Hæstiréttur íslands
Mál nr. 355/2002
Lykilorð
- Landamerki
|
|
Þriðjudaginn 15. apríl 2003. |
|
Nr. 355/2002. |
Ása Ingólfsdóttir Áslaug Hulda Ólafsdóttir Baldur Ellertsson Bjarney Guðrún Ólafsdóttir Bjarni Ástvaldsson Eyjólfur Ólafsson Guðbergur Ólafsson Guðfinna Sigrún Ólafsdóttir Guðmundur Ólafsson Guðmundur Viggó Ólafsson Hrefna Ólafsdóttir Hulda Ástvaldsdóttir Hulda Klara Ingólfsdóttir dánarbú Huldu Klöru Ólafsdóttur Ingibjörg Júlíusdóttir Margrét Ólafsdóttir Matthías Þ. Hannesson Ólafur Ástvaldsson Ólafur Ellertsson Ólafur Þór Jónsson Sigríður S. Jónsdóttir og Þröstur Hlöðversson (Karl Axelsson hrl.) gegn Kemis ehf. (Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.) |
Landamerki.
Deilt var um landamerki jarðanna Stóra-Knarrarness I, (vesturbæjar) og Stóra-Knarrarness II (austurbæjar) á Vatnsleysuströnd. Voru málsaðilar sammála um að um landamerki á svæðinu skyldi fara eftir landamerkjalýsingu frá 11. júní 1886 en deildu hins vegar um staðsetningu nokkurra kennileita, sem þar voru nefnd, einkum Knarrarneshöfða, Fjöruvatnsgranda og Skeljavíkur. Tekið var fram að í landamerkjalýsingunni væri lýst túnmörkum annars vegar milli austur- og vesturparts Stóra-Knarrarness og hins vegar milli Stóra-Knarrarness og Minna-Knarrarness. Þegar litið væri í heild til þeirra örnefnalýsinga, sem fyrir lágu um hið umdeilda svæði, yrði að telja ótvírætt að svæði það, sem væri norðan túns Stóra-Knarrarness, hefði verið kallað Knarrarneshöfði eða Höfði. Ekkert yrði ráðið með vissu af framburði aðila og vitna, sem komu fyrir dóm, umfram lýsingar í örnefnalýsingum, um staðsetningu umræddra kennileita en aðilarnir hefðu þó verið sammála um að Knarrarneshöfði hefði verið nýttur sameiginlega af báðum Stóra-Knarrarnesbæjum til beitar. Með vísan til orðalags landamerkjalýsingarinnar og framburðar vitna fyrir dómi, þótti verða að líta svo á að landamerkjalýsingin hefði einskorðast við skiptingu túna milli bæjanna, en ekki verið ætlað að ná til Knarrarneshöfða norðan þeirra eða fjörunnar við hann. Benti flest til þess að á þann hluta Stóra-Knarrarness hefði verið litið sem óskipta sameign bæjanna. Væri það og í samræmi við það að líklegt væri að báðir bæirnir hefðu getað hagnýtt sér greiða innsiglingu frá náttúrunnar hendi austan megin á höfðanum og haft aðstöðu við hana. Yrði því ekki dæmt um skiptingu lands norðan grjótgarðs, sem liggur þvert yfir nesið, þar sem eðlilegra væri að hún færi fram á grundvelli landskiptalaga nr. 46/1941, ef aðilar vildu skipta því. Þóttu landamerki bæjanna því réttilega ákveðin með línu úr tilteknum punkti í grjótgarðinum að norðan um tiltekna punkta út að túnhliði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 2. ágúst 2002 og krefjast þess að staðfest verði með dómi að landamerki jarðanna Stóra-Knarrarness I, (vesturbæjar) og Stóra-Knarrarness II (austurbæjar) séu með eftirfarandi hætti eins og þau eru dregin upp á uppdrætti Ásmundar Sigvaldasonar verkfræðings 16. desember 2001: Úr hnitapunkti nr. 2 í austanverðum ósi við Fjöruvatnsgranda í punkt nr. 3 í ósi við Fjöruvatnsgranda í enda á vík, þaðan í punkt nr. 4 í Skeljavík, þaðan í tvær þúfur á Knarrarneshöfða, punkta nr. 1 og 5, og þaðan eftir garðlagi og götu milli túnanna heim að bæ og um bæinn, eftir tröðinni, punktar nr. 6, 7, 8, 9 og 10, og þaðan í beina línu út að túngarðshliði, í hnitapunkt nr. 11. Þá krefjast þeir málskostnaðar sér til handa í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms. Í báðum tilvikum krefst hann þess að áfrýjendur verði sameiginlega dæmdir til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Nokkur ný skjöl hafa verið lögð fram í Hæstarétti.
Áður en munnlegur málflutningur fór fram í Hæstarétti gengu dómendur á vettvang ásamt aðilum og lögmönnum þeirra.
I.
Aðalkrafa stefnda um frávísun málsins frá Hæstarétti er á því reist að lögmæt skilyrði skorti til áfrýjunar. Samkvæmt 3. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 38/1994, ákveði Hæstiréttur hvort hagsmunir svari til áfrýjunarfjárhæðar ef mál varði annars konar hagsmuni en fjárkröfu. Er til þess vísað að samkvæmt kaupsamningi stefnda nemi verðmæti hins umdeilda lands tæplega 84.000 krónum og sé þannig langt innan áfrýjunarfjárhæðar.
Með útgáfu áfrýjunarstefnu hefur Hæstiréttur tekið afstöðu til þess atriðis, sem aðalkrafa stefnda tekur til, og hafa engin þau gögn verið lögð fyrir réttinn, sem leitt geti til þess að sú afstaða sæti endurskoðun. Samkvæmt því verður kröfu stefnda um vísun málsins frá Hæstarétti hafnað
II.
Málsatvik eru rækilega greind í héraðsdómi. Málsaðilar eru sammála um að um landamerki á svæði því, sem mál þetta fjallar um, skuli fara eftir landamerkjalýsingu frá 11. júní 1886, en þeir deila hins vegar um staðsetningu nokkurra kennileita, sem þar eru nefnd, einkum Knarrarneshöfða, Fjöruvatnsgranda og Skeljavíkur. Í inngangi landamerkjalýsingarinnar kemur fram að hún nái til jarðanna Stóra-Knarrarness og Minna-Knarrarness. Er undir 1. tölulið lýst mörkum að austan milli Stóra-Knarrarness og Breiðagerðis. Í a- og b-liðum þessa töluliðs er lýst túnmörkum, annars vegar milli austur- og vesturparts Stóra-Knarrarness og hins vegar milli Stóra-Knarrarness og Minna-Knarrarness. Í 2. tölulið lýsingarinnar er svo lýst mörkum að vestan milli Minna-Knarrarness og Ásláksstaða.
