Hæstiréttur íslands

Mál nr. 439/2008


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Matsgerð
  • Gjafsókn


Miðvikudaginn 20

 

Miðvikudaginn 20. maí 2009.

Nr. 439/2008.

Hanna Gunnur Sveinsdóttir

(Þorsteinn Hjaltason hdl.)

gegn

Vigni Arnari Ingþórssyni

(Kristín Edwald hrl.)

 

Líkamsárás. Líkamstjón. Skaðabætur. Matsgerð. Gjafsókn.

H varð fyrir því að fá högg á bakið er hún var við störf á skemmtistað. Taldi hún V hafa sparkað í sig. Höfðaði hún mál gegn honum og krafðist bóta vegna varanlegra afleiðinga árásarinnar. Talið var sannað að V hafi af ásetningi sparkað í bak H á vinnustað hennar með þeim afleiðingum að hún hafi fallið fram fyrir sig og rekið hnéð í borðbrún. Við meðferð málsins í héraði voru dómkvaddir tveir matsmenn sem töldu þau einkenni sem H hefði að mestu vera vegna sjúkdóms, en töldu varanlegan miska vegna árásarinnar vera 5 stig og varanlega örorku 5%. Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, taldi að varanlegt tjón H yrði að engu leyti rakið til verknaðar V og sýknaði hann af kröfu H. Eftir uppkvaðningu héraðsdóms var aflað yfirmats þriggja dómkvaddra matsmanna. Var niðurstaða þeirra samhljóða mati undirmatsmanna. Talið var að ekkert hafi komið fram sem hnekkti sönnunarmati yfirmatsgerðarinnar. Að henni virtri og með því að sýnt hafði verið fram á saknæman verknað V í garð H yrði að líta svo á að nægilega væri í ljós leitt að H hafi hlotið þann varanlega miska og örorku af líkamsárás V sem dómkvaddir matsmenn hefðu komist að niðurstöðu um. Var V því dæmdur til greiðslu bóta til H.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. ágúst 2008. Hún krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.292.212 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. október 2001 aðallega til 2. apríl 2005 og til vara 29. október sama ár, en upp frá því með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt á báðum dómstigum.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

I

Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á Akureyri var hún kvödd að skemmtistaðnum Við Pollinn aðfaranótt sunnudagsins 3. desember 2000 sökum þess að ráðist hafi verið á áfrýjanda, sem þar starfaði. Haft var eftir áfrýjanda að stefndi, sem hafi verið gestur á staðnum, hafi sparkað í bak hennar rétt undir vinstra herðablaði, en við það hafi hún fallið fram og misst úr höndunum bakka fullan af glösum. Í skýrslunni sagði að stefndi hafi virst mjög mikið drukkinn og sagst ekkert vita eða vilja tjá sig, verið þrasgjarn og snúið út úr við lögreglu. Áfrýjandi leitaði til læknis á sjúkrahúsi sama dag. Í læknabréfi var haft eftir henni að hún hafi fengið fót stefnda á sig vinstra megin við brjósthrygg og töluverðan hnykk á bakið. Við skoðun hafi hún fundið fyrir eymslum í baki ásamt stirðleika og doðatilfinningu niður í vinstri griplim, auk þess að vera aum við þreifingu yfir vöðvum vinstra megin við brjósthrygg. Samkvæmt gögnum málsins hafði áfrýjandi um árabil fyrir þennan atburð leitað lækninga vegna verkja í baki. Eftir þetta sótti hún læknismeðferð í febrúar 2001 vegna vöðvaverkja í hnakka og eymsla í hnakkafestum, en í september sama ár vegna verks í miðju baki og fékk þá tilvísun í sjúkraþjálfun. Síðar á sama ári leitaði hún enn til læknis vegna verkja víða í stoðkerfi frá mjöðm upp í háls, en vorið 2003 mun hún hafa látið af störfum utan heimilis af þessum sökum. Með bréfi til stefnda 20. maí 2003 greindi lögmaður áfrýjanda frá því að vegna fyrrgreinds atviks byggi hún við varanlega örorku, sem stefndi bæri ábyrgð á, en óumdeilt virðist að þessu hafi ekki verið hreyft við hann fyrr.

Í hinum áfrýjaða dómi er rakin matsgerð tveggja manna, sem áfrýjandi fékk dómkvadda undir rekstri málsins í héraði. Héraðsdómur, sem skipaður var tveimur sérfræðingum í bæklunarlækningum, komst að þeirri niðurstöðu að lagt yrði til grundvallar að stefndi hafi slengt fæti sínum af ásetningi í bak áfrýjanda, sem þá hafi fallið fram fyrir sig. Á hinn bóginn var talið að höggið hafi verið tiltölulega kraftlítið og færi engum sögum af mari á höggstað eða beinbroti. Einkenni áfrýjanda yrðu að óverulegu leyti eða alls engu rakin til þessa atviks, enda virtist hafa verið um lítinn áverka að ræða og útilokað að hann gæti verið orsakavaldur svo að máli skipti fyrir heilsufar áfrýjanda. Með því að þessi áverki var ekki talinn hafa valdið varanlegum miska eða varanlegri örorku áfrýjanda var stefndi sýknaður af kröfu hennar.

Eftir uppkvaðningu héraðsdóms fékk áfrýjandi 10. september 2008 dómkvadda þrjá yfirmatsmenn til að meta þau atriði, sem áðurnefnd undirmatsgerð tók til, og hefur yfirmatsgerð frá 24. nóvember sama ár verið lögð fyrir Hæstarétt. Í henni er meðal annars vísað til þess að bæði í örorkumati frá 4. nóvember 2004, sem áfrýjandi aflaði fyrir höfðun málsins, og matsgerð dómkvaddra manna 23. nóvember 2007 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að aðeins mætti rekja hluta einkenna áfrýjanda í baki til líkamsárásar 3. desember 2000 og væru yfirmatsmenn sammála því. Í yfirmatsgerðinni var þetta skýrt frekar með eftirfarandi hætti: „Við mat á orsakasambandi milli atviks og einkenna telja yfirmatsmenn mestu máli skipta að einkennum sé lýst í frumgögnum svo sem lögregluskýrslu og/eða læknisskoðun í beinu framhaldi af atviki og að slysatburður sé þannig að hann geti skýrt einkenni. Um er að ræða atvik sem matsmenn telja líkleg til að valda skaða og eftir atvikum varanlegum einkennum. Um er að ræða spark í bak sem veldur því að yfirmatsbeiðandi féll við. Matsbeiðandi lýsir þessu sem allmiklu höggi og telja matsmenn líklegt að svo hafi verið þar sem hún féll við. Hún leitar síðan til læknis í beinu framhaldi af slysinu og er þá staðfest af lækni að um hafi verið að ræða óþægindi í brjóstbaki. Matsmenn telja því meiri líkur en minni fyrir því að rekja megi einkenni til líkamsárásarinnar. Þau einkenni sem um ræðir og lýst er í upphafi benda til mar- og eða tognunaráverka á brjóstbak en öðrum einkennum er ekki lýst í frumgögnum.“ Með svörum við sex tilgreindum spurningum lýstu yfirmatsmenn sig sammála niðurstöðum í undirmatsgerð um líkamstjón áfrýjanda, sem rekja mætti til þessa atviks, þar á meðal að hún hafi af þessu hlotið 5% varanlega örorku, svo og varanlegan miska, sem metinn yrði til 5 stiga.

II

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður að telja sannað að stefndi hafi af ásetningi sparkað í bak áfrýjanda á vinnustað hennar 3. desember 2000 með þeim afleiðingum að hún hafi fallið fram fyrir sig.

