því miða við 2.923.937 krónur, sbr. svar við 2. matslið. Enn fremur skuli, ef talið verður að eingreiðsluverðmæti frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda eigi að koma til frádráttar skaðabótakröfu stefnanda, miða við 56.165 krónur, sbr. svar við matslið 4b. Eru aðilar því sammála um að miða skuli eingreiðsluverðmæti greiðslna til stefnanda við það tímamark sem greiðslur hófust, þ.e. í júní 2003“.
III.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína í fyrsta lagi á skaðabótaskyldu stefndu. Stefndi Kristinn hafi verið eigandi bifreiðar þeirrar, sem ekið var aftan á bifreið stefnanda greint sinn. Hvíli sú skylda á stefnda Kristni að bæta stefnanda það tjón sem hlaust af notkun bifreiðarinnar, sbr. 1. mgr. 88. gr. og 1. mgr. 90. gr. skaðabótalaga nr. 50/1987. Bifreiðin hafi verið tryggð lögbundnum ábyrgðartryggingum hjá stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf., sbr. 91. gr. sömu laga, og sé félagið greiðsluskylt gagnvart stefnanda, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna. Sé kröfum stefnanda beint að báðum stefndu in solidum, sbr. 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga, en ekki sé ágreiningur í málinu um skaðabótaskyldu stefndu.
Krafa stefnanda um bætur fyrir varanlega örorku miðist við að árslaun hennar verði metin sérstaklega, sbr. 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Stefnandi hafi verið á öðru ári í hjúkrunarfræði þegar hún slasaðist. Þrátt fyrir afleiðingar slyssins hafi henni tekist að ljúka prófi og útskrifast sem hjúkrunarfræðingur vorið 2003. Stefnandi hafi síðan starfað, eins og heilsa hennar leyfði, í hlutastarfi sem hjúkrunarfræðingur fram til ársins 2005, en varð þá endanlega að láta af því starfi vegna heilsuleysis.
Stefnandi telur að meðalheildarlaun félagsmanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga gefi rétta mynd af því, hverjar tekjur hennar hefðu orðið ef ekki hefði komið til umrædds slyss og beri því að nota þau sem mælikvarða við ákvörðun bóta nú. Telur stefnandi að full ástæða sé til að meta árslaun hennar sérstaklega til ákvörðunar bóta henni til handa fyrir varanlega örorku.
Af hálfu stefnanda sé því mótmælt að hún sé, við endurupptöku málsins, bundin við þau árslaun, sem samkomulag varð um í janúar 2002, að miða bætur hennar við. Þegar umrætt slys varð hafði stefnandi lokið einu ári í háskólanámi og því ekki útséð hvort hún myndi ljúka námi. Við ákvörðun bóta nú sé hins vegar til þess að líta, að stefnandi hafi lokið hjúkrunarfræðinámi og að auki um tveggja ára skeið reynt, eftir því sem heilsa hennar leyfði, að starfa við það fag sem hún hafði menntað sig til. Verði við ákvörðun bóta nú að meta sjálfstætt út frá menntun stefnanda og atvinnusögu hverjar tekjur hennar hefðu orðið, hefði hún ekki orðið fyrir umræddu bílslysi. Ljóst sé, að stefnandi hafði um langt skeið átt sér draum um að verða hjúkrunarfræðingur og lagt hart að sér við að ljúka því námi, sem hún hafði nýhafið þegar hún slasaðist, auk þess sem stefnandi hafi gert sitt ítrasta til að vinna við fagið. Þrátt fyrir að vera kunni að ekki hafi þótt ástæða til að miða að fullu við árslaun hjúkrunarfræðinga við ákvörðun bóta í janúar 2002, í ljósi þess að stefnandi hafði nýhafið nám þegar slys varð og óljóst var hvort hún næði að ljúka því, hefðu aðstæður samkvæmt framansögðu breyst hvað það varðar. Verði ekki hjá því litið að stefnandi aflaði sér réttinda til að starfa sem hjúkrunarfræðingur og beri því að ákvarða stefnanda bætur með hliðsjón af þeim tekjum sem hún hefði fengið ef hún hefði starfað sem hjúkrunarfræðingur eins og hugur hennar stóð til.