Rétt þykir, meðal annars með vísan til dóms Hæstaréttar 21. maí 1993, bls. 1061 í dómasafni, og þeirra landskiptagerða, sem lágu þar til grundvallar, að vísa til vesturbæjar sem Stóra-Knarrarness I og austurbæjar sem Stóra-Knarrarness II.
Í héraðsdómi eru raktar þær örnefnalýsingar, sem fyrir liggja um hið umdeilda svæði. Þegar litið er til þeirra í heild og allra aðstæðna verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að hafna beri þeirri fullyrðingu áfrýjenda að Knarrarneshöfði takmarkist við klettarana, sem gengur út úr nesinu austanverðu. Verður að telja ótvírætt að svæði það, sem er norðan túns Stóra-Knarrarness, hafi verið kallað Knarrarneshöfði eða Höfði.
Við mat á lýsingu Gísla Sigurðssonar á fjörum fyrir Knarrarnesi er óhjákvæmilegt að hafa í huga að í lýsingunni gætir ósamræmis, sem erfitt er að skýra. Segir þar að Austurbæjarfjörur hafi legið inn að Vörðuskeri, en þá hafi tekið við Minni-Knarrarnesfjörur og legið allt að mörkum móti Breiðagerði. Hið síðastnefnda fær ekki staðist þar sem Minna-Knarrarnes liggur vestan við Stóra-Knarrarnes að mörkum Ásláksstaða. Í lýsingu Gísla er ekki beinlínis sagt hvorum megin höfðans Fjöruvatnsgrandi og Skeljavík eru. Í lýsingu þeirri, sem Kristján Eiríksson skráði 1977 og er meðal annars byggð á lýsingu Soffíu Benjamínsdóttur frá 1976, er Skeljavík ótvírætt staðsett vestan höfðans framan við svonefnt Enni, sem þar er, og eru aðilar sammála um staðsetningu þess. Við mat á lýsingu Soffíu verður hins vegar að hafa í huga að hún var gerð 46 árum eftir að Soffía flutti frá Stóra-Knarrarnesi II og um það leyti er ágreiningur um merki virðist hafa verið að koma upp. Soffía hafði verið í foreldrahúsum að Stóra-Knarrarnesi II frá níu ára til 19 ára aldurs. Lýsing hennar var aldrei borin undir eigendur Stóra-Knarrarness I.
Framburður aðila og vitna, sem komu fyrir dóm, er á þann veg, að ekkert verður af honum ráðið með vissu umfram ofangreindar lýsingar um staðsetningu umræddra kennileita. Þessir aðilar voru þó sammála um að Knarrarneshöfði hefði verið nýttur sameiginlega af báðum Stóra-Knarrarnesbæjum til beitar. Af gögnum málsins verður og ráðið að eitthvert útræði hafi verið frá báðum bæjum. Þegar litið er til aðstæðna verður að telja líklegt að báðir bæirnir hafi haft uppsátur á höfðanum austanverðum, þar sem kort í málinu staðsetja Stóra-Knarrarnesvör og áfrýjendur vilja jafnframt kalla Skeljavík. Í lýsingu Kristjáns Eiríkssonar segir að innsiglingin inn í vörina hafi verið nokkuð greið og legið meðfram skerinu Þríhyrningi, en staðsetning þess er óumdeild. Ekkert er í lýsingum getið um innsiglingu vestan á nesinu og benda aðstæður fremur til þess að hún hafi verið torveld.
III.
Eins og áður er fram komið er tekið fram í upphafi landamerkjalýsingarinnar frá 1886, að hún nái til jarðanna Stóra-Knarrarness og Minna Knarrarness. Að því er varðar austur- og vesturparta Stóra-Knarrarness er einungis lýst túnmörkum milli þeirra. Í örnefnalýsingum Gísla Sigurðssonar og Kristjáns Eiríkssonar er talað um Norðurtún, svokallaðan Harðavöll, norðan bæjar, og kemur fram í síðarnefndri lýsingu að það hafi tilheyrt austurbænum. Áður fyrr voru bæirnir sambyggðir, þar sem nú eru bæjarrústir. Í framburði Ara Benjamínssonar fyrir dómi kom fram að faðir hans, sem var eigandi Stóra-Knarrarness II frá 1929 til 1950, hefði nýtt þetta tún. Ef kröfulína áfrýjenda yrði tekin til greina norðan gamla bæjarins er ljóst að lítill sem enginn hluti túns þessa félli í hlut Stóra-Knarrarness II, en kröfulínan liggur mjög nálægt sjávarbakkanum. Þykir það ekki fá staðist að stór hluti túns þess, sem hér um ræðir, hafi horfið vegna ágangs sjávar og verður því ekki fallist á kröfu áfrýjenda að þessu leyti.
Fyrir liggur að norðan við umrætt tún hefur verið hlaðinn grjótgarður þvert yfir nesið. Liggur hann í línu frá vík þeirri vestanmegin, sem stefndi telur Skeljavík, í norðanverða Stóra-Knarrarnesvör, sem áfrýjendur nefna einnig Skeljavík. Af hálfu stefnda er því haldið fram að garðurinn hafi verið hlaðinn eftir að landamerkjum var lýst 1886 og hafi merkjaþúfurnar tvær, sem vísað er til í henni, lent undir garðinum. Þar sem engin haldbær gögn eru til um þetta verður ekki á þessu byggt.
Fram kom hjá Ara Benjamínssyni að garðurinn hafi skilið höfðann frá túninu, en eins og fyrr segir eru aðilar sammála um að kúm frá báðum bæjum hafi verið beitt á höfðann norðan túnsins. Þegar til þessa er litið, svo og orðalags landamerkjalýsingarinnar 1886, þar sem aðeins er talað um túnmörk milli vestur- og austurparts Stóra-Knarrarnesbæjanna, verður talið að hún hafi einskorðast við skiptingu túna milli bæjanna, en ekki verið ætlað að ná til Knarrarneshöfða norðan þeirra eða fjörunnar við hann. Með hliðsjón af því skiptir ekki máli að upphaf línu suður túnið sé í landamerkjalýsingunni miðað út frá punkti í fjörunni. Bendir flest til þess að á þennan hluta Stóra-Knarrarness hafi verið litið sem óskipta sameign bæjanna. Er það og í samræmi við það sem áður sagði, að líklegt væri að báðir bæirnir hafi getað hagnýtt sér greiða innsiglingu frá náttúrunnar hendi í Stóra-Knarrarnesvör og haft aðstöðu við hana. Verður því ekki dæmt í máli þessu um skiptingu lands norðan áðurnefnds grjótgarðs, þar sem eðlilegra er að hún fari fram á grundvelli landskiptalaga nr. 46/1941, ef aðilar vilja skipta því. Þegar litið er til þess, sem hér að framan var sagt um Norðurtún (Harðavöll), er rétt að upphafspunktur að norðan í grjótgarðinum teljist þar sem stefndi telur vera Markaþúfu efri.