Héraðsdómur, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, komst sem fyrr segir að þeirri niðurstöðu gagnstætt áliti tveggja dómkvaddra matsmanna að varanlegt tjón áfrýjanda yrði að engu leyti rakið til þessa verknaðar stefnda. Í yfirmatsgerð, sem áfrýjandi aflaði að fenginni þeirri niðurstöðu, er tekin eindregnari afstaða til orsakatengsla en gert var í undirmatsgerð og litið svo á að „meiri líkur en minni“ séu fyrir því að rekja megi varanlegt heilsutjón áfrýjanda að fyrrgreindum hluta til „mar- og eða tognunaráverka á brjóstbak“, sem hún hafi hlotið af líkamsárás stefnda. Ekki eru efni til að fallast á með stefnda að þessi niðurstaða yfirmatsmanna stangist á við gögn úr sjúkraskýrslum áfrýjanda, sem geta ekki um sýnilega áverka á baki hennar eftir árás hans, enda snýr umfjöllun í yfirmatsgerð að þessu leyti að áverkum á vöðvum í baki. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti andmælti stefndi jafnframt yfirmatsgerðinni með vísan til þess að matsmenn hafi ekki komið fyrir dóm til að staðfesta hana og svara spurningum um efni hennar. Samkvæmt ákvæðum IX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er sönnunargildi matsgerðar ekki háð því að málsaðili, sem á henni byggir, leiði matsmann fyrir dóm til að staðfesta hana. Hafi stefndi talið efni til að leita nánari skýringa yfirmatsmanna á niðurstöðum þeirra var honum í lófa lagið að krefjast þess sjálfur að þeir kæmu fyrir héraðsdóm til skýrslugjafar, en það lét hann ógert. Er því ekkert fram komið sem hnekkir sönnunargildi yfirmatsgerðarinnar. Að henni virtri og með því að sýnt hefur verið fram á saknæman verknað stefnda í garð áfrýjanda verður að líta svo á að nægilega sé í ljós leitt að hún hafi hlotið þann varanlega miska og örorku af líkamsárás stefnda, sem dómkvaddir matsmenn hafa komist að niðurstöðu um. Ekki er ágreiningur um fjárhæð dómkröfu áfrýjanda, sem tekur mið af þessum matsgerðum. Með því að varakrafa stefnda um lækkun á kröfu áfrýjanda er ekki studd haldbærum rökum verður honum gert að greiða þá kröfu með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Stefndi verður dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi og rennur í ríkissjóð, eins og í dómsorði greinir.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda á báðum dómstigum greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal málflutningsþóknun lögmanns hennar í héraði, sem er hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, og þóknun lögmannsins fyrir flutning málsins fyrir Hæstarétti, sem ákveðin er eins og í dómsorði segir, en til greiðslu annars kostnaðar af málinu úr ríkissjóði taka dómstólar ekki afstöðu við ákvörðun gjafsóknarkostnaðar, sbr. 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991.

Dómsorð:

Stefndi, Vignir Arnar Ingþórsson, greiði áfrýjanda, Hönnu Gunni Sveinsdóttur, 1.292.212 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 7. október 2001 til 29. október 2005, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði í ríkissjóð málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 1.000.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin sú þóknun, sem lögmanni hennar var ákveðin í hinum áfrýjaða dómi fyrir flutning málsins í héraði, svo og málflutningsþóknun lögmannsins fyrir Hæstarétti, 400.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. maí 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 28. mars., er höfðað með stefnu, birtri 7. október 2005, af Hönnu Gunni Sveinsdóttur, kt. 160173-5059, Mánahlíð 1, Akureyri, á hendur Vigni Arnari Ingþórssyni, kt. 120274-3339, Skriðugili 5, Akureyri.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.292.212 krónur auk 4,5 % vaxta af þeirri fjárhæð skv. 16. gr. skaðabótalaga frá 7. október 2001 til 2. apríl 2005 en dráttarvaxta skv. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara krefst stefnandi þess að upphafstími dráttarvaxta verði eigi síðar en 29. október 2005 og vextir samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga verði þá reiknaðir til þess dags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda og að virðisaukaskattur leggist við dæmdan málskostnað og að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda, en til vara að bætur verði lækkaðar. Í hvorutveggja tilfelli krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.

Málavextir

Hinn 3. desember 2000 voru málsaðilar báðir á skemmtistaðnum „Við Pollinn“ á Akureyri, stefnandi við störf en stefndi sem gestur, og er ágreiningslaust að stefndi var mjög ölvaður. Þegar leið að lokum staðarins, og stefnandi var að safna saman glösum af borðum, fékk hún högg á bakið, féll fram fyrir sig og rak hné í borðbrún. Stefnandi heldur því fram, að stefndi hafi með vilja sparkað í sig með þessum afleiðingum, en stefndi segist hafa dottið og í fallinu óvart rekið fót í hana.

Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir líkamstjóni af þessu atviki.

Í málinu liggur fyrir vottorð Önnu M. Guðmundsdóttur heimilislæknis, dagsett 21. október 2003. Í vottorðinu koma meðal annars fram upplýsingar um fyrra heilsufar stefnanda sem m.a. eru byggðar á sjúkraskrá hennar á Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Þar segir að stefnandi hafi leitað til heimilislæknis sumarið 1994 vegna verkja í nokkrar vikur í vinstri hluta brjóstkassa og verið þá mjög aum milli rifja og svo mjög tekið í að hún hafi gengið skökk og var hölt, og fengið bólgueyðandi lyf.

Þá hafi hún leitað læknis árið 1996 vegna verkja í fótum. Við skoðun hafi hún verið með bólgu í báðum kálfavöðvum og vægan bjúg á rist. Í febrúar 1997 hafi stefnandi leitað læknis vegna verkja í baki alveg upp úr og niður úr. Einnig hafi hún haft verki í fótum, einkum við vinstri ökkla en hún brotnað svo aðgerð hafi þurft að gera þar þegar hún var á unglingsárum. Við skoðun hafi hún verið með pinnstífa vöðva í öllu bakinu og fær beiðni um sjúkraþjálfun.

Í maí sama ár hafi hún leitað á heilsugæslustöð vegna verkja í hnjám og kálfum og einnig verið nokkuð slæm í hnakka og herðum. Hún hafi við skoðun verið með bólgur í festum í hnjáliðum.

Í málinu liggur fyrir vottorð Stefáns Dalbergs, sérfræðings í bæklunarlækningum, dagsett 10. september 2004, þar sem segir að stefnandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni hinn 3. desember 2000. Hún hafi hlotið mjög slæma tognun á lendhrygg sem hafi farið versnandi sumarið 2004, með verkjaleiðni út í mjaðmir og niður í vinstri ganglim, sem sé nýtt. Hún hafi hlotið tognun á vinstra axlarsvæðið og vinstra hné og töluverðar brjóskskemmdir í vinstra hnénu, aðallega á hnéskel þar sem þurft hafi að fjarlægja laust brjósk í 2 liðspeglunum. Þá hafi hún einnig minniháttar brjóskskemmd á medial femur condylnum. Auk þessa hafi hún litla rifu á medial menisk, sem gefi tæpast einkenni á þeim tíma sem vottorðið væri ritað, en rifan gæti stækkað og þá líklega gefið einkenni. Ekki sé við því að búast að ástandið batni í baki eða vinstri öxl með tímanum. Hún muni hins vegar fá slitgigt í vinstra hné fyrr en ella með tímanum, einkum í femuro-patellar liðnum og einnig innanvert í hnénu þar sem brjóskskemmdin sé og rifni liðþófinn.

