Hæstiréttur íslands
Mál nr. 425/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
- Fyrning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 13. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. júní 2017, þar sem ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 8. september 2016, um að láta standa óraskað frumvarp 4. maí sama ár til úthlutunar á söluverði við nauðungarsölu á helmingshluta sóknaraðila í fasteigninni að Furuási 41 í Hafnarfirði, var breytt á þá leið að upp í kröfu varnaraðila í söluverðið skuli greiðast 22.506.931 króna í stað 26.240.166 króna. Kæruheimild er í 1. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess aðallega að frumvarpinu verði breytt á þá leið að hafnað verði kröfu varnaraðila um greiðslu af söluverði fasteignarinnar, en til vara að greiðslan verði lækkuð. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Ásgeir Helgi Ásgeirsson, greiði varnaraðila, Arion banka hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness, föstudaginn 16. júní 2017
Beiðni sóknaraðila um úrlausn dómsins barst Héraðsdómi Reykjaness 16. september 2016. Málið var tekið til úrskurðar að afloknum munnlegum málflutningi 14. júní 2017.
Sóknaraðili er Ásgeir Helgi Ásgeirsson, kt. [...], Furuási 41, Hafnarfirði.
Varnaraðili er Arion banki, kt. 581008-0150, Borgartúni 19, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að frumvarp sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu til úthlutunar söluverðs fasteignarinnar að Furuási 41 í Hafnarfirði, fastanúmer 230-2946, 50% eignarhluta, verði fellt úr gildi og að frumvarpinu verði breytt þannig: Aðallega að kröfu varnaraðila Arion banka hf. samkvæmt 3. tölulið frumvarpsins verði hafnað, en til vara að hún verði lækkuð að mati dómsins.
Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 8. september 2016, í nauðungarsölumáli nr. 467/2015, þess efnis að frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar að Furuási 41, 50% eignarhluta, Hafnarfirði, fastanúmer 230-2946, standi óhaggað og verði staðfest, en þó þannig að frumvarpinu verði breytt á þann veg að upp í kröfu varnaraðila samkvæmt 3. tölulið frumvarpsins greiðist 24.095.156 krónur í stað 26.240.166 króna.
Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I
Hinn 27. febrúar 2008 gaf sóknaraðili út veðskuldabréf til Frjálsa fjárfestingarbankans að jafnvirði 27.000.000 krónur, að 70% í svissneskum frönkum og 30% japönskum jenum. Samkvæmt skilmálum veðskuldabréfsins skyldi endurgreiða skuldina með 480 afborgunum, í fyrsta skipti 2. apríl 2008. Lánið skyldi bera vexti samkvæmt nánari útlistun í skuldabréfinu. Til tryggingar greiðslu á skuldinni var fasteignin að Furuás 41, fastanúmer 230-2946, Hafnarfirði, eign sóknaraðila og Evu Lindar Ágústsdóttur, kt. [...], sett að veði með fyrsta veðrétti. Hinn 12. desember 2008 var gerður viðauki við skuldabréfið þar sem greiðslur af því voru frystar í fjóra mánuði, frá og með gjalddaga 3. nóvember 2008 til gjalddaga 2. mars 2009. Ekkert hefur verið greitt af láninu síðan viðaukinn var gerður.
Í ársbyrjun 2011 var lánið endurreiknað á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða X laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og í framhaldinu var niðurstaða endurútreikningsins, sem gerður hafði verið í samræmi við fyrirmæli 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, kynnt sóknaraðila, sbr. ákvæði til bráðabirgða XI laganna. Sóknaraðili hvorki staðfesti endurgreiðslufyrirkomulag lánsins né skrifaði undir ný skuldaskjöl því til staðfestingar og var honum þá tilkynnt að láninu hefði sjálfkrafa verið breytt í óverðtryggt lán með jöfnum afborgunum í íslenskum krónum. Við endurútreikning myndaðist nýr höfuðstóll lánsins að fjárhæð 37.169.102 krónur miðað við 16. apríl 2011. Skuldina skyldi sóknaraðili endurgreiða í samræmi við upphaflega eða síðar ákvarðaða endurgreiðsluskilmála, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiddi af ákvæði 18. gr. fyrrgreindra laga, sbr. 4. málslið 5. mgr. 18. gr. laganna.
Með heimild í lögum nr. 125/2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 21. mars 2009 að taka yfir vald stofnfjárfundar SPRON, og víkja stjórn sjóðsins og skipa skilanefnd yfir hann. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var enn fremur stofnað sérstakt hlutafélag, Drómi hf., kt. 710309-1670, sem tók við eignum SPRON. Ákvörðun þessi náði einnig til eigna dótturfélags SPRON, Frjálsa fjárfestingarbankans hf. Hinn 31. desember 2013 fékk varnaraðili kröfuna og tryggingarréttindi fyrir henni framseld frá Dróma hf.