Að þessu athuguðu eru landamerki Stóra-Knarrarness I og II réttilega ákveðin svo, að frá umræddum grjótgarði að norðan, sem liggur þvert yfir nesið, skuli bein lína dregin úr punkti PP2 í garðinum samkvæmt kröfuuppdrætti og hnitsetningu stefnda, er héraðsdómur byggði á, eftir túninu um rústir gamla bæjarins í miðja tröð sunnan þeirra í punkt PP6, og þaðan áfram eftir tröðinni um punkta PP7 og PP8 út að túnhliði í punkti PP9. Ekki er ástæða til að dæma um landamerki frekar í suður með vísan til fyrrgreinds dóms Hæstaréttar 21. maí 1993 og þeirra landskipta, er um var fjallað í því máli. .
Rétt þykir að málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti falli niður.
Dómsorð:
Knarrarneshöfði norðan hlaðins grjótgarðs, er liggur þvert yfir hann, ásamt tilheyrandi fjöru, telst vera í óskiptri sameign Stóra-Knarrarness I (vesturbæjar) og Stóra-Knarrarness II (austurbæjar).
Landamerki milli jarðanna Stóra-Knarrarness I og Stóra-Knarrarness II að norðan úr fyrrnefndum garði í túngarðshlið skulu vera sem hér segir: Bein lína úr punkti PP2 (X=711731 7950, Y=396852 2590) eftir túni um rústir gamla bæjarins í punkt í miðri tröð sunnan þeirra, PP6 (X=711758 6940, Y=396721 2150), og þaðan eftir tröðinni um punkta PP7 (X=711772 8380, Y=396640 9080) og PP8 (X=711773 1660, Y=396633 3790) í túngarðshlið í punkti PP9 (X=711753 0860, Y=396600 1240).
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 7. maí 2002.
Mál þetta var höfðað 4. september 2001 og tekið til dóms 16. apríl síðastliðinn.
Aðalstefnandi er Kemis ehf., kt. 450471-0389, Breiðhöfða 15, Reykjavík en gagnstefnendur eru Ása Ingólfsdóttir, kt. 240379-5899, Vallarbarði 8, Hafnarfirði, Áslaug Hulda Ólafsdóttir, kt. 070730-4219, Kirkjuvegi 1, Keflavík, Baldur Ellertsson, kt. 140958-5149, Hrauntungu 89, Kópavogi, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, kt. 171228-3019, Safamýri 47, Reykjavík, Bjarni Ástvaldsson, kt. 270855-2029, Holtsgötu 9, Sandgerði, Eyjólfur Ólafsson, kt. 130432-4179, Sæviðarsundi 29, Reykjavík, Guðbergur Ólafsson, kt. 070827-5149, Smáratúni 31, Keflavík, Guðfinna Sigrún Ólafsdóttir, kt. 020718-7499, Arahólum 6, Reykjavík, Guðmundur Ólafsson, kt. 061014-5279, Bræðraparti, Vogum, Vatnsleysustrandarhreppi, Guðmundur Viggó Ólafsson, kt. 201120-7999, Kóngsbakka 18, Reykjavík, Hrefna Ólafsdóttir, kt. 160423-2189, Kirkjuvegi 1b, Keflavík, Hulda Ástvaldsdóttir, kt. 090565-4359, Búhamri 38, Vestmannaeyjum, Hulda Klara Ingólfsdóttir, kt. 130975-3809, Steinahlíð 1, Hafnarfirði, dánarbú Huldu Klöru Ólafsdóttur, kt. 100933-5439, Hringbraut 50, Keflavík, Ingibjörg Júlíusdóttir, kt. 130819-2499, Hrauntungu 89, Kópavogi, Margrét Ólafsdóttir, kt. 111124-6209, Bræðarborgarstíg 9, Reykjavík, Matthías Þ. Hannesson, kt. 221252-4549, Ásabraut 8, Sandgerði, Ólafur Ástvaldsson, kt. 150363-2849, Tjarnargötu 8, Sandgerði, Ólafur Ellertsson, kt. 030656-4079, Bæjargili 7, Garðabæ, Ólafur Þór Jónsson, kt. 031242-3719, Birkihlíð 26, Reykjavík, Sigríður S. Jónsdóttir, kt. 280337-4129, Arnarsmára 24, Kópavogi og Þröstur Hlöðversson, kt. 120957-3689, Vatnsendabletti 173, Kópavogi.
Dómkröfur aðalstefnanda eru aðallega þær að dæmt verði að landamerki jarðanna Stóra-Knarrarness I (austurbæjar), annars vegar og Stóra-Knarrarness II (vesturbæjar) hins vegar séu úr punkti P 102 austast í Vörðuskeri í punkt SK3 í ósi við Fjöruvatnsgranda austanverðan, þaðan í punkt SK2 í Skeljavík, þaðan beina stefnu í punkt PP2 í þúfu (Markaþúfu efri) í Knarrarneshöfða um ómerktan punkt í þúfu (Markaþúfu fremri) í Knarrarneshöfða, þaðan í beina línu eftir garðlagi og götu milli túnanna í punkt PP4, þaðan um punkt PP5 heim að bæ (nú bæjarrúst), þaðan um bæjarrústina og eftir tröðinni út að túngarðshliði eftir brotinni línu um punkta PP6, PP7, PP8 og PP9 og þaðan úr austanverðu túngarðshliði á heimreiðinni í punkt á nýju Reykjanesbrautinni, 141 m frá Breiðagerðismerkjum, á línu dreginni hornrétt á þau merki, allt samkvæmt landamerkjalýsingu frá 11. júní 1886, landskiptagerð frá 29. apríl 1986 , örnefnaskrám og uppdrætti verkfræðistofunnar Hnit hf.