Í febrúar 2004 var dr. med. Atli Þór Ólason læknir beðinn um að gera örorkumat á stefnanda og meta það líkamstjón sem hún hefði orðið fyrir af greindu atviki. Í matsgerð hans, dagsettri 4. nóvember 2004, er stefnanda gerð svolátandi sjúkdómsgreining:

„1. Stoðkerfisóþægindi í hálsi, öllu baki, báðum ganglimum einkum vinstra megin, til margra ára (óháð líkamsárás 03. 12. 2000)

2. Festumein í hnjáliðum (óháð líkamsárás 03. 12. 2000).

3. Tognun í brjóstkassa vinstra megin (háð líkamsárás 03. 12. 2000).“

Þá segir í örorkumatinu um afleiðingar umrædds atviks: „Að mati undirritaðs er ólíklegt að slíkt spark valdi verulegum skaða, enda voru engin merki um beinbrot eða annað slíkt. Hins vegar hittir sparkið fyrir líkama sem er veikur fyrir vegna fyrri stoðkerfisvanda og virðist ýfa upp fyrri einkenni. Í ljósi fremur strjálla heimsókna til heimilislæknis fyrstu tíu mánuði eftir líkamsárásina, er ekki hægt að draga þá ályktun að mikil einkenni hafi verið til staðar fyrst eftir líkamsárásina. Þeirra virðist fyrst gæta haustið 2001 og fara síðan vaxandi. Þessi hegðun verkja bendir fremur til að afleiðingar líkamsárásarinnar hafi verið mildar en almenn einkenni frá baki hafi tekið sig upp síðar og sé ekki hægt að tengja það beinlínis við höggið sem Hanna varð fyrir við líkamsárásina 03. 12. 2000. Engu að síður virðist sparkið í bakið hafa aukið á þau óþægindi sem fyrir voru og gert Hönnu viðkvæmari. Þessi hlutur getur aldrei orðið nema lítið brot af þeim einkennum sem hún hefur í dag, enda verða þau eins og fyrr segir fremur rakin til ástands fyrir atburðinn.“ Niðurstaða dr. Atla Þórs er að varanlegur miski stefnanda skv. 4. gr. skaðabótalaga er metinn 5 %, varanleg örorka skv. 5. gr. skaðabótalaga metin 5 % og hefðbundin læknisfræðileg örorka 5 %.

Hinn 22. júní 2007 voru dómkvaddir í málinu sem matsmenn, þeir Ragnar Jónsson bæklunarlæknir og Viðar Már Matthíasson lagaprófessor. Fyrir matsmenn voru lagðar eftirtaldar spurningar:

1.     Hve lengi var matsbeiðandi óvinnufær vegna líkamstjónsins?

2.     Hvert var tímabundið atvinnutjón matsbeiðanda vegna    líkamstjónsins, sbr. 2. gr. skbl.

3.     Hvenær var ekki að vænta frekari bata?

4.     Hvaða tímabil telst matsbeiðandi veikur og rúmliggjandi vegna líkamstjónsins og hvaða tímabil telst hún vera veik, án þess að vera rúmliggjandi í skilningi 3. gr. skbl.?

5.     Hvert er miskastig (varanlegur miski) matsbeiðanda vegna líkamstjónsins, sbr. 4. gr. skbl.?

6.     Hver er varanleg örorka matsbeiðanda, sbr. 5. gr. skbl.

Í matsgerð sinni segja matsmenn meðal annars: „Svo virðist sem fyrri stoðkerfiseinkenni frá baki hafi ýfst upp við sparkið og getur það hafa leitt til varanlegra einkenna frá baki þó orsakatengsl séu þó nokkuð óljós. Útbreidd einkenni eins og við svokallaða vefjagigt geta ekki tengst afleiðingum eins og eftir slysatburðinn 3. desember 2000.“ Þá segir í matsgerðinni: „Ljóst er að núverandi einkenni matsbeiðanda verða að langmestu rakin til afleiðinga sjúkdóma en ekki afleiðinga atviksins þann 3. desember 2000. Einnig er ljóst að ekki er hægt að rekja öll þau einkenni, sem matsbeiðandi telur sjálf að tengist þeim meiðslum sem hún kveðst hafa hlotið af völdum matsþola, s.s. einkenni frá vinstra hné, öxlum og útbreiddari bakeinkenni, til afleiðinga umrædds atburðar.“

Samandregnar niðurstöður matsmanna eru þessar:

að batahvörf vegna afleiðinga slyssins 3. desember 2000 séu 3. febrúar 2001,

að skilyrði 1. mgr. 2. gr. skbl. fyrir bótum vegna tímabundins atvinnutjóns séu ekki  fyrir hendi,

að skilyrði 3. gr. skbl. til þjáningabóta vegna slyssins séu ekki fyrir hendi.

að varanlegur miski sé hæfilega metinn 5 stig og varanleg örorka sé hæfilega metin 5 %.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi segist hafa orðið fyrir líkamsárás af hendi stefnda er hún hafi verið við vinnu sína á skemmtistaðnum „Við Pollinn“ hinn 3. desember 2000. Stefndi, sem þar hafi verið gestur, hafi sparkað í bak hennar með þeim afleiðingum að hún hafi fallið fram fyrir sig. Tveimur dögum síðar hafi stefnandi mætt á lögreglustöðina á Akureyri til að leggja fram kæru vegna málsins. Hafi hún talið sig hafa gert það, en samkvæmt dagbók lögreglu muni lögregluskýrsla ekki hafa legið fyrir og því hafi stefnanda verið sagt að við hana yrði haft samband síðar til að fastsetja tíma þegar leggja mætti fram kæruna. Það hafi hins vegar aldrei verið gert og viku síðar, hinn 13. desember 2000 hafi sýslumaðurinn á Akureyri lagt málið upp og það án þess að stefnanda væri tilkynnt um það. Stefnandi hefði hins vegar talið sig hafa kært málið og hugðist koma að kröfu á hendur stefnda í því opinbera máli sem hún hefði talið væntanlegt. Með því svo hefði ekki farið, sé stefnanda nauðugur sá kostur að leita réttar síns gegn stefnda í einkamáli.

Stefnandi segist fyrst hafa talið að hún hefði engan varanlegan skaða hlotið af atvikinu á skemmtistaðnum. Þegar frá hafi liðið hefði hún hins vegar orðið mjög aum í baki og hafi hún því leitað læknis, strax að lokinni vinnu, kvöldið sem atvikið hafi átt sér stað. Bakverkurinn hafi ekki linast og stefnandi því leitað læknis að nýju í febrúar 2001. Hafi hún verið send til sérfræðinga en enga bót fengið verkja sinna. Segir í vottorði Önnu Guðmundsdóttur læknis, dagsettu 21. október 2003, að enn sé óljóst um framtíðarhorfur vegna stoðkerfisverkja. Á þeirri stundu hafi því ekki verið útséð með hvort ástandið væri varanlegt svo meta mætti afleiðingarnar og gera kröfu, byggða á örorkumati.

Stefnandi segir að í maí 2003 hafi stefnda verið sent bréf og honum sagt hvernig komið væri og hann hvattur til að huga að tryggingamálum sínum. Stefndi hafi í engu svarað.

Hinn 10. september 2004 hafi Stefán Dalberg læknir ritað vottorð og talið að ástand stefnanda væri orðið varanlegt og því hægt að meta afleiðingar atviksins. Hafi stefnandi í framhaldi af því farið í örorkumat hjá Atla Þór Ólasyni og sú orðið niðurstaða hans að við atvikið hafi stefnandi hlotið áverka sem ýft hafi upp stoðkerfisvandamál sem fyrir hafi verið og gert þau verri. Afleiðingarnar væru 5 % varanlegur miski og 5 % varanleg örorka.

Þá byggir stefnandi á matsgerð þeirra Ragnars Jónssonar læknis og próf. Viðars Más Matthíassonar, en niðurstaða þeirra sé sú að varanlegur miski hennar sé 5 stig og varanleg örorka hæfilega metin 5 %.