Hinn 7. maí 2014 kynnti varnaraðili fyrir sóknaraðila endurskoðaðan endurútreikning lánsins, sem miðaðist við 6. maí 2014. Endurútreikningurinn var gerður í samræmi við fyrirmæli 18. gr. laga nr. 38/2001 en með hliðsjón af forsendum dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og nr. 464/2012, sem báðir voru kveðnir upp á árinu 2012 og vörðuðu endurútreikning gengistryggðra lána að teknu tilliti til útgefinna fullnaðarkvittana fyrir greiðslum vaxta. Endurútreikningurinn fór þannig fram að sérhver afborgun, sem greidd hafði verið af höfuðstól lánsins, var færð til frádráttar upphaflegum höfuðstól lánsins í íslenskum krónum. Ef vextir voru fullgreiddir fyrir tiltekið vaxtatímabil var ekki krafist viðbótarvaxta á því tímabili, enda taldist lántaki hafa fullnaðarkvittun fyrir greiðslu vaxta á því tímabili. Fyrir þau vaxtatímabil sem engir vextir voru greiddir af láninu stóðu ekki rök til annars en að krafa skuldabréfsins bæri óverðtryggða vexti Seðlabanka Íslands, sbr. 3. mgr. 18. gr., sbr. 1. málslið 4. gr., laga nr. 38/2001, sbr. jafnframt dóma Hæstaréttar í málum nr. 471/2010 og 518/2011, enda liggja þá engar fullnaðarkvittanir fyrir.
Samkvæmt forsendum endurútreikningsins var greiðslu að fjárhæð 5.900 krónur ráðstafað til lækkunar upphaflegs höfuðstóls lánsins í íslenskum krónum, sem var 27.000.000 króna. Fjárhæð uppsafnaðra óverðtryggðra vaxta Seðlabanka Íslands frá 2. október 2008 til 6. maí 2014 nam 15.150.276 krónum og bætti varnaraðili þeirri fjárhæð við höfuðstól kröfunnar. Niðurstaða endurútreikningsins var því sú að eftirstöðvar nýs höfuðstóls lánsins þann 6. maí 2014 námu 42.144.376 krónum (27.000.000 – 5.900 + 15.150.276). Eftirstöðvar skuldarinnar skyldi sóknaraðili greiða samkvæmt upphaflegum eða síðar ákvörðuðum endurgreiðsluskilmálum að því er varðaði lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, sbr. 4. málslið 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001, þ.e. í fyrsta skipti 2. júní 2014. Sóknaraðili greiddi eftir sem áður ekki af skuldinni og var skuldin felld í gjalddaga á þeim degi.
Hinn 5. mars 2015 fékk varnaraðili útgefið afsal fyrir 50% eignarhluta Evu Lindar Ágústsdóttur í fasteigninni frá þrotabúi hennar. Eignarhlutinn var lagður út til varnaraðila á grundvelli 129. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á 25.000.000 króna á veðhafafundi 5. mars 2015. Varnaraðili greiddi lögveðskröfur til Lögheimtunnar, bæði gjaldfallnar, 1.448.306 krónur, og ógjaldfallnar, 371.430 krónur, samtals 1.819.736 krónur, auk þóknunar skiptastjóra að fjárhæð 303.800 krónur. Andvirði eignarhlutans var ráðstafað inn á skuldina, að frádregnum gjaldföllnum hluta lögveðskrafnanna og þóknunar skiptastjóra, þ.e. samtals 23.247.894 krónur.
Hinn 13. apríl 2015 var greiðslu að fjárhæð 533.296 krónur ráðstafað inn á kröfuna, en um var að ræða leiðréttingarfjárhæð samkvæmt lögum nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.
Með beiðni, dagsettri 6. september 2015, fór varnaraðili þess á leit við sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu að 50% eignarhlutur sóknaraðila í fyrrgreindri fasteign yrði seld nauðungarsölu. Beiðnin var móttekin hjá embættinu 28. október 2015. Eignarhlutur sóknaraðila var seldur á nauðungarsölu sem fór fram 1. apríl 2016 og var Landsbankinn hf. hæstbjóðandi. Lýsti varnaraðili kröfu að fjárhæð 26.605.553 krónur í söluandvirði eignarinnar.
Útreikningum varnaraðila á kröfunni var mótmælt af hálfu sóknaraðila við framhaldssölu og einnig á fyrri stigum nauðungarsölunnar, en þrátt fyrir þau mótmæli hélt varnaraðili sig við útreikning sinn á kröfunni. Samkvæmt frumvarpi að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar, dagsettu 4. maí 2016, var krafa varnaraðila tekin til greina að öllu leyti. Sóknaraðili mótmælti frumvarpinu 19. maí 2016 í samræmi við ákvæði 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og var fundur haldinn í kjölfarið á skrifstofu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu vegna þeirra mótmæla 8. september 2016. Á þeim fundi hafnaði sýslumaður framkomnum mótmælum sóknaraðila og stóð frumvarp að úthlutun vegna fasteignarinnar Furuás 41, Hafnarfirði því óhaggað.
Sóknaraðili leitaði úrlausnar héraðsdóms um ágreininginn í kjölfarið í samræmi við ákvæði 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
II
Sóknaraðili bendir á að nauðungarsölubeiðni hafi verið send af hálfu varnaraðila til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu hinn 6. október 2015 og hafi hún verið móttekin af embættinu 28. október 2015. Samkvæmt 17. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda hafi fyrningu verið slitið við það tímamark. Því sé ljóst að allir vextir eldri en frá 28. október 2011 séu fyrndir með vísan til 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda þar sem fram komi að almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda sé fjögur ár, en sá fyrningarfrestur eigi við um vexti.