Til vara krefst aðalstefnandi þess að dæmt verði að landamerki jarðanna Stóra-Knarrarness I (austurbæjar), annars vegar og Stóra-Knarrarness II (vesturbæjar), hins vegar séu úr punkti SK3 í ósi við Fjöruvatnsgranda austanverðan, þaðan í punkt SK2 í Skeljavík, þaðan beina stefnu í punkt PP2 í þúfu (Markaþúfu efri) í Knarrarneshöfða um ómerktan punkt í þúfu (Markaþúfu fremri) í Knarrarneshöfða, þaðan beina línu eftir garðlagi og götu milli túnanna í punkt PP4, þaðan um punkt PP5 heim að bæ (nú bæjarrúst), þaðan um bæjarrústina og eftir tröðinni út að túngarðshliði eftir brotinni línu um punkta PP6, PP7, PP8 og PP9, allt samkvæmt landamerkjalýsingu frá 11. júní 1886, örnefnaskrám og uppdrætti verkfræðistofunnar Hnit hf.
Í aðal- og varakröfu krefst aðalstefnandi málskostnaðar að mati dómsins.
Í aðalsök krefjast gagnsstefnendur sýknu og málskostnaðar.
Í gagnsök krefjast gagnstefnendur að landamerki jarðanna Stóra-Knarrarness I og Stóra-Knarrarness II (austur- og vesturparts Stóra-Knarrarness) verði ákvörðuð með eftirfarandi hætti: Úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan allt upp í Skeljavík, þaðan í tvær þúfur á Knarrarneshöfða er bera skulu hvora í aðra og þá eftir garðlagi og götu milli túnanna heim að bæ og um bæinn eftir tröðinni út að túngarðshliði. Þá krefjast gagnstefnendur málskostnaðar.
Aðalstefnandi krefst sýknu og málskostnaðar í gagnsök.
I.
Jörðin Knarrarnes á Vatnsleysuströnd er fornt býli. Skiptist jörðin þegar á 18. öld í tvö býli, Stóra-Knarrarnes og Minna-Knarrarnes. Stóra-Knarrarnesi var síðar skipt í tvær jarðir og í þessu máli deila aðilar um landamerki milli þessara jarða. Aðalstefnandi er eigandi eystri hlutans en gagnstefnendur eiga vestari hlutann.
Ágreiningur er um nafn býlanna. Að áliti aðalstefnanda nefnast þau Stóra-Knarrarnes I (austurbær) og Stóra-Knarrarnes II (vesturbær) en gagnstefnendur telja þau rétt nefnd Knarrarnes II (austurbær) og Knarrarnes I, stóra (vesturbær). Aðalstefnandi leitaði úrlausnar örnefnanefndar um þetta atriði en nefndin taldi sig ekki geta tekið afstöðu í málinu að svo stöddu. Til aðgreiningar og glöggvunar verða bæirnir hér á eftir nefndir vesturbær og austurbær.
Jarðirnar Minna-Knarrarnes og Stóra-Knarrarnes (vesturbær og austurbær) og Breiðagerði liggja samsíða við sjávarströndina frá norðvestri til suðausturs. Þann 29. apríl 1986 fóru fram landskipti á „hluta óskipts lands jarðanna Stóra-Knarrarness I, Stóra-Knarraness II og Minna-Knarrarness“ landinu milli túngarðs eins og hann var 1886 og Reykjanesbrautarinnar nýju (frá 1966). Stóra-Knarrarnes I er hér vesturbærinn en Stóra-Knarrarness II austurbærinn. Allt land norðan og innan túngarðsins var þá þegar skipt.
Í landskiptagerðinni segir m.a.: „Ágreiningslaust er að Stóra-Knarrarnes hafi verið 20 5/6 hundruð sem síðan hafi skipst að jöfnu milli austurparts og vesturparts. Mörk milli parta þeirra er nú útskipt verða: a) Milli Stóra-Knarrarness II (austurpartsins) og Stóra-Knarrarness I (vesturpartsins): Úr austanverðu túngarðshliði á heimreiðinni í punkt á nýju Reykjanesbrautinni 141 m frá Breiðagerðismerkjum á línu dreginni hornrétt á þau merki.“
Þessi merki munu vera óumdeild og er kröfulína aðalstefnanda samkvæmt þessum skiptum frá túngarðhliðinu að Reykjanesbraut.
Í landskiptagerðinni er tekið fram að ágreiningur sé um neðri hluta línunnar milli vestur- og austurbæjar en ályktað að skiptin geti engu að síður farið fram. Í þessu máli er einmitt deilt um þessi mörk frá sjó að túngarðshliði.
Þann 20. apríl 1986 dró Pétur Hjálmsson á landskiptakort, sem hann hafði gert á vegum Búnaðarfélags Íslands, línu frá heimtröð að gömlu bæjarrústunum í miðri sjávartröð, gegnum utanvert Enni, í stefnu á austurenda Vörðuskers til að jafna stærð jarðanna vegna skiptingar. Eigandi austurbæjar var þá tilbúinn að fallast á þau skipti þótt hann fengi með því lagi aðeins minna land. Þann 28. maí 1986 gerði Pétur landskiptakort á vegum Búnaðarfélags Íslands og þann 18. júní s.á. hælaði hann út landamerkjalínur. Járnhæll í sjávartröðinni (PP4) á merkjum milli jarðeigna aðila mun vera einn þeirra hæla sem Pétur setti niður á þessum tíma og annar hæll var settur niður norðan við Reykjanesbraut á mörkum Stóra-Knarrarnessbæjanna.
Samkvæmt vottorði Péturs 18. maí 1999 var ákveðið við landskiptin að hann myndi ekki fjalla um skipti á „Höfðanum“ fyrir landi Stóra-Knarrarness. Hann gerði þó tilraun til að skipta „Höfðanum“ en því var hafnað.
Að því er hér skiptir máli voru skiptin staðfest með bréfi landbúnaðarráðuneytisins 21. maí 1986, yfirlandaskiptagerð 1. júlí 1987, dómi aukadóms Kjósarsýslu 1. nóvember 1989 og hæstaréttardómi 21. maí 1993.
II.