Endanlega dómkröfu sína sundurliðar stefnandi svo, að annars vegar sé krafist miskabóta skv. 4. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 288.425 krónur, en hins vegar bóta vegna varanlegrar örorku samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 1.003.787 krónur. Miskabótafjárhæðin sé þannig fengin að gert sé ráð fyrir 5 % miska. Samkvæmt lagagreininni skili grunnfjárhæð miska miðuð við aldur á tjónsdegi, 4.000.000 króna en uppfærast eftir lánskjaravísitölu sbr. 15. gr. laganna. Þegar skaðabótalögin hafi tekið gildi hinn 1. júlí 1993 hafi lánskjaravísitala verið 3282 stig en í mars 2005 hafi hún verið 4733 stig. Þegar grunnfjárhæðin hafi verið uppfærð standi hún í 5.768.434 krónum en samkvæmt 15. gr. laganna skuli færa upphæðina í næsta heila eða hálfa þúsund. Fjárhæðin verði því 5.768.500 krónur en 5 % af þeirri fjárhæð séu 288.425 krónur. Örorkubótafjárhæðin sé þannig fengin, að miðað sé við að varanleg örorka stefnanda sé metin 5 %. Séu bætur metnar til fjárhæðar sem nemi örorkustigi, sbr. 5. gr. skaðabótalaga, margfaldaðri með meðaltali launa síðustu þriggja ára fyrir tjónsdag, sbr. 7. gr. skaðabótalaga, margfaldað með stuðli sbr. 6. gr. laganna. Laun stefnanda fyrir árið 1998 hafi verið 247.614 krónur en uppfærð samkvæmt launavísitölu (170,4) 297.587 krónur. Laun stefnanda fyrir árið 1999 hafi verið 826.535 krónur, en uppfærð samkvæmt launavísitölu (182) 929.909 krónur. Laun stefnanda fyrir árið 2000 hafi verið 1.036.907 krónur en uppfærð samkvæmt launavísitölu (194,1) 1.093.927 krónur. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. skaðabótalaga beri að miða við ekki lægri árslaun en 1.200.000 krónur. Framangreind laun stefnanda hafi verið undir því marki og því beri að miða við umgetin lágmarkslaun sem framreiknuð séu 1.461.500 krónur þegar stöðugleika hafi verið náð. Stefnandi hafi verið 28 ára og 18 dögum betur þegar stöðugleikapunkti hafi verið náð hinn 3. febrúar 2001 samkvæmt örorkumati og stuðull skv. 6. gr. skaðabótalaga sé því miðaður við 28 ára aldur að frádregnum mismuni við næsta ár og verði því 13,736 (13,736389). Útreikningur skv. 5. gr. skaðabótalaga verði því 5*1.461.500*13,376=1.003.787.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi kveður málavaxtalýsingu stefnanda ranga í ýmsum veigamiklum atriðum. Stefndi kveðst hafa verið að skemmta sér á umræddum stað og hafa dvalist þar alllengi og verið orðinn ölvaður. Stefndi hafi staðið við lágan vegg eða þil, og hafi sófi verið bakvið vegginn. Hafi stefndi hallað sér að veggnum, en misreiknað fjarlægðina og fallið óvart afturfyrir sig. Í fallinu hafi hann orðið fyrir því að reka annan fótinn í bak stefnanda, sem fyrir tilviljun hafi staðið þar við vinnu sína. Vekur stefnandi athygli á því, að í lögregluskýrslu sé samskonar lýsing á atvikinu höfð eftir Sigrúnu Maríu Hallsdóttur og telji hún að um óviljaverk hafi verið að ræða. Stefndi kveðst ekki hafa heyrt af því að málið hafi verið kært og enga vitneskju fengið um að stefnandi teldi tjón hafa orðið úr, fyrr en lögmaður stefnanda hafi skrifað sér bréf hinn 20. maí 2003. Í því bréfi hafi stefndi þó ekki verið krafinn um greiðslu né kvaddur til samningaviðræðna heldur virðist sem aðeins hafi verið spurst fyrir um hugsanlegar ábyrgðartryggingar stefnda. Í öðru bréfi lögmanns stefnanda, dags. 2. mars 2005, hafi sama eftirgrennslan verið en stefnda ekki gert að koma og semja sjálfum. Ekki hafi verið skorað á stefnda að greiða bætur heldur hafi þvert á móti verið tekið fram að leitað væri leiða til að komast hjá því að beina kröfum að stefnda persónulega. Stefndi hafi fyrst verið krafinn greiðslu í bréfi dagsettu 29. september 2005.

Stefndi segist byggja sýknukröfu sína á því að enginn bótagrundvöllur sé til staðar sem stefnandi geti byggt á. Meginskilyrði almennu skaðabótareglunnar séu ekki uppfyllt og sé þar helst að nefna skilyrði um saknæma háttsemi og orsakatengsl. Einnig sé hluti af tjóni stefndu algerlega ósannaður auk þess sem stefnandi virðist ekki hafa farið að fyrirmælum lækna og þannig ekki leitast við að takmarka tjón sitt svo sem henni hafi borið.

Stefndi kveður ljóst að um óhappatilvik hafi verið að ræða sem hvorki verði lagt sér til sakar né gáleysis. Röð tilviljana hafi ein ráðið því að fótur stefnda fór í bak stefnanda, svo sem ráða megi af framburði stefnda og Sigrúnar Maríu, sem stefndi kveður bæði vinnufélaga og vinkonu stefnanda. Hafi stefndi ekki getað gert sér grein fyrir því að stefnandi hafi staðið þar sem hún stóð enda hafi stefndi ekki séð stefnanda fyrr en eftir áreksturinn. Hafi stefnda verið ómögulegt að forðast þennan árekstur. Stefndi kveðst mótmæla sem ósönnuðum öllum fullyrðingum um að hann hafi með vilja sparkað í stefnanda og segir ljóst að stefnandi hafi lítið getað séð af atburðarásinni þar eð hún hafi snúið baki í stefnda og engin vitni styðji frásögn stefnanda. Af þessu sé ljóst að skilyrði almennu skaðabótareglunnar um saknæmi séu ekki fyrir hendi og beri því að sýkna stefnda.

Verði ekki fallist á þá sýknukröfu sem stefndi gerir á þessum forsendum, segist stefndi halda því fram að ekkert orsakasamhengi sé milli greinds atburðar og þess tjón sem stefnandi telji sig hafa orðið fyrir. Ekki verði ráðið af lýsingum í stefnu eða fylgigögnum að nokkuð af tjóni stefnanda sé til komið af árekstri hennar og stefnda. Sönnunarbyrði um orsakatengsl liggi hér á stefnanda.

Stefndi kveður ekki hægt að gera sér grein fyrir því hversu alvarleg meiðsli stefnanda hafi orðið. Ekkert áverkavottorð liggi fyrir í málinu og matsgerð sé aðeins byggð á læknaskýrslum, gerðum töluvert eftir atburðinn. Sé þar gengið út frá lýsingu stefnanda án sjálfstæðs mats á því hvort höggið hafi getað orsakað meiðslin. Sé ítrekað vísað í læknisvottorð Önnu M. Guðmundsdóttur til stuðnings því að tognun hafi orðið við slysið, þrátt fyrir að þar sé ekki fjallað um tognun í brjóstkassa. Sé umrætt læknisvottorð ekki gert fyrr en þremur árum eftir atvikið, en jafnframt sé það fyrsta vottorðið sem leiði líkur að því að nokkur tenging sé milli atviksins og meiðsla stefnanda.

