Hæstiréttur íslands
Mál nr. 231/2011
Lykilorð
- Líkamsárás
- Ítrekun
- Skaðabætur
|
|
Miðvikudaginn 1. júní 2011. |
|
Nr. 231/2011. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir settur saksóknari) gegn Andra Vilhelm Guðmundssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) (Erlendur Þór Gunnarsson hrl.) |
Líkamsárás. Ítrekun. Skaðabætur.
X var ákærður fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa veist með ofbeldi að A og meðal annars sparkað í hann svo hann féll í gangstétt og síðan sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama svo hann hlaut lífshættulegan höfuðáverka. Með vísan til framburðar vitna í málinu var brot X talið sannað og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þrjú vitni studdu framburð X en framburður þeirra fyrir dómi þótti ekki trúverðugur þar sem hann hafði breyst frá því að lögregla tók af þeim skýrslu. Við ákvörðun refsingar X var litið til þess að árásin var lífshættuleg og hafði í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir A. Einnig var vísað til 1., 3. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga. X var því dæmdur í 4 ára fangelsi. Þá var honum gert að greiða A 1.000.000 krónur í skaðabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að refsing verði milduð og fjárhæð kröfunnar lækkuð.
A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða.
Fyrir Hæstarétt hefur verið lagt vottorð læknis á endurhæfingardeild Landspítala háskólasjúkrahúss 23. maí 2011. Þar kemur fram að brotaþoli hafi verið til meðferðar á deildinni frá 17. janúar sama ár vegna heilaáverkans sem hann hlaut við árás ákærða. Hann glími enn við töluverðar afleiðingar áverkans og sé með „hugræna skerðingu“. Taugasálfræðilegt mat hafi sýnt talsverða og fjölþætta áunna taugasálfræðilega veikleika, meðal annars minnisskerðingu og skert vinnsluminni, einbeitingu, úthald og skipulag. Einnig eigi hann erfitt með orðminni og sé þvoglumæltur. Þá hafi hann verki í útlimum og beri merki kvíða og þunglyndis. Að virtum þeim alvarlegu afleiðingum sem brot ákærða hefur valdið, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms um refsingu ákærða er hún ákveðin fangelsi í 4 ár. Frá refsingunni skal draga gæsluvarðhaldsvist ákærða eins og nánar segir í dómsorði.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði. Þá verður ákærða einnig gert að greiða brotaþola málskostnað fyrir Hæstarétti svo sem í dómsorði segir.
Dómsorð:
Ákærði, Andri Vilhelm Guðmundsson, sæti fangelsi í 4 ár, en frá refsingunni skal draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 3. janúar 2011 til 6. maí sama ár.
Ákvæði héraðsdóms um einkaréttarkröfu og sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, 331.622 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 313.750 krónur. Þá greiði ákærði A 100.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 18. febrúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 21. janúar 2011 og framhaldsákæru útgefinni 14. febrúar 2011, á hendur Andra Vilhelm Guðmundssyni, kt. 220586-2199, Höfðabakka 1, Reykjavík, fyrir stórfellda líkamsárás með því að hafa að morgni nýársdags, 1. janúar 2011, utandyra við [...] í Hafnarstræti í Reykjavík veist með ofbeldi að A, kennitala [...], m.a. sparkað í hann, svo hann féll í gangstéttina og síðan sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama þar sem hann lá. Afleiðingar árásarinnar urðu þær að A hlaut lífshættulegan höfuðáverka, þ.e. höfuðkúpubrot með utanbastsblæðingu undir brotinu hægra megin á gagnaugasvæði og heilamar vinstra megin í gagnstæðum hluta heila.
Er þetta talið varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gerir brotaþoli einkaréttarkröfu á hendur ákærða, samtals að fjárhæð 2.451.800 krónur með vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. janúar 2011 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá 18. febrúar 2011 og til greiðsludags.
Ákærði neitar sök. Af hálfu verjanda ákærða er þess krafist að ákærði verði sýknaður af kröfum ákæruvalds og að verjanda verði tildæmd málsvarnarlaun.
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu frá laugardeginum 1. janúar 2011 fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þann dag kl. 07.27 tilkynningu um slagsmál við [...] í Hafnarstræti í Reykjavík og að maður lægi eftir. Fram kemur að er lögregla hafi komið á staðinn hafi A legið á gangstéttinni. Hafi hann verið meðvitundarlaus og ekki svarað áreiti. Óskað hafi verið eftir sjúkrabifreið á staðinn. A hafi verið fluttur á slysadeild. A hafi verið án klæða að ofan er lögreglu hafi borið að garði. Hafi vegfarendur lagt flíkur yfir hann til að hlífa honum. Þrír vegfarendur hafi gefið sig fram við lögreglu sem vitni að atburðinum, en um hafi verið að ræða B, C og D. Þá hafi gefið sig fram starfsmaður á [...], en A hafi legið fyrir framan hótelið. Í viðræðum við lögreglu hafi vitni þessi tjáð lögreglu að A og annar maður hafi að slást á gangstétt utan við [...]. Hafi þeir báðir verið án klæða að ofanverðu, en ekki hafi verið ljóst hver upphaf átakanna hafi verið eða hvor þeirra hafi byrjað þau. Maðurinn hafi sparkað eða hrint A þannig að A hafi fallið í götuna. Maðurinn hafi síðan fylgt því eftir og sparkað eða trampað á höfuð A. Hafi maðurinn virst athuga með púls A og síðan farið í burtu og þá virst hlæjandi. Hafi hann klætt sig í bol. Einhverjir hafi verið með árásarmanninum í för. Vitnin hafi lýst árásarmanninum sem grönnum manni, á svipuðum aldri og A, með mikið húðflúr, stuttklipptur og klæddur í fjólubláan bol. Fram kemur að C hafi tjáð lögreglu að hún hafi verið að vinna á skemmtistaðnum [...] og munað eftir að hafa afgreitt árásarmanninn fyrr um nóttina. Þá kvaðst hún telja líklegt að dyraverðir á skemmtistaðnum [...] myndu þekkja árásarmanninn með nafni. Í frumskýrslu kemur fram að A hafi verið með kúlu á enni en aðrir áverkar hafi ekki verið sýnilegir við fyrstu sýn.