Samkvæmt upplýsingum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga hafi heildarlaun hjúkrunarfræðinga að meðaltali numið 407.275 krónum í janúar 2007, 386.281 krónum í febrúar og 394.274 krónum í mars það ár. Hafi meðallaun þeirra því numið 395.943 krónum á mánuði eða 4.751.320 krónum á ári. Hafi verið um nýjustu upplýsingar að ræða þegar stefnandi setti fram kröfu sína 17. október 2007. Miðist krafa stefnanda við þessi árslaun og telji stefnandi að örorkubætur hennar hefðu með réttu átt að vera 9.941.424 krónur en ekki 6.193.869 krónur eins og fram kom í uppgjöri, dagsettu 1. febrúar 2008.
Við uppgjör bóta til stefnanda 1. febrúar 2008 hafi verið dregnar 3.173.688 krónur frá bótum hennar fyrir varanlega örorku á grundvelli þágildandi 4. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1993. Hafi sú fjárhæð miðast við útreikninga tryggingafræðings stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf., dagsetta 20. desember 2007. Af hálfu stefnanda hafi verið gerður fyrirvari við nefndan frádrátt.
Stefnandi telji að þágildandi 4. mgr. 5. gr. eigi ekki við um þau tilvik þegar ákvörðun um örorkubætur er endurupptekin á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga, heldur eingöngu þegar bætur eru upphaflega ákvarðaðar á grundvelli 5.-7. gr. laganna. Sé og í engu að þessu vikið í 11. gr. eins og eðlilegt hefði verið, ef ætlun löggjafans hefði verið sú að skerða bætur við endurupptöku máls. Sé þá einnig til þess að líta að fjölmörg ár geti liðið frá ákvörðun bóta fram að endurupptöku máls. Á þeim tíma hafi tjónþoli fengið örorkulífeyri og greiðslur úr lífeyrissjóði sér til lífsviðurværis. Sé ljóst að viðbótarbætur, sem tjónþoli ætti rétt á við endurupptöku ákvörðunar um bætur, gætu hæglega orðið að engu ef fallist yrði á að sá lífeyrir kæmi til frádráttar greiddum bótum til tjónþola. Telji stefnandi annan skilning í andstöðu við tilgang 11. gr. laga nr. 50/1993 og laganna í heild sinni. Þá brjóti slík túlkun og framkvæmd laganna gegn 65., 72. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Samkvæmt framansögðu telji stefnandi að ólögmætt hafi verið að draga frá bótum hans greiðslur frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda og Tryggingastofnun eins og gert var.
Samkvæmt framansögðu byggir stefnandi á því að hún eigi rétt til óskertra bóta reiknuðum út frá meðalheildarlaunum félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga í janúar, febrúar og mars 2007 eins og fyrr var rakið, þ.e. 9.941.424 krónur. Til frádráttar komi sú fjárhæð, sem stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. greiddi 1. febrúar 2008, 3.020.181 krónur. Sé því gerð krafa um mismuninn að fjárhæð 6.921.243 krónur. Krafist sé 4,5% vaxta, sbr. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, frá stöðugleikapunkti eða upphafstíma metinnar örorku samkvæmt 5. gr. laganna, sem var 4. mars 2000. Krafist sé dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 17. nóvember 2007, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að lögmaður stefnanda setti fram kröfu um bætur fyrir varanlega örorku.
Varakrafa stefnanda miðast við, að þótt ekki verði fallist á málsástæðu hennar um að lífeyrissjóðsgreiðslur og örorkulífeyrir komi ekki til frádráttar kröfu um bætur fyrir varanlega örorku, verði árslaun hennar eftir sem áður ákvörðuð sérstaklega, sbr. umfjöllun í aðalkröfu. Samkvæmt útreikningum tryggingastærðfræðings, dagsettum 16. janúar 2009, reiknist eingreiðsluverðmæti lífeyrissjóðsgreiðslna miðað við 4,5% ársafvöxtun. Skipti þar mestu að stefnandi fékk fyrst greiddan örorkulífeyri úr áðurnefndum sjóði í júní 2003 en ekki í mars 2000 eins og útreikningar stefnda hafi miðast við.