Þann 11. júní 1886 var undirrituð og samþykkt landamerkjalýsing Knarrarness í Vatnsleysustrandarhreppi sem „innibindur Stóra-Knarrarnes og Minna-Knarrarnes“: Túnmörkum milli „austurparts og vesturparts Stóra-Knarrarness“ er lýst þannig: „Úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan allt upp í Skeljavík; þaðan í tvær þúfur í Knarrarneshöfða, er bera skulu hvora í aðra og þá eptir garðlagi og götu milli túnanna heim að bæ og um bæinn, eptir tröðinni út að túngarðshliði.“
Undir þessa lýsingu rituðu m.a. eigendur að vesturparti Stóra-Knarrarness en núverandi eigendur beggja parta rekja rétt sinn til þáverandi eigenda með óslitinni röð afsala og skiptagerða. Ágreiningslaust er að þessi lýsing, svo langt sem hún nær, gildi um mörk býlanna, en ágreiningur er um staðsetningu merkjapunkta og við hvaða staði örnefnin eiga. Merkjaskráin var þinglesin 15. júní 1886.
Í örnefnaskrá Örnefnastofnunar með yfirskriftinni Knarrarnes, saminni eftir lýsingu Gísla Sigurðssonar segir svo m.a.:
„Knarrarnesfjörur (9) voru fjörurnar nefndar fyrir landinu öllu. Skiptust svo milli býlanna. Fyrst voru Vesturbæjarfjörur (14) og náðu að Fjöru-Vötnum (15) með Fjöru-Vatnaós (16) við Fjöru-Vatnagranda (17) en úr Fjöru-Vötnum lá línan upp í Skeljavík (18). Þá tóku við Austurbæjarfjörur (19) og láu inn að Vörðuskeri (20 -.“
Í örnefnaskrá Kristjáns Eiríkssonar, sem aðallega er byggð á lýsingu Soffíu Benjamínsdóttur, segir m.a.:
„Knarrarnesvík (37) er allstór vík fram af Minna-Knarrarnesi. Við hana, beint niður af bænum, er uppsátrið frá Minna-Knarrarnesi. Sjávarhúsin standa á kampinum sunnan við það. Niður af þeim eru fjöruvötn. Fram af Minni-Knarrarnesvör (38) er krókótt leið milli skerja. Þegar komið er dálítið út úr henni er Vörðusker (39) á hægri hönd. Sundið á milli þessara skerja heitir Vörðuskerssund (41). Ströndin austan Knarrarnesvíkur er nokkuð bein en skerjótt er fram af henni. Þá tekur við Skeljavík (42), lítil vík framan við áðurnefnt Enni. Þá tekur við Höfðinn og innan hans Breiðagerðisvík (43).“
Aðalstefnandi byggir kröfu sína á þessum lýsingum.
Ystu mörk Minna-Knarrarness og Stóra-Knarrarness eru í sunnanverðu Vörðuskeri sem aðalstefnandi telur vestan sinna merkja. Hann telur örnefnaskrárnar taka af tvímæli um að Fjöruvötn og þar með Fjöruvatnsgrandi og Skeljavík séu vestan Knarrarneshöfðans en ekki austan við hann eins og gagnstefnendur halda fram og að Skeljavík sé litla víkin utan Ennis en ekki vörin austan í Höfðanum, Stóraknarrarnesvör, þar sem gagnstefnendur telja merkin vera.
Þessari staðhæfingu til sönnunar vitnar aðalstefnandi til örnefnaskrár Gísla Sigurðssonar þar sem segir: „Innan til á Knarrarnesi er góð vör Stóra-Knarrarnesvör Innri (42).“ Einnig til lýsingar Soffíu Benjamínsdóttur: „Stóra-Knarrarnesvör (44) er austan í Höfðanum. Dálítill klettarani gengur fram austanmegin hennar.“
Gagnstefnendur halda því aftur á móti fram að þar sem Höfðans er getið í merkjalýsingunni sé átt við þennan rana.
Í lýsingu Gísla Sigurðssonar segir enn fremur: „Upp á Höfðanum eru tvær þúfur. Markaþúfan fremri (86) og Markaþúfan efri (87). Sunnan í Höfðanum eru hallar og nefnast Enni (90).“ Hjá Soffíu Benjamínsdóttur er þessi lýsing orðuð svo: „Uppi á höfðanum eru tvær þúfur: Markaþúfa, fremri (24) Markaþúfa, efri (25). - Sunnan í Höfðanum er Enni (26). et., hallandi land.“
Aðalstefnandi telur að enn móti fyrir þúfunum undir garðhleðslu og hefur hann merkt punktinn PP2 þar sem hann telur vera Markaþúfu efri en beina línu milli SK2 í Skeljavík og PP2 telur hann liggja yfir Markaþúfu fremri. Telur hann þessar þúfur vera hinar sömu og þær „tvær þúfur í Knarrarnesshöfða, er bera skulu hvora í aðra“ sem komi fyrir í merkjalýsingunni frá 1886.
Um túnmörk segir svo í lýsingu Gísla Sigurðssonar: „Stóra-Knarrarnestúni (62) var skipt í Vesturbæjartún (63) og Ausurbæjartún (64). Suður frá bænum láu Traðirnar (71) - Í Norðurtúninu (77) var flöt, nefnd Harðivöllur (78) og um hann lá Sjávarstígurinn (79).“ Soffía Benjamínsdóttir lýsi túnmörkum þannig: „Í Norðurtúni (18) Austurbæjar var flöt nefnd Harðivöllur (19), næst norðan við gömlu bæina. Um hann lá sjávarstígurinn, meðfram sjónum, út á Nesið (20) og Höfðann (21), sem er á því. Hann er einnig nefndur Knarrarneshöfði (22).“
III.
Þann 6. júní 1978 var höfðað landamerkjamál að frumkvæði eigenda vesturbæjarins vegna ágreinings um túnmörk. Í því máli kom fram mismunandi túlkun á merkjalýsingunni frá 1886. Málinu var vísað frá dómi þar sem verulega þótti skorta á upplýsingar.
Samkvæmt framburði eiganda austurbæjarins í lögregluskýrslu 18. ágúst 1995 settu vesturbæjarmenn upp girðingu á austurbæjarlandi árið 1983 en hún var tekin niður að skipun sýslumanns.
Þann 13. janúar 1989 var þingað út af landamerkjaágreiningi eigenda þeirrar jarðar sem mál þetta snýst um og eiganda Minna-Knarrarness. Af hálfu eigenda vesturbæjarins var þess krafist að Höfðinn tilheyrði þeirra landi. Þeirri kröfu mótmælti þáverandi eigandi austurbæjarins og staðhæfði að mörkin í Höfðanum lægju ljós fyrir samkvæmt landamerkjalýsingu. Sáttatilraun varð árangurslaus.