Ákærði var handtekinn af lögreglu að kvöldi sunnudaginn 2. janúar 2011. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2011 var ákærði úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins allt til 7. janúar 2011. Grundvöllur gæsluvarðhalds voru rannsóknarhagsmunir. Gæsluvarðhald yfir ákærða var framlengt með úrskurði héraðsdóms 7. janúar 2011 til 4. febrúar 2011. Í því tilviki var gæsluvarðhald byggt á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Gæsluvarðhald yfir ákærða var á ný framlengt með úrskurði héraðsdóms 4. febrúar 2011 og hefur ákærði setið í gæsluvarðhaldi á meðan málið hefur verið til meðferðar fyrir héraðsdómi.
Mánudaginn 3. janúar 2011 framkvæmdi lögregla húsleit að Höfðabakka 1 í Reykjavík í íbúð er Andri Vilhelm Guðmundsson, ákærði í máli þessu, hafði til umráða. Fram kemur að ákærði hafi vísað lögreglu á fatnað sem hann hafi tjáð lögreglu að hann hafi verið í að morgni nýársdags. Hafi ljósbláar gallabuxur, fjólublár bolur og skór verið haldlagt.
E heila- og taugaskurðlæknir hefur 6. janúar 2011 ritað læknisvottorð vegna A í framhaldi af komu á slysadeild. Í vottorðinu kemur m.a. fram að A hafi verið kaldur og meðvitundarlaus við komu á spítalann. Hafi hann verið með greinileg áverkamerki á höfði. Hafi hann ekki svarað kalli en brugðist við sársauka. Við komu hafi verið teknar tölvusneiðmyndir af höfði og þær sýnt sprungu í ennisbeini og til hægri á gagnaugasvæði hægra megin. Þar undir hafi verið talsverð utanbastsblæðing og svolítið mar á heila á gagnstæðri hlið vinstra megin. A hafi verið lagður inn á gjörgæslu. Ný mynd hafi verið tekin um 4 til 5 klukkustundum síðar sem hafi sýnt óbreytt ástand að öðru leyti en því að marið vinstra megin í heila hafi heldur aukist. Hafi A verið útskrifaður af gjörgæsludeild daginn eftir á legudeild Heila- og taugaskurðlækna og hafi hann verið þar er vottorðið hafi verið ritað. Hafi líðan hans batnað og hann vaknað meira og meira en síðustu tvo daga hafi hann verið farinn að tjá sig. Reiknað væri með að hann myndi dvelja á spítalanum í 5 til 7 daga til viðbótar. Horfur um bata væru á þessu stigi óljósar en líklegast ætti hann eftir að ná sér nokkuð vel þó erfitt væri að segja til um starfsemi eins og minni, persónuleika og jafnvel tal og tjáskipti. Tæpast væri hægt að slá því föstu fyrr en að liðnum mörgum mánuðum. Ljóst væri að A hafi komið á slysadeild með mjög alvarlegan lífshættulegan höfuð- eða heilaáverka. Sem betur fer hafi blæðingin hætt af sjálfu sér og ekki þurft að fjarlægja hana með aðgerð. Þekkt sé að mikið högg þar sem jafnvel höfuðkúpa brotni orsaki kast á heila sem sláist í höfuðkúpu gagnstæðu megin með mari sem afleiðingum.
Er tekin var framburðarskýrsla af ákærða hjá lögreglu 2. janúar 2011 kvaðst hann hafa verið að skemmta sér á gamlárskvöld með vinum sínum F, G og bróður ákærða H. Hafi þeir verið á leið heim og búið að loka öllu. Klukkan hafi verið um 6.30 eða 7.30 um morguninn. Hafi ákærði kannast lítillega við dreng er hann hafi hitt í bænum en ákærði hafi meira þekkt bróður hans sem gengi undir nafninu I. Hafi ákærði farið upp að manninum og spurt hann hvort hann væri ekki bróðir I. Þá hafi maðurinn byrjað með einhverja stæla. Hafi hann svarað ákærða og byrjað að ýta við honum með báðum höndum á bringuna. Síðan hafi þeir hrint aðeins hvor öðrum og þeir báðir farið úr bolum sínum. Maðurinn hafi ekki dottið í jörðina við það að þeir hafi verið að hrinda hvor öðrum. Hafi ákærði verið að reyna að losa sig frá manninum. Tröppur hafi verið í nágrenninu og hafi maðurinn dottið í jörðina við þær og hann sennilega dottið á þeim. Hafi hann staðið upp aftur og byrjað aftur. Báðir hafi þeir verið ölvaðir en maðurinn hafi vart getað staðið sökum ölvunar. Hann hafi síðan dottið aftur í jörðina en við það hafi ákærði og félagar hans farið í burt. Það eina er ákærði hafi gert hafi verið að ýta manninum frá sér. Hafi hann aldrei sparkað í manninn eða traðkað á honum. Átökin hafi öll farið fram við innganginn að [...], á palli við innganginn. Ákærði hafi ekki skoðað manninn sérstaklega áður en hann hafi farið burt. Umrætt sinn hafi ákærði verið klæddur í gallabuxur og fjólubláan bol. Á staðnum þetta sinn hafi verið J sem, auk þeirra drengja er hafi verið í för með ákærða, gæti hafa séð atvikið. Þessa nótt hafi ákærði drukkið bjór. Hafi hann byrjað að drekka um kl. 2 um nóttina. Ekki hafi hann verið undir áhrifum lyfja.