Þá sé í örorkumatsgerð Atla Þórs Ólasonar aðeins vísað í frásögn stefnanda um að höggið hafi verið mikið en ekki sé að sjá á vottorði Önnu að nokkur utanáliggjandi ummerki hafi verið á baki stefnanda „í að því er virðist fálega orðuðu læknabréfi frá slysdegi sem tekið er til vegna óhappsins.“ Virðist í því bréfi aðeins bent á vandamál sem jafn hæglega gæti verið að rekja til krónískra stoðkerfisvandamála fyrir slysið, enda sé það ekki rannsakað til fulls. Þá sé ekki litið til vinnuumhverfis stefnanda þó af vottorði Önnu virðist mega ráða að það sé meginorsök vandamála stefnanda. Atli vísi talsvert í vottorð Önnu, þar sem ekkert komi fram um að stefnandi hafi tognað í brjóstkassa, en hins vegar víki matsmaður ekkert að vottorði Stefáns Dalbergs þar sem ekkert komi fram sem tengt geti atvikið við meiðsli stefnanda. Engu að síður segi matsmaður að hægt sé að tengja tognun í brjóstkassa vinstra megin við atvikið, en þetta segi hann með orðunum: „virðist talið sannað að við líkamsárásina hafi aðili sparkað í brjóstkassa hennar vinstra megin og það leitt til tognunaráverka“. Hér sé um að ræða hreina ágiskun enda byggi þessi niðurstaða á gögnum sem til komi töluvert eftir atvikið og séu misvísandi. Geti orsakatengsl ekki talist sönnuð í ljósi ofangreindra orða og annars óskýrs orðalags og ýmissa ágiskana matsmanns, svo sem orðalags á borð við: „má telja að hún hafi hlotið tognunaráverka á afmörkuðu svæði brjóstkassa”, „ólíklegt er að slíkt spark valdi verulegum skaða“, „viðist hafa ýft upp fyrri einkenni“, „afleiðingar líkamsárásarinnar hafi verið mildar“, og „sé ekki að hægt að tengja [einkenni stefndu] við höggið sem Hanna varð fyrir við líkamsárásina“. Fleiri slíka fyrirvara megi finna í matsgerðinni og leiði hún engan veginn í ljós að samhengi sé á milli atviksins og áverka stefnanda.

Ekkert sé fjallað um fyrri eymsl stefnanda og hafi þó verið ærið tilefni til. Samkvæmt læknisvottorðum sé stefnandi og hafi verið of þung, hafi glímt við  viðvarandi stoðkerfisvandamál frá því mörgum árum fyrir umrætt atvik. Stefnandi hætti ekki að vinna við atvikið heldur haldi í þrjú ár áfram í álagsmiklu starfi. Hefði það orðið henni til hagsbóta að skipta um starf og reyna þannig að vinna gegn einkennum sínum og verði að virða henni til eigin sakar að hafa ekki gert það. Þá sé ljóst af framlögðum gögnum að stefnandi hafi ekki leitað læknisaðstoðar reglulega og hafi langt verið liðið frá atvikinu þar til hún hafi gert það, og þá vegna eymsla sem allt eins hafi getað tengst starfi hennar og eldri vandamálum. Þá geti verið að önnur atvik hafi orðið á tímanum frá atvikum þessa máls og þess tíma sem lagt er læknisfræðilegt mat á stefnanda, en í mati Atla Þórs sé fjallað um einkenni í hné sem ekki verði rakin til atvika þessa máls. Þegar á allt þetta sé litið sé með öllu ósannað að margnefnt atvik hafi nokkru ráðið um ástand stefnanda nú. Sé því mótmælt að örorka stefnanda nú tengist umræddu atviki og beri að sýkna stefnda þar eð skilyrði skaðabótareglna um orsakatengsl séu ekki uppfyllt. Í munnlegum málflutningi ítrekaði lögmaður stefnda þessi sjónarmið og taldi einnig að matsgerð Ragnars Jónssonar og Viðars Más Matthíassonar tæki ekki heldur af tvímæli um orsakatengsl milli umrædds atburðar og ástands stefnanda. Væru þar þvert á móti ýmsir fyrirvarar og matsmenn teldu tengslin þó nokkuð óljós.

Stefndi segist ekki hafa verið krafinn um greiðslu fyrr en hinn 29. september 2005 og verði dráttarvaxta því ekki af sér krafist fyrr en í fyrsta lagi hinn 29. október það ár. Þar að auki hafni stefndi kröfu um greiðslu eldri vaxta en fjögurra ára, en þeir séu fyrndir.

Verður þá rakið sem fram kom í skýrslum fyrir dómi eftir því sem ástæða þykir til.

Stefnandi gaf skýrslu og kvaðst hafa verið við störf sem barþjónn umrætt kvöld og hefði stefndi verið á staðnum, ölvaður mjög, og með stæla allt kvöldið. Þegar komið hefði verið að lokun og starfsmenn teknir að smala gestum af staðnum hefði stefndi færst í aukana með stælum og ljótu orðbragði. Stefnandi hefði haldið á bakka til að safna saman glösum af borði, sem hefði staðið í horni, nálægt inngangi. Hefði stefndi vippað sér yfir vegg sem þarna væri og endað í sófa sem stæði þar við. Stefnandi hefði snúið höfði að stefnda og beðið hann um að hafa sig hægan. Því næst hefði stefnandi snúið sér við  og hefði þá engum togum skipt en stefndi sparkað í bakið á stefnanda, sem hefði fallið niður og lent með annað hnéð á borðbrúninni og dottið í gólfið. Þegar sparkið hefði komið hefði stefnandi nánast verið staðin upp frá því að taka glösin af borðinu, en þó ekki verið alveg bein. Hún hefði haldið á bakkanum, fullum af glösum, og allt farið út um allt. Dyravörðurinn Kristinn Sigurðsson hefði séð umrætt atvik og komið á vettvang og fjarlægt stefnda.

Stefnandi var nánar spurð út í hvernig stefndi hefði stokkið yfir vegginn. Svaraði hún því þannig að stefndi hefði verið búinn „að standa heillengi þarna við þennan vegg og búinn að vera að hreyta í mig óhróðri og ófögrum orðum“, svo hefði stefnandi séð þegar stefndi „var kominn upp á vegginn“ og svo séð hann lenda í sófanum.

Stefnandi kvað útilokað að nokkur annar en stefndi hefði sparkað í sig. Hefði enginn annar en hann verið þar. Þá væri ekki mögulegt að hann hefði dottið yfir vegginn og sparkað í stefnanda í fallinu. Væri alveg ljóst að stefndi hefði sparkað í sig af vilja en ekkert óhapp orðið. Stefndi hefði verið sestur niður þegar hann hefði sparkað. Þá væri ekki vafi á því að um spark hefði verið að ræða, en stefnandi hefði verið með skófar á skyrtu sinni.

Stefnandi taldi að umræddur veggur næði sér í brjósthæð, en stefnandi væri 163 cm að hæð. Sófinn hefði ekki náð yfir vegginn.

Stefnandi var spurð um það sem eftir henni er haft í matsskýrslu að „maður sem var hinumegin við skilrúmið mun hafa farið yfir skilrúmið og kastast eða lent í sófanum, og um leið og það gerðist að sögn matsbeiðanda rak fót eða sparkaði í bak hennar.“ Stefnandi kvað hér vera um að ræða misskilning eða mistúlkun matsmanna, þetta hefði hún ekki sagt. 

Stefnandi sagðist hafa haldið sínu striki eftir þetta atvik, en hún sagðist alltaf hafa unnið mikið. Hefði stefnandi haldið áfram að vinna á skemmtistaðnum og að auki dagvinnu í bakaríi. Oft hefði verið mikið að gera á skemmtistaðnum og unnið hvíldarlaust, en stefnandi kvaðst engu að síður ekki lýsa starfinu sem líkamlega erfiðu. Síðan hefði farið að halla undan fæti og bak stefnanda tekið að gefa sig. Stefnandi kvaðst vera óvinnufær í dag og væri enginn vafi á því að skert vinnugeta væri komin til af þessu atviki. Hefði það valdið stefnanda miklu tjóni, jafnt á heilsu sem fjárhag.