Eins og áður er rakið, óskuðu lögmenn aðila eftir því í upphafi aðalmeðferðar málsins, að bókað yrði að þeir væru sammála um að úrlausn máls þessa skyldi miðast við niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns þannig, að að svo miklu leyti sem eingreiðsluverðmæti greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins kynni að koma til frádráttar skaðabótakröfu stefnanda, skyldi miða við 2.923.937 krónur, og ef talið yrði að eingreiðsluverðmæti frá Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda ætti að koma til frádráttar skaðabótakröfu stefnanda, skyldi miða við 56.165 krónur. Voru aðilar því sammála um að miða skyldi eingreiðsluverðmæti greiðslna til stefnanda við það tímamark sem greiðslur hófust, þ.e. í júní 2003. Hafa greiðslur stefnda Sjóvár-Almennra trygginga hf. til stefnanda tekið mið af þessu og hafa lögmenn aðila lýst því yfir að ekki sé tölulegur ágreiningur í málinu.
Þrautavarakrafa stefnanda miðast við að hún hafi átt rétt á óskertum bótum fyrir varanlega örorku eins og stefndi Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafði reiknað þær út miðað við þau viðmiðunarlaun, sem notuð voru við ákvörðun bóta til stefnanda 24. janúar 2002. Nemi sú fjárhæð 6.193.869 krónum. Til frádráttar þeirri fjárhæð komi þær greiðslur, sem stefndi hefur síðan innt af hendi, og standi þá eftir 3.173.688 krónur, sem sé fjárhæð þrautavarakröfu stefnanda.
Um lagarök vísar stefnandi til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 5.7., 11. og 16. gr. Jafnframt er vísað til ákvæða 65., 72. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 og málskostnaðarkröfu sína styður stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á því, að tjón stefnanda hafi verið að fullu bætt. Uppgjörið miðist við rétt viðmiðunarlaun og frádráttur frá bótum vegna varanlegrar örorku sé í samræmi við 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Að mati stefndu beri að líta til þeirra viðmiðunarlauna sem miðað var við þegar upphaflegt uppgjör vegna líkamstjóns hennar fór fram þann 24. janúar 2002. Á því tímamarki sé óumdeilt að samkomulag var milli málsaðila um að miða útreikning bóta vegna varanlegrar örorku við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga sem námu þá 2.960.033 krónum. Stefnandi hafi verið á öðru ári í námi í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands þegar slysið átti sér stað og því ljóst að námslok voru ekki fyrirsjáanleg. Aðilar hafi aftur á móti náð samkomulagi um fyrrgreint árslaunaviðmið. Sé ljóst að uppgjöri var lokið á þessum grundvelli, enda enginn fyrirvari gerður við launaviðmiðið eða önnur atriði uppgjörsins af hálfu stefnanda.
Stefndu byggja á því að stefnandi sé bundin við uppgjörið að því er varðar launaviðmið við útreikning bóta vegna varanlegrar örorku, samanber meginreglu kröfuréttar, sem hefur verið staðfest í fjölda dóma, um að uppgjör án fyrirvara séu bindandi fyrir samningsaðila. Geti stefnandi því ekki gert kröfu um að bætur vegna varanlegrar örorku séu nú miðaðar við annað launaviðmið, enda hafi komist á bindandi samkomulag um þennan þátt með uppgjörinu 1. febrúar 2002. Telji stefndu að þegar af þeirri ástæðu sé ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda um að miðað verði við annað launaviðmið.
Þá telji stefndu, að 11. gr. skaðabótalaga feli ekki í sér heimild til að víkja frá því launaviðmiði, sem upphaflegt uppgjör bóta vegna varanlegrar örorku var byggt á. Þannig telji stefndu að ákvæðið feli eingöngu í sér heimild til að greiða bætur í ljósi aukins örorkustigs á sama grundvelli og upphaflega var gert. Með endurupptöku ákvörðunar bóta vegna varanlegrar örorku sé í raun verið að leiðrétta það uppgjör, sem áður fór fram, þar sem komið hafi í ljós að örorkustig er verulega hærra en áður var talið. Hins vegar telji stefndu að ekki sé gert ráð fyrir að forsendum fyrra uppgjörs verði breytt að öðru leyti, enda beri eingöngu að taka tillit til breytinga á heilsufari tjónþola en ekki atriða á borð við framvindu viðkomandi í námi, svo sem stefnandi virðist telja.