Framburður ákærða við aðalmeðferð málsins var nokkuð á sama veg og við skýrslugjöf hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa verið á leið heim með félögum sínum eftir að hafa verið að skemmta sér um nóttina. Hafi hann drukkið áfengi og fundið fyrir áfengisáhrifum. Ekki hafi ákærði notað fíkniefni. Í Hafnarstræti hafi hann séð dreng, en ákærði hafi þekkt bróður hans. Hafi ákærði ákveðið að heilsa upp á drenginn en sá hafi strax byrjað að ýta við ákærða. Í framhaldinu hafi drengurinn ,,tjúllast“ og farið úr bol er hann hafi verið í. Við það hafi ákærði farið úr bol er hann hafi verið í. Þeir hafi farið að ýta hvor við öðrum og drengurinn dottið. Hafi hann staðið á fætur aftur og þeir aftur ýtt hvor við öðrum. Aftur hafi drengurinn dottið og ekki staðið á fætur eftir það. Umrætt atvik hafi átt sér stað á palli fyrir utan anddyri [...] í Hafnarstræti. Ákærði kvaðst telja að drengurinn hafi dottið því hann hafi verið undir það miklum áhrifum áfengis. Í síðara skiptið er drengurinn hafi dottið hafi hann dottið aftur fyrir sig og niður tvær tröppur við pallinn. Hafi hann lent á bakinu. Ekki hafi ákærði tekið eftir því hvort drengurinn hafi hreyft sig eftir fallið. Ákærði kvaðst helst telja að drengurinn hafi fengið þá áverka er um getur í ákæru við það að falla aftur fyrir sig. Rangt væri er fram kæmi hjá vitnum að ákærði hafi sparkað í drenginn og slegið hann. Kvaðst ákærði m.a. telja að stúlka á veitingastað er borið hafi vitni í málinu væri að bera með þeim hætti er hún gerði þar sem ákærði hafi fyrr um nóttina ef til vill komið illa fram við hana. Ákærði kvaðst viðurkenna að hafa sparkað í átt að manninum um nóttina. Sparkið hafi hins vegar verið meira út í loftið og ekki lent í manninum. Drengurinn hafi legið í jörðinni er ákærði og félagar hans hafi gengið á brott. Ekki hafi ákærði athugað með lífsmörk drengsins eftir að hann hafi dottið í jörðina.
Lögreglumenn fóru 7. janúar 2011 á Heila- og taugaskurðlækningadeild Landspítala háskjólasjúkrahúss og höfðu tal af A. Hafi A tjáð lögreglumönnum að umrætt sinn hafi hann verið á leið heim. Myndi hann lítið eftir því. Hann myndi þó eftir að hafa gengið í gegnum miðbæinn er ráðist hafi verð á hann. Hafi A aðeins kannast við árásarmanninn en ekki vita nafn hans. Árásarmaðurinn hafi kýlt A ítrekað í andlit og annars staðar. Hafi A verið einn á ferð er þetta hafi verið. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis. Í lok skýrslunnar er tekið fram að A hafi átt erfitt með tal og á stundum hafi verið erfitt að skilja hann.
Fyrir dómi kvaðst A lítið muna atvik umrætt sinn. Myndi hann eftir því að hafa verið að koma af skemmtistaðnum [...] og hafi hann verið á leið heim. Á þeirri leið hafi hann lent í átökum við mann. Ekki myndi hann upphaf þeirra átaka. Hafi A verið ölvaður þessa nótt. Ekki myndi hann eftir að hafa hitt ákærða. Það næsta er hann myndi hafi verið er hann hafi vaknað upp á spítala. Að því er varðaði afleiðingar árásarinnar þá kvaðst A eiga erfitt með bæði hendur og fætur. Þá væri minnið lélegt og talaði hann bjagað. Eins væri hann einungis með hálfa sjón á öðru auga. Þá væri hann með stöðugan höfuðverk og ætti hann erfitt með svefn. Kjálki öðru megin væri illa farinn. Ekki hafi læknar rætt við hann um batahorfur. Væri A á Grensás í endurhæfingu. Væri rætt um að fljótlega færi hann á sjúkrahótel. A kvaðst ekki þekkja ákærða. Hann vissi þó til þess að bróðir A þekkti ákærða. A kvaðst lítið muna eftir því er lögregla hafi komið á spítalann 7. janúar sl. til að ræða við hann.