Þann 25. maí 1993 ritaði eigandi austurbæjarins sýslumanni bréf þar sem þess var óskað að leitað yrði sátta með aðilum í tilefni af því að eigendur vesturbæjarins hefðu fært girðingu inn á mitt land hans og reist hús á landi hans. Þann 2. júní 1993 lagði sýslumaður fyrir málshefjanda að skilgreina ágreining aðilanna nánar með uppdrætti af landamerkjum eins og hann teldi þau eiga að vera og setja inn á hann girðingu. Þann 10. júní 1993 sendi eigandi austurbæjarins sýslumanni umbeðið kort og skýrði jafnframt frá því að húskofi hefði verið byggður í bæjarrústunum sín megin.
Þann 18. ágúst 1995 óskaði eigandi austurbæjarins eftir aðstoð lögreglu vegna girðingaframkvæmda vesturbæinga á landi hans. Tveir eigenda vesturbæjarins sem lögreglan hitti þar fyrir kváðu vesturbæinga eiga spilduna sem þeir höfðu girt. Girðingin lá frá gömlu bæjarrústunum í NA, yfir svokallaðan Harðavöll í átt að nefndri Stóru-Knarrarnesvör með stefnu út í skerið Þríhyrning á Breiðagerðisvík. Vesturbæingar sögðust hafa farið að ráðum byggingarfulltrúa en samkvæmt bréfi sveitarstjóra Vatnsleysustrandarhrepps, dags. 5. febrúar 2000, er það ekki í verkahring byggingarfulltrúa að benda á landamerki milli jarða.
Þann 4. september 1995 óskaði eigandi austurbæjarins þess enn við sýslumann að leitað yrði sátta og gerði þá kröfu að viðurkennt yrði að um mörkin milli austur- og vesturbæjarins í Stóra-Knarrarnesi færi eftir þinglýstu landamerkjabréfi frá 15. júní 1886 og samkvæmt því yrði eigendum vesturbæjarins gert að taka niður girðingu og fuglahús. Þann 9. október 1995 sendu vesturbæingar sýslumanni kort með kröfulínu sínum. Í bréfinu kemur fram að þeir viðurkenna merkjalýsinguna frá 1886 en leggja allt annan skilning í hana en aðalstefnandi, því þeir halda fram að Skeljavík sé uppsátursvík austan í Höfðanum
Þann 17. október 1995 var ágreiningur aðila tekinn fyrir utan réttar til sátta samkvæmt ákvæðum 3. mgr. 6. gr. laga nr. 41/1919 um landamerki, sbr. 25. gr. laga nr. 92/1991. Fram kom að ágreiningur var um örnefni frá túngarðshliði og niður í sjó. Sáttatilraun sýslumanns varð árangurslaus.
IV.
Aðalstefnandi telur sinn skilning á merkjaskránni mun eðlilegri en skilning gagnstefnenda og að örnefnaskrár taki af tvímæli í því efni. Kröfur gagnstefnenda leiði til ójöfnuðar. Aðalstefnandi telur að í samræmi við yfirlandskiptagerð eigi skipting lands milli býlanna að vera jöfn. Merki sunnan túngarðs séu óumdeild og að svokallaður Harðivöllur (eða Norðurtún) tilheyri austurbænum. Um hann hafi legið sjávarstígur fram á nesið. Með því að rekja merki öndvert við lýsingu landamerkjaskrár telur aðalstefnandi ljóst að merkin milli jarðanna liggi frá bænum (bæjunum) eftir þessum sjávarstíg í garð fyrir enda stígsins, sem hreppsnefnd hafi á sínum tíma látið hlaða þvert yfir Höfðann. Í garðinum séu merkjaþúfur þær sem vitnað sé til í landamerkjalýsingunni. Hafi garðurinn verið lagður yfir þúfurnar og hulið þær. Aðalstefnandi telur þó að vel sjáist enn móta fyrir þeim undir garðinum. Þaðan fylgi svo merkin garðinum í átt vestur að Skeljavík og í ósinn í Fjöruvatnsgrandanum. Aðalstefnandi telur, í samræmi við örnefnaskrár, Skeljavík vera víkina norður og vestur af bænum en Vörðusker þar út af. Enda sé víkin skeljótt mjög og hafi þar verið mikill kræklingur þar til æðarvarp var friðuð. Fjöruvatnsgranda telur aðalstefnandi vera í fjörunni í átt að austurenda Vörðuskers.
Skipting landsins norðan og neðan túngarðs samkvæmt uppdrætti Péturs Hjálmssonar og hnitamælingu Gísla Óskarssonar sé jöfn eða u.þ.b 2,48 ha. er komi í hvors hlut. Samkvæmt skilningi gagnstefnenda hlyti vesturbærinn 3,38 ha. en austurbærinn aðeins 1,58 ha. Að mati aðalstefnanda hafi girðingin frá 18. ágúst 1995 farið í bága við girðingalög nr. 10/1965 sbr. einkum 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. gr. laga nr. 41/1971. Sá skilningur á merkjalýsingu jarðanna sem girðingin hafi miðað við myndi leiða til þess að austurbærinn fengi aðeins u.þ.b. 1 ha. beitilands milli túngarðs og sjávar og frá sjávarkambi neðan gömlu rústanna að austanverðum Halagarði, að meðtöldum hlaðvarpanum. Mælt flatarmál heimalands jarðarinnar norðan og neðan túngarðs myndi leiða til að vesturbærinn fengi 3,355 ha. í sinn hlut en austurbærinn aðeins 1,615 ha. Flatarmál skikans milli þeirra merkja sem aðalstefnandi viðurkenni og girðingarinnar sé 0,87 ha. en sé það stykki reiknað austurbænum verði lönd aðila túngarðs jöfn að stærð, 2,485 ha.
Yrði því játað að gagnstefnendur ættu deilustykkið væri allur eignarréttur til sjávar tekinn af fornri útvegsjörð.
Á 7. eða 8. áratugnum hafi vesturbæingar byggt bátaskýli það er enn standi við Knarrarnesvík, innan við Enni, rétt vestan merkjanna að skilningi aðalstefnanda og bendi það ekki til að þeir hafi á þeim tíma álitið sig eiga deilulandið. Muni þeir þá hafa sjósett að vestanverðu.
Aðalstefnandi styður kröfur sínar við ákvæði landamerkjalýsingar og örnefnaskrár kunnugra manna og staðhætti.