Varnaraðili hafi lagt fram endurútreikning á láninu. Í síðari endurútreikningi varnaraðila, þar sem dagsetning útreiknings sé miðuð við 6. maí 2014 komi fram að við útreikninginn hafi vöxtum verið bætt við höfuðstól sem numið hafi 15.150.276 krónum. Þar komi enn fremur fram að fyrsti dagur óverðtryggðra vaxta Seðlabanka Íslands sé 3. október 2008.
Samkvæmt yfirliti yfir útreikning kröfunnar, sem varnaraðili hafi sent sóknaraðila í tölvupósti 12. september sl. megi sjá sundurliðun vaxtakröfunnar. Samtals séu vextir þar tilgreindir 8.962.099 krónur fyrir tímabilið frá 2. október 2008 til 2. október 2011 (4.346.800+2.726.005+1.889.294). Þá séu vextir að fjárhæð 152.065 krónur vegna tímabilsins frá 2. október 2011 til 1. nóvember 2011, sem séu 29 dagar. Ef vextir eru reiknaðir á því tímabili til 28. október 2011 standi eftir 25 dagar sem geri 131.090 krónur í vexti. Samtals sé því um að ræða 9.093.189 krónur í áfallna vexti á kröfuna fyrir 28. október 2011. Þessum vöxtum hafi verið lýst í söluandvirði fasteignarinnar að Furuási 41, Hafnarfirði þrátt fyrir að þeir væru fyrndir og hafi varnaraðili ekki viljað lækka kröfu sína að þessu leyti þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um af hálfu sóknaraðila.
Vextirnir hafi því verið færðir upp á höfuðstól í einu lagi við seinni endurútreikning varnaraðila hinn 6. maí 2014 og dráttarvextir reiknaðir á þann ranga höfuðstól. Þetta hafi varnaraðila verið með öllu óheimilt og hafi sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu borið að færa fjárhæð kröfu varnaraðila niður í frumvarpi að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar af sjálfsdáðum, sbr. 4. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Í athugasemdum varnaraðila við mótmæli sóknaraðila við frumvarp að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar að Furuási 41 í Hafnarfirði hafi verið vísað til þess að samkvæmt ákvæði til bráðabrigða XIV. kafla laga nr. 38/2001 séu engir vextir kröfunnar fyrndir. Þessu sé mótmælt sem röngu en þetta ákvæði taki á engan hátt til þeirra aðstæðna sem hér séu uppi. Í ákvæðinu komi fram að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknist frá 16. júní 2010. Þá segi enn fremur að fyrningarfresturinn skuli vera átta ár frá því tímamarki. Ákvæðið taki til fyrningarfrests endurgreiðslukröfu skuldara á hendur fjármálafyrirtæki og þá hafi ákvæðið einnig verið skýrt þannig að það taki jafnframt til kröfu lánveitanda á hendur skuldara um viðbótarvexti, þ.e.a.s. mismun á samningsvöxtum samkvæmt ákvæðum lánssamnings annars vegar og svokallaðra 4. gr. vaxta hins vegar, þ.e. óverðtryggðra vaxta Seðlabanka Íslands. Ekki hafi verið á það fallist í dómaframkvæmd að ákvæðið taki til kröfu lánveitanda um annað en umrædda viðbótarvexti eins og þeir séu ákveðnir með endurútreikningi enda sé slík beiting ákvæðisins engan veginn í samræmi við lögskýringargögn. Umsamdir vextir á kröfu lánveitanda á hendur skuldara geti því á engan hátt fallið undir þetta bráðabirgðaákvæði laganna.
Sóknaraðili kveður að annar eigandi fasteignarinnar að Furuási 41 í Hafnarfirði, fnr. 230-2946, þ.e. 50% eignarhluta, hafi verið Eva Lind Ágústsdóttir, en bú hennar hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 24. apríl 2014. Með samningi við skiptastjóra í þrotabúinu 5. mars 2015 hafi varnaraðili tekið helming fasteignarinnar að Furuási 41 sem greiðslu upp í lýsta kröfu sína í búið á grundvelli veðskuldabréfsins. Samningurinn hafi gert ráð fyrir að greiðslan inn á lánið næmi 25.000.000 króna. Enga innborgun hafi hins vegar verið að finna í nauðungarsölubeiðni varnaraðila sem síðar hafi þó verið leiðrétt eftir kröfu sóknaraðila og megi sjá af gögnum málsins að innborgun hafi verið að fjárhæð 23.781.190 krónur. Verðið á 50% eignarhluta fasteignarinnar að Furuási 41, að fjárhæð 25.000.000 króna, hafi verið verð sem skiptastjóri þrotabúsins og varnaraðili hafi ákveðið einhliða sín á milli án nokkurrar aðkomu sóknaraðila. Réttmæti þeirrar ákvörðunar sé dregið í efa af hálfu sóknaraðila en ekkert verðmat hafi verið lagt fram af hálfu varnaraðila til að sýna fram á markaðsvirði eignarinnar. Telji sóknaraðili að það standist ekki lög að utanaðkomandi aðilar geti án hans vitundar og aðkomu ákveðið upp á sitt eindæmi verð eignarinnar þannig að hugsanlegt sé að þær skuldir sem eftir standi og á hann falli verði hærri en ef verðmat hefði verið framkvæmt og lagt til grundvallar.