B kvaðst hafa verið einn á ferð í miðbæ Reykjavíkur þessa nótt. Hafi hann verið á gangi í Hafnarstræti er hann hafi gengið fram á átök við inngang [...] í Hafnarstræti. Er hann hafi komið að hafi verið greinilegt að átökin hafi verið búin að vera í gangi í einhvern tíma og hafi þeim nánast verið lokið. Þegar hann hafi komið að hafi annar mannanna varla staðið í fæturna upp við húsvegg og verið við það að falla í gangstéttina. Greinilegt hafi verið að búið hafi verið að ganga í skrokk á honum. Annar karlmaður, ber að ofan, hafi staðið hjá og hafi sá rokið að þeim sem varla stóð og veitt honum spark sem komið hafi í andlit mannsins eða brjósthæð. Við það hafi maðurinn fallið endanlega í gangstéttina aftur fyrir sig og verið meðvitundarlaus, en höfuð hans hafi sennilega skollið í jörðina. Er B gaf skýrslu hjá lögreglu 3. janúar 2011 greindi hann að auki frá því að eftir að karlmaðurinn hafi fallið hafi árásarmaðurinn veitt manninum þrjú spörk til viðbótar þar sem maðurinn hafi legið í gangstéttinni. Spörkin hafi komið á andlit og bringu þess sem legið hafi í götunni. Við þetta hafi árásarmaðurinn hlaupið í burtu ásamt öðrum mönnum. Hafi þeir hlaupið suður Pósthússtræti og austur Austurstræti í átt að verslun 10-11. Er undir B var borið um atriðin varðandi spörkin þar sem maðurinn lá í götunni kvaðst B hafa munað atvikið betur er hann hafi gefið skýrslu hjá lögreglu skömmu eftir atburðinn. B kvaðst ekki hafa þekkt mennina, hvorki árásarmanninn eða þann sem fallið hafi í götuna. Árásarmaðurinn hafi verið dökkhærður, með stutt hár og áberandi húðflúr á báðum handleggjum. Eftir árásina hafi konur af hótelinu komið að og reynt að aðstoða manninn sem ráðist hafi verið á. Síðan hafi lögregla komið. B kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þessa nótt en engu að síður myndi hann atvik vel. Greinilegt hafi verið að árásarmaðurinn hafi kunnað fyrir sér í einhvers konar bardagalist, en sparkið og það hvernig árásarmaðurinn hafi borið sig að hafi borið þess merki. Einhver þeirra er hafi verið í för með ákærða hafi athugað með lífsmörk á brotaþola eftir árásina. B kvaðst hafa staðið rétt hjá atburðinum og hafi þeir átt sér stað í um 10 metra fjarlægð frá honum.
C kvaðst ekki hafa drukkið áfengi þessa nótt þar sem hún hafi verið að vinna á veitingastaðnum [...] um nóttina. Seint um nóttina hafi hún séð mann inni á veitingastaðnum [...] og hafi hann rifið sig þar úr að ofan. Hafi C haft það hlutverk með höndum að afgreiða ákveðin borð. Hafi maðurinn komið upp að henni og spurt hana af hverju hún væri að horfa hann eins og hann væri dópisti. Hafi hún séð að maðurinn hafi greinilega verið undir áhrifum fíkniefna. Hafi maðurinn m.a. rifið í hana og áreitt hana. Hafi hún greint dyravörðum staðarins frá þessu og þeir sennilega vísað manninum út af staðnum. Um morguninn hafi hún verið á leið af vaktinni og farið um Hafnarstræti í Reykjavík. Hafi hún verið farþegi í bifreið. Hafi hún setið í framsæti bifreiðarinnar en bifreiðinni hafi D samstarfskona hennar ekið. Í Hafnarstrætinu hafi hún séð tvo menn bera að ofan og hafi annar þeirra verið sá er angrað hafi hana inni á [...] fyrr um nóttina. Sá hafi sparkað mjög föstu sparki á milli brjósts og maga í hinn með þeim afleiðingum að sá sem fyrir sparkinu varð hafi kastast niður tvær tröppur fyrir utan [...]. Hafi hann fallið beint í gangstéttina. Þar hafi hann legið að því er virtist án meðvitundar. Hafi C þá hringt í Neyðarlínuna sem gefið hafi henni samband við lögreglu. Hafi hún tilkynnt um árásina og að maður lægi meðvitundarlaus í götunni. Á meðan hún hafi verið að hringja hafi félagar árásarmannsins verið að reyna að róa hann niður. Árásarmaðurinn hafi hins vegar verið í einhvers konar bræði eða neysluástandi hoppandi um. Í kjölfarið hafi hann sparkað tveim spörkum í þann sem hafi legið meðvitundarlaus og hafi C hugsað mér sér að hann ætlaði að drepa manninn. Eftir þessi tvö spörk hafi árásarmaðurinn traðkað ofan á brotaþolanum í þann mund sem félagar mannsins hafi dregið árásarmanninn burt. Hafi traðkið verið meira eins og á hlið á andliti þess sem legið hafi í jörðinni. Síðan hafi einhver félagi árásarmannsins komið að og athugað með lífsmörk á þeim er legið hafi í jörðinni. Síðan hafi allur hópurinn farið burt. Árásarmaðurinn og félagar hans hafi verið nokkrir saman, ef til vill einir sjö. Er atburðirnir hafi átt sér stað hafi C verið í bifreiðinni og í um 6 til 7 metra fjarlægð frá átökunum. Ekki hafi hún þekkt árásarmanninn, félaga hans eða þann sem fyrir árásinni varð. Árásarmaðurinn hafi verið í fjólublárum bol er hann hafi farið af staðnum. Hafi verið eins og árásarmaðurinn hefði æft bardagaíþróttir en spark það sem hann hafi veitt brotaþola hafi komið út frá hlið.