Varðandi sönnunarbyrði er því haldið fram að aðalstefnandi hafi leitt svo veigamikil rök að sínu máli að sönnunarbyrðin hvíli á gagnstefnendum samkvæmt sönnunarreglum í öllu sem máli skipti.
Aðalstefnandi hefur lagt fram uppdrátt af þrætulandinu með hnitasetningu kröfulínunnar. Hnitin eru samkvæmt GPS mælingu Gísla Óskarssonar mælingamanns og hefur aðalstefnandi fært staðaheiti inn á uppdráttinn.
Aðalstefnandi tekur fram til skýringar á kröfugerð að varakrafan miðist við að ekki verði talið nægilega í ljós leitt að skipti hafi verið gerð lengra út en í punkt SK 3 í ósnum og að þarflaust sé að krefjast dóms um óumdeild merki sunnan túngarðs.
V.
Gagnstefnendur mótmæla hnitasetningu stefnanda sem rangri. Í gagnsök hafa gagnstefnendur lagt fram loftmynd með hnitasetningu eftir þeirra kröfum. Gagnstefnendur halda því fram að hitasetning aðalstefnanda sé röng og benda á að ós við Fjöruvatnsgranda (hnitapunktur nr. SK3) og Skeljavík (hnitapunktur SK2) séu ranglega staðsett sem leiði af sér að kröfulína aðalstefnanda (bæði aðal- og varakrafa) fái engan veginn staðist. Af einhverjum ástæðum kjósi aðalstefnandi að staðsetja þessi kennileiti vesta við Nesið, en Nesið (Knarrarnesið) nefni aðalstefnandi ranglega Knarrarneshöfða.
Aðrir viðmiðunarpunktar séu einnig að mati gagnstefnenda ranglega staðsettir hjá aðalstefnanda þótt ekki skeiki þar eins miklu. Gagnstefnendur halda því fram að hnitapunktar PP2 (þúfa), PP4 (garðlag og gata milli túna) og PP5 (bæjarrúst) sé nokkru vestar en vera ætti með réttu.
Gagnstefnendur byggja sýknukröfu sína á því að rangfarið sé með staðsetningu kennileita hjá aðalstefnanda. Benda gagnstefnendur á að landamerkjalýsingin fyrir Knarrarnesjarðir, dags. 11. júní 1886, sé bæði skýr og ótvíræð. Sé landamerkjalýsingin þannig auðlesanleg og kennileiti sem þar sé miðað við sýnileg og vel finnanleg í landinu. Með vísan til þessa hafni gagnstefnendur alfarið bæði aðal- og varakröfu aðalstefnanda og að auki öllum skilningi hans og sjónarmiðum um ójöfnuð ef ekki yrði fallist á kröfur hans í málinu. Slíkar fullyrðingar aðalstefnanda séu fráleitar auk þess sem aðalstefnandi geri ekki neina tilraun til þess að rökstyðja fullyrðingar sínar að þessu leyti né heldur að tiltaka hvaðan hann fái upplýsingar um staðsetningu kennileita sem hann byggi kröfur sínar á. Í öllu falli sé ljóst að framlagðar örnefnaskrár taki alls ekki af tvímæli um staðsetningu kennileita eða legu landamerkja eins og aðalstefnandi haldi fram og mótmæli gagnstefnendur þeim fullyrðingum hans.
Lega garðlagsins og götunnar sem miðað sé við ætti ekki að þurfa að vera deiluefni hjá aðilum enda þessi kennileiti vel greinanleg í landinu. Þá séu rústir gamla Knarranesbæjarins vel sýnilegar. Sama gildi einnig um „túngarðshlið“ og sé ekki deilt um staðsetningu þess.
Gagnstefnendur halda því fram að örnefnalýsingar þær sem aðalstefnandi byggi á séu ósamhljóða og um margt villandi. Eigi það sérstaklega við um lýsingu ættaða frá Soffíu Benjamínsdóttur, sem gagnstefnendur telji beinlínis ranga. Ekki sé vitað til þess að Soffía hafi þekkt til örnefna á Vatnsleyuströnd og óljóst sé með öllu hvers vegna þurft hafi að umorða og breyta örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar. Eigi það t.d. við um þá fullyrðingu að Skeljavík sé að vestanverðu á Höfðanum, sem gagnstefnendur telja rangt. Þau staðsetja Skeljavík að austanverðu við Höfðann (Knarrarneshöfða).
Þessu til stuðnings vísa gagnstefnendur til framburðar aðilanna Bjarneyjar Guðrúnar Ólafsdóttur, fæddrar 1928 og Margrétar Ólafsdóttur Svendsen, fæddrar 1924, en báðar séu fæddar og uppaldar að Knarrarnesi.
Gagnstefnendur vísa til landamerkjalaga nr. 5/1882 og nr. 41/1919 með síðari breytingum og almennra reglna íslensks réttar um gildi landamerkjabréfa og túlkun þeirra.
VI.
Eins og að framan er rakið eru aðilar sammála um að landamerkjalýsingin frá 11. júní 1886 gildi um mörk austurparts og vesturparts Stóra-Knarrarness, en þar segir: „Úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan allt upp í Skeljavík; þaðan í tvær þúfur í Knarrarneshöfða, er bera skuli hvora í aðra og þá eftir garðlagi og götu milli túnanna heima að bæ og um bæinn, eftir tröðinni út að túngarðshliði.“
Þessa lýsingu túlka aðilar hvor með sínum hætti. Deila þeir sérstaklega um staðsetningu örnefnanna Skeljavíkur, Fjöruvatnsgranda og Knarrarneshöfða. Aðalstefnandi, eigandi austurbæjar, telur Skeljavík og Fjöruvatnsgranda vera á vestanverðu nesinu og er kröfugerð hans miðuð við það. Gagnstefnendur, eigendur vesturbæjar, telja hins vegar þessi kennileiti vera staðsett á austanverðu nesinu. Þá kallar aðalstefnandi nesið Knarrarneshöfða eða Höfða en gagnstefnendur kalla hið sama nes Knarrarnes eða Nes. Ekki er deilt um staðsetningu gamla bæjarins enda rústir hans vel sýnilegar ásamt tröðinni fyrir framan bæinn.