Telur sóknaraðili að tilefni og skilyrði séu til þess að í slíkum tilvikum beri að gera þá kröfu til fjármálastofnana að fyrir liggi verðmat á markaðsvirði eignarinnar miðað við þann dag er eignin er tekin yfir af hálfu þrotabúsins. Telji sóknaraðili að í þessu tilviki eigi að beita lögjöfnun frá ákvæði 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu þar sem fram komi að hafi sá sem notið hefur réttinda yfir eign ekki fengið þeim fullnægt með öllu af söluverðinu þá geti hann aðeins krafið gerðarþola eða annan um greiðslu þess sem eftir standi af skuldbindingunni að því leyti sem hann sýni fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar.
Önnur aðferð en beiting 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu við þessi skilyrði geti leitt til þess að fjármálafyrirtæki hagnist með ólögmætum hætti á kostnað skuldarans eða veðsalans. Slík niðurstaða gengi augljóslega í berhögg við vilja löggjafans og tilgang fyrrgreinds lagaákvæðis.
Það sé álit sóknaraðila að verðmæti eignarinnar við útgáfu afsals hafi verið mun hærra og að niðurstaða dómkvadds matsmanns myndi leiða slíkt í ljós yrði slíks mats aflað.
Sóknaraðili bendir á að samkvæmt verðmati Áss fasteignasölu ehf. hafi verðmæti eignarhlutans numið 26.750.000 krónum þegar afsal var gefið út til varnaraðila. Þar muni því 1.750.000 krónum frá því verði sem eigninni var afsalað á til varnaraðila frá þrotabúi Evu Lindar. Sé fjárhæðin 23.636.743 krónur, sem ráðstafað hafi verið inn á kröfuna þegar afsal var gefið út til varnaraðila, dregin frá 25.000.000 króna standi eftir 1.218.810 krónur. Séu þessar tölur lagðar saman fáist fjárhæðin 2.968.810 krónur, sem sé sú fjárhæð sem varnaraðili hafi hagnast um á kostnað sóknaraðila.
Jafnframt kveðst sóknaraðili byggja á því að varnaraðili hafi glatað veðtryggingu sinni fyrir öllum vöxtum sem voru eldri en 12 mánaða er varnaraðili lagði fram uppboðsbeiðni sína. Úthlutun af andvirði fasteignarinnar til greiðslu eldri vaxta geti því aldrei farið fram á grundvelli veðréttinda varnaraðila samkvæmt skuldabréfinu sem tryggt hafi verið með 1. veðrétti í eigninni. Þessir vextir séu eftirstæðir og eigi ekkert að greiðast upp í þá fyrr en greiðslu annarra veðkrafna sem framar standa er lokið. Um þetta kveðst sóknaraðili vísa til b-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð.
III
Varnaraðili kveðst hafna því að vextir af kröfu hans séu fyrndir. Krafan sé reiknuð samkvæmt fyrirmælum 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. einkum 1., 3. og 5. mgr. ákvæðisins. Af nefndum lagaákvæðum leiði að vexti samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna skuli reikna á upphaflegan höfuðstól skuldar, í íslenskum krónum, frá og með stofndegi kröfunnar, sem hafi verið 27. febrúar 2008. Þegar tekið hafi verið tillit til þeirra greiðslna sem inntar hafi verið af hendi vegna skuldarinnar, sbr. umfjöllun hér að framan, myndi þannig útreiknuð fjárhæð eftirstöðvar skuldarinnar, þ.e. nýjan höfuðstól skuldarinnar, sem endurgreiða skuli í samræmi við fyrirmæli 4. málsliðar 5. mgr. 18. gr. laganna.
Endurútreikningur lánsins hafi verið endurskoðaður miðað við 6. maí 2014 vegna uppkvaðningar dóma Hæstaréttar í málum nr. 600/2011 og 464/2012. Það hafi verið niðurstaða endurútreikningsins, miðað við fyrrgreindar forsendur, að nýr höfuðstóll lánsins væri 42.144.376 krónur og kveðst varnaraðili byggja á því að útreikningurinn sé réttur og í samræmi við fyrirmæli laga og fordæmi Hæstaréttar.
Framangreindu til viðbótar kveðst varnaraðili benda á að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknist frá 16. júní 2010, sbr. ákvæði til bráðabirgða XIV laga nr. 38/2001, sbr. e-lið 2. gr. laga nr. 151/2010. Með lögum nr. 38/2014 hafi bæst nýr málsliður við ákvæðið þar sem mælt væri fyrir um að fyrningarfresturinn skyldi vera átta ár frá því tímamarki. Um væri að ræða sérákvæði sem gilti framar hinum almenna fyrningarfresti samkvæmt ákvæðum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Samkvæmt orðanna hljóðan sé ákvæðið ekki bundið við „endurgreiðslukröfur skuldara á hendur fjármálafyrirtækjum“ eða kröfu lánveitanda um „mismun á samningsvöxtum samkvæmt ákvæðum lánssamnings annars vegar og svokallaðra 4. gr. vaxta hins vegar“, líkt og sóknaraðili byggi á. Þvert á móti taki það til allra uppgjörskrafna vegna lána sem feli í sér ólögmæta gengistryggingu. Einnig sé vísað til ákvæðis 26. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, en af því leiði að krafa varnaraðila um vexti af kröfu sóknaraðila sé hvað sem öðru líði ekki fyrnd, enda séu kröfurnar af sömu rót runnar.