Verði ekki fallist á að hafna beri kröfu stefnanda á grundvelli framangreindra röksemda, sé byggt á því að hvað sem öðru líði séu ekki skilyrði til að beita 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þannig að miðað sé við meðalheildarlaun félagsmanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Við mat á því hvort beita beri undantekningarreglunni, beri að miða við aðstæður stefnanda á slysdegi, en ekki taka mið af aðstæðum hennar síðar eða breytingum sem kunna að hafa orðið á þeim. Telja stefndu að það fái ekki staðist að líta til þess að stefnandi hafi nú lokið háskólanámi sem hjúkrunarfræðingur, enda beri eingöngu að líta til aðstæðna hennar á slysdegi.
Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verði ráðið, að þegar tjónþoli sé við nám þegar slys ber að höndum, sé aðeins heimilt að beita undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga ef námslok eru fyrirsjáanleg. Stefndu telji ljóst að stefnandi hafi á slysdegi ekki verið kominn það langt á veg í námi sínu að hún hafi verið búin að marka sér ákveðinn starfsvettvang þannig að námslok hafi verið fyrirséð, enda hefði hún eingöngu lokið einu ári í hjúkrunarfræðinámi. Samkvæmt þessu fari því fjarri að námslok hennar hafi verið fyrirsjáanleg á slysdegi. Telji stefndu því að hvað sem öðru líði séu ekki efni til að verða við kröfu stefnanda um önnur viðmiðunarlaun en hér hafi verið miðað við.
Að því er varðar heimild til frádráttar frá bótum vegna varanlegrar örorku, byggja stefndu á því, að heimilt hafi verið að beita ákvæðum 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga með þeim hætti sem gert var við bótauppgjörið 1. febrúar 2008. Ákvæðið eigi við þegar um endurupptöku bótaákvörðunar er að ræða á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga, líkt og þegar um er að ræða upphaflegt bótauppgjör. Þeirri röksemd stefnanda að það hefði þurft að vísa sérstaklega til 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga 11. gr. laganna til að heimilt sé að beita frádráttarákvæðinu, sé því harðlega mótmælt.
Að mati stefndu sé 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga almennt ákvæði sem eigi við í öllum tilvikum þegar bætur eru greiddar vegna varanlegrar örorku, enda beri orðalag ákvæðisins það með sér. Önnur niðurstaða væri jafnframt ekki í samræmi við tilgang ákvæðisins og skaðabótalaga í heild sinni, en ákvæðið sé byggt á þeirri meginreglu skaðabótaréttar að eingöngu skuli bæta það tjón sem tjónþoli hafi í raun orðið fyrir vegna bótaskylds atburðar og að ekki skuli bæta sama tjón tvívegis. Nánar tiltekið komi fram í athugasemdum í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 37/1999, að margföldunarstuðull 5. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðinu var breytt með þessum lögum, sé þess eðlis að hann meti heildartekjutap tjónþola vegna varanlegrar örorku. Vegna þessa beri að draga frá hinni reiknuðu bótakröfu greiðslur af félagslegum toga frá þriðja manni, vegna örorkunnar, enda myndu bætur til tjónþola að öðrum kosti vera hærri en raunverulegt fjártjón hans. Sé markmið 4. mgr. 5. gr. þannig að tryggja að tjónþoli fái eingöngu raunverulegt tjón sitt bætt.
Þá liggi fyrir að vegna aukningar á mati varanlegrar örorku stefnanda, eigi hún nú rétt á örorkulífeyri frá lífeyrissjóði, svo og greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Slíkar greiðslur beri að draga með nánar tilgreindum hætti frá bótum vegna varanlegrar örorku samkvæmt skýru orðlagi 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga.