D kvaðst hafa verið við vinnu á veitingastaðnum [...] aðfaranótt nýársdags. Er hún hafi hætt vinnu hafi hún og samstarfskona hennar, C, farið saman úr vinnunni og ekið áleiðis heim. Hafi leið þeirra legið um Hafnarstræti og D ekið bifreið sem þær hafi verið á. Við [...] hafi hún séð tvo menn í slagsmálum og báðir verið berir að ofan. Er hún hafi séð þetta hafi hún stöðvað bifreiðina. Hafi annar mannanna fyrr um nóttina verið á veitingastaðnum [...] og greinilegt að sá mannanna hafi verið öflugari og með yfirhöndina. Sá sem hún hafi séð á veitingastaðnum hafi tekið nokkurs konar karatestökk og sparkað fast út frá sér. Hafi sparkið lent í árásarþolanum og leitt til þess að árásarþolinn hafi fallið aftur fyrir sig og legið í jörðinni fyrir neðan tröppur upp að hótelinu. Ekki hafi hún séð hvort höfuð hans hafi lent í jörðinni. Í framhaldi hafi árásarmaðurinn farið að manninum og byrjað að kýla þann sem legið hafi hnefahögg og þau komið í andlit árásarþolans. Félagar árásarmannsins hafi tekið hann en honum samt tekist að komast aftur að manninum og að því er henni hafi virst trampa á honum. Hafi hún ekki séð nákvæmlega hvar trampið hafi lent í manninum en það hafi verið á efri hluta líkama. Hafi hún haft það á tilfinningunni að trampið hafi lent á enni mannsins því í þann mund hafi allt hætt og fólk hörfað frá. Í framhaldinu hafi árásarmaðurinn yfirgefið vettvanginn ásamt félögum sínum. Hafi árásarmaðurinn verið í fjólubláum bol er hún hafi séð hann fyrr um nóttina. Er þessir atburðir hafi átt sér stað hafi D verið rétt hjá og í ekki meira en 5 metra fjarlægð frá atlögunni. D og C hafi ekið einn hring og hringt á lögreglu. D kvaðst ekki hafa drukkið áfengi þessa nótt. Hafi hún hvorki þekkt árásarmanninn né árásarþolann. Er undir D var borið að í lögregluskýrslu hafi hún tjáð lögreglu að hún hafi ekki séð hvar sparkið hafi lent í árásarþolanum kvaðst hún hafa tjáð lögreglumönnum að hún hafi séð það. Ekki hafi verið rétt fært eftir sig í lögregluskýrsluna. D kvaðst muna þessi atvik vel.
K kvaðst hafa verið inni í anddyri [...] en hún hafi verið að bíða eftir leigubifreið. Hafi hún unnið á hótelinu. Hafi hún séð út um glugga hótelsins að tveir drengir voru í slagsmálum. Báðir hafi verið berir að ofan. Hafi verið greinilegt að annar mannanna kunni að slást. Ekki hafi hún séð hvernig átökin byrjuðu eða hvernig þau hafi endað. Það sem hún hafi séð hafi verið er annar mannanna hafi sparkað hátt út frá sér eins og um væri að ræða ,,kickbox“ spark. Eftir sparkið hafi hann litið niður á jörðina og gengið í hring. Henni hafi þótt óþægilegt að horfa á atlöguna og því sumpart litið undan. Þar sem hún hafi horft á atlöguna út um glugga hótelsins hafi hún ekki getað séð til jarðar fyrir utan þar sem glugginn hafi ekki verið með það sjónsvið. Hún hafi síðan séð að annar mannanna hafi legið í jörðinni og hafi virst missa meðvitund en hann hafi engin viðbrögð sýnt. Tveir menn hafi haldið höfði hans.
Vitnin F, G og H voru með ákærða í för þessa nótt. Nokkurt ósamræmi er í skýrslum þessara vitna hjá lögreglu og fyrir dómi og verður því gerð grein fyrir framburðum þessara vitna á báðum stöðum. F gaf skýrslu hjá lögreglu 5. janúar 2011. Kvaðst F hafa verið með ákærða í för þessa nótt, en með þeim hafi einnig verið H bróðir ákærða, G og J. Ákærði hafi gefið sig á tal við mann og innt hann eftir bróður mannsins. Um leið hafi þessi maður byrjað með ofbeldi. Ákærði hafi ekki ögrað manninum. Hafi ákærði ætlað að taka í höndina á manninum en þá hafi maðurinn rifið sig úr að ofan. Hafi hann ýtt við ákærða. Ákærði hafi þá farið úr að ofan en þetta hafi endað með því að maðurinn hafi dottið í götuna. Ekki kvaðst F vita hvar maðurinn hafi verið staðsettur er hann hafi dottið. Gæti hann því ekki borið um hvort hann hafi dottið í tröppum upp að [...]. Hann hafi einungis séð ákærða verja sig og hafi hann því ýtt á móti er maðurinn hafi ýtt ákærða. Er maðurinn hafi dottið hafi hann rotast. Klukkan hafi verið orðin margt og F verið búinn að drekka þvílíkt og verið orðinn ,,geðveikur á því“ þar sem hann hafi verið það ölvaður. Eftir að maðurinn féll í götuna hafi ákærði og drengirnir gengið í burtu. Við aðalmeðferð málsins greindi F frá því að umrætt sinn hafi F og félagar hans verið á gangi í miðbænum. Brotaþoli hafi verið í miðbænum, en atvikið hafi átt sér stað í anddyri [...] í Hafnarstræti. Hafi ákærði ætlað að heilsa upp á hann og inna hann eftir bróður brotaþola. Brotaþoli hafi strax orðið æstur og ýtt ákærða fram og til baka. Ákærði hafi einungis varið sig en einu sinni sparkað hátt út frá sér en sparkið ekki lent í brotaþolanum. Í framhaldi þessa hafi brotaþoli dottið aftur fyrir sig og lent með hnakka í vegg hótelsins. Hann hafi staðið upp í kjölfarið og haldið áfram að ýta við ákærða. Hafi hann stigið fram af þrepum við inngang hótelsins og fallið aftur fyrir sig í jörðina. Hafi hnakki hans skollið í jörðina. Ákærði og félagar hans hafi gengið á brott í framhaldinu. F kvaðst hafa séð þessi atvik greinilega þar sem hann hafi staðið nærri atvikinu. Kvaðst F vera vinur ákærða. Hafi hann verið undir áhrifum áfengis og verið svolítið ölvaður. Myndi hann atvik þokkalega. Þennan morgun hafi verið rigning og sennilega blautt á tröppunum. F kvaðst ekki hafa séð ákærða sparka í höfuð eða líkama brotaþolans. F kvað lögreglumann þann er tekið hafi skýrslu af honum á rannsóknarstigi hafa verið leiðinlegan og F ekki nennt að tala við hann. Væri það ástæða þess að framburður hans væri ekki á sama veg hjá lögreglu og fyrir dómi.