Þegar öll þau ákvæði sem hér hafa verið rakin séu metin heildstætt og í samræmi við hvert annað fáist ekki séð að vextir af kröfunni séu fyrndir. Með vísan til þess og alls þess sem að framan sé rakið verði að hafna þessari málsástæðu sóknaraðila.
Sóknaraðili byggi í öðru lagi á því að varnaraðili hafi ráðstafað of lágri fjárhæð inn á kröfuna við yfirtöku varnaraðila á 50% eignarhlut Evu Lindar Ágústsdóttur í fasteigninni. Staðhæft sé að greiðslan hafi verið of lág um fjárhæð sem nemi 2.968.810 krónum „sem varnaraðili [hafi] hagnast [um] á kostnað sóknaraðila“. Kveðst varnaraðili hafna þessu. Á veðhafafundi þrotabúsins, sem fram hafi farið samkvæmt 129. gr. laga nr. 21/1991, hafi verið samþykkt sú tillaga skiptastjóra að varnaraðila yrði lagður út eignarhlutinn á 25.000.000 króna og hafi engar athugasemdir komið fram af hálfu annarra veðhafa. Gert hafi verið ráð fyrir að varnaraðili myndi standa skil á ógreiddum lögveðskröfum, sem sagðar hafi verið að fjárhæð 1.770.662 krónur ásamt kostnaði vegna útlagningarinnar. Svo hafi farið að greidd hafi verið þóknun skiptastjóra vegna útlagningarinnar að fjárhæð 303.800 krónur og gjaldfallnar lögveðskröfur að fjárhæð 1.448.306 krónur, eins og áður hafi verið rakið. Samkvæmt þessu hafi 23.247.894 krónur verið greiddar inn á lánið. Þessi ráðstöfun sé í samræmi við venjur við ráðstöfun útlagningarverðs fasteigna á grundvelli 129. gr. laga nr. 21/1991, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 50. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Í greinargerð sóknaraðila sé staðhæft að verðmat sem endurspegli markaðsverð eignar þurfi að liggja fyrir og að lögjafna beri frá 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þessu kveðst varnaraðili mótmæla. Varnaraðili geti fallist á að í eðli sínu sé ráðstöfun fasteignar samkvæmt 129. gr. laga nr. 21/1991 annars vegar og samkvæmt fyrirmælum laga nr. 90/1991 hins vegar sambærileg ráðstöfun. Þó sé ákveðið atriði sem greini á milli. Þegar eign er ráðstafað samkvæmt 129. gr. laga nr. 21/1991 sé það gert með atbeina þess aðila sem einn sé bær til að ráðstafa eign þrotabúsins, þ.e. skiptastjóra, sbr. 122. og 124. gr. laga nr. 21/1991. Þegar svo hátti til sé markaðsverð eignarinnar ákveðið og samþykkt af hálfu allra aðila, þ.e. skiptastjóra og veðhafa eignarinnar. Þegar fram fari nauðungarsala á eign samkvæmt fyrirmælum laga nr. 90/1991 fari sú ráðstöfun fram án atbeina eiganda viðkomandi eignar og hafi viðkomandi því ekki kost á að hafa áhrif á söluverð eignarinnar, þ.e. eiginlegt markaðsverð hennar. Því sé nauðsynlegt í þeim tilvikum að setja þann varnagla sem fram komi í 57. gr. laga nr. 90/1991. Það sé ekki að ástæðulausu að ekkert sambærilegt ákvæði sé að finna í lögum nr. 21/1991 enda hafi engin þörf verið á sambærilegum varnagla þegar skiptastjóri, sem fyrirsvarsmaður eiganda eignarinnar, samþykki ráðstöfunina sérstaklega.
Sóknaraðili byggi í þriðja lagi á því að hluti af dráttarvaxtakröfu varnaraðila sé eftirstæðir dráttarvextir, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Varnaraðili kveðst geta fallist á þá röksemd, en þó aðeins að hluta. Ákvæðið mæli fyrir um að vextir af skuld sem fallið hafi í gjalddaga einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar var sett fram séu tryggðir með aðalkröfunni. Beiðni varnaraðila um nauðungarsölu hafi verið sett fram 28. október 2015, en af því leiði að dráttarvextir varnaraðila á tímabilinu frá 2. júní 2014 til 28. október 2014 séu eftirstæðir og ættu með réttu ekki að vera hluti af þeirri fjárhæð sem tiltekin sé í frumvarpi sýslumanns.