Taka stefndu fram, að frádráttur frá bótum vegna varanlegrar örorku hafi ekki átt sér stað á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga við upphaflegt bótauppgjör til handa stefnanda 24. janúar 2002, enda ekki uppfyllt skilyrði til þess. Hins vegar hafi verið skylt að beita ákvæðinu við uppgjör vegna aukinnar örorku og hafi það verið gert í samræmi við framlagðan útreikning tryggingastærðfræðings.
Stefndu mótmæla því að framangreindur skilningur sé í andstöðu við tilgang laga nr. 50/1993, svo og 65. gr., 72. gr. og 76. gr. stjórnarskrárinnar. Frádrættinum hafi verið hagað í samræmi við 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga og hafi því verið slegið föstu af Hæstarétti að frádráttarregla þessi sé í samræmi við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæði 72. gr. hennar um eignarvernd, samanber til dæmis dóm Hæstaréttar í máli númer 520/2002. Þá fái stefndu ekki séð hvernig frádrátturinn brjóti í bága við 76. gr. stjórnarskrárinnar og mótmæla því.
Stefndu mótmæla því að nota eigi önnur viðmiðunarlaun en samið var um við upphaflegt bótauppgjör. Aðalkrafa stefnanda sé byggð á ofangreindum viðmiðunarlaunum og því að frádráttur á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga hafi verið með öllu óheimill. Þessari kröfu er mótmælt með vísan til fyrrgreindra röksemda.
Að því er varakröfu stefndu varðar, hafa stefndu fallist á að miða beri útreikning við 4,5% ársafvöxtun og telja þeir stefnanda hafa fengið greiðslu í samræmi við það. Þá varð, eins og áður er komið fram, gerð sameiginleg bókun af hálfu aðila við upphaf aðalmeðferðar málsins þar sem fram kemur m.a. að rétt sé að miða við það tímamark sem greiðslur hófust, þ.e. í júní 2003.
Stefndu mótmæla þrautavarakröfu stefnanda með vísan til framangreindra röksemda fyrir því að frádráttur hafi verið heimill.
Loks er kröfu um dráttarvexti frá fyrra degi en dómsuppsögudegi mótmælt.
Um lagarök vísa stefndu einkum til skaðabótalaga nr. 50/1993 og meginreglna samningaréttar. Um vexti er vísað til 16. gr. skaðabótalaga og laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V.
Ekki er ágreiningur í málinu um bótaskyldu, örorkustig, stuðul við útreikning bóta eða tölulegan útreikning að neinu leyti. Aftur á móti lýtur ágreiningur aðila annars vegar að því, hvaða árslaunaviðmið skuli nota við ákvörðun bóta til stefnanda fyrir varanlega örorku, og hins vegar um hvort heimild sé til frádráttar frá ákvörðuðum bótum á grundvelli 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Stefnandi byggir á því, að við ákvörðun skaðabóta til hennar vegna umrædds slyss hefði átt að miða við meðalheildarlaun félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og vísar þar um til ákvæða 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Vísar hún til þess, að þótt ekki hafi við slysið verið útséð um að hún kláraði nám sitt, sé við ákvörðun bóta nú ljóst að hún lauk hjúkrunarfræðinámi sínu og vann við fagið eftir það. Verði því við ákvörðun bóta nú að meta sjálfstætt út frá menntun hennar og atvinnusögu hverjar tekjur hennar hefðu orðið hefði hún ekki orðið fyrir umræddu slysi. Sé ekki hægt að búa við mat frá 2001 að þessu leyti. Þessu hafa stefndu mótmælt og vísa til þess að samkomulag milli málsaðila um fullnaðarbætur 1. febrúar 2002 hafi verið bindandi að því er varðar árslaunaviðmið. Þar hafi verið samið um að miða útreikning bóta vegna varanlegrar örorku við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga og engir fyrirvarar gerðir við samkomulagið. Þá benda stefndu á að endurupptökuákvæðið 11. gr. skaðabótalaga feli ekki í sér heimild til að víkja frá upphaflegu umsömdu launaviðmiði.
