Hæstiréttur íslands

Mál nr. 382/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


           

Fimmtudaginn 23. júlí 2009.

Nr. 382/2009.

A

(Björgvin Þórðarson hdl.)

gegn

Héraðsdómi Reykjavíkur

(enginn)

 

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í 2. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991 er það skilyrði sett að hafi atvinnurekstri verið hætt þurfi þær skuldir sem stafi frá honum að vera tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum skuldara sem sækist eftir greiðsluaðlögun. Í dómi héraðsdóms kom fram að leggja yrði þá skyldu  á skuldara í tilvikum sem þessum að upplýsa um tilurð skulda í beiðni eða gögnum málsins svo unnt væri að meta hvort þær stöfuðu frá atvinnurekstrinum eður ei. Þar sem ekki væri að finna slíkar skýringar í beiðni A væri ekki hjá því komist að hafna beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. 

    

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru, sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur í tölvupósti 30. júní 2009 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 7. júlí 2009. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2009, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 2. mgr. 63. gr. d., sbr. 179. gr., laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2009.

Með bréfi er barst dóminum 4. júní 2009 í máli nr. N-29/2009 hefur A, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé lærður málari og hafi starfað við fag sitt undanfarin ár. Hann hafi starfað jafnt hjá öðrum sem og sjálfstætt. Umsækjandi kveðst fráskilinn og eigi tvö börn frá fyrra hjónabandi. Árið 2007 kveðst umsækjandi hafa greinst með krabbamein í höfði og þurft að hætta að vinna. Sé umsækjandi enn óvinnufær vegna veikinda. 

Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Skuldari kveðst engar eignir eiga. Tekjur eru nú 143.819 krónur á mánuði. Hann fái að auki húsaleigubætur sem nemi 23.400 krónum á mánuði auk sérstakra húsaleigubóta að fjárhæð 18.000 krónur á mánuði. Áætluð framfærsla er 180.442 krónur á mánuði.

Samningskröfur skv. greiðsluáætlun eru skuldir við Kaupþing banka og Landsbankann. Samningsskuldir eru nú um 2.450.000 krónur. Gjaldfallnar kröfur eru að fjárhæð 145.751 króna.

Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er 4.778 krónur á mánuði. 

Tillaga skuldara er sú að samningsskuldir verði felldar niður.

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991. 

Forsendur og niðurstaða

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 2. gr. a laga nr. 24/2009, ná lögin ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum. Er greiðsluaðlögun því fyrst og fremst ætlað að vera úrræði fyrir almenna launþega samkvæmt ákvæðinu.

Á skattframtali skuldara frá árinu 2007 vegna tekjuársins 2006 kemur fram að skuldari hafi haft 1.350.301 krónu í reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur. Engar aðrar tekjur eru tilteknar á því skattframtali. Þá liggur fyrir að skattframtali var ekki skilað árið 2008, en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum frá skattstjóranum í Reykjavík var ekki um launagreiðslur að ræða til skuldara það ár né heldur var greidd staðgreiðsla vegna hans. Samkvæmt skattframtali skuldara 2009 voru tekjur hans árið 2008 í formi tekna frá Tryggingastofnun ríkisins, greiðslur úr íslenska lífeyrissjóðnum auk félagslegrar aðstoðar. Má því ljóst vera að skuldari hefur hætt eigin atvinnurekstri, en hefur þó haft með höndum eigin atvinnurekstur eitt ár af undanförnum þremur árum.

Í 2. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 2. gr. a laga nr. 24/2009, er það skilyrði sett að hafi atvinnurekstri verið hætt þurfi þær skuldir sem stafi frá honum að vera tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum skuldara sem sækjast eftir greiðsluaðlögun. Af skattframtölum skuldara árin 2005 og 2006 má sjá að skuldari var eingöngu með tekjur af eigin atvinnurekstri tekjuárin 2004 og 2005. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var stofnað til þeirra samningsskulda sem um ræðir í máli þessu á árunum 2000 til 2004, eða á þeim tíma sem ætla má að skuldari hafi verið í eigin atvinnurekstri. Með vísan til framan greinds lagaákvæðis verður að leggja þá skyldu á skuldara í tilvikum sem þessum, að upplýst sé um tilurð skulda í beiðni eða gögnum málsins, svo unnt sé að meta hvort þær stafi frá atvinnurekstrinum eður ei. Í beiðni skuldara eða gögnum málsins er ekki að finna neinar slíkar skýringar. Skortir þannig verulega á að fram séu komnar fullnægjandi upplýsingar um tilurð samningsskulda skuldara. Verður því ekki hjá því  komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar, sbr. og 1. tl. 63.gr. d. laga nr. 21/1991.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hafnað er beiðni A, kt. [...], um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.