Nokkrar heimildir eru til um þessi kennileiti. Við úrlausn málsins hefur dómurinn stuðst við eftirfarandi gögn: 1. Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar sem til er á Örnefnastofnun. 2. Örnefnaskrá sem skráð var af Kristjáni Eiríkssyni. Heimildir þeirrar skrár er lýsing Gísla Sigurðssonar og lýsing Soffíu Benjamínsdóttur, sem skráð var 1976. Soffía var fædd 1911 og bjó að Stóra-Knarrarnesi frá 1920 til 1930. Lýsingin var borin undir mann hennar Guðmund Gíslason sem var fæddur í Minna-Knarrarnesi 1912 og alinn þar upp til 1935. Faðir Guðmundar og afi bjuggu báðir í Minna-Knarrarnesi og mun ættin hafa komið þangað 1820. Soffía Benjamínsdóttir var dóttir Benjamíns Halldórssonar er áður bjó í austurbænum. 3. Örnefnaskrá Ara Gíslasonar. 4. Framburð aðilanna Bjarneyjar Guðrúnar Ólafsdóttur og Margrétar Ólafsdóttur Svendsen hér fyrir dómi. Þær eru báðar fæddar og uppaldar í austurbænum, Bjarney fædd 1928 en Margrét 1924. Þær báru að lítill klettarani á austanverðu nesinu hefði verið kallaður Knarrarneshöfði en nesið sjálft ávallt kallað Knarrarnes eða Nes. Skeljavík væri fyrir framan þennan klettarana og Fjöruvatnsgrandi í flæðarmálinu þar fyrir utan.
Efni örnefnaskránna er rakið hér að framan. Allar þessar skrár styðja túlkun aðalstefnanda á landamerkjalýsingunni frá 1886, þ.e. að Fjörvatnsgrandi og Skeljavík séu á vestanverðu nesinu og nesið kallist Knarrarneshöfði. Í lýsingu Gísla Sigurðssonar segir að fjörurnar fyrir landinu öllu hafi verið nefndar Knarrarnesfjörur. Síðan segir: „Fyrst voru Vesturbæjarfjörur og náðu að Fjöru-Vötnum með Fjöru-Vatnsós við Fjöru-Vatnagranda, en úr Fjöru-Vötnum lá línan upp í Skeljavík. Þá tóku við Austurbæjarfjörur og lágu inn að Vörðuskeri .“ Leggja verður þann skilning í þessa lýsingu að Fjöruvatnsgrandi og Skeljavík hafi verið á vestanverðu nesinu. Soffía Benjamínsdóttur slær því föstu í sinni lýsingu og segir að Skeljavík sé framan við svokallað Enni en ekki er ágreiningur með aðilum um staðsetningu þess kennileitis.
Sú skoðun gagnstefnenda að kennileitin Fjöruvatnsgrandi og Skeljavík séu staðsett á austanverðu nesinu fær hvergi stoð í þeim örnefnaskrám sem fram hafa verið lagðar í málinu. Sú fullyrðing gagnstefnenda að Knarrarneshöfði sé lítill klettarani sem gengur út úr nesinu að austanverðu fær heldur ekki stoð í örnefnaskrám. Þvert á móti er nesið sjálft kallað Knarrarneshöfði og sagt að hann hafi verið grasgefinn og nýttur sameiginlega af báðum bæjum til kúabeitar.
Gagnstefnendur hafa ekki rennt stoðum undir þá málsvörn sína í aðalsök og kröfugerð í gagnsök að framangreindar heimildir og lýsingar í örnefnaskrám séu rangar. Verður þannig ekki á það fallist með gagnstefnendum að draga megi lýsingu Soffíu Benjamínsdóttur frá 1976 í efa vegna þess að hún hafi búið í austurbænum, enda verður ekki séð að hún hafi átt hagsmuna að gæta þar sem faðir hennar seldi austurbæinn 1950 og engar landamerkjadeilur voru þá milli aðila. Tilvísun aðalstefnanda til sanngjarnrar skiptingar á landi Stóra-Knarrarness norðan túngarðshliðs styður og kröfugerð hans í málinu, þó ein og sér geti sú málsástæða hans ekki ráðið niðurstöðu málsins.
Niðurstaða málsins verður því sú að aðalkrafa aðalstefnanda verður tekin til greina að öðru leyti en því að aðalstefnandi þykir ekki hafa sýnt fram á að draga megi skiptalínu úr ós út í Vörðusker. Markalínan verður því talin liggja úr ós við Fjöruvatnsgranda austanverðan í Skeljavík, þaðan í tvær þúfur á Knarrarneshöfða og síðan eftir garðlagi og götu milli túna heim að bæ og um bæinn eftir tröðinni út að túngarðshliði, allt eftir þeirri hnitasetningu sem í dómsorði greinir. Þykja gagnstefnendur ekki hafa sýnt fram á að hnitasetning aðalstefnanda sé röng samkvæmt þessari lýsingu. Við aðalmeðferð kom fram að ekki er ágreiningur um mörk frá túngarðshliði að nýju Reykjanesbrautinni. Verður því aðalkrafa aðalstefnanda að því leyti einnig tekin til greina.
Með hliðsjón af öllum málavöxtum og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að málskostnaður falli niður milli aðila.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan ásamt Jónasi Jóhannssyni og Þorgeiri Inga Njálssyni héraðsdómurum.
DÓMSORÐ
Landamerki milli jarðanna Stóra-Knarrarness I (austurbæjar) annars vegar og Stóra-Knarrarness II (vesturbæjar) hins vegar skulu vera sem hér segir: Úr punkti SK3 (X=711799 9220, Y=396878 3910) í ósi við Fjöruvatnsgranda austanverðan, þaðan í punkt SK2 (X=711774 6780, Y=396868 6050) í Skeljavík, þaðan beina stefnu í punkt PP2 (X=711731 7950, Y=396852 2590) í þúfu (Markaþúfu efri) í Knarrarneshöfða um ómerktan punkt (X=711610 3240, Y=396590 0650) í þúfu (Markaþúfu fremri) í Knarrarneshöfða, þaðan í beina línu eftir garðlagi og götu milli túnanna í punkt PP4 (X= 711764 2140, Y=396777 9150 ), þaðan um punkt PP5 (X=711769 9770, Y=396746 6330) heim að bæ (nú bæjarrúst), þaðan um bæjarrústina og eftir tröðinni út að túngarðshliði eftir brotinni línu um punkta PP6 (X= 711758 6940, Y=396721 2150), PP7 (X=711772 8380, Y=396640 9080), PP8 (X=711773 1660, Y=396633 3790) og PP9 (X=711753 0860, Y=396600 1240) og þaðan úr austanverðu túngarðshliði á heimreiðinni í punkt á nýju Reykjanesbrautinni, 141 m frá Breiðagerðismerkjum, á línu dreginni hornrétt á þau merki.