Í málinu er óumdeilt að stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiddi stefnanda bætur vegna slyssins og að ekki voru gerðar athugasemdir við uppgjörið af hennar hálfu. Var þar miðað við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga. Er fallist á það með stefndu, að við þetta hafi stefnandi verið bundin. Endurupptaka málsins samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga fól ekki í sér heimild til þess að víkja frá því launaviðmiði, sem áður hafði verið gert bindandi samkomulag um, enda lýtur ákvæðið samkvæmt efni sínu einungis að endurmati á miska- eða örorkustigi vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á heilsu tjónþola en ekki grundvelli málsins að öðru leyti.
Óumdeilt er að stefnandi var á öðru ári í hjúkrunarfræðinámi þegar umrætt slys varð. Þá er óumdeilt að hún lauk náminu og brautskráðist sem hjúkrunarfræðingur vorið 2003. Hún starfaði síðan, eins og heilsa hennar leyfði, í hlutastarfi sem hjúkrunarfræðingur fram til ársins 2005 þegar hún varð að hætta störfum vegna heilsubrests. Þegar litið er til þess, hversu skammt stefnandi var á veg komin í námi sínu, verður ekki fallist á það með stefnanda að skilyrði séu til að beita undantekningarreglu 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga í máli þessu. Námslok hennar voru ekki fyrirsjáanleg í skilningi ákvæðisins þegar slysið varð og því ber hér að beita meginreglu 3. mgr. 7. gr. eins og gert hefur verið við uppgjör bóta stefnanda til handa.
Að því er varðar ágreining aðila um frádrátt frá bótum fyrir varanlega örorku byggir stefnandi kröfur sínar á því, að ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga eigi ekki við um þau tilvik þegar ákvörðun um örorkubætur er endurupptekin á grundvelli 11. gr. skaðabótalaga, heldur eingöngu þegar bætur eru upphaflega ákvarðaðar á grundvelli 5.-7. gr. laganna. Þegar litið er til þeirra meginreglna skaðabótaréttar, að tjónþoli eigi eingöngu að fá raunverulegt tjón sitt bætt og að sama tjón verði ekki bætt tvívegis, verður ekki fallist á þessa málsástæðu stefnanda. Þar sem örorka stefnanda hefur verið metin hærri en áður var, á hún rétt á örorkulífeyri frá lífeyrissjóði og greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Ákvæði 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga kveða með skýrum hætti á um það, að slíkar greiðslur beri að draga frá bótum vegna varanlegrar örorku með nánar tilgreindum hætti. Er óumdeilt að uppgjör stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., vegna tjóns stefnanda var við þessi ákvæði miðuð en eins og áður er fram komið er ekki tölulegur ágreiningur í málinu. Stefndu hafa mótmælt þeirri málsástæðu stefnanda, að framangreind tilhögun frádráttar brjóti gegn 65., 72. og 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Þessi málsástæða er engum rökum studd í stefnu og hefur stefnandi með engu móti sýnt fram á að svo sé.
Aðalkrafa stefnanda er reist á því að við uppgjör bóta til stefnanda hefði átt að miða við meðalheildarlaun hjúkrunarfræðinga án frádráttar samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Í varakröfu er tekið mið af sömu launaviðmiðun en með frádrætti eins og gert var við uppgjör bótanna. Í þrautavarakröfunni er miðað við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga eins og gert var við uppgjörið en að frádregnum þeim greiðslum, sem stefndi, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., hefur þegar greitt stefnanda. Eins og að framan er rakið, er það niðurstaða dómsins um að við uppgjör bóta til handa stefnanda hafi verið rétt að miða við byrjunarlaun hjúkrunarfræðinga og þá hefur verið fallist á frádrátt samkvæmt 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Óumdeilt er að uppgjör við stefnanda var í samræmi við þessa niðurstöðu. Að þessu virtu og þegar litið er til þess að enginn tölulegur ágreiningur er í málinu, verður þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl., 950.000 krónur.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Uppkvaðning dóms þessa hefur dregist vegna embættisanna dómarans.
D Ó M S O R Ð
Stefndu, Kristinn Zimsen og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., eru sýknaðir af kröfum stefnanda, Ágústu Ernu Hilmarsdóttur, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin laun lögmanns hennar, Guðjóns Ólafs Jónssonar hrl. 950.000 krónur.