G gaf skýrslu hjá lögreglu 5. janúar 2011. Kvaðst hann lítið muna eftir umræddu kvöldi. Hafi G, ákærði, F, H og J verið á gangi í miðbænum. Þá hafi ákærði séð dreng er hann hafi ætlað að heilsa upp á. Einhverjar ryskingar hafi farið á stað á milli þeirra. Ekki myndi G almennilega hvað hafi komið fyrir en drengurinn hafi síðan dottið í gangstéttina. G hafi verið mjög ölvaður þessa nótt eftir mikla drykkju. Myndi hann lítið eftir að hann kom í miðbæinn. Ekki hafi hann séð hvernig drengurinn hafi dottið. Þá hafi hann ekki séð það atvik er drengurinn hafi dottið á höfuðið. Eftir þetta hafi þeir gengið á brott. Ákærði og G væru gamlir vinir úr Mosfellsbænum. Fyrir dómi greindi G frá því að umrædda nótt hafi hann og félagar hans verið á leið um Hafnarstræti og gengið fram hjá [...]. Hafi ákærði tekið einhvern mann tali. Sá hafi klætt sig úr að ofan og ryskingar byrjað á milli þeirra. Maðurinn hafi endað upp að vegg og í kjölfarið fallið í stéttina. Síðan hafi hann dottið niður tröppur við hótelið. Hafi hann fallið til hliðar og höfuðið skollið í jörðina. G hafi staðið nærri þessum átökum. Eftir það hafi ákærði, G og aðrir drengir með í för farið af staðnum. Ekki kvaðst G hafa séð hvað hafi orsakað það að maðurinn hafi endað í veggnum. Hafi það sennilega komið til vegna þess að ákærði hafi ýtt honum frá sér. G kvaðst engin spörk hafa séð eða ákærða slá manninn. G kvaðst hafa verið mjög ölvaður þessa nótt en það breytti ekki því að hann myndi atvik. G kvaðst hafa rifjað atvikið upp nýlega. Væri það ástæða þess að hann myndi atvik betur nú en er hann hafi gefið skýrslu hjá lögreglu. Hafi hann m.a. rætt atvikið við F.
H gaf skýrslu hjá lögreglu 6. janúar 2011. Kvaðst hann hafa verið að koma frá skemmtistaðnum [...]. Hann og félagar hans hafi gengið fram hjá [...] í Hafnarstræti. Við hótelið hafi ákærði farið að ræða við mann, sem ákærði hafi virst ætla að heilsa upp á. Hafi H ekki velt því sérstaklega fyrir sér. Skyndilega hafi þeir farið að rífast og er H hafi litið við hafi maðurinn verið farinn úr að ofan. Hafi hann ýtt ákærða niður tröppur við hótelið. Ekki hafi ákærði aðhafst neitt. Er maðurinn hafi hrint ákærða niður tröppurnar hafi hann greinilega ætlað að fylgja á eftir en hafi endað á því að detta í efstu tröppunni. Hafi hann við það fallið niður tröppurnar. Hafi hann fallið eins og liðið hafi yfir hann. Hafi hann fallið beint í jörðina og virst vankaður. Ekki hafi hann t.a.m. borið fyrir sig hendur við fallið. Greinilegt hafi verið að maðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis. Ekki hafi H séð hvort hann hafi fallið á höfuðið. Einu átökin milli mannsins og ákærða hafi verið þessar ýtingar. Eftir þetta hafi félagar ákærða róað ákærða niður og þeir allir haldið á brott. Við aðalmeðferð málsins greindi H frá því að í Hafnarstræti hafi ákærði gengið að manni. Þeir hafi rætt saman við anddyri [...] en maðurinn síðan ýtt við ákærða. Ákærði hafi þá bakkað niður tröppur við hótelið en brotaþoli dottið niður tröppurnar. Ákærði hafi þá orðið æstur en H dregið hann í burtu frá manninum. Ákærði hafi ekki ýtt við manninum. Ákærði hafi sparkað í átt til hans en sparkið ekki hitt manninn. Atvikið hafi H séð. Kvaðst H telja að ástæða þess að maðurinn hafi fallið í tröppunum hafi verið áfengisástand mannsins. Hafi fallið verið í líkingu við það að maðurinn hafi misst jafnvægið. Hafi H virst sem maðurinn félli meðfram vegg. Gæti hann þó ekki staðfest það. Ekki hafi H séð ákærða slá eða sparka í þennan mann.