Stefnandi kvaðst strax morguninn eftir umrætt atvik hafa leitað læknis. Hefði sér verið sagt að hún hefði tognað í baki, muni hún hafa verið sett á bólgueyðandi lyf og verkjalyf og fljótlega verið send í sjúkraþjálfun.

Stefnandi var spurð út því það sem fram kemur í matsgerð, að hún hafi á árinu 1994 leitað læknis vegna mikilla bakeymsla. Kvaðst stefnandi rekja þau eymsli sín til mikillar vinnu sinnar, en hún hefði alltaf unnið mikið.

Stefndi gaf skýrslu og kvaðst hafa setið öfugu megin við umræddan sófa, dottið aftur fyrir sig og rekið fót eða fætur í stefnanda. Hefði hann setið á baki sófans og dottið ofan í sófann, í kollhnís aftur fyrir sig. Þetta hefði verið hornsófi og minnti stefnda að hann hefði setið þeim megin sem ekki væri þil og ekki dottið yfir þilið. Umrætt þil kvað stefndi hafa verið sér í mittishæð en sjálfur væri hann um 187 cm að hæð. Stefndi kvað útilokað að hann hefði sparkað í stefnanda af vilja og væri hann alveg viss um að hann hefði ekki verið sestur í sófann áður en fótur hans fór í stefnanda. Stefndi taldi líklegt að ölvun sín hefði átt þátt í því að hann hefði dottið. Hann kvaðst ekki minnast þess að nokkur hefði rekist í sig, þó hann gæti ekki útilokað það.

Stefndi var spurður um þá lýsingu málsatvika í framlagðri greinargerð hans, að hann hafi staðið við lágan vegg, misreiknað fjarlægðina að veggnum og því dottið yfir. Stefndi svaraði enn að hann myndi málsatvik með þeim hætti sem fyrr var rakið.

Ekki kvaðst stefndi muna glöggt hvað næst hefði gerst, en þó myndi hann skýrt að hann hefði verið fyrir utan staðinn þegar Kristinn hefði kallað á sig inn á staðinn vegna þessa atviks. Stefndi kvaðst þekkja Kristin ágætlega en þeir hefðu unnið saman, meðal annars eftir þennan atburð. Hefði Kristinn aldrei minnst á málið við sig.

Stefndi kvaðst hafa verið töluvert ölvaður en kvaðst ekki muna til þess að hafa hreytt ónotum í stefnanda. Kvaðst hann ekki muna atvik þessa máls vel. Stefndi var spurður hvort rétt væri eftir sér haft í lögregluskýrslu að hann vissi ekkert um málið. Stefndi sagðist ekki muna hvort hann hefði sagt þetta eða annað við lögregluna, en hann myndi til þess að hafa verið færður í lögreglubíl eftir atvikið.

Kvaðst stefndi fyrst hafa frétt af því að stefnandi hygðist gera kröfu á hendur sér þegar hann hefði fengið bréf lögmanns stefnanda í maí 2003.

Kristinn Þór Sigurðsson kvaðst hafa verið við störf sem dyravörður umrætt kvöld og hafa þurft að hafa mikil afskipti af stefnda um kvöldið. Stefndi hefði verið mjög ölvaður og verið búinn að vera með dólgshátt við flest allt starfsfólk staðarins. Hefði hann sjálfsagt átt að vera búinn að vísa stefnda á dyr, en stefndi hefði einlægt lofað bót og betrun. Þegar líða hefði tekið að lokun hefði hann séð stefnda vippa sér yfir umræddan vegg og lenda í sófanum. Stefnandi hefði beðið stefnda um að hafa sig hægan og snúið sér að honum með glasabakka í hönd. Hefði stefndi þá, úr sófanum, sparkað í bakið á stefnanda sem hefði fallið fram fyrir sig, lent á hnjánum, og misst bakkann í gólfið. Tveir dyraverðir hefðu tekið stefnda og hent honum út en sjálfur hefði Kristinn Þór fylgt stefnanda inn í eldhús. Hann hefði síðan afráðið að fara út og sækja stefnda svo hann yrði tiltækur ef meira yrði úr málinu. Hefði Kristinn Þór því næst kallað til lögreglu og hefði stefndi haft uppi mikil leiðindi og dólgshátt meðan hennar var beðið. Kristinn Þór kvaðst sjálft hafa rætt við lögreglu á vettvangi.

Hann var spurður um það sem segir í lögregluskýrslu um atburðinn, en lögregluþjónn sá er gerir skýrsluna segist þar hafa rætt við stefnanda og starfsmanninn Sigrúnu, en aðrir starfsmenn sem hann hafi rætt við hafi ekki séð atburðinn. Kristinn Þór sagði að lögreglurannsókn málsins hefði verið „bull út í eitt“. Hann kvaðst hafa rætt við lögregluþjóninn sem tekið hefði stefnda en ekki vita hvað sá lögregluþjónn héti. Hefði það verið regla sín á löngum dyravarðarferli að láta aldrei gest í hendur lögreglunnar án þess að greina henni frá því hvers vegna manninum hefði verið hent út.

Kristinn Þór var spurður hversu hár margumræddur veggur væri og kvaðst hann ekki vita það nákvæmlega en hitt vissi hann að svo hár væri veggurinn að menn dyttu ekki yfir hann fyrirhafnarlaust. Veggurinn hefði náð sér upp fyrir mitti.

Hann kvað algerlega útilokað að stefndi hafi óvart dottið yfir vegginn og rekið sig óvart í stefnanda. Þá hefði stefndi ekki setið á bakinu á sófanum og dottið þaðan.

Hann kvaðst hafa séð áberandi skófar aftan á svartri skyrtu stefnanda.

Þegar hann var nánar spurður hvernig stefndi hefði vippað sér yfir vegginn sagði hann að stefndi hefði lagt hendurnar upp á vegginn og vippað sér yfir.

Kristinn Þór kvaðst hafa staðið á að giska sjö metra frá veggnum þegar stefndi hefði vippað sér yfir hann. Hann hefði hins vegar verið kominn nær þegar stefnandi hefði fengið sparkið.

Sigrún María Ólsen, barnsmóðir stefnda, kvaðst hafa hitt stefnda á skemmtistaðnum umrætt kvöld. Hún kvaðst ekkert muna hvað gerðist þetta kvöld. Sigrún María var spurð um það sem eftir henni var haft í lögregluskýrslu, að hún hefði séð umrætt atvik, og taldi hún ekki útilokað að hún hefði sagt það, sem þar er eftir henni haft, í þeim tilgangi að bjarga stefnda úr vandræðum. Hún myndi hins vegar ekki til þess að hafa séð nokkuð sem tengist málsaðilum.

Hún var nánar spurð um lögregluskýrsluna, þar sem eftir henni er haft að hún hafi séð stefnda detta aftur fyrir sig og lenda í sófanum hinumegin við vegginn, og haft eftir henni að hún telji stefnda hafa sparkað óvart í stefnanda. Sigrún María kvaðst ekki vilja rengja orð lögreglunnar. Vel gæti verið að hún hefði sagt þetta við lögregluna til að hjálpa stefnda af því að þau hefðu verið saman þegar þetta var. Hefði hún sagt þetta við lögreglu, hefði þó ekki verið um uppspuna að ræða. Hún gæti ekki ímyndað sér að hún hefði farið að ljúga að lögreglunni.

Sigrún María kvaðst ekki þekkja stefnda mikið, en af því sem hún þekkti væri hann ekki líklegur til að sparka í konur.