Með vísan til alls þess sem að ofan greini telji varnaraðili að staðfesta beri ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 8. september 2016, í nauðungarsölumáli nr. 467/2015, þess efnis að frumvarp til úthlutunar á söluverði fasteignarinnar að Furuási 41, 50% eignarhluta, Hafnarfirði, fastanúmer 230-2946, standi óhaggað, en þó þannig að frumvarpinu verði breytt á þann veg að upp í kröfu varnaraðila samkvæmt 3. tölulið frumvarpsins greiðist 24.095.156 krónur í stað 26.240.166 krónur. Nánar tiltekið sundurliðist fjárhæðin með eftirfarandi hætti:
Höfuðstóll, gjaldfelldur 42.144.376 krónur
Samningsvextir til 02.06.2014 205.454 krónur
Dráttarvextir frá 28.10.2014-01.04.2016 5.152.071 krónur
Banka- og stimpilkostnaður 20.895 krónur
Innheimtuþóknun 241.304 krónur
Kostnaður vegna greiðsluáskorunar 6.000 krónur
Uppboðsbeiðni 6.000 krónur
Kostnaður vegna uppboðs 83.416 krónur
Kröfulýsing 12.000 krónur
Annar kostnaður 1.700 krónur
Vextir af kostnaði 3.130 krónur
Innborgun 5. mars 2015 -23.247.894 krónur
Innborgun 13. apríl 2015 -533.296 krónur
Samtals kr. 24.095.156 krónur
Eftirstæðir drv. frá 02.06.2014-28.10.2014 2.232.776 krónur
Heildarskuld samtals 26.327.932 krónur
Varnaraðili vísar til meginreglna kröfu- og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga. Vísað er til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. einkum 3., 4., 18. gr., og ákvæða til bráðabirgða X, XI og XIV laganna. Einnig er vísað til 26. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þá er vísað til laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991, einkum og sér í lagi 129. gr. og 130. gr. þeirra.
IV
Eins og framan greinir var 50% eignarhluti sóknaraðila í fasteigninni að Furuási 41 í Hafnarfirði seldur nauðungarsölu 1. apríl 2016. Varnaraðili lýsti kröfu í söluverðið vegna veðskuldabréfs upphaflega að fjárhæð 27.000.000 króna, sem útgefið var 27. febrúar 2008 af sóknaraðila, með 1. veðrétti í eigninni. Endanleg krafa varnaraðila í söluverðið var um greiðslu á 26.605.553 krónum og hafði þá verið tekið tillit til innborgana inn á lánið að fjárhæð 23.781.190 krónur. Í frumvarpi að úthlutunargerð á söluverði fasteignarinnar féllst sýslumaður á kröfu varnaraðila eins og henni var lýst. Í málinu leitar sóknaraðili úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun sýslumanns 8. september 2016 að hafna mótmælum hans við útreikningum á kröfu varnaraðila og að frumvarpið skyldi standa óhaggað. Hefur sóknaraðili teflt fram þremur málsástæðum fyrir því að kröfu varnaraðila í söluandvirðið skuli hafnað eða hún lækkuð.
Í fyrsta lagi er á því byggt að allir vextir eldri en frá 28. október 2011 séu fyrndir samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og að fyrndir vextir hafi verið færðir upp á höfuðstól án heimildar. Beri vegna þessa að lækka kröfu varnaraðila um 9.093.189 krónur.
Fyrir liggur að við endurútreikning varnaraðila á lánum sóknaraðila átti varnaraðili kröfu á hendur sóknaraðila vegna ógreiddra vaxta. Bæði við endurútreikning 16. apríl 2011 og við leiðréttan endurútreikning 6. maí 2014 lagði varnaraðili áfallna en ógreidda vexti af lánunum fram að viðkomandi degi við höfuðstól lánsins þannig að það myndaði nýjan höfuðstól lánsins. Hefur varnaraðili stutt heimild sína til þessa við fyrrnefnda 18. gr. laga nr. 38/2001.
Í 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. lög nr. 151/2010 sem tóku gildi 29. desember 2010, er kveðið á um aðferð sem leggja skal til grundvallar þegar gengið er til uppgjörs vegna krafna sem hafa haft að geyma ákvæði um ólögmæta vexti og verðtryggingu. Samkvæmt ákvæðinu skal við ákvörðun endurgreiðslu eða útreikning á stöðu skuldar, eins og á við í því tilviki sem hér um ræðir, vaxtareikna upphaflegan höfuðstól kröfu miðað við vexti samkvæmt 4. gr. laganna. Frá höfuðstól og áföllnum vöxtum skal síðan draga þær fjárhæðir sem inntar hafa verið af hendi fram að uppgjörsdegi í vexti, hvers kyns vanskilaálögur og afborganir miðað við hvern innborgunardag. Í ákvæðinu segir síðan að þannig útreiknuð fjárhæð myndi eftirstöðvar skuldarinnar og skuli þá upphaflegir eða síðar ákvarðaðir endurgreiðsluskilmálar gilda að því er varði lánstíma, gjalddaga og aðra tilhögun á greiðslu skuldar, allt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem leiði af ákvæðum greinarinnar. Í 6. mgr. 18. gr. er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara ef útreikningur á uppgjöri samkvæmt 5. mgr. leiðir til þess að krafan teljist að fullu greidd eða skuldari teljist hafa ofgreitt og eigi kröfu á hendur lánveitanda.