J kvaðst umrædda nótt hafa verið í för með ákærða og nokkrum öðrum drengjum. Þá hafi J hitt á skemmtistaðnum [...]. Þeir hafi farið niður Laugaveg. Í miðbænum hafi þeir séð mann í anddyri [...]. Til orðaskipta hafi komið á milli ákærða og þessa manns. Kvaðst J muna að maðurinn hafi rifið sig úr að ofan. Kvaðst J hafa farið að horfa í kringum sig en það næsta sem hann hafi séð hafi verið að maðurinn lá í jörðinni. Ekki viti hann ástæðu þess þar sem hann hafi ekki séð hvað leitt hafi til þess. Kvaðst J hafa gengið að manninum til að athuga með lífsmörk, en hann hafi athugað bæði púls og andardrátt mannsins. Einhver á staðnum hafi hringt á sjúkrabíl. Er það hafi legið fyrir hafi J yfirgefið staðinn. J kvaðst hafa drukkið áfengi þessa nótt. Tengsl hans við ákærða væru þau að þeir væru báðir úr sama bæjarfélagi. Að öðru leyti þekkti hann ákærða lítið. Sama hafi átt við um kunningja ákærða.
Fyrir dóminn komu lögreglumennirnir L, M og N, en lögreglumennirnir sinntu útkalli í Hafnarstræti þessa nótt. L kvað lögreglu hafa fengið tilkynningu um slagsmál í Hafnarstræti og að maður væri liggjandi eftir. Lögreglumenn hafi þegar farið á staðinn og séð mann liggjandi á gangstéttinni. Hafi L strax séð að málið væri alvarlegt miðað við ástand mannsins, en hann hafi ekki svarað áreiti. Markmið lögreglumanna hafi verið að tryggja ástand mannsins sem legið hafi í jörðinni með því að sjá til þess að hann gæti andað á meðan beðið væri eftir sjúkrabifreið. Þeir lögreglumenn sem hafi verið með L í för hafi sinnt manninum sem fallið hafi í jörðina. Á meðan hafi L rætt við vitni sem hafi gefið sig fram á staðnum. Hafi L fært í frumskýrslu þau atriði er fram hafi komið hjá umræddum vitnum. Þessa nótt hafi verið ágætisveður en kalt. Ekki hafi verið hálka á gangstéttinni en verið gæti að hún hafi verið blaut. Hafi L gengið talsvert um svæðið vegna rannsóknar málsins og því gæti hann staðfest þetta. M kvaðst hafa sinnt manninum sem legið hafi á jörðinni. Er lögregla hafi komið á staðinn hafi einhver verið búinn að setja yfirhöfn yfir manninn. Hafi M lagst við höfuð mannsins og haldið um það til að tryggja öndun. Sýnilegir áverkar á höfði hafi verið kúla á enni. Kalt hafi verið í veðri, en hitastig hafi sennilega verið um frostmark. Ekki hafi verið hálka en smávægileg bleyta. N kvaðst ásamt M hafa hlúð að brotaþolanum. Hafi M haldið höfði hans þar til sjúkralið hafi komið á staðinn. Kalt hafi verið þennan morgun og hitastig undir frostmarki. Engin hálka hafi verið á götum.
E læknir staðfesti læknisvottorð er hann ritaði vegna málsins. Kvaðst hann hafa séð brotaþola strax þennan morgun og hafi hann verið kaldur, rænulítill og með áverka á höfði. Hafi verið tekin tölvusneiðmynd af höfði hans sem sýnt hafi blæðingu, mar á heila og brot í höfuðkúpu. Áverkarnir hafi verið slíkir að þeir hafi getað leitt til alvarlegra meina og dauða. Út frá skoðun á brotaþola væri erfitt að segja til um hvernig áverkarnir hafi komið til. Gætu þeir hafa komið til vegna höggs á höfuð, kýlinga eða falls á höfuðið. Erfitt væri að átta sig á endanlegum bata brotaþola. Eftir að hann myndi losna af Grensás tæki við eftirmeðferð og eftirlit. Batahorfur væru nokkuð góðar þó þannig að mar væri skemmd á heilavef. Það gæti haft áhrif og leitt til persónuleikabreytinga og slakara minnis. Ef heilafrumur dæju yrði heilastarfsemin slakari til framtíðar litið. Marið hafi verið nálægt talstöðvum og gæti því haft áhrif á tal. Brotaþoli hafi fengið högg á gagnauga en það hafi leitt til þess að heilinn hafi kastast til og mar komið á gagnstæða hlið heilans.
Niðurstaða:
Ákærða er gefið að sök líkamsárás með því að hafa að morgni nýársdags 1. janúar 2011 utandyra við [...] í Hafnarstræti veist að A með ofbeldi með því m.a. að hafa sparkað í hann, svo hann féll í gangstéttina og síðan sparkað ítrekað í höfuð hans og líkama þar sem hann lá. Samkvæmt ákæru urðu afleiðingar árásarinnar þær að A hlaut lífshættulega höfuðáverka.