Jón Kristinn Valdimarsson lögregluþjónn staðfesti að skýrsla sín væri rétt og gerð eftir bestu samvisku, en ekkert myndi hann sérstaklega eftir neinu í þessu máli. Hann sagði að félagi sinn hefði farið með stefnda út í bíl en sjálfur hefði hann talað við stefnanda og Sigrúnu sem hefði sagst hafa séð atburði. Hann kvaðst ekki muna til þess að dyravörður hefði gefið sig fram á vettvangi og lýst atvikinu af sjálfssjón. Það sé þó hugsanlegt en þess væri þá að vænta að slíkt samtal hefði ratað í skýrslu af málinu.  Jón Kristinn kvaðst ekkert geta sagt um það við hverja félagi sinn hefði rætt á vettvangi.

Ragnar Jónsson læknir kvaðst hafa með próf. Viðari Má Matthíassyni unnið matsgerð um stefnanda. Ragnar var spurður um þau orð í  matsgerðinni, þar sem segi „Teljum við að orsakatengsl milli þess atviks sem um er deilt hér og bakverkja matsbeiðenda séu þó nokkuð óljós“. Sagði hann að þessi orð bæri að skilja bókstaflega eins og þau væru sögð, „en við teljum engu að síður að það séu meiri líkur en minni að þessi einkenni hafi getað versnað við þetta spark, það er mitt mat.“ Þá var hann spurður hvort þau orð í matsgerðinni, þar sem segi: „þá er það ekki að fullu ljóst að áliti matsmanna hvaða áhrif líkamstjónið hefur haft í för með sér fyrir starfsorku hennar“, fælu í sér fyrirvara um orsakatengsl milli umrædds atviks og ástands stefnanda. Ragnar svaraði því til að þarna væri fremur verið að „gefa í skyn að hún hefur ekki unnið utan heimilis, þannig að það hefur kannski ekki reynt á það í öðrum störfum en heimilisstörfum alllengi, það er kannski líka það sem verið er að gefa í skyn“. Nánar spurður samþykkti hann að „erfitt væri að gera sér grein fyrir áhrifunum“. Þá var hann spurður um lýsingu sem höfð væri eftir stefnanda í matsgerðinni, að „maður sem var hinumegin við skilrúmið mun hafa farið yfir skilrúmið og kastast eða lent í sófanum, og um leið og það gerðist að sögn matsbeiðanda rak hann fót eða sparkaði í bak hennar“ , og kvað hann þá lýsingu hafa verið skrifaða niður eftir stefnanda á matsfundinum.

Þá voru borin undir Ragnar þau orð í matsgerðinni, að „útbreidd einkenni eins og vefjagigt geti ekki tengst afleiðingum eins og eftir umdeildan atburð“ og spurt hvort þau eymsli, sem lýst hefði verið í læknanótu 3. desember, „eymslum vinstra megin í mjóhrygg“ og að hún „hafði verið aum í palpation yfir réttu vöðvum hryggjar, vinstra megin við brjósthrygg“, gætu verið einkenni sem tengdust vefjagigt. Ragnar sagði að á þessum tíma hefði stefnandi ekki verið greind með vefjagigt, það hafi ekki verið gert fyrr en hálfu öðru ári síðar. Vefjagigtareinkenni lýsi sér með eymslum í vöðvum víða í líkamanum. Séu eymslin staðbundin, sé ekki um vefjagigt að ræða.

Borin voru undir Ragnar orð í matsgerðinni, þar sem segir að ljóst sé að „núverandi einkenni matsbeiðanda verða að langmestu rakin til afleiðinga sjúkdóma en ekki afleiðinga atviksins“ og síðar vitnað til miskatöflu örorkunefndar, og var hann spurður hvort matsmenn gæfu stefnanda „full stig fyrir tognun í baki með svona miðlungseinkennum“. Svaraði hann því til að stefnandi hefði ýmis einkenni, hnéeinkenni, axlaeinkenni, vefjagigtareinkenni, sem ekki yrðu rakin til afleiðinga þess atviks sem mál þetta snýst um. Væru hins vegar metin 5 stig vegna hryggjarafleiðinga sem tognunar á mótum brjósthryggjar og lendhryggjar á þessu svæði.

Niðurstaða

Stefndi hefur enga dul á það dregið að hann hafi verið töluvert ölvaður umrætt kvöld og ekki heldur að margt muni hann óljóst frá kvöldinu. Hann hefur þó verið staðfastur í neitun sinni á því að hafa með vilja sparkað til og þannig valdið falli stefnanda á borðið. Lýsing stefnda á því fyrir dómi, að hann hafi dottið af baki sófans, í kollhnís aftur fyrir sig, og þannig rekið fótinn í bak stefnanda er ekki sérlega sennileg að mati dómsins, og er raunar nokkuð önnur en stefndi setur fram í greinargerð sinni, en þar segist stefndi hafa hallað sér að þili en misreiknað fjarlægðina og fallið óvart aftur fyrir sig. Stefnandi hefur verið eindregin í sinni frásögn og fær hún mikla stoð í framburði Kristins Þórs Sigurðssonar, sem er nær samhljóða stefnanda í öllum atriðum. Kristinn Þór er raunar ekki aðeins fyrrverandi samstarfsmaður stefnanda heldur einnig barnsfaðir hennar, en það þykir þó ekki valda því að ekki verði tekið mark á framburði hans. Sú lýsing sem eftir stefnanda er höfð í matsgerð er raunar líkari frásögn stefnda en stefnanda, en fyrir dómi hafnaði stefnandi þessari lýsingu sem rangt eftir sér hafðri.

Í lögregluskýrslu er haft eftir Sigrúnu Maríu Ólsen að stefndi hafi óvart rekist í stefnanda, en þegar Sigrún María bar vitni fyrir dómi sagðist hún ekkert muna um málið, og að vel gæti verið að framburður hennar hjá lögreglu hefði helgast af þáverandi tengslum hennar við stefnda. Þó tók hún fram að hún tryði sér ekki til að hafa farið að ljúga að lögreglunni.

Stefnandi og Kristinn Þór eru á einu máli um að stefndi hafi um kvöldið verið bæði orðljótur og erfiður í allri framgöngu. Fyrir dómi kvaðst stefndi ekki muna til slíks þó hann neitaði því ekki beinlínis. Eins og áður segir liggur fyrir að stefndi var töluvert ölvaður umrætt kvöld, en bæði stefnandi og Kristinn Þór voru á skemmtistaðnum starfs síns vegna. Þykir dóminum sem lýsing þeirra stefnanda og Kristins Þórs af atburðum kvöldins sé allnokkuð sennilegri en frásögn stefnda, og er að öllu samanlögðu niðurstaða dómsins að miða verði við að stefndi hafi umrætt kvöld slengt fæti sínum af ásetningi í bak stefnanda, sem hafi þá fallið fram fyrir sig og rekið hnéð í borðbrún eins og áður er rakið.

Víkur þá sögunni að sannanlegum afleiðingum þessa atviks.

Í matsgerð sinni segja þeir Ragnar Jónsson og Viðar Már Matthíasson meðal annars, að svo „virðist sem fyrri stoðkerfiseinkenni frá baki hafi ýfst upp við sparkið og getur það hafa leitt til varanlegra einkenna frá baki þó orsakatengsl séu þó nokkuð óljós.“

Á matsfundi í október 2004, er stefnandi gekkst undir örorkumat hjá Atla Þór Ólasyni, kvaðst hún hafa staðið við lágt borð og við höggið hafa fallið fram fyrir sig, rekið vinstra hné í borðbrúnina og stutt höndum á borðið en ekki dottið.