Í bráðabirgðaákvæði X við lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. breytingalög nr. 151/2010, kemur fram að hafi húsnæðislán verið ólögmætt gengistryggt lán, eins og í því tilviki sem hér um ræðir, fari um uppgjör vegna ofgreiðslu og framtíðarskilmála skuldbindingarinnar eftir því sem greini í 18. gr. laganna. Þá segir í bráðabirgðaákvæði XI við lögin að fjármálafyrirtæki, sem veitt hefur lán er fellur undir bráðabirgðaákvæði X, skuli eigi síðar en 60 dögum eftir gildistöku laganna, þ.e. laga nr. 151/2010, senda skuldara útreikning á nýjum höfuðstól og/eða endurgreiðslu ofgreidds fjár sem af uppgjörinu leiði. Slíkan útreikning skuli jafnframt senda ábyrgðarmanni eða veðeiganda, sbr. 8. mgr. 18. gr. laganna. Sanni ábyrgðarmaður eða veðhafi ekki rétt sinn til greiðslna innan þeirra tímamarka sem fjármálafyrirtæki setur í fyrrgreindri tilkynningu sé fjármálafyrirtæki heimilt að færa höfuðstól til samræmis við útreikning eða endurgreiða skuldara ofgreitt fé óski hann þess. Í lok ákvæðisins segir að lánveitanda beri að hafa frumkvæði að uppgjöri og að slíkt uppgjör skuli fara fram innan 90 daga frá gildistöku laga nr. 151/2010, en þau tóku gildi 22. desember 2010.
Samkvæmt gögnum málsins endurreiknaði varnaraðili lán sóknaraðila í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 hinn 16. apríl 2011, þ.e. reiknaðir voru vextir samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna á upphaflegan höfuðstól lánsins og var dregin frá sú fjárhæð sem greidd hafði verið inn á lánið. Fram kemur hjá varnaraðila að í framhaldinu hafi sóknaraðila verið kynnt niðurstaða endurútreikningsins, en engin viðbrögð hafi borist frá sóknaraðila. Hafi honum því verið tilkynnt að varnaraðili hefði breytt láninu í óverðtryggt lán með jöfnum afborgunum í íslenskum krónum í samræmi við fyrirmæli 18. gr. laga nr. 38/2001 og að nýr höfuðstóll þess væri að fjárhæð 37.169.102 krónur miðað við 16. apríl 2011.
Framangreint uppgjör varnaraðila fór fram í samræmi við fyrirmæli 5. mgr. 18. gr. laga nr. 38/2001 og myndaði niðurstaða endurútreikningsins nýjan höfuðstól lánsins miðað við uppgjörsdaginn 16. apríl 2011. Eftir að slíkt uppgjör hafði farið fram hafði varnaraðili ekki heimild til að breyta einhliða lánssamningi aðila með íþyngjandi hætti gagnvart lántaka nema til kæmi samþykki hans eða sérstök heimild í lögum. Að mati dómsins gat varnaraðili ekki á grundvelli 18. gr. laga nr. 38/2001, sbr. lög nr. 151/2010, staðið einhliða fyrir nýju uppgjöri á láninu og bætt áföllnum og ógreiddum vöxtum við höfuðstól lánsins miðað við síðari dagsetningu án þess að samþykki sóknaraðila sem lántaka kæmi til. Nýr endurútreikningur varnaraðila á lánssamningi aðila hinn 6. maí 2014 átti samkvæmt framangreindu því hvorki stoð í lögum né var hann samþykktur af lántaka. Verður því ekki á honum byggt í málinu.
Að gengnum dómi Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011, þar sem því var hafnað að kröfuhafi gæti á grundvelli laga nr. 151/2010 átt tilkall til viðbótarvaxta fyrir liðna tíð, bar varnaraðila hins vegar að leiðrétta endurútreikning lánsins með hliðsjón af niðurstöðu dómsins og miðað við uppgjörsdaginn 16. apríl 2011. Samkvæmt gögnum málsins nam leiðréttur höfuðstóll lánsins þann dag miðað við áðurgreindar forsendur 35.131.496 krónum.
Með lögum nr. 151/2010 var enn fremur lögfest bráðabirgðaákvæði XIV við lög nr. 38/2001 um að fyrningarfrestur uppgjörskrafna vegna ólögmætrar verðtryggingar lánssamninga í formi gengistryggingar reiknaðist frá 16. júní 2010. Með lögum nr. 38/2014 bættist nýr málsliður við ákvæðið þess efnis að fyrningarfresturinn skyldi vera átta ár frá fyrrgreindu tímamarki.
Í greinargerð með frumvarpi til laganna er vísað til dóms héraðsdóms 4. mars 2014 í máli nr. E-2296/2013 um að skýra verði bráðabirgðaákvæði XIV á þann veg að fyrningarfrestur vegna krafna sem grundvallaðar séu á endurútreikningi samkvæmt 5. mgr. 18. gr. laganna hafi fyrst hafist 16. júní 2010, sem og að ákvæðið ætti jafnt við um endurgreiðslukröfu lántaka sem kröfu lánveitanda vegna viðbótarvaxta. Enn fremur er tekið fram í greinargerðinni að dómur Hæstaréttar 15. febrúar 2012 í máli nr. 600/2011 breytti því ekki að með ákvæði til bráðabirgða XIV hafi verið tekið af skarið um að miða skyldi upphaf fyrningarfrests við 16. júní 2010.
Samkvæmt framangreindu gildir fyrningarregla bráðabirgðaákvæðis XIV við lög nr. 38/2001 um uppgjörskröfu vegna lánssamnings aðila, sem eins og áður greinir nam 35.131.496 krónum á uppgjörsdegi 16. apríl 2011. Frá þeim degi reiknuðust vextir samkvæmt 1. málslið 4. gr. laganna af hinum nýja höfuðstól.