Auk framburðar ákærða sjálfs liggur fyrir í málinu framburður fjölmargra vitna sem voru á vettvangi. Fyrir liggur framburður þriggja einstaklinga, sem öll urðu vitni að atburðinum, en tengjast hvorki ákærða né brotaþola. Gáfu þau sig öll fram á vettvangi er lögregla var komin á staðinn. Er um að ræða vitnin C, D og B. Fram er komið að C og D höfðu ekki drukkið áfengi þessa nótt, en þær höfðu báðar verið að vinna á skemmtistaðnum [...] um nóttina þar sem ákærði hafði verið gestur. B ber að hann hafi drukkið áfengi þessa nótt en myndi atvik þó vel. Fellur framburður B að framburði C og D. Er framburður þeirra afdráttarlaus um atvik öll. Þau þrjú lýsa atvikum þannig að ákærði hafi sparkað í A sem við það hafi fallið aftur fyrir sig og niður tröppur framan við hótelið. Eftir fallið hafi A legið eftir og ekki hreyft sig. Ákærði hafi gengið rakleitt að A og sparkað ítrekað í höfuð hans eða trampað á því. Framburður þessara þriggja vitna hefur verið trúverðugur. Hefur D lýst því að hún hafi tjáð lögreglu að hún hafi séð er sparkið hafi lent í A þó svo það hafi ekki verið fært í lögregluskýrsluna.
Framburður ákærða um atvik hefur verið á annan veg. Þá hafa þrjú vitni stutt framburð ákærða. Umrædd vitni voru samferða ákærða þessa nótt og eru vinir hans. Er eitt þeirra bróðir ákærða. Framburður allra þessara vitna er þeim annmarka gæddur að töluvert misræmi er á milli framburðar þeirra hjá lögreglu og fyrir dóminum. Gátu þau lítið borið um atvik er lögregla tók skýrslu af þeim í framhaldi af atburðinum. Við aðalmeðferð málsins um 6 vikum eftir atvikið var minni þeirra orðið töluvert betra um atvikin. Er skýring þeirra á breyttum framburði að mati dómsins ekki trúverðug.
Með vísan til trúverðugs framburðar vitnanna C, D og B telur dómurinn sannað að ákærði hafi umrætt sinn veist með ofbeldi að A með því að hafa sparkað í hann svo hann féll í gangstéttina og síðan sparkað í höfuð hans þar sem hann lá. Við atlöguna hlaut A lífshættulegan höfuðáverka, svo sem fram kemur í framlögðu læknisvottorði í málinu og rakið er í ákæru. Var líkamsárásin samkvæmt þessu stórfelld. Verður ákærði því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði er fæddur í maí 1986. Hann var dæmdur í 3ja mánaða skilorðsbundið fangelsi á árinu 2005. Á árunum 2007 og 2008 var hann þrívegis dæmdur í sekt vegna umferðarlagabrota. Hann var dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi 25. mars 2009 fyrir nytjastuld, brot á umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Loks var ákærði 26. nóvember 2010 dæmdur í 2ja ára og 6 mánaða fangelsi fyrir rán, frelsissviptingu, brot gegn 2. mgr. 218. gr. laga nr. 19/1940 og lögum um ávana og fíkniefni. Var skilorðshluti refsidómsins frá 25. mars 2009 dæmdur upp. Samkvæmt 1. mgr. 218. gr. b laga nr. 19/1940 má hækka refsingu allt að helmingi hafi sá, sem dæmdur er sekur um brot á 217., 218. eða 218. gr. a laga nr. 19/1940 áður sætt refsingu samkvæmt þeim greinum eða honum hefur verið refsað fyrir brot, sem tengt er að öðru leyti við vísvitandi ofbeldi. Ítrekunarákvæði þetta á við í þessu máli. Brot ákærða í þessu máli var sérlega alvarlegt en brotaþoli hlaut lífshættulega áverka af völdum ákærða. Var brotið framið skömmu eftir að ákærði hlaut þungan refsidóm, m.a. fyrir alvarleg ofbeldisbrot. Með hliðsjón af þessu, sbr. og 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940 er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 3 ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 3. janúar 2011.
Af hálfu A hefur verið krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 2.000.000 krónur, en skaðabótakrafan var lækkuð undir málflutningi í ljósi þess að lögfræðikostnaður verður felldur undir þóknun réttargæslumanns. Í skaðabótakröfu kemur fram að um sé að ræða kröfu um miskabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Er vísað til þess að árás ákærða á brotaþola hafi verið lífshættuleg. Líklegt sé að brotaþoli verði fyrir varanlegum skaða vegna árásarinnar. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir stórfellda líkamsárás. Með ólögmætri og saknæmri háttsemi sinni hefur hann valdið brotaþola alvarlegu líkamstjóni. Á hann rétt á miskabótum vegna háttsemi ákærða. Með hliðsjón af atlögunni, afleiðingum árásarinnar og dómvenju á þessu réttarsviði þykja miskabæturnar hæfilega ákveðnar 1.000.000 krónur. Um vexti fer svo sem í dómsorði greinir.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti, málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, eins og nánar greinir í dómsorði.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Andri Vilhelm Guðmundsson, sæti fangelsi í 3 ár og sex mánuði. Til frádráttar refsingu kemur óslitið gæsluvarðhald ákærða frá 3. janúar 2011.
Ákærði greiði A skaðbætur að fjárhæð 1.000.000 krónur, ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2011 til 27. febrúar 2011 en með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 750.048 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 502.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola Evu Hrannar Jónsdóttur héraðsdómslögmanns, 215.233 krónur.