Telja má að um tiltölulega kraftlítið högg hafi verið að ræða. Framburður stefnanda, sem fær stuðning af Kristni Þór, verður skilinn þannig að stefnandi hafi sparkað þar sem hann hafi setið í sófanum, og má ætla að spark úr sitjandi stöðu sé að jafnaði nokkuru aflminna en þegar staðið er. Skófar sást á klæðum en ekki fer neinum sögum af mari á þeim stað sem höggið kom né heldur brotum. Stefnandi kenndi strax óþæginda um mitt bakið og leitaði á slysadeild FSA í kjölfarið þar sem staðfest voru eymsli í baki vinstra megin við brjósthrygg þar sem höggið kom en ekki gagnstætt hægra megin eða annars staðar. Í nótu slysadeildar FSA frá 3. desember kl 16:36 kemur fram að stefnandi kvarti um verki í baki (brjósthrygg). Hún sé með eymsli vinstra megin í brjósthrygg. Ekki er minnst á nein einkenni frá vinstra hné í komunótu. Hún er talin hafa tognað á brjósthrygg.

Mánudaginn eftir atvikið, eða á þriðja degi eftir það, mætti stefnandi síðan til vinnu aftur en hún starfaði við afgreiðslustörf í bakaríi að aðalstarfi en vann um helgar í aukavinnu á skemmtistaðnum. Næst leitaði hún síðan læknis tveimur mánuðum seinna  eða hinn 9. febrúar 2001 og þá vegna óþæginda í hálsi og hnakkafestum. Hafði hún þá ekki misst úr vinnu þann tíma sem liðinn var frá atvikinu.

Í september sama ár leitaði hún aftur læknis vegna óþæginda frá miðju baki en þá um vorið segir hún að einkenni frá vinstra hné hafi byrjað að gera vart við sig. Í framhaldi af skoðun í september 2001 er hún send í sjúkraþjálfun sem virtist ekki hjálpa og því sendir heimilislæknir hana til gigtarlæknis sem skoðar hana í nóvember 2001. Gigtarlæknirinn greinir hana með slæma „fibromyalgiu með svefntruflunum“.

Samkvæmt læknisvottorði Önnu M. Guðmundsdóttur, læknis við Heilsugæslustöðina á Sólvangi í Hafnarfirði, dagsettu 21. október 2003, koma fram upplýsingar um fyrra heilsufar stefnanda sem m.a. eru byggðar á sjúkraskrá hennar á Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Þar kemur meðal annars fram:

„Hún leitaði til heimilislæknis sumarið 1994 vegna verkja í nokkrar vikur í vi. hluta brjóstkassa og var þá mjög aum milli rifja og tók það mikið í að hún gekk skökk og var hölt, fékk bólgueyðandi lyf.

Hún leitaði 1996 vegna verkja í fótum, mest í vi. ökkla. Við skoðun er hún með bólgu í báðum kálfavöðvum og vægan bjúg á rist. Fær bólgueyðandi lyf. Í febrúar 1997 leitaði hún vegna verkja í baki alveg upp úr og niður úr. Einnig verkir í fótum meira í v.fót einkum við ökkla en þar fékk hún ökklabrot sem þurfti að gera aðgerð á þegar hún var 13-14 ára. Við skoðun er hún með pinnstífa vöðva í öllu bakinu og fær beiðni í sjúkraþjálfun.

Í maí sama ár leitaði hún á heilsugæslustöðina vegna verkja í hnjám og kálfum og einnig nokkuð slæm í hnakka og herðum. Hún er við skoðun með bólgur í festum í hnjáliðum.“

Vann hún óslitið þetta árið og hafði hún síst minni tekjur en áður. Í nóvember 2001 var hún greind með vefjagigt og 2003, eftir að hún var flutt á Reykjavíkursvæðið, gekkst hún undir rannsóknir og meðferð vegna hnéóþæginda hjá Stefáni Dalberg. Um mitt árið 2003 hættir stefnandi endanlega vinnu og leitaði hún a.m.k. þrisvar sinnum það árið til heimilislæknis síns í Hafnarfirði vegna bakverkja og verkja í hálsi og herðum og víðar.

Árið 2004 gekkst hún annars vegar undir botnlangatöku vegna kviðverkja og hinsvegar aðgerð vegna góðkynja hnúta í skjaldkirtli. Frá janúar 2005 hefur hún verið metin til fullrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins en 2006 eignaðist hún sitt fjórða barn. Er hún einstæð.

Af ofansögðu er ljóst að fyrir atvik það sem stefnandi varð fyrir í desember 2000 hafði hún sögu um einkenni frá stoðkerfi og hafði hún að minnsta kosti í tvígang 1997 leitað til lækna vegna útbreiddra óþæginda frá baki. Hafði hún þá farið í sjúkraþjálfun og að sögn náð góðum bata.

Að virtum þeim gögnum sem fyrir liggja ásamt skýrslum stefnanda og Ragnars Jónssoar fyrir dómi verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi hinn 3. desember 2000, hlotið högg (spark) vinstra megin í baki neðan herðablaðs. Ekki er fullt samræmi í gögnum málsins um málsatvik. Er fullyrt að skófar hafi komið á klæði stefnanda við sparkið. En læknisskoðun sama dag sýndi ekki áverkamerki svo sem mar. Verður að álíta að áverki sem þessi geti valdið mari og bólgu  á þeim stað sem sparkið kom.

Álítur dómurinn að einkenni stefnanda í dag verði að óverulegu eða alls engu leyti rakin til atviksins í desember 2000. Lýst er ýmsum stoðkerfiseinkennum sem trauðla tengjast áverkanum svo sem óþægindum frá hálsi og herðum auk verkja í miðju baki og mjóbaki. Hafði hún stoðkerfisóþægindi fyrir slysið, greindist með vefjagigt 2001 og var síðan árið 2005 metin til fullrar örorku vegna margþættra vandamála. Virðist svo sem um tiltölulega lítinn áverka sé að ræða og telur dómurinn útilokað að hann geti verið orsakavaldur svo máli skipti í einkennasögu stefnanda. Orsakatengsl vefjagigtar og þess áverka er stefndi hlaut eru og ósönnuð og verða að teljast afar ólíkleg.

Undir rekstri málsins féll stefnandi frá áður gerðum kröfum um þjáningabætur, enda töldu dómkvaddir matsmenn að skilyrði slíkra bóta væru ekki fyrir hendi, og eru dómkröfur hennar eins og í upphafi var rakið. Þrátt fyrir að stefnandi hafi hugsanlega orðið fyrir óverulegu tjóni af atvikum málsins gerir hún ekki kröfu vegna slíks heldur krefst eingöngu bóta fyrir varanlegan miska og varanlega örorku. Samkvæmt því sem rakið hefur verið, er það niðurstaða dómsins, að sá áverki, sem líklegt má telja að stefnandi hafi hlotið af umræddu atviki, hafi ekki orðið slíks valdur hjá stefnanda. Verður samkvæmt því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Eins og áður er rakið, er það niðurstaða dómsins að stefndi eigi sök á því að stefnandi féll við vinnu sína með þeim hætti sem fram hefur komið. Þá gaf örorkumat henni til kynna að hún hefði orðið fyrir varanlegum skaða af völdum þess atviks. Álítur dómurinn því með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga  nr. 91/1991 að stefndi verði, þrátt fyrir sýknu af kröfum stefnanda, að bera sjálfur þann kostnað sem hann hefur haft af málinu. Stefnanda hefur með bréfi dóms- og kirkjumálaráðherra verið veitt gjafsókn í máli þessu og skal gjafsóknarkostnaður hennar, 1.165.940 krónur, greiðast úr ríkissjóði. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt meðdómsmönnunum dr. med. Yngva Ólafssyni og dr. med. Þorvaldi Ingvarssyni, en hvortveggi er sérfræðingur í bæklunarlækningum.

Dómsorð:

Stefndi, Vignir Arnar Ingþórsson, er sýkn af kröfum stefnanda, Hönnu Gunnar Sveinsdóttur, í máli þessu.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 1.165.940 krónur, þar af þóknun lögmanns stefnanda 622.500 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur, greiðist úr ríkissjóði.