Samkvæmt gögnum málsins gjaldfelldi varnaraðili lán sóknaraðila 2. júní 2014. Þann dag námu gjaldfelldar eftirstöðvar lánsins 42.341.992 krónum, þar af voru áfallnir samningsvextir frá 16. apríl 2011 að fjárhæð 7.210.496 krónur. Frá 2. júní 2014 reiknuðust dráttarvextir af kröfunni.
Samkvæmt 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr., laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda fyrnist hver greiðsla á fjórum árum. Er andvirði eignarhluta Evu Lindar Ágústsdóttur í fasteigninni, 23.247.894 krónum, var ráðstafað inn á skuldina hinn 5. mars 2015 voru áfallnir vextir frá 16. apríl 2011 því ófyrndir og var andvirðinu ráðstafað til greiðslu þeirra og inn á höfuðstól lánsins, en eftir þá greiðslu nam fjárhæð lánsins 20.970.673 krónum.
Í öðru lagi er á því byggt að varnaraðili hafi glatað veðtryggingu sinni fyrir vöxtum sem voru eldri en 12 mánaða þegar varnaraðili lagði fram beiðni sína um nauðungarsölu, sbr. b-lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Í ákvæðinu er kveðið á um að vextir af skuld sem fallið hafi í gjalddaga á einu ári áður en beiðni um nauðungarsölu veðsettrar eignar er sett fram séu tryggðir með aðalkröfunni, nema annað leiði af samningi þeim sem til veðréttarins stofnaði. Í greinargerð sinni hefur varnaraðili fallist á að dráttarvextir á tímabilinu frá 2. júní 2014 til 28. október 2014, að fjárhæð 2.232.776 krónur, séu eftirstæðir, sbr. b-lið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, og hefur verið tekið tillit til þess við framangreindan útreikning á eftirstöðvum kröfu varnaraðila. Aðrir vextir teljast uppgreiddir samkvæmt framangreindu. Að teknu tilliti til framangreinds nam fjárhæð lánsins hinn 13. apríl 2015 21.241.835 krónum, en þann dag var leiðréttingarfjárhæð samkvæmt lögum nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána að fjárhæð 533.296 krónur ráðstafað inn á lánið og eftir þá innborgun námu gjaldfelldar eftirstöðvar lánsins 20.708.539 krónum.
Samkvæmt framangreindu standa aðeins eftir áfallnir dráttarvextir frá 13. apríl 2015 til 27. október 2015 að fjárhæð 1.423.947 krónur, sem féllu á kröfuna á síðustu sex mánuðum áður en uppboðsbeiðni varnaraðila var móttekin hjá sýslumanni.
Loks byggir sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ráðstafað of lágri fjárhæð inn á kröfuna við yfirtöku á 50% eignarhlut Evu Lindar Ágústsdóttur í fasteigninni. Er á því byggt að miða hefði átt innborgun inn á skuldina við verðmat á markaðsvirði eignarinnar samkvæmt lögjöfnun frá ákvæði 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.
Óumdeilt er í málinu að eignarhlut Evu Lindar í fasteigninni Furuási 41 í Hafnarfirði var ráðstafað í samræmi við fyrirmæli 129. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Líta verður til þess að þegar eign er ráðstafað samkvæmt 129. gr. laga nr. 21/1991 er það gert með heimild veðhafafundar og fyrir atbeina skiptastjóra, sem fer með forræði þrotabúsins. Í lögum nr. 21/1991 er ekki að finna sambærilegt ákvæði við 57. gr. laga nr. 90/1991. Ákvæði þetta kom nýtt inn í síðarnefnd lög með lögum nr. 60/2010, sem fólu þó í sér breytingar á bæði lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Með hliðsjón af framangreindu verður hafnað kröfu sóknaraðila um að beita skuli ákvæðinu með lögjöfnun um tilvikið.
Með hliðsjón af öllu framangreindu skal við úrlausn málsins miðað við að gjaldfelldar eftirstöðvar lánsins hinn 13. apríl 2015 hafi verið að fjárhæð 20.708.539 krónur, en við þá fjárhæð skal bæta áföllnum dráttarvöxtum frá þeim degi til 27. október 2015 að fjárhæð 1.423.947 krónur og áföllnum kostnaði að fjárhæð 374.445 krónur, sem ekki hefur sætt mótmælum af hálfu sóknaraðila. Samanlagt er um að ræða kröfu að fjárhæð 22.506.931 króna.
Með hliðsjón af öllu framangreindu ber að breyta frumvarpi sýslumanns, dagsettu 4. maí 2016, að úthlutunargerð söluandvirðis 50% eignarhluta í fasteigninni að Furuási 41, Hafnarfirði, fastanúmer 230-2946, á þann veg að upp í kröfu varnaraðila samkvæmt 3. tölulið frumvarpsins greiðist 22.506.931 króna í stað 26.240.166 króna.
Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að fella niður málskostnað.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Frumvarpi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að úthlutunargerð söluandvirðis 50% eignarhluta í fasteigninni að Furuási 41, Hafnarfirði, fastanúmer 230-2946, dagsettu 4. maí 2016, skal breytt á þann veg að upp í kröfu varnaraðila samkvæmt 3. tölulið frumvarpsins greiðist 22.506.931 króna í stað 26.240.166 króna.
Málskostnaður fellur niður.